Author: Eiríkur Örn Norðdahl
id““:““6rrsk““
Á morgun fer ég til Hald í Danmörku þar sem ég mun hitta danska ljóðskáldið Martin Glaz Serup og austurríska ljóðskáldið Jörg Piringer. Í fyrrasumar fórum við saman með rútu frá Tyrklandi til Þessalóniku og lásum upp á leiðinni – og milli upplestra kokkuðum við upp hugmynd að bók. Nokkrum mánuðum síðar skrifuðum við afar gróft handrit á fáeinum dögum í íbúð Jörgs í Vínarborg. Við höfum potað í handritið af og til síðan og ætlum nú að hittast í dönskum skógi til að klára þetta. *** Í dag er síðasti dagurinn í Finnlandi af minni hálfu. Við erum komin út úr iðrum skógarins og erum í útkanti Helsinki. Við hlustuðum á AC/DC í bílnum á leiðinni heim. Ég dundaði mér við að greina áhrif – fannst ég heyra Free, Ten Years After, Yardbirds og fleira – en þegar ég kom heim og fór að gúgla hvað þeir segja sjálfir kom fátt af því í ljós. Nema að trommarinn í Free virðist hafa komið til greina einhvern tíma. Sem trommari í AC/DC meina ég. En fékk ekki djobbið. *** Það voru meira Stones og Little Richard og sú áttin. Ég er enginn Stonesmaður. Þeir eru of snyrtilegir. *** Það sem kom mér á óvart var líka að þótt meðlimir AC/DC hafi mátt draga ýmsa djöfla fer því fjarri að hljómsveitin sem slík hafi verið nokkur tortímingarmaskína – einsog Guns eða Mötley eða þær allar. Malcolm hefur tekist á við áfengisdjöfulinn meira og minna skandalalaust. Angus hefur aldrei drukkið. Ekki sopa, að sögn. Phil er sá sem mest vandræði hafa verið með – var enda rekinn úr hljómsveitinni í tvígang fyrir rugl. Brian Johnson er víst annálaður rólyndismaður – áhugamaður um leti og tedrykkju – annað en forveri hans, Bon Scott, sem auðvitað drakk sig í hel, einsog frægt er. *** Það er auðvitað mjög snyrtilegt að vera tedrykkjumaður og á snúrunni. *** Þegar það átti að velja nýjan söngvara til að klára Back in Black, eftir að Bon drukknaði í eigin ælu, voru auðvitað góð ráð dýr. Fyrst átti bara að slaufa þessu. Hljómsveitir eru bræðralög og maður skiptir ekki út bræðrum sínum. Það var ekki fyrren fjölskylda Bons bað þá að láta þetta í guðs bænum ekki stöðva sig að Youngbræður rifjuðu upp hversu hlýlega Bon hafði talað um söngvara hljómsveitarinnar Geordie, sem hann hafði séð spilað fyrir löngu. Það væri alvöru rokksöngvari í anda Little Richard. Og leituðu hann uppi. Og fundu nýjan bróður. *** Auðvitað höfðu aðdáendurnir efasemdir. Frontmannaskipti misheppnast hrapalega í níu skipti af hverjum tíu. Og í þessu eina eru þau rétt svo skítsæmileg. Það sleppur fyrir horn. En dýrðin hverfur undantekningalaust. *** Back in Black hefst á Hells Bells. Brian Johnson byrjar ekki að syngja fyrren eftir eina og hálfa mínútu. Þá er búið að klingja öllum bjöllunum og fara í gegnum tvær ólíkar útgáfur af aðalstefinu. Vélin er keyrð í gang með varfærni og af virðingu – platan er tileinkuð Bon Scott – og hefst eðli málsins samkvæmt í helvíti. *** Lagið má – og ætti – að lesa sem fagurfræðilega yfirlýsingu Brians Johnson, loforð til aðdáenda, persónulegt sendibréf hans til Bons og sem ástaróð hljómsveitarinnar til síns gamla vinar. Í anda AC/DC og forverans er kveðið dýrt og hrokafullt – þetta gæti verið Bólu Hjálmar („Mínir vinir fara fjöld, / feigðin þessa heimtar köld, / ég kem eftir, kannske í kvöld, / með klofinn hjálm og rifinn skjöld, / brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld) Kanye eða Eminem. *** I’m rolling thunder, pouring rain.
I’m coming on like a hurricane.
My lightning’s flashing across the sky.
You’re only young but you’re gonna die […] I’ll give you black sensations up and down your spine
If you’re into evil you’re a friend of mine
See the white light flashing as I split the night
Cause if good’s on the left then I’m sticking to the right *** #ACDC
createdTimestamp““:““2024-05-20T15:36:25.103Z““
Ef ég væri ekki búinn að lofa að kjósa Andra myndi ég nú lýsa yfir stuðningi við Davíð. Af því þetta er svo sturlað og maður verður að halda dampi ef kongalínan á ekki að trampa yfir mann. Það þýðir ekki að slá slöku við. Páll Magnússon spilaði lagið Við Reykjavíkurtjörn á meðan hann var að tala við Davíð – Davíð samdi auðvitað textann. Eftir viðtalið spilaði hann síðan annað lag með skyldum titli, Við Gróttu eftir Bubba Morthens. Það er eitthvað symbolískt. Þar er textinn meðal annars: Dimmblá skýin skreyta sjónarhringinn.
Þú skoðar sem barnið þarabynginn
og hlátur þinn fyllir mig fögnuði þess
sem finnur að lífið hefur valið honum sess
við hlið hennar allt þar til lífinu lýkur.
Að lifa með henni það er að vera ríkur. Og jörðin hún snýst um sólina, alveg eins og ég
og jörðin hún snýst um sólina, alveg eins og ég
jörðin hún snýst um sólina, alveg eins og ég.
createdTimestamp““:““2024-05-19T11:58:23.468Z““
Crazy Blues með Mamie Smith og hljómsveitinni The Jazz Hounds er ekki fyrsta blúslagið og ekki heldur fyrsta blúslagið til að segjast vera blúslag – til að heita blús. Hið fræga Memphis Blues eftir WC Handy er ríflega tíu árum eldra og Dallas Blues eftir Hart Wand (sem er af þýskum ættum, ekki afrískum) er enn eldra en það. En það eru tæknilega séð ekki blúslög heldur einhvers konar ragtime, held ég – ég hef ekki beinlínis vit á því en blúsar eru þetta ekki, frekar en svo margt annað sem kallað er blús (ekki síst nútildags). Blúsinn er þess utan nokkuð eldri en upptökutæknin og var að mestu leyti leikinn af tónlistarmönnum sem kunnu ekki að lesa eða skrifa nótur (eða höfðu ekki áhuga á að skrifa niður þessa alþýðutónlist sem þeim þótti í besta falli ómerkileg og dálítið ósiðleg skemmtan). Sennilega hafði einhver tegund blússins verið leikin alveg frá 1870 – og hann á auðvitað rætur sínar helst að rekja til vesturstrandar Afríku, bæði að formi til en þess utan er ákveðin áhersla á notkun strengjahljóðfæra sem bjóða upp á millinótur (kvartteygðar þríundir og sjöundir t.d. – og hækkaðar ferundir) sem er víst þekkt í tónlist þar um slóðir eitthvað lengur. En hann á líka rætur að rekja til aðstæðna á baðmullarekrum í Bandaríkjunum. Þar kölluðu menn – sungu hátt – milli „akreina“ svo heyrðist í þeim og svöruðu svo aftur. Þetta „call and response“ einkennir allan blús og er jafnvel enn meira einkennandi en 12-bara hljómagangur með turnaround. Á baðmullarekrunum neyddust menn líka til að smíða sín eigin hljóðfæri, oft eftirlíkingar af afrískum hljóðfærum, af miklum vanefnum og tímaskorti (því unnið var allan daginn) – fyrst slide-gítararnir voru bara stálstrengir bundnir við hús sem leikið var á með vasahnífum. Á baðmullarekrunum þurftu menn síðan líka að sjá um sína eigin skemmtun – halda sín eigin böll – og fyrstu atvinnutónlistarmenn svartra bandaríkjamanna flökkuðu á milli baðmullarekra sem skemmtikraftar (blústónlist er og hefur alltaf verið partítónlist – líka þegar hún er hæg og tregafull). Á baðmullarekrunum – fyrst og fremst eftir að þrælahald var afnumið – komust svartir suðurríkjamenn líka í kontakt við evrópskan verkalýð og þótt sá kontakt væri heilt yfir sjaldan náinn þá þar varð talsverð krossvíxlun í menningaráhrifum. Blúsinn fór að ríma, sem hann hafði lítið gert áður, og stundum varð hann jafnvel ballöðukenndur – hvað er Goodnight Irene eftir Leadbelly t.d. annað en írsk ballaða? – og þegar farið var að taka hann upp öðlaðist hann (eða var þvingaður í) ákveðinn strúktúr. Lögin urðu að hafa byrjun, miðju og endi og máttu ekki vera lengri en spólan náði – oftast þrjár mínútur. Þá léku gömlu blúsararnir líka bara alls konar tónlist – kölluðu sig alla jafna „songsters“ frekar en hljóðfæraleikara og áttu sennilega mest skylt við partígítarleikara samtímans. Þeirra hlutverk var að kunna mikið af lögum og þeirra eigin lög voru oftar en ekki samsuða úr alls konar öðrum lögum. Þegar þeir voru svo teknir upp löngu seinna hafði enginn áhuga á að heyra þá spila eitthvað köntrí eða tin pan alley dót – heldur bara orginalblúsinn – og því eru litlar upptökuheimildir til um þetta. Hins vegar er talsvert vitað um svarta tónlistarmenn sem léku með hvítum og hvíta sem léku með svörtum – t.d. gítarleikarann Eddie Lang sem á óhikað skilið að vera talinn upp með frumkvöðlum blússins. En þeir gátu ekki alltaf spilað mikið saman opinberlega og þurftu stundum jafnvel að koma fram á plötum undir dulnefni (Eddie Lang kallaði sig Blind Willie Dunn á plötum Lonnies Johnsons). Þetta eru ótrúlegir gróskutímar í tónlist og allir að læra af öllu(m). Það er merkilegt að þetta lag, fyrsti upptekni blúsinn, Crazy Blues, sver sig eiginlega alls ekki í ættina við þennan upprunalega blús, þennan köntríblús, þennan baðmullarekrublús. The Jazz Hounds er „lærð hljómsveit“ – fágaðir atvinnumenn – að frátaldri fiðlunni er ekkert hljóðfæri þarna sem ræður við míkróteygða tóna, og Mamie Smith syngur kannski hátt og kallar en hún er enginn köntríblúsari og hún er ekki heldur karlmaður – fyrstu „vinsælu“ blúsararnir voru allt konur og plötukaupendur þeirra voru aðallega svartir karlar. Á þessum tíma – the roaring twenties – keyptu þeir vel að merkja ofsalega mikið af plötum, þetta eru uppgangstímar fyrir plötubransann (sem fór ekki endilega vel með þessa tónlistarmenn, vel að merkja). Það var síðan ekki fyrren seinna – í raun ekki af neinu viti fyrren hvítir menn fóru að hafa áhuga á blústónlist – sem farið var að taka upp og prómótera baðmullarekrublúsinn. Blúsinn byrjaði kannski á baðmullarekrunum en þegar farið var að taka hann upp var hann tekinn upp fyrir svarta var ekki snobbað fyrir fátæktinni eða hógværðinni – þessar konur sem sungu fyrstu blúslögin ferðuðust um með vaudeville-sjóum og voru gjarnan klæddar í glys og glamúr frá toppi til táar, pallíettur, fjaðrir og gimsteina.
createdTimestamp““:““2024-06-06T02:27:58.938Z““
id““:““kmdp““
Ég eyði þriðja vinnudeginum í röð í að stara á opin skjöl þar sem ég hef skrifað örfá orð – þetta eiga að verða langir fyrirlestrar, alltof langir eiginlega, og sá sem ég þarf að klára fyrst fjallar um ljóðabók sem ég hef enn ekki skrifað nema svona helminginn af: Ljóð um samfélagsleg málefni. Hér er eitt af þeim, „Ljóð um hörmungar“: Ég á að hafa eitthvað um þetta að segja – og hef það í sjálfu sér, þótt flest sem ég hafi um það að segja sé heldur upphafið og margt af því líklega beinlínis rangt í þokkabót. Til að bæta gráu ofan á svart (gulu ofan á blátt?) þá á ég að flytja (og semja) fyrirlesturinn á sænsku. Bókin er tilraun í retorík; tilraun til þess að staðsetja sig á tilteknum stað „í umræðunni“ – auga stormsins – og lýsa einfaldlega því sem fyrir augu ber. Eins konar hlutlæg lýsing á hinu huglæga; verkleg æfing í því að orða hluti um hluti, hafa orð á orðunum, lýsa þeim með sjálfum sér í heimi sem er viðstöðulaust upptekinn af textalægri sjálfhverfu (í gegnum tækin okkar lifum við lífinu meira og meira í texta). Ljóð um samfélagsleg málefni samanstendur ekki af textum „um“ texta, þetta er ekki greining, ekki hugsun (þanniglagað), heldur textar þar sem tungumálinu („orðræðunni“) er ætlað að koma í stað sjálfs sín. En samt þannig að það (og hún) afhjúpi sig, birtist okkur ekki sem orðræðan (einsog hún er á Facebook og í aðsendum greinum) heldur eins konar orðræðulíki, kunnugleg en samt furðu fjarlæg. Í hlutföllunum 1:1. Skiljið þið nú hvað ég á við þegar ég segi að þetta sé bæði rangt og upphafið? Og nú þarf ég bara að læra hvernig ég get sagt þetta á sænsku og teygt það upp í sirka tvo tíma.
createdTimestamp““:““2024-05-23T08:38:12.620Z““
„Þetta er alveg hræðileg bókakápa en svo þegar maður fer að lesa ljóðin áttar maður sig á því að þetta er auðvitað hinn rjóði kærasti,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir. Auðvitað missa gagnrýnendur oft út úr sér alls konar vitleysu í sjónvarpi – Kiljan er nánast í beinni, tekin upp í beit og lítið klippt – en þetta er samt svolítið fyndið. Mín tvö sent hljóma svona: Ef manni finnst bókarkápan á Kærastinn er rjóður ekki frábær þá á maður ekki að vinna við að leggja fagurfræðilegt mat á neitt og ef það er ekki fyrren maður opnar bókina og les ljóðin sem maður áttar sig á að ljósmyndin á forsíðunni (á bók sem heitir Kærastinn er rjóður – ljósmynd af rjóðum manni) á sennilega að vera af hinum rjóða kærasta þá er maður kannski ekki í sínu besta bókmenntagreiningardagsformi. Sjálfum finnst mér bókin frábær. Ég á svolítið erfitt með að tjá mig um ljóðabækur svona ósjálfrátt – einsog ég skrifa hérna – og beint í kjölfar þess að ég les þær. Ég veit ekki hvað það er. Kannski geri ég öðruvísi kröfur til mín um að það sem ég segi meiki einhvern sens en t.d. þegar ég skrifa um einhverja plötu eða bíómynd, sem ég hef ekkert sérstakt vit á og á ekki að hafa. Kristín er á svipuðum slóðum og hún hefur alltaf verið í ljóðunum, þematískt og táknrænt, en það er eitthvað að leka inn úr annað hvort leikhúsinu eða prósanum í stílnum – sem er látlausari (en ekki merkingarlausari fyrir það). Hún er að fjalla um sambönd – kannski fyrst og fremst heterónormatíf sambönd í patríarkískum heimi, en ekki endilega bara það og sennilega má lesa táknin í víðara samhengi – en maður vill ekki heldur fljóta alveg út í geim bara þótt maður geti það. Hún er að fjalla um einmanaleika – þrána eftir öðrum – og beiskjuna sem vex á milli fólks. Er látlausari stíll fullorðnari – þroskaðri? Manni hættir til að finnast það en ég er ekki viss. Fyrst og fremst er hann lævísari – loftfimleikar tungumálsins eru ekki jafn augljósir og í fyrri bókum hennar, en þeir eru engu minni þótt hreyfingarnar séu fínlegri. Textinn er líka ágengur – passíf-agressífur frekar en agressífur, einsog Kristín hefur verið áður í bókum sínum. Kaldur og óþægilegur – það fer ekki jafn mikið fyrir blóðhitanum hérna, nema að litlu leyti, ástríðunni sem hefur fært manni ákveðna samúð með vonlausum elskendum fyrri bókanna. Þetta er samanbitnara fólk – tilfinningarnar kannski að mörgu leyti erfiðari – og þetta er auðvitað minna „rómantískt“. Kristín hefur fundið að því að fólk sé að leita að tilteknum kærustum í bókinni. Ég hef svolítið ofnæmi fyrir því að fólk biðjist undan ævisöguaðferðinni í lestri – maður þarf að vera frjáls um sinn lestur og sína túlkun (m.a.s. gagnrýnendur í útvarpi og sjónvarpi) og höfundar verða bara að sætta sig við að vera berskjaldaðir fyrir slíku. Að því sögðu er ég búinn að þekkja Stínu lengi (kynntumst á ircinu – bókstaflega – fyrir aldarfjórðungi!) og þekki nokkra af fyrrverandi kærustum hennar mjög vel, hef lesið allar bækurnar hennar (og megnið af bókunum fv. kærastanna líka) og ég gæti ekki fyrir mitt litla líf leyst úr neinu svona hver-á-að-vera-hver hérna. Einsog í öllum bókmenntum byggir Kristín áreiðanlega á eigin reynslu – bækur eru fullar af díteilum úr lífi höfunda – en hvorki grófu og fínu drættirnir hérna eiga sér neina augljósa samsvörun í „raunverulega“ heiminum, það ég get séð. *** Aino Magnea má þola það að lesa sjaldan myndabækur á íslensku. Þegar Aram var lítill lásum við yfirleitt myndabækur fyrir svefninn en um það leyti sem hann var 7-8 ára skiptum við alfarið yfir í kaflabækur. Þær miðast þá alla jafna við að hún hafi gaman af þeim líka – en mamma hennar, sem les annað hvert kvöld, les sitthvora bókina fyrir þau (og getur þá t.d. leyft sér Harry Potter og þannig lagað, fyrir Aram). Við eigum samt óhemju af myndabókum og margar höfum við aldrei lesið – og enn fleiri hefur Aino aldrei lesið. En nú fóru Nadja og Aram suður á síðustu helgi (Aram var að tromma með tónlistarskólanum í Hörpu og Nadja í vinnuferð – af sömu ástæðu var hvorugur kvikmyndaklúbbur heimilisins starfræktur á helginni) og þá lásum við Aino tvær myndabækur sem hún valdi úr hillunni. Sú fyrri heitir Nói og hvalrekinn, eftir Benji Davies, og fjallar um ungan dreng sem finnur hval á ströndinni, fer með hann heim í baðker og felur hann fyrir pabba sínum (þeir virðast búa bara tveir saman). Svo finnur pabbinn auðvitað hvalinn og áttar sig á því að hann hefur ekki verið að sinna syni sínum sem skyldi – verið önnum kafinn við brauðstritið, sjómennskuna – en reiðist alls ekki. Samt fara þeir nú og skila hvalnum aftur út í sjó. Falleg saga – látlaus og ljóðræn, frumleg hugmynd og fallegar teikningar. Það eru víst til fleiri bækur um Nóa og þennan hval. Sú seinni heitir Stelpan sem týndi bróður sínum í ruslinu og er eftir Guðna Líndal með myndum eftir Ryoko Tamura. Þessa tengdi Aino sérstaklega við og við höfum talsvert talað um hana síðustu daga. Hún fjallar um stelpu sem missir gersamlega stjórn á ruslinu í kringum sig – húsið beinlínis drukknar í drasli og einhvers staðar í draslinu týnist s.s. litli bróðir hennar. Eina leiðin til að sigra „ruslahvelið“ er að taka til. Í sjálfu sér er kannski skrítið að stelpan virðist bera ábyrgð á öllu heimilinu – þannig þarf hún t.d. að vaska upp og gera ýmislegt sem er yfirleitt ekki á ábyrgð barna. En hún hefur sosum verið að rusla þetta til líka – gera sér samlokur og eitthvað. Þetta er líka falleg saga – meira af „brjálaða“ skólanum en þeim ljóðræna. Það er eitthvað mjög norrænt við þessar bækur um mjúka, ljóðræna stráka á aðra höndina og trylltar drulluprinsessur á hina – eitthvað viðnám, sem er kannski að verða fyrirsjáanlegt, en virkar ágætlega enn. Fyrir einhverjum vikum síðan ákváðum við að hætta að atast stöðugt í Aino með tiltekt og bíða þess einfaldlega að hún yrði þreytt á draslinu sjálf og sá dagur er eiginlega upp runninn, svona um þessar mundir (það stefnir í allsherjar Marie-Kondo-dag á heimilinu á morgun). Þess vegna tengir hún svona hart – maður kemst varla inn til hennar fyrir drasli. *** Djassgítarleikarinn Andrés Þór mætti með Paradox-kvartett og lék samnefnda plötu á vegum Tónlistarfélags Ísafjarðar í Hömrum. Þeir hentu líka í einn standard í uppklappi en nú er stolið úr mér hvaða lag það var. Ég hafði aldrei heyrt Andrés spila áður og hafði ekki nema óljósa hugmynd um hver hann væri. En ég reyni að mæta á djasstónleika hérna, sem eru nokkuð tíðir, og sérstaklega ef það er gítarleikari. Og þvílíkur gítarleikari! Ótrúlega naskur á melódíur og synkóperingu – bæði í lagasmíðum og spuna. Ég hef hlustað nokkrum sinnum á plötuna á þessari viku sem er liðin síðan tónleikarnir voru – eftirlætis lögin mín hingað til eru þau sem voru á miðju prógrami tónleikanna, Avi, Schrödinger’s Cat og Tvísaga. Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég kom inn var annars pedalaborðið – verandi með svolitla gítargræjudellu. Djassgítarleikarar eru voða oft bara með snúru beint í magnarann eða í mesta lagi 1-2 fetla á gólfinu en Andrés er með fullskipað pedalaborð. Ég kunni sosum ekki við að rýna í það en tók strax eftir því að hann var með Strymon Flint – reverb og tremolo effekt sem ég er einmitt að safna mér fyrir (les: selja aðra fetla svo ég geti réttlætt kaupin). Sem var skemmtileg tilviljun. Næsta skemmtilega tilviljun var svo þegar hann gengur inn með forláta Eastman T386 gítar í fanginu – en kvöldið áður hafði ég legið andvaka í rúminu og verið að gúgla alternatífum við Gibson ES-335 og rekist á þessa og lesið heilmikið um þá. Þriðja og síðasta og sennilega skrítnasta tilviljunin var svo þegar Andrés kynnir lagið J.L. – sem heitir ekki eftir húsinu heldur dönskum gítarleikara, vini Andrésar og „youtube-stjörnu“ sem heitir Jens Larsen. Ég horfi talsvert á gítarmyndbönd á YouTube og þótt ég spili lítinn sem engan djass hafði ég einmitt tekið upp hjá sjálfum mér að læra Blue Bossa og hafði daginn áður legið yfir myndbandi með Jens Larsen, þar sem hann kennir manni hvernig sé best að spila arpeggios yfir hljómaganginn. Og hafði aldrei rekist á þann mann áður. Sándið í gítarnum gat orðið svolítið hvellt af og til. Ekki að hann væri beinlínis of hátt stilltur en þessi salur hentar djassmúsík ekkert æðislega vel – ég gæti líka trúað að Marshall-magnarinn sem Andrés spilaði í gegnum sé heldur stór fyrir svona akustískan sal. Svo er líka meira gaman að fara á djasstónleika þegar maður situr ekki bara einsog á skólatónleikum, heldur við borð og jafnvel með bjór í hendi – þar vinnur Edinborgarhúsið hands down. En sándið var líka fjölbreyttara en gengur og gerist – þökk sé fetlaborðinu, meðal annars. Sennilega hef ég bara tvisvar farið á betri djasstónleika – þegar ég sá Lenni-Kalle Taipele spila … sennilega var það á Gauknum fyrir ábyggilega 20 árum. Og um svipað leyti þegar ég sá Sunnu Gunnlaugs spila fyrir mig og mömmu og kannski einn annan í þessum sama sal, Hömrum. Af lífi og sál. Það vill til að sami trommari, Scott McLemore, lék með Sunnu þá og lék með Andrési núna – en hann er held ég giftur Sunnu. Aðrir í bandinu hjá Andrési voru Agnar Már Magnússon á píanó og Þorgrímur Jónsson á kontrabassa. Og alveg jafn lygilega færir og Andrés Þór – eða allavega svo gott sem. *** Ólyfjan er fyrsta skáldsaga Díönu Sjafnar Jóhannesdóttur. [Hér á eftir er hugsanlega spoiler, þið lesið á eigin ábyrgð]. Einsog allir sanngjarnir og réttlátir áhrifavaldar gera þarf ég að taka fram að bókina fékk ég ókeypis, einsog hvert annað meiköpp-kitt eða fæðubótarefni. Bókin er í nóvellulengd og gerist á nokkrum dögum. Ungur sjómaður með alla vasa fulla af peningum fer á fyllerí og lætur varla renna af sér á meðan sögunni stendur. Þetta er í sjálfu sér þekkt form – ekki síst á fyrstu bók – djammið sem „píkareska“, alveg frá On the Road til Millilendingar og Við erum ekki morðingjar. Mætti jafnvel setja Kokkál þarna inn líka. Og sannarlega mína fyrstu – Hugsjónadrusluna. Ólyfjan hins vegar sker sig þannig úr að fylleríið er eiginlega öll bókin – þetta er bara misdrukkinn maður að þvælast í gegnum skemmtanalífið á meðan „alls konar“ gerist (frekar en að djammið marki söguna eða bergmáli í gegnum hana). Maðurinn hefur enga sérstaka skoðun á því sem hann sér og er sjálfur erkitýpa – einsog „höfundurinn“, sem kemur fyrir í bókinni, nefnir sjálfur. Einsog aðrir karlmenn í bókinni hefur hann fátt annað til brunns að bera en að vera algert fífl – einsog skrifaður upp úr einhverju why-are-men-assholes twitter-ranti. Ólyfjan virkar meira á mig sem ritlistaræfing efnilegs höfundar en kláruð bók. Að miklum hluta til skrifast það á forlagið – ef það er eitthvað sem manni er ljóst frá fyrstu síðu þá er það að bókinni hefur nákvæmlega ekkert verið ritstýrt (eða þá mjög, mjög illa). Málfarið er mjög klaufalegt á fyrstu síðunum en skánar svo eftir því sem líður á bókina – nánast einsog höfundur sé að læra að skrifa samhliða því sem hann skrifar bókina. Píkareskur þurfa ekki að vera á leiðinni neitt sérstakt – ágætis dæmi um frábæra píkaresku sem er á leiðinni beint út í ruglið er Austur Braga Páls – en stefnuleysið hérna er bara of mikið einsog að vera sjálfur á mjög hversdagslegu fylleríi (með einhverjum steingeldum fávita). Og samt er hellingur þarna – það er ofsalegur kraftur þegar Díana gefur í og vandar sig og sagan er einhvern veginn alltaf alveg í þann veginn að fara að blómstra. Og hún hefur augljóslega miklu betri tök á skrifunum í lok bókar en í upphafi – þótt metafiksjónal tvistið hafi verið jafn erindislaust og fylleríið. Hún þarf að beisla þessa orku og beita henni fyrir eitthvað sem henni brennur fyrir brjósti – og kannski er þá ágætt að hún sé þá búin að hreinsa allar helstu djammsögurnar af borðinu. Ólyfjan er ekki góð bók – þótt það sé ýmislegt gott í henni – og ég spái því óhikað að næsta bók Díönu verði miklu betri. *** Ásta Fanney Sigurðardóttir gaf á dögunum út það sem maður gæti kallað sína fyrstu bók „í fullri lengd“. Ljóðabókina Eilífðarnón – og fylgir þar eftir singulnum Herra Hjúkket og samstarfsbókinni Vísnabók með CD. Á bókamerkinu sem fylgir með bókinni stendur að Ásta hafi einhvern tíma verið kölluð „spaðaásinn í geri íslenskra ljóðskálda“. Það vill einmitt til að það var ég sem kallaði hana spaðaásinn og ég stend við það. Ljóðlist Ástu síðustu svona átta árin (og sennilega lengur, þetta eru átta ár sem ég hef vitað af henni, og jújú, ég man reyndar að hún vann einhverja keppni ásamt vinkonu sinni löngu fyrr) hefur ekki síst birst í gjörningum og upplestrum og eru fá skáld sem ferðast jafn víða og hún eða sýna jafn mikinn metnað í ljóðaperformansi. Lengi vel – kannski enn – endurtók hún sig heldur aldrei á sviði, sem er rosalega intensíft þegar maður kemur mikið fram. Ásta er hins vegar alveg jafn fær og jafn tilraunakennd eða flippuð, full af leik og ljóðrænu, flissandi launfyndni, á síðunni og hún er á sviðinu og Eilífðarnón er instant-klassíker í íslenskri framúrstefnu, sem er ósennilegt að einu sinni Ásta sjálf toppi neitt í bráð. Eða það er allavega mitt fyrsta viðbragð. Mér finnst mikið af ljóðlist síðustu ára vera góð – en hún er líka svolítið sjálfri sér lík, svolítið svipaðar raddir (kannski vegna þess hve margir fóru í gegnum sama ritlistarnámið) og í því geri, þessu geri íslenskra ljóðskálda, er Ásta alger spaðaás – beint út úr erminni, skák og mát – og það hvernig hún beitir tungumálinu, tökin sem hún hefur á því og þessi furðu lífræna tengingin sem hún hefur við það, hljóð þess og merkingu, ljóðmyndir og málfræðilega slóða, er einfaldlega engu lík, algerlega einstök. Hafi maður minnsta áhuga á íslenskri ljóðlist verður maður að eignast þessa bók, punktur og basta, yfir og út. *** Í annað skiptið í sögu „gítarleikara vikunnar“ er gítarleikarinn íslenskur (hinn var Langi Seli). Andrés Þór.
createdTimestamp““:““2024-05-13T16:23:50.260Z““
id““:““5povm““
Ég veit ekki hvað maður gerir með hina svonefndu blues revivalista. Ég veit ekki einu sinni hvernig er best að íslenska hugtakið. Blúsvakning – jújú – en blúsvökumenn? Er það gjaldgengt? Of karllægt – þetta voru held ég 99,99% karlar. Eða strákar, eiginlega. Látum það allavega heita gjaldgengt í þessari færslu. Vakning og vaka er ekki alveg sami hluturinn en blúsvakningamenn er bara ekki jafn hljómfagurt. Hvað um það! Það þarf ekki allt að vera svona flókið! Áfram með smjörið! Það er ekki alltaf alveg ljóst hvað fólk á við þegar það talar um blúsvakninguna. Maður gæti átt við fyrstu hvítu blúsarana – Bob Dylan, John Mayall, Clapton, Led Zeppelin og Stones. Maður gæti átt við starf þjóðfræðinga á borð við feðgana John og Alan Lomax – sjálfa dokumenteringuna – eða tónlistarmógúla einsog John Hammond. Og maður gæti verið – einsog ég, og sennilega flestir sem nota hugtakið – að tala um blúsnördin sem spruttu upp beggja vegna Atlantsála eftir stríð og byggðu með sér fámennt en kraftmikið samfélag hvers blómatími er sennilega svona 1959-1965, en varð til í lok seinni heimsstyrjaldar og stendur enn í dag. Kjarninn í þessu samfélagi á gullöld þess er mjög fámennur – örfáir tugir dedikeraðra þráhyggjusjúklinga – og eina ástæðan fyrir því að nokkur skriður kemst á þennan köntríblús er samsláttur þeirra við aðra og stærri hópa. Á fyrra skeiði sínu, fyrir innreið hippismans, er blúsvakningin einsog hliðarhobbí við djassplötusöfnun – margir blúsvökumanna segja frá því í viðtalsbókinni Pioneers of the Blues Revival eftir Steven Cushing að þeir hafi fengið að hirða blúsplötur úr söfnum djassgeggjara, sem stóð meira og minna á sama um þessar plötur en enduðu stundum með þær í höndunum þegar þeir voru að kaupa söfn í heilu lagi. Ég veit ekki hvort þeir gerðu einsog blúsvökumenn sem keyrðu stundum um í hverfum svartra og kölluðu út um gluggann að þeir vildu kaupa plötur – eða bönkuðu upp á og spurðu hvort það væru til nokkrar gamlar plötur. En það var í öllu falli talsvert meiri vinna að safna plötum á þessum tíma en það er í dag.
Á seinna skeiðinu fara þeir svo í samflot með folk revival hreyfingunni. Þá eru þeir ekki lengur bara að safna plötum heldur farnir að safna lifandi fólki – leita uppi svarta blústónlistarmenn og koma þeim inn á folk-hátíðirnar og hippa/bítnikkakaffihúsin. Stór hluti af starfinu fram til þess tíma er fræðilegt grúsk – bæði að safna plötum en líka að grafa upp skjöl og myndir og taka viðtöl. Þá er mikið lagt upp úr því að gera almennilegar útgáfuskrár – komast að því hvað hafði verið tekið upp, hverjir léku í hvaða lögum og hvað væri til og hvað væri týnt. En þarna snemma á sjöunda áratugnum – ég tala um hippa en þetta er eiginlega forhippismi – er farið að gera nýjar upptökur, nýja tónleika og tónlistin og tónlistarmennirnir eru ekki lengur bara einhver forsöguleg abstraksjón heldur lifandi. Það er svo skrítið að þeir nefna það margir að hafa skyndilega bara „fattað“ að tónlistarmennirnir gætu verið á lífi. Einhvern veginn hafði það varla hvarflað að þeim af viti – en þetta eru bara þrjátíu ár. Ef við berum það saman við daginn í dag væri kannski hægt að segja að jújú, Kurt Cobain sé dáinn og Chris Cornell líka, en Dave Grohl er enn að túra heiminn og ég held að Zach de La Rocha sé enn á lífi, þótt maður heyri sjaldan frá honum. Þeir eru að vísu flestir aðeins eldri – Son House og Skip James eru báðir 62 þegar þeir finnast (meðalgruggrokkarinn er fimmtugur 2020) og lífaldur skemmri, ekki síst fyrir svarta menn í deltunni. Ein ástæða þess að ég veit ekki hvað ég á að gera við blúsvökumennina er að allt þeirra ótrúlega mikilvæga starf orkar svo mikið tvímælis – þeir eru stundum mjög rænulausir í ákafa sínum og ástríðu. Á aðra höndina björguðu þeir ótrúlegum verðmætum frá gleymsku án þess að græða mikið á því sjálfir, ef nördastig eru frátalin. Á hina höndina eru þeir hvítir gestir í landi þessarar svörtu alþýðutónlistar og leggja á hana sitt eigið gildismat sem stýrir fagurfræði blússins æ síðan. Ef þeirra hefði ekki notið við væru sennilega flestar upptökur manna einsog Son House og Skip James og Mississippi John Hurt týndar og tröllum gefnar og enginn þeirra hefði öðlast nýjan feril á sjöunda áratugnum – og við ættum þar með engar nýrri upptökur af verkum þeirra. Fyrir blúsáhugamann er það einsog að týna hómerskviðum eða píramídunum. En ef þau hefðu glatast væri áherslan kannski bara meiri á Gilgamesh og Mayahofin. Það er auðvitað ómögulegt að segja hvert landslagið hefði verið án þessarar tónlistar. Þegar Stones drógu Howlin’ Wolf með sér í unglingaþáttinn Shindig! í Bandaríkjunum – þeir gerðu það að skilyrði fyrir sínu giggi að annað hvort Muddy eða Howlin’ Wolf fengi að fljóta með – var nýbúið að finna Son House í Rochester, og einhvern veginn var honum smyglað inn í stúdíóið til að hitta Howlin’ Wolf. Brian Jones missti kúlið og féll á hnén við fótskör Wolfs; og þegar Son House birtist – sem enginn hafði séð í meira en tvo áratugi – missti Wolf kúlið og féll á hnén við fótskör House. Wolf varð reyndar síðar mjög fúll út í House að hafa leyft sér að breytast í byttu – það er klippa á YouTube þar sem Wolf les sínum gamla lærimeistara lexíuna . Brian Jones hafði óljósa hugmynd um tilvist House en þekkti tónlistina ekki að ráði – hann fékk hana í gegnum Wolf. Svo er spurning hvort það sé nóg. Dylan sagði einhvern tíma að munurinn á sér og Donovan væri sá að Donovan hefði aldrei orðið fyrir áhrifum af neinum öðrum en Dylan – „he only got me, he never got what I got“ og átti þar við tónlistarsöguna þar á undan, að Dylan hefði mótast af fleiri kynslóðum tónlistarmanna, en Donovan bara byrjað á top of the folk-pops 1963. Hugsanlega væru hugmyndir okkar um uppruna blússins litaðri af mönnum einsog Leroy Carr, Big Bill og Josh White, ef blúsvökumanna hefði ekki notið við – en það er tónlist sem er erfiðara að sjá í verkum Muddys og Wolfs. Þar skortir þráð. Wolf fær sitt frá Charley Patton (og við hans hlið var alltaf Son House) og Stones fá sitt frá Wolf – og við myndum bara þekkja Son House af orðsporinu. Carr, Bill og White voru allt vinsælir tónlistarmenn og höfðu sennilega meiri áhrif í dægurlagaheiminum og á folk-tónlistarmenn – þetta segi ég þeim ekki til hnjóðs, ég elska tónlist þeirra allra, en þetta er hreyfing í aðra átt. White var beinlínis einn af allra vinsælustu tónlistarmönnum Bandaríkjanna á fyrri hluta aldarinnar og að hann skuli jafn gleymdur og raun ber vitni er sennilega bæði vegna McCarthyismans sem bannfærði hann fyrir stjórnmálaskoðanir hans og svo blúsvökumennina sem höfðu ekki áhuga á þessari fágun og færðu fókusinn yfir á „listrænni“ og/eða harðari blúsara. Þegar maður vill gera lítið úr blúsvökumönnum lætur maður einsog þeir hafi verið miklir forréttindapésar sem hafi haft svarta tónlistarmenn að féþúfu. Fyrir því er hægt að týna til ýmis rök en það gengur eiginlega ekki upp nema maður sé góður í kirsuberjatínslu – því þótt maður geti til dæmis bent á að sennilega hafi umboðsmenn Mississippi John Hurt haft hann að féþúfu var það undantekning hjá þeim – og regla annars í tónlistarbransanum; og þótt maður geti bent á að einhverjir blúsvökumannanna hafi verið úr efri millistétt þá var það líka undantekning. Flestir þeirra virðast hafa notið liftarhafts síns (og kyns), og þótt það sé sannarlega ekki ekki-neitt, nutu þeir ekki endilega annarra forréttinda í lífinu og blúsáhuginn virðist hafa kostað þá miklu, miklu meira en þeir græddu á honum. Þeir ferðuðust ekki bara þvert yfir Bandaríkin til að finna einhverja blúsmenn til að tala við – stundum komu þeir alla leiðina yfir hafið frá Bretlandi og eyddu í það nærri aleigunni. Og áður en það var auðvelt að fjölfalda upptökur fóru enskir blúsvökumenn til Parísar – aftur á skóþvengsfjárlögum – af því það fréttist að þar byggi maður sem ætti tveggja-laga Charley Patton plötu sem þeir höfðu aldrei heyrt. Þeir sem höfðu það skást eru sennilega þeir sem fóru menntaveginn með þessu og gerðust einhvers konar akademíkerar (ekki í neinum blúsfræðum vel að merkja, það var ekki mikið í boði í þeim efnum). Alla jafna eru þetta líka mjög ungir menn, rétt skriðnir yfir tvítugt – og alveg sama hvort maður er þá að spá í helstu leikendum 1949 eða 1961. Þeir heitustu halda áfram alla ævi en það kvarnast hratt úr hópunum eftir því sem þeir eldast og nýir taka við. Þeir sem halda áfram virðast líka margir hafa hrist af sér fjölskyldu eftir fjölskyldu í þráhyggjunni – ýmist fyrir að eyða öllum tekjum sínum í plötur eða fyrir að leiðast út í almenna óreglu (með jafnöldrum úr vakningunni og/eða eldri blúsurum). Flestir þeirra sem taka þátt í þessu eru sjálfir tónlistarmenn í þeim skilningi að þeir spila á hljóðfæri, en fáir þeirra höfðu það nokkurn tíma að atvinnu. Einhverjir þeirra léku svo alls ekki blús og vildu ekki gera það – litu einfaldlega á blúsinn sem alþýðutónlist svartra og ekki viðeigandi að þeir væru að spila hann sjálfir. Þrjár meiriháttar undantekningar eru á þessu – Al Wilson, John Fahey og Henry Vestine. Al Wilson fór ekki með að finna Son House en það var bara vegna þess að hann komst ekki og hann var lykilmaður í að hjálpa Son House að komast aftur í form og hýsti gjarna bæði Son House og Skip James þegar þeir voru á ferðinni. Fahey fann Bukka White (með því að senda póstkort til „Bukka White / Old Blues Singer / Aberdeen Missisippi / c/o General Delivery“ – eftir að hafa heyrt Aberdeen Mississippi Blues). Fahey og Vestine fundu Skip James. Fahey átti farsælan sólóferil en Vestine og Wilson stofnuðu síðar Canned Heat (sem er nefnd eftir gömlu Tommy Johnson lagi). Hér spilar Canned Heat á Woodstock. Henry Vestine hætti í hljómsveitinni vikunni áður. Lagið virðist vera einhvers konar útgáfa af I Believe I’ll Make A Change sem bæði Leroy Carr og Josh White gerðu frægt en var samið af bræðrunum Pinetop og Lindberg. Ég vil svo skilja þetta að mestu frá spurningunni um frumleika og þjófnað í blúsnum – þótt Canned Heat menn hafi verið í hvorutveggja. Einsog blúsvakning nördanna er sá heimur félagslega og pólitískt problematískur – og einsog með hann finnst mér að langflestu leyti ósanngjarnt að fárast bara yfir honum fyrir það, en af öðrum ástæðum. Veröldin er margslungin og maður vildi oft að hlutirnir gerðust ekki nákvæmlega einsog þeir gerðust – ekkert svo með öllu gott að ekki boði líka einhverja helvítis vitleysu. Afstaða mín til blúsvökumanna – dómsorð þessarar færslu – er að þeir hafi unnið stórfenglegt og óeigingjarnt starf og þótt mikilvægt sé að skilja annmarka þess og vankanta sé fullkomið virðingarleysi að gera lítið úr því.
createdTimestamp““:““2024-05-11T18:17:50.887Z““
Þetta var fremur róleg vika í menningarneyslunni. Ég veit ekki hvað veldur – ekki einsog maður hafi ekki nægan tíma. Sennilega skrifaði ég síðast á þriðjudegi og þá er hún degi styttri. Reyndar eru alls konar hlutir mjög tímafrekir hérna. Laugardagurinn fór sem dæmi nánast allur í að versla (án þess að við værum að kaupa nein ósköp – í matinn og nokkra smáhluti sem vantaði). Mest kemur mér á óvart hvað ég las lítið – í bók að minnsta kosti. Eina skepnu – svo er ég reyndar langt kominn með aðra bók en hún býður næstu viku (og gengur furðu hægt). Ég hef talsvert lagt mig eftir greinum um ástandið hérna í Hondúras og fundið lítið en það sem ég hef fundið er ítarlegt og gott – einsog þeir sem skrifi um stöðuna leggi meira í það vegna þess að það þarf alltaf að útskýra allan bakgrunn og kannski skiptir bara meira máli að það sé vel gert þegar það eru ekki allir að skrifa um þetta. Nema hvað. Eina stutta bók – Lykt af brenndum fjöðrum eftir Daníil Kharms. Bókin kom út sem Sérrit Bjarts og frú Emilíu fyrir sléttum 100 árum. Nei, djók, fyrir kannski sirka 20 árum, gæti ég trúað. Þetta eru stuttir textar, ein lengri smásaga, brot/athugasemdir og nokkur ljóð í restina. Stíllinn er heillandi afslappaður og húmorinn það sem ég held að kallist „sérlundaður“ – svona Tvíhöfði síns tíma, eða Andy Kaufman ef maður vill fara lengra aftur. Maður veit ekki alltaf hvað á að vera fyndið við þetta en þetta er samt óneitanlega frekar spaugilegt. Ég hugsaði mikið til Friðriks Sólnes meðan ég las – eitthvað til Borgesar (þótt það sé kannski langsótt), Þorsteins Guðmundssonar og Barkakýlis úr tré og jafnvel einhvers einsog Aesópar. Einfaldast er að taka bara dæmi: *** Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á bíómyndina Skrímsli í París. Aino valdi. Við höfðum séð þessa mynd áður – ég virðist reyndar hafa misst af byrjuninni í fyrra skiptið, man ekki hvers vegna – en horfðum á hana aftur vegna þess að það ku hollt að horfa á hluti aftur (og lesa hluti aftur) og vegna þess að við áttum góðan eftirmiðdag í París um daginn og ræddum þá talsvert um hvar við hefðum séð Eiffelturninn og allt hitt áður. Ladybug – þættir sem Aino horfir talsvert á og við stundum með henni – gerast til dæmis í París. Skrímsli í París fjallar um tvo menn sem fara óvarlega á tilraunastofu vísindamanns (sem er fjarri góðu gamni) með þeim afleiðingum að lítil fló verður risastór og fer að skelfa Parísarbúa alls staðar þar sem hún fer. Flóin kynnist svo kabarettsöngkonu (vinkonu mannanna tveggja) sem uppgötvar að hún getur sungið einsog engill – dulbýr flóna og syngur með henni í kabarettsýningunni við miklar vinsældir. Á meðan þessu stendur er lögreglustjóri bæjarins – og vonbiðill kabarettsöngkonunnar, við lítinn fögnuð hennar – að reyna að klófesta flóna, aðallega sjálfum sér og sínum ferli til dýrðar. Allt endar þetta með ósköpum, einsog vera ber, en fer svo vel á síðustu stundu. Þetta er skemmtileg saga og þótt ég hafi oft vel því fyrir mér hvað hún væri að reyna að segja mér – hver sögn myndarinnar væri, einsog maður segir – þá velti ég því samtímis talsvert fyrir mér hvort hún þyrfti að hafa einhverja sögn. Listaverk hljóta að mega vera „bara sögur“ – rétt einsog þau mega hafa sögn eða boðskap án þess að þeim beri skylda til þess. Maður er sennilega sérstaklega vakandi fyrir þessum víddum í barnaefni af því maður óttast alltaf að bækur og myndir muni breyta börnunum manns í Vigdísi Hauks ef maður fylgist ekki með. Það er ábyggilega misskilningur. Það sló mig reyndar að ólíkt mörgum bíómyndum, sem hafa jafnan svipaðan strúktúr og plottuð smásaga eða nóvella (kynning, plottdrífandi breyting sem veldur ójafnvægi í heimi sögunnar, uppgjör) þá væri margt þarna líkara skáldsagnauppbyggingu á háu tempói. Margir karakterar, mörg hliðarplott (þótt við sæjum mörg þeirra bara stuttlega) og svo framvegis. Ég spekúleraði ekkert í þessu frekar – man bara að ég hugsaði þetta á meðan myndinni stóð og kannski var þetta bara einhver dilla sem ekki stenst. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á sænsku bíómyndina Samablóð. [HÖSKULDARVIÐVARANIR] Í upphafi myndar hittum við fyrir fjörgamla kellingu, Elle-Marju (sem kallar sig síðar Christinu) og son hennar sem dregur hana norður til Samalands í jarðarför systur sinnar. Kellingin er full af fordómum í garð sama – þeir stela, ljúga, jojkið er bara eitthvað garg og svo framvegis – og vill alls ekki fara og líður illa í bæði jarðarför og erfidrykkju, neitar að gista hjá ættingjum sínum og nælir sér í hótelherbergi. Eftir að sonur hennar og barnabarn skilja hana eftir (hún vill ekki fara / bregst of seint við) og fara með þyrlu upp á fjall til að taka þátt í hreindýramerkingum fer hún á diskótek á hótelinu og dettur inn í fortíðina. Þá er hún ung kona í Samalandi á fjórða áratugnum. Hún og systir hennar eru sendar í skóla þar sem eru bara samar og allir alltaf klæddir í samabúning. Hún verður fyrir margs konar fordómum – kennarinn, ung, fögur og afar sænsk kona, álítur þau of heimsk fyrir frekara nám og segir að heilarnir í þeim dugi ekki til að lifa af í borginni, samar deyi út ef þeir haldi sig ekki norðurfrá með hreindýrunum. Strákar í nágrenninu tala illa um samana og þegar hún konfronterar þá skera þeir í eyrað á henni (einsog hún merkir sjálf hreindýr nokkru fyrr). Allir horfa á þau og hafa fordóma. Höfuðlagsfræðingar koma og mæla börnin – taka myndir af þeim allsberum og grátandi á meðan nágrennisstrákarnir liggja á rúðunum. Kvöld eitt stelur hún kjól af kennslukonunni og fer á ball – þar kynnist hún ungum manni sem heillar hana og þau eru komin afsíðis til að kela og kannski ríflega það þegar fólkið úr heimavistarskólanum mætir og dregur hana burt, en ekki áður en hún fær heimilisfang stráksins. Nokkrum dögum síðar stingur hún af til Uppsala þar sem hún bankar upp á hjá mjög svo borgaralegum foreldrum stráksins – sem er á balli þegar hún kemur – og segir að sér hafi verið boðin gisting. Þau eru fremur hvumsa og ókurteis og geta varla talað við hana af furðu og viðbjóði. Strákurinn kemur heim um nóttina – þau talast við, skemmta sér, sofa hjá – og daginn eftir láta foreldrar hans hann senda hana sinn veg (enda höfðu þau heyrt þau stunda kynlíf, vissu einhvern veginn að hún væri sami og þar með óverðug og höfðu áhyggjur af að hún yrði eða væri þegar ólétt). Elle-Marja skráir sig í skóla undir nafninu Christina – segist vera frá Smálöndum. Vantar pening fyrir skólagjöldum – spyr ríka strákinn sem spyr hvers vegna hún spyrji ekki foreldra sína. Þá fer hún aftur norðureftir, spyr mömmu sína, sem neitar fyrst en gefur henni að endingu silfurbelti pabba síns (sem er dáinn). Þá erum við aftur á diskótekinu. Kellingin starir út um gluggann – og einhvern veginn augljóslega breytt, augljóslega ekki full af sjálfshatri og skömm. Daginn eftir fer hún gangandi á fjöll og finnur samabúðirnar. Myndin endar. Þetta er kraftmikil mynd og hún er betri þegar maður horfir á hana en svona í endursögn. Hún er vel leikin, vel leikstýrt, falleg og sagan er trámatísk og erfið. Við Nadja vorum sammála um það þegar hún kláraðist að myndin væri góð. Og hún er góð þrátt fyrir vankanta sína – sem ég tel vera eftirfarandi:1. Einsog furðu margar sænskar myndir og bækur er veruleiki hennar að mörgu leyti svarthvítur – ég sakna þess að það séu núansar. Svíarnir voru allir ofsalega sænskir og samarnir ofsalega samískir og sjálfshatandi saminn ofsalega sjálfshatandi sami og rasisminn ofsalega rasískur. Línurnar eru svo skarpar. Þetta er eitthvað sem á rætur a.m.k. allt aftur í sænska sósíal-realismann og ég held að þetta sé heiðarleg tilraun til þess að líta ekki undan og gefa ekki afslátt gagnvart hroða heimsins. Svíar eru sem (menningar)þjóð gjarnir á að vera með samviskubit, afar kröfuharðir um sitt réttlæti og einsog þeim finnist rangt að horfa á björtu hliðarnar. Auðvitað á þetta ekki við um alla Svía – kannski bara menningararminn – Svíar eru líka sjálfumglaðir einsog allir aðrir (og margir þeirra eru hreinlega Svíþjóðardemókratar og þeir kunna ekkert að skammast sín).2. Manni finnst einsog sagan sé rétt að byrja þegar hún er skyndilega búin. Ekkert að því að hoppa frá einu aldursskeiði til annars – en það vantaði bara að klára söguna með strákinn í Uppsala (var hann pabbi sonarins? þeir voru líkir) og skólann. Þetta er ekki stór galli og ég get vel fyrirgefið hann.3. Fjörgömul kelling gengur ekki á fjöll þangað sem frískt fólk á besta aldri fer á þyrlu. Ekki einu sinni þótt um æðar hennar renni 400 oktana samablóð.4. Það var ekki sannfærandi að hún hristi bara af sér allt sjálfshatrið með því að standa á diskóteki í nokkrar mínútur og rifja upp æsku sína meðan hún horfði út um gluggann. Við sáum þar ævi hennar í fyrsta sinn og eðlilega hrærðumst við af því – en þetta var ekkert nýtt fyrir henni. Sjálfshatur – afleiðing áratugalangs rasisma sem er alls ekki horfinn þótt hann hafi skánað (og í myndinni virkar hann a.m.k. fremur slæmur enn) – er of inngróið til þess að maður geti bara svona úpsadeisí eitthvað losað sig við það með réttum trigger. Það er búið að kynna okkur fyrir trámatíseraðri stúlku sem elst upp í mjög fjandsamlegu umhverfi og gamalli kerlingu sem getur ekki heyrt jojk í útvarpinu án þess að byrja að ragna – hún fyllist ekkert alltíeinu nostalgískri andakt yfir samalífinu. Ég bara kaupi það ekki. *** Gítarleikari vikunnar er Robert Johnson. Lagið er Dead Shrimp Blues – Nárækjublús. Á Twitter í vikunni sá ég eitthvað fólk eiga í hinni klassísku samræðu um að gítarinn væri dauður og gítarsóló væru sjálfsfróun fyrir framan annað fólk (einsog það sé ennþá sixtís til eitís og við öll að drukkna í gítarsólóum í meinstrím tónlist). Auðvitað má það til sanns vegar færa samt með gítarleikinn – allur góður gítarleikur er „peacocking“ – einsog margt annað reyndar, t.d. hjólabrettaiðkun, frístæl-rapp og alls kyns aðrar kúnstir. En það er önnur Ella sem ég ætlaði ekki að ræða – Nárækjublúsinn er sérstök tegund af sjálfsfróun fyrir framan annað fólk af því hann fjallar um getuleysi.