Untitled

Því er stundum haldið fram að sögur af kynsegin persónum séu ævinlega af sama slagi – þetta séu sögur af vondu fólki sem er fullt af perversjónum og sem hlýtur makleg málagjöld (les: það deyr) – einhvers konar hliðarpródúkt af veruleika sem er (og var enn meira) fordómafullur og óttasleginn. Ég held það sé nokkuð til í þessu á meðan verið er að tala um litlar hliðarpersónur eða einhliða antagónista í eldri bókmenntum – sennilega mestmegnis fyrir sjöunda áratuginn – eða ódýrum sjoppureyfurum. Og raunar líka úr sannsögubókmenntum, til dæmis læknalitteratúr frá nítjándu öld, þar sem kynsegineinstaklingum er oft lýst sem pervertum eða fólki sem gæti orðið perversjónum að bráð verði kyn þeirra ekki sæmilega ákvarðað eða lagfært. Því ef maður gat bara verið kona eða karl, og það var viðurstyggð að stunda samkynhneigð, var mjög mikilvægt að komast að því hvort maður væri svo maður færi nú ekki óvart að ríða í óþökk drottins almáttugs – eða konur færu að kjósa eða gera eitthvað annað sturlað. *** [Þetta er alger hliðarfrásögn og ekki í samhengi við restina, en áhugavert samt, eins konar neðanmálsgrein sem hangir í brotinu á undan: sagan af intersexmanneskjunni Levi Suydam sem ætlaði að kjósa árið 1843 í Connecticut, en var stoppað af og sakað um kvenmennsku. Læknir framkvæmdi skoðun á háni sem leiddi í ljós að hán var með lim svo hán fékk að kjósa. Þegar stóð svo á einu atkvæði milli Whigs og Tories var hán rannsakað betur og þá kom í ljós að hán fór á túr og hafði alls kyns „kvenlega“ eiginleika; og þá var atkvæði háns dæmt ógilt.] *** Hins vegar held ég að aðalsöguhetjur geti aldrei verið þetta einfaldar – aðalsöguhetjur hljóta að vera margbrotnar (í margræðum skilningi þess orðs) og sumar þeirra sem eru kynsegin hljóta að leika sér með ótta annarra við kyngervi þeirra eða annarleika, og njóta þess að ógna þröngsýnum smáborgurum, af háði og heift – bæði í von um að fá einn daginn að vera með og í von um að fá einn daginn að mölva kerfið (eftir því hvern þú spyrð). Og stundum sennilega bæði og allt í senn. Meira að segja kynsegin aðalsöguhetjur í eldri bókum passa ekki endilega svo vel við klisjuna, þegar þær eru í forgrunni – a.m.k. ekki einsog klisjan hefur verið presenteruð fyrir mér. *** Nema hvað. Ég fór eitthvað að skoða sagnasafnið mitt og reyna að flokka kynsegin/intersex/trans sögupersónur eftir því hvort þær legðu sig fram um að vera ógnandi á þennan máta eða hvort þær væru jafn vel frekar saklausar eða miðjusæknar í hegðun sinni og atferli. Og fann bara fjögur ógnandi „skrímsli“ í þremur bókum (Cock and Bull er tvær nóvellur í sömu bók). Fyrir utan þá auðvitað Hans Blævi. „Skrímsli“:  Myra Breckinridge í samnefndri bók Gores Vidal (ég fjallaði um bíómyndina hérna ) Frank-N-Furter í Rocky Horror Picture Show Hann og hún í Cock and Bull eftir Will Self. Hlutlausir eða góðmenni:  Orlando í samnefndri bók Virginiu Woolfe Auður Ögn í Sögu af stúlku eftir Mikael Torfason Abel í Móðurhug eftir Kára Tulinius Cal Stephanides í Middlesex eftir Jeffrey Eugenides Brandon Teena í Boys Don’t Cry í leikstjórn Kimberly Peirce Glen/Glenda í Glen or Glenda í leikstjórn Eds Wood Dil í The Crying Game í leikstjórn Neils Jordan Roberta Muldoon í The World According to Garp eftir John Irving Barþjónninn / móðirin í All You Zombies eftir Philip K. Dick (eða bíómyndinni Predestination í leikstjórn Michaels og Peter Spierig) Bree í Transamerica í leikstjórn Duncans Tucker Maura Pfefferman í Transparent eftir Jill Soloway Denise Bryson í Twin Peaks eftir David Lynch Taylor Mason í Billions (þrátt fyrir að vera sálarlaus kapítalisti er hán óvenju viðkunnanlegt og fellur því hérna megin) eftir Koppelman, Levian og Sorkin Svo má nefna Gethenbúa í The Left Hand of Darkness eftir Ursulu K. Le Guin eða Merkúrbúa í 2312 eftir Kim Stanley Robinson, þar sem heilar plánetur (af góðmennum og illmennum og alls þar á milli) eru á rófinu. Einhverjar sögupersónur veit ég ekki hvernig maður ætti að flokka (og auðvitað er svona tvíhyggjuflokkun alltaf próblematísk – þ m.t. flokkun í sís og trans – það eru engar hreinar línur). Til dæmis hermafródítan sem kemur út úr skáldsögu Michael Moorcocks, The Final Programme, sem er eins konar samruni konu og karls sem á að skapa fullkomna veru. Útkoman er í einum skilningi skrímsli eða (blóðþyrstur) neanderdalsmaður, en í öðrum einmitt þá fullkominn – nýr maður, nýtt upphaf. Spurningin sem sú annars flippaða bók spyr er ótrúlega mikið hvað sé fullkomnun. Ég veit heldur ekki hvernig ég á að flokka Tintomara úr Drottningens Juvelsmycke – sem var áreiðanlega mjög sensasjónalísk þegar hún kom út (1834) en er samt, í krafti þess að vera vel skrifuð aðalsöguhetja, mjög rúnnaður karakter með margar hliðar og ótal ástæður fyrir gjörðum sínum. Svo eru auðvitað „sannsögulegar“ sögupersónur – í bókum sem eru samt einhvern veginn „skáldverk“ – t.d. Harry í Argonauts, Ég-ið í Intersex (for lack of a better word) eða ljóðmælandi í Intersex: A Memoir eftir Aaron Apps, Ikon eftir Yolöndu Auroru Bohm Ramirez eða Tjugofemtusen kilometer nervtrådar eftir Nino Mick. Þar er það ekki endilega spurning um hvernig sögupersónurnar eru – þær eru ekki illmenni eða skrímsli – heldur hvort maður flokkar þær yfir höfuð með „sögupersónum“. Svo er ýmislegt á listanum/náttborðinu sem ég á einfaldlega eftir að lesa og horfa á. Mig grunar t.d. að transkonurnar í Ticked Off Trannies With Knives falli að þessari gefnu staðalmynd en ég held að Hedwig geri það ekki, þótt hún sé pönkari (ég sá að vísu Hedwig fyrir hundrað árum en það var ábyggilega í einhverjum svefnrofum og ég man ekkert eftir henni). In einem Jahr mit 13 Monden eftir Fassbinder sýnist mér karakterinn vera góðmenni/hlutlaus og hið sama gildir um Una Mujer Fantastica, sem var nýlega fjallað um á Hugrás. Ég veit ekkert við hverju ég á að búast af Annabel, The Hermaphrodite, Sphinx eða Paul Takes the Form of a Girl. Og svo framvegis og svo framvegis. Síðast en ekki síst eru „skrímslin“ á þessum lista alls ekki bara skrímsli og hin miðjusæknari alls ekki bara miðjusækin. Enda væri það hvorki gaman né áhugavert. *** Það væri áhugavert – en flókið túlkunaratriði – að skoða hvenær sé verið að fjalla um kynseginveruleikann sem slíkan og hvenær hann sé farartæki til þess að fjalla um annað og hvenær hann sé hreinlega bara myndlíking. Eðlilega er það alltaf sitt lítið af hvoru (og fleira til). *** Engar áhugaverðar sögupersónur eru fullkomnar, engar eru „normal“ og flestar eru í senn fórnarlömb og níðingar, stundum gerendur (óvart og viljandi), stundum þolendur (óvart og jafnvel viljandi, með sjálfseyðingarhvöt). Þær eiga sér hvatir og útskýringar en ekki slíkar hvatir og útskýringar sem leysa þversagnir lífs þeirra – við finnum til samlíðunar með þeim en við skiljum þær ekki til fulls (frekar en fólkið í kringum okkur). Þær eru í senn fyrirsjáanlegar og algerlega ófyrirsjáanlegar. Þetta á líka við um Myru, Frank og Hann og Hana í Cock and Bull. Þau eru ekki bara „vond“. *** Það væri gaman að fá tillögur að verkum til að skoða, bókum til að lesa og myndum til að horfa á – með kynseginillmennum eða kynsegingóðmennum. Hér að neðan er kommentakerfi sem er alltof lítið notað.

Untitled

Ég er eirðarlaus að reyna að láta handritið vera í smá stund. Maður þarf að geta látið hlutina í friði stundum. Leyft þeim að gerjast eilítið, meltast eilítið, og kannski ekki síst þegar veruleikinn er viðstöðulaust að skipta sér af, hella sér yfir handritið, flæða innum glufurnar og krefjast breytinga. Þetta þarf nokkra daga, helst viku – og ég þarf nokkra daga þar sem ég er ekki að farast úr einhverjum vinnualkamóral. Ég má taka því rólega. Það mun hvorki kosta mig lífið né ferilinn og athugasemdakórinn í listamannalaunaumræðunni heldur hvort eð er að ég sé aumingi sem mæti aldrei í vinnuna. *** Ég er enn að lesa bækur, enn að horfa, enn að gúgla svo það er viðstöðulaust áreiti úr þeirri áttinni – sem má ekki fara ómelt inn í viðkvæmt handrit – og svo eru það bara fréttirnar, veruleiki samfélagsmiðla, hamslaus narsissisminn, allar réttlætiskenndirnar, öll þórðargleðin og fordæmingasirkusinn á víxl. *** Og þá er ágætt að halda bara vinnudagbókinni gangandi þótt það sé ekki mánudagur. Þótt ekki væri nema bara til að hreinsa aðeins til í huganum. Mér finnst einsog afstaða mín til margra hluta – sérílagi til PC kúltúrs – verði alltaf mótsagnakenndari og mótsagnakenndari og ég kann ekkert að leysa úr því. Öðruvísi en að skrifa, það er að segja, til þess er ég kannski að skrifa – allar síðustu bækur, sennilega frá Gæsku, að ljóðabókunum meðtöldum, að Plokkfiskbókinni meðtaldri – eru einhvers konar tilraun til þess að leyfa mótsögnunum að þrífast í von um að þær þá kannski leysi úr sér sjálfar, eða samræmist einhvern veginn. *** Höfuðmótsögnin, alveg frá Gæsku , snýst um átökin við pólitíska skáldverkið sem slíkt. Og þá staðreynd að einhvers staðar finn ég fyrir gríðarmikilli þörf til þess að skrifa  um pólitíska viðburði eða veruleika, um  samtímann einsog hann er að gerast fyrir augunum á mér, á meðan ég bókstaflega þoli ekki predikanir og finnst nær engin pólitísk list komast upp úr þeim hjólförum. Þar að auki er vonlaust að ætla að sjá samtímann – það er einsog að horfa út um hliðarrúðuna á bíl, það fer allt of hratt framhjá. *** Mér finnst rosalega gaman reyndar að skrifa senur þar sem ekkert gerist nema hreyfingar. Þar sem fólk hreyfir sig um í tiltölulega merkingarsnauðu rými. Hellir upp á kaffi. Vökvar blóm. Sýður egg á meðan vindurinn gnauðar í gluggarifum. Og þær eru þarna líka. Ég er sennilega frekar eftirlátssamur höfundur. *** Önnur mótsögn er hvað mér finnst þetta allt stundum stjórnlaust fyndið. Og hvað ég get tekið því ofsalega alvarlega, svo liggur við að ég komist ekki á fætur á morgnana. *** Ein erfiðasta mótsögnin við Hans Blævi, fyrir höfundinn a.m.k., er hvað sagan er í senn mórölsk og ómórölsk, rétt og röng; ég má ekki segja hana og mér bar skylda til að segja hana. Bæði er sennilega alveg rétt og ég verð bara að taka afleiðingunum af því. Í þessu er einhvers staðar líka hornmótsögn sem segir að hvorugt hafi í raun skipt máli – þetta sé alls ekki móralskt eða ómóralskt heldur sé ég bara sjálfur (einsog stór hluti samfélagsins) fastur í einhverjum skylduboðsvefnaði þar sem allt skal vegið á þessum vogarskálum. Það gæti jafnvel verið einn af hornsteinum sögunnar sjálfrar. *** Og hvar stendur maður þá? Það veit ekki nokkur maður.

Untitled

Ég þreytist ekki á að fullyrða, minna á, hrútskýra, hvað sem maður vill kalla það að merking orða verður ekki til hjá þeim sem talar eða þeim sem hlustar heldur í samkomulagi beggja. Stundum rofnar það samkomulag og þá þarf að ræða hlutina betur – og þá ættu allir að hafa í huga að þeir hafa ekki sjálfdæmi um merkingu orða. Ef ég segi eitthvað ruddalegt en meina það ekki ruddalega verð ég að taka tillit til þess að þú firrtist við en þú að taka tillit til þess að ég meinti ekkert illt. (Svo geta verið aðstæður þar sem maður ætlar að vera dónalegur – það er alltílagi líka, það er bara önnur ella). Reki maður sig á og móðgar einhvern ætti að vera sjálfsagt að biðjast afsökunar – bara rétt einsog ef maður rekst utan í einhvern í búðinni af því maður var að stara á innkaupalistann, en að sama marki ætti að vera óeðlilegt að trompast eða erfa það við mann nema fleira komi til. *** Mest skitsó bókasafnið mitt. Hans Blævar lesturinn. Á myndina vantar að vísu nokkrar bækur – t.d. Born Both, sem var á hljóðbók, og Middlesex sem er á náttborðinu heima, og slatta af rafbókum. Efst má sjá útprent af The Transsexual Empire eftir femínistann Janice Raymond, sem kemur fyrir í bókinni og leikritinu. Mánudagur. Annar í páskum. Ég er lasinn í rúminu (nei, ekki bara þunnur). *** Ég er enn að fiffa í bókinni, eðli málsins samkvæmt, fikta og dútla, og lesa mikið. Á dögunum las ég – eða hlustaði, þetta var í bílferð fram og til baka til Keflavíkur – á bókina Born Both eftir Hidu Viloria, sem er intersex aktífisti í Bandaríkjunum. Hida er í áhugaverðri orðaklemmu vegna þess að hún er nógu gömul (fimmtug í ár) til þess að hafa tengt jákvætt við orðið hermafródíta og séð það síðan missa flugið og verða flokkað sem hatursorðræða. Í bókinni talar hún lengi um þetta – að intersex sé lýsingarorð en hana langi í nafnorð sem nái utan um tilveru hennar, og helst eitthvað sem sé ekki nýjung (og gefi þar með til kynna að ástandið sé nýjung, frekar en að það hafi verið bælt og falið). Hún notar að vísu hugtakið „intersex fólk“ um aðra en það er augljóst á orðum hennar að hún vildi að orðið hermafródíta – eða styttingin „herm“ eða jafnvel, nánar tiltekið, í hennar tilviki „hermafrodyke“, hermafrólessa – væri hið sameiginlega og sjálfsagða hugtak frekar en óþægilegur anakrónismi. *** Svo birtist alltíeinu hugtakið DSD – disorders of sexual development (síðar differences of sexual development ) – og fær, merkilegt nokk, stuðning frá Intersexsamtökum Norður Ameríku, ISNA. Hida tryllist og skrifar greinar og reynir að stoppa þetta – að intersex verði skilgreint sem kvilli eða truflun í kynferði manneskju. Um þetta er svo tekist á í samfélaginu, vegna þess að þar er líka að finna fólk sem vill alls ekki skilgreina kyn sitt sem intersex heldur lítur á sig sem karla eða konur með ákveðið „ástand“ – bara svona einsog maður er með valbrá eða héravör. En líka fólk einsog Hida sem vill ekki skilgreina líkama sína sem sjúka eða afbrigðilega á nokkurn hátt og samþykkir þar með alls ekki að kyn þeirra sé skilgreint með tilvísan til þess (ég verð að viðurkenna að ég þoli ekki valdgreiningu sem smættar sjúka hegðun eða kapítalismann eða yfirgang í kyn mitt; ekki „eitraða karlmennsku“ eða „hrútskýringar“ eða einu sinni „feðraveldi“ – orð hafa merkingu og það er eðlilegt að vera viðkvæmur þegar kyn manns er notað sem neikvæð einkunn). *** DSD er vel að merkja minna og minna notað – en ef eitthvað er að marka Hidu (sem það er) þá var það að taka yfir á tímabili. Og hermafródíta heyrist nær aldrei. *** Ég rak mig á það nýlega, sem ég hafði ekki tekið eftir, að á Íslandi er – skv. ágætum orðalista Trans Ísland – ekki talið við hæfi að skrifa trans- sem forskeyti, vegna þess að það sé lýsingarorð. Altso, maður á að skrifa „trans kona“ bara einsog maður skrifar „falleg kona“, en ekki „fallegkona“ eða „transkona“. Fyrir þessari afstöðu til orðsins – að það sé lýsingarorð og geti ekki verið forskeyti – er fyrst og fremst hefð í enskumælandi löndum sýnist mér. Á öllum norðurlandamálunum er talað um transkvinnor og transmænd og transpersoner og sömuleiðis á þýsku – ég held það sé óumdeilt að þau mál séu skyldust íslensku, en sennilega er hugmyndaheimur okkar núorðið meira í ætt við þann enskumælandi. Íslenskan er þess utan óvenju góð í skella saman orðum – maður getur t.d. skrifað hérumbil, þótt það séu þrjú orð. Bil milli orða eru þess utan sértækt vandamál skriftar – þau heyrast ekki nærri, nærri alltaf. *** Þessi þumalputtaregla s.s. truflar máltilfinningu mína. Ef það skyldi ekki hafa komið berlega fram. Hins vegar er mér það alveg að meinalausu að skrifa þetta einsog fólkið í samfélaginu vill. En að því sögðu þá held ég að eltist maður of hart við smáatriðin sé það ekki til þess að efla samræðuna eða auka skilning á einu eða neinu. Ég þekki fólk sem einfaldlega óttast samræðuna – kasúal eða annars lags, bara þú veist, ræða um daginn og veginn eða fara á harðkjarna ráðstefnu um trans kynfæri, hvað sem er – vegna þess að það óttast afleiðingar þess að mismæla sig. Sem er alveg áreiðanlega ekki gott fyrir samræðuna. *** Þetta er auðvitað ekkert sem hefur sérstaklega að gera með trans samfélagið heldur er þetta almennt stemningin – og ein af afleiðingum þesss að við erum öll í viðstöðulausu samtali hvert við annað með aðstoð félagsmiðla, og enn fremur öll viðstöðulaust að hlusta og dæma (læka, reiðilæka, rantkommenta og það sem verst er: læka ekki ) hvert annað. Við vinstra megin við miðjuna, eða sem köllum okkur frjálslynd, erum þess utan líka afar dugleg að sanna gæsku okkar með því að hneykslast, fárast og fordæma fólk fyrir minnstu yfirsjónir. Það, í sjálfu sér, er ekki hluti af nýju stemningunni eða internetinu – er sennilega mjög gamalt og þekktasta birtingarmynd þess á Vesturlöndum er sennilega meðal síðhippískra kommúnista á áttunda áratugnum sem voru á endanum svo réttlátir í kenningunni og ástríðufullir í baráttu sinni fyrir betri heimi að þeir gátu ekki unnið saman í hópum sem töldu fleiri en svona fimm (því annars var hætt við að einhver færi að ráfa frá hjörðinni). *** Í tengslum við Hans Blævi, leikrit og skáldsögu, er svo ágætt að hafa í huga að þótt verkið temji sér ekki neina slíka kurteisi er það ekki heldur skrifað með það í huga að hneyksla, en það er ekki heldur skrifað til þess að hneyksla ekki – enda hefðu slíkar tilslakanir verið svik við sögupersónuna (og höfundur má svíkja allt – samfélagið, móður sína*, börnin sín, hina þjáðu og kúguðu – en aldrei sögupersónur sínar). Verkið Hans Blær hlýðir sínum eigin lögum og fylgist með tilteknum aðstæðum verða til og springa út – hneykslan kemur því ekki við – persónan Hans Blær hins vegar lifir fyrir að hneyksla (ekki síst vegna þess að hánum er fremur illa við heiminn, stundum af góðum og gildum ástæðum, og stundum ekki). Ef það væri ekki fyrir viðbrögð heimsins, ef það væri ekki fyrir fólkið sem deilir bókstaflega öllu því heimskulegasta og hatursfyllsta sem það finnur á internetinu, til þess að benda öðrum á hvað einhver moggabloggari er vondur og heimskur og dreifir þar með illskunni víðar og málar mynd af heiminum sem illri en hann er, með því að afla heimskunni athygli, þá gæti hán Hans Blær sem nú er á fjölum Tjarnarbíós eða hán sem birtist í skáldsögu með haustinu alls ekki þrifist. Ég veit ekki hver hán hefði orðið, en eitthvert annað. *** Ég hef nú alveg skrifað skýrari bloggfærslur. Jæja. *** * Einu sinni spurði mig fullorðin kona á fylleríi hvernig ég gæti skrifað svona „með móður á lífi“. Það var sennilega eftir Hugsjónadrusluna. Móður minni þótti það mjög fyndið.

Untitled

Jæja. Mánudagur. Það er úr mér mestur hrollur. Þetta er allt að smella saman, held ég. Ég er allavega að skrifa eitthvað og mér líst yfirleitt best á þetta þegar ég er að skrifa. Frekar en þegar ég er bara að lesa og vorkenna mér fyrir að vera heilalaust fífl. *** Nú er að vísu mikill lestur framundan. Ég komst út á enda í bókinni í Færeyjum (sem þýðir ekki að ég sé búinn, vel að merkja, hvergi nærri) og er búinn að lesa mig einu sinni í gegn, prenta handritið út og nú liggur það á púltinu sem Valur bróðir smíðaði handa mér – og ég er búinn að stilla bókastandinum sem Haukur Már gaf mér upp fyrir ofan, þar sem ég get raðað lesnum síðum jafn óðum. *** En ég hef verið að skrifa aðeins í leikritið, sem sagt. Sem er auðvitað löngu, löngu, löngu tilbúið (ég komst út á enda á því í október). *** Leikritið Hans Blær verður frumsýnt 10. mars. Ég leit við í Tjarnarbíó á mánudaginn fyrir viku og sýnist þetta allt vera á bærilegri leið. Handritið hefur tekið talsverðum breytingum – textinn er enn næstum allur minn en það er búið að afbyggja hann hér og þar, búa til ramma sem henta sýningunni, salnum, leikarahópnum, sviðsmyndinni og svo framvegis. Ég er enn að skrifa styttri texta til að stoppa í göt og lesa í gegnum breytingartillögur. Ég kann auðvitað ekkert að skrifa leikrit, einsog ég hef margoft sagt – sennilega oftast við Vigga, leikstjórann. Ég fer aldrei í leikhús. Hef ekkert vit á þessu. Besta senan sem ég skrifaði í leikritið hefði sennilega tekið 40 mínútur í flutningi – ef leikararnir hefðu drifið sig – og hún hefði verið frábær þannig. En það hefði eiginlega ekki verið pláss fyrir neitt annað. Nú er hún – tja, fimm mínútur, giska ég. Það er passlegt. En þið trúið ekki hvað ég var sniðugur í 40 mínútna útgáfunni. Leikhúsið hreinlega hrundi um sjálft sig í eilífum snúningum. Var næstum jafn gott og bók. Ég verð eiginlega að láta að setja bara upp þessa senu einhvern tíma. *** Ég reikna ekki með því að það fari nema svona þriðjungur af þeim texta sem ég skrifaði á svið. Án þess að ég hafi góða yfirsjón yfir það. *** Í leikhúsi er líka alltaf verið að einfalda hlutina. Ef maður missir þráðinn í bók les maður bara setninguna/síðuna/kaflann aftur. Ef maður missir þráðinn í leikhúsi er maður bara búinn að vera restina af sýningunni. Skilur ekki neitt. Þetta hentar mér mjög illa því bókmenntir mínar ganga allar meira og minna út á að flækja hlutina og rugla í hinu smávægilega (sem vekur talsvert minni eftirtekt á leiksviði). Ég sker að vísu grimmt niður texta sem ég skrifa en hvergi nærri eins grimmt og í leikhúsinu. Stundum er textinn í leikverki líka ekkert nema beinagrind – aukmerkingalaus – sem sýningin er svo byggð utan á. Sérstaklega þar sem leikhópurinn hefur fengið að fitla við verkið (einsog er sannarlega raunin með Óskabörn ógæfunnar, sem eru fiktsjúk). Þar með verður öll aukmerking á forræði leikhópsins sem setur verkið upp. Í stað þess að setningarnar bíti sig í rassinn og snúist í hringi bíta augngoturnar bendingarnar í rassinn og rassarnir snúast í hringi um sviðsmyndina. Í sjálfu sér meikar það sens. Þetta er leikhús. *** Samband bókmennta og leikhúss er annars mjög infekterað, held ég. Mjög óheilbrigt á báða bóga. Best væri ef leikverk væru bara lesinn upphátt og leikarar færu bara allir að mæma. *** En svo finnst mér líka bara gaman að ranta. Rantið er vanmetið listform. *** Ég er að lesa frekar skemmtilega bók. Næstum búinn. Cock and Bull eftir Will Self. Tvær nóvellur. Önnur um konu sem fær skyndilega lim og hin um mann sem fær skyndilega kuntu. Í hnésbótina! (Konan fær liminn bara á kuntuna). Ég hef kannski einhver orð um hana hérna í næstu viku. Eða einhverja aðra úr Hans Blævar hillunni. Ég er líka búinn að gera mér ansi drjúgan lista af kvik- og heimildamyndum til þess að horfa á á næstu vikum og mánuðum. Og margt eftir í hillunni líka og eitthvað enn hreinlega í körfunni á Amazon.

Untitled

Þriðjudagur: Vikan byrjaði ekki vel. Stundum er álagið bara svo mikið. Ekki bara bókin – og ég er í fríi frá leikritinu á meðan Óskabörnin kalla ekki – en hún er plássfrekust. Mig langaði að brjóta allt sem ég komst í snertingu við og fannst einsog hver einasta mínúta – hvort heldur var við eða frá vinnu – væri glötuð mínúta. Þetta er ekki gott. Það er undarlegt hvað maður getur kastast á milli þess að finnast maður vera snillingur, fáviti, stjarna og þræll. *** Næst ætla ég að skrifa bók sem fjallar um vonina. Og hvað vonin sé góð. Og um ástina og hvað sé gott að elska. Það verður frábært. *** Miðvikudagur: Það stóð ekki til að fyrsta dagbókarvikan yrði einhver þunglyndisefi. Þetta átti að vera einn viðstöðulaus sigur út í gegn. Ég ætlaði að fara svolítið í gegnum bækurnar sem ég hef verið að lesa og tengjast efninu. En nei. Svo lendi ég bara í einhverri tilvistarkrísu. Einmitt þegar ég hélt ég væri seif. *** Eitt sinn fannst mér auðvelt að skrifa skáldsögu, tilhugsunin hlægileg (nei djók), en svo finnst mér það ekki lengur. Ég fékk mjög fínan lestur frá traustum yfirlesara sem var mjög hrifinn en benti líka á misbresti sem urðu til þess að nú liggur helvítis skepnan úrbeinuð og í milljón bitum úti um allt og ég veit ekkert – EKKERT – hvernig ég á að púsla henni saman þannig að allt gangi upp. *** Fimmtudagur: Efi leystur. Ég er séní. Byrjaður að raða saman þessum bútum og þetta gengur áreiðanlega upp. *** Föstudagur: Keyrði suður. Átti fund með ritstjóra og bókmenntasinnuðum maka hennar á Kaffi Laugalæk. Við erum á sömu blaðsíðu með hvað þarf að gera og hvort það sé eitthvað varið í þetta. *** Laugardagur. Júróvisjón og fyllerí með leikstjóra. Við erum líka á sömu blaðsíðu. Það eru allir á sömu blaðsíðu. Feillinn blasir við. En þetta er allt að koma. Vantar bara að blása lífi í gólemið. Starta vélinni, hreinsa og skrúbba, fara á rúntinn. *** Sunnudagur. Held áfram að raða í mig bókum í þemanu. Var bent á Sigurvegarann – sem verk um narsissisma. Það er auðvitað eitt af vandamálum þessara bókar – sem verður próblematísk jafnvel þó, og kannski einna helst, ef allt gengur upp – að bækur sem eru í grunninn rant úr sjálfhverfum skíthælum eru alltaf … já rant úr sjálfhverfum skíthælum. Og hver nennir að lesa slíkt? Nógu eru þeir leiðinlegir bara svona á kránni (þeir blómstra svolítið á kránni). Ég ætla að reyna að taka einn mánudag á mánuði í einhverja af þessum bókum – sem eru fæstar skáldsögur, vel að merkja. *** Mánudagur: Farinn til Færeyja. Hlustaði á viðtal við Öldu Villiljós á leiðinni til Keflavíkur – það var mjög fínt. Næstu fjóra sólarhringa get ég einbeitt mér að engu nema Hans Blævi. Ég er, einsog ég nefndi, byrjaður að raða bútunum aftur saman, en í sjálfu sér er ég ekki búinn að raða miklu saman – bara rétt blábyrjuninni (eða kafla sem verður a.m.k. frekar framarlega). Ef vel gengur ætti ég að geta púslað hálfri bókinni saman fyrir fimmtudagskvöld – svo kenni ég á námskeiði yfir helgina (en hef kvöldin fyrir mig).

Untitled

Næstu 30-40 mánudaga ætla ég að helga vinnudagbók Hans Blævar. Bókin er auðvitað næstum búin og það sama gildir um leikritið, en það er líka fífldirfska að ræða bækur (eða leikrit) mikið áður en þau eru fokheld. Því maður veit ekkert hvert þær ætla (og veit það raunar aldrei). *** Í september 2014 dvaldist ég mánaðarlangt einn á litlum herragarði skammt utan við þorpið Jonsered, sem sjálft er skammt utan við Gautaborg. Ég hafði hlotið Villa Martinson styrkinn og bjó í samnefndu húsi, á æskuslóðum nóbelsskáldsins Harry Martinson. Þar skokkaði ég um holt og hæðir, gerði jóga í dagrenningu á tíu metra háu stökkbretti við stöðuvatnið og fylgdist með kuldanum læsa fingrum sínum í villuna, eftir því sem leið á mánuðinn, heita vatninu bresta, húsinu kólna, netinu deyja og músunum naga sér leið gegnum bitana í innveggjunum. Síðustu dögunum eyddi ég á hóteli inni í Gautaborg enda orðið ólíft í húsinu, og nýlega var mér tjáð að ég hefði verið síðasti styrkþeginn þarna – því húsið hefði ekki þótt duga. Það var samt fínt að vera þarna þar til fór að kólna. Friður og ró. *** Lengst af þótti mér sem ég hefði engu komið í verk þarna. Að vísu skrifaði ég heila bók – 150-200 síður, sennilega – en bókin reyndist, þegar á hólminn var komið, alls ekki mönnum bjóðandi. Þannig er því yfirleitt farið um það sem er fljótskrifað. Þetta var reyfari, stefnulaus (viljandi) og alveg án nokkurrar fullnægju – morðið sem bókin hófst á var öllu óviðkomandi. Og raunar var það helsti galli bókarinnar að hún var eiginlega ekki um neitt annað heldur. Og hennar helsti kostur, svona þegar ég hugsa út í það. *** Ég veit aldrei hvað mér finnst um að skrifa fyrir ruslafötuna. Það þarf augljóslega líka. En það er þungt að þurfa að henda heilu og hálfu bókunum. *** Morðið var klassískt. Það var framið á herragarði (ekki Villa Martinson) í miðju matarboði. Enginn var viðstaddur og þegar viðkomandi lést sátu allir aðrir gestir í borðstofunni. Einn af gestunum hét Hans Blær og var transkynja strætóbílstjóri. Aðalsöguhetjan í þessari ómögulegu skáldsögu var hins vegar leynilögreglumaður og samskipti hans við Hans Blævi eru fram úr hófi asnaleg og hann kemst eiginlega aldrei að kjarna málsins (frekar en bókin sjálf), getur ekki yfirheyrt Hans Blævi fyrir vandræðagangi. *** Hans Blær var ljóshærð(ur) með hálfsítt hár hægra megin, rétt niður fyrir eyra, en sléttrakað vinstra megin. Hán var hávaxin(n), líklega rétt undir 190 cm, klædd(ur) í litríka og snyrtilega (dýra) mussu sem náði rétt niður fyrir rass, hvítar terlínbuxur og brúna leðursandala. Hán var með gleraugu með svörtum, þykkum, kassalaga ramma, stutta og tilklippta barta – góða skeggrót – og barmmerki sem á stóð „Yoga kills“.
[…]
„Ég vil byrja á því að forvitnast – þú fyrirgefur, þér mun sjálfsagt finnast þessar spurningar heimskulegar …“
„Það eru engar heimskulegar spurningar, einungis heimskuleg svör“ sagði Hans Blær og krosslagði fæturna í sófanum. Hippi hugsaði ég en meinti krútt eða póstkrútt, knúskrútt, og fann hvernig fordómarnir blossuðu upp. Hann hugsar um Coelho til að fá það, hugsaði ég.
„Í fyrsta lagi: hvernig viltu að ég ávarpi þig?“
„Meinarðu í hvaða kyni?“
„Já.“
„Ef þú vilt virða mig heldurðu þig við hvorugkyn. Annars er þetta víst frjálst land.“
„Og nafnið? Hvernig beygi ég það?“
„Hans í karlkyni – Hans um Hans frá Hans til Hans – og Blær í kvenkyni. Blær um Blæ frá Blævi til Blævar.“
Mig langaði að segja eitthvað um blæbrigði en náði að stoppa mig á síðustu stundu. „Hvaðan ertu?“
„Frá stelpu í strák.“
„Ha?“
„Var það ekki það sem þú varst að spyrja?“
„Ég átti við, hvaðan á landinu.“
„Bíldudal, upprunalega.“
„Upprunalega?“
„Ég flutti þegar ég var tvítugt.“
„Hvað ertu … gamalt … núna?“
„Tuttuguogþriggja.“
„Og þú keyrir strætó?“
„Frá því í febrúar. Ég vann í þörungaverksmiðjunni fyrir vestan og þau borguðu fyrir mig meiraprófið. Betur borgað en að vera á sambýli. Þessar aðgerðir eru ekki ókeypis.“
„Heitirðu Hans Blær í þjóðskrá?“
„Nei.“
„Hvað heitirðu í þjóðskrá?“
„Skiptir það máli?“
„Já.“
„Er ekki nóg að þú fáir kennitöluna mína? Þú getur svo flett þessari lygi upp sjálfur.“
„Nei, þú verður líka að segja mér hvað þú heitir. Þetta styður allt hvert annað. Ég ber saman nafn og kennitölu til að vita við hvern ég hef verið að tala. Ef nafnið passar ekki við kennitöluna eða öfugt hef ég augljóslega tekið annað hvort ranglega niður.“ *** Og svo framvegis og svo framvegis. Ég kláraði bókina og Hans Blær kom í sjálfu sér ekkert mikið meira við sögu – ég ákvað að skrifa hana ekki heldur henda henni í ruslið og snúa mér aftur að  Heimsku sem ég hafði verið að vandræðast með misserin á undan (og þessi bók var í raun hugsuð sem einhvers konar útgáfa af Heimsku , en það er pínu langsótt samt). *** Ég kláraði Heimsku hálfu ári síðar og byrjaði fljótlega upp úr því að vinna í Hans Blævi. Síðan þá hefur mikið blóð runnið til sjávar. Sviti, tár og aðrir líkamsvessar. Hans Blær er ekki lengur strætóbílstjóri heldur fjölmiðlastjarna. Hán er eldra (f. 1984) og hán er ekki PC-vinstrimanneskja – raunar því síður, hán er tröll, ekki minna trans gressíft en trans gender . Ég veit ekki hvort hægrisinnað er hugtak sem á við – það er hálfgerður anakrónismi þegar hán er annars vegar, enda er hán bæði eitthvað miklu eldra og eitthvað alveg nýtt. En að því sögðu er hán allavega ekki vinstrisinnað. Þá er kyngervi hánar ansi miklu flóknara núorðið en að hán sé bara „frá stelpu í strák“. *** En það er víst best að ég verði ekki of langorður. Þótt það sé margt að segja. Meira síðar.

Meinlætúar, dagur 31

Aldur: 39 (39)

Hæð: 198 cm (198 cm)

Þyngd: 86,1 kg (85 kg)

Hitastig: 35,8 °C (?)

Máltíðir: 2,5 (2,5)

Millimálseiningar: 1 (1)

Hlaup: 0 km (5 km)

Jóga: 0 mín (15 mín)

Íhugun: 0 mín (5 mín)

Innbyrtar hitaeininingar:  1.137 kcal (1800 kcal)

Salt: 2.781 mg (2000 mg)

Kolvetni: 125 g (200 g)

Fita: 34 g (50 g)

Prótein: 77 g (150 g)

Sykur: 22 g (0 g)

Hitaeiningum brennt með umframhreyfingu: 696 kcal (650 kcal)

Hitaeiningum brennt í hvíld: 1.914 kcal (2.200 kcal)

Skref: 4.019 (10.000)

Meðalhjartsláttur í hvíld 47 (60):

Hraðasti púls: 169

Hægasti púls: 46

Áfengiseiningar: 0 (0)

Tóbakseiningar: 0 (0)

Mittismál: 94,5 cm (90 cm)

Vaknað í morgun kl: 07.32 (07.30)

Sofnað í gær kl: 00.28 (00.00)

Skrifuð orð: 1.006 (500)

Eyddar krónur: kr 2.564 (2.000 kr).

Lesnar fagurbókmenntablaðsíður: 42 (30)

Lesnar annars konar blaðsíður: 41 (30)

Mínútur við sjónvarpsgláp: 71 mín (< 60 mín) Kaffibollar: 3

Meinlætúar, dagur 30

Aldur: 39 (39)

Hæð: 198 cm (198 cm)

Þyngd: 86,3 kg (85 kg)

Hitastig: 35,8 °C (?)

Máltíðir: 2,5 (2,5)

Millimálseiningar: 1 (1)

Hlaup: 5 km (5 km)

Jóga: 0 mín (15 mín)

Íhugun: 0 mín (5 mín)

Innbyrtar hitaeininingar:  912 kcal (1800 kcal)

Salt: 2.133 mg (2000 mg)

Kolvetni: 80 g (200 g)

Fita: 36 g (50 g)

Prótein: 60 g (150 g)

Sykur: 17 g (0 g)

Hitaeiningum brennt með umframhreyfingu: 818 kcal (650 kcal)

Hitaeiningum brennt í hvíld: 1.945 kcal (2.200 kcal)

Skref: 10.622 (10.000)

Meðalhjartsláttur í hvíld 46 (60):

Hraðasti púls: 210

Hægasti púls: 45

Áfengiseiningar: 0 (0)

Tóbakseiningar: 0 (0)

Mittismál: 94,5 cm (90 cm)

Vaknað í morgun kl: 07.05 (07.30)

Sofnað í gær kl: 23.52 (00.00)

Skrifuð orð: 1.702 (500)

Eyddar krónur: kr 5.210 (2.000 kr).

Lesnar fagurbókmenntablaðsíður: 0 (30)

Lesnar annars konar blaðsíður: 52 (30)

Mínútur við sjónvarpsgláp: 70 mín (< 60 mín) Kaffibollar: 7

Meinlætúar, dagur 29

Aldur: 39 (39)

Hæð: 198 cm (198 cm)

Þyngd: 86,7 kg (85 kg)

Hitastig: 36,5 °C (?)

Máltíðir: 2,5 (2,5)

Millimálseiningar: 0 (1)

Hlaup: 5 km (5 km)

Jóga: 0 mín (15 mín)

Íhugun: 0 mín (5 mín)

Innbyrtar hitaeininingar: 1.293 kcal (1800 kcal)

Salt: 1.910 mg (2000 mg)

Kolvetni: 146 g (200 g)

Fita: 54 g (50 g)

Prótein: 71 g (150 g)

Sykur: 21 g (0 g)

Hitaeiningum brennt með umframhreyfingu: 732 kcal (650 kcal)

Hitaeiningum brennt í hvíld: 1.925 kcal (2.200 kcal)

Skref: 8.123 (10.000)

Meðalhjartsláttur í hvíld 46 (60):

Hraðasti púls: 167

Hægasti púls: 42

Áfengiseiningar: 0 (0)

Tóbakseiningar: 0 (0)

Mittismál: 94,5 cm (90 cm)

Vaknað í morgun kl: 06.56 (07.30)

Sofnað í gær kl: 00.45 (00.00)

Skrifuð orð: 930 (500)

Eyddar krónur: kr 589 (2.000 kr).

Lesnar fagurbókmenntablaðsíður: 40 (30)

Lesnar annars konar blaðsíður: 55 (30)

Mínútur við sjónvarpsgláp: 82 mín (< 60 mín) Kaffibollar: 5

Meinlætúar, dagur 28

Aldur: 39 (39)

Hæð: 198 cm (198 cm)

Þyngd: 87,2 kg (85 kg)

Hitastig: 36,3 °C (?)

Máltíðir: 1 (2,5)

Millimálseiningar: 2 (1)

Hlaup: 5 km (5 km)

Jóga: 0 mín (15 mín)

Íhugun: 0 mín (5 mín)

Innbyrtar hitaeininingar: 1.187 kcal (1800 kcal)

Salt: 1.841 mg (2000 mg)

Kolvetni: 117 g (200 g)

Fita: 66 g (50 g)

Prótein: 66 g (150 g)

Sykur: 12 g (0 g)

Hitaeiningum brennt með umframhreyfingu: 699 kcal (650 kcal)

Hitaeiningum brennt í hvíld: 1.890 kcal (2.200 kcal)

Skref: 9.698 (10.000)

Meðalhjartsláttur í hvíld 46 (60):

Hraðasti púls: 167

Hægasti púls: 44

Áfengiseiningar: 0 (0)

Tóbakseiningar: 0 (0)

Mittismál: 95,0 cm (90 cm)

Vaknað í morgun kl: 10.56 (07.30)

Sofnað í gær kl: 00.48 (00.00)

Skrifuð orð: 6 (500)

Eyddar krónur: kr 3.290 (2.000 kr).

Lesnar fagurbókmenntablaðsíður: 0 (30)

Lesnar annars konar blaðsíður: 0 (30)

Mínútur við sjónvarpsgláp: 0 mín (< 60 mín) Kaffibollar: 8