Ég skrifaði pólitíska færslu um millistéttina og hætti svo við að birta hana. Svo datt mér í hug að skrifa eitthvað örstutt um allar mest lesnu fréttirnar á Vísi (ísfirska klámstjarnan sem ég kenndi einu sinni er þar efstur á blaði, víetnamski kokkurinn sem fær ekki að búa á landinu næstur, svo Davíð, Styrmir, Arna Ýr, hún þarna Snapchatdrottningin, og Weinstein, Spacey og Morrissey reka lestina, ekkert um jökulinn eða stjórnarmyndunarviðræður eða Zimbabve eða Mugabe eða Norður Kóreu eða Trump og fílabeinið) en ég nennti því ekki heldur. *** Ég verð sennilega veðurtepptur í fyrramálið. Fastur í Reykjavík og þá tekur því ekki að fara heldur með seinni vélinni, jafnvel þótt hún næðist, því ég á pantað flug aftur til Reykjavíkur á miðvikudagsmorgun. Svona er þetta. Ég er búinn að gera ráðstafanir til að láta þetta allt ganga upp. *** Ég átti annars ljóð á Starafugli í síðustu viku. Það er birt af tilefni ljóðakvölds sem verður á Bar Ananas á miðvikudagskvöldið. Kvöldið heitir Bláa Hawaii en ljóðið mitt, sem er úr Nihil Obstat og birtist með hljóðupptöku, þar sem ég leik tónlist og hvaðeina, heitir Ástir og ananas (en það var einmitt rúvþýðingin á titli kvikmyndarinnar Blue Hawaii með Elvis Presley). Þið finnið þetta hér . Starafugl birtir eitt ljóð eftir alla sem lesa upp á kvöldinu fram að upplestri. *** Ég lauk við Hnotskurn og byrjaði á The Unwomanly Face of War eftir nóbelsverðlaunatrúbadorinn Svetlönu Aleksevitsj. Sú bók heitir á sænsku Kriget har inget kvinnligt ansikte. Stríðið á sér enga kvenlega ásjónu – sem er ekki sama og Ókvenleg ásjóna stríðsins, þótt túlka megi bæði eins, þá halla þeir hvor í sína áttina. *** Titillinn sem sagt. Í senn má segja að hann tjái að hlið kvenna í stríðinu – seinni heimsstyrjöldinni – hafi ekki verið sögð og því skorti þessa ásjónu, þessa representasjón, einsog Aleksevitsj reyndar ítrekar í formála, en líka þannig að stríðið sé alls ekki kvenlegt, einsog er líka sums staðar gefið í skyn, og jafnvel – sem er áreiðanlega ekki meiningin – að stríðið sé enginn staður fyrir konur (af því þær séu minnimáttar). Reyndar verður manni ekki síst ljóst af lestrinum að þvert ofan í það sem Aleksevitsj segir sjálf í formálanum, þá er stríð kvenna alls ekki ósvipað stríði karla – a.m.k. ekki einsog það birtist í bókmenntum – og einkennist í senn af því hversu þungbært það er að drepa annað fólk og því hversu auðveldlega það kemst upp í vana. Og það er áhugavert að í frásögnum karlanna – sem hafa vissulega haft orðið – skáldsögum og ævisögum þeirra, er stríðinu jafnan lýst sem ómennsku, en ef maður tekur Aleksevitsj á orðinu þá er það ekki ómennskt heldur karllægt. Þetta er sennilega eitthvað hírarkíuspursmál. *** En þá er ágætt að minna sig á að bókin er skrifuð 1987, í Belarús, og sagan af stríðinu var allt önnur handan járntjaldsins. Þetta sjónarhorn – með drullunni og skítnum – er sennilega sjaldséðara þar en til dæmis í Finnlandi, þar sem sú frásögn hefur viðgengist og verið endurtekin ad nauseam/gloriam a.m.k. frá því Vaino Linna gaf út Óþekkta hermanninn 1954. Í austantjaldslöndunum var sennilega meiri dýrð yfir stríðinu. *** Þá er líka áhugavert að Alexevitsj gerir því fyrst skóna að það hafi ekki verið hlustað á konur vegna þess að þær hafi ekki sagt „réttu“ söguna af stríðinu – og svo fer hún strax sjálf að tala um að konurnar sem hún talaði við hafi margar hverjar verið ósáttar við bókina, því Aleksevitsj hafi verið að leita að öðrum sögum en þær vildu segja, stýrt verkefninu þannig að saga þeirra skældist – þeim fannst of lítil dýrð og of mikil drulla. Aleksevitsj lætur þetta sér í jafn léttu rúmi liggja og körlunum sem hún hafði rétt lokið við að lýsa – nema að hún kemur gagnrýninni í orð í formálanum. Því auðvitað er hún ekki bara spegill – hún er rithöfundur, listamaður, og hún hefur einhvers konar agenda, sem hún orðar meira að segja, að í stað þess að leita að stóru narratífu stríðsins sé hún að leita að litlu narratífu tilfinninganna. *** Og svo skortir reyndar ekki – a.m.k. ekki enn, ég er búinn með fjórðung – ekkert á stríðsdýrðina, þótt svo sé látið í formála. Þarna er fólk að kasta sér svo til óvopnað á skriðdreka nasista og fleygja sér á sprengjur til að bjarga félögum sínum og skrá sig í herinn af fullkominni og jafnvel yfirgengilegri ástríðu – og einhverjar hreinlega fyrir ástina, til þess að geta elt kærastann í opinn dauðan. Það er mikið drama þarna og kunnuglegt, og móðurlandsástin ristir djúpt í þessum óttalausu ungmennum. *** Ég veit ekki alveg hvort þetta er að gera mikið fyrir mig samt. Sagði hann kaldranalegur. Sem bókmenntir meina ég, hélt hann áfram þegar hann var farinn að fyrirverða sig fyrir kaldranaleikann. Þessi collagetækni finnst mér oft góð og ég er mikið gefinn fyrir Reznikoff, Heimrad Bäcker, NourbeSe Philips, Kenneth Goldsmith og fleiri sem nýta sér trámatískar frásagnir annarra til þess að gera úr þeim bókmenntir. Kannski finnst mér bara vanta meira samhengi – eitthvað kraftmeira. Kannski meiri úrvinnslu – betra samhengi, frekar en að hún spyrji bara spurninga og svo komi 12 svör hvert á fætur öðru. Kannski er hún sjálf og nærvera hennar að þvælast fyrir mér. Kannski eru nóbelsverðlaunin að þvælast fyrir mér – eru þetta nóbelsverðlauna viðtöl? Og hvað þýðir það eiginlega? Líklega er ég að ofhugsa þetta allt – Nadja las bókina um daginn og hún sáði einhverjum efasemdarfræjum hjá mér, sem ég er að vinna úr. Þrír-fjórðu eftir og svo ýmislegt fleira í höfundarverkinu. Ef Nadja hefði ekki keypt þessa fyrir bókaklúbbinn sinn hefði ég sennilega byrjað á Secondhand Time eða Tsjernóbilbókinni.
Author: Eiríkur Örn Norðdahl
Untitled
Ég gisti í svítunni á Holiday Inn í Toulon en þarf að fljúga svo snemma frá Marseille í fyrramálið að ég var fluttur í einhverja skúringageymslu alveg við flugvöllinn í nótt. Mér finnst einsog ég hafi lækkað í virði, ég hafi jafnvel verið svívirtur, og nú sé ég – óskabarnið – ætt minni allri til skammar. Ég hefði getað haft stíl, hefði getað verið kempa. Ég hefði getað verið einhver . Í staðinn fyrir að vera núll og nix. Sem ég er. *** Mér lá svo á að lesa jólabókaflóðið í ár að ég byrjaði óvart á jólabókaflóðinu 2018 og veit hvaða bók verður besta bók flóðsins – hugsanlega sannasta og brjálæðislegasta skáldsaga næsta áratugs. Það er allavega langt síðan ég las aðra eins bók. Hún er eftir vin minn og þið eigið áreiðanlega ekki eftir að taka neitt mark á mér fyrren þið lesið bókina sjálf. *** Ég er samt ekki búinn að lesa margt í flóðinu í ár. Er núna að lesa Hnotskurn eftir Ian McEwan. Hún er fín – fjarskaplega fyndin, afska skemmtileg. *** Annars er merkileg þessi tilhneiging (sem ég sýni hér að ofan) hjá bókmenntafólki (sem finnur til sín) til þess að vilja vígja aðra höfunda til riddara. Það fer svolítið fyrir þessu á blogginu núorðið og auðvitað krökkt af þessu á Facebook. Í sjálfu sér er þetta í senn fallegt og einlægt og ærlegt og einhvern veginn alger kollegaskjallsskítafýla – og í verstu tilfellunum finnst manni einsog höfundur vilji með því setja sig yfir náunga sinn. Ég man eftir svona loksins, loksins umfjöllunum ráðsettra skálda um önnur ráðsett skáld , sem voru löngu fram komin og búin að vinna til allra mögulegra verðlauna, og ekkert augljósara að annar ætti að vígja hinn frekar en öfugt. Þá fannst mér einsog skjallarinn væri fyrst og fremst að segja að hann væri kóngur en hinn væri mjög efnilegt peð, gæti sennilega orðið riddari, ef hann héldi áfram að skrifa einsog kónginum sæmdi. *** Því þið vitið, ef ég fer að skjalla einhvern einsog hann sé the great new hope íslenskra bókmennta, þá er ég ekki bara að vígja hann eða hana til riddara heldur sjálfan mig til grand old man of letters (ég myndi sennilega sletta minna ef ég vildi að fólk tæki mig alvarlega samt). *** En þessi bók (sem ég held leyndu hver er) er samt alveg stórfengleg. Ég tók andköf og hún snýst í hringi í höfðinu á mér og ölvar mig. Oss er frelsari fæddur, hann er minn einkasonur o.s.frv. og ef þið krossfestið hann er mér að mæta og það er samt bannað að elska hann meira en mig. Þið skuluð bara einn guð tigna, en verið góð við frelsarann, og ekki gleyma því að hann er þarna í mínu nafni, snilld hans á að varpa góðu ljósi á mig. *** Í öðrum leynifréttum þá byggði ég gróðurhús á síðustu helgi með systkinum mínum. Pabbi minn, Hrafn M. Norðdahl, sjómaður, rækjuverkamaður, kjötverkunardroppát (sagaði af sér fingur), verkstjóri og timburlangari, varð sjötugur nú á föstudag. Hann hélt upp á afmælið í Riga í Lettlandi með mömmu. Gróðurhúsið er afmælisgjöfin hans frá fimm af sex systkinum (það sjötta fór út með honum til Riga) og mömmu. Við þrjú sem erum fyrir vestan byggðum það síðan. Hann fékk myndband af byggingarstarfinu í gær og kemur heim og sér húsið á morgun. Mér skilst að hann sé mjög ánægður með þetta. Hann er með hænur í garðinum, svo þetta er viðbót í búskap sem var þarna fyrir. *** Þetta var soldið moj. Við reistum það á gömlu kartöflubeði sem var eiginlega bara orðið að drullubing. Nóvember er auðvitað ekki alveg skemmtilegasti tími ársins til þess að vera að reisa gróðurhús – en við vorum bærilega heppin með veður samt, miðað við árstíma. Það var lítið frost í jörðu þótt það væri snjór, en Eyri við Skutulsfjörð er alræmt grjótbeð, svo það var ekki alveg þrautalaust að grafa fyrir grunninum fyrir það. Svo var auðvitað skíthelvíti kalt – ég var í þremur lopasokkum hverjum yfir öðrum og þykkum vetrarklossum og samt loppinn á tánum eftir báða dagana, sérstaklega þann fyrri af aðaldögunum. Við fórum fjóra daga í röð en gerðum mest fyrstu tvo – meðan það var helgi – hina dagana vorum við bara að fínísera í kring, leggja rafmagn og svona. *** Það blés reyndar hressilega aðfararnótt sunnudagsins – nógu hressilega til að hrekja litla bróður fram úr. Hann mætti um miðja nótt til að gæta að húsinu – hvort það kæmist nokkurs staðar gustur inn, sem gæti feykt því á loft. En það var auðvitað alltílagi. *** Svo tókst mér líka að eyðileggja tvö pör af hönskum – fáránlegt rugl af mér að fara með þá fyrri, sem ég fékk að gjöf á feðradaginn í fyrra (í ár fékk ég bjór og vodka – það var víst Aino sem stakk upp á þessu). Hinir voru bara svo eitthvað drasl úr Nettó en maður á samt að fara vel með drasl líka – þótt ekki væri nema bara af umhverfisástæðum. Ég hefði keypt mér almennilega vinnuvettlinga – svoleiðis kemur sér oft vel – en það var bara lokað í Húsasmiðjunni. ***
Untitled
Það er byrjað að kvarnast úr VG og ekki einu sinni búið að mynda stjórnina. Það boðar ekki gott fyrir framhaldið. Ef Kata kemur ekki beinlínis með massífa þjóðnýtingu, úrsögn úr NATO, fimm ára plan um móttöku 40 þúsund flóttamanna og höfuðið á Harvey Weinstein – stjaksett á fána lýðveldisins – er þessu sennilega bara sjálfhætt. Það er ofbeldi að mynda ríkisstjórn í trássi við vilja meirihluta kjósenda sinna – og þá skiptir engu hversu mikla „ábyrgð“ mann langar að axla. Maður hefur ekkert helvítis umboð til þess. *** Ég er ekki í flokknum og kaus hann ekki – og finnst ég hafa sloppið bærilega. Kaus hann fyrir ári. Ég hafna allri ábyrgð á þessu þrátt fyrir sósíalískar kenndir og þrátt fyrir að ég styðji flokkinn í anda. *** Er kominn tími til að vekja rassinn? Frétt með þessum titli vakti athygli mína. Ég smellti á hana, hugsaði að miðilllinn hefði gott af auglýsingatekjunum, sennilega eru menn eitthvað farnir að örvænta. Fréttin stóðst auðvitað engan veginn væntingar mínar. *** Dagur Hjartar veitir Vigdísi Gríms og Gunnari Helgasyni verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Þetta heitir á sænsku að vera „lillgammal“. Ljóðabókin hans er annars að gera allt vitlaust, fær fimm stjörnur úti um allt. Eða í versta falli fjórar og hálfa. Ég man ekki hver fékk hana fyrir Starafugl en hún var komin út og von á dómi. Verst að við gefum engar stjörnur. En svona jákvæðir dómar hafa sem sagt ekki sést síðan mogginn birti minningargreinarnar um Sigfús Daðason. Bókin hlýtur að vera til í fríhöfninni. *** Annar skil ég ekki hvers vegna forlögin eru ekki duglegri í að reyna að mýkja mig upp og hreinlega gefa mér bækur. Það er ekki nóg með að ég ritstýri Starafugli heldur á ég fallegasta ljóðabókasafn landsins og safna ljóðabókum. Ljóðin eiga heima hjá mér. Og ég er ótrúlega grimmur og langrækinn við þá sem sleikja mig ekki upp, það verður bara að segjast. *** Hitti Steinar í kaffi. Hann sagði að lífsháskinn væri miðja einhverrar 20. aldar fagurfræði og við værum dauðir gamlir höfundar sem skildum ekkert lengur – gætum allt eins sest í helgan stein, strax og Rúblan verður seld (svo fjölga megi lundum og fækka bókum). Nei, hann sagði þetta ekki, en hann fór ansi nærri því. *** Rákumst á Ástu Fanneyju líka. Hún var með mann upp á arminn og sagðist þurfa að læra sænsku. Helst á þriðjudaginn. Það vantar ekki í hana lífsháskann. *** Nú er ég kominn til Keflavíkur. Sef á flugvallarhóteli í nótt. Ég er svo þreyttur að ég vona að hún komi fljótt.
Untitled
„Það er einkennileg list sem lofsamar bara hið eðlilega“, sagði vinur minn við mig nú í morgun. Þessu mætti auðvitað snúa við og segja að það væri „eðlileg list“ sem lofsamaði bara „hið einkennilega“. *** Eða eðlileg list sem lofsamaði bara hið eðlilega og einkennileg list sem lofsamaði bara hið einkennilega. *** Það er Entartete Kunst sem lofsamar bara der Entartete? *** Umfjöllunarefnið var pistill í Guardian þar sem stóð að maður mætti ekki (lengur?) hlæja að Louis CK af því hann hefði fróað sér fyrir framan fólk. Konur, altso, fólkið var konur og sennilega var það hluti af perversjóninni. *** Louis hefur löngum ástundað það sem heitir „self-deprecating humour“ – það er að segja, punkturinn í list hans er að maður hlær ekki jafn mikið með honum og maður hlær að honum. Þetta er þó ekki endilega alltaf auðvelt að skilja í sundur. En list Louis er ekki endilega með honum „í liði“ – það mætti jafnvel segja að list hans níði hann sjálfan og hafi hann að háði og spéi. *** Það er self-deprecating list sem lofsamar bara hið self-deprecating? *** Ég þyrfti endilega að fara að komast á íslenskunámskeið. *** Það er Entartete Kunst sem lofsamar bara hið self-deprecating? *** Við getum alveg tekið nokkra snúninga á þessu í viðbót. Ég er ekki alveg á því að maður eigi að slíta listamanninn frá listaverkinu – að hann komi því ekki við, hver hann er, hvað hann meinti o.s.frv. – en mér finnst út í hött að bera saman menn einsog Bill Cosby, sem jaðrar við að vera ómennskur af ógeði, og Louis CK, sem er einmitt alveg fáránlega mennskur. *** Pervert, meina ég. Fáránlegur pervert. *** Kannski væri réttast að refsa Louis eitthvað – mér finnst sennilegt að þetta sé ólögleg hegðun – en ég á litla samleið með því fólki sem finnst að hann ætti helst ekki að eiga endurkvæmt, hann sé einhvers konar persona non grata. *** Ef ég væri forseti myndi ég skrifa upp á uppreist æru fyrir hann, að einhverjum skilyrðum uppfylltum. *** En ég myndi auðvitað ekki vera forseti og ber reyndar takmarkaða virðingu fyrir þannig siðferðisgjörningum. Ég meinti þetta meira metafórískt. *** Reyndar er þetta metafórískur gjörningur. Ég skil ekki hvernig ég hefði getað meint þetta eitthvað öðruvísi. *** Það er pervertísk list sem lofsamar bara hið pervertíska? Ég væri að ljúga ef ég segðist ekki líka sjá lofsömunina hjá Louis – mónólógar hans eru samtvinnuð skömm og fögnuður. Svona fokk hvað við erum öll ógeðslega vonlaus er það ekki frábært? *** Kannski var Louis að vona að hann væri ekki eini pervertinn í húsinu. Og auðvitað var hann það ekki. Hann var bara sá eini sem blottaði sig.
Untitled
Óratorrek mun koma út á dönsku, sænsku og grísku. Að minnsta kosti (ég er vongóður um enska útgáfu líka). Sem er mjög gott. Svo er ljóðakvöld í Reykjavík eftir rúma viku – þá er ég á ferðinni til að lesa upp í einkasamkvæmi morguninn eftir. Bláa Hawaii, heitir ljóðakvöldið. *** Illska kemur líka út á spænsku, skilst mér. Og er komin á þriðju prentun í Grikklandi. Alveg spriklandi! *** Ég held áfram að skrifa Hans Blævi. Suma daga finnst mér þetta alger snilld og aðra daga er þetta það ömurlegasta sem hefur verið skrifað á jarðríki. Viðstöðulaust röfl. Og auðvitað er þetta viðstöðulaust röfl, ekki jafn viðstöðulaust röfl og sum meistaraverk bókmenntasögunnar, en samt. Þarf þetta að vera svona mikið röfl? *** Og ef það verður flogið til Reykjavíkur á fimmtudag fer ég til Toulon í suður Frakklandi á föstudag. Til að sækja mér svolitla sól. Og sitja og árita bækur í hundrað þúsund klukkustundir. Frakkar eru áritunaróðir.
Untitled
Í gærkvöldi þegar ég var að laga matinn bað ég Siri – á ensku, hún kann bara ensku – að minna mig á „light ball“ í dag. Af því ég ætla að kaupa ljósaperur á eftir. Rétt í þessu fékk ég áminningu um „light bald“ og kannski lýsir það ástandi mínu bærilega, léttsköllóttur, ekki alveg sköllóttur, bara svona létt. *** Ég má samt ekki gleyma að kaupa þessar ljósaperur. *** Aino Magnea er lasin heima – ég er kominn í vinnuna og er að borða laxaborgara með kimchi, afganga frá kvöldmatnum í gær. Það er heitt á könnunni en pínu soðið. Ég byrjaði daginn heima og krukkaði svolítið í Ko Un dómnum mínum, sem verður á Starafugli þegar ég er búinn að skrifa hann, fór svo í ræktina og hingað. Aino er með frænku sinni heima. *** Í ræktinni var mér sagt að kindur á Íslandi séu ekki nema 400 þúsund núorðið og fari hratt fækkandi, hafi eitt sinn verið 2 milljónir. Mér finnst einsog einhver verði að fylgjast með því – búa til niðurtalningu fram að þeirri stund er sauðfé verður fámennara en fólk í þessu landi. Það verður tímamótadagur, hvað svo sem manni finnst um það – hipsterarnir gleðjast sennilega, þeir vilja bara einhverjar spænskar skinkur og franska osta, nema kannski þeir sem eru með N-Afríkublæti (og stöku þjóðernishipster). Bændurnir gráta bara og ráðherrarnir segja að það verði að fækka þeim líka, bændunum, en þeir eru auðvitað löngu færri en kindurnar. Algerlega outnumbered.
Untitled
Vil ég skrifa ljóð fyrir nýjan amerískan krimmabálk sem gerist á Vestfjörðum? Áætluð sala er um 15 þúsund eintök per skáldsögu – en guð einn veit hvað gæti orðið. Höfundurinn er áhugasamur um að það sé alvöru ljóðlist, skrifuð af alvöru ljóðskáldi, í bókinni. *** Því miður eru engin laun í boði, en mikil dreifing og athygli. Exposure . *** Vil ég það? Er þetta áhugavert prójekt? Ég veit ekkert meira um prójektið en þið. *** Það er náttúrulega alltaf niðurlægjandi að vinna ókeypis að verkefni sem veitir öðrum tugmilljónir í hönd. Hvað sem öðru líður. Að ímyndaður eða raunverulegur aðstöðumunur – mín sem er smábæjarskáld á jaðri hins byggilega heims og krimmahöfundarins sem er stórborgarhöfundur (í vinfengi við Stephen King!), að ótöldu forlaginu („one of the big five“) – geri það að verkum að ég eigi að vinna fyrir hann fyrir enga peninga. Vegna þess að hann elskar ljóðlistina svo mikið. Og vegna þess að það er í því „exposure“. Hann er svo stór að stærð hans stækkar mig átomatískt. *** En maður vinnur ekki exposed. Vinnur ekki fyrir dagsljósið nema maður sé algerlega sviptur því annars. Hér er nóg dagsljós. Það er alveg ljóst. Ég þarf að svara manninum. *** Svaka frétt á RÚV um öll skáldin sem eru á faraldsfæti. Sem er auðvitað ekki frétt, skáld eru alltaf á faraldsfæti, sérstaklega árin eftir Frankfurt, grunar mig. Stærsti hópurinn er að fara á Les Boreales í Frakklandi – þangað fórum við Nadja saman fyrir tveimur árum, og skemmtum okkur vel. Á sama tíma verð ég (svo ég fái nú að koma mér að á mínu eigins bloggi, fá svolítið exposure) í suður Frakklandi, í miklu betra veðri og með betri mat (hah!) á bókmenntahátíð í Toulon. Lise vinkona mín hjá forlaginu ætlar að koma og selskapa, og vinkona hennar Marie, sem er bókmenntaprófessor og ítölskuþýðandi, ætlar að koma og við ætlum að sturta í okkur Chartreuse einsog enginn verði morgundagurinn, einsog við höfum gert a.m.k. tvisvar áður. En frá þessu er ekki sagt í Ríkisútvarpinu! Sem fyrirlítur mig af því ég elska sjókvíaeldi, RÚV only has eyes for Reykjavíkurhippsterar og það elskar mig enginn! *** Enginn! *** Ég var annars eitthvað að velta þessu eldi fyrir mér um daginn og eldisblæti mínu, sem nær reyndar lengra og dýpra – þetta er blæti fyrir nærri allri matvælaframleiðslu. Mér finnst ekkert heiðvirðara en að framleiða mat. Það hefur ekki beinlínis með mat reiðslu blæti mitt að gera, sem er annað, heldur bara þetta – að framleiða matvæli er að viðhalda lífi sem er að búa til líf og það er ekkert fallegra, ekki neitt. Ég fæ líka alveg aðsvif þegar ég sé bændur að störfum eða drekkhlaðna togara koma siglandi inn fjörðinn. Love it, einsog Siggi Sigurjóns í Dalalífi, og get ekkert að því gert (nema að hafa húmor fyrir því). Lít rækjuverksmiðjuna sem ég vann í sem barn og unglingur með nostalgíu sem hún á áreiðanlega ekkert skilið (ég var mjög glaður síðasta daginn minn, rétt ríflega tvítugur, að þurfa aldrei að koma þarna inn aftur). Án þessarar rækjuverksmiðju, hugsa ég, myndu svona 200 manns svelta í hel daglega. *** Mér fannst líka mjög gaman að eiga stóra frystikistu áður en hún gaf upp öndina. Að kaupa skrokk með Vali bróður. Ég sem get ekki einu sinni eldað kjöt nema endrum og eins, af því konan mín borðar það ekki (og ég nenni ekki að elda margar ólíkar máltíðir daglega, nema einmitt endrum og eins). Ég notaði hana líka til að geyma afganga í miklu magni (sem Nadja hitar þegar ég er á ferðalögum), og heimatilbúinn súpukraft og rækjuskel (til að búa til rækjukraft) og alls konar. Litli frystirinn á (annars fallega rauða) ísskápnum mínum rúmar varla klakann í kokteilana mína. *** Það var líka gaman að fara á markaðinn í Víetnam. Það var alvöru. Og ég vissi oft ekkert hvað ég var að kaupa. Bara mat . Og svo lagaði maður matinn. Einsog hann væri ekki fullkominn, beint af kúnni. *** Ekki að það sé ekki líka gaman núna. Mjög gaman. Ég var að klára plokkfiskafgangana sem ég tók með mér í hádegismat og snart er kaffen klar, einsog segir í vísunni. Ég kannski sendi ameríkananum þá vísu bara. Segist hafa skrifað hana sjálfur og þetta sé á íslensku, hvort það sé nokkuð verra?
Untitled
Óveðrið var ekki langlíft hér á Vestfjörðum og nú kyngir niður snjó í stillunni. Það er að vísu helst til hlýtt og sennilega situr þetta ekki lengi. En í mínum gamla heimabæ, Hoi An, er allt á kafi. *** *** Af myndum að dæma hefur þó lítið farið fyrir fellibylnum í Hoi An eða Danang – þar sem Trump og Pútín og fleiri eru að fara að hittast í næstu viku (Danang er þriðja stærsta borg Víetnam og liggur 40 mínútna akstur frá Hoi An – það er APEC ráðstefna yfirvofandi). Á þessu svæði hefur aðallega bara rignt. Myndirnar eru flestar teknar í gamla bænum sem liggur niðri við ána og þar gerist svona nokkuð a.m.k. árlega – og ég hef séð eldri myndir þar sem vatnið kaffærir allri fyrstu hæð, 2-3 metra dýpi. Þetta er ekki nema svona 40 sentimetrar og gerð húsanna tekur mið af slíku – fólk er með sitt aðalhafurtask á annarri hæð, fyrstu hæðir þessara steinhúsa eru oft frekar tómlegar og allt á auðflytjanlegum einingum. *** Myndirnar frá Ðalat og fjallahéruðunum eru miklu rosalegri. Þar hafa tré rifnað upp með rótum og aurskriður verið miklar og virðist almennt meira panik – fólk að bjarga verðmætum. Myndirnar frá Hoi An eru muy tranquilo. Ég myndi skrifa nágrannakonu okkar, Hien, og spyrja um ástandið, hún er sú eina sem við erum í sambandi við, en Hien er bara flutt til Sai Gon. *** Þegar við bjuggum þarna rigndi einu sinni svona svakalega. Það var utan regntímabilsins (sem lýkur á bilinu seint í nóv. til seint í des.) – sennilega í mars. Brast bara á með ægilegu regni í nokkra daga. Fyrir utan hjá okkur, sem er ofar í bænum við „venjulegri“ götu – þessi miðaldabær er eiginlega bara búðir og veitingastaðir – var ekki nema nokkurra sentimetra flæði í götunni. En ég hjólaði í bakaríið með Aino á bakinu og fór þá eftir Tran Hung Ðao og Cua Ðai, sem liggja meðfram gamla bænum, og þar náði vatnið upp á húdd bíla, og mitt læri á mér. *** Ég finn enga mynd af þessu. Sennilega tók ég enga. En hér er mynd af börnunum mínum í Hue – þegar við brugðum okkur þangað í helgarferð – þetta hefur verið kaldur dagur. Það er líka vatn á myndinni, þótt það sé ekki flóð.
Untitled
Eftirtaldir kokteilar eru núna í eftirlæti hjá mér: Pisco Sour, Negroni, Laughing Buddha. Ég þarf að herða mig í blönduninni og gera betri Old Fashioned-a, Dark’n’Stormy-a og Sazeraca. Ég hef enn ekki séð sjarmann í Martini. Ég er of mikill lúterani í sálinni til að geta drukkið BlóðMaríur í þynnkunni og finnst þær eiginlega hvergi passa annars staðar. Mjög góðar samt. Svo blandaði ég mér einn frumsaminn kokteil á dögunum úr ylliblómagosi, fannst hann góður, en man ekkert hvað ég setti í hann. *** Gerði samt bærilegan Dark’n’Stormy í kvöld. Vantar bara dekkra romm í það. Mér skilst það sé lögbrot að kalla drykk Dark’n’Stormy ef það er ekki bermúðskt Gosling romm í honum – þetta er skrásett vörumerki. En ég átti ekkert svoleiðis, notaði bara Flor de Caña frá Níkaragva, sem var aðeins dekkra en Habana Clubið mitt. En þetta eru auðvitað gylltir drykkir frekar en dökkir – Gosling er nánast svart. *** En hér er sem sagt Dark’n’Stormy. Hávaðastormur svo timburkumbaldinn Sjökvist leikur á reiðiskjálfi og auðvitað kolniðamyrkur. Dagurinn fór í að setja vetrardekk á hjólakost fjölskyldunnar (Aino fær vetrardekk að ári en verður í farþegasætinu hjá mér fram á vor), svo fórum við í sund – ég stakk af snemma til að fara í búðina og koma heim og gera jóga áður en gengið mætti (við erum extramörg í kotinu; sautján ára systurdóttir Nödju er í heimsókn með hálfsársgamlan son sinn). *** Svo hirti ég gamla hnetusósu sem ég átti í ísskápnum – hafði hrært sem ídýfu þegar við átum ferskar vorrúllur á dögunum – þynnti hana með kókosmjólk og dembdi yfir kjúkling og bleikju sem var eldað í ósköpunum. Næst tók ég brauðdeigið sem lá hér frá í gær og gerði úr því hálfgert naan, og hafði með þessu, auk hrísgrjóna og gúrku- og tómatsalats. *** Eftir mat – og eftir að ég hafði lagt Aram og Aino, við erum að lesa Framúrskarandi konur fyrir Aino (sem framúrskarandi konan amma hennar þýddi) og Nils Hólmgeirsson (sem er kallaður Nilli í bókinni en ég get ekki sagt, af hverju má hann ekki bara heita Nils, eða í versta falli Níels?) eftir Selmu Lagerlöf – sem sagt eftir mat blandaði ég mér þennan kokteil og lagðist í sófann með Bill Evans í eyrunum, storminn innra með mér á vörunum og storminn ytra í glugganum, og Ko Un í öllum öðrum vitum. Og fannst einsog það skorti kannski lífsháskann í líf mitt. *** Ég hef hugsað talsvert um lífsháska síðustu daga. Og lífsháska lífsháskans í íslenskum bókmenntum. Þetta er voða mikið … list listarinnar vegna er rangt orð. Sköpunargleði sköpunargleðinnar vegna, kannski – og þessi ægilegi viðstöðulausi fögnuður (nú er kokteillinn farinn að tala). Svo ég segi ekki dundur. Fínt, fágað, hugmyndaríkt en einsog það hafi ekki kostað viðkomandi neitt og sé bara gert til þess að eiga starfsferil við eitthvað skemmtilegra en að afgreiða í búð. *** Íslenskir stjórnmálamenn væla of mikið og gráta ekki nóg, skrifaði ég inn á Facebook (hvaðan ég er horfinn) þegar kollegar mínir í vinstrinu voru að missa sig yfir „krókódílatárum“ Ingu Sæland – sem mér þóttu virðingarverð. Kannski má hið sama segja um íslenska listamenn. *** Tahar Ben-Jalloun var einu sinni á Íslandi og nefndi að sér þætti voða gott að sjá að Íslendingar þyrftu ekki að skrifa um alvarlega hluti, af því hér væri lífið svo auðvelt. Ég sá viðtal við tónlistarmann á dögunum þar sem hann talaði af mikilli alvöru um þunglyndi og alkahólisma í bransanum og leiðir til þess að vinna bug á … blúsnum. Ég stóð mig að því að hugsa að von bráðar sætum við kannski uppi með mjög hamingjusama listamenn og leiðinlega list. *** Ekki vanhagar mig allavega um neitt. Líf mitt er hreinn lúxus frá morgni til kvölds alla daga vikunnar. Mitt stærsta vandamál er að eiga of fáar rommtegundir í vínskápnum mínum.
Untitled
Getgátur um þann sáttmála sem stjórnmálaflokkarnir fjórir reyna að berja saman í sumarbústað Sigurðar Inga (eða eru þau annars staðar í dag?) eru merkilegt sport. Píratar þurfa að fórna öllu, þetta verður dýrkeypt fyrir Samfylkingu, Vinstri Græn verða látin virkja og Framsóknarflokkurinn svíkja bændur. Samt veit enginn hvað fólk er að tala um, nema bara grófu línurnar – að allir þurfi að miðla málum, sem segir sig sjálft, líka í tveggjaflokkastjórnum. *** Það er líka áhugavert að heyra fulltrúa flokkanna tala um að nú verði að vinna að stóru málunum en láta hin sitja á hakanum. „Hin“ eru – sennilega, út á það ganga a.m.k. getgáturnar – stóru málin í flokkunum sjálfum, hjartaspurningarnar heitir það á sænsku. ESB og það allt saman. Það sem fólki utan flokksins finnst oft bara vera meinlokur. Beint lýðræði pírata. Ég átta mig reyndar ekki á því hvað það væri í VG – kannski að einkarekstur væri meira tabú en hann er, allavega vinstra megin, og grænumegin að virkjanir yrðu stöðvaðar. Hvað vilja Framsóknarmenn, innst inni, veit það einhver? Hvað er inni í Framsóknarmanni? *** En þessar getgátur sem sagt, kannski mínar líka, eru sennilega mest hugsaðar til þess að skapa óró í grasrótinni – sem bíður einsog allir aðrir eftir svörum. Að fólk fari að hringja í Þórhildi Sunnu og öskra reitt að ef það fái ekki stjórnarskrá muni það hér eftir klippa krossgátur föður hennar úr blöðunum og henda þeim í ruslið óleystum. *** Þetta er harður bransi. *** Við Nadja fórum út að borða í gær. Og svo í drykki hjá Geira og Leu – hlustuðum á Kraftwerk, AC/DC og Massive Attack. Og reyktum sígarettur á svölunum (aðallega ég samt, eða bara ég, Geiri gasaði sig). Fjöllin voru fögur. Nú ætla ég út í snjóinn að hlaupa af mér sígaretturnar. Hlaupa uppi lífið og heilsuna. Og hér er sem sagt allt á kafi í snjó, best að setja á sig mannbroddanna, engar á ég snjóþrúgur. Og hlýju peysuna, síðu nærbuxurnar. Ekki seinna vænna, stefnir víst í storm.