Untitled

Ég var að borga 17 þúsund krónur fyrir að fá að sækja um að fara til Bandaríkjanna í ágúst. ESTA pappíra. Þetta er náttúrulega rán! Um hábjartan dag! *** Daginn fyrir sumarsólstöður! *** Túristar á Íslandi eru líka rændir. Og hafa orðið fyrir fjölgunarminnkun. Samdrætti í viðbótum. Mest dregur úr fjölgun á jaðarsvæðum – því þeir sem koma fara styttra og gera færra, vegna þess að þeir fá minna fyrir peningana. Það hefur ekki bara með styrkingu krónunnar að gera, þótt auðvitað spili hún stóra rullu. Verð voru bara komin að sársaukamörkum fyrir flesta áður en krónan tók á rás. Og nú kann enginn að lækka. *** En þetta er líka ágætt. Sennilega eru fæstir túristar hér á Vestfjörðum en við máttum alveg við fjölgunarsamdrætti. Það eru engir innviðir til að takast á við fjölgunina einsog hún hefur verið og engar áætlanir um að byggja slíka innviði. Um daginn setti Vegagerðin upp fjóra útikarma og það komst í landsfréttir. Að það væri hægt að pissa. *** Og ekki pissar maður lengur í Hörpu nema taka með sér 300 krónur, sem forsvarsmenn þar segja að sé gangverð á meðalhlöndun. Mér finnst það eigi að setja lög sem skylda veitingastaði til að leyfa fólki að nota klósettið og gefa öllum frítt vatn. Það er alls konar rekstrarkostnaður sem fylgir því að reka veitingastað og margt af honum hefur með staðsetningu að gera og aðstæður sem eru ótengdar sjálfum rekstrinum. *** Besta leiðin til að mótmæla þvaggjöldum er að míga utan í hús. Maður gæti að vísu lent í því að lögreglan taki mann, en það er kannski þess virði. *** Það er eitthvað dæmigert fyrir samtímann líka. Að við skulum berjast fyrir meira líberal klósettum þar sem allir fái að míga – hvað sem líður kyni, kynvitund, kyngervi o.s.frv. – en allir eigi að borga. Eina tabúið sem okkur tekst aldrei að yfirstíga er fátæktin. Eina fólkið sem er alltaf alltílagi að níðast á eru þeir sem eiga ekki 300 kall til að borga fyrir pissuskál. Þeir geta bara migið heima hjá sér. Eiga hvort eð er ekki neitt með að vera að þvælast í Hörpu þar sem póstkortin kosta þúsundkall. *** Annars hafði ég einsett mér að skrifa í dag um stíl. Eða um prósa, réttara sagt, hvað sé fallegur prósi. Hvernig hann þurfi í senn að vera í takt – atkvæðin raði sér upp með réttum áherslum – og stöðugt að koma á óvart. Hvernig hann þarf að líkja eftir hugsuninni sem skapaði hann . *** Brokk. Hvers vegna höfum við svona illan bifur á brokki? Að við skulum tala um að eitthvað sem hangir illa saman – til dæmis stíll eða prósi – sé brokkgengt? Brokkgengur stíll ætti að vera fallegur. Jafnvel þótt hann bryti stundum á sjálfum sér. Prósi þarf að vera myndríkur og reglulegur nema þegar hann er óreglulegur og ef hann er aldrei óreglulegur er hann alveg vonlaus. *** Prósi þarf líka að vera rómantískur og sínískur og hversdagslegur og afslappaður. *** Sérhljóðaharmonían þarf að vera falleg. Einsog í sérhljóðaharmonía. Eða trérótaammoníak. Bréfrósakoníak. *** Og myndríki. Ég geri stundum lítið úr því vegna þess að það dómínerar svo. En myndríki skiptir máli. Göngumst bara við því. Það þarf að lýsa hlutunum og þær lýsingar þurfa að ná til manns. *** Prósi þarf líka að vera um eitthvað sem skiptir máli. *** Og hann þarf að vera meðvitaður um sjálfan sig. Skilja hvar hann verður hlægilegur, hvenær hann er farinn að taka sig of alvarlega. Og svo þarf hann kannski bara samt að taka sig alvarlega, stundum er það bara þannig. *** Maður þarf að finna fyrir því að hann hviki hvergi. Að höfundurinn sem skrifi hann sé ekki að hnika til orðum í sérhlífni. *** Merkilegt með skyldleika líkra orða annars. Að hika, hvika og hnika eru allt undanbrögð. *** Ef að prósi er grimmur og aðgangsharður, myndríkur og taktfastur, þá þýðir það ekki að hann þurfi ekki að vera mannlegur líka. Einhvern veginn mjúkur og auðmjúkur og stimamjúkur. *** Og svo þarf maður að koma sér að verki. Prósi þarf að vera til; það er kannski mikilvægast af öllu.

Untitled

Ég sit á fiskimannakaffihúsinu á Suðureyri og borða plokkfiskloku. Aino er á sundnámskeiði hérna í bænum. Það ristir frekar asnalega í sundur vinnudaginn minn en mér finnst ég skulda henni þetta – hún er svo dugleg að synda. Lærði það í Víetnam áður en hún var orðin tveggja ára. Eða svona, hélt sér á floti nokkra metra strax þá. Nú syndir hún auðveldlega fram og til baka langar sundlaugar. Hún kann réttu sundtökin en hundasyndir samt meira. *** Hugmyndin var reyndar líka að nota tímann til að lesa. En svo gleymdi ég bókinni minni. Kláraði Orðspor eftir Juan Gabriel Vasquez í fyrradag og byrjaði á Kaputt eftir Malaparte. Báðar eru ótrúlega vel skrifaðar – alveg kynngimagnaður prósi – og söguþráðurinn er áhugaverður. Kaputt er sjálfsævisöguleg – á svipuðum tíma og andlegum slóðum og Veröld sem var, en dálítið húmorískari, óforskammaðri. Ég átta mig reyndar ekki alveg á því hvort hann er alltaf að grínast eða hvort hann er bara svona mikið skoffín. *** Ég tek Kaputt með mér á morgun. Námskeiðið er alla virka daga þar til við förum. *** Suðureyri er alveg frábær bær annars. Ef þið skilduð ekki vita það. *** Í dag klukkan 17 opnar ný sýning í Byggðasafni Vestfjarða, um Karitas Skarphéðinsdóttur. Ég skrifaði einþáttung fyrir sýninguna og lít við á opnun. *** Í gær skipti ég um rúðu á baðherberginu. Í fyrstu virtist það ætla að verða fáránlega erfitt en svo var það fáránlega létt. Ég þarf að vísu að kaupa betri skrúfur í karminn og svona skyggingu (svo maður geti nú skitið í friði). *** Í Illsku stendur að „einhver kínverskur heimspekingur“ hafi talað um að maður gæti aldrei stigið tvisvar í sömu ána. Nú var gríska forlagið mitt að gera athugasemd við þetta. Þetta var Herakleitos. VANDRÆÐALEGT. *** En þetta verður rétt í grísku útgáfunni. Í sænsku útgáfunni – þegar Ómar er að borða sér leið í gegnum Evrópu – var líka breyting. Í orginalnum borðar Ómar núðlur í Malmö, þetta þótti sænska útgefandanum alger fásinna, og við sömdum um að því yrði breytt í falafel. Málmeyingar hreykja sér af besta falafelinu á norðurlöndum.

Untitled

Við förum alltaf úr landi á sumrin. Einsog farfuglarnir. Eða koma þeir kannski á sumrin? Við komum svo sem líka á sumrin, bara ekki heim, heldur heim til annarra.  Nú eru níu dagar þar til við förum og verðum „fjarri góðu gamni“ í nærri tvo mánuði. Ég á eftir að sakna: Gítarsins míns. Ég keypti mér Epiphone SG Pro í fyrra og spila á hann svo til á hverjum degi mér til mikillar ánægju. Vasksins míns. Við fengum nýjan stóran vask um daginn. Ég fann fyrir því – mér til furðu – þegar ég skaust aðeins til Noregs og Frakklands um daginn að ég saknaði hans. Það er munaður að leika sér í stórum vaski þegar maður er vanur litlum. Ég mun líka sakna eldavélarinnar – gas og span og hvað þetta er allt saman. Og pannanna minna og hnífanna. Sjávarfangs. Fiskbúðarinnar hans Kára. Ég hef að vísu alls ekki verið nógu duglegur að sækja hana síðustu daga. En þvílíkur munaður að geta gengið að ferskum fiski vísum fyrir lítinn pening. Vina og ættingja. Að minnsta kosti þeirra sem ég tek ekki með mér og eru hér annars – ég er auðvitað líka að fara að heimsækja vini og ættingja í hinum löndunum. Ég hlakka til: Afmælisdagsins míns. Ég er mikið afmælisbarn. Í ár verð ég á Guns N’ Roses tónleikum í Hämeenlinna. Að fara í feðgaferð til Berlínar með Aram Nóa. Við ætlum í dýragarðinn og á stjörnuskoðunarstöðina. Að fara í hjónaferð til San Francisco með Nödju. Við ætlum á Cage Aux Folles og í Alcatraz og City Lights bókabúðina. Að hitta vini og ættingja. Það gerist alls staðar nema í San Francisco. Þangað förum við gagngert því þar þekkjum við engan (það er reyndar ekki alveg satt, en það er ósennilegt að við heimsækjum þá sem við þekkjum).

Untitled

Ég hugsa um æru vakandi og sofandi og hef meðal annars komist að því að þetta eru taldir pólar innan félagsfræðinnar – heiðurssamfélög, þar sem æran er allt, og lagasamfélög, þar sem æran á enga formlega hlutdeild í samfélaginu – í mörgum tilvikum er jafnvel ólöglegt að svipta menn ærunni. Til dæmis að neita ærulausum um vinnu eða gera þá að öðru leyti útræka. Í heiðurssamfélögum á maður ekkert annað en æru sína. Án hennar deyr maður, einn og útrækur. *** Æra miðast eðli málsins samkvæmt við „ríkjandi siðferði“. Þannig voru samkynhneigðir ærulausir þar til fyrir skemmstu, og fullorðnir karlar sem dilluðu við fimmtán ára stelpur þóttu – tja, kannski til vandræða, en það er satt best að segja ekki langt síðan farið var að gera þá ærulausa. Sérstaklega ef þeir töldust til lögfræðinga, presta eða annarra háttsettra þjóðfélagsþegna. Já eða bóhem auðvitað. *** Dr. Samuel Johnson skilgreindi æru – honour – í orðabók sinni frá 1755 á nokkra vegu, en fyrst og mikilvægast var að maður byggi yfir „öðla sál, veglyndi og fyrirlitningu á óþokkaskap“ („nobility of soul, magnanimity, and a scorn of meanness“). Af þessu er hið síðarnefnda áhugaverðast. Það er ekki nóg að vera góður sjálfur, til að hafa æru, heldur þarf maður að fyrirlíta illskuna í öðrum. *** Doktorinn sagði að vísu líka að æru fengi maður af ættboga sínum – þeir sem eru vel ættaðir fá hana í arf, fína fólkið hefur meiri æru en fátæka fólkið – og æru fær maður aukinheldur af siðsemi í kynferðismálum almennt. Þeir sem mæta í druslugöngur eða fagna lauslæti geta sem sagt talið sig ærulausa. *** Nasistar og íhaldsmenn eru mjög uppteknir af ærunni. Slagorð helstu nýnasistasamtaka seinni tíma er Blood & Honour. Og slagorð ýmissa strákaklúbba í einkaskólum eru á svipuðum nótum. Og ungmennafélaga.

Untitled

Mér var bent á að hlusta á Berg Ebba og Snorra tala um November Rain í Fílalag. Því hefði ég betur sleppt. Ég hlustaði á nokkra af fyrstu þáttunum fyrir löngu og fannst þeir skemmtilegir – en tók nokkra í beit og þeir verða fljótt þreytandi þannig. En það er ekki þeim að kenna, heldur mér fyrir ofneysluna (langur bíltúr). Núna komst ég ekki einu sinni í gegnum þáttinn. Sennilega hefur það eitthvað að gera með að ég veit eitt og annað um Guns – það er í það minnsta það sem veldur því að ég veit hversu oft þeir fóru með fleipur. Hversu mikið af þessu var bara rugl – á köflum var þetta einsog Trump í rúllukragapeysu. En svo eru þeir líka bara komnir of langt út fyrir sitt eigið áhugasvið. Sínísk aðdáunin á „geðveikinni“ var laus við allan kærleika. Þeir voru að fylla út í formið „tveir strákar besservisserast um tónlist og vestræna menningu í klukkustund“ – sem virkaði þegar þeir voru nálægt hjartanu en rennur gersamlega út í sandinn þegar þeir búa hvorki yfir nægum fróðleik til að gera þetta áhugavert né nægu innsæi til að setja lagið – eða hljómsveitina – í nokkuð samhengi. *** Niðurstaða: Fílalagi verður að linna! *** Robert Downey. Hress gaur. Eða þannig. Sennilega er tómt rugl að veita svona fólki réttindi til að stunda lög. Ég veit ekki með „uppreist æru“ – ég skil ekki einu sinni hvernig æra getur verið á forræði yfirvalda. Hins vegar hrökk ég í kút að heyra forsetann tala um að hann (forsetinn) væri nú bara einsog „flestir Íslendingar“, að þegar kæmi að „kynferðisbrotum“ vildi hann bara læsa menn inni og kasta lyklinum. Á eftir því kom „en við búum í réttarríki“ – sem má skilja þannig að réttarríkið sé áþján, að það að völd ríkisins til að fangelsa þegna sína séu takmörkuð sé bara alger bömmer. *** Sennilega er mikilvægt að Robert Downey fái tækifæri til að „endurreisa“ líf sitt. En hann ætti líklega að gera það á öðrum vettvangi. *** Æra hefur annars líka þann tilgang að halda aftur af óhæfuverkum. Sá sem hefur æru, hefur æru að glata. Sá sem hefur enga æru tapar engu á því að brjóta af sér. Nema auðvitað hann verði dæmdur – en fangelsisdómar, sektir og þvíumlíkt er bara tittlingaskítur við hlið ærunnar. Án hennar er allt lífið fangelsisdómur. *** En æru fær maður sem sagt ekki frá forseta. Robert Downey ætti bara að ganga í klaustur. Helga líf sitt góðgerðarverkum. Maður sem fremur jafn hryllilega glæpi er í djúpri siðferðislegri holu og þarf að leggja talsvert á sig til að komast upp. En við ættum kannski að hjálpa honum – og öllum öðrum – því það er engum til bóta að fólk sé sjúkt og hættulegt. *** Var ekki eitthvað fleira sem ég ætlaði að hafa skoðun á? Þegar ég var að skrifa þetta hér að ofan kom nágranni minn Gunnar inn á skrifstofu til að spyrja mig hvað mér þætti um „orð forseta“. Ég las fyrir hann bloggið. *** Lefty Hooks segir að helvítis Pólverjarnir séu helvítis rasistar. Það er eitthvað annað en helvítis múslimarnir og djöfuls tælendingarnir. Eða helvítis Íslendingarnir sem aldrei segja neitt ljótt um neinn. *** Í dag þarf ég að klára að taka upp Óratorrek. Mér skilst þetta verði í Lestinni í sumar.

Untitled

Ég eyddi hluta úr degi í að taka upp hálfa Óratorrek fyrir útvarp. Það er aðeins meira en ráðlagður dagskammtur. *** Hinum hlutanum eyddi ég í að hnýta endi á leikrit. Ég er ekki búinn að skrifa það – langt í frá raunar. En ég ætti að vera með fyrsta uppkast eftir nokkra daga. Kannski á morgun. *** Upptökur fyrir RÚV. #óratorrek A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Jun 15, 2017 at 7:36am PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js *** Ég svaf ekki nóg og kannski drakk ég of mikið rauðvín í gærkvöldi. Týpískt ég!

Untitled

*** Ég kalla þessa mynd „Mikilvægur áfangi í sjálfstæðisbará …“. *** Nadja segir að kaffið sem ég helli upp á eftir kvöldmat sé sterkara en kaffið sem ég helli upp á eftir morgunmat. Sem er forvitnilegt því ég tel mig hella upp á það á alveg sama máta. Jafn mikið kaffi, jafn mikið vatn í mokkakönnuna. Sama kaffitegund. Kannski er það bara kvöldið. Kaffi er sterkara þegar klukkan er orðin sjö að kvöldi. [Hér ætlaði ég að bæta við einhverju skáldlegu um hvernig myrkrið blandast korginum – en það er bara aldrei neitt myrkur, enda miður júní]. *** Ég vaknaði með þrálátan verk fyrir brjóstinu. Hann er þarna enn. Nadja segir að sennilega hafi ég bara sofið eitthvað undarlega. Ég gúglaði „mild chest pain“ og fann fyrirsögnina „Three types of chest pain that won’t kill you“. Mér finnst hughreystandi að af öllum þeim ótal ástæðum sem gætu verið fyrir brjóstverkjum mínum séu allavega þrjár ekki banvænar. Mér er mikið létt. *** Mér finnst einsog þetta sé í annað skiptið á frekar stuttum tíma sem ég spái eigin andláti á þessu bloggi. Það gekk víst ekki eftir síðast. Nú trúir mér enginn. (Svo held ég reyndar að það lesi enginn þetta blogg).

Untitled

Það eru þrjár kirkjur á Ísafirði. Ísafjarðarkirkja, Salem og Kapella Jóhannesar guðspjallamanns, í daglegu tali nefnd Kaþólska kirkjan. Að auki hafa bahá’iar, búddistar og Vottar Jehóva verið með nokkra starfsemi í bæjarfélaginu – ég veit reyndar ekki alveg hverjir eru starfandi í augnablikinu. Ríflega 11% íbúa eru með erlent ríkisfang, samanborið við 9% á höfuðborgarsvæðinu, og enn fleiri eiga rætur að rekja hingað og þangað um heiminn. Þessir 3.620 íbúar eru með 34 ólík ríkisföng. Hér er kvikmyndahús sem er með á bilinu 5-9 sýningar í viku – sennilega er meðaltalið rétt undir ein á dag en stundum eru þrjár á sunnudögum. Átta veitingastaðir, þar af tveir tælenskir og einn portúgalskur – einn þeirra, Tjöruhúsið, er meðal frægustu veitingahúsa landsins. Tveir þeirra eru djammbarir um helgar og þrír eða fjórir þeirra eru kaffihús (Hamraborg telst varla með, en eru með alla aðstöðu). Auk þess er Vagninn á Flateyri og Talisman á Suðureyri. Tvö fyrirtaks bakarí, sem bæði eru kaffihús (og á mörkum þess að vera veitingahús líka) – mörgum finnst þeir ekki hafa komið til Ísafjarðar nema þeir fái sér snúð eða kringlu í Gamla. Tvær fréttastofur – Bæjarins besta og RÚV. Menntaskóli (með listabraut), Háskólasetur, Fræðslumiðstöð og slangur af grunn- og leikskólum. Meira að segja einn Hjallastefnuleikskóli fyrir bóbóin.  Í miðbænum er talsvert um sjálfstætt starfandi fólk í skapandi geiranum – hér í skrifstofubælinu mínu er myndlistarmaður, kvikmyndagerðarfyrirtæki, arkitekt og skrifstofa fyrir listamannaresidensíuna sem er á efri hæðinni og hefur nýverið tekið yfir stórt hús uppi á Seljalandsvegi. Hér uppi eru yfirleitt 1-2 listamenn, oftast erlendir, og plássin umsetin langt fram í tímann. Sumir myndlistarmannanna sýna í Gallerí Úthverfu – aðrir halda listamannaspjall og segja frá verkum sínum. Neðar í götunni er skraddari – alvöru gamaldags skraddari með slíkan eðalvarning að ég þori varla að kíkja þangað inn – hinumegin við götuna er systir mín og vinkona hennar með Klæðakot, sem framleiðir meðal annars Dórukotsvarning einsog álfahúfurnar. Við Silfurtorg er annað skrifstofubæli – þar eru a.m.k. einn arkitekt og hirðljósmyndari bæjarins. Í gömlu skóbúðinni er Gamla skóbúðin – hálfgert mannfræðisafn. Í bæjarfélaginu öllu, sem telur líka Suðureyri, Flateyri og Þingeyri, eru fjórar sundlaugar og jafn mörg íþróttahús. Það er skíðasvæði á heimsklassa – fyrir gönguskíði og svigskíði. Sennilega er leitun að betra stæði fyrir kajakróður. Stutt að fara út í sturlaða náttúru – Hornstrandir eru eitt, en svo eru Galtarviti, Skálavík, Bolafjall, Dynjandi og svo mætti bókstaflega mjög, mjög lengi telja. Eitt fallegasta bókasafn landsins stendur á Eyrartúni og er auk þess skjalasafn, ljósmyndasafn og listasafn. Í Neðstakaupstað er Byggðasafnið – þar sem ný sýning um Karitas Skarphéðinsdóttur opnar 19. júní næstkomandi – á Flateyri er Brúðusafn, Dellusafn og Verzlunin Bræðurnir Eyjólfsson (sem er safn og bókabúð). Tvær líkamsræktarstöðvar á Ísafirði sjálfum – veit ekki með hina kjarnana. Í Edinborg er rekin menningarmiðstöð og listaskóli. Tónlistarskóli Ísafjarðar er við Austurveg og við hann tónleikasalurinn Hamrar. Hér er gríðarmikill túrismi, ekki síst í kringum alls kyns svaðilfarir á skútum og skíðum, fyrir utan skemmtiferðaskipin sem hrúgast hér hvert ofan í annað sumarið á enda. Elfar Logi rekur sitt einleikhús – og í fyrra var líka stofnuð ópera, einskonuópera. Þá eru ónefndar enn listahátíðirnar – LÚR, Act Alone, Aldrei fór ég suður. Á Flateyri hefur verið haldin bókmenntahátíð og þar til fyrir ekki svo löngu síðan var hér haldin mjög flott djass- og klassísk tónlistarhátíð, Við Djúpið. Ég veit ekki hvers vegna hún lognaðist út af. Körfuboltinn er í miklum gangi, það er líf og fjör í kringum fótboltann og á hverju sumri fyllist bærinn af Mýrarboltafólki – ég veit reyndar ekki hvort það telst til menningar eða íþrótta. Skíðavikan er á páskum og á vorin fyllist bærinn af skíðagöngufólki frá víðri veröld sem tekur þátt í Fossavatnsgöngunni.  Ég fæ alltaf vont fyrir brjóstið þegar fólk endurtekur klisjuna um að í „dreifbýlinu“ ríki fábreytnin og að fólk fari til höfuðborgarsvæðisins í leit að einhverju ægilegu andlegu ríkidæmi, kaffihúsum og tónleikum og bíóum og menningarafkimum sem hvergi þrífist annars vegar. Vegna þess að dreifbýlið „hafi ekki upp á neitt að bjóða“. Sennilega er til fullt af litlum bæjarfélögum þar sem fábreytnin ríkir – rétt einsog margar stórar borgir eru ekki annað en pakkhús úr steypu. En það er langt í frá einhver regla. Ísafjörður er vel að merkja langt í frá einhver paradís og hér er ýmislegt sem hemur mann – til dæmis fjarlægðin frá alþjóðaflugvellinum, stóru leikhúsunum og tónleikahúsunum. Og svo er nálægðin við fólk alveg dálítið þrúgandi stundum – að vera aldrei anonym úti á götu. En það er furðulegt að þurfa alltaf að vera í þessari fáránlegu vörn fyrir samfélagið sitt. Að lesa um það óhróður sem er settur fram á svo sjálfsagðan máta að maður fær það á tilfinningu að höfundurinn hafi ekki einu sinni yppt öxlum yfir setningunni – ekki frekar en hefði hann lýst rigningu sem blautri.

Untitled

Jussi Halla-aho varð formaður Sannra Finna á helginni. Þetta las ég í blaðinu þegar ég vaknaði. Sannir Finnar eru svolítið spes flokkur á rófi rasíska hægrisins, að því leytinu til að hann samanstendur eiginlega fyrst og fremst af alls kyns himpigimpum frekar en að flokkurinn sé myndaður um sterka hugmyndafræðilega miðju. Timo Soini, fráfarandi formaður, var sennilega þeirra langskárstur. Og svo voru þetta furðufuglar af öllum mögulegum tegundum. *** Jussi Halla-aho er hitlerískastur Sannra Finna. Og kannski hitlerískastur allra öfgahægrimanna í vestur Evrópu – maður gæti þurft að fara alla leið til Ungverjalands, þar sem frambjóðendur tala fjálglega í ræðum um að gyðingar hafi lítil eistu, til að finna verra dæmi. Jussi er auðvitað með islam á heilanum, en lætur ekki staðar numið við að „gagnrýna trúarbrögð“, einsog það er kallað, heldur hefur gert því skóna að hugsanlega séu Sómalir – sem eru fjórði stærsti innflytjendahópurinn í Finnlandi, á eftir Svíum, Rússum og Eistum – þjófar og ofbeldismenn af erfðafræðilegum ástæðum. Og svo framvegis. *** Ég sé svo eftir því að hafa ekki tekið mynd af auglýsingaspjöldum kandídats míns heimasvæðis 2011 – Perus-Jussi (ekki sami og Jussi formaður). Ég reiknaði sennilega ekki með að það væri ekki hægt að gúgla þeim nokkrum árum síðar. Þar var hann – gráhærður herramaður um sextugt með þykkt og mikið yfirvaraskegg, dálítið hokinn – í svörtum jakkafötum, vaðstígvélum og með exi. Slagorðið var „ajatuksin, sanoin ja teoin“. Í hugsun, orði og borði. *** Ég virðist hafa tekið mynd. Og sent Lomma. Fann þetta loks í innboxinu mínu. *** *** Fyrir neðan stendur: Á vegum norður-Finna. Og þetta er jesúsfiskurinn við fætur hans. Perus-Jussi er sannkristinn og bloggaði mikið um alls kyns talnakenningar sem hann kokkaði upp úr biblíunni – hélt því meðal annars fram að hluti Finna væri týndur ættstofn Ísraelsmanna. *** Ég er ótrúlega glaður að hafa fundið þessa mynd. Perus-Jussi er eitt af þessum fyrirbærum sem var svo klikkað að ég trúði því varla að það væri satt þegar ég var að lýsa honum. Þessar kosningar eru vel að merkja þegar ég er á kafi að skrifa Illsku. Og þá fæ ég líka reglulega póst í póstkassann minn frá nasistasamtökunum Suomen Vastarintanliike – sem hefur nú numið land á Íslandi undir heitinu Norðurvígi. Þeir drápu mann í köldu blóði í miðbæ Helsinki í fyrra. *** Sá hafði gengið framhjá mótmælum SVL gegn innflytjendum og ákveðið að nýta rétt sinn til málfrelsis og segja þeim nákvæmlega hvað honum fannst um stjórnmálaskoðanir þeirra. Einsog nasistar eru nú oft uppteknir af eigin málfrelsi þá eru þeir voða lítið gefnir fyrir að fólk sé þeim ósammála (og mjög viðkvæmir fyrir að láta uppnefna sig). Þeir borðu manninn í hakk, tóku það upp á myndband og póstuðu því á internetið með textanum: „Æsingamaður mótmælir „rasisma“ og gerir sig að fífli“. Undir var „aðgerðinni“ lýst sem „ögun“ – sem og í netútvarpi SVL, Radio 204 (20.4. er afmælisdagur Hitlers, einsog leikhúsgestir Illsku þann dag gleyma seint). *** Það verður að vera agi, einsog maðurinn sagði. *** Hann dó svo af barsmíðunum og myndbandið var fjarlægt af internetinu með tangri og tetri. *** En Jussi Halla-aho er ekki beinlínis himpigimpi. Hann á meira skylt við SVL en Perus-Jussa, nafna sinn, þótt hann mætti auðvitað aldrei sverja þeim neina eiða – ekki sem stendur. Hann er í Suomen Sisu, sem er siðlegri félagsskapur af sama meiði, og hugmyndafræðingurinn á bakvið allan rasismann í Sönnum Finnum. Hann hefur verið dæmdur fyrir rasísk ummæli sín um múslima og Sómali og verið vikið tímabundið úr eigin flokki fyrir að halda því fram að það sem Grikkir þyrftu á að halda, til að komast út úr efnahagsvandræðum sínum, væri valdarán hersins – junta – sem gæti rutt mótmælendum og verkfallsmönnum úr vegi með skriðdrekum. Þá var hann þingmaður – skömmu síðar fór hann í Evrópuráðið og var svo kosinn á Evrópuþingið. *** Þegar ég segi að hann sé ekki himpigimpi á ég meðal annars við að hann sé ekki beinlínis heimskur. Vondur, já; en þetta er einbeitt illska af yfirlögðu ráði. *** Það versta sem gæti gerst núna er að ríkisstjórnin ákveði að halda sínu striki. Það var haldinn neyðarfundur í morgun og formenn Miðflokksins og Þjóðarbandalagsins hafa látið hafa eftir sér að þetta gangi ekki – það sé ekki hægt að sitja í ríkisstjórn með Jussi. En svo er eftir að sjá hvað dagurinn ber í skauti sér. Það verður haldinn blaðamannafundur klukkan 17 að finnskum tíma – 14 að íslenskum. Valmöguleikarnir eru þrír 1) Ríkisstjórnin stendur – sem er ósennilegast 2) Nýjar kosningar – sem er næst ósennilegast og 3) Nýr meirihluti með einhverjum öðrum. Sem er kannski líka ósennilegt. *** Við bíðum spennt.

Untitled

Nadja kemur heim A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Jun 11, 2017 at 2:45am PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js

Nadja kom í morgun. *** Skúli, Siggi og Aude komu í bröns. Svo fóru Aude og Nadja á kajak og þegar þær voru búnar fékk ég mér lúr. Ég svaf lítið í nótt og rauðvínið frá því í gær lagðist illa í mig – þótt það hafi vel að merkja ekki verið mjög mikið. *** Síðan dundaði ég mér við að gera pizzu. Eina með bologneseafgöngum, eina með kjúklingi og allskonar, eina með skinku og ólífum og eina með rækjum, ansjósum og alls konar. *** Eftir kvöldmat horfðum við á Rogue One: A Star Wars Story. Þá erum við Aram Nói búnir að horfa saman á allar Star Wars myndirnar. Nema þrjár: Ewoksmyndirnar tvær og Jólamyndina. Ég finn þær hvergi textaðar. En þessi grunnsaga er komin og okkur er ekkert vanbúnaði að fara í bíó þegar næsta kemur út. „Nú mega jólin koma fyrir okkur“, einsog maður segir. *** Ég skil ekki fólk sem talar um Macron í Frakklandi sem vinstrimann. Einhvers konar krata. Það er sami mislestur og að Tony Blair væri krati. Eða að bandarískir demókratar séu kratar. Þetta eru allt frjálslyndir auðræðissinnar. Fólkið sem vill fjarlægja öll höft af fjármagnsmörkuðum, leyfa kapítalistunum bara að ráða þessu. Af því að money knows best. *** Það var annars leiðinlegt veður í dag. Kalt. Rok. Ég hefði átt að fara að vinna en er bara alveg máttlaus og viljalaus. Listamannslífið er að gera út af við mig. *** Upp á síðkastið lendi ég æ oftar í samræðum um myndlistargagnrýni. Hvernig sem á því stendur. Ekki er til nein myndlistargagnrýni til þess að ræða. Og myndlistarsýningar eru meira og minna non-event – óburðir, ef ekki hreinlega útburðir. Myndlistin í landinu og almenningur eru í fýlu; og nú er að fara eins fyrir ljóðlistinni. Ég spái því að skáldsögurnar fari næst – einfaldlega af því að ritdómarnir eru ekki nógu krassandi, það er ekki nógu mikið í þá spunnið, almennt séð, þeir eru ýmist skrifaðir af póstmódernískri afstöðu til þess að taka viljann fyrir verkið (gagnrýnendur hafa þá enga eigin fagurfræðilega afstöðu heldur meta verkið algerlega út frá eigin forsendum – slíkt nennir enginn að lesa, þá mætti allt eins bara mæla bókina, hæð, breidd og þyngd, og birta með stjörnugjöf) eða af svo takmarkaðri andagift, skilningi á skáldskap eða líf og fjöri að maður kemst varla í gegnum þessi 200 orð sem þeim er úthlutað í þessum aukakálfum sem ætlaðir eru til að selja auglýsingar fyrir reyfara. Leiklistarrýnin verður síðust – því þar er þrátt fyrir allt enn smá metnaður í skrifum, þar er skrifað þannig að takast megi á um það sem sagt er, þótt það sé misgáfulegt. *** Guð hvað ég vona að ég sofi almennilega.