Það væri ofsögum sagt að Between Two Ferns: The Movie sé góð og það væri lygi að segja að hún væri slæm. Kannski er hún fyrst og fremst – einsog þættirnir sem hún er byggð á – sérvitur. Zach Galifianakis leikur samnefndar karakter sem er með „public access“ sjónvarpsþátt í Bandaríkjunum þar sem hann tekur viðtöl við frægt fólk (sem kemur til hans af því Will Ferrell, sem birtir viðtölin á Funny or Die og græðir á því peninga, skipar þeim að gera það). Hann er ekki beinlínis heimskur en honum er frekar illa við viðmælendur sína og leyfir fyrirlitningu sinni að skína í gegnum yfirbragð sem annars verður varla öðruvísi lýst en sem algert áhugaleysi. Hann langar að gera þetta – hann segir það oft, þetta er draumurinn hans – en hann langar það samt ekki svona. Honum finnst leikarar heimskir og hégómlegir og oft á tíðum jafnvel hæfileikalausir sem leikarar. Í formattinu afhjúpast samtímis miklir fordómar – bæði gagnvart einhverjum svona útnáratýpum einsog Zach en líka gagnvart Hollywoodleikurum – og það afhjúpast einhverjir sannleikar um hégóma þeirra og lífsviðhorf og kerfislægar aðstæður og valdið milli hinna frægu og hinna ófrægu. Plottið í myndinni gerir ekki mikið annað en að víkka hugmyndina úr þáttunum aðeins út – gera aðstæðurnar aðeins skiljanlegri (ég held að karakterinn hafi aldrei annars sést nema í viðtölunum sjálfum). Það gengur út á að hann þarf að taka 10 nýja þætti á tveimur vikum og koma þeim til Wills Ferrell og þá fái hann alvöru sjónvarpsþátt á alvöru sjónvarpsstöð. Að einhverju leyti minnir myndin á aðra mynd sem fjallaði líka um skrítinn mann á public access sjónvarpsstöð sem þurfti að berjast fyrir tilvist sinni – Weird Al Yankovic myndina UHF. Between Two Ferns er alltaf á jaðri þess að fara að verða listaverk – negla mann einhvers staðar annars staðar en bara í hláturvöðvana, stíga út úr meinstríminu á vit módernískrar sögu um tilgang lífsins, eitthvað svona Hal Hartley hittir On the Road hittir Freddy Got Fingered – en gerir það á endanum ekki (hvort sem það er með vilja eður ei). *** Skáldsagan The End of Eddy (En finir Eddy Bellegueule) eftir Édouard Louis (né Belleguele) kom út á ensku í fyrra eftir að hafa skekið evrópskt bókmenntalíf árið 2014. Það er mjög skrítið að hún hafi ekki komið á íslensku – sérstaklega af því hún er stutt og því frekar ódýrt að gefa hana út (svona miðað við eitthvað einsog Min Kamp a.m.k.). Bókin er skáldævisaga samkynhneigðs höfundar sem elst upp í fátækt í frönsku smáþorpi. Lýsingar Édouards á ævi sinni eru svakalegar og minna mann frekar á lýsingar þeirra sem ólustu upp á sjöunda og áttunda áratugnum en manns sem er fæddur 1992 – ekki endilega vegna fátækarinnar, sem er svo sannarlega viðvarandi vandamál alls staðar enn í dag, heldur vegna íhaldsseminnar og ofbeldisins og drykkjumenningarinnar í kringum hann. Það eru allir alltaf að slást, blindfullir og æpa eitthvað um ógeðslega homma. Édouard er sjálfur engin undantekning þar og gerir sér far um að leggja yngri strák í einelti fyrir hommaskap – til að losna undan slíkum stimpli sjálfur. Ég veit ekki alveg hverju ég átti von á. Mér fannst einsog hann væri meira á efnahagslegu línunni og bókin myndi afhjúpa eitthvað meira þar – segja mér eitthvað um stéttir. Ég átti kannski bara von á sósíalískara verki. Þetta er götustrákabók og hún segir manni talsvert um frönsku sveitina – smábæina, a.m.k. ef maður tekur hana á orðinu, og sú lýsing er langt í frá fögur. Sem bókmenntaverk er hún nú kannski engin stórtíðindi – hún er ekki fagurfræðilega frábrugðin öðrum álíka bókum og sögur af svona fólki eru í nærri öllum sjálfs- og skáldævisögum. Það þýðir ekki að sagan sé ekki áhrifarík. Og það sem hún hefur þá fram að færa sem tíðindi er að heimurinn sé sums staðar og stundum alltaf eins. *** The Dead Don’t Die er nýjasta mynd Jims Jarmusch. Einsog margar mynda hans er hún skreytt miklum stjörnufansi – Bill Murray, Tilda Swinton, Tom Waits, Adam Driver, Steve Buscemi og Chloe Sevigny eru í burðarhlutverkunum og aukaleikararnir eru ekkert minna sjarmerandi fólk. Hún ber þess merki að vera verk höfundar sem þarf ekki lengur að sanna eitt eða neitt. Framvindan er mjög kæruleysisleg – það er ekkert verið að eyða tíma í útskýringar eða endahnýtingar. Verkinu bara vindur fram, fólkið í henni verður fyrir sögumennskunni, og allt er þetta mjög óeðlilegt og klunnalegt og meikar ekkert sens. Sem svo aftur er allur sjarminn – myndin er bókstaflega frábær fyrir þetta. Snyrtilegri zombímynd (þetta er zombímynd) hefði áreiðanlega ekki staðist neinn samanburð við þetta undarlega verk; heldur verið fyrirsjáanlegt rusl. Samtöl og senur eru öll dásamleg og svo má ekki vanmeta þennan leikarahóp – það eru aldrei minna en tvö hundruð kíló af hreinum sjarma í mynd í einu og stundum miklu meira. *** Ég fór á samtal við rithöfundinn Arundhati Roy á bókamessunni í Lviv á föstudag. Þetta var tveggja tíma viðtal og það var farið um víðan völl. Hún byrjaði spjallið á að hafna öllum skilgreiningum á sér sem bókmenntastjörnu, hún væri bara venjuleg kona sem hefði gaman af að lifa í bókum. Mig langaði svolítið að standa upp og spyrja hvort hún hefði þá líka þurft að sækja um styrk fyrir fluginu sínu (einsog við gestir bókamessunnar á b-farrými þurftum að gera – ég var svolítið pirraður yfir þessu, af því ég hafði fengið að vita það svo seint, löngu búinn að þiggja boðið, og veit enn ekki hvort ég fái styrkinn en augljóslega búinn að leggja út fyrir fluginu, allt mjög bagalegt og hafði ekkert með Arundhati Roy að gera, vel að merkja). Mest talaði hún um indverskt samfélag og sagði meðal annars, sem mér þótti áhugavert, að sennilega tignuðu indverjar hina friðsamlegu baráttu – non-violence – einmitt vegna þess að líf þeirra væru öll mörkuð ástríðu fyrir ofbeldi, ofbeldi væri lausn indverja á öllu. Þá talaði hún líka talsvert um að Indland væri enn koloníserað en nú af hindúum – að vísu með þeim fyrirvara yfirleitt að „margir álitu“ þetta, frekar en að hún væri óhikað að segja þetta sjálf. Hún eyddi líka talsverðum tíma í að ræða hugmyndir um róttæka endursköpun skáldsögunnar sem listforms – og að það væri tilraunin sem væri fólgin í nýju bókinni hennar, The Ministry of Utmost Happiness. Sem mig fór þá að langa að lesa aftur. Ég einhvern veginn náði henni ekki nógu vel á sínum tíma. *** Við Haukur Már skelltum okkur á sýninguna Garten der irdischen Freuden í Gropiusbau í Berlín. Á sunnudag, hefur það verið. Sýningin er með útgangspunkt í verki Hieronymusar Bosch, Í garði hinnar jarðnesku sælu, og hangir miðmyndin í triptýkinni í einum salnum. Í þessum garði „kenndi margra grasa“ einsog maður segir og verkin voru afar misáhugaverð. Ég var því miður of latur að nótera hjá mér nöfn höfunda og kenni flugþreytu (og þynnku) um. Frammi í stóra salnum var margra hæða stofumubla með pottaplöntum og gömlum litlum sjónvörpum og stöku bók á stangli – þær áttu það allar sameiginlegt að vera um kynþáttamál og fyrst og fremst bandarískra blökkumanna. Í sjónvörpunum var verið að ræða svipaða hluti. Við sátum lengi fyrir framan Bosch og töldum fiska, skoðuðum skuggaverur, og reyndum að koma auga á nýja og nýja hluti. Það er auðvitað mjög mikið í þessu. Þetta er hin orgíulausa orgía – erótík án hins skaðlega hungurs, án ástríðu. Í einum salnum var mold á gólfinu og stórir sjónvarpsskjáir á undarlegum fótum sem sýndu grænku og hljóðverk úr hátölurum sem var búið að búa um einsog fuglakofa (setja tréþak á þá og fót). Þessi stemning var góð – ég fílaði þetta – en ég man ekki hvað hljóðverkið var einu sinni. Besta verkið var myndbandsverk sem maður skoðaði með því að leggjast á gólfið og horfa á það í loftinu. Ramminn var egglaga og í honum gerðist ýmislegt – það var svo nátengd Bosch-verkinu að það hlýtur eiginlega að vera byggt á því (verkin voru samt áreiðanlega ekki gerð fyrir þetta sjó). Aftur voru líkamar, nekt, gróður og aftur einhvern veginn alveg berir og í mikilli nærmynd en samt ekki agressífir, ekki gredduvekjandi eða gredda í þeim. Ég man eftir konum í leðjuslag og nærmynd af putta að pota í pung. Oft voru nærmyndirnar samt einmitt þannig að maður var ekkert alveg viss hvað maður væri að horfa á. Yayoi Kusama var með doppuverk. Herbergi fullt af doppum og túlípanar, minnir mig. Mjög doppótt. Eitt verkið var bara brotnar kókflöskur á stórum palli. Merkilega fínt – einhvern veginn aðlaðandi og ljúft. Mann langaði að leggjast í þetta. Og á sama tíma auðvitað alls ekki. *** Í Lviv fór ég líka á samtal við rithöfundinn Mark Forsyth sem gaf út bókina A Short History of Drunkenness. Hann sagði ýmislegt áhugavert – t.d. að upplifun fólks af áfengisvímu væri mjög mismunandi milli menningarheima. Ef maður byggist við því að verða yfirvegaður og fullur af höfgi af áfengi þá yrði maður yfirvegaður og fullur af höfgi, ef maður byggist við því að verða ofbeldisfullur yrði maður það, ef maður byggist við því að dofna dofnaði maður, ef maður byggist við því að æsast upp og fara að dansa og syngja þá gerði maður það. Í menningarheimum þar sem fólk sér ofsjónir í áfengisvímu sér fólk ofsjónir þegar það drekkur; þeir sem fara á vit Guðs í gegnum flöskuna sjá Guð. Að vísu var höfundurinn að staupa sig á sviðinu svo ég veit ekki hvað var að marka hann. Hann nefndi líka að áfengisbannið í Bandaríkjunum hefði verið feminískt prójekt á sínum tíma og sett á til þess að hlífa konum við því að karlarnir færu út á bar með öll launin og kæmu svo fullir heim og berðu þær. Á þeim tíma voru konur víst svo gott sem bannaðar á knæpum (ég reikna með, þótt hann hafi ekki tekið það fram, að vændiskonur hafi verið undanskildar) og þar var mikið slegist. Ég man eftir að hafa lesið í bók um kokteilamenninguna í San Francisco að þegar menn voru að lauma einhverju í glasið hjá fólki á börum á nítjándu öldinni hafi það verið til að ræna karlmenn frekar en nauðga konum. Nema hvað. Drykkju lauk auðvitað ekki með áfengisbanninu heldur færðist inn á hinar svonefndu speakeasys og sagði Forsyth að það hefði í raun verið fyrst þar sem konur fóru að drekka af einhverju viti og sú drykkjumenning sem við þekkjum í dag hafi orðið til. Forsyth, sem er óhætt að segja að sé mikill talsmaður drykkju, var þannig nokkuð óvænt bara mjög ánægður með áfengisbannið og vildi meina að það hafi þjónað tilgangi sínum mjög vel – þegar því lauk hafi drykkjumenningin stórskánað. Ég er sjálfur mikill áhugamaður um knæpur – ekki bara að sitja þar sjálfur að sumbli, þótt það komi fyrir, heldur um fyrirbærið sem rými í veruleikanum þar sem að jafnaði hafa gilt aðrar og frjálslegri reglur en úti á götu. Svona saturday night fever reglur á sumum börum en subbulegri á öðrum – knæpur voru lengi afdrep jaðarfólks (t.d. Stonewall – en líka bara Keisarinn). Þar situr fólk í reykfylltu myrkri með deyfð skynfæri, oft í háværu skvaldri eða tónlist, og segir hluti sem það myndi aldrei segja … ja, t.d. í ræðustól Alþingis … fær útrás (án þess ég ætli að hætta mér neitt út á þá braut að verja klaustursdólgana vel að merkja). Þar ríkir samtímis meira álag og meira umburðarlyndi og einn af grunnkostum knæpunnar sem rýmis er að það er hægt að stíga út úr henni og aftur út í upplýstan veruleikann. Maður velur að vera þar inni – fara þar inn – en auðvitað er maður ekki alltaf alveg viss um hvað maður er að samþykkja með því að fara þar inn eða hverjar félagslegar reglur staðarins eru (og á síðustu 100 árum hafa þær smám saman orðið áþekkari reglunum í hvaða kringlu eða kirkju sem er). Ég veit aldrei alveg hvað mér finnst um tilraunir til þess að hreinsa til á knæpunni – breyta henni í upplýst rými. Aðferðirnar eru margar – í fyrsta lagi er náttúrulega reykingabannið, í öðru lagi breyttar siðvenjur (t.d. held ég að tolerans fyrir klípingum og dónalegum athugasemdum sé alveg fyrir bí), í þriðja lagi öryggismyndavélar, í fjórða lagi símamyndavélar og twitter (við höfum mjög kraftmikið eftirlit hvert með öðru), í fimmta lagi alls kyns dresskóðar og svo framvegis og svo framvegis. Sennilega er (í alvöru) bara tímaspursmál hvenær það verður tabú að vera fullur á knæpu – og jafnvel bara bannað. *** Ég er enn að díla við nýja Stratocasterinn minn – sem er dásemd. Af því tilefni er gítarleikari vikunnar „hinn“ meistari Stratocastersins – Stevie Ray Vaughan.
Category: Uncategorized
createdTimestamp““:““2024-05-19T11:58:23.677Z““
Kvikmyndaklúbbur barnanna gerði sér lítið fyrir að þessu sinni og fór í bíó í Cinemark í City Mall. VIP-sæti – s.k. letipiltsstólar. Það var mjög vel loftkælt og við illa klædd. Myndin sem við sáum var endurgerð hinnar sögufrægu Lion King. Ég sá hana sennilega oft með frændsystkinum þegar ég var lítill en líklega aðeins of gamall til að hafa áhuga á henni sjálfur sem barn. Við höfum líka séð hana uppsetta sem söngleik í M.Í. Ekki er brugðið neitt út af sögunni svo ég hafi tekið eftir og sumar senurnar eru ramma fyrir ramma nákvæmlega einsog í teiknimyndinni. Þetta er óttalegt rúnk og rúnkað í allar áttir. Ef kjósendur Obama og kjósendur Trumps geta mæst einhvers staðar þá er það á þessari mynd – og sennilega allir gengið glaðir eða reiðir út eftir því hvernig þeir voru stemmdir þegar þeir komu inn. Þetta er bæði algert PC Gone Mad dæmi og hálfgerður prótófasískur áróður. Repúblikanarnir geta fagnað testósterónboðskapnum (ef þú drepur kónginn ertu kóngur) og því hvernig útlenda hyskinu (hýenunum) er haldið úti. Demókratar geta fagnað áróðri fyrir skordýraáti og vináttu meðal spendýra og ákveðnum svona fjölbreytileikaboðskap. Þá eru auðvitað woke-hetjur á borð við Beyoncé og Donald Glover í aðalhlutverkum. Rojalistar fá eðli málsins samkvæmt líka talsvert fyrir sinn snúð. Glover er lélegur í sínu hlutverki. Ég hugsaði ítrekað hvers vegna þau hefðu ekki bara fengið Kanye. Hann er mjög sannfærandi í mikilmennskubrjálæði sínu. Donald Glover er frábær gamanleikari og óhuggulega snjall handritshöfundur en hann hefur ekkert í svona dramatískt hlutverk að gera (hann leikur Simba). Virkar aldrei sannfærandi. Mér fannst Svarthöfði heldur ekki góður sem Múfasa – hann var líka í fyrri myndinni og ég man bara ekki hvernig hann var þar. Restin stóð sig ágætlega. Endurgerðir laga voru alltílagi – enginn Elton samt. Það er líka eitthvað sjúklega mikið kits við að færa svona teiknimynd yfir í „raunverulegri“ mynd. Og antropómorfíseringin kominn á eitthvað annað level. Og er viðeigandi því Lion King er myndin sem hóf þessar Aesópsku trakteringar í annað veldi á sínum tíma (og börnin sem ólust upp við að horfa á hana eru öll veganar). *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins missti úr síðasta sunnudag. Við komum dauðþreytt heim frá Copán seint að kvöldi og ætluðum að taka þetta bara daginn eftir en svo langaði okkur að klára þriðju seríu af Fargo. Við þurfum að ná okkur aftur á strik í kvöld (veit ekki hvernig það gengur; Nadja er á köfunarnámskeiði í allan dag og verður sennilega mjög þreytt). Ég hef ákveðið að segja eitthvað um sjónvarpsseríur þegar ég klára þær. Dokumentera áhorfið (ég veit að hér eru fáir lesendur en þetta er ekki beinlínis skrifað fyrir neinn nema sjálfan mig; ég bið þá sem ráða ekki við sig að lesa líka það sem þeim finnst leiðinlegt velvirðingar og ef það er ekki nóg fer ég bara aftur að blogga líkamshita mínum og innbyrtum kalóríum og hananú). Fargo var mjög fín. Hugsanlega besti árgangurinn hingað til. Einsog fyrri seríur og bíómyndin er þetta bærilega plottað farartæki fyrir góða leikara til að láta ljós sitt skína. Ewan McGregor, í hlutverki tvíbura, er smástund að venjast en nær sér á flug áður en yfir lýkur – Carrie Coon (úr Leftovers) er frábær í aðalhlutverkinu og Mary Elizabeth Swango líka. David Thewlis er hins vegar ekkert minna er stórkostlegur; ég man varla eftir öðrum eins performans úr sjónvarpsseríu, ekki frá því Omar Little var skotinn. *** Ég las The Green Mile eftir Stephen King. Þetta er mikil plebbavika (eða næstum tvær frá síðustu skrifum) og ef Jóhann Helgi les þetta kjöldregur hann mig sennilega. Ég var nefnilega byrjaður á A Tale of Two Cities og nennti svo ekki að lesa hana. Aram er svo mikið með kindilinn minn (kominn í Hungurleikana ofan í sænsku fantasíurnar) að ég neyðist til að sætta mig við hið takmarkaða úrval bóka sem hér er hægt að fá keyptar. Grænu míluna sá ég auðvitað í bíó fyrir þarna 20 árum eða hvenær það var og þótti sosum ekkert merkileg og bókin er áreiðanlega ekki heldur ein af betri bókum Kings. Það er í henni svipuð stemning og í Shawshank (sem ég man samt sem nokkuð betri bók). En það er einbeitingarskortur í mér þessa dagana – stundum held ég að ég sé með árstíðabundin athyglisbrest – og þægilegt að lesa eitthvað þar sem ég þekkti söguna og gerði ekki miklar kröfur á mig. Sagan, einsog oft hjá King en ekki alltaf, er fyrst og fremst bara saga. Það er ekki í henni nein sérstök „sögn“ – hún er ekki að leitast við að kryfja hið mannlega eðli eða gera neinar byltingar í félags- eða fagurfræði. Það mætti ábyggilega lesa eitthvað mjög rasískt í hana og hefur sjálfsagt verið gert af fólki með fleiri háskólagráður en ég, en hún er eiginlega of meinlaus til að það taki því – eða, orðið er kannski ekki meinlaust heldur „decent“. Stephen King, og mikið af aðalsöguhetjum hans, virka á mann sem svo almennilegt fólk að jafnt þótt það beri með sér alls konar fordóma tekur maður þá ekki alvarlega. *** Hér er sennilega rétt að taka fyrir uppistand Aziz Ansaris. Sem við Nadja horfðum á í vikunni. Right Now, heitir það. Það er mjög skemmtilegt og Aziz virkilega naskur í átökum sínum við woke-stemninguna. Hann er bljúgur gagnvart sjálfum sér og fortíðinni og fer í gegnum gömul listaverk – á borð við Hangover-myndina – og hvernig þau myndu ekki þykja ásættanleg í dag, áratug síðar, en líka hvers vegna við ættum ekki að leggja woke-mælikvarða 2019 á alla hluti. Græna mílan er 20 ára gömul og maður tekur strax eftir því sem væri „viðkvæmt“ í dag – fyrst og fremst noble savage frumskógarfábjáninn með lækningamáttinn sem stendur í miðri mynd. Við börnin lásum líka Ævintýri úr þúsund og einni nótt – og ekki veit ég hvað maður gerir við hana ef Hangover er yfir strikið. Ég fékk allt heila klabbið í jólagjöf frá ömmu minni þegar ég var 9, 10 og 11 ára – þrjú hnausþykk og falleg bindi sem ég gúffaði í mig fyrir áramót á hverju ári og á enn í dag. Ég kíkti á þetta fyrir nokkrum árum og þetta er sannarlega ekki mikið barnaefni – ekkert nema sifjaspell, klám og ofbeldi ofan í vafasaman boðskap. Þessi bók sem við lásum er bara nokkur ævintýri og alls ekki þau verstu – en t.d. bara þá koma konur varla fyrir nema sem gjaldmiðill. Ævintýri af þessu tagi eru börn síns tíma og bla bla bla en þetta eru líka sögur sem börn í dag spegla sig í og það er pínu óþægilegt. Af því, einsog Aziz bendir á, nú er 2019 og á þeirri spýtu hangir eitt og annað. Ég myndi heldur ekki lesa Hans Blævi fyrir 9 ára transbarn. Ég held reyndar vel að merkja ekki að börn séu svo viðkvæm að þau bara molni niður og verði aumingjar eða rasistar eða kvenhatarar af því að lesa „rangar“ bækur – eða svona. Almennt held ég að við vanmetum börn og ofmetum fullorðna. Þúsund og ein nótt fer ekki nærri jafn illa með barnsheilann og Græna mílan fer með fullorðinsheilann. Eða eitthvað. Ég er hálft í hvoru að grínast og veit aldrei alveg hvað mér finnst um þessa hluti. En þeir brjótast um í manni. Í lok uppistands síns fer Ansari að tala um hversu glaður hann sé að fá að standa þarna og tala við fólk – hversu þakklátur hann sé fyrir forréttindastöðu sína og svo framvegis. Hann var auðvitað metoo-aður – það var frekar mikið diet-dæmi, hann var fyrst og fremst sakaður um að vera svolítið ónærgætinn á stefnumóti – en átti að vera afboðaður eftir mikla grein í einhverju stóru blaði en fékk svo aftur að vera með. A.m.k. ef eitthvað er að marka vinsældir uppistandsins. Þetta er að mörgu leyti mjög óþægileg sena, þótt hún hafi átt að vera hugljúf. Ansari er að þakka heiminum fyrir að hafa ekki tekið sig af lífi (fyrir hálfgerðan tittlingaskít). Þá er líka áhugavert að þótt hann ræði talsvert afboðunarkúltúrinn í uppistandinu þá lætur hann vera öll þau mál sem hugsanlega væri hægt að verja. Hann tekur bara grófustu málin – Jackson kemur fyrir, R. Kelly, Cosby – en ekki t.d. kollegar Ansaris, Louis C.K. eða Woody Allen. Það er eitthvað maóískt við alla þessa auðmýkt og þakklæti. *** Ég byrjaði svo aftur A Tale of Two Cities. Las hálfan en hugsa að ég láti bara gott heita í bili. Engar aðfinnslur sem gætu ekki átt við hvaða Dickensbók sem er – hann er orðmargur (look who’s talking) og þetta er auðvitað á köflum mikið melódrama. En mig langar bara ekki að lesa hana núna – hugurinn hafnar henni í sífellu – og við það situr. Sorrí, Jói, segi ég af innilegri og maóískri auðmýkt. EKKI HATA MIG. *** Gítarleikari vikunnar er Eddie Van Halen.
createdTimestamp““:““2024-05-08T17:16:08.663Z““
id““:““b3e5c““
Ég er með höfuðverk. Sennilega er það svarti dauði. Ef ekki eitthvað þaðan af verra. Það er ekki alveg jafn sumarlegt og var hérna á helginni. Skýjað en hlýtt. Ég er að ýta á undan mér að senda frá mér stóran reikning. Af því þegar ég hef gert það þarf ég að snúa mér að skáldsögunni minni. Þeirri sem kemur sennilega ekki út fyrren í fyrsta lagi 2023 eða 2024 jafnvel. Þá hef ég enga afsökun lengur og er bara byrjaður að fresta út í loftið. Það tekur ekki nema tíu mínútur í mesta lagi að ganga frá reikningnum. En meðan ég á það ógert er það hann sem ég er að fresta og ekki bókin. *** Eiríkur nafniminn Guðmundsson bað Hallgrím Helgason afsökunar í útvarpinu í gær. Það var þá þriðja afsökunarbeiðnin, skilst mér – sú fyrsta var prívat fyrir sex árum. Önnur var á Facebook og þriðja núna í útvarpinu. Eftir því sem mér best skilst tók Hallgrímur fyrstu afsökunarbeiðninni og síðan þeirri annarri og nú hefur hann tekið þeirri þriðju – sem hann kallar samt snautlega og nefnir Eirík í sömu mund og Samherja. Eiríkur gerði sem sagt atlögu að Hallgrími, alveg einsog Samherji, með því að skrifa pistil fyrir sex árum hvers innihald var harðorð gagnrýni á sjálfhverfu rithöfunda (sem höfðu hver á fætur öðrum stokkið til og skrifað skáldævisögu sömu jólin – beint í kjölfar sigurgöngu Knausgaards á ensku). Hallgrímur talar um að hann hafi ekki beðið um þriðju afsökunarbeiðnina heldur viljað að Víðsjá brygðist „mannalega“ við – sem maður hlýtur að skilja svo að það hafi átt að reka Eirík. Eða kannski gera sérþátt um það hvers vegna mætti ekki fjalla um bókmenntaverk í menningarþætti nema af ítrustu nærgætni? Þetta er eiginlega sprenghlægilegt. Og minnir mig reyndar á það sem gerðist þegar Ebba Witt-Brattström skrifaði pistil í sænskt dagblað þar sem hún vitnaði í ritgerð kollega síns við Helsinkiháskóla um barnagirnd í verkum Karls Ove Knausgaard (eða unglingagirnd – girnd miðaldra karls í unglingsstúlkur – sem Knausgaard hefur bæði fjallað um í illa dulbúnum skáldsögum og ódulbúið í skáldævisögum). Karl Ove, sem öðlaðist heimsfrægð meðal annars fyrir að berhátta alla í kringum sig og delera um eðli þeirra (við miklar skammir), varð feykireiður og spurði hvort Ebba gerði sér ekki grein fyrir því að hann ætti börn sem væru að komast á þann aldur að þau gætu séð blöðin og ættu ekki að þurfa að lesa svona um pabba sinn? Það held ég reyndar fólkið sem Hallgrímur hefur sært með skrifum sínum í gegnum tíðina standi í röðum og bíði eftir afsökunarbeiðni frá manninum sem eitt sinn varð á orði að valið stæði milli þess að vera „góð manneskja“ og „góður rithöfundur“, þegar hann þurfti að réttlæta það fyrir sér að hafa orðið minningu látinnar konu til skammar. Ég varði hann í því máli og stend enn við það – skáldskapurinn verður að leyfa sér ýmislegt. En það gilda ekki sérreglur um Hallgrím Helgason og það sem maður ber á torg í verkum sínum verður maður að þola að sé rætt á torgum og staðreyndin er sú að þótt Eiríkur Guðmundsson hafi vitnað í ruddalegan texta í sinni umfjöllun þá skrifaði hann ekki umræddan texta og tók ekki undir þann gildisdóm sem í honum fólst heldur fordæmdi. Það sem hann hins vegar gerði – og fellur undir heiðarlega menningarkrítík – var að spyrja hvort þessi sjálfhverfa (í Hallgrími og fleirum) væri afurð þess sensasjonalíska samfélags sem þarf alltaf stærra og meira kikk. Ég held að svarið við þeirri spurningu sé tvímælalaust já. *** Ég hljóp aðeins í gær. Bara örlítið. Kálfinn þoldi það alveg en ég tók líka ekkert á. Svo veit ég ekkert hvort ég á að kalla þetta „verk“ eða „sársauka“. Mér skilst það sé alveg eðlilegt að maður finni aðeins til – bara á meðan það sé ekki „sársauki“, þá eigi maður að hætta strax. *** Ég hef fengið tvö boð í bólusetningu á Íslandi en gengur ekkert að fá tíma hér úti í Svíþjóð. Sem er bölvanlegt. Ef það eru sex vikur á milli sprauta þarf ég að fara að fá þetta í gegn ef ég á að vera fullbólusettur þegar við förum heim – sem myndi auðvelda allt (sök sér að fara í sóttkví heima – verra ef ég þarf að sitja í tíu daga sóttkví í Danmörku á leiðinni, því við eigum miða með Norrænu). *** Ég las Snöru eftir Jakobínu Sigurðardóttur. Eða reyndar las Arnar Jónsson hana. Ég hlustaði. Merkileg bók. Bæði frásagnaraðferðin (allur textinn er annar hlutinn af samræðu – allt sem einn maður segir, en ekkert af því sem hinn segir á móti) og textinn – Jakobína hafði næmt eyra fyrir talmáli og það má furðum sæta að textinn gangi upp í þessu formi, sem virkar svo brothætt. *** Plata vikunnar er tvenna einsog síðast, en nú tveir karlar. Tommy Johnson, jóðlarablúsarinn – og Sleepy John Estes, vælarablúsarinn. Frægustu lög Tommys eru Canned Heat Blues (sem hljómsveitin er nefnd eftir) og Cool Drink of Water Blues, með hinni frægu og síendurómandi línu „I asked for water but she gave me gasoline“ (sem Howlin’ Wolf gerði að sinni). Það var alls ekkert óvenjulegt að blúsarar jóðluðu á þessum tíma. Þótt það hefði verið eitthvað um jóðl í vaudeville-sýningum áratugum saman voru það fyrst og fremst vinsældir köntrísöngvarans Jimmy Rodgers sem varð mönnum einsog Tommy Johnson innblástur að sínu jóðli. Sleepy John Estes var einsog Tommy fæddur upp úr aldamótum. Hann var blindur á öðru auga. Á sínum yngri árum vann hann allan daginn og djammaði og spilaði blús allar nætur og átti það til að sofna á sviði og fékk þess vegna viðurnefnið Sleepy John. Hans langfrægasta lag er Diving Duck Blues, sem meðal annars Taj Mahal og Johnny Winter koveruðu – og Keb’ Mo og Taj Mahal tóku líka saman í kassagítarsútgáfu á nýlegri plötu. Tommy Johnson er sá sem djöflamýtan var fyrst sögð um – að hann hefði selt sálu sína á krossgötunum – sem var síðar færð yfir á Robert Johnson. Hann kemur líka fyrir í bíómyndinni O, Brother Where Art Thou (leikinn af Chris Thomas King). Hann tók ekkert upp eftir 1930 og lést 1956 (eftir tónleika) en Sleepy John lifði til 1977 og náði þar með að vera með í blúsendurreisnarstemningu sjöunda áratugarins og tók þá upp nokkrar plötur til viðbótar.
id““:““b0h2d““
Rock or Bust er að mörgu leyti óvitlaus plata. Glúrinn, jafnvel. En hún er líka dálítið mistæk. Fyrstu tvö lögin eru gríðarsterk – titillagið og svo Play Ball, sem er með dásamlega fínu búggípikki, og Stevie gengur bara bærilega að herma eftir Malcolm frænda í bakgrunninum. Malcolm var auðvitað búinn að semja bróðurpartinn af plötunni með Angusi áður en ógæfan náði endanlega yfirhöndinni (af hverju segir maður ekki yfirhendinni?) En Stevie spilar þetta. *** *** Það er ágætt að hafa í huga (og sést svo sem á myndbandinu) að alltaf þegar Brian (eða Bon, nú eða Axl) segir ball eða balls þá er hann að tala um hreðjarnar á sér og þegar hann segir gun eða guns eða war eða eitthvað álíka þá er hann að tala um skaftið sem hann skýtur með, svo að segja, liminn á sér eða liminn almennt – hinn karlmennska heteró-sís getnaðarlim. Þannig er þetta bara, ég veit það er ekki móðins, og þaðan af síðar þessar fáklæddu konur á púlborðunum en hvað getur maður sagt? Þeir hafa aldrei beinlínis skammast sín fyrir neitt og alls ekki að verða einhvers konar dirty old men – í orði ef ekki á borði, allavega ó-#metoo-aðir ennþá – og ég er, einsog kom fram hérna fyrir einhverjum pistlum síðan, alveg hættur að fyrirverða mig fyrir þá eða aðdáun mína á þeim. Þetta er bara alltílagi. *** En svo er ágætt að hafa LÍKA í huga að Youngfjölskyldan eru miklir Glasgow Rangers aðdáendur – og Brian er frá Newcastle þar sem fólk trúir ekki á neitt nema brúnan bjór og knattspyrnu. Einsog svo gjarnan fjallar myndlíkingin ekki bara á það sem hún bendir heldur líka um sjálfa sig. Tíminn er kannski einsog vatnið, en hann er samt ennþá tíminn. Þessi knöttur er líka knöttur og þessi leikur líka leikur. *** Önnur góð lög á plötunni eru Babtism by Fire (borið fram „bap“ + „tissem“ + „bæfæ“) Emission Control (sem fjallar um bíla, ekki loftslagsmál – Brian er ökuþór og bílanöttari, með annan besta tímann í Top Gear keppninni) og Sweet Candy. Hard Times er fínt. *** *** *** Restin er fillerar. Platan er samt bara 35 mínútur. Sérstaklega er mér illa við Rock the Blues Away og Dogs of War (sem ég held að myndi útleggjast Limir kynmakanna – þetta er ekkert æðislega flókið) og Got Some Rock’n’Roll Thunder. *** Það er samt eitthvað fallegt við þessa æðislegu og algeru hollustu við hugmyndina um rokk. Og meðvitund um sögu rokksins og stöðu sína í henni. *** Einsog við munum, sem höfum verið að fylgjast með, þá er fyrsta lagið á fyrstu plötu AC/DC It’s a Long Way to the Top (If You Wanna Rock’n’Roll). Þegar hér er komið sögu er leiðin orðin 40 ára löng og margt gengið á. Bon er auðvitað dauður fyrir ríflega 30 árum. Plötuskiptingin er jafnari – Bon á sex plötur og Brian tíu. Menn hafa farið í meðferð – verið reknir og snúið aftur – þeir hafa náð sturluðum hæðum í lagasmíðum (Powerage, Highway to Hell og Back in Black) og vandræðalegum lægðum (Flick of the Switch, Fly on the Wall), risið á ný (Razors Edge) og náð einhverri undarlegri og traustri, fyrirsjáanlegri myndu einhverjir segja, siglingu – og allt án þess að breyta nokkurn tíma formúlunni. Það er ótrúlega lítill munur á AC/DC lögum sem rista mann í sundur og AC/DC lögum sem floppa fullkomlega. Þetta er eltingaleikur við fínlegasta fullkomleika, á gríðarstórri skepnu – behemoth, heitir það skepnan í Jobsbók (ýmist nykur eða flóðhestur á íslensku) – og hann næst ekki nema endrum og eins og stundum þegar hann nær skriðþunga raðast niður meistaraverkin hvert á fætur öðru. *** Þeir eru líka orðnir gamlir karlar. Ég held þetta sé eina platan þar sem raunverulega er hægt að tala þannig um þá. Ekki að þeir séu ekki ennþá strákslegir og vanþroska, að Angus flissi ekki einsog skítugur skólastrákur að eigin neðanbeltishúmor. En þeir eru orðnir ansi fótalúnir og þunnhærðir. *** En platan heitir Rock or Bust og maður lætur það ekki buga sig. Maður lætur ekkert buga sig. Maður lætur það ekki buga sig þegar Malcolm verður svo slæmur af vitglöpunum að hann getur ekki spilað lengur – maður ræður Stevie frænda í staðinn fyrir hann. Maður lætur það ekki buga sig þegar Phil Rudd er handtekinn fyrir hótanir og massífa fíkniefnaeign – maður ræður Chris Slade aftur, sem spilaði fyrst á Razors Edge og er eini maðurinn sem trommar eitthvað líkt jafn fast og Phil. Svo drífur maður sig í stúdíóið og á túrinn og lætur það ekki buga sig þegar Brian missir heyrnina – maður rifjar upp að Guns N’ Roses voru gjarnir á að kovera Whole Lotta Rosie og ræður Axl, enda hefur hann ekkert betra að gera. Maður lætur það ekki buga sig þegar Guns N’ Roses koma saman aftur – heldur raðar saman tveimur heimstúrum hverjum ofan í annan og skutlar Axl, óáreiðanlegasta manninum í skemmtanabransanum til þessa, manninum sem hefur hingað til aldrei mætt á neina tónleika á réttum tíma – á milli með einkaþotum og lætur það ganga upp (og kennir honum loks að mæta á réttum tíma – sem hann hefur gert síðan). Maður lætur það ekki buga sig þegar Axl fótbrýtur sig á fyrstu tónleikunum með Guns – á sjálfum Troubadúrnum – heldur fær lánað fyrir hann hásæti og heldur skemmtuninni áfram. Því það er Rock or Bust sem gildir. Fjörutíu ára behemoth á fullum skriðþunga og það fær hann ekkert stöðvað. *** *** Svo klárar maður túrinn og grefur bræður sína tvo í röð, fyrst George og svo Malcolm. *** Hvort eitthvað verður í framhaldinu veit enginn. Axl segist ætla að vera til taks fyrir Angus á meðan þess er óskað. Cliff, sem er 68 ára, segist hættur fyrir fullt og allt. Chris er 71 árs. Phil 63 ára. Stevie 61 árs. Angus 62 ára. Axl er ekki nema 55 ára, af 1962 árganginum (jafnaldri Sjóns og meirihluta þeirra sem dóu í Codexnum). Mér finnst sennilegt að Angus viðhafi sömu reglu og hingað til – einhverjir meðlimir sveitarinnar munu hittast eftir nokkur ár með hljóðfærin og athuga hvort eitthvað gerist. Ef eitthvað gerist – þá getur hvað sem er gerst. En í raun er líklegra að þeir hittist bara, fái sér bjór og spili púl, knúsi hver annan svolítið og fari svo aftur hver í sitt heimshornið. *** Ég gerði playlista með bestu lögunum. 32 lög, að meðaltali 2 per plötu, og aldrei færra en eitt af hverri. Til að hafa fleiri en tvö lög af einhverri plötu þurfti ég að sleppa einu góðu af einhverri annarri. Það var hrikalegt að eiga við sumar – ég neyddist t.d. til að sleppa Live Wire. Who Made Who bjargar mér – því þar næ ég inn Hells Bells og Ride On, en verð þá að sleppa hinu ágæta titillagi (sem er eina nýja lagið á plötunni, fyrir utan instrumentals). Og Fly on the Wall og Flick of the Switch gátu aldrei fengið nema í mesta lagi eitt. *** *** Svo skulum við bara muna lögmálið. Þetta er helvítis hellings vinna og það verður ekki létt og það á allur fjárinn eftir að drífa á daga okkar, en það gæti orðið gaman samt – ef við látum ekki bugast.
createdTimestamp““:““2024-05-16T18:21:40.683Z““
Ég fylgist með alls konar gítarnördum á YouTube – Justin Sandercoe, Andertons-genginu, Samurai Guitarist, Mary Spender, Eric Haugen, Crimson Guitars og stundum líka Paul Davids og Marty Schwartz. Nú er eiginlega allt þetta gengi á sama blettinum í Anaheim í Bandaríkjunum – NAMM, National Association of Music Merchants tónlistarmessan er í fullum gangi og YouTube hetjurnar allar að plögga sig og skoða nýtt dót. Mér sýnist helstu tíðindin vera frá Fender – Accoustasonic gítarinn, sem er rafmagns- og kassagítar, hrikalega ljótur og óspennandi eitthvað en hefur vakið mikla athygli – og Gibson, sem eru að hætta með alls konar framtíðardrasl á gítörunum sínum og einhenda sér í að gera klassíska Gibson-gítara í staðinn. Engar sjálfvirkar stilliskrúfur eða aðrar brellur (ég þekki reyndar bara einn sem á svoleiðis, Mugison, og hann er mjög ánægður með það). Man ekki hvort High Performance línan er alveg farin í ruslið. Fyrirtækið fór í einhvers konar gjaldþrot í fyrra og það var öllu stokkað upp. Og heyrir í sjálfu sér held ég til tíðinda, núorðið, að helstu tíðindin séu af Gibson og Fender. *** Af mínum gítar er eitt og annað að frétta. Ég hafði ekkert að gera á mánudeginum og tók mér því klukkutíma í að skipta um strengi og þrífa Djásnið og Gálknið. Setti líka nýjar stilliskrúfur í Djásnið. Á þriðjudaginn fór ég í Fab Lab og skar út klórplötuna með aðstoð Dodda, sem þar vinnur. Það er ótrúlega mikill lúxus að geta komist í þetta Fab Lab og ég gæti gert miklu meira þar en ég ætla að gera – einfaldlega vegna þess að mig langar að gera mikið af þessu í höndum. Auk klórplötunnar skárum við út hring sem verður notaður sem lok aftan á þar sem hljóðdósarofinn er. Sennilega tók ég því bara rólega á miðvikudeginum. Á fimmtudeginum kom ég svo aftur og skar út búkinn. Heyr á endemi. #fablabisa A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Jan 24, 2019 at 10:39am PST //www.instagram.com/embed.js Þegar heim var komið pússaði ég þetta svolítið og lagaði til með sporjárni – fræsarinn skilur eftir harða kanta sem maður þarf að laga sjálfur. Þetta er svo efnið fari ekki á flug í vélinni. Síðan teiknaði ég allt upp á búkinn, hvar allt á að vera staðsett. Svo handfræsti ég fyrir hljómbotninum (með skapalóni sem ég gerði fyrst) og gerði rásir fyrir snúrur og holu fyrir hljóðdósarofann, með kanti fyrir lokið. Ég gerði líka skapalón fyrir hljóðdósirnar. Og pússaði svolítið meira. Heyr á endemi. A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Jan 27, 2019 at 8:07am PST //www.instagram.com/embed.js Hlyntoppurinn fagri kom í pósti en það fór heldur illa með hann. Hann var 7 mm og mátti alls ekki vera meira en 6 mm, af því bindingin verður að fela hann á köntunum, og við Smári fórum með hann út í vík og mötuðum hefilinn á honum – svoleiðis að hann skemmdist allur og eitt hornið fór meira að segja af. Ég þurfti á öllum styrk mínum að halda til að fara ekki að grenja á öxlinni á Smára. (Það er alltílagi að grenja en maður á kannski ekki að grenja yfir veraldlegu drasli samt – það er líka alltílagi að hemja sig). Ég pantaði mér tvær nýjar frá Króatíu strax og ég kom heim og þær ættu að koma innan tveggja vikna. Síðast tók það níu daga. Ég hélt hins vegar áfram með hinn toppinn og ætla að nota hann til að æfa mig. Ég pússaði niður mestu misfellurnar og límdi hann saman í gær. Á eftir sé ég svo hvernig til tókst. Næst á dagskrá er að láta Adda frænda – eða mann Möggu frænku – bassaleikarann í Ég (í Mér? Í Sér?) og fleiri góðum sveitum – prenta á klórplötuna fyrir mig. Ég er að íhuga að fá gullsmiðinn hérna í bænum til að rista nafnið mitt í hálsplötuna – datt það bara í hug í morgun. Svo þarf ég að halda áfram að pússa bakið og hliðarnar. Ég ætla að fjárfesta í búrgundarlitu bæsi og gera tilraunir með að mála aðeins. Ég þarf að skrúfa eitthvað af götum – sennilega skrúfa ég ekki á klórplötuna samt fyrren ég er búinn að láta prenta á hana, af því götin eiga að flútta við prentið. Svo þarf á að skoða hvernig sé best að prenta á hausinn – kannski eitthvað svona decal-dæmi? Og ég ætla með skemmda hlyninn til Dodda í Fab Lab og skera hann út og leika mér eitthvað með hann. *** Nýr liður. Gítarleikari vikunnar. Í sjálfu sér fáið þið hérna þrjá fyrir einn – en sá sem ég hef mestan áhuga á í þessu er Kingfish Ingram, risavaxni svarti maðurinn með Gibson gítarinn vinstra megin við Samönthu Fish, en auk hennar spilar Ty Curtis á gítar. Kingfish er nýorðinn 20 ára gamall, (17 þegar myndbandið er tekið), fæddur 19. janúar 1999 og hefur meðal annars flutt lag í þáttunum um Luke Cage, spilað fyrir Michelle Obama og tekið upp tónlist með Eric Gales. Ég kann mjög vel að meta svona gítarleikara sem spila svolítið einsog þeir meini það. Gítarinn er ógnarlítill í hrömmunum á honum en skýtur eldingum. Hann byrjar tryllinginn á mín 4.12.
createdTimestamp““:““2024-05-08T17:16:08.624Z““
id““:““8tnva““
Aino er búin að vera lasin síðustu daga. Það var pínu púsluspil fyrir foreldra hennar að láta það ganga upp, því við höfum mikið að gera, einsog gengur. Nadja lenti í tölvuvandræðum og þurfti að vinna upp alls konar vegna skjala sem hurfu og ég er að keppast út á endann í fyrsta handriti að nýrri skáldsögu til að geta séð hvort ég á séns að klára það fyrir haustið. Reyndar kitlar mig líka að gefa út næsta vor. Jólabókaflóðið hefur almennt vond áhrif á líðan mína og síðasta jólabókaflóð var óvenju slæmt. Þegar Aino er lasin skiptist hún á að vera mjög, mjög þreytt og liggja fyrir framan sjónvarp og að vera mjög, mjög skrafhreifin. Í gær töluðum við saman viðstöðulaust í þrjá tíma um allt milli himins og jarðar. Svo lá hún bara flöt í þrjá tíma. Annars erum við meira týpurnar til að þegja saman – lesa bækur saman, kúra og teygja okkur. Og talandi um vorbækur þá er Ó – um þegnrétt tegundanna í íslenskri náttúru , ný skáldsaga míns kæra Hauks Más, loksins komin út. Ég las hana í handriti fyrir rúmu ári síðan og hafði þá á orði hér einhvers staðar að íslenskar bókmenntir ættu von á góðu – þetta er einfaldlega ein allra áhugaverðasta skáldsaga sem skrifuð hefur verið á íslensku í langan tíma og ég er ógurlega stoltur af að geta kallað Hauk vin minn. Það gleður mig líka að sjá að fólk er spennt fyrir henni og þau sem hafa og eru að lesa hana virðast gríðarkát – það er ekki sjálfsagt að bækur rati í mark. *** Ég sit á kaffihúsinu Heimabyggð. Hér sit ég oft núorðið. Ég hef verið að reyna að skipta vinnutíma mínum aðeins betur á milli ólíkra staða. Skrifstofa verður svo auðveldlega að einhverjum sjúkum bönker – þar sem maður ræktar ekkert nema sínar mest intróvert og paranojuðu tilfinningar. Úr því geta orðið ágætis bókmenntir, í sjálfu sér – ég skrifaði Hans Blævi mestmegnis á kontórnum í Aðalstræti, fyrir utan þann hluta hennar sem var skrifaður í residensíunni í Krems, handan götunnar frá öryggisfangelsi Josef Fritzl og ekki voru það aðstæður sem drógu úr noju eða sjúkleika. En ég er að reyna að skrifa eitthvað aðeins bjartara núna og þá þarf ég líka að geta loftað út úr heilanum á mér. Mest skrifa ég þá heima, á skrifstofunni og hérna. En á þriðjudaginn fór ég og sat á bókasafninu í nokkra klukkutíma og geri það sennilega líka eftir hádegi í dag. Á leiðinni heim kom ég við hérna og fékk mér einn kaffibolla – ókostur bókasafnsins umfram hina staðina er að þar fæ ég ekkert kaffi. Það var lítið að gera. Eyjó – Sesar A – sat í einu horninu og vann að sínu einsog hann gerir oft. Og þá lenti ég í svolitlu merkilegu. Inn kom maður með heddfóna sem hann var augljóslega að tala í – frekar hátt. Þetta voru svona þráðlausir hljóðeyðandi heddfónar, alveg einsog ég á sjálfur, og þegar hann hafði lokið sér af með símtalið pantaði hann sér kaffibolla og settist niður við gluggann. Þar skók hann sér mikinn svo það ískraði og brakaði í stólnum í takt við tónlistina sem hann var að hlusta á – hann tók ekkert eftir þessu sjálfur, verandi með hljóðeyðandi heyrnartól, en það fór nokkuð fyrir þessu á annars hljóðlátu kaffihúsinu. Nema hvað, þetta truflaði mig engin ósköp, ég las í gegnum kaflann sem ég hafði ætlað að skoða, kláraði kaffibollann minn, fór í búðina og heim að elda kvöldmat fyrir gengið – eða sennilega fór ég út að hlaupa fyrst, skiptir ekki öllu. Ég byrjaði aftur á Twitter um daginn, meðal annars til þess að geta fylgst með því hvenær birtast dómar um bækurnar mínar í útlöndum. Ég hef orðið var við að bókatímaritin í Suður-Evrópu – Frakklandi og Spáni, þar sem mér gengur ágætlega – nota Twitter meira en Facebook. Og þess vegna vakta ég nafnið mitt (þótt ég sé annars ekkert yfir það hafinn heldur að gúgla mig – ég er óttalegur lúði). Og þá sé ég að þessi náungi, þessi með heyrnartólin, er einhver fígúra á Twitter (ef maður gúglar nafninu kemur í ljós að hann er fastagestur í svona „fyndnustu tíst vikunnar“ pistlum) og hann hefur verið að tísta. Ég er mjög óvanur þessu og finnst þetta svona fremur í dónalegri kantinum. Ég veit að maður er ekki heima hjá sér á kaffihúsi. Einhvern veginn er stærsti kostur góðs kaffihúss sá að manni finnist maður vera heima hjá sér – og mér líður svolítið einsog einhver hafi tekið mynd af mér innum gluggann heima á náttfötunum. Þú veist, ég skil alveg að það sé fyndið – mér meira að segja finnst það fyndið – en mér finnst það líka pínu dick move. Ekki þar fyrir að það er mjög mikilvægt líka að standa vörð um rétt fólks til að vera fífl. Það má. En mig langaði sem sagt að koma þessu að, að mér þætti þetta fávitaleg hegðun. Annars er Twitter líka mjög skrítið rými. Undarleg blanda af svona smánandi háði og PC vitundarvakningu og tilfinningasemi. Ég hef ekki orðið var við jafn mikinn in-crowd-isma síðan ég var í menntaskóla. Sem er reyndar líka fyndið í ljósi þess að síðustu daga hefur fólk á twitter mikið verið að bera íslenska menntaskóla saman við hitt og þetta (MR er Hufflepuff, MS er Ravenclaw eða MH er Glasgow Rangers, Versló er Liverpool o.s.frv.). *** Ég gleymdi gítarleikara vikunnar í síðustu viku. Lommi hefur verið að biðja mig um að hafa John 5 og það er alveg sjálfsagt. *** Mér finnst sífellt stærri hluti listrýni fara fram á siðferðislegum forsendum. Ég var áreiðanlega búinn að nefna það einhvers staðar hérna. Listaverkum er talið það til lasts að þau séu óþægileg, jafnvel þótt þau eigi augljóslega að fjalla um eitthvað sem er óþægilegt og kanna óþægilega núansa. Annar hver dómur er annað hvort móralskt heilbrigðisvottorð eða fordæming. Þetta er mjög hversdagsleg sýn á listina og verði hún ofan á held ég hreinlega að listin, sem slík, sé dauð og tilgangslaus sem annað en skemmtun. Og þá verður nú gaman að vera til. *** Jæja. Þetta varð alltof langt. Ég á eftir að skrifa mjög mikið í dag og þarf að koma mér að verki.
createdTimestamp““:““2024-06-09T05:31:44.326Z““
Ég hef verið duglegur að viða að mér bókum upp á síðkastið. Keypti nokkrar fyrir mánaðamót, þegar ég kom að utan, og er einhvern veginn bara búinn á því núna. Fjárhagslega, meina ég. Þetta eru einar sjö bækur sem ég hef keypt og það er bara nóg til að buga mann. Meðalverðið er kannski 5.500 – dýrasta 7.000 og ódýrasta um 4.000. Ég hef líka farið á bókasafnið núna og fengið tvær gefins frá forlagi (enda áhrifavaldur!) en ég þarf annað hvort að bíða með að kaupa fleiri eða reyna að gera einhverja skiptidíla með gömlu bækurnar mínar. Mig langar að lesa eins mikið úr flóðinu og ég kemst yfir en það stýrist sennilega héðan af mikið af því hvað er inni á bókasafninu. Nema hvað. *** Ef ég ætti að mæla með einni bók fyrir jólin, af þeim sem ég hef lesið, myndi það vera Vetrargulrætur eftir Rögnu Sigurðardóttur. Þetta er smásagnasafn – með sögum í lengra laginu held ég, um 50 síður hver. Þrjár þeirra fjalla um myndlistarkonur (og myndlistarsamfélagið, fagurfræði) á 20. öld, ein um leikskólastarfsmann í samtímanum og ein um blindan sveitarómaga á 18. öld. Þetta er kannski ekki frumlegasti eða mest brútal textinn – þeir sem hafa bara lesið Borg eftir Rögnu myndu sennilega verða hissa, en það er svo sem langt síðan hún skipti um stíl (einsog konan í smásögunni sem yfirgefur abstraktlistina fyrir hið figuratífa) – en hann er einhvern veginn gegnumlýsandi í viðkvæmni sinni, kraftmikill í tipli sínu. Ég er ekki viss um að það sé höfundur á Íslandi í dag sem „leynir jafn mikið á sér“ og Ragna – maður veit einhvern veginn varla hvar það gerist að sögurnar ná taki á manni, þetta er svo látlaust og í raun gerist svo fátt fréttnæmt, en svo alltíeinu er maður allur kominn í hnút. Kona sem vinnur á leikskóla missir sjónar á einu leikskólabarni og alltíeinu er það orðið að hálfgerðum gotneskum hryllingi – sveitarómagi fær perutré á heilann og einhvern veginn kjarnar það alla fátækt og utangarðsmennsku. *** Þetta var góð bókavika. Okfruman er fyrsta ljóðabók Brynju Hjálmsdóttur, gefin út af Unu Útgáfuhúsi sem hóf feril sinn bara í fyrra, held ég, með endurútgáfu á endurminningum byltingarmannsins Hallgríms Hallgrímssonar. Kannski var það meira að segja bara í vor? Allavega. Brynja er nú samt ekki ljóðelskum ókunnug. Hún hefur birt hér og þar í tímaritum , lesið upp úti um hvippinn og hvappinn og stýrt, ásamt Fríðu Ísberg, vinsælu ljóðapoddkasti. Okfruman er óstýrilát bók – hefði hugsanlega mátt vera óstýrilátari en mér finnst það nú reyndar næstum alltaf, þegar ég á annað borð er kominn á bragðið. Ég er almennt á því að stærsti löstur ljóðskálda sé að pússa alla matta fleti og agnúa af ljóðum sínum svo stemningin verður meira einsog á marmaragólfinu í nýskúruðum banka en á vinalegri stöðum, þetta er krafan, hugmyndin um ljóðið sem þessa glansandi fullkomnun frekar en hina lífrænni og (aðmérfinnst) eðlilegri heild. Okfruman er blessunarlega laus við þetta – hún heldur utan um kaosið sitt, nostrar við það, beislar subbuskapinn án þess að ýkja hann. Æðisleg bók, æðisleg ljóð, æðislega uppsett (ég veit það er erfitt fyrir suma að lesa smátt letur, en mikið er það fallegt), æðislegar myndir og myndljóð. *** Mér fannst Agnes Joy ekki jafn rosalega stórkostleg og öllum hinum sem voru með mér í bíó – en það er nú samt rými þar til þess að hafa fundist hún ansi góð enda áttu sumir hreinlega erfitt með andardrátt af hrifningu. Ég er reyndar farinn að venjast því að það komi varla út ný íslensk bíómynd án þess að helmingurinn af fólkinu í kringum mig – yfirleitt sama fólkið, aftur og aftur – lýsi því yfir að NÚNA sé íslensk kvikmyndagerð búin að slíta barnsskónum og NÚNA hafi verið búin til bíómynd sem slái öll met í fagurfræðilegum gæðum. Að því sögðu er Agnes Joy skemmtileg mynd og stemningin í henni skemmtilega öðruvísi – þótt ekki væri nema bara fyrir sögusviðið, Akranes, sem er alveg ofan í borginni án þess að vera í borginni. Að vísu er enn þarna klisjan um sollinn í borginni versus hreinlífið í sveitinni, sem íslensk kvikmyndagerð (og raunar útlensk líka) virðist seint ætla að hrista af sér. Söguþráðurinn er dásamlega mikið kaos (altso, hún fjallar um kaos, sagan er frekar línulega sögð og án mikilla hiksta) og leikur og tónlist eru góð. Mér fannst kvikmyndatakan kannski ekki endilega neitt frábær en kannski hef ég heldur ekkert vit á því og kannski geldur hún fyrir að síðasta íslenska mynd sem ég sá – Hvítur, hvítur dagur – er svo brjálæðislega vel tekin, það er hennar stærsti styrkur. Agnes og mamma hennar eru rosalega vel skrifaðir karakterar og Katla Margrét og Donna Cruz eiga frábæran leik. Þorsteinn Bachmann sem pabbinn var líka frábær – kannski ekki jafn frábær heilt yfir en svo gersamlega rústaði hann nokkrum senum (ég meina rústa jákvætt), til dæmis þegar hann er hress á fylleríi. Björn Hlynur var sannfærandi án þess að fara mikið umfram það og Króli skilaði sínu vel og hafði sína þægilegu nærveru og sjarma. Eitt truflaði mig við söguþráðinn. Það er svolítið mikið reynt að pakka þessu saman í lokin og af og til eru útúrdúrar sem virka einsog pólitísk köll frekar en eitthvað sem eigi heima þarna. Það er ekki endilega alltaf galli – mér fannst til dæmis alltílagi að mamman lýsti sig andvíga því að fá til leiks starfsmannaleigur á vinnustað sínum. En það var fullmikið af því góða þegar hún hafði í endann búið svo um hnútana að það yrðu aldrei notaðar starfsmannaleigur – ég átta mig ekki einu sinni á því hvernig hægt er að búa svo um hnútana í kapitalísku þjóðfélagi og svo var augljóst á öllum senum af þessum vinnustað og fundum að mamman réði ekki neinu þarna. Svo bara alltíeinu réð hún öllu þegar hún var að hætta. Eitt nittpikk: í byrjun myndarinnar er keyrt framhjá frystihúsi. Þar stendur lítill hópur kvenna í vinnslugöllum. Maður sér fyrir sér að þær eigi að vera úti í smók eða eitthvað álíka – kannski bara að fá sér frískt loft. En ég held það séu áreiðanlega 20 ár frá því það var tekið fyrir það að starfsfólk í matvælavinnslu færi út í göllum, með svuntur og hárnet og allesammen. *** Önnur Katla. Between Mountains var að gefa út sína fyrstu breiðskífu – samnefnda sveitinni, sem ég held reyndar að sé bara Katla Vigdís, núorðið, Vernharðsdóttir, milli næstu fjalla í Súgandafirði. Eitthvað held ég reyndar að hún sé með af fólki sér til halds og trausts og þarf ekki alltaf að sækja það langt – bræður hennar eru báðir tónlistarmenn og pabbi hennar er bassa- og gítarleikari til hundrað ára úr hundrað hljómsveitum, hljóðmaður, eigandi Stuð ehf. og ég veit ekki hvað og hvað. Mér finnst einsog ég hafi séð það einhvers staðar á samfélagsmiðlum að þeir hafi eitthvað sessjónspilað á plötunni. Lögin eru flest drifin áfram af annað hvort lyklum eða gítar – útsetningarnar eru ísmeygilegar, marglaga og stundum óvæntar án þess að hljóðfærin þvælist neitt hvert fyrir öðru. Mér er meinilla við að segja að þær séu „smekklegar“ af því „smekklegt“ er svo æðislega mikil klisja í tónlist (og ég er líka hrifinn af því sem er svolítið ósmekklegt) en sennilega eru þær einmitt smekklegar. Frábærir textar, frábærar melódíur. Það er líka klisja að nefna það en það er auðvitað algert rugl að Katla sé – ég held hún sé sautján ára. Og löngu búin að vinna Músíktilraunir, auðvitað. Uppáhaldslögin mín eru fyrsta og síðasta – Open Grounds og What Breaks Me. *** Kvikmyndaklúbbur unga fólksins horfði á Hótel Transylvaníu. Aino valdi og Aram var fjarverandi í hrekkjavökuveislu. Við höfum séð hana áður einhvern tíma. Í grunninn fjallar sagan um hinn ofverndandi föður – mann sem byggir mikinn kastala til að vernda dóttur sína fyrir hinu ókunna. Sem er auðvitað útlendur maður – afmeyjarinn, ástin eina. Pabbinn lærir svo að það er ekkert að óttast þótt litla stelpan hans verði fullorðin og vingast við útlenda manninn, tekur hann inn í fjölskylduna. Missir ekki dóttur heldur eignast son. Nema með vampírum og frankensteinum og þannig. Fínir sprettir en söguþráðurinn kannski doldið mikil klisja. *** Une Misère sendu frá sér nýja plötu – Sermon. Sú á undan, 010717, hét 39 ára afmælisdeginum mínum. Sennilega er það útgáfudagurinn. Ég sá sveitina spila á Aldrei fyrir nokkrum árum – þetta er eitthvert rosalegasta live-band sem ég hef séð. Krafturinn – sem er auðvitað undirstaðan í öllum metal – er engu líkur. Hann skilar sér að miklu, en ekki öllu leyti, á þessari plötu. Sennilega gæti maður komist nálægt því með því að stilla svo hátt að veggir fari að hristast en það er kannski ekki forsvaranlegt þegar maður á nágranna og svona. Ég er ekki viss um að Gylfi og Tinna tækju því neitt æðislega vel. En þetta er klassametall af hörðustu tegund. Eftir því sem harkan í metal eykst verður samt alltaf erfiðara að halda hinu melódíska og/eða athygli hlustandans sem sækist eftir fleiru en bara orkunni (á tónleikum heddbangar maður og lendir í trans – heima hjá sér er maður yfirleitt að sinna öðru samtímis, einsog að blogga). Une Misère er ekki mjög melódísk sveit en þeim mun rytmískari – það er í taktinum, taktskiptum, keyrslu og slökun, sem maður fær kikkið sitt svona heima með heddfónana. Ég sá á samfélagsmiðlum að margir féllu fyrir henni alveg strax í fyrstu hlustun en ég var ekki almennilega kátur fyrren í annarri og þriðju hlustun – kannski vegna þess að ég hafði eiginlega ekkert hlustað á fyrri plötuna og hafði miklar væntingar eftir þessa tónleika um árið. Sermon og Between Mountains komu út sama dag – 1. nóvember. Og þann sama dag kom líka ný plata frá Grísalappalísu, sem ég er bara rétt byrjaður að hlusta á en virkar ekki minna frábær (sennilega meira um það í næstu viku). Rosalegur dagur fyrir íslenska tónlist. Besta lagið á Sermon – hingað til – finnst mér vera Burdened-Suffering. *** Ég fór í bíó á Motherless Brooklyn. Ísafjarðarbíó bauð mér og Nödju frítt og gaf okkur meira að segja popp og kók með því. Ekki vegna þess að ég sé áhrifavaldur, sem ég er samt, heldur vegna þess að ég þýddi bókina sem myndin er byggð á. Það var að eigin frumkvæði og hún átti upphaflega að koma út hjá forlaginu Traktor, sem Snæbjörn Arngrímsson hafði ráðið mig til að sjá um – sennilega í leit að einhverjum Nýhilljóma (þetta var 2005, Nýhil var sjóðheitt). En samskiptin á milli okkar Snæbjörns voru alls ekki góð, allt fór í rugl og bókin kom aldrei út hjá Traktor – sem gaf bara út eina bók, Áferð, fyrstu skáldsögu Ófeigs Sigurðssonar, ekki síður frábæra bók, sem seldist ábyggilega í 60-70 eintökum. Salan hjá Ófeigi hefur svo bara aukist, held ég. En þó salan hafi verið svona góð dugði það ekki til – kostnaðurinn við þýðinguna á Motherless Brooklyn var of mikill og það jafnt þótt ég hafi hlunnfarið sjálfan mig til þess að geta komið þessu í verk og borgað mér langt undir taxta. Og þar sem bókin kom ekki út var auðvitað engin innkoma af henni. Peningarnir voru búnir og Traktornum var lagt. Bókin kom svo út tveimur árum seinna, 2007, þegar við Snæbjörn vorum báðir fluttir til Skandinavíu og Agla, sem nú er með Angústúru, og Guðrún, sem nú er með Benedikt forlag, höfðu tekið við Bjarti. Long story short þá var henni svona bærilega tekið af kaupendum – fór held ég út í einhvern bókaklúbb – og var svo til uppseld þegar ég fékk Íslensku þýðingarverðlaunin fyrir hana 2008. Hún var ekki endurprentuð þeirra vegna, enda held ég að þau verðlaun skipti litlu fyrir sölu, og ekki heldur núna í tilefni myndarinnar (sem fær ekki nema hlandvolga dóma) og ég hef ekki séð hana nema örfáum sinnum í Góða hirðinum – þar sem ég „hirði“ (ho ho) alltaf eintak ef ég sé. Og gef einhverjum. Ég var ekki á landinu og ekki í Skandinavíu þegar verðlaunin voru afhent, heldur í Bandaríkjunum á ljóðahátíð. Mamma fór til forsetans til að taka við skjalinu en ég mælti mér mót við höfund bókarinnar, Jonathan Lethem, á kaffihúsi í Brooklyn. Ég man aðallega að ég var mjög vandræðalegur og afar þunnur eftir mikið gill kvöldið áður – eftirpartí eftir múm-tónleika þar sem ég sá FM Belfast spila í fyrsta sinn og við Valur Brynjar enduðum á trúnó með einhverjum desert storm hermanni. En Lethem var hress og skemmtilegur, sem og konan hans og ungabarn þeirra, og sagði mér að nú færi að styttast í boðaða kvikmynd Edwards Norton, þetta væri bara allt að gerast. Svo leið og beið og leið og beið og ég gúglaði þessu alltaf annað veifið en var steinhættur því þegar treilerinn bara birtist á kvikmyndatjaldinu einhvern tíma í vor. Myndin einsog bókin fjallar um munaðarlausa einkaspæjarann Lionel Essrog, sem þjáist af tourettes. Lærifaðir hans, Frank Minna, er skotinn í upphafi myndarinnar og deyr og Lionel fer á stúfana til að komast að því hvað hafi gerst – einsog við er að búast kemur ýmislegt upp úr krafsinu. Ég man ekki til þess að bókin sé nákvæmlega tímasett en sennilega gerist hún í nýlegri fortíð – og kemur út 1999 – nokkurn veginn í samtímanum. Hins vegar er frásögnin í harðsoðna reyfarastílnum – noir – ofan í tourettíska kæki Essrogs sem setja mark sitt á bæði stíl, uppbyggingu, framþróun sögunnar og auðvitað persónuleika Essrogs. Norton færir söguna aftur til sjötta áratugarins, sem er þá rétt períóða fyrir noirið, en missir þar með þessa skemmtilegu spennu sem er á milli sagnamátans og sögutímans. Þá blandar Norton líka mikið inn alls kyns non-fiction um verktakaspillingu í New York. Í stað þess að hvíla á tourettinu sem myndlíkingu fyrir mannshugann og samfélagið – þessu hvernig rafstraumarnir sem þeytast um hausinn á okkur hjálpa okkur bæði að skipuleggja okkur og sjá skýrt og þvælast fyrir okkur og trufla okkur í senn – lætur Norton söguna hvíla á frekar beisik pólitískri allegoríu. Maður sér það vel ef maður kíkir á dóma um myndina annars vegar – sem rekja samsærisglæpaplottin skilmerkilega – og um bókina hins vegar, sem nefna þau ekki einu orði og tala bara um persónu Lionels. Það er margt vel gert þarna. Norton fer sjálfur mjög varlega í túlkun sinni á Lionel – sem er í senn smekklegt og skemmtilegt og sennilega betra í woke-samfélagi sem horfir ströngum augum á ófatlaðan mann í fötluðu hlutverki, og bókstaflega rangt (ef maður gengur út frá bókinni). Lionel bókarinnar líður miklu, miklu meira af sínum sjúkdómi en Lionel myndarinnar. Lionel myndarinnar hefur auðvitað ekki sama aðgengi að innri mónólóg og Lionel bókarinnar og þarf þess vegna stöðugt að vera að útskýra hugsanir sínar, sem er eitthvað sem Lionel bókarinnar ræður nánast ekki við – allt sem hann gerir út á við markast af sjúkdómnum, en við sem sjáum inn í höfuðið á honum vitum að þar virkar sjúkdómurinn allt öðruvísi, þar ræður Lionel sjálfur ríkjum og hugsanir hans þjóna honum, þar gerir sjúkdómurinn hann að ofurhetju, ofurgreinanda. Í myndinni er tourettið miklu veikara en að sama skapi kannski eðlilegra – ég veit það ekki (tourette birtist á ólíkan hátt, hjá mörgum verður maður varla var við það nema maður viti af því). En þetta er vel leikið. Tónlistin er skemmtileg. Myndatakan truflaði mig oft – oft fannst mér hún of nálægt leikurunum. Og ég hafði auðvitað æðislega gaman að fá að rifja upp Lionel Essrog, sem ég eyddi eitt sinn svo miklum tíma með – þótt mér hafi þótt bókin miklu betri. *** Kokkáll eftir Halldór Erfð… nei djók, Dóra DNA, er frábær bók. Það vantar reyndar titilinn framan á hana, hefur ábyggilega bara gleymst. Sagan hnitar fimlega í kringum væntingar samfélagsins til karlmanna og væntingar margra karlmanna til sín sjálfra – hún afhjúpar marga hluta þessa brandarasamfélags sem við lifum í, innihaldsleysið og ruglið, minnir á einhverja svona Fight Club eða American Psycho stemningu, neysluhyggjan og greddan, þunglyndið yfir því að eiga allt og hafa aldrei neinar helvítis áhyggjur af neinu nema ruglinu sem maður býr til sjálfur. Já og svo er hún bullandi rasísk. Forsendan í henni – hugmyndin sem rammar hana inn og pönslænið sem hún endar á – er einsog í einhverjum cringe-brandara frá því anno 1993. Svona negri gengur inn á bar dæmi. Ég er rosa hissa að Dóri sé ekki hið minnsta canceled – ekki séð svo mikið sem píp einu sinni frá æstasta fólkinu á Twitter (og vel að merkja mótfallinn öllu svona canceli sjálfur, listaverk eru flóknari en þetta, þau eru staður til að hugsa á og hugsa um – en það er líka áhugavert þetta með frípassana). Í miðri bók fór ég í mat hjá vinum mínum, bandaríkjamönnum, og ég fór eitthvað að tala um klisjuna að vestfirðingum þætti svo gaman að stuða og vinur minn hélt yfir mér langa ræðu um hvernig allir voru alltaf að segja n***ah við hann, hvað þetta væri með íslendinga og þurfa alltaf að segja n***ah í tíma og ótíma, og ég rifjaði upp álíka sögur frá Birni Kozempel, þýskum vini mínum, sem sagði að Íslendingum sem væru búnir að drekka meira en tvo bjóra þætti alltaf æðislega sniðugt að ögra honum með hitlerskveðjum, fingraskeggjum og helfararbröndurum. En allavega. Það rennur alveg nokkrum sinnum á ljóðmælanda Dóra svona n***ah æði. Svo ég útskýri það aðeins þá er nöfin sem bókin snýst um kynferðislegar fantasíur um svartan mann – bæði hugsanir og gerðir – og hugmyndir aðalsöguhetjunnar um þennan mann (sem er mjög mikið stand-in fyrir „svarta manninn“ sem slíkan – hann fær einhverja persónulega eiginleika en stígur aldrei út úr fantasíuvíddinni) markerast af ópróblematíseraðri upphafningu, öfund, blæti, hatri o.s.frv. Að því sögðu er ekki beinlínis sanngjarnt að gera afstöðu aðalsöguhetjunnar að afstöðu bókarinnar (hvað þá afstöðu Dóra sjálfs) – en það er heldur ekki hægt skauta bara framhjá þessu grundvallaratriði í bókinni sem sniðugu plot-device, og ekki hægt að próblematísera eða skoða þetta án þess að nefna það. Og án þess að nefna það réttum nöfnum. Viðtökur einsog „ljómandi skemmtilegt að lesa þessa bók“ (Egill í Kiljunni) ná því einfaldlega ekki. En að því sögðu er bókin samt frábær, einhvern veginn. Hún er miklu betur skrifuð, beittari, en mikið af þessum samfélagskrítísku djammsögum sem maður les – og það er samtímis í henni meiri mýkt og lífrænni bygging. Aðalsöguhetjur bókarinnar eru bæði ljóslifandi og í sjálfu sér ótýpískar, þótt staða þeirra í samfélaginu sé kunnugleg – séu þær klisjur þá sigrast Dóri á klisjueiginleikum þeirra, þær verða einstakar. Eins ósennilegur og söguþráðurinn er – ekki í einstökum atvikum, heldur að þetta raðist allt svona saman, tårta på tårta segir maður á sænsku – þá er hann samt aldrei þvingaður. Það er rosa gott múv í lokin þegar tvívíðasta persóna bókarinnar – Hrafnhildur – reynist loks alls ekki tvívíð, grunn eða nærri jafn mikið fífl og maður heldur fram að því, heldur er aðalsöguhetjan bara alltof upptekin af sjálfri sér til að fatta hvað er að gerast í sjálfskaparvítinu sínu. Snúningurinn á sannleikanum um Tyrone var ekki jafn góður – en sennilega merkingarbær upp á allt hitt og óþarfi að líta framhjá honum. *** Gítarleikari vikunnar er Reverend Peyton úr Reverend Peyton’s Big Damn Band.
id““:““f9jlt““
Hljóðstyrkur var lengi vel aðalatriði í sögu gítarsins, sem er auðvitað samofin sögu blússins, eða eiginlega alveg þangað til það var hægt að stilla svo hátt að það þurfti að setja lög um að nú mætti ekki lengur stilla svona hátt. Gítarinn náði vinsældum sem undirleiks- og sólóhljóðfæri vegna þess að hann var eiginlega eina hljóðfærið sem a) réði við hvorutveggja og b) var hægt að bera með sér. En parlor-stellurnar sem pantaðar voru upp úr Sears-vörulistanum – og settu gítarbyltinguna af stað sem svo markeraði alla tónlistarsögu 20. aldarinnar – voru litlar og ekkert sérlega hljómmiklar. Það var kannski ekki alltaf fjölmennt á öldurhúsunum í Mississippi en það var alveg í það mesta til þess að einn maður með gítar gæti haldið dansgólfinu á hreyfingu. Þess vegna var algert grunnskilyrði að söngvarar hefðu stórar og miklar raddir og þýddi ekkert að kalla sig söngvara annars – söngvarar æptu eiginlega alveg þangað til Frank Sinatra braut hefðina – og svo börðu þeir gítarana og slógu þá alveg einsog þeir þoldu. Fyrsta lausnin á þessu gítarvandamáli er hin svonefndi resonator-gítar – oft kallaður dobró, sem var eitt af aðalvörumerkjunum. Resonator-gítarar eru með eina eða fleiri hljóðkeilur úr málmi undir strengjunum sem magna hljóðið umfram það sem venjulegur hljómbotn ræður við. Fyrsta fyrirtækið til þess að framleiða þessa gítara var National og það eru enn í dag flottustu resonator-gítararnir sem maður fær – þótt fyrirtækið hafi farið í marga snúninga síðan – en það er sami maður sem bjó þá til fyrir National sem nokkrum árum síðar stofnaði Dobro-fyrirtækið, John Dopyera, ásamt fjórum bræðrum sínum. Dobro stendur fyrir Dopyera Brothers – en er líka orðið „gott“ á slóvakísku móðurmáli þeirra bræðra. Þetta er ekki sponsuð færsla en það skal tekið fram að ég er að bíða eftir svona gítar (ódýrri Harley Benton útgáfu) með póstinum frá Þýskalandi (og hef beðið nú í um sex vikur út af Covid). Þessir gítarar urðu auðvitað að sínu eigin sándi einfaldlega og í dag er ekkert síður spilað ljúflega og lágt á þá – en Bukka og Son voru ekkert að hlífa skepnunni og það var áreiðanlega ekki gert á téðum öldurhúsum heldur. Á milli þeirra situr pollrólegur Skip James og unga konan hverrar andlit birtist í prófíl í smástund meðan Son House er að spila er engin önnur en Ruth Brown. Þegar rafmagnsgítarinn svo kemur til sögunnar í kringum 1940 er tónlistin svona í mildari kantinum. Sister Rosetta Tharpe leikur sinn gospelblús, Floyd Smith er djassaður og ljúfur, Big Joe Williams og Bukka eru að spila deltablús – Bukka ólíkt harðari en Big Joe vinsælli, t.d. með smellinn Crawling King Snake, sem er standard síðan – Louis Jordan er í sveiflublús, Dinah Washington er enn að syngja blús en á leiðinni í íburðardjassinn, Big Maceo Merriweather er í búggíblús og Arthur Crudup er að finna upp rokkið. 1948 kemur svo Muddy Waters með I Can’t Be Satisfied ( hér er miklu meira um það allt ) og Chicago-senan fer að gera sér mat úr hávaðanum sem magnarar geta framleitt. Það er sagt að Muddy og hljómsveit hafi verið fyrsta sveitin til þess að magna upp öll hljóðfærin í bandinu – setja míkrafóna á allt sem gaf frá sér hljóð. Fram til þess var gítarmagnarinn bara notaður til að hafa gítarsándið jafn hátt og allt hitt var frá náttúrunnar hendi. Það er sennilega um þetta leyti sem hávaðinn verður að hálfgerðu blæti í tónlist – desibel sem tilfinningalegt hreyfiafl – og heldur því áfram alveg ómengað þar til að upparnir taka við tónlistargerð upp úr 1985. Í kjölfar Muddy og félaga kemur fljótt rokkið, svo hipparokkið og þar á eftir pönkið og metallinn í hverju skrefi er hækkað meira og meira og meira. Það passar við ártalið sem ég valdi (af handahófi) að árinu áður – 1984 – kemur Spinal Tap myndin þar sem sagður er brandarinn frægi um magnarann sem er betri en aðrir magnarar af því hann fer upp í 11. (Auðvitað er samt ekki öll sagan sögð með hávaða sem blæti – stadiumrokkið heldur þessu áfram – en það breytist samt eitthvað þarna upp úr 1985, grípur um sig einhvern fágun svipað og þarna um miðja öldina). Allt er þetta formáli til að geta sett inn nokkra rafmagnsgítarblúsa sem njóta sín best í botni. Einn frá hverjum áratug – og byrjað 1957. Þetta er kannski einhvers konar alternatíf-saga rafmagnsgítarblússins (staðlaða útgáfan færi sennilega með hann til Bretlands í Clapton og Mayall, þaðan til Texas í ZZ Top og Stevie Ray, svo í adult contemporary Robert Cray, endurfrægð Buddy Guy og John Lee Hooker og þaðan í Bonamassa og Eric Gales – en það er meira pönk í þessari tímalínu). Sjötti áratugurinn: Slim Harpo – I’m a King Bee. Sjöundi áratugurinn: Howlin’ Wolf – Back Door Man.
Áttundi áratugurinn: Hound Dog Taylor – Take Five Níundi áratugurinn: Gun Club – Preaching the Blues Tíundi áratugurinn: Jon Spencer Blues Explosion – Ditch Fyrsti áratugurinn: White Stripes – Death Letter (eftir Son House) Annar áratugurinn: Delgres – Lanme La.