A proponent of libertarian communism, Saramago was criticized by institutions such as the Catholic Church, the European Union and the International Monetary Fund, with whom he disagreed on various issues. An atheist, he defended love as an instrument to improve the human condition. José Saramago – Wikipedia, the free encyclopedia
Category: Uncategorized
Spéhræðsla og hugleysi
Ég kom til Reykjavíkur upp úr hálftvö eftir miðnætti í fyrradag og fékk að gista hjá Ásthildi og Juan. Svaf í sjö tíma, fékk kaffi hjá Ásthildi, gaf henni Heimsku og rauðvín, spjallaði dálítið og fór svo á fund sem ég veit ekki hvort ég má tala um, en snerist sem sagt um að kanna möguleikann á því að kvikmynda Heimsku (þetta var ekki Balti, en samt alveg legit og impónerandi og flatterandi). Síðan stökk ég upp í leigubíl og fór upp í Odda, þar sem ég las fyrir starfsmenn í hádegismatnum og fékk að borða „strangheiðarlegan fisk“ einsog Stefán Hrafn Hagalín orðaði það áður en hann skutlaði mér niður á Mokka („Það klisjulegasta sem ég geri þennan mánuðinn: að skutla ljóðskáldi á Mokka!“) þar sem ég átti fund með Gunnari Smára Egilssyni um menningarfjölmiðlun á Íslandi. Ég er byrjaður að safna hlekkjum hérna hægra megin (frá mér séð!) yfir menningarsíður. Ég sleppi úr þeim fjölmiðlum sem eru ekki með sérstaka undirsíðu fyrir menninguna – þar með er enginn Kjarni (sem er varla með neina menningarpressu), engin Stund (sem flokkar krítík undir „skoðun“) og enginn Moggi (sem flokkar menningu undir „fólkið“ og birtir ekki krítík á netinu). Þetta er auðvitað hálfdautt, þannig lagað, sérstaklega krítíkin. „Faglegu“ umfjöllunina vantar (að jafnaði) annað hvort dýpt eða andríki og almenna umfjöllunin er einfaldlega of „almenn“ – nær ekki að draga fram hið áhugaverða og fáir sem skrifa hressandi texta um menningarmál. Jakob Bjarnar hristir stundum aðeins upp í hlutunum – meira í menningarfréttamennsku en krítík – og lætur síðan einsog hann sé til skiptis krossfestur af menningarelítunni og ritstjórum sem hafi í krafti stórkostlegustu nútímatækni lestrartölur sem sýna að „enginn lesi menningarumfjöllun“ (les: enginn lesi þá menningarumfjöllun sem blöðin birta, og skal kannski engan undra). Og sic transit gloria og það allt saman. Auðvitað er margt ágætt gert og bla og bla, það vita allir – en allir, eða velflestir, vinna þessi menningarverk í framhjáhlaupum, með hálfri slakari hendinni og þykjast fá litlar þakkir fyrir – og núorðið, á tímum sem bjóða ekki upp á dýpri og merkingarbærari samskipti en lækið, sækist fólk bara eftir þakklæti og enginn sækist eftir respekt (mikið af þeirri krítík sem birtist þessa dagana er þess eðlis að maður spyr sig hvort hvorki gagnrýnandinn né miðillinn hafi nokkra sjálfsvirðingu). Áður en ég settist niður með Gunnari Smára í gær hélt ég að lykillinn væri einfaldlega peningar. Að ritstjórn þurfi að eiga pening til að greiða gagnrýnendum (frekar en t.d. að hún sé unnin á korteri innanhúss af blaðamönnum sem eru að fylla upp í rýmið kringum auglýsingarnar, einsog er lenska) – svo ritstjórn geti leyft sér að hafna, krefjast breytinga, svo gagnrýnendum finnist þeir einhvers metnir. En eftir fundinn – og þetta var líklega ekkert sem GS sagði, ég skal a.m.k. ekki eigna honum það – fór ég að velta því fyrir mér hvort þetta snerist ekki heldur um sjálfsvirðingu þeirra sem skrifa. Og að maður sé fær um að hafa sjálfsvirðingu og vinna verk vel af hendi án þess að manni sé greitt fyrir það. Þetta þýðir auðvitað ekki að maður eigi ekki að fá greitt – menningarfjölmiðlun á Íslandi er alltof illa greidd, það er skandalöst. En ég held hún verði heldur ekki vel greidd eða verðmæt fyrren einhver fer að sinna henni öðruvísi en sem uppfyllingarefni eða hliðarhobbíi. Annað sem sló mig og við hefðum kannski betur náð að ræða eitthvað – við ræddum hvernig listamenn hefðu farið á þennan handverksstað, til að mæta netinu, selja vínil og handsaumaðar bækur og svona – hvort leið menningarfjölmiðlunar væri kannski einmitt fólgin í einhverju slíku. Nostalgísku menningartímariti. Vikulegri og fallegri Lesbók sem fólk gæti keypt í áskrift og lægi frammi á kaffihúsum. Annars finnst mér almennt einsog trúin á bókmenntirnar fari þverrandi – kannski er það út af þessum frakklandsheimsóknum mínum, þeir taka bókmenntum svo alvarlega, frakkarnir, og hluti af því er að leyfa sér einfaldlega að vera tilgerðarlegir með það – háfleygir eða intellektúal, væmnir og rómantískir, en gefa aldrei neinn afslátt, eru passjóneraðir lesendur og höfundar. Á Íslandi nennir enginn að vera passjóneraður, það er svo mikið návígi, hætt við að maður slái einhvern óvart utan undir ef maður fer að baða út höndunum. Ekki þar fyrir að þetta er kannski ekki íslenskt, meira norrænt – við köllum það kaldlyndi en líklega er það meira spéhræðsla og hugleysi. Eftir fundinn á Mokka fór ég út á Reykjavíkurflugvöll og flaug heim. Mér sýndist ég sjá Ragnar Sólberg á flugvellinum, en ég er ekki alveg viss, í öllu falli var Venni (Hemmi Hressi) þarna að fylgja fjölskyldunni í flug en varð sjálfur eftir. Flugvélin fór Djúpið á lágflugi, stímdi undir skýjabakka sem flugu sífellt lægra og lægra svo flugvélin þurfti á endanum að fara upp fyrir þá (nú eða stinga sér í sjóinn). Okkur var hótað að nú yrði snúið við, fjörðurinn væri lokaður, sem var fáránlegt eftir að hafa séð Arnarnesið í seilingarfjarlægð, en eftir einn kortershring var hægt að stinga sér á milli tveggja hnoðra og lenda. Og allir dæstu af kátínu. Ég fór í Bónus, dreif mig heim og eldaði kvöldmat (spagettí með pestó, salat og gufusoðið brokkólí, ásamt hvítlauksbrauðum), fékk síðbúna feðradagsgjöf (hlaupasokka) og eftirrétt („sænska lengju“ úr félagsbakaríinu) áður en ég las fyrir börnin (Sólbjörtu Valentínu fyrir Aram og Tumi bakar fyrir Aino). Eftir að þau sofnuðu spjölluðum við Nadja svolítið og horfðum síðan á The Killing. Þegar við ætluðum að fara að sofa uppgötvaði ég að ég hafði gleymt Calvino heima hjá Ásthildi og Juan – eða uppgötvaði a.m.k. að hún væri horfin – og las Things Fall Apart grátandi af söknuði þar til ég sofnaði. Ekki að hún hafi ekki verið fín en Calvino er bara svo magnaður.
Hættur á Facebook
Menningarframtíðin
Ég las ekkert í gærkvöldi. Lá bara í rúminu í þessu fáránlega lúxus-atelier og glápti á Bojack Horseman og ofurhetjuþætti á Netflix. Fram eftir öllu. Tók mér að vísu tveggja tíma pásu til að skæpa við Hauk Má, sem er alltof sjaldgæft. Síðan svaf ég. Og vaknaði. Skæpaði við Nödju og börnin – það er feðradagurinn, sem er stærra og meira mál í Svíþjóð en á Íslandi, hér eru blöðin full af einhverjum vangaveltum um hvað „kúltúrpabbinn“ vilji í feðradagsgjöf. Og svo framvegis. Happaþrenna fyrir pabba. Prinsessuterta fyrir pabba. En pabbi er í Svíþjóð og svíarnir hans eru á Íslandi. Svo við skæpuðum á meðan ég borðaði morgunmat (egg og brauð með kæfu) og þar til Nadja þurfti að drífa sig út á kajak og ég fór út að hlaupa í Skärhamn. Ég át kjúklingalegg í hádegismat og stökk svo upp í rútu til Stenungsund, síðan frá Stenungssund til Gautaborgar og frá Gautaborg til Landvetter-flugvallar, þar sem ég sit aftur á Joe & the Juice (þetta er að verða dýrkeyptur ósiður, þessir sjeikar). Á morgun les ég upp úr Heimsku í Odda. Ætla síðan að hitta mann til að ræða menningarumfjöllun. Og hugsanlega reyna að ná á konu sem vill ræða við mig um bíó og Heimsku og framtíðina.
Mogginn
Óraunveruleikatilfinningin
Ég flaug til Kaupmannahafnar og las hálfa Ef að vetrarnóttu ferðalangur og horfði á tíu mínútur af Fortitude. Á Kastrup las ég Feigðaróra og át hamborgara og kláraði ljóðið sem ég þurfti að skrifa fyrir Skärhamn áður en ég flaug áleiðis til Gautaborgar. Þegar ég kom á hótelið skömmu fyrir miðnætti kom í ljós að það var ekki búið að greiða herbergið, sem ég lenti þá í að leggja út fyrir – og var frekar fúll (enda er ég svo blankur og skuldsettur að það var hálfgerð heppni að kreditkortinu var ekki synjað). Ég stillti ekki vekjaraklukkuna því mér þótti fásinna að ég myndi nokkurn tíma sofa lengur en til tíu og vaknaði auðvitað klukkan hálfellefu – búinn að missa af morgunmatnum. Fór í búðina og keypti sænska hluti sem eru ekki til á Íslandi og síðan á kebabstað, fékk mér falafel og kaffi, pakkaði svo saman og var sóttur af hópi fólks sem var að fara til Skärhamn. Við villtumst á leiðinni og keyrðum 20 kílómetra krók, en náðum samt á staðinn í tæka tíð. Félagsskapurinn – sem samanstóð af ungu Gautaborgsku menningarfólki – var góður en ég var full dúðaður til að sitja lengi í bíl. Norræna vatnslitasafnið er í Skärhamn. Þetta er mjög stórt safn, helgað norrænni vatnslitamyndlist, og það er í þessum litla bæ – þar sem mér skilst það sé dálítið hornreka, enda setur það drjúgan svip á bæjarlífið. Skärhamn er túristabær á sumrin en annars hálfgert snobbsamfélag, held ég – ekkert nema stór einbýlishús sem ku svo dýr að eitt helsta vandamál bæjarbúa er að börnin flytja öll til Gautaborgar þegar þau fara að heiman, jafnt þótt þau langi að vera hér, því húsnæðið er einfaldlega of dýrt. Það eru svo til engar íbúðir í bænum. Ef þú getur ekki búið í 400 fermetra villu þá verðurðu bara að búa einhvers staðar annars staðar. Það er lýsandi að þótt hér búi ekki nema um 4.000 manns þá er eini kjörmarkaðurinn einsog Kringlu-Hagkaup á sterum – ég hef ekki ímyndunarafl til að giska á hvað sé EKKI til þarna. Að minnsta kosti ekkert sem góðborgara gæti skort. Í Norræna vatnslitasafninu hefur verið sett upp sýning úr því sem er kallað Guerlain safnið og er jafnan til húsa í Pompidou. Daniel og Florence Guerlain eru hjón sem hafa eytt ævinni í að safna vatnslitaverkum – hann er kominn af ilmvatnsættinni frægu. Við Nasim Aghili – sem forfallaðist vegna veikinda – áttum að bregðast við sýningunni með texta. Nasim gat að vísu sent sitt verk með pósti, sem samanstóð af textabrotum sem var dreift á vissum tímapunktum á meðan gædinn leiddi gesti í gegnum sýninguna. Textabrotin voru í umslögum sem merkt voru listamönnunum og í umslögin hafði hún sprautað ólíkum ilmvötnum. Ég stóð síðan í innsta salnum, sem er ekki hluti af Guerlain-sýningunni, heldur eru þar verk í eigu safnsins frá hinum ólíku norðurlöndum, og las þetta ljóð sem var samið af tilefninu. Ljóðið er hluti af svítunni Ljóð um samfélagsleg málefni og ég orti það á ensku frekar en sænsku – þótt ég hafi reyndar líka ort ljóð í svítuna á sænsku, þá er ívið auðveldara fyrir mig að gera þetta á ensku. Ljóðið er meðal annars viðbragð við því hversu erfitt er að bregðast við sýningu einsog þessari – Guerlain hjónin eru ekki með neina kríteríu, þau safna bara því sem þau fíla, og þessi sýning í Norræna vatnslitasafninu, sem er að mörgu leyti mjög góð, er ekki heldur með neina kríteríu eða þema. Þetta er bara samansafn af fínum verkum. Og ég endaði eiginlega á því að bregðast frekar við félagslega raunveruleikanum – safninu sem slíku, sýningunni sem slíkri, mér þarna, Guerlain-hjónunum o.s.frv. Just nu tolkar poeten Eiríkur Örn Norðdahl vår utställning från Centre Pompidou i Paris. Mäktigt! #akvarellmuseet #nordiskaakvarellmuseet #textival #eiríkurörnnorðdahl #donationguerlain #gibcaextended #gibca2015 A video posted by Nordiska Akvarellmuseet (@nordiskaakvarellmuseet) on Nov 7, 2015 at 5:25am PST Síðan fóru allir og skildu mig eftir einan í Skärhamn. Ég bý í einni af listamannsíbúðunum sem fylgja safninu – með fimm metra lofthæð, trönum, útsýni yfir skerjagarðinn og öllu sem slíkum íbúðum fylgir. Ég fór í steraHagkaup og keypti mér kjúkling, focaccia, kartöflusalat og snakk og er annars bara eitthvað að íhuga lífið og skáldskapinn og er reglulega gripinn mjög sterkri óraunveruleikatilfinningu.
Guði sé lof
Hins vegar er ég ennþá til, þótt furðulega megi virðast. Ég hef ekki gefist upp á tilvistinni sem slíkri, heldur spólað aftur til ársins 2004, 2005, 2006, 2007, 2008 jafnvel, til þess tíma áður en samtíminn hófst, þegar enn var til sjálf sem var ekki vortex heldur perspektíf. Ég vaknaði klukkan sjö, einn í rúminu. Aino hafði gubbað (samt alveg hress) og Nadja farið með hana inn á skrifstofuna sína, sem er líka gestaherbergi. Svo komu börnin mín bæði og gáfu mér kraftknús og ég dröslaðist á fætur. Borðaði Havre Fras kodda í morgunmat, pakkaði í ferðatöskuna, drakk espresso sem við köllum ekki lengur espresso heldur mokkakaffi, frá því að semantísk nákvæmni hipstersins tók völdin í heimum bragðlaukana. Las nokkur ljóð í ljóðasafni Gyrðis. Síðan keyrði ég Aino Magneu á leikskólann og fór sjálfur út á flugvöll. Konan fyrir framan mig á leiðinni út í vél virtist aldrei hafa flogið áður. Hún spurði flugfreyjuna hvort maður mætti bara setjast hvar sem er. Og var svo vísað til sætis. Í sætisröðinni fyrir aftan mig var strákur, svona átta ára kannski, eða tíu ára, eða tólf í mesta lagi, með grænan hanakamb. Hinumegin við gangin var dóttir Billu og Elfars Loga ásamt barnabarninu. Ég svaf stærstan hluta flugsins, með hattinn í andlitinu. Þegar ég sagði leigubílstjóranum í Vatnsmýrinni að ég ætlaði bara út á BSÍ spurði hann hvort ég ætlaði ekkert að spila í kvöld; ég sagði nei og spurði svo Mugison í tölvupósti hvort hann ætlaði ekkert að spila í bænum fljótlega, hann sagði já, jújú, næstu helgi, nokkrir miðar lausir og ég bar þau skilaboð áfram án þess að taka fram að ég væri ekki þessi sem gerir það hljóðlega, ég væri hinn, þessi sem er alltaf að þrátta við fólk. Hvert ertu að fara? Köben? spurði leigubílstjórinn vinalega þegar hann hafði fengið upplýsingar um veðurfar á Ísafirði í haust. Til Svíþjóðar, sagði ég. Tómar óeirðir þar, sagði hann. Vinalega. Ég hváði. Innflytjendur, hélt hann áfram, vinalega. Til tómra vandræða. Ég svaraði engu og réttlætti það fyrir sjálfum mér með því að maður geti ekki tekið alla slagi. Í rútunni til Keflavíkur var dóttir Ólínu og Sigga Péturs, Saga, og barnabarnið. Ég kláraði ljóðasafnið hans Gyrðis (það var frábært) og áður en ég tékkaði töskuna inn dró ég fram Þegar að vetrarnóttu ferðalangur eftir Italo Calvino og Feigðaróra Kristófers Páls Viðarssonar. Ég er byrjaður á hvorugri. Á flugvellinum er líka snjóbrettakappinn sem ég held að heiti Eiríkur, einsog ég. Fyrir framan mig, yfir tímaritarekkanum, eru stór plaköt með andlitum: Björk, Arnaldur, Siggi Páls, Yrsa, HKL, Einar Kára, Auður Ava, Jón Kalman, Guðrún Eva og Stephen King. Alltaf þessi Stephen King. Og gott ef ég sé ekki líka glitta í hana Auju í horninu. Ég tók strax eftir því að það var engin mynd af mér. Ekkert stingur jafn mikið í augun og þegar mig vantar. Kannski ég líti í búðina og sjái hvort það sé í öllu falli til einhver bók sem ég hef skrifað. Ég sit á Joe & the Juice, át samloku, drakk sjeik og kaffi. Ég er að reyna að klára ljóð fyrir morgundaginn. Það er ennþá þögn í höfðinu á mér. Guði sé lof.
Offline
Ég lokaði flipunum, slökkti á reikningunum – facebook, twitter, google plus – eyddi öppunum og nú ríkir þögnin ein. Aldrei aftur? Aldrei aftur. Þetta er krabbamein fyrir egóið, rotþró narsissismans, og ég mátti aldrei við því.
Tvær vikur af Heimsku (líkamshiti, þyngd, hreyfing og matarvenjur)
Bókin er komin út – var það komið fram? Ég er alls ekki nógu duglegur að sinna þessu bloggi, sem er hvort eð er löngu hætt að snúast um bókina. En hún er engu að síður komin út – fáanleg í öllum helstu bókabúðum sem svokölluð royal-kilja, fáanleg sem epub-rafbók hjá Forlaginu og Amazonrafbók fyrir kindil , fáanleg sem hljóðbók á Hljóðbókasafni Íslands (í lestri Hjálmars Hjálmarssonar) eða á hinum frjálsa markaði í mínum lestri . Fimm formött, enn sem komið er. Já og svo er búið að selja réttinn á henni til Svíþjóðar og Frakklands, þar sem hún kemur út á næsta ári. Hún var dæmd í Kiljunni – Sigurður og Friðrika stilltu sér upp í sitthvort hornið hvað varðar hið kaldhamraða neytendamat, Frikka með, Siggi á móti, en Egill hélt sig á hlutlausa svæðinu – og svo fékk hún fyrirtaksdóm á Hugrásarvefnum , þar sem Ásta Kristín Benediktsdóttir rýndi og greindi af móð, andríki og íþrótt. Loks hafa birst um hana styttri umsagnir á samfélagsmiðlum – Halldór Laxness DNA var „ GÍRAÐUR “, María Kristjánsdóttir, bókmenntafræðingur, líkti bókinni við verk Henrys Miller (kannski út af dónaskapnum), Össur Skarphéðinsson, fv. … ritstjóri DV … sagði einfaldlega „frábær bók“ og Bjarni Harðarson, bókaútgefandi , sagði hana „afar vel skrifaða“ og að hún ætti „sannarlega erindi við samtímann“. Þess utan hafa það mest verið vinir og kunningjar sem hafa ausið á mig hóli. Nadja, konan mín, er til dæmis mjög ánægð. Börnunum mínum finnst ég frábær (þau fá samt ekki að lesa bókina fyrren þau eru átján ára). Mamma og pabbi eru mjög stolt. Og svo framvegis. * * * Það er alltaf verið að spyrja mig um hvað Heimska sé. Og ég mala eitthvað. Hún er vísindaskáldsaga, glæpasaga, reyfari, tilgátubókmenntir, metafiksjón, ljóðræn hugleiðing um mann og náttúru, frumspekileg hugleiðing um eðli tímans og inniheldur þess utan meira að segja einlægan og blóðugan játningaskáldskap rithöfunda, ritgerð um tilgang bókmennta, og tvær rammpólitískar skáldsögur (sem eru að vísu keimlíkar). Og þetta allt á rétt rúmum 160 blaðsíðum. En svo er ég ekki einu sinni alltaf viss sjálfur nákvæmlega um hvað hún er – og ef ég er viss um eitthvað þá er það það að litlar bækur séu viðkvæmar fyrir umtali höfunda sinna og eiginlega ætti ég að gæta mín að segja sem minnst um hana. * * * Í dag einhvern tíma verður tilkynnt um Medici verðlaunin í Frakklandi. Við Jón Kalman erum tilnefndir – hann fyrir fótalausu fiskana og ég fyrir Illsku. Lítill fugl sagði mér að ég ætti nokkra grjótharða í nefndinni en líklega muni Javier Cercas taka þetta. Ég ætla samt að naga neglurnar niður í kviku í dag. Ég sem þarf eiginlega að hafa hugarró til að klára ljóð sem ég á að flytja á norræna vatnslitasafninu í Svíþjóð á laugardaginn. * * * Í næstu viku ætla ég að lesa upp úr bókinni í streymi á netinu, beinni útsendingu úr skúrinni við Sjökvist. Hugsanlega geri ég það í hádeginu, hugsanlega bæði, og alveg áreiðanlega nokkrum sinnum. Ætli ég auglýsi það ekki betur síðar. * * * Einu sinni bloggaði ég af trúfestu um þyngd mína og matarvenjur. Ekki af neinni lútersku, vel að merkja, þetta var aldrei líkamsræktarblogg. Og nei, nú man ég, það var ekki þyngdin – það var líkamshitinn. Ég er þeim ósköpum búinn að vera undir mennskum meðalhita – yfirleitt ekki nema rétt rúmlega 36 gráður. Ef ég er með 37 gráður þá er ég fárlasinn. En ég sem sagt át Havre Fras kodda í morgunmat, ætla að steikja mér egg í hádeginu og hafa pizzu í kvöldmat. Valur bróðir kemur með fjölskylduna, alla leiðina úr næsta húsi. Ég er 86,6 kíló (3-4 kílóum yfir því sem ég á að mér að vera), í gær hljóp ég fimm kílómetra, á morgun ætla ég til Skärhamn, ég er 36,1 gráða og háður samfélagsmiðlum, kaupið bókina mína!
Síðasti í viðskiptabanni
Ég er aðeins of seinn að skila skýrslunni; hef verið á ferðalagi. Ég hugsa að ég láti alveg vera að draga af þessu verkefni neinar almennar ályktanir, því þótt bækur eftir konur hafi hugsanlega einhver sérkenni sem skilji þær frá bókum karlmanna eru sá munur ekki mikill – munurinn á dönskum og sænskum bókmenntum er miklu meiri, munurinn á eitís og næntís bókmenntum miklu meiri – og bækurnar sem ég hef lesið á þessu hálfa ári miklu ólíkari innbyrðis en svo að þær eigi skilið að fara allar undir sama hatt. En sem sagt. Maya Angelou – I know why the caged bird sings Klassík, auðvitað – fáránlega ljóðræn og falleg. Nú eru líklega tveir mánuðir síðan ég las hana og sagan virðist ekki hafa setið fast í höfðinu á mér, hvernig sem á því stendur. Ég man eftir því að hafa hugsað á meðan á lestri stóð að bókin væri – þrátt fyrir allt fallegt og gott sem má segja um hana – kannski líka svolítið full af blökkumannaklisjum. En fyrst og fremst sterkur texti og sterkur persónuleiki. Lena Andersson – Egenmäktigt förfarande (Í leyfisleysi)
Ég las bókina á sænsku en ekki í íslenskri þýðingu Þórdísar Gísladóttur, sem er áreiðanlega samt frábær (þótt mér finnist þýðingin á titlinum alltof skvísubókaleg – þetta er lögfræðihugtak sem á ensku útleggst sem Wilful disregard). Bókin er svona semísjálfsævisöguleg og fjallar um samband aðalsöguhetjunnar við flagarann og kvikmyndaleikstjórann Hugo Rask (það ölli talsverðu „raski“ (hó hó) í sænskum bókmenntaheimi þegar Roy Andersson tók að sér að vera Hugo Rask og sagði frá ástarsambandi sínu við Lenu). Það sem ég hafði lesið um bókina einblíndi mikið á hugmyndina um kúltúrmanninn og hvernig hann nýtir sér stöðu sína til að tæla ungar konur án þess að meina neitt með því en það kom mér á óvart hvað bókin virkaði miklu meira á mig sem svona raskolnikovskur óður til ástarinnar, ástarþráarinnar og ástsýkinnar. Aðalsöguhetjan er með alls konar þráhyggjur og þær taka miklu meira pláss en hegðun Hugo Rask, sem maður fær eiginlega aldrei neitt sérstaklega mikla innsýn í (enda fer hann leynt með hana). Í öllu falli frábær bók. Virginia Woolf – Út í vitann
Fjölskylda ætlar að fara út í vita en veðrið er ekki alveg nógu gott. Í rosalega merkilegum texta. Vel þýddum af Herdísi Hreiðarsdóttur. Anna Axfors – Veckan innan
Stutt ljóðabók eftir sænska skáldið Önnu Axfors, sem hefur vakið talsverða athygli í Svíþjóð upp á síðkastið. Ég þýddi tvö ljóð úr bókinni – annað þeirra birtist á 2015 er gildra á dögunum og hitt birtist áreiðanlega líka fljótlega. Frábær bók – minnir að mörgu leyti á Miru Gonzalez eða Julie Steen Knudsen. Einhver afhjúpandi nánd í bland við truflandi ágengni. Einsog hún dragi mann inn og hrelli mann til skiptis. Tíst og bast – Eydís Blöndal
Eydís Blöndal var ekki mjög gömul þegar ég las viðtal við hugsjónafrjálshyggjumanninn pabba hennar þar sem fram kom að hann greiddi börnunum sínum fyrir hin ýmsu viðvik á heimilinu – svo sem að búa um rúmið og svona. Af því peningar eru hvati. Sem gerir það auðvitað sérstaklega áhugavert (og skemmtilegt) að dóttir hans skuli hafa valið sér sjálfsagt starfsvettvanginn í heiminum þar sem óhugsandi er að maður búi nokkurn tíma til neina peninga – það er hægt að fá greitt fyrir svo til allt (svo sem að búa um rúmið) og lifa af þeim tekjum, en það er ekki hægt að lifa af því að skrifa ljóð. Í það minnsta er ekkert hæpnara. Að því sögðu er ekki heldur beinlínis leiðinlegt að bókin er góð og áhugaverð. Sum ljóðin bera að vísu með sér að hafa verið skrifuð af ungmenni (þau eru vel að merkja samt miklu betri en nokkuð sem ég skrifaði tvítugur) en önnur þeirra hafa til að bera talsverða spennu, húmor og fegurð. Hvítfeld – Kristín Eiríksdóttir
Síðustu árin hef ég varast jólabókaflóðið og tekið meðvitaða ákvörðun um að leyfa bókum að bíða aðeins (ég mæli ekki með þessu sem neinu skilyrðislausu skylduboði því þá fer bókabransinn á hausinn). Og hafði þess vegna ekki lesið Hvítfeld – og kannski hreinlega óttaðist ég hana af einhverri svona faglegri afbrýðissemi gagnvart hæfileikum Kristínar (sem er vinkona mín). Og var svo sem alveg ástæða til. Hvítfeld er alveg hryllilega góð bók – en samt allt öðruvísi en ég hélt hún yrði. Minna „plottuð“ og meiri ákefð, meira blóð og meiri átök. Ég held ég verði með hnút í maganum a.m.k. fram yfir áramót. Wisława Szymborska – Selected poems Ég ákvað að rifja upp Szymborsku eftir að hafa lesið grein Hermanns Stefánssonar um háskólasamfélagið, Skýrsla handa akademíu , þar sem hann vitnar í ljóð eftir hana: Þegar ég ber fram orðið Þögn / eyðilegg ég það. Nú myndi ég finna til fyrir ykkur eitthvað gott ljóð ef ég hefði bókina við höndina, en hún er heima hjá mér en það er ég ekki. Ég veit ekki hvernig maður ætti að lýsa svona bók – sem er yfirlitsrit yfir heilan feril, heila ævi. Hún er einhvern veginn bæði margbrotin og einföld, ólíkindaleg og sjálfri sér lík og alls engum öðrum. Og maður verður bara að lesa hana sjálfur. Clarice Lispector – The Hour of the Star
Aftur bók sem erfitt er að lýsa. Bók sem fjallar eiginlega mest um textann sem er í henni. Hún gerist í fátækrahverfi í Rio, er sögð af manni, fjallar um konu og kærastann hennar, um skítinn og heiminn og hamingjuna. Ef að Borges og Gertrude Stein myndu eignast barn, og Italo Calvino og Jane Austen myndu eignast annað barn, og þessi tvö börn myndu svo eignast sitt eigið barn, þá væri það barn kannski Clarice Lispector. Þessi brasilíska skáldkona hefur víst lengi verið bókmenntasamfélaginu í Brasilíu kær, en er fyrst að slá í gegn á heimsvísu núna – hún dó rétt áður en bókin kom út, árið 1977. Og stundum hugsa ég að fyrst hún gat skyndilega tekið af stað í útrás, þá sé enn von fyrir Þórberg … Joyce Carol Oates – The Falls (p.s.)
Bókin hefst á því að ungur nýgiftur maður sem er í brúðkaupsferð í Niagara Falls fer og steypir sér í einn af fossunum – hugsanlega vegna þess að honum hafi ofboðið svo gagnkynhneigðu kynmökin sem hann neyddist til að stunda um nóttina. Ekkjan giftist síðan áhrifamanni í bænum, þau eignast saman börn, hann kynnist fátækri konu hverrar börn eru mjög veik vegna eiturefna í hinum svonefnda Love Canal. Verandi lögfræðingur og rosalega góð manneskja ákveður hann að hjálpa henni. Og svo framvegis og svo framvegis. Ég á enn smá eftir af henni – hún er hryllilega löng en að mörgu leyti góð. Miklu meiri „spennubókmenntir“ en ég hélt að Oates skrifaði, miklu meiri saga – kannski er ég bara svona hellaður eftir Woolf og Lispector og ljóðabækurnar, en textinn er allavega alveg meinstrím. Ég hef tekið stóran hluta bókarinnar á hljóðbók í ágætis lestri konu sem ég man ekki hvað heitir og reikna með að klára hana þegar ég keyri vestur (sem verður annað hvort á eftir eða á morgun, eftir því hvenær helvítis WOW-flugið mitt fer í loftið frá CDG). Þórdís Gísladóttir – Tilfinningarök
Þórdís á besta titil ljóðabókaflóðsins (sem er annars svakalegt í ár). Og fyrsta ljóðið í bókinni – sem fjallar um mann sem situr í strætó og starir á konu (þetta myndi ég staðreyna ef ég hefði ekki tékkað bókina inn – ég er svo minnislaus, gæti verið að snúa þessu á haus) – er eitt það besta sem Þórdís hefur skrifað. Síðasta ljóðið er líka mjög sterkt og í sama móð og byrjunin – en miðjan er meira einsog bálkur um ólíkt fólk og minnti mig dálítið á Spoon River Anthology eftir Edgar Lee Masters, sem Magnús Ásgeirsson þýddi einhvern tíma sem … Skeiðarárljóðin? Skeiðarárbálkinn? Ég man það ekki. En miðjan er sem sagt líka góð. Og miklu fyndnari en Masters. Wildlives – Sarah Jean Alexander
Það er einhvers konar endurreisn í játningaljóðabransanum þessi misserin. Og autofiksjón almennt, auðvitað – Knausgaard og það allt saman (ég ætlaði reyndar eitthvað að nefna Knausgaard hérna í Frakklandi um daginn og þá hafði enginn heyrt á hann minnst). Eydís og Mira og Julia og Anna (og jafnvel Lena) sem nefndar eru hér að ofan eru allar í þessum bransa og það er Sarah Jean Alexander að einhverju leyti líka – nema hún er miklu hlýlegri og ekki jafn nístandi. Mira skrifar til dæmis alveg ástarljóð en hún gerir það ekki hæðnislaust – og ekki án þess að því fylgi nokkuð myrk sýn á bakvið allan húmorinn. Wildlives er hins vegar einhvern veginn … ekki jafn vonlaus. Ég veit ekki hvort ég meina það sem hól eða last – kannski er það bara sagt án dæmandi eiginleika. Hér er dæmi: Sarah Jean Alexander / from Wild Lives A photo posted by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Sep 25, 2015 at 5:23am PDT Mr. West – Sarah Blake
Mr. West er óður til Kanye West skrifaður af konu sem gengur með sitt fyrsta barn – og fjallar um tengsl konunnar við þessi tvö líf, svörtu súperstjörnuna með sprengistjörnuegóið og barnið sem vex innra með henni. Og kannski að litlum hluta líka um manninn hennar. Ég sá að hún hafði fengið útreið fyrir að misnota hinn svarta líkama og la tí da – altso fyrir að vera rasisti (einsog er að verða algengari og algengari útlistun á ljóðabókum þar vestra). Ég veit ekki hvort ég tek mikla afstöðu til þess – ég hef verið að útskýra fyrir alls kyns frökkum síðustu daga að ég skilji ekki grunnhugsunina á bakvið laïcite, mér finnist hún ekki ganga upp nema svo takmarkað (meðal annars því hún dregur of skýra milli þess sem er menningarlegt og þess sem er trúarlegt, á meðan sú lína er alls ekki skýr). En ég útiloka ekki að þar sé ég haldinn einhverri menningarblindu. Og að sama skapi skil ég ekki afstöðu bandarískra intelektúala til líkams- og ídentítetspólitíkur – mér finnst einsog þeir blandi öllu saman í einn óskiljanlegan hrærigraut, þar sem bókmenntaverk sem varpa fram erfiðum spurningum um kyn eða kynþætti verða skyndilega að rasískum eða kvenhatandi gjörningum. Svipaða tendensa mátti reyndar sjá í umfjöllun um Kynleikasýninguna í ráðhúsinu. Þetta er ætandi vitleysa. En hvað um það. Mr. West fjallar líka um höfundarétt – það þurfti að sverta allar tilvitnanir í texta Kanyes eða greiða himinhátt gjald fyrir notkun þeirra – og mikið af henni er kópípeist af netinu (í rasistadebattinum græðir hún áreiðanlega ekkert á því að Kenny Goldsmith skrifar s.k. blörb á bakkápu). Og frægðina, samfélagið, hið stóra ameríska þjóðerni. Og er góð (ég geri nú ekki annað en að hrósa bókum þessa dagana, líklega er ég að verða fullgóður í að velja ofan í mig lesefni – ég þyrfti að fara að lesa eitthvað verulega lélegt fljótlega, þó ekki væri nema bara til að halda krítísku tólunum beittum). Sorrowtoothpaste Mirrorcream eftir Kim Hyesoon Suðurkóresk ljóðabók í þýðingu Don Mee Cho. Ég þekki ekki kóreskan kúltúr – og er illa lesinn í asískri samtímaljóðlist, rétt svo ég kannist aðeins við víetnömsku skáldin – en þessi ljóð eru líklega eins langt frá því sem flest fólk heldur að asísk ljóðlist sé og hugsast getur. Þetta er brútal, agressíft, súperintelektúalt og voða lítið um ró hækunnar eða kúl kóansins. Dæmi: Víetnömsk ljóð eru reyndar líka miklu grófari en maður gæti haldið. Líklega þýðum við ekki asísk ljóð hérna á vesturhvelinu nema þau séu að minnsta kosti 2 þúsund ára gömul, eða í það minnsta sannfærandi eftirlíking af slíkum bókmenntum. Ég er enn að lesa Sorrowtoothpaste Mirrorcream – hún er ekkert rosalega löng en það er meiri texti í henni en mörgum ljóðabókum og textinn er þungur aflestrar. Hitt
Bækurnar sem ég las voru: 1 mánuður: Station Eleven – Emily St. John Mandel We Are All Completely Beside Ourselves – Karen Joy Fowler
Paradise of the Blind – Duong Thu Huong
Rilke Shake – Angelica Freitas
Bright-sided: how the relentless promotion of positive thinking has undermined America – Barbara Ehrenreich
Delta of Venus – Anaïs Nin
Sense and Sensibility – Jane Austen
i will never be beautiful enough to make us beautiful together – Mira Gonzalez 2 mánuður
Muminpappans memoarer – Tove Jansson
Norrut åker man för att dö – Ida Linde
What I Loved – Siri Hustvedt
A Summer Without Men – Siri Hustvedt
Days of Abandonment – Elena Ferrante
Bedwetter – Sarah Silverman
Story of O – Pauline Reage
S. A Novel about the Balkans – Slavenka Drakulic
Both Ways is the Only Way I Want It – Maile Meloy 3 mánuður
Everything I Never Told You – Celeste Ng 4 mánuður
En Plastig Trea – Petra Hulova
Tweeting Gone With the Wind – Vanessa Place
Vitsvit – Athena Farrokhzad
Landið sem ekki er til – Edith Södergran
Det här är hjärtat – Bodil Malmsten
Nervsystem – Ýmsir (en las bara konurnar)
Ljósmóðirin – Katja Kettu 5 mánuður
Maya Angelou – I Know Why the Caged Bird Sings
Lena Andersson – Egenmäktigt förfarande
Virginia Woolf – Út í vitann
Anna Axfors – Veckan innan 6 mánuður
Tíst og Bast – Eydís Blöndal
Hvítfeld – Kristín Eiríksdóttir
Wisława Szymborska – Selected Poems
Clarice Lispector – The Hour of the Star
Joyce Carol Oates – The Falls (P.S.)
Þórdís Gísladóttir – Tilfinningarök
Wildlives – Sarah Jean Alexander
Mr. West – Sarah Blake
Sorrowtoothpaste Mirrorcream – Kim Hyesoon Þjóðasamantekt, að gamni:
Bandarískar: 13 (þá tel ég Anaïs og Siri báðar sem amerískar)
Kanadískar: 1
Víetnamskar: 1
Brasilískar: 2
Finnskar: 3
Sænskar: 4
Íslenskar: 3
Breskar: 2
Pólskar: 1
Danskar: 1
Króatískar: 1
Franskar: 1
Ítalskar: 1
Tékkneskar: 1
Kóreskar: 1