Eitt: Ritað undir*

Fyrir tveimur árum skrifaði ég stutta sögu fyrir Ókeipiss – sem Sigurlaug Gísladóttir, a.k.a. Mr. Silla myndskreytti. Það voru engar reglur, sem ég man, nema að textinn mætti ekki vera hluti af stærra verki. Átta uppköstum síðar er ég kominn með útgáfusamning fyrir stutta skáldsögu (og ekkert eftir af textanum úr Ókeipiss nema fnykurinn). Gæska fjallaði um samtímann (sinn), Illska fjallaði um fortíðina og nú er bara framtíðin eftir, áður en ég sný mér að öðru, ótíðum, illtíðum, aftíðum. Heimska – sem er einhvers konar dystópía um kynlíf, bókmenntir og eftirlit, og gerist á Ísafirði – kemur sem sagt út snemma í haust hjá Forlaginu – samtímis í kilju, á rafbók og hljóðbók. Nú er eiginlega ekkert eftir nema að eyða fyrirframgreiðslunni í vitleysu. Eða skuldir vegna vitleysu sem ég hef þegar fjárfest í. * Eiginlega undirritaði ég ekki neitt. Ég er í Víetnam og sendi bara tölvupóst með orðinu „samþykkt“ á verkefnisstjórann.

Untitled

Í sósíalismanum eru það ekki bara sjóræningjasíðurnar sem ógna allsherjarreglu heldur líka samfélagsmiðlarnir (í kapítalismanum höfum við meiri áhyggjur af upplausn fjármagns en upplausn félagsvitundar, í markaðssósíalismanum þarf að hafa kontról á hvorutveggja). Facebook er auðvitað bannað, en það er jafnvel einfaldara að fara framhjá því banni en afritunarvörnum íslenskra rafbóka – ég hef varla séð neinn taka upp síma eða opna fartölvu í þessu landi án þess að þar sé Facebook opið. Twitter og Google Plus eru líka bönnuð á sama hátt. Raunar viðurkennir ríkisstjórnin alls ekki að hún hafi bannað félagsmiðla – kennir einhverjum öðrum um, man ekki alveg hverjum, útlendingum – ekki frekar en Pressan og miðlar hennar gangast við að hanga í sama ættartré og Framsóknarflokkurinn. Eitt og annað fleira er svo bannað – alls konar spjallforrit, heimasíður mannréttindasamtaka og auðvitað heimsvaldasinnarnir á BBC. Mér skilst að ástandið sé svo verst þegar kemur að miðlum á víetnömsku – miðlar á ensku geta gagnrýnt yfirvöld upp að vissu marki án þess að lenda í veseni en miðlar á víetnömsku mega víst ekki halla á hana máli að nokkru leyti án þess að vera lokað tafarlaust.

Lífið í sósíalismanum

Í gær hljóp ég lengri leiðina (10 km) niður á strönd í glampasólskini og 26 gráðu hita og uppgötvaði, mér til talsverðrar furðu, að ég er fær um að svitna líkamsþyngd minni á um það bil einni klukkustund. Það hlýtur að vera einhvers konar eðlisfræðilegt kraftaverk. Ég tók líka fullt af myndum, meðal annars af merkilega íslenskri kúahjörð (en ég hleyp annars mest með hænsnum, hundum, uxum, vespum, bílum, gæsum, rottum og eðlum). Nadja og A&A biðu mín á ströndinni (þau fóru saman á einu hjóli, að víetnömskum sið) og þegar ég hafði baðað mig fengum við okkur rándýran kvöldverð á túristaveitingastað (mér reiknast til að hann hafi kostað heilar 2.500 krónur íslenskar fyrir alla fjölskylduna (við fengum okkur að vísu hvorki forrétt né eftirrétt)). Svona er lífið í sósíalismanum, börnin góð.

Ekki klám

Í gær eða fyrradag gengum við framhjá einfættum manni á handdrifnu reiðhjóli og Aram spurði mig hvort ég hefði séð hann (þetta er samt langt í frá fyrsti einfætti maðurinn sem við sjáum). Fyrren varir var ég farinn að útskýra fyrir honum eitt og annað um jarðsprengjur og hernað – við höfum að vísu nokkrum sinnum talað stuttlega um Víetnamstríðið (sem Aram kallaði fyrst þorskastríðið og ég skildi ekkert hvað hann var að spyrja út í – nú kemur þorskastríðið alltaf líka til tals þegar við ræðum Víetnamstríðið). Sjálfsagt er aldrei gaman að segja neinum frá jarðsprengjum sem hefur ekki nógu grimmilegt ímyndunarafl til að láta sér detta slíkt í hug, en það er áreiðanlega líka svolítið annað að útskýra fyrir barni jarðsprengjur í landi þar sem enn er mikið um fólk sem er einfætt fyrir þeirra sakir – þótt stríðinu hafi lokið löngu áður en ég fæddist. Ekki mikið stríðsklám í því, eiginlega, heldur eitthvað miklu hversdagslegra.

Jól

Klukkan er hálftólf að kvöldi í vesturbæ Hoi An. Við fórum út að borða með mági mínum og konu hans, sem eru í heimsókn en búa annars í Peking (en hann vinnur í Bangkok). Við fengum sjóvartara, tvo ólíka smokkfiskrétti, risarækjur, banh xeo pönnukökur með svínakjöti, wokaða tjarnavafklukku, vorrúllur, papayasalat með kjúklingi, djúpsteikt rækjumauk á sítrónugrasstöngli og makríl. Og nóg af hrísgrjónum auðvitað. Í eftirrétt voru ferskir ávaxtadrykkir – mangó, vatnsmelónu, ananas – grænt te og pönnukökur með súkkulaði, banana og ananas. Maturinn var himneskur – fersk kryddin beinlínis tínd af akrinum fyrir framan okkur – og enginn réttanna kostaði meira en 5 dollara. Aram fékk tvær dósir af sprite með herlegheitunum og var að tryllast úr sykursjokki á eftir (hann fær sjaldan svo sæta drykki). Svo fórum við heim í pakka. Ég fékk risastóra pottahanska á hrammana á mér, fallegar og stórar kryddkrúsir stútfullar af chili og sichuan-pipar, ávísun á sérsniðna leðurskó – eitt eða tvö pör eftir því hvað ég vel mér fína (hef annars bara gengið í sandölum og hlaupaskóm síðustu vikur) – og fínasta ninjaspilið úr stokknum hans Arams. Nú eru allir farnir að sofa nema Nadja, sem er að tína saman gjafapappírinn, og ég sem drakk víst dálítið mikið (og sterkt) kaffi með pökkunum.

Big man

Þegar ég fer einn í bæinn hía þau á mig hvað ég sé stór. Big man, big man. Híhíhí. Og benda. Kalla á vini sína. Þegar ég fer með börnin, sérstaklega Aino sem er yngri og ljóshærðari, fá þau alla athyglina – granninn á vespunni á rauðu ljósi byrjar að strjúka á þeim hárið og gera gjugg í borg. You children? Spyrja þau (hvort sem ég er með eitt eða tvö). How old baby? spyrja þau. Tenty month, svara ég (því í samskiptum mínum við heimamenn tölum við öll jafn lélega ensku). You wife? spyrja þau og skilja ekkert þegar ég reyni að segja að hún sé heima, en ekki sem sagt á hótelherbergi eða í spa eða einhverju þvíumlíku. In house, segi ég. We hire house. Og svo féfletta þau mig eftir fremsta megni en eru annars ótrúlega vinaleg.

Þægindin kosta

1 mánuður og 16 dagar í brottför
Eiríkur: Ég er hræddur við að búa í sveit.  Nadja: Ég á ekki við að við búum í sveit. En ég vil ekki búa í borg. Þú veist ekki hvernig þetta getur verið. Ég vil geta farið í göngutúr og ekki heyrt í umferðinni.  Eiríkur: Ég veit ekkert hvað leynist í náttúrunni. Snákar, ber – það er ekki einsog hérna. Náttúran er hættuleg og við þekkjum hana ekki.  Nadja: En það er millistig. Hvorki stórborg né sveit. Kannski getum við verið nálægt hafinu.  Eiríkur: Þægindin kosta. Það er ódýrast að leigja við umferðaræðar. Ódýrast að leigja fjarri hafinu.

Árstíðir

1 mánuður og 17 dagar í brottför Í Västerås haustar mishratt eftir trjám. Sum trén eru gul, önnur rauð, þriðju iðagræn og fjórðu nakin. Ég veit ekki hvaða árstíð er í Víetnam. Regntímabil – er það árstíð? Það er líka blautt hérna. Í dag fékk ég bréf frá David í Danang. Hann er breskur myndlistarmaður og mælir með Hoi An og Dalat. Kærastan hans er í Hanoi, sem er víst spennandi en algert kaos. Hann segir að maður þurfi ekki nauðsynlega að vera búinn að finna sér íbúð þegar maður kemur. Það sé best að taka stöðuna þegar maður er lentur. Leita aðstoðar heimamanna.