id““:““5povm““

Ég veit ekki hvað maður gerir með hina svonefndu blues revivalista. Ég veit ekki einu sinni hvernig er best að íslenska hugtakið. Blúsvakning – jújú – en blúsvökumenn? Er það gjaldgengt? Of karllægt – þetta voru held ég 99,99% karlar. Eða strákar, eiginlega. Látum það allavega heita gjaldgengt í þessari færslu. Vakning og vaka er ekki alveg sami hluturinn en blúsvakningamenn er bara ekki jafn hljómfagurt. Hvað um það! Það þarf ekki allt að vera svona flókið! Áfram með smjörið! Það er ekki alltaf alveg ljóst hvað fólk á við þegar það talar um blúsvakninguna. Maður gæti átt við fyrstu hvítu blúsarana – Bob Dylan, John Mayall, Clapton, Led Zeppelin og Stones. Maður gæti átt við starf þjóðfræðinga á borð við feðgana John og Alan Lomax – sjálfa dokumenteringuna – eða tónlistarmógúla einsog John Hammond. Og maður gæti verið – einsog ég, og sennilega flestir sem nota hugtakið – að tala um blúsnördin sem spruttu upp beggja vegna Atlantsála eftir stríð og byggðu með sér fámennt en kraftmikið samfélag hvers blómatími er sennilega svona 1959-1965, en varð til í lok seinni heimsstyrjaldar og stendur enn í dag. Kjarninn í þessu samfélagi á gullöld þess er mjög fámennur – örfáir tugir dedikeraðra þráhyggjusjúklinga – og eina ástæðan fyrir því að nokkur skriður kemst á þennan köntríblús er samsláttur þeirra við aðra og stærri hópa. Á fyrra skeiði sínu, fyrir innreið hippismans, er blúsvakningin einsog hliðarhobbí við djassplötusöfnun – margir blúsvökumanna segja frá því í viðtalsbókinni Pioneers of the Blues Revival eftir Steven Cushing að þeir hafi fengið að hirða blúsplötur úr söfnum djassgeggjara, sem stóð meira og minna á sama um þessar plötur en enduðu stundum með þær í höndunum þegar þeir voru að kaupa söfn í heilu lagi. Ég veit ekki hvort þeir gerðu einsog blúsvökumenn sem keyrðu stundum um í hverfum svartra og kölluðu út um gluggann að þeir vildu kaupa plötur – eða bönkuðu upp á og spurðu hvort það væru til nokkrar gamlar plötur. En það var í öllu falli talsvert meiri vinna að safna plötum á þessum tíma en það er í dag.
Á seinna skeiðinu fara þeir svo í samflot með folk revival hreyfingunni. Þá eru þeir ekki lengur bara að safna plötum heldur farnir að safna lifandi fólki – leita uppi svarta blústónlistarmenn og koma þeim inn á folk-hátíðirnar og hippa/bítnikkakaffihúsin. Stór hluti af starfinu fram til þess tíma er fræðilegt grúsk – bæði að safna plötum en líka að grafa upp skjöl og myndir og taka viðtöl. Þá er mikið lagt upp úr því að gera almennilegar útgáfuskrár – komast að því hvað hafði verið tekið upp, hverjir léku í hvaða lögum og hvað væri til og hvað væri týnt. En þarna snemma á sjöunda áratugnum – ég tala um hippa en þetta er eiginlega forhippismi – er farið að gera nýjar upptökur, nýja tónleika og tónlistin og tónlistarmennirnir eru ekki lengur bara einhver forsöguleg abstraksjón heldur lifandi. Það er svo skrítið að þeir nefna það margir að hafa skyndilega bara „fattað“ að tónlistarmennirnir gætu verið á lífi. Einhvern veginn hafði það varla hvarflað að þeim af viti – en þetta eru bara þrjátíu ár. Ef við berum það saman við daginn í dag væri kannski hægt að segja að jújú, Kurt Cobain sé dáinn og Chris Cornell líka, en Dave Grohl er enn að túra heiminn og ég held að Zach de La Rocha sé enn á lífi, þótt maður heyri sjaldan frá honum. Þeir eru að vísu flestir aðeins eldri – Son House og Skip James eru báðir 62 þegar þeir finnast (meðalgruggrokkarinn er fimmtugur 2020) og lífaldur skemmri, ekki síst fyrir svarta menn í deltunni. Ein ástæða þess að ég veit ekki hvað ég á að gera við blúsvökumennina er að allt þeirra ótrúlega mikilvæga starf orkar svo mikið tvímælis – þeir eru stundum mjög rænulausir í ákafa sínum og ástríðu. Á aðra höndina björguðu þeir ótrúlegum verðmætum frá gleymsku án þess að græða mikið á því sjálfir, ef nördastig eru frátalin. Á hina höndina eru þeir hvítir gestir í landi þessarar svörtu alþýðutónlistar og leggja á hana sitt eigið gildismat sem stýrir fagurfræði blússins æ síðan. Ef þeirra hefði ekki notið við væru sennilega flestar upptökur manna einsog Son House og Skip James og Mississippi John Hurt týndar og tröllum gefnar og enginn þeirra hefði öðlast nýjan feril á sjöunda áratugnum – og við ættum þar með engar nýrri upptökur af verkum þeirra. Fyrir blúsáhugamann er það einsog að týna hómerskviðum eða píramídunum. En ef þau hefðu glatast væri áherslan kannski bara meiri á Gilgamesh og Mayahofin. Það er auðvitað ómögulegt að segja hvert landslagið hefði verið án þessarar tónlistar. Þegar Stones drógu Howlin’ Wolf með sér í unglingaþáttinn Shindig! í Bandaríkjunum – þeir gerðu það að skilyrði fyrir sínu giggi að annað hvort Muddy eða Howlin’ Wolf fengi að fljóta með – var nýbúið að finna Son House í Rochester, og einhvern veginn var honum smyglað inn í stúdíóið til að hitta Howlin’ Wolf. Brian Jones missti kúlið og féll á hnén við fótskör Wolfs; og þegar Son House birtist – sem enginn hafði séð í meira en tvo áratugi – missti Wolf kúlið og féll á hnén við fótskör House. Wolf varð reyndar síðar mjög fúll út í House að hafa leyft sér að breytast í byttu – það er klippa á YouTube þar sem Wolf les sínum gamla lærimeistara lexíuna . Brian Jones hafði óljósa hugmynd um tilvist House en þekkti tónlistina ekki að ráði – hann fékk hana í gegnum Wolf. Svo er spurning hvort það sé nóg. Dylan sagði einhvern tíma að munurinn á sér og Donovan væri sá að Donovan hefði aldrei orðið fyrir áhrifum af neinum öðrum en Dylan – „he only got me, he never got what I got“ og átti þar við tónlistarsöguna þar á undan, að Dylan hefði mótast af fleiri kynslóðum tónlistarmanna, en Donovan bara byrjað á top of the folk-pops 1963. Hugsanlega væru hugmyndir okkar um uppruna blússins litaðri af mönnum einsog Leroy Carr, Big Bill og Josh White, ef blúsvökumanna hefði ekki notið við – en það er tónlist sem er erfiðara að sjá í verkum Muddys og Wolfs. Þar skortir þráð. Wolf fær sitt frá Charley Patton (og við hans hlið var alltaf Son House) og Stones fá sitt frá Wolf – og við myndum bara þekkja Son House af orðsporinu. Carr, Bill og White voru allt vinsælir tónlistarmenn og höfðu sennilega meiri áhrif í dægurlagaheiminum og á folk-tónlistarmenn – þetta segi ég þeim ekki til hnjóðs, ég elska tónlist þeirra allra, en þetta er hreyfing í aðra átt. White var beinlínis einn af allra vinsælustu tónlistarmönnum Bandaríkjanna á fyrri hluta aldarinnar og að hann skuli jafn gleymdur og raun ber vitni er sennilega bæði vegna McCarthyismans sem bannfærði hann fyrir stjórnmálaskoðanir hans og svo blúsvökumennina sem höfðu ekki áhuga á þessari fágun og færðu fókusinn yfir á „listrænni“ og/eða harðari blúsara. Þegar maður vill gera lítið úr blúsvökumönnum lætur maður einsog þeir hafi verið miklir forréttindapésar sem hafi haft svarta tónlistarmenn að féþúfu. Fyrir því er hægt að týna til ýmis rök en það gengur eiginlega ekki upp nema maður sé góður í kirsuberjatínslu – því þótt maður geti til dæmis bent á að sennilega hafi umboðsmenn Mississippi John Hurt haft hann að féþúfu var það undantekning hjá þeim – og regla annars í tónlistarbransanum; og þótt maður geti bent á að einhverjir blúsvökumannanna hafi verið úr efri millistétt þá var það líka undantekning. Flestir þeirra virðast hafa notið liftarhafts síns (og kyns), og þótt það sé sannarlega ekki ekki-neitt, nutu þeir ekki endilega annarra forréttinda í lífinu og blúsáhuginn virðist hafa kostað þá miklu, miklu meira en þeir græddu á honum. Þeir ferðuðust ekki bara þvert yfir Bandaríkin til að finna einhverja blúsmenn til að tala við – stundum komu þeir alla leiðina yfir hafið frá Bretlandi og eyddu í það nærri aleigunni. Og áður en það var auðvelt að fjölfalda upptökur fóru enskir blúsvökumenn til Parísar – aftur á skóþvengsfjárlögum – af því það fréttist að þar byggi maður sem ætti tveggja-laga Charley Patton plötu sem þeir höfðu aldrei heyrt. Þeir sem höfðu það skást eru sennilega þeir sem fóru menntaveginn með þessu og gerðust einhvers konar akademíkerar (ekki í neinum blúsfræðum vel að merkja, það var ekki mikið í boði í þeim efnum). Alla jafna eru þetta líka mjög ungir menn, rétt skriðnir yfir tvítugt – og alveg sama hvort maður er þá að spá í helstu leikendum 1949 eða 1961. Þeir heitustu halda áfram alla ævi en það kvarnast hratt úr hópunum eftir því sem þeir eldast og nýir taka við. Þeir sem halda áfram virðast líka margir hafa hrist af sér fjölskyldu eftir fjölskyldu í þráhyggjunni – ýmist fyrir að eyða öllum tekjum sínum í plötur eða fyrir að leiðast út í almenna óreglu (með jafnöldrum úr vakningunni og/eða eldri blúsurum). Flestir þeirra sem taka þátt í þessu eru sjálfir tónlistarmenn í þeim skilningi að þeir spila á hljóðfæri, en fáir þeirra höfðu það nokkurn tíma að atvinnu. Einhverjir þeirra léku svo alls ekki blús og vildu ekki gera það – litu einfaldlega á blúsinn sem alþýðutónlist svartra og ekki viðeigandi að þeir væru að spila hann sjálfir. Þrjár meiriháttar undantekningar eru á þessu – Al Wilson, John Fahey og Henry Vestine. Al Wilson fór ekki með að finna Son House en það var bara vegna þess að hann komst ekki og hann var lykilmaður í að hjálpa Son House að komast aftur í form og hýsti gjarna bæði Son House og Skip James þegar þeir voru á ferðinni. Fahey fann Bukka White (með því að senda póstkort til „Bukka White / Old Blues Singer / Aberdeen Missisippi / c/o General Delivery“ – eftir að hafa heyrt Aberdeen Mississippi Blues). Fahey og Vestine fundu Skip James. Fahey átti farsælan sólóferil en Vestine og Wilson stofnuðu síðar Canned Heat (sem er nefnd eftir gömlu Tommy Johnson lagi). Hér spilar Canned Heat á Woodstock. Henry Vestine hætti í hljómsveitinni vikunni áður. Lagið virðist vera einhvers konar útgáfa af I Believe I’ll Make A Change sem bæði Leroy Carr og Josh White gerðu frægt en var samið af bræðrunum Pinetop og Lindberg. Ég vil svo skilja þetta að mestu frá spurningunni um frumleika og þjófnað í blúsnum – þótt Canned Heat menn hafi verið í hvorutveggja. Einsog blúsvakning nördanna er sá heimur félagslega og pólitískt problematískur – og einsog með hann finnst mér að langflestu leyti ósanngjarnt að fárast bara yfir honum fyrir það, en af öðrum ástæðum. Veröldin er margslungin og maður vildi oft að hlutirnir gerðust ekki nákvæmlega einsog þeir gerðust – ekkert svo með öllu gott að ekki boði líka einhverja helvítis vitleysu. Afstaða mín til blúsvökumanna – dómsorð þessarar færslu – er að þeir hafi unnið stórfenglegt og óeigingjarnt starf og þótt mikilvægt sé að skilja annmarka þess og vankanta sé fullkomið virðingarleysi að gera lítið úr því.

createdTimestamp““:““2024-05-23T08:38:12.620Z““

„Þetta er alveg hræðileg bókakápa en svo þegar maður fer að lesa ljóðin áttar maður sig á því að þetta er auðvitað hinn rjóði kærasti,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir. Auðvitað missa gagnrýnendur oft út úr sér alls konar vitleysu í sjónvarpi – Kiljan er nánast í beinni, tekin upp í beit og lítið klippt – en þetta er samt svolítið fyndið. Mín tvö sent hljóma svona: Ef manni finnst bókarkápan á Kærastinn er rjóður ekki frábær þá á maður ekki að vinna við að leggja fagurfræðilegt mat á neitt og ef það er ekki fyrren maður opnar bókina og les ljóðin sem maður áttar sig á að ljósmyndin á forsíðunni (á bók sem heitir Kærastinn er rjóður – ljósmynd af rjóðum manni) á sennilega að vera af hinum rjóða kærasta þá er maður kannski ekki í sínu besta bókmenntagreiningardagsformi. Sjálfum finnst mér bókin frábær. Ég á svolítið erfitt með að tjá mig um ljóðabækur svona ósjálfrátt – einsog ég skrifa hérna – og beint í kjölfar þess að ég les þær. Ég veit ekki hvað það er. Kannski geri ég öðruvísi kröfur til mín um að það sem ég segi meiki einhvern sens en t.d. þegar ég skrifa um einhverja plötu eða bíómynd, sem ég hef ekkert sérstakt vit á og á ekki að hafa. Kristín er á svipuðum slóðum og hún hefur alltaf verið í ljóðunum, þematískt og táknrænt, en það er eitthvað að leka inn úr annað hvort leikhúsinu eða prósanum í stílnum – sem er látlausari (en ekki merkingarlausari fyrir það). Hún er að fjalla um sambönd – kannski fyrst og fremst heterónormatíf sambönd í patríarkískum heimi, en ekki endilega bara það og sennilega má lesa táknin í víðara samhengi – en maður vill ekki heldur fljóta alveg út í geim bara þótt maður geti það. Hún er að fjalla um einmanaleika – þrána eftir öðrum – og beiskjuna sem vex á milli fólks. Er látlausari stíll fullorðnari – þroskaðri? Manni hættir til að finnast það en ég er ekki viss. Fyrst og fremst er hann lævísari – loftfimleikar tungumálsins eru ekki jafn augljósir og í fyrri bókum hennar, en þeir eru engu minni þótt hreyfingarnar séu fínlegri. Textinn er líka ágengur – passíf-agressífur frekar en agressífur, einsog Kristín hefur verið áður í bókum sínum. Kaldur og óþægilegur – það fer ekki jafn mikið fyrir blóðhitanum hérna, nema að litlu leyti, ástríðunni sem hefur fært manni ákveðna samúð með vonlausum elskendum fyrri bókanna. Þetta er samanbitnara fólk – tilfinningarnar kannski að mörgu leyti erfiðari – og þetta er auðvitað minna „rómantískt“. Kristín hefur fundið að því að fólk sé að leita að tilteknum kærustum í bókinni. Ég hef svolítið ofnæmi fyrir því að fólk biðjist undan ævisöguaðferðinni í lestri – maður þarf að vera frjáls um sinn lestur og sína túlkun (m.a.s. gagnrýnendur í útvarpi og sjónvarpi) og höfundar verða bara að sætta sig við að vera berskjaldaðir fyrir slíku. Að því sögðu er ég búinn að þekkja Stínu lengi (kynntumst á ircinu – bókstaflega – fyrir aldarfjórðungi!) og þekki nokkra af fyrrverandi kærustum hennar mjög vel, hef lesið allar bækurnar hennar (og megnið af bókunum fv. kærastanna líka) og ég gæti ekki fyrir mitt litla líf leyst úr neinu svona hver-á-að-vera-hver hérna. Einsog í öllum bókmenntum byggir Kristín áreiðanlega á eigin reynslu – bækur eru fullar af díteilum úr lífi höfunda – en hvorki grófu og fínu drættirnir hérna eiga sér neina augljósa samsvörun í „raunverulega“ heiminum, það ég get séð. *** Aino Magnea má þola það að lesa sjaldan myndabækur á íslensku. Þegar Aram var lítill lásum við yfirleitt myndabækur fyrir svefninn en um það leyti sem hann var 7-8 ára skiptum við alfarið yfir í kaflabækur. Þær miðast þá alla jafna við að hún hafi gaman af þeim líka – en mamma hennar, sem les annað hvert kvöld, les sitthvora bókina fyrir þau (og getur þá t.d. leyft sér Harry Potter og þannig lagað, fyrir Aram). Við eigum samt óhemju af myndabókum og margar höfum við aldrei lesið – og enn fleiri hefur Aino aldrei lesið. En nú fóru Nadja og Aram suður á síðustu helgi (Aram var að tromma með tónlistarskólanum í Hörpu og Nadja í vinnuferð – af sömu ástæðu var hvorugur kvikmyndaklúbbur heimilisins starfræktur á helginni) og þá lásum við Aino tvær myndabækur sem hún valdi úr hillunni. Sú fyrri heitir Nói og hvalrekinn, eftir Benji Davies, og fjallar um ungan dreng sem finnur hval á ströndinni, fer með hann heim í baðker og felur hann fyrir pabba sínum (þeir virðast búa bara tveir saman). Svo finnur pabbinn auðvitað hvalinn og áttar sig á því að hann hefur ekki verið að sinna syni sínum sem skyldi – verið önnum kafinn við brauðstritið, sjómennskuna – en reiðist alls ekki. Samt fara þeir nú og skila hvalnum aftur út í sjó. Falleg saga – látlaus og ljóðræn, frumleg hugmynd og fallegar teikningar. Það eru víst til fleiri bækur um Nóa og þennan hval. Sú seinni heitir Stelpan sem týndi bróður sínum í ruslinu og er eftir Guðna Líndal með myndum eftir Ryoko Tamura. Þessa tengdi Aino sérstaklega við og við höfum talsvert talað um hana síðustu daga. Hún fjallar um stelpu sem missir gersamlega stjórn á ruslinu í kringum sig – húsið beinlínis drukknar í drasli og einhvers staðar í draslinu týnist s.s. litli bróðir hennar. Eina leiðin til að sigra „ruslahvelið“ er að taka til. Í sjálfu sér er kannski skrítið að stelpan virðist bera ábyrgð á öllu heimilinu – þannig þarf hún t.d. að vaska upp og gera ýmislegt sem er yfirleitt ekki á ábyrgð barna. En hún hefur sosum verið að rusla þetta til líka – gera sér samlokur og eitthvað. Þetta er líka falleg saga – meira af „brjálaða“ skólanum en þeim ljóðræna. Það er eitthvað mjög norrænt við þessar bækur um mjúka, ljóðræna stráka á aðra höndina og trylltar drulluprinsessur á hina – eitthvað viðnám, sem er kannski að verða fyrirsjáanlegt, en virkar ágætlega enn. Fyrir einhverjum vikum síðan ákváðum við að hætta að atast stöðugt í Aino með tiltekt og bíða þess einfaldlega að hún yrði þreytt á draslinu sjálf og sá dagur er eiginlega upp runninn, svona um þessar mundir (það stefnir í allsherjar Marie-Kondo-dag á heimilinu á morgun). Þess vegna tengir hún svona hart – maður kemst varla inn til hennar fyrir drasli. *** Djassgítarleikarinn Andrés Þór mætti með Paradox-kvartett og lék samnefnda plötu á vegum Tónlistarfélags Ísafjarðar í Hömrum. Þeir hentu líka í einn standard í uppklappi en nú er stolið úr mér hvaða lag það var. Ég hafði aldrei heyrt Andrés spila áður og hafði ekki nema óljósa hugmynd um hver hann væri. En ég reyni að mæta á djasstónleika hérna, sem eru nokkuð tíðir, og sérstaklega ef það er gítarleikari. Og þvílíkur gítarleikari! Ótrúlega naskur á melódíur og synkóperingu – bæði í lagasmíðum og spuna. Ég hef hlustað nokkrum sinnum á plötuna á þessari viku sem er liðin síðan tónleikarnir voru – eftirlætis lögin mín hingað til eru þau sem voru á miðju prógrami tónleikanna, Avi, Schrödinger’s Cat og Tvísaga. Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég kom inn var annars pedalaborðið – verandi með svolitla gítargræjudellu. Djassgítarleikarar eru voða oft bara með snúru beint í magnarann eða í mesta lagi 1-2 fetla á gólfinu en Andrés er með fullskipað pedalaborð. Ég kunni sosum ekki við að rýna í það en tók strax eftir því að hann var með Strymon Flint – reverb og tremolo effekt sem ég er einmitt að safna mér fyrir (les: selja aðra fetla svo ég geti réttlætt kaupin). Sem var skemmtileg tilviljun. Næsta skemmtilega tilviljun var svo þegar hann gengur inn með forláta Eastman T386 gítar í fanginu – en kvöldið áður hafði ég legið andvaka í rúminu og verið að gúgla alternatífum við Gibson ES-335 og rekist á þessa og lesið heilmikið um þá. Þriðja og síðasta og sennilega skrítnasta tilviljunin var svo þegar Andrés kynnir lagið J.L. – sem heitir ekki eftir húsinu heldur dönskum gítarleikara, vini Andrésar og „youtube-stjörnu“ sem heitir Jens Larsen. Ég horfi talsvert á gítarmyndbönd á YouTube og þótt ég spili lítinn sem engan djass hafði ég einmitt tekið upp hjá sjálfum mér að læra Blue Bossa og hafði daginn áður legið yfir myndbandi með Jens Larsen, þar sem hann kennir manni hvernig sé best að spila arpeggios yfir hljómaganginn. Og hafði aldrei rekist á þann mann áður. Sándið í gítarnum gat orðið svolítið hvellt af og til. Ekki að hann væri beinlínis of hátt stilltur en þessi salur hentar djassmúsík ekkert æðislega vel – ég gæti líka trúað að Marshall-magnarinn sem Andrés spilaði í gegnum sé heldur stór fyrir svona akustískan sal. Svo er líka meira gaman að fara á djasstónleika þegar maður situr ekki bara einsog á skólatónleikum, heldur við borð og jafnvel með bjór í hendi – þar vinnur Edinborgarhúsið hands down. En sándið var líka fjölbreyttara en gengur og gerist – þökk sé fetlaborðinu, meðal annars. Sennilega hef ég bara tvisvar farið á betri djasstónleika – þegar ég sá Lenni-Kalle Taipele spila … sennilega var það á Gauknum fyrir ábyggilega 20 árum. Og um svipað leyti þegar ég sá Sunnu Gunnlaugs spila fyrir mig og mömmu og kannski einn annan í þessum sama sal, Hömrum. Af lífi og sál. Það vill til að sami trommari, Scott McLemore, lék með Sunnu þá og lék með Andrési núna – en hann er held ég giftur Sunnu. Aðrir í bandinu hjá Andrési voru Agnar Már Magnússon á píanó og Þorgrímur Jónsson á kontrabassa. Og alveg jafn lygilega færir og Andrés Þór – eða allavega svo gott sem. *** Ólyfjan er fyrsta skáldsaga Díönu Sjafnar Jóhannesdóttur. [Hér á eftir er hugsanlega spoiler, þið lesið á eigin ábyrgð]. Einsog allir sanngjarnir og réttlátir áhrifavaldar gera þarf ég að taka fram að bókina fékk ég ókeypis, einsog hvert annað meiköpp-kitt eða fæðubótarefni. Bókin er í nóvellulengd og gerist á nokkrum dögum. Ungur sjómaður með alla vasa fulla af peningum fer á fyllerí og lætur varla renna af sér á meðan sögunni stendur. Þetta er í sjálfu sér þekkt form – ekki síst á fyrstu bók – djammið sem „píkareska“, alveg frá On the Road til Millilendingar og Við erum ekki morðingjar. Mætti jafnvel setja Kokkál þarna inn líka. Og sannarlega mína fyrstu – Hugsjónadrusluna. Ólyfjan hins vegar sker sig þannig úr að fylleríið er eiginlega öll bókin – þetta er bara misdrukkinn maður að þvælast í gegnum skemmtanalífið á meðan „alls konar“ gerist (frekar en að djammið marki söguna eða bergmáli í gegnum hana). Maðurinn hefur enga sérstaka skoðun á því sem hann sér og er sjálfur erkitýpa – einsog „höfundurinn“, sem kemur fyrir í bókinni, nefnir sjálfur. Einsog aðrir karlmenn í bókinni hefur hann fátt annað til brunns að bera en að vera algert fífl – einsog skrifaður upp úr einhverju why-are-men-assholes twitter-ranti. Ólyfjan virkar meira á mig sem ritlistaræfing efnilegs höfundar en kláruð bók. Að miklum hluta til skrifast það á forlagið – ef það er eitthvað sem manni er ljóst frá fyrstu síðu þá er það að bókinni hefur nákvæmlega ekkert verið ritstýrt (eða þá mjög, mjög illa). Málfarið er mjög klaufalegt á fyrstu síðunum en skánar svo eftir því sem líður á bókina – nánast einsog höfundur sé að læra að skrifa samhliða því sem hann skrifar bókina. Píkareskur þurfa ekki að vera á leiðinni neitt sérstakt – ágætis dæmi um frábæra píkaresku sem er á leiðinni beint út í ruglið er Austur Braga Páls – en stefnuleysið hérna er bara of mikið einsog að vera sjálfur á mjög hversdagslegu fylleríi (með einhverjum steingeldum fávita). Og samt er hellingur þarna – það er ofsalegur kraftur þegar Díana gefur í og vandar sig og sagan er einhvern veginn alltaf alveg í þann veginn að fara að blómstra. Og hún hefur augljóslega miklu betri tök á skrifunum í lok bókar en í upphafi – þótt metafiksjónal tvistið hafi verið jafn erindislaust og fylleríið. Hún þarf að beisla þessa orku og beita henni fyrir eitthvað sem henni brennur fyrir brjósti – og kannski er þá ágætt að hún sé þá búin að hreinsa allar helstu djammsögurnar af borðinu. Ólyfjan er ekki góð bók – þótt það sé ýmislegt gott í henni – og ég spái því óhikað að næsta bók Díönu verði miklu betri. *** Ásta Fanney Sigurðardóttir gaf á dögunum út það sem maður gæti kallað sína fyrstu bók „í fullri lengd“. Ljóðabókina Eilífðarnón – og fylgir þar eftir singulnum Herra Hjúkket og samstarfsbókinni Vísnabók með CD. Á bókamerkinu sem fylgir með bókinni stendur að Ásta hafi einhvern tíma verið kölluð „spaðaásinn í geri íslenskra ljóðskálda“. Það vill einmitt til að það var ég sem kallaði hana spaðaásinn og ég stend við það. Ljóðlist Ástu síðustu svona átta árin (og sennilega lengur, þetta eru átta ár sem ég hef vitað af henni, og jújú, ég man reyndar að hún vann einhverja keppni ásamt vinkonu sinni löngu fyrr) hefur ekki síst birst í gjörningum og upplestrum og eru fá skáld sem ferðast jafn víða og hún eða sýna jafn mikinn metnað í ljóðaperformansi. Lengi vel – kannski enn – endurtók hún sig heldur aldrei á sviði, sem er rosalega intensíft þegar maður kemur mikið fram. Ásta er hins vegar alveg jafn fær og jafn tilraunakennd eða flippuð, full af leik og ljóðrænu, flissandi launfyndni, á síðunni og hún er á sviðinu og Eilífðarnón er instant-klassíker í íslenskri framúrstefnu, sem er ósennilegt að einu sinni Ásta sjálf toppi neitt í bráð. Eða það er allavega mitt fyrsta viðbragð. Mér finnst mikið af ljóðlist síðustu ára vera góð – en hún er líka svolítið sjálfri sér lík, svolítið svipaðar raddir (kannski vegna þess hve margir fóru í gegnum sama ritlistarnámið) og í því geri, þessu geri íslenskra ljóðskálda, er Ásta alger spaðaás – beint út úr erminni, skák og mát – og það hvernig hún beitir tungumálinu, tökin sem hún hefur á því og þessi furðu lífræna tengingin sem hún hefur við það, hljóð þess og merkingu, ljóðmyndir og málfræðilega slóða, er einfaldlega engu lík, algerlega einstök. Hafi maður minnsta áhuga á íslenskri ljóðlist verður maður að eignast þessa bók, punktur og basta, yfir og út. *** Í annað skiptið í sögu „gítarleikara vikunnar“ er gítarleikarinn íslenskur (hinn var Langi Seli). Andrés Þór.

id““:““kmdp““

Ég eyði þriðja vinnudeginum í röð í að stara á opin skjöl þar sem ég hef skrifað örfá orð – þetta eiga að verða langir fyrirlestrar, alltof langir eiginlega, og sá sem ég þarf að klára fyrst fjallar um ljóðabók sem ég hef enn ekki skrifað nema svona helminginn af: Ljóð um samfélagsleg málefni. Hér er eitt af þeim, „Ljóð um hörmungar“: Ég á að hafa eitthvað um þetta að segja – og hef það í sjálfu sér, þótt flest sem ég hafi um það að segja sé heldur upphafið og margt af því líklega beinlínis rangt í þokkabót. Til að bæta gráu ofan á svart (gulu ofan á blátt?) þá á ég að flytja (og semja) fyrirlesturinn á sænsku. Bókin er tilraun í retorík; tilraun til þess að staðsetja sig á tilteknum stað „í umræðunni“ – auga stormsins – og lýsa einfaldlega því sem fyrir augu ber. Eins konar hlutlæg lýsing á hinu huglæga; verkleg æfing í því að orða hluti um hluti, hafa orð á orðunum, lýsa þeim með sjálfum sér í heimi sem er viðstöðulaust upptekinn af textalægri sjálfhverfu (í gegnum tækin okkar lifum við lífinu meira og meira í texta). Ljóð um samfélagsleg málefni samanstendur ekki af textum „um“ texta, þetta er ekki greining, ekki hugsun (þanniglagað), heldur textar þar sem tungumálinu („orðræðunni“) er ætlað að koma í stað sjálfs sín. En samt þannig að það (og hún) afhjúpi sig, birtist okkur ekki sem orðræðan (einsog hún er á Facebook og í aðsendum greinum) heldur eins konar orðræðulíki, kunnugleg en samt furðu fjarlæg. Í hlutföllunum 1:1. Skiljið þið nú hvað ég á við þegar ég segi að þetta sé bæði rangt og upphafið? Og nú þarf ég bara að læra hvernig ég get sagt þetta á sænsku og teygt það upp í sirka tvo tíma.

createdTimestamp““:““2024-12-04T15:41:59.553Z““

Það er búið að aflétta hömlum á bólusetta að mestu leyti – bæði á landamærum Svíþjóðar og Danmerkur og ytri landamærum Íslands. Sem þýðir að Nadja og börnin komast vandræðalítið með ferjunni frá Gautaborg til Fredrikshavn og inn í Ísland. Ég aftur á móti fæ ekki bólusetningu í þessu jävla satans rassgati – aðallega af því íslenska og sænska kerfið tala ekkert saman, þetta er eins konar samstarf í því að vera ósammála og sýna enga samstöðu – og þarf að bóka (dýrt) PCR-próf í Gautaborg fyrir brottför úr landi, sem ætti svo að duga mér til að komast um borð í Norrænu í Hirtshals. Þar verð ég aftur prófaður strax og ég kem um borð – af einhverjum orsökum þarf maður að borga fyrir það próf, þótt PCR-próf séu annars ókeypis í Danmörku (skilst mér). Það er nokkur bót í máli að sóttkví hefst í raun strax og ég kem um borð – og ég er frjáls til að fara um allt og sleikja allt og alla einsog mér sýnist meðan ég er ebb í bátnum. Sem er tvær nætur. Ég þarf svo væntanlega að sitja í þrjár aukanætur á hóteli á Egilsstöðum og þá má ég ekki svo mikið sem anda á aðra. Og Nadja og krakkarnir verða þá annað hvort að bíða eftir mér eða halda áfram án mín. Þessu fylgir nokkur existensíalískur leiði. Það eru allir svo glaðir og kátir að vera sloppnir úr þessum covid-höfuðverk. Nema ég! Mér líður svolítið einsog ég hafi verið valinn síðastur í liðið eftir að hafa eytt ári í að bíða eftir leiknum. Geggjað spenntur og er svo sagt að vegna ytri aðstæðna þurfi ég að sitja á bekknum allan tímann. En ég fái að vera í búning á meðan. Þetta er svolítið antíklímax. Til þess að PCR-testið mitt dugi mér bæði yfir dönsku landamærin og upp í ferjuna sólarhring síðar þarf ég að taka það sennilega 31. júlí – af því við komum seint til Gautaborgar 1. ágúst (ekki tími til að taka prófið þar og bíða) og förum svo yfir til Danmerkur morguninn eftir. Morguninn 3. ágúst er ég þá á mörkunum með að PCR-testið sé enn gilt. Annar möguleiki er að keyra eldsnemma til Gautaborgar og taka rándýrt (50 þúsund vs. 25-30 þúsund) PCR-test og fá niðurstöðurnar á fjórum tímum. Nei, sennilega myndi mér duga 12 tíma opsjón. Ég efast um að þessu verði aflétt áður en ég fer heim (3. ágúst) – þótt það gæti svo sem gerst. Það eru svo fáir sem þurfa (eða velja) að ferðast óbólusettir – og hreinlega verða sennilega mjög fáir evrópubúar óbólusettir í ágúst. Sem aftur þýðir að þrýstingurinn er enginn – óþægindin lenda á svo fáum. Og taugaveiklunin er og verður í yfirgír næstu misserin. Þess utan hefur þetta þau (að sumum finnst æskilegu) aukaverkun að hefta för þriðja heims skrílsins – mörkin milli „okkar“ og „þeirra“ verða skarpari. Ég tala nú ekki um ef bólusetningarleysið þar fer að verða til þess að önnur og verri afbrigði vírussins dúkki upp hjá „okkur“ næstu misserin. En ég er líka nógu svartsýnn til að hluti af mér telur að það sé allt eins líklegt að það verði öllu skellt aftur í lás áður en við komumst heim. Smá Delta, smá Gamma, smá Epsilon – ruggi báturinn verður sennilega ekkert hikað. Það myndi nú varla duga til að halda okkur úti en það gæti gert heimferðina erfiðari og dýrari. En það er nú ekki líklegt. Held ég. Vona ég. Það er það áreiðanlega ekki. Svo þarf ég náttúrulega ekki annað en að mælast jákvæður til að vera fastur í nokkrar vikur í viðbót. En herregud hvað ég hlakka til að koma heim. Ég er alltof heimakær á fullorðinsárum fyrir svona langa útvist. Þegar ég var yngri vildi ég helst alltaf vera á ferðalagi – og svo sem kann ég ágætlega við það ennþá. En það er annar móður líka, að vera einn og ábyrgðarlaus, annar handleggur. *** Ég er búinn að lesa inn alla Gæsku fyrir Storytel. Nú erum við að ræða næstu skref. Hugsjónadruslan er líklegust. Annars er Studio Västerås liðið komið í sumarfrí og ég verð farinn þegar þeir koma aftur. En Gæska ætti sem sagt að detta inn einhvern tíma fljótlega. *** Peps Persson lést í gærmorgun. Ég hef fjallað um hann á blúsblogginu . Af því tilefni er Blues på Svenska plata vikunnar.

createdTimestamp““:““2024-06-06T05:39:16.568Z““

Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á Rango. Vestra um samnefnt gælukameljón sem villist í villta vestrinu og lendir í smábæ sem er undir hælnum á illmennum. Einsog gefur að skilja er Rango reyndar nafnlaus einsog allar alvöru vestrahetjur – hann velur sér nafnið Rango af skilti. Rango er hugleysingi en góður leikari og tekst að sannfæra alla um að hann sé mikill byssufantur – klaufast svo til þess að drepa hauk sem ofsækir bæjarbúa og er gerður að skerfara. En bæjarstjórinn hefur sölsað undir sig allt vatn bæjarins og bæjarbúar eru bókstaflega að drepast úr þorsta. Nú þarf Rango að taka á honum stóra sínum – en auðvitað ekki fyrren hann verður fyrst vonlaus um eigin getu, rekst á „anda vestursins“ og fær sjálfstraustið aftur og klaufast enn á ný til þess að bjarga öllu. Það er áhugavert hvernig það er aldrei sá hæfasti í barnabókum sem bjargar málunum, heldur sá hugprúði, klaufalegi, indæli sem sveiflast milli góðlegs mikilmennskubrjálæðis og eyðileggjandi minnimáttarkenndar. Og hann bjargar yfirleitt ekki málunum með hæfni sinni – sem er ekki til staðar – heldur hugrekki sínu. Að láta bara vaða, reyna, gera sitt besta. Og aldrei aðstoðarlaust, vel að merkja, heldur með því að blása hinum í brjóst sams konar fífldirfsku. Í myndinni er líka einhvers konar umhverfisádeila og kapítalísk ádeila. Hvorugt er óalgengt í barnaefni – og stórmerkilegt raunar hversu mikil kapítalísk ádeila kemur úr Hollywood almennt. Ég man varla til þess að hafa séð kaupsýslumann í bíómynd sem var ekki fyrst og fremst einhvers konar illmenni. Ekki ætla ég að verja kaupsýslumenn eða kapítalismann en það segir manni eitthvað að kapítalisminn skuli framleiða áróður gegn sjálfum sér – og maður verður alveg svolítið nojaður af því. *** Ég las Kviku eftir Þóru Hjörleifsdóttur. Þetta er mjög stutt bók og skrifuð í stuttum einföldum mónólógum. Hún fjallar um stelpu sem byrjar með strák. Strákurinn er manipúlerandi kúgari og stelpan svona týpa sem vill að öllum líki vel við sig og setur því engum mörk í samskiptum. Eða í það minnsta ekki honum. Hann notar þetta til að ganga sífellt lengra og lengra – heldur framhjá og kennir henni um það, pissar á hana, tekur hana óviljuga í rassinn og svo framvegis og svo framvegis. Söguröddin er rosalega ung – eða naív. Það skapar ákveðinn ugg. Manni finnst einsog stelpan muni aldrei segja stopp. Ég man ekki hvort það kemur fram hvað þau eiga að vera gömul í bókinni en mér finnst oft einsog þau séu 15 ára – þótt þau séu líklegri til að vera 25. Ég man eftir svona tilfinningum sem unglingur – bæði þessari ofsalegu löngun til að þóknast og þessari fórngjörnu ást en líka þessari rosalegu löngun til þess að stýra og láta elska sig (ég held að svona skíthælahegðun sé oft það – fólk að láta reyna á ást hins, láta hinn aðilann sanna ást sína með að þola viðbjóðinn). Bókin er svolítið „ritlistarleg“ – einsog margar bækur síðustu árin. Ég kann ekki að greina það betur, eða hef ekki lagt mig í það, en það er einhver svona tónn – og tilfinning fyrir því að hlutirnir hafi verið „hugsaðir til enda“. Að jafnaði er það talið gott en ég er alls ekki sérstaklega hrifinn af því. Það vantar tilraunina og óvissuna. Ég er nánast að kalla eftir því að bækur séu verr skrifaðar, eins undarlega og það nú hljómar, það sé meiri tensjón í sjálfri hugsuninni. Ég hugsaði svolítið um feminískt raunsæi vs. sósíal raunsæi. Það er hættulegt að greina þannig eigin tíma í bókmenntum en mér finnst einsog við lifum á tímum feminísks raunsæis. Efnistök og boðskapur femínismans eru mikilvæg og stíllinn á ekki að vera fullyrðandi eða debaterandi heldur presenterandi – reynslan er í forgrunni, reynsluheimar. Eitthvað sem hefur raunverulega gerst eða gæti raunverulega gerst eða er raunverulega að gerast – og presentasjón af tilteknum pólitískum veruleika þar sem X er undirokaður og Y undirokar. Ekki beinlínis greining á valdi – og raunar alls ekki – heldur sýning á valdi. Þannig er Aftur & aftur eftir Halldór Armand, sem er önnur bók sem ég las í vikunni, alveg úti á túni. Hún er af Bret Easton Ellis / Douglas Coupland / David Foster Wallace skólanum. Mikil samtímagreining, miklar tíðarandaveiðar, langlokur um tækni og framtíð. Samt er hún reyndar ekkert úti á túni og rekst raunar alls ekkert á Kvikuheiminn – það er meira einsog þessar strákabókmenntir eigi sér stað á annarri tímalínu. Bergur Ebbi er þarna líka. Dagur Hjartar og Jónas Reynir eiga snertipunkta þarna inn en ekki jafn afgerandi. Aftur og aftur fjallar um ungan strák sem lendir í því að verða forstjóri startöppfyrirtækis, nánast bara af því eigandanum finnst hann eitthvað svo töff. Og hún fjallar líka um eigandann – fyrrum trommuleikara í sveitaballabandi sem svo fer að smygla dópi en verður loks farsæll kaupsýslumaður. Báðir eru forréttindamenn – sá ungi er ráðherrasonur og sá eldri sonur útrásarvíkings sem lendir í fangelsi. Ég las Kviku í striklotu á ströndinni í Útila meðan krakkarnir voru að snorkla og byrjaði svo á Aftur & aftur strax og ég kom heim og ég man að mér fannst fyrst einsog ég væri núna kominn inn í hausinn á stráknum í Kviku. Strákahaus sem er fyrst og fremst nógu upptekinn af sjálfum sér og því nýjasta sem ber fyrir augu til þess að eiga gríðarstóra blinda bletti (ég er að tala um söguhetjuna, vel að merkja, ekki höfundinn). Einsog hann hafi raunverulega engan áhuga á líðan einstaklinganna í kringum sig (en þeim mun meiri á stóru sögunni, samfélagslíðaninni). Enda lendir söguhetjan í því í tvígang að vera sagt upp af kærustum sem hann virkar annars frekar áhugalaus um – og það kemur honum gersamlega í opna skjöldu og hann verður mjög leiður. Þessi hugdetta entist ekki mjög langt inn í bókina – til þess eru þeir of ólíkir karakterar – en samt eitthvað. Reyndar eru karakterarnir tveir í Aftur & aftur nógu líkir í hugsun til að vera næstum sami maðurinn á ólíkum lífsskeiðum. Það vantaði talsvert upp á að aðskilja raddir þeirra – ef það var á annað borð ætlunin. Báðar þessar bækur eru reyndar brjálæðislega áhugaverðar, vel skrifaðar og vel hugsaðar. Ég veit ekki hvort það var bara einhver gremja í mér, þreyta eða annað, en þær náðu mér samt ekki og ég var sífellt að þræta eitthvað við þær og höfunda þeirra í huganum á meðan á lestrinum stóð. „Nei, kommon!“ sagði ég kannski við sjálfan mig inn á milli. Eitthvað þannig. Ég náttúrulega henti frá mér A Tale of Two Cities í pirringi í síðustu viku svo ég er kannski bara ekki í fíling þessa dagana. En svo er það kannski líka einkenni á bókum sem eitthvað er varið í að maður hugsar talsvert um þær eftirá. Ég er enn að melta þessar báðar. Við sjáum bara hvað setur. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins gleymdi sér í gær. Aðra vikuna í röð. Horfum kannski á eitthvað á morgun (erum að gera annað í kvöld). *** Þriðja bókin sem ég las þessa vikuna var Eitur fyrir byrjendur. Sem ég skrifaði sem sagt sjálfur og kom út fyrir 13 árum. Bókin sem ég var að klára og guð veit hvenær kemur út er (mjög sjálfstætt) framhald af henni og ég hafði ekki lesið hana síðan árið 2010. Þá kom hún út á sænsku og ég las hana í rútu á leiðinni á Littfest í Umeå svo ég væri fær um að svara spurningum upp úr henni. Þetta er eina bókin mín sem ég hef lesið í heild sinni eftir að hún hefur komið út og nú hef ég lesið hana tvisvar. Reynslan af að lesa hana í rútunni 2010 var mjög spes. Mér fannst þetta mjög langur tími – fjögur ár – og hún rifjaði upp alls konar. Það eru senur í henni sem áttu sér stað í raunveruleikanum – áreksturinn fyrir utan Bókabúð Máls og menningar til dæmis, og strákurinn sem rífst dauðadrukkinn við hjásvæfu sína á Lækjartorgi var ég sjálfur og svo framvegis. En það var ýmislegt fleira smálegt sem var skrítið að lesa. Díteilar. Omeletta me tiri – til dæmis – einföld fetaostomeletta sem ég var vanur að gera en hafði gleymt. Siggi Gunnars vinur minn, sagnfræðingur og ljósmyndari frá Ísafirði, sagði mér einu sinni að hann hefði haldið dagbók sem barn og í hana hefði hann skráð mjög hversdagslega hluti. Til dæmis að hann hefði borðað seríos í morgunmat og farið í skólann og svo ekkert meira. En hann sagði að það væri ótrúlegt hvað þessir hversdagslegu hlutir gætu framkallað miklar og sérstakar minningar – það var einsog dagarnir lifnuðu við og skyndilega mundi hann þá einsog þeir hefðu gerst í gær. Það var svipað að lesa Eitrið þarna 2010 – omeletturnar og árekstrarnir tendruðu öll ljós í minninginum mínum frá sirka 2003-2006, sem eru sirka skemmtilegustu í nýhilfélagsskapnum, óreglu og ást og kaosi og kærleika. Það var minna af svoleiðis núna og miklu minni nautn í lestrinum. Ég er búinn að vera á leiðinni að byrja á henni lengi en hef verið viðkvæmur fyrir textanum – vandræðalegur yfir honum og vildi að hún væri öll einhvern veginn öðruvísi. Það rann af mér á meðan ég las hana en kaflarnir eru sannarlega misgóðir og ég hafði augljóslega ekki nægan tíma til að skrifa hana – þetta er allt skrifað á kvöldin eftir vinnu á Bæjarins besta eða þegar ég var næturvörður á Hótel Ísafirði. Hins vegar kveikti ég á alls konar hlutum sem ég gerði ekki 2010. Til dæmis því að það eru allir með heimasíma og það er enginn með snjallsíma – fólk er að sms-a hvert annað til að láta vita hvar megi finna Noah Wyle og söngvarann í Darkness. Þá er alls staðar reykt inni – t.d. á Mokka. Fólki er fundið til foráttu að nenna aldrei að mynda sér skoðanir á neinu (ha ha ha!), það þykir skrítið að strákur sé að læra kynjafræði og svo framvegis. Alltíeinu er bókin orðin bók um fortíðina. Og þá kannski ekki seinna vænna að gera framhald. *** Við Aino lékum Monument Valley II á iPhoninum mínum. Fyrir fjórum árum lékum við Aram einmitt fyrri leikinn þegar við bjuggum í Víetnam. Ég er ekki mikill tölvuleikjakall lengur – þótt ég hafi mikið leikið alls konar leiki á unglingsárunum. Monument Valley er völundarhúsaleikur sem reynir á rýmisskynjunina og er afskaplega fallegur. Það er varla hægt að segja að það sé mikill munur á I og II. En þeir eru skemmtilegir og gaman að leika þá saman og síðast en ekki síst eru þeir voða fallegir. *** Gítarleikarar vikunnar eru tveir. Keb Mo’ og Taj Mahal. Þetta lag er líka alveg frábært.

createdTimestamp““:““2024-12-04T15:48:36.901Z““

Í Svíþjóð er allt í hers höndum. Þannig lagað. Það er stjórnarkreppa, ein stærsta matvörukeðja landsins hefur neyðst til að loka flestum búðum sínum vegna árása nethakkara og gengjastríðin geisa sem aldrei fyrr. Stjórnarkreppan kom upp vegna þess að sósíaldemókratarnir ætluðu að þvinga vinstri-flokkinn til þess að samþykkja frjálst leiguverð – húsnæðismarkaðurinn í Svíþjóð er mér svo óskiljanlegur að ég hef eiginlega enga skoðun á þessu máli en finnst þó leigustjórnun instinktíft sympatískari en hitt. Það sem mælir gegn leigustjórnuninni – fyrir mína parta – er kannski mest hvernig hún er framkvæmd. Fólk stillir sér í biðröð og safnar stigum, sem hljómar í grunninn sanngjarnt, en lýsir sér síðan þannig að meðvitaða millistéttin stillir sér í biðröð út um allt upp á von og óvon (það eru engar hömlur á því hvað maður getur verið í biðröð í mörgum ólíkum kaupstöðum eða hjá ólíkum fyrirtækjum) og fyllir allt og flytur svo kannski eða kannski ekki. Þeir sem hafa ekki tíma eða kraft eða skipulag í sams konar fyrirsjón og framtíðarbúskap eru svo bara shit out of luck, einsog maður segir. Þetta viðheldur þannig ákveðinni stéttarskiptingu sem þeir græða mest á sem kunna á kerfið og þekkja það – útlendingar, innflytjendur, kærulausir, vonlausir o.s.frv. reyna kannski að reisa sig við en það tekur bara 25 ár á einhverjum biðlista að komast jafnfætis hinum, sem áttu foreldra sem settu þá á lista strax við fæðingu. Frjálst leiguverð myndi nú sennilega ekki samt verða til mikilla úrbóta. Ég treysti alla vega vinstriflokknum ágætlega til að hafa hagsmuni verkafólks að leiðarljósi og það eru nú ekki síst þeir hagsmunir sem þarf að verja á þingi. Frjálslyndir – sem eiga líka aðild að ríkisstjórninni – heimtuðu þetta og Löfven veðjaði á að vinstriflokkurinn myndi gefa sig frekar en að sprengja ríkisstjórnina. Það gerðist ekki og Nooshi Dadgostar, nýr formaður vinstriflokksins, hefur uppskorið mikið lof fyrir staðfestu – það vill til að Svíar eru langflestir á móti þessum „umbótum“ frjálslyndra. Það sem gæti kannski helst bitið þau í framhaldinu er ef þetta verður einhvern veginn til þess að hægrimenn – með Svíþjóðardemókrata ofarlega á blaði – komist til valda. Þá gæti vinstriflokkurinn fengið það í andlitið að hafa komið því til leiðar með þrjósku sinni. Eitt sem truflar núna er líka að það er ekki nema ár til kosninga og hvaða stjórn sem tekur við mun stjórna í mjög skamman tíma. Og það er hætt við að þeir flokkar sem eigi aðild að henni græði lítið á því – að taka í stjórnartaumana akkúrat þegar viðbúið er að margar afleiðingar Covid-lokana síðustu 18 mánaða fari að kikka inn, er varla líklegt til vinsælda. Og ár er enginn tími til að koma raunverulegum breytingum til leiðar, alveg sama hver fer með völdin. *** Matvörukeðjan Coop lokaði held ég öllum búðum sínum í fyrradag eftir árásir hakkara á tölvukerfið sem keðjan nýtir sér til að sjá um sína verslun. Ég held þær séu flestar enn lokaðar. Að minnsta kosti sú sem ég fer alltaf í. Ég gleymdi þessu í sakleysi mínu áðan þegar við Aino ætluðum að panta dósir, en við þurftum frá að hverfa með dósirnar á annan stað í bænum. Mér skilst að hakkararnir vilji 600 sænskar milljónir. Sem eru þá um 9.000 íslenskar milljónir. Það er ekki ekki neitt. Ég veit samt ekki hvort Coop getur opnað án þess að borga. Skil þetta satt að segja ekki mjög vel. *** Ég nefndi það eitthvað um daginn að sænska lögreglan hefði verið að vinna úr gögnum frá frönsku lögreglunni, sem þeirri áskotnaðist þegar henni tókst að brjótast inn í Encrochat – dulkóðað spjallkerfi sem glæpamenn höfðu nýtt sér um nokkurt skeið. Þetta hefur orðið til þess að fjölga handtökum í glæpaheiminum sem aftur skapar tómarúm í alls konar valdastöðum þar innan og hafa átök ólíkra gengja sennilega aldrei verið harðari í landinu. Enda hverfur markaðurinn fyrir eiturlyf eða aðrar glæpsamlegar nautnir ekkert þótt maður stingi einum og einum fanti í fangelsi. Það losnar bara forstjórastaða í einu fyrirtæki og annað fyrirtæki missir fótstöðuna á markaði svo það þriðja fer að sækja í sig veðrið. Ég held það verði eftir sem áður selt jafn mikið kókaín í Svíþjóð og efri millistéttin vill snorta á diskótekunum sínum. Mér skilst að umræðan lögleiðingu eiturlyfja hafi komið hér upp fyrir einhverju síðan en svo dalað og sé nú svo gott sem gleymd. *** Plata vikunnar er Chess-ára plata Little Walter. Ég ætla ekkert að flækja þetta og velja bara Boom, boom, out go the lights. Boðskapurinn er kannski í það harðasta, en lagið er klassík.

paragraphData““:{„“textStyle““:{„“textAlignment““:““AUTO““}

LÉONARD DESBRIÈRES – LIRE „Joyeux trublion littéraire, le géant islandais Eirikur Örn Norddahl n’a peur de rien ni de personne et s’empare avec une intelligence malicieuse des sujets qui fâchent pour cramer au lance-flammes les travers de nos sociétés modernes.“ MATHIEU LINDON – Libération „Le fil du rasoir est le décor romanesque préféré d’Eirikur Örn Norddahl.“