createdTimestamp““:““2024-06-03T14:17:29.877Z““

Ég kláraði Great Apes eftir Will Self í gær. Bókin, sem er frá 1997, fjallar um myndlistarmanninn Simon Dykes, sem vaknar dag einn eftir mikið og kunnuglegt eiturlyfjarús við þá skelfingu að kærastan hans er ekki lengur manneskja heldur simpansi. Og ekki bara hún reyndar, heldur hann líka, og allir sem hann þekkir – veröldin einsog hún leggur sig, í stíl við Planet of the Apes. Í stað þess að menn hafi þróast og orðið ráðandi tegund jarðarinnar voru það simpansar – órangútanar og górillur heyra hins vegar til dýraríkinu, líkt og menn. Simon lendir síðan í meðferð hjá hinum „mikilsvirta náttúruspekingi“ (einsog hann kallar sig ítrekað sjálfur), Zack Busner, sem fylgir honum í gegnum veröld simpansana, heimilislíf þeirra beggja og loks til Afríku í leit að týndum syni Simons, sem sennilega er enn maður og býr þar á verndarsvæði. Ég hef aldrei lesið bók þar sem er jafn hressilega mikið riðið og slegist. Simpansarnir hafa ekki verið antrópómorfíseraðir svo mikið að þeir glati þeim eiginleikum sem þeir hafa í náttúrunni – þvert á móti finnst þeim mjög sætt eða sjúkt eftir atvikum hvað mannskepnan er spéhrædd og kynlaus og það hversu langan tíma það tekur hana að fá fullnægingu er talið til marks um lífsleiða. Simpansarnir hins vegar raða sér upp eftir hírarkískum tiktúrum í röð við næsta bólgna kvenskaut og fá það á fáeinum sekúndum. Konurnar hleypa bara körlunum að þegar þær eru á lóðaríi en karlarnir serða allt – líka náskylda ættingja sína og það þykir gróf misnotkun að sinna ekki serðingu dætra sinna. Ofbeldi er þá daglegt brauð. Fari einhver fram úr sér við sér hátt settari apa – sjúklingur við lækni, t.d., einsog gerist af og til milli Simons og Busner – tekur sá háttsettari sig til og snuprar smælingjann með því að berja hann hressilega og ítrekað í nefið, hendurnir einsog þyrluspaðar. Annað er eins – „sumt breytist aldrei“, er sagt nokkrum sinnum í gegnum bókina – og konur eru undirsettar körlum og bónóbóar (af afrískum uppruna) undirsettir simpönsum. Ég gleymdi bókinni heima (ég er á skrifstofunni) og það er ótrúlega lítið hægt að gúgla því en mig langaði að birta hérna tilvitnun til að sýna ykkur stílinn – sem er vægast sagt frábær. Vísindalegur, ljóðrænn, hilaríus – ég á auðvitað ekki ensku að móðurmáli og get ekki verið fullkomlega dómbær en mér finnst enginn komast í hálfkvisti við Will Self þegar kemur að unaðslega meðvituðuðum og orðríkum texta nema kannski Nabokov. Að minnsta kosti ekki fyndnu höfundarnir – Joyce kemur upp í hugann en hann skýtur bara of langt yfir markið. Góður maður gæti gleymt sér dögum saman við að greina hvað er rangt við þessa bók. Viðlíkingar af þessu tagi og karnivalískir viðsnúningar geta aldrei þolað mikla snertingu við vitlausa bein hinna vel meinandi – hugtakið mutually assured destruction kemur upp í hugann. Karikatúrar eru eðli málsins samkvæmt særandi og vilji maður ekki algerlega skera burt alla viðkvæma þjóðfélagshópa – alla nema hinn dómínerandi gagnkynhneigða hvíta sís-karlmann – þá karíkatúrar maður þá líka, gollívoggar þá, og stillir upp viðstöðulaust dauðafærum fyrir félagsbókmenntafræðinga. Það er skrítið og kannski er það ekkert skrítið hvað það situr djúpt í manni nútildags að byrja á slíku nittpikking og horfa meira og minna framhjá því um hvað verkin snúast og hvað þau eru að segja. Það er nánast ósjálfrátt viðbragð, einsog bergmál úr Twitterspherinu. („Svona var þetta ekki þegar ég var ungur, ég skal sko segja ykkur, á Ircinu var …“) Great Apes fjallar um margt og verður ekki auðveldlega smættuð – en helsti og mikilvægasti þráðurinn, sá sem ég myndi toga í ef ég væri að skrifa bókmenntarýni, snýr að sambandi manns við eðli sitt og mörkin milli manns og náttúru hvort sem maður sér þau sem „eðlileg“ eða „tilbúin“. Hvað það þýði að álíta sig aðskilin frá skítnum, eitthvað „annað“ en náttúruna – hvort heldur maður gerir það einsog hippinn sem telur sig skilja hana, vill vernda hana, úr hásæti sínu og af óþolandi hroka, eða einsog borgarbúinn sem vill helst ekki sjá hana og heldur að hún sé ekki hluti af sér, heldur eitthvað utanaðkomandi. Og þegar ég segi náttúra meina ég bæði grösin og gredduna – bæði náttúruna í fjallinu og náttúruna í manninum. *** Í gær horfði ég líka á Vofu frelsisins – Le Fantôme de la liberté – eftir Luis Buñuel. Einsog gefur að skilja er þetta súrrealískt verk og þar eru nokkrir viðsnúningar sem eru blóðskyldir apaleikjum Self. Söguþráðurinn er bútasaumur – við fylgjum einni persónu að þeirri næstu og skiljum stundum við sögupersónur í miðri sögu, finnum þær stundum aftur síðar og stundum ekki. Þetta hljómar auðvitað hámódernískt og mjög leiðinlegt ef maður þekkir ekki Buñuel, sem er svívirðilega fyndinn höfundur. Í þessari mynd er hin fræga matarboðssena. Þar gyrðir fólk niðrum sig og situr til borðs á klósettum og kúkar saman meðan það spjallar en bregður sér síðan afsíðis til að borða – confit de canard, sýndist mér það vera, og rauðvín með. Myndin er frá árinu 1974 og færi sennilega sem því nemur enn verr út úr hinum viðkvæma samtímalestri en Great Apes. Það finnst angan af því kynferðislega frjálsræði sem hafði rutt sér rúms en hún birtist fyrst og fremst í nöktu kvenfólki – tveimur stykkjum – en þeim tíma og þeim móral virðist minna fagnað í dag, fyrir það siðferðislega drullufangelsi sem hann muldi, og meira bölvað fyrir (augljósan) ófullkomleika sinn. Í annarri af þessum kvennektarsenum, þar sem ungur maður reynir með talsverðri frekju að koma til við sig aldraðri ástkonu, birtist okkur líkami þeirrar gömlu sem ungur – þegar hann loks birtist. Sem er auðvitað í anda súrrealismans en einhverjum gæti þótt pólitískt eða móralskt óþægilegt – eða í það minnsta nóg til að við það væri staldrað. Reyndar birtist þarna líka einn karlmannsrass, sem ég hafði gleymt, og er flengdur af konu í leðurbúning, í senu sem er mjög kómísk á kostnað hinna BDSM-ísku exhibisjónista. Sú sena er líka á einhvers konar hápunkti myndarinnar – að mínu mati – sem gerist á gistiheimili þar sem gestir flakka á milli herbergja og heilsa hver upp á annan í alls konar undarlegum kringumstæðum. Þetta er svona hurðafarsi fyrir súrrealista. Senurnar eiga það flestar sameiginlegt að snúa upp á félagslega siði – sumar bara lítið, einsog hjá lögregluskólakennaranum þar sem fólk er stanslaust að koma og fara, aðrar meira einsog hjá bróðurnum sem hangir yfir naktri systur sinni þar sem hún spilar rapsódíu Brahms, og aðrar enn meira einsog þegar lögreglan ber ekki kennsl á sýslumann, handtekur hann, en þegar hann hittir þann sem þá er sýslumaður (fyrst hann var ekki sjálfur sýslumaður er einhver annar sýslumaður) verða þeir báðir sýslumenn. Hvert skref er í sjálfu sér rökrétt en algerlega án tengsla við þau rök sem réðu skrefinu á undan – siðirnir og hegðunin er rétt ef þau eru skoðuð einangruð. Sama gildir um stúlkuna sem leitað er að um alla París svo vikum skiptir vegna þess (hafi ég skilið það rétt) að henni varð á að svara ekki nafnakalli í skólanum. Það skiptir ekki máli þótt hún svari síðar og aðstoði yfirvöld við að leita að sér – hafi hún ekki svarað nafnakalli er hún ekki til staðar og sé hún ekki staðar verður að leita hennar þar til hún finnst. Sem hún gerir á endanum, án þess að á því sé gefin nein sérstök skýring. Stundum finnast týnd börn og stundum ekki. *** Gítarleikari vikunnar er Paul Kossoff í Free. Ekki sá teknískasti eða sá frumlegasti – en þvílíkur tónn, þvílíkt víbrató! Fyrir bassaleikarana er svo líka bassasóló.

createdTimestamp““:““2024-05-23T20:34:12.122Z““

Aðventan hefst víst ekki fyrren á sunnudag en hún hefst nú samt eiginlega alltaf fyrsta desember, hvað sem hver segir. Þegar jólalögin „mega“ byrja að heyrast í útvarpi (ég hlusta aldrei á útvarp og veit ekki hvort þau gera það). Við fjölskyldan í Sjökvist fögnuðum aðventunni – og fullveldisdeginum, sem sonur minn átta ára kallaði lýðveldisdaginn í gær, og hlýtur að hafa frá einhverjum fullorðnum því ég er ekki viss um að hann hafi kunnað orðin fullveldi og lýðveldi í síðustu viku – með því að opna fjöldann allan af jóladagatölum. Í fyrsta lagi eru það tvö súkkulaðijóladagatöl, svo er eitt Bamsedagatal (Bamse er sænskur teiknimyndabangsi), eitt sænskt útvarpsdagatal (útvarpssöguna hlustum við á yfir morgunverðinum – í sitthvoru hollinu, mæðginin snemma og feðginin seint), eitt sænskt sjónvarpsdagatal (ég lýg þessu; við gleymdum sjónvarpsdagatalinu en tökum þá bara tvöfaldan skammt á morgun) og svo eitt trédagatal með litlum hurðum sem maður getur fyllt með hverju sem maður vill. „Prinsinn“ – því hvað kallar maður eina son heimilisins annað en prins, á heimili þar sem fullorðna fólkið hagar sér ævinlega einsog það sé konungborið? – ákvað að í hvert hólf ættu að fara fyrirskipanir. Ekki veit ég hvaðan hann hefur þennan … hvað kallar maður það, áhuga á valdboði? … allavega ekki frá mér. Fyrirskipan dagsins var að kaupa jólaseríur og hengja upp. Það hafðist með herkjum. *** Ég gerði pizzur og brenndi mína meðan ég stóð á snakki um jólaseríurnar. *** Í fyrradag gerði ég gamaldags með blönduðu maltviskí – heitir það blandmöltungur? – Monkey Shoulder og það var mjög gott en í dag komst ég að því að þetta á maður alls ekki að gera, maður á að nota rúgvíski eða búrbon, svo ég endurtók þetta með Makers Mark og það var bara alls ekki jafn gott. Í gær gerði ég svipuð mistök með Manhattan, sem ég blandaði mér og drakk yfir óútgefnu ljóðahandriti eftir Lomma, þar sem ég setti blandmöltung í staðinn fyrir búrbon og það var alls ekki nógu gott – og er víst Rob Roy en ekki Manhattan, með þessum skiptum. *** Geiri vinur minn er búinn að kaupa tónleika með AC/DC á Blue-Ray. Úr Highway to Hell tónleikaferðinni 1979. Geiri á rosalegt sjónvarp (hann á líka rosalegt klósett – japanskt með heilu stýriborði – en það er í sjálfu sér óskylt hinu) og ég hlakka mikið til að vera boðið í tónleikapartí. Ég hef séð talsvert úr myndinni á YouTube – Riff Raff útgáfan er … já hvað getur maður sagt? Hún er engu lagi lík. Muniði eftir bílnum í nýju Mad Max myndinni, með gítarleikaranum sem hangir í keðjum á grillinu og spilar viðstöðulaust meðan heimurinn ferst í kringum hann og vélin undir honum malar og dekkin ryðja undir sig eyðimörkina? Hún er svoleiðis. Ég get bókstaflega ekki beðið eftir að sjá hana á Blue-Ray. Ég er ekki viss um að ég hafi séð neitt á Blue-Ray – samt eru ábyggilega 15 ár síðan það hóf innreið sína – og ég hef svo sannarlega ekki séð AC/DC í Blue-Ray. *** Á morgun er laufabrauðsgerð hjá Smára og Siggu. *** Ég ryð mér í gegnum óútgefnar bókmenntir þessa dagana og ljóðabækurnar raðast upp á borðinu hjá mér og ég er sennilega ekki kominn nema svona 30-40 blaðsíður inn í Orlandó. Mér heyrist að höfundar séu nervus að fá enga dóma, ég er það líka þótt ég viti að ég fái enga dóma – það eru engir gagnrýnendur á blöðunum á vorin og bækur sem koma út að vori þykja steindauðar að hausti. Ég get þó huggað mig við að Óratorrek á eftir að koma út á sænsku, dönsku og grísku og sennilega ensku líka, og þar fæ ég þó áreiðanlega einhverja dóma. Annars veit ég ekki hvaða þráhyggja þetta er í mér fyrir að fá ritdóma. Kannski bara vegna þess að einu sinni var þetta sjálfsagður hluti af ferlinu. Svona einsog lénsherrarnir söknuðu prima noctis þegar það var aflagt – þótt það hafi sennilega verið öllum til bóta á endanum. *** Mig dreymdi að ég og minn gamli félagi Þorleifur Örn hefðum sett upp Grease söngleikinn í ljósi #metoo byltingarinnar (eftir að Óskabarna-Viggi hafnaði samstarfi við mig sökum ósmekklegra hugmynda í handriti). Það var svakalegt. Ég get ekki einu sinni lýst því hvað það var svakalegt (ekki án þess að lenda í einhvers konar meiðyrðamáli). Þjóðin var í sárum á eftir og við Þorleifur báðir ærulausir, sem og Viggi og allir aðrir sem komu að draumförum þessum. Ég þarf kannski að róa mig í kokteilagerðinni á kvöldin. ***

id““:““oy3x510214″“

„Embracing melancholy through nordic poetry“. Bloggkerfið mitt, einsog allt annað sem birtist á tölvuskjánum mínum, er mjög áfram um að sannfæra mig um að nota gervigreind til þess að hjálpa mér að semja færslur. Og stakk sem sagt upp á þessu – að ég knúsi sorgmæðina í gegnum norræna ljóðlist. Eða fjalli um þá meintu knúsun sorgmæðarinnar. Kannski í tilefni þeirra tíðinda að Ursula Andkjær Olsen sé á leiðinni til landsins – bæði á líkamlegu formi, sem gestur á viðburðaröð Fríðu Ísberg og Brynju Hjálmsdóttur, og ljóðrænu formi á útgefinni bók. Ég er ekki búinn að panta mér bók (aðallega af því mér finnst svo leiðinlegt að fara inn á banka-appið mitt) en mér heyrist að gervigreindin sé búin að því. Ég ætla ekki að fjalla um neina knúsun. *** Í kvöld ætla ég að flytja ávarp við kertafleytingu til minningar um kjarnorkusprengjurnar sem varpað var á Hírósíma og Nagasakí. Það verður kl. 22.30 í Suðurtanga. Á sama tíma í gær var ég að lesa upp á Act Alone á Suðureyri. Annað hvort eru svona viðburðir farnir að verða seinna og seinna á kvöldin eða ég bara orðinn svona gamall. Síðast þegar ég kom fram á Act Alone – þá var ég tíu árum yngri – steig ég reyndar ekki á svið fyrren á miðnætti, svo kannski er þetta alltaf fyrr og fyrr. En í gær fór ég samt bara heim að sofa þegar ég var búinn. *** Talandi um melankólíu í norrænni ljóðlist fékk ég sennilega hugmynd að ljóði í morgun sem gæti lokað næstu ljóðabók. Ég þarf að skoða það betur, kannski er þetta eitthvað ofmat, og kannski verður ekkert úr þessu ljóði – hugmyndin er pínu óljós, sem er reyndar ekkert verra. Allt sagt án ábyrgðar og auðvitað á maður helst ekki að hafa orð á svona hlutum. Ég er reyndar ekkert viss um að þetta verði melankólískt ljóð. Það er ekki útilokað en alls ekki víst. En ég kemst væntanlega ekki hjá því að það verði norrænt. *** Annars samdi ég einu sinni ljóð sem heitir „Kardínalinn var svo áhugasamur um norrænar bókmenntir“. Og „gerði“ hljóðaljóð upp úr fallegum lestri Viðars Eggertssonar sem ég stal úr Víðsjá. Kardinálinn var svo áhugasamur um Norrænar bókmenntir Í ár er mest fjallað um Norrænar bókmenntir. Eftir áramótin verður síðan áhersla lögð á Norrænar bókmenntir. Skáld sem leggja metnað sinn í að yrkja eins og hin eina sanna ættjörð þeirra sé fornar Norrænar bókmenntir. Þar í landi hafa Norrænar bókmenntir hafið innreið nútímans í Norrænar bókmenntir. Af því að þar eru Norrænar bókmenntir. Þar má nálgast Norrænar bókmenntir, fjölmargar greinar um Norrænar bókmenntir, leggja út af kuldanum í umfjöllun sinni um Norrænar Bókmenntir. „De store nordiske“ eða Norrænar bókmenntir. Hann drakk í sig Norrænar bókmenntir og vísindi; nýjar Norrænar bókmenntir, Norrænar bókmenntir sem tengjast hafinu. Dugnaðarverðlaun Soffíu frænku eru veitt þeim sem duglegastur er að lesa Norrænar 
bókmenntir.

indentation““:0}}

My new novel, Einlægur Önd (literally „Sincere Duck“ – but for now called „Earnest“ in English) is out in Icelandic in a few weeks. Eirikur Orn could not, with all his infamous writerly prowess, have imagined a worse fate for himself. Not in his deepest bouts of self-pity. For if there was one thing in the world that Eirikur hated more than being penniless, alone and disgraced then it was being penniless, alone and disgraced in Reykjavik, that pathetic slush-drenched clump of houses, whose image now assaulted him through three, large living room windows… When Eirikur Orn Norddahl, the story’s main character, accepts a teaching job in creative writing for a foreign corporation, his decision is met with protest through an anonymous threat. And now he has burned all his bridges through his writing and public behavior. To escape reality he sinks into his work, the story of Felix Ibaka from the fictional country of Arbitrea, where the natives punish one another by throwing bricks at people. In Earnest Eirikur Orn Norddahl works at the threshold of fiction and reality to discuss repudiation, punishment and forgiveness. For more info „call my agent“: Forlagið Rights Agency .

createdTimestamp““:““2024-06-10T14:32:31.324Z““

Ég er alltaf að reyna að hafa þetta stutt. Það hefur gengið fremur illa. Það hljóta að vera til einhver lyf við þessari munnræpu. Það er aðallega vegna þess að ég skammast mín gagnvart ykkur samt – hver er ég að láta einsog off-the-cuff vangaveltur mínar um eitt eða neitt komi einhverjum við nema sjálfum mér? Af hverju er þetta ekki bara lokuð dagbók? Nú eða svolítið hamin dagbók til lesturs fyrir aðra? Ég er ekki einu sinni byrjaður. Samt eru komnar margar setningar. Hvaðan komu þessar setningar? Ég er í Münster. Þessar setningar voru ekki hérna þegar ég kom. *** Ég sá sinfóníuna spila. Tvisvar. Meðal annars hluta úr Pétri Gauti og 5. sinfóníu Sibelíusar – en líka söngverk og alls konar. Þau mættu og spiluðu tvo ókeypis tónleika í íþróttahúsinu á Ísafirði, einsog þau hafa gert af og til – síðast fyrir 2-3 árum. Hugmyndin er held ég að fyrst við höfum annars ekki aðgengi að henni getum við fengið að sjá hana frítt þá sjaldan það aðgengi batnar. Annars veit ég ekki hver pælingin er en það gleður mig mjög mikið, hver sem hún er, ekki bara vegna þess að þá fæ ég frítt heldur getur alls konar fólk sem annars hefur ekki efni á miklu farið á fína tónleika. Einleikarar voru þrír – þar af tveir frá Ísafirði, Mikolaj Ólafur, ungur píanóleikari sem er að gera það gott, og Dísa Jónasar, óperudívan okkar. Bæði eru þau tónlistarkennarabörn – Dísa reyndar dóttir tónlistarskólastjórans að auki, og tónskálds. Þriðji einleikarinn lék á horn. Þau voru öll rosaleg en Dísa kannski rosalegust, með ofsalegt kontról ekki bara á tónlistinni heldur líka sviðsframkomu og hreinlega útgeislun. Þó samanburðurinn endi þar er ekki úr vegi að líkja henni við Mugison þannig – maður einhvern veginn fellur ofan í eitthvað tónlistarhol með þeim og finnst nánast einsog það sé enginn annar í heiminum rétt á meðan. Sinfónían er heldur engu lík og Daníel Bjarnason stjórnar henni vel (segi ég, einsog ég hafi eitthvað vit á því – en ég gat sem sagt ekki betur séð). Ef ég ætti að koma með eina aðfinnslu þá væri hún að sveitin – sem var ábyggilega klöppuð upp í fjórgang – myndi fá sér nýtt uppklappslag (það var Á Sprengisandi, einsog síðast). Daginn eftir voru svo aftur tónleikar um morguninn og einleikarar voru aftur tveir heimamenn. Þórunn Arna og Pétur Ernir, léku og sungu ýmis lög sem tengjast verkum Astridar Lindgren. Aftur var stappfullt upp í rjáfur og aftur ókeypis inn – það var starfsdagur í skólunum en það var reyndar alls ekki þannig að allir áheyrendur væru börn. Þetta var ekki minna skemmtilegt. Ég þurfti að vísu að pína litla rokkarann minn með – á þeirri forsendu að þetta væri mikilvægur hluti tónlistaruppeldisins – en hann hafði gaman af þessu þegar hann var kominn og nánast skammaðist sín fyrir hvað áhuginn var mikill. Aino Magnea hins vegar raulaði með öllum lögunum á sænsku, einsog hún gerir annars aðallega þegar hún er ein með sony-spilarann sinn. Allir fá fimm stjörnur og Dísa fær fimm stjörnur plús. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins fór á Hvítan, hvítan dag. Ég er enn að melta hana. Hún er mjög, mjög góð – eitthvað í söguþræðinum var kannski full melódramatískt, hún var alltaf á grensunni. Jón Kalman (og Gyrðir) fá þakkir í henni og það leynir sér ekkert að leikstjórinn er Kalmansmaður – tilfinningarnar eru stórar og óhamdar. Hins vegar örlar ekki á þeirri exótíseringu sem plagar margar bíómyndir sem gerast á landsbyggðinni. Þótt Hlynur, leikstjórinn, sé dreifari þá eru þeir nú oft bara í sjálfs-exótíseringu. Vald Hlyns á myndmiðlinum er eiginlega alveg absúrd gott – hann t.d. klárar bara Íslandsfetisjismann á fyrstu tveimur mínútunum, dregur hann niður á jörðina, og þar með út úr hinni narratífsku þróun – landslagið er ekki látið bera stígandina í myndinni heldur fær sagan að vaxa sjálf, án þess að það þurfi að færa myndina inn í hús. Bara svona smáatriði einsog að malbikið í vegasenunni í upphafi sé allt stagbætt – þá fattaði ég alltíeinu að svona líta íslenskir vegir út, sennilega hafa leikstjórar jafnan valið stílhreinna malbik til að filma. Og þótt myndin sé melódramatísk þá gælir hún líka við módernismann og jafnvel tilraunamyndir. *** Ég hef ekkert lesið nema stök ljóð á stangli. Að vísu heilan helling af þeim en enga bók klárað. Svona er skrifstofulífið á mér oft. Ljóð eru frábær – þau fá öll fimm stjörnur. *** Casa de Papel fyrsta sería. Ég held að þetta sé ekki gott. Ég held að leikararnir séu flestir frekar lélegir og söguþráðurinn einsog hann sé skrifaður jafn óðum af sex ára barni (og svo … og svo … svo bara var prófessorinn búinn að sjá þetta fyrir og það er sko risastór BROWNING … og þau SKJÓTA ALLT Í KLESSU). En þetta er á spænsku, svo hver veit, þetta virkar alltaf svolítið líka einsog Almódovar, mjög kúltúrelt og svona. Stephen King fílar þetta í botn og ég fíla Stephen King – eða er allavega með stóran soft spot fyrir honum – og Twitter logar af meðmælum og Facebook logar af meðmælum og Nadja mælti með þessu. Að vísu er þetta allt mjög spennandi. Ég horfði rólega á fyrstu seríu, hámaði í mig síðustu þættina og er langt kominn með aðra seríu núna. Svo kannski verður endurmat að viku. *** Ég seldi bassaleikaranum í Hjaltalín, Guðmundi Óskari, telecasterinn minn á Reykjavíkurflugvelli og keypti mér svo stratocaster þegar ég kom til Münster – eða í næsta bæ, Ibbenbüren, þar sem er afar vegleg hljóðfæraverslun. Af því tilefni er meistari stratocastersins gítarleikari vikunnar – frá tónleikum í varaheimalandi mínu, Svíþjóð.

id““:““fer5g““

Í dag er Finnland 100 ára. Það eru 20 ár frá því Slim Shady EP kom út og Johnny Halliday er látinn. Og hér er ég bara að hlusta á Buddy Guy, dilla mér, og hengja upp skáldsöguskema á vegginn. *** *** Ljóðið er eftir Pentti Saarikoski úr bókinni Hvað er að gerast? (Mitä tapahtuu todella?) frá 1962. Þýtt úr dönsku upp úr safninu Den gale mands hest og andre digte, þar sem tekin eru saman ljóð Penttis Saarikoski í þýðingu Hilkku og Bents Søndergaard. Með finnskuna til hliðsjónar. Bls. 37. *** *** Trigger warning: Það er nauðgunarathugasemd í laginu hér að ofan. *** *** Ég veit ekkert hvað Johnny er að syngja um. En hann er voða sætur. *** Skema. #hansblær A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Dec 6, 2017 at 7:52am PST //platform.instagram.com/en_US/embeds.js

createdTimestamp““:““2024-05-25T00:43:29.359Z““

Stundum set ég bara á Lights með Journey og læt mér líða vel. Sennilega hófst þetta eftir hafnaboltaleikinn í SF í sumar. *** Með fullri virðingu fyrir íslenskum kollegum mínum finnst mér þetta jólabókaflóð einkennast af góðum þýðingum. Sennilega eru frumsömdu verkin ekkert verri en venjulega, heldur meira að koma út af góðum þýðingum – bæði á samtímaverkum og klassík – en maður á að venjast. Ég hef ekki talið það saman, þetta er „tilfinning“. *** Angústúra er með tvær bækur – Veisluna í greninu eftir Villalobos, sem ég skrifaði um fyrir Starafugl, og Einu sinni var í austri eftir Xialou Guo. Ugla gefur út Ethan Frome eftir Edith Wharton og Mrs. Dalloway eftir Virginiu Woolf, auk Sagna frá Rússlandi – með smásögum allra helstu „meistaranna“. Opna gefur út Orlandó sama höfundar – ég byrjaði á henni í gær, hef beðið lengi eftir þýðingunni, og held mikið upp á orginalinn. Benedikt er með Orðspor Juan Gabriel Vasquez (sem ég las og er frábær), Sögu af hjónabandi eftir Gulliksen, Velkomin til Ameríku eftir Lindu Boström og Norrænar goðsagnir Neils Gaiman. Sæmundur er með Predikarastelpu Tapios Koivukari, Neonbiblíuna eftir Kennedy-Toole og Kalak eftir Kim Leine, auk ljóða Knuts Ødegårds. Bjartur með Grænmetisætu Han Kang, Allt sem ég man ekki eftir Khemiri og Hnotskurn Ians McEwans, auk annars bindis í Smásögum heimsins og lokabindisins í Napolífjórleik Ferrante. Dimma með Sólsetursvatn Léveille, Síðasta úlf Krasznahorkais , Pnín Nabokovs og Konu frá öðru landi eftir Sergej Dovlatov, auk ljóða Ko Uns og Christine De Luca og Birtuna yfir ánni , ljóðaþýðingar Gyrðis. Skrudda með Faðir Goriot eftir Balzac. Salka með Rútuna eftir Almeida. LaFleur, sem ég hélt að væri ekki til lengur, er með þrjár nóvellur eftir Soffíu Tolstaya, eiginkonu Tolstojs (sem er skráður meðhöfundur í bókatíðindum). Forlagið er með Ugg og andstyggð eftir Hunter S. Thompson og ljóðaþýðingar Kristjáns Árnasonar. *** Þetta er svona það sem fljótt á litið telst til fagurbókmennta í þýðingaflóðinu. Vantar reyndar útgefin verk Sagarana, sem eru ekki í bókatíðindum – þar er allavega ein ljóðabók og bæklingur með upphafi Baráttu minnar eftir Knausgård. *** Heldur finnst mér hlutur míns góða forlags, Forlagsins (með ákveðnum greini og stórum staf!), lítill í þessari útgerð. Svona miðað við að það á að heita stærsta og stöndugasta forlagið. Hálfdrættingur á við nýstofnaðan Benedikt – rétt jafnar enn nýstofnaðri Angústúru. Öll forlagsmaskínan er einsog tveir Benedikt LaFleur (hvað hann myndi segja um þá talnaspeki er svo önnur Ella). *** Starafugl hefur náð að skrifa um furðu mikið þarna og sennilega ástæða til að reyna að gera enn betur. Það gæti verið efni í nýtt átak eftir áramótin. Ef það verður ekki búið að gera út af við alla gagnrýnendurnar okkar. Það birtist aldrei svo neikvæður dómur að hann fái ekki svo neikvæð viðbrögð að gagnrýnandinn endurskoði stöðu sína í samfélagi gagnrýnenda – og þar sem margir gagnrýnendur Starafugls eru nýir heltast þeir einfaldlega úr lestinni. Tvisvar á síðustu vikum hafa mér borist skilaboðin: „Ég er hættur að gagnrýna“ (og jafn oft: „Ég get ekki skrifað um þetta verk því ég hef ekkert jákvætt að segja“). Jákvæðni er skilyrðislausa skylduboð samtímans. Að vera kurteis og góður. Og alls ekki flippaður eða einlægur eða spontant. *** Að gefast upp á að gagnrýna vegna mótlætis er reyndar líka tímanna tákn. Það eru allir einhvern veginn of shell-shocked til þess að takast á við álag. Þetta fólk þyrfti að hlusta meira á Journey. ***

id““:““4kmda““

Þegar maður gúglar frægasta blúslagi allra tíma – Sweet Home Chicago – eru Blues Brothers það fyrsta sem kemur upp. Ég er nú gjarn á að halda uppi vörnum fyrir þá Dan Akroyd og John Belushi, að ekki sé minnst á þá stórkostlegu hljómsveit sem þeir rusluðu saman fyrir þessa afar skemmtilegu bíómynd, en það er samt svolítið sorglegt. Mig minnir að í myndinni tileinki þeir lagið Magic Sam sem á einmitt eina frægustu útgáfu lagsins á rafmagnsöld – af meistaraverkinu West Side Soul frá 1967. Lagið er hins vegar „eignað“ Robert Johnson og var tekið upp árið 1936. Ég segi eignað vegna þess að sennilega hefði hann aldrei fengið þetta skráð á sig í dag – því þótt það eigi enginn jafn mikið í endanlegri útgáfu lagsins og hann þá stal hann því meira og minna öllu og setti saman eftir eigin höfði.  Textinn fjallar um mann sem er að reyna að tæla með sér ástkonu sína úr bænum – lofar henni gulli og grænum skógum í paradís, ef hún bara fylgi sér til „back to the land of California“ og „from there to Des Moines, Iowa“ og loks til „my sweet home, Chicago“. Þetta er svo vægt sé til orða tekið lengri leiðin frá deltunni til Chicago einsog sjá má á þessu korti.  Fólk hefur mikið klórað sér í hausnum yfir þessum ferðaplönum Roberts. Fyrst eftir að hann fór að vekja athygli (eftir andlát sitt) reiknuðu menn bara með fávísi hans, að hann væri bara að kalla upp nöfn fjarlægra staða út í loftið – en burtséð frá því að vera ansi nákvæmt og gott skáld var Robert á stöðugum faraldsfæti og þótt hann færi aldrei alla leiðina til Kaliforníu þá ætti honum nú samt að hafa verið ljóst hversu langt úr leið hún væri. Aðrir hafa stungið upp á því að hann eigi kannski við Chicago EÐA Kaliforníu (það er hugsanlegt að maður komi við í Des Moines á leiðinni til Chicago, þótt það sé ekki alveg í leiðinni). Svo hafa sumir stungið upp á því að hann noti nöfn staðanna einfaldlega sem ljóðræn samheiti yfir staði þar sem sleppa megi undan Jim Crow rasisma suðurríkjanna – hvort sem er til norðurs eða vesturs. Bara meðan við erum ekki um kyrrt. Enn önnur kenning gengur út á að hann eigi við California Avenue í Chicago. Skemmtilegasta kenningin – sem á sér stoð í gegnumgangandi kímni í textagerð Roberts – er að hinn kasanóvíski ljóðmælandi komi upp um svikult bullið í sjálfum sér með augljósu ruglinu, hann sé augljóslega fæðingarhálfviti sem engin kona með minnstu sjálfsvirðingu myndi fylgja út í sjoppu, hvað þá lengra.  Á las á dögunum Chronicles eftir Bob Dylan og þar eyðir hann nokkru púðri í að ræða Robert Johnson. Ég man ekki nákvæmlega hvernig hann orðar það en hann túlkar Robert fullkomlega bókstaflega – segir að Phonograph Blues fjalli um mann sem verður fyrir því óláni að nálin á plötuspilaranum hans ryðgar og Dead Shrimp Blues fjalli um ófarir manns í rækjuiðnaðinum. Í fyrsta lagi er áhugavert að hann skuli velja að tjá sig um þau tvö lög Roberts sem fjalla (undir rós) um getuleysi – sem var óvenjulegt – og í öðru lagi má taka þessu sem sneið til þeirra aðdáenda Dylans sjálfs sem eru gjarnir á að oftúlka lögin hans og gleyma því að þau eru fyrst og fremst það sem þau eru. Orðin ekki endilega staðgenglar annarra orða – maður rænir myndlíkinguna líka einhverju með því að skipta henni einfaldlega út fyrir „rétta merkingu“. Ef við tökum Dylan-aðferðina á þetta fjallar lagið þá bara um mann sem ætlar að fara til Chicago í gegnum Kaliforníu og Des Moines. Sem er auðvitað líka skemmtilega ruglað.  Robert gæti líka hafa átt við California lestarstöðina í Chicago.  Lagið er mikið einkennislag fyrir borgina. Í seinni tíma útgáfum, frá Roosevelt Sykes 1955, hefur ferðaáætlunin einfaldlega verið leiðrétt svo að núna ætlar ljóðmælandi ekkert til Kaliforníu lengur, heldur bara „that same old place / sweet home Chicago“. Mér finnst það nú óþarflega ferkantað.  Upprunalega fjallar lagið reyndar alls ekkert um Chicago, heldur smábæinn Kokomo, Indiana. Fyrst til að taka það upp var söngkonan Madlyn Davis, árið 1927, en fyrir kæruleysi framleiðandans heitir lagið í hennar flutningi Kokola Blues – sem mig grunar að kæti mjög blúsglaða íbúa bæjarins Kokkola í Finnlandi, en bær með þessu heiti hefur aldrei fundist í Bandaríkjunum. En hún syngur mjög greinilega „Kokomo“.  „Don’t you wanna go / to that eleven light city / that sweet old Kokomo“ biðlar Madlyn til manns síns. Ári síðar syngur svo Scrapper Blackwell (sem er þekktastur fyrir að vera sidekick Leroy Carr)  – og er talinn líklegur höfundur lagsins – sinn Kokomo Blues. Textinn er að mestu leyti annar þótt laglínan sé sú sama og fjallar nú um mann sem á í erjum við frú sína og biðlar ýmist til hennar að koma með sér til Kokomo eða virðist ætla að yfirgefa hana og fara þangað einn (enda sé hún aldrei góð við hann).  And I’ll sing this verse, baby, I can’t sing no more 
I’ll sing this verse, baby, I can’t sing no more 
My train is ready and I’m going to Kokomo            –  Hvorugt þessara laga náði neitt viðlíka vinsældum og Old Kokomo Blues með James Arnold – en lagið varð svo vinsælt (meðal svartra í suðurríkjunum) í hans meðförum að hann var aldrei kallaður annað uppfrá þessu en Kokomo Arnold. Hann tekur brot úr textanum frá Madlyn – brotið hér að ofan – og prjónar saman við annars vegar flökkuerindi einsog „I don’t drink because I’m dry / don’t drink because I’m blue / the reason I drink mama / is I can’t get along with you“ og hins vegar reikningserindi sem rata inn í klassíkina: „Now one and one is two, mama / two and two is four / you mess around here pretty mama / you know we got to go“. Hefðin býður að maður reikni sig aðeins áfram – Arnold endar í „eleven and one is twelve / you mess around here mama / you going to catch a lot of hell“. Blúsbræðurnir fara í „Nine and nine is eighteen / look there brother baby and see what I’ve seen“.  Hér er kannski rétt að geta þess áður en lengra er haldið að Kokomo, Indiana, er mikilvægur bær í sögu Ku Klux Klan – fjórum árum áður en Madlyn syngur sinn blús um hvað sig langi til Kokomo er þar haldin stærsta KKK ráðstefna allra tíma, þar sem talið er að um 200 þúsund manns hafi mætt. Og valið á bænum var ekki tilviljun. Sagt er að ríflega helmingur bæjarbúa hafi verið meðlimir í klaninu og það hafi ráðið lögum og lofum þarna langt fram eftir 20. öldinni – bærinn hefur verið sagður „heimkynni Klansins“. Þetta er auðvitað forvitnilegt í ljósi þess hvers lags ódáinsvellir bærinn er í öllum þessum lögum – þar er bæði framtíðina að finna og þar verða allar erjur að engu.  Á leið okkar frá Kokomo og aftur til Chicago verðum við að gera örlitla lykkju á leið okkar og nefna tvö-þrjú lög sem eiga líka talsvert í útgáfu Roberts. Hið fyrra er Honey Dripper Blues no. 2 með Edith North Johnson frá 1928 – sem er klassískt fyrirtaks hokum – og svo Red Cross Man með Lucille Bogan. Þar er melódían eiginlega alveg komin og undirspilið er í búggífílingnum sem einkennir Sweet Home Chicago með Robert Johnson (og enn nákvæmari fyrirmynd að búggíinu má finna í öðru Honey Dripper Blues með Roosevelt Sykes).   Það er alþekkt trix í lagasmíðum að droppa örnefnum – af einhverjum orsökum resonerar það hjá hlustendum. En til þess þurfa hlustendur sennilega að þekkja örnefnið og ef maður var ekki í Klaninu á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar er ósennilegt að maður hafi heyrt á Kokomo minnst. Elijah Wald skrifar einhvers staðar eitthvað á þá leið að það sé ekki heiglum hent að skrifa hittara um jafn ómerkilegan stað – hann nefnir ekki Kokomo með Beach Boys, úr bíómyndinni Cocktail, sem ómaði viðstöðulaust í útvarpinu þegar ég var svona tíu ára en hlýtur að hafa haft það í huga. Raunar hefur mér líka dottið í hug að lagahöfundarnir hafi tekið því sem áskorun – hvort það væri yfir höfuð hægt að semja hittara um jafn mikið skítapleis og Kokomo. Í laginu þeirra er Kokomo reyndar „off the Florida Keys“ sem auðveldar sennilega rómantíkina – og auk þess er vísað til ábyggilega fjörutíu annarra sumarleyfisparadísa. (Svo má líka spyrja sig hvort höfundar Kokomo – sem voru ekki Beach Boys vel að merkja – hafi verið að senda einhver leynileg skilaboð með nafninu á laginu).  Fyrsta tilraun til þess að færa lagið yfir á kunnuglegri og viðkunnanlegri slóðir er Baltimore Blues með Charlie McCoy frá 1934.  Baltimore var sannarlega ein af hinum fyrirheitnu borgum norðursins en lagið er kannski bara of hversdagslegt – það er of lítill galdur í þessu. Þá varð Baltimore heldur ekki síðar stærsta og mesta blúsborg sögunnar, einsog Chicago, og það hefur áreiðanlega haft helling að segja um það hvort lagið var koverað oftar þegar fram liðu stundir. Lagið sem Robert tekur upp tveimur árum síðar – í herbergi 414 á Gunterhótelinu í San Antonio – er hins vegar algerlega himneskt. Mér er alveg sama hvað maður er búinn að heyra þessu misþyrmt oft af misgóðum stuðsveitum, þetta er alltaf jafn best: Sweet Home Chicago er gefið út af Vocalion í júlí árið eftir og kom þá á plötu með Walkin’ Blues á hinni hliðinni. Og vakti svo sem enga æðislega athygli fyrren löngu síðar. Kannski ekki fyrren eftir að Junior Parker gerði fyrstu „nútíma“ útgáfuna 1958 – og setti meira swing í það. Þá voru Tommy McClennan og Walter Davis báðir búnir að reyna sig við það, 1939 og 1941, með púsli úr hinum útgáfunum líka. Svo náði Robert sjálfur flugi þegar King of the Delta Blues Singers kom út árið 1961 – en það er ekki fyrren seinni platan, King of the Delta Blues Singers II, kemur út sem Sweet Home Chicago í hans útgáfu verður almennt aðgengilegt. Það er 1970 – sem er einhvern veginn alveg ofsalega seint. Auðvitað voru gömlu 78 plöturnar til og alls kyns bootleggar í umferð – og hugsanlega (jafnvel sennilega) var lagið búið að birtast á einhverri safnplötu. En það er sama.  Lagið er talsvert afslappaðra með Robert en það er leikið síðar – með rafmagnsgíturum, lúðrasveitum, munnhörpuleikurum, samsöngi og 25 mínútum af sólóum. Robert leikur svo ljúft á gítarinn að það er nánast einsog hann sé að spila á nælonstrengi. Falsetturöddin er kraftmikil en rembingslaus. Það eru nánast engar tiktúrur í gítarleiknum, endurtekningin er dáleiðandi og tempóið er grjóthart. Þetta er lag sem er í senn ómögulegt að leika eftir og ómögulegt að „gera nýtt“. Þreyttasta lumman í bókinni og fallegasta djásnið. Kannski er það líka einmitt vegna þess að maður er orðinn svo vanur því að heyra það flutt með bravúr og látum að manni þykir enn vænna um það svona brothætt og fínt.  Aukaefni:

{„“type““:““PARAGRAPH““

Eitt af því sem hefur breyst frá því við hættum að eiga samskipti í eigin persónu að hugtakið „mitt hægri“ og „þitt hægri“ hættu að skipta máli, og kannski líka að meika sens. Svona er þetta líka í leikhúsinu – það kenndi mér Þórhildur – sviðshægri og sviðsvinstri. Skjáhægri og skjávinstri. Ég nefni þetta vegna þess að ég var að bæta nafni á blogglistann hérna hægramegin – þar bloggar Þorsteinn Vilhjálmsson. Annars smelli ég oft á þessa hlekki sjálfur og þar er furðu lítið bloggað. Ástríðan endar öll í gapinu á Zuckerberg. En þetta eru fínir bloggarar þegar þeir taka sig til. Ég hef líka verið of mikið á FB sjálfur upp á síðkastið. Kosningarnar kölluðu mig út á torg að hlusta á mannamálið. Nú er mál að hvíla sig. *** Sú spurning leitaði oft á mig dagana í kringum kjördag hvort Halla Tómasdóttir væri menningarlaus. Það sem kallaði á þessa hugsun var ákveðið yfirbragð – silkiklútakonan er í mínum fordómaheimi einskonar öfugmæli við menningarkonuna, kulturtanten , konuna sem les allt, sér allt, heyrir allt, drekkur það í sig, kona dýptarinnar. En auðvitað eru það fordómar og ég gengst við því þótt ég orði þá upphátt. Og þegar maður er haldinn fordómum þarf maður að kynna sér málin. Kosningarnar snerust svo mikið um Katrínu að mér finnst nánast einsog ég viti ekkert um Höllu T – nema að hún hafi verið hjá Auði Capital og Viðskiptaráði. Jú og Pepsi og M&M. Í kosningabaráttunni nefndi Halla aðspurð um sína eftirlætis bók sjálfshjálparritið Lífsreglurnar fjórar – viskubók Tolteka eftir Don Miguel Ruiz. Sem er ekki til að minnka fordómana – ég á það til að hvítna í framan þegar fólk byrjar að tala um sjálfshjálparbækur. Ef illa liggur á mér hvítna ég á hnúunum líka. Ég ætlaði að fara að kynna mér þessa bók en komst þá að því að þótt hún hefði komið út á 52 tungumálum og selst í skrilljónum eintaka hefur hún varla verið ritdæmd af neinum fjölmiðli með sjálfsvirðingu. Hún var á metsölulista New York Times í áratug án þess að blaðið sæi neina ástæðu til þess að taka hana til skoðunar. Ef satt skal segja, segir það ekki minna um fjölmiðlana en bókina. En það læknar mig ekki heldur af neinum fordómum. Í grunninn sýnist mér þetta vera útfærslur á fjórum heilræðum 1) Farðu óaðfinnanlega með mál þitt 2) Ekki taka hlutunum persónulega 3) Ekki draga ályktanir (!) 4) Gerðu alltaf þitt besta. Bókin fær mjög háa meðaleinkunn á Goodreads og Amazon og margar stórstjörnur í Hollywood og víðar hafa lesið hana og mæla með henni, sumar segja hana hreinlega hafa bjargað lífi sínu. Þeir sem gagnrýna hana segja gjarnan að hún sé einfeldningsleg, og nefna dæmi einsog þegar höfundur virðist segja að fólk geti nánast kennt trúgirni sinni og neikvæðni um ef það fær krabbamein. Vitnað án ábyrgðar eftir Goodreadsumfjöllun . Einsog frægt er gat Halla ekki svarað – í sjónvarpsþætti á Stöð 2 – hvert Grettir hefði synt eftir eldi, hvaða biskup hefði verið hálshöggvinn í Skálholti, hverjir hefðu keppt um ástir Helgu fögru, hvar Gunnar Hámundarson hefði átt heima, hvort Seltjarnarnes væri í Reykjavík eða hvað aðalsöguhetja Engla alheimsins hefði heitið („elska þessa bíómynd“ sagði hún þó). Hún svaraði engu rétt nema söguhetjunni í Sjálfstæðu fólki og stóð sig áberandi verst frambjóðanda – sem er kannski stress. Ég kannast vel við það sjálfur að vita ekkert í svona keppnum og er raunar frekar minnislaus – hefði vel getað gleymt að Gunnar í Hlíðarenda var Hámundarson í hita leiksins og hefði sennilega klikkað á bæði Gretti og Helgu fögru. Tek þó fram að ég mundi það sem enginn frambjóðandi mundi – aðalsöguhetja Englanna heitir Páll. En menning er ekki bara bókmenntasmekkur og -saga. Mér var sagt að Halla hefði sótt mikið af stuðningi sínum til ungs fólks og gert það í krafti tik-toks – og var þá bent á þetta myndband. Ég er ekki mjög tik-tok læs en söguþráðurinn sem blasir við mér er: Tveir verslóspaðar með sólgleraugu mæta á kjörstað á Land Rover Discovery, grýta bíllyklunum í stelpu – sem er væntanlega einhvers konar bílastæðavörður – hrinda svo annarri, gefa hver öðrum fimmu og fara og kjósa girl boss Höllu T. „Ungir kjósendur, mætum og kjósum. Framtíðin er okkar.“ Kannski er ég af missa af einhverju. Ég spurði tik-tok læsara fólk sem tjáði mér einfaldlega að kapítalismi og kvenfyrirlitning væru í tísku á tik-tok. Það hljómar … uh … lógískt? En kannski ekki mjög „presidential“ eða „kúltíverað“. Í gær tók Halla svo á móti þjóðinni af svölum heimilis síns. Í ræðu sinni gerðist hún menningarleg og vitnaði í ljóðskáldið Mary Oliver – sem gladdi mig. Línurnar sem hún vitnaði í eru niðurlagið í ljóðinu The Summer Day. „Ljóðskáldið Mary Oliver spurði í frægum ljóðlínum, segðu mér, hvað ætlar þú að gera við þitt eina villta og verðmæta líf? Ég valdi að gefa kost á mér til að þjóna okkar þjóð. Og mig langar til að spyrja okkur mikilvægrar spurningar. Hvað ætlum við að gera við okkar villta og eina verðmæta land?“ Þetta eru mjög fleyg orð og það er gjarnan einmitt vitnað til þeirra við einhver svona tilefni – einsog carpe diem, að maður verði að grípa tækifærin og takast á við stórar áskoranir, þora að láta vaða, verða forseti og svo framvegis. En sú túlkun er pínu á ská við sjálft ljóðið, vel að merkja – þetta er algeng útlegging, en eiginlega ómöguleg ef maður skoðar allt ljóðið, sem hljómar svona (í minni þýðingu): Sumardagurinn Hver skapaði heiminn? Hver skapaði svaninn og svartbjörninn? Hver skapaði engisprettuna? Þessa engisprettu, á ég við – þá sem stökk upp úr grasinu þá sem étur sykur úr lófa mér, sem færir kjálkana fram og aftur frekar en upp og niður sem mænir í kringum sig með risavöxnum og margbrotnum augum sínum. Nú lyftir hún fölum framhandleggjum sínum og þvær sér vel í framan. Nú lætur hún smella í vængjunum og svífur á brott. Ég veit ekki vel hvað bænin er. Ég kann að taka vel eftir, að falla niður í grasið, að fara á hnén í grasinu, að vera iðjulaus og náðug, að stjákla yfir engi, og það er það sem ég hef gert í allan dag. Segðu mér, hvað annað hefði ég átt að gera? Deyr ekki allt að lokum og þar að auki of snemma? Segðu mér, hvað ætlar þú að gera við þitt eina, villta og verðmæta líf. Ljóð hafa auðvitað ekki eina rétta merkingu en fyrir mér er þetta ljóð tignun iðjuleysisins – ekki ákall um mikilfengleikann. Að maður staldri við, slaki á, njóti tilvistarinnar án þess að krefja hana um stöðuga ávöxtun – án þess að gera afrekakröfu á sjálfan sig. Sem er auðvitað frábær boðskapur. Ekki síst í dag.