Á dögunum las ég Glímuna við Guð eftir Árna Bergmann. Þar vitnar Árni í ljóð eftir nafna minn Erich* Fried Hundur sem deyr og veit að hann deyr eins og hundur og getur sagt að hann viti að hann deyi eins og hundur er maður. (*Ég er skírður í höfuðið á afa mínum Erich Egon Hübner). Þetta ljóð má lesa á marga vegu. Fyrst og fremst blasir við að það sem geri manninn að manni (eða manneskju að manneskju, öllu heldur) sé meðvitund um stöðu sína og færni til þess að tjá sig um hana. Og að því marki að verði dýr fært um eitthvað slíkt hljóti dýrið að vera manneskja. Og sennilega er eitthvað líka þarna um að til þess að vera manneskja þurfi maður að geta dáið. Skyldar spurningar eru í forgrunni skáldsögunnar Frankissstein eftir Jeanette Winterson, frá 2019. Hún gerist á tveimur tímaskeiðum og segir annars vegar frá því þegar Mary Shelley skrifar Frankenstein og hvernig sköpunarverk hennar – dr. Victor Frankenstein – ofsækir hana (ofsækir er kannski orðum aukið – einhvers staðar mitt á milli ofsækir og heimsækir) – og hins vegar frá kynsegin lækninum Ry Shelley í samtímanum og sambandi háns við vísindamanninn Victor Stein, sem vinnur með gervigreind, og sölumanninn Ron Lord, sem selur og framleiðir kynlífsdúkkur. Winterson lætur sögusviðin spegla hvert annað og oft að því marki að bókin og sögupersónur hennar – sem sköpunarverk Winterson – spegla þá sköpun sem aðrir í bókinni stunda, bæði sem höfundar, vísindamenn og einstaklingar. Bókin er bráðsnjöll – leiftrandi á köflum – stundum dálítið kitsí og dettur af og til út í predikanir sem mér fannst stundum frekar PC (en internetið skiptist í tvær fylkingar með það hvort hún sé WOKE eða TERF). Winterson er á jarðsprengjusvæði og hefur fengið bæði lof og last fyrir – aðallega vegna Ry, sem hefur persónulegan frekar en dæmigerðan skilning á sjálfu sér og verður þess utan fyrir bæði fordómum, blætisdýrkun og ofbeldi af hendi samfélagsins sem hán lifir í. Eðlilega verður trans-spurningin í miðju skáldsögunnar viðkvæm þegar henni er stillt upp við hlið skrímslis Frankensteins og mögulegu frelsi líkamlausrar gervigreindar eða helsi kynlífsdúkkunnar. Transfólk vill ekki frekar en aðrir láta kalla sig skrímsli, póst-húman eða kynlífsdúkkur – ég myndi segja að Winterson, eða bókin, geri það ekki (nema hugsanlega að hún spyrji hvort við séum ekki öll póst-húman/skrímsli/kynlífsdúkkur). En listaverk af þessari tegund eru heldur ekki nákvæm – þau eiga ekki að miða beint í mark og væru vond ef þau gerðu það (það heitir áróður – hann kannar ekkert, skoðar ekkert, heldur bara veit og dæmir). Mér fannst sjálfum blasa við að Winterson væri með fjölbreytileikanum í liði, hinu margbrotna og skapandi, þótt hún vildi líka draga inn hætturnar. Að hún vildi hnita í hringi í kringum möguleika sköpunar, sjálfsmyndar og vitundar og sjá hvað kæmi út úr því – hvað það segði um „hið mannlega ástand“. Úr því kom ýmislegt hnitmiðað og annað óhnitmiðað – einsog gengur, Winterson hefur alltaf verið áhugasöm um ævintýrið í hinu mannlega – og það er kannski í og með kaldhæðnislegt og lýsandi (fyrir verkið og samtíma þess) að innsti kjarni bókarinnar skuli fjalla um ábyrgð skaparans á sköpunarverki sínu.
Category: Uncategorized
Lögregla fann mann
Þessa fyrirsögn las ég á Vísi áðan. Í fréttinni kom fram að mynd hefði verið fjarlægð en ekki hvort lögreglan hefði fjarlægt hana. Annars er fátt að frétta – nema að ég hef ákveðið að skrifa eitthvað hér daglega. Og reyna að hemja mig svolítið. Jú í morgun gerði ég í tilraun til að semja lag.
Að lesa og kjósa og vera ungur
Ungir Svíar kjósa hægri öflin. Þetta hefur svolítið verið til umræðu í Svíþjóð. Það er hallærislegt að vera sósíaldemókrati – að vera sossi er samheiti fyrir að vera nískur, sagði eitt ungmennið. Við viljum ódýrt bensín, sagði annað. Stór hluti Svía býr fremur afskekkt og það fólk treystir á bíla sína á annan máta en unga fólkið í borgunum. Og margt af þessu unga fólki kýs sem sagt ekki bara Moderatarna – Sjálfstæðisflokk þeirra Svía – heldur ekki síður Svíþjóðardemókratana, þá húsvönu nasista. Þeir eru sem sagt einna vinsælastir hjá þeim kjósendum sem eru að kjósa í fyrsta sinn. Útskýringin, segja sum ungmenni, er meðal annars einhvers konar uppreisn gegn fullorðinsheiminum – eða dómhörðu kynslóðinni sem er nú rétt að hætta að teljast til ungmenna. Þá kom fram í fréttum að þetta væri alls ekki bara sænskt trend heldur gilti sama um Marine Le Pen í Frakklandi og Meloni á Ítalíu, báðar njóti talsverðra vinsælda meðal ungs fólks. Sú síðarnefnda notar japanskar anime-teikningar til þess að kynna sig – það er hennar myndmál, myndmál æsku og mýktar, eins ólíkt hinu harða maskúlín myndmáli Mussolinis og maður kemst. Stöndum vörð um hina hefðbundnu fjölskyldu, segir Meloni-Chan (en svo heitir anime-avatar Giorgiu Meloni). Annað sem ég las í sænskum fréttum í vikunni var að 11% Svía læsu enga bók á ári. Jafn margir töldust bókaormar og lásu fleiri en 30 bækur á ári. 27% Svía lásu eina til þrjár bækur á ári og 18% lásu fjórar til sex– restin las svo eitthvað á milli sex og þrjátíu bækur. Mér fannst þetta forvitnilegt. Með kynjamuninum komu karlar enn verr út – 16% karla lásu enga bók en 6% kvenna. Allir voru meira og minna sammála um að þeir vildu gjarnan lesa meira. Við lok síðasta árs fannst mér einsog ég væri eitthvað að missa fótanna í lestri. Og las þó rúmlega bók á viku – minnir að ég hafi verið með um 70 titla í lestrardagbók heimilisins. Mikið af því var ekki skáldskapur – ég lá í blússögu og alls konar þannig grúski. Ég ákvað að taka mig taki, hætta helvítis símahangsinu og vera alltaf með bók á mér. Ég ákvað líka að lesa meiri skáldskap, meira á íslensku og hætta t.d. að forðast þýðingar úr ensku, nota bókasafnið og bókabúðina og ráðast í allar þessar ólesnu bækur sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina. Á fyrri hluta ársins las ég að meðaltali 25 bækur á mánuði og ákvað því á afmælinu mínu – sem er akkúrat á miðju árinu – að halda þessum ánægjulega dampi og klára 300 titla fyrir áramót. Það hefur enn sem komið er ekki kostað mig neina sérstaka fyrirhöfn aðra en þá að þegar ég hef ekkert annað að gera tek ég upp bók frekar en síma. Þegar ég las þessa sænsku frétt um lesturinn saknaði ég þess að fá ekki gamlar tölur til samanburðar. Hefðu þeir sem lásu 30 bækur á ári talist bókaormar fyrir 40 árum síðan? Er það mikið? Mér finnst einsog ég sjái oft að fólk setji sér markmið að lesa 100 bækur á einu ári. En svo er „bók“ auðvitað mjög undarlegur mælikvarði. Stysta bókin sem ég hef lesið í ár var kannski 30-40 afar gisnar síður. Og sú lengsta rétt um þúsund þéttar síður. Og ekkert sem segir að stutta bókin geti ekki haft meira afgerandi áhrif á mann en sú langa – lifað með manni lengur og jafnvel kostað mann meiri lestrartíma, ef maður þarf að sökkva sér í hvert einasta orð. Allavega. Í könnun frá MMR hér um árið kom í ljós að á meðan kjósendur ysta vinstrisins (eða VG – sem tradisjónelt er ysta vinstrið, þótt það séu kannski ekki allir sammála um hvar sá flokkur stendur síðustu árin) lesi mest þá lesi kjósendur popúlistaflokka (í þessu tilfelli Flokks fólksins) minnst. Heil 37% kjósenda Flokks fólksins, 2019, sögðust aldrei lesa sér til ánægju – sambærileg tala hjá kjósendum VG var 6%. Mér finnst eðlilegt að draga af þessu þá ályktun að annað hvort verði maður fáviti af því að lesa ekki eða það séu bara fávitar sem ekki lesa. En það er auðvitað svolítið pólaríserandi afstaða.
Bassanótur og bókaglósur
Þessa dagana fer mikill hluti míns frítíma í að sinna sífellt fyrirferðarmeiri ferli mínum sem skallapoppari. Þessi ferill er reyndar margþættur – ég hef auðvitað verið að spila á gítar í mörg ár og jafnvel leyft mér að syngja örlítið. En síðasta vor var mér boðið að leika á bassa í indíbandinu Gosa og þáði það og nú hefur það undið upp á sig og við erum búnir að læra heilt ballprógram, ofan í indípoppið. Við höfum leikið þrisvar opinberlega. Í fyrsta skipti var það off-venue á Aldrei fór ég suður síðustu páska. Svo í innflutningspartíi hjá vinum okkar Hauki og Vaidu. Þá bættum við nokkrum slögurum við. Á síðustu helgi lékum við svo á balli á Skrímslasetrinu á Bíldudal – tókum fyrst Gosaprógramið og svo sirka 15 laga ballprógram. Á næstu helgi er svo árshátíð Ísafjarðarbæjar og við erum trommuleikaralausir – trommarinn okkar, Baldur Páll, er í Reykjavík á annarri árshátíð, en Jón Mar vinur okkar hleypur í skarðið. Þá þurfum við að spila í sirka þrjá tíma – í möppunni eru um sextíu lög, sum þeirra að vísu mjög einföld en önnur krefjandi. Og við reiknum ekki með því að spila nein Gosalög enda ballgestir sennilega bara í stuði fyrir Stevie Wonder og bítlana. Fyrir mann sem er enn að læra á bassa er þetta eldskírn og áskorun. Það hefur auðvitað verið nokkur bassaleikaraskortur í íslenskum bókmenntum frá því Bragi hætti í Sykurmolunum. Eða lagði þá niður. Eða hvernig það gerðist. Frá því Bragi hætti að spila opinberlega. Á þarnæstu helgi eru svo tvö gigg fyrir sunnan – en bæði með Gosaprógraminu (sem við kunnum orðið ágætlega). Á föstudegi leikum við í Mengi og á laugardegi á Bjórhátíð í Hveragerði. Kvöldin fara í þetta bassastúss og dagarnir fara enn sem fyrr í bókmenntirnar. Á mánudaginn birtist fyrsta eintakið af barnahryllingsjólabókinni minni, Frankensleiki , í póstkassanum. Ég skrifaði hana fyrir börnin mín á aðventunni í hittifyrra. Okkur fannst hún fyndin en svo verður bara að koma í ljós hvað öðrum finnst. Hún kemur allavega í búðir eftir mánuð. Ég er búinn að skila ritlaunaumsókn – það er leiðinlegasta bókmenntagreinin – og skipuleggja upplestur með sveitungum mínum, Helen Cova, Gretu Lietuvninkaite og Satu Rämö, auk Birtu Ósmann Þórhallsdóttur sem kemur til okkar af suðurfjörðunum. Svo hef ég mest verið að lesa mig í gegnum það sem ég er búinn að vera að skrifa síðustu mánuði, bæði ljóð og prósa, og skrifa hjá mér glósur í rólegheitunum. Nú þegar aukaverkunum og bassastússinu er að ljúka tek ég svo ærlega törn í eiginlegum skrifum. Sennilega hef ég lesið bók á dag frá því ég krafsaði mig í gegnum Sögu af nýju ættarnafni um daginn. Meðal annars tvær nýútkomnar bækur sem voru báðar fyrirtak – Breytt ástand eftir Berglindi Ósk (sem kemur held ég formlega út á morgun) og Auðlesin eftir Adolf Smára. Annars ber hæst Ótti markmannsins við vítaspyrnu eftir Peter Handke, Ett öga rött eftir Jonas Hassan Khemiri, Undrun og skjálfti eftir Amelie Nothomb, Daloon-dagar eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur og Ferðataskan eftir Sergej Dovlatov. Lágpunkturinn var Diktet minner om verden eftir Jan Erik Vold – í henni er að vísu eitt gott ljóð, sem í sjálfu sér getur alveg verið nóg, en uppistaðan er rímuð pólitísk ljóð af svipaðri tegund og Hallgrímur Helgason og Þórdís Elva hafa fengist við. Ég er með svo mikið ofnæmi fyrir þessari bókmenntagrein að ég get ekki einu sinni lagt mat á það hvort þetta sé vel eða illa gert. Vold er samt dálítið kúl týpa – norskt bítskáld. Sem minnir mig á, mér var sagt um daginn að það væri loksins búið að slaufa Allen Ginsberg – líklega hefur farið lítið fyrir því fyrst ég varð eiginlega ekki var við það nema af afspurn. Ginsberg var auðvitað voðalegur dónakall og meðlimur í NAMBLA en hafði líka orð á sér fyrir gætni og mýkt – helgaði líf sitt friði og ástum, eftir óstýrilátan þrítugsaldur. Það hafa mér vitanlega aldrei komið upp neinar hrottasögur af honum en hann sagðist sjálfur elska unga drengi – einsog hann sem ungur drengur elskaði eldri menn. Með því meinti hann sennilega eldri unglinga, sem var sannarlega ekki jafn umdeilt á sjöunda og áttunda áratugnum og það er núna (þá var samkynhneigðin umdeildari en aldursmunurinn). Einhvern veginn hef ég lengi beðið þess að annað hvort kæmi eitthvað ljótara upp úr dúrnum um hann eða að samtíminn tæki hann bara haustaki, einsog samtíminn gerir stundum þegar honum leiðist.
Söguflækjur vs. söguþræðir
Síðasta bloggfærsla varð að frétt í morgunblaðinu. Upp úr því fékk ég tölvupóst frá ónefndum rithöfundi sem vildi vita hvort dónalegi Frakkinn héti nokkuð D***d. Þá kom í ljós að téður rithöfundur hafði verið þarna með enn einum rithöfundinum (er aldrei hægt að segja hér sögur af fólki úr öðrum stéttum?) og þau höfðu einmitt rekið sig mjög illa á þennan dónalega Frakka líka. Svo illa að þennan rithöfund grunaði að hugsanlega hefði D***d verið hefna sín á okkur vegna erjanna við þau – enda allir íslenskir rithöfundar meira og minna sami höfundurinn í augum Frakka. Það greip mig ógurleg lesleti í vikunni og ég rétt slefaði í gegnum annað bindið af Napólífjórleik Elönu Ferrante, Saga af nýju ættarnafni . Ég veit ekki hvort mér fór að finnast hún leiðinleg vegna þess að ég missti dampinn eða hvort ég missti dampinn vegna þess að mér fór að finnast hún leiðinleg. Þetta er svolítið einsog að hlusta á mjög langa slúðursögu stundum. „Og gvöð, svo giftist vinkona mín Stefano en hann fór að berja hana og hún, sko hún, hún var ástfangin af Nino en ég var LÍKA ástfangin af Nino en Nino valdi hana auðvitað, hún er svo frábær, og svo gáfuð, það er alveg sama hvað ég læri ég verð aldrei jafn gáfuð og hún, þótt hún læri aldrei, og svo varð hún bara ÓLÉTT og gvöð hún segir að Stefano eigi ekki barnið!“ Þetta er auðvitað ósanngjarnt. Mér fannst fyrri bókin frábær og þessi er eiginlega alveg eins. Ég bara missti þolinmæðina fyrir þessu. Sakna einhvers – kannski einhvers sem ögrar mér. Þegar mér fer að leiðast fer ég líka að lesa mjög mjög hægt og það er bara ekki gott. Og þá fer ég að leita að göllunum og hugsa stanslaust af hverju mér finnist þetta ekki lengur skemmtilegt. Og lesandi sem treystir ekki bókinni getur ekki notið hennar. Ferrantebækurnar eru líka að mörgu leyti líkar Sally Rooney bókunum, sem ég er nýbúinn með. Hvíla mjög á melódramatískum söguþræði og vilja manns til þess að fylgja fólki inn í vandræðaleg og jafnvel ofbeldisfull ástarsambönd. Þetta eru eiginlega söguflækjur frekar en söguþræðir og halda endalaust áfram – sérstaklega hjá Ferrante. Þá eru aðalsögupersónurnar líka allar annað hvort eða bæði mjög gáfaðar eða mjög hæfileikaríkar/andríkar. Alls ekkert venjulegt fólk. Ég horfði á eitt og annað og áreiðanlega fullmikið á sumt. Byrjaði og kláraði aðra árstíð af Mindhunter seríunni. Eða hvernig segir maður aftur síson á íslensku? Talar maður kannski um aðra seríu af Mindhunter sjónvarpsþáttaröðinni? Þetta er ruglandi. Og Mindhunter var ekkert spes. Kláraði líka síðustu tvo þættina af Brooklyn 99 sem var ágætt bara, alveg fínt slútt á góðu léttmeti. Þá horfði ég á fyrsta þáttinn í Bæir byggjast , þáttum Egils Helgasonar, en hann fjallaði um Ísafjörð. Elísabet vinkona mín átti þar stórleik og það var mikið af skemmtilegu myndefni. Svo var líka minnst á Brúna yfir Tangagötuna . Við Aram Nói kósuðum okkur á laugardagskvöldið og horfðum á tvær bíómyndir í röð um hljómsveitir sem geta ekki hætt að rífast. Sú fyrri var Commitments eftir skáldsögu Roddy Doyle en sú síðari heimildamyndin Some Kind of Monster um Metallicu. Commitments er ruddalega fyndin án þess að eldast sérlega illa – og er þó á jarðsprengjusvæði: hvítir krakkar stofna hljómsveit, lýsa sig „the saviors of soul“ og segjast í raun vera blökkumenn Evrópu. En þau eru of sjálfshæðin og gróf og hreinlega utangarðs – og myndin hreinlega of mikið um hvað þau séu miklir rugludallar – til þess að slík gagnrýni stæði undir eigin þunga. Ég hef ekki séð hana síðan 1991 – þegar ég var jafn gamall Aram – og fannst mjög gaman að rifja hana upp og Aram hló mikið (sérstaklega að reiða trommaranum). Some Kind of Monster var dálítil vonbrigði. Konseptið er frábært og margt í myndinni mjög gott. Metallica er að reyna að gera plötu í kjölfar þess að Jason Newstead, bassaleikarinn hættir. Þeir fá til sín kvikmyndagerðarmenn til að taka upp prósessinn og vinnustaðasálfræðing (sem fær 40 þúsund dollara á mánuði) til þess að stilla til friðar. Það byrjar illa og svo stingur James Hetfield bara af í nærri því ár – fer í meðferð og vinnur í sjálfum sér. Þá byrja þeir aftur og á endanum kemur út plata og þeir reka sálfræðinginn. Það er eitthvað fyndið – ef ekki hreinlega fin-de-siecle – við að horfa á þessa menn rekja úr sér garnirnar og greina tilfinningar sínar einsog menn í þreyttu hjónabandi. Því þessi hljómsveit er auðvitað stórveldisöld þungarokksins líkömnuð og við vitum núna nærri 20 árum síðar að þeir náðu sér aldrei á strik í lagasmíðum – þótt þeir séu auðvitað enn stærsta liveband þungarokksbransans. Svo eru þeir svo miklir rassvasaspekingar – tala gjarnan mjög passíf-agressíft þerapíumál sem minnir á spakmælin sem fólk lætur ganga á Facebook. En allt er það gott bíó – galli myndarinnar er bara skortur á góðu tempói og yfirgengileg lengd miðað við efnivið (hún er tveir og hálfur tími). Það er líka bara of langur tími fyrir venjulegt fólk til þess að vera í parameðferð með þessum handónýtu sívælandi afturbatarokkurum. Heyrðu já svo kláraði ég líka að lesa upphátt Harry Potter og Fönixregluna. Þetta er fimmta og lengsta bókin. Harry tengist Voldemort hugrænum böndum sem verður til þess að koma honum í vandræði. Mjög spennandi dót og tempóið fíknivekjandi – dýnamík milli persóna í allar áttir og viðhaldið af feykilegri kúnst. Mig grunar hins vegar að Rowling geti farið illa út úr því sem best má lýsa sem viðvarandi endurmati á verkum hennar í ljósi dvínandi vinsælda vegna bæði hrottalegra staðhæfinga um menn og málefni – aðallega transkonur – og þess að henni hefur ekki tekist að fylgja HP bókunum neitt eftir af viti. HP bækurnar eru bara einsog þær hafa alltaf verið (segi ég, sem er að lesa þær fyrst núna) en þegar maður les þær í leit að einhverju óviðurkvæmilegu þá finnur maður það auðvitað út um allt – það gildir um allar bækur og því meira sem bækurnar eru lengri og fjalla um fleira fólk. Þá kannski einblínir maður minna á að Harry og vinir hans verði fyrir einelti (eða Lúna Lovegood vinkona þeirra) og meira á að þau leggja eiginlega Völu væluskjóðu í einelti. Og höfundur er gjarn á að hafa fávita svolítið vel í holdum. Allt má það til sanns vegar færa – ekki síst þetta með að skoðanir Rowling á transfólki séu henni til ævarandi skammar – en mér finnast nú samt þessi knee-jerk viðbrögð að Harry Potter bækurnar hafi þar með aldrei verið „góðar“ svolítið missa marks – einsog allt fólkið sem stökk fram til að segjast aldrei hafa fílað Megas síðasta haust (og gerði eins við Woody Allen fyrir nokkrum árum – aldrei verið fyndinn, sá maður). Þetta er bara mórölsk fýla og hún er alltaf jafn leiðinleg. Það er jafn mikilvægt að meta hið góða sem fólk gerir því til tekna og það er að fordæma hið illa sem það gerir. Svo horfðum við líka á myndina – Harry Potter fimm. Þetta er stysta myndin eftir lengstu bókinni (ein myndin er styttri – en það er önnur þeirra sem gerðar eru upp úr lokabókinni, sem er skipt upp). Og eftir því einfölduð. Eiginlega er hún bara léleg.
Rósavín og villisvín*
Ég er snúinn heim eftir langa helgi í Fuveau í Provence héraði. Þar var ég í góðum félagsskap íslenskra höfunda – Einar Már, Eva Björg, Yrsa og Ragnar Jónasson héldu mér uppi á snakki um bókmenntir, sjálfsmynd, dauðann og barnauppeldi; að ónefndum Óla, manni Yrsu, sem hélt hreinlega allri sýslunni upp á snakki enda framúrskarandi selskapsmaður sem við hin vorum dugleg að beita fyrir okkur einsog félagslegri lensu til þess að rjúfa brynjur heimamanna og flytja okkur fréttir úr hjörtum þeirra. Við sexmenningarnir vöktum langt fram á nótt alla dagana og vorum rekin fram úr eldsnemma á hverjum morgni til þess að sitja við áritunarborð á bókamarkaði – það má nánast heita að við höfum áritað sleitulaust frá 10 til 17-18 síðdegis tvo daga í röð og er þó ekki Fuveau nein stórborg (þótt hún liggi nærri Aix-en-Provence). Sumir komu og keyptu bækur og lýstu yfir áhuga sínum á Íslandi – spurðu hvort það væri „meira af Íslandi“ í þessari bók eða hinni bókinni, einn vildi vita hvort ég gæti mælt með góðu hóteli þar sem sjá mætti Norðurljósin, annar fékk framburðarkennslu (ð, þ, ll og rn) og þriðji var að leita að höfundi sem hann minnti að héti Erlendur (ég gekk með hann yfir að Arnaldarborðinu og mælti með Mýrinni). En svo komu líka nokkrir sem tóku það sérstaklega fram að þeir hefðu engan áhuga á Íslandi, væru ekki á neinu Íslandsmissjóni og vissu ekkert um þetta land, sem væri sennilega líka mjög óáhugavert, en hefðu séð skrifað um hina eða þessa bókina mína (mest þá Illsku og Troll – Hans Blæ ) og vildu kynna sér málið frekar. Hvort það væri satt að ég „risti samtímann á hol“ í bókum mínum? Ég játti bara öllu sem mér þótti líklegt að myndi auka bóksölu mína og hróður. Svo mættu meira að segja nokkrir með útþvæld og lesin eigin eintök til þess að fá í þær krot – og ein kona sem hafði lesið allar bækurnar mínar (sem eru til á frönsku – fjórar alls) á rafbók en keypti sér Illsku í vasabroti bara til þess að eiga ílát undir eiginhandaráritunina. Svona gaman er þetta ekki alltaf. Þegar ég sat daglangt við álíka borð í Nantes fyrir hálfu ári kom svo til enginn – nema Alain Mabanckou reyndar, sem vildi heilsa mér, og ég lét hann árita bók fyrir mig en ekki öfugt. Ég var reyndar alveg nógu upp með mér að Alain Mabanckou skildi vita hver ég væri til að sitja glaður við borðið fram eftir degi. Við gistum skammt utan við bæinn á litlu sveitahóteli með sundlaug sem kom sér vel þegar búið var að sleppa okkur úr bókamarkaðstjaldinu. Herbergin voru stór og mikill skógur umleikis hótelið, með tilheyrandi dýralífi. Einu sinni fór miklum sögum af því hvað franskt þjónustufólk á veitingastöðum og hótelum væri dónalegt við útlendinga sem kynnu ekki málið – að þeir litu á útlendinga (og kannski ekki síst skandinava) sem hálfgerða (eða algera) plebba. Ég hef lítið orðið var við þessar týpur þrátt fyrir ítrekaðar frakklandsheimsóknir, sennilega eru þær komnir á válista – en á þessu mikla lúxushóteli var sem sagt einn svona þvottekta dónalegur Frakki sem vildi alls ekkert fyrir neinn gera, alveg sama hvað hann var beðinn um. Átentískara verður það ekki. Nú á ég bara eftir að hitta alvöru franskan pervert og þá er ég kominn með bingó. Eini hængurinn við allan þennan lúxus og skemmtilega félagsskap var að ég hafði ég sama og engan tíma til að lesa. Náði þó að pæla mig í gegnum Myndir í Bruegel – þýðingar Árna Ibsen á ljóðum Williams Carlos Williams – sem ég hafði ekki lesið lengi. Og þar er einmitt ort um Provence (en það mundi ég ekki þegar ég stakk bókinni í töskuna) – í ljóði sem heitir „To Ford Madox Ford (in Heaven)“. Nú myndi ég vitna í þýðinguna en ég skildi hana eftir heima. Það vill hins vegar til að ég er með orginalinn á skrifstofunni þar sem ég sit: Is it any better in Heaven, my friend Ford,
than you found it in Provence?
I don’t think so for you made Provence a
heaven by your praise of it
to give a foretaste of what might be
your joy in the present circumstances. Þannig var þetta. Himnaríki líkast. Á leiðinni í gegnum Reykjavík fór ég svo í partí til Steinars Braga og hitti ljóðskáld sem hafði verið tekinn í gegn – eða „kallaður út“, einsog það heitir – af kynninum á opnum mæk í Berlín á dögunum fyrir að nota orðið „hóra“ í ljóði, sem aftur minnti mig á WCW sítat sem Einar Már hafði á takteinum um að þótt fátt væri að frétta í ljóðum hefðu margir látist á skorti af því sem þar væri að finna – en það orð (eða sögnin to whore ) birtist einmitt líka aðeins neðar í þessu Provence-ljóði hans WCW: The world is cleanly, polished and well
made but heavenly man
is filthy with his flesh and corrupt
that loves to eat and drink and whore –
to laugh at himself and not be afraid of
himself knowing well he has
no possessions and opinions that are worth
caring a broker’s word about
and that all he is, but one thing, he feeds
as one will feed a pet dog. Sigfús Daðason orti líka um þetta hérað í bókinni Provence í endursýn en var kannski ekki alveg á himnaríkisnótum: Salon er mér ennþá
þegar hún líður fram hjá
rétt eins og ég man
að mér sýndist
síðast:
Hveragerði
nokkuð ofvaxið
og víst formfastara að nokkru. Og Ófeigur Sigurðsson svaraði Sigfúsi í bókinni Provence í endursýningu : Ég nýt mín
ég virkilega nýt mín
hérna á sundlaugarbakkanum
með sólgleraugu eins & Steinn Steinarr
á myndinni frá Mallorca *Yfirskrift þessarar færslu er tillaga Ragnars Jónassonar að enn óskrifaðri ferðasögu okkar sexmenninganna til Provence. Við þá tillögu bætti afbrotafræðingurinn Einar Már: „Greinilega tvennt sem þurfum að vera góð í: að forða vandræðum og valda vandræðum! To live outside the law you must be honest!“ Í sem stystu máli og án þess að koma óorði á neinn eða setja af stað einhver óþarfa sakamál má segja að þetta hafi allt einmitt gengið svolítið út á rósavín og villisvín, en auk þess komu nauðungarvistun, leðurblökur, ættarmót, kókaínreykingar og spariskór með jarðarberjalykt við sögu. Ég leyfi ykkur að fylla í eyðurnar sjálfum en vísa að öðru leyti á ljóð Ófeigs Sigurðssonar í áðurnefndri Provence í endursýningu , sem heitir „Hvað gera íslenzk skáld andspænis villisvíni?“.
Bækur og borgir
Þetta var frekar intensíf vika, sérstaklega helgin. Ég fór suður í jarðarför nafnamíns, sem var afar falleg, og tók svo þátt í gjörningi og upplestri á Hamraborg Festival. Leit líka við á einni myndlistarsýningu og einni ljósmyndasýningu og einni Erró-yfirlitssýningu, hélt upp á 15 ára brúðkaupsafmæli og kíkti á 9 líf. 9 líf er sérstaklega áhugaverð – það er nefnilega svo skrítið að hún er eiginlega ekki minna um okkur sem dáum Bubba en hún er um Bubba sjálfan. Og um sjálfsmyndirnar okkar – lífin okkar sem taka hvert við af öðru en fylgja okkur svo einsog vofur gamalla synda og gamalla sigra. Ég las tvær klassískar bókmenntir í vikunni og tvær samtímaskáldsögur. Fyrst ber að nefna Things Fall Apart eftir Chinua Achebe, sem ég hafði ekki lesið áður. Hún segir sögu hins harðsvíraða Okonkwo, sonar liðleskjunnar Unoka. Okonkwo kemur ár sinni vel fyrir borð og verður mikilmenni í sínum ættbálki, á margar konur og margar kýr og mörg börn, og sýnir aldrei neinum neina linkind. Þegar véfrétt þorpsins kveður úr um að hann verði að láta drepa stjúpson sinn (sem tilheyrir öðru þorpi og kom til hans sem hálfgerðar stríðsskaðabætur – en sem honum þykir afar vænt um) ákveður hann, í æði og þvert ofan í ráðleggingar véfréttarinnar, að drepa hann sjálfur. Í kjölfarið verður hann þunglyndur og það fer að halla undan fæti. Skömmu síðar deyr svo véfréttin og í jarðarför hennar (eða hans, sem sagt) hleypur voðaskot af byssu Okonkwo sem sonur véfréttarinnar verður fyrir og Okonkwo og fjölskylda hans eru send í sjö ára útlegð til annars þorps. Á meðan á útlegðinni stendur fara kristnir menn að gera sig gildandi á svæðinu og þegar þau snúa aftur hafs kristnir eiginlega meira og minna náð völdum í þorpinu og margir látið skíra sig – en einmitt í tengslum við þessa endurkomu Okonkwo verða miklir árekstrar milli kristinna manna og hinna. Kristnu mönnunum fylgir vel að merkja ekki bara trú á Jesú Krist heldur auk þess trú á vestrænt „réttarríki“ og það er ekki síst þar sem árekstrarnir verða – eftir að hin nýbyggða kirkja er lögð í rúst og þess krafist að hinum seku verði refsað. Sem er áhugavert fyrir seinni tíma lesanda, þegar hin kristna kirkja hefur veikst svo mjög en réttarríkið ekki. Þetta er þung bók og að mörgu leyti óþægileg vegna þess að maður skilur bæði hvernig fortíðin hlýtur að hverfa og hvað það hlýtur alltaf að vera sársaukafullt, hversu harðneskjulegir hættir eldri kynslóðanna eru, og hvernig kærleikurinn og réttarríkið verður afsökun fyrir nýlenduherranna og postula þeirra til þess að koma sinni eigin ár fyrir borð – svo þeir megi sjálfir verða valdsmenn í höfðingjanna stað. Og hvernig er eftirsjá af gömlum háttum, jafnvel þótt þeir séu harðneskjulegir. Þannig eru hinir kristnu engu minni fantar en Okonkwo sjálfur, jafnvel meiri eða stærri fantar – kerfislægari fantar – þrátt fyrir að orðin á vörum þeirra og hugmyndirnar sem þeir flytja, fyrst og fremst kærleikur og réttlæti, séu jákvæð. Hin klassíkin sem ég las var Pastoralsinfónían eftir André Gide í þýðingu Sigurlaugar Bjarnadóttur. Sú fjallar um prest sem tekur að sér blinda stúlku sem hefur alist upp hjá mállausri konu og aldrei umgengist fólk og kann þar af leiðandi ekki að tjá sig. Presturinn, sem á konu og fimm börn, einsetur sér að kenna stúlkunni að tala og lesa og vanrækir sína eigin fjölskyldu á meðan – með þeim rökum að stúlkan þurfi á honum að halda en hans börn séu öll sjálfbjarga. Stúlkan, sem hann telur fyrst fimmtán ára en ályktar síðar að sé eldri, blómstrar smám saman og þau fella hugi saman – hann af nokkurri þráhyggju og sennilega einhvers konar miðaldurskrísu, og vegna þess að honum finnst konan sín mjög greinilega óþolandi; og hún sennilega mest vegna þess að hann verður allt hennar líf, kemur eiginlega bara í staðinn fyrir mállausu konuna, og vegna þess að hann sýnir henni mikla umhyggju, sem hún hefur ekki notið áður. Presturinn áttar sig reyndar seint á eigin tilfinningum, langt á eftir eiginkonu sinni eða lesandanum – hann er blindur á sinn hátt. Það er eiginlega ekki fyrren sonur hans verður svo ástfanginn af stúlkunni og hann lætur senda soninn í burtu sem honum verður þetta almennilega ljóst. Fyrir rest (SPOILER ALERT) fer stúlkan svo í aðgerð, fær sjónina, áttar sig á því að presturinn er gamall karl og að maðurinn sem samsvarar því sem hún sá í huga sér – maðurinn sem hún elskaði – var sonurinn, sem er þá orðinn kaþólskur prestur og þannig prestar mega engum giftast. Þá er bláendirinn eftir og honum skal ég ekki spilla. Hér eru auðvitað mörg lög og mikið melódrama. Ég er heldur aldrei alveg viss hversu mikið maður eigi að setja sig í stellingar fyrir þann hugmyndaheim sem verk eru skrifuð inn í – Pastoralsinfónían var skrifuð árið 1919 og gerist undir lok nítjándu aldar. Þá var 15 ára stúlka of ung fyrir fertugan kall en það var ekki glæpur – eiginlega virkar það mest bara hallærislegt. En hann „hækkar“ hana líka í aldri strax og hann fer að þrá hana (það veit enginn hvað hún er gömul í raun). Ég hugsaði strax að það væri ástæða til að lesa þetta sem einhvers konar fyrirrennara Lólítu en þá verður líka að hafa í huga að presturinn er ekki jafn óáreiðanlegur sögumaður og Humbert Humbert, þótt sjónarhorn hans sé eðlilega afar skekkt af eigin ástríðum og þráhyggjum. Tilfinningar stúlkunnar í hans garð eru miklu sennilegri – og hverfa. Og þá er þetta fyrst og fremst saga um tilfinningar – líkamlegt samband þeirra er mjög lítið, mig minnir að þau kyssist einu sinni. En það er líka spennandi þráður þarna um kristilegan mann sem tekur röð af siðferðislega réttum skrefum sem samanlagt verða að siðferðislega röngum göngutúr. Það er rétt hjá honum að taka að sér stúlkuna, rétt hjá honum að kenna henni og sýna henni umhyggju og rétt hjá honum að elska hana og rétt hjá honum að fylgja hjartanu og rétt hjá honum að berjast fyrir ástinni og hún er ekki dóttir hans og hún er (á síns tíma vísu) fulltíða kona sem elskar hann til baka (þar til hún fær sjónina) og þá er hann einhvern veginn kominn í hræðilegar ógöngur og farinn að haga sér einsog alger besefi. Þessi þráður er þá um ábyrgð manns til þess að sjá nokkur skref fram á við og skoða samhengi gjörða sinna (og tilfinninga) frá ólíkum sjónarhornum – sem ég held að sé einmitt eitthvað sem fólk á mjög erfitt með og jafn erfitt með í dag og fyrir hundrað árum. Svo er auðvitað ekki laust við að Woody Allen komi upp í hugann líka. En það er nú efni í sérpistil. Okkar á milli eftir Sally Rooney heitir Conversations with Friends á ensku – hún er vel þýdd af Bjarna Jónssyni en þessi titill er hræðilega „RÚV-legur“, alveg á barmi þess að vera „Hættur á háskaslóð“. Það er einhver tilhneiging í íslenskum titlaþýðingum að taka hið sértæka eða undarlega og breytta því í eitthvað almennt (og reynsla mín er sú að hér sé jafnan ekki við þýðandann að sakast heldur markaðsdeild forlagsins). Hvað um það. Þetta er fyrsta bók Sally Rooney og hún er talsvert síðri en sú nýjasta, Fagri heimur, hvar ert þú? , sem ég las í síðustu viku, þótt hún sé líka að mörgu leyti svipuð. Hún fjallar um tvær vinkonur, fyrrum kærustur, Frances og Bobbi. Þær eru á neðanverðum þrítugsaldri og ljóðaslammarar sem slamma ljóð sem Frances, sögumaðurinn, semur. Frances og Bobbi kynnast ríku pari á ofanverðum fertugsaldri, karlleikara og konu sem er ljósmyndari og ritgerðasmiður. Melissa og Nick. Bobbi og Melissa laðast hver að annarri og daðra mikið og kyssast en Nick og Frances fara að halda hvort við annað af miklum móð. Og svo verður þetta bara flóknara. Eins og fólk er flest eftir Sally Rooney heitir Normal People á ensku – sem er einmitt líka miklu kraftmeiri titill. Venjulegt fólk. Hvað um það. Þetta er miklu betri bók en Okkar á milli . Hún fjallar um Maríönnu og Connell. Maríanna er af ríku fólki komin en mamma Connells vinnur við að þrífa heima hjá foreldrum Maríönnu. Maríanna er hins vegar mjög óvinsæl í menntaskóla og þegar þau Connell fara að sofa saman fer hann fram á að þau haldi því leyndu, svo fólk geri ekki grín að honum. Þegar þau hittast aftur á háskólaárunum er hún orðin vinsæl og þau byrja aftur að sofa saman – en alltaf með þennan bakgrunn. Svo hætta þau að sofa saman og byrja aftur að sofa saman og þar fram eftir götunum. Og svo verður þetta bara flóknara. Sally Rooney skrifar sig mjög mikið inn í melódrama og klisjur – ekki ósvipað og Gide, reyndar – og snýr síðan aðeins upp á þær svo sagan lifnar við – þannig er hún til dæmis augljós femínisti og vinstrimaður „með hjartað á réttum stað“ en fellur þó aldrei í þá gildru að gera konur eða verkafólk að einföldum fórnarlömbum illra afla eða ímynda sér að þær og þau séu ekki líka gerendur eða fær um allan fjárann. Þannig verður heimsmynd klisjunnar stærri – og óklisjukenndari. En þegar maður les þrjár bækur í röð frá höfundi sem skrifar hratt (þær koma út á fimm árum) verður maður líka kannski fullmeðvitaður um endurtekningar og keimlíkar senur milli bóka og það koma upp alls konar spurningar. Til dæmis virðist fólk alltaf vera að tala um „alvarlega“ hluti – fólk talar um Palestínu og Zizek og Lorde og írska pólitík – en maður sér fólk aldrei segja neitt um það. Við fáum lýsingar á tölvupóstum sem séu fullir af einræðum um þessu alvarlegu mál en þegar við sjáum vitnað í tölvupósta frá sama fólki eru þeir ljóðrænni og sjálfhverfari. Við vitum aldrei annað en að fólk talar um þessa hluti, ekki hvað það segir um þá. Þá setur hún gjarnan fátækt fólk inn í þær aðstæður að vera að hanga með ríkum og það verður alltaf furðulega lítið problematískt – það bara er og ríku borga brúsann og kannski hugsar einhver eitthvað smá um það en árekstrarnir eru í lágmarki. Svo er hún oft endurtekin í þessum bókum hugmyndin um að fólk af verkalýðsstétt hafi ekkert gaman af menningu og vilji bara horfa á fótbolta – og jafnvel sem einhvers konar „vörn“ fyrir verkalýðsstéttina, hún „þurfi“ ekkert að láta sem menningin komi sér við, þetta sé alltílagi. Sem kom mér nógu ankannalega fyrir sjónir til þess að ég sló því upp hver bakgrunnur Rooney sjálfrar væri (pabbi hennar vann fyrir írska ríkissjónvarpið og mamma hennar rak listamiðstöð – þannig er það orðað á Wikipediu, einsog það sé allt í fortíðinni). En þetta er kannski eitthvað írskt – stéttskiptingin þar er væntanlega öðruvísi en á Íslandi. Hér er auðvaldið bæði meiri plebbar og verkafólk, eða í öllu falli fólk með verkalýðsbakgrunn, alls ekkert ólíklegt til að vera á kafi í listum. Loks er ég búinn að horfa á fyrstu þættina í Sandman seríunni, eftir teiknimyndasögum Neils Gaiman, og fór á Beast í gær. Sandman byrjar vel en Beast náði einhvern veginn aldrei almennilega flugi – ég varð aldrei almennilega skelkaður. Samt er hún vel gerð og vel leikin – sennilega er tempóið í sögunni bara eitthvað off. Líklega hefði líka farið betur á því að hafa einhvern aumingjalegri en Idris Elba í þessu hlutverki.
Menning! Menning!
Ég var lasinn hálfa vikuna og las mikið. Undarlegt að þetta séu ótengd orð annars, las og lasinn, las (daginn út og) inn. Horfði líka svolítið á Curb og tónlistarnördayoutube. Kláraði Clark – um sænska gangsterinn Clark Olofsson, með Bill Skarsgård í aðalhlutverki. Ætli hann sé ekki bara betri leikari en pabbi sinn? Hann er allavega betri en Alex vinur minn (við borðuðum einu sinni kvöldmat saman á Tjöruhúsinu, reyndar af því hann er vinur Andra Snæs, sem er vinur minn – en ég er samt betri í sænsku en Andri, svo eiginlega er Alex meiri vinur minn). En Alex er sætari. Og Clark sem sagt mjög áhugavert stöff líka og mestmegnis satt sýnist mér. Áhugaverður punktur í endann þegar (TRIGGER NEI ÉG MEINA SPOILER ALERT) ævisagnaritarinn hættir við að gefa út bókina af því hún vill ekki taka þátt í kúltúrnum sem upphefur fantasíufígúruna Clark Olofsson – henni finnst að hann eigi skilið að vera ómerkilegur. Þar heyrir maður efasemdir kvikmyndagerðarmannsins á lokametrunum. En nú er það orðið of seint. Nú dreymir okkur óknyttastrákana um að verða Clark þegar við verðum stórir. Ég las Hvað er Drottinn að drolla? eftir Auði Haralds – hún var bráðskemmtileg. Sennilega eru að verða liðin 20 ár síðan hún var skrifuð en það kemur ekki mikið að sök af því hún á að gerast á fjórtándu öld, svona að mestu. Ef ég hef ekki misskilið eitthvað var hún skrifuð fyrir Strik.is vefinn og líklega hef ég átt hana á kindlinum ólesna um hríð – fyrir rúmum áratug gróf einhver hana upp og setti á mobi-formatt og sendi mér (um svipað leyti og ég var að garfa mikið í þeim málum – skrifaði Ást er þjófnaður og krakkaði Konuna við þúsund gráður og lenti í fréttunum og svona). En svo keypti ég hana í stórmarkaðskilju hér á dögunum og sporðrenndi í flensunni. Auður Haralds er sennilega fyndnasti höfundur sem Ísland hefur átt, heilmikill stílisti með áhugaverða sýn á lífið og tilveruna. Svo las ég Engill, Pípuhattur og jarðarber eftir Sjón. Hana las ég í menntaskóla og keypti svo síðar á einhverjum bókamarkaði og átti í plastinu. Ég hafði pínu áhyggjur af því að hún hefði elst illa – ég var mikill aðdáandi hennar og ljóðanna hans Sjóns þegar ég var í menntaskóla en fannst ljóðin ekki jafn frábær þegar ég endurlas þau fyrir nokkrum árum (nýja ljóðabókin hans er hins vegar hans besta). Og þótt ég hafi ekki lesið EPJ með jafn miklum andköfum og ég gerði 17 ára þá er þessi ákafa en afslappaða, raunsæja-súrrealíska ástarsaga ennþá frábær. Sem betur fer. Allt sem við misstum í eldinum eftir Mariönu Enriquez í þýðingu Jóns Halls Stefánssonar er argentínsk smásagnasafn – nýjasta bókin í þýðingaflokki Angústúru. Þetta eru eins konar hrollvekjur með raunsæisyfirbragði – kannski álíka blöndu og í EPJ eftir Sjón. Þar fannst mér fara fram nánast normkor saga í súrrealískri linsu (eða öfugt). Hér er argentínskur hrottaskapur og eymdartilvera – glæpir og fátækt, fíkn og spilling, sem er nánast allsráðandi í latín-amerískum frásögnum síðustu árin, bíó, sjónvarpi og bókum, einsog töfraraunsæið var fyrir 30-40 árum – sett í gegnum Lovecraftískan filter. Eða öfugt. Mjög gott. Hummelhonung eftir Torgny Lindgren er svolítið einsog sænska Hrútar. Hún fjallar um tvo bræður sem búa nálægt hver öðrum úti í rassgati í Norrlandi og hefst á því að annar þeirra sækir rithöfund, sem hann hefur samþykkt að hýsa, eftir að rithöfundurinn klárar upplestur. Rithöfundurinn er kona og hún verður fyrst veðurteppt hjá gestgjafa sínum en endar svo bara á að fresta brottför sinni meðan hún fylgist með bræðrunum. Einsog í Hrútum hatast þeir og hafa ekki talast við svo árum skiptir – liggja raunar báðir fyrir dauðanum, annar með krabbamein en hinn hjartveikur, en lifa fyrir það eitt að sjá hinn deyja fyrst. Það hefur lengi verið á dagskrá hjá mér að lesa meiri Torgny Lindgren – Nadja heldur mikið upp á hann. Ég las Nöðruna á klöppinni fyrir löngu en var ekkert upprifinn, las svo Norrlands Akvavit fyrr í ár og fannst hún frábær – tók þá Pölsan og nú Hummelhonung og nú held ég að Torgny sé bara uppáhalds sænski rithöfundurinn minn, kannski ásamt Bodil Malmsten. Þau eru líka með svipaðan húmor, einhvern furðulegan og fínlegan tón sem fær mig til að flissa mikið. Fagri heimur, hvar ert þú? er skáldsaga eftir Sally Rooney, vonarstjörnu hins írska bókmenntaheims. Ég hélt heillengi að bækurnar hennar væru einhverjar svona „sumarbækur“ – svona skyndibitaléttmeti á borð við bakaríisbækurnar og það allt saman. Sennilega af því hönnunin er svipuð, léttir skemmtilegir litir. Þessi bók fjallar um tvær stúlkur, fyrst og fremst, og strákana sem þær eru skotnar í (sú umgjörð gerir víst ekkert til að dempa léttmetistilfinninguna). En margt fleira! Önnur stúlkan er ungur moldríkur metsölurithöfundur sem er að jafna sig eftir taugaáfall (eða annan álíka geðsjúkdóm – hún er fremur nýlega komin út af hæli). Hin er skítblankur ritstjóri ljóðatímarits. Kærasti rithöfundarins er lagerstarfsmaður – ekta verkamaður! – og kærasti hinnar er pólitískur ráðgjafi og hugsjónamaður. Á borðinu eru fegurðin, umhverfið, heilindin, andleg heilsa, vináttan (eiginlega frekar en rómantíska ástin), kynlíf (mikið og grafískt) og svo framvegis – og hún fer svolítið brútal í þetta allt. Það er svolítið mikið verið að neimdroppa og vísa í heimsbókmenntirnar – Keats, tékk, Audre Lorde, tékk, James Baldwin, tékk, Shakespeare, tékk, titillinn er fenginn úr ljóði eftir Schiller – en svo furðu lítið gefið fyrir samtímabókmenntirnar. Lýsing á ljóðaupplestri er eiginlega meira vonlaus en kómísk – höfundarnir allir hræðilegir og enginn mættur. Metsöluhöfundurinn dauðvorkennir verkamanninum sínum að mæta á bókmenntaviðburð hjá sér, því hann les auðvitað ekki og hefur skiljanlega ekkert gaman af bókum, og segist sjálf aldrei mæta á bókmenntaviðburði nema tilneydd. Þetta er frekar glatað viðhorf, bæði til verkamanna og bókmennta. En góð bók samt og ég ætla að lesa hinar bækurnar hennar. Þegar ég var í menntaskóla plægði ég í gegnum skylduheimsbókmenntirnar, ekki síst til þess að mér þætti ég sjálfur mega hafa vit á hlutunum. Ein af þeim var The Great Gatsby sem ég gleymdi svo strax aftur, svona í meginatriðum að minnsta kosti, en endurlas aftur núna. Mér fannst ekkert ægilega til hennar koma þá en nú náði hún mér, eða ég henni – við mættumst einhvers staðar. The Great Gatsby er einhvern veginn hrottalegri en mig minnti. Minni glamúr og meira bara almennt siðleysi – það eru allir, nema kannski Nick, óttalegir drullusokkar – og samt voða mannlegir drullusokkar. Gatsby er mónómanískur en líka rómantíker sem vill vel, Daisy er sjálfselskur narsissisti en líka bara kona að reyna að bjarga sér innanum karla sem vilja eiga hana – jæja, maðurinn hennar er bara nasisti og kvenhatari af eldgamla skólanum og á sér engar sérstakar málsbætur. Svo horfði ég á bíómyndina sem Baz Luhrmann gerði fyrir rúmum áratug. Þar eru mannlegu drullusokkarnir orðnir að erkitýpískum fávitum. Gatsby er sósíópati. Nick er hálfgert barn. Daisy er hreint og saklaust fórnarlamb (hún t.d. hættir ekki við Gatsby af því hann efnaðist á vafasaman hátt, einsog í bókinni, heldur vegna þess að hann reynist vera skapofsamaður – sem er miklu sympatískara). Mér fannst sú túlkun ekki góð þótt myndin væri að mörgu öðru leyti kannski glæsileg. Nick miklu bláeygari en í bókinni, hann fellur fyrir glamúrnum og er raunar við sögulok orðinn hrottalegur alki og búinn að fá taugaáfall. Í bókinni er hann fremur heilsteyptur og fílar aldrei sérstaklega íburðinn hjá nágrönnum sínum – og þótt hann verði drukkinn tvisvar kemur fram að það séu eiginlega einu skiptin sem hann hafi fundið á sér í lífinu. Myndina skortir líka hinn íhugula rólega stíl sem einkennir bókina og skapar kontrast eða spennu við íburðarmikla ástríðu ríka fólksins – rödd Nicks er of barnaleg, Toby McGuire veldur ekki hlutverkinu. Þá fannst mér æpandi munur á þeim texta sem var skrifaður af handritshöfundunum og þeim texta sem var augljóslega tekinn beint úr bókinni – auk þess sem búið var að gera mikið af textanum úr bókinni naífan. Byrjunarorðin eru besta dæmið. Svona eru þau í bókinni: In my younger and more vulnerable years my father gave me some advice that I’ve been turning over in my mind ever since.
“Whenever you feel like criticizing any one,” he told me, “just remember that all the people in this world haven’t had the advantages that you’ve had.”
He didn’t say any more, but we’ve always been unusually communicative in a reserved way, and I understood that he meant a great deal more than that. In consequence, I’m inclined to reserve all judgments, a habit that has opened up many curious natures to me and also made me the victim of not a few veteran bores. Sem verður svona í bíómyndinni: In my younger and more vulnerable years my father gave me some advice: Always try to see the best in people, he would say. As a conquence I’m inclined to reserve all judgments. But even I have a limit. Mig grunar að handritshöfundarnir hafi haldið að hér væru þeir að kjarna einhvern sannleik úr margorðri bók – en eiginlega eru þeir bara að taka merkilega hugmynd og gera hana heimskulega. Sem á í sjálfu sér ágætlega við Nick kvikmyndarinnar, hann er voða vitlaus. Í gærkvöldi fór ég svo í bíó og sá Where the Crawdads Sing , sem er gerð eftir metsölubók Deliu Owens – en hana hef ég ekki lesið. Myndin fjallar um unga konu sem elst upp ein í mýri nokkurri í Norður Karólínu. Hún lifir af því að tína krækling og selja í kaupfélaginu. Hún á í tveimur ástarævintýrum – fyrst við einn góðan strák, sem er ljós yfirlitum og glaðlegur og gerir allt til að virða hana, neitar að sofa hjá henni eftir langt tilhugalíf því það geti verið svo miklu kostnaðarsamara fyrir hana en hann, og svo öðru við vondan strák sem er dökkur yfirlitum og hlustar aldrei á hana og reynir að ríða henni eftir korter á fyrsta stefnumóti. Þegar sagan hefst er sá síðarnefndi dauður og búið að handtaka stúlkuna fyrir morðið. Höfundurinn, Delia Owens, er að mér skilst dýrafræðingur og ef ég hef ekki misskilið eitthvað gengur bókin mjög mikið út á alls kyns samanburð á hegðun manna og hegðun dýra – lykilsetningin þar, sem kemur fram í myndinni, er þá að í raun eigi náttúran sér engar myrkar hliðar heldur hagi sér jafnan lógískt. Það finnst mér ögrandi hugmynd, þótt hún sé kannski ekki glæný. Ég get ímyndað mér að slíkt samhengi geri heilmikið fyrir söguna en það hefur að miklu leyti verið fjarlægt og því skipt út fyrir sæg af ótrúlega fallegum leikurum sem eiga það meira og minna sameiginlegt að virðast aldrei hafa verið mikið úti í náttúrunni. Sérstaklega virðist aðalleikkonan Daisy Edgar Jones – ef ég má leyfa mér slíka útlitsfordóma – aldrei hafa þurft að hafa brjálæðislega mikið fyrir því að draga fram lífið. Þá er margt illa útskýrt í myndinni – maður áttar sig t.d. ekki almennilega á því hvers vegna hún er skilin eftir (pabbinn er ofbeldismaður og það flýja hann allir – en þau eru samt að skilja eftir sex ára barn – og svo fer hann líka og það er óútskýrt). Ég skildi ekki hvers vegna manneskja sem lifir ein á náttúrunni á þessum stað í Bandaríkjunum virðist ekki eiga byssu – eða neitt vopn sem er stærra en hnífurinn sem hún notar til að losa kræklinginn. Eða hvernig stendur á því að aðalkaupfélagið á svæðinu er í eigu svartra millistéttarhjóna (sagan gerist á sjötta og sjöunda áratugnum). Eða hvers vegna góði kærastinn skildi hana eftir og kom ekki til baka og hvers vegna hann ályktaði bara að hún myndi aldrei vilja koma með sér. Eða hvað vakti fyrir vonda kærastanum. Eða hvernig ólæs stúlka verður alltíeinu metsölurithöfundur hálfgerðra fræðirita um náttúruna á tveimur árum. Maður fyllir alveg í götin með einhverju giski en það er ekki alveg nógu gott. Svo er hrúgað upp melódrama og klisjum í hverri einustu senu – það er alltaf verið að leggja áherslu á að þó stúlkan hafi ekki farið í skóla og raunar lítið umgengist fólk yfir höfuð viti hún rosa margt um náttúruna, allt frá latneskum heitum dýra yfir í það hvers vegna himinninn er blár (vondi kærastinn spyr hana og hún heldur stuttan fyrirlestur um ljósbrot). Í einni senunni, þegar stúlkan og góði kærastinn eru að bonda, fer hann að tala um sína æsku – hvernig hann hafi misst móður sína og systur í bílslysi og ég dæsti svolítið, þarf að vera tráma á bakvið hverja einustu setningu, hugsaði ég, og svo þegar hann bætti við að þær hafi verið á leiðinni í næsta bæ til að kaupa reiðhjól handa honum, sem átti afmæli, og þannig væri þetta eiginlega honum að kenna, fór ég nú bara að hlæja. Lái mér hver sem vill. En einsog ég segi. Mér finnst ekkert ósennilegt – og vona eiginlega innilega – að það hafi verið margt í bókinni sem gaf þessari vellu samhengi. Og margt í myndinni var ágætt – það voru fallegar tökur og fallegu leikararnir stóðu sig flestir ágætlega. En sagan og samtölin og tempóið voru bara einsog upp úr rauðu ástarseríunni. Þegar ég las Sally Rooney bókina í vikunni fór ég eitthvað að gúgla henni og rakst á tilvitnun í Will Self – sem er frábær rithöfundur en ægilegur fýlukall – þar sem hann er að tala um aðra skáldsögu Sallyar, Normal People : What’s now regarded as serious literature would, 10 or 20 years ago, have been regarded as young-adult fiction. I read a few pages of the Sally Rooney book. It may say things that millennials want to hear reflected back at them, but it’s very simple stuff with no literary ambition that I can see.” Þetta fannst mér – hafandi bara lesið Fagri heimur, hvar ert þú? og ekki Normal People – óverðskuldað. Og alls ekki ólíkt Self að henda fram hæpnum alhæfingum í viðtali, án þess að kynna sér málin meira en að lesa „a few pages“. Hins vegar hélt hann áfram og sagði líka eitt og annað sem ég tengdi meira við, svona almennt: I don’t mean to be overly critical, but in terms of literary history, it does seem a bit of a regression. If you consider that Nabokov’s Lolita was on the New York Times bestseller list for nine months, it’s a different order of literature. Eftir að hafa séð Where the Crawdads Sing – og fullur efasemda um gæði bókarinnar – hugsaði ég svolítið um þetta og nefndi meira að segja þetta viðtal við Nödju á leiðinni heim úr bíóinu. Hvort það gæti verið að alls konar vella sitji á metsölulistunum og verði svo að stóru hollywood-bíómyndunum og hvort það sé ekki öðruvísi en þegar Lolita var metsölubók og hollywood-bíómynd? Hvort við séum móttækilegri fyrir vellu og hvort við gerum minni kröfur um að vera neitt ögrað? Svo kom ég heim og gúglaði aðeins bókinni og sýndist nú almennt álit manna að hún væri í það minnsta skárri en bíómyndin – þótt hún kæmi kannski ekki til álita í kanónuna – en komst að sama tíma að því að aðalleikkonan í Where the Crawdads Sing , áðurnefnd Daisy Edgar Jones, lék líka aðal í Normal People bíómyndinni. Sem ég þarf nú eiginlega að fara að lesa og sjá. Ég hugsa hins vegar að ég láti Where the Crawdads Sing bara vera. Fyndið reyndar líka að hugsa til þess að Sally Rooney sé í nýju bókinni – einsog ég nefndi hér að ofan – að snobba fyrir heimsbókmenntunum og dissa samtímabókmenntirnar. Soldið einsog Will Self. Snemma beygist krókurinn og það allt saman.
Augun eru púströr sálarinnar
Ég las fjórar bækur í vikunni. Fór á enga tónleika, sá enga bíómynd, fór ekkert í leikhús, setti ekki á neina sérstaka plötu. Vann eina kappátskeppni – reyndar í boðáti með frænda mínum. Kláraði Peaky Blinders seríuna, sem var bara svona la-la, og er vonandi hætt – þetta er komið gott. Ég lýg því reyndar að ég hafi ekki séð neina bíómynd því ég horfði á Grease í gær, en hana hafði ég auðvitað margséð. Smásagnasafnið Óskilamunir eftir Evu Rún Snorradóttur er í sérstakri tóntegund sem ég tengdi meira við einhvern myndlistarmannahljóm en hinseginhljóm, þótt hann sé auðvitað þarna líka og liggi beinar við, og svo blandast þeir auðvitað í bestu kviðunum. Svona Sigurður Guðmundsson hittir Kristínu Ómars orka, sem er samt algerlega Evu. Sögusviðið er líka hinseginveruleikinn og myndlistarveruleikinn. Ég veit ekki hvort bókin varð betri eftir því sem á leið eða hvort ég var bara þreyttur að lesa fyrstu 40-50 síðurnar eða hvort ég þurfti að læra að lesa hana en hún allavega náði mér ekki alveg fyrst en náði mér samt á endanum. [Í þessari málsgrein er ekki beinlínis höskuldur – en næstum því]. Sápufuglinn eftir Maríu Elísabetu er safn þriggja sagna – tvær stuttar og ein löng. Ég sá einhvern skrifa að sú langa væri langbest og það stendur heima. Gerist einmitt í hinseginveruleikanum líka og minnti mig að mörgu leyti á Ali Smith, ekki síst í því hvernig hún endar eiginlega án þess að enda – hættir bara – sem er að mörgu leyti frískandi en líka auðvitað svik. Það er eiginlega stillt upp fyrir plott og lausn á plotti og svo lýkur sögunni bara án þess að maður neitt slíkt fix. Mér finnst það ganga upp hérna, en það truflar mig samt oft, t.d. í hinni (annars) frábæru There But For The eftir Ali Smith. Ef ég fæ það á tilfinninguna að höfundurinn hafi ekki þorað eða nennt eða getað neglt henni í mark er þetta auðvitað óþolandi. En að sama skapi eru snyrtilegir endar auðvitað popúlískur viðbjóður. Það var Snæbjörn Kaktus sem sagði þetta um sögurnar, hann er byrjaður aftur að blogga . Eða halda dagbók. Svo las ég tvær fyrstu bækur Eiríks heitins Guðmundssonar – 39 þrep til glötunar og Undir himninum . Þetta eru systurbækur. Sú fyrri samanstendur að miklu leyti af pistlum Eiríks sem höfðu áður verið fluttir í útvarp en fær bréfaskáldsöguramma – hann er að senda einhverri konu þessa skáldlegu og samfélagsgagnrýnu þanka sína. Í seinni bókinni hefur (hálf)skáldaði ramminn tekið yfir – höfundurinn, E., er ofsóttur af konum út um allan bæ sem halda að 39 þrep til glötunar hafi verið bréf til sín en fer svo sem líka um víðan völl: E. heldur við giftar konur, missir póstkort út um glugga, byrjar að þýða bók en skáldskapurinn tekur af honum öll völd og guð veit ekki hvað. Þegar ég las þessar bækur fyrst var Eiríkur tíu árum eldri en ég en þegar ég les þær núna er hann nærri tíu árum yngri en ég og eðli málsins samkvæmt staldra ég við æskulætin. Það er harmarómantík í Eiríki þarna en hún er blönduð svo miklum lífsþrótti. Hann læst steypa sér í glötun en sprettur svo alltaf upp aftur einsog kassatrúður. Það er erfitt til þess að hugsa – og undarlegt, eiginlega – að glötunin skuli svo bara hafa gleypt hann. Ég velti svolítið fyrir mér, við lestur vikunnar, hvað það þýði að skrifa svona intensífar fyrstu persónu bækur – sem þurfa reyndar ekki að vera í málfræðilegri fyrstu persónu, ég á við að sjónarhornið liggi mjög sterkt hjá aðalsöguhetjunni, og hún fari ekki vítt og breitt heldur haldi sig við til þess að gera lokað sögusvið, þar sem sömu lögmál gilda og hún heldur persónuleika sínum, verður hvorki önnur né fellur inn í einhverja heild. (Þetta eru áreiðanlega einfaldanir í hverju gefnu tilviki en tilhneigingin er þarna, held ég). Þetta eru ekki sögupersónur sem ferðast um heiminn og lýsa ólíkum afkimum, bækurnar ekki píkareskur , og þetta eru heldur ekki sögupersónur sem eru notaðar til þess að lýsa einhverjum mjög litríkum vini (svona On the Road dæmi). Þær geta auðvitað gert eitthvað þvílíkt í-og-með en meginfókusinn er á lýsingarkrafti og innra lífi aðalsöguhetjunnar – Eiríkur nefnir Bréf til Láru (og tekur fram að hann, eða E., hafi aldrei verið hrifinn af þeirri bók, þótt hún hafi verið honum innblástur) og það er áreiðanlega eitthvað þórbergskt þarna, kannski sérstaklega hjá Eiríki og Evu, þar sem söguhetjan minnir meira á höfundinn en ég held að sé raunin hjá Maríu í Sápufuglinum . Það er líka áhugavert hvernig rannsókn á egói, eða hvað maður á að kalla þetta, er alltaf líka rannsókn á skáldskapnum eða listinni – einsog að þegar maður þræði útjaðar persónuleikans standi maður alltaf líka á útjaðri skáldskaparins, línunni sem skilur að sjálfið og listina/lygina.
Nafni
Ég veit ekki hvaða dag það var en það gætu verið akkúrat tuttugu ár liðin í dag. Ég var allavega nýbúinn að gefa út fyrstu ljóðabókina mína – hún kom út 1. ágúst, 2002 – það var morgun og ég var í baði, heima hjá foreldrum mínum, þar sem ég bjó aftur tímabundið meðan ég undirbjó flutning til Berlínar. Þá hringdi síminn. Ég dreif mig upp úr baðinu og rétt náði að svara í símann. Maðurinn í símanum sagðist heita Eiríkur – það er alltaf svolítið ruglandi – og spurði hvort hann mætti ræða við mig um nýju ljóðabókina mína, hann væri með útvarpsþátt. Ég bað hann að hinkra meðan ég þurrkaði mér, ég hefði verið að koma úr baði. Svo lagði ég frá mér tólið og þurrkaði mér vel og vandlega og vafði svo handklæðinu um mittið á mér áður en viðtalið hófst. Ég hafði aldrei farið í viðtal áður, aldrei neinn tekið mig alvarlega, nema ég sjálfur – ég tók mig reyndar nógu alvarlega fyrir heila herdeild af fólki, heilu skotgrafirnar – og nú var ég að úthella úr sálu minni fyrir alþjóð, fyrir Eirík, nakinn og nýbaðaður. Strax og viðtalinu lauk kveikti ég á útvarpinu og hafði kveikt á því næstu klukkustundirnar, alveg þar til Víðsjá fór í loftið, svo mikið hlakkaði ég til að heyra sjálfan mig tala í útvarpið, mano á mano, Eirík við Eirík, og á um það bil klukkustundar fresti heyrðist aftur í honum, Eiríki Guðmundssyni, sem tilkynnti glaðbeittur að í Víðsjá í dag yrði meðal annars yrði hringt vestur á firði þar sem ungskáldið Eiríkur Örn Norðdahl væri nýkominn úr baði. Ekki missa af því. Við þekktumst þannig í 20 ár, næstum því upp á daginn, og ég er áreiðanlega ekki eini maðurinn sem kynntist honum fyrst sem viðfang í viðtali, þessum manni sem hafði óþrjótandi og afar smitandi ástríðu fyrir skáldskap og tónlist. Ég hef ekki farið varhluta af því að hallað hafi undan fæti hjá honum síðustu árin þótt ég hafi lítið orðið vitni að sjálfu dauðastríðinu við fíknina, nema í gegnum sameiginlega vini sem stóðu honum nær. Minningar mínar um Eirík eru allar gleðilegar. Ég bauð honum og Jóni Kalman í mat til mín í Ölduna þegar þeir voru hér að skrifa, Eiríkur sennilega Undir himninum en Jón Himnaríki og helvíti. Þegar Eiríkur var búinn að klára sína kom hann vestur aftur og las á Opinni bók og við lékum saman tónlist í matarboði inni á Kúabúi um kvöldið – hann á flygil og ég á gítar og gott ef við rauluðum ekki eitthvað báðir – á þessum tíma spilaði ég aldrei neitt og söng enn síður en Eiríkur einhvern veginn galdraði fram í manni hugrekkið, þetta yrði alltílagi, við myndum slá í gegn, sennilega þyrftum við fljótlega bara að leggja bókmenntirnar á hilluna til þess að sinna glimrandi poppferli. Ég tók líka viðtal við hann, nýbaðaðan held ég alveg áreiðanlega, fyrir Bæjarins besta um bókina og Bolungarvík og fleira. Og kom til hans meira og minna á hverju ári upp í Efstaleiti, út af einni bók eða annarri – síðast sennilega þegar Yahya Hassan dó og það vantaði einhvern til að tjá sig um það ótímabæra andlát. Það var fyrir tveimur árum. Haukur Ingvarsson bauð okkur líka báðum í mat til sín fyrir nokkrum árum – sennilega var það í síðasta skipti sem ég hitti Eirík svona sósíal. Við vorum svo auðvitað líka sveitungar, þótt ég muni auðvitað ekkert eftir honum héðan – hann var rétt að klára grunnskóla þegar hann flutti frá Bolungarvík og ég hef verið svona sex ára á Ísafirði og fór aldrei út í vík nema til að versla í EG, búðinni sem Eiríkur gerir svo góð skil í 1983. En við vorum samt báðir skrifandi vestfirskir Eiríkar, debúteruðum um svipað leyti þrátt fyrir aldursmun, sitthvorumegin við Óshlíð, ekkert nema göngin á milli hans heims og míns, og mér fannst alltaf að það væru sérstök tengsl. Ég hitti hann heldur aldrei – ekki í sekúndubrot á hlaupum – án þess að hann segðist þurfa að fara að drífa sig vestur. Sem var áreiðanlega misskilningur, ég held hann hafi alltaf verið hérna. Í gær fór ég inn á Facebooksíðuna hans og sá að það síðasta sem hann deildi þar var gömul sjálfsmynd tekin fyrir utan Gamla bakaríið – henni fylgdi texti um að þótt Gamla bakaríið væri horfið væri hann sjálfur ekki horfinn. En svo hvarf hann bara líka nokkrum dögum síðar – verður alltaf fyrir utan Gamla bakaríið á Facebook en mér finnst samt líka að nú þyrfti hann raunverulega að fara að drífa sig vestur. Nú er komið að því. Mikið sakna ég hans.