Páskarnir búnir. Eða liðnir að minnsta kosti, ef þeir eru ekki búnir. Ég er sá eini í minni fjölskyldu sem er búinn með páskaeggið sitt að minnsta kosti. Með páskunum kom Aldrei fór ég suður, eftir þriggja ára hlé, og með páskunum fór veturinn. Nú er loks að verða snjólaust í bænum. Ég sá helling af tónleikum – hápunkturinn var áreiðanlega systkinabandið Celebs. Með eftirminnilegri atriðum frá upphafi. Trylltur kraftur og tryllt stuð. Aino var ánægðust með Bríeti – fór alveg fremst – og Aram með Sólstafi. Nadja sennilega sammála mér með Celebs en strax þar á eftir var garanterað plötusnúðurinn á Húsinu, sem fékk mikið lof hjá dansþyrstum. Þá var ég aðallega úti að reykja (af því mér finnst það gott en líka af því ég er hræddur við að skemma á mér hnéð aftur í fylleríisdansi). Sjálfur lék ég líka á einum tónleikum – sem bassaleikari í hljómsveitinni Gosi. Það var gríðargaman. Auk þess mannaði ég barinn á Aldrei í áttamanna feðgateymi á laugardagskvöldið – við Skúli frændi, Háli og Hjölli ásamt sonum – en annars var ég mest bara að frílysta mig. Einhvern veginn tekst manni samt að verða alveg húðlúinn af öllum þessum frílystingum. Í morgun fór ég síðan í bókabúð og ætlaði að kaupa nýja ljóðabók Sjóns – ég er svo lítið í sambandi við umheiminn að ég veit ekki einu sinni hvað hún heitir, sem kom ekki að sök af því hún var ekki til. Eða kannski kom það einmitt að sök þess vegna. Ég hefði kannski fundið hana ef ég hefði vitað hvað hún hét. Eða ég hefði getað látið lífvörðinn úr Celebs, sem selur bækur, panta hana fyrir mig. En af því ég er draugslegur eftir helgina keypti ég bara „eitthvað annað“ – og varð ekki „fyrir vonbrigðum“. Annars vegar keypti ég Klón eftir Ingólf Eiríksson og Elínu Eddu og hins vegar Sataníu hina fögru eftir Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur. Og las þær strax upp til agna og svo aftur. Mér finnst alltaf einsog ég hafi margskrifað um bækur Steinunnar, sem ég held mjög mikið uppá, en svo finn ég það aldrei og kemst aftur og aftur að þeirri niðurstöðu að sennilega hafi ég bara alls ekki skrifað neitt um neina þeirra. Ég veit heldur ekki alveg hvað ég á að segja, svo kannski er það bara best – þetta eru ljóð sem myndu lýsa sér sjálf best en maður á kannski að fara varlega í að vera að pósta heilum ljóðum eftir fólk svona á bloggið sitt nema maður ætli að hafa um þau fleiri orð og greiningar. Einu sinni póstaði ég gjarnan ljósmyndum innan úr ljóðabókum – einhverjum fannst það víst ekki við hæfi en mér fannst alltaf að það væri öðruvísi vegna þess að textinn birtist sem mynd, ógúglanlegur, ókópípeistanlegur, en það var áreiðanlega fyrirsláttur og auk þess er það úrelt. Tæknin hefur breyst. Batnað, skilst mér. Allavega aukið við sig. Í dag getur hún meira, á ég við. Steinunn allavega – eigum við að segja að hún trufli fegurðina? Í einu ljóðinu í nýju bókinni kemur fegurðin í heimsókn og ljóðmælandi fer að hengja á hana alls konar „ljóta hluti“. Límtúpu asnalega græna.
Baðmottu úr hálfhörðu gúmmíi.
Málaðan stein.
Vetrargrænan akur.
Lampaskerm. Og þá gleðst fegurðin og skín. Svona eru flest ljóðin einhvern veginn. Dálítið skökk en falleg. Dálítið agressíf en mjúk. Dálítið klikkuð en jarðbundin. Dálítið réttstæð og dálítið rangstæð. Dálítið falleg en alltaf svolítið af ljótu hangandi úr þeim, sem gerir þau enn … kannski ekki fallegri en betri. Ég las Línulega dagskrá eftir Ingólf þegar hún kom út en hún markaði svo sem engin spor í mig. Ég man að ég hryllti mig yfir þeim ófyrirgefanlega glæp að skrifa orðið „niður“ niður. Að vísu ekki n i ð u u r sem hefði verið verra, heldur niður niður niður niður En annars fór hún svolítið innum annað og útum hitt – Meðgönguljóðaformattið var líka einhvern veginn þannig að það þurfti ansi mikið til þess að skera sig úr. Bæði voru bækurnar svo stuttar og estetíkin svo samræmd; hjúpaði þær svolítið. Í svipinn man ég bara eftir örfáum bókum sem slógu mig – Herra Hjúkkett og Neindarkennd þar efst á blaði. Ég myndi nefna líka Kvöldsólarhana en ég ritstýrði henni og er bullandi hlutdrægur. Nema hvað. Svo las ég Stóru bókina um sjálfsvorkunn sem var miklu meira verk og áhugaverðari þótt mér hafi kannski þótt hún aðeins of stillt til að sitja í mér lengi. Klón er í einhverjum skilningi ennþá stilltari og fókuseraðri og jafnvel klínískari en þar kemur líka fram mjög mikið af karakternum í bókinni – hún minnir á Gertrude Stein á köflum í heimspeki- og tungumálalegri smásmygli; veltir ekki við augljósustu steinunum, eða kannski öllu heldur: maður veit ekki að þetta voru augljósustu steinarnir fyrren þeim hefur verið velt við. Hún minnti mig líka svolítið á Jonas Gren – t.d. Alls staðar þarf ég að vera miðpunktur alheimsins – eða Gå till historian eftir Linn Hansén. Altso, frábær bók, alveg dásamleg. Elín Edda á heiðurinn af myndum bókarinnar sem eru líka æði, þótt ég hafi minna um þær að segja – ég þarf alltaf að setja mig í mjög miklar stellingar til að hafa eitthvað meira um myndlist að segja en „æði“ eða „meh“. Og ég er einsog ég nefndi frekar draugslegur þennan mánudagsþriðjudag eftir páska, alveg búinn með allar stellingar nema þessa þar sem ég ligg kylliflatur í sófanum. Ég verð nú eiginlega að nefna líka dúkristuna á kápunni hjá Steinunni, sem heitir María mey og er eftir Fríðu Karlsdóttur. Líka æði.
Category: Uncategorized
Að lesa sig heimskan
Schopenhauer var ekki mjög hrifinn af lestri. Sá sem eyðir dögum sínum í sleitulausan lestur, sagði Schopenhauer, eyðir þeim á leikvelli hugsana annarra og missir smám saman hæfileikann til þess að hugsa sjálfur, rétt einsog sá maður sem ævinlega ekur í vagni gleymir loks hvernig maður gengur. „Svo er farið um margan menntamanninn; hann hefur lesið sig heimskan“, segir Schopenhauer. Og hananú. Ég man að Edward Bunker sagði á bókmenntahátíð í Reykjavík fyrir 20 árum að allir rithöfundar ættu að eyða að minnsta kosti fimm sinnum meiri tíma í lestur en skriftir. Til þess að læra iðnina, minnir mig að hann hafi sagt, til þess að verða eitt með tungumálinu og sagnamennskunni og skilja það sem er vel gert, hvernig það er vel gert. En hvort það var ekki Schopenhauer líka sem sagði að fólk svona almennt upprætti þrjá fjórðuhluta persónuleika síns til þess að líkjast meira öðrum? Það má segja mér að sá sem læri iðn sína vel – að minnsta kosti „listiðn“, handverk hins skapandi manns – uppræti eitthvað af því sem gerir hann einstakan listamann. Það sem stingur í stúf registerast oftar sem villa eða mistök eða agnúi en það sem virkar slétt og fellt. Byrjendur eru kannski oft (en alls ekki alltaf) lélegir en þeir eru líka oftar (en ekki alltaf) einstakir. Fagmönnum svipar saman. Þeir læra hver af öðrum, kynna sér sömu stefnur og strauma og tæki og tól, rækta með sér svipaðar hugsanir, lesa sömu bækurnar á sama leikvelli hugsana – oft á tíðum deila þeir meira að segja félagslífi, enda hafa þeir sameiginleg áhugamál og stuðning hver af öðrum, búa á svipuðum slóðum og deila þar með veðurfari, fyrirkomulagi samgangna og úrvali í kjörbúðum. Það er meira að segja furðu algengt að listamenn séu börn annarra listamanna og eigi sjálfir listamenn að mökum, og allir búi í sömu hverfunum í sömu borgunum kynslóð eftir kynslóð. En hvernig fer maður að því að læra list sína – eða bara vera til í heiminum – án þess að glata sjálfum sér? Án þess að renna saman við alla hina einstaklingshyggjumennina? Án þess að fórna þremur fjórðu hlutum síns innsta kjarna? Hvernig fer maður að því að lesa fimm sinnum lengur en maður skrifar án þess að lesa sig heimskan? Kannski með því að horfa meira á sjónvarpið?
Fréttir úr bókabunkernum
Í fréttum frá Ísafirði er þetta helst. Ég hef verið að díla við einhvers konar diet post covid – tek mig til og krassa svolítið hressilega einu sinni á dag, lognast bara út af, og er oftar með höfuðverk en höfuðverkjalaus. Annars bærilegur þegar ekki sækja á mig svartir hundar, sem mér sýnist helst gerast í takt við lægðirnar. Þegar brakar í húsinu í verstu hviðunum fyllist ég óstjórnlegri vanmetakennd – einsog ég hafi ekkert yfir sjálfum mér eða tilveru minni að segja. Svo kemur sólin og … tja kannski finnst mér ég aldrei beinlínis hafa neina stjórn á þessu, en þá virðist mér allavega sem mig reki í rétta átt. *** Ég les og les. Að telja upp á milljón eftir Önnu Hafþórs var síðust – fyrir nokkrum dögum las ég líka Stóru bókina um sjálfsvorkunn eftir Ingólf Eiríks. Báðar eru þær feykivel skrifaðar og sannar sínum samtíma. Áríðandi bækur , segi ég, einsog stundum er sagt. Og í báðum eru geðveilur til umfjöllunar. Hjá Önnu eru orsakirnar auðsjáanlegri, þótt þær séu ekki einfaldar, en hjá Ingólfi eru þær lúmskari. Líf Rakelar, söguhetju Önnu, er fullkomið rugl og hún hefur ekkert stuðningsnet – og ýtir því raunar frá sér þar sem það býðst. Líf Hallgríms, söguhetju Ingólfs, einkennist hins vegar af sterku fjölskyldulífi – hann á mjög góða að og ekkert sem bjátar á, annað en allt, auðvitað, það bjátar allt á, af því geðið býður honum ekki annað. Í báðum bókunum er samt gamalt sjálfsmorð í ættinni, sem einsog bergmálar í gegnum þær. Báðar eru þær skrifaðar af mikilli fagmennsku. Ég veit ekki hvort Anna er lærð en Ingólfur er með einhverja gráðu í ritlist. Ég veit ekki alveg alltaf hvað mér finnst um þetta – á eina höndina er þetta grípandi og vel gert og kontrólerað og það glittir í snilld hér og þar. En á hina höndina er þetta líka mjög seif. Ég sækist svolítið eftir tilfinningunni að höfundurinn sé móður, sé að reyna mjög á sig, að honum gæti hvenær sem er skrikað fótur. Það er sennilega meira mitt vandamál en þeirra. Ég veit samt líka að þótt þetta virki auðvelt er það blekkingargaldur – eða a.m.k. blekkingariðn – þetta er ekki auðvelt. Hluti af mér öfundast líka út í þetta. Ég gæti ekki skrifað svona. Ég er alltaf móður. Finnst alltaf einsog ég sé ekki búinn að setja inn nógu mörg þankastrik og hvað þá semíkommur; maður getur alltaf bætt á sig semmíkommu eða troðið inn einhverjum óþarfa útúrdúr. En sem sagt. Þetta átti allavega ekki að vera diss. Maður sogast inn í þessar bækur, þær hafa erindi og ná máli. Og ég mæli með báðum. Las líka Þar verpir hvítur örn eftir Hagalín. Sem átti alveg góða spretti en var kannski ekki með hans bestu. Hún fjallar um Leirufjörð nálægt Tangakaupstað (Ísafirði Hagalíns) sem fær boð um nýjan sóknarprest, sem ku skoskur. Í fyrri hlutanum er mjög skemmtilegur fundur þar sem sóknarnefndin veltir því fyrir sér hvort það sé kostur eða galli að hann sé skoskur – útlendur maður og það allt, kann hann málið, hvaða siði boðar hann, og er hugsanlegt að hann geti útvegað þeim kynbótasauði frá skotlandi og jafnvel hvolpafulla tík? Það stendur sérstaklega aftan á bókinni að hér sé Hagalín ekki að predika og það er hann nú sosum víst að gera – hann lætur t.d. prestinn á endanum lemja drýgindalegan kommúnista sem reykir í kirkjunni. Það hefur nú Hagalín þótt bæði fyndið og maklegt. Saga Borgarættarinnar er fyrsta skáldsaga Gunnars Gunnarssonar. Ef eitthvað er að marka söguna einsog hann segir hana í Fjallkirkjunni – sem er skáldsaga og maður ætti að taka takmarkað mark á, þótt hún sé sjálfsævisöguleg – þá kom hún út í þremur hlutum og gekk fyrsti hlutinn svo illa að það munaði minnstu að annar hlutinn kæmi ekki út. Sá gekk sennilega ekki mikið betur. En sá þriðji, Gestur eineygði, sló í gegn – and the rest is history. Sjálfum fannst mér annar hlutinn bera af. Fyrsti hlutinn er hálfgerður formáli og hann veður úr einu í annað og maður veit ekkert hvað neitt á að þýða – minnti mig svolítið á þegar ég var að kenna í sex ára bekk og það var strákur sem vildi segja brandara á skólaskemmtun og hann hélt bara áfram og áfram: Sko einu sinni var strákur og hann fór út í búð og í búðinni keypti hann appelsínu og svo fór hann með appelsínuna niður á strönd og kastaði henni í sjóinn og síðan velti hann við steini og undir steininum voru marflær og hann potaði í marflærnar og svo kom mamma hans og sagði að hann ætti að koma í mat en hann faldi sig á bakvið tré en tréð brotnaði og svo kom íkorni og íkorninn átti líka mömmu … og eftir svona 10 mínútur þurfti bara að stoppa hann svo næsti maður gæti komist að. Annar hlutinn er svo fyrirtaks dallas – rosalegt melódrama, í fínu tempói og ágætlega skrifað. Gestur eineygði, gegnumbrotsbók Gunnars Gunnarssonar, er síðan eiginlega bara drasl. Þriðja skolvatn af vélstrokkuðu og þránu biblíusmjöri. Óskiljanlegt að hún hafi slegið í gegn. There but for the eftir Ali Smith er meistaraverk að a.m.k. tveimur þriðju hlutum. Ég las hana hreinlega í andköfum, lengst af – en svo er einsog hún dofni í lokin. Hún fjallar í sem skemmstu máli um mann sem kemur í matarboð hjá fólki sem hann þekkir ekkert – með manni sem þekkir gestgjafana lítið. Á milli aðalréttar og eftirréttar bregður hann sér frá og læsir sig inni í gestaherbergi – sem er „en suite“, einsog heitir, með sérbaðherbergi. Þar hefst hann svo bara við. Við fáum í raun lítið að vita hvers vegna hann gerir þetta en bókin lýsir uppnáminu í kringum hann, hvernig hann verður hreinlega frægur, og alls konar fólki sem á snertifleti við hann og við gestgjafana – og svo er sagt frá matarboðinu sjálfu, sem er dásamlega kvikindisleg lýsing á efri millistéttar-bretum. Sennilega dofnar hún einmitt vegna þess að hún leysir svo ekki úr hnútunum sem hún sýnir okkur – svolítið einsog galdramaður sem lætur mann draga spil og hugsa um tölu og fer svo bara að tala um eitthvað annað áður en hann þakkar fyrir sig og býður góða nótt. En Ali Smith náði samt alveg að vera nýi uppáhaldshöfundurinn minn í 200 síður og það er bara nokkuð vel af sér vikið. Og ég hlýt að lesa fleiri bækur eftir hana fljótlega. *** Talandi um geðdeyfð. Ég kom inn í gamla menntaskólann minn á dögunum til að lesa upp hljóðaljóð í frímínútum. Vegna covid var svolítið kaos – stelpan sem bókaði mig var komin í einangrun og það var enginn til að taka á móti mér svo ég stóð bara á ganginum og ráfaði svolítið í svona 10-15 mínútur. Á veggjunum eru sömu tilkynningatöflurnar og voru þegar ég var í menntaskóla og plaköt á svipuðum stöðum. En það sló mig að það voru engar auglýsingar um neitt félagslíf eða yfir höfuð neitt gleðilegt. Þegar ég var þarna var taflan aðallega til að auglýsa tónleika og böll og sýningar og fundi í félögum – ekki síst í miðri Sólrisuviku. Og þá hefði auk sérstakra auglýsinga fyrir hvern viðburð verið stórt plakat með allri dagskránni. En ég varð ekki var við eina einustu þannig auglýsingu. Þess í stað voru allar auglýsingar fyrir heilsu- og öryggismál – hjálparlínur fyrir ofbeldisþolendur, stór plaköt um geðrækt, endómetríósu, tóbaksnotkun, kynferðislega áreitni, mörk í samskiptum og svo framvegis. Ég er eitthvað búinn að vera að brjóta heilann um þetta upp á síðkastið. Auðvitað hefur verið lítið félagslíf síðustu árin og mikið af tilkynningunum um það hlýtur að vera kominn á internetið – þeir sem hengja upp auglýsingar eru þeir sem eru með fjárráð til þess að láta prenta stór plaköt í lit og væntanlega hanga sömu tilkynningarnar allan veturinn (að því gefnu að það finnist ekki lækning við þunglyndi, endómetríósu og kynferðisofbeldi úreldast þau ekkert). En þetta var samt í miðri sólrisuviku. Og ef maður leyfir sér að sálgreina tilkynningartöflu stofnunar einsog hún væri IDið í manneskju er eitthvað sárt að sjá áhersluna færast af gleðinni – eins taumlaus og hún getur verið – yfir í það hvernig fólk geti náð stjórn á harminum í lífi sínu. En svo er þetta áreiðanlega spurning líka hvað maður velur að sálgreina. Ef maður skoðaði tónlistina sem ég er alinn upp á – byrjaði kannski í þungarokkinu („darkness, imprisoning me! all that I see! absolute horror!“) dauðarokkinu (Suicide Machine) og færi yfir í grungeið (Rape Me) og ég tala nú ekki um ef maður héldi svo áfram í emóið (sem ég er saklaus af að hafa hlustað á reyndar) – þá liti mín kynslóð kannski ekki út fyrir að vera neitt sérstaklega happy go lucky. Sakleysislegasta söngstjarna æsku minnar reyndist líka snargeðveikur barnaníðingur. Og heima hjá honum ríkti gleðin ein, a.m.k. á tilkynningatöflunum.
Rithöfundar sem ég þekki
„Þekkirðu hann?“ „Þekkirðu hana?“ spyrja börnin mín oft ef það birtist einhvern rithöfundur í sjónvarpinu. Mjög oft er svarið já. Landið er lítið og stéttin fremur sósíal. Í gær var það Sjón og ég þurfti að benda þeim á að þau þekktu hann nú eiginlega líka. Þau Ása komu í kaffi á Tangagötuna þarsíðasta sumar. 20 mánuðir eru auðvitað eilífð í lífi barns. Ég hef stundum hlustað á hljóðbækur þegar ég er að keyra suður og stundum eru þær lesnar af höfundi og stundum er það einhver sem ég þekki og þá er það næstum einsog að keyra með vini. Sem samkjaftar að vísu ekki en er að sama skapi búinn að íhuga vel hvað hann ætlar að segja. Þannig leið mér eftir Sofðu ást mín fyrir nokkrum misserum. Einsog Andri hefði verið mér samferða. Í fyrradag hlustaði ég líka á Hermann Stefánsson spjalla við Ásgeir H. og Steinunni Rögnvalds í Menningarsmyglinu. Hermann þekki ég mest, Ásgeir smá og Steinunni held ég bara ekkert – enda er hún í annarri stétt. En það var samt einsog að hitta vini á kaffihúsi. Og samt ekki. En vinalegt allavega. Þau voru að ræða Merkingu eftir Fríðu Ísberg sem var einmitt í sjónvarpinu um daginn að fá Fjöruverðlaunin. „Ég þekki hana“, sagði ég þá grobbinn. Einu sinni var ég á bókmenntahátíð í Kaupmannahöfn og þá var einn dagskrárliður sem gekk út á að fjórum ljóðskáldum var komið fyrir í tveimur sófum sem stillt hafði verið upp gegnt hvor öðrum á miðju kaffihúsi og stólum áhorfenda raðað í kring. Ég var eitt ljóðskáldanna. Svo fengum við fyrirskipun um að vera „afslöppuð“ og ræða list okkar og lesa af og til ljóð eða ljóðbrot hvert fyrir annað, svona bara einsog við værum að hittast á kaffihúsi í alvöru og yrðum innblásin af félagsskapnum. Einsog ljóðskáld gera. Ég held að ég hafi aldrei á lífinu tekið þátt í jafn ónáttúrulegum og þvinguðum viðburði. Við vorum öll einsog fífl. Og voru þó sumir þarna ýmsu vanir, einsog vinkona mín Madame Nielsen – sem hefur leyst upp ídentítet sitt og ögrað sjálfsmyndum og samfélögum á ótal marga vegu á löngum listferli. Nú er ég að lesa Priset på vatten i Finistère eftir vinkonu mína Bodil Malmsten og mér líður svolítið svona einsog ég hafi verið að hitta gamlan vin. Bodil er auðvitað látin (farin burt, segi ég, af því hún þoldi ekki það orðalag). En Bodil hitti ég einmitt aldrei. Við skrifuðumst bara á skamma hríð. En einmitt þess vegna er lestur þess sem hún skrifaði einsog að rifja upp gömul kynni, af því þannig voru kynnin. Þar á undan kláraði ég Glass eftir Eyvind Pétur. Sem er vinur minn og fyrrverandi kennari. Og bókin hluti af Ísfirskum bókmenntum, þótt það sé á mörkunum (ég held það sé réttast að kenna Eyvind við Arnardal). Þetta er stórmerkileg bók. Utan á henni er mikill reiðilestur í garð forlaganna sem vildu ekki gefa hana út en fátt um innihaldið. Glass er dystópía, gefin út 2007, sem gerist í heimi þar sem flestir betri borgarar lifa undir stórum skermi sem kallast Glass. Utan Glass er náttúran menguð en innan Glass er hún kontróleruð og stýrð í krafti kapítals og hins opinbera. Maður talar við tækin – ræðir við ísskápinn um hvað eigi að vera í kvöldmat. Valdakarlar metoo-nauðga konum í hálfluktum bakherbergjum. Fötluðum er útskúfað. Fólk talar ýmist íslensku, ensku eða blöndu af þessu tvennu. Í sjálfu sér er umfjöllunarefnið ekki byltingarkennt – svona eru allar dystópíur, dálítið ýkt útgáfa af samtíma sínum – en það er samt annað bragð af dystópíu Eyvindar. Hún er bæði nokkuð myrkari, einsog það sé meiri sótthiti í henni, meira kaos, sögupersónunum líður verr og eru sjúkari og svo gengur hann lengra í beitingu tungumálsins en flestir höfundar. Þessa enskubræðings. Þeir segja að búast megi við einni kerfisbilun á hverjum 750 árum, í mesta lagi. Það þýðir á mannamáli: Aldrei! Sabotage? Nei, við hlæjum bara að svoleiðis nokkru. Hvernig getur nokkur komist framhjá Absolute Security? Ekki lengur. Þeir fullvissa okkur um það. En mannleg mistök verða aldrei útilokuð. Jú, það er sjálfsagt rétt. En þetta er þrautþjálfað fólk. Og responsible. Það er öruggt. Nema maður vilji breyta út af venjunni. Þá er bara að segja það. Biðja Mommy to Reprogram þetta og þetta, skipta um kaffitegund, fá nýja FishType hjá einhverjum öðrum Producer. Eitt af því sem gerir málið á bókinni sérstakt er líka að Eyvindur skrifar annars svo blæbrigðaríkt mál – yfirleitt þegar svona er gert er orðaforðinn takmarkaður, bæði í blandmálinu og í textanum í kring, en Eyvindur er maximalisti og sá hluti textans er augljóslega frá sama höfundi og skrifaði Landið handan fjarskans . Svo eru langir mónólógar af og til frá persónum sem tala bara ensku. Bókin er ekki bara ólæsileg ef maður er ekki sæmilegur í ensku heldur er hún full af orwellsku nýsproki – ensku nýsproki – sem er lítið útskýrt og maður þarf rýna í og túlka til að skilja hvað eigi að vera. SocGenDep, HeSInDem, EnSubChief og þess háttar orðum er stráð um alla bók. Þá má nefna að afstaðan til tungumálsins, þessa breytinga, er ekki einhlít – hér er t.d. samræða föður og sonar (sonurinn er byltingarsinni, faðirinn að vakna til): – Hvað ertu að hugsa? Áttarðu þig ekki á því hver þú ert eða hvar þú ert staddur?
– Ég? Ég er teenager, typical. Í DemReg er ég 11866880184-AZC. Hvað C er? Don’t fuckin’ know. Ætli secretið sé ekki þar? Þú hlýtur að vita þetta. Þú ert the real system, man! Ég ætlaði að segja að það þýddi ekkert að vera reiður við mig. Ég þagði, greip bara þétt um handlegg hans. Hann varð rólegri. – Auk þess er ég Y-11, það sá ég hjá copsunum. Ég veit ekki heldur hvað það þýðir. Þeir kýldu mig, þegar ég spurði. Svo sögðu þeir að ég væri fuckin HackerBug. Það er næstum því satt. Þeir kýldu mig líka fyrir það.
– En hvers vegna ertu að þessu?
– Because God has spoken to me, and God, he said: „Sonny, you must find out who’s running the fuckin shit.“
– Talaðu móðurmálið þitt við mig, Sonur.
– Er það tungumál þeirra fuckin pigfuckers, sem þú vinnur hjá? Við sögðum ekkert um stund. Ég var beygður, hann ekki síður, þótt hann reyndi að bera sig vel. Ég hef lesið talsvert eftir Eyvind – eða allavega meira en flestir, sennilega er hann einn mesti utangarðshöfundur íslensks samtíma – hann á tvær skáldsögur sem nokkru máli náðu ( Landið handan fjarskans vann Laxnessverðlaunin upp úr aldamótum – sem voru vel að merkja veitt dulnafnsmerktu handriti – og Þar sem blómið vex og vatnið fellur er framhaldið). Glass ber höfundarmerki hans en er samt á svo rosalega ólíkum slóðum frá hinu að ég hefði sennilega ekki borið kennsl á höfundinn ef nafn hans hefði ekki staðið utan á henni. Þetta er meira framúrstefnuverk að formi og innihaldi – ég hugsaði heilmikið um Burroughs, og jafnvel frekar um bíómyndina Naked Lunch en skáldsöguna sem hún er byggð á, og líka um Joyce og BladeRunner. Sennilega birtist hún á röngum tíma og röngum stað og náði því ekki máli – og sannarlega gerir beiskur káputextinn henni enga greiða. Hann eiginlega öskrar á lesandann að hunsa þetta einsog hverja aðra nýaldarspeki og skáldagrát misheppnaðs listamanns. Og svo er bókin augljóslega ekki mjög „2007“. Björn Þór Vilhjálmsson, vinur minn – eða, hann bauð mér allavega einu sinni í mat, nema það hafi verið Guðrún Elsa, konan hans, sem bauð mér – skrifaði um bókina í Morgunblaðið að hún þjáðist af frásagnarlegri deyfð og þvældri persónusköpun og að söguþráðurinn yrði á köflum hálfgert moð. (Það má koma fram að á sömu síðu í sama blaði sallar Björn Þór niður tvær aðrar nýjar bækur – eina eftir Einar Kára og aðra eftir Fritz Má Jörgensen – það eru breyttir tímar). Ég veit ekki hvort ég hef beinlínis áhuga á að mótmæla þessari lýsingu þótt ég taki ekki undir neikvæðnina í henni – ég er ekki beinlínis ósammála henni. En það er kannski einmitt hluti af anda bókarinnar, stemningu þessa framtíðarheims – það er þjáning og deyfð og heilaþoka yfir öllu. Fólkið rennur að einhverju leyti saman í einhvern undarlegan manngraut. Einsog einmitt oft hjá Burroughs – þetta er innblásið æði og maður er ekki alltaf alveg viss hvað sé að gerast og þaðan af síður hvers vegna. Það er líka alveg augljóst, þótti mér, að það er ekki vegna óvæginnar gagnrýni á samfélagið og valdamenn þess sem bókin hefur ekki fengist útgefin á sínum tíma heldur vegna framúrstefnulegs formsins og málsins – sem er svo aftur að mínu mati hennar sterkasti kostur. Nóg er víst af bókum sem líkjast hver annarri í þessari veröld, að maður fari að slá hendinni mót þeim sem skera sig úr.
Hiti, hor og bóklestur
Fjórði dagur af covid. Fyrstu tvo dagana var ég verulega slappur, með hita og hor. Og hor raunar af því tagi að mig sveið undan honum, einsog hann væri gallsúr, sem ég kannast ekki við að hafa upplifað áður. Mæði angraði mig líka og gerir enn. Ég ætlaði að syngja lagstúf með Aino í gær og kom mér á óvart með að vera orðinn andstuttur í öllum erindum. Í gær vaknaði ég bærilega hress og hélt jafnvel að þessu væri svo gott sem lokið. Ákvað eftir morgunmat að gera lasagna úr afgöngum frá þriðjudeginum og var góður fram í svona mitt lasagna – einhvern tíma eftir að ég lauk við béchamelsósuna og áður en ég byrjaði að raða þessu saman fann ég höfuðverkinn sækja að mér aftur. Lá svo flatur eftir hádegi. Ljós- og hljóðnæmi hafa plagað mig en það er ekki alveg nýtt. Ég má ekkert verða slappur lengur eða þreytast án þess. Ligg í myrkvuðum herbergjum og þegi. Allt held ég að þetta sé bara eftir bókinni. Var aftur góður í morgun og er ekki jafn góður lengur en þetta horfir allt augljóslega til betri vegar. Ætli mér verði ekki óhætt á ról án þess að slá niður á laugardag. Má eiginlega ekki seinna vera heldur af því Nadja fer til Frakklands á sunnudag með menntaskólabekkinn sinn. Á svipaðar slóðir og ég var á um daginn – hún kemur meira að segja við einn dag í Nantes en er annars mest í París og Sables D’Olonnes. Ég ligg í bókum. Stærsta upplifunin í ár er sennilega Sælir eru einfaldir eftir Gunnar Gunnarsson, sem ég hafði aldrei lesið – varð tíundað hér einhvers staðar um þá fordóma sem ég hafði fyrir Gunnari og eru fyrir bí. Nú er ég gegnheill Gunnarsmaður. Annars eru þetta mikið ísfirskar bókmenntir. Auk þeirra sem hefur verið gert skil hér má nefna Sjöunda soninn eftir Árna Þórarinsson, Brennumenn Hagalíns, Dauðamenn Njarðar, Hansdætur Bennýjar Sif, Flótta Sindra Freyssonar (framhaldið er næst), Huldu og Virkið í Vestri eftir Finnboga Hermanns, Mömmu Blues eftir Normu E. Samúelsdóttur og fleira. Sú síðastnefnda og Húsið eftir Hörpu Jónsdóttur eru áreiðanlega stystu bækur ársins, hingað til – og verða varla mikið styttri. Fjallkirkjan lengst og Feigð Stefáns Mána næstlengst. Við höldum lestrardagbók fjölskyldan og ég hef víst lesið 63 bækur frá áramótum. Eina fyrir hvern þingmann. Ef meðallengdin er 200 síður eru það ríflega 12.000 blaðsíður. Mér finnst maður mega grobba sig af minna. Ætli maður lesi svo ekki minna þegar lægðunum fækkar og veikindin líða hjá? Ég er með eitt og annað á listanum fyrir næstu daga. Langar að lesa meiri Óskar Aðalstein og svo Borgarættina eftir Gunnar Gunnarsson, sem ég á eina eftir af stóru skáldsögunum hans. Svo er spurning hvort ég lesi Sturla í Vogum áður en ég les Sjálfstætt fólk – sem ég hlýt að gera á endanum (ég las í kringum tvítugt nánast allt sem HKL skrifaði nema Sjálfstætt fólk, sem ég skildi viljandi eftir til að eiga til góða, og á hana enn, nema ég hafi gert það af því ég var bara kominn með nóg af HKL og HKL þráhyggjum, sem er líka hugsanlegt). Ég veit ekki hvort ég fer í Guðmund Inga og Steingerði Guðmunds – ég er varla læs á kvæði, ef ég á að segja alveg einsog er. Landnám Jóns Yngva – ævisaga Gunnars – telst óhikað til ísfirskra bókmennta. Dans í lokuðu herbergi, eftir Elísabetu Jökuls, var líka (held ég) skrifuð á Ísafirði. Hvort heldur sem er á Elísabet sterk tengsl við Ísafjörð. Glass og Örfok eftir Eyvind Pétur á ég báðar eftir og gæti hugsað mér að endurlesa Landið handan fjarskans og Þar sem blómið vex og vatnið fellur. Það er allavega af nógu að taka.
Á bakinu
Í morgun vaknaði ég slappur og hugsaði nei andskotinn, ætlar mér aldrei að batna þessi helvítis flensa – sem ég var búinn að þríprófa við kórónaveirunni. Það var þó örlítil bót í máli, fannst mér, að nú fengi ég loksins að vera einn veikur heima í rólegheitunum – eftir samveikinda- og fjarvinnuviku í síðustu viku – og þyrfti hvorki að sitja yfir símafundum eða fjarspiluðum tölvuleikjum og söngli. Því einsog ég elska nú börnin mín þá fylgir nú börnum samt alltaf vinnuálag. Svo gæti ég kannski bara rölt í Hamraborg í hádeginu, fyrst þetta er ekki covid, og náð mér í mat og þyrfti þá í raun ekki einu sinni að hugsa um sjálfan mig. Ég tók enn eitt heimaprófið með morgunkaffinu og um leið og ég lét hordropana falla í mæligapið bárust smáskilaboð frá grunnskólanum. Öll börn send heim vegna veðurs (veðrið er enn ekki orðið hræðilegt – en miðað við aflýsingar síðustu vikur fer maður að spyrja sig hvort það fari ekki bara að verða fullreynt að halda úti skólastarfi hérna, og þar með byggð, að vetrarlagi?). Jæja, ég sting þá af á skrifstofuna hugsa ég – þar er allavega ró og friður – og ég get tekið til eftir þau þegar ég kem heim. Eða reynt að sannfæra þau um gildi þess að taka til eftir sjálfan sig (sem er ekki alltaf jafn erfitt). Og verður mér þá litið á covidprófið sem er loksins orðið jákvætt. Ég hafði svo sem spáð því að þegar hinni flensunni lyki tæki covid strax við, fyrst það var komið í húsið. En alveg burtséð frá því hvað ég verð lasinn (ég er með hita og hor) þá er þessi andskotans einvera farin að taka á. Ég hitti fólk lítið þarna rétt í kringum Frakklandsferðina, af öryggisástæðum, og fór svo beint inn í þetta – hef t.d. ekki hitt foreldra mína, sem búa í næstu götu, í sennilega meira en mánuð núna. Og einhvern veginn hefur þetta verið ástandið miklu lengur, þegar maður hugsar út í það. Þessi einvera. Ég hef tönnlast á því síðustu misserin að ég vilji fara að bjóða fólki í mat og hitta einhvern en ef frá er talið útgáfuhóf Einlægs Andar og áramótin hefur varla komið (fullorðinn) vinur inn í þetta hús frá því við komum heim. Jú og það var hérna einn skáldabröns eftir Opna bók í nóvember. Annars er einvera – eða fjölskyldubúbblan – orðin regla. Það snýst um að einhvern veginn hentar það aldrei. Það kemur alltaf eitthvað uppá. Það er ekki bara manns eigið covid sem getur verið vandamál heldur annarra líka og þess á milli langar mann ekkert nema liggja á bakinu og stara upp í loft.
Heima
Ef hugurinn er í eðli sínu engu bundinn, þá
er líka heima og heiman sama súpan. Po Chü-i í þýðingu Vésteins Lúðvíkssonar Ég er alltaf að velta því fyrir mér hvar ég eigi að draga línuna í því sem ég kalla „ísfirskar bókmenntir“. Hversu langt kemst ég frá sjálfum Ísafirði og hversu lítil þarf tengingin að vera. Mér finnst sjálfum augljóst að ég dragi línuna ekki við bæjarmörkin – þetta er persónulegt og Ísafjörður huga míns nær út fyrir bæjarmörkin, telur líka til bæjarfélaganna í kring. Það réttlætir í sjálfu sér ekki að ég kalli bók skrifaða af bolvíkingi um Þingeyri „ísfirskar bókmenntir“. Það heiti sprettur einfaldlega af sjálfum mér, minni rökmiðju, sem dregur upp radíusinn frá Tangagötu og Sundstræti. Við getum orðað það sem svo að ég sé að hugsa um Ísafjarðarsýslur, Ísafjarðardjúp og Ísafjarðarbæ – það er ónákvæmt en það kannski dugar. Og tengingin – það dugir mér að stór hluti sögunnar gerist á svæðinu eða að höfundur hafi sterk tengsl við svæðið. Ég veit ekki hvort ég hef neinn áhuga á því heldur að draga fram einhver einkenni eða setja fram einhverjar kenningar – ég er mest bara að skoða landslagið, sem ég hef svo mikið hunsað í gegnum tíðina, og dokúmentera fyrir sjálfum mér hvaða bækur þetta séu. Ég las Feigð eftir Stefán Mána í gær. Hún gerist að miklu leyti í Súðavík og eitthvað smá á Ísafirði en annars fyrir sunnan. Þetta er ein af Harðarbókunum. Ég, mamma og pabbi eigum örlítinn þátt í henni því Stefán hafði samband þegar hann var að skrifa hana (fyrir 13 árum) og var með lista af spurningum sem hann þurfti að svara – ég vísaði mörgu af því áfram til mömmu og pabba og okkar er allra getið á þakkarlista. Það er því pínu kaldhæðnislegt að ein af fáum villum í bókinni er stafsetningin á eftirnafni okkar pabba, h-ið er fellt út. „Hin villan“ sem ég kom auga á var að Stefán þrefaldar einhvern veginn vegalengdina yfir Steingrímsfjarðarheiðina, úr ríflega 20 km í 60-70 km – sem er sennilega vegalengdin frá því Ísafirði (innsta firðinum í Djúpinu – bærinn Ísafjörður stendur við Skutulsfjörð) sleppir og þar til maður er kominn til Hólmavíkur. En megnið af því er nú bara á láglendi. Í rúmlega 500 blaðsíðna skáldsögu sem er stappfull af fakta er þetta nú bara mjög vel sloppið (ekki það ég sjái auðvitað allt). Auðvitað skáldar hann svo fullt og breytir og straumlínulagar og sumt í söguþráðinum virkar hæpnara en annað – en ekkert af því registerast hjá mér sem feilar. Feigð tekur á nokkrum afar viðkvæmum málefnum og gerir það nú bara býsna vel. Í fyrsta lagi er það snjóflóðið í Súðavík og eftirköst þess og í öðru lagi óhapp og mannslát sem verður á sjó í tengslum við tryggingasvik. Ég veit ekki hvort það eru tengslin við sögusviðið en mér fannst bókin langsterkust í fyrsta hlutanum, þegar Hörður er enn ungur í Súðavík. Mér fannst lokakaflinn ívið dramatískur og ótrúverðugur – eða a.m.k. upp að því marki að ég sá aldrei hvað Hörður sá sjálfur í Maríu, Bíbí eða Þóru. Ég skildi unga Hörð, sem var graður og vitlaus og dálítið viljalaus, en þessi eldri Hörður – með sitt innsæi, sín þursalæti og sínar þráhyggjur – var mér alltaf meira framandi. Þá fannst mér bílferðin suður, á rétt um fjórum tímum í janúar, á Chevrolet Chevelle 1969 (sem hafði enga ástæðu til að vera á vetrardekkjum) – og það í gegnum skafla – í það hæpnasta. En ég keyri svo sem einsog héri sjálfur og hef ekkert vit á bílum. Maður gleymir því síðan stundum hvað Stefán er annars góður höfundur – frekar en endilega krimmahöfundur – hann skrifar helvíti góðan prósa þegar hann vill vera að því. Stundum er hann kannski að drífa sig fullmikið og plottin vilja verða dálítið ofhlaðin sálrænum kveikjum – en kaflar einsog fyrstu 200 síðurnar í Feigð eða öll Hótel Kalifornía og fleira álíka efni sýnir bara hvers hann er megnugur þegar hann er í formi. Það segir líka sína sögu að ég tók hnullunginn á bókasafninu upp úr tvö, var ekki kominn heim fyrren klukkan að verða þrjú og lauk við hana upp úr miðnætti – og hafði þá samt líka fengið mér ríflega klukkustundarlúr, horft á Narcos og eldað og borið fram heimalagaða blómkálssúpu á milli lota. Og meira að segja glamrað svolítið á gítarinn. En það er tempó í henni – og er það ekki það sem krimmar eiga að gera líka? Fá mann til að klára sig.
Vitleysukórónan og veröld blíðunnar
Ég er enn eina ferðina ekki með covid. Sem er miður vegna þess að Nadja er með covid og ég er lasinn, sennilega lasnari en Nadja, þótt ég sé reyndar að koma til. Aram er líka lasinn en hann er ekki heldur með covid. Aino er hress og covidlaus. Ég reikna fastlega með því að strax og ég er búinn að hrista af mér þennan vírus sem ég er með skapist rými fyrir covid-19 vírusinn. Þetta er einsog að láta flengja sig meðan maður bíður þess að vera hýddur. Ég hef verið að lesa sveitasögur. Alveg óviljandi, reyndar, þær bara duttu svona í fangið á mér. Meðal annars Svaninn eftir Guðberg og Blítt lætur veröldin eftir Hagalín. Hagalín náði meiri tökum á mér – kannski fannst mér Svanurinn bara full „ljóðrænn“ (þótt hann væri nú aldrei neitt nálægt því að vera kalmanskur), sérstaklega beint í kjölfarið á Það rís úr djúpinu eftir sama mann, sem ég las á undan (og greip reyndar vegna þess að ég fann ekki Svaninn þá stundina). Sú bók er kraftmeiri, fannst mér – en veigra mér eiginlega við að segja það vegna þess að ég veit hve margir halda upp á Svaninn . Blítt lætur veröldin fannst mér eiginlega mögnuð. Hún segir sögu ungs drengs að vestan sem fer í sveit og kynnist þar ungri stúlku – Jonni er barn en Fía eiginlega kona. Hann saknar móður sinnar og byrjar á að sækja í kúna á bænum, Stórhyrnu, og hefur ímugust á Fíu í fyrstu og það líður heillangur tími áður en þau ná saman í vináttu. Í aðra röndina, og á yfirborðinu, er þetta því saga saklauss drengs sem finnur kærleikann hjá ungri stúlku sem tekur hann að nokkru leyti að sér – en það sem glittir í alla leið í gegnum bókina og er svo undirstrikað í endann er hversu hrottalegu lífi aumingjans Fía lifir, hvernig hún er alltaf undir hælnum á einhverjum (líka þegar hún er sem best og blíðust í sveitinni). Kraftmesti kaflinn – svo mann svimar – er þegar vinnumaðurinn Jói Daníels kemur til Jonna og vill að hann hjálpi sér að fá Fíu til að giftast sér, af því hún geri allt sem Jonni biður. Jonni ákveður að spila með Jóa og fer í samningaviðræður við hann um hvað hann eigi að fá í staðinn – hversu mikið saltað ket og hvaða kindur og hvaða hest og munnhörpu eða harmonikku og hvort Jói haldi að Jonni muni láta Fíu í hendurnar á einhverri nískunös. Ekkert verður úr samningum og Jonni segir Fíu frá þessu skellihlæjandi – en hún tekur frásögninni ekki vel. Þessar samræður eru allar mjög átakanlegar – hysterískar og grátlegar og sprenghlægilegar allt í senn. Mér sýnist ritdómarar mest hafa einblínt á fagra vináttu Jonna og Fíu – sem er reyndar mikið lýst sem fallinni konu – og ýmislegt annað göfugt í fari þeirra (einn talar um að hún hafi fengið að „láta meðfædda móðurblíðu sína njóta sín hluta úr sumri“ – frekar en að hún hafi eiginlega gerst sjálfviljug ambátt smástráks, sem henni er jafn mikið í mun að gleðja og marga aðra karlmenn, sérílagi þá sem hafa hafnað henni einsog Jonni gerir í upphafi bókar). Í sjálfu sér er kannski ekkert af því rangt – þau eru líka göfug og fögur og saklaus og syndug og einhvers staðar nýtur maður sín líka við að gera öðrum gagn, sérstaklega þeim sem manni finnst að megi sín minna. Blíðan er tvíbent eða margræð en hún er sennilega mest góð. En það er ekki bara að Hagalín hafi hér innsæi í slíkar mannlegar hvatir heldur hefur hann líka innsæi í strúktúrana sem stýra hvötum okkar. Þá er hann – einsog Guðbergur – snillingur í að láta náttúruna og húsdýrin spegla manninn.
Umhverfisráðherrann (chairman of the bored)
Mánudagur, sjöundi mars, tvöþúsundtuttuguogtvö. Á Jules-Verne-málþinginu í Nantes var því meðal annars velt upp hvort það þætti enn tilkomumikið að fara í umhverfis jörðina á 80 dögum. Sem það þótti vitaskuld ekki. Einhver stakk upp á því að kannski væri tilkomumeira – eða æskilegra, í ljósi nútímalegra lifnaðarhátta, óslökkvandi upplifunarþorstans – að fara umhverfis jörðina á 80 árum og skoða allt gaumgæfilega. Að mér hvarflaði þá hvort tilkomumest væri kannski að vera bara mjög intensíft heima hjá sér í 80 ár. Fara ekkert en gaumgæfa allt innan mjög lítils radíuss af mikilli nákvæmni. Upplifa nærrými sitt ástríðufullt. Ég hugsaði líka talsvert um þetta á heimferðinni. Auðvitað kæmist maður auðveldlega umhverfis jörðina á 80 dögum ef það væri það eina sem vekti fyrir manni og peningar væru engin fyrirstaða. En hvar gæti maður lent og hvar ekki – maður lendir ekki í Úkraínu þessa dagana eða flýgur einu sinni yfir landið. Síðustu tvö árin hefur heldur ekki verið sjálfsagt að maður fari frá borði, jafnvel í löndum sem tilheyra sama sambandsríkinu, og annars staðar hefur það auðvitað ekki verið sjálfsagt frá því við fórum að nota blessuð vegabréfin til að hamla heimsförum reisur sínar. Ég hefði ekki komist óbólusettur til Nantes. Þá eru ótaldar viðjar veðurfars – ég þurfti að keyra suður á mánudegi til þess að vera viss um að komast í Parísarflug á fimmtudagsmorgni (og hefði ekki komist ef ég hefði ekki gert það). Og þótt lítið mál sé að stökkva á milli helstu alþjóðaflugvalla heims þá þýðir það ekki að jafn greiðfært sé milli allra ólíkra útnára. Veröldin er ekki endilega neitt miklu minni þótt það séu góðir tengipunktar hér og þar. Það segir sína sögu að maður er alla jafna talsvert lengur á leiðinni frá Seyðisfirði til Tórshavnar, eða Ísafirði til Nuuk, en maður er frá Stokkhólmi til Barcelona. Ég flaug til Tromsø fyrir ekki svo löngu síðan og mig minnir að það hafi kostað mig tvo heila daga og fjögur flug (Ísafjörður-Reykjavík; Keflavík-Osló; Osló-Þrándheimur; Þrándheimur-Tromsø). Loks verður að nefna líka að ferðalög eru orðin alveg hryllilega leiðinleg. Og þar er við ekkert að sakast nema átákanlegan vilja mannsins til þess að gera allt sem ætti að vera skemmtilegt og spennandi fullkomlega óbærilega leiðinlegt. Í stað þess að standa í stafni gufuskips andaktugur yfir sístækkandi sjóndeildarhring, eða sitja yfir ostrum og kampavíni (og morðgátum) í Síberíuhraðlestinni, mætir maður þremur tímum fyrir brottför í yfirfulla flugstöð til að standa í löngum biðröðum, grímuklæddur með vegabréfið og bólusetningarvottorðin sín og útfyllt EPF og erindisbréf og farmiða í síma sem má þar með alls ekki verða batteríislaus, tekur af sér skó og belti og yfirhafnir og hatt, tæmir vasa og setur fartölvuna í sérstakan kassa og úrið og símann og leyfir flugvallarstarfsmönnum að henda 110 ml svitalyktareyðinum í ruslið svo maður sprengi ekki flugvélina í loft upp með honum. Lætur svo kalla sig upp þegar í ljós kemur að vegabréfið varð eftir í einum plastkassanum. Ráfar um í auglýsingahelvíti sálarlausrar fríhafnar, alltaf sveittur og illa lyktandi þótt maður hafi byrjað daginn á sturtu og nýjum fötum, leitar sér að vondum hamborgara og bjórglasi til að setja á Insta og starir ósofinn (af því flugið er alltaf klukkan 6 að morgni) á fjöll af áfengisbirgðum og nammi og veltir því fyrir sér hvort maður þurfi ekki að gefa einhverjum eitthvað eða hvort það sé kominn tími til að endurnýja einhvern lífsnauðsynlegan tækjabúnað og þrammar síðan í 25 mínútur eftir flugstöðvargöngum á sjálfvirkum göngubrautum til að komast að F-hliðunum, sem eru í öðru póstnúmeri. Svo er maður reyrður niður í alltof lítið sæti við hliðina á einhverjum sem virðist vera í enn þrengra sæti, en annars umkringdur ungbörnum á tanntökuskeiði, til þess að átta sig síðan á því að maður er ekki með heyrnartól með eðlilegri snúru og getur því ekki loksins látið af því verða að horfa á Kallakaffi í sætisbakinu. Í staðinn drekkur maður súrt kaffi og gerir síendurteknar en alltaf jafn aumkunarverðar tilraunir til þess að sofna, því þótt svona ferðalög séu í sjálfu sér ævintýraleg þá eru þau fyrst og fremst ævintýralega leiðinleg. Þegar maður lendir má maður svo heita góður að fá töskuna sína aftur (ég beið við bandið í tvo tíma á heimleiðinni) – og allt sem gleymist í vélinni er víst jafn örugglega týnt og tröllum gefið og hefði því verið hent frá borði yfir miðju Atlantshafinu. Þá hvarflar að manni að kannski sé þröskuldur 80 daga ferðalags alls ekki tæknilegs eðlis heldur spurning um líkamlegt og andlegt atgervi. Ég er svo tæpur að ég myndi sennilega skjóta mig á þriðja degi (eða ryðjast æpandi í gegnum öryggisskoðunina og láta tollheimtumennina með hríðskotabyssurnar skjóta mig). Það gæti kannski verið skemmtilegt plott í bók, þótt ég efist um það.
Sáðlát í Stromboli
Þegar ég fór að gefa heimferð minni gaum áttaði ég mig á því að ég hefði bara 80 mínútur á CDG flugvelli á morgun – en Icelandair mælir með þremur klukkustundum, í ljósi covid. Ég benti Frökkunum á þetta og þeir stukku til og útveguðu mér miða í lest í stað flugmiðans frá Nantes til Parísar. Nú verð ég kominn fjórum tímum fyrir brottför og það ætti vel að duga. En ég þarf líka að leggja af stað nokkru fyrr en útlit var fyrir – lestin fer klukkan sex í fyrramálið. Ég er strax orðinn úrvinda og byrjaður að taka út þá andlegu bugun sem örmögnuninni fylgir óhjákvæmilega. Í dag sat ég í mínum þriðja panel – „Ég og minn Jules Verne“ með Dany LaFerriere, Rosu Montero og yðar einlægum. Ég veit ekki hvort ég kom neinu sérlega gáfulegu að. Dany og Rosa tala bæði reiprennandi frönsku, einsog móderatorinn, og ég þurfti að hafa mig allan við bara til að fylgjast með því sem túlkurinn sagði í heyrnartólið mitt. Annars var þetta sennilega mest bara dálítið paint-by-numbers – komið inn á hvernig maður uppgötvar hann sem barn, fordómana gagnvart vísindaskáldskap, ómöguleika þessarar útópísku framfarahugsunar á 21. öldinni og svo framvegis. Ég sagði eitthvað um að fyrir Íslendingum væri Jules Verne ekki bara höfundurinn sem færði þeim sýn á framandi slóðir – tunglið og iður jarðar og höfin og löndin – heldur líka höfundurinn sem færði í augnablik fókusinn á Ísland, sem var ekki sérlega algengt um miðja 19. öldina. Þegar rætt var um kynferðismál í Verne – sem almennt skortir, þetta er allt fremur „gelt“, þannig lagað – stakk ég upp á þeim lestri á Ferðin að miðju jarðar að hún fjallaði um það hvernig mannkyn serðir jörðina og sprautar þremur sæðisfrumum svo harkalega ofan í Snæfellsjökul að þær frussast út í Stromboli. Rosa kom inn á að það væru engar konur í þessum bókmenntum, en Dany og Agnes (kynnirinn) mótmæltu þessu og einhver sagði að það væru alls 250 konur í bókum hans, það hefði verið talið. Ef ég skildi það rétt er samt engin í aðalhlutverki, nema ein í Umhverfis jörðina á 80 dögum. Ég spurði hvort þessi ofsalegu karlaævintýri væru ekki svolítið hómóerótísk – Dany sagði eitthvað sem túlkurinn sleppti því að túlka, en hljómaði einsog „vitleysa er þetta nú“, og svo var málinu eytt. Annars hef ég rekið mig á það við útgáfu Hans Blævar í Frakklandi að tungumálið eða orðræðan virðist mjög „ómóðins“ þegar kemur að öllum hinseginmálum. Þeir eru með hán og ég treysti því nú að Jean-Christophe, þýðandinn minn, sé með þetta allt saman upp á tíu – en í umfjöllun er mikið talað um hermafródítur og karlakonur og transsexúala. Að vísu er erfitt að leggja mat á þetta þegar maður skilur ekki meira af tungumálinu en ég geri – það er hætt við því að þótt orðin hljómi áþekk og á ensku þá sé ekki einfalt samasemmerki milli þeirra. Frakkar hafa líka meiri vara á ensku málfari og kúltúr heldur en margar aðrar þjóðir (sérstaklega norðurlandaþjóðirnar). Það er líka talsvert gert úr því að bókin sé skrifuð (og þýdd) á „inklúsífu máli“. Þeir spyrja hins vegar meira um ídentítet sem heimspekilega stærð – fljótandi og fasta, hvernig það mótast af sjálfsmynd okkar og því hvernig aðrir sjá okkur, hvernig sé hægt að streitast gegn ídentítetinu, skapa það, sprengja það o.s.frv. – frekar en að einblína á bókina sem sósíal-realíska transdæmisögu (þegar það er gert, sem er alltaf af og til, langar mig að hlaupa ítrekað á vegg). Annars er alltaf furðu mikið álag að setja sig aftur í stellingar til þess að segja eitthvað af viti um gamla bók. Frá því Hans Blær kom út á Íslandi hef ég gefið út tvær skáldsögur og er byrjaður á þriðju, sem á auðvitað hug minn allan. Þar að auki hef ég skrifað eina barnasögu og tvær og hálfa ljóðabók, sem er allt óútkomið. Eftir panelinn fór ég út að skokka í fyrsta sinn síðan ég sleit krossbandið. Ég tók því bara rólega en fór ríflega 5 kílómetra og var bara mjög stoltur af mér. Náði að vélasafninu þar sem má meðal annars finna þennan fallega fíl sem birtist hér að ofan. Ég náði ekki að sjá hann fara á röltið en hann gerir það víst – þetta er fúnkerandi vél sem sprautar vatni um ranann og mígur meira að segja á gangstéttina þegar honum er mál. Ég á ekki nema 100 síður eftir af Fjallkirkjunni og er að treina mér þær. Ég er reyndar líka með Brjálsæmiskæki á fjöllum eftir Po Chü-i í þýðingu Vésteins Lúðvíkssonar en annars lesefnislaus þar til ég kem til Keflavíkur – í bílnum bíða mín Svanur Guðbergs og Sjöundi sonur Árna Þórarinssonar (sem er ein af ísfirsku bókunum sem ég er að spá í). Það er ræs eftir sex tíma. Ætli ég leyfi mér ekki samt að lesa helminginn af þessum 100 síðum fyrir háttinn. Nema ég liggi bara yfir BBC fram á nótt. Ég náði vel að merkja sambandi við kunningja mína í Lviv og þau báru sig vel miðað við aðstæður en báðu bara um stuðning og að við öll hérna utan vígvallarins héldum okkur vel upplýstum um gang mála og þrýstum á stjórnvöld að veita allan þann stuðning sem þau geta.