Lu, Longhair og Lviv

Bókmenntahátíðin Atlantide fer fram í upprunalegu verksmiðjunni fyrir LU kexið fræga. Ég ætlaði að vera duglegri að sækja viðburði hátíðarinnar í dag en rak mig á að ekki var boðið upp á túlkun á þeim viðburðum sem mig langaði að sækja – hér tala bara allir frönsku, einsog ekkert sé, nema ég og örfáir aðrir. En ég sat sjálfur í klukkutíma löngu viðtali á sviði og talaði um allt milli himins og jarðar – sagði held ég hálfa ævisögu mína – og fór svo og sat aðra klukkustund við áritun. Ekki svo að skilja að maður sé að árita allan tímann – maður situr bara á rassinum og spjallar eða les og bíður eftir því að einhver birtist og vilji áritun, sem gerist af og til. Eini maðurinn sem ég veit um sem hefur setið og áritað sleitulaust á svona viðburðum er krimma- og fagurbókmenntahöfundurinn Luis Sepulveda heitinn, sem lést úr Covid alveg í blábyrjun faraldursins. Við útgefandi minn, Anne-Marie Metailie, brugðum okkur síðan yfir í næsta hús við LU-verksmiðjuna, sem vill til að er kastali Önnu af Bretagne. Þar röltum við eftir löngum kastalamúrnum og ræddum meðal annars um Sepúlveda, sem var góður vinur Anne-Marie og ég hitti nokkrum sinnum hér, og æskuár hennar í Nígeríu. Það var afar indælt. Seinnipartinn fór ég í annan vínyl-leiðangur og uppskar meðal annars eintak af Crawfish Fiesta með Professor Longhair, þar sem er meðal annars að finna hið dásamlega lag Big Chief. Svo hékk ég á festivalsvæðinu í smátíma – reyndi að finna eitthvað að hlusta á, án árangurs, keypti nokkrar franskar bækur fyrir Nödju og hélt svo upp á hótel til að skoða fréttirnar. Það er svolítið hrottalegt að hugsa til þess að stríðið sé komið til Lviv, sem verandi svo langt frá austurlandamærunum hefur verið að mestu laust við þennan óhugnað. Það er líka bara hrottalegt að hugsa til þess að borgin eigi von á loftárásum í nótt. Ég sé heldur ekki hvernig þessu getur lokið – það eru ofsaleg svik við lýðræðis- og mannúðarsjónarmið að láta það líðast að Pútín taki einfaldlega Úkraínu, einsog hann ætlar sér augljóslega, og það jafnt þótt hann taki ekki völdin prívat og persónulega heldur komi fyrir einhverri leppstjórn. Eina leiðin til þess að koma áreiðanlega í veg fyrir það er að senda þangað NATÓ-heri og það er mjög líklegt til þess að setja af stað þriðju heimsstyrjöldina. Ég held það væri brjálæði að treysta á að Pútín breyti henni ekki í kjarnorkustyrjöld – þá fyrstu og hugsanlega síðustu. Það er ekki gefið en það er sannarlega ekki hægt að útiloka það. Eða að treysta því að Kínverjar og Rússar myndi ekki hernaðarbandalag gegn Vesturlöndum. En það væri líka brjálæði að treysta því að taki hann Úkraínu taki hann ekki líka Eystrasaltslöndin og gangi svo á lagið. Og hvernig sem fer hlýtur þetta að kalla á nýja heimsmynd og langvinnt kalt stríð. Ég gekk fram á fjölmenn mótmæli á flandrinu í dag og gladdist að geta gengið til stuðnings Úkraínumönnum og gegn stríði – en það reyndust þá mótmæli gegn covid-takmörkunum stjórnvalda, þá ekki síst bólusetningarpassanum sem maður þarf að sýna alls staðar hér á veitingastöðum (ef maður ætlar að setjast – það má sækja sér mat). Þótt ég skilji að hér séu einhver prinsipp brotin, sem ætti sennilega ekki að brjóta, þá dæsti ég nú bara mjög einlæglega yfir þessu fólk þegar ég mætti því.

Ekki brjálaður heldur sjúkur

Ég er í Nantes, í Frakklandi, til þess að taka þátt í Atlantide bókmenntahátíðinni. Ég er sennilega ekki að „fara vel“ með Frakklandsferð mína. Ég kom svo dauðþreyttur í gærkvöldi að ég stökk beinustu leið upp á hótelherbergi um leið og ég hafði fengið kvöldverð (tælenskt tartar) og svo sat ég yfir BBC og CNN fram eftir kvöldi áður en ég fór að lesa. Svaf svo af mér morgunmatinn – hékk á hótelherberginu, gerði jóga, hlustaði á fréttir, og fór ekki af stað fyrren ég átti að hitta útgefandann minn og Rosu Montero yfir hádegisverði (hörpuskel og linguini). Við Rosa deildum síðan sviði í panel um fjölskyldur og leyndarmál – ég er að fylgja eftir Hans Blæ , sem heitir Troll á frönsku – og sátum í klukkustund á eftir og árituðum bækur. Ég fékk líka eina áritun sjálfur þegar kúrator hátíðarinnar, Alain Mabanckou, lét sjá sig (ég tók með mér eintak af Broken Glass ). Svo fór ég loksins að skoða þessa fæðingarborg Jules Verne. Rölti um í klukkustund síðdegis og kom við í plötubúð – fann meðal annars einstak af What Are They Doing in Heaven Today? með Washington Phillips, en Denomination Blues af þeirri plötu er eitt fallegasta lag sem ég þekki. Raunar er ansi harkaleg gospelslagsíða á feng dagsins. Svo fór ég bara aftur upp á hótelherbergi og hélt áfram með Fjallkirkjuna (ég er sem sagt að gera alvöru úr því að lesa Gunnar Gunnarsson – þótt Beta gengur laus hafi ekki reynst vera eftir hinn eina sanna GG – og er búinn með bæði Aðventu og Svartfugl ). Í stað þess að halda svo á hátíðina eða skoða bæinn meira skaust ég bara út eftir pizzabita og rétt náði heim fyrir kvöldfréttir á RÚV (nú malar BBC World Service í hótelherberginu – einhver rússneskur diplómat að halda því fram að bandaríkjamenn fjármagni nýnasískar hreyfingar í Úkraínu, sem í raun réttri ráði landinu). Í Fjallkirkjunni er einmitt einn Eiki sem liggur í öllum fötunum uppi í rúmi. Sá harðneitar að lesa bækur, þegar upp á því er stungið. Finnst það ótrúleg vitleysa. Í sjálfu sér var kannski frekar mikið að gera fyrri partinn. Allavega átti ég fremur bágt með að svara símtölum, sem af einhverjum orsökum voru fjölmörg. En ég skammast mín svolítið fyrir að vera ekki duglegri við að sjá hátíðina og borgina en ég er mjög upptekinn af bæði Fjallkirkjunni og fréttunum og frekar lúinn. Svo seinnipartur dags fór að mestu bara í að hvíla sig og ég sé fyrir að það verði svipað á morgun. Ég hef ekki komið nema einu sinni til Úkraínu og þá til Lviv, fæðingarbæjar Leopold von Sacher-Masochs, sem er alveg vestast. En það var mjög eftirminnileg heimsókn (ég hékk ekkert uppi á hótelherbergi yfir bókum og sjónvarpi) og ég veit ekkert hvernig það fólk sem ég kynntist þar hefur það. Hugur minn er samt hjá því, eðlilega. Gáfulegasta og eftirminnilegasta greiningin á þessu ástandi sem ég hef heyrt – og nú er ég búinn að hlusta á mjög marga sérfræðinga tjá sig – kom frá úkraínskri konu í Kænugarði, sem sagði aðspurð um hvort Pútín væri brjálaður: „Putin is not crazy. He is sick.“

Mona og Pola og dularfulla íslenska skáldið

Skáldsagan Mona eftir argentínska rithöfundinn Pola Oloixarac fjallar um perúskan rithöfund, sem heitir einmitt Mona. Hún ferðast til Svíþjóðar á alþjóðlega bókmenntahátíð. Þar eiga þátttakendur að flytja erindi, lesa upp og taka þátt í open mic kvöldum – og lokakvöldið fær svo einhver þeirra virtustu bókmenntaverðlaun Evrópu, Basske-Wortz-verðlaunin (sem voru fjármögnuð af besta vini Alfreds Nobel). Þarna er mikið föruneyti höfunda frá hinum ýmsu heimshornum sem Mona hefur mismikið álit á – og sér í mjög sínísku ljósi. Suður-Amerískir marxistar, finnskir og ísraelskir femínistar, múslimskur höfundur sem boðar heimsyfirráð, ljúfi non-fiksjónhöfundurinn Sven Olle Siggurdsson [svo] frá Svíþjóð og svo hið dularfulla íslenska kraftaskáld, Ragnar, sem þykir ekki bara sigurstranglegastur heldur langsigurstranglegastur. Mona sjálf er drykkfelld, sí-veipandi kannabisefni og reglulega hellast yfir hana heiftarlegar kynferðislegar fantasíur – og ekki bara þegar hún er uppi á herbergi að horfa á klám. Hún er líka glamurös og snjöll og skemmd – mjög New York in the nineties, einhvern veginn. Og reglulega spyr hún sig, án þess að maður fái að vita hvers vegna fyrren í blálokin, hversu lengi marblettir endist á líkamanum – hún á þess utan í mjög erfiðu sambandi við símann sinn, sem pípir mikið á hana og hún vill ekki svara, man ekki alveg allt sem gerst hefur síðustu daga o.s.frv. Maður skilur að það er eitthvað tráma þarna að banka upp á en það er ekki fyrren bókin er að klárast sem dyrnar opnast. Þetta er skemmtileg bók (frekar en hræðileg, þrátt fyrir trámað) en margt skrítið fyrir einhvern sem þekkir til – svona óþarfa smávillur einsog mér verður tíðrætt um og trufla einmitt engan nema þá sem standa sögusviðinu of nærri. Til dæmis hefur múslimski höfundurinn, sem er íranskur að uppruna en skrifar á dönsku, nýþýtt kóraninn að því manni má virðast á sænsku – og er fyrsta þýðingin (ég er ekki viss um að það sé ártal í Monu en hún gerist á tímum Trumps og fyrir covid). En farsi og arabíska eru auðvitað ekki sama tungumálið frekar en sænska og danska og fyrsta sænska þýðingin á kóraninum birtist 1917 – og þær hafa verið ótal margar síðan. Hugmyndin um að Svíar hafi þýtt kóraninn fyrst fyrir fáum árum meikar kannski sens í Buenos Aires en er absúrd í meiri nánd. Hugleiðingar Polu um bókmenntir – ræðurnar sem hún lætur rithöfundana sína halda – eru bestar, hvort heldur sem maður les þær einlæglega eða sem háð, enda fetar bókmenntahvötin alltaf einhvers staðar eftir þeirri egg. Þær rekast auðvitað líka á og Polu tekst að draga fram kostina og gallana í þessum kenningum – án þess að yfirgefa nokkurn tíma skáldskaparvíddina. Hún er ekki að predika þessar hugmyndir eða predika gegn þeim, heldur að gaumgæfa þær á þennan máta sem maður getur bara gert í skáldskap. Þá er Mona frábær persóna og flestir hinna líka – þótt gagnrýnendur skáldsögunnar keppist við að finnast rithöfundarnir allir vera fífl, og þeir séu að sönnu svolítið kjánalegir, þá þótti mér nú alveg vænt um þá flesta. Kannski er líka bara alltílagi að vera svolítið fífl. Og Pola sjálf þakkar í lokin þeim rithöfundum sem hún hefur kynnst í gegnum tíðina – kannski líka til að aftengja sprengjuna; auðvitað eru ósköpin inspíreruð af fólki sem hún hefur hitt og á kannski eftir að hitta aftur, en væntanlega líka til þess að leggja áherslu á að hún kunni í alvöru vel við þetta fólk sjálf, þótt síníkin stýri stundum pennanum. Og þá má heldur ekki gleyma því að hún hlífir ekki „sjálfri sér“ – Mona er þrátt fyrir kosti sína og sjarma jafn gölluð og hinir höfundarnir, jafn brotin, og hennar hugsanir og kenningar eru sams konar blanda af móðukenndum ruglingi og dásamlegri skerpu og hugsanir og kenningar hinna höfundanna. Nadja spurði mig, þegar ég sagði henni hvað ég væri að lesa, hvort þetta væri ekki kunnuglegur heimur – sænska og alþjóðlega bókmenntasenan og ég svona tja-aði eitthvað og sagðist halda að þetta væri kannski aðeins fínna lið en ég, ef mig skyldi kalla og það allt saman, nær því að vera eitthvert Nóbelsboð en Kuopio Sound Poetry Seminar eða Fjøsfestivalen í Melhus (þótt þar hafi nú annars verið mjög gaman). En þegar leið á bókina fóru að renna á mig tvær grímur – ég fékk fyrir það fyrsta fljótlega á tilfinninguna að þetta væri ekki endilega byggt á neinni heimsókn til Svíþjóðar, stemningin var einhvern veginn ekki sérlega sænsk. Og samt var hún eitthvað kunnugleg. Svo þegar halda átti knattspyrnuleik milli „Svíþjóðar og heimsins“ (þ.e.a.s. lókalhöfundanna og alþjóðlegra gesta) small allt saman og ég fattaði að ég gjörþekkti sögusviðið, sem er í Lahti í Finnlandi, þar sem haldin er alþjóðleg rithöfundastefna annað hvert ár. Finnland var Svíþjóð einsog Argentína, heimaland Polu, varð að Perú, heimalandi Monu. Sánan við ströndina, stemningin (sambland af partístemningu og mjög hátíðlegri stemningu), hvíta tjaldið þar sem erindin voru flutt – allt nema verðlaunaspenningurinn, því í Lahti eru ekki veitt nein verðlaun. Ég stökk upp úr sófanum, gagntekinn af forvitni, gúglaði þessu og auðvitað stóð heima að Pola Oloixarac var gestur í Lahti árið 2013 – tveimur árum á undan mér – og þá var einmitt íslenskt ljóðskáld þarna líka, kraftaskáldið heitna Sigurður Pálsson. Kraftaskáldið Ragnar er reyndar með sítt skegg og kannski ívið meiri Mósestýpa en Siggi – og ég reikna nú með því að skáldskapurinn hafi fengið að setja mark sitt á hina höfundana líka. Þegar ég var búinn að komast að þessu öllu saman hljóp ég samt upp í svefnherbergi til Nödju til að láta hana vita, rjóður af ánægju, að ég hefði víst verið á þessari hátíð og þetta fólk væri ekkert fínna en ég. Síðan fór ég aftur niður í sófa til að lesa restina – þar sem Siggi Páls stígur loks inn á sviðið og á stórleik (endirinn fór mjög öfugt ofan í gagnrýnendur bæði á Guardian og NYTimes en mér fannst hann forvitnilegur og vogaður og bið ekki endilega um meira en það).

Pípuhattur á fjallvegum

Stundum, þegar ég hef verið að keyra einn um landið, dettur mér í hug að ég hafi kannski farið út af í síðustu beygju og sé óafvitandi orðinn vofa sem liðist um eftir einhverri eftirlífsútgáfu af landinu. Síðast þegar ég fór suður var það reyndar til þess að selja einn bíl og festa kaup á öðrum sem væri ekki jafn ógnvænlegt að keyra. Súkkan litla fylgdi mér í 9 ár – ég velti henni einu sinni í þannig loftköstum að þakið snerti aldrei jörðina. Og keyrði hana svo suður í viðgerð þegar búið var að draga okkur upp á veg. Ég sat fastur í henni á heiðum. Djöflaðist á upplestra um allt land. Flutti hana svo til Svíþjóðar með Norrænu og svo heim aftur ári síðar. Hér heima var hún mest notuð til að skjótast í sund eða á skíði eða í Bónus. Af og til fór ég með hana á timburlager Húsasmiðjunnar, lagði niður öll sæti og stakk nokkrum spýtum innum skottið og alveg fram undir hanskahólf – og svo stóðu þær aftan úr opnu skottinu og dúuðu meðan ég keyrði afar varlega heim. Yfirleitt með aðra hönd á stýri og hina á spýtunum ef ske kynni að þær færu að renna eitthvað til. Súkkan var fjórhjóladrifin og þess vegna ágæt í snjó en hræðileg í slabbi og þyngslum af því hún var svo létt – þá lét hún ekkert að stjórn. Svo var hún líka voðalega kraftlaus en að sama skapi sparneytin á eldsneyti. Þegar ég keypti hana var mín helsta krafa sú að ég gæti setið uppréttur í henni með hattinn á höfðinu. Nýji bíllinn er eiginlega meira geimskip en bíll. Hann er með rafmagn sem dugar í innanbæjarsnatt. Apple Carplay og stóran skjá og cruisekontról og leiðsögukerfi og dráttarkrók og hita í stýrinu og pláss í skottinu. Og það er líka þaklúga yfir framsætunum – sem kallar eiginlega á að ég fái mér pípuhatt.

Kona fer í fýlu

Ég fór um daginn í viðtal til Ásgeirs á Menningarsmyglinu , ásamt Sigríði Pétursdóttur, kvikmyndafræðingi. Við ræddum Verbúðina – fyrir lokaþátt. Mér fannst fyrstu sjö þættirnir köflóttir. Mjög góðir sprettir hér og þar, epískar senur, alveg æðislegar sumar – ég fíla blóð og fyllerí og æsing – alltílagi melódrama en kannski svolítið bara smurt ofan á hið meinta umfjöllunarefni, kvótakerfið/fiskiþorpið, frekar en í lífrænum tengslum við það. Og vegna þess að þau tengsl skorti var dramað – ástarþríhyrningurinn og svikin – oft í samkeppni við umfjöllunarefnið. Lokaþátturinn þótti mér svo alls ekki góður. Með yfirvofandi skilnað, dauða, lausaleiksbarn og svikna móður í loftinu – einsog Tjekhovska byssu – að ónefndu framsali og eignarhaldi á kvóta og framtíð bæjarins bjóst maður við skotárásum. En þess í stað var vopnabúrinu bara stungið aftur niður í skúffu og aldrei hleypt af. Svikna móðirin hélt bara áfram að vera svikin móðir og lausaleiksbarnið reyndist þýðingarlaust fyrir plottið þegar allt kom til alls. Og endanleg staða barnsins í dramanu – tilfinningalegum bogum verksins – mikilvæg en óraunsæ og þar með ófullnægjandi. Var Harpa með forræði yfir barninu? Hvers vegna gat hún bara stungið af með barnið, þegar faðir þess var látinn? Á því eru áreiðanlega einhverjar útskýringar en það er ofsalegur skalli að láta þær ekki koma betur fram. Sinnaskipti Hörpu voru svo óskiljanleg – eða alltof illa undirbyggð til þess að mér þættu þau trúverðug. Eina stundina er hún stærsti bakhjarl bæjarins, sem aldrei ætlar að svíkja sína heimabyggð, og svo bara „það hata mig allir“ og „ég er bara farin!“ – einsog einhver unglingsstelpa í fýlukasti. Og aftur er saga kvótakerfisins smættuð niður í ástarlíf Hörpu og afleiðingar þess. Plottlausnin var bara kona fer í fýlu . Svo var ýmislegt sem var undarlegt en í sjálfu sér fyrirgefanlegt í skáldskap – senan þar sem Þorbjörgin snýr við í höfninni var kjánaleg en ef það hefði verið betra tempó í sögunni hefði það áreiðanlega lítið truflað mig. Ég skildi heldur ekki af hverju Einar og Freydís treysta Hörpu til þess að útvega sér fisk þegar þau eru búin að stinga hana í bakið (og fiskvinnsla án fisks er verðlaus) en hefði alveg getað lifað án útskýringar ef það hefði verið eini skallinn. Loks er sennilega sjúkleg smámunasemi að finna að því en mér þótti skrítið að horfa á Góa taka skóflustungu að „fyrstu útisundlauginni á Vestfjörðum“ – á Wikipediu stendur að vísu að Suðureyrarlaug sé eina útisundlaugin á norðanverðum Vestfjörðum (hún var opnuð 1992), sem eru sannarlega ekki allir Vestfirðir, en það hefði ekki heldur verið rétt að segja það. Þetta er bara rangt á Wikipediu. Reykjaneslaug er á norðanverðum Vestfjörðum – tilheyrði lengst af Norður-Ísafjarðarsýslu. Þá eru auðvitað fleiri og eldri útisundlaugar á Vestfjörðum (t.d. fín laug á Birkimel frá miðjum fimmta áratugnum). Og buslulaug, pottar og útirennibraut í Bolungarvík – þótt sjálf stóra sundlaugin sé inni. Þetta er tittlingaskítur – ég veit það – en guð hvað það fer samt í taugarnar á mér að fólk nenni ekki að hafa þetta rétt. Og þegar þessar óþarfa fljótfærnisvillur hrannast upp (það hefði engu breytt fyrir sjónvarpsþættina ef Gói hefði bara sagt „geggjaða útisundlaug“) hverfur traustið. Skyssur eru ekki heldur bara „skáldskapur“. Skáldskapur þrífst á trúverðugleika sínum sem er alltaf brothættur, einmitt vegna þess að við vitum að það er verið að ljúga ofan í okkur. Ég las loksins á dögunum Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur – enn eina ísfirsku bókmenntina – sem var fín og hræðileg og ofsa vel plottuð (og guð hvað ég skil að Yrsa skuli halda utan um þetta í excel – og það er kjaftæði að hún skrifi lélegan stíl, einsog maður heyrir oft) en í hvert einasta helvítis skipti sem einhver talaði um kirkjuna „á Súðavík“ þá hrökk ég við og datt út úr bókinni. Tilfinningaþráðurinn slitnaði. Bara svona einsog ég ímynda mér að myndi gerast í höfðum fleiri lesenda ef ég myndi skrifa heila bók þar sem væri alltaf verið að tala um fólkið á Reykjavík. Skyssur trufla alla innlifun – bara einsog bóman hefði alltíeinu verið í mynd eða Sveppi dregið upp iPhone. En auðvitað er líka búið að vera gaman að horfa á þetta og tala um þetta. Ætli sé ekki eitthvað þarna sem kemur yngra fólki á óvart? Einhverjir punktar úr þessari sögu sem voru að gleymast. Og þótt þetta hafi auðvitað ekki gerst alveg svona – heldur kannski fyrst og fremst hægar og með minni látum (lætin út af kvótakerfinu held ég að hafi í raun ekki byrjað af viti fyrren um miðjan tíunda áratuginn – Geiri selur Gugguna 1996 og hún fer ekki úr bænum fyrren 1999, Frjálslyndi flokkurinn stofnaður 1998) – þá eru grófu drættirnir auðvitað réttir.

Beta gengur laus

Ég hef lítið lesið Gunnar Gunnarsson. En samt aðeins gluggað hér og þar. Alltaf verið á leiðinni að gera eitthvað í því. Fyrir einhverjum árum áskotnaðist mér svo bókin Beta gengur laus – ég man ekki hvar, sennilega á fornbókamarkaði, kannski gefins einhvers staðar. Ég vissi ekkert um hana – hafði aldrei heyrt á hana minnst og þar sem hún var kápulaus vissi ég ekki einu sinni um hvað hún væri. Þegar ég tók hana upp í síðustu viku vakti tvennt athygli mína í fyrstu. Hið fyrra var að hún virtist skrifuð á íslensku en ekki dönsku og hið síðara að hún virtist vera eitt það síðasta sem hann hefði skrifað, 1973 (ég mundi ekki hvenær hann dó en sló því upp síðar og það var 1975). Þegar ég hóf lesturinn áttaði ég mig fljótt á því að þetta væri mjög ólíkt öðrum verkum Gunnars – í stað epískrar sveitarómantíkur var hér kominn klámfenginn ofsi á borgaralegu heimili (sem ég sá alltaf fyrir mér að væri Gunnarshús). Í sem stystu máli þá segir hér af hjónum. Ólafur er „skólamaður“ – háskólakennari í málvísindum – svolítið íhaldssamur og svolítið áfengissjúkur, giftur Betu, sem er vergjörn mjög. Þau hafa verið gift í átján ár. Þá flytur frændi Ólafs, Aðalsteinn, inn til þeirra – hann sækir Verzlunarskólann og stundar innflutning á vörum og verður fljótt mjög fjáður. Aðalsteinn er feitur og mikill og ungur og sveitalegur og tekur fljótt að ríða konu frænda síns. Sá endar í einhvers konar taugaáfalli og fer á Klepp – hugsanlega láta Beta og Aðalsteinn bara læsa hann inni til að fá næði til að ríða í friði. Allt kom þetta mér mjög spánskt fyrir sjónir. Þetta var alls ekki sá söguþráður eða sá stíll sem ég átti von á – þótt mér þætti þetta reyndar á köflum alveg meistaralegt, kannski ekki síst fyrir það hvað þetta var ólíkindalegt. Ég hugsaði oft til Felix Krull eftir Mann, því þótt það sé allt öðruvísi bók er hún einmitt mjög galsafengið lokaverk annars alvarlegs rithöfundar. Ef ég man söguna rétt var Mann hættur að skrifa og henti bara í þetta svona að gamni sínu – fyrir sjálfan sig – og þess vegna er hún ekkert nema fíflalæti þar til hún endar hún alveg rosalega bratt. Hann setur eiginlega bara punkt þegar hann nennir ekki að skrifa lengur. Ég hugsaði líka oft til annarrar stuttrar skáldsögu frá svipuðum tíma, Leigjandans , eftir Svövu Jakobsdóttur, sem kom út 1969. Hvort þetta væri táknsaga með svipuðu uppleggi – hinn ungi heildsali stingur undan menntamannsfeðraveldinu. Hið nýja auðvald mætir hinu gamla hefðarvaldi. Og fjallkonunni – hinni íslensku þjóð – er alveg sama hver fremur verknaðinn á meðan hún er tekin með stæl og bravúr. Ég veit ekki hvort ég varð svo fyrir vonbrigðum þegar ég var búinn með bókina og fór að grennslast fyrir um viðbrögðin við henni á sínum tíma og uppgötvaði að þessi Gunnar Gunnarsson var alls ekki hinn stórfrægi Gunnar Gunnarsson, metsöluhöfundurinn sem fundaði með Hitler, heldur var þessi Gunnar Gunnarsson 26 ára blaðamaður þegar Beta gengur laus kom út. Og þar með kannski meira Bragi Páll sinnar kynslóðar en Thomas Mann í elligalsa. Gunnar þessi skrifaði nokkrar bækur sem fóru meira og minna allar framhjá mér, þótt titlarnir séu kunnuglegir – flutti til Svíþjóðar og sneri sér fljótlega að því að skrifa krimma, á því tímabili sem það var mjög óvinsælt. Það er við svona aðstæður sem maður myndi vilja getað framkvæmt samanburðarrannsókn á sjálfum sér annars vegar og sjálfum sér hins vegar. Vilja geta lesið bókina aftur í fyrsta sinn, nema nú vitandi hver skrifaði hana í raun, og borið saman lesturinn. Hefði mér þótt hún jafn góð? Hefði það verið sama bókin? Sennilega hefði ég síður treyst 26 ára blaðamanni á fyrstu bók en áttræðum nóbelsverðlaunakandídat. Hefði kannski frekar reiknað með því að það skrítna væri mistök en vísvitandi furðulegheit. En ég breyti þessu ekki héðan af – ég las Beta gengur laus eftir Gunnar Gunnarsson, höfund Fjallkirkjunnar , en ekki Beta gengur laus eftir Gunnar Gunnarsson, blaðamann, og þar við situr. Beta gengur laus fékk fremur litlar viðtökur á sínum tíma – fáa dóma – en er þó tekið fram síðar að hún hafi „vakið mikla athygli“. Ef það hefur ekki bara verið spuni hefur sú athygli þá mestmegnis átt sér stað á mannamótum – fólk hefur þá hvískrast á um hana því lítið er skrifað um hana í blöð. Sjálfur sagði Gunnar þessi síðar að hún ætti frekar erindi á sakaskrá sína en í bókmenntasöguna

Snjólskin

Þegar ég fór heim af kontórnum í gær – í ofboði, vegna þess að ég hafði gleymt að ég átti að skutla tveimur stúlkum á skíðaæfingu – varð ég fyrir fyrstu sólargeislunum frá því einhvern tíma í haust. Ég held það hafi að vísu skinið eitthvað á bæinn inn á milli lægða en þá hef ég verið innandyra og verð ekki einu sinni var við það úr skrifstofuglugganum, sem veit í austur (á þessum árstíma kemur sólin upp í suðri – ofan við Engidal – upp úr eitt). Ég yfirgaf skrifstofuna klukkan fjögur, vestan megin, og þá blasti hún bara við. Blastaði mig. Ofboðið rann af mér í augnablik og ég stóð bara kyrr í augnablik og saug hana í mig. Og var samt ekki of seinn með stelpurnar á æfingu.

Heyrnarlaus á ystu þröm

Ég lá flatur í gær í sófanum, heyrnarlaus á öðru eyra af merg, buxnalaus undir sæng, með hálfgerðu óráði. Þetta gerðist fyrst fyrir akkúrat tveimur árum, rétt þegar covid var að byrja, og þá endaði ég uppi á spítala þar sem skolað var úr eyranu. Svo gerðist þetta aftur fyrir akkúrat einu ári þar sem ég var í Visby að leggja lokahönd á Einlægan Önd. Þá keypti ég mér eitthvað sprey sem ég notaði samviskusamlega í nokkra daga á meðan þetta var að losna. Þetta er sem sagt orðið árlegt. Og ég er búinn að hringja upp á heilsugæslu og á von á boði í skolun. Á sama tíma var ég að berjast við að komast í gegnum greiðslumat fyrir nýjum bíl og lesa Skáldið á Þröm eftir Gunnar M. Magnúss, ævisögu Magnúsar Hj. Magnússonar, fyrirmyndarinnar að Ólafi Kárasyni ljósvíkingi. Og áttum við báðir auðsjáanlega bágt. Hann sveitarómagi sem fær ekki leyfi hreppsins til þess að setjast neins staðar að nema hann gifti sig og fær ekki leyfi til að gifta sig vegna þess að hann skuldar óborganlega háan sveitastyrk eftir veikindi í æsku; ég hálfheyrnarlaus smábæjarómagi sem fær ekki að kaupa sér nýjan bíl af því tölvukerfið hjá Arion er eitthvað bilað. Báðir áttum við þó skáldskapinn okkur til huggunar. Það er svolítið annað að lesa þennan þurra texta – þessa upptalningu – en að lesa Heimsljós. Þó er manni alveg ljóst að Gunnari hefur þótt vænt um Magnús. Ég las Heimsljós reglulega í menntaskóla, uppfullur af rómantík, tók hana svo aftur upp nokkrum árum seinna og fannst hún alger vella og svo enn aftur rétt fyrir þrítugt og fannst þá fyrst sprenghlægileg og svo eiginlega bara ljót. Einsog Laxness væri að hía á aumingjann. Þetta er vel að merkja eiginlega eina bók Laxness sem ég hef átt í einhverju svona „sambandi“ við. En það var kannski meira einhver persónuleg hugmynd um Ólaf sem ásótti mig – þegar ég bjó í Reykjavík átti ég það til að stoppa við leiði hetjunnar hans, Sigurðar Breiðfjörð, (sem ég hef aldrei getað lesið mér til gamans) í Suðurgötukirkjugarði til að íhuga eilífðarmálin. Skáldið á Þröm er minni manngervingur en Ólafur og meiri maður, einfaldlega, og saga hans verður aldarfarslýsing frekar en kraftbirtingarmetafóra. Hún birtir okkur bæði mynd af því hvernig við sem byggjum þetta land höfum smíðað okkur mannvonskukerfi sem úthýsir fólki og gerir því ómögulegt að lifa – kerfi sem minnir kannski ekki svo lítið á þann aðbúnað sem hælisleitendur mega þola í dag, að því leytinu til að það miðar nánast að því að banna mönnum sjálfsbjörg og veitir þeim engar lausnir, og öryrkjar auðvitað – og hvernig við sem byggjum þetta land höfum þurft að eyða ótrúlega mikilli orku í að bæta upp fyrir þessi mannvonskukerfi sem við smíðum með hinni hendinni. Það er ekki þannig að Magnús komi alltaf að lokuðum dyrum hjá fólki – hann er víðast aufúsugestur, þykir skemmtilegur, er „talandi skáld“ og margir verða til þess að hjálpa honum, sem er umkomulaus kerfisins vegna. Þá vinnur hann miklu meira heldur en ég hafði haldið – örorkan háir honum mismikið eftir tímabilum og hann er oft í þesslags vinnu sem flestir hraustir nútímamenn myndu sannarlega barma sér undan, svo sem löngum sjóróðrum. En sveitaskuldin gerir hann að réttlausum manni – hann má ekki neitt og hrekst um milli vosbúða vegna hennar. Og þótt Súðavíkurhreppur viti að hann muni aldrei geta borgað skuldina er honum ítrekað neitað um niðurfellingu hennar eða aðra samninga sem létti henni af honum – og hann reynir bókstaflega allt. Ef það fólk sem þar réði átti sér einhverjar málsbætur koma þær a.m.k. ekki fram. Ef það væri ekki fyrir nauðgunina væri Magnús sennilega einhvers konar öryrkjadýrlingur. Einsog hann segir þá sögu skreið hann, afar óvanur drykkjumaðurinn, skelþunnur og skjálfandi upp í til 14 ára stúlku þar sem hann gisti í Bolungarvík, kyssti hana og missti svo sæði áður en til samræðis kom. Hann hélt því fram að stúlkan hefði logið ýmsu um sig og að hann hefði játað á sig verri sakir en hann átti skilið – hann játar samræði fyrir rétti en hafnar því í dagbókum sínum – og var henni reiður fyrir að hafa klagað sig. Magnús er dæmdur í ársfangelsi og situr af sér í grjótinu við Skólavörðustíg, en er sleppt snemma vegna heilsuleysis. Fljótlega eftir að hann kemur aftur vestur fær hann loks nokkurs konar uppreisn æru – sveitarstjórinn á Suðureyri beinlínis brýtur lög með því að leyfa honum að koma sér þar fyrir upp á full mannréttindi. Hann dó svo 1916 – jafngamall mér, 43 ára, sem komst á endanum handvirkt í gegnum greiðslumiðlun og var að fá símtal um eyrnaskolun á heilsugæslunni klukkan 13.

Nokkrar ísfirskar bækur og nokkrar útfirskar

Ég er heldur lufsulegur í dag. Annað hvort svaf ég illa eða mótefnin í þriðju sprautunni, sem ég fékk í gær, eru að berja í pípurnar. Eða ég er með covid. Eða krabbamein. Þegar ég hugsa út í það er ég með öll einkenni einhvers banvæns á byrjunarstigi. Slappleiki, treg einbeiting, lágur hiti. Farvel, grimma veröld. Síðustu daga hef ég lesið Ísafjarðarbækur Njarðar P. Njarðvík –  Í flæðarmálinu og Hafborg –  Tomorrow I’ll be Twenty eftir Alain Mabanckou, Nautnastuld eftir Rúnar Helga, Fugl/Blupl eftir Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur, Hómó Sapínu eftir Niviaq Korneliussen, Veður öll válynd eftir Hagalín og Þunga eyjunnar eftir Virgilio Piñera. Njörður var hugljúfur – „rithöndin“ stöðug og traustvekjandi. Hann lýsir hverju handtaki um borð í Hafborginni og maður treystir því fullkomlega að hann viti hvað hann er að tala um. Þó er ég ekki viss um að Njörður hafi verið meira til sjós en 2-3 sumur í mesta lagi. Bókin gengur ekki fyrir neinu brjálæðislegu drama eða slarki þótt eitt og annað gangi á – og það sé jafnvel fyllerí á sumum sjómannanna, framhjáhald á konunum þeirra, og meira að segja eitt frekar alvarlegt vinnuslys (sem minnir á svipað slys sem pabbi minn varð fyrir – skipið fær á sig brot og maðurinn kastast, þessi brýtur lærið en pabbi fór með hnéð). Þetta er fyrst og fremst lýsing á tilvistinni á tilteknum stað og tilteknum tíma – og glímu fólks við þessar aðstæður, þennan tíma, og sjálft sig. Einkunnin hugljúfur á frekar við um Í flæðarmálinu en Hafborgina . Og er hún þó líka sár – sérstaklega fyrsta sagan, sem er minning átta ára drengs af því að vera vakinn til þess að fylgja fullum föður sínum í rúmið, enda geti enginn annar gert það, hann hlustar ekki á aðra. Það gerist ekkert meira en þetta, strákurinn fer á fætur og leiðir pabba sinn inn í svefnherbergi. Og maður hágrætur bara ofan í bókina. Það sló mig að Njörður lýsir Ísafirði aðallega út frá hafinu og fjörunni, sérstaklega í fyrri hluta bókarinnar, og nefnir sjaldnar fjöllin – ekki fyrren þau rumska. Sjálfur hugsa ég alltaf fyrst til fjallanna en tek nú betur eftir hafinu og fjörunni. Það er frískandi að hann sjái sér ekki ástæðu til þess að breyta bænum í exótíska staðleysu – hér er ekkert Pláss, engin Tangakaupstaður, eða Sandfjörður. Ég held reyndar að kráin Litlibar, sem virðist standa við Silfurtorg, sé tilbúningur – a.m.k. finn ég engar heimildir um hana. Annars er Ísafjörður bara Ísafjörður. (Ef einhver er með ábendingu um skáldsögur sem gerast í svona tilbúinni Reykjavík – einhverri Gufuvík eða Þokubæ eða álíka þá er kommentakerfið opið ellegar hægt að senda mér tölvupóst: eon@norddahl.org). Stærsti galli Njarðar sem rithöfundar er sennilega sá sami og stærsti kostur hans – hann skrifar aldrei neitt óvart. Það útilokar (næstum) mistök – líka þau sem svo reynast himnesk. Tomorrow I’ll be Twenty er byggð á æskuminningum kongóska rithöfundarins Alain Mabanckou – sem er frægastur fyrir bókina African Psycho. Drengurinn „Michel“, sem á samnefnda foreldra og Alain, mátar sig við fullorðinslífið og fylgist með samfélaginu í kringum sig – og fréttum umheimsins í gegnum útvarpið (hann hefur miklar áhyggjur af Íranskeisara og hatar Idi Amin af krafti). Hversdagurinn snýst í kringum stelpuna sem hann er skotinn í og fjölskyldurnar tvær sem hann tilheyrir – faðir hans á tvær konur: með annarri á hann fjölda barna, en með hinni bara Michel. Michel fer sjálfur til hinnar fjölskyldunnar alltaf ef móðir hans er vant við látin og hangir þar með systkinum sínum. Frábær bók. Nautnastuldur er bók um ofsa og þráhyggju – aðallega klofþráhyggjur manns sem virðist engu að síður þrá að komast upp í andlegri hæðir. Og hata sjálfan sig – eða í það minnsta líta niður á sig fyrir aumingjaskap. Þetta er „amerískari“ bók en Ekkert slor – eða í það minnsta meiri Roth og minni Faulkner. (Nú gúglaði ég og sá að á útgáfutíma bókarinnar hefur RHV bæði þýtt og skrifað um Roth – go figure). Bók um greddu og getuleysi og vanmáttar- og ofmáttarkennd. Fínt stöff – sérstaklega fyrri hlutinn, stíllinn á sirka fyrstu fimmtíu síðunum er massífur. Fugl/Blupl – ég var að endurlesa hana. Steinunn Arnbjörg er í miklu uppáhaldi hjá mér. Skrítnasta og skemmtilegasta röddin í íslenskri ljóðlist. Hómó Sapína eftir Niviaq Korneliussen. Ég hef verið á leiðinni að lesa þessa bók lengi. Hún fjallar um hóp af einstaklingum sem eru allir að finna sig og eiga það sameiginlegt að finna sig í einhvers konar hinseginleika. Gerist í Grænlandi og er tíðrætt um Grænland – en einhvern veginn fannst mér það ekkert aðalatriði – og eiginlega því miður, þótt ég hefði nú síður viljað að þau færu í sleðaferð eða eitthvað álíka. Og sennilega er þetta ungmennalíf bara ansi áþekkt á milli norðurlandanna. En andinn í bókinni var einhvern veginn danskur – og minnti að mörgu leyti á ljóð Maju Lee Langvad (sem ég held mikið upp á og hef þýtt). Sennilega er Hómó Sapína þýdd úr dönsku – höfundurinn frumskrifaði á grænlensku en þýddi sjálf á dönsku og væntanlega telst sú þýðing þar með jafn rétthá, en hugsanlega smitast eitthvað þar á leiðinni inn í stílinn. Maður fær ekki nema væga tilfinningu fyrir lífinu handan þessa fólks sem sagan einblínir á – gott ef allir sem eru nefndir á nafn fá ekki fókusinn alveg á sig einhvern tíma, eða tilheyra a.m.k. hinseginsamfélaginu á einn eða annan veg. Þar með vantar einhvern spegil eða kontrast. Bókin er samt betri en aðfinnslur mínar hér gefa til kynna. Veður öll válynd eftir Hagalín. Þetta eru nokkrir þættir af Vestfirðingum. Þær eru svolítið misjafnar að efni og gæðum – veigamest er Þáttur af Neshólabræðrum, þar sem segir af tveimur afar þrjóskum og erfiðum bræðrum og samskiptum þeirra við heimasætu á næsta bæ, sem enda með ósköpum. Aðallega vegna þess að allir eru svo fáorðir og þunglyndir og lífið er svo mikill djöfuls barningur alltaf hreint. Hún situr sennilega í mér lengi. Þungi eyjunnar eftir kúbanska skáldið Virgilio Piñera í þýðingu Kristínar Svövu. Kraftmikil bók – maximalísk í orðfæri og myndmáli og sennilega þyrfti maður að lesa hana tíu sinnum til að ná almennilega utan um hana. Og kannski er manni alls ekkert ætlað að ná utan um hana, heldur fljóta bara um, ölvaður og örvaður – það er allavega hægur leikur. Fyrirtaks þýðing, það best ég get borið vitni um, og fróðlegur eftirmáli. Ég les hana áreiðanlega fljótlega aftur.

Skúr minninganna

Ég eyddi helginni í tiltekt og skipulagningu. Aðallega úti í bílskúr. Það er undrunarefni hvað manni tekst að safna af drasli í einu mannlífi, sem er nú ekki einu sinni nema rétt svo hálfnað. Síðan er svo ægilega gaman að sjá allt þetta dót að maður heldur að svona eigi þetta bara að vera. Að á fimm ára fresti standi maður upp undir axlir í óbeislanlegu öngþveiti vasadiskóa, dagbóka, ljósmynda, fótóapparata, útprentaðra greina, ljóðahátíðadagskráa, sósíalískra tímarita, myntsafna, barmmerkja, plakata og allra handa minninga – meyr og síandi, meyr og síandi, einsog pungsveittur kolaverkamaður. Mest af þessu er samt alltaf bara drasl. Ég fann alveg líka IKEA-bæklinga og brotna playmokalla og spýtnabrak og Pottþétt 25 . Og það sem maður vildi helst hafa fundið finnst auðvitað ekki. Við Nadja skrifuðumst á sem unglingar og einhvers staðar á ég þykkt umslag merkt henni þar sem er að finna bréfin sem hún sendi. Ég fann umslagið hans Mella, umslagið hans Hauks Más, umslagið hennar Karenar og hennar Amöndu – en ég fann ekki umslagið hennar Nödju, sem ég hef tekið frá og geymt á mjög öruggum stað (sennilega með upprunalegu Appetite for Destruction plötunni minni – sem er líka týnd – en hana er hægt og raunar búið að kaupa aftur). Að vísu fann ég slangur af útprentuðum tölvupóstum og eitt handskrifað bréf frá 1994 – utan umslags. Þá hafði Nadja nýverið flutt frá Linköping til Västerås og farið í bíó með nýju vinum sínum, á rómantíska gamanmynd með Nick Nolte og Juliu Roberts, sem henni fannst ekkert spes. Hún vildi líka vita hvort svo vel vildi til að ég væri balletdansari, hún væri svo hrifin af balletdönsurum. Sem ég var auðvitað ekki og því tók það mig tólf ár í viðbót af viðstöðulitlu daðri áður en hún leit við mér. Það var minn ritlistarskóli. Sennilega hefði verið fljótlegra að læra bara ballet. Mest fór í ruslið af geisladiskum og pappírum. Ég ætlaði að henda fílófaxinu mínu en Nödju fannst það eitthvað svo sætt að ég held hún hafi hirt það upp úr ruslakassanum. Megnið af því sem var ekki hent fór svo í geymslu á þannig staði að við því verður sennilega aldrei hreyft aftur. Stór hluti af því er handskrifaður skáldskapur, uppköst og krot. Það kom sjálfum mér á óvart hvað ég hef skrifað mikið í höndum – stórir hlutar af Illsku eru frumskrifaðir í höndum. Ég mundi að Ísafjarðarkaflinn var það en það er talsvert meira og stórir hlutar líka sem enduðu aldrei í bókinni nema sem skuggi – tugir síðna um barnaskólakennara Agnesar og nasískar árátturaskanir hennar. Það er skrítið að vera búinn að gleyma svona miklu úr fullorðinslífi sínu. Ég hef líka staðið á því fastar en fótunum að ég hafi byrjað á Illsku sumarið 2008 – eftir að ég fór til Jurbarkas – en ég á dagsettar glósur sem sýna að það hefur varla verið komin nein mynd á það fyrren í janúar 2010. Sem þýðir að ég skrifaði þessar 600 síður á tveimur árum en ekki fjórum. Ég á líka eina Heimsku handskrifaða – hún er allt, allt, allt, allt, allt öðruvísi en sú sem kom út. Önnur bók um annað fólk – en með sömu forsendum, að miklu leyti. Og helling um Felix Ibaka og Arbítreu líka, sem er lítið líkt því sem birtist í Einlægum Önd (hann fer á Hamingjuráðstefnu á Íslandi, í Hörpu). Þegar ég var unglingur skrifaði ég síðan hálfa skáldsögu um mann sem er í einhvers konar hliðarheimi þar sem tilfinningar hafa líkamnast – ég held það sé búið að gera barnamynd með svipuðu konsepti, mín var einhvers konar bóhemskt krísuævintýri og alls ekki fyrir börn og helst ekki fyrir fullorðna heldur, bara fyrir ofurdramatíska unglinga. Ég skrifaði hana í fyrstu alvöru tölvuna sem ég eignaðist og þessa bók hef ég greinilega margskrifað, prentað út, krotað og krotað og krotað í handritið, skrifað aftur, krotað og krotað og krotað í handritið og svo framvegis. Ég hef verið miklu vinnusamari og einbeittari unglingur en mig minnti (eða einkunnir mínar bera vitni um) – og samt enn langt í að ég „ákveddi“ að verða rithöfundur (það var í október, 1999 – ég var skipreka í landluktri stórborg og fékk mömmu til að senda mér ritvél). Fílófaxið var líka fullt af athugasemdum einsog: „Lesa Böll, Ambjörnsen, Proust“ og svo framvegis. Ég hef nú varla lesið Proust enn, svo heitið geti. Þyrfti helst að skrifa hjá mér einhvers staðar að fara að koma því í verk. Kannski í Notes. Talandi um lestur og leit að glötuðum tíma þá hefur vef- spjall- og samfélagsmiðlabindindið sparað mér svo mikinn tíma að nú les ég hartnær bók á dag. Og allt samt utan eðlilegs vinnutíma – ég les helling á skrifstofunni líka en það er bara hingað og þangað, smá í þessari bók, smá á þessari heimasíðu, doldið í þessu tímariti, og svo framvegis, og telur ekki í bókatalningunni. Mér líkar þetta fyrirkomulag afar vel. Á morgun ætla ég engu að síður að kveikja aftur á símanum (vonandi ekki vísir að falli) og þá verður hægt að hringja í mig. Ekki samt hringja öll í einu.