Skáldað á Ísafirði: Arnrún frá Felli

Það er barið að dyrum.
„Já!“ segir Þóra. Enginn kemur.
„Gerið svo vel!“ segir hún hátt. Hurðinni er lokið hægt upp, og inn kemur Jón skósmiður.
„Hér er þá enginn“, segir hann og skimar í kringum sig.
„Kallið þér mig engan“, segir Þóra brosandi, og snýr í skyndi við á sér svuntunni.
„Enginn gestur átti ég við; mér heyrðist þér vera að tala við einhvern og segja já.“
„Góði Jón minn! Það var rétt, að ég sagði „já“, en vitið þér ekki að það þýðir: Gerið svo vel að ganga í bæinn.“
„Ég hefi nú vanist því, að fólk segði þá: „Kom inn“; ætíð var það sagt á honum Ísafirði.“
Jón var alinn upp á Ísafirði.
„Já, á Ísafirði“, segir hún og grettir sig. „En hér í Reykjavík segja allir mentamenn: „já“. Einn læknirinn byrjaði á því, og þá sögðu allir: Já!“ Það er ekki nema með dálitlum fimleikum sem ég geri Arnrúnu að Felli að ísfirsku skáldi – þarf kannski ekki reyk og spegla, en aðeins þarf ég nú að teygja mig samt. Hún hét réttu nafni Guðrún Tómasdóttir. Hún var fædd árið 1886 að Einifelli í Mýrasýslu og fór þaðan 19 árum síðar til þess að nema ljósmóðurfræði í Reykjavík. Þar var hún í tvö ár áður en hún hélt til Kaupmannahafnar til frekara náms. Að því loknu fór hún til Ísafjarðar og var þar ljósa í ein átta ár – nær allan þrítugsaldurinn. Það er á þessu tímabili sem hún hefur að birta eftir sig ljóð og smásögur í tímaritum, sem margar gerast á „Sandfirði“ sem á ýmislegt sameiginlegt með Ísafirði, og a.m.k. ein á „Brimtanga“ sem á sér sennilega fyrirmynd í Bolungarvík. Aðrar sögur hennar gerast í Reykjavík og í Ameríku – en frá Ísafirði hélt Arnrún til Bandaríkjanna, þar sem hún kynntist miklum menntamanni, Charles F. Bjarnason, málvísindaprófessor við Harvard. Í minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu í byrjun árs 1973, hálfu ári eftir að hún lést, kemur fram að í hjónabandi þessu hafi henni gefist „verðug tækifæri til að þroska það sem í henni bjó“ – enda hafi hún fengið að vélrita alla fyrirlestra þessa gáfaða manns í nærri 30 ár. Sögur Arnrúnar birtust einkum í Iðunni og Eimreiðinni framan af en síðar í tímaritum Vestur-Íslendinga í Ameríku. Mér sýnist hún smám saman hætta að gefa út eftir því sem líður á þriðja áratuginn – sennilega vant við látin að vélrita fyrirlestra – og tekur ekki saman sögur í bók fyrren 1956, sjötug að aldri, og hefur þá verið ekkja í sjö ár. Þó virðast sögur hennar og skáldskapur hafa notið nokkurra vinsælda og þegar hún kemur til Reykjavíkur frá Ísafirði með Lagarfossi 1917 er þess sérstaklega getið í Morgunblaðinu að hún sé komin, skáldkonan. Þá er eitthvað rýnt í sögur hennar í dagblöðum og um þær rætt, þó engin sé bókin til að fjalla um. Í skáldkvennatali skald.is er sagt um smásagnasafn Arnrúnar, Margs verða hjúin vís , að þar séu 13 sögur sem séu með fyrstu Reykjavíkursögunum (og er þá væntanlega miðað við útgáfutíma í tímaritum en ekki útgáfu safnsins): Aðalpersónur flestra sagnanna eru ungar, fjörmiklar stúlkur og má segja að um nýja kvenmynd sé að ræða. Guðrún skrifaði stíl sem samsvarar vel sögusviði og efni. Hún notar „nýtískulegt“ málfar með orðatiltækjum og slettum úr borgarmáli. Hún nær upp hraða í frásögn með því að sleppa smáorðum og tengingum, t.d. í samtölum. Frásagnarmáti hennar er víða gamansamur, jafnvel þótt efnið sé „háalvarlegt“. Þá ber að halda því til haga að einungis tvær sagnanna í Margs verða hjúin vísari falla að þessari lýsingu. Fjórar gerast í Reykjavík en þar af er ein um stúlku sem er dauðveik og alls ekki fjörmikil og ein fjallar eiginlega bara um karla – það er Einkennisbúningur Reykjavíkur sem er dásamleg saga, hittir á einhvern fagurfræðilegan skurðpunkt súrrealískrar snilldar og íslenskrar fyndni. Tvær – Bifreið nr. 13 og Fiskur í alla mata – fjalla síðan um dálítið frakkar dömur, a.m.k. á síns tíma vísu, en fjörmestu stúlkurnar í skrifum Arnrúnar birtast í tveimur smásögum sem hún undanskilur í safninu – en hefðu verið með því besta þar, ef þær hefðu fengið að fljóta með. Annars vegar er það sagan Þóra , sem vitnað er til hér í upphafi færslunnar og birtist í Iðunni vorið 1917, og hins vegar Ragna , sem birtist þar tveimur árum síðar en ku hafa legið óbirt á skrifstofu tímaritsins í þrjú ár. Hér verður sennilega að nefna að þrátt fyrir sitt dásamlega fjör er Þóra kannski ekki lengur „stúlka“ – a.m.k. er hún ekkja. Árið 1917 gat kona reyndar hæglega orðið ekkja fyrir tvítugt en því er sennilega ekki fyrir að fara hér. Sagan Þóra er örstutt ástarsaga með hröðum stíganda – léttleikandi og dásamleg – og mér fannst strax einsog ég væri að lesa eitthvað eftir formóður Kristínar Ómarsdóttur. Það var þessi saga sem kveikti mér forvitni að lesa meira eftir Arnrúnu og finna bókina hennar – sem fannst í kjallara Bókasafnsins. Ragna er annars eðlis og hortugri og sennilega séð um að skapa Arnrúnu það orðspor sem vísað er til í skáldkvennatalinu – enda var hún svo svakaleg að það þurfti að birta hana með formála: Reykjavíkurdrós, rifin upp úr roði, hortug og ófeilin – það lýsir því ágætlega. Þessi saga ætti að vera í öllum yfirlitsritum, ásamt helst Þóru og Einkennisbúningi Reykvíkinga líka og jafnvel Fyrsta fundinum. Mér sýnist svo að eftir því sem Arnrún eldist og þroskast aflæri hún mörg af áhugaverðustu höfundareinkennum sínum – sögurnar verða lengri og líkari „einhverju öðru“. Það er í sjálfu sér algengt – og stundum kallað ritlistarheilkenni, því slíkt umhverfi getur fóstrað tendensinn – að höfundar sem ekki er sérstaklega hampað fyrir það sem skilur þá frá öðrum höfundum fari fljótlega að líta á það sem vankanta og agnúa sem þurfi að sníða burt. En Arnrún verður þrátt fyrir þessa tilhneigingu aldrei neitt sérlega lík neinum öðrum. Sögur Arnrúnar eru allar áhugaverðar, bæði að frásögn og stíl, og þótt þær séu ekki undantekningalaust frábærar eru þær líka sprúðlandi heimild um þann heim sem hún lýsir. Þessi innsýn í borgaralegt líf sæmilega velmegandi Vestur-Íslendinga var alveg ný fyrir mér þótt ég næði minni tengingu við Ameríkusögurnar flestar. Þá þótti mér sagan Fyrsti fundurinn – sem fjallar um fund í sandfirska kvenfélaginu Vonarljós áhugaverð ekki síst vegna þess að Arnrún var mikilvirk í ísfirska kvenfélaginu Ósk á Ísafirði, sem stofnaði Húsmæðraskólann (þar sem Arnrún kenndi heilsufræði). Í sögunni leysist fundurinn eiginlega upp í slúður og baktal – í hvert sinn sem einhver hinna góðu frúa þarf að bregða sér afsíðis byrja hinar að baktala hana miskunnarlaust. Sem er auðvitað sprenghlægilegt. Fínu frúrnar sem keppast svo mikið um að vera merkilegar að þær verða fyrir rest alveg hræðilega ómerkilegar. Og þá fær „Snæmundur læknir“ sem sagður er fullur af innihaldslitlu „alþýðuskjalli“ líka gusur – þar hlýtur Arnrún að vera að vísa í Vilmund landlækni, sem var líklega ekki samtíða henni á Ísafirði nema þá í augnablik (hann kom árið sem hún fór). Þó má geta þess að kvenfélagið Vonarljós fær gott umtal um sig í annarri sögu – þær stöllur veita fátækri og sárveikri stúlku á Brimtanga styrk, þótt félaginu sé nú eiginlega bara ætlað að starfa í Sandfirði.

Þrífari vikunnar er alltaf einn

Í fyrradag lá ég uppi í rúmi og las úr fjórða bindi Harry Potter seríunnar af símanum fyrir börnin mín, sem máttu þola að ég kíkti reglulega inn á RÚV-appið til þess að sjá hver fengi íslensku bókmenntaverðlaunin í ár – eða í fyrra, réttara sagt. Fengi þau í ár fyrir árið í fyrra. Vefmiðlabindindi mínu fylgir ákveðin hlýðni við línulegan tíma og ég var eiginlega alveg viss um að ég myndi gleyma því að horfa á tíu-fréttirnar, af því ég geri það aldrei, og hélt að þá myndi ég ekki fá að vita þetta fyrren í morgunfréttunum klukkan 8. Sem hefði auðvitað verið hræðilegt. Svo hræðilegt raunar að þetta var ekki einu sinni í morgunfréttunum daginn eftir. Var einfaldlega hætt að vera frétt. Allir sem vildu vita þetta áttu að vera löngu búnir að komast að því. Ég sá svo fyrir tilviljun að það var mynd af sigurvegurunum á forsíðu Fréttablaðsins – sem liggur annars ekki á lausu hérna (og er eiginlega of mikið þunnildi til að ég nenni að eltast við það). Ég hef ekki séð Moggann síðan á mánudag – held samt að það hljóti að hafa komið moggi í gær. Ég hefði að öllu eðlilegu fengið fréttirnar þar. Ónefnd manneskja af erlendum uppruna í mínu lífi dæsti þungan yfir því annars þegar Bergsteinn Sigurðsson upplýsti glaðbeittur í sjónvarpsfréttunum hvernig allt tilnefnda fólkið væri meira og minna skylt og gæti þannig sett hin og þessi venslamet. Við erum auðvitað ekki nema fimm á þessu landi og öll skyld, þetta finnst útlendingum skrítið. Sem betur fer fyrir hneykslunargirni minnar ónefndu manneskju fengu engir ættingjar þetta – Kamilla Einarskáradóttir fór tómhent heim og Gunnar Helgason var ekki tilnefndur í ár og Melkorka og Svikaskáldin fengu ekki, bara mamma hennar, Sigrún Helgadóttir (sem er ekki systir þeirra bræðra, það ég viti). Ég veit ekki hvort maður er skyldur sjálfum sér en Hallgrímur setti met með því að fá bikarinn í þriðja sinn í sama flokki – en Andri Snær hefur líka fengið verðlaunin þrisvar, í öllum flokkum. En Andri á held ég enga ættingja sem hafa fengið. Sem er áreiðanlega yfirsjón hjá dómnefnd, frekar en eitthvað annað. Ég held annars skenslaust að það hljóti að vera mjög undarleg tilfinning að fá svona verðlaun fyrir fyrsta og annað bindi af þremur. Sennilega alltaf gaman samt – bara skrítið. Yrði ekki hálfgert krakk að fá svo kannski ekki fyrir þriðja og síðasta bindið – hápunktinn? Börnin voru – þrátt fyrir að eiga bágt með að þola vinnslustoppið í Potternum – spennt að vita hvort Didda, heimilisfræðikennarinn þeirra, fengi verðlaunin í barnabókaflokki. Svo var ekki en Aram hafði nýfengið Akam, Annika og ég frá ömmu sinni og byrjaði á henni strax eftir Potter og er mjög ánægður. Annars er ég sjálfur mjög illa lesinn í verðlaunabókunum í ár, þótt ég hafi lesið talsvert í flóðinu. Eða svona. Búinn að lesa sennilega 70% af tilnefndum skáldverkum – en það var allt í einni og sömu bókinni. Þarf eiginlega að fara að bæta úr þessu. Hugsa að ég bíði samt með Hallgrím þar til ég get hámlesið hann allan.

Vestfirsk skáldsaga: Djúpið

Ég lauk við Djúpið eftir Benný Sif í gær. Það er ofsalegur sogkraftur í henni. Mér fannst svo sem síðustu 50 síðurnar, þegar verið er að skila sögunni í land, ekkert sérstakar en 250 síðurnar þar á undan er þetta fullkomlega dáleiðandi ferðalag. Og aðalsöguhetjan, Valborg, er áreiðanlega með eftirminnilegri sögupersónum síðari ára. Með ofsalega átröskun, sem liggur einhvern veginn að baki öllu, og er samt aukaatriði – Valborg er alltaf stærri en átröskunin. Og Djúpið verður þar með aldrei beinlínis að bók um átröskun – frekar en hún er bók um „ósnortna náttúru“ eða „stóriðjuplön“ – heldur persónu- og þjóðfélagslýsing. Og kannski tíðaranda – ég er auðvitað ekki dómbær á hversu trúverðug, ég var mínus fjögurra ára 1974 (og Benný var sjálf plús fjögurra ára), en hún virkar fyrir mig. Og kannski segir Djúpið manni bara fullt um átröskun – og tráma og breyskleika – einmitt með því að detta aldrei í einlæga vikublaðastílinn (sem tröllríður bókstaflega öllu síðustu árin – allri list og allri fjölmiðlun). Upplegg bókarinnar er auðvitað til þess að æra óstöðugan Vestfirðing. Hópur (bókstaflegra) sérfræðinga að sunnan kemur sér fyrir í heimavistarskólanum í Reykjanesi (sem er samt aldrei nefnt) til þess að vinna bug á búseturöskun í Ísafjarðardjúpi. Fulltrúar heimamanna er annars vegar gráðugur þingmaður sem ku ætla að selja rússum Djúpið undir stóriðju og hins vegar (leynileg) barnsmóðir hans, sem er einhvers konar róttækur og dálítið ístöðulaus náttúruhippi – eitt af því sem illa gengur upp í sögunni er hvernig þeim tókst eiginleg að láta sér líka hvert við annað nógu lengi til að geta barn. En fólk dettur svo sem í það og missir bæði ráð og rænu. Jú og dóttirin er þarna að þvælast – en hún lætur jafn lítið fyrir sér fara í bókinni og hún er sögð gera í raunveruleikanum. Seen but not heard, svona að mestu. Eitthvað aðeins sést svo glitta í sveitafólkið sem á að bjarga en ekki svo maður fái neina tilfinningu fyrir því. Þetta truflaði mig merkilega lítið. Ég fór afar sjaldan í mótþróaröskunargírinn sem mér er samt svo eðlilegur í þessum málum – ég hefði svo auðveldlega getað byrjað að klóra af mér andlitið hérna, en það kom aldrei til þess. Í mesta lagi að ég stryki mér mjúklega um hökuna af og til. Djúpið er bók um konur – fyrst og fremst Valborgu og Ellen. Karlarnir í bókinni eru ansi flatir og ég veit ekki hvort það er bara vegna þess að þeir hafi átt að vera óspennandi luntalegar týpur eða hvort þetta er eitthvað öfugt kynjasyndróm – karlar eru alræmdir fyrir að skrifa flatar kvenpersónur – eða jafnvel einhvers konar svar við fáeinum öldum af lítt spennandi kvenpersónum í karlabókum. Eða vegna þess að þetta er ekki bók um karla heldur konur. Karlarnir í Djúpinu eru ekki allir viðföng langanna kvennanna (þótt þeir séu það sumir stundum) – frá þessu sjónarhorni er meira einsog karlarnir séu viðföng löngunarframköllunarlanganna kvennanna. Svona meta-löngunar þeirra. Að þeir séu þarna til þess að sýna viðbrögð þegar Ellen blikkar þá eða Valborg grennist (af því að gubba öllum mat út um gluggann á herberginu sínu) – en í raun eigi maður að geta án þessara viðbragða verið. Þeir eru hins vegar mjög mikið í því að sýna óviðunandi viðbrögð. Bæði nenna þeir fæstir að vinna þetta starf með þeim – þær eru þarna svo það sé hægt að hafa konur með í fréttatilkynningu, enda ár kvennabaráttunnar – og þótt þeir snúist í kringum flissið í Ellen þá er hún ólétt og lofuð, og þegar einn þeirra skríður ítrekað upp á Valborgu er það samræðulaust í skjóli nætur, svona einsog hann sé að læðast út til að reykja í laumi. Hún virðist láta það yfir sig ganga af því það sé skemmtilegra en að gera ekki neitt, en við fáum í raun enga útskýringu á athæfi hans aðra en að hann sé bara graður og dónalegur. Sá sem hún þráir sýnir henni svo ekkert nema fálæti, nema þegar hann sýnir henni dálítinn kvikindisskap – útskýringin á því hvers vegna, sem kemur þarna í hnútahnýtingunum í lokin, hefði mátt missa sín fyrir mér. Annars varð mér hugsað til sögunnar áðan þegar ég rakst á þessa frétt í rétt ríflega aldargömlu blaði (Íslending, 20.01.1922). Ég er ekki alveg viss hvers vegna en samt finnst mér tengingin blasa við.

Blúsbloggið: Árslisti, færsla 3 af 3

Jæja. Efstu fimm sætin. 5. GA-20 –  Try it … You Might Like It: GA-20 Does Hound Dog Taylor GA-20 er þriggjamanna Chicagoblúsband frá Boston sem nefnt er eftir frægum magnara frá Gibson. Þeir gáfu út sína fyrstu breiðskífu, Lonely Soul, fyrir tveimur árum og fylgja henni eftir með þessari – þar sem þeir leika einvörðungu lög af fyrstu tveimur breiðskífum Hound Dogs Taylor í tilefni af 50 ára afmæli fyrstu (og goðsagnakenndri) breiðskífu Hound Dogs, Hound Dog Taylor and the House Rockers . Það var sömuleiðis fyrsta breiðskífa Alligator Records – sem Bruce Iglauer bókstaflega stofnaði til þess að gefa út Hound Dog, þegar Delmark, þar sem hann vann, neitaði honum um gefa hann út þar. Hound Dog er í miklu uppáhaldi hjá mér – hrár og skrítinn og pönkaður – og ég hafði aðeins heyrt til GA-20 áður og þeir gera fara fjarska vel með efnið (þótt þeir kannski sýni því fullmikla virðingu). 4. William the Conqueror – Maverick Thinker William the Conqueror er svolítið einsog ef John Fogerty og David Byrne myndu stofna blúsband í anda JJ Cale. Það svínvirkar. Skoskt tríó – frontmaðurinn Ruarri Joseph átti talsverðan feril áður en hann stofnaði þetta band. 3. Cedric Burnside – I Be Trying Cedric er dóttursonur R.L. Burnside – sem Linda Burnside eignaðist með trommara pabba síns. Cedric var svo sjálfur farinn að spila í bandinu þrettán ára gamall (1991 – hann er jafn gamall mér, altso í það allra yngsta fyrir blúsmann). Geggjuð plata. 2. Delgrés – 4.00 AM Ég lenti óvart á Delgrés-tónleikum á 100-club í London fyrir nokkrum árum – þegar ég missti af miðum á Ry Cooder fyrir vítavert gáleysi. En ef það hefði ekki verið fyrir þetta vítaverða gáleysi hefði ég kannski aldrei kynnst tónlist Delgrés og ekki orðið mér til skammar í tveggja tíma danstransi á þessum virðulega blúsklúbb. Þetta er tríó (þriðja tríóið á topp fimm) sem gerir út frá París en frontmaðurinn, Pascal Danaë, er frá Guadalupe og syngur (mest) á kreólafrönsku. Fyrsta platan þeirra, Mo Jodi (Mourir aujourd’hui – að deyja í dag) er í gríðarlegu uppáhaldi hjá mér. Þessi er ívið rólegri og ég myndi sennilega ekki svitna jafn hressilega þótt ég dansaði hana á enda – en þó eru þarna nokkur sem setjast beint í dillandina í mér. 1. Sunny War – Simple Syrup Sunny War er er einsog … ef Elizabeth Cotten hefði eignast barn með Jimi Hendrix og það barn hefði gengið í tónlistarskóla Jeffs Buckley. Ég heyrði í henni í The BBC Blues Show einhvern tíma síðasta vor og keypti strax báðar plöturnar hennar. Mama’s Milk er hittarinn en Like Nina er lag ársins. Svona lítur þá listinn út í heild. 11. sæti: Fire it Up – Steve Cropper 10. sæti: Sharecropper’s Son – Robert Finley 9. sæti: The Blues Album – Joanna Shaw Taylor 8. sæti: Delta Kream – The Black Keys 7. sæti: Heavy Load Blues með Gov’t Mule 6. sæti: Nowhere Sounds Lovely – Cristina Vane 5. sæti: Try it … You Might Like It: GA-20 Does Hound Dog Taylor – GA-20 4. sæti: Maverick Thinker – William the Conqueror 3. sæti: I Be Trying – Cedric Burnside 2. sæti: 4.00 AM – Delgrés 1. sæti: Simple Syrup – Sunny War Þrjár sólókonur, þrír sólókarlar – fimm bönd, þar af einn dúett, þrjú tríó og einn kvartett. Ein skosk plata, ein bresk, ein guadalúpísk-frönsk og átta bandarískar. Fjórar koverlagaplötur. Það er minna af bæði deltablús og chicagoblús en í fyrra – meiri köntrí-, folk-, soul- og poppskotið. Ég á fjórar af þessum ellefu á vínyl og ætla að panta a.m.k. 3-4 í viðbót.

Enn ein ísfirsk skáldsaga: Ekkert slor

Það seigflýtur allt í heilabúinu á mér í dag. Einsog grautur í hvolfdri skál. Í vísitöluvikunni er ég fremur góður á mánudögum – ferskur eftir helgina, með nýjar hugmyndir til að vinna úr og starfsþrek til að sinna þeim. Það eru yfirleitt miðvikudagar sem leggjast verst í mig. Þá er farið að súrna í hugmyndunum – svo hressist ég þegar nær dregur helginni. En í dag er mánudagur og ég er ekkert ferskur, bara tregur. Í gær las ég enn eina ísfirsku skáldsöguna – sem einnig var prentuð í Ísrúnu þótt Forlagið gæfi hana út (og mamma mín setti hana). Þetta var Ekkert slor, fyrsta skáldsaga Rúnars Helga, sem sagt er að gerist í „Plássi“ einu sem er mjög Ísafjarðarlegt og persónur eru kallaðar eitt og annað þótt Ísfirðingar þykist geta borið á þær kennsl, ekki síst „Hemma“, sem er eiginlega bara Maggút heitinn ljóslifandi kominn. Rúnar segir sjálfur í viðtali á þessum tíma að sjái maður „beinar fyrirmyndir“ að sögupersónunum verði maður að gera það á eigin ábyrgð – en auðvitað verði sögupersónur ekki til úr engu, fremur en fiskafurðir. Maggút var nágranni minn alla barnæskuna, góðvinur pabba og rak okkur krakkana af túninu fyrir framan húsið sitt oft á dag, stamandi og gargandi. „A a a andskotans krakrakkakrakkagemlingar!“ Af því að við vorum að spila fótbolta og hann lagði bílnum sínum alveg þarna hjá og það hefur áreiðanlega gerst af og til að boltinn færi í bílinn. Húsið stendur reyndar ekki lengur – strætó keyrði á það á tíunda áratugnum og það skekktist allt – og á túninu byggði sonur Maggúts sér myndarlegt hús, svo nú leikur enginn þar fótbolta. En það er önnur saga. Rúnar Helgi „nær honum“ andskoti vel – of vel til að eiga góða fjarvistarsönnun fyrir því að hafa ekki nýst við „beinar fyrirmyndir“ – ekki bara staminu heldur talsmátanum og karakternum öllum, hvernig hann var stöðugt að rífast við alla en samt aldrei af neinum illindum. Eða a.m.k. sjaldan. Þessum undarlega gorgeir, sem var einhvern veginn þess eðlis að manni þótti vænt um hann – sem er nú yfirleitt ekki tilfellið með gorgeir. Ég gæti best trúað því að sagan væri sönn af því þegar hann veðjar brennivíni upp á að togarinn sé með undir 180 tonn – hann sjái það á stestestefninu stefninu – og gefur sig ekki þegar þau reynast 184, enda sé alltaf vivivitlaust tatalið talið uppúr þessu hehehelvíti. En Ekkert slor er fleira en Maggút. Ekkert slor birtir safn skyndimynda frá einu sumri í slorinu – það er farið inn og út úr heilabúum ólíkra sögupersóna sem allar eiga það sameiginlegt að vinna í „Fiskhúsinu“ svo úr verður býsna góð lýsing á vinnustað og verkafólkinu sem þar starfar. Fáeinir þræðir ganga í gegnum bókina þótt framþróun sé í sjálfu sér lítil, á þessum stutta tíma, ekki síst kemur greddan í ungu strákunum oft við sögu. En líkt og í Grjóti og gróðri eftir Óskar Aðalstein er sárasta augnablik bókarinnar fósturlát konu – sem hér kennir sér sjálf um að hafa unnið of mikið og þannig valdið fósturlátinu. Í Grjóti og gróðri ætlar Bjarni bækill að drepa sig fyrir að hafa verið svo mikill aumingi að konan hans hafi þurft að slíta sér út og því misst fóstur, en hér er það eiginmaðurinn, togarasjómaður, sem stappar stálinu í sína niðurbrotnu konu. Annars er þetta ekki örlagasaga. Að minnsta kosti ekki örlagasaga einstaklinganna. Margir hafa að sönnu unnið í Fiskhúsinu lengi og eru samvaxnir einhvers konar slorstriti en tilfinningin sem maður fær af lestri bókarinnar er að þeir geti auðveldlega snúið sér að öðru striti annars staðar án þess að sjálft verksmiðjulífið breytist mikið – þau eru peð sem eiga sér örlög, en þau eru ekki bundin frystihúsinu, þar sem maður kemur í manns stað, og þau geta hæglega fengið vinnu í öðru slori annars staðar. Að minnsta kosti ein sögupersóna er þegar horfin að öðru þegar sögu lýkur – eða við það að stinga af. Frystihúsið virðist stærra en þau og þótt stórveldistíð þeirra í íslensku menningarlífi hafi liðið undir lok fljótlega eftir sögutíma bókarinnar, sér þess hvergi stað þarna. En svo litast sýn manns á þessa bók, sem kom út 1984 (sama ár og Verbúðin hefst), eðlilega líka af því að þekkja söguna. Ungt fólk í svona störfum á þessum tíma hefur horfið úr þeim – það var þegar miklu minna um vinnu fyrir ungt fólk þegar ég reyndi að fá vinnu í fiski (og fékk svo í rækju) 6-7 árum seinna. Frystihúsin reyndust ekki eilíf og þeir sem hófu vinnu þarna á níunda og tíunda áratugnum hurfu langflestir að öðru áður en langt var um liðið. Einn skemmtilegasti kafli bókarinnar er kaflinn þegar skemmtiferðaskipið birtist og túristarnir flæða yfir bæinn „einsog engisprettur“ (sem eru einmitt nefndar til leiks í Brúnni yfir Tangagötuna líka, af svipuðu tilefni). Ekki endilega vegna þess að það sé besti kaflinn – kannski er honum meira að segja ofaukið í söguheimi bókarinnar, við lestur árið 1984, það er ekki útilokað – heldur vegna þess að ég var sjálfur búinn að gleyma að þessar skipakomur hefði verið byrjaðar (ég var náttúrulega bara sex ára) – svo þetta verður allt dálítið súrrealískt. Og heimsóknin verður líka táknræn þegar hún er skoðuð í ljósi orða verkalýðsforingjans Hallgríms Jónmundssonar í sjómannadagsræðunni: … því hljótum við að óska þess að einhver atvinnuvegur skapist í landi sem leyst geti sjómennskuna af hólmi sem þýðingarmesti atvinnuvegur þjóðarinnar … Ég sé á blöðum að bókin hefur fengið hlýrri móttökur hjá eldri kynslóðinni en þeim yngri – Erlendur í Mogganum og Jón Þ. Þór skrifa lofsamlega um hana – en hinn ungi Páll Valsson, sem er þá 24 ára, ári yngri en höfundurinn Rúnar Helgi, og skrifar í Þjóðviljann, ber sig illa af lestrinum þótt hann taki fram að bókinni sé ekki alls varnað. Finnst honum bæði að sagan segi sér lítið sem ekki hafi verið vitað fyrir og að frásagnaraðferðin mistakist og Rúnari hefði farnast betur ef hann hefði fylgt færri persónum lengur eftir. Það er kannski fullseint í rassinn gripið að fara að rífast við Pál um þetta núna, þegar hann er skriðinn yfir sextugt, en ég er ósammála þessu. Mér finnst styrkur bókarinnar einmitt liggja í því að láta ekki hið einstaka glepja sig – er þetta ekki líka Faulknerískt? Ég veit ekki hvort Rúnar hefur verið lagstur í Faulkner þegar hann skrifar Ekkert slor en hann er auðvitað mikilvirkastur íslenskra Faulkner þýðenda – og svo hefur Haukur Ingvars nýlega sýnt fram á sérstök tengsl Faulkners við vestfirskar bókmenntir í gegnum Guðmund Daníelsson og Hagalín og mér finnst alveg ástæða til að skoða hvort Grjót og gróður og Ekkert slor megi ekki teljast þar með, bæði vegna næms eyra Óskars og Rúnars fyrir töluðu máli, og þeirri áherslu sem lögð er á það, og fyrir að flakka milli margra sögupersóna til þess að lýsa stærra „ástandi“ eða „sögusviði“. Óskar staðnæmist að vísu við heimilismenn og Rúnar fer ekki út fyrir heilabú starfsmanna Fiskhússins – hvorugur tekur til ólíkra stétta, kynþátta eða heillrar sveitar – en frásagnaraðferðin er engu að síður ekki óskyld aðferð Faulkners (og Guðmundar). Í öllu falli er það frásagnaraðferðin sem veitir bókinni listrænt gildi sitt og hefur hana upp úr því að vera einfalt melódrama eða þorrablótsrevía um graða karla. Maður þarf að sönnu að fylla upp í ýmsar eyður sjálfur sem lesandi, sem er sjálfsagt auðveldara ef maður hefur einhverja innsýn í þennan heim en ætti ekki að vera neinum þrautalestur, og sumar persónurnar minna á aðrar – sem er nú bara frekar raunsætt, og væri ekki öðruvísi þótt vinnustaðurinn væri skrifstofa uppi í háskóla. Það geta heldur ekki allir verið Maggút.

Þorlákur Þorláksson og Jútta: Tvær ísfirskar skáldsögur

Grjót og gróður eftir Óskar Aðalstein kom út á Ísafirði árið 1941, hjá Prentsmiðjunni Ísrún. Þetta er önnur skáldsaga Óskars Aðalsteins, sem er 22 ára þegar hún kemur út. Í formála segir Guðmundur G. Hagalín að þetta sé fyrsta raunverulega verkamannasagan – og leggur þar áherslu á að hún sé það vegna þess að Óskar Aðalsteinn sé sjálfur af verkamannaheimili, þetta sé raunsönn lýsing á lífi þeirra sem feli hvorki í sér fegrun á aðstæðum þeirra né sé látið með verkafólkið einsog það sé „firrt í áróðursskyni þeirri gleði, sem allt, sem lífsanda dregur, hefir af því einu að lifa og hrærast, uppfylla sína frumstæðustu þarfir og þjóna því ætlunarverki, sem enginn þarf að leggjast djúpt til að uppgötva“. Þá sé ekki að finna í henni heldur slíkan áróður sem breyti auðvaldsherrunum í skrímsli „það er síður en svo að þar sýni höfundurinn okkar neina mannætu“, segir Guðmundur um lýsingu Óskars á Gesti Jónssyni, sem er allt í senn þingmaður, bæjarráðsmaður og útgerðarmaður – og örlagavaldur sögupersóna bókarinnar. Í bókinni segir af verkamanninum Þorláki Þorlákssyni, sem í upphafi sögu tekur við rekstri heimilisins þegar faðir hans „fer í sjóinn“ – sem er ekki tíundað neitt um, frekar en bara að upp hafi komið dagur, enda ekkert eðlilegra. Á heimilinu er systirin Ása Stína, bróðirinn „Bjarni bækill“ – sem fékk berkla í vinstri handlegg á barnsaldri, sem voru burtu skornir með þeim afleiðingum að handleggurinn hætti að vaxa; móðirin Solveig og móðir hennar Valgerður (sem kemur ekkert fyrir í sögunni fyrren tilkynnt er að hún hafi drepist fyrir tveimur árum – en tempóið er fremur hratt). Inn á heimilið kemur svo fljótlega heimilishjálpin Júlía, sem er enn umkomulausari en heimilismenn og getur hvergi unnið nema upp á að fá þá gistingu með vinnunni. Fyrstu næturnar víkur Þorlákur úr sínu rúmi fyrir henni og sefur á gólfinu þar sem hann lætur sig dreyma um að skríða uppí til hennar og kúra, sem hann svo gerir á endanum. – Það er hálfónotalegt á gólfinu, sagði hann. – Má ég koma til þín?
– Ef ég má alltaf vera hjá þér? anzaði einstæðingurinn. Og þar með er sá ráðahagur ákveðin. Þau eignast nokkur börn, þar af tvo syni sem fara á endanum að láta til sín taka í verkalýðsbaráttu, föður sínum til lítillar kátínu (enda telur hann Gest Jónsson fara sínu fram hvort eð er), og dóttur sem verður veik og rúmliggjandi eftir að hún ofkælist við fiskvöskun. Þetta er voðalegt hokurlíf. Þau búa öll saman í litlum kjallara – á einhverjum tímapunkti bítur Þorlákur það í sig að þau verði að komast upp úr kjallaranum en uppgötvar að það er þrefalt dýrara að leigja á jarðhæð en í holu. Þau eiga ekkert nema nokkur fleti og svo eina kommóðu, sem Þorlákur kaupir dag einn þegar hann hefur fengið óvenju mikið að vinna. Kommóðukaupin koma honum í vandræði skömmu síðar, þegar minni vinna fæst og hann ræður ekki við að gera upp reikninginn í verzlun Gests Jónssonar eina vikuna. Þá óskapast kaupmennirnir yfir því að Þorlákur hafi nú verið að kaupa sér þessa spánnýju kommóðu! Og geti nú ekki borgað reikninginn? Einhverjum árum seinna kemur svo hið opinbera og ætlar að gera eignarnám í Þorláki vegna skulda við bæinn en þá er kommóðan orðin of lúin – og þeim líst enn síður á rúmin. Bækillinn – sem er aldrei kallaður annað – er óvinnufær. Hann mun „góður á bókina“ en Þorlákur á enga peninga til að kosta hann til mennta og fær enga hjálp frá menntamönnum bæjarins þegar hann sækist eftir henni. Stundum vælir bækillinn hástöfum yfir því við bróður sinn hvað hann sé mikill aumingi, sem huggar hann þá, en stundum húðskammar bróðirinn hann fyrir að vera baggi á fjölskyldunni sem þurfi að taka sig á og drulla sér til að vinna eitthvað. Bækillinn byrjar á endanum að drekka og reykja og kynnist svo konu – sem ku jafn ljót og hann er bæklaður. Hún er mjúk og mikil náttúra í henni en vill helst ekki að hann sé að drekka, en leyfir honum það samt. Svo þegar hún missir fóstur, heltekur beiskjan hann – hann sem hélt hann fengi að lifa fyrir eitthvað annað, eitthvað fallegt – og bækillinn fer að lemja hana reglulega. Það verður svo ekki til að bæta líðan hans, sem er viss um að fóstrið hafi látist af því hann er aumingi og hún þurfti að vinna of mikið úti – vegna þess að hann gat það ekki – og þegar hún verður ólétt aftur og er að því komin að fæða gerir hann tilraun til að skjóta sig. Sú tilraun fer út um þúfur þegar Þorlákur kemur að honum. Ég varð nú ekki jafn var við lífsgleðina í þessari bók og Hagalín – mér fannst þetta mestmegnis vera samantvinnaðar harmsögur. Það er svo sem eitthvað farið á dansleiki og fólk gleymir sér af og til – en fyrst og fremst heldur lífið bara áfram og svo dynur eitthvað hræðilegt en algerlega viðbúið á. Einn harmur tekur við af þeim næsta og allt er þetta fremur eðlilegt. Það hefur enginn ráðrúm til að vorkenna sér lengi eða verða fyrir áfallastreituröskun af því næsta áfall er alltaf við það að dynja á – svona einsog sá sem stígur storminn alla daga jafnt fær aldrei sjóriðu. Til þess þarf maður víst fyrst að komast í land og hér er alltaf langt í land. Undir lok bókarinnar verða átök við Gest – verkfall sem fyrst veldur hungri en svo kemur matarsending frá Sambandi íslenskra verkalýðsfélaga og bókin endar með sigri (sem gengur reyndar fyrst og fremst út á að koma í veg fyrir að Gestur geti lækkað laun síns verkafólks – en mér skilst að launabarátta á kreppuárunum hafi ekki síst einmitt verið þess eðlis). Jútta eftir Herthu Schenk-Leósson er skrifuð á þýsku og kemur út tveimur árum áður en Grjót og gróður, í sömu prentsmiðju og skrifuð í sama bæ. Ég held að annað hvort Jútta eða fyrri skáldsaga Óskars Aðalsteins hafi verið fyrsta íslenska skáldsagan til að koma út hjá Ísrúnu (sem hafði áður gefið út nokkuð af þýðingum – m.a. á Maupassant). Hertha var þýsk kona, gift Haraldi Leóssyni, sem þýddi bókina. Mamma segir mér að hún hafi gengið undir heitinu „litli menntaskólinn“ á efri árum, af því það hafi nánast ekki verið sá nemandi við MÍ sem ekki var í einkakennslu hjá honum. Jútta hefur undirtitilinn: Hjúskaparsaga frá Leipzig . Þetta er ástarsaga og gæti varla verið ólíkari Grjóti og gróðri . Hún fjallar um efri-stéttar stúlku, barnaskólakennarann Júttu Sanden, sem býr með móður sinni í Leipzig. Jútta hefur í senn áhuga á að mennta sig og að gifta sig. Hún er fögur og sækir dansleiki og margir vonbiðlar gera hosur sínar græna fyrir henni, án árangurs. Hún er hugfangin af prófessornum sínum, Georg Burkhardt, sem er svo klár og sætur og horfir svo mikið á hana í tímum. Jútta kemst loks í færi við hann á dansleik – sem hann sækir bara til að hitta hana – og móðir hennar býður honum heim til þeirra að skoða bréf sem Nietszche hafði skrifað föður Júttu (en Burkhardt er að vinna að bók um Nietszche og Goethe). Hann kemur og þau tala nánar saman og halda sambandi en ekkert verður þó úr neinu og Jútta verður sannfærð um að hann vilji sig bara fyrir vin. Þegar þær mæðgur fara svo í frí situr Burkhardt fyrir Júttu og biður hana að bíða sín. Hún veit samt eiginlega ekki lengur hvað henni finnst um þetta allt saman og lofar engu. Mæðgurnar fara fyrst að Vierwaldstättervatni þar sem ungur strákur fer að gera hosur sínar grænar fyrir Júttu – en hann er bara sextán. Þar gerist sosum ekkert merkilegt annað en að strákurinn er skotinn og Júttu finnst það vandræðalegt (hún er 24 minnir mig). Frá Vierwaldstättervatni er haldið til Lugano og þar hitnar nú heldur betur í kolunum þegar Jútta kynnist „söngmanninum fræga frá Köln“, Carlo Lenz – án þess raunar að bera kennsl á hann í fyrstu, sem er líka það sem laðar Carlo að Júttu: hún sér manninn og ekki bara frægðina. Þau hefja nú einhvers konar ástarsamband – haldast mikið í hendur og Jútta þykist loks vita hvað ástin sé. En þá kemur babb í bátinn. Dag einn er þau eru á leið í göngutúr stoppar vagn við gistihúsið og út kemur glaður drengur sem hleypur í fang pabba síns, Carlos, og á eftir honum kona hans, sem biður Carlo að kynna sig fyrir þessar heillandi ungu stúlku. Sem hann gerir kurteislega en án þess að láta neitt uppi. Jútta hleypur upp á herbergi til að bresta í grát. Móðir Júttu verður nánast samstundis áskynja um þetta hneyksli og skipuleggur tafarlausa brottför þeirra aftur heim. Þar fer Jútta aftur að kenna en finnur ekki gleðina í því og sinnir starfinu illa. Í dramakasti segir hún upp vinnunni og fer aftur í skóla til að mennta sig frekar og komast aftur í tæri við Burkhardt. Þau ná strax saman, gifta sig og hún verður heimavinnandi húsmóðir – en kann því lífi öllu fremur illa. Hana dreymir um að Burkhardt leyfi sér að aðstoða sig við skrifin en það kemur ekki til greina. Hann hreifst af gáfum hennar sem námsmeyjar en vill ekki að eiginkona sín sé eitthvað að buga sig á lærdómi, sérstaklega ekki þegar rekstur heimilisins kostar mikla athygli – og þar er aðalatriði að gæta þess vel að hann hafi næði til að vinna. Vinkonur Júttu, hinar eiginkonurnar, hafa ekki áhuga á neinu nema barnauppeldi og þvíumlíku. Sjálfa langar Júttu í barn en Burkhardt vill ekki heyra á það minnst – a.m.k. ekki í bili – enda mikil truflun af börnum. Á endanum fer Jútta að gera alls konar uppreisnir – fer að sækja fyrirlestra aftur, í leyni, og taka stjórnina í samræðum þegar það eru gestir, og heilla hina eiginmennina með gáfum sínum (en gera konur þeirra mjög ringlaðar). Burkhardt fer að skammast yfir þessu, því endaþótt karlmennirnir taki þessu glaðlega sé næsta víst að eiginkonurnar séu í þessum orðum töluðum að níða hana niður og gera orðspor hennar að engu. Jútta tryllist og gefur sterklega í skyn að hún vilji skilnað. Þá bakkar Burkhardt og lofar að skrá hana í einhvern gáfumannaselskap – „Schiller-félaginu“. En henni finnst það allt fremur þunnt og að þar væri hún bara skjólstæðingur hans – en bakkar þó með þennan skilnað í bili. Þá stingur bróðir Júttu upp á að þau geri sér öll glaðan dag og skelli sér á söngskemmtun. Hinn víðfrægi Carlo Lenz mun væntanlegur til Kölnar. Jútta tekur þessu fagnandi og langar að hitta Carlo sinn aftur – eftir fimm-sex ár – en óttast líka að hann hafi gleymt sér. Þegar hann kemur og vill hitta hana áttar hún sig á að svo er alls ekki. Þvert á móti kemur í ljós að hann hafði skrifað henni mörg og löng bréf sem aldrei bárust (sennilega hefur móðirin hent þeim en það kemur aldrei fram). Þegar kona hans kom til Lúganó höfðu þau þegar verið fráskilinn í tvö ár, en héldu því leyndu barnanna vegna. Hún var sturluð af afbrýðissemi út af listalífi hans. Jútta finnur að hún er enn ástfangin – þau kyssast heitt og hún snýr sér til Burkhardts með málið og segir honum allt af létta. Fólkinu í kringum Júttu líst ekkert á þetta – Burkhardt reynir að snúa henni en án árangurs. Allir halda svo í sitt horn – Carlo fer úr bænum, Jútta út í sveit með mömmu sinni og Burkhardt er áfram í borginni. Hún fær daglega bréf frá Carlo og reglulega bréf frá Burkhardt líka. Bókin endar einmitt á því að hún fær bréf frá Burkhardt sem segist hafa fengið stöðu í München og leggi örlög þeirra í hennar hendur – hún hafi nú haft nægan umþóttunartíma til að hver ákvörðun sem hún tekur sé ekkert fljótræðisrugl, einsog var hans ætlan – „Ég hefi dregið tímann á langinn, til þess að þú rasaðir ekki um ráð fram í einhverri blindni.“ – en vilji hún skilnað fái hún hann í kyrrþey. Tár stóðu í augum Júttu.
Frú Sanden kyssti dóttur sína mjúklega á brúna hárið.
„Nú skulum við senda Carló skeyti.
Komdu góða.“ ENDIR. Það er auðvitað ekki sanngjarnt að bera harm Júttu og Þorláks saman. Jútta er dyggðug og hefur efni á því, en það leysir ekki hamingjupúslið eitt og sér; Þorlákur er ekki dyggðugur, hefur ekki efni á neinu, og manni er þvert um geð að afsaka gerðir hans eða skoðanir, en finnur sig tilknúinn að reyna að skilja hann. Hann er fáfróður en hún lærð. En svo er auðvitað hægt að rífa báðar sögur á hol fyrir fordómafulla sýn sína á heiminn – allt í kringum bækilinn er efni í svakalegan „nútímalestur“. Og ef frá er talin ein sena í upphafi Júttu þar sem fólk horfir á eftir Júttu og móður hennar og býsnast yfir því hvað þær séu fínar frúr, er bókin alveg laus við nokkra sýn á stéttaskiptingu, nema svona rétt hvernig hún birtist í ólíkum lögum efri-millistéttarinnar. Hún gerist í algeru tómi, þar sem fátækt fólk er eiginlega ekki til. Í Grjóti og gróðri hafa margar konurnar séð inn á ríkramannaheimilin – þar sem þær hafa þrifið – og dreymir um dásemdirnar þar. Sennilega lýsir Grjót og gróður betur „stöðu kvenna“ – a.m.k. fleiri kvenna – á þessum tíma en Jútta, þótt fókusinn sé ekki nema af og til á konurnar þar. Grjót og gróður flakkar um í heilabúum sögupersóna sinna og Jútta gerir það aðeins í upphafi en skiptir svo um gír og heldur sig bara við heilabú Júttu. Afstaða hennar til eigin kvenréttinda er svo forvitnileg. Hana dreymir eiginlega ekki um eigin frama heldur að eiga hlutdeild í frama manns síns – um einhvers konar bandalag þar sem hún verði metin að verðleikum, sem músa og aðstoðarkona, fremur en sem meistari eigin tilvistar. Konurnar í Grjóti og gróðri eru – einsog karlarnir – örvæntingarfyllri eða hreinlega fatalískari og taka bara því sem að þeim er rétt, einsog sést berlegast í þessari senu þar sem Júlía hleypir Þorláki upp í til sín upp á það loforð að hann leyfi henni að vera. Það kemur svo fram að bara það að hann haldi þetta loforð sé og sé mestmegnis almennilegur við hana sé nú meira en hún hafi vænst – eða fengið við önnur álíka tilfelli. En svona er Þorlákur líka sjálfur. Hann tekur bara því sem hann fær í vinnu og þakkar fyrir að fá eitthvað og býsnast ekkert nema þegar hann er svikinn, og þá er nánast einsog hann kenni sjálfum sér um að hafa ekki vitað betur. Annað en Jútta, sem er mjög upptekin af eigin örlögum, veltir fólkið í Grjóti og gróðri sjaldan fyrir sér stöðu sinni í heiminum – hún bara er. Undantekningin er kannski synirnir, sem verða sósíalistar, en maður sér það eiginlega mest frá sjónarhóli föðurins sem hefur áhyggjur af því að þeir séu að fara sér að voða og láta einhverja bavíana út í bæ heilaþvo sig. Og maður skilur að þetta skref – að setja ofan í við stórgrósserinn – hefur verið miklu dýrkeyptara á þessum tíma heldur en nokkurn tíma síðar.

Konur sem kjósa menn

Ég er voða mikið í einhverju grúski þessa dagana. Eitt af því sem ég rak augun í fyrir tilviljun, í leit að allt öðru, var grein í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga, þar sem fram kemur að tvær konur hafi kosið í hreppsnefnd í Mosvallarhreppi í Önundarfirði árið 1874 – en þann rétt fengu konur ekki fyrren 1882. 35 manns kusu alls og þar af voru sem sagt þær Ingibjörg Pálsdóttir á Kirkjubóli í Bjarnadal og Steinunn Jónsdóttir á Hesti. Ekki kemur fram hvað þær kusu – en það kemur þó fram að það sé vitað, enda hafi kosningar verið opinber gjörningur og skrásett hver kaus hvað. Gera má ráð fyrir að þær hafi kosið karlmann, enda voru þeir einir í kjöri. Ástæðan fyrir þessu er síðan forvitnileg túlkun kjörstjórnarmanna á tilskipun um sveitarstjórn á Íslandi frá 4. maí, 1872, þar sem segir: Kosningarrétt og kjörgengi til hreppsnefndar á hver búandi maður, sem hefur óflekkað mannorð, er 25 ára að aldri og er ekki öðrum háður sem hjú, ef hann síðasta árið hefur haft fast aðsetur í hreppnum og goldið til hans þarfa, stendur ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk og er fjár síns ráðandi. Töldu kjörstjórnarmenn að konurnar tvær – sem réðu fyrir eigin búi, höfðu náð tilsettum aldri (42 og 52 ára), voru hvorki hjú, fátæklingar eða ómagar og uppfylltu önnur skilyrði – væru auk þess menn í réttum skilningi þess orðs á íslensku, þótt þær væru kannski ekki mænd upp á dönsku – einsog var sennilega sá skilningur sem lagður var í tilskipunina af þeim sem skrifuðu hana, á dönsku, eða þeim sem þýddu hana á íslensku. Enda er þetta eina dæmið um að tilskipunin hafi verið svo túlkuð.

Sól, Stund, sund og sjómenn

Það styttist óðum í að sólargeislarnir nái niður í bæ. Tæp vika áður en það getur tæknilega gerst. Áður en til þess kemur mun ég reyndar halda suður á bóginn í sumarbústaðarferð. Eða vetrarbústaðarferð. Ef heppnin er með okkur munum við njóta sólar í þeirri ferð. Svo þegar við komum til baka bökum við pönnukökur (25. jan.) og drekkum kaffi. Það er eini dagurinn á árinu sem ég baka pönnukökur – annars sér Nadja um það og gerir oft. Stundum hefur reyndar verið skýjað í lengri tíma eftir sólardaginn. Þá sér maður enga sól. Stundum er bara vitlaust veður, dag eftir dag. Ég er langt kominn með fyrstu Stund þessa vefmiðlalausa lífs. Þetta er svolítið einhæft, sérstaklega fyrri hluti blaðsins – persónulegur harmur og fjármálavafningar. Og sumt af því er bara þegar orðið frekar gamalt þegar blaðið kemur út – það var alveg ástæða til að kovera Vitalíumálið en það er einsog það hafi gleymst að finna einhvern vinkil á það annan en að mylja bara ofan í mann tíu daga gamla fréttapunkta. Kannski er þetta grein sem birtist strax á netinu. En staðreyndir hætta hratt að vera fréttnæmar. Myndlistarumfjöllun Hillbillysystra bjargar svo blaðinu. Illugi átti líka góðan sprett – þótt ég hefði gjarnan viljað fá einhverjar heimildir um að fólk hafi beinlínis viljað að sjómenn væru ósyndir svo þeir kveldust skemur í hafinu. Það er nógu ankannaleg hugmynd til að bera sig illa sem heimildalaus endursögn – maður hváir ósjálfrátt. Og veltir fyrir sér hvenær nákvæmlega fólk hafi verið þessa sinnis. Kannski missti ég bara af því samt. Ég hraðfletti síðunum sem ég á eftir til að athuga hvað væri í vændum og mér sýnist að það sé ljósmyndaumfjöllun, tónlistarumfjöllun og kannski meiri menning en engar bókmenntir (einsog ég hafði sosum reiknað með).

„Mjór er sá vegur sem liggur til lífsins“

Í síðustu viku rann það upp fyrir mér að frá því Brúin yfir Tangagötuna kom út hefur verið flutt út úr bæði húsinu á móti og húsinu norðanmegin og nú er nágranninn fyrir aftan okkur að flytja líka. Ég veit ekki hvað ég á að lesa í það. Nágranninn sunnanmegin flutti líka á tímabilinu en þar kom strax maður í manns stað. Mér skilst líka að nágranninn norðanmegin komi aftur í vor og að það verði flutt í húsið fyrir aftan okkur strax og núverandi nágranni flytur út. Beggi á móti hafði svo sennilega ekkert val – hann var kominn á aldur. Við þetta má svo bæta að einu nágrannanarnir sem ég veit fyrir víst að hafi lesið bókina, Tinna og Gylfi, eru líka einu svona „næstu“ nágrannarnir (þar sem maður sér inn – ukuleleið á stofuveggnum þeirra blasir við og einsog speglar ukuleleið á stofuveggnum okkar) sem hafa ekki flutt neitt. Annar nágranni minn – einu húsi fjær sunnanmegin, maður sem ég vann með í rækjunni – stoppaði mig á dögunum í óveðri og hrópaði í gegnum rokið: „VEISTU HVERNIG HÁRIÐ Á ANDRÉSI ÖND ER Á LITINN?“ Ég stoppaði og verandi andlaus™ eftir jólavertíðina spurði ég hvort það væri ekki hvítt? „NEI HANN ER DUCKHÆRÐUR!“ hrópaði þá nágranninn.

Blöðin og Hagalín

Morgunblaðið er frekar íhaldssamt blað. Sem er hressandi. Það er ekki gott fyrir mann með mótþróaröskun að vera fastur í búbblu. Það er betra að býsnast yfir málflutningi pólitískra andstæðinga sinna en að býsnast yfir málflutningi svonefndra samherja sinna. Í morgun las ég dásömun á verstu íhaldsseminni í nýju bók Houellebecq, vörn (dulbúinni sem hlutlaus umfjöllun) fyrir transruglinu í JK Rowling og Reykjavíkurbréf um hvað Trump væri misskilinn og hvernig almennt væri nú samþykkt að veiran hefði orðið til í kínverskri rannsóknarstofu. Reyndar las ég líka ágætis viðtal við næringarfræðing og annað við Björn Hlyn – þar sem fram kom að hann vilji gera Ölver að heimili blústónlistarinnar og gott ef mér finnst hann ekki bara 15-20% betri leikari eftir að ég frétti það. Mín bíður svo Stundin. Á morgun ætla ég sem sagt að býsnast yfir ofvirkri félagslegri uppljómun – frjálslyndinu sem trúarsetningu. Það komu engin blöð frá þriðjudegi og þangað til í gær – ég lét vera elstu moggana en hirti lau- og sun og svo þessa Stund. Ég verð hissa ef það verður jafn mikið um bókmenntir í Stundinni og í sunnudagsmogganum – þótt það sé ekki beinlínis „mikið“ þar heldur. Annars er ég alveg dottinn í lókalbókmenntirnar og er að ljúka við níunda bindið í ævisögu Guðmundar G. Hagalín. Fyrstu átta bindin fjalla um bernsku, æsku, unglingsár og allra fyrstu fullorðinsárin (ég hoppaði yfir þau). Hagalín er rétt tæplega þrítugur þegar níunda bindið – Þeir vita það fyrir vestan – hefst. Þetta er áhugavert efni, sérstaklega fyrir ísfirskan rithöfund kannski, en líka bara líf í tuskunum. Það slær mig hvernig pólitískur klofningur hefur litið allt öðruvísi út á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Hagalín er mikið í mun að sýna að sér sé vel við alls konar fólk sem er ósammála honum. „Sjálfstæðismaður, en drengur góður“ er einkunn sem maður sér víða. Hagalín var auðvitað eðalkrati og bæjarmálamafíósi af guðs náð – í makkerí með Finni Jónssyni, Haraldi Guðmundssyni og Vilmundi landlækni – og þeir svífast einskis. Eru að mörgu leyti íhaldssamir en líka framfarasinnaðir og fullir af krefjandi kærleik í garð smælingjanna (þeir setja t.d. reglur um að það megi ekki eyða sveitastyrknum í óholla fæðu – fá kaupmenn í lið með sér og láta merkja alla hollustuna sérstaklega í búðunum). Þá er honum tíðrætt um marga kommúnista að þeir séu gáfumenni og jafnvel drengir góðir (en auðvitað heilaþvegnir af Sovétinu). Næstu stund er hann að gera Brynjólf Bjarnason hlálegan á fundi með því einu að svara ræðu hans með einu „halelúja“, að bola kommúnistum úr verkalýðsfélaginu og nefndum og að rota sjálfstæðismenn úti á saltfiskreitunum þegar þeir eru að gera sig líklega til verkfallsbrota. Það er svo alþekkt að bæjarblöðin á þessum tíma, Skutull og Vesturland, eru ofsalega hörð. Mjög fyndin oft – en líka bara bókstaflega svo rætin að maður skilur ekki að þetta fólk skuli geta hafa mæst mörgum sinnum á dag á förnum vegi án þess að skiptast á gúmorrenum; sem það hlýtur þó að hafa gert. Altso mæst, ekki slegist. Og ef það er eitthvað að marka Hagalín fór nú bara vel á með þeim, þegar það var ekki að takast á í bæjarblöðunum eða svindla hvert á öðru í atkvæðagreiðslum eða rota hvert annað á saltfiskreitunum. Enda drengir góðir. Það er líka áhugavert að hugsa um stöðu Hagalíns sem „borgaralegs höfundar“ – hann sem var frekar rauður krati (sérstaklega á nútímastaðli) en taldi kommúnista hálfgerðan skríl. Hinumegin pólitíska rófsins í íslenskum bókmenntum, sem nær frá krötum að kommum, eru svo menn einsog HKL og Þórbergur en þeir eru líka hinumegin við Vilmund landlækni – sérstaklega eru Þórbergur og Hagalín í miklu vinfengi við Vilmund (sem er með Hagalín í öllum krataplottunum til að klækja á kommunum á Ísafirði). Og einhvern veginn undarlegt að hugsa um Vilmund sem snertipunkt eða nöf milli þessara fylkinga. Það segir svo sína sögu um þessa ævisögu Hagalíns að ég man ekki hvað konan hans heitir. Hún kemur yfirleitt bara við sögu sem „kona mín“ og þá jafnan til þess að nefna hvað hún er alltaf ægilega bíl- og sjóveik. Þau geta ekkert ferðast án þess að hún sé til vandræða. Maður veit ekki alltaf hvort Hagalín hefur nokkra samúð með henni – eiginlega fær maður það á tilfinninguna að þetta fari mjög í taugarnar á honum. Kannski er það ósanngjarnt mat. Ég held þau hafi skilið á endanum en þar sem Hagalín skrifaði aldrei fleiri bindi í þessa ævisögu veit það sennilega enginn fyrir víst. Annað sem vekur athygli mína er að alltaf þegar bækurnar hans fá góða dóma segist hann hafa verið „afar hissa“. En þegar hann fær slæma dóma segir hann sögu af því hvernig hann náði sér niður á ritdómaranum síðar, oft með einhverri vel tilfundinni athugasemd eða klækjum.