Nú er mér svo gott sem öllum lokið

Ég ákvað snemma í haust að ég myndi binda enda á jólabókaflóðið þann 10. desember. Það er á morgun. Frá og með laugardegi verður jólabókaflóðið sem sagt bara að redda sér án mín. Þetta hlýtur að hafa spurst út á ritstjórnum landsins því nú hrannast dómarnir inn – ég fékk í Víðsjá og Kiljunni í gær og í Fréttablaðinu í morgun. Tveir afar jákvæðir (Kiljan og Fréttablaðið) og einn afar neikvæður (Víðsjá). Í öðrum þessum jákvæða kom reyndar fram að bókin væri „sennilega ekki allra“ – sem útskýrir sennilega þriðja dóminn. En Þorgeir og Kolbrún í Kiljunni sögðu reyndar að bókin væri furðu aðgengileg þrátt fyrir einhverjar bókmenntalegar pírúettur og stæla. Víðsjárdómurinn átti reyndar þessa fallegu línu, sem mér finnst endilega að verði að fá að komast á framfæri (enda lýsir hún bókinni ágætlega): Undir lok bókarinnar erum við komin svo djúpt ofan í naflann á Eiríki Erni að ég er ekki viss um að við komumst nokkurn tímann út aftur. Ég gæti átt von á einum dóm í viðbót strax á morgun – þá kemur Stundin og þau voru allavega að reyna að falast eftir mynd af mér í vikunni. Svo veit maður aldrei með bloggin. Á morgun er síðan útgáfuhófið. Uppskeruveislan. Partíið. Það er langbest að gera það síðast. Þá fer maður ekki þunnur af stað í jólabókaflóðið. Mætir ekki skjálfandi, rjóður og þvalur í settið til Egils. Þess í stað er maður bara þunnur heima í sófa, treður í sig smákökum, íbúfeni og jólaöli. Það verður mikið um dýrðir í þessu boði, sem verður haldið í Dokkunni klukkan 20. Í fyrsta lagi verður auðvitað frír Dokkubjór (á meðan kúturinn endist). Áfengislaust fyrir þá sem það vilja. Og svo nóg af bjór (og áfengislausu) til sölu eftir það. Í öðru lagi verða fríar baðendur (jafn margar og sóttvarnarlæknir leyfir af fólki). Í þriðja lagi verður ritlistarleikur með upplestri og bókmenntabrennu. Í fjórða lagi verða fjögur stutt tónlistaratriði – ég ætla að leika jólalag, Skúli frændi/mennski tekur eitt lag, einsog Andri Pétur/Gosi og Mugison mætir með nikkuna . Í fimmta lagi verður bóksali á svæðinu og bæði Einlægur Önd og Brúin yfir Tangagötuna á tilboði. Í sjötta lagi er rúsínan í pylsuendanum. „Hljómsveitin Bubbi Morthens“ leikur fyrir söngi. Í þessari sveit erum við Örn Elías (trommur), Skúli (gítar) og Rúna (bassi). Söngur verður í höndum (eða munnum) gesta.

Síðasta flugferðin

Jæja. Nú fer að hægjast á jólabókaflóðinu, fyrir mína parta a.m.k. Það er búið að vera mjög gaman en aðalpartíið er samt eftir. Útgáfuhófið verður haldið á Dokkunni á Ísafirði næsta föstudag. Einlægur Önd verður auðvitað þemað en ég hugsa að ég lesi ekkert upp úr henni – nema ritlistaræfinguna sem ég ætla að láta gesti þreyta. Ég er enn að raða upp tónlistaratriðum en botninn í kvöldið slær sing-a-long hljómsveitin „Bubbi Morthens“, sem leikur bara lög eftir Bubba Morthens – en í henni erum við Rúna Esradóttir, Skúli „Mennski“ Þórðarson og Örn Elías Mugison. Ég er svona næstum ákveðinn í því líka að spila sjálfur jólablúsinn hans Bobs Dylan sem ég tók upp fyrir Blús Mánaðarins síðustu jól (en verð þá að rifja upp – ég man þetta ekki). Mig vantar enn þrjú stutt tónlistaratriði önnur en það er ekki vegna þess að ég hafi engan að spyrja. Ég á 65 baðendur og fólki verður boðið að taka eina með sér heim – og þá munu samkvæmt sóttvarnarhámörkum a.m.k. 15 endur ganga af. Ég reikna a.m.k. með því. Núverandi takmarkanir gilda fram á miðvikudag og mér finnst sennilegt að þær haldi sér – ef það verður ekki einhver omíkron sprenging, Þórólfur er með fingurinn á gikknum. Mér finnst a.m.k. mjög ólíklegt að það verði einhverjar rýmkanir – ekki að maður þurfi þær mikið í bókabransanum. Fyrst og fremst á þetta bara að vera veisla. Ekki auglýsing fyrir bók, ekki plögg, ekki afsökun til að herja á samfélagsmiðla, heldur veisla. En það verður samt bóksali á svæðinu! Ég sit annars á Reykjavíkurflugvelli. Hér er krökkt af öllum helstu skemmtikröftum landsins – ég gæti best trúað því að á Ísafirði sé löng biðröð af menntaskólanemum á leiðinni í hraðpróf einhvers staðar. Ef þessi vél hrapar verður það svartur dagur fyrir íslenskt grín, íslenskt rapp og íslenskt indí. Ég sagði við einhvern um daginn að frá því ég eignaðist börn hafi ég varla farið upp í flugvél án þess að verða hræddur um líf mitt. Þetta eru auðvitað ýkjur – ég svitna ekki og þarf ekki róandi og þetta er ekki alveg undantekningalaust – það var svo rólegt að fljúga hingað í fyrradag að ég varð aldrei hið minnsta órólegur. Annars er ég alltaf sannfærður um að sennilega sé vélin að fara að hrapa og tek því bara frekar æðrulaus – þetta hefur komist upp í vana. Hugurinn tekur við og minnir mig á að þetta hafi ég nú líka sagt síðast – það sé hreinlega ekkert að marka mig.

Jólablús

Ég er svolítið blúsaður. Það er reyndar á dagskránni að dusta fljótlega rykið af blúsblogginu (sem verður þá bara hér innanum) enda sagt að ekkert lækni blús einsog blús. Aðra hverja nótt sef ég sama og ekkert og þá næstu ligg ég gersamlega rotaður. Það var mikið að gera í síðustu viku og núna er allt pollrólegt. Að vísu er ég að fara suður á morgun í upplestra og svo aftur á Flateyri á laugardag. Í næstu viku þarf ég svo að klára að skipuleggja útgáfuhófið mitt – sem á að binda endi á jólabókaflóðshasarinn fyrir mína parta. Einsog mér finnst gaman og endurnærandi og inspírerandi að tala um bókmenntir og hitta lesendur og aðra höfunda – sem margir eru góðir vinir mínir, og ég hitti alltof sjaldan – þá setur þessi athyglis- og upphefðarkeppni mig svolítið á hliðina. Ég hef aldrei átt í heilbrigðu sambandi við hégómann í sjálfum mér og veit ekki einu sinni hvernig slíkt samband ætti að líta út. Ég íhugaði það fyrr í ár að gera bara ekkert í jólabókaflóðinu – best væri að fara bara úr landi og skilja símann eftir. En beilaði á því með þeirri afsökun að forlagið yrði sennilega brjálað ef ég gæfi bara skít í þetta allt saman, en sannleikurinn er sennilega líka sá að ég væri líklegur til að eyða þá bara jólunum í að naga mig í hnúana. Það sem ég geri yfirleitt til að vinna bug á þessum blús (sem eltir mig alltaf svolítið) er að hlaupa og stunda jóga – og spila blús. Hlaupin og jógað eru úr myndinni út af hnénu (slitið krossband) – ég get farið á þrekhjól, en á í mestu vandræðum með að staulast í ræktina í þessari færð, það er flughált og snjólag yfir – og hef haft undarlega litla eirð í mér til að spila upp á síðkastið. Á eftir fer ég í fyrstu sjúkraþjálfunina – og við Nadja ætlum að borða tvö í kvöld. Svo ætla ég að reyna að eyða deginum í að lesa bara. Sennilega er það mest þreytan sem er að leika mig svona. Og hnéð. Jólablús dagsins á þessum fyrsta þriðjudegi í aðventu er með Butterbeans & Susie.

Hafnarferð

Það er svartur föstudagur – myrkir markaðsdagar – og ég hef ekkert keypt í allan dag ef frá er talin ein kókómjólk og roastbeefsamloka í morgun. En í gær keypti ég mér nýja vettlinga, í staðinn fyrir par sem týndist á Höfn, og í fyrradag pantaði ég tvær bækur á netinu og í hittifyrradag keypti ég nýjan bakpoka, í staðinn fyrir þann sem skemmdist um árið, og daginn þar á undan keypti ég nýjan plötuspilara í staðinn fyrir þann sem var farinn að spila allar plötur alltof hratt. Svo það er ekki einsog ég sé neitt langt á eftir ykkur hinum í neyslukapphlaupinu. Ég geri þetta bara allt saman á mínu eigin tempói. Annars er allt ágætt að frétta. Ég fór til bæklunarlæknis í morgun og hann vill nú hafa mig undir einhverju eftirliti en líst ágætlega á þetta samt. Ef ég hætti að sýna karatespörk og vera með fíflalæti læknar þetta sig kannski – jafnvel líklega – með aðgát og æfingum. Ég má meira að segja fara í ræktina og svona og ætla að nota tækifærið á eftir. Það var mjög gaman á Höfn. Auk þeirra sem voru að lesa upp á kvöldinu – Sölvi Björn, Haukur I, Þórunn Jarla og Kristín Ómars – birtust Ófeigur Sigurðsson, kominn alla leið ofan af Öræfum með sinni frú, Kristínu Karolínu, og Arndís Þórarinsdóttir, sem var að kenna ritlist á svæðinu. Þá voru heimamennirnir Soffía Auður og Gímaldin okkur til halds, trausts, skemmtunar og leiðsagnar. Þetta er ekki alveg leiðinlegasta fólkið sem maður umgengst, það verður nú bara að segjast einsog er. Næst á dagskrá er Opin bók á morgun. Svo fer ég suður á miðvikudag og les upp á Bókasafni Hafnarfjarðar ásamt Sigrúnu Páls og Kamillu Einars á fimmtudag – og eitthvað morgungigg líka hjá Þjóðskrá (en það er nú áreiðanlega harðlokað – allavega fyrir þá sem eru ekki í þjóðskrá). Svo er komið nýtt og verra afbrigði. Það verður engin uppkosning. En ég er bara heima að drekka kaffi og hlusta á Fleetwood Mac á nýja plötuspilaranum. Í kvöld ætlum við að borða pizzu og fara á Ghostbusters í Ísafjarðarbíó. Það er ekki verri leið en hver önnur til að þreyja þennan hægdrepandi heimsendir.

Einlæg, sprenghlægileg og á brýnt erindi

Ragnhildur Þrastardóttir skrifaði afar lofsamlegan dóm um Einlægan Önd í Morgunblaðinu í vikunni og gaf bókinni fjórar og hálfa stjörnu. Einlægur Önd er einlæg, stundum sprenghlægileg saga, þar sem höfundur afhjúpar sjálfan sig, eða einhverja útgáfu af sjálfum sér, og tekst á við erfiðar spurningar sem eiga brýnt erindi við samtímann.

Glósur fyrir Kveik

Í kvöld var ég í viðtali í Kveik. Áður en þau bönkuðu upp á og tóku spjallið settist ég niður og glósaði hjá mér eitt og annað af því sem ég gat hugsað mér að segja „í ljósi umræðunnar“. Ég var beðinn sérstaklega að vera ekkert að spá í Þóri Sæm sérstaklega og hef ekkert sérstakt vit á því máli heldur – ég var kallaður til vegna þess að ég hef verið að skoða fyrirgefningu og sekt og skömm og smánun í bókinni Einlægum Önd (og raunar má finna þessi þemu í flestum bókanna minna). Mér lætur almennt betur að hugsa með fingrunum en munninum. Þetta hér að neðan er ekki í neinni sérstakri röð og flest af þessu sagði ég sennilega alls ekki í viðtalinu – enda vissi ég ekki að hverju þau myndu spyrja eða hvert samræðan myndi leiða. Ég hef ekki horft á þáttinn enn en mér skilst að uppleggið hafi verið þannig að við tjáðum okkur nokkur úti í bæ og svo voru röksemdir okkar ræddar í sjónvarpssal. Ég vissi ekki af því uppleggi fyrirfram og finnst það svolítið skrítið, einsog að láta þræta við sig að sér fjarstöddum – en ekkert þannig að ég missi svefn yfir því samt. Þetta eru brot, ekki samhangandi mál – glósur fyrir samtal og ekki greinargerð – en kannski varpar þau einhverju ljósi á þá óvinsælu afstöðu sem ég var að reyna að verja. Eitthvað er um endurtekningar. *** Afstaða mín er í grunninn sú að eitt af einkennum mannúðlegs samfélags sé ekki bara að það verndi þá sem verða fyrir ofbeldi heldur að það beiti ofbeldismenn sína mannúðlegum refsingum og sé tilbúið til þess að skilja þá (sem er ekki það sama og að afsaka þá). Allar refsingar sem hafa enga lögun – alveg sama hversu smávægilegar þær eru – verða á endanum ómannúðlegar. *** Vandamálið við félagslega útskúfun, sem er viðbragð við óásættanlegum en illleysanlegum brestum réttarkerfisins, er að hún hefur enga sérstaka lögun – hún er einsog skuggi sem bara vomir yfir og getur birst hvar sem er og hvernig sem er. Það er ómannúðlegt. *** Vandamálið við reiðina sem mætir þeim brestum er að hún gerir engan greinarmun á mannúð og meðvirkni – því að vilja halda aftur af refsigleðinni, án þess að afsaka glæpina. Öll miskunnsemi er afgreidd sem (dulinn) vilji til þess að viðhalda ofbeldi. Það er ekki bara réttlátt að sýna skilning og miskunn, heldur er það praktískt betra – harðar refsingar eru þvert á það sem margir virðast halda ekki vel til þess fallnar að skapa ljúfara samfélag, sem ég held að hafi einfaldlega margsýnt sig.
***
Sá sem á sér aldrei viðreisnar von er miklu líklegri til þess að verða bara illur – eitt, en sem betur fer alls ekki það eina, af því sem heldur okkur góðum óttinn við að glata ærunni. Og eitt af því sem hvetur okkur til betrunar er voninn um að fá hana aftur – að geta áunnið okkur traust á ný. Ef þeim dyrum er lokað – eða breytt í hálfgert nálarauga fyrir útvalda gerendadýrlinga – er hætt við að það verði á endanum ansi fámennt inni í hlýjunni.
*** Það er mikilvægt að við látum þetta ekki snúast um þolendur vs. gerendur. Það hvernig við sem samfélag hanterum gerendur er ekki á ábyrgð þolenda – hvorki linkind okkar né grimmd. Það er bara á okkar ábyrgð, við dílum við það sem samfélag. ***
Við verðum að horfast í augu við að megnið af því fólki sem brýtur svona af sér er óttalegir lúserar. Það er erfitt að ætlast til þess að lúserarnir verði svo alltíeinu fullkomnir þegar þeir gera upp sakir sínar. En það þýðir ekki að við ættum að hunsa viðleitni þeirra – eða banna þeim að bera fram málsbætur sínar. Gerendur og jafnvel sakamenn eiga líka rétt á upplifunum sínum og frásögnum, jafnt þótt við ætlum að hlusta betur á þolendur.
***
Mér finnst við einblína of mikið á iðrun og jafnvel skilyrðislausar játningar þegar kemur að samfélagslegri afgreiðslu kynferðisbrotamanna. Við gerum þetta ekki nema að litlu leyti við sakamenn – við gerum ekki játningar að skilyrði fyrir því að þeim verði hleypt út og þeir endurheimti réttindi sín. Að horfa síðan til iðrunar og þess að við sem samfélag ætlum að fara að leggja einhvers konar mat á það hvort maður hafi iðrast nóg eða verið einlægur í iðrun sinni – þá tökum við okkur ekki bara stöðu gagnvart einstaklingnum einsog við værum drottinn almáttugur, heldur erum við búin að binda uppreist gerenda við hæfileika þeirra til að vekja samúð okkar, sem er mjög mismunandi og bundin ýmsum þáttum, ekki síst stéttarlegum. Þannig getur sonur sálfræðinga úr vesturbænum skilið betur hvaða performans er vænst af honum en segjum iðnaðarmannasonur úr úthverfunum – sem kann ekki einu sinni rétt tungutak.
***
Það er alveg sama um hvaða refsingar er að ræða, það er raunverulega grundvallaratriði að sá sem verður fyrir þeim fái að vita hvernig þær eru í laginu. Hversu lengi þær gilda, hversu langt þær ná – má viðkomandi starfa í búð þar sem hver sem er getur þurft að eiga í viðskiptum við hann, má hann lesa inn á útvarpsauglýsingar ef það er liðinn nógu langur tími, má hann gefa út bók eða kenna, keyra strætó, vinna í sundlaug, bjóða sig fram? Það er hreinlega sadískt að láta fólk komast að því algerlega sjálft – senda það af stað í einhvers konar tilraunamennsku með það hvar mörkin liggja. Það þýðir ekki að við megum ekki hafa persónulega ímugust á fólki – við megum hata alla sem við kjósum að hata persónulega. En að takmarka mannréttindi annarra – t.d. með því að meina þeim um möguleikann á forréttindum sem öðrum standa til boða – er refsing og refsing verður að eiga sér byrjun, endi og tiltekna lögun.

***
Eitt af síendurteknum sándbætum hinna reiðu er að það séu ekki „forréttindi“ að sinna hinum og þessum vinnum – en það er algerlega óútskýrt hvaða vinna er þá ekki forréttindavinna. Það eru afar fá störf sem krefjast þess ekki að við treystum starfsmanninum til þess að triggera ekki eða hreinlega meiða skjólstæðinga sína, viðskiptavini eða samstarfsfélaga. Jafnvel þeir sem eru bullandi sekir – jafnvel morðingjar – verða á endanum að fá aftur traust samfélagsins, lofi þeir að brjóta ekki af sér aftur. Það skiptir máli að það traust sé ekki skilyrt meira en nauðsyn krefur. Og þegar við erum að tala um fólk sem hefur jafnvel alls ekki verið dæmt fyrir neitt hlýtur sá réttur að vera enn sterkari.
***
Við gerum ekki endilega þá kröfu heldur að gerendur standi jöfn reikningsskil við þolendur – mannúðlegt samfélag myrðir ekki morðingjana sína þótt það refsi þeim. Þetta er ekki íþróttaleikur og gengur ekki út á að jafna eitthvað skor. Með þannig reikningsskilum upphefjast bara hjaðningavíg. Það hvernig kerfið hanterar þolendur er að sönnu lélegt – þeir þurfa að fá miklu meiri stuðning – en við leysum ekki vanda þolenda með refsigleði.
***
Það er líka mikilvægt að fólk fái að halda fram sakleysi sínu. Því jafnvel þótt við vöndum okkur eins mikið og við getum þá dæmum við – bæði í dómstólum og hérna í dómstól götunnar – fólk stundum að ósekju. Kannski er þetta það erfiðasta við þetta allt saman: Við erum ekki óskeikul og höfum ekki rétt til þess að gera ráð fyrir því að við séum það. Þess utan eiga jafnvel sekir gerendur líka sitt sjónarhorn – jafnvel málsbætur, eins óþolandi og mörgum finnst að heyra slíkar afsakanir. Við getum ákveðið að taka ekki mark á þeim eða finnast þær léttvægar en við getum ekki látið einsog þær séu ekki til eða farið fram á að þeim verði bannað að bera þær fram. Þá erum við vísvitandi að grípa fyrir bæði augun til að sjá ekki að heimurinn er óþægilegur í laginu. *** Við getum gert hlutina rétt án þess að bregðast þolendum kynferðisofbeldis, án þess að gera lítið úr misyndisverkunum og án þess að líða ofbeldið. Ég hef enga trú á því að kerfi sem ætlar að leysa vandamál þolenda ofbeldis með hörkunni einni saman geri á endanum neitt gagn.

Uppákomur á næstunni (uppfært 16. nóv)

Ég hef eitthvað verið að reyna að skipuleggja upplestra á næstu vikum. Þetta er það sem er komið. Ásamt Guðlaugu Jónsdóttur (Diddu) – sem skrifaði Í huganum heim.

29. október: Bókakaffið í Bolungarvík Klukkan 20.
30. október: Gamla bókabúðin á Flateyri. Klukkan 15.
4. nóvember: Simbahöllin á Þingeyri. Klukkan 20.
5. nóvember: Bókhlaðan (Eymundsson) á Ísafirði. Klukkan 17.
6. nóvember: Hópið, Tálknafirði. Klukkan 16.

8. nóvember: Upplestur í Tónlistarskóla Ísafjarðar með hljómsveitinni Sjökvist.

12-13. nóvember verð ég að lesa ljóð í Bratislava – á Ars Poetica hátíðinni (sem kemur fyrir í mýflugumynd í Einlægum Endi, reyndar). Vikuna þar á eftir verð ég í Reykjavík. AFLÝST 17. nóvember – Bókakonfekt Forlagsins (sennilega í Rúblunni á Laugavegi 18 – gæti trúað að það byrji 21) AFLÝST 20. nóvember – Bókamessan í Reykjavík. Ég verð við afgreiðslu í bás Forlagsins frá 16-17 og tilvalið að mæta ef maður t.d. vill fá áritun eða eitthvað. FÆRT Á NETIÐ 20. nóvember á Bókamessunni í Reykjavík – panell með Fríðu Ísberg. „Rithöfundarnir Fríða Ísberg og Eiríkur Örn Norðdahl ræða nýútkomnar skáldsögur sínar, Merkingu og Einlægur Önd, sem hvor á sinn hátt fjallar um samspil útskúfunar, skammar, sektar og sakleysis.“ Kl. 15.00 í Rímu. 25. nóvember – Höfn í Hornafirði. Þar verð ég í fögrum félagsskap kollega minna. Nánar um þetta síðar. 27. nóvember – Opin bók á Ísafirði – einnig í fögrum félagsskap. 2. desember: Jólabókadagskrá Bókasafns Hafnarfjarðar. 19.45 10. desember – Útgáfuhófið. Þarna ætla ég að binda endahnút á jólabókaflóðið, fyrir mína parta. Það verður í Dokkunni á Ísafirði. Boðið verður upp á einhvers konar tónlistarskemmtun, a.m.k. eina ritlistaræfingu, dálítið af fríum bjór og svo er útlit fyrir að bróðurpartur gesta fái að taka heim með sér baðönd og hugsanlega líka múrstein. En það er allt í skoðun.

Endur, fyrir löngu

Í dag eru fjórar vikur frá því Einlægur Önd kom út og ef frá er talin umsögn bókavarðarins á Höfn í Hornafirði, sem er að vísu mætur maður og var mjög ánægður með mig, hefur bókin ekki fengið mikil viðbrögð. Með hverjum deginum sem líður verð ég meira og meira stemmdur einsog maðurinn í sögunni um tjakkinn . Svona grínlaust þá held ég að þetta sé nú samt allt að fara í gang. Ég fór í viðtal í Bókahúsinu í gær, í Kiljunni áðan og fer og hitti fulltrúa Víðsjár á morgun. Ég verð meira að segja í Kveik í kvöld, og þótt ég sé ekki að tala um bókina þar er ég samt líka að því, í einhverjum yfirfærðum skilningi. Svo hef ég líka loksins farið að „heyra í fólki“ á síðustu dögum. Fram að því fannst mér bara næstum einsog þetta væri einhver misskilningur, ég væri ekkert búinn að gefa út bók, hún væri bara enn á leiðinni – og hafði ég þó lesið upp úr henni oft og selt mörg eintök sjálfur. Kannski skýrist þessi undarlega þyngdarleysistilfinning líka bara af fremur hamslausu verkjalyfjaáti vegna hnésins. Ég haltra um með staf og hatt í íbúfenskýi. Á morgun fer ég í segulómun. Mig grunar að það verði fremur góðar fréttir en slæmar – hef góða tilfinningu fyrir því að þetta sé allt að batna. Rétt í þessu bárust þau boð að búið væri að aflýsa eina upplestrinum mínum í borginni. Bókakonfekt Forlagsins sem átti að vera á Laugavegi 18, þar sem Forlagið er einmitt með nýja búð, hefur verið blásið af. Jæja.

Hvað verður um baðendurnar ef útgáfuhófinu verður aflýst?

Ég er á Heathrow. Það eru 20 mánuðir síðan ég flaug á milli landa síðast. Að hluta helgast það af því að ég tók Norrænu bæði til og frá meginlandinu þegar við bjuggum í Svíþjóð – Nadja og krakkarnir flugu aðra leið. Og svo hefur bara af einhverjum orsökum verið mjög lítið um ljóðahátíðir og bókamessur síðustu misserin og verður sennilega nokkuð áfram. Það er í öllu falli búið að aflýsa bókamessunni í Reykjavík – sennilega verður eitthvað af viðburðunum haldnir rafrænt. Í streymi. Mér þætti mjög leiðinlegt ef þið horfðuð ekki á öll á samtal okkar Fríðu Ísberg í þessu streymi en mér verður sjálfum næstum flökurt bara af því að heyra orðið „streymi“ svo ég skal alveg skilja það ef þið ákveðið bara að taka slátur eða læra loksins vinnukonugripin eða föndrið jólagjafir eða eitthvað. Frá því svona 2008 hef ég sennilega farið að meðaltali eitthvert einu sinni í mánuði. Eða meira. Árið 2013 bjó ég meira og minna í bakpokanum mínum, sem gaf sig einmitt rétt fyrir covid eftir áralanga dygga þjónustu. Bara það ætti að hækka meðaltalið hressilega. En síðustu tvö lækka það mjög aftur. Síðasta ferðin var í febrúar 2020 og þegar ég kom heim lagðist ég flatur í flensu í fjórar vikur – aflýsti einum viðburði (sem er búið að bjóða mér á aftur, rétt í þessu – Atlantide í Frakklandi) og þegar ég steig á fætur var veröldin öll önnur. Í stað þess að túra heiminn (eða allavega næstu nágrannalönd) stofnaði ég hljómsveit með börnunum mínum. Hún heitir Sjökvist og við lékum á okkar fyrstu tónleikum í fyrradag – á undan og eftir stuttum upplestri úr Einlægum Endi/Önd. Það var sturlað stuð og ég hélt ég myndi springa úr stolti. Mér finnst einsog þjóðareinkenni fólks hafi hugsanlega skerpst á þessum einangruðu 20 mánuðum sem eru liðnir. Íslendingarnir á ferðalagi eru meiri Íslendingar á ferðalagi, einsog Bretarnir og Ameríkanarnir. Einn Íslendingur var (sennilega) fullur í innrituninni í morgun, rosa hress, talaði við alla. Það gerðu Ameríkanarnir í covid-testinu í gær líka – nema þeir voru edrú og alveg fram úr hófi „viðkunnanlegir“ við allt og alla í kringum sig. Ameríkanar eru voðalega hrifnir af mannlegum samskiptum. Síðan var breskt par á flugvellinum í morgun – rúmlega tvítug, bæði svolítið í holdum, hún í þröngu með mikið bert á milli og hann bara með grímuna á nefinu (ath. ekki yfir munninum – bara yfir nefinu, einsog hann vildi ekki byrgja bjórgatið). Eitt íslenskt B-seleb með grímuna á hökunni, einsog hann óttaðist að almúginn bæri ekki kennsl á sig. Ein íslensk stelpa sem sagðist ekki þekkjast í andlitsskannanum af því myndin í vegabréfinu hefði verið tekin „fyrir nokkrum varafyllingum síðan“. Og hamborgarinn sem ég fékk hér áðan var bara ofeldaður kjöthleifur í þurru brauði sem molnaði þegar maður tók það upp – alveg einsog maður fékk alltaf fyrir 20 árum! Áður en hipstermetnaðurinn og glóbalisminn þurrkaði út allan mismun. Í flugvélinni áðan voru farþegar minntir sérstaklega á að í neyðartilfelli þyrftu þeir fyrst að taka niður andlitsgrímurnar áður en þeir settu upp öndurnargrímur. Það þótti mér svolítið fyndið en áttaði mig á því að kannski fattaði fólk þetta ekki og margir köfnuðu og það er auðvitað ekki fyndið, það er harmleikur. Það eru ennþá fjórar og hálf klukkustund þar til flugið mitt til Vínar fer. Mér finnst líklegt að ég verði sóttur – giggið er í Bratislava – en ég hef svo sem ekki spurt. Annars er ég pínu blúsaður. Ekki af neinni sérstakri ástæðu. Svaf lítið í nótt, fyrir flugið; það er leiðinlegt að vera haltur í biðröðum og öryggistékki; venjubundin bókaflóðskvíði og svona. Ég er búinn að gera heilmikil plön fyrir útgáfuhófið mitt en mér sýnist fremur hæpið að af hófinu verði – það er allt að loka. Baðendurnar eru til dæmis komnar. Hvað á ég að gera við endurnar ef það verður ekkert útgáfuhóf? Þær þrífast ekki í streymi, frekar en ég.

„Gerðu heiminum greiða og lestu þessa bók“

Ritdómur birtist í dag á síðu Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar. Þar segir meðal annars: Það er stóra spurningin hvort rétt sé að kalla Einlægan Önd hugrakka, og/eða metnaðarfulla bók ef um leið er sagt að hún sé bæði bráðnauðsynleg og líka í þeirri merkingu að hún gæti einhvernveginn ekki verið öðruvísi en hún er. Og enn fremur. Í bókinni er verið að afbyggja höfundinn um leið og ritverkið, reynt að rýna í gagnvirknina (jafnvel meðvirknina) á bakvið skáldskaparferlið – hvernig efniviðurinn verður til í meðförum hinna mörgu höfunda verksins – og sérstaklega hvernig höfundur horfir á höfundinn horfa á höfundinn stuðla að framvindunni sem knýr fram verkið. Og ekki síst: Gerðu heiminum greiða og lestu þessa bók. Dóminn í heild sinni má lesa hér.