Dottið í það

Maður hefur ekki annað að gera en að missa vitið. Þetta getur farið á alla mögulega vegu. Kannski verður þetta búið á morgun. Það er ósennilegt en kannski – og kannski segi ég það bara vegna þess að það virðist eina spáin sem maður hefur ekki séð í fjölmiðlum. Lyf finnst og reynist nú þegar finnast í öllum helstu eldhúsum eða baðherbergisskápum. Desilítri af flúortannkremi klárar kófið. Lyftiduft og sojasósa í jöfnum hlutföllum. Svo fá sér allir smakk og á laugardag verður partí, Eurovision verður aftur sett á dagskrá – 21. mars verður svona international independence day (var það ekki eitthvað í samnefndri mynd?) Og kannski klárast þetta aldrei. Ég hef séð nokkrar þannig greinar. Enga sem spáir brjálæðislegu mannfalli samt – enga sem spáir því að 95% mannkyns þurrkist út. Það gæti líka gerst. Lífkerfið myndi hugsanlega fagna – og ekófasistarnir enn þá hærra. Þegar ég segi ekófasistar er ég vel að merkja ekki að meina Andra Snæ heldur Pentti Linkola og Unabomber-týpurnar. Þeir gætu báðir lifað að sjá drauminn rætast. Linkola er fæddur 1932 og Ted 1942. Ekki veit ég hvað gerist í raun þegar borgirnar og verksmiðjurnar fara að brotna niður – það er ekki endilega fallegt til lengri tíma, hvað sem líður höfrungum í feneyjarsíkjum. Það er ekki bara að við mengum við höldum líka ýmsri mengun í skefjum. Annars hef ég ekki heldur alveg áttað mig á því hvað gerðist þarna í Feneyjum. Hvaða mengun er það sem venjulega fer í síkin? Þarna býr enn fólk þótt það sé inni í húsunum frekar en úti á götunum. Voru það túristarnir sem pissuðu í síkin? Þegar þetta var að hefjast dreymdi mig draum þar sem geisaði svona farsótt nema í stað þess að fólk dæi urðu bara allir lasnir alltaf – það var hið nýja normal ástand. Allir alltaf með kvef og 38 stiga hita. Mjög ódramatískt einhvern veginn en líka fáránlega dramatískt. Myndskreyting. DV gerir sitt til að bæta í víruskvíðann. Yfirvöld segja að hápunkturinn á Íslandi verði á föstudaginn langa. Þau sögðu í sjálfu sér fyrir nokkrum vikum að það myndu ekki nema svona 300 veikjast. * Sennilega er ekki svo auðvelt að spá um þetta og samt nauðsynlegt að segja eitthvað – það er áreiðanlega pólitík frekar en vísindi. Upprunalega endaði nýja bókin mín á fullkominni og algerri einangrun söguhetjanna. Heiminn einfaldlega snjóaði í kaf. Í ragnarakastíl. Það virkaði ósennilega þegar ég setti það á blað við sundlaugina í Hondúras í sumar. Raunar var mikil félagsleg einangrun að vera í San Pedro Sula, lokaður inni í fílabeinsturni, það var innblásturinn – eða hið tilfinningalega fingrafar. En nú hættir ekki að snjóa í alvöru. Ég segi ekki að húsið sé komið á kaf en það hefur eiginlega alveg snjóað fyrir gluggann í bílskúrnum – sem er vesen af því ég er að spreyja gítar þarna inni og þarf loftræstinguna. Og svo breytti ég endanum. Enda slapp ég úr fílabeinsturninum. Ég hef eiginlega breytt endanum á öllum bókunum mínum. Nema Hans Blævi – ég man ekki eftir öðrum enda á hana. Ekki sem stendur. Ég spái því nú samt að okkur muni ekki snjóa í kaf og að þetta ástand taki enda. Hvað sagði Trump – að flensan myndi, líkt og fyrir kraftaverk, gufa upp í apríl? Eða sagði hann kannski mars? Í öllu falli með vorinu. Daði fær ekki að fara í Eurovision, Trump vinnur kosningarnar í nóvember og það verða jól. En fyrst – þegar þetta klárast, eða þegar fer að slakna, flensan að lempast og aftur mælt með því að fólk hittist – ætla ég að detta í það með vinum mínum. Þetta er spá dagsins. *** *  Mér skilst að þessu hafi ekki verið haldið fram – heldur hafi þau sagt að 300 manns myndu veikjast nógu alvarlega til að leggjast inn. Sem er auðvitað nokkuð annað. Hitt er svo satt að margir, víða hafa vanmetið afleiðingar vírussins (og áreiðanlega hafa margir ofmetið þær líka – en það á eftir að koma í ljós).

Röfl dagsins

Bíddu nú við. Þrjú ljóð? Þýddi ég þrjú ljóð í viðbót í dag? Nei, tvö – svona er ég í alvöru minnislaus. Ég skrifaði líka einu skáldinu og hóf póstinn á að segjast ekki viss hvort við hefðum nokkru sinni hist. Mér fannst það kurteisi þegar ég skrifaði það, finnst einsog við höfum verið í sama rými nokkrum sinnum en kannski aldrei heilsast, en nú er ég farinn að ímynda mér að sennilega höfum við setið hlið við hlið í langri flugferð og síðan kannski hrunið í það saman og lent á trúnó, étið saman morgunverð á sjö ólíkum hótelum í jafn mörgum löndum, allir vinir mínir séu líka vinir hennar og svo framvegis. Og þegar ég segist ekki muna hvort við höfum sést þá sjái hún bara að ég er skíthæll sem man ekki fólk (mér er sagt að maður muni ekki svona vegna þess að manni standi á sama um fólk og ég er of samtvinnaður sjálfsefa mínum til að debatera við slíkar kenningar). Hér er annars allt við það sama. Ég sé ekki betur en bókinni minni heilsist vel – hef að vísu ekki fengið sendan neinn metsölulista í dag, var í þriðja sæti í síðustu viku – en fæ talsverð viðbrögð svona annars, héðan og þaðan. Fólk brýtur jafnvel tveggja metra regluna til að þakka fyrir sig. Mig klæjar orðið mikið í hendurnar af öllum þessum handþvotti – í því hef ég ekki lent áður og kannski er það til marks um óhreinlæti mitt í gegnum tíðina. En þá kemur sprittið sér vel – til að sótthreinsa þurrksárin. Bono er búinn að semja lag um kórónaveiruna. Ég er mest hissa að hafa ekki séð meira af þessu. Þessi vagn fer alltaf af stað þegar stórviðburðir eiga sér stað – ég orti sjálfur heila ljóðabók í hruninu miðju. Hjá sumum má ekki verða röskun á sjónvarpsdagskrá án þess að það verði að baráttuljóði. Aðrir nota hvert tækifæri til þess að snúa athyglinni að eigin málstað. Það er auðvitað góð og gild pólitík en verra í listum. Eða segjum að það sé gott og gilt í sumri pólitík – stundum fer nú fólk líka alveg út í skurð. Vinkona mín fór í útvarpsviðtal í gær um veiruna og veitingastaðarekstur og vinur okkar skoraði á hana að koma byggðakvótanum einhvern veginn að. Sem hún auðvitað gerði. En það má líka hengja þetta á feðraveldið, raforkubúskap þjóðarinnar og fleira og fleira. Loftslagsmálin hafa mikið komið upp – svona afleitt, að fyrst við getum brugðist við kófinu getum við brugðist við loftslagsvánni (sem er sennilega satt en á meðan tímarammi kófsins er sem stendur í mesta lagi hálft ár talar loftslagsfólk í áratugum og árhundruðum – og það er skiljanlega erfiðara að fá pólitískt samþykki fyrir t.d. loftferðabanni það sem eftir lifir lífstíð okkar en bara „núna í sumar“ – neyðarástönd eru ekki endilega alltaf fullkomlega sambærileg). Ég hlustaði ekki á lagið hans Bono. Í einhverju amerísku blaði var grein um allar kórónaskáldsögurnar sem eru núna í gerjun. Og auðvitað hefur sennilega hver ein og einasta skapandi sál á jörðinni velt þessu fyrir sér – kórónalistaverkinu. Þau verða mörg – og verða margs konar. Sum verða tækifærismennska – sölupunktur. Önnur verða tilraunir til þess að setja heiminn í samhengi – misgóðar einsog gengur en stærstur hluti ærlegra lista er þetta, mettun og pot og tilgátur um raunveruleikann. Og svo verða bækurnar sem lifa – og þær falla líka í tvo hópa. Annars vegar meinstrím metsölubækur sem grípa einhvern tíðaranda – eldast kannski ekki endilega vel, eru að einhverju leytinu kits, væmnar, en sennilega ærlegar samt og vel gerðar, með heilum tón í gegn. Og svo verk sem eru meira krefjandi en eitthvað minna lesin (ansi mikið samt). Í sjálfu sér ræður tilviljun (og menningarpólitík) miklu um hvað lendir í hvaða flokki. Fyrir utan svo auðvitað bækurnar sem munu fjalla um eitthvað allt annað. Báðar tvær.

Ljóð og þjóð og þjóðaljóð og ljóðaþjóð

Þýddi þrjú ljóð í dag. Þetta eru grófþýðingar, vel að merkja og ég hef ekki verið í neinu öðru. Ekki jafn tilraunakennt stöff og í gær en það er ekki endilega auðveldara að þýða það fyrir því – oftast er erfiðast að þýða það sem er í hversdagslegasta tóninum. Af því að orðin þurfa samt að halda sér, hugtökin og leiðirnar í gegnum þau, og textinn þarf að virka jafn eðlilega á frummálinu og markmálinu – tilraunaljóðin hljóma undarlega á frummálinu og eru knosuð, snúa upp á málið, afmynda það. En svona grófþýðingar eru ekki lengi að verða til – ég geri þetta aldrei eðlilega í fyrstu atrennu. Ég sé ekki klaufalegt orðfæri í dag, meðan orginallinn er enn dómínerandi í hausnum á mér, en það blasir við í næstu viku. Krakkarnir fóru ekki í skólann. Aram var með smá kvef, örfáar kommur (í gær, ekki í morgun) og spáði þannig að skólinn hafði þegar gefið út að það væri ekki bráðnauðsynlegt að senda alla af stað. Svo Aino fékk einfaldlega að ráða því hvort hún færi nokkuð. Ég held við séum að klára okkur ágætlega á þessu enn sem komið er. Kófinu. En þetta er ekki búið enn! Þjóðleikhúsið ætlar að lesa ljóð fyrir fólk. Fólk velur sér ljóð og svo les einhver leikari fyrir viðkomandi – sem situr þá einn í salnum að mér skilst. En ljóðin verða send í streymi. Úrvalið er á RÚV.is og svo er hægt að bæta við. Hingað sýnist mér þetta nánast einvörðungu vera einhver ægileg klassík – dauðir eru í miklum meirihluta, karlar líka og allir, hver einn og einasti, eru Íslendingar. Það er einsog það hafi aldrei verið ort ljóð utan landsteinanna. Sem er auðvitað sorglegt og ekki veit ég beinlínis hvað veldur – en þetta er bara lýðræðið. Hjá okkur í Tangagötunni er kvöldlestur á ljóðum á hverju kvöldi. Eitt í eftirrétt – en verða stundum nokkur þegar upplesarinn er í stuði. Aram Nói fær þá að lesa fyrir okkur hin úr bókunum Kärlek och uppror eða Berör och förstör. Sú fyrri er frægt ljóðasafn sem kom út árið 1989 og ætluð grunnskólanemum. Sú síðari er nýrri en tekin saman fyrir sama þjóðfélagshóp. Ég veit ekki hvort það hefur komið út nokkur svona bók á Íslandi frá því Gegnum ljóðmúrinn kom út árið 1987. Á næsta ári, þegar við verðum í Svíþjóð, er planið að kvöldlesturinn fari fram á íslensku og ég veit ekki alveg hvernig það verður. Ég á Gegnum ljóðmúrinn og eitthvað af eldri söfnum – nokkur ljóðaþýðingasöfn – en ekkert sem stenst samanburð við þessar ágætu bækur. Báðar hafa ágæta breidd – kannski ekki síst sú fyrri – og þar kennir ýmissa skrítilegra grasa og ólíkra stemninga. Það er ekki bara höfgin eða væmnin sem ræður öllu, einsog vill verða þegar Íslendingar fara að taka saman ljóð, þótt bæði sé til staðar – og Aram fer vel að merkja með ljóðin eftir eigin nefi og gerir stundum raddir og fíflast og hefur meira að segja performerað eitt hljóðaljóð – og það algerlega án þess að við séum eitthvað að skóla hann til. Ljóðin bara kalla á þetta og við sitjum ekki og hlustum einsog við séum að hlýða á guðsorðið. Gegnum ljóðmúrinn er að vísu mjög fín bók. Og ég tek hana ábyggilega með. Og kannski eitthvað gott ljóðaþýðingasafn líka. Ég nenni samt ekki að taka með mér heilu kassana af ljóðabókum þótt það væri auðvitað best. En það er stór ljóður á ljóðmúrnum að ungskáldin í henni eru sextug og eldri í dag. Unga ferska efnið í henni er orðið að bókmenntasögu.

Meginlandsmálin

Ég þýddi tvö ljóð. Tilraunakennt stöff. Stutt í sjálfu sér. En þetta eru ágætis afköst. Ekki síst í ljósi þess að ég svaf til klukkan að verða níu og byrjaði á að því að fara út í bílskúr og spreyja eina umferð á gítarinn. Ég veit ekkert hvernig þetta kemur út lengur og er smám saman að íhuga að sætta mig bara við niðurstöðuna, hver sem hún nú verður. Ég klúðra alltaf einhverju – blandast saman málning og lakk áður en það er almennilega þornað (hvernig sem það nú annars gerist eftir langa bið) eða ég festi hár í einhverju og þrýsti puttanum á vitlausan stað og það koma för og svo framvegis og svo framvegis. Ég virðist geta fundið út úr þessum smíðum með því að fara varlega og laga til það sem misferst – svona mestmegnis – en málningarvinnan er allt annars eðlis. Þar þarf maður líka alltaf að bíða lengi áður en maður getur byrjað að laga – best væri að bíða í mánuð meðan spreyið er að harðna almennilega. Alltaf þegar eitthvað misferst. Eftir þýðingarnar lognaðist ég út af í skrifstofustólnum. Kannski var ég bara svona lúinn af ljóðaþýðingunum. Ég „las“ líka instagram vikunnar – það tók svolítið á. Og vírusfréttirnar auðvitað. Kom síðan á Heimabyggð. Hér er allt fullt af strönduðum túristum. Ég tek því sem gefnu að allir sem tala útlensk tungumál – sérstaklega meginlandsmálin – séu sýktir. Svo skrifaði ég eitt og annað hérna sem ég tók bara út. Það hafði ekki að gera með kórónavírusinn og ég er ekki að halda frá ykkur neinum mikilvægum upplýsingum. Nú þarf ég að fara að drífa mig í búðina.

Þessi færsla má alls ekki heita klósettpappír því það vill enginn lesa meira um klósettpappír

Hér er gjarna til nægur matur til 14 daga og hefur ekki að gera með neinar tilraunir til að lifa af eða einangra sig. Ég er bara svona kall sem vill eiga niðursuðudósir og stórar áfyllanlegar glerkrukkur með hinu og þessu – mamma segir að ég fái það frá Erich afa, sem hafi verið svona líka (en hann var nú að vísu ekki alinn upp í sömu allsnægtum og ég). En ég fór nú samt að skoða það í vikunni hvað væri ekki til ef við myndum lokast inni (af því yfirvöld hafa mælt með því nýlega – bæði vegna lægða og vírusa) og gerði mér síðan ferð eftir því – þar á meðal voru ljósaperur og rafhlöður, handsápa og töflur í uppþvottavélina. Fæst af því var matur – en ég tók líka tvær dósir af tómötum, bara svona af því það er ágætt að gera það stundum, tvo hveitipoka (þeir fara hratt) og þrjár pakkningar af spagettí. Ég á sem sagt engar æðislegar birgðir af neinu en ég sá til þess að lagerinn væri fullur. Já og svo keypti ég auðvitað klósettpappír. Venjulega kaupi ég bara eina pakkningu en núna keypti ég tvær – ætli það séu ekki þá 24 rúllur. Ég gæti ekki sagt ykkur hvað þetta fer hratt og er ég þó alltaf sá sem kaupir þetta. Nú keppist fólk við að birta myndir af tómum rekkum – sérstaklega af klósettpappír – og spyr samtímis hvort allir séu orðnir galnir. Ég held einlæglega að þetta sé bara frekar eðlilegt. Ef allir gæta þess að fylla á lagerinn í sömu vikunni og kaupa tvær pakkningar (af hverju sem er) frekar en eina selst sennilega ríflega 100% meira en í venjulegri viku. Og that would do it, ímynda ég mér. Þeir sem eru seinir til sjá svo vini sína pósta myndum af tómum rekkum á Facebook og rjúka samstundis til – það er síðasti séns að kaupa sér klósettpappír! Best að drífa sig og kaupa nóg. Og þá fer salan enn meira upp. Annars er ég búinn að lesa mér til óbóta um þetta allt saman. Ekki klósettpappír heldur kórónur. Án þess að komast að neinu sérstöku, vel að merkja, ég bíð ekki upp á neitt besserviss – eða, kannski í besta falli nokkur ólík og mótsagnakennd besserviss. Svona lokið skólunum og alls ekki loka þeim og svo er þetta áreiðanlega nú þegar í almennri dreifingu og engin ástæða til að ætla að við þekkjum ekki allar smitleiðir.

Upp úr kófinu

Á mínu heimili er ekki alltaf ljóst hvað við er átt þegar talað er um að treysta eða hlýða yfirvöldum. Það er ekki víst að sóttvarnarlæknir í Svíþjóð sé alltaf samhljóða sóttvarnarlækni Íslands. Og einsog við vitum eru Svíar 30 sinnum fleiri og þar með tölfræðilega líklegri til að hafa meira framúrskarandi sóttvarnarlækni. Ég ver samt alltaf íslenska staðla. Það er minnimáttarkenndin.   Ég hef 30 sinnum minna vægi og verð að gera mig stóran með öllum ráðum. En í sjálfu sér er þetta auðvitað hollt. Og raunar eru sænski og íslenski sóttvarnarlæknirinn frekar samhljóma núna – og á annarri línu en en danski og norski. En þetta sem sagt þvingar mann til að muna að sérfræðingar eru ekki endilega alltaf sammála. Fólk getur verið með allar tölur á hreinu og alla menntunina og samt komist að ólíkum niðurstöðum og oft munar kannski mjög litlu á því hvort maður bannar samkomur eða ekki. Ég veit ekki hvar maður staðsetur það á Dunning-Kruger skalanum. Ég held – besservisserinn sem ég er – að ákvarðanir séu sjaldan bara réttar og rangar. Flestar þeirra eru svolítið rangar og svolítið réttar.  Og aldrei jafn mikið réttar og rangar í senn og við aðstæður einsog þessar. Aðspurður um hvers vegna Svíar lokuðu ekki öllu einsog Norðmenn og Danir sagði sænski sóttvarnarlæknirinn að hann hefði ekki séð tölurnar einsog þær litu út hjá þeim, en það mætti ekki heldur gleyma því að svona ákvarðanir væru bæði vísindalegar og pólitískar. Og ég held hann hafi ekki meint það neikvætt – einsog Helgi Hrafn gerir í pósti sem ég sá vitnað í áðan – þetta er líka pólitík. Það er til einskis að draga úr skaðanum sem kórónavírusinn getur valdið með því að valda öðrum eins skaða af einhverju öðru. Mér finnst lélegt af fólki að tala niður efnahagsaðgerðir – mín vegna má sannarlega rífast um hvernig þær eru gerðar og hverjum þær þjóna en það er fáránlegt að láta einsog efnahagurinn eigi sér stað í einhverju tómarúmi og það sé bara í lagi að láta hann gossa. Fátækt er eitt alvarlegasta viðfangsefni samtímans – hún varðar líf og dauða, ekki síður en vírusar – og hrun í ferðaþjónustu getur til dæmis bara þýtt mjög mikið atvinnuleysi hjá alls konar láglaunafólki – ekki síst pólsku verkafólki í ferðaþjónustu. En svo er pólitíkin í þessu líka fleira. Í gær sagði ég við Nödju að það yrði áreiðanlega enginn skóli í næstu viku. Og með þeim rökum að þótt það gerði kannski ekkert gagn þá yrði á endanum að „gera eitthvað“ bara til að róa allt fólkið sem segir að það sé ekki verið að „gera neitt“. Því óróleikinn fæðir panikkið og panikkið getur drepið. Það rættist þannig að það er enginn skóli hjá Nödju í næstu viku – hún kennir í menntaskólanum. En krakkarnir okkar verða væntanlega áfram í skóla, enda fullyrða sóttvarnarlæknarnir okkar Nödju báðir að grunnskólar séu bara ekki smitbæli svo neinu nemi og það valdi of mikilli röskun að loka þeim – og röskunin, að við brjótum upp rútínur og mynstur, geti einmitt valdið miklu meira og alvarlegra smiti. Sjálfur hef ég verið mjög mikið heima hjá mér í ár. Einhvern veginn æxlaðist það bara þannig í janúar – ég var heimakær eftir jólin. Og ábyggilega í desember líka. Svo lagðist ég í mánaðarlanga flensu. Skrifstofan stóð meira og minna auð þar til á mánudaginn í þessari viku. Og svo er verið að mælast til þess að maður sé samt heima. Ég deili ekki skrifstofu með mörgum en samt nokkrum. Svo er spurning hvernig verður hjá Nödju – ekki endilega mjög pródúktíft að vera bæði heima. Alltaf bara eitthvað að metast um gæði sóttvarnalækna.

Fögur fagurfræði og galinn fagurgali

Mér varð ekki mikið úr verki í gær en ég náði þó að senda inn þetta blessaða viðtal. Endaði á að velja upphafið á If I Told Him eftir Gertrude Stein sem eftirlætis ljóðlínurnar mínar. Ég gæti ekki sagt ykkur hvers vegna þær heilla mig svona – þetta eru bara endurtekningar og umsnúningar. If I told him, would he like it, would he like it if I told him o.s.frv. Mjög Gertrudarlegt allt saman og hvergi hljómfegurra. Kannski er þetta svipað og að dást að fallegu bítboxi – eða bara fuglasöng. Margir hafa mikið óþol fyrir Gertrude og það var mikið híað á hana á sinni tíð – reyndar eiga mörg mín eftirlætis skáld þetta sameiginlegt að vera í senn merkilegar fagurbókmenntir en ekki nógu merkilegar fyrir merkilegustu fagurkerana. Ég velti því oft fyrir mér hvers vegna fólk hefur ólíkan smekk – og mest hvers vegna ég hafi ólíkan smekk frá öðrum. Ég sé það auðvitað skýrast þegar ég fæ ritdóma sjálfur – t.d. á dögunum skrifaði gagnrýnandi Fréttablaðsins að Halldór í Brúnni væri svo óáhugaverður og leiðinlegur. Viðkomandi fannst bókin reyndar fín þrátt fyrir Halldór og sagði margt fallegt um hana – ég er alls ekki ósáttur við dóminn sem slíkan. En ég skil engan veginn hvernig manni getur þótt Halldór óáhugaverður – mér finnst hann svo áhugaverður að ég er búinn að skrifa tvær heilar bækur um hann. Honum finnst hins vegar sjálfum mjög lítið til sín koma og kannski finnst sumum bara lágvær sjálfsfyrirlitningin í honum svona sannfærandi. En skrítnast í þessu öllu saman er samt að þetta fari í taugarnar á manni. Sem það gerir. Það er næstum einsog manni finnist rangt að einhver sé ósammála manni eða hafi aðra sýn á hvað sé áhugavert, fallegt, skemmtilegt. Auðvitað er í því fólgin einhver menningarleg og félagsleg pólitík – hvað fær að vera áhugavert – og kannski er alveg eðlilegt ástand fyrir listamann (af hverju finnst mér óþægilegt að kalla mig „listamann“?) að velta sér stöðugt upp úr öllum sköpuðum hlutum. En samt. Mig langar oft í meiri nonsjalans. Og óttast að einn daginn fari ég meðvitað eða ómeðvitað að eltast við samþykki fólks sem hefur einhverja allt aðra fagurfræði. Fari að dressa upp Halldóra mína í litríkari klæði og láta þá rembast til að þóknast einhverjum úti í sal.  Og kannski er ég bara að misskilja, kannski á maður að gera það – þetta er eitthvað svona list vs. skemmtiatriði dæmi. Kannski er millivegur og kannski er ekki hægt að þjóna tveimur herrum. Annars er það að frétta að bókin er enn í þriðja sæti metsölulistans – situr sem fastast – og hljóðbókin ætti að fara að detta inn hvað á hverju. Hún er hljóðblönduð og komin til útgefandans.

Hálar brekkur

Einbeiting er enn í lágmarki. Eða kannski væri nær að segja að athafnagleði væri í lágmarki. Mér finnst ég yfirleitt vera hálfgerð liðleskja þótt ég viti að það standist ekki nána skoðun – ég virðist allavega koma ýmsu í verk, svona af og til. Ég veit bara ekki hvenær ég geri hluti því alltaf þegar ég lít upp virðist ég ekki vera að gera nokkurn skapaðan hlut. Í dag hef ég fengið mér lúr og hann var ekki einu sinni langur – kannski 10 mínútur. Það var svipað uppi á teningnum í gær. Afkastaði engu nema lúr og hann var enn styttri og ómerkilegri en sá í dag. Ég hef líka fjarska lítið lesið upp á síðkastið. Hangi á félagsmiðlum og íhuga bugun mína. Er ég bara 5% bugaður? Eða er ég 45% bugaður? Hver eru krítísk mörk bugunar – hvenær er brekkan orðin svo brött að maður komist ekki upp aftur nema með aðstoð? Hvernig er færðin – er brekkan hál? Mig vantar GPS staðsetningu og veðurspá. Hugsanlega hef ég bara verið einn heima of lengi – í þessu flensuveseni. Félagsfærni mín (sem var ekki mikil fyrir) hefur rýrnað. Ég ætla ekki að halda neitt útgáfuhóf. Við Tapio Koivukari verðum með viðburð í Edinborgarhúsinu þann 19. mars og ég ætla bara að láta það duga. Ég er eitthvað að íhuga að gleðja mig bara með einhverju gítardóti í staðinn. Mig langar mikið að kaupa mér resonator-gítar . En þá þarf ég eiginlega líka að finna mér aukatekjur. Ekki það, þetta er ekkert æðislega dýr gítar (50 þúsund), en ég er bara (einsog venjulega) í holu. Gítarsmíðin gengur líka hægt. Þar er um að kenna blöndu af leti og þolinmæði. Á ég kannski of marga gítara – þeir eru allir ólíkir – ég á þrjá og bráðum fjóra rafmagnsgítara og tvo kassagítara, þar af hefur annar eiginlega bara tilfinningagildi? – má ég „safna“ gítörum? Í gítarleikaragrúppunum á FB pósta karlrembur reglulega einhverjum bröndurum um hvernig konurnar þeirra hindri þá í gítarsöfnun – sem er frekar óþolandi (húmorinn s.s.) en auðvitað er þetta kostnaður og svona. Og fyrir, einfaldlega, fjórðungur stofunnar er undirlagður (reyndar líka fyrir trommurnar hans Arams og hljómborðið sem Aino er hætt að læra á). Nadja hefur að vísu ekki hreyft neinum háværum mótmælum. Og auðvitað kostar þetta líka en í sjálfu sér er það engin ósköp miðað við hobbí almennt, sennilega ódýrara en kort í ræktina, og endursöluverð á flestu er ágætt (sérstaklega miðað við allt annað – tölvudót og húsgögn og svoleiðis, sem tekur varla að gefa) – kannski helst að heimasmíðuðu gítararnir færu fyrir minna en maður leggur í þá. Mér skilst að sé maður ekki alvöru gítarsmiður fái maður varla fyrir íhlutunum – og hvað þá fyrir vinnunni. Það skiptir mig auðvitað engu af því mig langar ekkert að selja þá. En ég er ekki tónlistarmaður og mér finnst erfitt að réttlæta að eiga svona mikið af græjum – mest fyrir sjálfum mér. Sérstaklega þegar ég á ekki fyrir því. Í dag þarf ég að svara þessu viðtali sem ég hef nefnt í síðustu tveimur færslum og halda áfram að þýða eitt ljóð. Og eiginlega þyrfti ég að skrifa endurskoðandanum líka. Við sjáum til hvernig það gengur allt saman. Ég gef skýrslu síðar.

Manic Pixie Dream Girl og helförin

Í fyrsta skipti í rúman mánuð vaknaði ég heima hjá mér við vekjaraklukkuna mína. Nokkrum sinnum hef ég vaknað við vekjaraklukku á ferðalagi, til þess að missa ekki af flugi, og nokkrum sinnum hef ég vaknað við vekjaraklukku Nödju og einu sinni þennan mánuð hef ég farið á fætur og borðað morgunmat með fjölskyldunni minni fyrir skóla – það var á maskadaginn. En það á þá að heita að ég sé heill heilsu. Samt hósta ég svolítið og sýg aðeins upp í nefið. Fór í ræktina og hljóp stutta 3 kílómetra og hugsaði við hvern hósta – þeir voru kannski 5-6 – að nú væru allir að hugsa hvort ég væri með kórónaveiruna. Hóstaði einu sinni á Heimabyggð í hádeginu og framkvæmdastjórinn spurði hvort þetta væri þurr eða blautur hósti og tók svo niður sjúkrasögu mína til öryggis. Annars fór dagurinn öðruvísi en ég hélt. Í gærkvöldi var allt útlit fyrir að ég væri að fara að taka að mér stórt verkefni sem myndi krefjast fullrar einbeitingar og langra vinnudaga í rúman mánuð. Planið var þá að ryðja því af vinnuborðinu í dag sem gæti hugsanlega orðið fyrir mér, truflað þessa einbeitingu og tekið upp dýrmætan vinnutíma. Í morgun fékk ég svo tölvupóst þar sem fram kom að verkefnið – sem raunar kom upp bara á helginni, en með þannig deddlæn að ég gæti varla beðið boðanna – myndi hugsanlega annað hvort frestast eða falla niður. Það kemur í ljós á næstu dögum hvort af verður. Og þá fór dagurinn í meira dól en til stóð. Fyrst fór ég í ræktina og svo þurfti ég að finna bíllyklana og það gekk illa – endaði með að fara upp í menntaskóla og fá lyklana hennar Nödju (sem vissi þá líka um mína, hafði óvart tekið þá). Þegar þeir voru fundnir renndi ég til Súðavíkur til að skila stúdíóbúnaði til Ödda – og endaði reyndar á því að kaupa af honum hljóðkortið á höfðinglegum kjörum. Þar drakk ég talsvert af kaffi og gaf popparanum kökubita sem ég bakaði með krökkunum í gær. Svo fór ég í mat á Heimabyggð og lenti á kjaftatörn um 30 ára gamal ástarmál hérna í bænum. Þegar ég kom á skrifstofuna byrjaði ég svo eiginlega á því að sofna í hægindastólnum mínum. Bara örstutt, en samt. Nú er ég að velta því fyrir mér hvað ég eigi að taka mér fyrir hendur, eiginlega. Sennilega ætti ég að ganga frá skattadóti og skrifa pistil – og svara þessu viðtali þarna sem ég nefndi í síðustu færslu. En ég er auðvitað ekki innblásinn og þegar maður er ekki innblásinn sofnar maður bara í hægindastólnum. Sorrí, skattgreiðendur. *** Á FB-þræði hjá Hildi Knúts rakst ég á þessa mynd: Á þræðinum er ýmislegt rætt – að þetta eigi líka við um bíómyndir, sé kannski meira almennt fyrstubókarsyndróm en eitthvað sem eigi bara við um karlmenn. Fá dæmi hafa verið tekin þegar þetta er skrifað og bara eitt sem er eftir karlmann – Illska. Og ég er búinn að vera að velta því fyrir mér, án þess að þora að spyrja, hvort það sé þá Arnór eða Ómar sem sé illa dulbúin rómantísk útgáfa af sjálfum mér. Eða hvort það sé jafnvel Agnes og Arnór þá kannski eins konar manic pixie dream girl í nasistalíki?

Eftirlætis ljóðlínan mín

Hver er eftirlætis ljóðlína mín – allra tíma? Og uppáhalds fræga skáldið mitt? Þessu á ég að svara og alltíeinu finnst mér einsog ég hafi aldrei lesið neitt ljóð og kannist ekki við nafnið á einu einasta ljóðskáldi. Og mér finnst öll svör sem mér detta í hug vera annað hvort popúlísk eða snobbuð – að velja einhverja línu sem enginn hefur heyrt minnst á eða eitthvað sem allir kannast við. Ekki að ég muni neinar línur sem enginn hefur heyrt minnst á, frekar en ég man neitt annað – ég er gersamlega minnislaus. Ég skrifa í staðinn fyrir að muna. Ekki segi ég Ko Un af því hann er ígrundaður (e. cancelled). Ekki segi ég Allen Ginsberg af því það finnst öllum það svo hallærislegt – hann tilheyrir þeim flokki listamanna sem hefur einhvern tíma verið svo hressilega hæpaður að þeir bera þess eiginlega aldrei bætur. Það er einsog að segja að Bítlarnir séu uppáhalds hljómsveitin manns. Sama gildir um Bukowski og Waldman og Kerouac og eiginlega alla sem ég las sem unglingur. Er ekki tilgerðarlegt að segja Gertrude Stein? Hvað með Bodil Malmsten – er það ekki sjálfhvert (af því hún elskaði Illsku, er það ekki bara einhver leið til bókmenntalegrar sjálfsfróunar)? Snobbað að segja Paul Celan? Einhvern tíma hefði ég hiklaust nefnt tilraunaskáld – og jújú, ég gæti sagt Kurt Schwitters. Það væri ekki fjarri lagi. En ég hef ekki lesið hann spjaldanna á milli og ekki á frummálinu nema að litlu leyti. Og það sem mér finnst frábært er kannski engin ósköp – en mér finnst það mjög frábært. Eða eitthvað gott torf – Bruce Andrews eða Lyn Hejinian. Er ég búinn að lesa nóg af Hildu Doolittle til að segja að ég haldi mest upp á hana? Eða Jacques Roubaud? Á ég kannski að segja eitthvað íslenskt – sól tér sortna. Mér finnst Þorraþrællinn vera besta ljóð sem ort hefur verið á íslensku og ég man ekkert hver orti það. (Kristján Jónsson – gúglaði). Æri-Tobbi er mér afar kær en það meikar ótrúlega lítið sens fyrir útlendinga (þetta er fyrir útlendinga). Whitman væri möguleiki – og ljóðlínan þarna „do I contradict myself. Very well then, I contradict myself. I contain multitudes.“ Þetta finnst ábyggilega einhverjum líka vera mjög ómerkilegt (ég er alltof viðkvæmur fyrir einhverjum ímynduðum lesendum) en þetta var svolítið eureka fyrir mig og ég held að nákvæmlega þetta, sem fagurfræði og heimspeki, sjáist í mínum eigin verkum. Ég yppti öxlunum við mótsögnum, þannig rúlla ég. Skáldið og línan þurfa reyndar ekki að heyra saman. Og ég þarf að svara fleiri spurningum. Lýsa ljóðlist minni í fáum orðum. Nei, heyrðu – ég var að misskilja sé ég núna. Ég á að velja tvær úr hópi tíu spurninga. Svo ég hefði getað sleppt báðum þessum. Og ég get engst yfir þessu í nokkra daga í viðbót. Kannski upphafið að If I Told Him eftir Gertrude Stein – mér finnst það geggjað en ég er ekki viss um að margir tengi endilega mjög sterkt við það. Og auðvitað er svona neimdropp einhver sölumennska. Hugsanlega fer ég yfir á skrifstofu (ég er aftur á Heimabyggð) og lít yfir kilina á ljóðabókasafninu mínu. Ég er ábyggilega að gleyma einhverju enda augljóslega minnislaus, einsog mig minnir að ég hafi nefnt. Kannski þarf ég bara að lesa allar ljóðabækurnar mínar aftur.