Fyrsti vinnudagur eftir jólafrí. Ég kann vel við að vera í vinnunni en suma daga þegar ég les það sem ég hef verið að skrifa hata ég það. Ég er alltof sínískur og stundum röfla ég bara viðstöðulaust og stundum einkennast frásagnir mínar af þindarlausri deyfð. Það er nú eitthvað annað en hjá honum Jónasi Reyni, sem ég hef verið að lesa í kvöld og er næstum búinn með – dæmalaust fljótlesið og fínt og uppáfyndingarsamt, einsog fleiri hafa bent á. Ég held ég hafi verið þessi María árum saman. Allt mjög kunnuglegt. Fór í reglulegar sólarhringsferðir til Reykjavíkur á þrítugsaldrinum – að vísu meira frá Ísafirði en Brighton, hvert ég hef aldrei komið, og ég átti sjaldan pening til að vera að drekka á börum og svona, eða spila í spilakössum, en það er sama. *** Ég kláraði ævisögu Önnu Kristjáns í gær og veit nú meira um skipsvélar en ég hélt að ég myndi nokkru sinni gera, og verð þó sennilega búinn að gleyma því öllu fyrir áramót. Hún segir frá ótrúlega mörgum samferðamönnum sínum en lítið frá fjölskyldu sinni – kannski er það sjómannstrámað, að kynnast skipsfélögum betur en börnunum sínum, og kannski eru persónulegar ástæður að baki – og það er furðu lítið líka um kynama hennar, sérstaklega framan af. Ég held að það hafi fáir gaman af vélasögunum, en það er kannski misskilningur. Skemmtilegust er bókin þegar húmor Önnu skín í gegn, en hún er bráðfyndin einsog allir vita sem hafa lesið bloggið hennar – en það er alltof mikill annálabragur á bókinni. *** *** Sá hluti sem snýr að kynama Önnu og baráttunnar fyrir kynleiðréttingu er langáhugaverðasti hluti bókarinnar, fyrir þá sem hafa aldrei lært vélstjórn, og hann er vel úr garði gerður þótt hann mætti vera miklu lengri. *** Ég er byrjaður að skipuleggja mikið meinlætisátak í janúar. Ætla að láta af öllum hobbíreykingum og áfengissulli, hætta að sofa fram eftir öllu og reyna að einbeita mér að vinnunni af meiri krafti. Mér gengur illa að ná utan um ákveðna hluta skáldsögunnar – leikritið (um sama efni) er auðvitað „nánast“ tilbúið, það er að fara í æfingar og þeim fylgir sennilega talsverð vinna við að stagbæta og kasta og endurskrifa. *** Það er líka svolítið mikið myrkur og ég hef ekki verið nógu mikið utandyra. *** Pantaði mér hægindastól á skrifstofuna og er að leggja á ráðin um að hækka skrifborðið um tíu sentimetra, svo það henti mér betur. Pantaði líka bækur aðallega í tveimur kategóríum: 1) Trönsur og 2) (Alt-right)-Tröll. Í einhverjum skilningi eru þetta ósamrýmanlegar kategóríur, sem koma þó saman í Hans Blævi, sem er transatröll, tröllatransa. Trönsur þola annars ekki tröll, og tröll þola ekki trönsur. En tröll elska kaos og trönsur valda kaosi í heimi sem frelsi þeirra og hugrekki ógnar. Í upphafi hélt ég að Hans Blær væri ekki transa „í alvörunni“ en nú þegar ég hef kynnst hánum betur veit ég að hán er jafn mikil transa og hán er tröll; hlutverkin bánsa hvort af öðru, blása hvort annað upp og tortíma hvort öðru, þetta er kjarninn í hvirfilbylnum, hlýja loftið sem mætir kalda loftinu og sendir strókinn af stað.
Category: Uncategorized
Untitled
Ég fékk sennilega flestar jólagjafir í minni fjölskyldu. Og stærstar. Ég taldi reyndar hvorki né vigtaði, en þess þurfti ekkert, þetta leyndi sér ekki. Ég held að ég hafi líka borðað mest og ég eldaði alveg áreiðanlega mest – allt frá grunni – og ég drakk mest og ég knúsaði mest og ég pirraðist mest yfir tilgangslausum hlutum (fann ekki pakka, brenndi mig á puttanum og sjitt hvað er mikil sturlun alltaf að taka 20 hluti úr ofninum eða af hellunum í einu svo allt verði heitt við matarborðið). Nanna átti flestar uppskriftirnar, ég þyrfti eiginlega að fara að borga henni einhvers konar licensing gjald – það eru margir kokkar góðir en fáir eiga jafn mikið af skotheldum uppskriftum. Á borðinu voru andalæri, hasselback kartöflur, brúnaðar kartöflur, lauksíld, sinnepssíld, grafinn lax, hofmeistarasósa, sinnepssósa, andarsoðsósa, rækjukokteill, rúgbrauð, sænskt jóla hrökkbrauð, fransbrauð, bakað rótargrænmeti, appelsínu og möndlusalat, saltfiskur, finnskt lanttu, rósakálssalat, og súkkulaðibúðingur með jarðarberjacoulis. Með þessu var jólaboli, Askasleikir (sem ég hef kallað „asnasleiki“ alveg frá því ég byrjaði að staupa mig á eggjapúnsinu í möndlugrautnum hjá Vali bróður í hádeginu), eitthvað voða fínt Rioja, 2008 árgangur, spariflaska, ódýrt hvítvín (sem enginn snerti), jólaöl, hvítöl og engiferöl. Síðar um kvöldið gerði ég svo bæði Pisco Sour og Hlæjandi Búdda, þegar fólki hafði fjölgað, í nýju kokteilblöndunartækjunum mínum – sem ég fékk frá Nödju – en auk þess fékk ég nýjan frakka, ljóðabók, framandi kryddjurtir, bindi, leikhúsmiða, inniskó og svo ótal margt fleira að mér entist sennilega ekki ævin í að segja ykkur frá þessu öllu, né heldur myndi upptalning rýma þá gleði sem ég finn til að hafa fengið þetta allt saman. Ég vildi bara að ég hefði getað gefið annað eins; gaf aðallega bækur, sem eru reyndar heill heimur út af fyrir sig, gaf tvær af mínum eigin, Kött Grá Pje, Bergþóru Snæbjörns, David Nicholls, Lewis Carroll, Andre Breton (mjög gamla og fína útgáfu af Nödju, fyrir frönskukennarann Nödju, bien sûr), JK Rowling, Adolf Smára, Handbók fyrir ofurhetjur, Han Kang, já og myndir af börnunum mínum (narsissískari verður maður sennilega ekki, en það vill til að þessi börn eru fram úr hófi gott myndefni). Ég gaf líka Nödju ný gönguskíði, ég gaf henni hin fyrir tveimur árum, en það borgar sig að eiga fleiri en eina tegund ef maður vill vera viðbúinn ólíkum veðurtegundum. Með skíðunum fékk hún illa orta rímu, að sænskri hefð – svokallað julklappsrim – sem á að vera vísbending um innihald pakkans (pakkinn var falinn bakvið bókahilluna og hún sá hann ekki, þótt hann blasti raunar við): Þótt spræk hún á grýluöldum ríði,
meðal gaddsins freðnu sveina,
má meyna hreina heyra veina
„ég á ekki nema ein andskotans …“ Ég hugsa að mér þætti talsvert áhugaverðara að yrkja rímur ef það væru færri reglur. Ég hefði kannski átt að gerast rappari. Nú segir kannski einhver: „En Eiríkur, það er aldrei um seinan“ en það myndi fólk ekki segja ef það væri nógu gamalt til að muna eftir því þegar Hallgrímur, kollegi minn, gerði sömu mistök og hélt það væri aldrei um seinan, fyrir hartnær tveimur áratugum. Rithöfundar eru ekki rapparar. Rapparar geta hugsanlega orðið rithöfundar, en ég held að rithöfundar ættu helst ekki að verða neitt.
Untitled
Eftir skötuna í dag hjá pabba greip mig skyndileg áfengissýki svo ég ákvað að skjótast í ríkið og kaupa mér fullt af víni og bjór. Þegar ég gekk þar inn, vaskur á svip en með þorstann í augunum, varð mönnum hvekkt við. Þeir hlupu um og hnusuðu, og sögðu hver ofan í annan, einsog einhverjir rassálfar, „hver var í skötu? hver var í skötu? af hverju var hann í skötu“. Svo opnuðu þeir dyrnar upp á gátt. *** Ég skáskaut mér eitthvað og vandræðaðist áður en ég viðurkenndi þetta, það var ég, ég var sá sem var í skötu. *** Þetta er nýtt á Ísafirði. Ég hef a.m.k. aldrei lent í því að fólk sé opinskátt um fyrirlitningu sína á skötu. Nema Gunnar Jóns og eitthvað svona lið. Einhver lýður sem er alltaf að reyna að vera öðruvísi. *** Annars sagðist Aram ekki trúa því að við Gunnar hefðum ekki þekkst sem börn. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að þegar ég var á Arams aldri þá hefði Gunnar hreinlega ekki verið fæddur. Hann væri heilum tíu árum yngri en ég. Þetta fannst honum enn ótrúlegra. Gunnar væri svo ellilegur. Hann liti út fyrir að vera að minnsta kosti jafn gamall og ég. *** Svo hefur mér ekkert gengið að verða fullur. Eitt staup og einn lítill bjór. Á rúmlega tólf tímum. Þetta er engin staðfesta.
Untitled
Hver er heimspekilegur, fagurfræðilegur og pólitískur munur þess að vilja uppræta klámfengna brandara úr umhverfi sínu – og/eða skilgreina þá sem kynferðislega áreitni, jafnvel ólöglega (er ekki öll kynferðisleg áreitni ólögleg?) – og þess að vilja uppræta klámfengna texta úr t.d. fagurbókmenntum, sjónvarpsþáttum, tónlist o.s.frv.? Hvað ef við skiptum einfaldlega út orðinu „klámfengið“ fyrir „óþægilegt“ – eitthvað sem triggerar? *** Bjarni Randver ber sig illa að hafa verið kallaður „kaunfúll barmabrundull“ – Bragi Valdimar yrkir um tíu litla kynvillinga og fær bágt fyrir – iðnaðarmenn segjast ekki vilja fara niður á það plan að „sætta sig við kynferðislega brandara“ – Hannes Hólmsteinn tekur dæmi um nauðgun og nytjahyggju (ef nauðgunin er X góð fyrir nauðgarann en bara Y vond fyrir þann sem er nauðgað, og X er meira en Y, er þá nauðgunin réttlætanleg því hún auki „heildarhamingju“ samfélagsins). Und so weiter. *** Augljósasti munurinn er að bókin er rými sem maður velur að ganga inn í. Brandari sem manni er sagður í vinnunni krefur mann ekki um þátttöku – með segir ekki „Heyrðu, Gvendur, þú ert alltaf svo fyndinn, segðu mér brandara“, Gvendur bara segir manni brandarann. Kúrs Hannesar er skyldukúrs. Maður þarf að ýta á play á Braga Valdimar. Að vísu veit maður aldrei hvað stendur í bókinni, hún getur alveg komið manni í opna skjöldu, og margir gera raunar þær kröfur til bóka að þær geri það. Og stundum les maður hluti af fúsum og frjálsum vilja sem ofbjóða manni samt – einsog Bjarni Randver virðist hafa tekið skrifum Þórðar Ingvarssonar illa, en bloggið las hann samt sjálfviljugur, hann fór inn í þetta rými og vissi sennilega hvers væri að vænta. *** Ég svitna alveg svolítið á efri vörinni yfir öllum svona kröfum. Ég skal alveg viðurkenna það. Mér finnst þær fýsískt óþægilegar. Ekki bara fyrir mína hönd – en líka mína hönd – heldur fyrir hönd óþægileikans, fyrir hönd þess sem finnst tilhugsunin um sótthreinsað samfélag þar sem maður rekur sig aldrei utan í óþægileg. *** Sem þýðir augljóslega ekki að manni eigi ekki að finnast hlutir óþægilegir og þaðan af síður að maður eigi ekki að æmta. Æmtið er frumforsenda hins próblematíska og dýnamíska samfélags. Frumæmtið. *** En bannið er bannað. Brottreksturinn er lúseramúv. Stigmu eru glötuð. *** Og rýmið já, svo ég klári þá pælingu. Listrýmið, rýmið þar sem eitthvað vafasamt MÁ gerast, þar sem við erum undir það búin, er auðvitað einhvers konar gelding á hinu vafasama. Ögrun í rými sem er hannað fyrir ögrun og þangað sem fólk kemur bara til að leika ögrunarleiki er auðvitað ekki rými fyrir raunverulega list – það er sín eigin tegund af safe space-i, köntríklúbbur fyrir fólk í dúkkulísuleik, eins konar listlíkisverksmiðja. List sem ætlar að ögra verður að eiga sér stað annars staðar. Í mötuneyti Reykjavíkurborgar. Í kaffistofum iðnaðarmanna. Í upplestri frekar en í bók. Maður býður ekki sjálfum sér í ögrunina, hún verður að sækja mann heim óboðin og trufla. Ef maður er ekki að minnsta kosti pínulítið ofsóttur fyrir hana var maður ekki að ögra neinum.
Untitled
Í gær sagðist ég latur að lesa yngri skáld og taldi svo upp skáldin sem ég þrái að lesa en gleymdi einu, sem á ljóð dagsins á Starafugli, en það er Guðrún Brjánsdóttir, sem ég hef þekkt frá því hún var á aldur við Kristínu Eiríksdóttur þegar ég kynntist Kristínu. Guðrún var að gefa út sína fyrstu bók, Skollaeyru, frábær titill og frábær bæði ljóðin á fuglinum. Á hverju ári síðan svona 2013, sennilega, hef ég kennt á vikulöngu ritlistarnámskeiði í Biskops-Arnö í Svíþjóð, þangað sem mætir créme de la créme af norrænum ungrithöfundum, á aldrinum 14-19 ára, sirka, og þar var Guðrún fyrsta árið. Ég gæti sagt að ég hafi kennt henni allt sem hún kann, en það væru ýkjur, ég kenndi henni ekki einu sinni allt sem ég kann, vika er stuttur tími, en þetta var samt mjög góð vika og Guðrún er frábær, og ef mér skjátlast ekki er hún fyrsti debutantinn til þess að hafa sótt námskeiðið. Það er líka hressandi að debutantar séu ekki allir 35 ára. *** Ég las líka tvær fréttir í gær um menn sem fóru illa af að horfa á klám. Annar var að gera það undir stýri og varð manni að bana fyrir vikið en hinn horfði á klám í vinnunni, þetta var stjórnmálamaður í Bretlandi, og þurfti að segja af sér. Svo skilst mér að maður verði blindur af þessu líka. Það hef ég frétt. Þetta er svokallaður faraldur. Menn missa vinnuna, verða valdir að dauðsföllum og blindast, og hugsanlega missa útlimi. Þá er loksins ljóst hvað varð um hina svonefndu klámkynslóð, sem tröllreið (hehe) hér öllu fyrir fáeinum misserum. *** Fjallabaksleiðin er bókstaflega að drukkna í dularfullum lesendabréfum. Ég hef bara ekki haft tíma til að lesa þau öll, en í einu þeirra er fullyrt að Hannes Hólmsteinn (sem hefur ekki verið til umræðu hér, ég veit ekki hvers vegna þetta bar á góma í lesendabréfi ) sé svo ómögulegur kennari og mikill vitleysingur að þótt hugsanlega sé rangt að reka hann fyrir að triggera nemendur, þá væri það samt til bóta. Lesandi þessi, frægur rithöfundur einsog aðrir sem mér skrifa, hélt því aukinheldur fram að þegar búið væri að reka Hannes kæmi loks í ljós hvað stjórnmálafræðideildin er hryllilega léleg – árum saman hefði hún skákað í skjóli Hannesar, hann væri fjarvistarsönnun andlausrar deildar.
Untitled
Fjallabaksleiðinni barst dularfullt bréf frá óánægðum lesanda. Umræddur lesandi er mikill rithöfundur, frægur fyrir bækur sínar en ekki síður fyrir að liggja ekki á skoðunum sínum. Viðkomandi umræddur lesandi og frægur rithöfundur er ósáttur við forsíðumynd Fjallabaksleiðarinnar, sem tekin er út um rúðu á veitingastað á flugvelli í Lundúnaborg, finnst hún of stór og vill að hún verði fjarlægð, hið fyrsta, eða (sennilega, ég get mér til þess að það myndi duga) til vara að hún verði minnkuð. En ég er stór maður, ég veit ekki hvernig ég ætti að geta orðið minni úr þessu, og auk þess finnst mér bara gott á lesendur mína að þurfa að skrolla aðeins niður, ég sem þarf alltaf annars að beygja mig í baki til þess að eiga í samræðum við þá. Það ætti að lækna þá af forréttindablindunni. *** Þetta bréf var kannski ekkert mjög dularfullt. *** Annar frægur rithöfundur skrifar Fjallabaksleiðinni reglulega – sá ryður sér í gegnum bækur „ungu höfundanna“ og líst ekkert á, segir að þetta sé allt uppsuða úr Braga Ólafssyni, einsog fjórða skolvatn (hann var með einhverja aðra líkingu, ekki ljósrit, man ekki í svipinn hvað það var) og bla bla bla. *** Einu sinni ætlaði ég bara að lesa höfunda sem væru yngri en ég en það varð ekkert úr því. Sennilega varð ég bara gamall skarfur. Það var ekki jafn eftirsóknarvert þegar ég var tvítugur og mér finnst það nú. *** Ekki að ég lesi ekki líka höfunda sem eru yngri en ég. Kannski eru þeir m.a.s. í meirihluta. Núna er ég að lesa Kristínu Eiríksdóttur, Elínu hennar, Kristín er yngri en ég (ekkert mjög samt). Ég er búinn að þekkja Stínu mjög lengi. Sennilega lengur en yngstu höfundarnir eru gamlir. Við kynntumst á ircinu. Skiptumst á ljóðum. *** Það er samt ekki Kristín sem hatar ungu höfundana eða vill láta minnka myndina. *** Mig langar að lesa alla ungu höfundana, sérílagi þarna Abbabókina, sem ég leit inní í bókaverslun, og Flórída, sem ég á eftir að kaupa en er alltaf að fara að gera (strax og þær verða ódýrari, ha?), og Jónasinn og Halldórana og Friðgeirinn. *** Búinn að lesa Cat Person, sem allir eru búnir að lesa, vissi ekki alveg hvað mér fannst fyrst en nú þegar hún er búin að fá að setjast svolítið finnst mér hún óeftirminnileg og frekar lítið listfengi í henni, lítil fagurfræði, mikið slúður, mikill zeitgeist en litlar bókmenntir, og samt er hún alltílagi, engin ástæða til að æsa sig yfir henni – nema einsog maður æsir sig yfir hæpi almennt, ekki yfir sögunni heldur hysterískum samtímanum sem þarf endalaust að finna nýja IT augnabliksins.
Untitled
Leiðrétting. Því var haldið fram hér á sínum tíma að ef Dustin Hoffman væri sekur um allt sem hann er sakaður um væri hann sennilega saklausasti maður á jörðu. Síðan þá hefur hann verið sakaður um fleira. Ef hann er sekur um allt sem hann er sakaður um er hann sennilega ekki allra saklausastur. Fjallabaksleiðin er hins vegar miður sín – gersamlega viðutan af hryllingi og sorg – yfir þeim fréttum að Gene Simmons, sá mæti herramaður, hafi óumbeðinn lagt hönd sína á hné útvarpskonu og viðhaft kynferðisleg ummæli við hana. *** Gene Simmons í sínu náttúrulega umhverfi. *** Annars er allt gott að frétta. Fátt að frétta en gott að frétta. Jólaundirbúningur í gangi. Búinn að grafa lax og leggja inn síld að hætti Læknisins í eldhúsinu og ætla að elda andalæri og súkkulaðibúðing að hætti Nönnu Rögnvaldar – en get ekki fyrir mitt litla líf gert upp við mig hvort ég eigi að þrífa að hætti Sólrúnar Diego eða Sigrúnar Sigurpáls. Ég er búinn að hala niður snapchat appinu en veit ekki hvort mér gefst tími til að kynna mér þetta í þaula í tæka tíð.
Untitled
On today’s market, we find a whole series of products deprived of their malignant property: coffee without caffeine, cream without fat, beer without alcohol… And the list goes on: what about virtual sex as sex without sex, the Colin Powell doctrine of warfare with no casualties (on our side, of course) as warfare without warfare, the contemporary redefinition of politics as the art of expert administration as politics without politics, up to today’s tolerant liberal multiculturalism as an experience of Other deprived of its Otherness (the idealized Other who dances fascinating dances and has an ecologically sound holistic approach to reality, while features like wife beating remain out of sight)? Virtual Reality simply generalizes this procedure of offering a product deprived of its substance: it provides reality itself deprived of its substance – in the same way decaffeinated coffee smells and tastes like the real coffee without being the real one, Virtual Reality is experienced as reality without being one. Is this not the attitude of today’s hedonistic Last Man? Everything is permitted, you can enjoy everything, BUT deprived of its substance which makes it dangerous. *** Hún kemur aftur og aftur upp í hugann á mér þessi tilvitnun. Í Zizek. Ég þurfti að fara og slá henni upp og uppgötvaði auðvitað að málglaði slóveninn hafði sagt þetta á ótal vegu í ótal bókum og þurfti alveg svolítið átak að velja réttu tilvitnunina. *** Ég hef staðið mig að því síðustu misserin að biðjast ævinlega afsökunar þegar ég vitna í Zizek. Ég er ekkert æðislega vel lesinn í honum, frekar en flestum öðrum heimspekingum, en hann á nokkur augnablik – einsog þetta – sem mér finnst þægilegt að vísa til, þar sem hann nístir eitthvað í sundur svo hlutar þess virðast sannari en áður. Samband mitt við hann er þannig svipað og samband mitt við Wittgenstein eða Kierkegaard – þegar ég les þá les ég þá einsog „hverjar aðrar bókmenntir“. Wittgenstein, sem virðist einna minnst ljóðrænn við fyrstu sýn – í það minnsta fyrir þeim sem halda fast í að ljóðlistin sé fyrst og fremst eltingur við myndlíkingar – er ljóðskáldið (Kierkegaard, sem drekkir öllu í myndlíkingum, er hins vegar svona sóttheitur prósaisti, trúir á allt meðan Wittgenstein trúir bara á tungumálið og hafnar því í senn, umfaðmar mótsagnirnar að tilskipan Whitmans). *** En nú er ég kominn út fyrir efnið (ég er lasinn, rúmliggjandi). Það er búið að fussa svo mikið yfir Zizek við mig – yfirleitt án málalenginga, maðurinn sé bara fífl, heimskur orðhákur, fullur af mannfyrirlitningu and so on and so forth – að ég er farinn að hafa þennan formála á: Afsakið að ég skuli vitna í Zizek, en þetta hérna sem hann sagði einu sinni er samt dálítið glúrið. *** Ég hef átt fleiri svona fígúrur sem mér þykir vænt um en þykja ekki nógu fínar – oft held ég hreinlega vegna þess að þær ná breiðari skírskotun. Það er ómögulegt að eiga sér eftirlætis heimspeking þegar heimski frændi manns á Stöðvarfirði er farinn að vitna í Pervert’s Guide to the Cinema og halda þar með að hann viti eitthvað. Ginsberg fær oft þessa meðferð líka, Bukowski enn verri – ótal, ótal kvenhöfundar hafa fengið þessa meðferð í gegnum tíðina, að þær séu of léttvægar, of miklir bullukollar, án þess að það sé nokkru sinni útskýrt frekar. *** Í sjálfu sér er afstaðan ókei. En þetta hvernig henni er komið á framfæri við mann er rannsóknarefni. Zizek fór með himinskautum fyrir rúmum áratug og allir sem vildu þykja snjallir vitnuðu í hann fram og til baka og sögðu af honum sögur. En svo byrjaði fólk skyndilega bara að fussa. Og það var það, einsog þeir segja í ameríku. Mér hefur aldrei verið sagt beint út að ég ætti að skammast mín fyrir að vitna í svona mikið fífl, og þaðan af síður hvers vegna hann sé svona mikið fífl eða ég ætti að skammast mín, það bara gerðist. Mig grunar að það sé klósetttalið, eða fistingatalið – og líka einhvers konar þreyta, maðurinn er þindarlaus og hann á ekki marga gíra, allir brandararnir hans enda á sömu pönslínunni („Stalín!“) Eða síníkin – sem er ekki mannhatur, þaðan af síður raunar. *** Hvað um það. Einn af öðrum byrjuðu trendsetterar intelektúalismans að snúa við honum baki og nú fyrirverð ég mig fyrir að vitna í þetta hérna, einsog þetta sé eitthvað sem skipti máli, útskýri eitthvað, frekar en hver önnur fimmtán ára gömul tískudella. *** Sjálfur er ég svo lengi af stað í heimspekinni. Ég var enn að mana mig upp í að byrja almennilega á Zizek þegar þetta gerðist. Hef megnið af minni heimspekiþekkingu (sem er ekki mikil) frá vinum mínum sem lærðu fagið. *** Voðalegt annars að vera svona viðkvæmur fyrir tískustraumum sem gerast fyrst og fremst í höfðinu á öðrum, og á fussandi vörum þeirra auðvitað.
Untitled
*** Þegar ég var á Kúbu, fyrir margt löngu síðan, að tína appelsínur fyrir byltinguna tókum við vinirnir okkur til – fjórir talsins – og létum raka af okkur hárið. Í kjölfarið fóru margir kúbanir að uppnefna okkur – aléman, white power, hrópuðu þeir að okkur úti á götu og sendu okkur hitlerskveðjur með bros á vör, áður en þeir spurðu hvort okkur langaði ekki að kaupa af sér vindil, þeir ættu frænda sem ynni í verksmiðjunni og gætu útvegað okkur alveg príma fyrsta flokks tóbaksvafninga fyrir lítinn pening, brotabrot af því sem það kostaði í túristabúðunum. Mér verður alltaf hugsað til þessa þegar þessi auglýsing kemur upp á Instagraminu mínu. Kapítalisminn er alls staðar og hann elskar mann sama hvað.
Untitled
Ég hef sofið illa tvo daga í röð. Það er hálfgerður rigningarsuddi ofan í snjóinn í bænum og rok ofan í rigningarsuddann og dimmt auðvitað, þetta er sá árstími, umbúðirnar af sjoppufæðinu sem ég át í fyrradag eru farnar að lykta heldur mikið í ruslafötunni á skrifstofunni og ég hef ekki hreyft mig síðan á föstudag og þegar ég hreyfi mig ekki baða ég mig ekki heldur og ekkert af þessu er mjög gott. Verst þó að sofa illa. *** Ég reif mig upp og fór á danssýningu hjá syni mínum – danssýning dótturinnar var í gær – keypti svo Treo (ég er með höfuðverk) og súkkulaðisnúð og hellti upp á kaffi (eiginlega hellti Halla Mia samt upp á kaffið, hún var einu skrefi á undan mér, ég var alveg að fara að gera það). Þetta er allt hið ágætasta. *** Það hefur löngum loðað við bókmenntaheiminn að hann sé fullur af gröðu og siðspilltu fólki – einhvers konar afkomendum bóhemkynslóðanna sem allar eru auðvitað löngu dauðar – en nú þegar maður bíður eftir bókmennta-#metoo-inu á því herrans ári 2017 óttast maður ekki síst að rithöfundastéttin muni virðast hálf náttúrulaus í samanburði við lækna, lögfræðinga og leikara. Sennilega er það ágætt, til marks um gott siðferði, empatíu og þvíumlíkt, en hugsanlega er það líka bara firring í höfðinu á mér og þetta á allt eftir að verða stórfenglega ljótt, ekkert nema viðstöðulaus fólskuverk framin í lostans nafni. En það gæti alveg farið með orðsporið – ef við sem gefum okkur út fyrir að dansa á línunni og óttast ekki kraftmiklar langanir okkar og þrár reynumst svo bara … annað hvort kurteis og vel upp alin eða einfaldlega bæld. *** Kurteisi er auðvitað einhvers konar bæling. Impúlsstjórn er bæling. *** Að vísu kom einn rithöfundur með í fjölmiðla-#metoo-inu. Hafði áreitt blaðamann. Og fólk í bókmenntastéttinni hefur verið áberandi í sænska #metoo-inu.