Untitled

507 Hún eygir Fugl – hún hlær –

hún leggst flöt – og skríður –

hún hleypur án fótasjónar –

augu hennar stækka í Knetti – Kjálkar hennar bærast – vipra – svangir –

Tennur hennar standast varla –

hún stekkur, en Þröstur stökk á undan –

ah, Kisulóra, úr Sandinum, Vonirnar svo safaríkar þroskast –

Þér fenguð nærri tungu yðar baðað –

þegar Alsælan afhjúpaði hundrað Tær –

og flúði með þær allar. Emily Dickinson *** Hún hefði orðið 187 ára í gær, hefði hún lifað, og hefði þá – það best ég veit – verið elsta kona í heimi. Hún lést hins vegar 56 ára, fyrir langalöngu, í maí. *** Þið afsakið annars frjálslega þýðinguna – ég lét formið eiginlega alveg eiga sig. Ég er ekki viss um að þetta þyki eitt af mikilfenglegri ljóðum hennar – hálfgerð barnavísa um kött á veiðum – mér þykir það skemmtilega holdlegt einhvern veginn. Það dregur að vísu dálítið úr því á íslensku („her eyes increase to Balls“ og „ah, Pussy, of the Sand“) en það hefði verið fulllangt gengið að þýða þá aukmerkingu fasta inn í textann. *** Og kannski er þessi klúri „he he“ lestur minn bara einhver afleiðing af því að hafa verið í hausnum á Bon Scott of lengi. Ég skal ekki segja.

Untitled

Ingi Björn gaf mér svo reykt viskí í gærkvöldi að í dag líður mér einsog vel hengdu kofalæri. Átti mjög gott kvöld með honum og Halli Karli listmálara. Vorum fjarska menningarlegir, drukkum kokteila og jólabjór, fórum á ball, spiluðum pool, horfðum á alvöru slagsmál – alveg fjall af fólki veltast um í snjónum í sparifötunum, sögðum sögur og töluðum um dauðarokk, köntrí og fornminjar. *** Þeir sem „koma hreint fram“ og segja börnunum sínum að jólasveinarnir séu ekki til eru ekki bara sálarlausir heldur hatast þeir við skáldskapinn sem slíkan, hatast við töfra og sögur og ljóð og hinn eina raunverulega sannleika sem liggur handan alls þessa mælanlega kjaftæðis. *** Og nú er ég farinn í bólið.

Untitled

Ef að Dustin Hoffman er sekur um allt það sem á hann hefur verið borið – og ekkert annað – er hann sennilega saklausasti maður á jarðríki. Vel að merkja segist hann líka vera saklaus af því sem á hann er borið. *** Ég hef það á tilfinningunni samt að menn einsog hann virðist ínáanlegri – þegar maður nær ekki að fella Trump á píkugriplunum þá snýr maður sér að einhverjum sem þarf raunverulega á sínu „aproval rating“ að halda. Reiðin leitar sér útrásar. *** Í gær fékk ég pata af umræðum á Twitter um hómófóbíu í textum Herra Hnetusmjörs – textinn er einmitt svolítið einsog þriðja skolvatn af einhverjum old school fordómum, og ber þess einmitt merki að vera alls ekkert 2017, heldur í besta falli 1997, svona early Eminem, sem dó út eftir dúettinn með Elton. Íslenskt rapp er auðvitað ennþá ekkó. *** En hvað um það – í þeirra umræðu sagði einhver að þótt maður væri gangsta þá þyrfti maður ekki að vera óþokki. Það fannst mér mjög skemmtilega skrítinn skilningur á gangstamenningunni. Minnti mig á eitthvað sem Zizek sagði – það var áreiðanlega hann – um að í samtímanum vildum við fá allt án essensins í því, við vildum bara sýndina, bara drekka koffínlaust kaffi, fitusneytt smjör, veipa hættulausar rettur, stunda greddulaust barneignalaust kynlíf o.s.frv. Og nú viljum við sem sagt safe space gangsta rapp. *** Þetta var PC blogg dagsins. Ég þakka þeim sem lásu.

Untitled

Það er greinilega mjög gaman að mynda ríkisstjórn með Bjarna Ben. Katrín varð svo high on life af því að hálf þjóðin hélt hún hefði verið full í sjónvarpsviðtali. Það hvarflaði reyndar að mér, hvort að Sigmundur Davíð hafi ekki verið eðlilegri mannvera áður en hann fór í sumarbústað með Bjarna og breyttist í vitfirring – hvort að hann sé sjálfur bara svona high on life, ástsjúkur maður í viðstöðulausri höfnun, neggaður í drasl.

Untitled

Laufabrauðsgerðin tókst vel. Í kvöld er svo dinner í sama húsi og allir kátir. Mér hefur að vísu þótt ég þreyttur og gamall í allan dag – svaf til hálftólf, fór út að hlaupa og dæsi bara. Gerði mat handa fólkinu sem fer ekki með – pyttipanna, að pöntun – og blandaði mér einn Irish Coffee og einn eins fyrir frúna með næstum engu írsku.

Untitled

Ég ætlaði að taka síðasta AC/DC bloggið í dag en sennilega þarf ég að eyða tímanum í annað. Og kannski skipti ég því líka niður í tvennt. Það þarf annars vegar að afgreiða þessu glæstu endalok – því þau eru endalok, hvað sem hver segir, ef Malcolm rís ekki frá dauðum og Brian fær heyrnina aftur (eða Bon snýr aftur með Malcolm) og Phil verður hleypt úr fangelsinu og Cliff hættir við að vera hættur þá er AC/DC með bara Angusi ekki AC/DC lengur. Hann er augljóslega hin ADHDaða stafnmey þessa skriðþunga ferlíkis – en sveitin er ekki bara hann; hann lifir og tryllist í skjóli festunnar sem sveitin hefur veitt síðustu hálfa öldina. AC/DC er hætt, það á bara eftir að senda út fréttatilkynninguna. *** Viðbót [hér vantaði eitt hins vegar] : Og hins vegar þarf að draga saman ferilinn og ræða hann sem eina heild. *** Snæbjörn, kollegi minn í bloggheimum, fær hótunarbréf þess efnis að hann skuli hætta að mæra Ólaf Jóhann, eða hafa verra af – þar sem nafnlaus höfundur umorðar nokkuð sem ég skrifaði hér um daginn um að grand old men væru alltaf að vígja sér bókmenntaprinsa. Snæbjörn gerir því jafnvel skóna að hér hafi kannski „þekktur rithöfundur“ skrifað undir dulnefni, sem ég tek til mín og þykir eiginlega skot undir beltisstað. *** Ég legg það annars ekki í vana minn að skamma fólk undir dulnefni. Það væri enda fáránlegt, ég er alltaf að skamma fólk og stríða því bara undir mínu eigin vesæla nafni. Ég sé ekki hvað ég myndi græða á því að skrifa einhverju fólki í útlöndum undir dulnefni – og þess utan til að segja því að hætta að hafa gaman af því að lesa Ólaf Jóhann! Einsog það komi mér við. Ég hef ekki einu sinni lesið Ólaf Jóhann. Það er varla að ég hafi spilað Playstation. *** Ég hef reyndar oft haft Snæbjörn grunaðan um að skálda mikið af blogginu sínu. Það gerir það ekki endilega neitt verra. Kannski er það bara vegna þess að ég fæ aldrei nein bréf, sem þetta slær mig oft svona, eða í það minnsta ekki mikið af bréfum frá ókunnugu fólki, nema fólki sem á við mig önnur erindi en t.d. að segja mér hvað ég eigi að lesa. Fólk skammar mig ekki einu sinni fyrir tónlistarsmekkinn, sem ég deili þó ekki nema með litlum hluta vina minna í bókmenntaheiminum – þeirra sem eru líklegastir til að skrifa mér bréf. *** Hann er líka mjög gjarn á að skrifa áþekkar senur – þar sem ónefnt fólk, yfirleitt rithöfundar eða fólk úr bókmenntaheiminum, er bleyður eða dónar eða gerir eitthvað annað sem kveikir áhuga lesendans, eða réttara sagt forvitni hans, stígur rétt svo aðeins út yfir ramma þess sem okkur þykir æskilegur, bara pínkulítið, svo við byrjum að hvískra: Um hvern er Snæbjörn að tala núna? *** Kannski skrifaði ég honum bara í blakkáti. Ég fékk mér einn í gær – sat fram eftir kvöldi og las óútgefin ljóð eftir Fríðu Ísberg (sem er meðal annars þeim kostum búin að kunna að meta AC/DC og spila á SG), drakk einn gamaldags og hlustaði á „classical music for reading“ playlistann á Spotify. Þetta var mjög kósí. En kannski fór þetta úr böndunum og ég endaði rallandi fullur að skrifa níð til Danmerkur. Maður er svo ófyrirsjáanlegur þegar maður er byrjaður að blanda sér í glas. *** Ég er í þeirri öfundsverðu stöðu að vera frekar ósáttur við nýja ríkisstjórn en samt ekki pípandi brjálaður – og finnst eiginlega þeir sem garga beggja vegna línunnar vera jafn mikið á valdi eigin bræði. Þetta var ekkert besta lendingin en úrslit kosninga eru úrslit kosninga og það er glatað að Bjarni Ben skuli alltaf eiga afturkvæmt en það er líka kjósendum hans að kenna. Vinstri velferð, hægri hagstjórn – hann Gylfi vinur minn í Viðreisn er ábyggilega hæstánægður. Ég er hins vegar skíthræddur við hægri hagstjórnir og held þær muni á endanum leiða til þess að þjóðfélagið allt logi, það verði reistar hér fallaxir og gapastokkar á torgum og burgeisarnir ristir upp. Ekki að ég haldi heldur, reyndar, að Samfylkingin eða Viðreisn hefðu komið í veg fyrir það – ég held m.a.s. að Vinstri Grænir séu bara nokkurn veginn á sömu línu og kapítalið með þetta. *** Um daginn hitti ég þingmann sem sagði við mig – a propos ræðuna sem ég flutti á borgarafundinum, um að það væri ofbeldi að breyta heimkynnum fólks í þjóðgarð – að þetta væri áhugaverð líking en að hann vildi búa í þjóðgarði. Ég svaraði þessu engu þá, velti því bara fyrir mér í nokkra daga, hvað þetta þýddi. Er maður þá á móti t.d. þéttingu byggðar? Móti nýjum strætóleiðum? Augljóslega getur fólk búið í þjóðgörðum en það getur ekki gert hvað sem er – margt af því sem mannlífinu fylgir gengur ekki upp í þjóðgörðum. Ef maður býr í litlu bæjarfélagi getur maður heldur ekki jafn auðveldlega skipt því upp í „vinnustaðahverfi“ og „kaffihúsahverfi“ og „íbúðarhverfi“ – þótt slíkar línur séu stundum dregnar – því allt blandast óhjákvæmilega svolítið saman. Mér hefur aldrei þótt það af hinu verra. *** Annars rifjaði ég það upp – og ég talaði víst ekki um þjóðgarð heldur friðland. Ég held að í friðlandi geri maður ekki neitt. Ef maður býr í friðlandi þarf maður að fara í tveggja tíma bátsferð bara til að komast í sjoppu. *** Augljóslega býr maður heldur ekki í friðlandi eða þjóðgarði með mörgum öðrum. Hitt fólkið raskar allt friðlandinu. Skilgreiningin á því er hreinlega að það fái að vera í friði fyrir manninum – að hann búi ekki þar, vegna þeirra augljósu áhrifa sem hann hefur á umhverfi sitt. (Það er vel að merkja ekki þar með sagt að friðlandið sé „náttúrulegt“ eða „ósnortin náttúra“ – margir helstu spekingar í þeim fræðum eru farnir að líta svo á að slíkt sé einfaldlega ekki til lengur, hugtakið sé bull; það sem maður girðir af er manngerður garður, og friðlönd og þjóðgarðar sem ætluð eru túristum eru bara manngerð söfn). *** En jæja. Ég blogga bara um AC/DC á morgun eða eftir helgi, sjáum til, kannski bæði.

Untitled

Ég stóð mig að því hvern einasta dag í síðustu viku að hefja daginn á því að drekka morgunkaffið mitt og lesa nauðgunarlýsingar dagsins í fréttamiðlum. Þetta var svona morgunhefðin mín, ritúalið, og hún kom til alveg óvart – ég hafði ekki séð það út að þetta væri besta leiðin til þess að starta deginum, það bara gerðist. *** Í morgun var ég byrjaður á þessu þegar ég bakkaði skyndilega – og hugsaði nei, Eiríkur, hvað ertu að gera? Ég lagði frá mér símann – í miðri shellsjokkaðri núvitund – og dró til mín kindilinn. Og þar mætti mér eiginlega alveg … nei, ekki sami harmurinn, en ofbeldisharmur, í The Unwomanly Face of War eftir Aleksevitsj. Ég las 20 síður og fór svo á fætur. Trámatíseraður í klessu. *** Mér var sagt í Frakklandi á dögunum að hún hefði verið áberandi á bókamessunni í Frankfurt nú í haust löngun útgefenda til þess að gefa út „sannar“ harmsögur. Útgefandinn sem sagði mér þetta gat varla á sér heilum tekið, hann (hún) hrækti út undan sér á meðan hann (hún) talaði – einsog hann (hún) væri að boða heimsendi. Það sló mig líka um árið að Frakkar virtust ekki sérlega hrifnir af Aleksevitsj og mörgum fannst alger skandall að hún fengi Nóbelinn og þeir hafa ekkert náð að tromma upp hjá sér áhuga á Knausgaard, sem einhver sagði við mig að virkaði einsog „200 ára gamall uppvakningur“ á Frakka, sem væru löngu búnir með þessi epísku, endalausu sjálfsævisöguleg skrif. *** Ég hugsa oft til bókarinnar Reality Hunger eftir David Shields. Þar sagði hann – fyrir sjö árum – að tími hins skáldaða væri einfaldlega liðinn og nú tæki við sannsaga. Ein af afleiðingum félagsmiðla er auðvitað sú að við erum í viðstöðulausri tengingu við einhvers konar sýndarsálarlíf hvers annars – og það er allt performans, frá kökubakstri til nauðgunarlýsinga til landsleikjaselfía – og ég meina það ekki sínískt ég meina það bara bókstaflega (öll frásögn er performans). En það er líka leit að einhverju sönnu. Og hinu sanna virðist fylgja einhvers konar ölvun – sem veldur samfélagsmiðlafíkninni sem veldur sennilega þránni eftir sannsögunni. *** En á sama tíma liggur fólk auðvitað í skáldskap – t.d. Netflix seríum (sem er alger óþarfi að gera lítið úr, þar eru margar góðar sögur sagðar, Netflix seríur eru ekki sjálfkrafa verri en íslenskar ljóðabækur, einsog mér fannst „ónefnt skáld“ („Dagur ljóðsins II – the revenge of Dagur ljóðsins“) gefa í skyn í viðtali á dögunum, það fer bara eftir seríunni og ljóðabókinni). Og ég las líka viðtal við lækni á BUGL sem sagði að á meðan stúlkur yrðu háðar lækinu og félagsmiðlum yrðu strákar háðir online-leikjum – sem er auðvitað meiri „veruleikaflótti“, meiri „skáldskapur“ og í andstöðu við þá klisju að stelpur vilji skáldskap en strákar non-fiction, stelpur lesi Harry Potter en strákar Útkallsbækur. *** Og hvað þýðir þetta allt saman? Ég veit það ekki. Þarna á milli einhvers staðar er auðvitað „raunsæisskáldskapur“ – sá sem keppir að sannferðugheitum frekar en sannlíkindum, að þetta gæti gerst frekar en þetta  hafi gerst . Mér finnst einsog raunsæið sé meira og minna allsráðandi í fagurbókmenntum og við höfum látið geirahöfundum eftir fantastískari hluti. Kannski er það ekki nákvæm tilfinning.

Untitled

Í dag hef ég verið þreyttur, einsog í gær. Ég píndi mig samt út að hlaupa – rauk út á Hnífsdalsveg og ætlaði að hlaupa eftir göngustígnum en þá var ekki búið að ryðja hann og ég var fastur í vegarkantinum. Sennilega hafa bílstjórarnir hugsað mér þegjandi þörfina einsog ég hugsaði snjómokstursyfirvöldum þegjandi þörfina. Ég fór líka með orkídeu til pabba – gróðurhúsbóndans – en annars hef ég mest verið fastur í eldhúsinu, að taka til og ganga frá og þrífa. Gerði nýja gúrkublöndu, eldaði blómkálssúpu úr afgöngum í ísskápnum, hrærði í eitt brauð – og eldaði hádegisverð þarna einhvern tíma í millitíðinni. Mér finnst gaman í eldhúsinu en þetta var helst til mikið gaman í dag og kannski ekki alveg skemmtilegustu verkin heldur (ég er að reyna að koma því að hversu pirraður ég varð af því að vakna síðastur og fá þar með að ganga frá morgunverði hinna fimm heimilismannanna áður en ég gat farið að borða morgunverð sjálfur, að koma því að sem sagt án þess að það hljómi einsog ég sé algert fífl sem nenni aldrei að gera neitt fyrir neinn). *** Nú er ég að drekka Dark ‘n’ Stormy með alvöru Gosling rommi sem ég keypti í stórborginni fyrir sunnan. Ég ætlaði líka að kaupa Peychauds Bitter en stórborgin er greinilega ekki nógu stór fyrir þannig – og því fæ ég víst engan Sazerac í bráð. Annars er orðið til svo mikið af brennivíni í þessu húsi að ég gæti drepið heilt fótboltalið, með varamönnum, þjálfurum, sjúkraliðum, mökum og afkomendum, úr áfengiseitrun. Ef ég lendi einhvern tíma í vandræðum með afborganirnar af húsnæðisláninu sel ég kokteila, ljóðabækur og svitabönd út um eldhúsgluggann – af þessu á ég slíka ógrynni.

Untitled

Á Reykjavíkurflugvelli. – Mamma, sjáðu manninn, hann er alveg einsog pabbi hennar Ainoar.

– Þetta er pabbi hennar Ainoar. *** Það hvarflaði reyndar að mér í augnablik – ég var dálítið rykaður eftir bratta nótt – að þetta væri rétt hjá stúlkunni og rangt hjá móðurinni, ég væri eiginlega meira einsog ég sjálfur en ég væri í raun ég sjálfur. *** Nú er ég kominn heim og þá er viðbúið að ég snúi aftur í þennan draug, þessa eftirlíkingu mína, von bráðar.