Untitled

Ég er farinn að halda að listin lifi ekki af pólitík samtímans. Í það minnsta er ljóðlistin farin að láta á sjá. Pólitísk ljóð samtímans – í merkingunni síðustu vikna – eru einsog skopstæling á forminu. Mér líður einsog ég sé staddur í Southpark þætti t.d. þegar ég hlusta á þetta . Með fullri virðingu fyrir málstöðunum öllum, sem ég meira og minna styð. *** Sem er reyndar ekki slæmt. Southpark eru oft fínir. En vandræðalegt þegar manni finnst einsog það hafi alls ekki verið meiningin. *** Einsog Taylor Mali orti um árið í How To Write A Political Poem: Mix current events with platitudes of empowerment.

Wrap up in rhyme or rhyme it up in rap until it sounds true. *** Annars lifir samtíminn – þessi skegglausa og sköllótta rímöld – nú ýmislegt af. Að minnsta kosti hingað til. Ég veit ekki alveg á hvaða stigi brestirnir verða of miklir. Ætli það sé einhver golfstraumur í ljóðlistinni – sem getur vikið af leið og breytt landinu í auðn ef ekki er hlúð að loftslagsmálum fagurfræðinnar? *** Mér gengur ekkert að einbeita mér að vinnunni reyndar. Kannski hefur það með loftslagsmálin að gera líka.

Untitled

Hafið þið tekið eftir fólkinu sem svarar öllu sem ekki smellur að siðferðislegri heimsmynd þeirra með því að ranghvolfa bara augunum? Ekki kannski bókstaflega, en svona … „djísus“, „byrjar þessi“ … o.s.frv. einsog viðkomandi séu í senn svo lífsreynd að þau hafi séð allt áður og svo kúl að þau þurfi aldrei að gaumgæfa neitt. *** Pínu þreytt! *** Djók. *** Annars er óþarfi að þræta um alla hluti. Og þá meina ég að skiptast á skoðunum viðstöðulaust, grafa sig ofan í facebookþræði. Það á við sums staðar og stundum – getur verið gagnlegt – en það á alls ekki alltaf við. Oft er hraðinn einfaldlega of mikill. Hlutir eru skrifaðir of hratt, lesnir of hratt og það heyrir enginn í neinum fyrir öllu garginu. *** *** Við nýtum einkadagana okkar feðgarnir til þess að laga mat. Í gær skrifaði Aram Nói sína aðra uppskrift í uppskriftabókina – að skánskri eggjaköku með beikoni og sultu. Hann er kominn upp á lagið með að brjóta egg (það lærði ég ekki fyrren eftir tvítugt) og finnst þetta gaman, sem er fyrir öllu. Það er enn vetrarfrí í skólanum svo við sváfum út og lágum svo í rúminu og lásum í morgun. Ég hef verið að vinna bara heima, ekki að það skipti máli – hann getur allt eins fundið mig á kontórnum, og svo er hann hvort eð er farinn út á rand með vinum sínum núna. *** Ég er að lesa Museum of Innocence eftir Pamuk, sem ég keypti á samnefndu safni í Istanbul í fyrra, korteri áður en það fór allt til andskotans. Frábær bók, en kannski ekki sá ástaróður, sá óður til ástarinnar, sem kynntur er á bakkápu – Kemal Bey, aðalsöguhetjan, er eiginlega hálfgerður sósíópati, sjálfselskur dekurkjói og í einhverjum skilningi einmitt fullkomlega ófær um að elska. En bókin er góð fyrir það. *** Bíð eftir jólabókaflóðinu. Slitförin eftir Fríðu Ísberg kom út í síðustu viku – ég pantaði hana fyrir löngu en hún er enn ekki komin. Ef hún fer ekki að birtast klaga ég útgefandann (Valgerði Þóroddsdóttur hjá Partus) í landsbyggðarlobbíistann pabba sinn (Þórodd Bjarnason fv. formann Byggðastofnunar) fyrir að sinna ekki okkur dreifurunum sem skyldi. *** Annars bíð ég spenntur eftir Vali Gunnarssyni og Tóta Leifs og Kristínu Eiríks. Ætla að skrifa um Ko Un fyrir Starafugl – hún verður sennilega tekin ásamt ensku ljóðasafni eftir sama mann þegar ég lýk við Pamuk (þetta eru 700 síður af sósíópatískri þráhyggju). Svo skoða ég hvað og hvort ég les fleira úr flóðinu eftir því sem á líður. Ég hef verið í mótþróa gagnvart flóðinu lengi, fundist þessi skyldulestur óþægilegur, en er eitthvað að íhuga að vera með „í umræðunni“ í ár.

Untitled

Tilfinningar sem bærðust í hjarta mér í liðinni viku og hugsanir sem bærðust í höfði mér. *** Ha, aftur? Deja fokking vú. *** Af hverju kemur þetta fólki á óvart? Voru allir í viðstöðulausu í blakkáti á djammárunum? Er fólk svona heilagt upp til hópa – hefur það aldrei gert neitt eða lent í neinu? Aldrei verið ósvífið og aldrei lent í ósvífni? Og ef svo lukkulega vill til, hvar var það þegar öll hin hasstöggin ruddust yfir heiminn? Man enginn #6dagsleikinn og #fokkofbeldi og allar gulu og appelsínugulu prófílmyndirnar? Hefur það ekki lesið blöðin síðasta áratuginn? *** Ógleði. Djöfull sem það er erfitt að innbyrða svona stjórnlaust flóð af harmi. Ég á ríflega 2.200 vini á facebook, ætli helmingur sé ekki konur. Ég get ekki átt svona marga trúnaðarvini. Get ekki farið á 1.100 manna trúnó. Ekki vegna þess að það sé ekki mikilvægt að geta talað um hlutina heldur einfaldlega vegna þess að þetta er trámatíserandi – mannskepnan ég hefur ekki kapasítet til þess að kljást við jafn mörg einstök tilfelli af harmi í einu. Til þess er tölfræðin, svo maður kafni ekki á bitunum. *** Ég hataði heiminn. Hataði sjálfan mig. Og rifjaði upp allt – allt sem hefur komið fyrir mig, allt sem ég hef gert, allt sem ég hef orðið vitni að. Ég eyddi sennilega um áratug í versta kaosinu og á það til að heimsækja það enn. Það er ansi mikið sem gæti sætt endurskoðun – ég var aldrei sérlega ósvífinn sjálfur en samt. Kannski var ég það bara víst. *** Það voru miklu oftar konur sem stigu yfir mín mörk en karlmenn. Sumar þeirra eru vinir mínir á FB og skrifuðu sínar eigin sögur. Til dæmis þessi þarna sem bauð mér upp á óumbeðinn skrúfusleik á 22 – áður en hún yrti á mig. Og önnur gerði svipað á Ölstofunni. Sennilega fannst mér það bara töff. Að einhver vildi fara í skrúfusleik við mig. Langaði mig ekki í skrúfusleik, var ég ekki alltaf að kvarta undan því að ég kæmist aldrei í skrúfusleik? Ef ég hefði tekið því verr hefði það sennilega haft aðra merkingu á endanum. En ég gerði það ekki og of seint að fara að láta núna einsog ég hafi móðgast þá. Ég er ekki fb-vinur þeirrar sem skreið upp á mig áfengisdauðan í partíi fyrir hundrað árum. Og þótt ég hafi ekki tekið því vel, tók ég því samt ekkert brjálæðislega illa. Ég til dæmis vaknaði ekki. *** Það sló mig líka að margir sem þurftu raunverulega að opna sig og gerðu það voru reknir aftur inn í skápinn. Af því þeir voru karlmenn sem sagt. „Þú stelur þessu ekki“, sagði ein við einn. „Þetta er ekki ykkar dagur“. „Þið verðið bara að fá ykkar eigið átak seinna“. Og ég hugsaði: Þetta er ekki fyrsta svona átakið og þau eru ekki auðveld og þau fara augljóslega sínar eigin leiðir – eða þangað sem við stýrum þeim. Það eru allir sammála um að vandamál karla – sem þolendur kynferðislegrar áreitni, ofbeldi og nauðgana – eru mjög dulin. Og ég spurði mig: Hver er munurinn á því að reka einn svona karl aftur inn í skuggann – vegna þess að mann grunar hann um græsku, eða af öðrum sökum – og að segja konu að vera ekki að bera vandamál sín á torg, saka fólk um alls kyns óhæfuverk án sannanna? Ef þetta átak, þessi skriðþungi, hefði orðið til þess að opna á aðra flóðbylgju karlmanna, sem færu að ræða þá misnotkun sem þeir hefðu orðið fyrir – hefði það verið svo slæmt? Hefði það gert minna úr konunum? Var einhver nefnd búin að ákveða nákvæmlega hvernig þetta átak átti að líta út eða hvernig það mætti þróast? Virkar internetið þannig? *** Ég þekki all lives matter rökin gegn black lives matter og þau eru ekki góð. En þessir vinir mínir voru ekki að segja: Öll kynferðisbrot eru slæm eða gefa í skyn að #metoo konurnar væru að gera lítið úr kynferðisbrotum sem karlar verða fyrir með því að tala upphátt um sína reynslu. Þeir voru að segja: Þetta kom fyrir mig. Ég er hérna líka. Og ég er ekki viss um að það sé nokkurn tíma rétt viðbrögð að segja manneskju í þeim sporum að halda kjafti, og það jafnt þótt það sé gert af góðum hug og kurteisi. *** Ekki „haltu kjafti og vertu sæt“ einsog einn orðaði það, sem bar sig illa, heldur „haltu kjafti og harkaðu af þér“. *** Er ég að flækja hlutina af einhverri meðfæddri eða lærðri kvenfyrirlitningu? Ég spyr í alvöru, en er ekki viss um að ég treysti neinu einu svari. Vonandi er ég bara að leita að núönsum vegna þess að mér finnst núansar mikilvæg tæki til þess að komast að niðurstöðu – finna eitthvað sem er rétt. *** Og ég var sár og reiður að þurfa að rifja enn einu sinni upp alla skapaða hluti úr mínu eigin lífi. Hluti sem ég hef bælt, vísvitandi eða óvart, og hluti sem ég hef tekist á við og melt þúsund sinnum síðasta áratuginn eða svo. Að vera óspurður dreginn í sirkusinn upp á nýtt. Auðvitað átti ég bara að slökkva á Facebook. Það voru engar fréttir í þessu fyrir mig. *** Mér datt í hug leikur. Hvað ef við töggum alla sem við höldum að hafi hugsanlega verið sekir um eitthvað? Alla sem við vitum að hafa gert eitthvað. Eða bara þá sem virka þannig týpur. Frökku gaurana. Þá sem fannst dr. Venkman í Ghostbusters vera aðeins of sniðugur. Og kannski frökku gellurnar líka. Taggtagg. Ég er viss um að þið eruð með eitthvað ljótt í pokahorninu, reynið bara að neita því. *** Ég rifjaði upp samræður við sænskan sálfræðing (ekki minn) sem sagði mér að fólk misskildi oft tilgang sálfræðimeðferðar og héldi að hún væri einfaldlega og alltaf til þess ætluð að „lækna“ fólk. Augljóslega ætti hún að reyna að hjálpa fólki að takast á við versta skaðann, en þessi hversdagslega sálfræðimeðferð – fyrir fólk sem er ekki beinlínis ofarlega á veikindakvörðunum – snerist oft um að gera illt verra, sagði hann og hló og dró svo eitthvað aðeins í land. En sem sagt þetta: Oft hjálpar það manni ekki með að líða betur að grafa svona í naflann á sér. En það getur hjálpað manni að skilja eigin vandamál – sem er svo hugsanlega forsenda einhverra breytinga. En markmiðið er ekki endilega andleg vellíðan eða öryggi. (Og það eru til önnur markmið sem geta skipt meira máli). *** Hugsið þetta svona: Þegar maður flýgur úr landi byrjar maður á tveggja tíma öryggisprósess þar sem maður er stöðugt minntur á að terroristar gætu sprengt manni í loft upp ef maður fer ekki úr skónum og lætur gegnumlýsa sig og farangurinn sinn. Svo fær maður að kaupa ilmvatn. Og þegar maður er loksins kominn um borð fær maður fimm mínútna fyrirlestur um allt sem gæti farið úrskeiðis ef terroristar ræna vélinni. Hún gæti hrapað eða flogið á fjall eða aðra flugvél og þá er sem sagt gott að vera í öryggisbelti og vita hvar súrefnisgríman er. Af þessu öllu saman líður manni ekki vel. Maður er afskaplega meðvitaður, maður skilur betur áhættuna sem maður tekur, en manni líður illa. Og þá fær maður að kaupa litlu brennivínsflöskurnar. Svo flýgur maður og maður flýgur aftur og aftur og á endanum verður maður sennilega ónæmur fyrir þessu. Eða nærist á kvíðastillandi. Og litlum brennivínsflöskum. *** Öryggisráðstafanir eru ekki endilega til að minnka okkur kvíða – því þær minna okkur líka stöðugt á að við séum eiginlega bara alveg að fara að deyja. *** Af hverju beita karlmenn öllu þessu ofbeldi annars? Það er hægt að rífast um hverjir verði fyrir því – karlmenn eru ansi duglegir að meiða aðra karlmenn líka – en það eru karlmenn sem beita sennilega 9/10 hlutum af öllu ofbeldi í heiminum. Hvað veldur? Og nei, ég meika ekki billegar útskýringar einsog „toxísk karlmennska“ eða „það er klámið“ eða tölvuleikirnir eða Woody Allen myndirnar – þótt þar sé að finna vísbendingar um eitt og annað, eða í öllu falli einkenni. Eitt er auðvitað að þeir eru stærri, við, meina ég, við erum stærri. Mér hefur ekki staðið ógn af þeim konum sem hafa áreitt mig eða – það er fáránlega erfitt að segja nauðgað. Alveg absúrd. Mér finnst ég ekki eiga neitt tilkall til orðsins. Samt var ég sem sagt áfengisdauður og frétti þetta ekki fyrren daginn eftir. En ofbeldi hlýtur einhvern veginn alltaf að vera þegar stóri lemur litla – og ég er kannski bara of stór til að verða fyrir ofbeldi. *** Og sennilega er það líka billeg útskýring. „Konur eru bara svo aumar“ – það gengur ekki alveg upp. *** Og ég hugsaði að þetta væri kannski einsog hungurklámið frá því ég var barn. Og að ég þyrfti ekki að fá myndir af öllum börnum í heiminum sem eru að svelta í hel til að átta mig á vandanum. Þær væru bara til að valda mér vanlíðan. Og svo er það kannski ekki heldur satt. Kannski þarf maður það allt. Ég man eftir að hafa hugsað sem unglingur að dagblöðunum bæri skylda til að sýna hvert einasta lík í Írak, við þyrftum að sjá ofbeldið, a.m.k. allir sem eru með í NATO. Kannski á maður vanlíðanina skilið. En ég get gengið úr NATO – get neitað að borga skatta eða flutt úr landi, í NATOlaust land. *** Ég á ekki við að maður megi vera vondur. Ég á við að það er rangt að vera góður innan þess ramma að það sé eðli manns – eða hreinlega einhvers konar misskilningur. Maður á að gera sitt besta til að vera góður. En það hlýtur að gerast út frá því að manni geti … mistekist? Að kannski muni það ekki alltaf takast, kannski muni maður ekki alltaf vera góður, og það sé hægt að lifa við það – og hægt að bæta fyrir það – nema maður gangi yfir einhverja línu. Ég er ekki alltaf viss um að ég viti hvar sú lína liggur og ég veit að það er freistandi – það er beinlínis kynþokkafullt – að dansa á henni. Sá sem neitar því lifir í einhverjum öðrum heimi en ég. Lífsháski er hættulegur. Og kannski þarf maður þá bara að taka afleiðingunum af honum. *** Ofbeldisverk vinnur maður ekki bara fyrir mistök, þótt það sé stundum raunin – ekki bara fyrir kjánaskap og heimsku heldur, ekki bara vegna þess að maður var ekki að horfa, var ekki að fylgjast með sjálfum sér og hreyfingum sínum í gegnum heiminn. Maður vinnur líka ofbeldisverk vegna þess að það er eitthvað vont í manni. Okkur öllum. Eitthvað eigingjarnt – eitthvað sem vill og vill og skeytir ekki um aðra – en líka hreinlega eitthvað sem vill ekkert annað en eyðileggingu, að valda skaða. Eitthvað vont . Ég meina það ekki biblískt en ég meina það næstum biblískt. Þetta viðbragð er blessunarlega afar takmarkað í okkur flestum en ég hef enn engan hitt sem er svo góður að það sé ekkert illt í honum. *** En ofbeldi er samt sturlað. Og það er fyrst og fremst á forræði karlmanna – ég neita því ekki svo auðveldlega. Karlkyn er sameiginlegi nefnarinn. Og já maður ber meiri ábyrgð ef maður er stór – það er bara þannig. Það er ekki það sama ef Nadja kýlir mig og ef ég kýli hana (við höfum aldrei kýlt hvort annað nema kannski þegar við erum bæði í blakkáti – djók, Nadja hefur ekki farið í blakkát í 20 ár og ég rota hana aldrei nema í gríni). *** Annar sameiginlegur nefnari – næstum jafn algengur – er áfengi eða aðrir vímugjafar. *** Mig langar samt að standa vörð um ruddaskap. Um dónaskap og ósvífni. Ég veit ekki hvers vegna mér finnst það mikilvægt – ég er hrifnari af hinu beinskeytta í tilverunni. Og það sem tekur við af dónaskap og ósvífni – og þetta finnst mér þegar alveg ljóst – er passíf-agressjón og eins konar samkeppni í gæsku sem mér finnst sennilegt að verði fljótt miklu grimmari en dónaskapurinn og ósvífnin. Það er eitthvað heiðarlegt við ósvífnina – eitthvað sem gengst við sjálfu sér, við breyskleikanum, og hefur húmor fyrir honum. *** Og nei það þýðir ekki að maður megi misnota fólk og segja bara að maður hafi verið að djóka. Það var ekki það sem ég var að meina. *** Það er voða tilgangslaust að tala út um annað munnvikið um að það megi ekki skrímslavæða nauðgara (því þetta sé svo algengt, þetta sé venjulegt fólk) og að skrímslavæða þá út um hitt (þeir eigi helst ekki að vinna innanum fólk eða taka þátt í lífinu á eðlilegum forsendum og þeim sé engin vorkunn o.s.frv.). Raunar skiptir voða litlu máli hvort einhverjum finnist að það eigi eða eigi ekki að skrímslavæða nauðgara – það er alveg ljóst hvert álit samfélagsins á slíku fólki er. Og það er ekkert nýtt heldur – ég man eftir því að á Ísafirði fyrir 20 árum fór heilt ball af fílefldum karlmönnum í partí í bænum og barði strák til óbóta sem var sakaður um að hafa nauðgað stelpu fyrr um kvöldið. Mér finnst einsog slíkar barsmíðar hafi verið hluti af hinni „toxísku karlmennsku“ frá því ég man eftir mér og áreiðanlega miklu lengur. Að vernda konur – fór ekki Don Kíkóti af stað til að vernda konur? Svona ofan í þetta með vindmyllurnar. *** Og nei, þeir sem beita ekki ofbeldi eru ekki sekir um neitt og þurfa ekki að fara í sérstök átök. Við sem beitum ekki ofbeldi – að því marki sem nokkur lögráða manneskja getur haldið slíku fram – getum ekki hætt að beita ofbeldi og okkur ber ekki að taka á okkur neina hópsekt, jafnt þótt við séum svipað kynfæruð. Mér ber ekki að ala upp karlmenn sem beita ofbeldi, af þeirri einu orsök að ég er með lim sem svipar til þeirra lims. Mér ber það kannski sem faðir eða sem manneskja í samfélagi – en limur minn gerir mig ekki sekan um neitt, einn og sér. *** Og já, sennilega beita allir ofbeldi. Sennilega eru allir sekir. Og sennilega eru þeir sem eru stærri – líkamlega, hafa meiri völd, meiri peninga – almennt sekari en aðrir. *** Maóískar játningar á borð við #ihave hafa lítið að segja. Þeir sem stíga fram – þeir sem hafa stigið fram – eru fyrst og fremst þeir sem hafa lítið að játa eða eitthvað mjög gamalt. Og þá lendum við líka í klemmunni að fara að læka sjálfar játningarnar – einn kunningi minn gerði þetta í einhverju af hinum átökunum og var fyrst klappaður upp sem hetja og hugrakkur en svo níddur niður fyrir að vera kallaður hetja og hugrakkur (nánast einsog hann hefði krýnt sig sjálfur). Húrra fyrir þér, hæ-fæv og fokkaðu þér fimm sinnum alla leiðina til helvítis. *** Sennilega er þetta „vandamálið við internetið“. Það er bara kaos. *** Maður dömpar kannski ekki ofbeldislýsingum eða yfirlýsingum á fólk. Ekki án þess að hafa ærna ástæðu til. Ekki af léttúð. *** Það er að mörgu leyti auðveldara að játa það sem hefur komið fyrir mann en það sem maður hefur gert. Sögurnar sem við eigum úr seinni heimsstyrjöldinni, sem dæmi, úr helförinni, eru sögur fórnarlambanna. Þeir sem börðust í stríðinu sögðust einfaldlega ekki vilja tala um það, því stríð væri viðbjóður. Þeir sem sögðu eitthvað sögðu frá því sem þeir höfðu séð, ekki því sem þeir gerðu. Og þeir sem unnu í útrýmingarbúðunum voru kallaðir fyrir rétt og játningarnar píndar upp úr þeim. Simon Wiesenthal stofnunin biður ekki helfararforingjana að vinsamlegast stíga fram svo megi ræða glæpi þeirra án þess allrar skrímslavæðingar (því það var líka bara venjulegt fólk sem vann í Treblinka). *** Fyrir svo utan hitt að þessar sögur eru eða ættu að vera á forræði þolendanna. Myndi nokkur þolandi kæra sig um gerandinn færi að úttala sig um það sem þeim fór á milli – stjórna frásögninni – jafnt þótt það sé gert í skjóli nafnleyndar? Maður veit það sjálfur og á sína eigin útgáfu af sögunni, þar sem ekki er borið í neina bætifláka (það er réttur gerenda að koma með afsakanir, vel að merkja, maður gerir manneskju varla neitt verra en að ræna hana sinni hlið veruleikans). Og þeir rífa þá upp sár sem einhver ætlaði að láta í friði? Þess getur gerst þörf, en það hlýtur þá alltaf að vera á forræði þess sem mátti þola helvítis gjörninginn – nema kannski í allra þynnstu dæmunum. *** Ég man eftir tilfellum – sérstaklega frá því ég var yngri, blindfullur 15 og 16 ára hreinn sveinn – sem eru óafsakanleg. Man eftir því að hafa káfað á stelpu – utan á gallabuxunum – sem var að minnsta kosti jafn full og ég. Óumbeðinn, alveg upp úr þurru og var ýtt burt. Og ég man eftir einhverju fleiru og flest af því er óljóst og í áfengismóðu og ég treysti mér ekki til að fara rétt með. Ég hef beðið konur afsökunar, ég hef spurt hvort ég hafi gengið yfir mörk, hvað gerðist eiginlega og fengið svarið: nei, ég held ekki, ég man það ekki. Ég man ekki til þess að ég hafi verið spurður að slíku sjálfur. *** Ég hugsaði um öll börnin og unglingana á Facebook. Hvað um börnin! hugsaði ég. Ætlar enginn að hugsa um börnin?!! Alla taugaveiklunina sem hlýtur að grípa um sig. Ef mér líður svona af þessu, ef ég fæ æluna upp í kok fimm sinnum á dag – að vera af þessu kyni, að vera fastur í þessu kyni, sekur vegna tengsla ef ekki annars (sennilega líka annars, ég trúi því ekki að neinn sé saklaus, ekki heldur konurnar) – í holskeflu af ofbeldislýsingum, hvernig líður þeim þá? Ef maður vill ræða um aukinn kvíða hjá ungu fólki sem hangir í símanum allan daginn hlýtur maður að vilja athuga hvað þau eru að skoða – og það er ekki bara klám, mörg þeirra horfa aldrei á klám og líður samt illa. Ef einhver tæki börn – eða þessa yngri unglingar sem eru þó á Facebook – afsíðis og færi að messa ofan í þau kynferðisofbeldislýsingar (sem voru margar grófar í mínu fréttaflæði) yrði maður sennilega stoppaður af. Bíómyndir af þessu tagi eru bannaðar innan sextán. *** En mér finnst reyndar alveg ástæðulaust að vanmeta börn. Þau hantera það sem þau á annað borð skilja alveg áreiðanlega betur en margir. *** Ég geri nú ekki annað en að vera í mótsögn við sjálfan mig hérna. Jæja. *** Og mér ofbauð fórnarlambsnarsissisminn. Og mig langaði ekki að taka þátt í honum (ég er að taka þátt í honum). Mig langaði að það væri eitthvað stærra, einhver gjörð sem snerist ekki um sjálfið, ekki um persónulega vitundarvakningu, ekki um mig – af því ég held að sjálfhverfan sé alveg næg (ekki bara mín, heldur samfélagsins), hún er kannski að kæfa samfélagið. Og það er eitthvað sikk við að fara um internetið lækandi sögur af tráma. Hæ-fæva fólk sem er að segja frá ofbeldinu sem það hefur orðið fyrir. Það er kannski ágætt ef þú getur það en ég get það ekki. *** Og sennilega er mér engin vorkunn. *** Hvað varðar listaverkin – myndir Weinsteins eða annað – þá eru góð listaverk (þau sem eiga nafnbótina skilið) þess eðlis að þau hefja sig yfir einstaklingana sem gera þau. Þau eru flóknari og stærri og merking þeirra einfaldlega ekki auðráðin – ávöxtur þeirra vex hjá okkur sjálfum. Þess vegna er alltílagi að lesa Ezra Pound, Knut Hamsun og FT Marinetti þótt þeir hafi verið card carrying fasistar (og í tilfelli Hamsun a.m.k., ef mér skjöplast ekki, óttalegur kvenníðingur). Vond listaverk eru svo hryllingur, sérstaklega ef málstaðurinn er réttur – þau draga ekki bara úr mennsku manns, heldur úr gildi listarinnar og málstaðarins. *** Og kannski finnst mér, innst inni, að það sé ekki hægt að gera þá kröfu að maður komist í gegnum lífið án þess að verða fyrir neinu ofbeldi. Mér finnst einsog í kröfunni sé fólgin hugmynd um að allt verði beislað niður – það taki enginn áhættu, sýni enginn ósvífni – heldur fari maður um í kæfandi björgunarvesti hvers hlutverk er ekki síst að minna mann viðstöðulaust á að maður er í hættu á að drukkna. Og þá þarf maður kvíðastillandi og þunglyndislyf til að komast í gegnum daginn. Eða þarna litlu brennivínsflöskurnar. *** Og já, virðing fyrir hugrekkinu. Fyrir að bregðast við af þunga þegar maður telur nauðsyn til. Virðing fyrir samstöðunni (þótt hún hafi ekki náð til karla). Og vonandi – sennilega – verður þetta til þess að eitthvað breytist (þótt við verðum aldrei örugg og þurfum líka að kunna trappa niður trámað og óttann). *** Nú ætla ég að fara aftur að hugsa um AC/DC, byggðamál og bókmenntir.

Untitled

Grænmetisætan er farin úr bænum og því ætla ég að borða lambakjöt alla daga þar til hún kemur aftur. Eða allavega eitthvað kjöt. Búinn að lofa sjálfum mér köfte og hugsanlega kebab og í kvöld verður eldað upp úr blogginu hennar Nönnu – hakk og halloumi . Svo langar mig í eitthvað langeldað marokkóskt. Við erum bara tveir í kotinu, feðgarnir, en ég slepp samt sennilega ekki við að gera pizzu á morgun. Lambapizza? Það verður allavega kjöt á minni. *** Annars ekkert að frétta. Kláraði Veisla í greninu eftir Juan Pablo Villalobos – það verður eitthvað um hana á Starafugli fljótlega. Var líka hafarí bakvið tjöldin á fuglinum í dag, meiðyrði, kæruhótanir, fjölmiðlar, andaskytterí, you name it. Það er ólíkt meiri hasar í ritstjórahluta lífs míns en rithöfundahluta lífs míns. Eða allavega ólíkt meira hrópandi hasar. Hans Blær (skáldsagan) er á góðum rekspöl og ef fer sem horfir akkúrat núna kemur hún næsta haust. Hans Blær (leikritið) verður frumsýnt strax í byrjun mars, held ég. En þetta fer nú líka eftir því hvernig ýmislegt annað spilast.

Untitled

Október. Það er október sem er grimmasti mánuðurinn. Það er ekkert helvítis grillveður, bara kalt og dimmt og trámun berast manni í hlössum, svo mann verkjar í hnén, verkjar í hnakkann, verkjar í gagnaugun og drekann og megnar ekki að fara á fætur á morgnana. Af því allt er svo ógeðslega ömurlegt. Allir eru sturlaðir af ofbeldisþrá og almennri frekju eða á stjórnlausu narsissistafylleríi í hamstrahjólinu. Skriftir og syndajátningar eru orðnar að einhvers konar skylduperformans – sama vitundarvakningin endurtekur sig í sífellu og alltaf er einn eða tveir sem er ennþá hissa, einn eða tveir sem heldur að það séu einhverjir ósnertir af heiminum, einhverjir saklausir, en nei, það er enginn ósnertur og enginn saklaus. *** Ég skal reyna að vera í betra skapi á morgun samt.

Untitled

Það fer allt í taugarnar á mér í dag. Bókstaflega allt. Sennilega þýðir það þá frekar að sökina sé að finna hjá mér en öllu – en ég útiloka þó ekki að allt sé einfaldlega glatað, óviðbjargandi vitleysa, stjórnlaus hégómi og rugl. *** Ég notaði helgina í að setja upp hillur og koma með bækur á skrifstofuna. Þrjár stórar billyhillur og svo var hér ein vöruhilla fyrir, sem geymir nú bækurnar mínar – það er að segja eintök af bókunum sem ég hef skrifað. Dró líka fram bókmenntaverðlaunabikarinn minn og Don Kíkóta styttuna. Gunnar – myndlistarmenntaði maðurinn í næsta herbergi – sagði að bókmenntaverðlaunin væru ljót, en það þýddi ekki endilega að ég hefði ekki verið vel að þeim kominn. Kannski fer líka allt í taugarnar á honum í dag. *** Þetta eru aðallega ljóðabækur – svo bókmenntatímarit og bækur um bókmenntir, einhver örlítil heimspeki og svo allar „Illskubækurnar“, bækur um popúlisma, helförina og öfgahægrið. Á borðinu hjá mér eru svo bækurnar sem hef í huga meðan ég skrifa Hans Blævi. Transgender Voices – Beyond Women and Men, The Guilt Project: Rape Morality and the Law, Happiness: A history, Colonel Barker’s Monstrous Regiment og How To Make Love Like A Porn Star. Að minnsta kosti í augnablikinu. *** Það er góð tilfinning að vera búinn að bóka sig svona upp. Nú þarf ég bara að raða ljóðabókunum í stafrófsröð – annars gengur víst ekkert að finna þær. ***

Untitled

Ég veit ekki hvort heilsa mín þolir miklu fleiri fertugsafmæli. Þetta er sennilega yfirgengilegasta djammtímabil ævinnar, nú þegar vinir manns eiga – hver á fætur öðrum, gersamlega miskunnarlaust – stórafmæli. *** Ég er með höfuðverk að borða skonsur með sinnepi og skinku. Á eftir ætla ég út að hlaupa, lesa meira í Argonauts og fara með bækur á skrifstofuna. Í gær skrúfaði ég saman þrjár billy hillur. Og er þá loks raunverulega fluttur inn á kontórinn. Ég hef setið á honum berum í sirka ár, held ég. Góður kontór. Og gott að komast út af heimilinu til að vinna.

Untitled

Við höfum mjög miklar áhyggjur af tilfinningum hvers annars og því hvernig við virðumst – ímynd okkar, sjálfsmynd. Kannski er það gott. Bensi segir eitthvað sem meiðir, Bjarni Ben segir eitthvað sem meiðir, Steingrímur Joð segir eitthvað sem meiðir. Ímynd þeirra býður skaða og þeir gera sitt besta til að bæta fyrir það með því að biðjast afsökunar. Nei, sennilega baðst Bjarni ekki afsökunar – en hann fór heldur ekki út fyrir hinn almennt ásættanlega orðaforða. Hann hastaði á 18 ára karlmann, nei fyrirgefiði, 18 ára barn, sem gagnrýndi hann harkalega. „Fyrirsátin í Versló“, köllum við það, og aldrei átti Bjarni Ben von á fyrirsát í Versló. Þegar mamma gekk í skólann var innritunareyðublöðum fyrir Sjálfstæðisflokkinn dreift í tímum. Þeir tímar eru greinilega liðnir. *** Nema hvað. Við höfum áhyggjur af sjálfum okkur. Og áhyggjur af öðrum. Og áhyggjur af því að við virðumst bera í brjósti neikvæðar tilfinningar til annarra. Af því það kostar. Sindri Eldon, hinn orðhvassi fyrrum tónlistargagnrýnandi Reykjavík Grapevine – sem ég tók viðtal við um krítík fyrir nokkrum árum – skrifar opinbera afsökunarbeiðni  á Facebook til þeirra tónlistarmanna sem hann skrifaði neikvætt um á sínum tíma – eða allavega þeirra sem hann sýndi hroka (það kemur ekki fram til hverra nákvæmlega afsökunarbeiðnin er – kannski allra sem hann skrifaði nokkru sinni um – mér finnst sennilegt að öll viðkvæmu egóin sem hann særði taki þetta til sín, viðkvæmum egóum finnst líka allt snúast um sig, einsog segir í laginu). Það fylgir reyndar sögunni að Sindri telji sig ekki hafa notið sannmælis sem tónlistarmaður vegna þessara skrifa – að hann hafi verið látinn gjalda þeirra. Um það er auðvitað ómögulegt að segja án þess að fá einhver konkret dæmi – það gæti alveg verið að fólki finnist tónlistin hans bara ekki skemmtileg og hann leiti orsakana þarna (einsog tónlistarmennirnir sem hann skrifaði um kenndu honum áreiðanlega um ófarir sínar). En hann virkar óneitanlega lúinn í þessari ræðu – einsog maður sem hefur einfaldlega gefist upp. Það er líka ótrúlega mikið álag sem felst í því að skrifa heiðarlegan og litríkan prósa um listaverk og fáir sem endast í því. Það get ég einfaldlega staðfest, bæði sem gagnrýnandi og ritstjóri. *** Mér finnst (já  mér finnst! ) þetta allt heldur sjálfhverft. Einhvern tíma var því haldið fram við mig að sjálfhverfan – þessi brjálæðislega viðstöðulausa sjálfhverfa sem samtíminn er að kikna undan – væri bein afleiðing af heimspeki nýfrjálshyggjunnar, sem skilur ekkert nema einstaklinginn og hefur engin stærri samfélagsleg gildi. Það verður engin mergð, ekkert torg, enginn kór. Þannig hefur nýfrjálshyggjusamfélag engan respekt fyrir gagnrýni sem slíkri – hinni pólífónísku rödd ólíkra miðla, ólíkra gagnrýnenda, átaka um fagurfræðilegt mat – því hún getur ekki séð heildarmyndir og upplifir þessar stöku raddir því bara sem innlegg í eineltiskúltúr. *** Þetta helst svo auðvitað í hendur við að gagnrýni fækkar svo að pólifóníukórinn verður að einum og einum hrópanda – geisladiskur fær kannski bara eina rýni, ljóðabók kannski eina (fyrir utan stjörnurnar frá mömmu á Goodreads) o.s.frv. Það verður enginn kór lengur, bara einn guðlegur gagnrýnandi sem tekur ákvörðun um endanleg gæði verksins. Sem er ekki heldur lengur afurð hópsins heldur hrein og tær tjáning sálar – gott ef ekki sálin hlutgerð, íkoníseruð – og öll gagnrýni á téða afurð því sambærileg við að níða niður listamanninn, pissa í skólatöskuna hans og hrækja á gröf móður hans. *** Gagnrýni er auðvitað – einsog list – persónuleg tjáning. Ég á ekki við að hún verði slitin fullkomlega úr samhengi hins sjálfhverfa. En hún verður að eiga í einhvers konar sambandi við hið stóra  – við kúltúrinn. Og ég stend við það sem ég sagði einhvern tíma fyrir langa löngu, þegar ég var hrokafullur ungur maður (og sagði líka oft heimskulega og hrokafulla hluti – það er óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að neita að vera hræddur) að maður þyrfti að læra að bera passlega blöndu af virðingu og vanvirðingu fyrir listinni, maður þyrfti að leyfa henni að hræra í sér á alla mögulega vegu. Því sá sem elskar einfaldlega  listina og finnst allt frábært – „út frá því sem verkið ætlar sér sjálft“, einsog það heitir á átomatíkínni – gerir á endanum ekkert nema kitsch, ef viðkomandi er listamaður, og ef viðkomandi er gagnrýnandi varðar hann leið kitschsins að hjarta mannsins, sem svo visnar og deyr.

Untitled

Ég synti sextíu og þrjár ferðir í sundhöll Guðjóns Samúelssonar í kvöld. Laugin er nánast á dyraþrepinu hjá mér. Fallegasta sundhöll landsins. Og að sögn með þeim stystu. Hún er sextán metrar á lengd og sextíu og þrjár ferðir því það næsta sem maður kemst því að synda einn kílómetra, ef maður vill ekki stoppa á miðri leið. Í sjálfu sér gæti maður líka synt sextíu og tvær ferðir en þá væri maður undir kílómetranum – jafn langt undir og maður fer annars yfir – og það er erfiðara að muna töluna sextíu og tveir. Sextíu og þrír er jafn margar ferðir og það eru þingmenn í landinu. Því gleymir maður ekki svo glatt, sérstaklega ekki þegar það er svona stutt til kosningar. *** Ég fór síðan í sánu. Rakaði mig. Fór aftur í sánu. Að venju var ég eini nakti maðurinn í sánunni. Mér gengur ekkert að venja sveitunga mína af þessu sundfatarugli – opna bréfið sem ég skrifaði vegna baðfatasturlunar þessarar er horfið af internetinu, út af því að bb.is endurnýjaði sig (og gamli.bb.is virðist ekki virka lengur) en það má lesa um þetta í endursögn Morgunblaðsins (ef maður man ekki neitt, það man auðvitað enginn neitt lengur, en þetta var stórmál og komst meira að segja í útlenska fjölmiðla). *** En ég er nú sosum ekki að bögga fólk með þessu heldur. Sánan er heilagur staður – ekki staður fyrir bögg. Og það böggar mig enginn að ég skuli vera á rassinum. *** Ég get ekki gert upp við mig hvað ég á að kjósa. VG, Pírata eða Samfylkingu, annað kemur tæpast til greina. Ég átta mig ekki á því hvernig landið liggur í kjördæminu, hverjir eru tæpastir – það getur skipt máli – en svo er maður óttalega hræddur við að atkvæðið manns verði síðan til þess að einhver bavíani annars staðar af landinu fari á þing. *** Mér finnst ég vita miklu minna um hvar flokkarnir standa en ég vildi. Mér finnst ég fá mjög lítið af konkret svörum. Mikið af við viljum styrkja/efla/styðja allt sem er gott og skera upp stríðsör gegn því sem er slæmt. Og allir eru meira og minna sammála um hvað sé gott og hvað sé slæmt. Hægriflokkarnir sverja af sér einka(vina)væðingu og lofa einkaframtaki. Vinstriflokkarnir sverja af sér skattpíningu fátæklinga og lofa allri velferðinni sem enginn stóð skil á síðast. Bjarni Ben segist ætla að setja milljarðatugi í bankakerfið. Sennilega er hann að tala um að selja það – ég las ekki fréttina samt, sá bara fyrirsögnina. *** Ég respektera auðvitað íhugunina – ég beinlínis vinn við að íhuga, í einhverjum skilningi. Og vinstrimenn eru íhugarar – þeir vilja skoða málin, ræða þau, taka til greina alla núansana. Ég fíla það. En svo sakna ég þess samt að það sé dúerar. Hægrimenn eru dúerar, þeir bara setja lög og gera hluti – storma áfram. Eina vandamálið er að þeir gera frekar vonlausa hluti. Þeir framkvæma hægristefnu, sem er glötuð og mun á endanum gera jörðina óbyggilega. Ég væri til í smá vinstri dúera. Mér sýnist þeir ekki í boði. Og kannski myndi ég bara skíta í mig af pirringi ef þannig fólk kæmist til valda – gersamlega æfur yfir allri vitleysunni sem það myndi framkvæma. *** En ég er alveg frekar sínískur í pólitík. Sem þýðir ekki neitt. Fram fram fylking. Vaki vaki vaskir menn. *** En hvaða spurningar eru það sem ég myndi vilja fá hrein og klár svör við – svona dúerasvör? *** Ég gæti spurt um bókaskattinn – en það virðast allir sammála um að fella hann niður og hvers vegna ætti ég þá að spyrja um það? Ég gæti spurt kannski í staðinn hvernig í ósköpunum þeir hafa haldið hingað til að þetta væri góð hugmynd? Eða hvað hafi orðið þess valdandi að þeir skiptu um skoðun. *** Kannski væri ágætt að fá einhvern orðavaðal um byggðamálin. Og fáein loforð. Ég á ekki við að það ætti að lofa tiltekinni vegagerð um Teigsskóg – en kannski loforð um að þetta yrði leyst á kjörtímabilinu. Ekki „vonandi finnst ásættanleg“ ble ble heldur bara „við fixum þetta. Byrjum að vinna að því á fyrsta degi og svo fixum við það.“ *** Svo mætti alveg lofa líka að leggja meira fé í rannsóknir á fiskeldi. Lofa lögum um eignarhald. O.s.frv. *** Einkavæðing í heilbrigðiskerfinu. Ég myndi helst vilja að einhver segði að það þyrfti að draga hana til baka. Kannski í þrepum – en sem sagt að heilsugæsla sé bara á forræði hins opinbera. Og hugsanlega fleira – ég reikna ekki með að fá mörg jákvæð svör – en a.m.k. grunnþjónustan. *** Fjárfesting í landsneti. Byggja upp flutningskerfi raforku. Svara því bara skýrt og greinilega hvernig megi hringtengja Vestfirði – ef ekki er hægt að gera það án þess að virkja (t.d. Hvalá) þá þarf það einfaldlega að liggja fyrir. Það þarf plan – og ef það er ekki til plan þarf að setja plan um hvenær planið á að vera tilbúið. Deddlæn. Ef ég redda þessu ekki fyrir næsta haust segi ég af mér og einhver annar fær að vera forsætisráðherra. Þannig plan. *** Hvað fleira skiptir mig máli? Háskólastarfsemi – og í guðanna bænum ekki bara á höfuðborgarsvæðinu. Ég get ekki ímyndað mér neitt verra en að kjósa óvart einhvern búra sem vill loka háskólasetrum úti á landi og þjappa öllu saman í einhvern ofurskóla á melunum (er ekki HÍ á „melunum“ – mér finnst ég allavega hljóma mjög reykvíkingslega þegar ég segi „melarnir“, ég sem rata ekki yfir Ingólfstorg án Google Maps). *** Fella niður komugjöld á spítala. Hækka persónuafslátt og stuðla að launajöfnuði milli stétta. Niðurgreiða innanlandsflug (þjóðnýta Flugleiði). Halda áfram að styrkja innviði samgöngukerfisins. Leggja niður æfingaflug í borginni áður en Reykvíkingar missa vitið og stinga rýtingi í hjartað í Vatnsmýrinni. Burt með kvótakerfið – binda kvóta við tiltekin svæði á miðunum á tilteknum tímum (einsog stendur er bara gefinn út einn kvóti fyrir hverja fisktegund á alla landhelgina – fiskurinn er svo sópaður upp á 2-3 stöðum í kringum landið, sem er einsog það væri gefin út veiðileyfi á lax og svo sætu allir í kringum sömu 2-3 hylina). *** En guð hvað maður verður leiður af að hugsa um þetta. Getur ekki einhver troðið upp í mig chilikjúklingi svo ég lifi leiðindin af?

Untitled

Kæri Snæbjörn. Ég gleymdi víst alltaf að þakka fyrir blómin. Sennilega komu þau bara svona flatt upp á mig. Ég eyddi deginum í að dást að þeim og bresta út með: „Nei, sko! Ha ha!“ Blómin (takk fyrir þau!) komu líka alveg á réttum tíma, svo að segja, ekki alveg að tilefnislausu – þótt ekki hefði minn maður unnið nóbelinn (ég hélt með Sjón, lét berast með í æsingnum og er að lesa Codexinn – það er svakaleg bók) – því svo vildi til að rétt í þann mund sem mér barst þessi blómvöndur, já og okkur fjölskyldunni, þá fékk ég sem sagt þau skilaboð að franski útgefandinn Editions Metailie, hefði ákveðið að kaupa réttinn á skáldsögunni Gæsku – en þau hafa áður gefið út Heimsku og Illsku og bara gengið nokkuð vel. Ég var þess vegna þá þegar „festiv“ – í hátíðarskapi – og má segja að ég hafi verið að bíða eftir að einhver sendi mér blómvönd. Þetta gast þú auðvitað ekki vitað – og þó, þú hefur náttúrulega verið lengi í bókaútgáfu og kannski sér maður þetta bara fyrir þegar maður er „eldri en tvævetur“ í bransanum. Fyrir þetta fæ ég auðvitað böns af monní og útlit fyrir að ég eigi einmitt efni á blómum eitthvað fram eftir vetri. Húrra, yo! Um kvöldið áttum við Nadja síðan svokallað „deitkvöld“ – ótengt réttindasölunni, þetta var ákveðið áður – en þá borðum við seint eftir að börnin eru farin í háttinn og Nadja má ekki vinna, annars vinnur hún flest kvöld, enda í 67% stöðu sem menntaskólakennari og það er miklu meira en flestir þola. Ég gerði spænskt tapas, meira og minna upp úr sjálfum mér. Kartöflueggjaköku, bakaða sveppi fyllta með geitaosti (úr costco!) og heimatilbúnu grænkálspestói, tannstöngla með ólífum (costco), manchego-osti (costco) og kirsuberjatómötum (nettó), súrdeigsbruschettu með karamellíseruðum lauk og geitaosti (costco) annars vegar og mozzarella (costco) og basiliku (bónus) hins vegar. Ég man ekki hvort það var eitthvað fleira þarna. Þetta var allavega mjög gott og ég sem sagt raðaði tapasinu í kringum blómvöndinn en þurfti svo að færa hann aðeins til hliðar, enda er hann svo stór að við sáum ekki hvort annað – og það er ekki alveg hægt á „deitkvöldi“, ekki einu sinni þótt vöndurinn sé fagur. Í dag var svo síðbúin afmælisveisla fyrir krónprinsinn, Aram Nóa Norðdahl Widell – hann varð átta ára þann 3. september síðastliðinn – og vöndurinn var aftur í hávegum, á miðju langborðinu. Börnin fengu pylsur – grænmetis, merguez, vínar og beikon (allt úr Nettó) – rækjusalat og heimalagaðar súrar gúrkur, auk annars hefðbundins tillbehör á íslenskum pylsubar (gleymdi reyndar að kaupa remúlaði – sem hefði samt passað vel við vöndinn, bæði einhvern veginn danskt). Í eftirrétt var einhvers konar marensparadís – Nadja tók þetta að sér og ég sá ekki betur en að auk marens væri í þessu vanilluís, jarðarber, bláber og súkkulaðisósa. Þá var hægt að hræra út í það rjóma, hann stóð bara á borðinu – prinsinn vill ekki rjóma sjálfur, nefnilega. Við þetta tækifæri breiddum við svolítið úr vendinum svo stilkarnir standa langt út á borðsendana einsog spjót – hann er ekki síður tígulegur þannig. Vonandi hafið þið fjölskyldan það gott í Espergærde. Kær kveðja að vestan,

Eiríkur og fjölskylda PS. Ég taldi upp allan þennan mat ekki síst vegna þess að ég þykist vita að þú sért matmaður, einsog ég reyndar líka, en svo er auðvitað alls ekkert víst að þér finnist þá sjálfkrafa gaman að lesa upptalningar á mat. Ef svo er ekki biðst ég bara forláts og vona að þú hafir skemmt þér betur yfir þeim hlutum þessa bréfs sem ekki snúast um mat, nema í besta lagi óbeint, svo sem eftirskriftinni.