Untitled

Hér er allt að gerast. Íslendingar eru sviknir um nóbelsverðlaun á hverjum degi. Að minnsta kosti þessa vikuna. *** Nema Snæbjörn. Það liggur við að maður ætti að senda honum blóm. En hann á sennilega fyrir sínum eigin blómum. *** Ég kláraði leikritið – Hans Blævi – í gær og sendi á Óskabörn ógæfunnar sem ætla að setja þetta upp. Sennilega á ég reyndar eftir að breyta helling – kannski ekki í strúktúr en það þarf að stytta hér og þar og árétta hitt og þetta, reikna ég með – en þau eru allavega komin með eitthvað í hendurnar til þess að lesa saman. *** Svona alveg án þess að taka afstöðu til Brexit eða Katalóníu eða uppgjörstilraunarinnar í Grikklandi um árið þá er áhugavert að sjá hversu kerfið er orðið gott í að standa vörð um sjálft sig – um status quoið. Sem sagt kapítalíska kerfið. Niðurstaðan frammi fyrir öllum stórum breytingum er: Ef þið ruggið bátnum tekur við óstöðvandi Mad Max kaos og svo svelta þeir í hel sem  ekki gerast útlagar eða eru drepnir af útlögum áður en þeir ná að svelta í hel. Einsog þeir sögðu í Star Trek: We are the Borg, resistence is futile. *** Ég var mjög hrifinn af Never Let Me Go. Svo það sé bara sagt – hvað sem stendur hér fyrir neðan sat hún í mér, ég kvabba líka. Ég skrifaði þetta um hana þegar ég las hana (á blogg sem er horfið – þetta er eiginlega færsla á horfnu bloggi um færslu á öðru horfnu bloggi og svo hverfur þetta blogg): *** Apríl – 2008 Í gærkvöldi kláraði ég Slepptu mér aldrei eftir Kazuo Ishiguro. Á sínum tíma pönkaðist ég eitthvað á fólki (Bjarti) fyrir að slá upp kommentinu “A masterpiece of craftsmanship”, sem hent var á lofti um þessa bók þegar hún kom út. Ég skrifaði um þetta á gamla bloggið mitt, Bjartur brást við (enda eldheitur Ishiguro maður) og loks dró nafniminn Guðmundsson mig inn í Víðsjá til að ræða sótthreinsaðar bókmenntir – sem ég vildi bera saman við sótthita bókmenntir Dostójevskís. Bloggið er löngu horfið, sem og úbbartsviðtalið, en á heimasíðu Bjarts segir m.a.: “Eiríkur segir: “Ég hef það á tilfinningunni að sótthreinsaðar bókmenntir séu að verða vinsælli og vinsælli – “A masterpiece of craftsmanship” segir í dómi um nýjustu bók Ishiguro. “Send a copy to the Swedish Academy” – handbragðið nýtur svo mikillar virðingar að menn hugsa til þess með hjartað í buxunum að bækur þeirra verði óvart prentaðar með einni einustu bögu. En það gerist ekki, því eftir yfirlestra frá 40 manns, situr ekki einn einasti agnúi eftir. Sem er að einhverju leyti miður, því agnúar eru þrátt fyrir allt snertifletir.” Æ! Þvílíkt endemis rugl. Eru mannanna verk svo fullkomin að það þurfi að hafa áhyggjur af því?” Nú er ég sumsé búinn að lesa bókina. Hún var fín, eins og ég vissi sosum, en óttalega sívílíseruð. Prótagónisti Ishiguros, Kathy, er voðalega meinlaus, og hugsun bókarinnar þar af leiðandi einhvern veginn, já, kannski er sótthreinsuð orðið sem ég er að leita að. Uppbygging og texti, meina ég. Það er margt í bókinni magnað, og margt sem hreyfir við manni – einna helst hversu allir í sögunni eru sáttir við örlög sín, hvernig veröldin er. Það er ógnvekjandi, því það er líka algerlega satt. Við lifum eins og hlýðnir hundar, og beitum svipunni óhikað á okkur sjálf. Eitt atriði við bókina var þó verulega þreytandi, en það var stílbragð nokkuð sem jafnan er beitt til að gera sögur lífrænar, gera þær slíkar að útlit sé fyrir að einhver sé að segja stóra kaotíska sögu og hún sé ekki línuleg, passi ekki inn í ramma frásagnarinnar. Kazuo Ishiguro var alltaf að segja frá því sem var alveg að fara að gerast, því sem var á næstu grösum. Ég held það liggi við að allir kaflarnir séu þannig uppbyggðir – minnst er á hlut/atvik sem koma mun við sögu, og hvernig hluturinn/atvikið hafði áhrif á persónur bókarinnar og aðstæður þeirra, áður en sagt er frá því hver hluturinn/atvikið er. Ég er ekki með bókina með mér, og get því ekki tekið dæmi, nema skáldað (ég er minnislaus með afbrigðum, ef ég skyldi aldrei hafa minnst á það): “Ég veit ekki hvenær Gunnar hætti að haga sér illa, en það hafði kannski eitthvað að gera með bréfið sem hann fékk þá um haustið. Hann hafði verið óstýrilátur allt sumarið, en fréttirnar sem bárust með bréfinu virtust breyta skapferli hans, á einhvern hátt.” Ble ble. Seint og um síðir fær maður svo að vita að í bréfinu var Gunnari sagt að hann hafi verið ættleiddur, hann eigi tvíburabróður en foreldrar hans hafi látist í flugslysi. Þetta er ágætis stílbragð, ekkert undan því að kvarta – fjarska fágað og sívíliserað, lávarðaútgáfan af cliffhangernum. En það mætti alveg fara sparlegar með það mín vegna, að minnsta kosti í einni bók.

Untitled

Costco mun ekki fylla í gatið á sálum okkar. Ekki heldur Facebook eða snjallsímar. Kannski mun ekkert fylla í gatið á sálum okkar. Gapandi holuna. Það verður þá bara að hafa það. *** Það er miðvikudagur – hin endanlega sönnun þess að vikan hefst ekki á mánudegi, einsog félagslegir fílístear halda fram, heldur sunnudegi. *** Ég hugsaði um það í morgun hvað mér þykir vænt um menningarlega fílísteann í sjálfum mér. *** Svo gleymdi ég að klára blogg dagsins. Dag bloggsins. Ég man ekkert hvað ég var að hugsa um þarna í morgun þegar ég skrifaði ofangreint. Eitthvað um fílístea, held ég, menningarlega og félagslega.

Untitled

Ég missti alveg af ranti Braga Ólafssonar um bókadóm Braga Páls  um ljóðabók Jónu Kristjönu – Skýjafar. Þar prýðir Bragi Ólafsson sig bókstaflega „hatri, blóði og hráum tilfinningum“ þegar hann segir að Bragi Páll eigi „þannig lagað“ ekkert betra skilið en meðferðina sem Willem Dafoe fær í myndbandinu við Cut the World með Antony and the Johnsons (hann er skorinn á háls í frekar brútal senu) fyrir að segja að ljóðskáld eigi að prýða sig „hatri, blóði og hráum tilfinningum“ (sem Braga Ólafs finnst „óendanlega hallærislegt). Ég missti af því sem sagt alveg þangað til Snæbjörn Arngrímsson fór að verja Braga. *** Ég sé reyndar núna að þeir félagar hafa birt færslur sínar samdægurs. Fyrir þremur dögum. Sem er eilífð á internetinu. Þetta er svipað og bók fari framhjá manni í fjörutíu ár. *** Bragi uppnefnir líka Starafugl – fer aðra leið en Einar Kárason sem talaði um „Sterafugl“ og talar þess í stað um „Stafaruglið“. Nú skil ég hvernig Samspillingunni og Sjálfgræðgisflokknum hlýtur að líða. *** Ég held – einsog ég hef þúsund sinnum nefnt – að það sé mjög mikilvægt fyrir menninguna að fólk segi skoðanir sínar á henni umbúðalaust. Ein helsta ástæðan fyrir ótta fólks við ljóðlistina hefur einmitt að gera með alla upphafninguna og tátiplið – fólki (sérstaklega utan innvígðu mennignarkreðsunnar) finnst að það geti ekki haft á henni rétta skoðun – allt sem er sagt um hana opinberlega er svo lært og yfirvegað, svo djúpt og svo rétt. *** Þessu tengt. Áðan fór ég í Lucky Records og keypti plötur. Þar afgreiddi mig Bob Cluness – held ég alveg áreiðanlega – sem er ekki síst þekktur fyrir ofsafengna afstöðu sína til tónlistar. Ég keypti af honum sex plötur – tvær AC/DC, tvær Tom Waits og tvær með Guns (Use Your Illusion I & II). Og það hvarflaði að mér að ég ætti að skammast mín fyrir þetta. Að minnsta kosti fyrir Gunsplöturnar. Sennilega er þetta svolítið einsog að láta einmitt Braga Pál afgreiða sig um Skýjafar og Ansjósur. En það er líka valdeflandi. Ég var alveg næstum því búinn að hvæsa á Bob að þetta væru víst góðar plötur þegar ég gekk út. Og ég veit ekki einu sinni hvort honum finnst þetta drasl. *** Eyddi nóttinni á hóteli á beisnum. Hótel Ásbrú. Gekk út á strætóstoppistöð í morgun í rokinu og hugsaði að Bandaríkjamenn hefðu nú varla getað valið sér ömurlegra bæjarstæði eða skipulagt bæinn verr. Stór hús, langt á milli, marflatt, viðstöðulaust rok og hvergi skjól. Ég hef aldrei áður vorkennt bandaríska hernum. En aumingjans, aumingjans bandaríski herinn.

Untitled

Ég er í þráttafríi fram á helgi. Þá fer ég til Gautaborgar að kljást við nasista sem ætla að herja á bókamessuna. Ekki er nóg með að tímaritið Nya Tider – sem er eins konar Breitbart – sé með bás á messunni heldur hafa stærstu nýnasistasamtök norðurlandanna, Nordiska Motståndsrörelsen, fengið gönguleyfi frá lögreglunni. Þau ætla að safnast saman fyrir utan bókamessuna. Þetta verður eitthvað. *** Haukur Már bjó til nýja grúppu á Facebook fyrir ný orð í íslensku. Ein af fyrstu tillögunum var gaslýsing – sem ég held að eigi við þegar maður lætur við fólk einsog upplifun þess af raunveruleikanum sé röng (ég kommentaði auðvitað að viðkomandi væri klikkaður að halda að „gaslýsing“ sé eitthvurt helvítis orð). En þetta orð, sem er í sjálfu sér ágætt, er dálítið PC-Gone-Mad viðkvæmt. Í gær las ég til dæmis grein þar sem því var haldið fram að þegar foreldrar tryðu ekki börnum sínum, þegar þau segðust vera södd, væru foreldrarnir að gaslýsa börnin. Sem er sennilega tæknilega rétt – en þá er líka ekki alltaf rangt að gaslýsa fólk. Upplifun barnanna minna á því hvenær þau eru södd er í öllu falli ekki í neinum tengslum við hinn fýsíska veruleika þeirra. *** Ég las annars óvenju mikið PC-Gone-Mad dæmi í gær. Ljóðabókaútgáfan BookThug í Kanada ætlar að skipta um nafn eftir að því var haldið fram að Thug væri of kynþáttahlaðið. Það væri sem sagt svokallað „racial slur“. Ekki ætla ég að rífast um málskilning við heimamenn, en jæja, já, alltílagi. *** Svo las ég líka grein um (mjög vinstrisinnaðan) háskólaprófessor sem gagnrýndi hugmyndir um að halda dag þar sem hvítir nemendur ættu að vera heima – til að vekja athygli á kynþáttamálum – og var svo til húðstrýktur af nemendum og svo skólastjórninni. Það var vægast sagt mjög spes lesning. *** Annars bara frekar rólegur. Fór í ræktina í morgun og hitti Rúnu. Hún segir að Öddi nenni ekki að koma með sér. Það sé svo langt að keyra úr Sluddunni. Og hlíðin er ekki skemmtileg og göngin sennilega númer 100 á listanum. Annars lokar Stúdíó Dan í febrúar og þá verða góð ráð dýr. Það hefur eitthvað verið talað um að bærinn blandi sér í málið og það verði komið upp aðstöðu uppi á Torfnesi. Ætli það strandi ekki á blankheitum einsog allt annað. Það er ekki einu sinni hægt að laga göturnar. (Helvítis göturnar, ég hata þessar götur). *** Svo er vandræðaástand að vera orðinn þreyttur á pólitík í upphafi vetrar þar sem verður gengið til kosninga tvisvar. Hið minnsta. Ég þyrfti eiginlega að komast í vetrarfrí til Kanarí. Hlaða batteríin. Því ekki kemst ég út á land. *** Ég eyddi gærkvöldinu í að fínpússa sólóin í Back in Black og Hells Bells. Þetta er allt að koma, einsog skáldið kvað. Ég verð lipur gítarleikari fyrir rest.

Untitled

Maður lifir í náttúrunni. Það er ekki nóg með að sólarlögin sprengi hjörtun í elskendum, kyrrðin slái á æsing hugsjúkustu brjálæðinga og skáldin yrki allt sem skiptir máli til vatnsfallanna. Það er ekki heldur nóg með að náttúran færi okkur fæðu til að seðja hungrið, fisk úr ólgandi hafinu, krækling úr spegilsléttum firðinum, grænmeti og ávexti beinlínis upp úr jörðinni og kjöt af beinum skepnanna. Við sleppum nefnilega aldrei úr náttúrunni. Náttúran er óaðskiljanlegur hluti af okkur – við erum ekki utan við náttúruna, ekki utan á henni, heldur í henni. Við erum náttúran. En maður lifir ekki bara í náttúrunni – maður deyr líka í náttúrunni. Hafið drekkir manni, fjöllin ryðjast yfir mann – þurrka út heilu byggðalögin – fellibyljir leggja samfélög í eyði, flóð sökkva borgum – og náttúran, mannleg náttúra, hefur oft og tíðum þær afleiðingar að við völdum hvert öðru, eða sjálfum okkur, óumræðanlegum skaða. Fólk drepur fólk og fólk drepur sjálft sig. Og lifi maður alla þá náttúru af – sem er tölfræðilega ósennilegt – svíkur mann loks bara líkaminn, náttúra holdsins, og maður hrynur niður og verður að eintómu dufti, jafn örugglega og ef hvað sem er annað hefði drepið mann. Maður lifir í náttúrunni, maður deyr í náttúrunni og þess á milli beislar maður náttúruna. Maður reisir segl upp í vindinn, lætur stjörnurnar teyma sig um hafið, steypir akkeri úr málmgrýti, smíðar skeifur á hestana, múl á hundana, leggur vegi meðfram fjörðum, brúar firðina, borar göt á fjöllin, sigrar háloftin og sigrar jafnvel sjálft holdið. Því náttúra mannsins er stór og afleiðingar hennar miklar og mikilfenglegar. Maður beislar náttúruna og maður eyðileggur náttúruna. Nýjustu tölur segja að eftir þrjátíu ár verði meira plast í hafinu en fiskur. Mér skilst að Reykvíkingar séu meira og minna að kafna í svifryksmengun af umferðinni. Fellibyljina sem riðið hafa yfir Karíbahafið upp á síðkastið er ekki hægt að skrá á reikning duttlungafullrar náttúru. Þar á maðurinn, græðgi stórfyrirtækja og fyrirhyggjuleysi samfélaga, hönd í bagga. Olían fuðrar upp í farartækjum svo uppskerur bresta vegna loftslagshlýnunar. Námur tæmast, búskapur breytist í villimennsku – og já, laxeldi hefur, þar sem hirðuleysi réði för, farið allharkalega af hjörunum. Og það viljum við ekki – það vill enginn skíta í deigið. Ef við ætlum að stunda hér sjókvíaeldi þurfum við að geta treyst því að regluverkið sé grjóthart. Búskap þarf alltaf að stunda af virðingu við náttúruna – það er ekki valkvætt. Maður eyðileggur náttúruna og maður eyðileggur þar með sjálfan sig – en eyðileggingin er mismikil. Með hverjum nýjum vegi hverfur ósnortið víðerni, með hverju nýju húsi gufa óbyggðirnar upp og sjást ekki aftur fyrren byggðin leggst í eyði og húsin fyllast draugum – og á eftir draugunum koma túristar. Við getum dregið úr vistspori okkar – lágmarkað þau áhrif sem við höfum á umhverfi okkar – en við getum ekki látið vistsporið hverfa. Allri tilveru fylgir bæði fórnarkostnaður og áhætta. Ef náttúran nyti einfaldlega vafans stæðum við aldrei á fætur, drægjum ekki andann fyrir áhyggjum af fiðrildaáhrifum andardráttarins. Náttúran nýtur ekki vafans nema að svo miklu leyti sem okkur er leyfilegt að telja okkur sjálf til hennar. Ég hygg að flestum hér inni – þeim sem ekki búa að jafnaði á höfuðborgarsvæðinu, í öllu falli – finnist oft einsog það gildi önnur lögmál um þróun mannlífs í og í kringum smærri byggðir en á höfuðborgarsvæðinu, þar sem valdið hefur hreiðrað um sig. Í Garðabænum víla menn ekki fyrir sér að draga Ómar Ragnarsson argandi ofan af vinnuvélunum til að leggja veg, þar sem menn telja að vegur þurfi að liggja, en við Reykhóla er hægt að halda vegalagningu í gíslingu í meira en áratug fyrir nokkrar hríslur og einn sumarbústaðareiganda. Á suðvesturhorninu má holufylla og malbika hraunið langleiðina frá Hafnarfirði til Keflavíkur ef með því mætti flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni. Því í Vatnsmýrinni vill fólk víst búa. Það eru kannski fréttir fyrir suma, en fólk vill líka búa á Vestfjörðum. Og þetta er ballans. Það er alger óþarfi að láta einsog sú sé ekki raunin – svo klisjan um „sátt og samlyndi við náttúruna“ sé bara tuggin enn einu sinni, hún er sönn og við kærum okkur alls ekki um að leggja heimkynni okkar í rúst, einsog einhverjir virðast halda og við erum ekki einföld náttúrubörn sem glepjast af gylliboðum siðspilltra útlendinga og þarfnast þar með verndar siðaðra manna. En stundum er einsog hér rekist stöðugt á tvær ólíkar þjóðir – Vestfirðingar og þeir sem vilja hafa vit fyrir þeim. Spurningin um líf í Djúpinu er okkur ekki fræðilegs eðlis, ekki ljóðrænn harmsöngur um exótíska og deyjandi byggð, eða dystópísk dæmisaga fyrir börn, heldur kaldhamraður og hversdagslegur veruleiki. Og það er hvorki sátt né samlyndi í því fólgið að skilgreina heimkynni fólks sem friðland sem það megi ekki snerta, sem það megi ekki hafa lifibrauð sitt af – að byggðin verði að víkja fyrir óbyggðunum, því réttur óbyggðanna sé meiri. Það er ekki ballans. Það er ofbeldi. Eining lýðræðislegrar þjóðar byggir á samstöðu, sjálfsákvörðunarrétti og því að ákvarðanir séu teknar eins nærri þeim sem þær varða og frekast er kostur. Ef þeir sem vilja hafa vit fyrir okkur ætla einfaldlega að ákveða þetta fyrir okkar hönd, hafa af okkur sjálfsákvörðunarréttinn með yfirgangi, þá erum við ekki lengur þjóð. Sama hver niðurstaðan er. Þá er samkomulagið – um að við gætum hagsmuna hvers annars, við séum saman í þessum báti – einfaldlega brostið.

Untitled

Á morgun er stór fundur í íþróttahúsinu á Torfnesi þar sem verður kannski ákveðið hvort hér megi lifa eða bara deyja. Ég á að halda ræðu og dró það stutta strá að mæla fyrir lífinu, með öllum sínum afleiðingum. Ég sem var aldrei einu sinni í Morfís. *** Og ligg annars sjálfur fyrir dauðanum. Einn heima með tvö börn, með sótthita uppi í rúmi og reyni að semja ræðu um lífið þegar mig langar mest bara að sofa. Nadja kemur ekki fyrren upp úr 21 í kvöld og þá fer ég sennilega beint á skrifstofuna til að klára þetta. Stundum er rithöfundalífið bara alveg einsog verkalýðsþrældómurinn. Nema þá lá ég oftar þunnur í rúminu og sjaldnar lasinn, en þetta er svipuð tilfinning og hér bíður maður þess bara að blásið verði í lúðurinn og maður þurfi að skella sér í skítagallann. *** Ég ætla ekki að tala neitt um Hvassahraun eða Gálgahraun en talsvert um samneyti mannsins við náttúruna, manninn í náttúrunni, manninn sem náttúru. Og sennilega verð ég háfleygur og þungstígur. En sem sagt já, hraunin. Það sló mig – eða mér var bent á, ég spurður, hvort það væri ekki skrítið að sama fólk (og nú ímyndar maður sér alltaf að þetta sé sama fólk, kannski er það alls ekki raunin, kannski eru þetta tveir gerólíkir hópar sem renna saman hér í suðursýninni) vilji allt til gera til að stoppa vegagerð um Gálgahraun og vilji flytja innanlandsflugvöll – og sennilega alþjóðaflugvöll líka – í Hvassahraun, sem sé ekki síður merkilegt og glæsilegt. Fyrir utan að það er auðvitað þúsund sinnum meira rask – flugvellir eru nefnilega mjög plássfrekir. *** Sé þetta rétt hjá mér er ástæðan auðvitað augljós: hagsmunir. Miðbæjarbúar hafa hagsmuni af því að losna við flugvöllinn úr Vatnsmýri (eða telja sig í öllu falli margir hafa það, kannski óþarfi að alhæfa). Því það er auðvitað rétt, hvað sem hver segir, að þegar rétt fólk hefur nóga hagsmuni af tilteknum aðgerðum er einfaldlega litið svo á að kostnaðurinn sé innan ásættanlegra marka. *** Sem var auðvitað líka raunin með Gálgahraun. Þar hafði réttara fólk enn meiri hagsmuni af einhverju öðru. Og fólkið sem vill/þarf að keyra um Teigsskóg er einfaldlega ekki nógu rétt eða nógu margt og því víkja hagsmunir þeirra alltaf – eða það er sett á pásu meðan rifrildinu er haldið áfram og fólkið sem þarf veginn fær að bíða. *** Annars er að minnsta kosti einn maður sem vill halda flugvellinum í Vatnsmýri og sleppa allri vegagerð um Gálgahraun. Ómar Ragnarsson er nefnilega ötull baráttumaður fyrir hvorutveggja. *** Einhvern tíma var nú líka barist hart gegn öllum frekari framkvæmdum í Vatnsmýrinni af umhverfisástæðum. Svo mýrin nyti vafans. En nú virðist það allt löngu gleymt – kannski kom eitthvað í ljós sem við vissum ekki. Mýrin einskis virði eftir allt saman. Og Tjörnin – var hún ekki líka í gamblinu? Annars man ég þetta ekki vel. *** En nú þarf ég að einbeita mér og skrifa þessa ræðu.

Untitled

Ég hef verið mjög þreyttur frá því ég kom til baka frá London. Og einhvern veginn smám saman verið að verða lasinn. Í dag lá ég í rúminu í allan dag – skaust rétt fram úr til að gefa Aram morgunmat og svo Aino skömmu síðar og fara með hana á leikskólann. (Nadja er í Reykjavík að ráðstefnast). *** Svo hef ég of mikið að gera. Það er alveg ljóst. Í sjálfu sér eru þetta allt hlutir sem ég gæti afgreitt á örskömmum tíma ef ég væri ekki eilíflega þreyttur. Ef mér tækist að einbeita mér almennilega í einsog gott augnablik. Ég kenni Facebook um en það er ekki Facebook. Þegar maður afvegaleiðist þá er það vegna þess að maður veit ekki hvert maður ætti annars að vera að fara. *** En það er samt erfitt. Að stara á skjáinn. Byrja á einhverjum kýtum. Hugsa upp snappíkomment til þess að involvera sig í einhvern þráð svo maður þurfi ekki að feisa tómlætið á skjánum. Bergmálið í huganum. Fuglabjargið í huganum. *** Og einmitt já. Hvort ætli maður sé tómur eða fullur þegar svona stendur á? Ég er hreinlega ekki viss. Eiginlega er það bæði í senn. Maður grípur í tómt þegar maður teygir sig eftir því sem vantar – en það er samt allt fullt af drasli alls staðar. Bara ekki rétta draslinu. Og svo rekst maður á gamlar ljósmyndir og afvegaleiðist. *** Búff. Soldið þannig vika.

Untitled

Ég hef í nokkur ár ritstýrt Starafugli og ætla mér að gera það um ókomna tíð – hef tekið að líta á þetta sem langtímaverkefni, sennilega ævistarf, ætla í það minnsta að mæla það í áratugum (nema ég drepist óvænt, þá arfleiði ég Lomma og Hauk Má að þessu, svo það komi bara fram hér, ef þeir láta vefinn drabbast mun ég líta á það sem grófa vanvirðingu við minningu mína). Frá upphafi hefur stefnan verið að ýta undir afdráttarleysi í skrifum um menningu. Einsog Bubbi orðaði það á Facebook í morgun – þetta er upp á líf og dauða og verður að vera svo. Menning er ekki skraut fyrir borgarastétt sem er að drepast úr leiðindum, ekki dútl eða dundur – og maður á að taka skrifum um menningu jafn alvarlega, og sinna þeim af jafn miklu vægðarleysi, og maður sinni sjálfri listinni. *** Ritdómar eiga að stefna að því að vera listaverk – ekki sjálfstætt listaverk, heldur afleitt (pun!) – og það er ekki frekar hlutlaust en fréttirnar. Það er alltaf einhver sem heldur á pennanum, þessi einhver á sér fortíð, hefur tiltekinn smekk, veit vissa hluti, veit ekki aðra, er svona í pólitík, þannig kynjaður, með þessar hneigðir o.s.frv. o.s.frv. og allt sem kemur málinu við á að liggja á borðinu. *** Mér stendur (einsog þið heyrið) ekki á sama um menninguna – og er alltaf að reyna að pota í fólk og fá það til að skrifa fyrir vefinn. Ókeypis, sem er leiðinlegt, en ég sé enga ekonómíska vídd í þessu. Ég hef haft fjögur markmið síðustu misserin og náð einu (því fyrsta) a) Að birta fleiri dóma um nýjar ljóðabækur

b) Að birta fleiri dóma eftir konur

c) Að birta fleiri dóma um myndlistarsýningar

d) Að birta fleiri dóma um barnamenningu *** Mér berast ekki margir neikvæðir dómar til birtingar. Algengasti neikvæði dómurinn sem ég fæ er tölvupóstur frá einhverjum sem fékk bók til umfjöllunar og er sirka svona: „Ég fílaði bókina illa og ég meikaði ekki að skrifa um hana, sorrí“. Yfirleitt, ef ég er ekki að tryllast úr stressi, reyni ég að hvetja manneskjuna til að skrifa samt – heiðarlegur neikvæður dómur er mikilvægur, og það er mikilvægt fyrir menninguna sem slíka að dómar séu ekki allir jákvæðir. Því það er bara lygi. Engum finnst allt frábært. Og vefur sem birtir bara frábærar umsagnir missir strax áhuga lesenda sinna og allt kredibilitet. Melting menningarafurða er að miklu leyti fólgin í einföldu gæðamati sem sprettur beint úr kviðnum, úr hjartanu. Þegar einhver spyr: hvernig fannst þér? svörum við ekki með langri greiningu – hún kemur kannski, en það fyrsta sem við svörum, grunnsvarið er: frábært! / glatað! / mja, veit ekki – og svo framvegis. *** Og við gerum það auðvitað prívat. Við gerum þetta öll prívat. En á síðustu árum og hugsanlega áratugum finnst mér einsog fólk veigri sér meira og meira við því að segja skoðun sína opinberlega. Ég get best trúað að þetta snúist um þessa massífu meðvirkni sem Facebook æsir upp í okkur – að vilja ekki styggja neinn, vilja ekki búa til óvini að óþörfu, og svo hreinlega nenna ekki geislavirku ofanfallinu. Öllum helvítis þráðunum. *** Viðbrögðin við neikvæðum dómi eru alltaf eins. (Og þetta á vel að merkja ekki bara við Starafugl, þetta á við um alla neikvæða dóma – og já, ég geri þetta líka þegar einhver fífl skrifa heimskulegan texta um bækurnar mínar). Þetta er ómálefnalegt. Ef þetta er vel skrifað – hressilega, með einhverju myndmáli til dæmis – þá er það líka rætið. Ef það er karl að skrifa um konu þjáist hann af einhvers konar kvenfyrirlitningu (nema hann langi hreinlega að ríða/drepa höfundinn – einsog einn gagnrýnenda Víðsjár fékk í hausinn fyrir 1-2 árum). Það hefur aldrei verið skrifuð nógu málefnaleg slátrun. *** Sem höfundi verð ég reyndar að segja að ég vil frekar fá almennilega slátrun en svona linkulegt  þetta var nú ágætt . Ég man eftir því þegar Geirlaugur heitinn Magnússon skrifaði um fyrstu ljóðabókina mína að þetta væri óttalegt skuggabox og spurði hvers vegna þessir bítnikkataktar væru ekki löngu dauðir að þá prentaði ég helvítis dóminn út (af netinu, ég bjó í Berlín og komst ekki í blaðið) og hengdi hann upp á vegg í stofunni. Í heilan vetur gekk ég aldrei svo framhjá textanum að hreytti því ekki í Geirlaug heitinn (sem þá var ennþá lifandi) að hann væri lúser. Það var mjög hressandi. *** Að því sögðu geta bókadómar auðvitað verið ómálefnalegir. Og fullir af kvenfyrirlitningu. Og rætnir. En það er mjög ósennilegt að þeir séu það allir. *** Bret Easton Ellis brást við því um árið þegar Buzzfeed ákvað að hætta að birta neikvæða dóma með því að skrifa greinina alræmdu „Generation Wuss“. Þar gerði hann því skóna að fólk (fætt 1989 og síðar) gæti ekki tekið gagnrýni. Það færi bara að væla. Það yrði bara allt brjálað. Þau væru alin upp af sínísku fólki sem hefði engu að síður ofverndað þau. Maður fengi alltaf verðlaunapening, alltaf klapp á bakið, allt sem maður gerði væri frábært – af því maður gerði það. Öll þessi ást – sem síðan breyttist í viðstöðulausan lækstorm, sem svo aftur nú er orðinn hjartastormur, undirtektareiður stormur o.s.frv. *** En ég held þetta sé að nokkru leyti rangt hjá Ellis. Álagið er ekki nærri því jafn mikið og óttinn við álagið. Jújú, það er þreytandi að kýta á Facebook – en það er ekki nærri svo þreytandi að nokkur manneskja með lágmarkskjark ætti að láta það aftra sér frá því að sinna fagurfræðilegri skyldu sinni (og já, þetta er skylda – svo ég vitni aftur í Bubba, þetta er upp á líf og dauða). *** Hugsanlega er fólk sem sagt almennt minna hrætt við neikvæð viðbrögð annarra en það er hrætt við að virðast neikvætt sjálft. Við óttumst ekki hatarann – við óttumst að einhver haldi að við séum hatarinn.

Untitled

Ég var ekki hrifinn af ljóðlist Sigurðar Pálssonar fyrstu tíu árin. Fyrstu tíu árin sem ég las hann, meina ég. Frá svona 1995 til 2005. Ég kann ekki beinlínis á því neina aðra útskýringu en að ljóðin hans höfðuðu ekki til mín – með fáum undantekningum. Ég var að leita að einhverju öðru, og það er líka alltílagi, manni þarf ekki alltaf að finnast allt frábært og sumt á bara sinn tíma. Ljóð Sigurðar komu til mín síðar. *** Í dag les ég ljóðin hans á netinu – til dæmis þetta dásamlega ljóð á Starafugli – og ég skil ekkert í því hvers vegna ég missti af því sem ég missti af, því þetta er ekki bara góður skáldskapur heldur er í honum miklu meiri leikur og ærsl en ég hélt að væri þarna – og saknaði þá. En maður sér það sem maður sér og fáránlegt að sýta það að eiga eitthvað eftir – ég fékk nánast að frumlesa ljóðin hans tvisvar, fyrst gegn honum og svo með honum. Það er heldur ekkert til að skammast sín fyrir að vera seinþroska. *** Manninn þekkti ég svo til ekki neitt. Það var rétt svo við hefðum hist og heilsast og skipst á fáeinum orðum. Sem er óvenjulegt. Ég þekki alveg fáránlega marga íslenska rithöfunda – svona miðað við að ég á ekki heima í Reykjavík (og þekkti þá fáa þennan stutta tíma sem ég dvaldist þar fyrir langalöngu). Og Sigurður þekkti held ég alla. *** Það leyndi sér ekkert að hann var með allra næsustu náungum, og enn fremur hefur það ekki farið framhjá mér hvað hann – og þá meina ég persóna hans, maðurinn, kennarinn, flannörinn sem ég þekkti ekki – hefur haft mikil áhrif á alla þá sem hann þekktu. Því marga af þeim þekki ég. Sigurður er einn af þessum mönnum – og þeir eru ekki margir – sem allir dásömuðu. *** Og skáldið heldur auðvitað áfram að sprengja í fólki heilana, vefja hjörtu þeirra í voðir og syngja sárum þeirra söngva, á meðan enn er lesið í þessum heimi.