Untitled

Svo er víst alþjóðlegi samlokudagurinn. Ég fékk mér súrdeigsloku með niðursneiddum svínabóg, súrsuðum gúrku, chilimajonesi, rauðkáli, rauðlauk, kokteilsósu og aromati. Í hádegisverð. Allt heimalagað frá grunni, nema aromatið.

Untitled

Í morgun var ég (einsog venjulega) á hlaupabrettinu og þá byrjaði (einsog venjulega) einhver frekar lélegur (einsog venjulega) sjónvarpsþáttur en þar var engu að síður – óvenjulegt nokk – lögð fram áhugaverð kenning um skáldskap, nánar tiltekið frásagnarlistina, að það væru til sjö ólíkar tegundir af sögum (og einungis sjö – þótt mælandi hefði fljótlega bætt áttundu tegundinni við líka, þá var það í gríni). *** Maður gegn manni. Maður gegn hundi. Hundur gegn uppvakningi. James Bond. Sögur af konungum og lávörðum. Konur á sextugsaldri finna sig í kjölfar skilnaðar. Bílaauglýsingar. *** Spurningin sem vaknar í höfði mér er þá einfaldlega hvort að sögur sem fjalla um menn (fólk) sem kljást við sjálfa sig sé undirflokkur af fyrsta – maður gegn manni (þá sjálfum sér) – eða sjötta, konur á sextugsaldri finna sig í kjölfar skilnaðar. Hugsanlega má reyndar umorða sjötta flokkinn, með aðeins minni kvenfyrirlitningu, og segja: Forréttindamaður vorkennir og vinnur í sjálfum sér. Ofdekraður vesturlandabúi leitar að tilgangi lífsins. Eitthvað þannig. Þessi umorðun er vel að merkja ekki fordómalaus, einsog mætti ímynda sér á ætlun minni að svipta hana kvenfyrirlitningunni, en hvað er svo sem fordómalaust, þegar maður lítur undir húddið? *** Bókmenntir eru líka alltaf tegund naflaskoðunar. Líka bílaauglýsingarnar og hundur gegn uppvakningi. Einhver sagði að vísu – og ég las það nýlega en man ekki alveg hvar – að rithöfundar ættu að eyða meiri tíma í að rýna sársauka annarra en sinn eigin, en meira að segja þegar maður rýnir í sársauka annarra finnur maður, greinir og ertir sinn eigin. Bókmenntir eru kannski tegund naflaskoðunar sem fer þannig fram að rithöfundurinn reynir að brjótast út úr sjálfum sér með því að fara í gegnum naflann – einsog einhvers konar ormagöng (ég held ég hafi nefnt þetta í ljóði einu sinni). Maðurinn er sem sagt fastur í sjálfum sér og aldrei eins fastur og þegar hann situr á eintali og enginn situr jafn mikið á eintali og rithöfundar (og jájá, það á fólk að lesa þetta allt, og ég verð mjög foj ef þið hunsið mig, hættið að dá mig, en ég er bara að tala við mig, tack så mycket, einsog alltaf). *** Að öðru. Það er orðið svo mikið af fyrirtækja- og stofnanafánum. Allir flaggandi. Leikskólarnir, bensínstöðvarnar, innheimtustofnun sveitarfélaga, Nettó, menntaskólinn – allir eru með fána. Það er mjög lítið af þjóðfánum – hér er það aðallega fyrir utan Kaupmanninn, sem flaggar alls konar fánum, sennilega ætlar hann lokka til sín útlendinga með því að sýna þeim og menningu þeirra áhuga. Annars búum við í fyrirtækja- og stofnanaræði. Og ef við búum í fyrirtækja- og stofnanaræði erum við aftur í gamaldags lýðræði þar sem einungis efnamenn og aðall hefur atkvæðisrétt. Samfélagið fer fram á lokuðum stjórnarfundum.

Untitled

Svo er það búið að vera að gera mig vitlausan í allan dag og alla nótt  að myndin sem fékk í gær Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs, Tyttö nimeltä Varpu, sé alltaf kölluð „Little Wing“ eða „Litli vængur“. Til hvers haldið þið eiginlega að google translate sé? Myndin heitir „Stúlka að nafni Varpu“.

Untitled

Epískur bugunardagur. Við Aino vöknuðum seint. Ég þurfti beinlínis að draga hana á fætur einsog þunglyndan ungling klukkan 10. Hún er fjögurra ára. Og sofnar klukkan átta á kvöldin, vandræðalaust, vaknar ekki á nóttunni eða er með annað svefnvesen. Haustið er bara að gera út af við okkur. *** Sjálfur er ég líka orkulaus. Vanmáttugur. Liðleskja á sál og líkama. Ég veit ekki hvað veldur. Nema það séu fjármálin. Þau eru í hönk. Ég byrjaði daginn á því að skipta kreditkortareikningum og senda út neyðartölvupósta til þeirra sem skulda mér fé. Ég á von á hellings peningum – búinn að selja Óratorrek til Svíþjóðar, Gæsku til Frakklands og Illsku til Spánar – en guð einn veit hvenær þeir skila sér. Uppgjör vegna sölunnar á Óratorrek hér á landi kemur ekki fyrren í júní. Og ég fékk einhvern lífeyrissjóðsreikning í hausinn og einhvern skatt og alls kyns óvænt rugl. Þarf að gæta mín í matarinnkaupum þennan mánuðinn. Og ekki kaupa neinn óþarfa, ekkert neyslurugl! *** Það er svo mikið rugl að vera í svona óreglulegum tekjum. Og það venst aldrei. Aldrei, aldrei, aldrei. *** Haukur Már er með svaka fínt viðtal við tölvukubb í Kvennablaðinu í dag. *** Halla Mía var með magnaða úttekt á Hvalárvirkjunarruglinu á RÚV-vefnum í gær. Langt, ítarlegt, væmni- og hlutlaust – og afhjúpar vitleysuna, sem er ekki síst fólgin í ósnortnum víðernum af óvissu, heilu hálendunum af giski um mögulega framvindu mála á næstu árum og áratugum. Enn sem fyrr segi ég þetta: Mér finnst einsog hér ætli menn að selja sig ódýrt. *** Ég vil samt ekki vera sérfræðingur að norðan (Árneshreppur er nærri því jafn langt frá Ísafirði og Reykjavík). Og mér finnst eitthvað kjánalegt við að „verndun“ þessara svæða sé alltaf á forræði lífsleiðra fínimanna í Reykjavík – forstjóra og lækna. Rosa nýlendufílingur í þeim samskiptum öllum. Og heimamenn fastir á milli IKEA forstjórans öðru megin og Barón von Bongó Liebenstein, eða hvað hann aftur heitir sá ágæti maður, hinumegin. *** Það er líka tómt mál að tala um þjóðgarða og friðlönd sem tekjulind að svo stöddu. Meir að segja þar sem eru friðlönd – einsog á Hornströndum – fylgja því engar tekjur.  Það er einfaldlega engum peningum veitt í þetta. Ef menn vilja múta Árneshreppingum væri miklu nær að taka upp einhvers konar skattaundanþágur – fella niður tekjuskatt í sveitarfélaginu. Eða eitthvað. Tekjur sveitarfélagsins af virkjuninni, þegar hún er komin í gagnið, eru bara 15 milljónir á ári. Það er sennilega einsog samanlagt útsvarið af Tómasi lækni og forstjóra IKEA. *** IKEA í Árneshreppi? Legudeild? Er ekki hægt að vinna eitthvað með þessar hugmyndir? *** Sennilega verður Hvalárvirkjun reyndar að veruleika. Kapítalið ræður, að minnsta kosti þegar rétt fólk á hagsmuni sína undir og HS Orka er í klíkunni. Ef það væri einhvers konar hrein vinstristjórn í kortunum er séns að virkjunin færi út – en einsog niðurstaðan var úr kjörkössunum er það eiginlega jafn útilokað og að Teigskógarmálið leysist á næstu árum. Það verður virkjun og það verður enginn vegur og mér finnst svona heldur sennilegra að það verði sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi. *** Ég keypti mér súkkulaðisnúð. Hef séð fyrir mér að hann, og kaffi, muni vinna bug á bugun minni. Falleg setning annars. Muni vinna bug á bugun minni.

Untitled

Í frétt Ríkisútvarpsins um verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs í kvöld eru bara talin upp þau verk sem Íslendingar hafa tilnefnt. Þetta er lýsandi fyrir eyjasamfélagið. Okkur er sama um þetta nema að svo miklu leyti sem það viðkemur okkur sjálfum. Verkunum frá hinum norðurlöndunum er líka almennt sýnd lítil virðing eða áhugi. *** Svíar eru líka svolítið svona, nema af ólíkum ástæðum. Svíar eru mjög „sjálfum sér nægir“ – þeim finnst alveg sinn níu milljón manna kúltúr duga sér. Norðmenn, Danir og Finnar eru miklu opnari fyrir umheiminum, fyrir bókmenntum hinna norðurlandanna, sem dæmi. Fyrir þessu hef ég fundið. Íslendingar og Svíar eru „insular“ – einungrunarsinnar, eyjaálfur í sjálfum sér. *** En móðgun samt að Ríkisútvarpið skuli ekki gera betur. Þar innanhúss á fólk einfaldlega að vita betur. *** Ef ég væri tilnefndur myndi ég meira að segja, hér á litla blogginu mínu, nefna við hverja ég væri að keppa. *** Annars var ég að leggja lokahönd á undirbúning nýs ljóðabókaátaks Starafugls og panta allar ljóðabækur útgefnar 2017 (að undanskildum fjórum sem enn hefur ekki tekist að koma út og svo bók ljóðaritstjórans Lomma og minni eigin – við fáum ekki að vera með). Las þar með listann og fór að velta fyrir mér komandi tilnefningum og verðlaunum og þvíumlíku. Ég hef lítið komist yfir að lesa bækurnar enn, vel að merkja, en það sló mig hversu fáar ljóðabækur eldri höfunda eru. Bragi Ólafs er með bók, Kristín og Hallgrímur en annars eru nær allir undir fertugu. *** Nú eru komin ný verðlaun – Maístjarnan – sem er bara ætluð ljóðskáldum. Þau vann Sigurður heitinn Pálsson síðast. Annars eru ljóðskáld auðvitað líka gjaldgeng til annarra bókmenntaverðlauna, svo sem Íslensku bókmenntaverðlaunanna – og bóksalar veita sérstök verðlaun fyrir ljóðabækur. Ljóðabækur hafa líka stundum verið áberandi í menningarverðlaunum DV (finnst mér endilega að ég muni rétt). DV hefur líka oft verið sér á báti – á meðan hin verðlaunin raðast svolítið á sömu bækurnar. *** Dagur Hjartarson fer af stað með látum og fær fimm stjörnur hvívetna. Ætli hann sé þar með ekki sennilegastur? Jónas Reynir er þegar verðlaunaður fyrir Stór olíuskip en gæti bætt á sig. Fríða Ísberg (sem er sú eina sem ég er búinn að kaupa en á ólesna) hefur líka fengið hæp. Mér finnst einsog það fari minna fyrir Eydísi Blöndal núna en þegar hún gaf út Tíst og bast en það gæti líka helgast af því að hún hefur verið í framboði þar til á síðustu helgi. Lommi á eina af bestu bókum ársins en það hefur lítið farið fyrir honum. Kristín Ómars hefur fengið mikið hrós fyrir sína (sem ég efast ekki um að hún á skilið, en ég hef ekki komist í hana enn). *** Ég ætla allavega að spá því að Maístjarnan næst falli í skaut „ungskáldi“ – einhverjum undir 35 ára sem hefur gefið út færri en fimm bækur. *** Og þetta gat ég alveg ólesinn. Hugsið ykkur bara hvað þetta verður auðvelt starf fyrir dómnefndirnar! *** Við þá sem fussa og sveia og spyrja sig hverju svona nokkuð skipti nú eiginlega vil ég segja þetta: Þeir sem vinna verðlaun fá ritlaun, útgáfusamninga, þýðingar erlendis, boð á ljóðahátíðir o.s.frv. Þeir sem vinna verðlaun fá að vinna við að skrifa, hinir fá að skúra gólf og skrifa í frístundum. *** Og þar með skiptir þetta auðvitað mestu fyrir þá sem eru ekki þegar drekkhlaðnir. *** Að því sögðu á besta bókin auðvitað að vinna. Annars glata verðlaunin sjálf gildi sínu fljótlega. Og ég gaf náttúrulega út bestu bókina. En til vara spái ég þá að efnilega ungskáldið fái önnur verðlaun, á eftir mér, sem er bestur.

Untitled

Þegar ég reyni að átta mig á Hvalárvirkjun verður allt svart. Hún framleiðir fullt af rafmagni, meira en við þurfum, og þegar ég spyr hvort þá sé komið nóg er mér tjáð að nei, svo þurfi að virkja meira. Hér og hér og hér (ég man örnefni illa, en þetta er í Djúpinu). Ein stór virkjun og nokkrar minni. Og svo einhverja tengipunkta. *** Og þá er komið nóg. En þá er líka búið að virkja fyrir miklu, miklu meiri orku en við þurfum á að halda. Til þess að við getum fengið hringtengingu. Ef ég er ekki að misskilja eitthvað snýst þetta sem sagt um að láta einingarnar borga hver aðra, koll af kolli, þar til allt er í lagi. Þegar allt er samtengt logar á perunum vandræðalaust og fyrirtækin, svo sem fiskvinnslan, hætta að blæða verðmætum út um logsvíðandi ( trigger warning !) rassgatið í hvert sinn sem rafmagnið fer. Við byggjum Hvalárvirkjun, fáum smá afgangsorku og seljum megnið einhverjum mengunarkapítalistum á meginlandinu (stundum finnst mér einsog við séum eyja, það er auðvitað ekki satt, en við erum samt ekki á hringveginum). Og gróðinn af því borgar næsta legg. *** Þannig fer annar hver foss í Ísafjarðardjúpi í það að halda uppi atvinnu við stóriðju á hringveginum. Því við ætlum að vera stóriðjulaus – stóriðjulausir Vestfirðir er slagorðið – og þá þurfum við ekki alla þessa orku. Mér finnst þar heldur illa farið með „okkar“ auðlindir, ef ég á að segja ykkur alveg einsog er. Þá verður búið að framleiða einhver hundruð megawatta sem við höfum í sjálfu sér ekkert við að gera – í mesta lagi hluta þess, standist raforkuspár (sem ég hef ekkert vit til að meta). *** En okkur er einsog venjulega ekki boðið upp á neitt annað. Það ætlar enginn – enginn – að hringtengja Vestfirði nema í einhverri svona ófyrirsjáanlegri framtíð – svona einsog við ætlum að hætta að treysta á kolefniseldsneyti, einn fagran veðurdag – vegna þess að það tímir enginn að borga fyrir það. Og það þarf ekkert að efast um það, þetta er er dýrt. *** Okkur er boðin hringtenging fyrir fossamergðina. Þetta er næstum einsog í einhverju barnaævintýri. Mér finnst það fullkomlega sturlað en ég get ekki sagt að ég skilji ekki þá sem vilja stökkva á boðið. Ef við hórumst fyrir orkufyrirtækin í einsog áratug í viðbót er útlit fyrir að þjónustan verði komin í gott lag. Pólitíkin tímir okkur ekki. Við erum ekki með í innviðasamneyslunni – vegna þess að við kostum of marga peninga. Kapítalið elskar okkur, ef við elskum það til baka. *** Þetta er einhvers konar realpólitík. Að gera bara það sem til þarf, svo maður nái markmiðum sínum. Ef hringtengingin kostar 200 mw af virkjunum og þrjú hundruð fossa og bandbrjálaða lækna og rithöfunda, þá það, segja menn. En auðvitað er þetta ekki hægt. Meðal annars vegna þess að þetta fer með pólitískt kapítal Vestfjarða – klárar það í stríði við PR-klárasta fólk landsins, til þess að kála víðernum mestmegnis til einskis – og innviðirnir hérna eru ekki þannig að við höfum efni á því, einu sinni fyrir hringtengingu. Atvinnuvegirnir og vegagerðin verða að ganga fyrir. Sjókvíaeldið og Teigsskógur – heilsársvegur til Patreksfjarðar. Fyrir utan kvótakerfið, strandveiðarnar og allt hitt. Við höfum ekki efni á að spreða þessu kapítali. *** Fossar eru verðmæti. Víðerni eru verðmæti. Ég er ekki á því að þau séu ómetanleg – ég myndi henda öllu hálendinu á bálið ef ég fengi fyrir það frið á jörð – en það þýðir ekki að maður megi sólunda þeim í vitleysu. Ef það væru engar aðrar lausnir og það væri gersamlega ólifandi við ástandið, þá mætti kannski athuga þetta. Neyðin kennir naktri konu að selja sig. Það er gott ef hún getur þá selt sig dýrt. En maður kaupir ekki lífrænt ræktaðan grís í kvöldmatinn fyrir öll mánaðarlaunin þegar maður gæti fengið einn sprautaðan fyrir 2000 kr/kg. Eða þú veist, kjúklingabaunir. Maður kaupir ekki hús fyrir meira en maður hefur ráð á. Og fleiri myndlíkingar (þetta kemur allt á bók einn daginn, eins konar best of safni). *** Ég er sem fyrr hlynntur sjókvíaeldi (helst með regnbogasilung, reyndar, sem er miklu betri matfiskur en laxinn og minni hætta með – en það ku ekki markaður fyrir hann, sem er óskiljanlegt, heimurinn er svo vanur að éta lax, og þar til við höfum þjóðnýtt fyrirtæki landsins hef ég víst takmarkað um það að segja hvernig þau haga sér meðan það er innan ramma laganna, og ég veit ekki hvort ég myndi vilja banna laxinn, hann er ágætur líka stundum). *** Og þegar og ef Teigsskógur vex mér yfir höfuð þá stofna ég skæruliðaher og hef höfuðstöðvarnar í kjarrinu – malbika hann innanfrá og brenni hríslurnar, eina af annarri.

Untitled

Málefni sem skipta mig svo gott sem engu (ég er ekki að segja að þau séu ekki mikilvæg og langar nákvæmlega ekkert að rífast um mikilvægi þeirra, þau hafa bara ekki „náð“ mér). Evrópusambandsaðild. Krónan. Stjórnarskráin. *** Ég nennti ekki að hugsa um fleiri málefni sem kveikja ekki í mér. Þetta var bara það fyrsta sem kom upp í hugann. Annars er áhugavert hvaða málefni eru sexí og hvaða málefni eru það ekki. Sum málefni eru þannig að þau kannski skipta ekki  æðislega miklu máli – segjum dónaskapur Brynjars Níelssonar, þótt hann sé emblematískur og það allt – en málefnið er einhvern veginn nógu tælandi til að fólk getur látið alla veröldina snúast um það. Svo eru leiðinlegri mál – vegir og loftslagið og launamunur og slíkt – sem einhvern veginn eru bara útrædd í sjálfu sér fyrir löngu, og skortir alla móralska dýpt. Maður sýpur ekkert hveljur og bendir reiðilega, einsog byltingarhetja, á einhvern þingmann fyrir að standa í vegi (pun!) vegaumbótum (einsog einhver Þrándur í Götu samgöngubótanna). Færð ekki mörg læk út á það. *** Mál sem skipta mig máli: Umhverfismál, jöfnuður og byggðamál. Þetta má brjóta frekar niður, í sjálfu sér og núansera.  Ég hef meiri áhyggjur af jöfnuði en jafnrétti og er frekar mikill efnishyggjumaður – rótin að öðrum ójöfnuði og ójafnrétti er þar og ekkert af því verður leyst nema það verði fyrst leyst þar. Ég hef meiri áhyggjur af loftslaginu og hafinu og ruslinu en t.d. hríslunum í Teigsskóg og jafnvel fallegu fossunum (en finnst forkastanlegt að fórna slíkum verðmætum bara til að gleðja einhverja kapítalista). Fossarnir eru samt mjög sexí. Byggðamálin eru alls konar og flókin og ég hef á þeim alls konar ólíkar skoðanir. En fyrst og fremst ætti að bæta fólki utan höfuðborgarsvæðisins þann aðstöðumun sem felst í því að við borgum öll fyrir sentralíseraða þjónustu þar – bróðurparti skattfjár okkar er eytt í Reykjavík, einsog vera ber, en til þess að það meiki sens þarf að sjá til þess að við hin fáum líka grunnþjónustu í bærilegri akstursfjarlægð, þótt hún sé dýrari, okkur séu tryggðar samgöngur til höfuðborgarinnar og um landið allt, og fólki sé gert kleift að lifa mannsæmandi í heimkynnum sínum (og nei, það þýðir ekki að maður verði að fá til sín hátæknisjúkrahús ef maður stofnar byggðalag á miðjum Hvannadalshnúk). Þá held ég að þjóðin hefði gott af því að búa til a.m.k. eina aðra borg – t.d. á Akureyri – af því að einnarborgarþjóðir eiga erfiðara með að kljást við einsleitni, þar eru engin átök, t.d. er stórslys að öll íslensk menning skuli eiga heima í sama póstnúmerinu (og já ég veit að það eru ýkjur, en nógu satt er það samt), það sé bara ein estetísk miðja í landinu, bara ein klíka og ein fagurfræði (og svo stakir útlagar). *** Svo þarf ég að fara að koma mér upp skoðun á þessu þarna. Ég segi já við eitt og þrjú og nei við tvö (á samt eftir að sakna hennar, helst vildi ég fá gömlu seðlana aftur). *** Já og kynferðisofbeldismálin. Út af þeim var víst kosið. Ég lýsi mig hér með andsnúinn kynferðisofbeldi. Og með gegnsærri og réttlátri stjórnsýslu. Hvaða frambjóðanda fæ ég þá?

Untitled

Ég er farinn að halda að listin lifi ekki af pólitík samtímans. Í það minnsta er ljóðlistin farin að láta á sjá. Pólitísk ljóð samtímans – í merkingunni síðustu vikna – eru einsog skopstæling á forminu. Mér líður einsog ég sé staddur í Southpark þætti t.d. þegar ég hlusta á þetta . Með fullri virðingu fyrir málstöðunum öllum, sem ég meira og minna styð. *** Sem er reyndar ekki slæmt. Southpark eru oft fínir. En vandræðalegt þegar manni finnst einsog það hafi alls ekki verið meiningin. *** Einsog Taylor Mali orti um árið í How To Write A Political Poem: Mix current events with platitudes of empowerment.

Wrap up in rhyme or rhyme it up in rap until it sounds true. *** Annars lifir samtíminn – þessi skegglausa og sköllótta rímöld – nú ýmislegt af. Að minnsta kosti hingað til. Ég veit ekki alveg á hvaða stigi brestirnir verða of miklir. Ætli það sé einhver golfstraumur í ljóðlistinni – sem getur vikið af leið og breytt landinu í auðn ef ekki er hlúð að loftslagsmálum fagurfræðinnar? *** Mér gengur ekkert að einbeita mér að vinnunni reyndar. Kannski hefur það með loftslagsmálin að gera líka.

Untitled

Hafið þið tekið eftir fólkinu sem svarar öllu sem ekki smellur að siðferðislegri heimsmynd þeirra með því að ranghvolfa bara augunum? Ekki kannski bókstaflega, en svona … „djísus“, „byrjar þessi“ … o.s.frv. einsog viðkomandi séu í senn svo lífsreynd að þau hafi séð allt áður og svo kúl að þau þurfi aldrei að gaumgæfa neitt. *** Pínu þreytt! *** Djók. *** Annars er óþarfi að þræta um alla hluti. Og þá meina ég að skiptast á skoðunum viðstöðulaust, grafa sig ofan í facebookþræði. Það á við sums staðar og stundum – getur verið gagnlegt – en það á alls ekki alltaf við. Oft er hraðinn einfaldlega of mikill. Hlutir eru skrifaðir of hratt, lesnir of hratt og það heyrir enginn í neinum fyrir öllu garginu. *** *** Við nýtum einkadagana okkar feðgarnir til þess að laga mat. Í gær skrifaði Aram Nói sína aðra uppskrift í uppskriftabókina – að skánskri eggjaköku með beikoni og sultu. Hann er kominn upp á lagið með að brjóta egg (það lærði ég ekki fyrren eftir tvítugt) og finnst þetta gaman, sem er fyrir öllu. Það er enn vetrarfrí í skólanum svo við sváfum út og lágum svo í rúminu og lásum í morgun. Ég hef verið að vinna bara heima, ekki að það skipti máli – hann getur allt eins fundið mig á kontórnum, og svo er hann hvort eð er farinn út á rand með vinum sínum núna. *** Ég er að lesa Museum of Innocence eftir Pamuk, sem ég keypti á samnefndu safni í Istanbul í fyrra, korteri áður en það fór allt til andskotans. Frábær bók, en kannski ekki sá ástaróður, sá óður til ástarinnar, sem kynntur er á bakkápu – Kemal Bey, aðalsöguhetjan, er eiginlega hálfgerður sósíópati, sjálfselskur dekurkjói og í einhverjum skilningi einmitt fullkomlega ófær um að elska. En bókin er góð fyrir það. *** Bíð eftir jólabókaflóðinu. Slitförin eftir Fríðu Ísberg kom út í síðustu viku – ég pantaði hana fyrir löngu en hún er enn ekki komin. Ef hún fer ekki að birtast klaga ég útgefandann (Valgerði Þóroddsdóttur hjá Partus) í landsbyggðarlobbíistann pabba sinn (Þórodd Bjarnason fv. formann Byggðastofnunar) fyrir að sinna ekki okkur dreifurunum sem skyldi. *** Annars bíð ég spenntur eftir Vali Gunnarssyni og Tóta Leifs og Kristínu Eiríks. Ætla að skrifa um Ko Un fyrir Starafugl – hún verður sennilega tekin ásamt ensku ljóðasafni eftir sama mann þegar ég lýk við Pamuk (þetta eru 700 síður af sósíópatískri þráhyggju). Svo skoða ég hvað og hvort ég les fleira úr flóðinu eftir því sem á líður. Ég hef verið í mótþróa gagnvart flóðinu lengi, fundist þessi skyldulestur óþægilegur, en er eitthvað að íhuga að vera með „í umræðunni“ í ár.