Untitled

Í kvöld lagaði ég lambakjöt. Getur maður sagt það? Það hljómar bærilega á sænsku. Á maður að segja „í kvöld eldaði ég lambakjöt“. Í fyrsta sinn á ævinni, held ég (ég elda mjög lítið kjöt almennt). Þetta var með allra bestu máltíðum sem ég hef eldað/lagað. Lambið var svona: 900 grömm – ég held það hafi heitið framhryggsvöðvi eða eitthvað svoleiðis.

1 msk broddkúmen

2 tsk malað kóríander

2 tsk anísfræ

1/2 tsk cayenne

Pipar og salt

Slatti af ghee (eða bara olíu eða smjöri)

1 laukur

1 msk tómatpúrra

2 bollar kjúklingakraftur

1 dós plómutómatar (400 ml)

1 dós kjúklingabaunir (400 ml)

1 pakki þurrkaðar apríkósur (tæplega bolli)

2 kanelstangir

1 msk raspaður engifer

2 tsk raspaður sítrónubörkur

Hellingur af ferskum kóríander. Ég byrjaði á því að skera kjötið gróflega af beinunum, blanda því vel saman við broddkúmenið, kóríanderinn, anísfræin, cayennepiparinn og pipar og salt, og brúnaði svo allt í gheeinu – líka beinin og kjötið sem var á þeim. Svo steikti ég grófskorinn laukinn með meira ghee og tómatpúrru. Þegar hann var orðin mjúkur hellti ég öllu nema ferska kóríandernum út í pottinn, leyfði suðunni að koma upp og stakk svo öllu í 90 gráðu heitan ofn í … sennilega fjórar klukkustundir. Tók út, hitaði einu sinni hressilega og hrærði kóríandernum út í. Með þessu hafði ég heimagerðar pítur og couscous með myntu. Ég gleymdi að taka mynd. Þið getið bara gúglað „moroccan lamb“ – þetta leit þannig út.

Untitled

Starafugl er farinn aftur á flug. Það er gleðiefni. Að vísu er fyrsta gagnrýni tímabilsins alls ekkert gleðiefni. Það er aldrei gaman að birta neikvæða rýni (með örfáum undantekningum). En neikvæða gagnrýnin hefur líka sinn stað, gegnir sínu hlutverki, og án hennar er merkingarlaust að tala um gæði í menningu. Svo verður auðvitað að taka með í reikninginn að gagnrýni er og á að vera persónulegt mat – helst með faglegri innsýn – en gæðamatið er alltaf súbjektíft, lesendur eru ólíkir, hafa ólíkar forsendur. *** Og það skiptir vef um menningarrýni ótrúlega miklu máli að þau sem á hann skrifa geri það hreinskiptið og af nokkru hugrekki. *** Í gær skrifaði ég stuttan pistil hér um að það ætti alls ekki að taka mark á mér. Því fylgdi löng og mikil umræða á Facebook, sem verður ekki endurflutt hér, nema til að árétta að líf án skáldskapar er ekkert líf. *** Eitt af því áhugaverða við að gefa út sömu bókina í mörgum löndum eru allar ólíku spurningarnar sem maður fær. Nú keppast grískir blaðamenn við að spyrja mig hvort að kommúnismi og nasismi séu bara sitthvor hliðin á sama peningnum – og ég keppist við að svara því að slíkur þvættingur, slíkur reginmisskilningur á hugmyndafræði, baráttunni fyrir betra lífi og stjórnmálum, sé nú eiginlega ekki svaraverður (sem gerir ekki glæpi Stalíns eða húmorsleysi vinstrimanna neitt betri).

Untitled

Ég trúi ekki á nonfiction. Og ég skil ekki að nokkur nenni að fást við slíkt. Og nei, ég hef aldrei skrifað neitt helvítis nonfiction. *** Ég rek mig stundum á að fólk heldur að ég sé alltaf alveg hvínandi brjálaður, húmorslaus og ekkert nema illska alla daga. Þetta er ekki satt. Ekkert gæti verið fjær sanni. En ég hef ákveðið að láta það ekki á mig fá þótt þið séuð svona domsaraleg og auðvelt að koma ykkur úr jafnvægi. *** Kannski er þetta bara vegna þess að ég segi helvítis. Helvítis helvítis. Og andskotans. En ég meina ekkert með þessu. *** Styttist í intensífa helgi. Maður minn.

Untitled

Því er stundum haldið fram að túristabylgjan á Íslandi gæði landið aukinni fjölbreytni. Að við njótum nú samneytis við alls kyns ólíkt fólk – allra þjóða kvikindi, beinlínis. En þegar ég horfði yfir mengið einsog það birtist mér sýnist mér hópurinn eins hómógen og hægt er að hugsa sér. Þetta er fólk á sama aldri – 55 til 70 – hvítt og einstaka sinnum asískt, forréttindafólk úr efri millistétt (já, það er búið að segja mér að það sé ljótt að minnast á að ekonómískar forsendur fólks séu ólíkar), í sams konar fötum með sams konar lífssýn (sýnist mér úr fjarlægð). Það er milt í skapi en of bergnumið til þess að taka eftir nærumhverfi sínu. Það gapir á fjöllin og gengur svo beint fyrir reiðhjól dóttur minnar, sem nær með naumindum að afstýra stórslysi. Það upplifir húsin sem dúkkuhús – liggur á gluggum, gengur inn og spyr hvort hér „búi einhver“ – upplifir náttúruna sem afskekktan heimsenda þar sem óhætt sé að kasta af sér hlandi og saur (því hver á svo sem leið hér um aftur fyrren í fyrsta lagi á næstu öld?). *** En já, nú hljóp ég svolítið út undan sjálfum mér. Ég ætlaði bara að benda á hversu mikið túristarnir líkjast hver öðrum. Sérstaklega skemmtiferðaskipafólkið. Þeir eru miklu líkari hver öðrum en við einangraðir eyjaskeggjar eða útnárahillbillíar erum líkir innbyrðis. Ísafjörður er aldrei eins einsleitur og þegar hann fyllist – og já hann fyllist þegar tæmt er úr tvö þúsund manna skemmtiferðaskipi yfir bæinn – af túristum. *** Það er mikilvægt að ferðast þótt við – ekki síst ég – ferðumst alltof mikið. Mér skilst að Vestfirðir séu stóriðjulausir – og nei laxeldi er ekki stóriðja, það er búskapur, en hugsanlega og sennilega er hæpnara að láta einsog skemmtiferðaskipin séu ekki stóriðja. Mengunin úr þessum skipum er í það minnsta stórfengleg – alveg sturluð. Og þau fá ekkert rafmagn í höfn, til þess er engin aðstaða – hvorki hér né í Reykjavík skilst mér – heldur ganga bara mótorarnir allan sólarhringinn.

Untitled

Einar Kárason úthúðaði mér – eða Starafugli/Sterafugli – á Facebook (hann fékk slæman dóm í vor sem hefur hangið á forsíðu í sumarfríinu). Snæbjörn danski dásamar Þórdísi Gísladóttur á blogginu sínu. Bragi Ólafsson „hjólar í“ Stefán Mána á sínu bloggi. Þarf ég þá ekki að tjá mig um einhvern kollega minn í bókmenntaheiminum? *** Mér sýnist trendið vera að tjá sig um einhvern yngri. Ungskáld. *** Ég man (óljóst en greinilega) að Sverrir Norland skrifaði einu sinni fordómafullan pistil á Facebook um fólk sem hleypur í dýrum skóm eða íþróttabolum, en ekki gömlum skóm sem það keypti í tíunda bekk – voru einhvern tíma hvítir eða bláir en eru gráir í dag – og ljótasta bolnum í skápnum. *** Fólk sem er annað hvort ungt og þarf ekki að hafa áhyggjur af að meiða sig eða með líkama sem voru einfaldlega gerðir fyrir hlaup hleypur kannski þannig til fara. Í dag hlaupa miklu fleiri, til dæmis ég. Og við þurfum bara spelkur og fjöðrun og klæði sem „anda“. *** Ég var rosa reiður þegar ég las þetta og er enn. *** Ef ég hleyp í lélegum skóm meiði ég mig nefnilega (fann ekki nýju skóna mína í fyrradag og hljóp í gömlum = er núna haltur og get ekki hlaupið næstu sirka tíu dagana). *** Ef ég hleyp án svitabands sé ég ekkert fyrir svita og er rauður í augunum í viku. Ef ég hleyp í venjulegum sokkum fæ ég viðbjóðslegar blöðrur sem valda mér gríðarlegum sársauka. *** Ef ég hleyp meira en 7-8 kílómetra í bómullarbol blæðir úr geirvörtunum á mér. Það blæðir! Er það þetta sem unga kynslóðin í íslenskum bókmenntum vill? Að það blæði úr geirvörtunum á mér? Ég missi sjónina og verði ógöngufær, með rifna vöðva, sinar, molnuð hné og blóðugar tær? *** Og er ég kannski ekki nógu góður til að verðskulda þráðlausa heddfóna? Vill Sverrir Norland kannski að ég fari út að hlaupa með vasadiskóið sem ég keypti mér fyrir blaðburðarpeningana mína þegar ég var 11 ára? Eða kannski plötuspilarann sem ég erfði frá foreldrum mínum (þegar þau fengu sér nýjan, þau eru enn á lífi). Ég get bara hlaupið í kringum hann. *** Eða ber mér kannski einhver siðferðisleg skylda til þess að „hlusta á alheiminn“. Er ég að „misskilja“ hlaupanautnina? *** Ég get líka sleppt því að þvo mér með sápu á eftir og bara nuddað hlandi í handakrikana á mér. Það kemur víst út á eitt, er náttúrulegra, „sögulega rétt“ og sennilega heilögum Sverri þóknanlegra. *** Það eru að minnsta kosti alveg hreinar línur að ég læt ekki Sverri Norland – eða nokkurn annan – „níða af mér skóinn“.

Untitled

Það er komið haust. Mig vantar bókahillur á skrifstofuna. Ég át snúð í kaffitímanum og keypti mér teikaveikaffi í frauðplastbolla vegna þess að ég NENNTI EKKI að hella upp á kaffi í vinnunni. Sena þrjú í Hans Blævi er nánast endurskrifuð – og þar með er ég búinn að endurskrifa mig fram að hléi, held ég, og henda lifandis ósköpum af texta. Ég ætla samt að halda mig fyrir hlé næstu dagana, manni liggur nefnilega ekkert á.  Í gær fór ég út að hlaupa og reif einhvern andskotann í hægri kálfanum og haltra nú. Eða – ég sit í augnablikinu, en til dæmis þegar ég fer á klósettið þá haltra ég. Starafugl fer í loftið eftir viku. Á næstu helgi á Aram afmæli, ég fæ heimsókn frá finnlandssænskum vinum (sem eru að koma á bókmenntahátíð) og Vigni úr Ligeglad og Svörtum á leik.

Untitled

Nú keppist fólk við að fordæma bardagann í gær – McGregor vs. Mayweather – það er að segja þeir sem eru ekki uppteknir af að fordæma Ungfrú Ísland. Það sló mig reyndar að sennilega þætti mér óþægilegra – og óeðlilegra – að keppa í vinsældum og viðkunnanlegheitum en fýsískri fegurð. Smeðjuskapur er hugsanlega verri en anorexía. *** Eða ekki. *** Sennilega óþægilegast samt að keppa í að láta berja sig í smettið. *** Ekki að maður geti ekki verið vinsæll án þess að vera með smeðjuskap. Kannski er það jafnvel alls ekki líklegt til vinsælda. Mér finnst bara tilhugsunin sjálfum mjög óþægileg – martraðarkennd – að reyna að sannfæra næsta mann um að ég sé almennilegri náungi en sá þarnæsti. *** Þá skil ég boxarana betur. Sem keppa í kjafthætti. Það er löng hefð fyrir því að keppa í ókurteisi, tillitsleysi og hroka í (bardaga-)íþróttum – einsog til að koma hinum náunganum úr jafnvægi. Eftir bardagann höfðu þeir Írinn og Ameríkaninn ekkert nema fallegt hvor um annan að segja. Ég held að það sé líka hefð. Þetta er allt eftir bókinni. *** Það er alltílagi þótt það sé tilgerð í kjafthætti. Eða – hún á heima þar. En tilgerð í vinalegheitum er dauðasynd. *** Ég get ekki að því gert að finnast dálítil stéttafyrirlitning í afstöðu hinna hugsandi stétta – eða mórölsku stétta – til alþýðuskemmtunar einsog þessa bardaga í nótt. Sérstaklega var ein grein, sem margir deildu, leiðinleg – bara svona viðstöðulaust rant um hvað þeir væru vont fólk, hvað þetta væri allt takkí og hvað þeir græddu mikla peninga á þessu (það er ekkert verra að græða pening sem skemmtikraftur/íþróttamaður en að … gera svo ótal margt annað sem fólk verður milljarðamæringar á). Gott ef titillinn var ekki ÞESSI BARDAGI ER ALLT SEM ER AÐ HEIMINUM Í DAG og hann smættaður niður í einhvers konar svartir-ofbeldismenn vs. trumpískir rasistar. Lose-lose fyrir móralska liðið. *** En þessar stellingar allar saman – bravadoið, smaragðarnir á beltinu, sjóið, kjafthátturinn, PC-leysið (diet rasisminn, diet kvenfyrirlitningin) – er allt tjáningarmáti þess sem þarf útrás. Og þá er ég ekki að tala beinlínis um bardagamennina – eða rokkstjörnurnar sem spila svipaða leiki – heldur aðdáendurna og kúltúrinn í kringum fenómenið síðustu öldina eða tvær. Þetta er ég-er-valdlaus-og-vinn-70-tíma-vinnuviku-við-ömurlegt-færiband-og-það-gera-líka-allir-sem-ég-þekki-og-nú-langar-mig-að-horfa-á-einhvern-berja-einhvern-stemning. Af því það er valdeflandi. *** Og já – þetta er í grunninn heteró karlakúltúr, einsog stelpurnar á bikiníunum ættu að gera manni ljóst – en þetta eru ekki kúltúr valdakarla, ekki feðraveldið í þeim skilningi (en feðraveldið í öðrum; einsog við erum öll feðraveldið). Þetta er Grand Theft Auto, Wolfenstein og Guns N’ Roses, Bukowski, Eminem og James Brown, First Blood og Rocky (!) – og jájá, það er oft siðferðislega ámælisvert, en ekki svo að maður eigi ekki að geta náð upp í nef sér fyrir því. *** Annars horfði ég ekki á bardagann. Ég þoli ekki að sjá blóð. Svo var þetta líka um miðja nótt og ég er miðaldra ljóðskáld sem þarf á sínum nætursvefni að halda.

Untitled

Við héldum kokteilboð í gær. Með drykkjaseðli. Það mátti fá Blóðmaríu, Daquiri, Mojito, Smash, G&T, Negroni og Caipirinha. Það er óhætt að segja að þetta hafi mælst vel fyrir. Og verður áreiðanlega endurtekið við tækifæri. *** En þessu fylgdi óneitanlega nokkur subbuskapur. *** Í kvöld ætlum við að rúlla saman víetnamskar vorrúllur. Það tengist kokteilboðinu með þeim hætti að hvorutveggja er frekt á ferskar kryddjurtir – sem við eigum nokkuð af og myndu skemmast ef við værum ekki sífull að gúffa í okkur víetnömskum mat. *** Það er rigning og rok. Aram gistir hjá vini sínum í nótt og Aino og Nadja eru í sundi í Bolungarvík. Ég nennti ekki til Bolungarvíkur. Hefði farið með ef þær hefðu farið í sund hérna. Er að spá í að fá mér bara lúr. Ég er pínu þunnur.

Untitled

Allt telur (frá núll til tíu) Þegar þú vaknar á morgnana –

án þess að ég hafi gert ráð fyrir öðru

eða verði þess einu sinni var;

það er varla þú verðir vör við það sjálf

– og læðist geispandi niður tröppurnar

sem við eigum sjálf

í húsinu sem við eigum sjálf

til að hella upp á kaffi

í mokkakönnunni okkar

á spanhellunni okkar

og það er gólfkalt

í eldhúsinu okkar,

(eða þú gleymir að borða morgunmat) það telur. Þetta telur allt. Ég vil að þú vitir að ég myndi aldrei

eitra fyrir þér, ekki einu sinni

þótt ég vaknaði fyrstur, það skiptir máli

að þú vitir það, sért minnt á það

því það er mér sem er treyst

fyrir eldamennskunni á þessu heimili

og ég vil auðvitað að mér sé treyst

þótt ég hafi stundum brugðist þér

og öðrum, auðvitað, maður bregst.

Annars er svo margt sem ég myndi aldrei

gera þér að mér entist varla ævin

í að telja það allt upp. Ég biðst

velvirðingar á hinu. Það telur líka, vonandi, að ég vil vel. Það telur

og telur þegar ég loks vakna líka

þegar þú ert farin – um stund –

og ég drekk kalt kaffið

sem þú skildir eftir á eldavélinni

svo ljúffengt

sætt og svalandi,

ekki að ég sé að telja

það er enginn að telja

og okkur er flökkufært um heiminn

án reikningslistarinnar

enda ekki á leiðinni neitt sérstakt

nema bara saman

út í loftið, lífið og himintunglin

og þurfum því ekki

að reikna neinn kúrs

ekki einu sinni þegar

ég er hérna einn

því ég er aldrei einn hérna. Það telur, einsog allt hitt,

þetta telur allt,

og leggst á eitt einsog summan

af tveimur óreiðum,

stólum og fötum og bókum

og leikföngum á tvist og bast;

já og meðan ég man, ég átti alltaf eftir að sækja

þarna stólana upp í skóla

og súrdeigsmóður upp á Seljalandsveg,

þarf svo að fara í búðina og

við sjáumst heima upp úr sex,

takk fyrir síðustu tíu. Þinn,

Eiríkur

Untitled

Aino fór í flegnu á leikskólann í morgun. Sennilega er hún að búa sig undir að verða hæstaréttarlögmaður. Einsog Magnús frændi hennar. Ekki veit ég hvernig hún beit þetta í sig – ekki er hún á Facebook. Sennilega eru hasstöggin bara unga fólkinu svo í blóð borin að þau þurfa ekki einu sinni internet til þess að finna fyrir skandölunum. *** Ég reyndi að útskýra fyrir henni að við værum ekki í Svíþjóð lengur. Á Íslandi er ekki veður til að vera í flegnu. En það tjóir auðvitað ekkert að röfla í unga fólkinu, það fer sínu fram. *** Mér sýndist í gær sem það væri búið að slátra öllu laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Niðurstaða nefndar sem var skipuð um málið var að selja Djúpið fyrir heilbrigðisvottorð á önnur svæði. En svo skilst mér að það eigi eftir að taka tillit til mótvægisaðgerða – til dæmis útsetningu stórseiða – og það sé bara frekar líklegt að þegar það verði tekið með í reikninginn verði opnað fyrir þetta á sömu forsendum og á öðrum opnum svæðum. *** Þótt sennilega sé hér von á reiðum Facebookurum með prófílmyndir af laxapyntingum og þrugl um úrgang og orkufrekt og ósamkeppnishæft laxeldi á landi eða ótímabæra framleiðslu á geldfiski (sem væri sennilega erfitt að selja; vegna GMO-hræðslu) ætla ég ekkert að segja um það í bili – ef það fólk væri móttækilegt fyrir upplýsingum hefði það löngu skilið það allt. Það tekur bara mark á þeim vísindum sem því hentar. Vísar í hálfar Hafró skýrslur og hálfa norska reynslu – talar um erlent eignarhald á A en finnst það engu skipta í B – og bla bla bla. *** Eitt af því sem vekur ítrekað athygli mína í þessum málum – og ég er ekki viss um að maður átti sig almennilega á nema maður eigi framtíð sína og sinna barna á svæðinu – eru stóru drættirnir, þessi endurtekna pólitíska hreyfing, ár eftir ár, mál eftir mál: Hvernig hagsmunum Vestfirðinga er fórnað fyrir svo til alla aðra hagsmuni. Ef það er eitthvað – þrjár manngerðar laxveiðisprænur, sem hafa aldrei talist merkilegar, og telja lítinn lax sem er blendingur úr 5-6 öðrum ám og var ekki til fyrir einum litlum mannsaldri – þá vegur það þyngra en framtíð byggðarinnar. *** Frá því ég var lítill strákur hefur byggðin alltaf verið í mótvindi – fyrst og fremst sunnanátt, þannig er það bara þótt mörgum þyki óþægilegt að heyra það, og ég vilji ekki gera lítið úr þætti sumra heimamanna heldur. Hér er ekki einu sinni hægt að leggja vegarspotta án þess að það veki úlfúð í Reykjavík. Af því kjarrið er mikilvægara en byggðin. Laxveiðisprænurnar eru mikilvægari en byggðin. Er skrítið þó fólki hérna finnist að því sé ætlað að lifa lífinu í stasis – varðveitt í kvoðu eða ís, bara svo fremi sem ekkert breytist. Best væri ef hér væri ekkert nema rómantískir smábátasjómenn á styrk – já og kaffihús og airbnbarar. *** En já. Ég ætlaði ekki að byrja á þessu röfli aftur. Ætlaði ekki að fara að endurtaka mig. *** Ég velti fyrir mér stöðu Framsóknarflokksins í þessu öllu saman. Bæði hugmyndafræðilega – frá því vinstriflokkarnir gerðust borgaralegir, í þeirri merkingu þess orðs sem vísar til borgarinnar sem fyrirbæris, sem framtíðar, sem hugsjónar, er Framsóknarflokkurinn sennilega eini stjórnmálaflokkurinn á landinu sem beinlínis hefur þá hugmyndafræði að styrkja byggðina í landinu – og út frá þeim popúlísku sjónarmiðum sem hafa verið ær og kýr þess flokks, kannski frá upphafi en í öllu falli síðustu árin og áratugina. *** Stundum er sagt að stóru línurnar í pólitík samtímans séu milli „óupplýstrar“ landsbyggðar og „upplýstra borgarsamfélaga“. Þessi greining er orðuð svona í fjölmiðlum – og af punditum – sem eiga fyrst og fremst rætur að rekja til borgarsamfélagsins. Og já – við finnum fyrir því þegar við erum kölluð óupplýst, það er hvorki næs né sanngjarnt þegar rætt er um raunverulega hagsmuni og hugsjónir sem skarast. En þegar hagsmunir okkar eru ítrekað látnir lönd og leið – áratug eftir áratug, bókstaflega – stundum fyrir algeran tittlingaskít, elur það á örvæntingu og bræði sem sprettur af viðstöðulausri tilfinningu fyrir vanmætti gagnvart eigin örlögum, að manni séu „allar bjargir bannaðar“. Vestfirðingar ætluðu að „gera eitthvað annað“ – sleppa álverum og olíuhreinsunarstöðvum, lýstu sig stóriðjulausa, og ætluðu að fara í sjálfbæra og vottaða matvælaframleiðslu. En þetta „eitthvað annað“ er aldrei nógu gott. *** Og hvað gerir reitt fólk? Hvað gerir svikið fólk? Ef það er ekkert í boði nema bitlingastjórnmálamenn – þá kýs reitt og svikið fólk þá stjórnmálamenn sem ætla þó að kasta í það sjálft einhverjum bitum. Það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk sem getur ekki treyst því að samfélagið standi með þeim kjósi gegn hagsmunum sínum. *** Svo er auðvitað alltaf á borðinu að draga í land með stóriðjulausa Vestfirði. Hvað sem manni finnst um stöðuna fyrir austan – hvað hún kostaði umhverfið, hvað hún kostaði í beinhörðum peningum – þá hafði hún jákvæð áhrif á atvinnuástandið og tekjur heimamanna. Kannski dugar ekki að takast á við ástandið með einhverjum bændaskap einsog fiskeldi – kannski þarf bara big guns, fólk með einhverja alvöru peninga á bakvið sig sem getur bara keypt kúlulánadrottningarnar. Þá værum við að díla með hagsmuni sem eru stærri en okkar eigin – ef við erum bara nógu miklir umhverfissóðar fáum við nógan skriðþunga til að trompa þá sem vilja frysta hér alla framþróun. *** Og jájá, við erum að verða ansi beisk. Og það byrjaði ekki í gær. *** Það er hægt að stinga upp á þúsund lausnum í kaffihúsaspekingastíl – frjálsum strandveiðum, auknum byggðakvóta, skattaafsláttum, fleiri einyrkjum, o.s.frv. – en það breytir engu um að þær lausnir sem eru á borðinu, hvort sem er í atvinnu- eða samgöngu- eða menntamálum eða hvað það er, eru aldrei nógu góðar.