Untitled

*** Þetta er það sem ég er að fást við. Leikverkið verður frumsýnt í mars en sagan mun fylgja mér lengur – þetta verður líka skáldsaga og hugsanlega kemur hún ekki fyrren 2019. Í öllu falli ekki fyrren í fyrsta lagi haustið 2018. *** „Eiríkur, er ekki stafsetningarvilla í tilkynningunni?“, spurði vinur minn í gær. Og átti við orðið „hán“. Hans Blær er hán – ekki hún, ekki hann, heldur hán. Það beygi ég svona: Hán

Hána

Hánum

Hánar. *** Hans Blævi beygi ég svona: Hans Blær

Hans Blæ

Hans Blævi

Hans Blævar *** Einhvern tímann var hán byggt á Milo Yiannopolous – en það er ansi langt síðan. Og það eru fleiri einstaklingar skyldleikaræktaðir við Hans Blævi núorðið – hán raðar á sig ættingjum, bæði úr röðum góða fólksins og vonda fólksins, og á sennilega eftir að bæta á sig nokkrum til viðbótar. *** Ég er búinn að skrifa fyrsta handrit að leikritinu en er að endurskrifa það (hættan er auðvitað sú að ég breyti einhverju drastísku og allur kynningartextinn fari á hliðina, en það verður þá bara að hafa það – það skiptir meira máli að verkið verði rétt en að kynningartextinn verði það). Þetta er móralskt jarðsprengjusvæði og ég hef ekki nokkurn rétt til að vera þar. En rithöfundurinn er í sjálfu sér alls staðar í óleyfi – við þetta vinnur maður, tilfinningalegt, siðferðislegt og pólitískt trespassing. *** Ég er að reyna að gæta mín á að verða ekki of sínískur samt. Maður vinnur líka við að elska, láta sér þykja vænt um fólk og bera virðingu fyrir því. Sem er erfitt þegar aðalsöguhetjan – sú sem maður elskar meira en allar hinar – er viðundur og illmenni. Hán er ekki viðundur eða illmenni fyrir að vera trans – það er hánum sennilega ekkert nema siðferðisleg fjarvistarsönnun, átylla til þess að geta leyft sér að níða skóinn af gapandi réttlætisriddurum, hluti af tröllalátunum. Og þar með alls ekki víst að hán  sé  trans – í eiginlegum skilningi þess hugtaks, að hán hafi  leiðrétt kyn sitt frekar en bara skipt vegna þess að það hentaði. *** Það hentar hánum að vera transi því það eitt og sér gerir íhaldsbullurnar vitlausar. Og það hentar hánum að vera transi því að vinstraliðið kann ekki að hantera í hánum fasismann. *** Hans Blær er fyrst og fremst tröll. Allt annað í persónu hánar tekur mið af því af því að hán vill gera fólk vitlaust. *** Þetta er fréttatilkynningin: Hafið þið nokkurn tíma spurt ykkur hvaða eiginleika manneskja þyrfti að hafa til þess að þið gætuð verið þess fullviss að viðkomandi væri að öllu leyti, innra sem ytra, óferjandi skíthæll og viðundur?

Og ef ekki – Hvers vegna í ósköpunum ekki? Hans Blær Viggósbur er gjálífiströll með uppleysta sjálfsmynd, ofvirka tískuvitund og egó í hjartastað. Hán er glundroðamaskína í fjölkynja líkama sem lifir fyrir það eitt að storka heiminum og trekkja upp hina viðkvæmu. Allt frá því hán komst fyrst í tæri við hamstrahjól fjöl- og félagsmiðlunar hefur Hans Blær verið á milli tannanna á þjóðinni, sem sýpur hveljur og skríkir til skiptis, en skemmtir sér alltaf vel. Þegar upp kemst að Hans Blær hefur notað nauðgunarmeðferðarheimilið Samastað til þess að svala afbrigðilegum fýsnum sínum er hugsanlegt – rétt svo hugsanlegt – að samfélagið hafi loks fengið nægju sína og þjóðin sé hætt að flissa. Óskabörn ógæfunnar og Eiríkur Örn Norðdahl unnu síðast saman að leiksýningunni Illska sem hlaut sex tilnefningar til Grímunar, þar á meðal sýning ársins og leikrit ársins. Nú matreiða þau ískalt lík tröllasamfélagsins ofan í gapandi vandláta skolta ofurmeðvitaðra hipsterkúreka og réttlætisriddara – á besta stað í borginni – og bera það fram snyrtilega niðursneitt á nýuppþvegnu silfurfati. Skemmtið ykkur í guðanna bænum vel. Þetta verður tótal hatefest.

Untitled

Ég hef aldrei barið nasista. Svo ég viti. Ég hef reyndar barið svo lítið af fólki að það er ólíklegt að það hafi gerst óvart heldur. Þegar ég hugsa út í það hef ég sennilega ekki barið neinn. Ekki einu sinni þegar ég var barn. Ég slóst nokkrum sinnum á grunnskólalóðinni og a.m.k. einu sinni fyrir utan ball – en var þá aðallega barinn sjálfur. *** Ég vona samt oft að nasistar verði barðir. Mér finnst þeir eiginlega ekki eiga neitt betra skilið. Ég er heilt yfir friðarsinni – en mér finnst samt ekki að það eigi að leyfa ISIS að vaða uppi. Eða nasistum. Sennilega væri heillavænlegast ef ofbeldisfólk – og þeir sem hóta ofbeldi, sem nasistar gera, stjórnmálastefna þeirra gengur út á að beita fólk óheyrilegu ofbeldi – væri einfaldlega tekið úr umferð. Stefnan væri bara ólögleg – á einhverjum kvarða auðvitað. Ég á ekki við að það ætti að fangelsa fólk fyrir að senda (kaldhæðnislausar) hitlerskveðjur. En það mætti kannski sekta fyrir það, svona einsog að kasta sígarettustubbum eða fara yfir á rauðu ljósi. Sama mætti svo gilda um klerka sem mæla með kynfæralimlestingum stúlkubarna eða öðru „heiðursofbeldi“. *** Það er ekki gert. Ég skil sosum punktinn líka með tjáningarfrelsið. Og vil ekki gera lítið úr honum – heimurinn er fullur af mótsögnum og þetta er ein af þeim. Tjáningarfrelsið er ekki absolút, hefur aldrei verið það – og spurningin er alltaf hvar eigi að draga línuna frekar en hvort eigi að draga hana. Sumir tala um „tjáningarfrelsi en …“ fólkið – en staðreyndin er sú að þjóðfélagið allt styður þá afstöðu. Ég man varla eftir einum einasta manni sem styður fullkomlega og algerlega óheft tjáningarfrelsi. *** En tjáningarfrelsisumræðuna er ekki heldur hægt að taka án þess að ræða um plattform. Ef við segjum að það sé gott og gilt að skrifa greinar sem gera lítið úr helförinni eða mæla með því að stórir þjóðfélagshópar – hvort sem það eru hvítir karlar, múslimar, kellingar, gyðingar eða aðrir – verði upprættir með öllu, þá eigum við eftir að ræða hvort það sé eðlilegt að slíkar greinar séu birtar. Altso – ef Vísir neitar að birta slíka grein af því hún sé hroðbjóður (sem hún er) er þá Vísir að  ritskoða eða bara  ritstýra ? Er Vísir að „banna ákveðnar skoðanir“ eða bara að viðhalda ákveðnum standard – reka mannúðlega ritstjórnarstefnu, standa vörð um lýðræðisþjóðfélagið? *** Þetta er málið þegar rætt er um hluti einsog hvort Milo Yiannopolous megi tala á bandarískum kampus. Fólkið sem mótmælir mótmælir því ekki að hann megi segja það sem hann vill – fólk segir miklu verri hluti úti um allt. Það mótmælir því að honum sé veittur aðgangur að plattformi sem því þykir vænt um – það mótmælir því að standardinn sé lækkaður. Svona einsog fólkið sem segir upp Morgunblaðinu af því að Davíð fær að blogga yfir ritstjórnargreinarnar. Nema hvað það er auðveldara að segja upp mogganum en að skipta um háskóla. *** Eða hvort nasistatímaritið Nya Tider fái að vera með á bókamessunni í Gautaborg. Eða hvort nasistasamtökin Norræna mótstöðuhreyfingin (SIC! – svona þýddu íslenskir meðlimir hreyfingarinnar nafnið á íslensku, enda kunna þeir ekki íslensku) megi marsera í gegnum miðbæinn í Gautaborg á sama tíma – þeir kalla það „stærstu göngu þjóðernissósíalista á norðurlöndum frá seinni heimsstyrjöld“. *** Þegar rasistaáróður á borð við kröfugöngur nasista eða aðgang þeirra að fjölmiðlum er ræddur er hann yfirleitt ræddur  út frá heimamönnum – eða út frá hvítu fólki. Spurt er: Er sennilegt að þessi grein hérna á Vísi geri fleira hvítt fólk að rasistum? Þetta er í sjálfu sér góð og gild spurning en ég er ekki viss um að svarið sé alltaf já – kannski oftar ekki. En það verður líka að spyrja hvaða áhrif það hafi á  hina – hvaða áhrif það hafi á hörundsdökkt fólk á öllum aldri að það verði fullkomlega eðlilegt að dagblöðin spyrji hvort þau séu verð lífs, trúar eða vegabréfs. Og ég held að þau áhrif séu ívið verri – ég ímynda mér a.m.k. að ég tæki því afar, afar illa ef svo væri rætt reglubundið um mig eða börnin mín, systkini og foreldra. *** Á lögreglan að banna svonalagað? Eða réttara sagt – á hún að sleppa því að leyfa svonalagað – til dæmis gönguna? Því enginn gengur án leyfis frá lögreglunni. Það er óhugsandi að ganga einsog þessi í Gautaborg í september fari fram með friði og spekt – og eiginlega óhugnanlegri tilhugsun að hún geri það en að allt fari í bál og brand.  Of mörgu fólki stendur of mikil ógn af „stefnunni“. Ég vona að ég lifi ekki að sjá þann dag þegar ekki verða átök um kröfugöngu hundruð ef ekki þúsunda yfirlýstra þjóðernissósíalista í einni af helstu borgum norðurlanda. Þá hefur eitthvað mikið farið úrskeiðis. *** Og ef gangan fer ekki fram með friði og spekt er þá lögreglan að veita ófriðnum samþykki sitt? Með því að veita nasistum gönguleyfi lofar hún að tryggja öryggi þeirra. Og verður þannig peð í höndum ókræsilegustu „stjórnmálamanna“ samtímans.

Untitled

Ef fer sem horfir verð ég ekki búinn að taka upp úr töskunum fyrren seint næsta vor. Mikið rosalega sem maður getur dröslast um með af drasli. Og þvílíkt magn af farangri sem okkur tekst alltaf að troða í þennan oggulitla bíl sem við eigum. *** Svo kom líka meira dót. Pantaði græjur á heimilið á dögunum og þær voru úti á pósthúsi. Byrjaði á að renna Appetite í gegn og nú er ég að hlusta á Callas syngja Verdi. Það eru pínu skitsó skipti en mjög gott. *** Ég verkaði líka wokpönnuna sem ég keypti í San Francisco og klippti til botnhringinn svo hann passi á gasið hjá mér. Þetta er svakalegur gripur. Kostaði 20 dollara. Í kvöld verða núðlur! *** Ég er annars einsog í þoku allur. Svaf bærilega í nótt en styttra en ég hefði þurft en þó a.m.k. tveimur tímum lengur en Nadja sem þurfti að mæta í vinnu klukkan 8. Aino heimtaði að fara beint á leikskólann, sem var auðsótt, og Aram hvarf út með Hálfdáni Ingólfi og ég reikna varla með að sjá hann aftur fyrren ég fer og leita hann uppi.

Untitled

Ég er hafður fyrir rangri sök á víðlesnu dönsku bloggi (sem er skrifað af nýbornum auðnuleysingja). Þar segir að ég hafi eitthvað á móti afþreyingarbókmenntum. Það er af og frá. Ég er róttækt mótfallinn vondum bókum og markaðsafstöðu til gæða bókmennta. Bókabransinn skítur í deigið þegar hann gefur út og dreifir inn á annað hvert heimili ömurlegum bókmenntum undir fölsku yfirskini – það er bara þannig. Það á jafnt við um reyfara og ástarsögur og hámódernískt listlíki. Vondar bækur hafa svo þeim mun verri áhrif á heiminn, vellíðan hans og menntun, eftir því sem þær lenda á fleiri heimilum og ber fyrir fleiri augnkúlur. *** Við komumst heim. Ég svaf ekkert í vélinni frá Newark til Stokkhólms einsog til stóð – fékk heiftarlega fótaóeirð og gat varla setið megnið af fluginu. Sennilega hefur antihistamín þessi áhrif á mig. Ég keypti einhverjar svefntöflur af því tagi fyrir flugið – og fékk sömu áhrif síðasta haust þegar ég tók ofnæmislyf af svipaðri tegund. Vond tímasetning. En ég lagðist á bekk í 7-Eleven og svaf aðeins meðan við biðum eftir að krökkunum yrði komið á Arlanda. Komin til Íslands keyrðum við beint heim. Ferðalagið – fyrir okkur Nödju – tók nákvæmlega 36 klukkustundir, upp á mínútuna. Lögðum af stað 4.20 að nóttu í San Francisco og komum til Ísafjarðar 23.20 að kveldi daginn eftir – sem er þá 16.20 í SF. *** Bona notte.

Untitled

Dagur fimm og sex. Samt vorum við eiginlega í viku. Sennilega taldi ég ekki með fyrsta daginn af því við komum seint. *** Á fimmtudagsmorgun tókum við Hop-on Hop-off rútuna yfir Golden Gate brúna og gengum þaðan nokkra kílómetra meðfram hraðbrautinni til Sausalito. Þar fengum við einhverja allra bestu hamborgara sem við höfum smakkað og ég hlóð niður Uber appinu – pantaði bíl sem fór með okkur í Muir Woods National Park. Við röltum um í þjóðgarðinum í nokkra klukkutíma og dáðumst að trjám, þefuðum út í loftið og reyndum að ímynda okkur hvaða lyktir þetta væru – ein var sæt og berjalík og var rædd í þaula. Við gengum ansi langt og mikið upp í mót. En eftir viku á röltinu í SF erum við að verða ansi vön því að ganga upp í mót. *** Það er ekki hægt að taka Uber frá Muir Woods, því það er ekkert símasamband, og því neyddumst við til að taka leigubíl sem var á svæðinu. Það var nokkuð dýrara, já og svo fór hann með okkur lengra. Eiginlega var það alveg fáránlega dýrt. Við áttum miða í góð sæti á Phillies vs. Giants á AT&T leikvanginum og vildum ekki missa af honum svo við létum okkur hafa það.  Ég þarf bara að skrifa þjónustufulltrúanum mínum og fá hann til að skipta upp næsta visareikningi. *** Fyrstu þrjú korterin átum við pylsur og reyndum að geta okkur til um reglurnar og rifja upp það sem við vissum úr Bull Durham, Major League og hvað hún nú heitir aftur myndin með Geenu Davis og Madonnu. A league of their own. There’s no crying in baseball, sagði maðurinn á næsta bekk við okkur – og vitnaði í Tom Hanks. *** Þótt maður hafi aldrei séð hafnaboltaleik veit maður nú ansi margt. En að lokum byrjaði sessunautur Nödju að útskýra fyrir okkur það sem við ekki skildum – ekki síst hvernig stigataflan virkar, hvað allar tölurnar þýða, en líka alls kyns smáatriði í reglunum. Við spjölluðum svo við hann – Randy Weiss – það sem eftir lifði leiks. Hann er tæplega sextugur fiðluleikari, samkynhneigður gyðingur og hafnaboltaáhugamaður. Hann fór með okkur á rölt um völlinn og sýndi okkur stórkostlega útsýnisstaði – bæði yfir völllinn og borgina – og hélt viðstöðulausan, fræðandi og skemmtilegan fyrirlestur um íþróttina og arkítektúrinn. Hann var alger guðsgjöf, þessi maður, og er. Þegar leiknum lauk (með sigri okkar manna í Giants) ákváðum við að hittast aftur í morgunverð í The Mission. *** Sjálf fórum við á barinn við hliðina á hótelinu – frekar sjabbí bar með enskt væb, einhvern veginn furðulegt að sjá þannig bar hálftóman og reyklausan en í SF fer fólk bara á hreina og fallega hanastélsbari þar sem tónlistin er í botni (ég er ekki (bara) gamall; ég hef aldrei þolað bari þar sem ekki er hægt að tala saman – ég drekk til að tala og hlusta). Og drukkum nokkur hanastél áður en við héldum í háttinn. *** Daginn eftir mæltum við okkur mót við Randy á The Thorough Bread Bakery – ég fékk með pulled pork samloku sem á ekkert skylt við sykursullið sem maður kaupir á norðurlöndunum. Almennt borðar fólk í SF frekar hollan mat sýnist mér. Í einni 7-Eleven búð sem við heimsóttum voru tvær vesælar tveggja lítra kókflöskur úti í horni, en heill ísskápur af náttúrulega gerjuðu kombucha (ég fékk mér rauðbeðukombucha). *** Hófst svo mikill göngutúr um The Mission – sáum Dolores Park, veggjamálverkin, ræddum við veggjamálara, skoðuðum sundhöll, átum kínverskt á Mission Chinese, skoðuðum fallegustu húsin, fórum inn í Women’s Building (og hálfa leiðina inn á NA-fund), átum eftirrétt á Bi-Rite Ice Cream og ræddum allt milli himins og jarðar. Þegar leiðir skildi um eftirmiðdaginn fórum við Nadja í góða hirði þeirra SF-búa, litum í Sci-Fi bókabúð, hefðbundna bókabúð (ég keypti Look eftir Solmaz Sharif), drukkum kaffi og röltum aftur upp á hótel. Þá pökkuðum við og fórum út að borða á mjög góðan víetnamskan veitingastað, litum við á Antique Vibrator Museum (sem reyndist nú bara ofurvenjuleg kynlífstækjaverslun) og vorum farin að sofa upp úr miðnætti. *** Nú er ég í flugvél. Við vöknuðum rétt rúmlega fjögur að nóttu og flugum frá SF til Newark klukkan 7. Ég horfði á I, Daniel Blake áðan – er enn að melta, en sennilega er hún fyrst og fremst sönn og maður hefur gott af því að sjá hana. Það er hægt að læra fleira af bíómyndum en hafnaboltareglur. *** Við fengum ekki að sitja saman í vélinni – en fyrir tilviljun horfði Nadja á sömu mynd. Sennilega erum við orðin svona samstillt eftir ferðalagið. Það var a.m.k. ekki vegna þess að úrvalið væri takmarkað. ***
Við sitjum í Newark í tvo tíma og fljúgum svo til Stokkhólms. Þar lendum við klukkan sjö að morgni. Upp úr tíu kemur tengdapabbi með krakkana, við umpökkum á Arlanda og fljúgum til Íslands klukkan 14. Þegar við lendum í Keflavík tökum við rútuna til Reykjavíkur – bíllinn okkar hefur staðið á BSÍ í tvo mánuði – og keyrum vestur. Ég átta mig ekki á því hvað þetta er langt ferðalag, en sennilega hartnær fjörutíu tímar. Og það verður gott að koma heim. Og gott að sofa. *** PS. Póstað í Newark: Þvílíkt ömurðarkaos sem þessi flugvöllur er, fari hann norður og niður og snúi aldrei aftur.

Untitled

Það er að komast hefð á að það fyrsta sem ég geri þegar ég opna augun sé að blogga. Einsog ég rísi beint upp úr draumunum og inn á internetið. Ég veit ekki hvort það boðar gott. *** Í gær röltum við um Golden Gate Park og Presidio Park og fórum niður á Baker Beach. Þar var nokkuð um nakta karlmenn að spóka sig. Merkileg manngerð, spókandi karlmaðurinn. Við enda strandarinnar var dálítið bjarg þar sem stóð unglingsstúlka, kannski fjórtán ára,  í sjávarmálinu ásamt fullorðnum karlmanni – pabba eða jafnvel afa – og tók hann af henni ljósmyndir. Þegar við komum að bjarginu birtist skyndilega handan þess svona líka flenninakinn maður um þrítugt með lim niður á hné (mjög emaskúlerandi!) eiginlega alveg í fanginu á okkur. *** Þetta var versti staðurinn til þess að fara í hafið – of mikið af grjóti. Stúlkan sem lét taka af sér myndir stóð þannig að hún hafði ágætis útsýni yfir þann nakta ef hún sneri höfðinu örlítið. Það voru að vísu, einsog ég segi, fleiri naktir menn á ströndinni en þeir voru nær fimmtugu og sextugu. Pabbinn eða afinn stóð hins vegar og sneri sér þannig að hann sá enga nekt. Rétt áður en við Nadja héldum aftur til baka sá ég stúlkuna snúa höfðinu og beinlínis stara – ekki framan í hann – og taka slík andköf að ég hélt hún myndi falla í yfirlið. *** Kyrrahafið er annars fallegt og öldurnar voru ekki síður tignarleg en önnur náttúra strandarinnar. *** Við tókum svolítið strætó í gær. Sem var áhugaverð reynsla. Í einum þeirra vorum við ekki með rétta skiptimynt og var sagt að stökkva bara inn og sleppa því að borga, þetta væri ekki svo nojið. Sem er svolítið sænskt – en ég sé síður fyrir mér að gerist oft í Reykjavík. Þótt það hafi kannski breyst. Í öðrum var vélin sem tók við peningunum eitthvað ringluð – búið að setja í hana einhverja peninga þegar við byrjuðum að hlaða – og það er alveg óvíst hvað við borguðum mikið. Ekkert mál, sagði bílstjórinn. *** Það er líka svolítið af fullu fólki í strætó. Sem er finnskt, nema þeir drekka líka í strætónum hérna. Í gær var einn með risastóra viskíflösku að drekka af stút. Sennilega tveggja lítra. Annar, sem sat á móti okkur, raðaði í sig pillum úr pilluboxum sem hann hafði greinilega keypt í einhverri verslun. Þegar hann stóð á fætur var hann mjög valtur – en einhvern veginn þannig að ég ímyndaði mér að hann væri kannski ekki síst bara rosalega þreyttur. Í strætónum voru líka tveir strákar sem lyktuðu einsog sígarettur – svona maríneraðir einsog fólk sem hefur verið í partíi í litlu herbergi í marga daga, áður en allir hættu að reykja inni. Það væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að hér reykja svo ótrúlega fáir. *** Já, eða uhumm. Hér er auðvitað kannabislykt úti um allt. Bókstaflega. Allsstaðar. En maríjúanað er bara fyrir heimamenn, vel að merkja – það þarf maríjúanakort og maður kaupir það í apótekum. Manni skilst að opni eiturlyfjamarkaðurinn með maríjúana hafi meira og minna hrunið fyrir vikið. Við erum sem sagt alveg óskökk, þráðbein. En ég hef haft fyrir sið að fá mér að minnsta kosti einn kokteil á dag og ég keypti mér kokteilbók í de Young safninu í gær (fórum á sýningu um hippatímabilið – mikið af fötum og hönnun; í allri pólitíkinni var lúkkið auðvitað ekki ómikilvægast og ríkti alls ekki sama frjálsræði í þeim efnum og í mörgum öðrum, hippisminn var einkennisbúningur). *** Eitt rukka San Franciscobúar aldrei fyrir. Almenningsklósett. Hér virðist – þrátt fyrir mikinn túrisma, frjálsræði, óðakapítalisma o.s.frv. – engum hafa dottið í hug að það væri sniðugt að rukka einsog fyrir uppáhellt kaffi fyrir að verða mál. (Ég er svarinn óvinur borgunarklósetta og hef verið frá því ég kynntist þeirri ömurlegu þróun fyrst í Svíþjóð). *** Um kvöldið fórum við á Cage aux Folles í San Francisco Playhouse. Ég hafði haft uppi stórar yfirlýsingar um að ég vissi ekkert um þessa sýningu. Og svo var þetta auðvitað bara Birdcage, sem ég sá fyrir þúsund árum í bíó – með Robin Williams og Nathan Lane. Uppsetningin var fín og allt mjög skemmtilegt – mórallinn góður og stemningin stuð – en það kemur mér eiginlega á óvart að verkið skuli vera svona mikill klassíker. Plottið er lapþunnt, brandararnir hafa elst mjög misvel og tónlistin – ég ætlaði að segja kits, en sennilega er það bara meiningin, en verst hvað hún er óeftirminnilegt kits. Að þessu sögðu skemmti ég mér samt stórvel. *** Eftir leikhúsið fórum við á sushinæturklúbb í kjallara í nágrenninu. Teknó á fullu blasti, sushikokkar bakvið barborð með takta einsog Tom Cruise í Cocktail, löng biðröð inn á troðinn stað. *** Og svo heim að sofa. *** Að heiman berast þær fréttir að bóksala hafi hrunið um 30%. Eða tekjur af bóksölu, réttara sagt. Ég þarf að rýna aðeins í þær tölur. En kemur svo sem ekki á óvart. Útgefendur leggja meira og meira í færri og ómerkilegri titla – alvöru lestri er lítið sinnt, alvöru bókmenntir eru bara gefnar út til að geta merkt við í kladdann að svo hafi verið gert. Að prenta 50 gráa skugga og þannig rusl í bílförmum og selja á hæpinu einu saman er að pissa í skóinn sinn – þeir sem lesa sjaldan (og þeir sem kaupa bækur af og til eru stór hluti bókakaupenda og lesenda) eru líklegri til að detta um slíka bók en eitthvað almennilegt, og þeir sem detta um slíka bók lesa ekki aðra bók það árið. Eða það næsta. Því ef þetta er það sem útgefendur telja til flaggskipa sinna – hversu mikið getur þá verið varið í hratið?

Untitled

Ég ætla að deila þessari færslu á Facebook á eftir með orðunum „dagur 3 í San Francisco“ en það meikar samt eiginlega ekkert sens. Í fyrsta lagi kláraði ég aldrei að skrifa um dag 2 – sem ég deildi með orðunum „dagur 2 í San Francisco“ – og lauk á 150 ára gömlu blúsknæpunni The Saloon á landamærum ítalska hverfisins og kínahverfisins – og í öðru lagi er dagur 3 nú þegar liðinn, dagur 4 er hafinn og ég er meira að segja vaknaður (Nadja er ennþá sofandi samt). *** En svona er þetta bara samt. *** Svo sagði ég eiginlega minnst frá því sem við gerðum á degi 2 líka. Við röltum mikið. Átum lúxusmorgunverð á Sweet Maple kaffihúsinu. Skoðuðum Painted Ladies húsin í Alamogarði. Nadja fór í klippingu á Haight Street og við röltum niður að horni Haight og Ashbury – fræga hippahorninu – litum í bókabúð anarkista og klifruðum upp á hæðina í Buena Vista garðinum. *** Við hófum dag 3 á hótelmorgunverði, sennilega í síðasta sinn. Í þessari borg er fáránlega gott brauð og góður matur, en morgunverðarhlaðborðið á Hotel Beresford er fullkomin travestía. Bara seríos og hálfbakað bragðlaust verksmiðjusætabrauð. Það dugar alveg ef maður þarf bara að borða sig saddann, en það er næringarsnautt og maturinn utan við hótelið er svo góður að mann langar eiginlega ekki að vera saddur þegar maður heldur út í daginn. *** Við höfðum hugsað okkur að hjóla yfir Golden Gate brúna til Sausalito. En veðrið var leiðinlegt – kalt og rok fram eftir degi – svo við héngum bara í bryggjuhverfinu, átum súpu í brauði (sem var reyndar líka vonbrigði – skelfisklaus bechamelsósa í reyndar frekar góðu brauði) og skoðuðum götulistamenn og spjölluðum. *** Það eina sem allir sögðu þegar við spurðum hvað við ættum að gera í SF var að ef við ætluðum til Alcatraz þyrftum við að bóka með miklum fyrirvara. Við áttum því miða með ferjunni og fórum og heimsóttum fangelsið. Það var vel þess virði. Maður gengur í gegn með eins konar poddkast í eyrunum sem leiðir mann á milli klefa og hingað og þangað og segir sögur – með viðtölum, vel að merkja. Alveg burtséð frá öllu sem hefur gerst þarna – flóttatilraunum og slíku – er áhugavert að skoða gamalt bandarískt öryggisfangelsi. Og auðvitað að mörgu leyti kunnuglegt úr bíómyndunum. *** Við fengum að vita að árið 1969 hefði hópur indíána hertekið eyjuna á þeirri forsendu að samkvæmt lagabálkum ætti að skila ónýttu og yfirgefnu landi í eigu alríkisins til innfæddra. Þeir héldu eyjunni í rúmlega eitt og hálft ár og þar voru þegar mest lét 400 manns. Við fengum ekki að vita mikið meira – það var ekkert safn um þetta – en hér og hvar var graffiti og merkingar sem báru þess vitni. Mér finnst þetta sjálfum a.m.k. jafn áhugavert og sumar flóttatilraunirnar og mætti gera umtalsvert meira með það. *** Næst fórum við og settumst niður á ítölskum veitingastað til að fá okkur hvort sinn Manhattan kokteilinn (ég reyndi reyndar að panta bæði Caipirinha og Mojito – en Cachacaflaskan stóð tóm á borðinu og það var engin fersk mynta til). Þar hittum vð barþjón sem talaði skælbrosandi með þykkum ítölskum hreim. Þegar við spurðum hvort allir sem ynnu á veitingastaðnum væru ítalir sagði hann að já, allir nema hann, væru ítalir, hann væri kúrdi og héti Shabith. Nadja sjarmeraði hann þá með því að vita eitt og annað um kúrdistan, hafa komið til heimabæjar hans og geta sagt nokkrar setningar á kúrdísku. Já og að sonur okkar héti Aram (sem er mjög algengt nafn meðal kúrda). Svo ræddum við Erdogan og Tyrkland – sem hann líkti við Trump – og hann gaf okkur ókeypis bruschettur (eftir að við höfnuðum boði um skot – Nödju fannst Manhattanin alveg nógu sterkur – og Tiramisu, þar sem við áttum enn eftir að borða kvöldmat). Þegar við fórum kom hann fram fyrir barborðið og knúsaði okkur í kveðjuskyni. Við förum vonandi aftur síðar og borðum þarna. *** Við átum kvöldverð á eþíópískum veitingastað. Maturinn var mjög góður. En það var augljóst að San Francisco búar hafa annað hvort ekki enn kveikt á eþíópískum mat – sem er mjög hipp í norður Evrópu um þessar mundir – eða eru hættir að fíla hann, því veitingastaðurinn – sem er hæst metni eþíópíski veitingastaðurinn á Yelp – var svo til tómur. En maturinn var fullkominn og við átum okkur til óbóta. *** Á veitingastaðnum var líka sjónvarp sem sýndi Trump. Beint ofan í andlitinu á mér allan tímann. Trump að verja nýnasista í Charlottesville. Maður verður sennilega víðar meira var við stuðningsmenn Trumps en hér – ég hef ekki séð nema einn mann í Infowarsbol  – liberty or death (og fékk sjálfur afslátt í City Lights fyrir að vera í antifa-bol). *** En þetta er merkileg lógík. Að draga fram að antifaliðið hafi ekki verið til friðar og þar með sambærilegt við nasista sem drepa fólk. Einsog það hafi verið að biðja um það. Í sjálfu sér mætti nefna að fólkið sem vann í tvíburaturnunum hafi flest verið að störfum fyrir alþjóðakapítalismann og orsakað með því óhemju ofbeldi – að það hafi ekki verið saklaust. En það gerir sér samt flest fólk grein fyrir því að það er ósmekklegur samanburður – og raunar ósambærilegt. En það er staðan sem Trump er að reyna að verja. Fólkið sem var að biðja um að láta drepa sig var ekki með leyfi til að mótmæla, það hafði í frammi ógnandi hegðun við saklausa nýnasista (!) sem voru bara að reyna að mótmæla friðsamlega (!). Með leyfi. *** Mér sýnist annars að lögreglan í Gautaborg sé búinn að veita norrænum nasistum leyfi til að marsera á bókamessuhelginni í haust. „Stærsta ganga þjóðernissósíalista í Svíþjóð frá seinni heimsstyrjöld“ segja aðstandendur. Þar verður sennilega allt smekkfullt líka af antifaliði – Gautaborg er þannig borg. *** Við erum enn fullnálægt norður-evrópskum tíma til þess að vera til mikils gagns á kvöldin og vorum komin í rúmið klukkan tíu. Nú hefst dagur 4.

Untitled

Samtal í bókabúð anarkista í Haight-Ashbury. Stúlka og drengur eru bakvið afgreiðsluborð, hann stendur en hún situr við fartölvu (macbook). Búðin er full af kúnnum. Stúlka (yfir kúnnahópinn): Gott fólk. Það lokar eftir tíu mínútur, bara svo þið vitið. Kúnni: Æi – það var leitt. Er lokað í hádeginu bara eða opnið þið aftur? Stúlka: Því miður. Ég þarf að fara til læknis og það er enginn til að leysa mig af í dag. [Augnabliki síðar – á meðan kúnnarnir týnast út] Stúlka (starir á tölvuskjá; við dreng): Ok, heyrðu, bíddu, ég veit ekki, kannski er betra að fara í Costco á morgun? Drengur (lítur yfir öxlina á henni): Æi, vá. Ha? Eigum við ekki að fara í dag? Stúlka: Æi, djö. Ég veit það ekki. Ég bara. Þúst. Veit . Það . Ekki . [Stutt þögn; vonbrigðasvipur]. Mig langar ógeðslega. En ég ætti eiginlega að tala við pabba fyrst. Hann er með executive-kort og getur bara látið mig fá kort ef hann vill og þá þarf ég ekki að borga. Drengur: Æi, vá, já ókei. Geggjað. Ókeypis. Ókeypis? Stúlka: Já, bara aukakort, eða svoleiðis. Mig langar ógeðslega að fara í dag samt. [Stutt þögn] Við förum bara á morgun, ókei? Drengur: Já, ok, ef það er ókeypis. Ókeypis. Við gerum það. Stúlka: Já, við gerum það. Frábært. Ókeypis. Drengur: Frábært. Ókeypis. Gerum það. Gerum ókeypis.

Untitled

Byrjuðum daginn á að stökkva upp í hop-on hop-off rútu og krúsa í gegnum kínahverfið, ítalska hverfið og upp í bryggjuhverfið, þar sem við fórum frá borði og röltum út á höfn 39 – litum yfir hafið á Alcatraz, virtum fyrir okkur sæljónamergð og keyptum okkur ís. Nadja eyddi talsverðum tíma í vísindaverslun við Exploratorium og ég fylgdist með mannlífinu og hékk í símanum. Næst fórum við í City Lights og keyptum bækur fyrir morðfé – afgreiðslukonan gaf okkur póstkort og barmmerki í kaupbæti og hrósaði anti-fa bolnum mínum. Hádegisverður á House of Nanking og svo göngutúr í gegnum kínahverfið – ég keypti mér íhvolfa wokpönnu (þ.e.a.s. sem er ekki með neinum flötum botni) og hring til að geta sett hana á gashelluna heima. *** Ég keypti History eftir Elsu Morante (sem ég er hálfnaður með í kindlinum en vil eiga). Valin ljóð Majakovskís á ensku. Lunch Poems í fallegu City Lights broti (á hana bara í heildarsafninu). I remember eftir Joe Brainard. Transgender Voices. Valin ljóð Ko Un. Nadja keypti bækur eftir Levinas og Kristevu auk bókar sem heitir Green is the New Red og fjallar um að græningjar séu nýja rauða ógnin. *** Komin heim á hótel ákváðum við að kíkja í bíó. Fórum í Alamobíóið á Mission Street og sáum Detroit – nýjustu mynd Kathryn Bigelow. Þetta er gamalt og fallegt bíóhús og þarna er þjónað til borðs inni í bíósalnum. Við keyptum okkur hvort sinn kokteilinn, kaffi og poppkorn. *** Myndin var að mörgu leyti góð. Þetta er sögulegt, auðvitað, og mikið djöfull sem kynþáttasaga þessa lands er skelfileg. En ég spurði mig líka – einsog ég spyr mig oft gagnvart listaverkum af þessu tagi – til hvers ég ætlaðist eiginlega af því. Hvort því væri bara ætlað að sannfæra mig um allt sem ég veit þegar. Kannski er þetta bara til að þétta raðirnar. Ég sé ekki fyrir mér að Trump-repúblikanar eða rasistar hrúgist inn – eða láti svona nokkuð sannfæra sig um eitt eða annað. En sennilega er gott að hlutirnir séu áréttaðir. *** Það var líka truflandi – einsog Nadja nefndi í lok myndar – að við vorum öll hvít þarna inni. Í lúxusbíói. Og þjáða fólkið á skjánum var svart. Ein aðalsöguhetjan er tónlistarmaður sem hættir að syngja doo-wop fyrir hvítt fólk eftir að hafa verið barinn og píndur af hvítum löggum. Og tagglínan hans í lok myndar er: „I don’t want to make white people dance“. Eða eitthvað álíka. Og það var erfitt að verjast tilhugsuninni um að það hefði einmitt verið það sem við vorum að gera. Hann að syngja og við að dansa. *** Hún virðist mestmegnis hafa fengið slæma dóma. Ég gúglaði. Í einhverjum tilvikum er það reyndar mikið til á mórölskum forsendum. Að það eigi ekki segja þessa sögu „As I watched this protracted scene of captivity, terror, torture, and murder in the Algiers Motel, I wondered: How could they film this? How could a director tell an actor to administer these brutal blows, not just once but repeatedly? How could a director instruct another actor to grimace and groan, to collapse under the force of the blows? […] The meticulous dramatization of events intended to shock strikes me as the moral equivalent of pornography.“ skrifar Richard Brody í The New Yorker. Eða að hvít kona eigi ekki að segja þessa sögu. *** Og þetta er sannarlega vandræðalegt allt saman. En kannski aðallega af því að Bigelow kemst ekki út úr klisjunum – þorir því hreinlega ekki. Myndina skortir allt narratíft brútalítet. Sennilega vill hún bara of vel.

Untitled

Við hjónin erum þotuþreytt í San Francisco eftir 11 tíma flug frá Frankfurt. Byrjuðum á að fá okkur lúr og ætlum núna út að leita að amerískum diner. *** San Francisco er ekki jafn kunnugleg og ég hélt hún yrði. Ekki einsog að koma til New York sem er einsog maður hafi alist upp í henni þótt maður hafi aldrei borið hana augum áður. *** Hér er þoka. Mér skilst það sé frekar algengt á þessum árstíma. Vonandi sjáum við samt eitthvað til sólar áður en við förum heim.