id““:““6d99l““

Sagan Nýhils – tólfta brot brotabrots brotabrotabrots

Við sóttum bækurnar á leiðinni út úr bænum. 2004 eftir Hauk Má og Nihil Obstat, sem ég hafði skrifað. Sigurjón í Letri prentaði og fræddi okkur um allar þær sögufrægu bækur sem hann hafði prentað í gegnum tíðina – fyrir Dag Sigurðarson og fleiri. Sennilega fannst okkur við vera einmitt á réttum stað, í réttri rómantík. En fyrst var þessi ljósmynd tekin – þetta er í tröppunum þarna hjá Grænum kosti. Eða þar sem Grænn kostur var að minnsta kosti einhvern tíma, hinumegin við götuna frá Mokka (þar hittum við ljósmyndarann). Hún er kölluð Bítlamyndin, þótt við séum miklu fleiri en Bítlarnir – kannski Lynyrd Skynyrd væri nær lagi (þeir voru sjö). En hver vill líkja sér við þá? Frá vinstri, Ófeigur Sigurðsson, Steinar Bragi, Haukur Ingvarsson, ég, Bjarni Klemenz, Grímur Hákonarson og Haukur Már Helgason. Myndin er tekin skömmu áður en Haukur Ingvars sagði sig úr félagsskapnum og stofnaði Gamlhil. Og þá voru bara sex (eftir á myndinni). Auk þeirra sem eru á myndinni fóru í þennan fyrir hluta túrsins þau Halldór Arnar Úlfarsson, Kristín Eiríksdóttir og Böðvar Yngvi Jakobsson (Böddi brútal – sennilega kom hann fram sem Oberdada von Brutal). Sennilega kom Haukur Ingvars reyndar alls ekki með á fyrsta legginn. Hann hefur bara komið á Mokka til að vera með á myndinni (en þar söfnuðum við líka saman í bílana). Ég man eftir að hafa opnað bókakassann minn á bensínstöð og farið yfir í næsta bíl til að gefa Hauki Má sitt eintak og benda honum á að hún væri tileinkuð honum. Einhvern veginn vorum við farnir að renna svo mikið saman í eitt eftir veruna í Berlín, að við mundum ekkert hver hafði hugsað hvað (enda höfðu flestar hugsanir sprottið upp í einhverjum samræðum). Þess vegna, sumsé, hann átti alveg jafn mikið í henni og ég, einhvern veginn. Ég man eftir að hafa stöðvað í Ríkinu í Selfossi og fyllt annan bílinn af áfengi. Eitthvað var áreiðanlega drukkið í báðum bílunum, en í mínum kláraðist allt og var búið þegar við komum á Seyðisfjörð um kvöldið, við talsvert uppnám í hinum bílnum, þar sem menn héldu að við værum að „spara okkur“. Ég man eftir að hafa gert hlé á ferð okkar við Jökulsárlón. Þar sem var ekki kjaftur – annað en maður á að venjast núna. Og þetta var vel að merkja í byrjun júlí. Ég hafði aldrei komið þangað áður og ég man ekki til þess að náttúra hafi orkað jafn sterkt á mig og í þetta skipti. Ekki að ég kunni að hafa um það orð, mér hafa alltaf þótt ægilegar lýsingar á náttúrunni vera hjárænulegt klám í besta falli og stækur þjóðernisrembingur í versta falli. Og nú skilst mér að þetta sé einhver minnst sjarmerandi staður landsins. Einhvers konar Niagara Falls Íslands. Mér hefur að vísu alltaf þótt Niagara Falls (bærinn) mjög sjarmerandi staður, en það er sérálit. Ég á enga mynd af Nýhil á Jökulsárlóni – þótt mig minni að þar hafi verið tekin hópmynd – en hér er ég í Niagara Falls, árið 2006. Auk okkar var í bílnum Gunnar Þorri Pétursson, þáverandi starfsmaður Víðsjár. Hann gerði nokkuð langt innslag um ferðina og ég man að í þættinum, sem ég á einhvers staðar á kassettu, segir hann frá símtali þar sem Danni – Daníel Björnsson, myndlistarmaður, Berlínarnýhilisti og þáverandi vert á Skaftfelli – hefði tilkynnt þeim (í hinum bílnum) að á Seyðisfirði biði okkar heitur maður. Allir voru uppveðraðir yfir heita manninum sem reyndist svo auðvitað vera heitur matur. Svona var nú símasambandið í mínu ungdæmi, börnin mín góð. Einsog gerðist gjarna á þessum tíma hafði ég ekkert sofið um nóttina. Ég vann sem næturvörður á Hótel Ísafirði og yfirleitt þegar ég fór eitthvað á fríhelgum, sem gerðist ósjaldan, fór ég beint af vaktinni suður. Þegar við komum á Seyðisfjörð var ég ekki bara rallandi fullur heldur með hvínandi höfuðverk af því sem ég hélt að væri koffínskortur. Ég vatt mér beint að Danna og spurði hversu margfaldan espresso hann gæti gert – mig minnir að það hafi verið tólffaldur, í það minnsta var glasið stórt og vökvinn þykkur einsog síróp. Ég sturtaði þessu í mig og höfuðverkurinn margfaldaðist á augabragði. Þá fékk ég parkódín forte og meira að drekka. Ég veit ekki alveg í hvaða veröld ég var þegar ég steig á svið um kvöldið – en í henni voru miklir þokubakkar. Ég man líka að Friðrika Benónýs var þarna og kom til mín um kvöldið til að þakka fyrir Heimsendapestir, sem hún hafði skrifað mjög fallega um í DV (minnir mig). Og það var pakkfullt og mikil stemning. Ég færði einhvern tíma upptökur af upplestrunum yfir á tölvuna og var með þær við höndina hér um daginn – en svo skipti ég um tölvu og ég hef sennilega asnast til að eyða þeim. Sem er leitt því þetta var afskaplega gott efni. Stína las úr Kjötbænum og söng línurnar úr Komu engin skip í dag. Offi var manna ölvaðastur og urraði stóran hluta úr Roða – maður skildi minnst nema að þetta fjallaði um „horguðinn“ – og svo byrjaði hann að ýta hljóðnemanum að hátalaranum til að búa til fídbakk, aftur og aftur, aftur og aftur, þar til einhver bar hann af sviðinu við talsverðar mótbárur. Ég las hraðar en ég var vanur (og var vanur að lesa hratt). Það eina sem ég á hérna á netinu – af því ég var búinn að hlaða því upp – var þetta: Oberdada von Brutal flytur Raxö ðiv aná (Öxar við ána) ásamt Halldóri Arnari Úlfarssyni, sem leikur á prótótýpu af dórófóni. Það heyrist reyndar eiginlega ekkert í dórófóninum á þessari upptöku. Hljóðfærinu lýsir Jónas Sen svo: Hvað er eiginlega dórófónn? Það er hljóðfæri sem er hugarfóstur Halldórs Úlfarssonar myndlistarmanns. Þaðan kemur nafnið; dórófónn er stytting á Halldórófónn. Þetta er eins konar selló, að hluta til rafknúið en með hljómbotni og strengjum. Hljómbotninn er furðulegur í laginu, manni dettur í hug plastselló sem einhver hefur ráðast á og lamið í klessu. Notagildi dórófónsins virðist vera mjög sveigjanlegt. Á tónleikum í Norðurljósum í Hörpu á tónlistarhátíðinni Tectonics var spilað á hann eins og selló. En svo voru líka framkölluð með honum undarleg hljóð sem minntu bæði á orgel og rafmagnsgítar. Við sváfum í tómu húsi við hliðina á Skaftfelli – en þar mátti held ég ekki vera með neitt partístand (ég hef sennilega verið of svartur, því ég man ekkert hvort það var eitthvað partístand, sennilega var samt partístand). Mig rámar í að hafa eitthvað verið að þvælast úti með Stínu og Offa (sem voru rétt að byrja að „stinga saman nefjum“ – ég man ekki hvort við uppnefndum þau svo þau heyrðu, en þau voru oft kölluð Sid & Nancy, af augljósum ástæðum). Hér er einhver tímalapsus. Við fórum austur á föstudegi – hugsanlega var upplesturinn þá á laugardegi. Því það var áreiðanlega sunnudagur þegar við fórum. Og þann dag vöknuðum við þunn og keyrðum á Höfn í Hornafirði. Þegar við höfðum keyrt austureftir var mikið talað um yfirstandandi humarhátíð í bænum – og lögð áhersla á að þetta væri fjölskylduhátíð, ekki einhver fylleríishátíð. Sem truflaði okkur lítið, enda vorum við þá þegar frekar volkuð. Að keyra inn á Höfn var samt eftirminnileg reynsla. Það var einsog það hefði fallið partíkjarnorkusprengja á bæjarfélagið. Úti um öll tún voru tómir bjórkassar, yfirgefin tjöld flaksandi í vindinum og hálfklæddir timbraðir hátíðargestir að leita að skónum sínum og/eða bíllyklunum, ringlaðir á grasflötum. Við vorum bókuð með upplestur í Byggðasafninu, sennilega um 17 leytið. Við Ófeigur brugðum okkur á veitingastað niðri í bæ. Þar pöntuðum við okkur hvor sinn bjórinn. Ég man eftir uppgjöfinni í augum afgreiðslukonunnar. Það var einsog hún vildi spyrja hvort þessu ætlaði aldrei að linna. Hvort þessir partísturluðu aðkomumenn gætu ekki bara drullað sér heim. Við Offi tókum bjórana okkar skömmustulegir og settumst út í horn til að spjalla og komum okkur síðan út hið snarasta. Þegar við komum síðan á Byggðasafnið kom í ljós að það hafði ekki upp á neinn samkomusal að bjóða – og samanstóð af mörgum litlum herbergjum. Við enduðum á að lesa upp á bakvið afgreiðslukassann – sem var inni í svona kassalaga diskvirki sem tók upp næstum allt plássið í herberginu. Það var rétt svo ein mannsbreidd utan um það – til að hægt væri að ganga í kringum það. Og þar var áheyrandinn. Sem var kannski tveir, ég man það ekki. En þetta var skásta herbergið og kom auðvitað ekki að sök, fyrst ekki mættu fleiri. Ég held að Bjarni Klemenz hafi verið sá Nýhilistinn sem var í bestu formi þennan daginn – og las að mig minnir einhvern brjálæðislegan texta um alter-egóið sitt, Deleríum Klemenz, og George W. Bush. Eftir upplesturinn var debaterað um hvort við ættum að dveljast í Höfn um nóttina, einsog var í boði, eða drífa okkur í bæinn og reyna að ná á Sirkus fyrir lokun. Síðari valkosturinn varð úr. Og rétt náðist – ég held við höfum náð einum bjór (og kannski svo ráfað í eftirpartí einhvers staðar, sem var sennilega tilgangurinn með innlitinu). Lauk þar fyrsta legg ljóðapartítúrsins 2003.

createdTimestamp““:““2024-05-19T11:58:23.708Z““

Ég hef alltof lítið náð að spila síðustu vikuna. Ég var eitthvað að möndla við að æfa tóneyrað – aðallega með því að pikka upp hljóma í lögum sem ég hlusta á og spila melódíur sem ég man án þess að hafa neitt til hliðsjónar. En svo var Nadja lasin fyrstu daga síðustu viku og ég svo strax í kjölfarið og gítarsmíðin tók yfir allan lausan tíma frá fimmtudegi (ásamt því reyndar sem ég smíðaði Zelda-sverð fyrir Aram, til notkunar á maskadaginn). Nú er ég að fara til Münster á miðvikudag og kem ekki aftur fyrren á mánudag svo það verður líklega lítið úr spileríi og smíðum. En ég ætti samt að reyna að læra a.m.k. eitt nýtt lag í kvöld eða á morgun. Var að spá í Jesus Left Chicago með ZZ Top. Það er mjög einfalt en ég kannski læri þá textann líka. Það er hægt að gera það gítarlaus í Münster. *** Hlynurinn kom með póstinum á miðvikudag. Ég reif mig upp úr flensunni til að líma hann saman svo ég kæmist með hann til Dodda í Fab Lab á fimmtudeginum – því það er bara opið á fimmtudögum og þriðjudögum. Alla jafna. Það var óþægilega mikil sveigja í spýtunni og við Doddi tókum hana yfir í trésmíðadeild til Þrastar til að spyrja ráða og hann mælti með því að við myndum pressa hana yfir nótt í til þess gerðri pressu. Doddi kom mér þá til bjargar með að hleypa mér inn á föstudeginum þótt það væri alls ekki opið. Við byrjuðum á að fræsa spýtuna niður í 6,5 mm þykkt og fræstum svo fyrir útlínunum.
Ég fór beint með spýtuna heim og sagaði í hana f-gatið og límdi hana fasta á búkinn. Ég vildi gera þetta hratt og örugglega áður en hún myndi sveigjast aftur til baka. Ég gerði líka einhverjar tilraunir með að festa bindingu í f-gatið en þær voru ekki sérlega uppörvandi og kannski sleppi ég bara bindingu þar. Þetta eru mjög skarpar beygjur og erfitt að fá plastið til að setjast almennilega að kantinum. Þegar ég fór að mæla fyrir staðsetningu á hljóðdósum og hálsvasa kom í ljós að sennilega hef ég gert dálitla skyssu. Hálsinn er í Gibson hlutföllum – 628 mm skali – en ég hafði verið að reikna fjarlægð vasans að brú útfrá Fender hlutföllum, sem er með 650 mm skala. Sem þýðir að í staðinn fyrir að brúin komi til með að vera 181 mm frá vasanum verður hún 170 mm frá vasanum – sirka – og færist því fram um heilan sentimetra. Ef ég er ekki eitthvað að rugla. Þetta gæti þýtt að ég þurfi að færa hljóðdósirnar nær hver annarri og skera aðeins í klórplötuna (þessi á myndinni er aukaplata – sú alvöru er í Reykjavík í prentun, það er líka verið að grafa í hálsplötuna). Svo það sé bærilegt pláss fyrir allt. Ég ætla samt ekki að fræsa fyrir hljóðdósum eða hálsi fyrren ég er kominn með hálsinn í hendurnar og get reiknað þetta allt nákvæmlega út. Ég var vel að merkja að fylla út tollskýrsluna fyrir hann og fæ hann vonandi á morgun. Ég fræsti samt fyrir hnappaholinu og tengdi það við innputholið. Það var bölvað moj. Ég var ekki með nógu langan bor og þurfti að koma báðum megin að þessu og bora nokkrum sinnum til að finna leiðina. Svo gerði ég smá trékítti úr gömlu sagi til að fylla í götin. En það er nú ekki sérlega fallegt – skiptir kannski litlu svona innan í, en ég hugsa að ég reyni nú samt aðeins að fixa það. Ég prófaði mig líka áfram með bæsið, bæði á hlyn og mahóní. Ég byrjaði á að bæsa svart á hlyninn og pússa það næstum alveg upp. Svo smá rauðsvarta blöndu sem ég pússaði líka upp, svo nokkur lög af rauðblárri búrgúndarblöndu. Ég setti smá af sömu blöndu á mahóníið til samanburðar, þótt ég sé ekki búinn að grain-fylla það. Þetta er vel að merkja allt afgangsefni (ég nota kannski þennan hlyn einhvern tíma en sný honum þá hinsegin). Mahóníið er ósnert þarna neðri hlutinn. Svarta bæsið dregur svona fram æðarnar í hlyninum – ofan á þetta fer svo tung-olía og bílabón. Næst fræsti ég rásina fyrir bindinguna með dremli og til þess gerðum bita og græju frá Stew Mac. Það var rosalegt moj að ná því sæmilegu án þess að skemma gítarinn. Þessi mynd er tekin áður en ég pússaði rásina með 60 gritta sandpappír. Það skánaði nú umtalsvert við það. Næst notaði ég tonnatak til þess að líma bindinguna fasta. Og hárþurrkuna sem ég gaf Nödju einu sinni til þess að hita og beygja bindinguna. Það var líka mikið þolinmæðisverk og ég er ekki alls kostar ánægður með hvernig til tókst – aðallega vegna þess að rásin var skemmd á a.m.k. einum stað. Þar er dálítið gap milli bindingar og búks sem ég þarf annað hvort að fylla með bindingu uppleystri í acetoni eða tréfylli. Einsog sjá má var drukkið í vinnunni í gær. Þetta er Biska – króatískur snaps úr mistilteini. Mjög gott. Ég keypti á sínum tíma líka þykkari bindingu ef ég skildi klúðra – auðveldara að stækka rásina en minnka hana. Og nýtti mér það í gær þótt það væri reyndar ekki vegna neins klúðurs. Ég ákvað bara að fela alveg skilin á hlyninum og mahóníinu með bindingunni – meðal annars vegna þess óhjákvæmilega litamismunar sem verður eftir bæsingu. Svo veit ég auðvitað ekkert hvernig þetta lítur út undir öllu þessu teipi. Ég kem til með að þurfa að pússa þetta helling til. Ég gerði tilraunir með lím áður en ég valdi eitthvað „industrial grade“ tonnatak og þetta ætti nú að halda. En það er ómögulegt að segja hvort það séu mörg álíka göp undir teipinu fyrren ég er búinn að fjarlægja það og pússa svolítið. Það gerist í kvöld og á morgun kemur vonandi hálsinn og þá fræsi ég fyrir honum. *** Gítarleikari vikunnar er St. Vincent / Annie Clark. Ég átti rosa erfitt með að velja gott myndband – en fann svo þetta best off þar sem hún fer fullkomlega á kostum, og stundum hamförum. Það sakar heldur ekki að signatúr-gítarinn hennar frá Ernie Ball er ógeðslega fallegur – en hann er reyndar ekki í neinni af þessum klippum, hann er ekki nema svona 2-3 ára gamall, svo ég henti bara með einni mynd af honum í bónus. Jack White spilar líka stundum á svona.

id““:““5i5la““

Blow Up Your Video er ellefta hljóðversplata AC/DC og kemur í kjölfar 3,9 platna niðurlægingarskeiðs í sögu bandsins og sú síðasta áður en Guns N’ Roses endurreisa list gítarrokksins og færa hana í nýjar hæðir með frumraun sinni, Appetite for Destruction. *** Eftir því sem maður kynnist hljómsveit betur þeim mun betur sér maður mismuninn – þú veist, blús er ekki bara eitt lag, frekar en dauðarokk eða djass eða ópera, einsog mörgum finnst sem heyra bara ávæninginn annað veifið og finnst hann kunnuglegur. Ég hef verið manna fyrstur til þess að taka undir með Angus Young, sem játaði því að þeir hefðu nú eiginlega bara alltaf gefið út sömu plötuna. Það verður hins vegar minna og minna satt eftir því sem maður sökkvir sér ofan í þetta. *** Í fyrsta lagi er ég farinn að heyra Geordie áhrifin. Þessar diskórokklaglínur voru að vísu þarna á Bon-árunum líka (t.d. í Touch too much) en þær skerpast mikið með Brian – hann er einfaldlega miklu meira clean cut en Bon og skotnari í poppmelódíum. Hugsið ykkur You Shook Me All Night Long og Mistress for Christmas (af næstu plötu, Razors Edge) versus Highway to Hell eða Riff Raff. Hér er Nick of Time augljósa Geordie lagið. *** *** Í öðru lagi er ég farinn að taka eftir þróunum hjá Angusi. Hann fær dellur fyrir tilteknum trixum og fullkomnar þær á nokkrum árum og snýr svo að einhverju öðru. Ég hef áður nefnt þetta hvernig hann hálfvegis krosspikkar sóló riff (krosspikkar er auðvitað rangt, því hann fer oft ekkert á milli strengja – en hann er að stökkva milli áttunda á sama hátt), hvernig hann fer skyndilega að demp-plokka þriggja strengja hljóma neðarlega á hálsinum. Á þessu niðurlægingarskeiði á hann sínu bestu kafla þegar hann stillir allt gain svoleiðis í botn að gítarinn vælir við minnstu snertingu og svona hálfpartinn titrar svo yfir strengina – slengir fingrunum til og frá svo það koma flaututónar og alls kyns óhljóð ofan í sjálfar nóturnar. Tónninn verður einmitt lýsandi fyrir þetta grunnelement í konseptinu AC/DC – mann finnst einsog hann sé að leiða rafmagn úr gítarnum í hlustirnar á manni. *** Í þriðja lagi er ég farinn að taka miklu meira eftir því hver er að tromma. Hér spilar Simon Wright – einsog á síðustu tveimur – og hann er bara hálfvonlaus. Vantar allan kraft og attitúd í hann – Phil Rudd er vandræðafígúra, augljóslega, en hann er samt fantatrommari. Með sterka upphandleggsvöðva og kann að tromma fast. Það er mikill kostur í svona bandi. Simon Wright vantar bara allt úmf – hann meinar þetta ekki nógu hart. *** Í fjórða lagi eru þessar plötur bara svo misgóðar. Frá algerlega óeftirminnilegum klisjum yfir í sturlað og ógleymanlegt rokk. Og stutt á milli samt – samt er næstum einsog þetta sé allt sama lagið. Þetta er eilíft stríð við herslumuninn. *** Blow Up Your Video er ekki sérstök, þannig lagað. Ég var að hlusta á Highway to Hell á vínyl áður en ég setti hana aftur á í gegnum Spotify til að skrifa þetta og það er rosalega langt á milli þeirra í gæðum. Sándið í græjunum skiptir máli, en það er líka mixið, líka að Brian er ekki að standa sig, lagasmíðarnar eru upp og ofan (Malcolm er þarna á barmi þess að fara í meðferð) og svo er bara mid eighties og það var ekki góður tími fyrir þessa músík, var enginn að uppskera mikið á gítarekrunum. *** Brian er sterkari á þessari en síðustu þremur. Einsog hann sé að ná vopnum sínum aftur. Gítarinn er veikari en á köflum mjög fínn samt (þetta er náttúrulega alltaf sterkasta vopn sveitarinnar – þessir bræður eru dýrðlegir á sínum versta degi). *** Það er líka augljóst að þeir eru á uppleið. Það er búið að snúa skútunni við – og styttist auðvitað í Razors Edge. Auðvitað voru þeir löngu búnir að sanna sig – maður gefur ekki út plötur einsog Highway to Hell og Back in Black og gleymist neitt í bráð – en þetta var búið að vera ansi þunnt í nokkur ár og fer nú loks að þykkna. Lög einsog This Means War, That’s the Way I Wanna Rock and Roll og Meanstreak eru einfaldlega frábær lög og hefðu sómt sér vel á hvaða Acca Dacca plötu sem er – þótt þau hefðu kannski aldrei orðið singlar. *** #ACDC

createdTimestamp““:““2024-12-02T10:30:38.949Z““

Ég er að reyna að koma einhverju skipulagi á líf mitt aftur. Það er sosum ekki mikið að gerast akkúrat í augnablikinu – fyrir utan flutninga, sem eru reyndar flóknir – en ég þarf skyndilega að setja hluti aftur upp í dagatal svo ég tvíbóki mig áreiðanlega ekki í haust. Ég þarf líka að sjá út haustið af því ég er með bók. Nýja skáldsögu – ekki nema átján mánuðum eftir þá síðustu. Að vísu var hún tilbúin fyrir tveimur árum en þetta var nú frekar stutt meðganga (getur maður talað um meðgöngur án þess að eiga við meðgöngu barns – maður gengur allavega með skáldsögur, finnst mér, a.m.k. jafn mikið og maður gengur með meðgöngukaffi og áreiðanlega meira en maður gengur með meðgönguljóð). Mér finnst heillandi tilhugsun að ferðast eitthvað. Ég hef ekki komið upp í flugvél síðan í febrúar 2020. Þá fór ég til Jönköping, einsog í fyrradag – en nú fórum við bara keyrandi. Tókum nokkra daga í bústað við Hällingssjö og fórum svo til Jönköping á hótel og tókum næsta dag á Visingsö og í Gränna (þar sem polkagrísinn er upprunninn). Ég fékk fjögur skógarmítlabit – fæ ábyggilega TBE og dey. En svo hlakka ég líka til að vera heima og rækta ræturnar mínar í haust. Sinna húsinu, hitta vini mína og fjölskyldu, elda mat í eldhúsinu mínu, leika mér með gítarana mína. Og að vinna í nýrri bók sem ég hef verið að kortleggja síðustu vikur og verður ábyggilega frekar stór. Ég nenni eiginlega ekki að skrifa meira í hana hér því maður þarf nokkrar lítt truflaðar vikur til að komast á skrið – annars skrifar maður bara einhverja vitleysu sem maður endar á að henda (af því þegar maður er ekki að skrifa breytast hugmyndirnar og eru óþekkjanlegar þegar maður sest aftur niður – maður þarf svolítinn massa af texta til að hann haldi, sé fokheldur). En maður getur augljóslega ekki bæði verið heima og ferðast – eða einbeitt sér að öllu í einu. Mig langar líka að halda áfram í tónlistinni. Og gera súrdeig og súrsa grænmeti og halda matarboð og koma mér í form og það allt saman. *** Plata vikunnar er King of the Delta Blues Singers með Skip James. Það er til fræg samnefnd plata með lögum eftir Robert Johnson en þetta er sem sagt ekki hún, heldur Skip James plata sem inniheldur upptökur af lögum hans frá 1931. Skip tók þá upp nokkur lög og hugðist verða heimsfrægur – varð svo mjög hissa þegar það gerðist ekki og gaf tónlistina upp á bátinn, að miklu leyti. Um þrjátíu árum síðar datt hann svo inn á radar blúsáhugamanna sem sáu hann sem einhvers konar forvera Roberts Johnson – sem er einmitt annars álitinn ókrýndur kóngur deltablússöngvaranna – og má sannarlega til sanns vegar færa. Að minnsta kosti er hafið yfir allan vafa að Robert hefur átt eina eða tvær af þessum fáu 78 snúninga plötum Skips sem seldust við útgáfu. Þegar blúsnördin voru búin að finna Skip var honum auðvitað ruslað inn í stúdíó og látinn taka upp lög sín að nýju, í betri gæðum – en þá var gítarleikurinn ryðgaður og lögin hægari. Hins vegar er söngröddin á nýrri lögunum dýpri og sterkari – eða kannski eru það bara upptökugæðin. Ég fór annars nánar í ævi Skips á blúsblogginu fyrir rúmu ári – það má lesa hér . Ofsalegur maður. Lagið sem ég ætla að velja af þessari plötu er Devil Got My Woman.

createdTimestamp““:““2024-12-06T11:24:48.435Z““

Það er hellings umræða um bókmenntakrítík í sænskum miðlum í vikunni eftir að Linda Skugge – sem er sennilega þekktust á Íslandi sem einn höfunda Píkutorfunnar – birti gagnrýni um nýja bók eftir Kristinu Sandberg, margverðlaunaðan metsöluhöfund hinnar svonefndu Maj-trílógíu (sem hefur ekki komið út á íslensku – en er til á ótal öðrum málum). Bókin er sjálfsævisöguleg og fjallar um viðbrögð Kristinu sjálfrar við því að vera greind með krabbamein. Í sem stystu máli er dómur Lindu Skugge sá að bókin sé algert drasl – og hún fer ekki beinlínis fínt í það. Titillinn á gagnrýninni er „Verður ekki list bara fyrir að fjalla um krabbamein“. Skugge segir bókina þungaða af sensasjónalisma – og telur það afleiðingu af Storytel-væðingu forlagsins, Norstedt (sem Storytel á) – og bera þess merki að höfundur sé (illa) ritlistarmenntaður. Ekki kemur fram hvort Skugge er þar að gagnrýna rithöfundaskólann á Biskops-Arnö eða Litterär Gestaltning í Gautaborg, en Sandberg er með diplómu frá báðum. Skugge segir bókina ekki hafa neitt að segja. „Vilji hún skrifa um sína persónulegu einkahagi, sem eiga nákvæmlega ekkert erindi við okkur hin, ætti hún ekki í það minnsta að reyna að vera svolítið skemmtileg? Með smá heppni geta þá orðið úr því bókmenntir.“ Og bætir svo við: „Einsog t.d. þegar ég skrifa fljótlega um það þegar ég las nýlega upp pistil í útvarpið með WeVibe í píkunni á mér.“ Þá segir hún afstöðu Sandbergs til dauðans – sem er kjarni bókarinnar – hversdagslega og áhyggjur hennar af að krabbameinið taki sig aftur upp ómerkilegar. „Tja, velkominn til lífsins. Lífið er allt ein áhætta. Maður getur alltaf orðið fyrir strætó. Eða lent í öndunarvél vegna covid-19 og smám saman kafnað í hel. Þess utan held ég að það sé skárra að deyja sjálfur en að missa einhvern sem maður elskar.“ Þá bætir hún við að titill bókarinnar –  Einmanalegur staður – sé út í hött. 65 þúsund manns greinist með krabbamein árlega. Sjálf sé hún með Addisons og í hvert sinn sem hún fái niðurgang eða uppköst standi hún frammi fyrir dauðanum. Sandberg sé því alls ekki á „einmanalegum stað“. Svo klykkir hún út með að ef Sandberg og maður hennar eigi í vandræðum með kynhvötina (sem virðist koma fram í bókinni) þá ættu þau að prófa svona WeVibe, það sé engu líkt. Einsog gefur að skilja hefur þetta vakið talsvert umtal. Flestir eru á því að dómurinn sé of grimmdarlegur – en einhverjir benda líka á að hann sé góður, taki upp sértækar spurningar og laus við hið almenna orðalag sem annars plagi flesta gagnrýni – „vel skrifað“ og „mikilvægt verk“ og „ákveðinn byrjendabragur“ eða „skortir heildarsýn“ og það allt saman, sem segi mest lítið um bæði verk og afstöðu gagnrýnanda, feli hana í svona „faglegum“ og „hlutlausum“ og fullyrðingarögum menntaskólastíl. Þá hafi Skugge fagurfræðilega afstöðu – gegn metnaðarlausum sensasjónalisma – og taki skýr dæmi um hvað sé vont í bókinni. Einhverjir nefna WeVibe-ið sem dæmi um bæði afturbeygða metakrítík – að byggja inn svona sensasjónalískt element í textann – og aðrir nefna að með því afhjúpi Skugge sjálfa sig og beri sig, svipti sig hulu hins ósnertanlega og ógagnrýnanlega gagnrýnanda, gefi viljandi höggstað á sér, hafandi slegið frá sér lyfti hún upp handleggjunum og bjóði fólki að slá á móti. Þá eru nú kannski flestir á því líka að dómurinn sé skemmtilegur. Sem er auðvitað ljótt að segja, af því hann er líka kvikindislegur. Umræðan er í öllu falli áhugaverð og áhugavert líka að það hefur enginn krafist þess að dónaskapurinn „hafi afleiðingar“ eða höfundurinn fái afsökunarbeiðni – þótt Åsa Linderborg segi reyndar að Linda muni á endanum fá samviskubit og biðjast afsökunar. Raunar hafa tilfinningar höfundar lítt verið ræddar og blaðamenn alls ekki falast eftir neinum viðbrögðum. Svíar eru almennt frekar uppteknir af því að reyna að viðhalda stórþjóðastandard – þeir ná því svona „næstum því oftast“ – og hann er auðvitað í ofsalegum kontrast við smáþjóðarblaðamennskuna á Íslandi. Ég man t.d. ekki eftir því að hafa nokkurn tíma séð sænsk dagblað skrifa frétt upp úr Facebook- eða Twitter-umræðum – og hvað þá þeir stundi svona „sniðugast af Twitter á helginni“ eða „Instagram vikunnar“ bílífi. Íslenskir fjölmiðlar eru miklu persónulegri en sænskir og ekki nærri jafn vandir að virðingu sinni. Það er líka óhugsandi í Svíþjóð að gerð væri uppsláttarfrétt um skoðun einhverrar manneskju á einhverju fyrirbæri nema manneskjan væri vottaður sérfræðingur í málefninu. Á Íslandi eru reglulega gerðar fréttir um að einhverjum sem er með eitthvað poddkast eða skrifar stundum á Twitter finnist eitthvað. Væntanlega af því að viðkomandi kann að gera sig breiðan. Þó eru einmitt dæmi einsog nefndur texti Skugge, sem má kalla lærðan sensasjónalisma eða álíka – það eru persónur (oft konur, a.m.k. í seinni tíð – Kajsa Ekis Ekman, Ebba Witt-Brattström, Åsa Linderborg, Cissi Wallin o.fl. o.fl.) sem skrifa skoðanagreinar sem verða mjög umtalaðar og allir þurfa að lesa og taka afstöðu til. Umdeildar. En það þarf venjulega að vera einhver intelektúal-vinkill á þeim. Og það er óhugsandi að fjölmiðlar myndu gera „best-of viðbrögðin á samfélagsmiðlum“ frétt upp úr því – en hins vegar fremur líklegt fastir pistlahöfundar, þekktir menningarkrítíkerar/álitsgjafar og ritstjórar blaða skrifi um það næstu daga og þar er talsvert algengara að „sitt sýnist hverjum“. Það þykir til marks um sjálfstæða hugsun að skila séráliti – og þykir að einhverju leyti óþarfi að leggja fram sama vinkilinn mörgum sinnum. Íslendingar sýnist mér gjarnan taka einhvern einn pól í hæðina, sérstaklega í erfiðum málefnum, og hamra svo bara á honum einsog einhver sé að rífast við þá (sem einhver gerir kannski í hálfum hljóðum og þarf svo að biðjast afsökunar á eftir). *** Annars er fátt að frétta. Ég er of meiddur til að halda maraþonáformunum til streitu en ætti að geta verið í styttri hlaupum. Þarf að gera meira langtímaplan – kannski fyrir næsta vor. Nenni varla að vera í heilsusamlegu líferni í haust, nýkominn heim. Langar að drekka bjór með vinum mínum og grilla óhollan mat. Það er sól og blíða. Ég hef verið duglegur að kaupa plötur upp á síðkastið. Plata vikunnar er Rainbow People með Eric Bibb. Hann er giftur finnski/sænskri konu, einsog ég, og býr í Stokkhólmi og hefur gert áratugum saman (fyrir utan nokkur ár í Kirkkonummi í Finnlandi). Hann er fæddur 1951 og alinn upp innanum alls kyns stórstjörnur í tónlistarheiminum – Pete Seeger og Paul Robeson voru fjölskylduvinir. Hann byrjaði að spila á gítar sjö ára og fékk meðal annars tilsögn frá Bob Dylan 11 ára („hafðu það einfalt – gleymdu öllu prjáli“). 19 ára yfirgaf hann Bandaríkin og hefur lítið búið þar síðan. Rainbow People er önnur platan hans og kom út 1977, þegar Bibb var 26 ára. Hún er tekin upp í Svíþjóð og er lágstemmd blús-„heimstónlistar“-folk-djass-plata. Hljómar ekki endilega vel en er gott. Fyrir utan klassísk blúsáhrif var hann víst undir áhrifum frá Milton Nascimento, Antonio Carlos Jobim (sem samdi Stúlkuna frá Ipanema) og George Gershwin. Platan er öll falleg en þetta er uppáhaldslagið mitt af henni:

createdTimestamp““:““2024-06-10T09:38:46.152Z““

Ég er að gleyma einhverju. Ég hef ekkert lesið – varla litið í bók – svo það er ekki það. En ég er að gleyma einhverju. *** Ég las upp sjálfur í Madrid á föstudag – með Önnu Axfors, Adam Horovitz og Gaiu Ginevri Giorgi. Ég held talsvert upp á Önnu, sem er sænsk og ég hef þýtt, en þekkti ekki Adam og Gaiu fyrir. Hann er breti, frá Stroud, og hóf ferilinn á því að lesa upp – átta ára gamall – með Allen Ginsberg. Pabbi hans var stórbokki í ensku performanssenunni í gamla daga og þetta æxlaðist bara einhvern veginn. Hann var að hluta til með músík undir, sem gerði lítið fyrir mig, en ljóðin voru góð. Gaia, sem er ítölsk, var líka með músík og looper – tók upp og talaði ofan í sjálfa sig. Ég skildi ekki ljóðin og það var engin þýðing (ekki heldur á spænsku) en heyrðist þau vera í rómantískari kantinum (það sem ég skildi). Þetta var hluti af Versopolis-dagskrá – sem er evrópskt ljóðaprójekt og samstarf milli hátíða – og einsog hefði býður voru gefin út hefti með ljóðunum okkar á frummáli, ensku og markmáli hátíðarinnar. Heftin hjá Poetas hátíðinni voru mjög falleg og þegar þeim var raðað saman á borðinu mynduðu forsíðurnar borðspil – og við fengum kalla og teninga með til að spila. *** Seinna kvöld Poetas hátíðarinnar var Griotskvöld. Griot er vestur-afrískt hugtak yfir ljóðskáld og sögumenn og höfundarnir áttu það allir sameiginlegt að vera af afrískum uppruna – en á ólíkan hátt. Sumir voru frá Ghana, aðrir svartir katalónar og enn aðrir frá Jamaica. Ég kom inn þegar Mutombo da Poet var að flytja sögur og leist eiginlega ekkert á blikuna. Hann var mjög upptekinn af internetinu og á köflum var þetta eiginlega meira einsog að hlusta á einhvern röfla um samfélagsmiðla – hvað þeir væru frábærir og hvað þeir væru samt hættulegir – og ég sá ekki alveg hvað þarna var sagnamennska eða skáldskapur. Á eftir honum kom Koleka Putuma frá S-Afríku. Hún byrjaði ofsalega sterkt – kannski spilaði inn hvað skáldið á undan var leiðinlegt, kannski spilaði inn hvað hún er ung (tuttuguogeitthvaðlítið) – en mér leið nánast einsog ég væri að horfa á eitthvað sögulegt. Hún hélt svo ekki alveg dampi og seinni helmingur upplestrarins var ekki jafn svakalegur, textinn ekki jafn sterkur – en alltaf góður. Ég ætla að kaupa bókina hennar, Collective Amnesia, og langar að þýða a.m.k. 1-2 ljóð úr henni. D’Bi Young Anitafrika var næst. Frá Jamaica. Hún las blaðlaust einsog Mutombo en var jafn grípandi og hann var það ekki – kallaði þetta dub-ljóðlist, las, talaði, söng, æpti, hvíslaði. Ég veit ekki hvort það var nokkuð varið í textann – sem ljóðlist – hún var einfaldlega of töfrandi og fær, of mikill ofsi í henni til að maður gæti lagt nokkuð yfirvegað mat á það. En svo skiptir það kannski ekki neinu máli – maður á ekki að gefa blaðsíðunni þetta æðislega vægi. Á sviðinu birtust bókmenntirnar sem flutningur og hún negldi salinn með sögum. Ég þoli yfirleitt ekki neitt sem minnir of mikið á slamm – og þetta gerði það sannarlega – en þetta var epískt. *** Casa de Papel – þriðja þáttaröð. Þetta er nú ljóta sorpið! Fyrsta serían byrjaði skemmtilega en þynntist hratt út. Önnur serían hraðspólaði út í melódrama og ódýrar lausnir – en þriðja er alveg gersamlega út úr kú. Prófessorinn er alltaf búinn að hugsa fyrir öllu en lausnirnar eru gersamlega sértækar. Plottholurnar eru á stærð við budgetið, tónlistin er generískt stemningsrokk (ég fíla alveg Black Keys, en ég meina kommon). Leikararnir eru alltaf með tárin í augunum. Af hverju er ég að horfa á þetta! Af hverju er ekki búið að cancela þessu! *** Brooklyn 99 – fimmta þáttaröð. Jafn mikil dásemd og Casa de Papel. Rosalega næs, fyrirsjáanlegt en fyndið. Jafn gott og meinstrím-skemmtisjónvarp getur orðið. Og eitthvað svo heilnæmt – PC og millennial en heilnæmt. Ef Bill Cosby hefði ekki reynst vera Bill Cosby væri Cosby-show líkingin við hæfi hérna. Sögupersónurnar eru mjög mótaðar og fyrirsjáanlegar og kunnuglegar og þetta er stundum einsog að vera á færibandi – en bara of vel gert til að maður geti haft neitt á móti því. *** Ég horfði loksins á Roma. Mér fannst hún frábær þegar ég slökkti á sjónvarpinu. En svo situr eiginlega fátt eftir. Sagan – um þjónustustúlku ríka fólksins sem verður ólétt eftir einhvern dólg – er bæði falleg og átakanleg og realísk. Tökurnar eru ótrúlega vel gerðar – upphafssenan þar sem vélin starir lengi ofan í poll af skúringavatni sem skolast til og frá og svo birtist flugvél sem speglast af himninum – er einsog svona konfektmolalistaverk. Eitt af því sem truflaði mig á meðan ég var að horfa á hana – sennilega það eina – var einmitt hvað hún var falleg. Það skyggði nánast á sjálfa söguna, á harminn – setti hana í eitthvað instagram-filterbox af óraunveruleika. Kannski er það bara vandamál í samtímanum að allt er orðið listgert – allt er stílíserað – og þar með verður jafnvel mjög góð stílísering hálfgert kits. Samt frábær mynd, einhvern veginn. Svolítið óþægilega miklir stétt-með-stétt straumar fyrir sósíalistann í mér – en samt frábær mynd. Segjum það bara. *** Ég heiti Blíðfinnur en þú mátt kalla mig Bóbó eftir Þorvald Þorsteinsson er sennilega bara ein af bestu barnabókum í heimi. Hún er ofsalega falleg, sorgleg, djúp og dásamleg – og á þannig máli að ég skil varla að börnin mín, sérstaklega það yngra, hafi enst í að hlusta á mig lesa hana alla án þess að kvarta yfir ljóðrænu orðfærinu. Það var áreiðanlega fullt af orðum og orðasamböndum sem þú skildu ekki. En bókin er einhvern veginn alveg fullkomlega dáleiðandi og við vorum öll sprengfull af höfgi þegar lestri lauk. *** Ace Ventura. Það var Ace Ventura sem ég var að gleyma. Úff. Frábær mynd. En úff. Meistaraverk í slappstikk – Jim Carrey er magnaður. En jesús almáttugur hvað hún er hómófóbísk. Fyrir þá sem ekki muna – eða hafa ekki séð hana – gengur plottið (spoiler alert!) allt út á að höfrungaþjófurinn er geðsjúkur f.v. fótboltakappi sem hefur breytt sér í konu – þegar það uppgötvast eru allir spýtandi í sífellu af viðbjóði. Ég velti aðeins vöngum yfir nokkru. Sameiginlegt einkenni minnar kynslóðar og sambands okkar við barnamenningu foreldra okkar er að við tengdum lítið – hvort sem það var Roy Rogers eða Ármann Kr. Einarsson – og ástæðan var áreiðanlega eitthvað sakleysi. Samband mitt og minnar barnamenningar við börnin mín er svo öðruvísi – yfirleitt finnst þeim þetta allt mjög skemmtilegt (og Aram var í skýjunum með Ace Ventura). Við foreldrarnir erum hins vegar stundum einsog kleinur yfir þessu. Á aðra höndina er mikið af mjög góðu stöffi þarna og ég er 100% talsmaður þess að maður hafi innsýn inn í aðra tíma en sína eigin – önnur viðmið. Á hina höndina fylgja auðvitað allir fordómarnir með. Annað sem ég velti síðan vöngum yfir var hvort það væri síðan í grunninn nokkuð að því að gagnkynhneigðum karlmanni þætti ógeðslegt að kyssa (óvitandi) annan karlmann. Mér finnst það ekki sjálfum en ég held ég skilji alveg tendensinn (og hugsa að ég væri ekki sáttur við blekkingarnar). Tendensinn er svo náttúrulega líka til staðar með breyttum gerendum – lesbía sem léti karlmann plata upp á sig keleríi á fölskum forsendum væri sennilega ekkert í skýjunum með það. En það er aðallega ekki sambærilegt vegna pólitískra aðstæðna (sem börn eru sem áhorfendur að einhverju leyti stikkfrí frá – þau hafa nægan tíma til að öðlast sögulega vitund seinna og hluti af því er að þekkja heiminn einsog hann hefur verið). Þriðja var síðan bara hvað þetta var landlægt í gríni á tíunda áratugnum og hvað maður spáði lítið í því. Þetta var samt ekki einhlítt – þetta er líka áratugur Priscillu og Rocky Horror gekk endalaust í leikhúsum – og ef maður færir fókusinn yfir í dramað erum við með allt frá Philadelphia til Fresa y Chocalate til Fucking Åmål og svo framvegis og svo framvegis. Ég held það hafi margt opnast og kannski var ekki alveg tilviljun að grínið hafi líka verið meira riskí – kannski fór það bara ágætlega saman að Andrew Dice Clay hafi verið á fullu á sama tíma (og ég er ekki viss um að þetta hafi verið pólitískir kontrastar beinlínis, heldur einhvers konar undarlegir samferðarmenn – maður átti að vera á jaðrinum og Dice og My Own Private Idaho uppfylltu þau skilyrði. *** Gítarleikari vikunnar er The Surrealist. Lagið heitir Enigma.

2019) og þýðingu úr spænsku á Snyrtistofunni eftir Mario Bellatin (Skriða

Vestfirðir hafa löngum verið líflegur bókmenntaheimur, ekki bara sem sögusvið, heldur sem heimkynni og vinnustaður starfandi rithöfunda, bæði fólks sem er uppalið á svæðinu og annarra sem hafa tekið það í fóstur. Á þessu fyrsta kvöldi vestfirskra heimsbókmennta mæta til leiks fimm höfundar sem hafa allir ólíka tengingu við svæðið og ólíkan uppruna – hin finnska Satu Rämö, sem hefur nýverið skrifað sinn fyrsta krimma, sem gerist einmitt á Ísafirði; Helen Cova frá Venesúela sem hefur verið búsett á Flateyri og Þingeyri síðustu ár, og gefið út bæði barna- og fullorðinsbækur, og er við það að standsetja forlag á Flateyri sem sérhæfir sig í rómansk-amerískum bókmenntum; Eiríkur Örn Norðdahl, sem er uppalinn Ísfirðingur frá Kópavogi, Akranesi, Iserlohn og Norðurárdal; Birta Ósmann Þórhallsdóttir, smásagnahöfundur og ljóðskáld sem rekur bókaforlagið Skriðu á Patreksfirði; og hin litháíska Greta Lietuvninkaite, sem auk þess að kenna ritlist á Ísafirði hefur gefið út vinsæla bók í Litháen, sem fjallar meðal annars um Ísland og Lithaén. Vonir standa til þess að vestfirsk heimsbókmenntakvöld geti orðið að reglulegum viðburði þar sem lögð verður áhersla á höfunda á og frá Vestfjörðum auk bóka sem gerast á svæðinu. Nánar um höfundana: Birta Ósmann Þórhallsdóttir er fædd árið 1989 og er aðstoðarmaður kattarins Skriðu. Hún nam ritlist við Háskóla Íslands og myndlist við Listaháskóla Íslands og Escuela Nacional de Pintura, Escultura y Grabado „La Esmeralda“ í Mexíkóborg. Nú í haust kemur út hennar fyrsta ljóðabók, Spádómur fúleggsins, en hún hefur áður gefið út örsagnasafnið Einsamræður (Skriða, 2019) og þýðingu úr spænsku á Snyrtistofunni eftir Mario Bellatin (Skriða, 2021). Hún hlaut Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta árið 2016. Skriða bókaútgáfa var stofnuð árið 2019 og er ein af fáum bókaútgáfum á landsbyggðinni, staðsett í Merkisteini á Patreksfirði, en stofnandi og rekandi útgáfunnar er kötturinn Skriða. Skriðu er annt um fegurðina í smáatriðum og handverki og því eru bækurnar úr góðum pappír og handverkið í hávegum haft. Takmarkað upplag er einnig af bókunum, þar sem Skriða kýs að taka ekki þátt í offramleiðslu og sóun, heldur halda í heiðri bókinni sem grip. Eiríkur Örn Norðdahl er rithöfundur frá Ísafirði. Hann hefur gefið út ótal bækur, ljóð, skáldsögur, ritgerðir og meira að segja matreiðslubók. Fyrir þær hefur hann hlotið ýmsa upphefð – meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin og tilnefningu til Prix Medici Étranger og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Bækur hans hafa verið gefnar út á ótal tungumálum. Nýjasta bók hans er skáldsagan Einlægur Önd, en undir lok októbermánaðar kemur barnajólahryllingsbókin Frankensleikir í búðir, og er það fyrsta barnabók Eiríks. Á þessum vestfirska heimsbókmenntakvöldi hyggst Eiríkur hins vegar lesa úr óútgefinni ljóðabók sem fjallar meðal annars um Hamraborgirnar tvær, sjoppuna á Ísafirði og hverfið í Kópavogi. Greta Lietuvninkaitė er litháískur rithöfundur, búsett á Ísafirði. Hún gaf nýverið út sína aðra bók, Milli tveggja stranda (Between Two Shores), þar sem hún býður lesandanum að kanna ólíkar hliðar hins kvenlega, sem og að horfast í augu við persónulegar skuggahliðar sínar. Fyrsta bók hennar, Feluleikur (Slėpynės) vakti mikla athygli í Litháen og er löngu uppseld. Hana gaf Greta út þegar hún var 25 ára gömul eftir að hafa útskrifast úr sálfræði og búið í Kanada í eitt ár. Næst ætlar Greta að skrifa um sjálfa sig og söguna af því hvernig hún flutti til Íslands í væntanlegu verki sem nefnist „Hennar rödd“ (Her Voice) sem og í tímariti Ós Pressunnar. Á Ísafirði er Greta þekkt fyrir að halda ritlistarsmiðjur undir heitinu „Write it out“ þar sem þátttakendum er kennt að beita ótal aðferðum til þess að vingast við vetrarblúsinn. Helen Cova er Venesúelafæddur rithöfundur, stofnandi Karíba útgáfu og núverandi forseti Ós Pressunnar. Fyrsta barnabók hennar, Snúlla finnst gott að vera einn, kom út árið 2019 á íslensku, ensku og spænsku. Önnur bók hennar Sjálfsát, að éta sjálfan sig, smásagnasafn fyrir fullorðna, kom út árið 2020 á íslensku og ensku. Smásagnasafn Cova hefur verið valið af Þjóðleikhúsinu til að breyta í leikrit. Sömuleiðis hefur hún tekið þátt í mörgum viðtölum og upplestri víðs vegar um Ísland. Hún vinnur nú að fjölbreyttum bókmenntaverkefnum og er stefnt að því að önnur bókin í Snúlla seríunni komi í verslanir í lok árs 2022. Satu Rämö er finnskur rithöfundur, búsett á Ísafirði. Hún hefur gefið út fjöldann allan bókum sem hafa náð metsölu og hlotið ýmis verðlaun, allt frá ferðabókum um Ísland til endurminninga og væntanlegrar bókar um íslenskt prjón. Fyrsta skáldsaga hennar er glæpasagan Hildur. Hún fjallar um rannsóknarlögregluna Hildi Rúnarsdóttur sem rannsakar mannshvörf hjá lögreglunni á Ísafirði. Ásamt finnska starfsnemanum og kollega sínum, Jakob Johanson – sem er mikill prjónasnillingur – afhjúpar hún dularfullar glæpaflækjur í samheldnum smábæ í kjölfar óútskýrðs hvarfs tveggja skólastúlkna. Seinni bókin í þessum flokki, Rósa & Björk, kemur út í mars 2023 og sú þriðja síðar sama ár. Á þeim þremur mánuðum sem liðnir eru frá útgáfu Hildar í Finnlandi hefur bókin selst í 60 þúsund eintökum. Hún er væntanleg á þýsku, dönsku, eistnesku, sænsku og hollensku. Dagskráin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vestfjarða. Staðsetning og tími: Bryggjusalur, 6. október kl. 20:00

id““:““e66hn““

Nú er allt að eiga sér stað. Smám saman. Páskar í lofti. Ísafjörður er byrjaður að fyllast af Reykvíkingum í lopapeysum – sumir eru hálfgerðar Mugisondúkkulísur, búnir að safna skeggi og farnir að ganga svona með hressilegu vaggi, rétta öllum spaðann og alltaf gjöðbilað hressir. Svona eru þeir aldrei á Laugaveginum. Sennilega er bara eitthvað þunglyndislegt við Laugaveginn. En það er auðvitað bara einn Mugison. Og kannski einn Örn Elías og einn Öddi. Aino á fjögurra ára afmæli á þriðjudag. Hún fær Frozentertu og froskalappir (ekki segja henni samt, það er leyndarmál). Hún er ógurleg sunddrottning og hefur eiginlega verið synd frá því áður en hún varð tveggja ára. Við fórum svo mikið í sund þegar við bjuggum í Víetnam. Og hún er svo óhrædd, annað en við kjúklingarnir skyldmenni hennar. Ég er að ljúka við þýðingu. Eða var að því, ég er nú bara í einhverju snurfusi. Á leikriti. Og að fara að gefa út bók auðvitað, alveg á nippinu – Óratorrek – kominn með kassa af bókum en hún fer ekki í búðir fyrren eftir páska. Svona er að vera höfundurinn, því fylgja alls konar fríðindi, þið mynduð ekki trúa því ef ég segði ykkur frá því. Á fimmtudag les ég úr bókinni í tvígang – fyrst í Gallerí Úthverfu, þar sem ég ætla að endurtaka gjörning sem ég framdi fyrst í Norræna vatnslitasafninu í Skärhamn og lesa sama ljóðið aftur og aftur í eina klukkustund. Ljóðið heitir „Ljóð um list þess að standa kyrr í galleríi“ og var samið fyrir opnun á sýningu úr Guerlain-safni Pompidou. Í Úthverfu er það opnun hjá Erni Alexander Ámundasyni, sem er það heitasta í íslenskri myndlist. Og um kvöldið er ljóðalistatónlistarkvöld í Tjöruhúsinu með Skúla mennska, Björk Þorgríms, Kött Grá Pje og Lomma. En annars er ég bara  í páskafíling. p.s. Það er skandall að Stryper skuli aldrei hafa verið boðið á Aldrei fór ég suður. Þeir ættu auðvitað að spila í páskamessu á Ísafirði. Hér myndi ég tagga rokkstjórann en það er bara ekkert hægt að tagga í þessu ömurlega bloggkerfi.

createdTimestamp““:““2024-05-13T05:35:38.364Z““

Á puttanum með pabba eftir Kolbrúnu Önnu Björnsdóttur og Völu Þórsdóttur fjallar um systkinin Sonju og Frikka. Þau eiga ítalskan pabba sem býr á Sikiley og eru vön að eyða sumrinu með honum. Sá er atvinnulaus leikari og býr hjá mömmu sinni og pabba. Þau eru varla komin til Sikileyjar þegar allt byrjar að fara úr böndunum. Fyrst leggst Bruno frændi þeirra á banasængina svo amma og afi þurfa að fara til hans. Þá fær pabbi þeirra skyndilega hlutverk í bíómynd sem á að taka upp á Spáni – og þarf að losna við gemlingana. Það næst ekki í mömmu og stjúpa en þau kaupa samt miða – þegar ekkert hefur heyrst frá þeim og krakkarnir þurfa að tékka inn í flugið neyðist leikarapabbinn til að fara með börnunum til Íslands að leita að mömmunni. Eina vísbendingin er að hún verður í Hallormsstaðaskógi eftir X langan tíma – en sennilega er hún á ferðalagi um landið. Já og veski pabbans er stolið á flugvellinum í Róm svo þau eru meira og minna peningalaus, á puttanum, upp á náð og miskunn íslenskra og útlenskra túrista komin. Aram valdi. Þetta var mjög skemmtileg bók – svona road movie klassíker þar sem hver vandræðin reka önnur. Við höfðum kannski sérstaklega gaman af þessu því við sjáum sjálf okkur í mörgu þarna – ferðumst mikið og erum stundum dálítið ringluð og kaotísk (og við Aram höfum ferðast saman á puttanum – þegar hann var sennilega þriggja ára) og svo erum við auðvitað með fætur í ólíkum löndum og ólíkum tungumálum. *** Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á Labyrinth eftir þá Jim Henson og George Lucas, með David Bowie og Jennifer Connelly í aðalhlutverki. Ég hafði ekki séð hana í þrjátíu ár. En þess má geta að á þeim tíma hefur Jennifer Connelly ekki elst – og áður en hann dó eltist David Bowie ekki heldur (ég hefði átt að nefna það í síðustu færslu, þegar Mr. Bean var til umfjöllunar, að skrítnasta dæmið um mann sem eldist ekki er auðvitað Rowan Atkinson). Þau hafa sennilega dottið í æskubrunn við gerð myndarinnar. Myndin fjallar um unga stúlku sem er látin passa litla bróður sinn. Hún þolir það ekki og óskar þess upphátt að tröllin (eða svartálfarnir) taki hann. Sem þau svo gera. Stúlkan hefur 13 klukkustundir til að komast í gegnum völundarhús tröllanna, að tröllakastalanum þar sem tröllakóngurinn David Bowie ræður ríkjum, annars verður bróðir hennar tröllabarn um ævi og aldur. Í völundarhúsinu mæta henni margar hindranir en þar eignast hún líka vini – Hoggle (sem mótsvarar fuglahræðunni í Galdrakarlinum í Oz),  Lúdó (ljónið) og Sir Didimus (tinmaðurinn). Sennilega má nú rífast um það hver er hver – en fjórmenningarnir saman minna sannarlega á sams konar klíku í Oz. Myndin er talsvert kynferðisleg – og yrði alveg áreiðanlega ekki gerð eins í dag. Til dæmis er sena þar sem ýjað er að því að Bowie og Connelly hefji ástarsamband (eftir að hann lyfjar hana ansi hressilega) – en þótt bæði séu í sjálfu sér ungleg þá er Bowie augljóslega fullorðinn, á mínum aldri þegar myndin er gerð, en Jennifer er sextán ára. Svo má velta fyrir sér boðskapnum. Það er alltaf gaman, sérstaklega í barnaefni. Ung kona hafnar barnauppeldi og er refsað fyrir það – barnið steypist í glötun vegna eigingirni hennar og sjálfselsku. Hún sigrast á vonda karlinum (sem mætti segja að standi fyrir rísandi heterókynhvöt hennar – hann er mjög fallískur, í níðþröngum galla sem leynir engu, og sífellt að leika sér með kúlurnar sínar og sprotann sinn) með því að æpa á hann að hann ráði ekki yfir sér. Þá hverfur svartálfaheimurinn og hún kemst aftur heim með litla bróður sinn í tæka tíð áður en foreldrar hennar birtast á ný (hér mætti jafnvel íhuga sagnaminni úr bandarískum unglingamyndum þar sem unglingsstúlkur bjóða til sín strákum heim í kelerí þegar þær eru að passa – og strákurinn þarf að hverfa áður en foreldrarnir koma heim). Smáborgaralífinu og skírlífi stúlkunnar er borgið. Myndin er auðvitað stórfengleg og klassíker. Dúkkurnar frábærar og eldast vel, hvað sem líður tækniframförum. Bowie og Connelly eru góð í sínum hlutverkum. Það er reyndar – merkilegt nokk – kannski helst að tónlistin sé frekar slöpp. Bowie gerir hana alla og er bara alls ekki í neinu þrumustuði. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á 8 1/2 eftir Fellini. Ég valdi og hafði aldrei séð hana áður og vil sjá hana fljótt aftur. Hún gæti vel orðið ein af mínum uppáhalds. Skók mig, í allri sinni tilgerð. Samt veit ég eiginlega ekki hvað ég á að segja um hana. Hún fjallar um leikstjóra sem er að reyna að gera bíómynd – hann kljáist við sköpunargáfu sína, finnst hann sjálfur vera tilgerðarlegur og er tilgerðarlegur og bíómyndin sem við horfum á og fjallar um hann er tilgerðarleg. En samt snilld. Hann er líka að kljást við kvensemi sína og löngun í ungar konur, frillur, og gerir stólpagrín að þessum þrám án þess að það dragi úr raunveruleika þeirra eða tilvistarangistinni sem er fólgin í þeim. Þá eru líka í henni átök við kaþólska trú. Allt hangir þetta einhvern veginn saman. Marcello Mastroianni leikur leikstjórann og manni má alveg skiljast að hlutverkið sé sjálfsævisögulegt (Fellini hafði gert sex bíómyndir í fullri lengd, tvær stuttar og eina í samstarfi við annan – 8 1/2 er áttundaoghálfa bíómynd Fellinis). Fellini reynir að vera heiðarlegur og mistekst en honum mistekst heiðarlega. Hann níðir sig og hæðir sig en gerir það aldrei án þess að taka sig líka alvarlega. Átökin eru sviðsett en þau eru líka raunveruleg. Ég ímynda mér að það hafi verið tilfinningalega brútalt að gera þessa mynd. *** Fíasól í fínum málum er, einsog titillinn gefur til kynna, hluti af ritröðinni um Fíusól eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur. Aino valdi. Hún þekkir Fíusól vel af leikskólanum en við höfum ekki lesið hana saman áður. Bókin samanstendur af nokkrum – sjö eða átta – vinjettum um sjö ára stúlkuna Fíusól (sem ég held að hafi staðið einhvers staðar að heiti Soffía Sóley fullu nafni). Hún á tvær eldri systur, Pippu og Biddu, og alls óskilda foreldra. Fíasól er „ákveðin ung kona“ þegar vel lætur og frekjudós þegar illa lætur. Niðurstaða flestra vinjettanna er að Fíasól sé í vondum málum – hún stelur t.d. úr sjoppu og flytur að heiman í skúr sem vinur hennar byggði o.s.frv.  En endar nú samt á því að hún sé í fínum málum. Almennt mætti segja að Fíasól lifi í afar vernduðu umhverfi (klassísku íslensku millistéttarheimili) þar sem hið smáa verður oft mjög stórt og alvarlegt. Stemningin minnir að einhverju leyti á bækur Guðrúnar Helgadóttur – nema að þar eru persónur auðvitað ekki í jafn vernduðu umhverfi (og oft mjög berskjaldaðar). Aram hafði á orði að Fíasól notaði skrítin orð af sjö ára stelpu að vera – hún er svolítið forn í máli og kannski þess vegna sem hún minnir mann á Lóu-Lóu. Ég mótmælti reyndar – því þótt það sé satt þá hef ég bæði hitt börn sem eru undarlega forn í máli og svo er ekkert að því þótt sögupersónur séu ekki alveg einsog fólk er flest. Aino var mjög hrifin af bókinni, einsog hinum í flokknum. Við áttuðum okkur samt ekki alveg á því hvað hún væri stutt. Hún dugði okkur bara í tvö kvöld. *** Palimpsest er nafnið á æviminningum Gore Vidal. Palimpsest er skv. Snöru „uppskafningur (handrit þar sem texti hefur verið skafinn burt og annar ritaður í staðinn)“ og verður Gore að myndlíkingu fyrir virkni minnisins. Hvernig við skrifum nýjar minningar yfir þær gömlu í hvert sinn sem við rifjum þær upp. Gore segir sögu sína ekki línulega heldur ryðst fram og aftur frá fyrstu 40 árum ævinnar að nútímanum (útgáfutíma bókarinnar: 1995). Og vantar þar með í hana til dæmis allt um það þegar hann skrifaði og gaf út Myru Breckinridge, sem olli mér vonbrigðum, sem og starfi hans í Víetnam hreyfingunni og afstöðu til hippismans og femínismans og róttækninnar. Auk þess að flakka um í tíma fjallar hún mestmegnis um annað fólk en Gore sjálfan – það er mikið af slúðri og alls konar sögum og uppgjörum og Gore er auðvitað skemmtilega kvikindislegur, einsog hans var von og vísa. Það líða ábyggilega aldrei meira en þrjár síður milli þess sem hann hendir inn einhverju um hvað Truman Capote hafi verið mikið fífl. Þótt bókin fjalli ekki um Gore þá er persónuleiki hans í frásögninni – þessa bók hefði enginn annar en hann getað skrifað og enginn skrifað hana einsog hann skrifar hana. Gore er algert kúltúr- og valdabarn frá fæðingu – hann og Jackie Kennedy Onassis áttu sama stjúppabba og hann er umkringdur heimsfrægu fólki frá barnæsku. Einn kaflinn hefst á orðunum „Það er alltaf dálítið vandræðalegt þegar náinn æskuvinur eða kunningi verður Bandaríkjaforseti“. Ekki bara stundum, vel að merkja – ekki í annað hvert skipti eða svo. Það er alltaf vandræðalegt. Talsverðu púðri eyðir hann í að ræða kynlíf sitt og hefur þó á orði að það sé eiginlega ekki í frásögur færandi. Hann stundar nær einvörðungu einnar nætur kynni og nær einvörðungu með karlmönnum, alls ekki vinum eða vinkonum – en finnst samt of heftandi að tala um sig sem samkynhneigðan – og hefur alls konar kenningar um þetta líf sitt. Á Wikipediu er hann kenndur við Anaïs Nin en hann kannast sjálfur ekki við það. Þá segist hann á tímabili sofa hjá manni á dag og vera komin vel yfir sitt fyrsta þúsund 25 ára og vel keppnishæfur við kvennamenn á borð við Jack og Bobby Kennedy (sem ku álíka graðir). Hann hefur ímugust á allri skinhelgi í kringum kynlíf og myndi sennilega eipsjitta á metoo-hreyfinguna ef hann væri enn á lífi (ég er reyndar ekki viss um að hann gæti eipsjittað – en hann myndi segja eitthvað mjög snappí). Þegar bókin er gefin út er mikið rætt um kynlíf Clintons í fjölmiðlum og honum finnst nú ekki mikið til þess koma að „mellum sé stillt upp í sjónvarpinu á besta áhorfstíma til að ræða lim forsetans“ og mikla afturför frá því þegar rifist var um stefnumál. Það sló mig einhvern tíma við lesturinn að þegar skilin milli bóhemíu og borgaralegs lífs voru skarpari – áður en hipparnir komu til sögunnar og vildu brjóta niður múrinn – þá hafi lífið í bóhemíunni verið talsvert villtara en það varð nokkurn tíma í hippakommúnunum (og hvað þá síðar). Ef þú nenntir að standa í því að fá sýfilis og lekanda og lenda í ólöglegum fóstureyðingum og/eða barneignum – og stóð á sama um fnæsið í borgarastéttinni – þá bara reiðstu eins mikið og víða og þér sýndist. Gore fullyrðir líka að kasúal samkynhneigð hafi verið miklu algengari meðal karla – t.d. að nær allir hafi sogið einhvern í herskyldunni og það hafi verið mjög lítið tabú (nema bara svona af því að lauslæti væri rangt). Þetta heyrir saman við lýsingar sem ég þekki úr ævisögum bítskáldanna – sem Gore umgekkst nokkuð (en las lítið; helst hann hafi verið hrifinn af skáldsögum Burroughs, og svo fagnar hann On the Road síðar, en fílaði ekki þegar hún kom út). Allavega virkar samtíminn mjög móralskur og leiðinlegur í lýsingum Vidals á fortíðinni. En þannig er það kannski alltaf. *** Gítarleikari vikunnar er Lightnin’ Hopkins.