Nú er allt að eiga sér stað. Smám saman. Páskar í lofti. Ísafjörður er byrjaður að fyllast af Reykvíkingum í lopapeysum – sumir eru hálfgerðar Mugisondúkkulísur, búnir að safna skeggi og farnir að ganga svona með hressilegu vaggi, rétta öllum spaðann og alltaf gjöðbilað hressir. Svona eru þeir aldrei á Laugaveginum. Sennilega er bara eitthvað þunglyndislegt við Laugaveginn. En það er auðvitað bara einn Mugison. Og kannski einn Örn Elías og einn Öddi. Aino á fjögurra ára afmæli á þriðjudag. Hún fær Frozentertu og froskalappir (ekki segja henni samt, það er leyndarmál). Hún er ógurleg sunddrottning og hefur eiginlega verið synd frá því áður en hún varð tveggja ára. Við fórum svo mikið í sund þegar við bjuggum í Víetnam. Og hún er svo óhrædd, annað en við kjúklingarnir skyldmenni hennar. Ég er að ljúka við þýðingu. Eða var að því, ég er nú bara í einhverju snurfusi. Á leikriti. Og að fara að gefa út bók auðvitað, alveg á nippinu – Óratorrek – kominn með kassa af bókum en hún fer ekki í búðir fyrren eftir páska. Svona er að vera höfundurinn, því fylgja alls konar fríðindi, þið mynduð ekki trúa því ef ég segði ykkur frá því. Á fimmtudag les ég úr bókinni í tvígang – fyrst í Gallerí Úthverfu, þar sem ég ætla að endurtaka gjörning sem ég framdi fyrst í Norræna vatnslitasafninu í Skärhamn og lesa sama ljóðið aftur og aftur í eina klukkustund. Ljóðið heitir „Ljóð um list þess að standa kyrr í galleríi“ og var samið fyrir opnun á sýningu úr Guerlain-safni Pompidou. Í Úthverfu er það opnun hjá Erni Alexander Ámundasyni, sem er það heitasta í íslenskri myndlist. Og um kvöldið er ljóðalistatónlistarkvöld í Tjöruhúsinu með Skúla mennska, Björk Þorgríms, Kött Grá Pje og Lomma. En annars er ég bara í páskafíling. p.s. Það er skandall að Stryper skuli aldrei hafa verið boðið á Aldrei fór ég suður. Þeir ættu auðvitað að spila í páskamessu á Ísafirði. Hér myndi ég tagga rokkstjórann en það er bara ekkert hægt að tagga í þessu ömurlega bloggkerfi.
Category: Uncategorized
createdTimestamp““:““2024-05-13T05:35:38.364Z““
Á puttanum með pabba eftir Kolbrúnu Önnu Björnsdóttur og Völu Þórsdóttur fjallar um systkinin Sonju og Frikka. Þau eiga ítalskan pabba sem býr á Sikiley og eru vön að eyða sumrinu með honum. Sá er atvinnulaus leikari og býr hjá mömmu sinni og pabba. Þau eru varla komin til Sikileyjar þegar allt byrjar að fara úr böndunum. Fyrst leggst Bruno frændi þeirra á banasængina svo amma og afi þurfa að fara til hans. Þá fær pabbi þeirra skyndilega hlutverk í bíómynd sem á að taka upp á Spáni – og þarf að losna við gemlingana. Það næst ekki í mömmu og stjúpa en þau kaupa samt miða – þegar ekkert hefur heyrst frá þeim og krakkarnir þurfa að tékka inn í flugið neyðist leikarapabbinn til að fara með börnunum til Íslands að leita að mömmunni. Eina vísbendingin er að hún verður í Hallormsstaðaskógi eftir X langan tíma – en sennilega er hún á ferðalagi um landið. Já og veski pabbans er stolið á flugvellinum í Róm svo þau eru meira og minna peningalaus, á puttanum, upp á náð og miskunn íslenskra og útlenskra túrista komin. Aram valdi. Þetta var mjög skemmtileg bók – svona road movie klassíker þar sem hver vandræðin reka önnur. Við höfðum kannski sérstaklega gaman af þessu því við sjáum sjálf okkur í mörgu þarna – ferðumst mikið og erum stundum dálítið ringluð og kaotísk (og við Aram höfum ferðast saman á puttanum – þegar hann var sennilega þriggja ára) og svo erum við auðvitað með fætur í ólíkum löndum og ólíkum tungumálum. *** Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á Labyrinth eftir þá Jim Henson og George Lucas, með David Bowie og Jennifer Connelly í aðalhlutverki. Ég hafði ekki séð hana í þrjátíu ár. En þess má geta að á þeim tíma hefur Jennifer Connelly ekki elst – og áður en hann dó eltist David Bowie ekki heldur (ég hefði átt að nefna það í síðustu færslu, þegar Mr. Bean var til umfjöllunar, að skrítnasta dæmið um mann sem eldist ekki er auðvitað Rowan Atkinson). Þau hafa sennilega dottið í æskubrunn við gerð myndarinnar. Myndin fjallar um unga stúlku sem er látin passa litla bróður sinn. Hún þolir það ekki og óskar þess upphátt að tröllin (eða svartálfarnir) taki hann. Sem þau svo gera. Stúlkan hefur 13 klukkustundir til að komast í gegnum völundarhús tröllanna, að tröllakastalanum þar sem tröllakóngurinn David Bowie ræður ríkjum, annars verður bróðir hennar tröllabarn um ævi og aldur. Í völundarhúsinu mæta henni margar hindranir en þar eignast hún líka vini – Hoggle (sem mótsvarar fuglahræðunni í Galdrakarlinum í Oz), Lúdó (ljónið) og Sir Didimus (tinmaðurinn). Sennilega má nú rífast um það hver er hver – en fjórmenningarnir saman minna sannarlega á sams konar klíku í Oz. Myndin er talsvert kynferðisleg – og yrði alveg áreiðanlega ekki gerð eins í dag. Til dæmis er sena þar sem ýjað er að því að Bowie og Connelly hefji ástarsamband (eftir að hann lyfjar hana ansi hressilega) – en þótt bæði séu í sjálfu sér ungleg þá er Bowie augljóslega fullorðinn, á mínum aldri þegar myndin er gerð, en Jennifer er sextán ára. Svo má velta fyrir sér boðskapnum. Það er alltaf gaman, sérstaklega í barnaefni. Ung kona hafnar barnauppeldi og er refsað fyrir það – barnið steypist í glötun vegna eigingirni hennar og sjálfselsku. Hún sigrast á vonda karlinum (sem mætti segja að standi fyrir rísandi heterókynhvöt hennar – hann er mjög fallískur, í níðþröngum galla sem leynir engu, og sífellt að leika sér með kúlurnar sínar og sprotann sinn) með því að æpa á hann að hann ráði ekki yfir sér. Þá hverfur svartálfaheimurinn og hún kemst aftur heim með litla bróður sinn í tæka tíð áður en foreldrar hennar birtast á ný (hér mætti jafnvel íhuga sagnaminni úr bandarískum unglingamyndum þar sem unglingsstúlkur bjóða til sín strákum heim í kelerí þegar þær eru að passa – og strákurinn þarf að hverfa áður en foreldrarnir koma heim). Smáborgaralífinu og skírlífi stúlkunnar er borgið. Myndin er auðvitað stórfengleg og klassíker. Dúkkurnar frábærar og eldast vel, hvað sem líður tækniframförum. Bowie og Connelly eru góð í sínum hlutverkum. Það er reyndar – merkilegt nokk – kannski helst að tónlistin sé frekar slöpp. Bowie gerir hana alla og er bara alls ekki í neinu þrumustuði. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á 8 1/2 eftir Fellini. Ég valdi og hafði aldrei séð hana áður og vil sjá hana fljótt aftur. Hún gæti vel orðið ein af mínum uppáhalds. Skók mig, í allri sinni tilgerð. Samt veit ég eiginlega ekki hvað ég á að segja um hana. Hún fjallar um leikstjóra sem er að reyna að gera bíómynd – hann kljáist við sköpunargáfu sína, finnst hann sjálfur vera tilgerðarlegur og er tilgerðarlegur og bíómyndin sem við horfum á og fjallar um hann er tilgerðarleg. En samt snilld. Hann er líka að kljást við kvensemi sína og löngun í ungar konur, frillur, og gerir stólpagrín að þessum þrám án þess að það dragi úr raunveruleika þeirra eða tilvistarangistinni sem er fólgin í þeim. Þá eru líka í henni átök við kaþólska trú. Allt hangir þetta einhvern veginn saman. Marcello Mastroianni leikur leikstjórann og manni má alveg skiljast að hlutverkið sé sjálfsævisögulegt (Fellini hafði gert sex bíómyndir í fullri lengd, tvær stuttar og eina í samstarfi við annan – 8 1/2 er áttundaoghálfa bíómynd Fellinis). Fellini reynir að vera heiðarlegur og mistekst en honum mistekst heiðarlega. Hann níðir sig og hæðir sig en gerir það aldrei án þess að taka sig líka alvarlega. Átökin eru sviðsett en þau eru líka raunveruleg. Ég ímynda mér að það hafi verið tilfinningalega brútalt að gera þessa mynd. *** Fíasól í fínum málum er, einsog titillinn gefur til kynna, hluti af ritröðinni um Fíusól eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur. Aino valdi. Hún þekkir Fíusól vel af leikskólanum en við höfum ekki lesið hana saman áður. Bókin samanstendur af nokkrum – sjö eða átta – vinjettum um sjö ára stúlkuna Fíusól (sem ég held að hafi staðið einhvers staðar að heiti Soffía Sóley fullu nafni). Hún á tvær eldri systur, Pippu og Biddu, og alls óskilda foreldra. Fíasól er „ákveðin ung kona“ þegar vel lætur og frekjudós þegar illa lætur. Niðurstaða flestra vinjettanna er að Fíasól sé í vondum málum – hún stelur t.d. úr sjoppu og flytur að heiman í skúr sem vinur hennar byggði o.s.frv. En endar nú samt á því að hún sé í fínum málum. Almennt mætti segja að Fíasól lifi í afar vernduðu umhverfi (klassísku íslensku millistéttarheimili) þar sem hið smáa verður oft mjög stórt og alvarlegt. Stemningin minnir að einhverju leyti á bækur Guðrúnar Helgadóttur – nema að þar eru persónur auðvitað ekki í jafn vernduðu umhverfi (og oft mjög berskjaldaðar). Aram hafði á orði að Fíasól notaði skrítin orð af sjö ára stelpu að vera – hún er svolítið forn í máli og kannski þess vegna sem hún minnir mann á Lóu-Lóu. Ég mótmælti reyndar – því þótt það sé satt þá hef ég bæði hitt börn sem eru undarlega forn í máli og svo er ekkert að því þótt sögupersónur séu ekki alveg einsog fólk er flest. Aino var mjög hrifin af bókinni, einsog hinum í flokknum. Við áttuðum okkur samt ekki alveg á því hvað hún væri stutt. Hún dugði okkur bara í tvö kvöld. *** Palimpsest er nafnið á æviminningum Gore Vidal. Palimpsest er skv. Snöru „uppskafningur (handrit þar sem texti hefur verið skafinn burt og annar ritaður í staðinn)“ og verður Gore að myndlíkingu fyrir virkni minnisins. Hvernig við skrifum nýjar minningar yfir þær gömlu í hvert sinn sem við rifjum þær upp. Gore segir sögu sína ekki línulega heldur ryðst fram og aftur frá fyrstu 40 árum ævinnar að nútímanum (útgáfutíma bókarinnar: 1995). Og vantar þar með í hana til dæmis allt um það þegar hann skrifaði og gaf út Myru Breckinridge, sem olli mér vonbrigðum, sem og starfi hans í Víetnam hreyfingunni og afstöðu til hippismans og femínismans og róttækninnar. Auk þess að flakka um í tíma fjallar hún mestmegnis um annað fólk en Gore sjálfan – það er mikið af slúðri og alls konar sögum og uppgjörum og Gore er auðvitað skemmtilega kvikindislegur, einsog hans var von og vísa. Það líða ábyggilega aldrei meira en þrjár síður milli þess sem hann hendir inn einhverju um hvað Truman Capote hafi verið mikið fífl. Þótt bókin fjalli ekki um Gore þá er persónuleiki hans í frásögninni – þessa bók hefði enginn annar en hann getað skrifað og enginn skrifað hana einsog hann skrifar hana. Gore er algert kúltúr- og valdabarn frá fæðingu – hann og Jackie Kennedy Onassis áttu sama stjúppabba og hann er umkringdur heimsfrægu fólki frá barnæsku. Einn kaflinn hefst á orðunum „Það er alltaf dálítið vandræðalegt þegar náinn æskuvinur eða kunningi verður Bandaríkjaforseti“. Ekki bara stundum, vel að merkja – ekki í annað hvert skipti eða svo. Það er alltaf vandræðalegt. Talsverðu púðri eyðir hann í að ræða kynlíf sitt og hefur þó á orði að það sé eiginlega ekki í frásögur færandi. Hann stundar nær einvörðungu einnar nætur kynni og nær einvörðungu með karlmönnum, alls ekki vinum eða vinkonum – en finnst samt of heftandi að tala um sig sem samkynhneigðan – og hefur alls konar kenningar um þetta líf sitt. Á Wikipediu er hann kenndur við Anaïs Nin en hann kannast sjálfur ekki við það. Þá segist hann á tímabili sofa hjá manni á dag og vera komin vel yfir sitt fyrsta þúsund 25 ára og vel keppnishæfur við kvennamenn á borð við Jack og Bobby Kennedy (sem ku álíka graðir). Hann hefur ímugust á allri skinhelgi í kringum kynlíf og myndi sennilega eipsjitta á metoo-hreyfinguna ef hann væri enn á lífi (ég er reyndar ekki viss um að hann gæti eipsjittað – en hann myndi segja eitthvað mjög snappí). Þegar bókin er gefin út er mikið rætt um kynlíf Clintons í fjölmiðlum og honum finnst nú ekki mikið til þess koma að „mellum sé stillt upp í sjónvarpinu á besta áhorfstíma til að ræða lim forsetans“ og mikla afturför frá því þegar rifist var um stefnumál. Það sló mig einhvern tíma við lesturinn að þegar skilin milli bóhemíu og borgaralegs lífs voru skarpari – áður en hipparnir komu til sögunnar og vildu brjóta niður múrinn – þá hafi lífið í bóhemíunni verið talsvert villtara en það varð nokkurn tíma í hippakommúnunum (og hvað þá síðar). Ef þú nenntir að standa í því að fá sýfilis og lekanda og lenda í ólöglegum fóstureyðingum og/eða barneignum – og stóð á sama um fnæsið í borgarastéttinni – þá bara reiðstu eins mikið og víða og þér sýndist. Gore fullyrðir líka að kasúal samkynhneigð hafi verið miklu algengari meðal karla – t.d. að nær allir hafi sogið einhvern í herskyldunni og það hafi verið mjög lítið tabú (nema bara svona af því að lauslæti væri rangt). Þetta heyrir saman við lýsingar sem ég þekki úr ævisögum bítskáldanna – sem Gore umgekkst nokkuð (en las lítið; helst hann hafi verið hrifinn af skáldsögum Burroughs, og svo fagnar hann On the Road síðar, en fílaði ekki þegar hún kom út). Allavega virkar samtíminn mjög móralskur og leiðinlegur í lýsingum Vidals á fortíðinni. En þannig er það kannski alltaf. *** Gítarleikari vikunnar er Lightnin’ Hopkins.
createdTimestamp““:““2024-06-09T05:31:44.342Z““
Það eru tvær vikur síðan ég skrifaði í menningardagbókina og maður gæti haldið að þetta hafi smám saman verið að mjatlast inn en í sannleika sagt er ég frekar latur að lesa eða hlusta eða horfa á ferðalögum. Megnið af þessu er frá allra síðustu dögum, frá því að ég kom heim eða var a.m.k. á heimleið. *** Ég horfði á Birdman í vélinni heim frá París. Það var ekki síst viðeigandi í ljósi nýlegra deilna um gæði Marvel-mynda versus gæði listabíós. Myndin fjallar um leikara sem er frægastur fyrir að hafa leikið ofurhetjuna Birdman – leikarinn er leikinn af Michael Keaton og Birdman minnir óneitanlega svolítið á Batman. Leikarinn vill hins vegar láta taka sig alvarlega(r) og er þess vegna að setja upp eigin aðlögun á smásögu Raymonds Carver What We Talk About When We Talk About Love. Í eigin leikstjórn með sjálfan sig í aðalhlutverki. Hann er afar tæpur og fær til sín annan leikara, Edward Norton, sem er jafnvel enn tæpari en þykir mjög hæfileikaríkur og hann ýtir Keaton lengra af sporinu. En svo má segja að sögnin í myndinni sé að listin verði til á þessum tæpa stað – í hinni hráu tilfinningu, brjálæðislegu nautn, ótta, dauðaþrá, greddu jafnvel. Þessu var lengi vel held ég tekið sem gefnu – en eftir leikhús-metoo finnst mér einsog það verði varla lengur. Í stað þess að leikhúsið sé staður þessa brjálæðis á það að vera vinnustaður þar sem maður getur talið sig óhultan – faglegur vinnustaður þar sem vinnur faglegt fólk. Hvað sem því líður er Birdman frábær mynd – a.m.k. snappsjott af ástandi ef maður tekur henni ekki sem fagurfræðilegu manifestói. *** Ég horfði á uppistandið Bangin’ með Nikki Glaser. Það var ekki spes. Ég var búinn að sjá treilerinn og bestu brandararnir voru þar. Sennilega væri þetta skemmtilegra ef maður væri átján ára. Kannski ekki samt – ekki mjög woke. Best kannski ef maður er fertugur en átján ára í anda. *** Fyrsta jólabókaflóðsbókin sem ég las var Við erum ekki morðingjar eftir Dag Hjartarson. Bókin fjallar um unga konu sem gaf út bók sem setti líf hennar úr skorðum – maður veit ekki mikið meira en það kemur smám saman í ljós þessa einu nótt sem bókin annars spannar, meðan hún segir manni sem hún býr með (þau leigja sitthvort herbergið) alla sólarsöguna. Það er eitthvað gott að gerast í fyrrihlutanum, einhver stemning – faglegheit, for lack of a better word, en líka eitthvað næmi, stíll, innsýn. Það truflaði mig stundum hvað bókin vísar oft í samtíma-Reykjavík og hvað kærasti konunnar – Benni – á sér augljósa fyrirmynd (það er ekki síst lúðalegt í ljósi þess hvert sagan svo leitar). Á einum stað segir stúlkan við sambýlismanninn að hluta vandræða hennar megi rekja til þess að á Íslandi lesi allir skáldsögur með símaskrána til hliðsjónar (eða eitthvað álíka, ég man þetta ekki orðrétt). Kannski er það eitthvað svona meta-komment á Við erum ekki morðingjar sem er einmitt full af símanúmerum sem maður getur auðveldlega tengt við raunverulegt fólk – án þess þó að vera lykilróman eða mikil tíðarfarslýsing, bókin dvelur fyrst og fremst í sársauka aðalsöguhetjunnar og þessir lyklar segja manni ekkert annað en hvar höfundurinn sótti fyrirmyndir sínar. Ekki heldur um fólkið sem er fyrirmyndir. Þetta er svolítið einsog að sjá bíómynd þar sem maður þekkir mikið af statistunum í bakgrunni – og einn af aðalleikurunum hefur verið rækilega tæpkastaður. En jæja. Ég var nú samt að fíla þetta alveg fram í blálokin. Plottpunkturinn – þegar maður kemst loksins að því hvað það var sem olli öllum þessum harmi – er síðan ekki góður. Ég held ég hafi hreinlega æpt upphátt „nei!“ þegar hann loks birtist og liðið svona einsog þegar maður er að spila jenga og er alveg að vinna en rekur sig svo klaufalega utan í og allt hrynur. Að því sögðu var heilmikið að gerast fram að hruni og þetta leit að mörgu leyti vel út – var sprúðlandi sálfræðiþriller nokkuð fram yfir hlé. *** Serían Live With Yourself er með Paul Rudd í aðalhlutverki. Uppleggið er mjög fínt. Þunglyndur fjölskyldufaðir uppgötvar kóreskt spa sem lofar honum – fyrir 50 þúsund dollara – algerlega endurnýjuðum lífskrafti og lífsviðhorfi og hann hefur ástæðu til að trúa því að þetta virki (vinnufélagi hans hefur gert þetta og farið í gegnum ferlið). Hann slær til – það fer eitthvað úrskeiðis þegar er verið að svæfa hann og hann vaknar lifandi grafinn úti í skógi nokkrum klukkustundum síðar. Skakklappast heim til sín en finnur þar fyrir sjálfan sig – hamingjusamari útgáfu – sem veit ekki heldur hvaðan á sig stendur veðrið. Í ljós kemur að hann hefur verið klónaður án galla sinna og átti að deyja – einsog aðrar frummyndir klóna til þessa. Þeir þurfa svo að finna einhverja leið til þess að vera báðir til í heiminum. Fyrstu 3-4 þættirnir eru fínir. Svo verða skrifin alltaf væmnari og væmnari og maður fær engu meiri innsýn í persónurnar – þær hætta að þróast og mikið af upprunalega vandamálinu (þunglyndinu) er bara látið óhrært, einsog það hafi aldrei verið til. Eiginkona Rudds er ekki nema sjónarmun verr skrifuð en hann sjálfir (já, sjálfir) en það munar samt einhverju – allt of þunnt. Þetta endar svo á ótrúlega heimskulegu glotti. Já og Paul Rudd er góður í að leika svona næs en ringlaða sæta náunga – en það er hrikalegt að láta hann leika í mjög dramatískum senum, alveg út í hött, hann bara getur þetta ekki. *** Ég ætlaði fyrst að sjá Joker á fríkvöldinu mínu í París en þegar ég kom í bíóið var biðröð út á næsta horn og ég sá ekki betur en allir í röðinni væru þegar með miða. Ég fór leiður heim á hótel en fattaði svo að ég ætti annað fríkvöld í Keflavík daginn eftir og þar var auðvitað líka verið að sýna Joker – í hálftómum sal, bara ég og nokkrir Pólverjar (sennilega höfðar myndin betur til meginlandsbúa). Ég er búinn að sjá svo marga skrifa að þeir ætli nú að bera í bakkafullan lækinn um þessa mynd að ég veit ekki hvar ég á að byrja. Ég fílaði hana. Að því sögðu er Joker auðvitað ekki góðmenni – eða neins konar Che Guevara fígúra heldur. Ekki Greta Thunberg. Engin fyrirmynd vestrænna sósíalista. Hann er fórnarlamb kerfis sem stendur á sama um smælingja – geðsjúkur maður sem fær ekki hjálp. Í myndinni krystallast þetta ástand og reiðin í þjóðfélaginu vellur og vellur. En Joker sem útleið er auðvitað ekki bara hinn fátæki og reiði, heldur líka trúðurinn, vitleysingurinn, Trump og Boris og Vigdís Hauks og Sigmundur í ósamstæðum skóm að éta hakk á ritzkexi á Snapchat. *** Næst á jólabókaflóðslistanum var Korngult hár, grá augu eftir Sjón. Sjón er einfaldlega einn allra besti rithöfundur sem Íslendingar hafa átt og sá þeirra sem höfðar einna mest til mín – hann hefur sína eigin auðþekkjanlegu fagurfræði, sem er kannski sprottinn af súrrealismanum en er löngu orðin að einhverju öðru í hans meðförum, og ég les bækurnar hans ölvaður af aðdáun einsog veiklað fanboi. Að því sögðu er ég ekki alveg sannfærður um þessa tilteknu bók – hún er allavega ekki jafn augljóst meistaraverk og síðustu tvær (Codexinn og Mánasteinn). Það er margt í henni sem nær til mín en að sama skapi gríp ég sums staðar í tómt – kannski þarf ég bara að lesa hana aftur og kannski er ég bara löngu orðinn saddur af nasisma og kannski er ég að leita eftir einhverju sem ég átti von á en er ekki til staðar og þá þarf ég sennilega fyrst að komast yfir það. Miðkaflinn í bókinni fannst mér bestur – bréfin og skjölin. Þar finnst mér Gunnar Kampen og heimurinn sem hann lifir í birtast skýrast. Sennilega er leiðin að hjarta þessarar bókar í gegnum persónuna fyrst og síðan að restinni – þaðan stækki hún. En meira að segja bara rétt svo í meðallagi góð Sjónsbók er samt Sjónsbók – samt frábær – hún hefur vaxið frá því ég lét hana frá mér og ég yrði ekkert hissa þótt hún ætti eftir að halda því áfram um dálítið skeið. *** Þriðja jólabókaflóðsbókin var Aðferðir til að lifa af eftir Guðrúnu Evu. Ástin Texas – kom hún út bara í fyrra? Hún var allavega frábær og Aðferðir til að lifa af er það líka. Aðferðirnar er ekki smásagnasafn en samt smásagnasafn – og jafnvel örsagnasafn. Sagan vindur sér á milli sögumanna og sjónarhorna sem ryðja mjög gætilega yfir mann heilum mannsævum af tráma og ást og sérkennilegheitum. Einhvern veginn bæði þægilega óþægilegt og óþægilega þægilegt aflestrar – minnir mig á bækur sænskrar vinkonu minnar, Idu Linde, a.m.k. að þessu leyti, og líka þannig að þær undirstrika svo rækilega hvað er alltílagi að vera svolítið fokkt opp, að vera ringlaður og í rugli, hornskakkur í tilverunni. Mér finnst alltaf aðeins auðveldara að standa á fætur þegar ég hef lesið – allavega þessar síðustu tvær Guðrúnar Evu. *** Fjórða jólabókaflóðsbókin var Gráskinna eftir Arngrím Vídalín. Það er eitthvað lífrænt við þessa bók og það er eitthvað mjög ólífrænt við hana. Ég er ekki viss um að mér finnist hún alveg ganga upp. Fyrstu 120 síðurnar eru nánast einsog formáli að endalokunum, síðustu 20 síðunum – og hugsanlega hefði hún bara verið betri sem óplottuð mannlýsing/ævisaga. Að því sögðu er plottið mjög flott, sem og snúningurinn á því, og endirinn góður og aðalsöguhetjan – eina persónan sem maður tengist nokkuð af viti – vel sköpuð. Ég hefði viljað dvelja meira í mónómaníu Jóhannesar og minna í einhverjum sögum af ættmennum hans – sem þess utan virka stundum mjög anakrónískar, manni finnst stundum nánast einsog Jóhannes sé að alast upp á stríðsárunum, þessi borgaralegi Grönvold-heimur á miklu meira skylt við sagnaheim gullaldar Kiljans en síðustu 30 árin. Og þá meina ég ekki að borgarastéttin sé ekki til, hún sé ekki íhaldssöm og hómófóbísk – það bara lítur ekki svona út lengur, held ég, er öðruvísi í laginu. Stíllinn er mjög lillgammal líka – gamall fyrir aldur fram og þarf svo sem ekki að koma neinum á óvart sem hefur lesið Vídalín fram til þessa. En fínn, sem sagt, mestmegnis rembingslaus og samræmi út í gegn. *** Preacher – lokasería. Við Nadja höfum verið að dunda okkur í gegnum Preacher síðustu misserin. Þetta er sería byggð á teiknimyndasögublöðum um predikara – Jesse Custer – kærustuna hans, Tulip, og besta vin þeirra sem er vampíra (og ástfanginn af Tulip). Jesse hefur hlotið mátt sem nefnist Genesis og gerir honum kleyft að skipa fólki fyrir verkum. Þrímenningarnir eru að leita Guðs, sem er bókstaflega horfinn úr himnaríki, og í lokaseríunni stefnir allt í heimsslit, sem orkestreruð af Guði í samstarfi við sértrúarsöfnuð og messías, sem er ekki Kristur heldur þroskaheftur sonur Krists, Humperdink, eftirlæti afa síns, Drottins almáttugs. Þetta er ógeðslega blóðugt og ógeðslega skemmtilegt. Mikið rugl, mikið gaman, mikið kaos, mikill töffaraskapur og húmor. *** Kanadíska bíómyndin Mommy var sýnd á RÚV á dögunum en við Nadja horfðum á hana í gærkvöldi. Hún fjallar um einstæða móður, son hennar sem er brjálæðislega – glæpsamlega – ofvirkur og vinkonu þeirra, stamandi nágranna. Móðirin og sonurinn eru svokallað hvítt hyski, inn að beini, og allt þeirra fas ber merki stjórnlausrar hysteríu frammi fyrir óleysanlegum vandamálum í heimi sem er aldrei með þeim í liði. Gleðin birtist þegar vandamálin eru hunsuð – þegar það er hægt að hunsa þau – og hverfur einsog dögg fyrir sólu þegar ekki er lengur hægt að hunsa þau. Þau eyða gríðarmiklum tíma í að ræða vandamál sín, þekkja þau, fantasera um leiðir út úr þeim en aldrei þannig að maður – sem áhorfandi – trúi því að þetta muni hafast. Maður sér ekki einu sinni leiðir út úr þessu sjálfur. Strákurinn er stórhættulegur, ofbeldishneigður rasisti, og á sama tíma (einsog Gunnar Kampen – en samt ekki) viðkvæmt blóm. Þeir sem gefast upp á honum – eða ógna honum, reyna að konfrontera hann – eru ekki sýndir í mjög sympatísku ljósi en samt sér maður ekki sjálfur hvernig maður gæti hanterað hann í eigin lífi, jafnt þótt manni hafi lærst að þykja vænt um hann og mömmu hans á þessum tveimur tímum sem myndin starði mann niður. *** Ég fór í plötubúð í París í síðustu viku og var næstum búinn að kaupa Jeff Beck plötuna Jeff Beck Group fyrir 8 evrur en hætti við vegna þess að ég náði aldrei almennilega sambandi við Blow by Blow sem ég keypti í fyrra. Svo setti ég hana á á Spotify þegar ég var að fljúga af stað úr bænum – áður en ég byrjaði að horfa á Birdman – og fannst ég einsog algert fífl, af því Jeff Beck Group er frábær. Miklu lífrænni tónn en á Blow by Blow, meira svona fyrir mig. Allavega – ég keypti reyndar Graceland með Paul Simon og fyrstu plötu Stray Cats (og Seventh Son of the Seventh Son fyrir Aram) en ég sé eftir að hafa ekki keypt þessa líka. Og þess vegna er Jeff Beck gítarleikari vikunnar, af því að ég er fífl. Lagið er að vísu af Wired, en það er sama.
id““:““68la7″“
Það eru allir í bleikþvottinum þessa dagana og því var ekkert öðruvísi farið á metalfestivalinu Skogsröjet í Rejmyre á síðustu helgi þar sem einn torgsalanna hafði kolefnisjafnað suðurríkjafánann (sem er klassískt þungarokkstákn ofan í allt annað) með regnbogafána samkynhneigðra. Næstu fánar fyrir neðan á stönginni eru hefðbundinn sjóræningjafáni með hauskúpu og beinum og svo Liverpool-fáni. Ég var einmitt búinn að vera að velta því fyrir mér hvernig þetta yrði tæklað í metalheiminum. En þar er í sjálfu sér hefð fyrir að stefna saman ólíklegustu táknum og þetta því kannski viðbúið. Og hvað gerðist svo á Skogsröjet? Ég missti af Jono og Magnum – við því var ekkert að gera – og Doro afbókaði vegna umferðarvandræða á þýskum autoböhnum (sem mig grunar að sé nýja „bassaleikarinn fingurbrotnaði“ afsökunin). Skid Row ollu mér ólýsanlega miklum vonbrigðum. Hljómsveitin er á öðrum söngvara frá því Sebastian Bach var rekinn fyrir nærri 20 árum – fyrir að hafa bókað sveitina til upphitunar fyrir KISS – og eru svolítið einsog fimmta skolvatn af útspýttu hundskinni. Ég stóð samt stjarfur allan tímann og lét þetta yfir mig ganga. Sándið var lélegt, sérstaklega í byrjun, og nýi söngvarinn getur bara einfaldlega ekki sungið. Að vísu stendur um hann á Wikipediu að hann sé „þekktur fyrir ótrúlegt raddsvið sitt“ og að „brjóströdd“ (e. chest voice) hans ein og sér höndli „ríflega fjórar áttundir“. En ég held mér sé alveg óhætt að fullyrða af fenginni reynslu að það sé ekki satt, það er bara bull, hann heldur ekki einu sinni lagi. Hugsanlega nær hann úr hæstu tónum niður á þá dýpstu – á þessum fjögurra áttunda sviði – en það vantar þá meiripartinn af nótunum þar á milli. Hlustið bara á þetta – byrjunina á 18 And Life: //www.youtube.com/get_player og svo þetta, einsog það er á plötunni: Ég hefði alveg getað fyrirgefið Sebastian Bach að hafa misst röddina og notið þessa samt – en það er óafsakanlegt að ráða ósyngjandi söngvara þegar aðrir eru í boði. Hann hlýtur að vera alveg rosalega skemmtilegur í rútunni. Á móti kom að Europe – með Joey Tempest enn í fararbroddi – kom bara talsvert á óvart. Bæði þekkti ég fleiri lög með þeim en ég átti von á (þ.e.a.s. a.m.k. tvö ef ekki þrjú plús Final Countdown og Carrie) og svo voru þeir bara vel spilandi og með gott sjó (mér finnst samt einsog ég sé að glata rosalega miklum trúverðugleika við að viðurkenna þetta). Sirkabát annað hvert lag virtist vera af nýrri plötu og það var bara alltílagi efni. Svo var stemningin auðvitað sturluð – að hafa séð Europe spila Final Countdown í Svíþjóð – í miðri evrópukrísu – bætir mér eiginlega upp að hafa (rétt svo) misst af Scorpions spila Wind of Change við tíu ára afmæli múrfallsins í Berlín árið 1999. Af yngri hljómsveitum leist mér best á stelpurnar í Crucified Barbara – og þar á eftir strákana í Hardcore Superstar. Stelpurnar í Thundermother voru flottar líka en máttu gjalda fyrir lélegt sánd (það var eiginlega regla á öðru sviðinu að sándið væri slæmt í byrjun, einsog hljóðmaðurinn væri eitthvað ringlaður).
Queensrÿche voru fínir en lagasmíðarnar höfða mismikið til mín – Jet City Woman kannski það eina sem virkilega kom mér til. Ég var illa stemmdur á Dream Theater. Þeir eru mikið í því að vera bara fáránlegir virtúósar og eiga það alveg skuldlaust (ég veit ekki hvort nokkur hljómsveit rokksögunnar stenst þeim þar snúning) en það vantar aðeins í þá stuðbandið, það verður alveg að viðurkennast. Það er einhver leiði í þessu proggrokki, þótt maður geti í sjálfu sér staðið á öndinni líka af aðdáun yfir spilamennskunni. Bloodbound voru góðir – en samt einhvern veginn furðu óeftirminnilegir. Ég man ekkert nema að mér fannst gaman. Udo Dirkschneider og félagar í U.D.O. áttu stórleik. Gítarleikararnir voru báðir af þeirri tegundinni sem virðast hafa vaxið saman við hljóðfærin sín einhvern tíma í fyrndinni og eiga þar með álíka erfitt með að hrista út úr erminni epísk gítarsóló eða þéttriðin metalriff og aðrir eiga með að klóra sér í rassgatinu. Það skiptir auðvitað engu máli fyrir rödd Udos að hann skuli eldast – stíllinn er þannig að það gerir eiginlega bara gott betra, hann eldist einsog sá gamli stálraspur sem hann er – og melódíurnar eru bornar uppi af hljómsveitinni (sem syngja líka bakraddir og eru sirka hundrað árum yngri en Udo – og var væntanlega talið það til tekna í ráðningarferlinu að geta haldið lagi, annað en nýja söngvaranum í Skid Row). Ég tók þetta myndband af sólói sem verður að Für Elise og rennur svo í lokin á Accept-slagaranum Metal Heart (sem þeir voru að spila áður en sólóið hófst – þetta er svipað á plötunni). //www.youtube.com/get_player Saxon, sem voru að fagna 35 ára starfsafmæli, er svo eiginlega sami pakki – nema Bill Byford gat og getur enn sungið. Hann er líka eini frontmaðurinn í svona stadiumrokki sem ég hef séð verða innilegur við salinn (ekki reyndar einsog ég sé alltaf á stórum tónleikum) – var alltaf að spjalla við einhverja krakka fremst í 5-10 þúsund manna krádi, einsog hann væri að spila á litlum pöbb. En þarna er maður auðvitað ekki síst að hneigja sig fyrir tónlistarsögunni – og tilbiðja við altari þungarokksins – og verða lítið barn á ný. Það er langt síðan ég hef skemmt mér jafn vel. Þetta er myndband frá því í fyrra, af Crusader – þarna eru þeir með talsvert stærra set-up en í Rejmyre – en það kom ekkert að sök. Ég sá í sjálfu sér nokkur fleiri bönd – en ekkert sem orð er á hafandi miðað við þessi.
id““:““9coq1″“
Það hefur verið hljótt á blúsblogginu í nokkrar vikur en blúsbloggarinn hefur alls ekki slegið slöku við. Ég hef legið í ævisögum og fræðiritum – Say No To The Devil: The Life and Musical Genius of Reverend Gary Davis, Josh White: Society Blues; Charley Patton: Voice of the Mississippi Delta; Texas Flood: The Inside Story of Stevie Ray Vaughan; Beyond the Crossroads: The Devil and the Blues Tradition; Mississippi John Hurt: His Life, His Time, His Blues og Blues All Around Me: The Autobiography of B.B. King. Af þessum eru Charley Patton bókin – eftir Elijah Wald, sem er afar snjall – og Reverend Gary Davis bækurnar bestar en allar ágætar. Auk þess að lesa blús hef ég verið blúsaður og leikið blús. Síðastliðinn fimmtudag hélt ég tónleika ásamt Skúla frænda mínum í gömlu bókaverzluninni á Flateyri. Þar skiptumst við á að leika lög og lékum nokkur saman. Ég tók St. James Infirmary Blues, How Long, How Long Blues, Walkin’ Blues, Come On in My Kitchen og Statesboro Blues óstuddur en saman lékum við Folsom Prison Blues, Chocolate Jesus, It Hurts Me Too og Ég ætla heim (eftir Skúla). Ég áttaði mig á því að þrjú af þessum lögum voru fyrst tekin upp árið 1928 (How Long, St. James og Statesboro). Ég var vægast sagt taugaveiklaður og fór í gegnum þetta í einhverju móki. Það er svo skrítið – ég var með mikinn sviðskrekk fyrstu 10 árin sem ég las upp á sviði og þótt ég verði enn pínu stressaður myndi ég ekki kalla það sviðskrekk. En þegar ég fer með gítar upp á svið byrja ég strax að skjálfa. Það er einsog þetta séu tveir óskyldir sviðskrekkir. Þetta voru sem sagt fyrstu en vonandi ekki síðustu blústónleikarnir mínir. Gestir voru sennilega um tíu talsins. Hvað um það. Einsog þetta væri allt saman ekki nóg til að halda mér frá blúsblogginu – sem er auðvitað minn höfuðstarfi – þá horfði ég líka á bíómyndina Crossroads frá árinu 1986. Með börnunum mínum. Sem maður ætti eiginlega ekki að gera. Þetta er ekki barnamynd. En þetta er eiginlega ekki heldur mynd fyrir fullorðna. Kannski er þetta bara mynd fyrir eitísbörn sem mega heyra gamla karla tala um að næla sér í píku og depla ekki augunum við tilhugsunina um að sautján ára flökkustúlkur selji hálfsköllóttum suðurríkjarasistum líkama sinn í neyð (eða geri tilraun til þess). Crossroads var leikstýrt af Walter Hill og í aðalhlutverkum eru Ralph Macchio – Karate Kid – Joe Seneca og Jamie Gertz (úr Lost Boys og Less Than Zero). Seneca var líka tónlistarmaður og sviðsleikari – kom beint á settið á Crossroads úr leikritinu Ma Rainey’s Black Bottom eftir August Wilson sem hafði gert stormandi lukku á Broadway. Hann var eða varð upp úr þessu sérfræðingur í að leika gamla blúsmenn og gerði það meira að segja í einum Matlock þætti (þættinum The Blues Singer). Tónlistin í myndinni er eftir Ry Cooder – sem er sennilega óumdeildasti hvíti blúsmaður tónlistarsögunnar og eitt af betri kvikmyndatónskáldum (mæli ekki síst með Paris, Texas sándtrakkinu, sem byggir á Dark Was The Night, Cold Was The Ground eftir Blind Willie Johnson). Myndin floppaði illa á sínum tíma. „Macchio has got all the soul of a Spaghettio“ skrifaði gagnrýnandi The Toronto Star og flestir voru á sömu línu. Myndinni er hins vegar alls ekki alls varnað – þótt hún sé ekki neinn Ingmar Bergman – og lék áreiðanlega á þandar taugar fleiri ungra gítarleikara en bara mínar á sínum tíma. Þá var hún sennilega lykilatriði í því að Robert Johnson og krossgöturnar festust í alþýðuminninu – frekar en að vera bara anekdóta fyrir músíknörda. Í sem stystu máli fjallar kvikmyndin um ungan gítarleikara – Eugene Martone (Macchio), 17 ára undrabarn og blúsnörd frá Long Island sem nemur klassískan gítarleik við Julliard. Hann hefur bitið í sig að Robert Johnson hafi samið 30 lög en ekki bara þau 29 sem hann tók upp og einsetur sér að hafa upp á 30. laginu með einhverjum ráðum. Hann finnur gamlan félaga Roberts, munnhörpuleikarann Willie Brown (Seneca), á elliheimili fyrir glæpamenn, og telur víst að kunni einhver lagið sé það hann. Willie Brown kannast ekkert við neitt í fyrstu en semur loks við Martone um að ef hann frelsi sig og fari með sig niður til Mississippi þá muni hann kenna honum lagið týnda. Upphefst nú mikil æsiför af buddy-road-movie taginu niður til Mississippi – og á leiðinni slást þeir í för með unglingsstúlkunni Frances, sem er dansari á flótta frá illum stjúpföður, og takast ástir með þeim Martone. Á leiðinni öðlast Martone þá reynslu sem manni er nauðsynleg til að leika blúsinn – kynnist erfiðleikum, lendir í ástarsorg og sýgur í sig fæðingarstað blússins, Mississippi-deltuna. Bakgrunnur alls þessa er auðvitað mýtan um að Robert Johnson hafi selt skrattanum sálu sína á krossgötunum í skiptum fyrir tónlistarhæfileikana. Í myndinni er lagt upp með að þetta hafi Willie Brown líka gert en nú vilji hann freista þess að endurheimta sálina áður en hann hrekkur upp af. Í raunveruleikanum átti Robert Johnson vin sem hét Willie Brown – en sá var eiginlega fyrst og fremst vinur Son House og lék á gítar. Eftir hann liggja þrjú lög en auk þess lék hann undir hjá Son House, Patton og fleirum. Hann þykir sérstaklega mikill snillingur. Hápunkti nær kvikmyndin í frægri lokasenu þar sem Ralph Macchio keppir við skjólstæðing andskotans (sem er reyndar aldrei kallaður annað en Legba eða Scratch í myndinni), Jack Butler, sem Steve Vai leikur. Það er alveg í hæpnasta lagi að kalla Jack Butler blúsgítarleikara þótt hann leiki sinn neoklassíska metal yfir 12 bara blúshljómagang. Í húfi er ekki bara sál Willie Brown heldur líka sál Eugene Martone. Martone og Butler skiptast á likkum – Butler leikur neoklassík og Butler blúsar hana upp. Svo tekur Butler tryllinginn og allt útlit er fyrir að Martone hafi tapað. En eftir dálítið hik teygir Martone sig niður í sálardjúpin – niður í ræturnar – og dregur upp útgáfu af fimmtu etýðu Paganinis sem hefur verið nefnd „Eugene’s Trick Bag“. Butler gerir sitt besta en gefst að lokum upp og gengur bugaður af sviðinu. Martone og Brown leika eitt lokalag og ganga svo út í sólsetrið – Brown viðurkennir loks að Martone sé ekki alveg gersamlega hæfileikasnauður og lofar að fylgja honum til Chicago, kenna honum aðeins meira, en svo sé hann á eigin vegum. Fyrir utan að vera sögð léleg hefur myndin verið gagnrýnd fyrir allt milli himins og jarðar, ekki síst það hvernig hún hanterar kynþáttamálin. Tveir hvítir gítarrúnkarar keppa um það sem í grunninn er auðvitað krúnan – framtíð blússins í lok tuttugustu aldar. Annar er að eltast við að stela tónlist svarta mannsins (týnda laginu, sem reynist ekki vera til), hinn er hreinræktaður metalrúnkari á tímum þegar það er einmitt þungarokkið sem er talið „tónlist djöfulsins“ og sá sem vinnur dregur fram evrópskan jóker, Paganini, til að trompa. Jóker, sem vel að merkja er, einsog Robert Johnson, talinn hafa verið skjólstæðingur andskotans (en í hans tilfelli var það víst mamma hans sem seldi sálina). Þetta eru nokkur lög af symbólík og fólki er alveg vorkunn að vilja afskrifa þetta sem þvæling. Ég er hins vegar svolítið skotinn í þessu öllu saman og þetta er hvað sem öðru líður lýsandi fyrir ákveðna tilvistarkreppu í blústónlist um miðjan níunda áratuginn þegar flestir gömlu svörtu blúsararnir eru að hverfa af sjónarsviðinu og hvítir blúsarar að taka við. Þeir höfðu auðvitað verið með frá því í upphafi sjöunda áratugarins en einhvern veginn lent í öðru boxi – verið kallaðir blúsrokkarar einsog Clapton eða folk-tónlistarmenn einsog Dylan eða eitthvað annað eftir atvikum. Það er ekki fyrren með Stevie Ray Vaughan og Texas Flood sem hvítir tónlistarmenn fara að hala inn Handy-verðlaunum sem dæmi – og eru ekki kallaðir neitt annað en blúsarar. Þá má ekki gleyma því að þeir Butler og Martone eru fyrst og fremst skjólstæðingar lærimeistara sinna – strengjabrúður, skylmingaþrælar, undirsátar svartra karlmanna. Martone er í upphafi fulltrúi gamla blússins en fyrir tilstilli Browns kaupir hann sér telecaster („Muddy Waters invented electricity“ er ein af betri línum myndarinnar), pignose magnara og slide. Butler er fulltrúi einhverrar úrkynjunar sem er talin – af blúshausum – vera sálarlaus, en á vegum Legba (sem er afrískur flærðaguð – sem hafði hugsanlega áhrif á djöflasýn afrísk-amerískra þræla, en er alls ekki heiti sem hefur verið neinum tamt á þeim tíma, einsog er látið í myndinni). Butler hefur farið styttri leiðina – selt sálu sína – og þótt maður geti gert grín að því að tveggja vikna ferðalag um Mississippi eigi að kenna sautján ára stráklingi allt um innstu vé blámans þá er áherslan að minnsta kosti á það sem Brown kallar „mileage“, á sjálfa reynsluna, að maður fái ekkert án þess að vinna fyrir því. Sem er auðvitað líka sannleikurinn um Robert Johnson – í stað þess að selja sálu sína fór hann í læri hjá Ike Zimmerman og æfði sig linnulaust og laug því svo af og til að hann hefði gert samning við andskotann. Það var svokallað markaðstrix. Ef að Jack Butler er Eddie Van Halen þá er Eugene Martone Stevie Ray. En í þeirri sögn gleymist auðvitað að það voru líka svartir blúsarar að gera það gott á þessum tíma – framtíðin var ekki bara hvít – ekki síst Robert Cray. Þegar lokasenan var tekin upp var hún líka miklu lengri og innihélt undanúrslit þar sem svartur blúsmaður tapar fyrir Jack Butler áður en Martone kemur á sviðið – og það er líka til útgáfa í handriti þar sem Jack Butler var svartur. En framleiðendur myndarinnar ráku sig strax á ómöguleikann: það var ekki hægt að gera mynd þar sem hvítur strákur vinnur svartan blúsmann. Hvorki Butler né Martone gátu unnið svartan mann. Það var einfaldlega of viðkvæmt pólitískt, þótt það væri sirka það sem var að gerast á vinsældalistunum. Eitt af vandamálunum við Robert Cray er að hann er í einhverjum skilningi miklu hvítari en Stevie Ray – hann er meira adult contemporary, meiri lyftutónlist. Nú eru sannarlega til upptökur með Cray þar sem skortir ekki skítinn en frami hans byggir samt mjög á öðrum og ómþýðari tónum. Cray og Stevie Ray voru hins vegar báðir aðlaðir af sér eldri blúsmönnum – Albert King tók Stevie Ray upp á sína arma og Albert Collins tók Robert Cray upp á sína.
Það er líka eitthvað fallegt við að Martone skuli svo spila Paganinibastarðinn. Í fyrsta lagi vegna þess að það er „hans“ kúltúr – ekki bara evrópskur heldur líka Julliard. Í öðru lagi vegna þess að Paganini er líka – einsog blúsinn og metallinn – djöfulleg tónlist. Í þriðja lagi vegna þess sá Paganini sem hann blastar á magnaðann Telecaster er bastarður – tónlistarkennarasnobbið úr Julliard hefði fyrirlitið þetta; þetta er hins vegar músík sem Butler ætti að eiga betra með að spila en ræður samt ekki við. Og í fjórða lagi er útgáfan blússkyld – þetta er ekki bara hans kúltúr, þetta er sándið frá Muddy og Buddy, og blúsinn hefur alltaf verið bæði móttækilegur fyrir utanaðkomandi áhrifum og gjarn á að ryðja sér rúms í annarri tónlist. Það er ekki til nein blúslaus vestræn dægurtónlist. Ef maður skoðar Crossroads sem einhvers konar táknsögu fyrir framtíð blússins er líka eitt og annað fleira sem sker í augun. Í fyrsta lagi eru auðvitað engar konur neins staðar – þrátt fyrir að t.d. Koko Taylor hafi gert það gott á þessum árum. Í öðru lagi – og kannski fylgist þetta einmitt að – er ekkert sungið í framtíð blússins. Willie Brown syngur eitt lag í myndinni – sem Joe Seneca samdi með Ry Cooder – en Eugene syngur ekki píp og Jack Butler segir ekki einu sinni orð. Blúsmenn fortíðarinnar sem vísað er til – Robert, Son House, Muddy og bæði hinn sagnfræðilega kórrétti Willie Brown og Willie Brown myndarinnar – eru hins vegar allir söngvarar og í einhverjum tilvikum (Son og Muddy) að mörgu leyti betri söngvarar en þeir eru gítarleikarar. Stevie Ray og Robert Cray voru báðir söngvarar. Jack Butler og Eugene Martone eru hreinræktaðar gítarhetjur og eiga kannski meira skylt við Joe Bonamassa og Eric Gales – sem þrátt fyrir að syngja eru varla söngvarar nema í algeru aukastarfi. Þá verður manni hugsað til þess sem Muddy Waters sagði á sínum tíma um hvíta blúsara að þeir gætu spilað blús á gítar en þeir gætu ekki sungið (eða vókalíserað, sagði hann) blúsinn.
id““:““78mtb““
Í gærkvöldi lék hljómsveitin Uncle Doghouse á knæpunni Bankiren í Västerås. Gestur var gítarleikarinn og söngvarinn Thomas Hultman og upphitun var í höndum ungs deltablúsleikara sem kallar sig Preachin’ Lips. Í salnum var meðal annars hinn frægi Kjell Höglund – handhafi Cornelisverðlaunanna – það var klappað sérstaklega fyrir honum en hann var ekki þarna til að skemmta heldur til að láta skemmta sér. Gaman að segja frá því. Gestaþak var 45 manns vegna kórónaveirunnar, allir sátu við sitt borð, miðaverð var 100 SEK (1600 kall – sem er umtalsvert lægra en maður á að venjast), það var matur í boði og þjónað til borðs (ég fékk mér hamborgara, hann var ljúffengur). Hljómsveitin lék tvö sett í gær – hið fyrra var auglýst 17.00 en hið síðara 21.00. Þegar ég keypti miðana, sem ég gerði snemma vegna þess hve fáir voru í boði, var sagt að okkur væri hollast að mæta hálf-fimm til að geta pantað mat og svona. Það reyndist allt fullkominn óþarfi. Tónleikarnir byrjuðu ekki fyrren rúmlega 18.00 og þá vorum við búin að borða. Best hefði verið að mæta bara þá. Bankiren er áhugaverður staður. „Sunkig“ er orðið sem ég notaði til að lýsa honum fyrir Nödju (eftir að ég fór til að kaupa miðana, sem maður þurfti að gera í eigin persónu, og helst í reiðufé). Sjabbí, heitir það sennilega á góðri íslensku, en ég meina það í bestu merkingu – staðurinn er líka gamalgróinn. Þetta er í einhverjum skilningi klassísk úthverfaknæpa – svona í áttina að Catalinu í Kópavogi. En hún stendur alveg í hjarta miðbæjarins þar sem er annars ekkert að finna nema hipsterakeðjur og gleraugnaverslanir og H&M og þvíumlíkt. Mér leið strax frekar vel þar inni þegar ég kom að kaupa miðana. Þá voru fáir gestir og flóamarkaður á sviðinu en það var fullt á tónleikunum. Gestir voru sennilega flestir milli fimmtugs og sextugs, góðglatt fólk, sumir svolítið rauðnefja, áreiðanlega fáir úr efri lögum samfélagsins. Ég hugsa að eini maðurinn þarna inni sem var yngri en við Nadja hafi verið Preachin Lips. Hann mætti upp á svið með gítarinn í tösku – national resonator – snyrtilega greiddur, klæddur í svartar buxur, blankskó, hvíta flibbalausa skyrtu og gamaldags axlabönd. Og svo lék hann deltablús. Og gerði það ágætlega en aldrei þannig að maður yrði agndofa. Kannski truflaði það mig að það var einsog hann vildi gera þetta átentískt – fara í períóðuleikinn, cosplayið – en þá vantaði bara ýmislegt upp á. Þegar mér fannst passa að melódían nyti sín – einsog í upphafinu á Walkin’ Blues – spilaði hann sloppí; og þegar mér fannst að sloppí væri fínt og bítið mæti njóta sín, einsog í Pony Blues, var hann of mikið að eltast við óþarfa krúsídúllur. Hugsanlega hefði hann líka mátt hafa míkrafón við fótinn á sér – maður þarf eiginlega að heyra stappið. En ég vil ekki vera of neikvæður – þetta var mjög skemmtilegt og sannarlega ekki á hverjum degi sem maður fær að heyra deltablús leikinn live. Uncle Doghouse með Thomas Hultman. Svo komu Uncle Doghouse. Þeir byrjuðu á að taka eitt sett með gítarleikaranum og söngvaranum Thomas Hultman, sem virðist vera af Stevie Ray skólanum – spilar blús með sándi sem sker í gegnum allt (sennilega eitthvað svona tube screamer með miðtíðnina í botni dæmi) og syngur alltaf neðan úr þindinni. Þeir léku fimm lög saman – byrjuðu á Sweet Home Chicago í Chicago-blús útsetningu en með gamla textanum hans Roberts Johnson („to the land of California“) og sungu auðvitað um Västerås frekar en Chicago. Svo Riding With The King eftir John Hiatt í útgáfu BB King og Eric Clapton, man ekki næsta (var það Why I Sing the Blues?), svo Talk to Your Daughter eftir JB Lenoir í Robben Ford útsetningunni og loks Can’t Get Enough eftir Bad Company. Þá var stutt pása áður en Uncle Doghouse tók til við sitt eigið sett – sem var sennilega 50/50 þeirra eigin lög og annarra. Hljómsveitin samanstendur af söngvaranum Zoltan Todor, gítarleikaranum Conny Klintberg, trommuleikaranum Ragge Johannesen, nýjum bassaleikara sem ég náði ekki hvað hét og orgel- píanó- og munnhörpuleikaranum Håkan Falknäs. Þétt band og vel æft og greinilega mikil vinátta í hópnum – þetta er alveg áreiðanlega gert vegna þess að þetta er gaman. Það vantaði svolítið upp á sándið úti í sal – sérstaklega var óþarflega lágt í gítarnum. Það er landlægur sjúkdómur hjá gítarleikurum að yfirgnæfa annað hvort allt eða passa sig svo rækilega á að vera ekki gaurinn sem yfirgnæfir allt að þeir þora ekki að hækka almennilega í sér. Sem er eiginlega verra í tónlist sem er fyrst og fremst gítardrifin. Þá var meira gaman að heyra í honum leika þegar hann skipti um gítar – lagði frá sér stratocasterinn og tók upp einhvern eins humbucker ZZ Top gítar sem mér sýnist af heimasíðu bandsins að sé sérsmíðaður (allavega bara merktur „Klintberg“). Það var einsog hann fyndi sig betur með hann. Söngvarinn er af Commitments skólanum og fínn sem slíkur – alltaf með slappan handlegginn upp að síðunni à la Joe Cocker. Mikil tilfinning. Sennilega hreifst ég samt mest af bassaleiknum – það var mikið swing í honum – og orgelleiknum hjá Håkan. Hljómsveitin er frá Västerås og það voru áreiðanlega margir í salnum sem þekktu frumsömdu lögin þeirra en ég var bara búinn að renna plötunum þeirra einu sinni og dró Nödju með mér á þeirri forsendu að sennilega væri þetta betra live. Ekki að lögin séu léleg en þau eru heldur ekkert spes. Og þegar hálft settið manns er síðan grjótharðir klassíkerar er erfitt að ætlast til þess að manns eigin lög séu mjög eftirminnileg. Áherslan – bæði í frumsömdu og ábreiðum – var á hvítt, seventís blúsrokk. Eftirminnilegast var Thunderbird eftir ZZ Top, sem bassaleikarinn söng, (ég meina það ekki söngvaranum til hnjóðs – lagið er bara svo gott) en þarna voru líka Hush eftir Deep Purple og Rock n’ Roll Hoochie Koo með Johnny Winter og álíka titlar. Það hafa verið talsverðar mannabreytingar í bandinu og í þessu myndbandi er nýi söngvarinn kominn, en gamli gítarleikarinn – Ecke, sem mun hafa samið megnið af lögunum – enn í bandinu, sem og gamli bassaleikarinn. Ég sagði frá því síðast að sennilega yrði „þrífari vikunnar“ ekki fastur liður á blogginu. Hér eru hins vegar tvífarar vikunnar – Håkan Falknäs og Palli Hauks, sem stýrir Blúshátíðinni á Patreksfirði (og er vinur minn úr Tottenhamklúbbnum). Ætli stefni þá ekki í einfara vikunnar í næstu viku. Hehe. Palli og Håkan.
id““:““8mkdg““
Um þriðjungur mannkyns mun hafa fengið spænsku veikina á sínum tíma í fjórum bylgjum og á bilinu 17-50 milljónir manns féllu í valinn. Faraldurinn hófst árið 1918 og stóð til 1920, þegar fyrsta blúsbylgjan hófst fyrir alvöru með Crazy Blues með Mamie Smith. Í ljósi þess að blúsinn er í grunninn alþýðutónlist og sem slíkur topikal – þ.e. hann fjallar um það sem er í deiglunni, um örlög starfsmanna á plani og plantekru – þá vekur athygli að tiltölulega fá lög fjalla um þennan ofsalega flensufaraldur. Að vísu dóu þá nokkuð færri í Bandaríkjunum en víða annars staðar – á bilinu 500-850 þúsund manns (miðað við 200 þúsund af Covid þegar þetta er skrifað) eða 0,5-0,8% af heildarmannfjöldanum – en margir veiktust og einn af hverjum 200 er heldur ekki ekki-neitt. Eðlilegasta útskýringin held ég að sé sú að fyrsta áratuginn eða svo – áratug blúsdrottninganna svonefndu – var blúsinn alls ekki alltaf harmrænn. Það var meiri áhersla á hedónisma og ákveðið siðleysi – og tónlistin var lækning við bláma sálarinnar, aðferð til þess að reka hina svörtu hunda á brott, frekar en einfaldur harmsöngur. Einsog Ida Cox söng: „Wild women don’t worry / wild women don’t get no blues“. Þegar að hinir þunglyndari gítaristar mæta á svæðið til að segja sínar sögur er flensan einfaldlega gleymd og grafin undir fargi nýrra harmleikja – Mississippi áin flæðir yfir bakka sína, ofbeldi Jim Crow tímabilsins og Ku Klux Klan er í algleymingi, kreppan er hafin og brauðstritið þrúgandi. Það voru aðrar sögur sem þurfti að segja. Önnur útskýring er að blúsinn er gjarn á að fjalla um hið sértæka frekar en hið almenna. Þannig er nóg til af blúslögum um sjúkdóma – Blind Lemon syngur í Pneumonia Blues að hann sé kominn með lungnabólgu af því að standa úti og bíða eftir ástinni sinni sem aldrei kemur; Bukka White syngur í High Fever að hann fari til læknisins til að kvarta undan sótthita en læknirinn segir að hann sé bara ekki nógu duglegur að fá sér knús; Victoria Spivey er vinalaus með berkla í TB Blues; Memphis Minnie er nær dauða af lífi af heilahimnubólgu í Meningitis Blues – en giska fá um faraldra. Þriðja útskýring er einfaldlega að gospeltónlistin – sem var gjarna stillt upp sem andstæðu blússins – átti sterkara tilkall til frásagna um veikindi og dauða. Þegar að blústónlistarfólk syngur um almennar flensur og veikindi, feigð og dauðalegu, er það yfirleitt að syngja gospel – með sínu nefi, en samt. Það vill síðan til að þessi togstreita milli blúss og gospels, drottins og syndarinnar, dauðaþrárinnar og lífsnautnarinnar markaði líf margra blústónlistarmanna og þess vegna eigum við lög einsog John the Revelator með Son House (sem predikaði jafnvel milli laga og fyrirvarð sig fyrir að vera annars að spila sína djöfullegu músík): Lagið John the Revelator er alþýðugospel sem Blind Willie Johnson var fyrstur til að taka upp. Um Blind Willie má það segja að hann er ýmist kallaður blús- eða gospeltónlistarmaður. Mér vitanlega söng hann aldrei um lífsins yndissemdir eða dásamaði syndina – öll hans lög fjalla um dýrð drottins og textarnir eru príma gospel. En hann spilar þau í stíl sem er ekki hægt að kenna við gospel með góðu móti – til þess er of mikið af blúsnótum, of mikill andskoti í röddinni. Ég á ekki við að hann sé ekki gospeltónlistarmaður – bara að hann sé augljóslega ekki ekki blústónlistarmaður líka. Og Blind Willie er þess vegna sá eini sem ég hef getað fundið frá þessu tímabili sem syngur um inflúensufaraldurinn (sem slíkan). In the year of 19 and 18, God sent a mighty disease. It killed many a-thousand, on land and on the seas. Well, we done told you, our God’s done warned you, Jesus coming soon. We done told you, our God’s done warned you, Jesus coming soon. Great disease was mighty and the people were sick everywhere. It was an epidemic, it floated through the air. Well, we done told you, our God’s done warned you, Jesus coming soon. We done told you, our God’s done warned you, Jesus coming soon. The doctors they got troubled and they didn’t know what to do. They gathered themselves together, they called it the Spanishin flu. Well, we done told you, our God’s done warned you, Jesus coming soon. We done told you, our God’s done warned you, Jesus coming soon. Seinna í sama lagi koma svo línur sem einhverjum gætu þótt kunnuglegar í dag: Well, the nobles said to the people, ”You better close your public schools.” ”Until the events of death has ending, you better close your churches too.” We done told you, our God’s done warned you, Jesus coming soon. Fyrir þá sem eru hrifnari af Cowboy Junkies er líka til fín útgáfa af þessu lagi með þeim – af plötu þar sem ýmsir samtímamenn okkar votta Blind Willie virðingu sína , þar á meðal Tom Waits, Sinead O’Connor og Lucinda Williams. Blind Willie er raunar tíðrætt um spænsku veikina – og syngur líka um hana í uppáhalds laginu mínu með honum, God Don’t Never Change („God in the time of sickness / god and a doctor too / in the time of influenza / he truly was a god to you“). Besta inflúensulagið er hins vegar sungið af annars óþekktri söngkonu sem heitir Essie Jenkins. 1919 Influenza Blues. Ég hef verið að reyna að grafast eitthvað fyrir um hver hún var og komist litlu nærri (ég hef meira að segja lagt inn fyrirspurn á twitter til Ted Gioia, sem er einhver ofsalegasti blúsfræðingur samtímans). Lagið er að hluta til eftir hana sjálfa og tekið upp 1962 og gefið út af Arhoolie útgáfunni árið 1965. Essie er sjálf sennilega fædd 1931 og dó þá í ár – 25. febrúar, rétt í upphafi kórónafaraldursins. En þetta eru getgátur. Lagið er, einsog mörg blúslög, byggt á eldra lagi sem heitir Memphis Flu frá 1930 og er eftir mann sem kallast Elder David Curry. Lag Currys fjallar hins vegar um seinni flensufaraldur sem gekk yfir árið 1929 – og er nánast samhljóma laginu Influenza sem Ace Johnson söng fyrir þjóðfræðinginn John Lomax 1939. Þegar Essie snýr upp á það fjallar það hins vegar um spænsku veikina 1919. It was nineteen hundred and nineteen;
Men and women were dying,
With the stuff that the doctor called the flu.
People were dying everywhere,
Death was creepin’ all through the air,
And the groans of the rich sure was sad. Það er eitt og annað áhugavert að gerast í þessum texta. Eitt af því sem skilur harm flensunnar frá öðrum harmi og dauða á þessari gullöld harmsins er að flensan gerir ekki mannamun – einsog Bjarni Ben benti á erum við öll í sama bátnum (samt ekki, ekki varðandi aðrar afleiðingar – og ég veit ekki hvernig það var þarna 1919 en kórónaveiran leggst harðar og verr á fátækt fólk og jaðrað, af ýmsum ástæðum). Þórðargleðin leynir sér ekki þegar Essie syngur um kvein hinna ríku – loksins mega helvítin þjást með okkur hinum. Well it was God’s almighty plan,
He was judging this old land,
North and south, east and west,
It can be seen,
He killed the rich, killed the poor,
And he’s gonna kill some more,
If you don’t turn away from the shame. En í grunninn er auðvitað leiðinlegt að við séum að drepast svona fyrir tímann og eina leiðin til þess að komast hjá því er að við snúum baki við skammarlegum lífsháttum okkar. Hér bergmálar líka orðræða umhverfisverndarsinna og grænkera frá því í vor – að við getum sjálfum okkur um kennt að éta kjöt (kórónaveiran kemur úr kjötvinnslu) og með henni létti þunganum af móður jörð (við fljúgum minna, keyrum minna o.s.frv.). Allt slæmt sem kemur fyrir okkur er í grunninn afleiðing af gjörðum okkar – við erum sjálf hið vonda í heiminum. Þegar ég kópípeistaði textann tók ég eftir að sá sem skrifaði hann upp hafði skrifað „it killed the rich“ o.s.frv. frekar en „he killed the rich“. Það fannst mér áhugaverð misheyrn. Því hjá Essie fer ekkert á mili mála að það er ekki flensan sem drepur okkur – það er Drottinn sem drepur okkur. Flensur don’t kill people, God kill people, einsog segir í orðskviðunum. Down in Memphis, Tennessee,
The doctor said it soon would be,
In a few days influenza would be controlled.
Doctor sure man he got had,
Sent the doctors all home to bed,
And the nurses all broke out with the same. Það er alveg sama hvað læknarnir rembast. Loforð um sóttvarnir og bóluefni eru til einskis. Dauðinn kemur og sækir hina feigu. Influenza is the kind of disease,
Makes you weak down to your knees,
Carries a fever everybody surely dreads,
Packs a pain in every bone,
In a few days, you are gone.
To that hole in the ground called your grave. Og þannig er það nú bara. AUKAEFNI Influenza með Ace Johnson. Það hafa oft komið upp dellur í blúsnum – í kjölfar TB Blues Victory Spivey hér að ofan komu ótal margir berklablúsar. Það eru nú nokkur ár á milli þessara lungnabólgublúsa Blind Lemons, Big Bill Broonsy og Lightnin’ Hopkins, en það hlýtur samt að mega kalla þetta dellu. Og auðvitað verður enginn veikur einsog Skip James. Bukka White er ekkert lasinn – hann þarf bara að fá smá ást. Hér eru Cowboy Junkies með Blind Willie Johnson lagið sem var hér að ofan líka. Memphis Minnie er bókstaflega við dauðans dyr. Nú erum við kominn til samtímans. Ágætis kassagítarsblús frá Lane Steinberg. Þetta er einhvers konar indí-blús. Jonas Alaska er norskur „folk“ tónlistarmaður. Maður þarf ekki að horfa mjög lengi á þetta til að sjá hver hans helsta fyrirmynd er. Að lokum er það auðvitað minn maður. Ginsberg er veikur og nær honum ekki upp – sennilega er það slæma karmað eftir að hafa riðið öllum sætu strákunum.
id““:““39vt5″“
Fátækt á þriðja og fjórða áratugnum. Seinni heimsstyrjöldin. Víetnam. Katrina. Blúsinn er kannski alltaf í grunninn pólitísk tónlist, einsog Angela Davis hefur viljað meina – tónlist frelsunar og félagslegrar pólitíkur hins persónulega – en hann einblínir samt fyrst og fremst á reynslu einstaklingsins og er sjaldan narratífur og hentar því illa í dæmisögur eða breiðar samfélagslýsingar eða mótmælasöng. Blúsinn fjallar ekki um það þegar allir vöknuðu kvenmannslausir í kulda og trekki, hann fjallar um það þegar ÉG vaknaði kvenmannslaus í kulda og trekki. En það eru samt tímabil hér og þar og einstakir listamenn sem voru og eru pólitískir. Einsog stundum fyrir þessar færslur gerði ég langan spilunarlista með helstu „pólitísku blúsunum“ og síðan raðaði ég lögunum eftir ártali til þess að fá einhvers konar yfirsýn yfir þróunina. Það sem blasti við voru fjórar kveikjur – kreppan, stríðið, Víetnam og Katrina. Auðvitað væri hægt að gera lista með einu lagi frá hverju ári ef maður vildi skoða þróun pólitíska blússins sem slíks en þá myndi maður missa af lægðunum, svo að segja. Það er líka áhugavert að fátæktarlögin á fyrsta tímabilinu byrja áður en kreppan skellur á. Nobody Knows You When You’re Down and Out er auðvitað þekkt og fjallar um fallvaltleika ríkidæmisins – ekki beinlínis neitt kommalag, þótt það sé frábært – og kemur út rétt fyrir hrunið 1929. En heilu ári fyrr gefur Bessie út Poor Man’s Blues þar sem fátæka konan snýr sér að ríka manninum og ákallar hann: While you livin’ in your mansion
You don’t know what hard time means
While you livin’ in your mansion
You don’t know what hard time means
Oh, workin’ man’s wife is starvin’
Your wife is livin’ like a queen
Sem er náttúrulega áminning um að þrátt fyrir allt grobbið og glitsið í kringum blúsinn á hinum hvínandi þriðja áratug fyrir kreppu var lítill jöfnuður meðal manna og bara fámenn klíka sem Jay Gatsby lífsstílnum. Ríkidæmið í kringum þær týpur er í sjálfu sér stundum lofsungið, en það undirstrikar líka óréttlætið að þeir sem fljóta upp úr fátæktinni inn í millistéttir, efri-millistéttir og hástéttir er allt hvítt fólk. Þá undirstrikar ríkidæmið líka bara hið almenna óréttlæti kapítalismans, að sumir eigi fullt og aðrir fátt. Söngkonur einsog Bessie virðast líka hafa lagt sig eftir því að syngja pólitísk lög allan þriðja áratuginn – í blábyrjun ferils síns, 1923, syngur hún til dæmis hið feminíska Sam Jones Blues. Þegar ódámurinn sem hefur farið illa með hana birtist við dyrnar syngur hún: I used to be your lawful mate
But the judge done changed my fate
Was a time you could-a’ walked right in
And call this place your home sweet home
But now it’s all mine, for all time
I’m free and livin’ all alone
Don’t need your clothes, don’t need your rent
Don’t need your ones and twos
Though I ain’t rich, I know my stitch
I earned my strutting shoes
Say, hand me the key that unlocks my front door
Because that bell don’t read Sam Jones no more, no
You ain’t talkin’ to Mrs. Jones
You speakin’ to Miss Wilson now Það eru ekki endilega fleiri örbirgðarblúsar eftir kreppu en fyrir – gítarblúsararnir sem tóku við af hinum fjölmennu og glitrandi vaudeville-sveitum voru vissulega fátækir og lifðu í kulda og trekki en þeir lifa líka til hliðar við hið breiða samfélag manna og litu ekki á sig sem málsvara eins eða neins, nema í besta falli dansgólfsins og lífsnautnanna (sem voru aðallega landi og konur). En þeir voru samt nokkrir og þar á meðal sá allra fallegasti blús sem ég hef nokkurn tíma heyrt og ég hef líklega deilt hér tvisvar nú þegar með höfundinum, Skip James, og kominn tími til að fá kover. Þetta er Buddy Guy á plötu frá 2004. Þá er ekki síður áhugavert að þótt kveikjurnar séu þarna á tilteknum tímabilum þá er ekki þar með sagt að öll lögin séu bara alltaf um Víetnam og kreppuna og stríðið og Katrínu – heldur er meira einsog þjóðfélagsstemningin kalli á tiltekna afstöðu til lífsins, að annað óréttlæti verði líka ljósara. Big Bill Broonzy semur t.d. When Will I Be Called a Man árið 1928 (en það kemur ekki út í hans útgáfu fyrren 55), sem fjallar um kynþáttahatur, og Billie Holiday gefur út Strange Fruit árið 1939 (með talsverðum erfiðismunum eftir að Colombia hafnar því), sem fjallar um aftökur á svörtum mönnum. Á árunum í kringum stríðið syngur Lead Belly Bourgeois Blues, Take This Hammer og Jim Crow Blues – ekkert þeirra fjallar um stríðið en svo á hann auðvitað líka Mr. Hitler.
En Lead Belly var gjarnan pólitískur og það voru t.d. Josh White og J.B. Lenoir líka, alveg sama hvenær maður kom að þeim. Josh White er sennilega einn af fyrstu alvöru dægurlagasöngvurum vesturlanda sem gerir hreinlega út á að vera pólitískur söngvari. Josh var prestssonur og kommúnisti frá suðrinu sem náði gríðarmiklum vinsældum í Bandaríkjunum og komst meira að segja í gott vinfengi við Roosevelthjónin á stríðsárunum – þau voru guðforeldrar sonar hans og nafna. Síðar syrti í álinn þegar McCarthyisminn hóf innreið sína í bandarískt samfélag og hann dregur sig mikið í hlé. Hann afneitaði kommúnismanum við nefndina, sagðist hafa verið leiddur á villigötur, en neitaði að gefa upp nöfn félaga sinna – sem var helsti gjaldmiðillinn ef maður vildi fá að lifa og starfa áfram óáreittur (í umræðu um svartlistun og „aflýsingu“ er gjarnan látið einsog það sé ekki ritskoðun nema maður hafi helst pappír upp á að maður hafi verið svartlistaður – eða að það eigi enginn frægð sína heldur sé hún forréttindi sem hægt sé að innkalla ef maður reynist ekki í húsum hæfur – bæði er að einhverju leyti satt og helbert kjaftæði, en fyrst og fremst er þetta allt grátt svæði). Í öllu falli hraktist White úr landi til Englands og var þar fram til 1955 – en sama ár kom þetta lag:
Free and Equal Blues er samið löngu fyrr og byggir á hinu fræga St. James Infirmary, sem enginn veit hver samdi, en Josh hafði sjálfur átt stóran smell með árið 1944. En textinn er ólíkt pólitískari – í stað þess að fjalla um mann sem finnur elskuna sína látna á spítala er það um mann sem fer á spítala og spyr lækni hvort blóðplasmi sem hann rekur augun í sé úr svörtum manni eða hvítum og læknirinn fer að útskýra að á slíku sé ekki nokkur munur. Forsendan er einföld og boðskapurinn didaktískur – fyrsta erindið kannski banalt – en svo tekur White á flug og textinn verður miklu brjálaðri (og nánast rappaðri) en í orginalnum: So I stayed at that St. James Infirmary.
(I couldn”t leave that place, it was too interesting)
But I said to the doctor, ”Give me some more of that scientific talk talk,” and he did:
He said, ”Melt yourself down into a crucible
Pour yourself out into a test tube and what have you got?
Thirty-five hundred cubic feet of gas,
The same for the upper and lower class.”
Well, I let that pass . . .
”Carbon, 22 pounds, 10 ounces”
”You mean that goes for princes, dukeses and countses?”
”Whatever you are, that”s what the amounts is:
Carbon, 22 pounds, 10 ounces; iron, 57 grains.”
Not enough to keep a man in chains.
”50 ounces of phosophorus, that”s whether you”re poor or prosperous.”
”Say buddy, can you spare a match?”
”Sugar, 60 ordinary lumps, free and equal rations for all nations.
Then you take 20 teaspoons of sodium chloride (that”s salt), and you add 38
quarts of H2O (that”s water), mix two ounces of lime, a pinch of chloride of
potash, a drop of magnesium, a bit of sulfur, and a soupֱon of hydrochloric
acid, and you stir it all up, and what are you?”
”You”re a walking drugstore.”
”It”s an international, metabolistic cartel.”
And that was news, yes that was news, Þetta sama ár, 1955, birtist svo Muddy Waters og svaraði spurningunni sem Big Bill hafði spurt á tónleikum 1928 (en ekki gefið út fyrren einmitt þetta sama ár líka), hvenær hann yrði kallaður maður, með laginu Mannish Boy. Einsog ég hef nefnt kemur óþolinmæðin með rafmagnsblúsnum – og skal engan undra. Útlegging Muddys var enda sú að hann skildi kallaður maður strax, umyrðalaust, og ekkert kjaftæði. Af því ég er búinn að spila það hérna áður (og allir þekkja það) læt ég nægja að spila stórgóða og afar ólíka útgáfu Jimis Hendrix frá 1967. Hippaárin eru gjöful þegar kemur að pólitískum blúsum. Það syngja næstum allir eitthvað um Víetnamstríðið – JB Lenoir er með Vietnam Blues (1965), John Lee Hooker með I Don’t Wanna Go To Vietnam (1968), Champion Jack Dupree með Vietnam Blues (1971), Lightnin’ Hopkins með Vietnam Wars Pt. 1 & 2 (1968) og hið frábæra Please Settle in Vietnam ári síðar. Þar harmar Lightning sannarlega stríðið en sér líka ákveðnar jákvæðar hliðar á því, með sínu eigin sérstæða Pollýönnunefi: My girlfriend got a boyfriend fighting
She don’t know when that man coming back home
I said I hope he’ll stay forever
Cuz I ain’t gonna leave that girl alone Og svo framvegis og svo framvegis; en það eru líka lög um annan harm og óréttlæti – Nine Simone er með nokkur geggjuð, t.d. Four Women (um örlög fjögurra kvenna) og Backlash Blues (um allra handa óréttlæti, m.a. Víetnam), Mimi og Richard Farina eru með Mainline Prosperity Blues („Well, companion, you’ll forgive me / if I seem unwilling to succeed“). Upp úr 1970 er svo að koma þreyta í mannskapinn og árið 1972 koma Little Feat með lagið A Apolitical Blues – sem Van Halen koveruðu á plötunni OU812 (sem er einmitt fyrsta platan sem ég átti á geisladisk og ég fékk að gjöf frá móðurbróður mínum, Tryggva Hübner, sem er heiðursfélagi í Blúsfélagi Íslands og einhver allra besti gítarleikari landsins). Lagið er einsog létt útlegging á forhippískum smelli Bítlanna, Revolution, þar sem Maó formaður hringir í ljóðmælanda en ljóðmælandi bara nennir ekki að tala við hann í dag. Þetta ku versti blús allra blúsa („that’s the meanest blues of all“) – að vakna ekki bara kvenmannslaus heldur þreyttur á samfélagsmálunum, algerlega ópólitískur, hugsanlega bara samviskulaus. Í útgáfu Little Feat upplifir maður þetta sem í senn grín og alvöru – það er eitthvað létt og skiljanlegt í því – en Van Halen útgáfan er einhvern veginn kaldari. Einsog Little Feat viti betur en að halda að maður þurfi að nenna Maó (eða Maóistum) til að vera pólitískur – á meðan Van Halen vilji bara skreyta sig með því að vera sama.
Stóru augljósu lægðirnar í pólitískum blúsum sýnast mér vera um miðjan fjórða áratuginn og frá stríðslokum og fram til 1960 – með þeim undantekningum þó að á þeim tíma er JB Lenoir á fullu, Muddy gefur út Mannish Boy og Floyd Jones kemur með verkalýðsblúsinn Stockyard Blues: Frá því um 1970 og hreinlega fram að fellibylnum Katrínu 2005 er fátt um fína drætti. Auðvitað eru lög – það eru alltaf lög og yfirleitt góð lög – en pólitískur blús er hvorki í tísku né nær hann máli að ráði. Stevie Ray koverar bítlalagið Taxman (með svolítið harðari beiskju), Louisiana Red semur Reagan is for the Rich Man, Sunnyland Slim tekur upp Be Careful How You Vote, Odetta koverar Jim Crow Blues eftir Lead Belly og RL Burnside á kombakk á bakinu á Jon Spencer’s Blues Explosion og gefur út hið æææææææææðislega og fullkomlega súrrealíska Tojo told Hitler.
Svo kemur 9/11 og fjórum árum síðar fellibylurinn og þá verður sprenging. Otis Taylor kemur með Rosa, Rosa (2002) og Ten Million Slaves (2003), Guitar Shorty er með We, The People (2006), Norman og Nancy Blake eru með Don’t Be Afraid of Neo-Cons (2006), Charlie Musselwhite með Black Water (2006), Watermelon Slim er með samnefnt lag ári síðar, BB King koverar Backwater Blues eftir Bessie Smith (sem fjallar um flóðin í Mississippi 1927, sem var algengt þema í blúslögum þá – má líka nefna When the Levee Breaks eftir Memphis Minnie, sem Led Zeppelin gerðu að sínu – en vísar auðvitað í Katrínu og New Orleans þegar BB tekur það), Derek Trucks tekur Band-lagið Down In The Flood (2009), Roy Zimmerman er með Chickenhawk (2006) og svo framvegis. Yfirsýn mín verður verri eftir því sem nær dregur samtímanum en ég held að botninn hafi svolítið dottið úr þessu upp úr 2010. Ég er ekki með neitt lag frá 2009 til 2018 – þegar Delgrés gefa út hina geðveiku Mo Jodi plötu þar sem meðal annars má finna Mr. President. 2019 gefur Gary Clark jr. (sem er kannski ekki minn tebolli þótt lagið venjist) út This Land. En í þessu grúski rakst ég líka á eitt lag eftir Corey Harris, sem ég hef haldið upp á þótt þetta lag hafi farið framhjá mér. Corey var í stóru hlutverki í fyrstu myndinni í fimm kvikmynda seríu Scorseses um blúsinn, Feel Like Going Home, og ég uppgötvaði hann fyrir 1-2 árum í gegnum kover af God Don’t Ever Change eftir Blind Willie Johnson. Nánast í þessum orðum skrifuðum renndi ég yfir lagalistana á síðustu plötum hans – af því ég hef fylgt honum á Twitter og veit hann er pólitískur þótt ég hafi lítið spáð í það í tengslum við lögin (mest hlustað á koverin hans) – og þá bara birtist þetta og ég hlustaði á það og ég get svoleiðis svarið það að mér lá við að fara grenja. Það er greinilega nýbúið að hlaða laginu upp á YouTube en það er tveggja ára gamalt af plötunni Free Water Way. AUKAEFNI: Listinn – og hlekkur á playlistann á Spotify . Ég hefði getað tiltekið miklu fleiri lög frá bissí árunum – en mjög lítið fleira frá lægðarárunum. 1923 Sam Jones Blues – Bessie Smith 1928 Poor Man’s Blues Bessie Smith 1928 When Will I Be Called a Man – Big Bill Broonzy (tekið upp 1955) 1929 (What Did I Do to Be So) Black and Blue Louis Armstrong 1930 When the War Was On – Blind Willie Johnson 1931 orginall, 2004 með Buddy – Hard Time Killing Floor Buddy Guy 1937 Bourgeois Blues Lead Belly 1939 Strange Fruit Billie Holiday 1940 Take This Hammer Lead Belly 1940 Jim Crow Blues Lead Belly 1941 Southern Exposure Josh White 1941 Uncle Sam Says – Josh White 1942 Mr. Hitler Lead Belly 1943 War Song Buster Brown 1947 Stockyard Blues Floyd Jones 1951 Black, Brown and White Big Bill Broonzy (samið 45) 1954 Eisenhower Blues – J.B. Lenoir 1954 I’m in Korea J.B. Lenoir 1954 Livin’ In The White House J.B. Lenoir 1955 Free & Equal Blues (samið 40ogeitthvað) – Josh White 1955 Mannish Boy Muddy Waters 1960 Democrat Man – John Lee Hooker 1963 Red’s Dream – Louisiana Red 1965 No Payday Here J.B. Smith 1965 Vietnam Blues J.B. Lenoir 1965 Mainline Prosperity Blues Mimi And Richard Farina 1966 Four Women – Nina Simone 1967 Backlash Blues – Nina Simone 1967 Politician – Cream 1968 Big Boss Man – Jimmy Reed 1968 I Don’t Wanna Go To Vietnam John Lee Hooker 1969 Please Settle in Vietnam Lightnin’ Hopkins 1969 Vietnam T-Bone Walker 1969 Poor Moon – Bonus Track Canned Heat 1969 Why I Sing the Blues – BB King 1970 This is not a song, it’s an outburst: or the establishment blues – Rodriguez 1972 A Apolitical Blues Little Feat (líka til með Van Halen!) 1983 Reagan is for the Rich Man – Louisiana Red 1986 Taxman – Stevie Ray Vaughan 1989 Be Careful How You Vote – Sunnyland Slim 1996 Tojo Told Hitler R.L. Burnside 2001 Jim Crow Blues Odetta 2002 Ten Million Slaves Otis Taylor 2003 Rosa Rosa – Otis Taylor 2004 The Problem – JJ Cale 2006 Waves Of Grain Two Gallants 2006 We The People Guitar Shorty 2006 Don’t Be Afraid Of the Neo-Cons Norman Blake, Nancy Blake 2006 Chickenhawk Roy Zimmerman 2006 Black Water Charlie Musselwhite 2007 Bring The Boys Back Home David Evans 2007 Jesus And Mohammed Candye Kane 2007 You Don’t Really Wanna Know Charlie Wood 2008 A Time For Peace Eddy Clearwater 2009 Dubb’s Talkin’ Barnyard Blues Doug MacLeod 2009 Down in the Flood – Derek Trucks 2018 Mr President Delgres 2018 I Can’t Breathe – Corey Harris
2019 This Land – Gary Clark Jr.
createdTimestamp““:““2024-06-03T10:11:40.051Z““
id““:““b3cpi““
Áðan las ég frétt á vef Ríkisútvarpsins þar sem vitnað er til viðbragða Lönu del Rey við gagnrýni sem hún hefur fengið fyrir að syngja lög þar sem hún er sögð „upphefja ofbeldi“. Sem dæmi um slíka texta er nefnt lagið Ultraviolence og textabrotið: „He hit me and it felt like a kiss“. Þetta er tregafullt lag en þó ekki blús og verður ekki til umfjöllunar frekar hér. Það sem vakti hins vegar athygli blúsbloggarans voru lokaorð varnarræðu Lönu del Rey: But I also feel it really paved the way for other women to stop ’putting on a happy face’ and to just be able to say whatever the hell they wanted to in their music—unlike my experience where if I even expressed a note of sadness in my first two records I was deemed literally hysterical as though it was literally the 1920s.” Það var sem sagt þetta með bókstaflega þriðja áratuginn sem vakti athygli mína. Ég er svo sem vanur því að sjá ungt fólk trúa því að það hafi ekki náðst neinar raunverulegar framfarir í félagsmálum fyrren þau byrjuðu í háskóla og fóru sjálf að láta til sín taka – og man ágætlega hvernig það er að líða þannig. Sú óþolinmæði er forsenda margra framfara og ég lasta hana í sjálfu sér ekki. Íhaldssemi og frjálslyndi hafa samt að einhverju leyti alltaf sveiflast fram og til baka og það eru til tímar og staðir þar sem meira frjálslyndi ríkti en við almennt ímyndum okkur – jafnvel í fortíðinni. Oft horfir fólk þá til hippatímabilsins, sem ég held að sé nú talsvert ofmat, en á ábyggilega við einhver rök að styðjast. Ég hugsa oft sjálfur til Berlínar á þriðja áratugnum – þar sem t.d. fyrsta kynskiptiaðgerðin átti sér stað, og fólk lifði við mikið frjálsræði í kynferðismálum, það var allt morandi í sósíalistum og anarkistum og brjáluðum listamönnum. Þá voru tímar og staðir í kringum bítskáldin á fimmta og sjötta áratugnum – og lýsingar Gore Vidal á æsku sinni meðal auðuga og valdamikla fólksins (t.d. JFK) benda ekki til mikillar íhaldssemi. Á flestum stöðum og á flestum tímum hafa þetta hins vegar verið átök og ekki sama hvort maður er Jón eða séra Jón eða svarti Jón eða Jóna o.s.frv. Það sem komið hafði upp í huga minn þegar ég byrjaði að lesa þessa frétt var samt einmitt þriðji áratugurinn í bandarískri tónlist, áður en Lana fór að gera lítið úr honum – fyrst og fremst svartri tónlist og fyrst og fremst lagið Tain’t Nobody’s Business (If I Do). Auðvitað er einfaldlega fjarstæða að halda því fram að depurð í lagasmíðum hafi ekki átt upp á pallborðið á þriðja áratugnum – eða, maður verður þá allavega að tiltaka mjög nákvæmlega hvaða stað maður er að meina, kannski var depurð ekki í móð á bryggjuböllum á Siglufirði, ég veit það ekki – en það var mikið sungið um depurð og harm í deltunni og vaxandi stórborgum bæði í norðri og suðri Bandaríkjanna, og Tain’t Nobody’s Business er ágætis dæmi um það – og tilefni til að skoða sögu þess lítillega. Þetta lag er einn af fyrstu blússtandördunum og var upphaflega skrifað á tvo píanóleikara, Porter Grainger og Everett Robbins og tekið upp með söngkonunni Önnu Meyers. Þema textans er frelsi ljóðmælanda til að gera hvað sem henni (stundum honum) sýnist. Þriggja línu erindi þar sem fyrstu tvær leggja upp aðstæður og sú þriðja er alltaf eins: það kemur þér bara andskotann ekkert við. If I go to church on sunday
and strutt my stuff on monday
tain’t nobody’s business if I do. Eða If I should take a notion
to jump into the ocean
tain’t nobody’s business if I do. Einsog var svo algengt þegar lög slógu í gegn var þetta svo tekið upp af annarri hverri söngkonu á næstu árum – þar á meðal Söru „the Famous Moanin’ Mama“ Martin og Albertu Hunter. En þekktasta útgáfan frá þessu tímabili er án efa útgáfa Bessie Smith – sem er tregafyllri, minna einfalt stuðlag og hún nær einhvern veginn að miðla alvöru efnisins best. Að þetta er ekki alveg einfalt heldur margbrotið – frelsið er best en það er líka sárt og flókið og það er ekkert frelsi nema maður hafi réttinn til að gera alls konar vitleysu líka. Kannski var það líka fyrst þá sem fólk staldraði almennilega við eitt erindið (á wikipediusíðu lagsins er m.a.s. mjög greinilega gefið í skyn að Bessie hafi verið fyrst til að syngja þetta erindi, en það er alls ekki raunin): I swear I won’t call no copper
if I get beat up by my poppa
tain’t nobody’s business if I do. Um þetta er margt að segja. Í fyrsta lagi að ofbeldi var daglegt brauð í í lífi þessa fólks. Þetta er alls ekki eina blúslagið sem fjallar um ofbeldi af þessari tegund og á þennan hátt – en það var raunar ekki síður algengt að konur syngju lög um að hefna sín á ótrúum mökum sínum. T.d. Sleep Talking Blues með Ma Rainey – þar sem maðurinn hennar missir út úr sér nafn ástkonu sinnar í svefni og vaknar aldrei aftur. Bessie átti líka frægt lag sem heitir Send Me To The ’Lectric Chair: I love him so dear
I cut him with my barlow
I kicked him in the side
I stood here laughing o’er him
While he wallowed around and died Og eitt frægasta lag Memphis Minnie fjallar um einkabílstjóra sem hún heldur fyrir elskhuga: „But I don’t want him / To be ridin’ these girls / To be ridin’ these girls around /So I’m gonna steal me a pistol, shoot my chauffeur down.“ Og listinn yfir lög blúskarla um að skjóta konurnar sínar fyrir sams konar glæpi myndi fylla bók einn og sér – mörg þeirra eru miklu grófari. Frægast er kannski 22-20 Blues eftir Skip James eða Crow Jane – og þau eru allavega alls ekki færri en lög kvennanna. Ég man þó engin lög þar sem þeir syngja um að hafa verið barðir sjálfir. Það annars úir einfaldlega og grúir af ofbeldi í þessum lögum einsog það gerði í veruleika þessa fólks – þótt það sé lítið skrifað, ort eða sungið um ofbeldið sem blökkumenn urðu fyrir af hendi hvítra. Því er reyndar gjarnan líka haldið fram, án þess að ég kunni að sannreyna það, að mörg þessara laga um að skjóta konurnar sínar séu dulbúin lög um plantekrueigendur – það sé í raun verið að syngja um þeirra svik og fá útrás fyrir ofbeldisþrá í þeirra garð, en þeim skipt út fyrir konurnar – því annað kostar bókstaflega hengingu, um það þarf ekki að efast – og það er áreiðanlega a.m.k. eitthvað til í því, en það á samt varla við í lögum einsog Tain’t Nobody’s Business. Í öðru lagi hafa margir vitrir spekingar skrifað um þetta sem svartan húmor við svartar aðstæður – og það ber öllum sögum saman um það að þegar sungið var um kynlíf og ofbeldi á juke joint skemmtistöðunum í deltunni hafi fólk hlegið dátt. Þetta er upprunalega slappstikk – a.m.k. í og með. Sem þýðir ekki að það vísi ekki í raunverulega lífið – hættur fólks og áhyggjur og nevrósur. Það gerir svartur húmor alltaf. Í þriðja lagi má hafa í huga að þessi lög eru skrifuð og sennilega að mestu leyti samin af körlum. Þegar ég segi að mestu leyti á ég ekki bara við að þeir hafi samið flest lögin heldur að það er bara ekki víst að þótt þeir séu skrifaðir fyrir þessum lögum hafi þeir samið þau og alls ekki að öllu leyti. Það var pínu tilviljanakennt hver var skrifaður fyrir hverju og margir sem reyndu jafnvel að skrá á sig alþekkta sálma – ekki af neinum óþokkaskap heldur vegna þess að þeir litu á sína útgáfu sem nýja og þannig frumsamda (sem er miklu eðlilegra viðhorf en við búum við í dag að mínu mati). Svo púsluðust lög saman þegar þau fluttust frá einni hljómsveit til annarrar. Engu að síður er mikilvægt að hafa í huga að söngkonur einsog Bessie Smith sungu ekki hvaða rusl sem var – og hún söng aldrei neitt án þess að meina það og gæða það nýrri merkingu. Hún var listamaður en ekki glymskratti og hún var þrátt fyrir tímann og aðstæðurnar ekki viljalaust peð. En lagið er samt líklega a.m.k. að stærstum hluta samið af tveimur körlum. Um lagið og flutning Bessiear skrifaði Angela Davis meðal annars í Blues Legacies and Black Feminism: Bessie Smith’s recorded performance of Porter Grainger’s ”Tain’t Nobody’s Bizness If I Do”-a song also associated with Billie Holiday – is one of Smith’s most widely known recordings. Like ”Outside of That,”it has been interpreted as sanctioning female masochism. It is indeed extremely painful to hear Smith and Holiday sing the following verse so convincingly: [vitnar í sama og að ofan]. The lyrics of this song touched a chord in black women’s lives that cannot be ignored. While it contradicts the prevailing stance in most of Bessie Smith’s work, which emphasizes women’s strength and equality, it certainly does not annul the latter’s sincerity and authenticity. Moreover, the song’ seeming acquiescence to battering occurs within a larger affirmation of women’s rights as individuals to conduct themselves however they wish – however idiosyncratic their behavior might seem and regardless of the possible consequences. Þegar ég las þetta á sínum tíma hugsaði ég líka talsvert út í merkingu þess að hringja í lögregluna. Á þessum tíma – og að nokkru leyti enn, einsog þekkt er – hafði svart fólk í Bandaríkjunum ekkert æðislega mikla ástæðu til þess að treysta því að það hefði mikið að segja að hringja í lögguna. Ekki veit ég hvað lögreglan í Clarksdale hefði sagt ef svört kona hefði hringt árið 1923 til þess að kvarta undan því að hún hefði verið slegin – ekki getur það hafa verið alveg út í hött, fyrst það er nefnt í laginu (á þeirri forsendu að það að hringja ekki sé eitthvað sem maður verði fyrir gagnrýni fyrir). Og kannski var það öðruvísi í Atlanta en í Clarksdale. En eitthvað segir mér að það hafi kannski ekki alltaf gert illt betra að hafa lögregluna með í ráðum og það felist ákveðin ógn í orðinu „copper“ sem sé ekki minni en í orðinu „poppa“. Frank Stokes var líklega fyrsti karlinn til að syngja þetta lag – í köntríblúsútgáfu árið 1928. Þá er textinn mikið breyttur en það var líka alvanalegt að snúa textum upp á haus, bæta við einhverju frá eigin brjósti (og hefði verið algerlega fordæmalaust, held ég, að karl hefði sungið í orðastað konu). Lagið er reyndar líka svo mikið breytt að hann hefði alveg getað gefið það út sem sitt eigið – þetta er tólf bara blús sem ber keim af orginalnum en ekki mikið meira en það. Sennilega nýtti hann sér einfaldlega líkindin við vinsælt lag til að selja plötuna. Eða, og það er enn líklegra, var það bara útgefandinn – því Stokes syngur ekki einu sinni „if I do“ í viðlaginu heldur „nobody’s business but mine“ sem hljómar nú meira einsog klassísk köntríblúsbreyting til að eigna sér lag. Þetta er svo sama útgáfa og Mississippi John Hurt gerði það gott með í blúsendurreisninni – og sú sem Woody Guthrie tók upp. Einsog Angela nefnir tók Billie Holiday lagið svo upp síðar. Ég myndi nú segja að það væri minniháttar punktur á hennar mikla ferli. Jimmy Witherspoon átti hins vegar mikinn smell með þessu 1949 og syngur þá í fyrsta erindinu Some of these days I’m goin’ crazy
buy me a shotgun and shoot my baby
ain’t nobody’s business if I do Þessu erindi var nú svo yfirleitt bara sleppt – og Jimmy sleppti því held ég oft sjálfur live (einsog Lana sleppir barsmíðalínunni sem vitnað er til að ofan) – en það er mikill hræringur með textann og hann er svo sem ekki alltaf tandurhreinn miðað við þá standarda sem menn dæma texta Lönu del Rey (t.d. standard-erindi um að það komi engum við þótt maður sé eina stundina að rífast við skvísuna sína en þá næstu sé bara allt í góðu – ég held það kveiki á milljón viðvörunarbjöllum hjá hinum viðkvæmu, klassískt dæmi um narsissískan persónuleika og gaslýsingu!). Yfirleitt hefst hann núna á því sem áður var síðasta erindið: If one day we have ham and bacon
and the next day, there ain’t nothin’ shakin’
ain’t nobody’s business if I do Það eru svo auðvitað til ótal mismunandi útgáfur – enda myndi þetta varla annars reiknast sem standard. Otis Spann á útgáfu sem er alltílagi, BB King tók þetta upp í sínum stíl og svo aftur live-útgáfu með Ruth Brown, Hank Williams jr. gerði köntríútgáfu af Witherspoon versjóninni (án fyrsta erindisins) árið 1990, og svo framvegis og og svo framvegis. En ein fallegasta seinni-tíma útgáfan er án efa útgáfa Freddie King. Svo er „ekki hægt að láta hjá líða“, einsog heitir, að nefna útgáfu Taj Mahal – sem er kannski ekki jafn falleg og hjá Freddie en skemmtilegri sem því nemur. Þar breytir hann líka fyrsta erindinu í: Champagne don’t drive me crazy
cocaine don’t make me lazy
ain’t nobody’s business but my own Sem er nú óneitanlega vinalegra. Bónusútgáfa – af því það er svo erfitt að hætta þegar maður er byrjaður – er live-útgáfa BB King og Ruth Brown. Ekki bara af því þau eru einhvers konar heimsmeistarar í að vera krúttleg heldur líka af því þau eru svo skemmtileg gröð!