Fiðlari og faraldsfjölskylda

Síðustu tíu dagar hafa verið svolítið yfirdrifnir. Fyrst fór ég suður á stífar fiðlaraæfingar – sem enduðu á sýningu fyrir pakkfullu Þjóðleikhúsi síðasta laugardagskvöld. Sýningin tókst held ég að mér sé óhætt að segja afar vel – þrátt fyrir erfiðar aðstæður og fáein skakkaföll í leikaraliðinu. Forföll kostuðu okkur tvo leikara og einn músíkant, og óvænt veikindi kostuðu okkur eina aðalstjörnuna til viðbótar. En með nokkrum hlutverkaskiptingum, tveimur nýjum kórliðum og einum bjargvætti sem var sóttur alla leið til Leipzig, og það eiginlega á allra síðustu stundu, gekk þetta sem betur fer allt upp. En til þess máttum við – 40-50 manna hópur – líka taka okkur margra daga frí frá vinnu, koma okkur sjálf suður, redda okkur gistingu og æfa svo bókstaflega frá morgni til kvölds. Sveit og lúin og marin og illa lyktandi. Og ekki skil ég hvernig tæknifólkinu okkar tókst að láta allt sitt ganga upp – að flytja lýsingu og hljóð úr einu rými í annað með nánast engum fyrirvara eftir margra mánaða sýningahlé. Aðstaðan í Þjóðleikhúsinu er auðvitað ágæt en sýningin var hönnuð inn í allt annað rými og mér finnst jafn óhugsandi að þetta hafi tekist, þótt ég hafi horft á það gerast, og skil ekki hvernig það hefði átt að takast ef við hefðum komið inn í húsið daginn fyrir – einsog var víst upprunalega planið. Þá urðu eymsl á sýningu – Dýri „salto mortale“ Arnarson fór úr hnjálið í síðasta heljarstökkinu sínu í rússasenunni fyrir hlé, en var (eftir að hafa ráðfært sig við hjúkrunarfræðing, sem við áttum í leikhópnum) mættur í flöskudansinn sem gyðingur eftir hlé. Ég varð sjálfur fyrir öllu ómerkilegri meiðslum í brjóstkassa, sem ég tók ekki einu sinni eftir fyrren tveimur dögum seinna – sennilega eftir slagsmálasenu í sama brúðkaupi, og meira af því ég er að breytast í gamalmenni en af því ég sé heljarstökkvandi ofurhugi. Í dag er ég aftur farinn að geta andað djúpt og lyft handleggjunum og fyrir það er ég þakklátur. En þetta var í heildina stórkostlegt. Þá skipti ekki minnstu fyrir okkur í hópnum að nærri því allir – líka þeir sem forfallast höfðu á æfingunum og gátu ekki verið með í sýningunni – voru með okkur lokadaginn, þótt það væru ekki allir á sviðinu. Því þetta var umfram allt annað samvinnuverkefni. *** Á sunnudeginum eftir sýningu flugum við fjölskyldan svo til Svíþjóðar – ekki þó fyrren eftir að ég og Aino höfðum litið við á fjölskyldupönknámskeiði í Iðnó. Sem er í sjálfu sér svolítið skrautlegt konsept – að pönk sé fjölskylduvænn hlutur sem þú lærir á námskeiði er eitthvað sem hefði áreiðanlega farið öfugt ofan í einhverja pönkara á sínum tíma. En námskeiðið var skemmtilegt. Í Stokkhólmi gistum við svo tvær nætur hjá gömlum vinum, spiluðum spil, drukkum Cava og átum snakk. Á mánudeginum litum við í Gröna Lund – sem er skemmtilegur skemmtigarður sem haldið er í gíslingu af appsjúkum og gráðugum kapitalískum bjúrókrötum – og þar sáum við tónleika með hljómsveitinni Dina Ögon. Sem var ágæt. Daginn eftir átum við ís og náðum ferjunni yfir til Finnlands. Aram og Nadja fóru út í sveit en við Aino héngum í Helsinki einn sólarhring til þess að hitta vini okkar, fara í sund og borða vöfflur, og svo komum við í kjölfarið. Nú erum við skammt fyrir utan Ekenäs – gestir á fjórða vinaheimilinu frá því síðasta föstudag. Ég er svo þreyttur að ef ég hef verið vakandi í meira en klukkustund langar mig bara að fara aftur að sofa. Og skiptir þá engu hvað ég hef farið oft að sofa þann sólarhringinn. Lúrarnir þyrftu helst að vera samhangandi yfir daginn og renna saman við nætursvefninn í nokkrar vikur. Þá kemur sér ágætlega að vera í sumarfríi en mig grunar samt að ég þurfi að gera eitt og annað – og einhverjar hugmyndir hafði ég nú líka um að vinna í fríinu líka. Sjáum til hvernig það fer.

Orðsendingar úr kynhlutlausu bergmálsklefunum

Kannski er ekkert skrítnara við bergmálshellana en að þar skuli svona mikið vera þráttað. Ég veit ekki betur en við séum öll meira og minna sammála um það eitt að lífssýn okkar sé að þrengjast og bilin sem skilja okkur að – kynslóðir, búseta, fjárhagur/stétt, sjálfsmynd – að breikka vegna þess að við eigum minna samneyti hvert við annað, sérstaklega fólk sem er okkur ósammála; en á sama tíma eru allir sífellt gargandi hver á annan. Sem þýðir væntanlega að í bergmálshellunum sé gestkvæmt – þar sé statt og stöðugt fólk úr öðrum bergmálshellum með aðrar skoðanir að viðra þær með þjósti? Eða hvað? *** Það er margt undarlegt í umræðunni um kynhlutlaust mál og kannski er sumt af því einkennandi fyrir það hvernig skautun virkar. Ég hef séð fólk tína til alls konar hluti gegn kynhlutlausu máli sem eru miklu eldri en það – t.d. að maður skipti hratt úr málfræðilegu kyni í raunkyn í miðri setningu, einsog þegar maður segir „Fólkið á kajanum var blautt og hrakið enda höfðu þau ferðast lengi“ eða „Mikið mæddi á ráðherranum þessa helgi enda var frumvarpið sem hún lagði fram í hættu“. Þetta hef ég alltaf gert og verið kennt að sé í stakasta lagi – og mér finnst sjálfum umtalsvert klaufalegra að vera sífellt að tala um að „það“ hafi gert hitt og þetta í aukasetningu eftir aukasetningu. Þá finnst mér áhugavert að enginn, mér vitanlega, hafi nefnt að í nánasta ættingja íslenskunnar – færeyskunni – er að minnsta kosti vísir að kynhlutlausu máli og ævinlega talað um „öll“ frekar en „alla“ nema þegar sérstaklega er vísað til karla. Ég man að mér fannst þetta skrítið þegar ég bjó í Þórshöfn – Öll fara á ball á helginni. En líka svolítið töff. Í finnsku, sem er vissulega ekki mjög skyld íslensku þótt hún sé norðurlandamál, er síðan bara eitt orð fyrir hann og hún – hän – og gengur upp alveg án þess að allt fari á hliðina eða allir verði ruglaðir. Annað áhugavert í norrænu kynhlutleysi er sú tilhneiging í Svíþjóð til þess að nóta hán (eða réttara sagt „hen“) sem kynhlutlaust orð á meðan á Íslandi það er eiginlega bara notað um kvár. Það er að segja, í fréttum í Svíþjóð er hán stundum notað ef ekki er vitað hvers kyns viðkomandi er. „Vegfarandi sást veifa nasistafána í kröfugöngu. Hán hvarf skömmu síðar.“ En þá ber auðvitað að geta þess að nafnorð í sænsku – einsog vegfarandi – eru ekki kynjuð á sama hátt og á íslensku. Vegfarandi væri annars „den“. Svo finnst mér líka sumir málfræðingarnir furðu ferkantaðir í skilningi sínum á tungumálinu. Tungumálið er ekki fullkomlega rökrétt og margt mun aldrei skiljast nema af samhengi sínu og setningar verða aldrei 100% skýrar – margt af því sem við skiljum ágætlega er í raun óskiljanlegt – þetta vita allir sem hafa lesið Wittgenstein. Það er fullkomið rugl að taka dæmi um einhvern misskilning sem gæti komið upp ef fólk hagar máli sínu svona eða hinsegin við þessar eða hinar aðstæðurnar og segja að orðnar breytingar séu ómögulegar þess vegna. Tungumálið úir og grúir í alls konar rökleysum og rugli og er satt best að segja ekki verra fyrir það. En svo ég tali gegn málstað kynhlutleysunnar líka – og ekki bara til að gæta jafnræðis – þá hef ég talsverðar efasemdir um að tungumál breyti hugsun á þann máta sem sumir talsmenn þess virðast meina (og ég held að þar séu málvísindamenn mér upp til hópa sammála í seinni tíð). Að það sé til dæmis hægt að nota það til þess að útrýma fordómum. Auðvitað þurfum við að eiga orð til þess að lýsa veruleikanum sem blasir við okkur en handstýring á orðavali verður oft ekki til annars en að breyta kurteisisstaðli og búa til orðhengilsþrætur sem ekkert leiða og ekkert segja. Þeir sem aðhyllast þá kenningu að tungumálið móti hugsun vitna gjarnan til málvísindamannsins Victors Klemperer sem hélt frægar dagbækur á tímum þriðja ríkisins þar sem hann dokumenteraði ýmsar breytingar sem urðu á málinu á þeim tíma – og halda því fram að þar sjái maður svart á hvítu hvernig tungumálið móti sýn fólks á umhverfi sitt. En þeir sem lesið hafa bækurnar vita að þar er því alls ekki haldið fram að tungumálið hafi breytt veruleikanum, og raunar frekar lagt upp með að því hafi verið öfugt farið og tungumálið aðlagast breyttum tíma, endurspeglað það sem fólk vildi hugsa. Það er að segja, tungumálið breytti ekki veruleikanum heldur breyttist með honum og var síðan notað til þess að viðhalda honum, til þess að festa orðinn veruleika í sessi. Klemperer varar við þessum tilhneigingum til tískuorða og handstýringar sem hann upplifir sem kúgunartaktík sem gangi út á að þrengja að tjáningu og beina umræðunni í farveg meginstraumsins. En þá er hann auðvitað að tala um meginstraum nasismans. Sem er kannski svolítið annað dæmi, þótt Klemperer hafi líka verið að tala á almennum nótum. Annars er líka of lítið gert úr því hvað það hvernig við tölum er bæði sjálfsmyndarskapandi – þ.e.a.s. segir okkur hver við erum – og hópmyndarskapandi – þ.e.a.s. segir öðrum hvaða hóp við tilheyrum. Og hvernig málsnið skapar líka gjár – og hefur alltaf gert. Ég tók eftir því á VG þingi sem ég var beðinn um að tala á í fyrra eða hittifyrra að kynhlutlausa málið sagði manni með nánast fullkominni nákvæmni hvort að sá sem hafði orðið væri borgar-vinstrigrænn eða landsbyggðar-vinstrigrænn. Sú sem hafði orðið, meina ég. Hán sem hafði orðið. Línurnar voru hlægilega skýrar. Vesturlandabúar hafa heldur aldrei verið jafn uppteknir af þessum sjálfsmyndum sínum – sem sýnir sig á allri umræðu, hvort sem hún er hægri eða vinstri, þjóðernissinnuð eða prógressíf kynjapólitík. Og vel að merkja gefur kynhlutlaust mál líka þeim sem vilja markera sig utan hópsins færi á að gera það – með því að leggja ofuráherslu á „allir“ og „menn“ – og kynhlutlaust mál sem einhvers konar siðferðislegt skylduboð skapar síðan óverðskuldaða paranoju gagnvart þeim sem finnst „konur bara vera menn“ og hafa rétt á að vera ekki tortryggðir fyrir sína máltilfinningu, jafnt þótt þau séu gamaldags (að ég tali nú ekki um þegar þau eru einfaldlega gömul ofan í kaupið). *** Skemmtilegast í þessu öllu saman er samt alltaf að það skuli vera þeir femínistarnir og þær karlremburnar.

Vonarvöl

Forsetakosningarnar snúast um Katrínu Jakobsdóttur. Og það er ekki Katrínu að kenna eða stuðningsmönnum hennar heldur andstæðingum Katrínar – ekki meðal frambjóðenda heldur úti í þjóðfélaginu. Ég held þetta afhjúpi eitthvað sem maður kannski vissi um sárindin innan raða vinstrimanna sem höfðu fyrir rúmum áratug ofsalega tröllatrú á Katrínu (og hafa sumir enn, þótt vinsældakapítalið hafi talsvert þynnst). Og þótt ég haldi að það sé vissulega orðum aukið hjá bæði Jóni Ólafssyni og Berglindi Rós að það sé fyrst og fremst vegna þess að hún sé kona held ég að sárindin séu meiri þess vegna – kannski bara 10% meiri, en meiri samt. Ég sagði mig vel að merkja sjálfur úr VG fyrir löngu út af einhverjum málamiðlunum sem mér hugnuðust ekki – hef skammast mín fyrir að hafa kosið þessa stjórn sem hefur svo oft brugðist. Og kýs ekki Katrínu núna út af þeim farangri sem er óhjákvæmilegt að hún flytji með sér. Ég er hins vegar ekki nema svona 30% sammála þeim sem tala mest gegn Katrínu og finnst réttast að nota öll orðin í orðabókinni og öll upphrópunarmerkin – kannski varla nema 25%, 15%, 10%, sum þeirra eru hreinlega komin langleiðina með að sannfæra mig um að kjósa hana. Af gremju í þeirra garð. Það er áreiðanlega meðvirkni en það er líka þreyta gagnvart því sem mér finnst ekkert vitlaust að kalla trumpisma og á sér stað í öllum herbúðum þessa dagana – og lýsir sér á svona ippon-taktík, að taka alltaf stærst upp í sig, ræða við annað fólk einsog maður keyrir jarðýtu yfir hús (eða piparúðar mótmælendur) með það eitt fyrir augum að ná einhverju fyrirframgefnu markmiði. Látum vera að kjósa taktískt – en það er þreytandi að horfa á fólk stunda samræður taktískt, því það er í þessari samræðu sem lýðræðið fer fram, miklu frekar en í kjörklefanum, þar sem við hugsum sem samfélag, og ef samræðan er óheiðarleg er lýðræðið „rotnandi hræ“ svo ég vitni í einn gamlan og sínískan karl sem færði sér rotnun þessa hræs í góð nyt. Annars finnst mér þetta líka kalla á samræðu um hvað sé ofsi og hvað ástríða. Sú lína getur augljóslega ekki legið nákvæmlega á sama stað hjá tveimur einstaklingum – og það sem ég upplifi sem ástríðu hjá samherja mínum er líklegt að ég upplifi sem ofsa hjá andstæðing mínum, einsog sést berlega á undirtektum og útleggingum á öllum greinum sem komið hafa út upp á síðkastið og dreift hefur verið á Facebook. Þar er bæði ljóst að greinarhöfundar eru mikið til bara að keppast um hver sé fastastur fyrir og að lesendur meta þær nær einvörðungu út frá þeirri afstöðu sem þar birtist, frekar en því hvort nokkurt vit sé í hugsuninni eða einu sinni stíll á skrifunum. Það sem einum finnst blasa við finnst öðrum frámunalega fáránlegt – og kæmi okkur kannski ekki á óvart ef þar færu andstæðingar sem hefðu eytt lífinu í ólíka lífssýn, en nú fara þar oftar og oftar andstæðingar sem hingað til hafa verið með svipaðar grundvallarskoðanir á tilverunni. Samherjar úr Palestínubaráttunni – sem dæmi. Samherjar úr náttúruvernd. Samherjar úr jafnaðarmennsku. Og svo framvegis. En línan getur ekki bara legið þannig að ef andstæðingur minn byrsti sig æpi ég „einelti“ og saki svo viðkomandi um siðblindu. Samfélag sem getur ekki ræðst við af virðingu endar á því að verða popúlismanum að bráð – þar vinnur bara sá sem hefur hæst. Um það eigum við mýmörg mjög nýleg dæmi og þar erum við á sömu braut og þjóðfélögin í kringum okkur. En samfélag þar sem íbúar þurfa að tipla á tánum hver í kringum annan eru ekki heldur mjög lýðræðisleg – „kurteisi kostar ekkert“, stóð á barmmerkjum þegar ég var unglingur, en hún gerir það bara víst. Kurteisi við vald sem fer yfir mörk kostar helling. Stundum er ástríðan hreinlega nauðsynleg – sem og ókurteisin sem henni fylgir. Ég hef sagt það áður að það þarf meira til að ofbjóða mér í þeim efnum en baráttu um það hvort Halla T eða Katrín J fær að bera forsetabuffið næstu fjögur árin – mér finnst það ekki það ragnarakaspursmál sem mörgum öðrum finnst – og finnst ágætis þumalputtaregla að fara sparlega með hneykslan mína. Og ég ákveð auðvitað ekki upp á mitt einsdæmi hvenær sé komið nóg og þjóðfélagið sé á vonarvöl. Það gerir þjóðfélagið sjálft.

Siðrof, alla daga siðrof

Mig rámar í að hafa verið kominn með svipað óþol fyrir forsetakosningunum síðast. En á sama tíma er einsog mig minni að mér hafi nú bara líkað ágætlega við flesta frambjóðendurna – ef ekki bara alla. Ég kaus Andra Snæ og hafði fulla trú á að hann yrði ágætur forseti en varð ekki fyrir neinum vonbrigðum þegar Guðni vann. Og um daginn var ég í pönkgöngu með Sigurjóni Kjartanssyni um Ísafjörð og stóð fyrir aftan Guðna og hugsaði hvað það væri mikil synd að hann væri að hætta og hvað hann hefði verið heilnæmur. Í einhverri könnun svaraði ég því meira að segja til að hann væri eftirlætis forsetinn minn – meira eftirlæti en Vigdís, sem voru kannski ýkjur í augnabliksæði, en samt. Og Elísabet Jökuls er minn eftirlætis forsetaframbjóðandi allra tíma. Það er einsog minningin sé tvískipt – þetta hafi annars vegar verið glatað og hins vegar skemmtilegt. Ætli því hafi ekki verið eins farið líka síðast að það hafi fyrst og fremst verið kosningaskjálftinn í æstustu fylgjendum frambjóðenda sem hafi valdið mér óþoli? Frekar en sem sagt frambjóðendurnir sjálfir eða persónulegar herferðir þeirra. Skrímsladeildirnar eru víða og þær eru kannski misslæmar – þeim gengur misgott til – en þær eiga það allar sameiginlegt að halla máli einsog þær frekast ráða við og gera jafnvel minnsta tittlingaskít að tilefni til þess að grípa í öll upphrópunarmerkin í bókinni. Það eru alveg frambjóðendur í boði í ár sem ég myndi helst ekki vilja að ynnu. En ég get samt ekki hugsað mér að kjósa taktískt – að kjósa gegn einhverjum. Ég orðaði það þannig í samtali um daginn að ef ég gæti ekki kosið með hjartanu í forsetakosningum þá gæti ég það sjálfsagt aldrei, en ég held það hafi verið svokallað cop-out – í raun og veru finnst mér bara afskræming á lýðræðinu að kjósa taktískt, sama í hvers lags kosningum það er. Það er mórölsk afstaða hjá mér frekar en eitthvað annað. Kannski Kantísk – einhver tilfinning fyrir því að það sé „sleip brekka“ ef allir byrja að reyna að sjá út hvað hinir ætli að kjósa og fari svo að kjósa einhvern fimmta, sjötta, sjöunda valkost af því hann virðist eiga séns. Að við förum að dæma pólitíska valkosti út frá sennilegum vinsældum hjá öðrum frekar en eigin hugsjónum. Ég segi ekki að ég myndi aldrei kjósa taktískt. En það þarf allavega meira til en það sem er í boði. Ef það verður einhvern tíma bara svona Macron-Le Pen í boði skal ég fara og kjósa frjálshyggjupésann. Akkúrat núna finnst mér líklegast að Halla Tómasdóttir vinni þetta. Ekki kannski mest mannkosta sinna vegna heldur vegna þess að hún skorar hæst af andstæðingum Katrínar Jakobsdóttur – sem hafa nánast lýst því yfir að það verði siðrof ef hún verði forseti. Hún er á flugi. Og síðast kom hún betur út í kosningununum en skoðanakönnunum. Og margir ætla greinilega að hlamma sér á hvern þann sem gæti unnið Katrínu. Að vísu spáði ég því fyrir nokkrum vikum að Halla væri með of mikinn taparastimpil á sér eftir síðustu kosningar til að fara yfir 10%, svo ég veit ekki hvað það er að marka mig í svona spám. Og kannski ýtir það undir þessa tilfinningu hjá mér að hún sé núna óstöðvandi. (Ég ætla að kjósa Jón Gnarr, er ég svona 95% viss um, ef þið skylduð vera að velta því fyrir ykkur).

Sannleikurinn um eðlufólk

Hvenær gerðist það eiginlega að Íslendingar fóru að verða svona hallir undir samsæriskenningar amerískra jaðarrepúblikana, malandi um World Economic Forum og Davos og Soros, og hvað er langt í að umræðan um eðlufólkið nái upp á yfirborðið líka? Hvers vegna var verið að spyrja forsetaframbjóðendur út í fóstureyðingar í sjónvarpinu mínu í gær? Byrjaði þetta í hruninu – þegar reiðin rann saman við vonbrigðin yfir að takast ekki að breyta neinu? Og þurfti að finna sér nýjan farveg? Fékk þessi reiði kannski vítamínsprautu í covid-rifrildinu um hvort stjórnvöld væru að reyna að myrða okkur með bóluefninu eða með því að senda okkur öll hóstandi út að smita hvert annað í tilraunaskyni fyrir lyfjafyrirtækin? Í fordæmaleysinu þegar veruleikinn virtist leysast upp í augnablik? Eða hófst þetta kannski strax ellefta september? Ég man eftir róttæklingum frá fyrstu árum aldarinnar – vinum mínum – sem settu upp tjald við Tjörnina í Reykjavík til þess að sýna heimildarmyndir. Ég sat meira að segja yfir þessum myndum einn dag – passaði tjaldið. Sumt af þessu voru bara myndbönd af skrítnum körlum að röfla um eitthvað einsog burðarþol tvíburaturnanna og bræðslumark stáls í 3-4 klukkutíma á meðan maður stóð út í gætt og reykti. Efni sem hefði sennilega orðið hlaðvarp eða YouTubemyndband í dag. Annað var vandaðra. Mig minnir að þarna hafi líka verið sýnd mynd um Robert Faurisson – franskan bókmenntafræðing sem hélt því fram að helförin hefði aldrei átt sér stað og var dæmdur fyrir það – en kannski sá ég hana annars staðar. Í þeirri mynd tók allavega Noam Chomsky til máls og varði málfrelsi Faurrisons. Það fannst manni, sem róttækum vinstrimanni á þeim tíma, vera fullkomlega réttlát afstaða – kannski sú eina réttláta. Út frá prinsippinu sem Chomsky orðaði fyrir mann að ef maður styddi ekki málfrelsi þeirra sem segðu hluti sem manni þættu óviðurkvæmilegir styddi maður í raun ekki málfrelsi heldur bara viðhald sinnar eigin heimsmyndar – og í framhaldinu stöðnun og intelektúal dauða. Kenningar Faurrisons væru auk þess augljós vitleysa og það væri hægðarleikur að mæta þeim sem slíkum – þar stæði ekki steinn yfir steini. Það var kannski ekki almennt álitið að með málfrelsi hlytu bestu hugmyndirnar að vinna – því auðvitað var öllum ljóst að auðvaldið gæti hagrætt myndinni sér í hag – en það þótti ljóst að án málfrelsis gætu þær ekki annað en tapað. Prinsippin væru þannig að í vissum atriðum stæðu hinir göfugu – wokesterar fyrsta áratugs þessarar aldar – einfaldlega með óvinum sínum. Af því það væri rétt. Ég átta mig ekki á því hvenær afstaða róttækra vinstrimanna í þessu efni breyttist – hvenær sú afstaða sem í dag mótar alla umræðu og löggjöf um hatursorðræðu varð til (og augljóslega hafði hugmyndafræði Chomskys aldrei yfirhöndina – þá hefði Faurrison aldrei verið rekinn eða dæmdur – sem gerðist fyrst 1979 og aftur 2006). Sjálfsagt gerðist það bara smám saman og var viðbragð við auknum sýnileika hatursorðræðu. Eftir því sem réttindi minnihlutahópa urðu sjálfsagðari því reiðari urðu þeir sem þoldu ekki þróunina, og því einangraðri og orðljótari; og á sama tíma veitti internetið okkur sífellt betri innsýn í gardínulausa tilveru þeirra. Það var ekki lengur bara verið að uppnefna fólk á einhverri lokaðri kaffistofu heldur á almannafæri – á bloggum og kommentakerfum og svo samfélagsmiðlum – og þetta var ekki einn og einn eingraður vitleysingur heldur gátu allra verstu vitleysingarnir beinlínis rottað sig saman og magnast hver af öðrum. Og, sem skipti kannski meira máli, þegar þeir voru komnir nokkrir saman gátum við hin farið að ímynda okkur að þetta væru risastórar hersingar. Þrjátíu manns á sama kommentakerfinu virkar nefnilega einsog breið þjóðarsamstaða, þótt að baki geti bara verið þéttur vinahópur – sem nær ekki 0,1 PRÓMILLI af þjóðinni. Aldrei hafa jafn fáir getað virst jafn margir og þar með jafn hættulegir. En það breytir svo sem engu um upplifun minnihlutahópanna af óhróðrinum. Eða hinu að margir þeirra sem kvarta í dag yfir skorti á málfrelsi eru bara að kvarta undan gagnrýninni umræðu. Við erum öll svo ægilega viðkvæm. Aftur að tjaldinu. Á þessum tíma stafaði manni af einhverjum orsökum nógu lítil ógn af vitleysingum til þess að það mætti sýna svona og velta efninu einfaldlega fyrir sér – var eitthvað til í þessu? Hvað var þetta með burðarþol stáls? Maður gat óhræddur kynnt sér afstöðu þeirra sem afneituðu helförinni án þess að hafa áhyggjur af því að maður sjálfur – og varla nokkur annar – færi að falla fyrir rökunum. Þetta var bara forvitnilegt – ekki síst bara frá mannfræðilegu sjónarhorni, að þetta væri til. Kannski vegna þess að það var ekki svo auðvelt að sökkva sér ofan í kanínuholur kenninganna – efnið var einfaldlega ekki jafn ínáanlegt. Í dag smellir maður á einn hlekk og svo annan og stígur svo ekki upp frá tölvunni fyrren tveimur mánuðum síðar og þá með algerlega nýja heimsmynd. Og þar með er nám alltíeinu orðið hættulegt. Sem og allar kenningar sem standa utan þess sem almennt eru viðurkenndar. Af því gagnaflóðið er orðið svo mikið – og að einhverju leyti fjölbreytt og mótsagnakennt – að maður getur í raun ratað hvaða leið sem er í gegnum það, treyst sínum eigin sérfræðingum og fundið það sem styður það sem maður vill halda um heiminn, eða til vara látið aðra spekúlanta leiða sig í gegnum völundarhúsið og mála upp fyrir sig einhverja spennandi mynd, sem maður hefur sjálfur hvorki meiri né minni forsendur til þess að dæma úr leik en þá sem menntamálaráðuneytið vill helst hafa á námsskrá og viðskiptaráð vill hafa í fréttunum. Og þá stendur valið skyndilega milli þess að trúa á eðlufólk eða treysta hinu opinbera og/eða markaðinum fyrir heimsmynd sinni. Ef það versta við upplýsingaóreiðuna er allar röngu upplýsingarnar og fólkið sem trúir á þær, þá er það næstversta alveg áreiðanlega vantraust allra upplýsinga nema hinna opinberu útskýringa – og þar með vangetan til þess að efast um eða endurskoða heimsmyndina, einu sinni hýpóþetískt (án þess að breytast í eðlufólk).

Strokleðurbandalagið

Í morgun sá ég því haldið fram – um gamla nóvellu – að í henni væri ekki einu orði ofaukið. Hún væri fullkomin. Og af því ég er með mótþróaárátturöskun – ógreindur, erum við það ekki flest? – langaði mig strax að fara upp í hillu (ég á eintak) og finna í henni að minnsta kosti eitt orð sem væri óþarfi. Ég yrði hissa ef ég fyndi ekki strax á fyrstu síðu setningu sem mætti stytta um eitt orð eða fleiri án þess að breyta merkingu hennar til hins verra. En sennilega meinar þetta enginn bókstaflega. Líklega meinar fólk oftast: í þessari bók er ekki bruðlað með orð. Eða eitthvað í þá áttina. Og er áreiðanlega arfleið frá þeim tíma er við höfðum minni tíma – eða lásum meira af vaðli. Í dag eru langflestir textar sem maður les á bilinu 20-100 orð. Statusar og þannig. Og flest sem er 200-600 orð skimar maður bara. Fréttagreinar. Blogg. (Til upplýsingar er ég kominn í rétt rúmlega 150 orð núna). Það sem er komið yfir 600 orð þarf maður að ákveða að lesa – ætla ég, eða ætla ég ekki, að gefa mér tíma til að lesa þetta? (Til upplýsingar: Það tekur um 2-3 mínútur að lesa 600 orð í hljóði en um 4 mínútur að lesa þau upphátt – segjum 30 sekúndur að skima). Allt yfir 1.000 orðum – sem tekur um 7 mínútur að lesa – telst vera „a long read“. Allt yfir 20 þúsund orðum er orðið efni í stutta bók. 60 þúsund orð er meðallöng bók. 100 þúsund orð er löng bók. Nóvellan sem ég nefndi – eða nefndi réttara sagt ekki – hér áðan er ekki nema 14.466 orð. Og engu þeirra þykir ofaukið. Stundum er sagt um leiðinlegar bækur að þær hafi verið 100 blaðsíðum of langar. En auðvitað er það fyrst og fremst ljóður á leiðinlegum bókum. Eða aðfinnsla fólks sem leiðist einfaldlega að lesa. Sem segir manni að í raun sé það alls ekki lengdin heldur leiðinleikinn sem sé ámælisverður. Og hefði ekki endilega gert þessum 100 blaðsíðum of löngu bókum neitt gott að vera 100 síðum styttri. Eini kosturinn hefði verið að þær hefðu klárast fyrr. Sem eru ekki nein meðmæli með hinum síðunum. Það gætir líka ákveðins misskilning gagnvart orðafjölda. Eða þyngd orða réttara sagt. Flestu fólki finnst ekki þægilegt að lesa fá orð með mikilli merkingu. Þannig texti er stundum kallaður torf og torf getur þjónað ákveðnum tilgangi – það getur ekki allt verið léttmeti. Og maður les þannig texta ekki hraðar. Það tekur bara tiltekinn tíma að melta tiltekna merkingu. Þetta er svolítið spurning um þéttni í texta. Til þess að texti sé leikandi – að ég tali nú ekki um léttleikandi, tindilfættur og valhoppandi – þarf að vera rými í honum. Rétt einsog í tónlist, þar sem þagnirnar milli nótnanna eru líka tónlist. Í ritlist eru þetta ekki bilin milli orða (sem þjóna öðrum tilgangi) heldur merkingarminni orð og setningar, stuttir og langir útúrdúrar sem skapa rými, skapa loft, svo hugsunin fljóti vandræðalítið um. Það eru til verk sem hafa mjög háa þéttni – eru intens, jafnvel í langan tíma, fleiri hundruð síður, þar sem það þjónar hlutverki og er fallegt. En þau eru líka mónótónísk frekar en dýnamísk. Og höfundar sem beita (dómgreindar- og tilgangslaust) sama intensíteti þegar þeir lýsa litlu og stóru eru yfirleitt bara eitthvað að misskilja – þeir eru að leika „rithöfunda“ sem eru að skrifa „bókmenntir“ frekar en að vera rithöfundar og skrifa bókmenntir. Sá sem heldur að allar setningar í skáldsögu eigi að komast í „Perlur málsins“ veit ekki hvað skáldsaga er eða hvernig hún virkar. Ég segi ekki að það að skrifa texta þar sem engu er ofaukið sé sambærilegt við að skrifa tónverk með engum þögnum en það kallar óneitanlega fram svipuð hugrenningartengsl. En ef við gefum okkur að það sé líka verið að meina að þagnirnar séu allar á réttum stöðum – merkingarléttustu orðin og setningarnar – þá situr samt eftir hugmyndin um listaverk sem eitthvað sem er fullkomið á einn máta en alls ekki með neinu fráviki. Sem er fáránleg. Kannski væri Appetite for Destruction bara enn betri með einu aukalagi. Og kannski hefðum við aldrei saknað Rocket Queen ef við vissum ekki að það gæti verið til. Það sem er fullkomið er nefnilega fullkomið í eðli sínu – og stundum er eðli þess að vera 100 síðum of langt (eða of stutt) eða með „ofauknum“ orðum á stangli eða auka útlimum og nærsýnt og stundum er fullkomnið eðli þess fólgið í því að vera á einhvern ótrúlega sérstakan hátt meingallað.

Óreglulegar forsetningar

Ég get ekki ákveðið hvern ég vil kjósa. Ég er búinn að horfa á kappræðurnar á RÚV og lesa fullt af viðtölum en mér finnst bara ekki neitt af þessu sannfærandi. Það er enginn sem kallar á mig með einlægni sinni og lífsþrótti – þetta virkar allt eitthvað æft og leikið. Ekki síst handahreyfingar Höllu Hrundar og talandi Steinunnar Ólínu (af hverju hljómar hún einsog ítalskur fréttaþulur frá því fyrir seinna stríð). Jú – Jón er einlægur en hann virkar líka bara þreyttur. Enda vinnur hann víst 12 tíma vinnudag áður en hann byrjar á forsetaframboðinu. Viktor er einlægur en stífur og forsetaembættið er bara ekki jafn ferkantað og hann leggur upp með. Katrín er hæfust í þessum faglega skilningi en með mestan farangur. Halla Hrund og Baldur eru jöfn í að vera næsthæfust í sama skilningi en þau ná mér bara ekki – kannski bara vegna þess að ég trúi eiginlega ekki á því að þetta snúist um faglegt hæfi heldur einhvers konar töts (og líklega er það þess vegna sem ég er hallastur undir listamanninn Gnarr, ef hann fengi bara einhvern svefn!). Mér finnst þau öll þrjú – faglega fólkið – líka bara vera of dipló. Of kurteis. Of þjóðleg. Of miklar lopapeysur. Kindaknúsarar. Sennilega er það sameiningartáknsveikin. Ég sakna Elísabetar Jökulsdóttur. Það ætti eiginlega alltaf að hafa hana með í öllum kappræðum. Hún sér til þess að hlutirnir verði ekki of ruglaðir. Hún jarðtengir geimverurnar og dregur það mannlegasta fram í öðrum. Í Heimildinni fá frambjóðendur nokkrar „léttar spurningar“ þar sem þau eru meðal annars spurð hvað þau séu að lesa (eða hafi lesið síðast) – ég dæmi fólk (hart!) af slíkum upplýsingum – og þar kemur fram að af tólf frambjóðendum er einungis tveir eru með íslenskt skáldverk á náttborðinu. Alls voru fjórtán bækur nefndar: Halla T: The Anxious Generation – Jonathan Haidt Eiríkur Ingi: Perlur málsins (og segist eiga mest bara fræðibækur) Baldur: Land næturinnar eftir Vilborgu Davíðsdóttur Arnar Þór: Law in the time of crisis – Jonathan Sumption Ásdís Rán: Conversations with God – Neale Donald Walsch Katrín: Doppelgangur – Naomi Klein + The Secret Heart – Suleika Dawson (höfundur ekki nefndur, bara umfjöllunarefni, John Le Carré) – Dulstirni / Meðan glerið sefur – Gyrðir Elíasson Viktor: Síðasta setning Fermats – Simon Singh Halla Hrund: Lifað með öldinni , ævisaga Jóhannesar Nordal (no relation!) Steinunn Ólína: Bókin um veginn – Lao Tse Helga: 1984 – George Orwell Jón Gnarr: Kristján Eldjárn: Ævisaga – Gylfi Gröndal Ástþór Magnússon: Virkjum Bessastaði – Ástþór Magnússon (en segist lesa mikið um alþjóðamál í „bókum, tímaritum og myndböndum“) Er ekki hægt að lesa eitthvað í þetta? Það er náttúrulega mjög fyndið að Ástþór lesi bara gamla bók eftir sjálfan sig. Og líka fyndið að vera að lesa ævisögu annars forseta. Perlur málsins. Les fólk svona vegna þess að það sé best að lesa bókmenntir úr samhengi eða vegna þess að það sé þægilegt að geta baulað tilvitnunum og virst betur lesinn en maður er? Fordómapungurinn í mér segir að 1984 og Bókin um veginn séu ægilegar klisjur. Og Conversations with God er svona 20 ára gömul en gleymd klisja. Gyrðir er hot og kemur okkur í menningarliðinu til. Vilborg er alþýðleg, vinsæl og þjóðleg – sem tákn nær hún áreiðanlega víðar en Gyrðir. Haidt er rosa mikið í deiglunni – er ábyggilega efstur á öllum metsölulistum vestanhafs, svona dellubókin í ár. Klein gæti verið næst þar á eftir. Arnar Þór og Viktor eru að nördast í sínu – kannski eru það áhugaverðustu bækurnar að velja, stærðfræðin og lögfræðin, það segir eitthvað um viðkomandi, lýsir persónuleika. Krimmaspesjalistinn er reyndar líka að nördast með bók um krimmahöfund á borðinu – en ekki krimma, vel að merkja. Skáldverk: Þrjú. Ein ný ljóðabók, ein ný íslensk skáldsaga og ein gömul erlend. Ævisögur: Þrjár. Tvær um dauða íslenska karla; ein um dauðan erlendan ástmann. Ritgerðir: Átta. Eitt uppsláttarrit, þrjú pólitísk áköll, eitt stærðfræðirit, tvö trúarleg áköll með sjálfshjálparkeim, eitt lögfræðirit. Bækur sem ég hef lesið: Þrjár. Þið megið giska. Hlutfall skáldverka og bóka almenns eðlis er þrjár á móti ellefu. Það er hræðilegt! Sá sem lifir ekki í skáldskap, und so weiter, einsog kveðið var. Höfundar: Fjórir bretar, þrír bandaríkjamenn, einn kanadamaður, einn kínverji og fimm íslendingar. Þrjár konur, tíu karlar, eitt safnrit (ábyggilega mest karlar). Það er merkilegt að það er enginn meginlandsevrópumaður í hópnum (nú gæti maður líka viljað telja upp a.m.k. afríku og s-ameríku líka og væri nokkuð til í því en hin klassíska kanóna er samt mjög meginlands, en hér er meginlandið bara horfið). Og enginn skandinavi. Meginlandið gæti talist tilgerðarlegt og norðurlöndin lúðaleg. Allir útlendingarnir nema einn enskumælandi. Og sú bók er líka sú einstök hvað varðar tímaskeið. Þetta er allt seinni hluti 20. aldar eða nýrra nema Bókin um veginn sem var rituð á sjöttu öld fyrir krist – og svo ekkert fyrren 1949. Ég er ekki viss um að þetta segi manni neitt um frambjóðendurna sem slíka – en kannski eitthvað um hvaða týpur það eru sem bjóða sig fram. Og tímana sem við lifum. Maður hlýtur að hafa svolítið mikilmennskublæti. Og leiðbeiningarblæti. Það hlýtur að fylgja viljanum til valds – viljinn til að standa á stalli og benda öðrum hvert þeir eigi að fara (það er bókstaflega starfslýsingin, þegar ég hugsa út í það, með einhverjum fyrirvara um það hversu mikið maður eigi að hlusta á pöpulinn eða ekki). Þetta hjálpar mér reyndar ekki mikið. Það er engin bók þarna sem ég tengi sérstaklega við. Ef ég væri enn með Starafugl myndi ég nota tækifærið og senda út ítarlegri spurningalista til að fá skýrari mynd af lestrarvenjum þessa fólks. Fá þau til að velja eitt íslenskt og eitt erlent nútímaskáldverk, eina klassík, eitt íslenskt ljóð og eitt erlent, eina íslendingasögu, eitt trúarrit, eitt sagnfræðirit – hvað er skrítnasta bók sem þú hefur lesið, hvað er erfiðasta bók sem þú hefur lesið, hvað er síðasta bók sem þú gafst, hvað er eftirminnilegasta bók sem þér hefur verið gefin, hvað er besta bók sem þú hefur lesið fyrir barn (ef þú átt barn og hefur ekki lesið fyrir það á auðvitað fyrr að kjöldraga þig en kjósa), hvað er síðasta bók sem þú gafst upp á, áttu margar bækur, áttu kindil, ertu með hljóðbókaáskrift, sækirðu bókasöfn, hefurðu skrifað bók, hefurðu skrifað ljóð, hefur einhver skrifað um þig ljóð, skipta bókmenntir máli, skiptir skáldskapur máli? Svo mætti líka spyrja um leikbókmenntir og leikhús, myndlist, tónlist og kvikmyndalist – en ekki um sjónvarp, það er alveg nóg spurt um sjónvarp og það er bara ekki svona merkilegt.

Með veislu í farangrinum

Grikkland og Napolí voru sjálfum sér lík og einstök. Á köflum meira að segja einsog hálfgerðar klisjur. Á tímum þar sem manni finnst allir staðir meira og minna vera að breytast í sama staðinn – sams konar stað þar sem fólk borðar sama matinn (les = allt alltaf í boði og annað skandall), hlustar á sömu tónlistina (les = einhverja gervigreindarspilunarlistasamsuðu), hefur sama þjónustuyfirbragðið (les=ameríska starbucks staðalbrosið), fer í sömu verslunarkeðjurnar og svo framvegis – er maður þakklátur fyrir klisjurnar sem skilja staðina í sundur og gefa þeim karakter. Þakkátur fyrir Grikki sem afgreiða mann með afslöppuðu fálæti, kveikja svo í sígarettum á sínum eigin „reyklausu“ veitingastöðum, fá sér í glas og grípa bouzouki af veggnum til þess að leika sér með vinum sínum og samstarfsmönnum; eða Napolíbúa sem smjaðra fyrir Frökkunum á næsta borði en sýna manni sjálfum gríðarlegt, eiginlega alveg stjórnlaust yfirlæti, af því þeir halda að maður sé Þjóðverji (fussa yfir vínpöntuninni og snúa matarpöntuninni á haus). Í matvöruverslun varð mér á að biðja um „bag“ til að setja matinn í og afgreiðslumaðurinn – karl á fertugsaldri – æpti á mig. „Busta! Busta!“ – ég baðst velvirðingar og sagði „busta, prego“. Þá hló hann að mér og spurði hvaðan við værum (á ensku – en við svöruðum bara á napólsku: Islanda). Dagarnir í Grikklandi einkenndust mikið af því að þurfa að fara snemma á fætur og sofa þess vegna lítið og dagarnir í Napolí einkenndust af því að fara mjög seint að sofa og sofa ekki fram eftir degi – meðaltalssvefninn síðustu tvær vikurnar er varla nema 4-5 tímar á nóttu. Ég er í samræmi við það enn frekar þreyttur. *** Ég las Mrs. Dalloway á leiðinni til Napolí og A Moveable Feast á leiðinni til baka (sem var viðeigandi af því ég var bókstaflega með veislu í farangrinum – ríflega 2 kg af ítölskum og grískum ostum, tæplega1 kg af kjöti, rauðvín, freyðivín, tsipouru, hunang, súkkulaði, ólífur, kryddblöndur, 5 lítra af ólífuolíu, ítalskt vesúvíusarkaffi og úrval af bókum á ensku og frönsku). Báðar tengjast þessar bækur James Joyce –  Mrs. Dalloway er augljóslega skrifuð undir miklum áhrifum af Ulysses og felur það ekkert. Sérstaklega á fyrstu síðunum, þar sem birtast fjölmörg kunnugleg element – samlokumenn, söguhetja skoðar í búðarglugga, reynir að velja bók fyrir rúmliggjandi konu, og margt, margt fleira – en líka auðvitað í nýju teiki á vitundarflæðinu úr Ulysses og þessari tilraun til þess að lýsa augnablikinu frá mörgum hliðum, skima yfir trámatískan hversdagsleikann í heilli borg og rýna inn í heilabúin sem sjúga borgina í sig. Og allt gerist á einum degi – meira að segja júnídegi. Það er augljóst að Woolf hefur viljað vera stýrðari og einbeittari í sinni sýn – hún er ekki maximalisti einsog Joyce, hún er fínlegri en það er líka margt sem glatast við fínlegri aðferð. Ég þekki auðvitað bara eina vitund, mína eigin, og hún er talsvert líkari því sem sögupersónur Joyce upplifa – en á móti kemur að Mrs. Dalloway er miklu auðlesnari og aðferðin skiljanlegri. Og ekki að þetta sé keppni, en hún er langt frá því að ná Ulysses (og fyrir mína parta er Orlando líka meistaraverk Woolf). Ég hafði gleymt miklu úr A Moveable Feast á þeim tæplega 30 árum sem eru liðin frá því ég las hana síðast. Ég mundi ekki einu sinni atriðið þar sem F. Scott Fitzgerald játar fyrir Hemingway að hann hafi áhyggjur af limstærð sinni – Zelda sé ekki ánægð – og fær Hemingway til að líta á liminn fyrir sig. Sem Hemingway segir bara mjög fínan. Joyce kemur minna fyrir en ég var að vona. Hann er nefndur á stöku stað en that’s about it. Og ekki stakur stafur um liminn á honum. Hemingway nefnir að Gertrude Stein vilji ekki heyra á hann minnst – og verði manni á að nefna hann tvisvar sé manni ekki boðið aftur á 27 Rue de Fleurus. Stein og Joyce eru augljóslega róttækustu módernistarnir í París – a.m.k. af þeim sem skrifuðu á ensku – og henni virðist hafa stafað ógn af honum. Ég hef enn ekkert séð um afstöðu hans til hennar. Það er líka áhugaverð sena um vinslit þeirra Stein og Hemingways. Í meira lagi dulúðug. Hemingway birtist á heimili Stein, þjónustustúlkan tekur á móti honum, hleypir honum inn og gefur honum að drekka. Á meðan hann bíður heyrir hann óvart samræður – einhver talar við Gertrude Stein á slíkan máta að hann hefur aldrei heyrt annað eins. Við fáum ekki að vita hvað er sagt. En Stein svarar auðmjúk og þjáð: „Please don’t. Please don’t, pussy.“ Og Hemingway áttar sig á því að hann hefur orðið vitni að einhverju sem hann mátti alls ekki verða vitni að og lætur sig hverfa. Og útskýrir svo ekkert meira. Þessi samskipti hafa á sér einhvern furðulega kynferðislegan blæ. Ég sá að einhver hafði túlkað þetta sem einhvers konar sambandsslit – að Stein væri að biðja elskhuga að fara ekki – en minn fyrsti lestur var að Hemingway hefði orðið vitni að ástarleikjum Stein og Toklas, einhverjum BDSM eða hlutverkaleik. En það kemur auðvitað ekkert fram um það. Ef helsti styrkur Joyce er að hlaða á mann öllum veruleikanum og leyfa manni að reyna að troða í honum marvaðann, þá er styrkur Hemingways einmitt þessar eyður sem hann skilur eftir – sem kalla á jafn kreatífa úrvinnslu og ofgnótt Joyce. Við getum einfaldlega ekki lesið senur þeirra án þess að beita okkur, getum ekki verið passíf, verðum að spyrja okkur spurninga, fylla í eyður og búa til tengingar. Kannski eru kraftmestu bókmenntirnar alltaf gæddar þessu eðli – að fá okkur til að hugsa, einsog góð tónlist fær okkur til að dansa. *** Af listaferli mínum er það helst að frétta að Náttúrulögmálin hefur tvisvar nýlega verið tekin upp í „Lesanda vikunnar“ á RÚV. Margrét Helga Erlendsdóttir, fréttakona á Stöð 2 og bókmenntafræðingur, var mjög ánægð með hana – og lýsti raunar almennri ánægju bara með allt sem ég hef skrifað (!!!). „Það skín í gegn svo mikil frásagnarást – textinn er svo lipur og hann segir svo skemmtilega frá. Mér finnst hann vera í essinu sínu þarna.“ Margrét talað líka um Moments of Being , sjálfsævisögu Virginiu Woolf – sem ég á ólesna og ætla að sinna fljótlega. Svo kom Heiðar Ingi Svansson , formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, tveimur vikum síðar og var ekki síður kátur – sagðist hafa sogast inn í hana (og nefndi líka sérstaklega Illsku sem eftirlætisbók). Og sagði um Náttúrulögmálin eftir áhugaverðar útleggingar: „Fyrst og fremst er þetta bara frábær bók.“ Þá hafa lögin fjögur sem Gosi flutti í Stúdíó RÚV birst á Spotify og eitt myndband á Facebook . Þar leik ég á bassa. Tónlistin hans Andra Péturs er ótrúlega lunkin og skemmtileg – og hljómsveitin (auk mín, Valgeir Skorri Vernharðsson á trommum, Friðrik Margrétar- Guðmundsson á svuntuþeysurum, Marta Sif Ólafsdóttir syngur – einsog Andri Pétur, sem leikur líka á gítar) er æði og mér var mikill sómi sýndur að fá að spila með þeim (einsog raunar með Baldri Páli sem spilar venjulega á slagverk með okkur Andra). Og loks vann Fiðlarinn á þakinu til verðlauna á þingi BÍL sem athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins – sem þýðir að hún fer vonandi á fjalir Þjóðleikhússins í sumar (en til þess þarf væntanlega að ná öllum hópnum saman – sem ég átta mig ekki á hvort er gerlegt, en það kemur áreiðanlega fljótt í ljós).

RVK og Antikristur Nothomb

Ég kom til landsins í gær. Með ekkert með mér nema fartölvu, fimm lítra af ólífuolíu og kíló af fetaosti. Og Mrs. Dalloway eftir Virginiu Woolf. Taskan mín – með öllu hinu – varð eftir í Frankfurt, þar sem ég millilenti. Það má fylgja sögunni að ég hafði vanrækt að þrífa mig eða skipta um föt á ferðalaginu frá Skopelos – það var ræs klukkan 6 tvo daga í röð og ég var latur – og lyktaði orðið einsog súr hvalur. Sessunautum mínum sjálfsagt til talsverðrar ánægju. Það má líka fylgja sögunni að ég er ekki að fara heim heldur aftur til Miðjarðarhafsins – til Napolí (það var röð óheppilegra tilviljana sem réð því að ég flaug ekki beint). Ólífuolíunni hef ég komið í geymslu og ný föt fékk ég í H&M í gær en þau munu varla duga mér í viku – eitthvað fleira þarf að koma til. Tannbursta fann ég í 10/11. Taskan er vel að merkja ekki týnd en hún mun ekki ná til mín áður en ég fer – og verður því send beint vestur. Allt er þetta fremur dýrt spaug – og ég veit af reynslunni að ferðatryggingin koverar varla nema tannburstann. En ég neita því ekki að mér finnist líka gaman að vera í nýjum fötum. Og það er einhver furðulegur léttir að vera svona allslaus líka. Frelsistilfinning. Ég lauk við Antéchrista eftir Amelie Nothomb. Bækurnar hennar henta mér mjög vel til að lesa á frönsku – bæði eru þetta almennilegar bókmenntir og þær eru stuttar og málið yfirleitt ekki mjög flókið (þótt hún fari stundum á flug, sem er líka ágætt). Hygiène de l’assassin og Cosmetique de l’ennemi voru líka mestmegnis skrifaðar sem samtal tveggja einstaklinga – og raunar að mörgu leyti áþekkar bækur. Það er meiri „prósi“ í Antéchrista en hún er líka fyrst og fremst um intensíf samskipti tveggja einstaklinga. Blanche er feimin 16 ára unglingsstúlka á fremur venjulegu smáborgaraheimili sem eignast sinn fyrsta vin í Christu, sem er vinsælasta stelpan í skólanum. Christa á fátæka foreldra og býr langt í burtu og fær fyrst að gista hjá Christu alla miðvikudaga, til þess að þurfa ekki að ferðast 2-3 tíma á hverjum morgni, og svo alla skólavikuna. En Christa er líka manipúlatíf og tekur smám saman að gera Blanche lífið leitt – brýtur hana niður, fær foreldra hennar upp á móti henni og svo framvegis. Sá þráður er allur mjög sannfærandi og áþján Blanche verður mjög kvíðavekjandi hjá viðkvæmum lesanda. Lausnin og lokakaflinn er svo vel skrifaður og áhugaverður en líka að einhverju leyti of fullgerður einhvern veginn – tvistið (sem ég ætla ekkert að skemma) grefur að einhverju leyti undan því sem gerði bókina til að byrja með. Plottið kallaði á „eitthvað“ – en kannski hefði ég frekar kosið „eitthvað annað“.

Sírenufiskar og Malaparte

Ég kláraði The Skin eftir Curzio Malaparte í rútunni á leiðinni til Skopelos. Það tók mig ekki nema 45 klukkustundir að komast frá Ísafirði til Reykjavíkur til Keflavíkur til Zurich til Aþenu til Volos til Skopelos. Einkabíll, flug, rúta, hótel, flug, flug, leigubíll, hótel, leigubíll, rúta, bátur. Náði bærilegum nætursvefni í Keflavík en var ekki kominn til Aþenu fyrren klukkan 2, sofnaði 3 og svo var ræs klukkan 7 til þess að halda ferðinni áfram. Ég var mjög þreyttur. Fljótlega eftir lendingu í Skopelos (og örstuttan lúr) var haldið á veitingastað og þegar búið var að afgreiða matinn byrjuðu þjónarnir og kokkurinn að draga fram hljóðfæri – bouzuki og nikku – Christina vinkona mín fékk gítar í hendurnar og svo var sungið hástöfum á öllum borðum. Ég hefði sennilega kallað það þjóðlög ef það hefði ekki sérstaklega verið útskýrt fyrir mér að þetta væru ekki þjóðlög heldur dægurtónlist frá þriðja áratugnum – a.m.k. eitt þeirra um og eftir „ mangas “, sem er einhvers konar bóhemhreyfing frá þeim tíma. En þetta var allt einsog uppúr einhverri handbók um gríska stemningu. Ég var hins vegar úrvinda, drakk þrjá bjóra yfir kvöldmatnum og leið einsog þeir hefðu verið tólf – ranglaði heim yfir einræðum um hvað það ískraði mikið í skónum mínum. Þeir byrjuðu á þessu strax og ég lenti í Grikklandi og þetta olli mér miklum heilabrotum sem mér fannst ég þurfa að tjá í löngu máli. Eftir sólarhring höfðu skórnir jafnað sig á umhverfisaðstæðum – var þetta rakinn, hitinn, rykið, loftþrýstingurinn? – og hættu þessu jafn skyndilega og þeir höfðu byrjað. Þá var ég líka úthvíldur. Ég náði góðum nætursvefni í gær og fyrsti panell hátíðarinnar gekk prýðilega. Ég lenti meira að segja í skemmtilegum átökum við mann úti í sal um það hvort listaverk sem ekki lifði í hundrað ár hefði nokkurt gildi – ég er ekki viss um að við höfum alveg skilið hvor annan en það var gaman að rífast og áhorfendum virtist finnast það líka, mikið hlegið og klappað. Maðurinn úti í sal, sem mér skilst að sé ljóðskáld af svæðinu, vildi meina að öll sönn listaverk myndu lifa – það væri í eðli þeirra – og þegar ég mótmælti virtist hann sannfærður um að ég hefði misskilið sig, og héldi sig halda að við ættum að dæma úr leik öll verk sem ekki bæru með sér langlífi; en hann væri að meina að langlífið væri ekki sönnun á gildi listaverksins, heldur einfaldlega í eðli þess. Altso: lifa listaverk í 100 ár vegna þess að þau eru sönn, eða eru þau sönn vegna þess að þau lifa í 100 ár – eitthvað þannig. En það sem ég var í raun og veru að reyna að segja var að listaverk sem nær máli í eitt einasta augnablik er „raunverulegt listaverk“ jafnvel þótt það hafi gleymst tíu mínútum síðar. Ending hefur bara ekkert að segja um „gildi“ listaverka og það er vitleysa að einblína á það. Fyrr um daginn var okkur líka boðið í áhugaverða sögugöngu um þorpið – hér í Skopelos hefur ýmislegt gengið á sem ég treysti mér ekki til þess að hafa eftir með neinni nákvæmni, nema til að segja að við sögu komu jarðskjálftar, sjóræninginn Barrabas, stríð og auðæfi og fátækt og skipasmíði og ólífuolía. Tvennt man ég nokkurn veginn nákvæmlega. Það eru 360 kirkjur í bænum. Fyrir 5 þúsund íbúa. Og svo var hluti bíómyndarinnar Mamma mia! tekin upp hérna. *** The Skin ( La Pelle ) eftir Curzio Malaparte byrjar um það leyti sem Kaputt lýkur – það eru greinilega 7 ár síðan ég las hana – í Napolí árið 1943. Þetta eru rabelasískar skáldævisögur manns sem var fyrst fasisti – marseraði með Mussolini í valdatökunni – lenti síðar í ónáðinni og gerðist enn síðar kommúnisti. Hann átti í álíka sambandi við kirkjuna – byrjaði sem harður trúleysingi en varð svo kaþólikki. Hraðlyginn, með explósíft og hamslaust ímyndunarafl og kjarkaðan siðferðislegan hugsunarhátt – sem er stundum mjög vafasamur og stundum skarpur einsog skurðhnífur. Þegar maður les Malaparte getur maður ekki látið vera að hugsa að kannski hafi hann alltaf verið allt í senn, maður hinna fullkomnu mótsagna, maður er alltaf rétt búinn að afskrifa hann sem rasista eða kvenhatara þegar það birtist nýr kafli og hann birtist sem jafn einlægt andrasískur og feminískur – hann er tilfinningaríkur og grófur, jafn fullur af mýkt og hann er fullur af hörku, jafn fullur af sannleika og bulli, húmor og alvöru, en umfram allt annað alveg ótrúlegur rithöfundur, með alla kynngina á sínu valdi. La Pelle byrjar sem sagt árið 1943 þegar bandamenn frelsa Napolí. Malaparte hefur (fyrir löngu) snúið baki við fasismanum og gerist aðstoðarmaður bandamanna í Napolí. Eymdin er botnlaus og þótt erfitt sé að draga skýra línu milli sannleika og skáldskapar truflar það ekki – það jafnvel hjálpar að einhverju leyti að Malaparte leyfir sér að fara augljóslega langt yfir strikið, því þannig verður augljósara að verið er að lýsa fyrir manni tilfinningu, upplifun, frekar en einföldum staðreyndum, og allir fyrirvarar um sannferðugleika hætta að skipta máli. Ástandið undir Þjóðverjum hafði verið bágt. En með bandamönnum fylgir ný vídd af eymd sem má hugsanlega lýsa með tvennum hætti. Í fyrsta lagi eru þeir, sérstaklega bandaríkjamenn, einfaldlega fjáðari en þjóðverjarnir sem hernámu borgina þar á undan og geta þar með keypt sér ýmislegt og þeim fylgir líka sú kapitalíska lógík að allt eigi að geta verið til sölu; sem aftur vekur með soltnum Napolíbúum „löngun“ til þess að selja allt sem beðið er um, hvort sem það eru konur eða börn. Neyðin rekur þá til þess að niðurlægja sig. Hér færir Malaparte mikið í stílinn – en sannleikurinn er samt ekki langt undan – þetta eru stórkostlegar ýkjur en margt af því brjálæðislegasta er samt satt (og má meðal annars lesa um hryllinginn sem viðgekkst, meira og minna óáreittur, í bókinni Naples ’44 eftir breska hermanninn og rithöfundinn Norman Lewis, sem er „jarðbundnari“ frásögn). Í öðru lagi birtast bandamenn í Napolí sem eins konar „frelsandi innrásarher“ – sem er mótsögn sem hefur talað til Malaparte. Þeir ráða lögum og lofum og fjármagna hálfgerða óöld og virðast að mörgu leyti líta á Napolí sem siðspilltan heim þar sem allt leyfist – og að fyrst allt sé til sölu sé alltílagi að kaupa það (Malaparte fer t.d. með þeim að skoða meyjarhaft unglingsstúlku – þar standa menn í röðum og borga sig inn og fá jafnvel að þreifa á því). Og bandamenn eru vel að merkja frelsarar þrátt fyrir að hafa í raun ekkert frelsað – Napolíbúar voru ekki hrifnir af þýska hernáminu og gerðu uppreisn strax og spurðist til bandamanna á leiðinni, svo þegar herinn náði til borgarinnar voru engir Þjóðverjar á staðnum lengur. Blóðinu sem var úthellt fyrir frelsið var blóð heimamanna – karla, kvenna og meira að segja barna. En auðvitað hefðu Napolíbúar ekki getað haldið borginni nema vegna þess að bandamanna var vænst, koma þeirra blés heimamönnum þrótti í brjóst og þeir fagna mjög innreiðinni þegar hún gerist – og þar birtist önnur mótsögn, þeir eiga engan ítalskan „nasistafána“ til þess að kasta niður svo það verður þeirra eigin fáni, venjulegi ítalski fáninn, sem endar fyrir fótum amerísku frelsarana. Titillinn The Skin / La Pelle / Húðin vísar vel að merkja til nokkurra ólíkra staða í bókinni en meðal annars til manns sem gengur um með mannshúð á fánastöng og hugleiðinga Malapartes um að húðin sé hin eini eiginlegi fáni, allt annað sé hégómi. Malaparte er líka sjálfur (a.m.k. í orði kveðnu) afar hrifinn af bandaríkjamönnum og sérstaklega Jack Hamilton, sem hann starfar fyrir sem eins konar aðstoðarmaður og túlkur – þeir eru einfaldlega góðir vinir. En hann er líka umkringdur eymd sem hann sér að sprettur úr dýnamíkinni milli hersetumanna og niðurlægðra heimamanna sem verða á endanum kristlíkir í þjáningu sinni. Og ég hef séð að margir túlka það sem boðskap bókarinnar – að hinn sigraði sé æðri eða frjálsari – en ég held að það séu mistök að túlka boðskap upp úr bók af þessu tagi og þann kristilega lokasprett má hæglega sjá sem gegnumíronískan, eða jafnvel sem bæði einlægan og íronískan (eftir því hvort maður telur sig vera í trúaða heilahvelinu á Malaparte eða því trúlausa). Í einni eftirminnilegustu senu bókarinnar (þær eru margar) er haldin veisla fyrir bandarískan erindreka, frú Flat. Gestgjafinn, bandarískur herforingi, er þekktur fyrir að kosta miklu til og vill gjarnan hafa sjávarfæði á boðstólum – enda borgin þekkt fyrir það. Það er hins vegar búið að banna allar veiðar við ströndina af hættu við að sjómenn sinni skilaboðaflutningum eða annarri undirróðurstarfssemi fyrir hin fasísku öfl. En herforinginn hefur auðvitað ráð undir rifi hverju og síðustu missserin hefur hann smám saman verið að tæma sædýrasafn borgarinnar. Þetta mun ekki alveg úr lausu lofti gripið hjá Malaparte þótt gripdeildirnar á sædýrasafninu hafi ekki verið jafn umfangsmiklar og hann lýsir. En nú er nokkuð liðið á hernámið og þegar herforinginn spyr eftir fæðu fær hann þau svör að það sé ekkert eftir nema nokkrir kórallar og einn „sírenufiskur“ – kórallinn sé því miður óætur en megi kannski nota sem skraut. Herforinginn hefur aldrei heyrt minnst á sírenufisk en ákveður, eftir meðmæli sædýrasafnsstjórans, að láta slag standa og panta svona fisk. Þegar væntanleg veisluföng eru kynnt við upphaf matarboðsins kannast Malaparte ekki heldur við þennan fisk en verður vandræðalegur og lætur einsog hann viti vel hvað þetta er – lókal delíkatess – fiskur sem hafi verið nefndur eftir hinum frægu sírenum Hómers. Svo er fiskurinn borinn á borð og í ljós kemur að hann allt yfirbragð lítillar stúlku. Hann lítur út einsog léttsoðið líkið af ungru stúlku, hreinlega, en með hreifa eða stýfða handleggi, og á kórallabeði með majonnesi. Erindrekinn harðneitar að borða réttinn og upphefst þá mikið rifrildi um hvort þetta sé lík af stúlku eða raunverulegur sírenufiskur. Á endanum smakkar enginn og raunar fylgir prestur nokkur fiskinum/stúlkunni út með það fyrir augum að veita honum/henni greftrun við hæfi. Kaflanum lýkur svo á hugleiðingu Malapartes um að ef frúin sé fær um að gráta fyrir fisk sé ekki ómögulegt að hún geti á endanum líka fundið til með ítölsku þjóðinni. La Pelle  er einsog Burroughs mætir Heller mætir Celine. Ofsalegur stílkraftur Celine mætir stríðsparódíu Josephs Heller mætir martraðarkenndu ímyndunarafli William S. Burroughs. Fimm stjörnu tryllingur. En ekki fyrir viðkvæma!