Það vantar fjóra milljarða til að standa við skuldbindingar ríkisins um endurgreiðslu til framleiðslu amerískra kvikmynda og sjónvarpsþátta á Íslandi. Svo eyða megi samtals 5,7 milljörðum. Til samanburðar má nefna að það er held ég milljarður í kvikmyndasjóði komplett. Einn sem sagt. Einn milljarður. Auðvitað er þetta annars konar fjárfesting – skilst mér. Jodie Foster kemur með stórfé á móti. Það myndi Edda Björgvins aldrei gera. Ekki það hún sé svona nísk, hún þarf bara ekki jafn margar sminkur eða hljóðmenn. Hollywood hefur margföldunaráhrif og margföldunaráhrif auka hagvöxt og Ísland elskar hagvöxt. *** Ég skal alveg viðurkenna að í hégóma mínum eftir tilnefninguna í síðustu viku hélt ég kannski að Frankensleikir kæmist inn á Topp 20 á bóksölulistanum. En það er víst ekki. Ég hef lært að maður eigi ekki að reyna að halda aftur af neikvæðum tilfinningum sínum heldur leyfa þeim að skola yfir sig. Annars sé hætt við að þær sitji fastar í manni. Og því sit ég hér holdvotur af biturð og læt einsog ekkert sé. Auðvitað er mér nokkur huggun í því að vera ekki einn í eymd minni samt – Sigrún Eldjárn, Lóa Hlín, Arndís og Elísabet, sem voru tilnefnd ásamt okkur Elíasi Rúna, eru heldur ekki á metsölulistanum. En þetta er auðvitað undarlegur listi. Alls konar ólíkar bækur á honum og sumir höfundar með margar. Bækur eru auðvitað gjafavara, svona almennt – sem þýðir að fólk hugsar sjaldnast við bókakaup hvað það vill sjálft lesa, heldur setur sig í spor einhvers annars, spyr sig hvað einhver annar vilji lesa, og þá tekur maður síður áhættu. Þegar ég var sjálfur bóksali var maður oft bara spurður hvað væri vinsælt – „hann er 11 ára“. Birgitta Haukdal er með fjóra titla á listanum – David Walliams er bara með einn (hann var með nokkra síðast þegar ég gáði). Ævar Þór er með tvo. Bjarni Fritzson er með tvo. „Höfundar og þýðanda ekki getið“ er með tvo – það eru bækur frá Bókafélaginu, Jólaföndur og Leikum með sveinka. Svo eru Gunnar Helga þarna og Helgi Jónsson/Anna M. Marínósdóttir (sem skrifa bókina með fuglahljóðunum). Aðrar bækur eru þýðingar – Lars Mæhle, Jeff Kinney og fleiri. Aðeins þrjár konur eru á listanum – Anna M., Birgitta og kona sem heitir Rhea Gaughan og er hönnuður hjá Priddy Books (þegar maður gúglar henni kemur í ljós að hún er hvergi skráður „höfundur“ að þessum bókum nema á Íslandi). Og ellefu karlar. Til samanburðar má nefna að frá 2019 til 2022 voru tilnefndir alls þrír karlar í barnabókaflokki – og tveir þeirra bera ábyrgð á Frankensleiki – en 21 kona, og engin þeirra var Birgitta Haukdal. Ellefu metsölukarlar, tuttuguogein tilnefningakona. (Þessu eiginlega ótengt kíkti ég um daginn á lista yfir 30 vinsælustu bækur á Goodreads í ár – sem lesendur Goodreads bæta oftast á hilluna sína – og þar var ekki einn karlhöfundur). (Og líka ótengt tek ég eftir því að af fimm bókum tilnefndum í fagurbókmenntaflokki fullorðinna komast þrjár inn á bóksölulistann – bækur Auðar Övu, Kristínar Eiríks og Sigríðar Hagalín – en bækur Pedros og Dags eru úti). Bækurnar í barna- og ungmenntaflokknum eru líka mjög ólíkar – ólíkari en ég á að venjast úr „innbundin skáldverk“. Þar finnst manni kannski stundum að Arnaldur og Yrsa ættu að vera í öðrum flokki en Bragi Ólafs og Bergþóra Snæbjörns – enda getur krimmi sem selst lítið (af krimma að vera) auðveldlega selt miklu meira en metsölubók í „fagurbókmenntaflokki“. En hvað finnst manni þá um að vera með skáldverk í sama flokki og Jólaföndur ? Alveg að jólaföndri ólöstuðu, auðvitað, jólaföndur er frábært. Eða með Jólasyrpu Walts Disney (sem er skráður höfundur en er það auðvitað ekki – og þar með fær í sjálfu sér „höfundar og þýðanda ekki getið“ sína þriðju bók á lista – fjórðu ef við teljum Litlu börnin læra orðin sem skráð er á Rheu Gaughan) – er það ekki svolítið einsog ef safnrit Mannlífs væri mest selda bók ársins? (Viðskiptahugmynd fyrir næsta jólabókaflóð: binda inn árganginn af Mannlífi og selja sem bók). *** Einu sinni gaf Nýhil út ævisögu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar í þremur bindum. Þetta voru ljósritaðir tvíblöðungar sem Óttar Martin Norðfjörð skrifaði. Við gættum okkur sérstaklega á því að stilla verði í hóf og hafa þetta allt merkt eftir kúnstarinnar reglum – með ISBN númeri og strikamerki og öllu saman, svo FÍBÚT myndi neyðast til þess að taka bókina alvarlega á metsölulistunum. Sem hafðist alveg þar til FÍBÚT gerði uppreisn og sparkaði Hannesi af listanum. Af því að þetta var ekki bók. Eða var ekki ævisaga. Eða var ekki kurteist. Eða eitthvað. Mig minnir að við höfum reynt að kæra bókina aftur inn á listann en það mistókst áreiðanlega. Allt sem er skemmtilegt mistekst. *** Það LOGAR ALLT Í ILLDEILUM í bókmennta-Svíþjóð (eða, það hafa verið skrifaðar sennilega 4-5 greinar) út af pistli eftir Björn Werner, sem sat í nefndinni fyrir Augustverðlaunin. Augustverðlaunin eru stærstu bókmenntaverðlaun Svía og líkt og Íslensku bókmenntaverðlaunin eru þau í eigu sænskra bókaforlaga. Í grein þessari kvartaði Werner mjög yfir því að þetta hefði allt verið svo hræðilega leiðinlegt. Hann hefði þurft að lesa langar og leiðinlegar bækur þegar hann hefði getað verið að horfa á The White Lotus . Ljóðabækurnar, sagði Werner, voru ábyggilega fínar en Werner skilur ekkert í ljóðum, aldrei haft gaman af þeim og sofnaði ítrekað þegar hann reyndi að lesa þau og finnst undarlegt að það sé verið að tilnefna ljóð, þegar fólk skilur almennt ekkert ljóð og finnst þau bara leiðinleg. Ég er ekki einu sinni að ýkja. Hann skrifaði þetta allt. Að meðtöldu þessu um að sofna yfir ljóðunum og vilja heldur horfa á The White Lotus (en að lesa nýjustu skáldsögu Johannesar Anyuru – sem er vel að merkja ekki þekktur fyrir neitt módernískt torf). Það þarf að vera með reikning hjá SVD til að lesa greinina en hún er hérna fyrir þá sem hafa áhuga . Í Svíþjóð eru auðvitað fleiri bókmenntaverðlaun. Þegar það stendur utan á þýddri bók á Íslandi að hún hafi „unnið sænsku bókmenntaverðlaunin“ er yfirleitt verið að vísa til „Årets bok“ sem eru verðlaun sem bókaklúbbar Bonnier veita og eru sérstaklega stíluð inn á bækur sem ná til breiðs lesendahóps. Vinsælla bóka. Þau þykja ekkert sérstaklega „fín“. *** Á bókmennta-Íslandi var hins vegar tekist á um það í vikunni hvort breyta ætti fyrirkomulagi Íslensku bókmenntaverðlaunanna þannig að tilnefnt yrði eftir jól og verðlaunin svo veitt með hægð um vorið. Koma þeim út af markaðsbúgarði jólanna og nota þau heldur til þess lífga við bókmenntaumræðuna á daufasta árstímanum. Egill Helgason tók þessa hugmynd upp á sína arma og studdi hana, að mér sýndist, á Facebooksíðu sinni. Í sjálfu sér óvitlaus hugmynd fyrir bókmenntaumræðuna en ég held það sé enginn áhugi á slíku hjá FÍBÚT. Þetta eru markaðsverðlaun og markaðslögmálunum samkvæmt er auðveldara að selja meira af hlut sem selst hvort eð er, á þeim tíma sem hann selst, en að selja annan hlut á sama tíma eða sama hlut á öðrum tíma. Altso, til þess að selja aukaeintak af Arnaldi í desember þarftu að bústa Arnald fyrir tiltekna upphæð – ef þú ætlar að bústa Arnald í apríl eða bústa eitthvað annað í desember þarftu að eyða meiri pening per hvert aukaeintak sem þú selur. Af sömu ástæðu auglýsa forlögin líka fyrst og fremst þær bækur sem eru þegar á hreyfingu – en draga skipulega úr auglýsingum þeirra bóka sem hreyfast minna eftir því sem við færumst nær jólum. Þeim hættir að vera viðbjargandi, frá sjónarhóli markaðsins. Og forlögin hætta svo alveg að auglýsa bækur þegar jólabókaflóðinu lýkur. Íslensku bókmenntaverðlaunin eru ekki bara auglýsing – ef þau verða of billeg enda þau einsog årets bok í Svíþjóð og skipta þar með minna máli, verðlaun verða að vera dálítið snobb, verða að vera dálítið elitísk, annars missa þau gildi sitt – en þau eru samt alltaf að hluta auglýsing og lúta að mörgu leyti sömu lögmálum. Hins vegar mætti líka spyrja sig hvers vegna RÚV – Kiljan og Lestin og Víðsjá og Orð um bækur og allir hinir – veiti ekki sín eigin stóru bókmenntaverðlaun? Í Svíþjóð er fremur algengt að fjölmiðlar veiti bókmenntaverðlaun og teljast sum þeirra til stærstu bókmenntaverðlauna þjóðarinnar – þar má nefna til dæmis Aftonbladets Litteraturpris, Sveriges Radios Romanpris, Sveriges Radios Lyrikpris og Svenska Dagbladets Litteraturpris. Stofnuninni væri líka í lófa lagið að vekja athygli á slíkum verðlaunum, einsog tilnefndum og verðlaunuðum bókum.
Það er ekkert að
Þegar ég var ungur fékk ég alltaf dálitla fró úr því að þjást. Það var einsog vanlíðanin væri merkingarbærari og vonleysið til marks um einhverjar kröfur til lífsins sem maður ætti rétt á að fá uppfylltar. Ég sagði það meira að segja oft að það væri ekki hægt að vera sínískur án þess að vera rómantískur í grunninn, og hafði sennilega upp úr einhverri bíómynd. Að sama skapi var haustið alltaf mín árstíð – þegar sumarljósið var horfið og áður en snjórinn kom í fjöllin. Þá fór ég einn á rúntinn á kvöldin, lagði bílnum neðan við Norðurtangann og reykti sígarettur út um hálfopinn gluggann, hlustaði á tónlist og virti fyrir mér sílúettur fjallanna. Ég veit ekki hvenær þetta breyttist – sjálfsagt gerðist það hægt og bítandi – en þetta er allavega breytt. Nú er kominn desember og það er enn snjólaust og myrkrið er bara myrkur. Kannski finnst manni minna spennandi að felast? Ég reyki líka sjaldnar sígarettur, aldrei við opinn glugga, og sé frekar eftir því en hitt. Sílúetturnar eru samt alltaf jafn fínar. Þegar þeir bíta mig svörtu hundarnir verð ég líka fyrir einhvers konar veruleikabresti. Maður er eðlilega vanur því að leita orsaka vanlíðunar sinnar, til þess að ráða bót á henni, en þegar maður hefur greint sjálfan sig með þunglyndi vill það bara stoppa þar. Það er ekkert að, ég er bara leiður. Og þá þarf maður engu að breyta að undanskildum sjálfum sér og allri manns verund. Nema stundum – annað hvert skipti – og þá svarar maður sjálfum sér með viðstöðulausu nöldri um allt milli himins og jarðar. Það er ekkert að líðan minni, það er veröldin sem er að reyna mig. Helvíti er annað fólk, og sú saga öllsömul. Þá þarf maður blessunarlega ekkert að líta í eigin barm og dugir að umturna veröldinni til þess að líða betur.
Í ríki frásagnarinnar
Ég hef stundum byrjað að delera eitthvað um að frásagnabókmenntir séu að verða einu eiginlegu bókmenntirnar – eða einu sem ná marki – án þess að hafa nokkurn tíma sest niður og svarað því með sjálfum mér (eða öðrum) hvað ég eigi nákvæmlega við með þessu. Þetta hljómar samt voða gáfulega. En auðvitað er ég ekki bara að geifla mig út í loftið til þess að hljóma gáfulega, ég er líka að reyna að lýsa upplifun minni. Kannski er þetta í grunninn einhvers konar söknuður eftir meiri tilraunabókmenntum eða módernisma. Mér finnst einsog fleiri og fleiri bækur miði sig að meginstrauminum og stýrist af aristótelískri/Iowa Writers’ Workshop/Netflixískri frásagnartækni, þar sem saman fara ekki bara skýrt skilgreind upphaf, miðja og endir (eða 1. 2. og 3. þáttur) heldur líka svipuð áhersla á „óvenjulegar“ aðstæður og/eða „sérstaka“ karaktera (sem eru gjarnan „venjulegt fólk“ að öllu leyti nema einhverju einu skýrt afmörkuðu), og þess gætt í hvívetna að manni leiðist aldrei. Það er nóg af spennuvökum (cliffhangerum) og boðunum (foreshadowing) og allt sem gerist hangir saman – það eru engir „óþarfa útúrdúrar“, eða annað sem auðveldlega má finna að í ritdómum, án þess að gagnrýnandinn þurfi að réttlæta afstöðu sína nokkuð. Allt sem er skrifað er skrifað til þess að „drífa söguna áfram“, einsog það er kallað. Þær eru yfirleitt frekar konseptsterkar – það má leggja þær upp með spennandi útlistingu upp á tvær-þrjár setningar. Þá er líka lítið fílósóferað – mest í stuttum skörpum hrinum – ákveðin smekklegheit ráða jafnan för (líka þegar fjallað er um hvatamálin verður það alltaf á einhvern máta svo passlegt – engin perversjón er raunveruleg perversjón, meira bara svona hobbí) og undantekningalítið meira „sýnt en sagt“. Einhver orðaði það þannig að höfundar væru orðnir svo miklir fagmenn að þeir gætu hæglega breitt yfir þá staðreynd að þeir hefðu litla persónulega fagurfræðilega sýn og fátt sérstakt að segja (sem þeir þyrðu að segja). Það eru hörð orð sem ég get ekki tekið undir sem lýsingu á samtímabókmenntum – þótt auðvitað rekist maður á eitt og annað sem þetta gæti átt við um. Og kannski er jafnframt ákveðin tilhneiging í þessa átt, að gera handverki og listrænni fágun hærra undir höfði en einhvers konar listrænni/tilraunaglaðri greddu, sem fylgja undantekningalítið fleiri agnúar, þótt fáir séu algerlega undir hælnum á þessari tilhneigingu. Mér sýnist reyndar líka að frásögnin sé að verða meira og meira áberandi í ljóðagerð – ég held að flestar nýjar ljóðabækur sem ég hef lesið í ár hafi verið einhvers konar ljóðsögur þótt þær séu í eðli sínu aldrei jafn miklar frásagnir og skáldsögurnar eða smásögurnar, þær eru alltaf líka að leita leiða út úr frásögninni og inn í tungumálið – og sem sögur eru þær gjarnan frekar sögur sem „hrúgast upp“ brot fyrir brot en sögur sem eru raktar upp með lógískri framvindu. En ég held að ljóðabókum sem segja enga sögu hafi fækkað – og ljóðabækur sem eru í grunninn söfn ólíkra verka, margra ljóða sem eru ótengd að öðru leyti en að þau eiga sér sama höfund, eru afar fátíðar.
Frankensleikir tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna
Frankensleikir var í gær tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barna- og ungmennabóka. Ég átti sjálfur ekki heimangengt en Elías Rúni fór og tók á móti tilnefningunni fyrir okkar hönd. Við börnin skáluðum fyrir þessu hér heima og svo fórum við Nadja út og fengum okkur jólasmurbrauð á Edinborgarhúsinu. Það þarf varla að taka það fram hvað þetta er mikill heiður og ánægja. Ég er byrjandi í barnabókum – það er að mörgu leyti allt önnur list en að skemmta fullorðnum – og er einhvern veginn líka mjög langt frá skarkala jólabókaflóðsins að þessu sinni. Og það er því talsverð hughreysting að þessu sé svona vel tekið – og maður sé alltíeinu í félagsskap við jafn öfluga barnabókahöfunda og raun ber vitni, en auk okkar Elíasar voru tilnefndar þær Sigrún Eldjárn, Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir, Arndís Þórarinsdóttir og Elísabet Thoroddsen. Umsögn dómnefndar var svohljóðandi: Áhugaverð og nýstárleg saga sem sýnir jólasveinana í nýju og óvæntu ljósi. Persónusköpunin er forvitnileg en við sögu koma uppátækjasamir krakkar, kassalaga foreldrar og niðurbútaðir jólasveinar. Í verkinu fléttast listavel saman kímni, fantasía og hrollvekja þannig að úr verður frásögn sem er allt í senn fyndin, óhugnanleg og grípandi. En dómnefndina skipuðu Guðrún Steinþórsdóttir, formaður dómnefndar, Gunnar Björn Melsted og Helga Ósk Hreinsdóttir.
Tom Philips – A Humument
Ég veit ekki hvort ég legg í að minnast fleiri skálda hérna. Nýbúinn að minnast Bernadette Mayer og Enzensbergers. Sleppti Michael Rothenberg. Og svo er Tom Philips, sem ég ætlaði að minnast, eiginlega ekki minnst sem skálds heldur myndlistarmanns. Sem hann auðvitað var. En ég fékk hann samt á heilann sem skáld einhvern tíma á nýhilárunum. En þá fannst mér líka flest vera ljóð. Tom Philips sem sagt tók skáldsögu frá árinu 1892, The Human Document eftir W.H. Mallock, og málaði yfir hverja síðu en skildi alltaf einhvern texta eftir sem myndaði ljóð á síðunni. Hann byrjaði á þessu árið 1970 og fyrstu síðurnar eru frekar grófar – gaf hana svo út 1980 en byrjaði strax aftur að mála yfir það sem hann var búinn að mála. Þegar ég kynntist þessu, upp úr aldamótum, var það á netinu, svo náði ég í app sem var gert upp úr 2010, en þegar hin endanlega útgáfa kom á bókarformi – 2016 – fór það einfaldlega framhjá mér. En fallegra bókverk þekki ég ekki – þótt ég hafi aldrei séð bókina nema á tölvuskjá. Hann dó í fyrradag. En það er hægt að skoða allt Humument á netinu . Og ólíkar útgáfur af hverri síðu líka. Og ef ég fæ ekki bókina í jólagjöf (hint! hint!) hlýt ég að kaupa hana eftir áramót.
Í kennslubók til stúdentsprófs
Lestu ekki hetjuljóð, sonur sæll, lestu stundatöflur: þær eru áreiðanlegri. Sléttu úr sjókortunum
áður en það er um seinan. Vertu á verði, ekki syngja.
Sá dagur rennur upp að þeir hamri aftur yfirlýsingar sínar
á dyrnar og auðkenni brjóst þeirra sem segja nei
með leynilegu tákni. Lærðu að dyljast, lærðu meira en ég: að skipta um lögheimili, vegabréf, andlit. að sýna slægð í smáglæpum, hversdagsins skítugu bjargráðum. Dreifibréf gera gagn sem uppkveikja, stefnuskrár: til að búa um smjörið og salt fyrir þá sem ekki geta varið sig. Bræði er þörf og þolinmæði
svo blása megi innum lungu valdsins
fínu banvænu rykinu, möluðu af hinum margfróðu,
og áreiðanlegu, fyrir þig.
Hans Magnus Enzensberger
Gengi bókar
Hvernig gengur bókin, spyr fólk gjarnan á förnum vegi, og ég yppi bara öxlum. Segi eitthvað um að sölutölur séu mér lokuð bók langt fram yfir áramót – ég frétti sosum af endurprentunum, þegar þær eiga sér stað, en ég veit ekki neitt. Ég les dómana – eða tel allavega stjörnurnar. Stundum eru verðlaun og stundum eru tilnefningar og stundum er einhver reiður við mann út af einhverju – maður verður jafnvel hálftoxískur. Eða tiltekin bók. Sumar bækur þykja léttmeti – en kannski mjög skemmtilegar – en aðrar þykja erfiðar og erfiðisins virði. Eða ekki. Sumar skila miklu í aðra hönd og aðrar litlu og það hangir ekki bara saman við vinsældir. Sumar eru „skref áfram“ á ferli höfundar á meðan aðrar eru „útúrdúr“ eða jafnvel „hnignun“. Stundum þykir bara kominn tími á takedown. Sumar bækur uppfæra hefðina á meðan aðrar eru kannski frábærar – en minna bara mjög mikið á einhverjar aðrar bækur. En ég kann ekki að staðsetja neitt sem ég geri sjálfur á þessum skölum. Og velgengni? Segjum svo að maður hafi selt 100 þúsund eintök og fengið 40 þýðingasamninga og allar stjörnurnar og öll verðlaunin, selt kvikmyndaréttinn og enginn sé reiður við mann nema einhverjir pípandi fasistar (Hannes Hólmsteinn hafði á orði á Facebook á dögunum að það ætti að borga mér fyrir að skrifa ekki – ég tók því sem ákveðnu heilbrigðismerki), hvað þá? Hefur maður þá náð árangri? Er maður ánægður með sjálfan sig? Finnst manni allir höfundar sem hafa náð slíkri velgengni … góðir? Getur maður hafa náð árangri og fundist manni hafa misheppnast – af því eitthvað fór úrskeiðis? Kannski finnst manni maður ekki verðskulda velgengnina – sem maður hafi af einhverjum öðrum? Kannski finnst manni vanta einhverja tiltekna upphefð – þótt maður hafi fengið alla hina? Kannski var einhver einn lesandi sem maður ætlaði að heilla en náði ekki til – þótt allir hinir dýrki verkið? Er árangur objektífur og mældur í t.d. seldum eintökum eða er hann súbjektífur og næst bara þegar sá sem stýrir skipinu er sáttur? Einu sinni sat ég í panel með mjög háværum og frekum frönskum höfundi sem var með böggum hildar yfir því að bókin hans – sem fjallaði um barnaníðsmál í Sviss og var að hluta sannsöguleg – hefði ekki orðið til þess að laga kynferðisbrotalöggjöfina í Sviss. Mér fannst það mjög skrítið markmið með skáldsögu – en þær geta svo sem haft ólík markmið. Finnska ljóðskáldið Leevi Lehto, sem ég hef miklar mætur á, skrifaði einu sinni fræga ritgerð með titlinum „Ekkert sem í upphafi vakti áhuga fleiri en sjö manns getur nokkurn tíma breytt meðvitund alþýðunnar“. Útgangspunkturinn fyrir þessari staðhæfingu er að fjöldaframleiddri list svipi of mikið saman – hún falli of mikið að sama forminu og jafnvel sama innihaldinu líka til þess að breyta neinu. Hún verður bara síbylja. Þannig könnumst við væntanlega flest við að Netflix-þættirnir renni saman, einsog Marvelmyndirnar, í einhvern ókennilegan massa af einsleika – ég man aldrei hvað ég er búinn að sjá og hvað ekki, þetta er allt sami Dallasþátturinn – og sama á við, að mati Leevis, alla list sem reynir að höfða til fleiri en sjö manns. Sem er auðvitað frekar extremt – en Leevi var heldur ekki að reyna að höfða til fleiri en sjö og þá verður maður að vera dálítið extrem. Breyti maður meðvitund alþýðunnar er síðan í sjálfu sér ekkert ólíklegt að það hafi einhver áhrif á löggjöf – jafnvel í Sviss. Pælingin er ekki sú að maður nái aldrei til fleiri en sjö manns – lykilhluti setningarinnar er „í upphafi“. Verkið getur bæði skilist með tíð og tíma og náð almannahylli og svo getur það aldrei náð marki sjálft en haft annars konar áhrif – til dæmis á einhvern annan listamann sem fyllist innblæstri, stendur á öxlum fyrra verksins. Listasagan er stappfull af listamönnum sem breyttu listasögunni án þess að nokkur tæki eftir því. Hvernig gengur bókin? fær þá auðveldlega líka svarið: mjög vel, ég er búinn að selja eitt eintak og gefa annað og lesendurnir eru báðir rosa hvumsa. Þeir vita ekkert hvað þeir eiga að halda! En bókin mín, segiði? Jú, bókin gengur bara vel. „Það best ég veit“, segi ég alltaf. Og reyni þannig að halda því leyndu að ég veit bókstaflega ekki neitt – hvorki um mælanlega eða ómælanlega velgengni.
Allt á fallandi fæti
Ég fór ekki á Bókamessuna í Reykjavík. Hitti engan kollega. En á næstu helgi verður Opin bók á Ísafirði og þá koma Þórarinn Eldjárn, Benný Sif, Örvar Þóreyjarson Smárason, Bergsveinn Birgisson og Elísabet Jökuls. Ég er reyndar ekki að gera neitt á Opinni bók nema vera Inga Birni innan handar og þiggja kvöldverð og hlusta á hina. Örvar er gamall vinur minn úr Nýhil og hin þekki ég öll aðeins – nema Benný, sem ég hef ekki hitt (við erum samt FB vinir og höfum aðeins heyrst þá leiðina). Ég hlakka mikið til. Það er búið að vera rosalega skemmtileg dagskrá í Edinborgarhúsinu í haust – Ingi er alveg í essinu sínu þarna. En sem sagt. Í staðinn fyrir að fara á bókamessu fór ég í partí. Vinir mínir voru að fagna sameiginlegu fertugsafmæli, þakkargjörðarhátíð og nýfengnum íslenskum ríkisborgararétti. Þetta var rosalegt partí – svo rosalegt að ég var byrjaður að kvíða timburmönnunum með þriggja daga fyrirvara. Og get staðfest svona eftir á að það var ekki að ástæðulausu. Djúpsteiktur kalkúnn með ölllu því truflaðasta meðlæti sem hægt er að ímynda sér, pekanpæ og graskerspæ, búrbónlímonaði einsog maður gat í sig látið – viðstöðulaus skemmtiatriði. Ef skammdegið væri ekki orðið algert hefði sennilega verið kominn dagur þegar við Nadja skiluðum okkur loksins heim. Maður má vera þakklátur fyrir hvað maður á góða vini. *** Ég keypti bókablað Stundarinnar. Þar á ég stutt ráð – 70 orð – um skapandi skrif í horni sem er tileinkað slíku. Mitt stutta ráð er þó ekki jafn stutt og hinna – Einar Kára lætur sér duga að biðja fólk að vera ekki að skrifa mjög syfjað, það kunni ekki góðri lukku að stýra. Annars tek ég eftir því að dálkurinn hefur verið styttur alveg svakalega – síðast voru þetta þrír 250 orða pistlar en nú er þetta varla 200 orð samanlagt. Mitt ráð gekk líka út á að maður ætti að reyna að hemja sig í skrifunum svo það hefur kannski bara gengið betur í þessari viku. Annars átti ég nú mest við skáldskapinn – það má alveg skrifa dagbækur og bréf og póstkort og blogg og annað af fullkomnu hömluleysi. Bergsteinn Sigurðsson vakti athygli á því á Twitter að meðalstjörnufjöldi í bókablaði Stundarinnar hafi lækkað milli vikna. Síðast var hann 4,1 stjarna (og fjórar bækur fengu 5 stjörnur) en nú er hann kominn niður í 4 stjörnur sléttar og bara ein einasta bók með 5 stjörnur (hin ágæta Krossljóð Sigurbjargar Þrastar). Sic transit gloria mundi, segi ég nú bara.
Til heiðurs h og speedway veitingavagninum
Hann er soldið einsog hellir fullur af myndum & svörtum & hvítum köflóttum fánum þar getur man auðveldlega óverdósað á koffíni enginn annar veitingastaður er nær heimili okkar, í mesta lagi fimm mílur, hann er mjög ódýr man getur farið þangað þótt man eigi næstum engan pening þau leyfa mani að nota símann ég get keypt tartarsteik fyrir $2.25 en ég hef aldrei kallað það það segi bara hamborgari með eggjarauðu pikkles & hvítlauksdufti auk sjávarsaltsins sem ég tek með mér eigandinn, h (sem h-borgarinn heitir eftir) er mælskur, furðulegur, með jólasveinabumbu undir axlaböndunum það eru öskubakkar útumallt & dásamlegt gamaldags kúluspil hann minnir á east nassau en hann er í west lebanon held ég man getur alltaf talað um veðrið og veiðar kúnnarnir eru víðsýnir einsog þjónustustúlkan & þjónninn sem fer á hnén þegar hann tekur á móti pöntunum á veiðitímabilinu opnar staðurinn hálffimm að morgni hann er skráður til sölu en þeim er ekki alvara eiginkonu h finnst að hann eyði of miklum tíma þarna (sem er satt) og þess vegna fór hún að kalla hann sama nafni og hundurinn þeirra, peaches h horfir mikið á northern exposure, ó & ég gleymdi að nefna uppstúfinn með hakkinu sem er gerður frá grunni, gráleitur & geggjaður & borinn fram á brauðbollu. um daginn keypti h reykofn & í ár ætlum við að mæta í gamlárs- partíið & éta fylltar rækjur og/eða humar Bernadette Mayer
Refsing og umbun
Tugthúsið hans Hauks Más fékk fullt hús stiga í Kilju gærkvöldsins. Það var bæði algerlega viðbúið og ákaflega gleðilegt. Ég las þessa bók í handriti og hef fylgst með honum setja hana saman síðustu árin – þar fór saman gríðarleg vinna og ástríða, fagurfræðileg þrákelkni og meðlíðan með þjáðum og útskúfuðum. Mér skilst að maður eigi ekki að hæla vinum sínum, það sé bara vandræðalegt, en ég hef samt sagt við alla sem ég þekki að þetta sé tímamótaverk. Það verður bara að hafa það þótt það sé vandræðalegt – það verður ekki minna satt fyrir það. Óvenjulegasta og kraftmesta bók þessa flóðs og væri það áfram þótt þú tækir með síðustu tíu. Og næstu tíu. Sá sem nær áramótum án þess að lesa hana verður brottrækur gjör úr samfélagi hugsandi fólks. *** En ég er ekki marktækur. Ég hef verið samferða Hauki í aldarfjórðung – síðan haustið 1998 þegar hann flutti vestur til að kenna í grunnskólanum – og oft liðið sem ég lifði eins konar bílífi á gáfum hans og ástríðu. Maður verður nefnilega betur gefinn af samneyti við hann. Haukur birti fyrsta ljóðið mitt opinberlega – á vef sem hét NRTL ( Nokkrar rafeindir tileinkaðar ljóðlistinni ); við vorum saman í dúettnum Heyr & Endemi , fjölrituðum og heftuðum bækur hvors annars um nætur á lokuðum skrifstofum án leyfis og fórum með eintökin niður á Laugaveg þar sem við stóðum á gömlum ölkassa og skiptumst á að lesa upp meðan hinn seldi gangandi vegfarendum eintök. Við seldum engin ósköp – aldrei verið góðir sölumenn – en kannski nóg fyrir kaffi, bjór, sígó og vínarbrauði þann daginn. Og það var bara hellingur. Hellings djöfuls hellingur. Við stofnuðum Nýhil saman, eina kalda vetrarnótt á horni Túngötu og Hofsvallagötu yfir síðustu sígarettunni úr pakka annars hvors okkar. Bjuggum saman í Berlín og gerðum hvor annan vitlausan til skiptis – fengum útburðartilkynningu saman um vorið. Hann skrifaði formála að fyrstu ljóðabókinni minni, ég skrifaði formála að ritgerðarsafninu hans. Þegar hann brenndi ómögulegt handrit við opinn glugga á Prenzlauer Allée stóð ég yfir honum og hóstaði undan ljóðreyknum. Og útskýrði svo fyrir honum að ég ætti ekki bara rafrænt eintak af þessum ljóðum, sem hann hafði sent mér til yfirlesturs, heldur líka brenndan geisladisk með upplestrum hans á þeim. Og svo framvegis. Ég hef lesið allt sem hann hefur skrifað og Tugthúsið er best. Og verst. Hræðilegust. Ólögulegust. Sárust. Fyndnust. Hún er þrekvirki sem verður ekki lýst almennilega með öðrum orðum en þeim sem í henni sjálfri standa – en hafið engar áhyggjur, hún lýsir sér mjög vel sjálf, kennir manni að lesa sig. En þið getið ekki treyst mér, ég er ekki marktækur því ég myndi segja þetta hvort eð er. Haukur Már er fóstbróðir minn. En þetta er samt satt! Þau segja það líka í Kiljunni . Öll þrjú – Kolbrún, Egill og Þorgeir. Bubbi Morthens segir það. Kristín Ómarsdóttir segir það. Ef það dugar ykkur ekki – neyðist ég til þess að vísa málinu til Landsréttar . Og ef það er ekki nóg, sem það andskotakornið hlýtur að vera, þá legg ég fram mitt lokasönnunargagn, aðaltrompið – sjálfur fangelsismálastjóri hefur, í sjálfu Morgunblaðinu , sagt að þessi bók sé stórkostleg. „Lestur verksins fær lesanda til þess að velta fyrir sér eðli, tilgangi og inntaki refsinga og undirstrikar hve heimsins auðæfum er með ranglátum hætti misskipt og mannskepnan grimm og sjálfhverf.“ Sagði fangelsismálastjóri . Í Morgunblaðinu . Um Tugthúsið . Ef það dugar ykkur ekki, þá var ykkur aldrei viðbjargandi til að byrja með.