Fjögur: Heimska er hugsanlega staður

Í gærkvöldi spurði Nadja mig hvort að við myndum alltaf tengja Víetnam við sjónvarpsþættina 24, sem við höfum horft á í vetur, og í kjölfarið fórum við að ræða hvaða seríur við hefðum horft á hvar. Síðan við byrjuðum saman, trúlofuðum og giftum okkur árið 2007 – á fáeinum mánuðum – höfum við, auk Hoi An, búið í Helsinki, Oulu, Stykkishólmi, Rejmyre, á tveimur heimilum í Västerås og tveimur á Ísafirði. Og hverju heimili fylgja nýjar sjónvarpsþáttaseríur. Það er prójekt nútildags að horfa á heila seríu – sérstaklega ef serían er öll búin þegar maður byrjar að horfa og maður kannski sökkvir sér í Sopranos í hálft ár kvöld eftir kvöld. Seríurnar sem maður horfir á jafn óðum og þær eru sýndar renna meira saman við árin – Game of Thrones er t.d. alls staðar og hvergi.* Öllu mikilvægari lífspóstar eru bækurnar sem ég hef skrifað á ólíkum stöðum. Í Helsinki átti ég það til að fara á fætur um miðja nótt til að rímixa Tímann og vatnið eða skrifa niður eitthvað sem suðaði í hausnum á mér, því það væri nauðsynlegt að það gerðist strax, og eyddi stundum heilu vikunum í að tvíka til einhver smáatriði í ljóðavídjói, á milli þess sem ég skrifaði Gæsku. Ég hef sjálfsagt aldrei unnið jafn mikið á ævinni og þetta fyrsta ár sem ég var í fullu starfi sem rithöfundur. Í Grimmakoti á Ísafirði engdist ég yfir ritgerðarsmíðum og á Jakobsbergsgatan flúði ég húsið svefnvana eftir nýfæddan Aram og settist á kaffihúsið Kalla á Spönginni til að skrifa fyrstu síðurnar í Illsku – sem fylgdi mér síðan til Tiedonkaari í Oulu, með mikilvægum vinnulotum í Visby á Gotlandi, Norðurtanganum á Ísafirði og Jurbarkas í Litháen. Ég gerði síðustu breytingar í Rejmyre og las próförk í Vatnasafninu á Stykkishólmi. Og staðir: Þegar ég var að skrifa kaflann um unglingsár Ómars, í þriðja hluta Illsku, sat ég á háskólabókasafninu í Oulu og sló því upp hvað forritin hétu sem maður notaði til að komast inn á IRCið – sem Ómar notaði til að koma sér í vandræði – og rak mig á að IRCið var fundið upp í Oulu. Í tölvudeildinni í háskólanum. Sem var á hæðinni beint fyrir ofan mig. Staðir skipta bækur máli og bækur skipta staði máli. Þegar Eitur fyrir byrjendur kom út á sænsku bjó ég í Oulu í Norður-Finnlandi og tók rútuna niður til Umeå í Svíþjóð á Littfest og las nýútkomna þýðinguna á leiðinni. Og það rifjaðist svo margt upp fyrir mér – alls kyns díteilar úr lífi mínu einsog það var þegar ég skrifaði bókina fimm árum áður. Matur sem ég borðaði, fólk sem ég tók eftir á götu, greinar úr blöðunum, hugsanir sem sóttu á mig, samræður og svo framvegis – og margt er líka ómögulegt að vita hvort voru raunverulegar minningar eða tilbúnar (maður bullar svo mikið í sjálfum sér um eigin minningar). Í einhverjum skilningi var þetta einsog að lesa dagbók þótt frásögnin gæti varla verið ólíkari mínu eigin lífi. Fyrstu fjögur handritin að Heimsku skrifaði ég ýmist á ferðalagi – ég var meira en hálft árið 2013 á faraldsfæti – eða við púltið sem bróðir minn smíðaði handa mér á Ísafirði. Fimmta handritið skrifaði ég í Jonsered og sjötta í Västerås. Sjöunda og áttunda handrit skrifaði ég svo við Le Hong Phong númer 32 í Hoi An, þar sem ég er enn, í dálitlu eirðarleysi. ** Það sjöunda var alveg jafn vonlaust og hin sex á undan en það áttunda einfaldlega small. Ég veit ekki hvað gerði herslumuninn, nákvæmlega, en það hvarflar að mér að eftirlitsdystópían hafi kannski gengið upp vegna staðsetningarinnar, vegna þess að ég er í einræðisríki langt að heiman – að ég hafi kannski fattað eitthvað hérna sem ég fattaði ekki almennilega áður, eitthvað sem ég kannski skildi einhverjum bókstafsskilningi en fann ekki til í beinum mér. Þar kemur að minnsta kosti tvennt til. Hið fyrra: Einhvern tíma í janúar skrifaði ég tölvupóst til kunningja míns í Bandaríkjunum og það sló mig að hugsanlega væri pósturinn færður til bókar á báðum endum. Ég held manni sé alveg óhætt að reikna með því að víetnömsk yfirvöld geymi að minnsta kosti lýsigögn um allar tölvupóstsendingar úr landinu – og líklega líka textann sjálfan. Og bandarísk yfirvöld gera áreiðanlega slíkt hið sama við allan póst sem kemur frá Víetnam. Það er merkileg tilfinning. Hið síðara: Maður sleppur aldrei lengur. Það er alveg sama hvað maður fer langt út í heim, maður tekur allan farangurinn með sér – gamla skólafélaga, fjölskylduna, kollegana, debattana, skandalana, upphrópin og andvörpin. Mér fylgir Ísland og að hluta til Svíþjóð, alla daga jafnt, í krafti þess eins að þau geta fylgt mér og ég get ekki annað en fylgt þeim. Ég slökkti á Facebook á mikilvægasta sprettinum – af nokkrum ástæðum.*** Og þegar maður slekkur á Facebook notar maður Twitter meira, sem er svolítið einsog að reykja meira hass svo maður þurfi ekki að vera fullur alla daga; og netnotkun manns, eftirlit manns með heiminum, verður passífara – en það er enn til staðar, maður sér ennþá út þótt ekki sjáist jafn mikið inn, maður er enn með farangurinn á bakinu, ennþá með staðina sína í farteskinu. Maður er bara búinn að læsa sig inni í herbergi til að fá smá frið. Hið fyrra er panoptikanska tilfinningin – þar sem maður er eiginlega alveg viss um að yfirvöld fylgjast með manni og gerir sér grein fyrir því að hugsanlega geti alls konar hegðun komið í bakið á manni af þeim sökum. Hið síðara er synoptíkanska tilfinningin þar sem allir fylgjast með öllum, þar sem maður er viðstöðulaus þátttakandi í eftirlitsnetinu og meðvitaður um að maður kemst aldrei alveg út úr því sjálfur. Þar eru líka alls kyns refsingar – útskúfun, afhjúpun og einelti þar á meðal – þótt þær séu annars eðlis. Panoptikon – bygging Benthams – er alræðisfangelsið; synoptikon er þægilega stofufangelsið. Við njótum þess líka að refsa öðrum, njótum þess að benda, hía og finna til valdsins sem synoptikon gæðir okkur. Í gær póstaði ég búti af Wikipediu um heimsku þar sem fram kom að orðið „heimska“ væri skylt orðinu „heima“ og merkti þá að maður væri „ósigldur“, hefði ekki séð heiminn (sem er annað orð sem hlýtur eiginlega að vera skylt bæði „heima“ og „heimskur“ ****). Ég póstaði bútnum aðallega af því mér fannst fyndin athugasemdin um að fólk væri ósammála um hvort heimska væri þrálátt ástand eða hvort maður gæti losnað við hana – en hitt, sem ég hafði þó oft heyrt áður, hefur sótt svolítið á mig síðan. Og í sambandi við þetta hérna að ofan þá hvarflar að mér að maður komist ekki lengur að heiman – það sé ekki hægt, það skipti engu máli hversu langt maður fer maður sé alltaf líka heima. Í heiminum og heima. Og það verður fljótt dálítið angistarhlaðið – og hreinlega ofhlaðið. Ég er ekki viss um að maður ráði við nema takmarkað mikinn veruleika; og að þótt maður aðlagist þá þýði það ekki að maður aðlagist sér (eða samfélaginu) að kostnaðarlausu. Það slær mig líka núna að orðið útópía – sem systurhugtak dystópíunnar, og einhvers konar andheiti hennar – þýðir bókstaflega „staðleysa“. Og andheiti staðleysu er væntanlega staður? Ísafjörður? Framtíðin? Internetið? Er fjarlægðin líka staður? Er heimska staður? Þegar ég hef spurt mig að því hvaða merkingu það hafi að Heimska skuli gerast á þeim eina stað sem ég kalla blygðunarlaust „heima“ – þ.e.a.s. á Ísafirði – og sé skrifuð úr fjarlægðinni, hef ég aðallega verið að velta því fyrir mér hvort að mínir heimamenn, mitt heimafólk, taki því illa, einsog ég sé að segja að þeir séu heimskir (sem er ekki meiningin). En ég ætti kannski fyrst og fremst að spyrja hvað þetta segi um sjálfan mig? Hvort ég ætti ekki að taka þessu illa? Það stendur til að flytja til Ísafjarðar næsta sumar eða haust – fjárfesta í húsi, búa til framtíð (sem verður vonandi önnur en sú í bókinni). En svo er kannski ekkert sem tryllir mann jafn örugglega og að beita sínar eigin bækur „ævisögulegu aðferðinni“ – og það áður en þær eru einu sinni komnar út! Þá er maður áreiðanlega fastur í einhvers konar solipsískri vítahringsmartröð. — * Reyndar hlustaði ég svo mikið á fyrstu 2-3 bækurnar á hljóðbók, sumarið 2013, þegar ég þurfti að keyra mikið á milli Ísafjarðar og Keflavíkur, að veröldin – einsog framleiðsla þáttanna – fór að renna saman við landslagið og ég hugsa núorðið um allt ofan við Hólmavík sem „north of the wall“, en það er önnur saga og hallærislegri
** Og að leita mér að launuðum verkefnum, ekki síst þýðingum, ef einhver veit um slíkt má skrifa mér) .
*** Ein verandi sú að einsog það er ekki hægt að skrifa um Ísafjörð þegar maður er á Ísafirði er ekki hægt að skrifa um eftirlit á meðan maður sinnir því alla daga – það þarf ákveðinn distans; önnur verandi að félagsmiðlar eru tímasvarthol sem er auðvelt að fá þráhyggju fyrir ef maður er þannig stemmdur, það rænir mann hugarrónni að þurfa að „leiðrétta allt fólkið á internetinu“, einsog fram hefur komið í skrípateikningum; þriðja verandi að víetnamski kommúnistaflokkurinn er með filter á netinu svo maður þarf að fara krókaleið inn á félagsmiðla, svona einsog maður þarf að gera til að lesa íslenskar rafbækur í kindli
**** Sló því upp, það stendur „heima“ .

Tvö: Átta handrit eða fimm

Þrjátíu þúsund orð er í það stysta fyrir skáldsögu. Einhvers staðar minnir mig að ég hafi lesið að skilin á milli skáldsögu og nóvellu væru við fimmtíu þúsund orða markið. Þá er Heimska sirka hálf skáldsaga. Og reyndar mjög margar svonefndar skáldsögur undir mörkunum. En svo er það ekki lengdin heldur breiddin sem skilgreinir skáldsöguna; það er víddin og grynningarnar, hvernig gripið er í flotholtið á rúmsjó, hvernig staðið er yfir pæinu í ofninum, hvernig marhnúturinn er blóðgaður á bryggjunni, í hvaða höfuðátt mjaðmirnar draga mann á dansgólfinu – og svo framvegis. Þetta þekkir allt lesandi fólk. Ætli þetta séu 150 blaðsíður? 200? Því ræður umbrotsmaðurinn. Í öllu falli hef ég skrifað þær átta sinnum, eða svona, með ýkjum hef ég skrifað þær átta sinnum – kannski hef ég bara skrifað þær fimm sinnum – það fer allt eftir því hvernig maður telur og við hvað maður miðar. Ég hef aldrei klárað handritið áður, aldrei rakið mig til enda – nema ég telji með eitt hliðarspor, reyfara sem ég skrifaði út frá einhverjum skyldum þemum og ég ætti eiginlega að eyða áður en ég hrekk óvart upp af og einhver gefur hann út; og raunar eru að minnsta kosti þrjú handrit af þessum átta hliðarspor sem gerast ekki í framtíðinni og mörkuðu að mismiklu leyti grunninn að bókinni sem nú er Heimska. Ég hélt ekki að þetta myndi nokkurn tíma hafast – varla nema tvær vikur frá því ég hótaði því síðast að gefast upp, í einhverju dramakasti, þessi helvítis bókartuðra mætti fara til andskotans mín vegna. Síðasta handritið skrifaði ég allt, frá byrjun til enda, í Hoi An í Víetnam, á nærbuxunum uppi í rúmi með loftkælinguna á fullu, lemjandi af mér moskítóflugur einsog Laxness á Taormínu, Duras í Saigon eða Marlon Brando í Kambódíu. Ég er hérna enn, á Le Hong Phong númer 32, það hitnar bara og hitnar – og nú er ég sáttur, glaður, reyfur, réttlátur í samfélagi manna, geng gleiðum greiðum sporum og tek að ofan kúluhattinn þegar ég mæti nágrönnum mínum, mæti rakaranum handan götunnar, bókaranum vinstra megin eða áburðarsalanum hægra megin, tek að ofan þegar ég mæti Ho Chi Minh skiltunum og hef eftir spakmælin sem eru höfð eftir honum og rituð á skiltin án þess að vita hvað þau þýða – en það styttist líka í að ég snúi aftur til norðurlanda – þótt fósturjörðin verði væntanlega lítt* snert fyrren í haust – og þá verður aftur kalt þar til það hlýnar, og svo kólnar aftur og þá kemur bókin út. * Það er hugsanlegt ég komi við í RVK til að taka upp hljóðbókina nú í vor. Tek á móti bókunum í kaffi í athugasemdum.

Eitt: Ritað undir*

Fyrir tveimur árum skrifaði ég stutta sögu fyrir Ókeipiss – sem Sigurlaug Gísladóttir, a.k.a. Mr. Silla myndskreytti. Það voru engar reglur, sem ég man, nema að textinn mætti ekki vera hluti af stærra verki. Átta uppköstum síðar er ég kominn með útgáfusamning fyrir stutta skáldsögu (og ekkert eftir af textanum úr Ókeipiss nema fnykurinn). Gæska fjallaði um samtímann (sinn), Illska fjallaði um fortíðina og nú er bara framtíðin eftir, áður en ég sný mér að öðru, ótíðum, illtíðum, aftíðum. Heimska – sem er einhvers konar dystópía um kynlíf, bókmenntir og eftirlit, og gerist á Ísafirði – kemur sem sagt út snemma í haust hjá Forlaginu – samtímis í kilju, á rafbók og hljóðbók. Nú er eiginlega ekkert eftir nema að eyða fyrirframgreiðslunni í vitleysu. Eða skuldir vegna vitleysu sem ég hef þegar fjárfest í. * Eiginlega undirritaði ég ekki neitt. Ég er í Víetnam og sendi bara tölvupóst með orðinu „samþykkt“ á verkefnisstjórann.

Untitled

Í sósíalismanum eru það ekki bara sjóræningjasíðurnar sem ógna allsherjarreglu heldur líka samfélagsmiðlarnir (í kapítalismanum höfum við meiri áhyggjur af upplausn fjármagns en upplausn félagsvitundar, í markaðssósíalismanum þarf að hafa kontról á hvorutveggja). Facebook er auðvitað bannað, en það er jafnvel einfaldara að fara framhjá því banni en afritunarvörnum íslenskra rafbóka – ég hef varla séð neinn taka upp síma eða opna fartölvu í þessu landi án þess að þar sé Facebook opið. Twitter og Google Plus eru líka bönnuð á sama hátt. Raunar viðurkennir ríkisstjórnin alls ekki að hún hafi bannað félagsmiðla – kennir einhverjum öðrum um, man ekki alveg hverjum, útlendingum – ekki frekar en Pressan og miðlar hennar gangast við að hanga í sama ættartré og Framsóknarflokkurinn. Eitt og annað fleira er svo bannað – alls konar spjallforrit, heimasíður mannréttindasamtaka og auðvitað heimsvaldasinnarnir á BBC. Mér skilst að ástandið sé svo verst þegar kemur að miðlum á víetnömsku – miðlar á ensku geta gagnrýnt yfirvöld upp að vissu marki án þess að lenda í veseni en miðlar á víetnömsku mega víst ekki halla á hana máli að nokkru leyti án þess að vera lokað tafarlaust.

Lífið í sósíalismanum

Í gær hljóp ég lengri leiðina (10 km) niður á strönd í glampasólskini og 26 gráðu hita og uppgötvaði, mér til talsverðrar furðu, að ég er fær um að svitna líkamsþyngd minni á um það bil einni klukkustund. Það hlýtur að vera einhvers konar eðlisfræðilegt kraftaverk. Ég tók líka fullt af myndum, meðal annars af merkilega íslenskri kúahjörð (en ég hleyp annars mest með hænsnum, hundum, uxum, vespum, bílum, gæsum, rottum og eðlum). Nadja og A&A biðu mín á ströndinni (þau fóru saman á einu hjóli, að víetnömskum sið) og þegar ég hafði baðað mig fengum við okkur rándýran kvöldverð á túristaveitingastað (mér reiknast til að hann hafi kostað heilar 2.500 krónur íslenskar fyrir alla fjölskylduna (við fengum okkur að vísu hvorki forrétt né eftirrétt)). Svona er lífið í sósíalismanum, börnin góð.

Helvíti er annars staðar

Heimabankinn er svo hægur að ég er að hugsa um að hætta bara að borga reikningana mína. Enda bý ég ekki lengur í sama kapitalíska helvítinu og þið hin og ætti ekki að láta einsog þetta komi mér við.

Ekki klám

Í gær eða fyrradag gengum við framhjá einfættum manni á handdrifnu reiðhjóli og Aram spurði mig hvort ég hefði séð hann (þetta er samt langt í frá fyrsti einfætti maðurinn sem við sjáum). Fyrren varir var ég farinn að útskýra fyrir honum eitt og annað um jarðsprengjur og hernað – við höfum að vísu nokkrum sinnum talað stuttlega um Víetnamstríðið (sem Aram kallaði fyrst þorskastríðið og ég skildi ekkert hvað hann var að spyrja út í – nú kemur þorskastríðið alltaf líka til tals þegar við ræðum Víetnamstríðið). Sjálfsagt er aldrei gaman að segja neinum frá jarðsprengjum sem hefur ekki nógu grimmilegt ímyndunarafl til að láta sér detta slíkt í hug, en það er áreiðanlega líka svolítið annað að útskýra fyrir barni jarðsprengjur í landi þar sem enn er mikið um fólk sem er einfætt fyrir þeirra sakir – þótt stríðinu hafi lokið löngu áður en ég fæddist. Ekki mikið stríðsklám í því, eiginlega, heldur eitthvað miklu hversdagslegra.

Jól

Klukkan er hálftólf að kvöldi í vesturbæ Hoi An. Við fórum út að borða með mági mínum og konu hans, sem eru í heimsókn en búa annars í Peking (en hann vinnur í Bangkok). Við fengum sjóvartara, tvo ólíka smokkfiskrétti, risarækjur, banh xeo pönnukökur með svínakjöti, wokaða tjarnavafklukku, vorrúllur, papayasalat með kjúklingi, djúpsteikt rækjumauk á sítrónugrasstöngli og makríl. Og nóg af hrísgrjónum auðvitað. Í eftirrétt voru ferskir ávaxtadrykkir – mangó, vatnsmelónu, ananas – grænt te og pönnukökur með súkkulaði, banana og ananas. Maturinn var himneskur – fersk kryddin beinlínis tínd af akrinum fyrir framan okkur – og enginn réttanna kostaði meira en 5 dollara. Aram fékk tvær dósir af sprite með herlegheitunum og var að tryllast úr sykursjokki á eftir (hann fær sjaldan svo sæta drykki). Svo fórum við heim í pakka. Ég fékk risastóra pottahanska á hrammana á mér, fallegar og stórar kryddkrúsir stútfullar af chili og sichuan-pipar, ávísun á sérsniðna leðurskó – eitt eða tvö pör eftir því hvað ég vel mér fína (hef annars bara gengið í sandölum og hlaupaskóm síðustu vikur) – og fínasta ninjaspilið úr stokknum hans Arams. Nú eru allir farnir að sofa nema Nadja, sem er að tína saman gjafapappírinn, og ég sem drakk víst dálítið mikið (og sterkt) kaffi með pökkunum.

Big man

Þegar ég fer einn í bæinn hía þau á mig hvað ég sé stór. Big man, big man. Híhíhí. Og benda. Kalla á vini sína. Þegar ég fer með börnin, sérstaklega Aino sem er yngri og ljóshærðari, fá þau alla athyglina – granninn á vespunni á rauðu ljósi byrjar að strjúka á þeim hárið og gera gjugg í borg. You children? Spyrja þau (hvort sem ég er með eitt eða tvö). How old baby? spyrja þau. Tenty month, svara ég (því í samskiptum mínum við heimamenn tölum við öll jafn lélega ensku). You wife? spyrja þau og skilja ekkert þegar ég reyni að segja að hún sé heima, en ekki sem sagt á hótelherbergi eða í spa eða einhverju þvíumlíku. In house, segi ég. We hire house. Og svo féfletta þau mig eftir fremsta megni en eru annars ótrúlega vinaleg.