Sjónarhæð

San Pedro Sula, önnur stærsta borg Hondúras og heimili okkar næstu tvo mánuði, var fram til ársins 2016 sú borg í heiminum þar sem flest morð voru framin miðað við höfðatölu. Árið 2013 voru framin 187 morð á hverja 100 þúsund íbúa. Það jafngildir því að það væru framin um 600 morð á Íslandi á ári hverju. Hondúras tilheyrir fátækasta hluta Suður Ameríku og ójöfnuður er með því mesta sem gerist í heiminum. Um tveir þriðju landsmanna lifa við fátækt og það fer ekkert framhjá manni. Hér er síðan eiginlega engin millistétt. Maður er annað hvort fátækur eða ríkur. Ég kann ekki á ginistuðla og get ekki lesið í GDP en Hondúras er nálægt botni allra lista sem hantera slíkar tölur. Landið er líka mjög íhaldssamt – fóstureyðingar varða sex ára fangelsisvist fyrir bæði fósturbera og lækni og annað er eftir því. Mjög margir flýja land til Bandaríkjanna og Mexíkó og óhemja af þeim eru sendir aftur til baka á degi hverjum – þúsundir. Hér ráða tvö gengi ríkjum, MS-13 (Mara Salvatrucho) og Barrio 18 (eða 18th Street Gang). Mismikið eftir hverfum en hvergi ekkert. Bæði eru alþjóðleg glæpasamtök og eiga uppruna sinn í Los Angeles. Þessi gengi sjá um bróðurpartinn af vígum og skærum og eru að sögn mest í því að drepa þá sem eru með í leiknum – frekar en bara venjulega borgara. Ekki svo að skilja að þeir drepi bara glæpamenn – þeir drepa líka ríkisstarfsmenn sem þvælast fyrir þeim, þá sem þiggja ekki mútur eða neita að taka þátt í leiknum þegar þátttöku þeirra er krafist. Af og til kemur líka fyrir að túristar eða útlendingar séu drepnir af hinum ólíkustu ástæðum eða ástæðuleysi en þeir eru almennt fremur aftarlega í aftökuröðinni. Þetta er oft dregið fram þegar er verið að hughreysta þá sem hingað koma – það er hvorutveggja vandamál hvað hingað koma fáir túristar, enda viðheldur það fátæktinni, og hvað er fátt fólk á götunum, enda eru fáfarnar götur ótryggari en fjölfarnar. Hins vegar verður ekki horft framhjá því heldur að sennilega er aðalástæða þess að útlendingar eru sjaldnar drepnir og rændir sú að þeir búa innan múra og eru sjaldan á svæðum sem ekki eru vöktuð af vörðum með skaftlausar haglabyssur og öryggismyndavélum. Við búum hjá mági mínum í stórri íbúð í þrjátíuogfjögurra hæða kristalsturni sem stendur svo að segja einn í mikilli breiðu einbýlishúsa af öllu mögulegu tagi – serðir himnakuntuna, einsog Eyvindur Pétur orti um Hallgrímskirkju. Húsið heitir Panorama – Sjónarhæð. Vestan við okkur er mikið frumskógi vaxið fjall sem nær hápunkti sínum í Cerro Jilinco, tæpa 20 kílómetra héðan, ríflega þúsund metra hátt. Í fjallinu eru bústaðir líka fjölbreyttir. Ég sé hvítkalkaða lúxusvillu og kannski tvö hundruð metrum frá henni – í skjóli frumskógarins, líklega sést ekki á milli húsanna þótt ég sjái þau bæði héðan af sextándi hæðinni – er kofi úr gömlum afgangsspýtum og ryðguðu bárujárni. Upp að honum liggur moldarslóði og við slóðann stendur skilti. Haldið ykkur úti. Það stendur ekki en mér er sagt að skilaboðunum sé sérstaklega beint að íbúum Panorama. Ég tók ekki myndina, hún er af netinu. Við Nadja erum með eigið herbergi og klósett og börnin deila herbergi með heimadrengnum. Veggirnir eru hvítir og auðir, það er hátt til lofts, og erfitt að fá leyfi til að hengja nokkuð upp. Mágur minn á ekki íbúðina heldur leigir. Við erum sjö talsins sem búum hér en það eru bara sex stólar í íbúðinni og virðist vandkvæðum bundið að fjölga þeim líka – allt praktískt er talsvert vesen þegar maður er læstur inni í kristalsturni. Heimadrengurinn fær jafnan að sitja í fangi foreldra sinna í kvöldmatnum. Hér úti í garði eru tvær sundlaugar, rennibrautir, leikvellir, fótboltavöllur, líkamsrækt og tennisvöllur. Til að komast út í garð eða upp með lyftunni stingur maður fingrinum í fingrafaralesara. Við sundlaugina eru bara börn og konur og flestar kvennanna eru barnapíur. Ég er eini karlinn sem ég hef séð í lauginni. Ungir karlar eru svolítið á fótboltavellinum og í tennis og í ræktinni. Annars eru þeir í vinnunni – hér búa þingmenn, forstjórar og mikilvægari millistjórnendur og allir vinna þeir að lágmarki tólf tíma á dag. Í þrjú hundruð metra göngufjarlægð er kaffihús en þangað fer enginn. Að minnsta kosti ekki gangandi. Heimilisfólkið hér hefur einu sinni farið þangað en var svo varað við því af nágrönnum sem höfðu orðið varir við ferðir þeirra að glæpamenn gætu farið að fylgjast með þeim og náð þeim þegar þau væru farin að telja sig örugg. Kannski í þriðju eða fjórðu ferð. Það er ómögulegt fyrir utanbæjarmenn – bláeyga norræna dreifara – að átta sig á því hvað er bara noja og hvað er raunverulegt efni til að óttast. Ég man að þegar Nadja kom fyrst vestur varaði ég hana við að fara að hlaupa upp á fjöll án þess að vita hvert hún væri að fara eða gera – enda lendir fólk reglulega í sjálfheldu (bara í vikunni sátu tveir ungir heimamenn fastir í langan tíma uppi í Naustahvilft og þurfti þyrlu til að ná öðrum þeirra niður). Það myndi enginn stoppa okkur í að fara á kaffihúsið – held ég – en það myndi enginn mæla með því heldur. Ég vildi gjarna geta nýtt það – ég sit læstur inni í svefnherbergi á daginn við skriftir, uppi í rúmi af því stólarnir eru allir frammi og ekki skrifborð í öllu húsinu. Það er margt sem berst um í höfði mér og í hjartanu. Á sama tíma og lífið hérna í kristalsturninum er fullkomlega óverjandi á svo margan hátt er algerlega óhugsandi að ætla út fyrir múrinn í göngutúr með börnunum. Það er líka óþægilegt að útskýra þetta allt fyrir Aram Nóa og Aino Magneu. Ekkert af þessu kemur manni í sjálfu sér á óvart en það er annað að þurfa að takast á við hlutina en að hugsa bara um þá – að standa frammi fyrir þeim og þurfa að útskýra þá fyrir einhverjum sem tekur orðum manns alvarlega. Það er einsog tannhjólin í heilanum hreyfist hægar, einsog myllan ráði ekki við að mylja allt sem í hana er troðið – maður hefur ekki undan. Við tölum mikið um Víetnam – speglum þessa reynslu í hinni, þegar við bjuggum í Hoi An. Þetta er einsog nótt og dagur. Það er undarlegt að segja það en kofabrjálæðið var verst fyrsta daginn. Þá var maður enn flugþreyttur og einhvern veginn svo bjargarlaus. Fyrsta tilfinningin sem greip mig þegar við komum hingað á „hótelið“ – af því þetta er alveg einsog að vera á hóteli – var að vilja fara burt. Ekki aftur heim, eða þannig, bara út í smá stund – til að anda. Síðan þá höfum við þó farið í tvo leiðangra – með bíl – annars vegar í verslunarmiðstöð og hins vegar í súpermarkað. Það er ekki merkilegt en þetta eru samt staðir utan múranna – „eðlilegir“ staðir – og léttir svolítið á spennitreyjunni. Því sá sem læsir aðra úti læsir auðvitað sjálfan sig inni líka. Ég þarf að skrifa mikið í sumar en við ætlum samt að reyna að komast eitthvað. Það eru ekki allir staðir í landinu jafn ótryggir og San Pedro Sula og það er auk þess alveg hugsanlegt að við bregðum okkur eitthvað út úr landinu. Það er ekki langt til Guatemala og þar er ástandið víst allt annað.

Útskriftartónleikar TÍ, Father of the Bride, Hyldýpi, Princess Bride, jarðarför Kolbeins, Hatari/Eur

Menningarvikan byrjaði á útskriftartónleikum Tónlistarskóla Ísafjarðar. Þar er Aram að læra á trommur. Aino er í Listaskóla Rögnvaldar að læra á píanó – þeir tónleikar eru held ég á miðvikudaginn. En allavega. Aram spilaði Hey Joe og stóð sig mjög vel – var farinn að bíta sig í vörina af fílingi um mitt lag. Það kom mér svo talsvert á óvart þegar í ljós kom, aðeins eftir að við komum heim, að hann var alveg ónýtur yfir þessu – fannst hann hafa klúðrað öllu og þetta væri bara allt ómögulegt. Ekkert var fjær sanni. Við þurftum að eiga langt samtal um hvernig það skipti máli að geta haldið áfram þrátt fyrir smávægilegar skissur – frekar en að frjósa t.d. – og hvernig það væri alltaf tilfinningin sem væri aðalatriði, að negla bítið og meina það, sem hann hefði gert alveg upp á tíu, og hann mætti vera stoltur af sjálfum sér að hafa náð þetta langt á tæpu ári – og ég væri alveg lifandis skelfingar stoltur af honum. Sem ég er. Hann fór beint upp í herbergi að tromma þegar við höfðum sagt allt sem við vildum segja og ég held það sé góðs viti um framhaldið. Nú á helginni fóru þeir vinirnir – hann og Hálfdán Ingólfur og Þórður mennski Skúlason – út í bæ með gítara og potta og pönnur og gamla hatta frá mér til að böska og þénuðu nóg til að kaupa sér pizzasneiðar í hádegismat og setja afganginn (þrjú þúsund kall) í hljómsveitarsjóð. Hann spilaði reyndar líka í tónsmiðju á tónleikunum – á Ukulele, You are my sunshine og Súrmjólk í hádeginu. *** Ég hef eitthvað aðeins haldið áfram að hlusta á Father of the Bride og meðal annars komist að því að hún er betri í hátölurum en heddfónum. Útsetningarnar eru of pældar til að maður nenni að heyra alla díteilana – verður bara of mikið show off – og svo er röddin í Ezra Koenig ekki jafn óþolandi í hátölurum. Hann er með svona Crash-Test-Dummies, Counting-Crows rödd – það er alltaf einhver áferð þarna sem ég á mjög erfitt með að komast yfir. Ég er svolítið viðkvæmur með svona, viðurkenni það alveg – hef t.d. aldrei alveg getað tekið Chris Cornell í sátt, og er hann þó æskuídol. Fín plata samt – góð í uppvaskið, matreiðsluna, en síðri til að ryksuga við (af því þá vill maður vera með heddfóna). *** Ég hlustaði á útvarpsþættina Hyldýpi sem skrifstofunautur minn Halla Mia Ólafsdóttir og Birgir Olgeirsson, söngvari og blaðamaður frá Bolungarvík, gerðu fyrir RÚV. Þættirnir fjalla um óveðrið 4.-5. febrúar 1968 þegar á þriðja tug togara leituðu vars í Ísafjarðardjúpi. Þetta er eitt versta veður í manna minnum og tvö skip fórust en eitt strandaði. Lýsingarnar eru hrottalegar. Þetta er einhvern veginn bæði svo kunnuglegur heimur og framandi í senn.  Ég ólst upp með pabba á sjó rúmum áratug eftir þetta og þótt ástandið hafi strax þá verið orðið nokkuð skárra – öryggismál í betri farveg og veðurspár nákvæmari – þá er tilfinningin eitthvað svo kunnugleg. Áhyggjur bæjarfélags af sjómönnunum sínum. Þættirnir eru afar vel gerðir – Birgir og Halla nálgast söguna af virðingu og hlýju. Og þetta er líka mikilvægt starf – ég veit ekki hvort það er rétt að segja að maður streitist gegn minnisleysinu. Javier Cercas talar talsvert um muninn á minninu og sögunni í Impostor. Memory is threatening to replace history in an era saturated with memory. This is bad news. Memory and history are notionally opposites: memory is individual, partial and subjective; history is collective and aspires to be comprehensive and objective. Memory and history are also complementary: history gives sense to memory; memory is a tool, an ingredient, a part of history. But memory is not history. Og kannski er það einmitt það sem gerist í svona þáttum – sagan tekur við af minninu. Minnið er lagt fram og verður dokúment og dokúmentið verður mannkynssagan. Þetta er ómetanlegt starf. *** Kvikmyndaklúbbur fjölskyldunnar horfði á Princess Bride. Ég var að sjá hana í fyrsta sinn og það var ég sem valdi (við skiptumst á). Hún var að mörgu leyti mjög skemmtileg – mikið af þekktum línum og mikið af skemmtilegri … kerskni, er það ekki orðið sem ég er að leita að? Sennilega hefði hún samt verið miklu betri ef nostalgían hefði verið með í för. Mér finnst líka mjög leiðinlegt, og ég mjög leiðinlegur, að festast í hlutum einsog kynjahlutverkunum. Þau eru svolítið eitís, ef ekki hreinlega seventís. Mig langar að hefja mig yfir þetta – vera meðvitaður um það, en láta það ekki eyðileggja fyrir mér skemmtunina, söguna eða listina – en það sem sagt klúðrast stundum. Ég kenni góða fólkinu um. Og einhverri svona karlaskömm. Einsog ég sé persónulega að manspreada mig yfir kvikmyndasöguna. *** Ég fór í jarðarför Kolbeins Einarssonar á laugardag. Þar var mikið grátið – söknuðurinn mikill, enda ógurlegur missir af Kolbeini. Ólýsanlegur. Tónlistaratriði voru til fyrirmyndar – kórinn var dásamlegur. Forspil og eftirspil voru Runaway eftir Kanye West, ofsalega fallegt. Högni Egilsson og Philip Barkhudarov sungu einsöng. Svo í lokin þegar átti að bera kistuna út – rétt fyrir eftirspil – kom eitthvað þekkt svona mariachi-lag (held ég) [uppfært: þetta var Derrick-lagið] á trompet, spilað af svölunum af Madis Mäekelle, og það var svo fullkomlega kolbeinskt, svo kjánalegt og óvænt og yndislegt, að maður fór einhvern veginn að flissa og gráta í senn. Svo gekk maður út úr kirkjunni, beint í fangið á ærslabelgnum á sjúkrahústúninu, og lífið tók við af dauðanum. Ég stóð lengi nálægt kirkjunni, við sjómannastyttuna þar sem var búið að leggja kransa, og vissi ekkert hvern ég ætti að knúsa og langaði að knúsa alla en knúsaði á endanum ábyggilega mjög fáa og svolítið random bara. Mér finnst alltaf aðdáunarvert þegar fólk getur verið gjafmilt á hlýju sína – einsog mjög margir eru – ég festist alltaf í einhverjum þráhyggjuhugsunum um að vera ekki að þvælast fyrir. *** Það er sennilega að bera í bakkafullan lækinn að segja eitthvað fleira um Hatara og Eurovision. En það var auðvitað stór menningarviðburður þessa vikuna – og kenndi margra grasa og margt var ágætt og annað óþolandi og sirkusinn alltaf skemmtilegur. Ég hef lengi verið málsvari Eurovision sem sameinandi afls í álfu sem lengst af gerði ekki annað en há stríð – sem endaði með helför, blitzkrieg, ógurlegum mannfórnum og svo stofnun Ísraelsríkis (í okkar boði). Ég skrifaði strax um Eurovision í fyrra þegar Netta vann og var aldrei á því að sniðganga væri sérlega góð hugmynd, heldur væru mótmæli á staðnum mikilvægari. Eftirá að hyggja held ég að bæði hafi verið best – mótmæli innanhúss og utan. Samstaða þarf ekki að vera fólgin í því að allir geri sama hlutinn eins. En það eru nokkrir þættir í þessu sem hafa ekki verið ræddir, það ég hef séð. Klemens Hannigan sagði í viðtali að fánarnir hefðu ekki verið bomban, heldur atriðið sjálft – „listin er alltaf bomban“. Þetta finnst mér kjarna eitthvað um það hvernig ég upplifi hljómsveitina. Að þau taka hlutverk sitt sem listamenn alvarlega – þau eru ekki lobbíistar sem hafa búið málstað sínum listrænan búning, heldur listamenn sem gera sér grein fyrir því að veröldin er pólitísk. Lagið er ekki gagnrýni á Ísrael í sjálfu sér – þótt vel megi heimfæra það á Ísrael eða málstað ísraelska ríkisins gagnvart Palestínu. Lagið fjallar um Evrópu – það er hún sem hrynur ef hatrið sigrar. Án samhengisins Eurovision í Tel Aviv finnst mér augljósi lesturinn (sem er ekki endilega sá eini eða sá eini rétti) vera uppgangur fasismans í álfunni – frá Ungverjalandi til Austurríkis, frá Miðflokknum til AFD. Tengsl Ísraels við Palestínu er hins vegar dálítið einsog extrem útgáfan af pólitískum tengslum Evrópu við þriðja heiminn. Við lokum þriðja heiminn úti, búum þeim óþolandi aðstæður, lítum á þau sem aðeins minna en mennsk – ef við finndum indónesíska fataverksmiðju í úthverfi Parísar yrði allt vitlaust, en af því hún er bara í Indónesíu þá er það alltílagi (jafnt þótt fötin séu öll seld í París). Við svífumst líka einskis til að halda þeim úti, leggjum jafnvel stein í götu þeirra sem reyna að bjarga þeim frá drukknun í miðjarðarhafinu – við sendum þangað flugskeyti, aftökudróna, hermenn o.s.frv. án þess að hugsa mikið út í það –  og af og til heimsækja þau okkur með sprengjubelti. Og svo skreytum við okkur með dyggðum okkar – lýðræði, kærleika o.s.frv. – án þess að sjá í fullyrðingum okkar um eigin siðferðislegu yfirburði neinar mótsagnir. Þessi tengsl eru ýktari í Ísrael af því þar er þessi þriðji heimur beinlínis á dyraþrepinu og það þarf sem því nemur meira ofbeldi til að halda honum úti. Þar hafa þeir ýtt þriðja heiminum – Palestínu – út í jaðrana einsog hverju öðru rusli, reist veggi og sett kúgunina á næsta level. En öll vestræn lönd stunda þetta í mismiklum mæli – meira og minna vélrænt og án umhugsunar, án meðlíðunar. Svallið hömlulaust, þynnkan endalaus – hatrið mun sigra. *** Óáhugaverðasta samræðan sem hægt er að eiga um Eurovision er sennilega sú sem snýr að því hvort aktívismi Hatara hafi verið réttur eða í samræmi við vilja palestínska fólksins. Palestínumenn eru ekki – frekar en Ísraelar, reyndar – skilgreindur massi af samræmanlegum skoðunum heldur fólk með afstöðu hingað og þangað. Mér finnst margt í reiða twitter bojkottliðinu minna mig á það sem ég þekki úr lestri mínum – sem ungur sósíalisti fyrir hartnær 20 árum – um sósíalismann 20 árum fyrr, í KSML og KSML (b) og EIK og MAÍ (ég safnaði kommatímaritum og -bókum og -stefnuskrám, á þetta í haugum einhvers staðar). Hugmyndin um verkamanninn var hinum raunverulegu verkamönnum yfirsterkari – sennilega var það mat sósíalistana að kenninguna þyrfti að verja, jafnvel þegar hún var í mótsögn við raunveruleikann. Ef „verkamaðurinn“ hlýddi ekki kenningunni var hann annað hvort rangur verkamaður – eða ekki nógu upplýstur um eigin stöðu í hinum díalektísku fræðum, vissi ekki hvað honum var fyrir bestu. Þannig virðist það trufla fólk að „palestínumaðurinn“ eða einu sinni „palestínski aktívistinn“ hafi ekki hreina afstöðu til menningarlegrar sniðgöngu – sé hreinlega ekki nógu kantískur. Viðstöðulaus smáborgaraskapur, eiginlega – og allir alltaf einsog einhver hafi skitið í þeirra prívat og persónulega deig, allir í keppni um það hver sé hreinastur í kenningunni, besti byltingarsinninn. Svona einsog þetta væri tölvuleikur. Og Hataramálið reyndar minnir mig á greinaflokk sem birtist í Rödd Byltingarinnar, sem var sennilega tímarit MAÍ – í öllu falli var Albaníu-Valdi ritstjóri. Sá flokkur fjallaði um pönkið sem ópíum unga fólksins – hvernig pönksveitirnar beisluðu réttláta reiði ungra verkamanna en beindu henni svo í gagnslausan farveg og hindruðu þar með framgang byltingarinnar. Fullkomlega hilaríus í sjálfu sér – en fyndnast var þó að helsta dæmi greinarhöfundar og myndskreytis var hin alræmda pönksveit Kiss. *** Þriðja atriðið sem mætti ræða – þegar við erum búin að ræða samsekt okkar í hatrinu sem fylgir almennri afstöðu vesturlanda til þriðja heimsins, með áherslu á okkar eigið þjóðríki – er andsemítisminn sem grasserar í allri umræðu strax og Palestínumálstaðurinn er tekinn upp. Fólk virðist meðvitað um að maður getur ekki gert samasemmerki milli þess að vera gyðingur og að vera Ísraelsmaður en svo hefur það heimfært allar gyðingaklisjurnar upp á ALLA Ísraelsmenn, einsog þeir séu eitt stórt og ljótt samsæri, allir ein hægrisinnuð hernaðarmaskína, útsmognir, illir og gráðugir. Allir fara undir sama hatt. Þannig verður jafnvel Dana International að pólitískum áróðursarmi Benjamins Netanyahu þegar hún syngur um kærleikann – á máta sem Taylor Swift yrði aldrei málsvari Trumps í okkar huga, eða Svala málsvari hrunverjanna, jafnt þótt þær kæmu fram á viðburðum á vegum sinna þjóðríkja (sem Eurovision er ekki beinlínis – það er fyrst og fremst evrópskur viðburður). Nú á ég ekki við að það sé ekki hluti af pólitísku prójekti hverrar þjóðar að slá um sig með dyggðum, breiða rósrauða ástarhulu fegurðarinnar yfir skíthauginn, heldur bara að þarna sé ekki 1:1 samband og það sé ekki hægt að draga Ísraelsmenn eina út fyrir ramma og leggjast á þá af fullum prinsippþunga þegar aðrir eru meira og minna stikkfrí. Rasismi – og fyrirlitning almennt – birtist nefnilega oft sem svona prinsippþungi, þegar við gerum undanþágur fyrir alla nema einhvern einn tiltekinn hóp. Mér þætti við alveg mega taka þessa samræðu svolítið og hvar við drögum línuna. Ég er til dæmis ekki viss um að maður geti verið „á móti Ísrael“ – s.s. tilvist Ísraelsríkis – án þess að vera sekur um andsemítisma. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á myndina 東京物語, / Tōkyō Monogatari / Tókíósagan eftir Yasujiro Ozu. Ég vissi ekkert um hana, sá hana bara á einhverjum lista yfir bestu myndir allra tíma. Hún er japönsk (augljóslega) og frá árinu 1953. Fjallar um gömul hjón sem búa í litlu bæjarfélagi og ferðast um langa leið til að heimsækja börnin sín og tengdabörn í Tókíó. Tempóið er mjög hægt og plottið er nánast ekkert – bara beinagrind – og samræðurnar nánast einsog þær hafi verið skrifaðar upp úr spjalli hvaða fjölskyldu sem er. Mjög natúralískar. Leikurinn er hins vegar frekar ýktur og blandan er eitthvað sem minnir mig á Hal Hartley – hvers myndir ég hef reyndar ekki séð síðan Haukur Magg sýndi þær á Kaffi Sól þegar við vorum í menntaskóla, svo það er kannski misminni. Í þessu hæga tempói afhjúpast samt einhver þemu og verður til einhver skriðþungi. Sennilega er þetta saga um það hvernig kynslóðir gleymast, hverfa og deyja, hvernig tíminn valtar yfir alla – lagið Cat’s in the Cradle kemur líka upp í hugann, foreldrar sem hafa ekki tíma fyrir börnin sín sem verða síðan afar og ömmur hverra börn hafa ekki tíma fyrir þau. Það er líka eitthvað þarna um falsið í nostalgíunni – hugmyndinni um að hlutirnir hafi verið betri áður. Ég veit ekki hvort mórallinn er þá bara að lífið sé viðstöðulaus harmur – en það er þá fallegur harmur. Myndin er mjög falleg. Við Nadja vorum hins vegar mjög þreytt og myndin er vel á þriðja tíma löng. Ég sofnaði aldrei, allan tímann, en ég get ekki sagt að ég hafi ekki verið nálægt því nokkrum sinnum. Merkilegt nokk mest fyrsta hálftímann – það rann svo af mér og ég var hressari síðustu tvo tímana.

NOR-tríó, Húsið á sléttunni og Hable con ella

Menningarneyslan var í lágmarki í síðustu viku. Það helgaðist af ýmsu. Lestur var fyrst og fremst endurlestur – annars vegar blaðaði ég meira í Meira eftir Günday og hins vegar blaðaði ég í Eitur fyrir byrjendur og nýju bókinni minni (þær eru skyldar). Ég byrjaði að vísu líka á Impostor eftir Javier Cercas en er ekki kominn nema þriðjung í gegnum hana. Þá var Fossavatnsgangan á helginni og börnin fóru í pössun svo það varð ekkert úr föstudagsbíóklúbbnum. Við Nadja horfðum á eitthvað slangur af sjónvarpsþáttum – Bardagann um Winterfell, Billions og svo reyndum við að finna nýja seríu, gáfumst upp í miðjum þætti af Lucifer en horfðum á heilan Dead to Me, sem mér finnst nú samt viðbúið að sé að fara að klúðrast. Ég las eitthvað af ljóðum en bara stök og enga bók. Ég hef verið að birta „ljóð dagsins“ á samfélagsmiðlum, ekki síst einmitt til að „þvinga“ mig til þess að róta í ljóðabókaskápnum daglega (virka daga – hann er á skrifstofunni). *** Á miðvikudaginn fór ég á djasstónleika. Richard Anderson NOR lék fyrir laumudillandi bjórþambi í Rögnvaldarsal Edinborgarhússins. Auk Richards, á bassa, eru í sveitinni þeir Matthías Hemstock, trymbill, og Óskar Guðjónsson á saxafón. Lögin voru flest af síðustu plötu sveitarinnar, The Six of Us. Platan er þannig lögð upp að hvert lag er tileinkað einhverjum úr fjölskyldu Richards – In it for the long haul var fyrir móður og eiginkonu, Miss Weightless fyrir dóttur, Mr. Contra fyrir íslenska afann o.s.frv. Inn á milli var svo hent í standarda, sem var dálítið vandræðalegt því við Gylfi nágranni röltum niðreftir með Villa Valla og Gylfi fullvissaði Villa um að það yrðu nú engir standardar á þessum tónleikum – bara einhver tilraunamennska. Sem er nú í sjálfu sér ósanngjörn lýsing á tónlist NOR, líklega er þetta nú bara frekar íhaldssöm djasstónlist núorðið – ég meina það ekki sveitinni til hnjóðs – „bara bípopp“. Ekki að ég hafi mikið vit á því, reyndar, ég er enginn sérstakur djasshaus. Ég á nokkrar plötur sem fara á fóninn í matarboðum og set stundum á Charlie Parker eða Wes Montgomery á Spotify þegar ég er að skrifa – en þar fyrir utan er „nýjasta“ djassplatan mín Far með hinum sama Óskari Guðjónssyni (og hún er í kassa með þúsund öðrum geisladiskum úti í bílskúr). En það er eiginlega aldrei leiðinlegt á djasstónleikum. Tónlistarmennirnir í NOR eru líka af þannig kaliberi að ég yrði sennilega agndofa bara af því að sjá þá reima skóna eða fá sér pulsu. Músíkin á The Six of Us er líka falleg og þessir tilteknu djasstónleikar hreinn unaður. *** Annar tónlistarviðburður vikunnar var Fossavatnsballið. Húsið á sléttunni lék fyrir dansi – Valdi og Biggi Olgeirs, Kristinn Gauti og gítarleikari sem ég þekki ekki. Þetta er frekar solid ballsveit. Biggi er þekktur fyrir að vita ekki hvað feilnótur eru – Valdi er bara einn af betri bassaleikurum á landinu, og Kristinn Gauti og gítarleikarinn gáfu þeim bræðrum ekkert eftir. Valdi nefndi það við mig eftir ballið að þeir væru frekar illa æfðir en fyrir svona týpum er það eitthvað allt annað en fyrir dauðlegum hljóðfæraleikurum – ég varð einu sinni var við það, milli danskasta, að Kristinn Gauti var eitthvað að flissa yfir trommusettið og blikka hljómsveitarfélaga sína með látbragði sem gaf til kynna að nú hefði nú eitthvað farið verulega úrskeiðis, en það fór alveg framhjá mér hvað það var. Prógramið var „klassískt ball“ með áherslu á diskó og eitístónlist. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á Hable con ella eftir Almodóvar frá 2002. Nadja valdi. [Ath. Hér að neðan eru höskuldar]. Við vorum ekki alveg viss hvort við hefðum séð hana og í ljós kom að Nadja hafði séð hana en ég ekki. Og kemur eiginlega ekki á óvart, eftir á að hyggja. Á þessum árum vann Nadja svo mikið í bíói – meðal annars fyrir kvikmyndahátíðina Rakautta ja Anarkiaa í Helsinki – að hún hefur áreiðanlega séð alla helstu kvikmyndahátíðartitla 2001-2006. Myndin fjallar um tvo menn, Benigno og Marco, sem vaka yfir tveimur konum í dái, Aliciu og Lydiu. Benigno vakir yfir Aliciu, dansara sem hann fékk á heilann og var byrjaður að stalka létt áður en hún varð fyrir bíl. Hann er sjúkraþjálfi og hefur séð um hana árum saman og þarf enginn að efast um að tilfinningar hans í hennar garð eru allt annað en eðlilegar. Marco kynnist kvenkyns nautabana, Lydiu, og hefur við hana einhvers konar samband skömmu áður en hún slasast í ati. Hann veit ekki að hún ætlaði að hætta með honum og fara aftur til síns fyrrverandi. Afstaða Marcos til nautabanans er þveröfug við afstöðu Benignos til dansarans – hann álítur hana í raun og veru látna, hugsunarlaust kjötflykki, vill ekki tala við hana, getur ekki snert hana og svo framvegis. Benigno vill aldrei yfirgefa Aliciu, tekur aukavaktir um nætur, talar við hana einsog þau séu gömul hjón og sinnir líkama hennar einsog – kannski einsog brjálaður bílaáhugamaður sinnir eldgömlum kadilják. Hann er alltaf að dytta að henni og meðvitaður um minnstu breytingar. Benigno er mjög hneykslaður á Marco og reynir að hjálpa honum, sem gengur lítið, en þeir þróa samt með sér nána vináttu. Allt fer svo í loft upp þegar í ljós kemur að Benigno hefur barnað Aliciu. Samúð verksins – sjónarhornið – er mestöll hjá Benigno og þar á eftir Marco. Alicia birtist manni ekki að neinu marki fyrren í lokin þegar hún vaknar úr dáinu og Lydia gerir það eiginlega alls ekki – nema að svo miklu leyti sem hún virkar lokuð, hörð, við komumst ekki inn fyrir þann múr frekar en neinn annar. Þetta er saga Benignos og narratífan fylgir honum – hans sorgir verða okkar sorgir. Javier Carama leikur hann ótrúlega afslappað og óþvingað. Maður gleymir því ítrekað að hann er fyrst og fremst mikið veikur á geði ef ekki hreinlega illmenni og er stöðugt dreginn inn í ást hans – Benigno er mjúkur maður, í tengslum við tilfinningar sínar, hann er ljúfur og hugulsamur fram í fingurgóma, fullur af ást, en hann býr líka í sinni eigin búbblu og áttar sig sennilega ekki nema að mjög litlu leyti á sjónarhorni eða afstöðum annarra. Og þess vegna sér hann ekki að það sem hann gerir er rangt, að hann er ofbeldismaður. Hann er bara að elska – og ástin getur ekki verið röng. Almodóvar passar sig líka á að láta okkur aldrei sjá Benigno brjóta á Aliciu – hann er oft á mörkunum, nuddar á henni innra lærið, en alltaf þannig að það virkar lögmætt, innan marka sjúkraþjálfunar. Hvað er meginþemað í bíómyndum Almodóvars? Er það yfirráðin yfir líkamanum? Alicia er kjötflykki bróðurpartinn af þessari mynd – og þótt við sjáum hana aðeins áður en hún lendir í dáinu kynnumst við henni ekki fyrren eftir að hún vaknar. Þau kynni verða sárari fyrir meðlíðan okkar með Benigno. Marco og hans saga – ég náði minni kontakt við hana og kannski var það aldrei ætlunin að maður færi að kynnast honum, þannig. Kannski er hann bara ekki nógu áhugaverður. Hann er linsan sem maður sér Benigno í gegnum. Í upphafi myndar, áður en Benigno og Marco kynnast, lenda þeir hlið við hlið á danssýningu hjá Pinu Bausch – Marco grætur á sýningunni og Benigno tekur eftir því, finnst það mjög áhugavert. Kannski var það þar sem maður átti að byrja að skilja að Benigno væri sósíópati, að gráta ekki frammi fyrir Pinu Bausch – kannski er það samt of einfalt, of banalt. En það er líka áhugavert að skoða hvernig þeir vinna ólíkt með tilfinningar sínar, þessir karlmenn – Marco sem grætur á danssýningum en getur ekki snert ástkonu sína þegar hún lendir í dái, eða einu sinni talað við hana; og Benigno sem grætur aldrei, er alltaf afslappaður, meira að segja frammi fyrir dauðanum, en fórnar sér og sjálfu velsæminu fyrir stjórnlausa ást (hér verða sjálfsagt margir til að segja að þetta sé alls ekki ást – en jú, sennilega er sjúk ást einhvers konar ást líka). Ég er ekki hrifinn af hugtökum einsog „toxískri karlmennsku“ og ég er alls ekki viss um að þeir séu að reyna að vera nein karlmenni – þótt ídeológían að baki ást þeirra sé sannarlega í takt við hin klassísku ástarsagnagildi, fórn og rómantík og uns-dauðinn-aðskilur og bitið-á-jaxlinn – en viðbrögð þeirra og gjörðir, eins ólíkar og þær eru, eru samt karllægar, held ég.

Untitled

Í gær var ég kynnir í Norræna húsinu, þar sem Ásta Fanney, Lommi, Haukur I og Fríða Ísberg komu fram. Ég gisti svo hjá Hauki og eyddi deginum í að leita að Pokemonum í Reykjavík. Í þrjá tíma þrammaði ég um í rigningunni einn með frekar þráhyggjukenndum hugsunum mínum án þess að finna Pokemonana sem ég var að leita að. Svo skæpaði ég við son minn sem útskýrði fyrir mér hvaða Pokemon hann vildi þá fá í staðinn fyrst hinir voru ekki til. Hann verður sjálfsagt ekki síður glaður að vita að einn af þeim sem afgreiddu mig í Nexus var Jón Geir Jóhannsson, ísfirðingur og trymbill Skálmaldar, þótt mér verði kannski ekki fyrirgefið að hafa ekki fengið hjá honum eiginhandaráritun. *** Kannski er ég hættur að gítarblogga. Ég gæti samt viljað gera einhvern pedalasamanburð hérna bráðum. Ég er svolítið farinn að spila meira aftur á hina gítarana mína. Það er mjög undarlegt hvernig einn gítar getur inspírerað mann mjög mikið einn daginn og verið í algeru uppáhaldi til þess eins að deyja í höndunum á manni þann næsta. Nú er ég mikið að taka í Telecasterinn – djásnið. Ég spila ábyggilega hátt í klukkutíma á dag – að meðaltali – og nýt þess mikið. Oftast er það bara glamur – ég að elta einhverja hljóma og æfa spuna, það er mjög hugleiðandi,  róandi. *** Gærkvöldið leystist upp í annars vegar einlægni vs. kaldhæðni ruglið og hins vegar stelpur vs. strákar ruglið. Hvorutveggja er lúið. Ég meina samtalið á sviðinu í Norræna húsinu. Ég var eitthvað að reyna að spyrja þau hvernig þau teldu straumana í íslenskri ljóðlist hafa breyst síðustu 15 árin og vakti upp gamlan draug. Niðurstaðan er líka alltaf sú sama – kaldhæðni og einlægni eru alls engar mótsagnir og við erum að smætta sjálf okkur skáldskap hvers annars með því að láta einsog þau séu það. Hins vegar virðist fólk lítið flækja fyrir sér kynjapælingarnar. Fólk talar alveg hindrunarlaust um „bækur eftir konur“ eða „bækur eftir karla“ einsog það séu skýr hugtök með skýra fagurfræði á bakvið sig og reynsla kvenna og karla tilheyri ólíkum heimum. Það finnst mér í besta falli mikið overstatement – en það er líka mjög algengt overstatement og sennilega þægilegur staður til að taka afstöðu út frá. Ég veit samt ekki hvort það er einhver slagur sem mig langar að taka. Upplestrarnir voru frábærir. *** Í vikunni var ég eitthvað að hugsa um muninn á bókmenningu á Íslandi og í Frakklandi – þar sem ég þekki ekki mikið til en samt pínu. Upplifun mín á bókafólki í Frakklandi er að það sé stöðugt að ýta að manni einhverjum obskúr bókum sem maður hefur aldrei heyrt minnst á – það sé beinlínis kúltúrkapítal í því að vera alltaf með eitthvað óþekkt á vörunum. Á meðan að íslenskt bókafólk spyr alltaf hvort maður sé búinn að lesa bókina sem allir eru búnir að lesa. Þannig verður til sameiginlegt samtal um nokkrar (vinsælar) bækur á Íslandi en í Frakklandi verður samræðan alltaf um eitthvað nýtt og óþekkt. Hvorutveggja hefur sína kosti. *** Það slær mig annars að ein ástæða þess að við lendum svo oft í að ræða þessi óskýru box – nýhil og partus og einlægni og kaldhæðni og strákar og stelpur o.s.frv. – sé sú að það er ekkert skrifað um íslenska ljóðlist. Það eru bókstaflega engar ritgerðir til um Nýhil eða Partus eða fagurfræði í ljóðlist síðustu 20-30 árin – sem margir virðast engu að síður álíta mjög frjóan tíma í íslenskri ljóðagerð. Það er lítið skrifað af krítík – lítil afstaða, sérstaklega allra síðustu árin – en það er líka bara mjög lítið skrifað uppi í háskóla um nokkra einustu ljóðlist og alls ekki þessa. Það er svo lítið búið að flækja og greina málin – og allt endar í einföldun. Nýhil verður kaldhæðin andfeminísk pulsuveisla þrátt fyrir skáldskap Kristínar Eiríksdóttur eða Þórdísar Björnsdóttur og Meðgönguljóð verður feminín einlægniverksmiðja þrátt fyrir skáldskap Ástu Fanneyjar – nú eða Bergs Ebba. Mér fannst samræðurnar samt skemmtilegar. Mér finnst samræður eiginlega alltaf skemmtilegar – og held að vandamál þeirra sé frekar að þær séu of sjaldséðar (og við öll of óvön því að setja okkur í þessar stellingar, svara fyrir okkur, skilgreina okkur inn og út úr hvert öðru, átakafeimin) frekar en að það sé of mikið af þeim. Og fjórmenningarnir þarna – og fólkið úti í sal, sem tók virkan þátt í þessu – eru ekki beinlínis neinir vitleysingar, þvert á móti. En ég kann ekkert að stýra umræðum – hef aldrei gert þetta áður og lætur það ekki vel. *** Ég fékk uppgjör fyrir Hans Blævi. Hún seldist bókstaflega ekki rassgat. Helmingi minna en minnst selda skáldsagan mín til þessa. Ég skulda forlaginu pening, en ekki öfugt. Ég veit ekki alveg hvers vegna ég er að þessu. *** Hluta af mér langar að skrifa tvær bækur á ári – fara í einhvern Cesar Aira pakka og bara skrifa og skrifa og skrifa – og annar hluti vill bara fara og læra bókfærslu eða eitthvað gagnlegt sem maður fær tryggar tekjur fyrir, lesa ljóð eftir vinnu og láta annars skeika að sköpuðu. Ég er langt kominn með nýja skáldsögu og gæti alveg skrifað tvær í ár ef ég bara sleppti því að líta upp. Og ég gæti bara hætt að skrifa á morgun. *** Annars er ég líka bara ógeðslega þreyttur. Ég svaf mjög lítið í fyrrinótt – áður en ég kom suður – og ráfaði einhvern veginn bara um í dag, einsog draugur í borginni. Hausinn á mér er gatasigti. Þegar ég kem heim ætla ég í bað og ég ætla ekki upp úr því fyrren í fyrsta lagi á sunnudag. *** Nú styttist í flugið.

Gítarblogg – færsla 11

Guitar from start to finish. A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 11, 2019 at 6:26am PDT Hér að ofan eru nokkrar myndir af Endemi – úr ferlinu //www.instagram.com/embed.js  Það gleður mig að tilkynna að eftir viku spilun er undan fáu að kvarta. Hann helst betur í stillingu en hann gerði í upphafi (og var aldrei nein skelfing) og þarf lítið að fikta í honum jafnvel þó maður noti stöngina til að hífa stakar nótur upp um heiltón – ég hef ekki tekið margar dýfur og engar bombur og sennilega myndi það setja hann af sporinu en bigsby-ið er heldur ekki gert fyrir eitthvert Van Halen spilerí. En hann dugar vel í hömlulítið rockabilly. Spekkarnir eru þessir: Búkur: Mahoní með hlyntopp

Háls: Warmoth – wenge með pau ferro fingraborði

Pikköppar: Seth Lover humbökkerar.

Túnerar: Grover með lásum.

Þyngd: 5,1 kg.

Sveif: Bigsby B50 (ég er að bíða eftir s.k. stabiliser, sem hækkar stöngina – nú eru allir strengirnir þræddir yfir hana nema e-strengurinn)

Brú: Hjólabrú (roller bridge)

Skali: 628 mm

Strengir: 10-48 Ernie Ball Þegar ég tek hann í slipp næst, sem verður ábyggilega fljótlega, þá ætla ég að gera eitt og annað smálegt. Snúran undir outputinu er of löng, hana þarf að stytta og ég þarf að þrengja jack-tengið svo gítarsnúran sitji betur í. Brúarpikköppinn situr dálítið vitlaust. Ég þarf að taka hann úr og fara með meitil neðan við hann og færa hann 2 mm nær klórplötunni. Setja nýjar torx skrúfur í pikköppana – stjörnuskrúfurnar eyðileggjast strax. Óskiljanlegt að nokkur velji stjörnuskrúfur yfir torx-skrúfur (nema fyrir lúkkið, en þessar eru svo litlar). Setja stabiliserinn í svo ég geti haft allan strengina undir bigsby-bilstönginni. Ef þeir fara undir núna helst hann ekki jafn vel í stillingu og ef þeir eru yfir, einsog þeir eru, geta þeir hrokkið upp úr söðlunum ef ég djöflast á honum (eiginlega samt bara ef ég er að snapp-toga í þá). Hér er svo, einsog lofað hafði verið, tóndæmi. Ég biðst velvirðingar á söngnum, einsog venjulega. Sem betur fer heyrist illa í honum. Og ykkur að segja fannst mér erfiðast að muna textann (ég er með eitthvað Ragga Bjarna heilkenni). Ég dútlaði þetta alveg upp í 11 mínútur en klippti halann niður svo þetta endaði í rúmum 5. Spilað er í Orange Rocker 15 Combo – hreinu rásina. Kveikt á TC Electronics Hall of Fame Reverb Mini (með spring reverb toneprinti) og EP Booster. Stillt á báða pikköppa – nema þarna þegar ég er að dútla þá skipti ég eitthvað fram og til baka. Tekið upp á iPhone – sennilega er sándið betra í raunveruleikanum! Hugsanlega tek ég svo upp eitthvað skítugra næst.

Gítarblogg – færsla 4

Það var verið að ræða dundursnautnir á Facebook. Ég hef talsverða þörf fyrir dundursnautn en kann illa við hana í bókmenntum – sérstaklega þeim sem ég skrifa sjálfur en líka þeim sem ég les. Þess vegna fæ ég útrás fyrir hana annars staðar. Til dæmis í þessari gítarsmíð – en líka í matseld og alls konar föndri sem hefur það eina markmið að virka, þjóna fegurðinni einni, nautninni, og leyfir enga vanlíðan. Nú er ég að reyna að rifja upp hvað ég gerði í síðustu viku. Ég var búinn að gera búkinn. Við Smári fórum út í Bolungarvík á trésmíðaverkstæði og skárum dálítinn furubút í tvennt og hefluðum svo báða niður í sex millimetra. Bútinn límdi ég síðan saman svo úr varð þunn spýta í topp. Hana sagaði ég fyrst út í rétta lögun, fræsti svo fyrir hljóðdósaholinu og gerði f-gatið fyrir hljómbotninn. Það gerði ég með því að bora holu fyrir kringlótta hlutann og saga svo útlínurnar með laufsög.

Síðan límdi ég þetta saman. Og þá hef ég í raun og veru lokið mér af með þennan æfingabúk. Ég kastaði hryllilega til höndunum þegar ég byrjaði og staðsetti hljóðdósirnar algerlega tilviljunarkennt – og þótt ég hafi verið að daðra við að klára þetta sem heilan gítar (byrjaði meira að segja að saga út háls að gamni) held ég að það verði aldrei. Sú aftari er of aftarlega, það er ekki pláss fyrir brúna, og sú fremri svo framarlega að hálsinn kemst ekki með góðu móti fyrir. Annars er þetta vonlaust orð. Hljóðdós. Mikið vildi ég að hljóðnemi væri ekki frátekið fyrir annað. En sem sagt. Þá er ekkert eftir nema að byrja á hinum raunverulega gítar. Mér barst í vikunni mahóníspýta sem ég pantaði úr efnissölunni. Hana skar ég í tvennt – fékk svo Smára til að hefla beinan kant á hana og límdi hana saman. Í dag opnar svo Fab Lab eftir fæðingarorlof starfsmanns og mér því óhætt að líta við. Fleira kom með póstinum. Efni í klórplötu, bindingar, skífur undir hálsinn og járnplata og skrúfur líka til að halda honum föstum líka, Bigsby tremolo-ið ásamt „rolling“ brú og grover stilliskrúfur með læsingu. Ég mun þurfa að panta mér a.m.k. eina sendingu í viðbót – til að fá sérstaka fræsitönn fyrir bindinguna – og svo bíð ég eftir hálsinum, sem gæti tekið allt að 4-5 vikur til viðbótar. Hugsanlega panta ég mér líka skapalón fyrir hálsvasann með fræsitönninni. Ég gerði lista yfir þau mistök sem ég veit að ég gerði. Ég gleymdi að gera miðlínur og vissi því aldrei hvar miðjan á gítarnum var og gætti ekkert að því og hugsaði lítið út í það. Slumpaði á hljóðdósastaðsetningu og klúðraði illa. Slumpaði á stærð, lögun og staðsetningu pottahols og það var ekki gott (gera frekar rás að innputholi og hafa pottahol jafn stórt í botni og toppi). Passa rofahol – að staðsetning rofa og gatið á bakinu flútti saman. Þarf að eignast fleiri þvingur áður en ég lími alvöru toppinn á. Gera skapalón fyrir lögun hljóðdósa. Vonandi geri ég svo engin katastrófal mistök við smíði alvöru gítarsins. Ég leysti vandamálið með toppinn – sem við Smári snikkuðum sjálfir úr furunni í æfingaspýtuna – og keypti mér fallegan munstraðan hlyn frá Króatíu. Ég þarf þá ekkert að gera við hann nema að hefla hann úr 7 mm í 6 mm og saga hann í rétta lögun (sennilega í Fab Lab). Annað er ekki að frétta í bili. En svona lítur s.s. mahóníbúturinn út. Þetta er mjög falleg spýta.

Gítarblogg – færsla 3

Mér miðar hægt áfram en það var svo sem alltaf meiningin að drífa sig ekki. Ég er enn ekki kominn með spýturnar sem ég ætla að nota í hinn eiginlega gítar en hef verið að prófa mig áfram með eitt og annað í bílskúrnum. Í fyrsta lagi límdi ég saman tvo bjálka til að prófa styrkleika trélímsins. Þegar límið var þornað barði ég spýtuna með sleggju þar til hún fór í sundur og viti menn – spýtan sjálf gaf sig á undan líminu. Svo notaði ég sniðmátið sem ég prentaði út til þess að gera sniðmát úr spónaplötu. Síðan fór ég í Húsasmiðjuna og náði mér í þriggja metra langan furuplanka. Ég sagaði af honum tvo búta sem mig minnir að hafi verið 45 cm langir og límdi þá saman. Þegar það var þurrt notaði ég sniðmátið til þess að saga út botn á gítarinn sem fer undir topp – ef ég geri þá gítar líka úr þessu, sem er auðvitað bara tilraun og allt úr ódýru drasli og má mistakast – en ég er farinn að gæla við að gera kannski einn svona „lélegan“ alveg frá grunni, háls og pikköpp og allt, ef ekkert fer alveg gersamlega í klessu við þetta – sjáum til. Búkinn sagaði ég með stingsög, af því ég á ekki bandsög. Ég gæti kannski fengið slíka lánaða einhvers staðar en finnst sennilegra að ég sagi einfaldlega út spýturnar í kroppinn í laserskera uppi í Fab Lab eða hverju sem maður notar til að skera út í Fab Lab – það er lokað vegna fæðingarorlofs en ég ætla að kíkja þangað í næstu viku og kynna mér málið. Vandamálið við stingsögina er að blaðið fer ekki lóðrétt í gegn heldur sveigist svo útlínurnar eru ekki alveg eins báðum megin. Þetta tókst merkilega vel en mig grunar líka að það sé auðveldara að eiga við furu en mahóní sapele. Síðan pússaði ég þetta svolítið og fræsti ég fyrir hljómbotni öðrum megin, pottum (stillihnöppum), hljóðdósum (pikköppum), hljóðdósaskipti (3-way switch), jack-innstungu og snúruleiðum. Svo mátaði ég hljóðdósirnar og pottana í þetta. Ég sá fyrir mér að snúran fyrir hljóðdósaskiptin – sem er í pokanum ofan í hljómbotninum – gæti gengið undir hljóðdósirnar. En nú var ég að skoða hvernig þetta er gert í Les Paul gíturum, þar sem takkinn er á sama stað og hérna, og þá er skábraut beint frá takkanum og niður í pottaholið. Sennilega vill maður ekki að snúran sé að rekast utan í neitt. Og nú man ég að mig vantar líka holu úr pottaholinu yfir að brúnni – hvar sem hún nú verður – til þess að festa jarðtenginguna. Tvennu öðru klúðraði ég svolítið. Hálshljóðdósin er of framarlega. Það er full langt á milli hljóðdósanna og það er full lítið pláss til þess að festa boltaháls af staðlaðri stærð. Það skeikar mjög litlu og sennilega gæti ég alveg látið hann halda sér á og ég er búinn að auglýsa eftir einhverjum geymslugarmi sem ég gæti fengið að prófa. En ef ég geri hálsinn líka sjálfur í þetta leikeintak get ég sniðið hann að eigin þörfum. Þá er bara spurning hvort ég smíða líka styrktarteininn í hálsinn eða kaupi. Ég á engin tæki í málmsmíði og enga peninga til að kaupa mér tæki. Hitt er að hljóðdósaholurnar eru of djúpar. Ég gleymdi að hugsa út í að ég á eftir að setja topp á þetta og þá bætast sirka 7 millimetrar ofan á. En það er minnsta málið að sníða spýtu til að líma í botninn svo ég hef ekki óþarflega miklar áhyggjur af því. Næsta skref er að laga þetta aðeins til, pússa og svona. Gera svo toppinn og skoða málin með hálssmíðina.

Gítarblogg – færsla 2

Við komum heim frá Svíþjóð á laugardaginn. Eða – við komum til landsins á föstudag en gistum eina nótt á Dalakoti í Búðardal. Ég notaði gærdaginn til að taka til í bílskúrnum og gera örlitlar tilraunir. Annars vegar æfði ég mig aðeins á stingsögina og hins vegar límdi ég saman nokkra bjálka til að sjá hversu vel trélímið heldur. Það dugði á hausinn á Mola – slædgítarnum – og þau segja mér krakkarnir handan við google-algóritmana að venjulegt trélím eigi að duga til að festa saman spýturnar. En um þetta hafa einhverjir vina minna efasemdir. Ég er búinn að ræða við Smára vin minn um að hjálpa mér að hefla spýturnar í rétta þykkt (hann á s.s. hefil) og hugsanlega fæ ég hann líka til að þverskera hlyntoppinn með mér með borðsöginni. Ég á ekkert nema stingsög og juðara – og er með fræsara í láni. Og þetta er fjári þunn spýta – 6,35 millimetrar. Þá prentaði ég út þetta sniðmát fyrir sniðmátið. Ég klippi þetta sem sagt almennilega út – eða sker eftir útlínunum – og nota síðan til að saga spónaplötu í rétt sniðmát. Mér getur þá mistekist nokkrum sinnum án þess að það sé stórslys. Sennilega byrja ég að vesenast með þetta á eftir. Hugsanlega fer þetta allt í hass og þá verð ég bara að byrja að hugsa þetta upp á nýtt. Ég er aðeins að velta því fyrir mér líka hvort mig langi að stækka boddíið aðeins. Ég ætla líka að prófa að fræsa aðeins pikköppagöt í einhverja afgangsspýtu – og máta Seth Lover pikköpana sem komu með póstinum í dag, ásamt ýmsu öðru smálegu.

Gítarblogg: Færsla 1

Áramótaheitið mitt er að smíða rafmagnsgítar. Það verður ekki sérlega erfitt að halda það, ég iða í skinninu að byrja og mun sennilega njóta þess mjög, en það verður erfitt að gera það vel. Upphaf þessa má rekja til þess að ég sá auglýst námskeið hjá Gunnari Erni gítarsmiði í Iðnskólanum og var farinn að gæla við að skella mér á eitt slíkt – þegar ég áttaði mig á því að ég þyrfti nánast að flytja til Reykjavíkur um hálfan vetur til að það gengi upp. Í staðinn fór ég að kanna hvort ég gæti með nokkru móti lært þetta af bókum, greinum og youtube-myndböndum. Það virðist ekki alveg vonlaust. Ég ætla að kaupa hálsinn – sem er sennilega erfiðasta stigið – en restin er alveg nógu erfið, sérstaklega þegar haft er í huga að ég hef ótrúlega lítið smíðað áður. Eiginlega bara slædgítarinn, sem ég gerði í haust og er frekar hrár og grófur – þótt hann reyndar sándi vel. . Ég er búinn að planleggja ýmislegt og kaupa flesta íhlutina. Eitt af því sem ég brenndi mig á við slædgítarinn var að saga t.d. út fyrir pikköppinum eftir máli af netinu frekar en að bíða bara eftir að hann bærist mér með póstinum. Það borgar sig að hafa þetta allt við hendina. Hálsinn pantaði ég af Warmoth. Bakið er úr Wenge-við sem er oft fallega munstraður en fingraborðið úr Pau Ferro. Upphaflega ætlaði ég að hafa rósavið en það eru alls konar takmarkanir á innflutningi og þótt Warmoth sé með vottun þá er það samt vesen. Fleiri og fleiri gítarsmiðir eru líka farnir að nota Pau Ferro – sem er samt ekki alveg nýr, hann var t.d. notaður í Stratocasterinn hans Stevie Ray Vaughan. Ef það dugði Stevie er það sennilega innan marka fyrir mínar þarfir. Skalalengdin verður Gibson – 24 3/4 þumlungar, fremur breiður (59 roundback með 10/16 þumlunga radíus). Stór bönd og graphtech-hneta. Útlitið tekur mið af Italia Maranello ’61 – þetta þykir mér alveg fáránlega fallegur gítar. Minn gítar verður sennilega ekki jafn fallegur – en ég ætla samt að reyna að vanda mig og gera hann eins fallegan og mínum klaufalegu höndum er unnt. Búkurinn verður úr tveimur spýtum og hálfkassi – eða eiginlega kvart-kassi, bara opið inn að ofan. Skrokkurinn sjálfur úr mahónívið en svo ofan á því þunnur hlyntoppur. Hálsinn er með rjómalitri líningu og það verður líka rjómalituð líning á búknum – ég vona bara að ég fái líningu í alveg sama lit. Það verður 3-way switch – staðsettur svipað og á Les Paul, ekki einsog á Maranello ’61 – og einn hnappur fyrir tón og annar fyrir hljóðstyrk, báðir silfurlitaðir. Ég gældi við að hafa gulllitaðan búnað en verðið hækkar svolítið óþarflega mikið við það – og krómið er flott. Pottarnir (sem stýra hljóði og tón) eru CTS 500K og pikköpparnir eru Seth Lover humbökkerar frá Seymour Duncan. Læsanlegar Grover stilliskrúfur. Og já, það verður Bigsby-sveif á honum og þá tune-o-matic brú, sem þýðir væntanlega að ég þurfi að sveigja hálsinn aðeins aftur. Eða réttara sagt gera vasann fyrir hálsinn aflíðandi (Maranello er reyndar með „set-neck“ sem gengur inn í búkinn – en ég er með minn boltaðan á). Sennilega fræsi ég samt vasann flatann og set síðan svokallað skífu á milli háls og búks til að ná réttum halla. Þá get ég líka verið með nokkrar ólíkar skífur og miðað við hvað ég þarf – ef ég fræsi vitlaust sit ég uppi með vondan halla. Ég á eftir að leysa fáein hönnunaratriði. Til dæmis veit ég ekki hvernig ég hanna eða kaupi góða plötu framan á hann – scratchplate. Ég veit heldur ekki alveg hvað ég vil hafa hann þykkan. Ég ætla að byrja á því að gera prufu úr einhverjum draslvið og kannski ákveð ég það bara þegar hún er tilbúin. Ég ætla svo að reyna að dokumentera ferlið hérna. Það skal tekið fram að ekkert af því sem ég geri er ekki endilega til eftirbreytni – þetta er ekki kennslublogg og ég geri ráð fyrir því að gera ótrúlega mörg skelfileg mistök og jafnvel þurfa að byrja oftar en einu sinni eða tvisvar alveg upp á nýtt. Ég ætla að gefa mér árið í þetta en vonandi næ ég að gera fúnksjónal – ómálað og frágengið – eintak áður en við förum til Hondúras í sumar, þar sem við verðum í alveg tvo mánuði og þá verður eðli málsins samkvæmt hlé á vinnunni. Ég hef auðvitað bara 1-2 tíma í þetta á góðum degi, og svo eitthvað aðeins meira á helgum. Já og svo er ég með nýja skáldsögu í hausnum – maður veit aldrei með svoleiðis, þær eiga það til að éta upp ansi mikið meira en bara 9-5 skrifstofutíma. En ég ætla líka að reyna að skrifa svolítið rólegar í ár. Ábendingar og ráðleggingar (um gítarinn, ekki skáldsöguna) eru gríðarlega vel þegnar. Ég veð þetta voða mikið í myrkri, kann ekkert og veit ekkert.

Untitled

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann minn. Ég er í Malmö. Les upp á Inkonst í kvöld, úr Óratorrek/Oralorium, og svo er útgáfuhóf á morgun. Ég gisti hjá vinum mínum Alex og Josef og við Alex drukkum kannski aðeins meira viskí í gær en góðu hófi gegnir og ég hef verið dálítið einsog draugur á ráfi um borgina í dag. Hugmyndin var að ná að leysa síðustu jólagjafagáturnar en þær eru enn óleystar og ég þarf að fara að gíra mig upp í kvöldið. Ég segi ekki að ég sé alveg skilinn við jólabókaflóðið, það eru nokkrir dagar eftir, en ég er allavega ekki að fara að lesa neitt meira upp. Ég er búinn að fá ágætis dóma í Fréttablaðinu, Víðsjá og Mogganum – á miðvikudag er síðasti séns til að fá umsögn í Kiljunni fyrir jól. Annað er sennilega ekki í boði – DV birtir að vísu einstaka dóm – og jú svo er eitt og annað sem gerist á samfélagsmiðlum. Skáld.is birtir bara dóma um bækur kvenna, Starafugl birtir sennilega ekki neina dóma um mínar bækur (en það er að vísu alveg úr mínum höndum – ég kem hvergi nálægt skáldsagnadómum), Stundin er ekki með neitt bókablað einsog hefur stundum verið, Kvennablaðið hefur engan dóm birt – jú, það gæti reyndar birst dómur á Bókmenntavefnum, þar hefur verið gott tempó síðustu vikurnar. Þar birtist líka langáhugaverðasti dómurinn um Illsku á sínum tíma og bara einn besti dómur sem sú bók hefur fengið – á löngu ferðalagi til margra landa. En almennt hallar undan fæti í gagnrýni og hefur gert lengi – það eru ekki nema örfáir sem sinna henni einsog fagi og með því hverfur hin krítíska vídd úr bókmenntunum og eftir situr metsölulista-idolið sem helsti mælikvarðinn á virði bóka. Í dag er reyndar „recensionsdag“ fyrir Óratorrek í Svíþjóð en það er sennilega liðin tíð að maður fái fullt af dómum þann dag. Sérstaklega fyrir ljóðabók. En ég fékk einn mjög fínan dóm í tímariti Bókasafnsfræðinga í síðustu viku og áttaði mig þá á að sennilega fékk ég bara aldrei neinn eiginlegan dóm um Óratorrek á Íslandi. Hún var valin meðal bóka ársins á Rás 2 og fékk svo Menningarverðlaun DV – svo það eru til stuttar umsagnir/lýsingar í tengslum við það, en ég held ég muni það rétt að hún hafi bara ekki verið ritdæmd. Það er rosa skrítið – og stór breyting frá því ég gaf út Heimsendapestir, alls óþekktur 24 ára lúði frá Ísafirði, og fékk 5-6 umsagnir í öllum helstu blöðum og í útvarpi. Það var líka skrítið að bíða eftir að fá einhvern dóm fyrir Hans Blævi. Ég held það hafi tekið sjö vikur – svo duttu þeir inn þrír í röð. Það var hreinlega mjög óþægilegt, fannst mér. Ég lýsti því einhvern veginn þannig við Nödju að fyrst hefði mér liðið einsog vonbiðli sem fær ekki svar – óskabrúðurin hefði brugðið sér á klósettið og ég stæði fyrir utan vikum saman og  væri farið að gruna að hún hefði bara flúið út um gluggann. Undir restina var þetta svo farið að vera meira einsog að vakna eftir epískt blakkát, fjölskyldan öll fjarverandi, og undarleg þögn alls staðar – enginn svarar í síma – og maður bíður þess bara að fá fregnir af því hvað maður hafi gert af sér kvöldið áður. Dómarnir eiga það allir sameiginlegt annars að vera bærilega jákvæðir en bera þess merki að gagnrýnendur hafa þurft að slást svolítið við bókina og þær spurningar sem hún vekur. Ég get ekki kvartað undan því – ég held það sé bara alveg sanngjarnt mat og sennilega þarf hún, einsog Gauti Kristmanns bendir á í Víðsjárdómnum, svolítinn tíma til að setjast – meira rými en gefst í einu svona sölukapphlaupi einsog jólabókaflóðinu. Þegar við Öddi tókum upp hljóðbókina sagði ég við hann að ég væri nógu ánægður með verkið til þess að það skipti mig eiginlega engu hverjar viðtökurnar væru. Það er auðvitað ekki alveg satt – mér fannst erfitt að fá litlar sem engar viðtökur þarna fyrst og þykir mjög vænt um að hún sé farin af stað. Og einhver hluti af mér tekur alltaf mark á því hver almennur dómur sé og jafnvel skilningssljóustu gagnrýni – bókmenntir eru samskiptaform og það skiptir ekki bara máli hvað maður segir, það þarf líka að komast til skila og skiljast. En ég er líka aftur lentur á þessum sama stað og þegar bókin var að koma út – að vera bara rosa ánægður með sjálfan mig og verkið og sannfærður um að það muni njóta sannmælis þegar það er skoðað almennilega. En þetta er þá síðasta færslan sem er merkt Hans Blævi, held ég – a.m.k. í bili. Ég var eitthvað að hóta því að breyta þessu í gítarblogg á nýju ári – jafnvel bara milli jóla og nýárs ef ég verð eitthvað eirðarlaus. Við eyðum jólunum í smábænum Rejmyre hjá systur Nödju og verðum svo í Helsinki um áramót. Minnir að flugið heim sé svo 4. janúar og við komumst vonandi fljótt vestur.