Það er alveg að koma nýr dagur.
Ilmkerti 3. janúar
Á morgun hefst vinnuárið. Ég er strax tekinn að kvíða því. Finnst ósennilegt að ég fái nokkrar hugmyndir, nema vandræðalegar, en þeim mun líklegra að ég segi frekar en sýni; nykri og skrifi mig út í horn; hver setning verði vandræðalegri en sú á undan; allar lagfæringar geri illt verra og á endanum verði þessar bækur heimskari en höfundur þeirra, öfugt við það sem að er stefnt. Ég á eftir að ofnota semíkommur og þankastrik, þenja málsgreinarnar út þar til þær leka út um allt og þreyta lesendur (hverjum er ekki sama um lesendur, ætla ég ekki að verða forseti á árinu, ég get ekki verið þekktur fyrir að vera eini rithöfundurinn á landinu sem er of metnaðarlaus til að vilja verða forseti?). Annars er allt gott að frétta. Piödur í hádegismat, þriðji í áramótaþynnku, tedrykkja, Laurie Anderson (plata sem ég vissi ekki að ég ætti) og ilmkerti í skúrinni.
Framboð til forseta formlega dregið til baka
Ég mun ekki undir nokkrum kringumstæðum bjóða mig fram til forseta. Hins vegar tek ég nærri mér að þess skuli ekki farið á leit við mig, að ég skuli ekki fá tækifæri til að hafna auðmjúkri bón þjóðarinnar um að ég axli ábyrgðina sem í því felst að vera henni ástkær og virtur. Fyrir skáldskapinn, að sjálfsögðu, fyrir eilífðina, fegurðina, fyrir gjálfrið í vatnsdropunum og glitrið á tunglinu. Hvar eru Facebookhóparnir? Hvers vegna hafa fjölmiðlar ekki haft samband? Hvernig á ég að geta áréttað sjálfstæði mitt og mikilvægi bókmenntanna – alls sem ég á enn óskrifað – ef enginn spyr? Ég bara spyr.
Áramótaávarp
Á sænsku er fólk smám saman að hætta að segja „hvar“ (var) og byrja að segja „hvert“ í staðinn. Hvert er gaffallinn minn? Hvert er Angóla á kortinu? Hvert er draumurinn? Þetta finnst mér forvitnilegt. Ekki síst á áramótum. Áramótaheitið mitt er annars að eignast rafmagnsgítar á árinu.
30. desember: Menningarneyslan
Ég sá Star Wars. Flest sem sagt hefur verið um hana er einfaldlega rétt. Söguþráðurinn er einsog ábreiða af gömlu myndunum en hún er samt skemmtileg. Ég las Ferdydurke eftir Gombrowicz. Hún var einsog Keystone Cops á spítti. Meðmælist en krefst ákveðinnar þolinmæði. Best skrifaði aulahúmor 20. aldarinnar. Ég sá Hrúta. Það hefur verið sagt að íslenskar bíómyndir fjalli allar um skrítna karla úti á landi í tilvistarkreppu og einhverjir hafa heimfært það upp á Hrúta. Nema bræðurnir eru ekkert skrítnir og þeir eru eina fólkið sem ég hef séð lengi sem er alls ekki í neinni tilvistarkreppu. Þeir vita nákvæmlega hvað þeir vilja vera og hvernig þeir eiga að vera það, og gefa ekki þumlung eftir þótt lífið ráðist á þá af öllu afli. Og það er voðalega lítið um landbyggðarvorkunnina sem annars er svo algeng í bíóheiminum. „Meistarastykki um sigur mannsandans“ – segir maður ekki svoleiðis þegar vinur manns gerir mynd? Fimm stjörnur – eða sex danskar. Ég hlustaði á Don Giovanni. Af því það var á Spotify er ég ekki viss hver söng eða spilaði eða stjórnaði eða hvað það heitir allt saman. Ég veit ekkert um óperutónlist. Sem er ástæðan fyrir því að ég fékk gjafakort í óperuna í jólagjöf. Eða í Hörpu, réttara sagt. Þar sem Don Giovanni verður settur upp í vor. Þetta er mjög langt og ég óttast að fylgja ekki söguþræðinum og þarf líklega að hlusta betur áður en ég mætti uppstrílaður í tónlistarhúsið. Ég óttast líka að það vanti í mig borgaralegt sensíbílitet, ég er óttalegur rusti stundum. Ég gerði rækjukokteil og eyddi hátt í klukkustund bara í að smakka til sósuna. Í henni var heimalagað majones, tómatsósa, tabascosósa, sérrí, cayennepipar, sítrónusafi og worcestershiresósa. Á endanum varð hún himnesk. Meistarastykki um sigur mannsandans. Ég þýddi leikrit eftir Jonas Hassen Khemiri. Eða, ég þýddi leikritið fyrir löngu en leikritið var sviðsett – ég sá það ekki enda var það ekki sviðsett á Ísafirði. Þegar ég skilaði þýðingunni var titillinn [≈um það bil jafn mikið og] en það þótti einhverjum í leikhúsinu alltof langt og klunnalegt svo það var stytt niður í [≈um það bil] – í minni óþökk. Í dag birtist svo gagnrýni þar sem ég var skammaður fyrir að stytta titilinn. Svona er lífið ósanngjarnt. Ég hlustaði á nýja plötu Leons Bridges. Þetta er fínt soul, snerti mig fyrst, en eftir nokkrar hlustanir varð hún svolítið þunn. Af því að nú er rímlaus netöld man ég ekki hvað platan heitir. Líklega sá ég titilinn bara á lítilli s.k. thumbnail mynd og það var sjálfsagt búið að stytta hann. Ég horfði á fyrstu tvo þættina í fyrstu seríu X-Files. Stíllinn er fríkaður. Illa leikið, illa skrifað, og allt er þetta mjög ósannfærandi. En það er næstum því einsog þættirnir hafi verið skrifaðir með það fyrir augum að verða költ. Og erfitt að njóta þeirra ekki, krefst hreinlega átaks. Ég horfði á fyrstu tvo þættina í nýrri (annarri) seríu af Fargo. Ógæfa ofan í ólukkans óheppni. Það er merkilegt hvað maður endist til þess að njóta ófara annarra. Ég hengdi stórt plakat af þessari mynd Louise Bourgoise á stofuvegginn hjá mér. Moderna Museet prentaði og Dagný Þrastar rammaði inn. Fimm stjörnur, sex danskar, meistarastykki um sigur mannsandans.
29. desember
Það eru tvenns konar rithöfundar í heiminum. Þeir sem vilja gera manni lífið bærilegra og þeir sem vilja gera manni lífið óbærilegra. Ég er ekki alltaf viss í hvoru liðinu ég er.
Jólagjöf Schrödingers
Ég átti jólagjöf sem týndist. Nema kannski átti ég hana aldrei, því hún týndist áður en ég fékk hana í hendurnar. Þetta var stóra gjöf ársins. Makagjöfin, sem tekur við af foreldragjöfinni þegar maður er loksins genginn út. En hver ætli eigi hana þá? Ég fékk að vita hver hún var, eða átti að verða, í hádeginu í dag eftir að hafa haldið í mér andanum frá því á aðfangadagskvöld. Og hún er endurheimtanleg. Hún hefur ekki glatast. Hún er – eða verður – í formi upplifunar sem ég mun upplifa í félagsskap við þann sem gaf hana. Það er að segja makann. Sem á þá hálfa gjöfina. Eða mun eiga hana þegar hún hefur að fullu endurheimst. Ég er löngu búinn að missa sjónar á því hvar þessi gjöf er eða hver á hana, hvort hún hefur verið gefin eða týnst eða endurheimst, eða hvort hún er ekki einu sinni til enn. En ég held að ég fái hana samt, mér sýnist það.
27. nóvember, 1. færsla
Stundum, suma daga, kannski þennan, langar mig að skrifa að minnsta kosti eina góða setningu. Það er ekki jafn erfitt og margir ímynda sér, færsluritari þjáist ekki af skáldlegum ofsa, enda í jólafríi. Þetta er fyrst og fremst spurning um að setjast niður og skrifa setninguna og krefst ekki meiri ofsa en að fara og moka af tröppunum. Setningin þarf, fyrir utan að vera málfræðilega rétt og sæmilega hljómfögur, að vekja athygli og skapa merkingu. Hún þarf að óma í smá stund í höfði lesandans og höfundurinn, færsluritari, þarf að ná út fyrir sjálfan sig – setningin þarf að vera gáfulegri en sá sem skrifaði hana, í þeirri merkingu að hún sé stærri en svo að færsluritari hefði getað látið hana frá sér ef hann hefði einfaldlega hugsað beint af augum, byrjað að tala, svona einsog yfir einhverjum kaffibolla eða í kommentakerfi. Þessi færsla er reyndar skrifuð yfir kaffibolla, en það er aukaatriði. Ég er ekki viss um að hér sé kommentakerfi. Ég hef ekki athugað það. Það er þá ekki viljandi. Góðar stundir.
Friðargönguræða 23. des 2015
Ég tel mig vita að það sé hefð fyrir því í friðargöngu að rifja upp ófriðinn í heiminum – eins undarlega og það nú hljómar. Þá – það er að segja hér og nú – minnumst við ekki þeirra sem lifa við frið, heldur þeirra sem lifa við ofbeldi – bæði í þessum orðum töluðum og þeirra sem hafa mátt þola það á undangengnum misserum; þeirra sem voru skotnir á götum Parísar, aflífaðir af drónum í Pakistan, við minnumst pólitískra fanga í Kína, í Víetnam, á Kúbu, við minnumst Alans Kurdis – drengsins litla sem var ljósmyndaður dauður, drukknaði við strendur Tyrklands og lauk ævinni í hringiðunni á Facebook, einsog holdgervingur þeirrar helstefnu sem við rekum við landamæri Evrópu – og við minnumst þeirra þúsunda sem hafa drukknað honum til selskapar, svo gott sem á dyraþrepinu okkar sem höfum skellt í lás. Við hugsum til þeirra sem flýja ISIS, þeirra sem flýja Assad, þeirra sem flýja loftárásir Bandaríkjamanna og Frakka, við hugsum til allra þeirra sem náðu ekki að flýja; við hugsum til þeirra sem íslenska ríkið – í mínu umboði og þínu – telur sig umkomið að senda til baka – út í dauðann; við hugsum til márítanískra þræla sem eru sendir aftur til eigenda sinna, til íraskra unglinga sem er hent á götuna í Aþenu, til hælisleitenda í Njarðvík sem kljást við íslenskt skrifræði með eina vopninu sem þeir eiga eftir: sínu eigin hungri; til albanskra fátæklinga sem er vísað út á guð og gaddinn með fársjúk börn sín – því við höfum ákveðið að það sé ekki nógu fínt að drepast úr fátækt, maður þurfi að vera ofsóttur af fólki með hnífa, byssur og sprengjur og maður þurfi þess utan að hafa pappíra sem sanni þær ofsóknir, undirritaða og vottaða af böðlunum sjálfum. Við hugsum til þeirra sem bjargast, fyrir það eitt að mál þeirra koma upp í gúrkutíð og enda í blöðunum, og við hugsum til hinna sem við fengum ekki neinar fréttir af og björguðust því aldrei. Við hugsum til þeirra sem búa við einræði og harðstjórn – listamanna, blaðamanna, bloggara og mótmælenda sem ríkið þaggar niður í. Við hugsum til listamanna, blaðamanna og bloggara sem þarf ekkert að þagga niður í, þeirra sem ryðjast áfram á meinleysinu, heimskunni og athyglissýkinni; við hugsum til listamanna, blaðamanna og bloggara sem leggja nótt við nýtan dag til þess að styðja og afsaka ofbeldisverk, þeirra sem vilja móta aðra í sinni eigin ógeðfelldu mynd, upphefja sjálfa sig sem skilyrðislausa fyrirmynd annarra. Við hugsum til stríðsins gegn jörðinni, náttúrunni, umhverfinu, til jökla sem bráðna og risavaxinna eyja úr rusli, ófriðnum sem við eigum í við plánetuna og við hugsum til stríðsins gegn sjálfinu – þeirrar ofbeldisfullu hugmyndafræði að allir elski eins, kynji eins, beri sig eins, þrammi í takt, neiti sér um andrúm og tíma til að hugsa, neiti sér um andstreymi og sérsinnu, neiti sér um samræðuna og lýðræðið, sem eru óaðskiljanleg; við hugsum til stríðsins gegn einsemdinni – þeirrar ofbeldisfullu hugmyndafræði að maður verði viðstöðulítið að standa skil á sjálfum sér fyrir augliti annarra, alltaf að bera sig á líkama og sálu, allt sé gjaldmiðill í hringrás deilihagkerfis, og ekki síst vináttan, ekki síst réttlætið, kærleikurinn. Allt það skal markaðsvætt og selt – fyrst fyrir ást og svo fyrir pening, fyrst fyrir athygli og svo fyrir völd, fyrst fyrir læk og svo fyrir heimsyfirráð. Við erum öll okkar eigin auglýsingastofa, rekum okkar eigið áróðursmálaráðuneyti og meðan að það geisa stríð erum við öll sek. Mér þykir leitt að segja það en við vitum það öll: Það verður aldrei neinn friður. Friður er jafnvægið sem við sækjumst eftir en höfum aldrei haldið. Friður er óhugsandi ástand, nema sem augnablik – og augnablik – og augnablik – á tilteknum stöðum – svona einsog lognið sem stingur sér niður í einn fjarðanna en skilur hina út undan, eða skip sem nær í var undir Grænuhlíð á meðan önnur farast. Það er stundum friður í Bolungarvík, og stundum friður á Suðureyri en það er aldrei friður alls staðar í senn, stundum friður í Kabúl, stundum friður í París, en það er aldrei friður alls staðar í senn. Í stórum heimi verður sennilega alltaf eitthvað sem verður að bíta og annað sem verður að brenna, það verður alltaf barist einhvers staðar – ef ekki á vígvöllum þá á heimilum, ef ekki í útrýmingarbúðum þá í svefnherbergjum, ef ekki á landamærum Schengen þá í flóttamannabúðunum, fangelsunum, sprengjubyrgjunum; ef ekki með hnefum og hnúum þá í sálum mannanna. En alls staðar þar sem er barist er líka rúm fyrir aðeins meiri frið, alls staðar þar sem er ofbeldi má draga úr. Á morgun höldum við jól, a.m.k. mörg okkar, enda árstíðin helg í flestum trúarbrögðum og ekki raunar síður fyrir þeim okkar sem aðhyllast alls engin trúarbrögð. Það er nefnilega um þetta leyti árs sem kýrnar taka til máls, sem vættir fara á kreik, frelsarar fæðast, jólasveinar skella hurðum, náttúruöflin láta finna fyrir sér, álfar freista manna á krossgötum, sólin tekur að rísa á ný og við – þetta yndislega og auma mannkyn, sem við erum – hefjum vegferð okkar út úr myrkrinu. Megi hún vara sem lengst. Gleðileg jól.
Almar, Zuckerberg og Heimska
Aftur á Joe & the Juice, undir rithöfundamyndunum í Leifsstöð, sem er næstum tóm – Ísland er greinilega ekki lengur í tísku, né útlönd, það eru allir hættir að fara nokkurn skapaðan hlut (nema allir séu bara farnir til Parísar til að ræða loftslagsmálin, það getur verið). Ísland kemst ekki til útlanda, það situr stjarft og starir á nakinn listnema í glerkassa í beinni útsendingu á netinu. Hann sagði í viðtali áður en hann byrjaði að það væri skrítið að 23 ára maður hefði aldrei á ævinni verið einn í viku. Ég veit ekki hvort honum finnst hann nú hafa verið einn – í einhverjum skilningi er maður auðvitað aldrei eins einn og í beinni útsendingu á netinu. Ég veit ekki hvort þetta er narsissismi – þetta er auðvitað symbólískur gjörningur og hefur meira að gera með áhorfið og sirkusinn í kringum manninn í kassanum en sjálfan manninn í kassanum. Hann er minna að sýna sig og við meira að horfa á hann. Einhver kallaði hann tamagotchi nýrra tíma – tamagotchi voru stafræn lyklakippugæludýr sem voru vinsæl fyrir svona tveimur áratugum, það þurfti að sinna þeim annars „drápust“ þau. Fólk situr og starir á hann langt fram á kvöld. Kannski finnst því að hann drepist ef þau slökkva á streyminu. Það sem gerist ekki í beinni útsendingu gerist alls ekki. Andy Warhol sagði einhvern tíma að í framtíðinni yrðu allir frægir í fimmtán mínútur og átti víst ekki við að við myndum skiptast á, einsog það hefur verið túlkað, heldur að einhverjar fimmtán mínútur í framtíðinni – t.d. 12:43 til 12:58, 4. janúar 2016 – yrðu allir frægir samtímis. Mér sýnist stundum einsog þessar fimmtán mínútur séu að verða fulllangar. Það eru allir frægir viðstöðulaust alltaf – Twitter og Facebook eru ekki bara markaðssetningartól fyrir listamenn heldur fyrir alla, í senn vinnan (skemmtiatriðin) og kynningin á vinnunni (hæ, sjáiði mig, ég er að vera sniðugur hérna!). #nakinníkassa er einhvers konar komment á þetta ástand frekar en afleiðing af því. * * * Í bréfi sem Mark Zuckerberg birti á dögunum í tilefni af fæðingu dóttur sinnar – þar sem hann meðal annars tilkynnti að hann myndi gefa 99% af eigum sínum (45 milljarða bandaríkjadala) í nafni þeirrar hápólitísku hugmyndafræði að styrkja „einstaklingsmiðaða menntun“, „sterkari samfélög“ og vinna að því að „tengja fólk“ og „lækna sjúkdóma“ – í þessu bréfi stóð meðal annars: Munt þú læra og upplifa 100 sinnum meira en við gerum í dag? […] Getum við tengt heiminn þannig saman að þú hafir aðgengi að hverri einustu hugmynd, hverri einustu manneskju og öllum heimsins tækifærum? Og ég bara svitna. Ef einhver græðgi á eftir á eftir að ganga af okkur dauðum er það þessi; ef einhver ranghugmynd er bókstaflega banvæn þá er það sá guðakomplex að nokkur manneskja geti hanterað aðgengi að öllu, að nokkur manneskja ráði við að upplifa 100 sinnum MEIRA en nútímamaðurinn – við sem lifum í hysterískum nautnastormi, lifum við nauðhyggju upplifana, tenginga, performans og afhjúpunar. Og einn valdamesti maður jarðríkis var að leggja 45 MILLJARÐA bandaríkjadala í að koma þessari draumsýn sinni til leiðar; að gera illt verra. Í gær las ég langa færslu um það þegar Dr. Gunni byrjaði að fróa sér. Í fyrradag las ég eitthvað svipað á blogginu hans Egils Helgasonar, sem síðan daginn eftir skrifaði um narkissismann í listheiminum og vísaði þar til Almars – jólabókaflóðið er stappfullt af skáldævisögum (og það er auðvitað hefð fyrir því á Íslandi að lesa meira að segja skáldskapinn einsog símaskrána). Berháttanir á líkama og sál eru orðnar að vikulegum markaðsátökum á félagsmiðlum í nafni byltingarinnar. Fjölmiðlar halda sér á floti með viðstöðulausu persónulegu tráma – samfélagsleg merking trámans er í besta falli skoðuð í einhverri skýringarteikningu úti í kanti, stóra samhengið er neðanmálsgrein við einkamálin, afhjúpunina, og andköfin sem okkur er fært að taka gagnvart veröldinni Og hvað. Og hvað. Hvernig tengist þetta? Almar og Mark? Twitterátökin og játningabækurnar í flóðinu? Ég veit það ekki. Ég var auðvitað að reyna að skrifa bók um þetta – Heimska fjallar um nákvæmlega þetta. Um svitaköstin sem ég tek sjálfur á Facebook og Twitter þegar ég er búinn að skrolla viðstöðulaust í heilan átta tíma vinnudag. Þegar ég er búinn að hafa skoðun á dómum í tíu sakamálum, hafa skoðun á veðrinu, skoðun á skoðun annarra á færðinni og uppeldi barnanna, þegar ég er búinn að engjast um yfir forræðismálum, dánarfréttum fræga fólksins, kynlífsmyndböndum fræga fólksins, hefndarkláminu, hobbíkláminu, dýraníði og rasisma, og enginn vá er samt verri en loftslagsváin og hvers vegna er allt þetta fólk þá að fljúga til Parísar OG HVAÐ ER ÉG EIGINLEGA AÐ GERA Á LEIFSSTÖÐ SJÁLFUR? Og hún fjallar um þetta að sýna sig (nú les ég að Almar hafi verið að fróa sér í gærkvöldi; hvar var ég? var þetta meðan ég var að kynna bókina í Gunnarshúsi eða var ég kominn heim og sofnaður), performa sig, afhjúpa sig, nautnina sem er fólgin í því að sjá aðra og sýna sig, jafnvel í því sárasta, því einkalegasta, því yfirgengilegasta.