Lestrardagbók: Öræfi

Einu sinni hélt ég einfaldlega lestrardagbók og birti á bloggi. Lestrardagbók er frábrugðin öðrum skrifum um bækur að því leytinu til að hún er eiginlega birt án ábyrgðar – enda oft verið að skrifa um bækur áður en maður hefur einu sinni lokið við þær. Þá hafði ég sem útgangspunkt að skoða hvernig tilteknar bækur kæmu út úr „pólitískum“ lestri – hver virkni þeirra væri í heiminum og hvort pólitíkin stæðist hin andlegu próf eða hvort listaverkið félli um sjálft sig. Niðurstaðan var sirkabát sú að fæst listaverk lifi af pólitíska fimleika höfundarins – en það sé samt hægt, hafi höfundurinn tamið sér að setja ekki skoðanir sínar í fyrsta sæti og leyfa þeim að stýra skipinu. Mig langar að byrja aftur að halda lestrardagbók en nú er markmiðið miklu loðnara. Mig langar auðvitað enn að átta mig á því hvað skáldverk séu og hver virkni þeirra sé – hvers ef þá nokkurs ég æski af þeim annars en að þau stytti mér stundir og hleypi andanum á tímabundið flug. Ég er satt að segja ekki enn alveg viss hver spurningin er sem mig langar að spyrja mig og þessar bækur (ég er ekkert nema efinn þessa dagana, um allt) en það er kannski einmitt þess vegna sem mig langar að lesa og spyrja, til þess að finna eitthvað handfast eða í það minnsta eitthvað til að fleyta sér á stutta stund. Ég er nýbyrjaður að skrifa bók, svo að segja – hún er í það minnsta nógu kaotísk ennþá í höfðinu á mér til að hún geti orðið nokkurn veginn hvað sem er – og mig langar að finna fyrir möguleikunum, hvert ég geti farið með hana. — Fyrsta bókin er Öræfi Ófeigs Sigurðssonar. Í lestrardagbókum er hugsanlega óþarfi að tíunda of mikið um söguþráðinn (enda er þetta ekki skrifað fyrir áhorfendur þótt það sé gert fyrir opnum tjöldum; þetta er blogg af gamla skólanum sem gæti allt eins farið í dagbók, ef ég væri ekki svona lengi að skrifa með penna). Offi er gamall vinur minn þótt það sé orðið langt síðan ég sá hann síðast – ég gaf út fyrstu skáldsöguna hans, við höfum skipst á íbúðum, tekist á, skálað og glaðst og reiðst. Og einhvern veginn finnst mér alltaf þegar ég horfi á bókina út undan mér að hún heiti ekki ÖRÆFI heldur einfaldlega OFFI. Hún er góð. Þá er það frá. Hún er meira að segja frábær, innblásin og fögur og sprenghlægileg. Mér hefur alltaf þótt erfiðast að segja nokkuð um það sem mér líkar best. Það er erfiðast að setja fingur á það sem uppljómar mann en auðveldast að halda langar ræður um alls kyns meingallað drasl og bókmenntalíki. Það er helst að það kristallist fyrir manni hvað manni finnst gott við eitthvað þegar einhver annar ræðst að því – þegar maður þarf að fara að verja verkið. Ég hef enn ekki heyrt neinn eyða neinu púðri í að dissa Öræfi – en ég hef samt heyrt af mörgum sem gáfust upp á henni. Líklega má til sanns vegar færa að þetta sé ekki bók fyrir alla – en bækur sem njóta óvænt mikillar athygli rata oft inn á alls kyns heimili og eru ekki alltaf aufúsugestir (þetta þekki ég af eigin raun). Og þær bækur sem eru virkilega góðar eru aldrei allra – þær eru ekki lægsti samnefnari heldur hæsti. Og þá verður hver að eiga sér sína uppáhalds og vera ósammála öðrum um sínar. Flestar þær bækur sem fara í þúsundum eintaka í bókabúðum og öllum finnst ágætar eru yfirleitt alls ekki merkileg bókmenntaverk og oft ekki einu sinni hugsuð sem slík, þótt þær séu stundum haganlega gerðar, skemmtilegar og jafnvel passlega uppljómandi á köflum. En Öræfi er bókmenntaverk. En hvað er þá í því fólgið (í ljósi ofangreindra yfirlýsinga um að ég skilji varla til hvers bækur séu)? Í fyrsta lagi tekur allt form þeirra mark af innihaldinu – bókmenntaverk hafa aldrei nema takmörkuð líkindi við önnur bókmenntaverk (stærstur hluti vinsælla fagurbókmennta eru vel skrifaðar formúlur um áhugaverð topik en móta form sitt og byggingu og texta eftir reglum um settlegheit og normalítet). Í öðru lagi þá liggur við að þær móti einhvers konar lífræna heild – maður verður aldrei var við að höfundur hafi tekið neinar ákvarðanir (þótt auðvitað bæði hafi hann og hafi ekki gert einmitt það). Sagan bara ryðst áfram á baki textans og svo til hvað sem er gæti gerst (a.m.k. í þessari bók) án þess að maður myndi glata hið minnsta trú á sögunni sem slíkri. Í þriðja lagi hangir bókmenntaverk ekki saman á neinum einum þræði – hvorki kjarnasaga, aukasögur, tungutak, bygging eða persónusköpun – og ekki á fáeinum þeirra heldur öllum. Eitthvað þannig. Ég á 100 síður eftir af Öræfum og ég hef engar áhyggjur af að hún fari út um þúfur úr þessu – það er nú þegar alltof mikil fart á henni, þótt sögupersónurnar sætu grafkyrrar og gerðu varla neitt fram að endalokum (sem er ekki ósennilegt, það hafa sumar þeirra gert hingað til) þá myndi skriðþunginn bera hana í mark. Framhald á morgun!

Um yfirgengilegt orðaval og yfirfærða merkingu

Hefurðu einhvern tíma verið alveg að drepast í tánni? Hefurðu einhvern tíma rústað einhverjum í Olsen Olsen? Einhvern tíma verið kjöldregin(n) eða stungin(n) í bakið? Lesið bók sem var sannkallað pungspark? Hefurðu einhvern tíma lesið bók sem gerði það að verkum að þú morknaðir öll/allur að innan? Einhvern tíma heyrt einhvern syngja svo falskt að þú hreinlega dóst innra með þér? Einhver tíma dáið úr hlátri? Sprungið úr hlátri? Ég þekki einn mann, frænda vinar míns sem á heima í Njarðvík, sem drapst í tánni eftir að hafa verið rústað í Olsen, kjöldreginn, stunginn í bakið svo hann morknaði að innan (af bóklestri) og drapst síðan og sprakk úr hlátri. Og ég er ekki viss um að honum finnist hið óvarlega orðaval sem alltof oft er haft um trámatískar upplifanir fólks – sérstaklega upplifanir sem maður hefur enga reynslu af sjálfur – sérstaklega sniðugt. Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Uppgjöfin eða bloggið sem át sig sjálft

Það hellist reglulega yfir mig einhvers konar vantrú á tilgang tjáningar og yrðinga – þegar allt sem maður gæti haft um nokkuð að segja virðist falla í tvo flokka (sem skarast og skarast): 1) Einfaldanir. 2) Of almennar yrðingar. Þannig gæti ég til dæmis haldið því fram að atriði Reykjavíkurdætra í Vikunni og útganga Ágústu Evu (svo gripið sé í handhægt málefni úr deiglunni) væri einhvers konar feminó-marxískur valdgjörningur – ég meina, að troða dildóinu á sér upp í lærling Hannesar Hólmsteins og fyrrum vonarpóst Sjálfstæðisflokksins og skipa honum að sjúga á sér snípinn – halló?! – og horft þá fram hjá því sem séra Hildur Eir benti á , að atriðið er í sjálfu sér ekki róttækara en hvert annað þorrablótsflipp. Þá myndi ég enn fremur horfa fram hjá því að í atriðinu fólst gróf kynferðisleg áreitni – ekkert djók ekki frekar en nýlegar ásakanir á hendur fyrrum ritstjóra Reykjavík Grapevine og gítarleikara í Reykjavík! (hverra dætur dæturnar væntanlega eru) heldur grafalvarlegur glæpur sem ætti helst að fara fyrir dómstóla. Ég meina, að troða dildóinu á sér óboðin og ber að neðan upp á fólk og garga á það að sjúga á sér snípinn? Halló bátar, halló skip. Ef það er ekki kynferðisleg áreitni veit ég ekki hvernig hún lítur út. Þetta væru sem sagt einfaldanirnar. Nokkrar af mörgum sem hver um sig er í mótsögn við að minnsta kosti eina aðra. Á hina höndina gæti ég t.d. sagt að Reykjavíkurdætur væru feit pæling sem gengur eða gengur ekki upp, frábær músík en ömurlegt rapp, ömurlegt rapp en frábær músík, geðveik myndlist en glötuð tónlist, geðveik tónlist en glötuð myndlist, hópeflismeðalmennskan uppmáluð og fullkomið og algert uppbrot í íslenska menningu, stelpur að brjóta sér leið gegnum strákamúr eða stelpur að beygja sig fyrir heimsmynd drengja og svo framvegis og svo framvegis. Flest er svolítið satt og svolítið rangt. Ég gæti einbeitt mér að Ágústu Evu. Kannski var hún bara með í ráðum til að auglýsa dæturnar, kannski er hún bara bitur að vera ekki lengur sjálf vaxtarbroddur gegnumbrotsins, sú sem afhjúpar borgarastéttina, heldur Lína Langsokkur og dómari í einhverjum Idolsirkus, kannski er hún síðasti varnarmaður íslenskrar siðmenningar sem hefði annars leyst upp í eina allsherjar orgíu og allir endað með fjölónæman lekanda og heilt leikskólaband af lausaleikskrógum, ef hún hefði ekki sagt nei, hingað og ekki lengra, það verður ekkert strappon í þessum fjölskylduþætti. Og kannski er hún bara geðveikt töff að standa með sjálfri sér eða alveg glötuð að fatta ekki #byltinguna. Einhvern veginn er vandamálið við allar yrðingar um málefni deiglunnar meðal annars krafan um skýra og algera afstöðu. Í heimi þar sem hin opinbera samræða á sér stað með leifturhraða og allir byrja á að grafa sér skotgröf, ýmist til að skýla sér því þeir nenna ekki eða þora að taka afstöðu, eða til að búa sig undir áhlaup og loftárásir, er sá fyrstur til að tapa sem gefur á sér einhvern höggstað og gengst við því að líklega sé veröldin fyrst og fremst margslungin. Því í margslunginni veröld grípur okkur athafna- og afstöðuótti – hvernig á maður að þora að segja neitt nema hið allra almennasta ef veröldin er full af mótsögnum? Það væri ófyrirgefanlegur dólgsháttur. Við gætum þá ekkert fordæmt og engu fagnað nema vera tilbúin til þess að gera það hreint og skýrt – án þess að gefa mótsögnunum, sem við vitum að eru til staðar í öllu mati, allri skoðun, nokkurt pláss til að vaxa. Einsog það sem er frábært þurfi að vera bara frábært og það sem er glatað sé bara glatað. Stundum gæti líka verið ágætt að gangast við því að sumir gallar séu óaðskiljanlegir einhverju sem er frábært – þannig er t.d. óhjákvæmilegt að í samfélagi þar sem frjálsræði ríkir í kynferðismálum að þar verði einhverjir fyrir áreiti, þá stendur valið (í einfölduðum skilningi) milli bælingar og öryggis á aðra höndina og frjálsræðis og óöryggis á hina. Eða að okkur sem einstaklingum sé sálfræðilega illmögulegt að vera í senn siðferðislega réttlát og hvatvís og kraftmikil, í senn auðmjúk og grjóthörð. Og að það geti fylgt því bæði kostir og gallar að vera eitt frekar en hitt. Ég veit ekki hvort þetta hefur með félagsmiðlana að gera – þennan starfsmáta hugsunar sem skilur ekki eftir neitt rými fyrir íhugun, þar sem eru bara afköst og ekkert tómarúm, ekkert olnbogarými. En mér sem sagt dettur það oft í hug. En nú er ég auðvitað farinn að láta einsog það sé til nokkurs að tjá sig. Kannski er það bara úreldur lífsmáti. Ég þarf eiginlega að fara að lesa meiri Wittgenstein.

Úr leikskrá Illsku

Sonur fyrsta forseta hins íslenska lýðveldis var meðlimur í SS og starfaði sem áróðursmeistari hjá nasistum. Afi minn – hálfþýskur/hálfísfirskur – var ekki orðinn sautján ára þegar hann var skráður í sama flokk, af taugaveiklaðri ísfirskri móður sinni sem hafði verið tjáð að ef hann gengi í SS yrði hann ekki sendur til Rússlands (hann var sendur til Rússlands). Faðir eins ástkærasta fótboltamanns þjóðarinnar – Evald Mikson – var hugsanlega gerandi í fjöldamorðum á gyðingum í Eistlandi, það fékkst aldrei rannsakað þrátt fyrir kröfur Simon Wiesenthal stofnunarinnar þar að lútandi. Ein fyrsta bókin sem rituð var um helförina var reynslusaga Íslendings. Stærstu innflytjendaþjóðir á Íslandi – Pólverjar og Litháar – eru meðal helstu fórnarlamba helfararinnar. Stóri bróðir fyrrverandi forsætisráðherra var meðal forystumanna íslenskra nasista og fjöldinn allur af öðrum valdamiklum stjórnmálamönnum frá því fyrir stríð og alveg fram á okkar daga hafa verið viðriðnir hreyfingar sem stefna leynt og ljóst að nokkurs konar kynþáttahreinsunum – og/eða hafa sjálfir haft uppi ummæli sem ætla má að spretti úr slíkum jarðvegi. Við erum eyland en engu að síður hluti af heiminum. Nazistan er alls staðar. * * * Ítalski gyðingurinn, rithöfundurinn og helfarareftirlifandinn Primo Levi sagði einhvern tíma að okkur – mannkyni – bæri helg skylda til þess að skilja ekki helförina, né gera til þess neina tilraun, því slíkum skilningi gæti fylgt nokkurs konar mennskunhryllingsins. Það sem er mennskt er eðlilegt og náttúrulegt, og það sem er eðlilegt og náttúrulegt er hugsanlega óhjákvæmilegt – en helfarir mega aldrei verða náttúrulega óhjákvæmilegar. Við megum aldrei sættast við tilvist þeirra. * * * Manninum finnst hann alltaf vera lítill og máttlaus. Angelu Merkel finnst hún lítil, Sigmundi Davíð finnst hann vera lítill, mér finnst ég vera lítill, meira að segja Kára Stefánssyni finnst hann vera lítill. Öllum finnst þeir vera litlir, nema kannski Aino, dóttur minni, sem finnst hún vera mjög stór – en það er misskilningur, hún er einmitt mjög lítil. En við hin, við erum ekki lítil, við erum stór og eigum okkur enga afsökun. * * * Það var góð stemning í kringum nasistaflokkinn. Og það voru dálítið sérstakar aðstæður þarna á þriðja og fjórða áratugnum. Upplausn og kreppa og það þurfti að taka í tauminn. Kannski ekki svona harkalega, þegar maður hugsar út í það, en það er gott að vera vitur eftirá og ekki nóg að vilja vel, maður þarf líka að vera reiðubúinn til þess að taka erfiðu ákvarðanirnar, díla við realpolitik. Veröldin er ekki bara mannúð og gotterí. * * * Eyjarskeggjum finnst þeir vera afskekktir. Ísland er grjót í hafinu og meira að segja okkur sem búum hérna finnst við stundum standa utan við mannkynssöguna, í ævintýralandinu sem við leikum ofan í túristana – álfar og huldufólk – frekar en í henni miðri. Pínulítil og ómerkileg. * * * Primo Levi lagði – hvað sem þessum orðum hans um skilninginn líður – bróðurpart ævi sinnar í að hugsa um helförina og hugsanlega var það hún sem reið honum á endanum að fullu. Eftir sjálfsmorðið 1987 sagði nóbelsverðlaunahafinn Elie Wiesel – sem einnig lifði af útrýmingarbúðir nasista – að Primo hefði dáið í Auschwitz, fjörutíu árum síðar. * * * Þórbergur var einsog frægt er ákærður fyrir að kalla Hitler sadista og blóðhund – árið 1934, átta árum áður en hin eiginlega helför var vottuð og stimpluð á Wannsee ráðstefnunni. Hitler var varla búinn að missa barnatennurnar þegar það var ljóst í hvað stefndi. Ári áður hafði Steinn Steinarr ásamt tveimur öðrum verið ákærður fyrir að rífa niður nasistafána á Siglufirði. Hingað komu Gyðingar sem sóttu um hæli – mættu sjálfsagt vegabréfslausir með skrítin höfuðföt, kunnu enga íslensku og neituðu að borða svínakjöt einsog almindelige mennesker – og voru „sendir heim til sín“, eða í það minnsta til Danmerkur (sem hefur hugsanlega, merkilegt nokk, verið skárra þá en nú), eftir úrskurð frá kærunefnd útlendingamála sem staðfestir þar með upprunalega ákvörðun Útlendingastofnunar … eða nei, annars, það ferli kom til síðar. Nazistan er nefnilega alls staðar. Og alltaf. * * * Ef eitthvert „okkar“ var á sínum tíma nasisti þá er það jafnan útskýrt þannig – eftirá – að í raun og veru hefði viðkomandi bara verið svo mikið á móti kommúnistum, og lent þannig alveg óvart í skilyrðislausum stuðningi við Adolf Hitler, frekar en að hann eða hún hefði verið á þeirri yfirveguðu pólitísku skoðun að troða bæri milljónum manns í gasklefa til að hreinsa Evrópu af kynþáttaóværunni. Þetta er auðvitað tabú núna. Það myndi enginn bjóða sig fram með slíkt á stefnuskránni. Það væri bilun! En þetta voru aðrir tímar. Djók. * * * Kannski vaknar maður einn daginn með burstaskegg í leðurstígvélum. En maður sér það ekki gerast, stígur ekki skyndilega yfir einhverja línu og búmm er orðinn nasisti. En það gerist samt. Daglega. Skref fyrir skref. Sumir verða miklir og einlægir nasistar, aðrir verða meiri diet-nasistar og enn aðrir – flestir – verða svona jamm-og-jæjandi nasistar. Svona það-er-því-miður-ekkert-við-þessu-að-geranasistar. Sorrí. Svo eru nokkrir sem verða sósíalistar. Þeir skiptast í tvo flokka, þá sem eru varla skömminni skárri og hina sem verða fljótlega skotnir. * * * En það er ekki sama að skrifa og skilja. Primo Levi gerði sjálfur greinarmun þar á og sagði að þótt við ættum að forðast að skilja bæri okkur skylda til að vita og hugsa um helförina, að mæta henni – einmitt vegna þess að hún gerðist og vegna þess að hún gæti gerst aftur (því mætti jafnvel halda fram að hún hafi gerst aftur, sé að gerast aftur, eða að gagnvart t.d. roma-fólki hafi henni aldrei beinlínis lokið). * * * Nasisminn er hugsaður í hreinum línum – þvers og kruss um samfélagið, þú ert annað hvort með túrbönuðum terroristum í liði eða þú ert hlynntur því að lyf verði niðurgreidd ofan í fársjúkar ömmur og öryrkja. Allt er hreint, skýrt og einfalt. * * * Og auðvitað erum við ekki síður mannkynssagan en aðrir. Skriðþungi hennar. Og Hitler bauð sig ekki fram með því fororði að hann ætlaði að útrýma fólki – ekki frekar en Marine Le Pen eða Jimmie Åkesson – þótt við sjáum þá tendensa berlega hjá honum baksýnisspeglinum (og fleiri hefðu átt að koma auga á fyrr). Hann bauð sig fram með það að markmiði að gera samfélagið fallegra og betra – hann vildi bara að fólk hefði tækifæri til þess að lifa mannsæmandi lífi. Sumt fólk. Hans fólk. Heimamenn. Hvað sem það kostaði. * * * Þegar ég skrifaði bókina – sem tók fjögur ár – fannst mér ástandið stöðugt versna. Svíþjóðardemókratar komust á þing, Sannir Finnar stækkuðu, sem og Le Front National og Dansk Folkeparti, Fidesz náði völdum, Breivik slátraði fólki (og Norðmenn notuðu tækifærið til að minna heimsbyggðina viðstöðulaust á hvað þeir væru miklu betri en aðrir) og svo framvegis og svo framvegis. Ég sat við og skrifaði í mismiklu óráði og einhverri tilfinningu fyrir nauðsyn – fannst í senn að bókin yrði ólesanlegur haugur af sturluðu röfli og það myndi gera út af við mig að skrifa hann. * * * Ef við viljum standa gegn hinu fasíska valdi – og skriðþunga þess – verðum við að leyfa okkur að hafna skýrum dráttum. Við verðum að gera okkar fremsta til þess að hugsa ekki einsog nasistar. Að mæta ekki hinu fasíska valdi með öðru eins; ætla okkur ekki að reka út myrkrið með meira myrkri. Og það – það er miklu meiri vinna og fyrirhöfn en maður gæti ímyndað sér. Það krefst þess af okkur að við séum linnulaust fólk, með allri þeirri mannúð og íhugun sem í því felst. * * * Ég hafði þess utan og á hinn bóginn – í öllum mínum stjórnlausa hégóma – brennandi áhyggjur af því að von bráðar myndi bólan springa, nýjabrumið fara af nasismanum, og ég sitja eftir með úrelt verk. Sem væri auðvitað gott fyrir heiminn, en ekki jafn gott fyrir mig. Eftir fjögurra ára slítandi þrældóm. * * * Í ár eru liðin fjögur ár frá útgáfu – átta síðan ég byrjaði að skrifa. Grímuklæddir menn fara um Svíþjóð og lúskra á innflytjendum. Um alla Evrópu bera nasistar eld að flóttamannahælum. Fasistar skjóta blaðamenn, tónleikagesti. Við hin stöndum í eldlínunni milli hvítra fasista og salafískra, hvort sem er í París, Raqqa eða Rio, og deyjum upp í opið geðið á þeim á meðan stjórnmálamenn svipta okkur sífellt fleiri lýðréttindum og fyrirskipa frekari loftárásir, meira ofbeldi, sem gerir sitt (tilætlaða?) gagn og upp úr öskunni rísa enn fleiri fasistar. Einsog fönixar. Húrra. * * * Að skilja helförina er að því leytinu til sambærilegt því að leggjast með dýrum að það er einsog að nauðga hinu mannlega upp á hið dýrslega. Siðmenning skilningsins á ekkert erindi við barbarí hins óskiljanlega. Birtist fyrst í leikskrá Illsku, sem er nú á sviðinu í Borgarleikhúsinu á vegum Óskabarna ógæfunnar. Örfáir miðar lausir .

Europeana

Ég var að lesa Europeana eftir Patrik Ourednik – sem króatískt ljóðskáld, kunningi minn, benti mér á vegna þess að hlutar hennar minni á Illsku, sem ég sé alveg – og fór að velta þessu fyrir mér með ljóðrænuna sem er í því fólgin að segja einfalda og þekkta hluti hreint út. Það sem við segjum aldrei – það sem er ekki tátólógískt, ekki sokkaleisti, heldur næstum því. Einsog að segja að vatn sé blautt. Ljóðrænuna sem er fólgin í að einfaldlega nefna það. Mér finnst eitthvað ótrúlega fullnægjandi við að lesa þannig texta – ekki langar romsur, kannski, en málsgrein hér og þar. Einsog að klóra sér á stað sem maður vissi ekki að mann klæjaði í. Europeana ber undirtitilinn A Brief History of the Twentieth Century og er einmitt það – einhvers konar evrópsk mannkynssaga tuttugustu aldarinnar. Hún hefst á því að tíunduð er meðallengd hermanna í seinni heimsstyrjöldinni (sem rímar við ákveðna hluta í byrjun Illsku) – fjallar mikið um helförina og heimsstyrjöldina, um kommúnisma og fasisma, en líka um allt frá tækniframförum til frjálslyndisbyltinga. Og hún veður úr einu í annað viðstöðulítið – en er líka stutt, kannski 100 síður. Ég held að kraftur textans sé fyrst og fremst fólginn í því hvernig Ourednik tekst að blanda saman staðreyndum sem maður hafði ekki hugmynd um, þekktum staðreyndum á þennan nánast tátólógíska eða einhverfa máta (sirka „Hitler drap fullt af fólki og það gerði Stalín líka“ og þess háttar) og þekktum staðreyndum á óvenjulegan hátt (einsog að nálgast fjölda látinna hermanna tiltekinna þjóða í styrjöld út frá samanlagðri meðallengd hvers hóps fyrir sig).

Bodil Malmsten (1944-2015)

Ég kynntist Bodil Malmsten ekki fyrren á lokametrunum – hún kallaði mig „Íslendinginn sinn“ – en ég náði aldrei að hitta hana þótt við skrifuðumst á. Bodil er einhver fyndnasta og skemmtilegasta og grimmasta og beittasta manneskja sem ég hef kynnst á lífsleiðinni, einsog sást vel í verkum hennar bæði í bókum og ekki síður á Twitter . Kannski er hún eina manneskjan sem ég hef kynnst sem mér hefur fundist vera virkilega vitur. Það voru engar fréttir að hún væri mikið veik – öll síðasta bókin hennar fjallar um það og hún hafði farið og rætt það í fjölmiðlum – og kom því ekki mikið á óvart þegar ég fékk skilaboðin í morgun, frá sænska útgefandanum mínum og vini, Per Bergström, að hún væri dáin. En við erum afskaplega sorgmædd samt. Hún dó í gær, á 100 ára afmæli Cabaret Voltaire – hún hefði lesið eitthvað í það. Ég hafði ekkert heyrt frá henni síðan fyrir jól og leit reglulega við á Twitter til að athuga hvort enn væri lífsmark með henni. Það er eitthvað lýsandi við að hún elti engan sjálf á Twitter – „No profile, no social interactivity, following nobody, leading only, jag skickar vidare, det är min verksamhet. Att skicka vidare information“ – og undir það síðasta þegar ég kom við á flæðinu hjá henni var ég ekki sjálfur með reikning, heldur var að skolka. Síðasta tístið er 17. janúar – en hún hvarf stundum í nokkrar vikur þegar mikið var að gerast í spítalamálum. Í fyrra þýddi ég nokkur ljóð eftir hana og birti í ljóðagalleríinu 2015 er gildra – þar hverfur allt, einsog Bodil er horfin, en við komum því að hérna og leyfum því að standa. Því þetta er víst allt sem við eigum núna, leifarnar. Hennar skál. —- Úr Þetta er hjartað (2015) Mér er svo illt
Hversu illt?
Á skalanum einn til tíu
Hversu illt?
Hvers illt er þér
núna?
Það er sorgarþjálfinn í Ropsten
alla óhelga miðvikudaga
fyrir 15 þúsund kall á tímann
Maður tekur leið 55 á
lokastoppistöðina
Ropsten
Hjarta mitt brestur
Mér er svo illt — Sársaukinn situr í heilanum
segir sorgarþjálfinn
Ekki í hjartanu
Sársauki er bara
tilfinningin
Hugsaðu um eitthvað annað
Andaðu
Einbeittu þér að einhverju utan við sjálfa þig
Sæstu við ástandið
Manneskjan mín er dauð
Ég vil vera dauð — Settu það í orð
segir sorgarþjálfinn
í Ropsten
í Ropsten
í Ropsten
Gráttu!
Láttu það vaða
Talaðu um það
og þá líður þér betur
Mér líður verr
Ég vil fara heim

Eitthvað á stærð við áratug, eitthvað á stærð við bók

Fyrir rúmum áratug hringdi Símon Birgisson í mig – þá var hann blaðamaður á DV – og spurði hvort ég gæti skrifað fyrir sig kjallarapistil og skilað honum innan við klukkustundu síðar. Ég var í mat hjá mömmu og pabba, en tók áskoruninni, hljóp heim og negldi niður kjallarann á 40 mínútum sléttum og var mættur aftur til foreldra minna áður en maturinn var borinn fram. Síðan sendi ég reikning á Mikael Torfason, ritstjóra, sem hefur enn ekki verið greiddur. En það er svolítið svona í þessum bransa, maður fær ekki greiddan nema annan hvern reikning, ef maður er ekki með handrukkara á sínum snærum. Og þá koma listamannalaunin sér vel (sem ég fékk reyndar ekki fyrren löngu síðar). Um svipað leyti – en þessu ótengt – reiknuðum við Steinar Bragi út hvað við gætum skrifað margar ljóðabækur af meðallengd á ári á fullum afköstum, ef við sætum við 16 tíma á dag og gerðum engar gæðakröfur. Nálguðumst orðin einsog hver önnur verksmiðja. Niðurstaðan var sú að saman gætum við pungað út 10 þúsund ljóðabókum, sem hver um sig væri svona sextíu síður, með kannski 30 orðum á síðu. Við íhuguðum að gera þetta en afréðum að djókið væri ekki fyrirhafnarinnar virði. — „Það er að myndast þessi pressa. Ef ég gef ekki út bók á hverju ári þá verð ég bara gjaldþrota,“ segir Stefán Máni í viðtali við Fréttablaðið og stingur upp á því að það verði sett tímatakmörk á það hversu mikið maður getur fengið úr launasjóðinum – tvö ár, segir hann og gerir því skóna að ríkið eigi ekki að bakka mann alla leið ef maður er með stærra verk í smíðum. Stefán er vel að merkja höfundur sem situr á metsölulistum – ef hann gefur ekki út bók á ári verður hann gjaldþrota. Hvað haldið þið að það myndi þýða fyrir Gyrði? Sem gefur vel að merkja út bók, nærri því hvert einasta ár – en þyrfti áreiðanlega að henda í 5-6 stykki til að eiga fyrir leigunni. Og er samt einna mestur íslenskra höfunda. Mig minnir að það hafi tekið Joyce 17 ár að skrifa Ulysses. Stórar og miklar bækur taka að jafnaði 4-5 ár að lágmarki – ég skrifaði Ást er þjófnaður (og braut um og gaf út) á fjórum vikum. Og hún er fín. En ég hefði aldrei getað skrifað Illsku á einu ári, eða einu sinni tveimur. Ég skrifaði hana á fjórum árum og það gerði næstum því út af við mig – þegar ég lauk við hana var ég þunglyndur, 40 kílóum í yfirvigt, þegar jólabókaflóðinu lauk fór ég í hálfgerða maníu, skildi við ófríska konuna mína. Það tók mig alveg heilt ár að lenda aftur á fótunum, svona sirkabát. — Bók er altso enginn mælieining – einsog Nýhil sýndi á sínum tíma með útgáfu á þrekvirki Óttars Martins Norðfjörð um Hannes Hólmstein Gissurarson. Ég hef ekki hugmynd um hvað Andri Snær hefur verið að skrifa síðustu 10 árin – fyrir utan Tímakistuna (og eitt og annað fleira, skilst mér, leikrit og kvikmyndahandrit og þvíumlíkt). Það veit enginn nema Andri og launasjóðurinn. Ég veit að það hefur margoft verið hvíslað um þetta við mig. Það er reyndar alltof mikið hvíslað í þessum heimi, alltof mikið baktal – alltof fátt sagt upphátt, alltof lítil hreinskiptni. En bók er ekki mælieining. Hún er ekki af tiltekinni stærð – stutt bók getur verið stór og löng getur verið lítil. Það getur tekið korter að skrifa meistaraverk og maður getur streðað í áratug og uppskorið ekkert – á tíu árum getur maður þurft að yfirgefa tíu ólík handrit, hugmyndir sem gengu ekki upp. Ég var lengi að skrifa Heimsku – þrjú ár. Sérstaklega miðað við lengd. Það tók langan tíma að finna rétt sjónarhorn til að fá hana til að virka – svo hún yrði einsog ég vildi hafa hana. Stundum er þessi vinna ekkert nema frústrasjón – það er að segja ef maður hefur einhvern listrænan metnað. Og svo flækist ýmislegt fyrir – velgengni fylgir alls konar aukavinna, flakk og viðtöl og ble og bla, tíminn er fljótur að fara. Ég endaði á að flýja veturlangt til Víetnam til að fá frið til að klára Heimsku. Það er auðvitað engin vörn fyrir Andra að hann hafi verið ötull náttúruverndarsinni – einsog sumir hafa látið í veðri vaka. Það er ekki starfið sem hann þiggur laun fyrir úr sjóðnum, hvað sem mikilvægi þess líður. Andri hefur hins vegar skrifað bækur sem lifa með þjóðinni – þar fremst auðvitað Bláa hnöttinn. Og stór hluti af starfi rithöfundarins er fólginn í öðru en að beinlínis sitja við og skrifa orð. Ef það væri starfið hefðum við Steinar Bragi gefið út 10 þúsund ljóðabækur árið 2005. Og staðið uppi sem sigurvegarar, mestu höfundar þjóðarinnar frá upphafi, og gætum óhræddir þegið listamannalaun það sem eftir er.

Líknarmorð og listamannalaun

Klukkan er korter yfir tíu að morgni og aðalfréttir dagsins eru tvær. Fjórir af helstu rithöfundum þjóðarinnar hafa verið samfellt á lágmarkslaunum frá ríkinu í tíu ár; og þörf er á dýpri umræðu um líknardráp hér á landi. Það er eitthvað ljóðrænt við þetta. „Sjaldgæfara en fólk heldur að sjúklingar vilji binda enda á líf sitt“. Virkir í athugasemdum dunda ósáttir við sitt, að venju, en mér finnst einsog fjölmiðlar gangi óvenju hart fram í ár við að kynda bálið. Og í sjálfu sér margt sem mætti athuga og hefur verið lengi – umræðan kannski viðkvæm í sjálfri sér, eftir a.m.k. áratug af eins konar „grunsemdarvæðingu“. Fjölmiðlar slá í bjölluna, virkir fara út í eitt hornið og treflar í hitt, og svo er slegist. — Hvað varðar þörfina á laununum sem slíkum þá er tómt mál að tala um bókmenntalíf á litlu landi án þessa – meira að segja í stærri löndum væri það meira en lítið próblematískt. Það rekur sig ekkert nema barnalegur meginstraumurinn, lægsti samnefnari. Þetta þarf ekkert að diskútera lengur. Auðvitað myndu alltaf einhverjir sinna bókaskrifum – og gerðu það áður fyrr – en það yrði þá ýmist mjög hungrað fólk eða mjög ríkt fólk. Fyrst og fremst yrði þetta miklu færra fólk sem myndi afkasta miklu minna, kæmu kannski út þrjár-fjórar skáldsögur á ári, þar af 90% krimmar – og þá værum við varla þjóð, nema upp á puntið lengur. Kannski færi það einsog á samíska málsvæðinu þar sem á góðu ári kemur ein – og svo kannski nokkrar ljóðabækur. Það á bara ekki að þurfa að segja þetta ár eftir ár. Þetta vitum við einfaldlega (einsog við vitum að peningarnir skila sér margfalt til baka – bara virðisaukinn af bókmenntunum koverar hverja einustu krónu úr sjóðnum). — Hvað varðar krítíkina þá held ég það sé óvitlaust að tekjutengja launin, með einhverjum takmörkunum þó. Listamannalaun eru alveg áreiðanlega ekki hugsuð sem heildarlaun eins eða neins, enda lúsarlaun – 350 þúsund fyrir skatt og gjöld og kostnað er varla nokkurn tíma nema 200-250 þúsund út, rétt svo hálf laun – og ströng tekjutenging myndi festa alla rithöfundastéttina í fátæktargildru. Rithöfundar vita samt illa tekjur sínar fyrirfram og erfitt að ætla að afsala sér tekjuörygginu upp á að það detti eitthvað óvænt inn – hreinlegast væri fyrir þá sem komast í uppgrip upp á fleiri hundruð þúsund að launin skertust sjálfkrafa. Ég hef verið á fullum ritlaunum í þrjú ár, ef mér skjátlast ekki, og á þeim tíma hefur mér gengið bærilega – selt rétt í leikhús og til ótal landa, gefið út nokkrar bækur og meira að segja eina sem seldist ágætlega, ferðast og lesið upp, skrifað pistla og ritgerðir og meira að segja þýtt nokkur verk. En líf mitt er bölvað hark engu að síður og ég er skuldugur upp fyrir haus, á stundum ekki fyrir reikningunum – þótt það gerist blessunarlega ekki of oft. Ég var líka meira og minna í fullu starfi við að skrifa svo til launalaust í svona 6-7 ár – með annarri vinnu, næturvörslu, blaðamennsku, skúringum, elliheimilum, sambýlum, skipamálningu, bókmenntaþýðingum og rækjuþíðingum – áður en ég fékk krónu úr þessum blessaða launasjóði. Og fékk stopult í 4-5 ár í viðbót. Þetta á við um marga aðra á þessum lista. — Það er ekki næg „armslengd“ ef fólk er í þeim sporum að velja nefndina sem svo tekur afstöðu til umsókna þeirra. Vel má vera að valið á nefndinni snúist fyrst og fremst um að rella í fólki – hverjum sem er – að taka þetta nú í guðanna bænum að sér, frekar en að þetta sé eftirsóttur bitlingur, en það bara breytir engu. Þetta er ekki armslengd – í mesta lagi framhandleggs. — Rithöfundar mega ekki vera í meira en þriðjungsstarfi annars staðar, en auðvitað þýðir það bara að þeir mega ekki vera á yfir 33% föstum launum – það er ekkert sem segir að þeir geti ekki bara verið á skíðum 50%, á sólarströndum 25%, á kaffihúsum 15% og svo skrifað bara 10%. Þeir geta verið í launalausri vinnu við allan fjárann – svo fremi sem það sé ekki á pappírunum – og þeir geta unnið alls kyns verktakavinnu sem tengist fagi þeirra. En þeir verða vel að merkja að skila skýrslu um hverju þeir hafi komið í verk á launatímabilinu. — Umsóknirnar eru margs konar. Einu sinni heyrði ég af umsókn sem var bara: „Skrifa bók ef ég nenni.“ Mér finnst það fyndið en nefndinni er kannski vorkunn að hafa ekki húmor fyrir því. Í raun stendur í öllum mínum umsóknum: „Skrifa bók ef ég ræð við það.“ En ég hef um það fleiri orð, sem hafa takmarkaða merkingu, til að hlýða forminu. Sannleikurinn er oft einfaldur. — Og auðvitað orka úthlutanir tvímælis – þær eru huglægt mat nefndarinnar, byggt á gögnum sem enginn sér nema hún. Sumir fá fyrir það sem manni virðist vera lítið á meðan aðrir fá ekki fyrir það sem virðist vera ansi mikið. Sumir virðast vera „innundir“ og aðrir úti í kuldanum. Það hallar á unga höfunda – mér finnst sennilegt að það halli á konur, þótt ég hafi ekki kannað það, á þær hallar víða, það er þekktur tendens, og líklega hallar sérstaklega á eldri konur. En nefndin á að taka tillit til þess. Það hallar meira á mann eftir því sem maður fjarlægist höfuðborgina – þeir höfundar sem ekki búa þar eru með annan fótinn þar (ég fæ reglulega fyrirspurnir um að gera eitt og annað í borginni og fólk verður beinlínis steinhlessa þegar ég segist búa annars staðar). Mér finnst sennilegt að það séu fleiri höfundar búsettir í útlöndum en á Íslandi utan við suðvesturhornið. Oft fær maður á tilfinninguna að þeir sem eru með „vesen“ fái að gjalda þess. Í fyrra var Hermann Stefánsson úti – hann þykir duglegur við að krítísera, var meira að segja krítíseraður fyrir að krítísera of mikið í fyrra, kallaður „vígreifastur orðháka“ (og hefur sjálfur skrifað grein um að ég ætti að rífast minna, í lesbókina fyrir löngu). Í ár er Mikael Torfason úti – hann hefur alltaf verið hornreka í bókmenntaheiminum, held ég reyndar með vilja. Bjarni Bernharður er alltaf úti og oft með vesen. Og svona mætti lengi telja. Það margborgar sig einfaldlega að vera stilltur, í þessum bransa einsog öðrum – þeir sem gera fólki gramt í skapi borga pirringinn fullu verði á endanum. Um það þarf ekki heldur að rífast. — Best væri náttúrulega ef hægt væri að ræða þetta án sturlaða kaffistofuspekingsins í kommentakerfunum. Og án þess að rithöfundum og listamönnum væri stillt upp í vörn svo drita mætti yfir lýðinn, þar til meira að segja við sem erum tilbúin til að vera með vesen erum farin að vitna í hagskýrslur og krefjast þess að umræðan – sem verður fáránleg á fáeinum mínútum – verði tekin af dagskrá áður en við lendum í svelg einhverra fljótræðisákvarðana og öllum skipað að líknardrepa sig fyrir sjúkrahús, öryrkja og umferðarmannvirki.

Njála Þorleifs, Mikaels, Ernu og Sunnevu

„Stefnir í þjóðarrifrildi“ stendur á forsíðu DV um Njáluleikrit Borgarleikhússins. „Arngrímur Vídalín dæmir“. Dómur Arngríms er upp á fjórar og hálfa stjörnu og ber yfirskriftina „Höfundar Njálu fundnir“. Ég er ekki lengur á Facebook og hef því áreiðanlega misst af allra handa röfli um að þetta sé of nýstárlegt eða of mikið havarí og læti – altso því sem verður mótvægið við lofið í þessu aðsteðjandi þjóðarrifrildi – ég á enn eftir að sjá stakt neikvætt orð um uppfærsluna, sem er að vísu markaðssett sem umdeild sýning (einsog Þorleifur hefur um árabil verið kynntur sem umdeildur leikstjóri og fréttir sagðar af því reglulega þegar hann hneykslar fólk á meginlandinu). En Arngrímur spáir því engu að síður í lok leikdómsins að nú upphefjist þjóðarrifrildi. Í miðjum orgasmískum samhljóma fögnuði gagnrýnenda allra miðla. Annars veit ég ekki hvort að rifrildi um gæði Njálusýningarinnar væri mjög spennandi, mér finnst ekkert ólíklegt að þau sem standi að sýningunni séu einfaldlega fullfær um að gera nákvæmlega það sem þau ætla sér og gera það vel. Hins vegar væri áhugavert að fá einhverja texta um hvað sýningin sé – einhverja túlkun á henni aðra en að x, y og z sé svona og hinsegin og vel gert og skemmtilegt (eða mætti fara betur, einsog sagt hefur verið um stöku atriði, en þó yfirleitt með einhverjum fyrirvara).

5. janúar: Menningarneyslan

Stranger than Paradise eftir Jim Jarmusch. Eða fyrsti hálftíminn af henni. Ég hugsa að mér hefði þótt þessi mynd mjög töff þegar ég var 25 ára. Mjög existensíal. En þetta er bara illa leikið röfl – fallegar tökur stundum og ekki beinlínis hjartalaust en drepleiðinlegt. Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson eftir Braga Ólafsson. Einhver sagði við mig fyrir langalöngu að þetta væri skelfilega léleg bók og ég veit ekki hvers vegna en ég virðist hafa tekið mark á því (bókin er búin að vera í plastinu síðan 2010). Hún er vissulega dálítið þreytandi á köflum, en það er líka hluti af sjarmanum hvernig hún hristir allt af sér. Paródía um kjaftatítusamfélagið, hjartnæm saga um vináttu, aðstæðnakómedía, metafiksjón – svei mér þá ef þetta er ekki bara besta bókin hans Braga. Ég hélt annars að þessari bók hefði almennt verið illa tekið – líklega hefur það bara verið þessi ónefndi kunningi minn sem kom þeirri hugmynd að hjá mér – því hún var tilnefnd og virðist hafa fengið bara frekar góða dóma. (Útúrdúr þessu tengdur: Ég var beðinn um það nýlega að skrifa um „vanmetnar“ íslenskar bækur fyrir fyrirbærið Finnegan’s List, sem var nú að koma út, og valdi Borg eftir Rögnu Sigurðardóttur, Hvítfeld eftir Kristínu Eiríksdóttur og Algleymi eftir Hermann Stefánsson – hér má lesa þetta , sem og val níu annarra höfunda frá ýmsum löndum). Piada. Þegar ég var 7 ára fór ég með fjölskyldunni til Rimini á Ítalíu. Meðal þess sem ég man frá Rimini er að hafa verið pest við Svanhildi Hólm og Dóru Björk, systur mína (sem slógu þar upp vinskap og héldu lengi), að hafa fengið hvítt kassettutæki og Arena með Duran Duran (ég á tækið enn, spólan er týnd, en ég keypti mér Arena nýlega aftur á vínyl), og að hafa reglulega borðað eitthvað sem ég hélt að héti piata með t-i og fékkst á einhverri búllu í nágrenni við hótelið okkar. Jú og ég man líka að maður þurfti að vera með sundhettur í sundlauginni og áreiðanlega miða líka og hugsanlega var hún lokuð í síestunni (þegar maður þurfti mest á henni að halda). Allavega. Ég hafði nokkrum sinnum reynt (af takmörkuðum mætti) að komast að því hvað þetta var sem ég át þarna úti – og datt í fyrsta sinn nú í vikunni í hug að gúgla þessu með d-i. Og þetta reyndust vera lyftidufts- og hveititortillur með alls kyns ólíku áleggi – „ítölsku brögðunum“ stóð í uppskriftinni. Ég gerði þetta í kvöldmat og svo aftur í hádegismat fyrir mig og börnin daginn eftir – vafði þeirri síðustu í smjörpappír og álpappír og fór með hana heita upp á skíðasvæði að ná í Nödju, sem var að prufukeyra gönguskíðin sem hún fékk í jólagjöf. Fúsi froskagleypir eftir Ole Lund Kirkegaard. Við Aram lásum Fúsa. Það er stórvarasamt að reyna að troða gömlum uppáhaldsbókum upp á börnin sín, en virðist hafa heppnast stórslysalaust í þetta sinnið. Aram hló meira og minna samfellt allan seinnihluta bókarinnar og ekki minnst þegar Fúsa var skotið út um fallbyssu. Sagan af furðufugli eftir Sjón með myndskreytingum Daða Guðbjörnssonar. Við Aino lásum þessa. Það er undarlegt að hugsa sér þetta sem bók eftir Sjón með myndskreytingum eftir Daða – einhvern veginn renna verk þeirra of mikið saman, bæði í konsepti, stíl og stemningu, til þess að eitt sé hugsanlegt án hins. Textinn fjallar um myndina og myndin um textann. Þetta er órofa heild. Og rokna skemmtilegt. Mister heartbreak með Laurie Andersson. Ég var að róta í plötukassanum mínum og rakst alltíeinu á þessa, sem virðist keypt notuð í Finnlandi. Ég hef einhverja óljósa hugmynd um að ég hafi keypt hana fyrir löngu síðan en ég hef áreiðanlega aldrei hlustað á hana. Hún er mjög fín, ekkert sérstaklega agressíf eða grípandi, auðvitað, en fín. Ég veit samt hreinlega ekki hvernig maður bindur svona verk í orð, hvernig maður lýsir því eða segir eitthvað um það af viti. Kannski bara svona, fín. Og kannski mynda ég mér ekki skoðun af viti fyrren eftir fleiri hlustanir.