Njála Þorleifs, Mikaels, Ernu og Sunnevu

„Stefnir í þjóðarrifrildi“ stendur á forsíðu DV um Njáluleikrit Borgarleikhússins. „Arngrímur Vídalín dæmir“. Dómur Arngríms er upp á fjórar og hálfa stjörnu og ber yfirskriftina „Höfundar Njálu fundnir“. Ég er ekki lengur á Facebook og hef því áreiðanlega misst af allra handa röfli um að þetta sé of nýstárlegt eða of mikið havarí og læti – altso því sem verður mótvægið við lofið í þessu aðsteðjandi þjóðarrifrildi – ég á enn eftir að sjá stakt neikvætt orð um uppfærsluna, sem er að vísu markaðssett sem umdeild sýning (einsog Þorleifur hefur um árabil verið kynntur sem umdeildur leikstjóri og fréttir sagðar af því reglulega þegar hann hneykslar fólk á meginlandinu). En Arngrímur spáir því engu að síður í lok leikdómsins að nú upphefjist þjóðarrifrildi. Í miðjum orgasmískum samhljóma fögnuði gagnrýnenda allra miðla. Annars veit ég ekki hvort að rifrildi um gæði Njálusýningarinnar væri mjög spennandi, mér finnst ekkert ólíklegt að þau sem standi að sýningunni séu einfaldlega fullfær um að gera nákvæmlega það sem þau ætla sér og gera það vel. Hins vegar væri áhugavert að fá einhverja texta um hvað sýningin sé – einhverja túlkun á henni aðra en að x, y og z sé svona og hinsegin og vel gert og skemmtilegt (eða mætti fara betur, einsog sagt hefur verið um stöku atriði, en þó yfirleitt með einhverjum fyrirvara).