Heimferðardagbók: Dagur 3

Vörubíllinn átti að koma á morgun til að sækja búslóðina en til stóð að bílstjórinn myndi hringja í dag til að segja nánar klukkan hvað hann væri á ferðinni. Hann hringdi í hádeginu og stakk upp á að mæta hingað klukkan 7 í fyrramálið. Þá hefðum við þurft að vakna klukkan fjögur til að byrja að raða á brettin. Það þurfti ekki miklar samningaviðræður til þess að fá hann til að koma frekar í kvöld. Sem varð til þess reyndar að við misstum af kvöldverðarboði hjá tengdapabba en af tvennu illu þá var þetta nú skárri valkosturinn. Og börnin fengu samt að fara í kvöldverðinn. Í sjálfu sér erum við laus – en það verður einhver að vera heima til að gæta brettana sem standa undir eldhúsglugganum okkar. Bílstjórinn kemur í fyrsta lagi átta, segir hann, og sennilega ekki síðar en níu. Dagurinn byrjaði annars á því að við Aram fórum út að hlaupa. Hann hefur komið með mér út alla mánudaga í nærri tvo mánuði. Við förum 3,5 km í rólegheitunum og hlustum á tónlist. Það er ennþá steikjandi hiti en skárra þegar maður kemst af stað í morgunsvalanum. Á meðan við bíðum eftir bílstjóranum ætlum við Nadja að borða indverskan mat – sem verður sóttur og étinn hér við skrifborðið mitt. Það fáum við ekki á næstunni, nema heima hjá okkur. Ég fór meira að segja í ríkið og keypti mér nokkra bjóra. Ég litaðist líka um eftir flösku af þýska hvítvíninu „Hans Baer“ – sem ég uppgötvaði nýverið á heimasíðu Systembolaget og veit að er til í ríkinu í Hälla – en fann ekki í Systembolaget-City. Líklega fæ ég ekkert Hans Baer vín á Íslandi heldur – það er að minnsta kosti ekki til í ríkinu. Á morgun göngum við svo frá íbúðinni og sendum krakkana með lest til frænku sinnar. Nadja eltir þau á bílnum á miðvikudag og ég fer með lestinni til Gautaborgar í útgáfuhóf fyrir Bron över Tangagata sem er að koma út hjá Rámus. Hingað komum við ekki aftur í þetta skiptið. Nema auðvitað ef landinu verður lokað. Það er svolítil stemning fyrir einöngruðum þjóðríkjum þessa dagana. Ekki síst eyríkjum. Og ekki alveg laust við að maður skammist sín – þótt það sé ekki alveg ljóst hvort maður eigi frekar að skammast sín fyrir að hafa farið eða fyrir að koma aftur. En mér þætti raunar alveg grínlaust áhugavert að vita – í allri þessari umræðu um að bjarga ferðaþjónustunni og vera ekki að hlaða undir rassgatið á heimsreisudillum hvítvínskellinga og djammferðir unglinga – hversu margar fjölskyldur eru í svipuðum sporum og við. Að vera með fætur og rætur í fleiri en einu landi er ekki alveg auðvelt (eða ódýrt) á covid-tímum. Allir Íslendingar sem eru giftir útlendingum – hvort sem þeir eru með fasta búsetu á Íslandi eða erlendis – allir innflytjendurnir, allir Íslendingar erlendis. Og fleiri. Ég held þetta sé fremur stór hópur.

Heimferðardagbók: Dagur 2

Í dag losnuðum við við dálítið af húsmunum úr íbúðinni hér við Karlsgötu. Svo hef ég verið að garfa í pappírum. Ég hef líka verið að skoða hvort það sé skynsamlegra að Nadja og börnin fljúgi suður og skilji bílinn eftir fyrir austan hjá mér eða hvort það sé skynsamlegra að ég fljúgi á eftir þeim þegar ég losna. Mér finnst bara ekki svo auðvelt að sjá út úr því hvenær ég losna. Það er talað um 2-3 daga á heimasíðu Norrænu – af því að bátsferðin telst líka vera sóttkví. Annars fór ég út að hlaupa í 30 gráðu glampandi sólskini og gerði næstum út af við mig. Það var gert til þess að viðhalda geðheilsu minni. Eða það var hin opinbera útskýring. Þegar ég segi þetta svona finnst mér það alls ekki meika sens. Þetta getur ekki verið gott fyrir geðheilsuna. En það er kannski mikilvægt líka að leggja rækt við geðveilurnar sínar. Ég hlakka mikið til að koma heim. Eiginlega svo mikið að ég hugsa að heimkoman geti varla annað en valdið mér vonbrigðum. Vinir mínir og fjölskylda geta varla verið jafn skemmtileg og mig minnir. Veðrið – ég er enn ekki orðinn svo firrtur að halda að veðrið verði „gott“, en það verður kannski þægilegra skokkveður. Fjöllin – eru þau blá? Eldhúsið mitt – gítararnir mínir – nýi kebabstaðurinn sem ég hef aldrei prófað. Steikarlokur í Hamraborg með Smára. Bjór á Húsinu. Búrbon og Límonaði hjá Cat og Dan. Lagavullin hjá Inga Birni. Sána hjá Hála. Að heyra í Hauki Magg tala í símann fyrir fjögur horn í kyrrlátum firðinum. Grill hjá pabba og mömmu. Kaffikortið mitt á Heimabyggð – var ég ekki nærri kominn á næsta fríbolla? Skrifstofan mín. Spjall „á förnum vegi“. Matarboð og veislur. Pizzurnar á Mömmu Ninu bíða sennilega, af því mig langar að baka pizzur sjálfur – og Dóra systir er að hóta því að bjóða mér í pizzu líka og maður getur ekki borðað pizzu á hverjum degi. Svo á ég von á litlu frændsystkini – Dagný Vals bróður er kominn á steypirinn – það gæti þess vegna komið á undan mér.

Heimferðardagbók – Dagur 1

Það er alltaf hausverkur að flytja en það er ansi margfaldur hausverkur að flytja á Covid-tímum. Ekki síst þegar maður hefur ekki fengið sprautuna góðu – sem ég hef ekki fengið vegna þess að sænska og íslenska kerfið kunna ekki að tala saman og maður lendir iðulega á milli þilja í kerfum. Nema hvað. Til stendur, ef guð og haugur af rándýrum PCR-prófum lofa, að við komum til Íslands með Norrænu þann 5. ágúst næstkomandi. Nadja er bólusett og börnin eru börn svo þau þurfa ekki að fara í sóttkví en ég er frávik og þarf að vera einhvers staðar í 2-3 nætur. Nadja og krakkarnir þurfa að taka bílinn suður svo ég kemst ekki mjög langt. Það er urmull af gistihúsum og hótelum sem gefa sig út fyrir að taka á móti fólki í sóttkví en viti menn – þau eru öll uppbókuð (nema eitt, sem bauð mér nóttina áður en ég kem fyrir litlar 30 þúsund krónur – næturnar í bátnum teljast líka til sóttkvíar en ég má sennilega samt ekki umgangast fólkið sem ég deili káetu með eftir að í land kemur). Ég má víst ekki stíma einn upp á öræfi með tjald af því það er ekki aðskilinn salernisaðstaða í tjaldinu og enginn til að spritta öræfin þegar ég fer. Það er einhvers konar neyðarhótel á Neskaupsstað (þangað sem ég verð líklega að taka 35 þúsund króna leigubíl) en ef það fyllist verð ég vísast að vera undir það búinn að taka leigubíl til Reykjavíkur. Ofan í allt saman má ég eiginlega heldur ekki vera að því að hafa áhyggjur af þessu – ég er upptekinn af því að hafa áhyggjur af því að dóttir mín sé með hita (blessunarlega ekki covid, það hefði sett okkur á hliðina á þessum tímamótum – en sólarhringurinn meðan við biðum eftir niðurstöðunum var dálítið óþægilegur); ég er upptekinn af því að sjá til þess að búslóðin okkar verði ekki tolluð (það gæti skeikað dögum á því hvort við höfum búið erlendis í ár – sem er víst skilyrði – en fer eftir við hvaða daga er miðað); upptekinn af því að bóka ferjur og hótel og PCR-próf á réttum tímum svo við komumst í gegnum Danmörku og upp í Norrænu, og pakka öllu auðvitað og merkja það og sjá til þess að það brotni ekki í flutningunum og svo þarf að losa sig við haug af dóti. Svo á ég að vera að gefa út bók í Svíþjóð – það var önnur að koma út í Frakklandi og þriðja, sem kemur út á Íslandi í haust, er að fara í prentun. Það kostar sinn skerf af athygli manns. Svo veit ég reyndar ekkert hvernig ég kemst áfram þegar sóttkví lýkur heldur.

Skáldæviharmsagan og viðtökur hennar

Einhvern tíma fyrir langa löngu var ég að hlusta á bókmenntaþátt á BBC þar sem höfundur – sem ég man ekkert hver er lengur, kona í fagurbókmenntum fyrir fullorðna – fór að tala um „óverðskulduð tár“ og hvernig þau væru stærsta synd hvers rithöfundar. Með því var hún að segja að maður ætti fyrst að setja upp sögusviðið og leyfa lesandanum að kynnast sögupersónunum áður en maður færi að láta ósköpin dynja á þeim – því auðvitað er það það sem fagurbókmenntir fyrir fullorðna eru, rithöfundar að láta ósköp dynja á saklausu fólki. Hún vildi meina að ósköpin þyrftu að gerast „náttúrulega“ – á sínu eigin tempói – og freistingin til þess að troða þeim inn væri frekja af hálfu rithöfundarins. Hann væri í raun að æpa á lesandann að nú yrði hann að tengjast sögupersónunum og gráta – án þess að nenna að vinna fyrir því. Því auðvitað slær harmur okkur, jafnvel þótt við höfum ekki náð að kynnast sögupersónum. En að sama skapi getum við einmitt fyrst við í skáldsögu þegar okkur finnst höfundurinn vera orðinn fullmelódramatískur, við getum hreinlega misst samúðina og lent í Birtingssýslu, þar sem harmurinn verður kjánalegur og einhvers konar myndlíking fyrir eitthvað annað. Við grátum ekki beinlínis yfir teikningum Hugleiks, þótt þær séu gjarnan um grátverðar upplifanir. Ég er í ekki endilega sammála þessari konu þótt mér þyki kenningin allrar athygli verð og rétt að maður sé meðvitaður um þetta þegar maður situr við skriftir – þörfina til þess að kalla á djúpar tilfinningar í brjósti lesandans. Hún er sennilega ein af ástæðunum fyrir því að maður skrifar yfir höfuð, en hún er líka frekur húsbóndi. Það getur alveg verið ástæða til þess að leyfa lesanda að kynnast sögupersónu fyrst og fremst í gegnum einhvern harm – bókin fer þá væntanlega í að skoða harminn, skræla utan af honum, rýna í hann, hann sogar að sér athyglina. En ég held að maður mæti líka slíkri bók alltaf svolítið sigghlaðinn, svolítið varkár. Merkilegt nokk kemur þetta viðtal síðan alltaf upp í hugann þegar ég velti fyrir mér muninum á skáldsögu- og ævisögu- og skáldævisöguforminu. Hvernig harmur virki í sannsögu. Maður getur nefnilega ekki álasað sögupersónu fyrir að verða fyrir harmi of snemma í ævisögunni sinni, til dæmis, eða gagnrýnt trúverðugleika sögunnar (án þess að segja höfundinn beinlínis vera að ljúga – sem er samt annað) – alveg sama þótt ævisagan eða skáldævisagan sé búin einsog skáldsaga og jafnvel byggð þannig að hún hafi stærri/aðra merkingu en hver önnur játning, sé metafóra um tilveruna eða heimspekileg kenning. Maður réttir ekki manni sem úthellir úr hjarta sínu gula spjaldið fyrir það hvernig hann leggur upp söguna, að minnsta kosti ekki ef sagan inniheldur nokkra ástæðu til þess að tárast. Ein algeng – feminísk – gagnrýni er síðan að rithöfundar séu full gjarnir á að henda inn nauðgun þegar þá rekur í vörðurnar og vantar púður til að halda sögunni uppi. Gagnrýni af slíku tagi er augljóslega bullandi rangstæð þegar sagan er sannsaga. En hvað er þá skáldævisaga og hvaða hlutverki þjónar hún á tímum sem einkennast öðru fremur af opinberum játningum og reynslusögum? Heyrir hún til bókmenntunum eða facebook-statusunum? Er hún fyrir eilífðina eða augnablikið? Er hún dokument eða listaverk? Var Hallgrímur Helgason, þegar hann skrifaði Sjóveikur í Munchen á sínum tíma, að úthella úr hjarta sínu – að díla við harm sinn í samstöðu hópsins, með hasstagginu, taka þátt í þeirri samfélagsbyltingu sem var forveri #metoo – eða var hann að skrifa listaverk, sem mátti mæla og meta sem slíkt? Því þetta eru tveir ólíkir hlutir og kalla á ólík viðbrögð og þótt það megi blanda þeim þá er ekki endilega sjálfsagt hver prótókoll viðbragðanna er eða á að vera. Hvað sem líður mismuni skáldverka og ævisagna – og þess svæðis þar sem þau mætast, og gneistað getur úr – er ævisaga ekki það sama og einlægt forsíðuviðtal eða reynslusaga á samfélagsmiðlum. Meira að segja jarðbundnasta ævisaga er ekki hafin yfir gagnrýni á sama hátt og hin hreina reynslusaga – enda inniheldur ævisagan jafnan margt fleira en harmsöguna, hún á sér sitt eigið samhengi, og verður hluti af bæði höfundarverki og bókmenntasögu. Það er margt fleira í Sjóveikur í Munchen en hin fræga nauðgun – og allt hitt er líka Hallgrímur að beina kastljósinu að sjálfum sér og sinni sköpunarsögu, einsog fleiri rithöfundar gerðu þessi misseri (og var sennilega í það skiptið bergmál af vinsældum Knausgaards) og hafa gert í gegnum aldirnar. Hallgrímur kallaði Sjóveikan í Munchen skáldævisögu í viðtali – og þótt hann segði hana sanna, sagði hann líka að „flest“ í henni væri satt frekar en „allt“, hún væri „ýkt“ og ekkert í henni „hreinn skáldskapur“ nema uppköstin – og þá ætti í sjálfu sér sannleikurinn og trúverðugleikinn líka að vera undir í mati og mælingum. Þess utan má halda því til haga að hann stillir sér upp sem sögupersónu í bókinni og kallar sig ekki Hallgrím heldur Ungan Mann. Í viðtalinu talar hann merkilegt nokk líka um að hann hafi áhyggjur af því að markaður fyrir endurminningar miðaldra karla sé svolítið mettur þessi jólin, sem bergmálar síðan í gagnrýni Eiríks Guðmundssonar, sem verður komið að síðar (þótt Eiríkur hafi minni áhyggjur af kyni ævisagnaritara og meiri bara af því að ævin sé að taka við af skáldskapnum af því hún sé smellvænni). En að tröllinu í herberginu. Guðbergur Bergsson skrifaði hrottalegan pistil um þessa bók á sínum tíma og hlaut vægast sagt bágt fyrir. Í þessum pistli, sem ég skal láta vera að vitna í, veltir Guðbergur því meðal annars upp hvort Hallgrímur hafi logið upp á sig nauðgun til þess að fæða eigin athyglissýki. Það er í sjálfu sér merkilegt að Guðbergur – sem annars vílar nú varla neitt fyrir sér – virðist meira að segja vita það sjálfur að hann er að fara út fyrir allan þjófabálk og orðar það einhvern veginn þannig að nú sé hann að „leika kvikindi“. Sem er svona heiðin íslenskun á því að spila málsvara myrkrahöfðingjans (advocatus diaboli, devil’s advocate – en hefð er fyrir því að þegar kaþólska kirkjan leggur mat á hvort taka eigi mann í dýrlingatölu fái einhver það hlutverk að mæla gegn því í nafni andskotans). Þegar Guðbergur Bergsson telur sig hugsanlega vera að ganga of langt, þá er mjög langt gengið. Látum það vera. Guðbergur vill og hefur alltaf viljað hafa alla upp á móti sér – ef hann á sér einhverjar málsbætur í huga mér þá felast þær í sálgreiningu sem er ósanngjörn gagnvart bæði Hallgrími og Guðbergi sjálfum: að hann hafi sjálfur sem samkynhneigður maður mátt þola það stærstan hluta ævi sinnar að vera saklaus grunaður alls staðar sem hann fór um að vera predator-ódó sem nauðgar/tælir/spillir ungum saklausum (gagnkynhneigðum og hreinlífum) drengjum. Og bregðist við sögum af þannig hommum með ósjálfráðum kvikindisskap. Hins vegar var meira varið í pistil nafna míns Guðmundssonar sem tók upp orð Guðbergs – gekkst fyllilega við því að þau væru ósanngjarn hrottaskapur – en vildi engu að síður fá rými til þess að skoða hvort nokkurt korn af sannleika væri í því að finna að bókmenntirnar væru (einsog allt annað) að verða klikkbeitunni að bráð. Eiríkur er ekki vitleysingur eða kvikindi – þótt hann bergmáli síðan orð Guðbergs um kvikindið í eigin nafni – og ég samþykki ekki þá túlkun að þótt hann leyfi sér umbúðalausa umfjöllun um skáldævisögu Hallgríms og merkingu hennar í samhengi annarra sams konar bóka og samtímans sem hún birtist í þá sé hann að þolendasmána Hallgrím, einsog Hallgrímur vill meina, og þaðan af síður að Hermann Stefánsson sé að gaslýsa Hallgrím þegar hann rifjar upp að pistill Eiríks var alls ekki einsog Hallgrímur lýsti honum, sem því að Eiríkur hefði lesið allan pistil Guðbergs og smjattað á orðunum – það er einfaldlega ósatt, hann las tvö stutt dæmi úr pistli Guðbergs og setti þau í samhengi við fleiri bækur sem voru að koma út þessi jól, ákveðinn játningatendens í bókmenntum þess tíma og fagurfræði kvikindisins Guðbergs í gegnum tíðina – pistilinn má lesa hér – að benda á það er einfaldlega ekki gaslýsing. Guðbergur þolendasmánaði Hallgrím. Um það er engum blöðum og að fletta og hann mátti og má þola alls kyns svívirðingar fyrir (og á þær skilið og er sennilega alveg sama – ég veit ekki hvað maður gerir í því). En það er allrækilega undir beltis stað að kenna Eiríki Guðmundssyni um glæpi Guðbergs – kannski bara af því hann liggur betur við höggi, hann tekur það sennilega nærri sér og á minna undir sér en Guðbergur – það er ekki „secondary victimization“ einsog Hallgrímur kallar það að skrifa af óþægilega mikilli dirfsku um bókmenntir samtímans, sem eru lagðar fram til dóms og umfjöllunar, alveg jafnt þótt Hallgrími svíði undan. Það er þvert á móti mikilvæg en hverfandi list, sem er skyld hinni sem Hallgrímur er að reyna að gera hátt undir höfði, að tala upphátt. Það var ekki Eiríkur sem gerði ævi Hallgríms að umfjöllunarefni heldur Hallgrímur sjálfur – hann verður að geta tekið því að bækur hans og eðli þeirra séu settar í samhengi. Þær spurningar sem Eiríkur velti upp eru ekki óeðlilegar eða kvikindisskapur. Og sú krafa að Eiríki verði vikið úr starfi – sem ég hef ekki séð frá Hallgrími, og vona að hann myndi setja sig upp á móti sjálfur, en frá öðru málsmetandi fólki – er beinlínis gróf atlaga að málfrelsi Eiríks og öllum til skammar sem hafa hana eftir.

Skólalíf

Það er enginn skóli hjá börnunum þessa vikuna. Man ekki alveg hvað veldur í þetta skiptið – ekki Covid, held ég. En þau eru samt með heimanám með sér enda hefur verið svo lítill skóli í vetur að án þess gengi þetta líklega ekki upp. Svo eru bæði að æfa sig fyrir tónleika í tónlistarskólanum. Aino þarf að læra fjögur lög af því það eru svo fáir bassaleikarar í tónlistarskólanum. Það er undarlegt til þess að hugsa að Aino hefur langstærstan hluta sinnar skólagöngu verið í Covid-gír – með lokunum og alltaf heima við minnsta nefrennsli. Þá hefur hún líka tvisvar gengið í fyrsta bekk – í Svíþjóð byrjar maður í skóla sjö ára. Við erum að reyna að gera átak í lestri svo hún verði ekki langt á eftir bekkjarfélögum sínum á Ísafirði í haust. Við lifum að mörgu leyti frekar einangruðu lífi hérna, finnst mér. Það er ekkert eitt sem veldur þótt Covid hafi auðvitað átt stóran þátt í því. Og það er langt að fara og við þekkjum hvað sem öllu líður miklu færra fólk í Västerås en á Ísafirði. En ofan á það bætist að krakkarnir eru í Waldorf-skóla langt í burtu og þekkja engin börn í hverfinu okkar. Ég held að bekkjarfélagar þeirra eigi ekki heldur margir heima nálægt skólanum, þetta er skóli sem fólk sækir í af öðrum ástæðum. Og raunar er sífellt algengara í Svíþjóð að krakkar gangi ekki í næsta skóla heldur einhvern skóla sem hentar lífssýn foreldranna. Það var grein um þetta í Dagens Nyheter á dögunum, skrifuð af vini mínum Philip Teir – finnlandssænskum blaðamanni og rithöfundi – þar sem hann bar saman sænska og finnska kerfið. Í Finnlandi er mikið lagt upp úr því að maður fari í hverfisskólann en hægt að fiffa með það – t.d. með því að hafa börnin í tónlistarnámi sem þá tengist tilteknum skólum og talsvert um að efstu stéttirnar geri það, til þess að koma börnunum í fínni skóla. Svo eru hverfi einfaldlega misjöfn – í ríkum hverfum eru betri skólar. Skólarnir eiga allir að hafa sömu fjárráð og aðstöðu en þegar til kastanna kemur er einfaldlega dýrara að sinna vissum nemendum – t.d. þeim sem eiga ekki foreldra sem geta setið yfir þeim og fylgst með náminu. Í skólum meðvituðu efri-millistéttarinnar geta kennarar einbeitt sér að fjölbreyttari verkefnum, einfaldlega vegna þess að minna álag er af hverjum og einum nemanda. Finnska kerfið er byggt á sænsku módeli, merkilegt nokk, sem gengur út á að reyna að skapa eins mikinn jöfnuð í skólunum og hægt er – að það skipti ekki máli í hvaða skóla þú farir, þú eigir að fá sömu grunnmenntun. Svíar hafa fyrir löngu gefið þetta kerfi upp á bátinn og það var hafður um það harður áróður árum saman – kallað austur-evrópskt og gott ef ekki bara fasískt, frelsislaust og þar fram eftir götunum. Nú hefur það svolítið verið endurskoðað – og fullorðið fólk kannast ekki við þessa mynd af grunnskólunum sem það gekk í sjálft, þótt þeir hafi ekki verið fullkomnir. Svíar held ég að hafi lent í einhverri sjálfsmyndarkreppu á níunda og tíunda áratugnum og ekki viljað vera hallærislegir sossar lengur – og voru mjög ginkeyptir fyrir alls kyns afregluvæðingu og einkavæðingu (eitt sem breyttist er reyndar að hætt var að tala um „einkaskóla“ og farið að tala um „frískóla“ í staðinn – eða frjálsan skóla – sem hljómar ólíkt betur). Í Finnlandi var kreppa þegar þessi þróun átti sér stað – í byrjun tíunda áratugarins þegar Sovétríkin féllu fór það mjög illan með finnskan efnahag. Sérfræðingar í dag segja að á krepputímum sé fólk mjög lítið gefið fyrir kenningar nýfrjálshyggjunnar og því hafi finnar haldið fast við sína jafnaðarskóla á sama tíma og Svíar markaðsvæddu allt sem ekki var neglt niður. Ég kannast ekki við að Íslendingar setjist mikið yfir það hvar börnin þeirra fari í grunnskóla – átta mig raunar ekki á því hvernig því er farið. Á Ísafirði er bara grunnskóli. Reyndar er eitthvað um það að fólkið í nágrannabæjunum sendi börnin sín í skóla á Ísafirði frekar en á staðnum. En það eru aðrir þættir sem ráða því, held ég, en þetta neyslumynstur hins meðvitaða foreldris sem fer út að sjoppa besta skólann fyrir börnin sín. Það ber meira á því að fólk sæki í tiltekna leikskóla með börnin sín. Hjallastefnan ehf. er sennilega stærst. Og einhverja grunnskóla er Hjallastefnan líka með. Ég yrði ekki hissa þótt hlutfall einkaskóla færi vaxandi og viðbúið að opnist góð glufa verði sprenging – markaðurinn leitar þangað sem hann kemst. En það væri gaman að sjá úttekt um þetta einhvern daginn.

Froðufellt í farsóttinni

Við setjumst gjarnan niður fjölskyldan á kvöldin og horfum saman á sænsku og íslensku Krakkafréttirnar. Ég hef gert grín að því að á meðan sænsku krakkafréttirnar segi ótæpilega margar fréttir af skíðaíþróttum – ekki síst skíðaskotfimi – þá séu krakkafréttirnar helst til mikið í upptalningum á því hvaða breytingar hafi orðið á samkomubanni. 20 manns mega nú koma saman í bíó, séu þrír metrar á milli þeirra, en 14 geta farið í sund, þó bara einn á hverri braut og bólusettir mega nú fara á ljóðaupplestra ef þeir eru með vottorð. Í stuttum fréttatíma virkar þetta einsog uppfyllingarefni. En þetta eru auðvitað ýkjur. Ég held meira að segja stundum að þessar tíu sænsku mínútur og fimm íslensku séu besta fréttaefnið sem maður fær. Íslensku krakkafréttirnar segja manni svona það sem helst er á baugi og sænsku krakkafréttirnar, Lilla aktuellt, eru meira í fréttaskýringum. Þar eru oft skelfilegir hlutir ræddir af fullri alvöru – t.d. var á dögunum sagt frá flóttamannavandanum á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó (með myndefni af einsömlum börnum sem sváfu í kös í bandarísku landamærafangelsi) og fylgst hefur verið með máli Georges Floyd frá upphafi. Maður fær það líka á tilfinninguna að uppsetningin sé úthugsuð til þess að vekja mann til umhugsunar. Formið hvetur mann til þess að velta vöngum og efast um hið sjálfsagða. Þannig byrjaði einn þáttur á dögunum á því að krakkar voru spurðir hvað þeim þætti um mótmæli – hver afstaða þeirra væri til þess að alþýða manna mótmælti? Þótt nær engin þeirra sem spurð voru hefðu mótmælt neinu sjálf voru þau undantekningalaust hlynnt mótmælum sem slíkum. Næst var fjallað um mótmæli gegn sóttvörnum í Stokkhólmi, þar sem stór hópur fólks hafði komið saman til þess að berjast gegn lokunum, grímum og jafnvel bóluefnum. Voru mótmæli þá alltaf góð? Og svo sagt frá því að lögreglan hefði leyst upp mótmælin (vegna þess að þau brutu í bága við lögin sem þeim var ætlað að mótmæla – það mega ekki koma saman fleiri en átta). Ef mótmæli eru ekki alltaf góð, má þá stoppa þau? Þar á eftir var rætt við ritstjóra Sydsvenskan sem gagnrýndi þessar aðgerðir lögreglunnar og benti á að það vildi enginn búa í landi þar sem hið opinbera hefði sjálfdæmi um hvenær mætti mótmæla stefnu þess og hvenær ekki. Við yrðum þess utan að standa vörð um borgaraleg réttindi okkar, jafnvel á neyðartímum. Fyrir þeim hefði verið barist og þau væru ekki sjálfsögð þótt mörg okkar þekktu ekkert annað. Að síðustu var svo frétt um fólk sem trúir samsæriskenningum – einsog að bóluefni sé eitur. Einsog til að minna mann á að láta ekki vitleysuna glepja sig. *** Þegar maður er orðinn vanur að fá sitt fréttaefni úr fullorðinsmiðlunum virkar þetta furðu þroskað. Sérstaklega – ef ég má gerast svo djarfur – ef maður hefur mikið verið að lesa íslenska miðla upp á síðkastið. Það leggur stækan nashyrningafnyk af þjóðinni. Vinsælasti rappari landsins hefur boðað til mótmæla á sunnudag og ætlar að leggja bílnum sínum – sem ég reikna með að sé Range Rover á gullfelgum – þvert yfir Reykjanesbrautina til að mótmæla komu fólks til landsins. Fólks sem sennilega er margt hvert pólskt verkafólk sem hefur átt erindi til gamla landsins – sennilega brýnt, fæstir ferðast nema þeir þurfi þess, jarðarfarir og annað eins – og þeim verður hörkulega mætt af manni í hvítum bol með gullkeðju, sem hefur barasta fengið nóg af græðgi annarra. Fyrrverandi þingmaður skrifaði langloku á Facebook nýlega þar sem hann sagði allt nýtt smit mega rekja til ónefndrar pólskrar verkakonu á Landspítalanum. Það vantaði einmitt bara að hann nafngreindi hana. Þetta var vel að merkja fyrir Jörfamálið. Ítrekað er hamrað á því í fjölmiðlum að smitin „megi rekja til fólks af erlendum uppruna sem búsett er á Íslandi“ (af því maður segir ekki „eru helvítis pólverjunum að kenna“ upphátt – en það heyra allir sem vilja heyra). Þar með er ekki bara búið að sakfella innflytjendur á landinu – á nákvæmlega sama máta og Trump gerði við Kínverja þegar hann fór að tala um „Kínavírusinn“ – heldur  þess utan búið að sýkna sanna Íslendinga og túrista. Ríkisstjórnin gerði síðan heiðarlega tilraun þess að fangelsa stóran hóp fólks við komuna til landsins en gleymdi að setja það í lög. Frumvarpið sem var svo samþykkt, þegar dómstólar höfðu gert þau afturreka með erindið lagalaust, heitir því skemmtilega gegnsæja nafni „Frumvarp heilbrigðisráðherra um sóttvarnalög og lög um útlendinga“. Ég veit það segir ekki neitt og sennilega er þetta bara „rétta“ heitið – en það er eitthvað nánast kjánalega lýsandi við þetta samt. Á sama tíma hefur Útlendingastofnun ákveðið að faraldurinn sé  ekki ástæða til þess að fresta eða sleppa brottvísunum hælisleitenda. Það er sem sagt bara farsótt í heiminum þegar það hentar. Kári Stefánsson hefur verið duglegur að tala um að Pólverjarnir valdi smitunum – en tekst gjarnan á sama tíma að tala um þá einsog hálfgerða aumingja, sem okkur hafi ekki tekist almennilega að siða. Það hafi „mistekist að byggja brú til pólska samfélagsins“. Hann var meira að segja með einhverjar kenningar – sem væntanlega eru algerlega úr lausu lofti gripnar, ég held það sé ekki haldið utan um svona tölur – um að stór hluti þeirra væri að þvælast milli landa til þess að sækja sér atvinnuleysisbætur. Að það sem sagt borgi sig að fljúga reglulega fram og til baka til Íslands, gista á hótelum og borga fyrir (rándýr) PCR próf – væntanlega af því íslenskar atvinnuleysisbætur eru svo háar. Þetta vildi hann takast á við „án þess að benda á þetta fólk sérstaklega“ – en gerði auðvitað ekkert sjálfur annað en að standa upp á kassanum sínum og benda, mjög áhyggjufullur og landsföðurlegur (hún er mjög hörð samkeppnin þessa dagana um hver sé áhyggjufyllsti landsfaðirinn). Svo birtist hann í blöðunum í dag og sýtir mjög að hið nýja frumvarp um útlendinga flytji valdheimildir um of frá sóttvarnarlækni til ríkisstjórnarinnar. Lætur einsog það sé verið að hrækja í andlit vísindanna. Og ég spyr mig alveg einlæglega hvort fólk heyri í sjálfu sér tala? Það fer ábyggilega ágætlega á því að sóttvarnarlæknir hafi takmarkaðar heimildir – að hann þurfi ekki að spyrja Svandísi alltaf þegar hann skýst á klósettið – en hann er samt ekki lýðræðislega kjörið yfirvald og allar stærri ákvarðanir ætti að taka í ráðuneytinu.

Þetta segir sig sjálft í lýðræðissamfélagi og á ekki að þurfa að endurtaka ofan í fullorðið fólk. Þess utan má nefna að þetta samband þjóðarinnar við sóttvarnarlækni – sem birtist í fjölmiðlum á hverjum morgni og gerir sig líklegan til að gefa þumal upp eða niður, meðan þjóðin nagar neglurnar og bíður upplýsingafundar, verður leikskóli, verður sund, þarf ég að vinna heima, kemst ég í jarðarför mömmu í Kraká – er að verða mjög óheilbrigt. Það kom upp smit á leikskólanum Jörfa sem sóttvarnaryfirvöld röktu fljótt til eins manns – pólsks verkamanns – sem hafði rofið sóttkví. Það fór beint í blöðin. Ekki undir nafni en svo gott sem – ég reikna ekki með að það tæki meðalslúðurkellingu nema 15 mínútur að hafa upp á honum. Maðurinn er núna sekur um að hafa komið af stað nýju smiti – hið pólska poster boy veirunnar – og ef einhver deyr þarf ekkert að spyrja að því hverjum popúlistarnir kenna um (þótt Svandís fái ábyggilega sinn skerf líka). Þar vantaði ekkert nema Þórólfur tæki að sér að tendra í kyndlunum fyrir fólk. Sósíalistaflokkurinn – sem ég sagði mig úr rétt í þessu – hefur boðað nýja stefnu undir heitinu „ Varið land “, enda sé „sóttkví við landamæri ekki mannréttindabrot“ einsog það er orðað (en átt er við frelsissviptingu saklauss fólks fyrir glæp sem það hefur ekki framið: að rjúfa sóttkví – það fá allir aðrir, hvort sem þeir eru útsettir fyrir smiti eður ei, að fara í sjálfviljuga sóttkví heima hjá sér, og enginn hefur t.d. farið fram á að börnin af Jörfa eða foreldrar þeirra eða kennarar séu læst inni á hótelherbergjum þótt augljóslega sé líklegra að þau beri smit en einhver random ferðalangur á leið um Leifsstöð – enda væri það massíft mannréttindabrot að fangelsa alla sem gætu verið smitaðir). Þá er orðræðan meðal forystufólks flokksins alveg á hæsta snúningi popúlismans þessa dagana. Yfirleitt bíða flokkar með að komast til valda áður en þeir valda mér svo miklum vonbrigðum. Allt er þetta vel að merkja að gerast í landi sem er svo gott sem veirufrítt. Og þessara róttæku aðgerða þótti ekki þörf þegar nýgengi smita á landamærunum var hærra. Ég á ekki við að ástandið geti ekki versnað – enn getur fólk veikst og dáið, það eru raunverulegar afleiðingar og þær ber að taka af fullri alvöru, þótt verið sé að bólusetja á fullu. En það er líka eitthvað sjúkt við þessa ofsafengnu öryggisþrá sem er vaxandi einkenni millistéttarinnar síðustu 15-20 árin. Við setjum á okkur öryggisbelti, hjólum með hjálm, bönnum reykingar inni og við innganga og jafnvel á útiborðum veitingahúsa o.s.frv. – við erum kvíðin með dauðann á heilanum allar vökustundir. Og þá er kannski ekki skrítið að við förum offari í faraldri – en ég þakka guði fyrir að sama fólki sé ekki ætlað að halda haus í heimsstyrjöld eða einhverjum verri hamförum en þessum. Ég veit að það hljómar þannig, í heimi sem er bara læs á pólaríseringar, en ég vil sannarlega ekki gera lítið úr mikilvægi sóttvarna – eða því hvað lokanir og aðrar lýðræðislegri aðgerðir (les: sem bitna jafnar á öllum) geta íþyngt fólki. Áfram grímur, áfram prófanir, áfram spritt og áfram sóttkví og einangrun og takmarkanir. En ég segi einsog ritstjóri Sydsvenskan sagði við börnin í sænsku krakkafréttunum: aðgerðirnar mega ekki kosta hvað sem er. Neyðarástand kallar sannarlega á neyðaraðgerðir – en þau kalla líka á að við hugum að prinsippunum okkar frekar heldur en bara sjálfselskunni. Í það minnsta mættum við fara að spyrja okkur af fullri alvöru hvað draumurinn um 100% veirufrítt land og „stuð innanlands í sumar“ megi kosta. Því skríllinn er að verða afar æstur, einsog má til dæmis sjá í athugasemdum við frétt um afstöðu Pawels Bartoszek til mótmæla Herra Hnetusmjörs (og þá má alveg hafa í huga að Pawel er ekki bara frjálshyggjumaður heldur líka eini stóri stjórnmálamaðurinn á Íslandi með almennilega innsýn í samfélag Pólverja – hann stendur á brúnni sem Kári talaði um). Ég tek undir með þeim sem segja að samlíkingin við að mótmæla komu hælisleitenda sé ekki smekkleg – en það gerir bara ekki aðgerðir Herra Hnetusmjörs (fáránlegar þessar setningar) ekkert minna ógeðfelldar. Ef svarið er bara að allra aðgerða megi beita til þess að veiran drepi engan – einsog skilja má á sumum – þá verðum við líka að geta horfst í augu við þann harm, þann skaða og já, þann dauða, sem slíkar aðgerðir hafa í för með sér.  Það er hægt að halda í sér andanum til að verða ekki fyrir óbeinum reykingum og drepast úr krabbameini – en það er hætt við að það drepi mann eitthvað annað ef maður dregur ekki andann annað veifið. Við lifum ekki enn í þjóðfélagi sem hefur afskrifað dauðann – við höfum ekki bannað reykingar með öllu (eða gert óbeinar reykingar ólöglegar). Við höfum ekki bannað bílaumferð. Við höfum verið að íhuga lögleiðingu eiturlyfja – ekki vegna þess að þau séu skaðlaus, heldur vegna þess að skaðinn sem bannið veldur er sennilega meiri en skaði neyslunnar sem slíkrar. Við vegum alltaf og metum kosti og galla – og í göllunum er oft fólgið ákveðið mannfall. Meira að segja við byggingu húsa og mannvirkja er formúla til þess að reikna út hversu margir muni látast. Ég veit þetta hljómar ískalt – við tölum ekki mikið um þetta upphátt, og ég myndi áreiðanlega þaga þunnu hljóði ef pestin hefði hitt mig illa heima fyrir sjálfan, það er eðlilegt – en við höfum (þegjandi) sammælst um að lífinu fylgi ákveðin dauði og að við látum hann ekki hamla öllum okkar gjörðum; á sama tíma og við gerum allt sem eðlilegt getur talist til þess að draga úr skaðanum (vinnulöggjöfin hefur t.d. stórlega dregið úr mannfalli við byggingastörf; umferðarreglur fækka dauðsföllum í umferðinni – vel að merkja alveg án þess að við séum öll með lögreglumann í bílnum til að fylgja þeim eftir). Þetta er heldur vel að merkja ekki spurning um að hafa annað hvort opið í sund eða opið á landamærunum. Hvorutveggja er pólitísk ákvörðun – ekki vísindi. Það hljómar sennilega einsog einhver framúrstefnukenning, árið 2021 á Íslandi, en það er hægt að hafa bæði opið í sund og leyfa fólki að taka sóttkví heima hjá sér án frelsissviptingar. Það er jafnvel hægt að hafa opið í sund með takmörkunum. Og það er sannarlega hægt að gera allt þetta án þess að benda áhyggjufullur á tiltekna þjóðfélagshópa eða tiltekna einstaklinga í miðjum heimsfaraldri og gera þá ábyrga fyrir öllu saman – hvort sem maður gerir það froðufellandi eða yfirvegaður (og lætur aðra um að froðufella fyrir sig).

Ferkantað land fyrir kantlausan slúbbert

Það er ekki auðvelt fyrir vísitöludreifarann að búa í landi einsog Svíþjóð. Þegar maður er vanur því að allt reddist af því að allir þekkjast og reglur séu sveigðar austur og vestur til þess að skapa ekki „óþarfa vesen“ er erfitt að læra að sætta sig við þvera og ferkantaða lífssýn vísitölu-svensons. Þessa eilífu þrá eftir því að gera hlutina „rétt“. Íslendingar eru sannarlega ekki umburðarlyndir á alla vísu og einsog dæmin sanna er auðvelt fyrir utanaðkomandi að flækja sig svo í kerfinu að lífið verði hálfgerð martröð – egypska fjölskyldan sem var rétt í þessu að fá úrlausn sinna mála, fyrir kraft samstöðu gegn hinni kerfislægu frekju, er gott dæmi um slíkt – en það er samt talið til dyggða að láta hlutina reddast. Og mál einsog egypsku fjölskyldunnar eru vel að merkja mýmörg í Svíþjóð líka – hér er alltaf talsvert um hælisleitendur sem fara huldu höfði. Það hefur líka oft hvarflað að mér þar sem ég missi góða skapið eftir samskipti mín við ferkantaða bjúrókrasíu út af einhverjum smámunum hvað maður eigi samt gott að afleiðingarnar skuli vera svona minniháttar. Þannig man ég að þegar Aram fæddist hér fyrir 11 árum hafði ég samband við sendiráðið upp á réttu leiðina til að fá ð-ið skráð í eftirnafnið hans og var sagt að það væri ekkert mál – það væru margundirritaðir norrænir sáttmálar um þetta allt saman, en vandamálið væri að starfsfólkið í kerfinu hefði ekki hugmynd um þessa sáttmála og myndi því ekki hjálpa mér. Það sem ég þyrfti að gera væri að skrá barnið, kæra svo skráninguna og fá nafnið rétt skráð fyrir dómstólum. Ég man ekki hvað það átti að kosta en það voru einhverjir hundraðþúsund kallar, give or take. Um svipað leyti lenti ég líka milli skips og bryggju gagnvart þjóðskrá. Ég var alltaf skráður til heimilis á Íslandi, af því ég vinn og skatta þar, hvar svo sem rassgatið á mér er statt hverju sinni. Þegar við fórum til Íslands yfir jól og ætluðum að skrá Aram í kerfið kom í ljós að við hjónin vorum ekki skráð gift – af því að þeim pappírum þarf maður víst að skila inn sjálfur (við giftum okkur í Finnlandi og reiknuðum bara með að þessi kerfi töluðu saman). Þegar við skráðum okkur gift, til þess að skrá Aram í þjóðskrá, kom í ljós að við máttum alls ekki hafa sitthvort lögheimilið. Ég bölvaði þessu í sand og ösku, meðal annars því við ætluðum til Finnlands aftur um sumarið, og vegna þess að ég var enn skráður á Íslandi myndi ég þurfa að skatta í þremur löndum. Janúar á Íslandi, febrúar-júní í Svíþjóð og svo rest í Finnlandi. Og það er nú ekki það skemmtilegasta sem ég geri að fylla út í skattskýrslur. En þegar ég fór á þjóðskrá hér og fyllti út í pappírinn um lögheimilisflutninga, þar sem fram kom að ég ætlaði að fara til Finnlands um sumarið, var mér tjáð að þetta gæti ég ekki – því það mætti ekki flytja lögheimili sitt til skemmri tíma en sex mánaða og þetta væru bara fimm. Ég mátti því hvorki hafa lögheimilið áfram á Íslandi, né flytja það til Svíþjóðar þar sem ég bjó. Og nú er ég sem sagt kominn aftur út og byrjaður að reka mig á aftur. Það eru til tvö öpp til að panta heim mat. Við getum hvorugt notað af því við erum ekki með sænskt símanúmer – reiturinn fyrir símanúmerin er einu stafabili of þröngur til að ég komi íslensku númeri fyrir. Ég hef áður lent í því að geta ekki pantað mat af því ég var ekki með Swish – sem er svona Aur eða Kass app, sem allir hér nota, en Swish fær maður ekki nema maður sé með sænskan bankareikning. Nú er Nadja reyndar með Swish svo ég get beðið hana að redda þessu. Maður gæti haldið að það væri ástæða til þess að tengja Swish við kreditkortaþjónustu – en svo hef ég svo sem rekið mig á það líka að geta ekki notað íslenskt kreditkort á sænskri síðu. Samt er þetta ekkert íslenskt – bara mastercard. Í dag ætlaði ég að ná í póst. Ég hef áður lent í vandræðum með það. Ein sending var af einhverjum orsökum tollskyld (í henni var úreldur snjallsími, sem hefur mest verið notaður sem svona þykjustusími). Það var rúmur þúsundkall. En verst var að við vorum aldrei látin vita af því. Fengum enga tilkynningu – hann bara sat þarna á pósthúsinu þangað til við fórum að spyrjast fyrir og borguðum tollgjaldið. Svo fékk ég hann ekki afhendan af því hann var merktur Aram og ég var ekki með passann hans. Í dag taldi ég að pósturinn væri merktur mér, en það reyndist misskilningur, svo ég þurfti að fara heim að sækja passa beggja barnanna – af því pakkinn var merktur báðum (og skiptir engu að ég sé forráðamaður þeirra). Þegar við Aram komum svo með passana ætlaði konan að gera okkur afturreka aftur á þeirri forsendu að passinn hennar Ainoar væri útrunninn (ég tók vitlausan). Þegar ég maldaði í móinn var náð í annan starfsmann sem ákvað að það dygði í þetta sinn að við værum með passa þess sem er fyrr tiltekinn á bréfinu – sem var Aram – öfugt hefði ekki gengið. Um daginn vantaði mig líka svona lítinn þráðlausan gaur til að tengja við plötuspilarann svo ég geti notað hann með heddfónum. Ég fann hann á netinu hjá Clas Ohlsson, festi mér hann og greiddi – en af því að ég var nýbúinn að eiga í svipuðum viðskiptum þar sem ég strandaði á að vera ekki með sænska kennitölu, skráði ég Nödju sem kaupanda (ef ske kynni að kennitöluvesenið kæmi upp). En svo fékk ég hann auðvitað ekki afhentan þótt ég væri augljóslega greiðandi (sjálfum þætti mér eðlilegra að það væri öfugt – það myndi a.m.k. vera betra til að lágmarka svindl). Síðasta umkvörtun dagsins – nei, næstsíðasta (ef mér dettur ekkert fleira í hug) – er að maður kemst ekki inn í fjölbýlishúsið okkar nema með sérstöku blippi, svona tölvulykli. Og það er engin dyrabjalla. Hér er sem sagt ekki hægt að banka uppá – hvorki sölumenn, trúboðar, börn á hrekkjavöku eða vinir og kunningjar. Síðasta umkvörtunin – last dagsins – fær síðan nágranninn á ská fyrir ofan okkur. Þegar við fluttum inn fór Nadja og spurði fólkið fyrir ofan okkur hvort það væri í lagi að Aram væri að tromma á rafmagnstrommusettið sitt. Þau sögðust ekki geta sagt um það, þau yrðu að heyra það fyrst – en þá hafði hann einmitt verið að tromma og enginn heyrt neitt. Fólkið á ská fyrir ofan – sem ætti að heyra verr, enda hinumegin við stigaganginn – kom hins vegar í fyrrakvöld og sagði að nú væri öllum trommuleik í þessu húsi lokið. Ég er svo mikill trékall – og vanur því að fólk bregðist frekar illa við mér, ég veit ekki hvort það er hæðin eða skeggið eða röddin eða bara fasið, en Nödju gengur allavega miklu betur en mér að lempa svona fólk og hún var ekki heima – að ég jánkaði bara eitthvað og baðst velvirðingar. En svo sýður auðvitað á mér. Ég er með kategórískt ofnæmi fyrir því sem á ensku er kallað „entitlement“ – að finnast maður stöðugt geta krafist þess að veröldin trufli ekki viðkvæma tilvist manns. Auðvitað eru takmörk fyrir öllu – en ef maður má ekki heyra í nágrönnum sínum, finna lykt þegar þeir laga mat o.s.frv. þá þarf maður bara að búa einhvers staðar þar sem eru ekki nágrannar. Því fólki fylgir visst ónæði. Svo finnst mér líka að það eigi að vera tónlist á heimilum. Nú er á planinu að kaupa betri mottu undir settið og færa það í annað herbergi og tala svo við fólkið og fá uppgefinn einhvern tíma sem hentar betur en annar – þetta var eitthvað rúmlega sjö. Eitt af því sem er áhugavert í þessu öllu saman, a.m.k. nú í dag frekar en þarna um árið, er að megnið af vandræðunum eru ekki á vegum hins opinbera (enn sem komið er) heldur einkafyrirtækja. Það er pósturinn, öppin, pizzeriurnar, fyrirtekið sem rekur húsið, Clas Ohlson o.s.frv. sem eru með mesta vesenið.

Tónleikar og tómleikar og tilfinningar

Blúsbloggið vendir kvæði sínu í kross – sem er reyndar mikið tekið stílbragð í blús – og lætur blússöguna vera í dag og er þess í stað á persónulegu nótunum. En það er reyndar líka mikið tekið stílbragð í blús. Þannig er mál með vexti að blúsbloggarinn ætlar að spila á tónleikum seint í júlímánuði. Ég – því það er ég sem er blúsbloggarinn, ég sem er fyrstupersónumaðurinn og þriðjupersónumaðurinn – hef ekki spilað á „alvöru“ tónleikum síðan ég tók tvö lög með Hallvarði Ásgeirssyni á minningartónleikum um Johnny Cash í Þjóðleikhúskjallaranum 2003. Og eiginlega eru það einu tónleikarnir sem ég hef sungið á um ævina og ég söng bara annað lagið. Á þessum tónleikum, sem verða haldnir í litlu rými á stór-Ísafjarðarsvæðinu, mun ég að öllum líkindum leika 4-5 lög sjálfur og svo tvo dúetta með Skúla mennska frænda mínum sem svo tekur við með 4-5 lög til viðbótar. Eða kannski tek ég 4-5, svo hann 4-5 og svo við 2-3 saman. Þetta hefur ekki verið rætt. Dúettarnir er eitt mál en mér er farið að vaxa mjög í augum að standa einn á sviði (sem er að vísu ekkert svið, bara horn í bókabúð). Reyndar, þegar ég skrifa þetta, sé ég að þetta á ekki að vera neitt mál. Ég þarf bara að anda með nefinu. Þegar ég bað Skúla um ráð við stressi stakk hann upp á reglulegri hreyfingu og fjallgöngum. Þegar ég spurði hvort Muddy Waters hefði stundað fjallgöngur gaf hann mjög sterkt í skyn að Muddy hefði hugsanlega notið aðstoðar fíkniefna. Ekki veit ég hvað Howlin’ Wolf gerði – sennilega naut hann sín bara á sviðinu, því annars var hann mikill taugaveiklunarsjúklingur og var meðal annars sendur heim úr hernum í stríðinu vegna viðstöðulítilla hysteríukasta. Sennilega þættu honum áhyggjur mínar hlægilegar. En ég er að hugsa um að taka þetta til mín með göngutúrana. Í grunninn er þetta blanda af einhverjum mótsagnakenndum tilfinningum. Ég er afslappaður vegna þess að ég finn ekki til neinnar þarfar til að vera tónlistarmaður og þarf þess vegna ekki að sanna mig neitt. Hins vegar ber ég auðvitað ábyrgð á því að vera ekki að kalla til fólk til að hlusta á mig ef ég er ekki æfður og a.m.k. bærilega spilandi. Ég þarf ekki að sigra heiminn en mig langar ekki að gera mig að fífli. Og svo er ég stressaður því einu sinni ætlaði ég að verða tónlistarmaður og sá 15 ára strákur er ennþá í mér einhvers staðar – þessum nærri 42 ára gamla manni sem er sennilega að þessu í einhverju súrrandi midlife-crisis. Ég veit líka að sjálfsmat manns er alltaf einhvers konar undarlegur bræðingur á ofmati og vanmati. Og fyrst og fremst treysti ég því kannski bara ekki neitt að ég sé dómbær á það sjálfur hvort ég eigi erindi upp á svið (eða s.s. út í horn). En ég hef líka haft sterkan tendens til þess að eltast við það sem mér finnst óþægilegt, alveg frá því ég var krakki – ég réð mig t.d. upprunalega á sambýli upp úr tvítugu vegna þess að mér fannst óþægilegt að umgangast mikið fatlað fólk og ég vissi að ég vildi ekki fara í gegnum lífið þannig. Ekki að það sé sambærilegt annars – það þarf enginn að geta spilað tónlist til að vera ekki dikk. Og það verður eiginlega bara að hafa það ef þetta reynist ekki mönnum bjóðandi. Ég gekk í tónlistarskóla í sennilega 7-8 ár. Ég er ekki alveg viss. Ég byrjaði tíu ára og hætti einhvern tíma á menntaskólaárunum.  Og á tónlistarskólaárunum þurfti maður að fara upp á svið tvisvar á ári og spila. Oftast spilaði ég reyndar með einhverjum öðrum og síðan á menntaskólaárunum lék ég í nokkrum hljómsveitum sem áttu það sameiginlegt að æfa meira og minna aldrei og búa mest bara til hávaða. Og svo hætti ég bara við að verða tónlistarmaður (mig minnir að ég hafi bara horfst í augu við að ég hefði ekki næga hæfileika – styrkleikar mínir væru annars staðar – en í því er líka einhver sorg). Í nokkur ár eftir menntaskóla dró ég með mér kassagítar allt sem ég fór, bara til að glamra, og notaði hann meira að segja nokkrum sinnum til að eiga fyrir mat þegar ég bjó í Berlín – spilaði á neðanjarðarlestarstöðvum, aðallega frumsamið efni sem er meira og minna löngu gleymt (fyrir utan  þetta ). En þá var ég löngu byrjaður að skrifa af alvöru og gítarinn var meira bara einsog að eiga síma í dag – eitthvað til að hafa í höndunum þegar manni leiddist (þegar maður var ekki að safna fyrir kebab og kindl). Fyrir fjórum árum keypti ég mér svo aftur alvöru gítar (Héðinn, ódýri Yamaha-gítarinn minn sem ég hef alltaf átt, hefur mikið tilfinningalegt gildi en eiginlega ekkert annars). Það var Epiphone SG. Og fyrir tveimur árum fékk ég Gibson SG í afmælisgjöf frá Nödju og þá keypti ég mér líka alvöru magnara og síðan hefur gítörunum fjölgað nokkuð – ég smíðaði tvo rafmagnsgítara, seldi Epiphoninn fyrir Telecaster sem ég seldi síðan fyrir Stratocaster, keypti mér ódýran parlour gítar sem ég skildi eftir í Hondúras og keypti svo aðeins fínni (en alls ekki dýran) Alvarez Delta parlour gítar. Það er með honum sem ég syng mest og það var þegar ég kom til Hondúras sem ég ákvað að fara að gera eitthvað í því að ég gæti ekki (get ekki) sungið. Því maður á að geta lært allt, eða þannig. Í vetur eignaðist ég síðan líka Harley Benton resonator-gítar (það sem margir kalla dobro). Svo gerist það  í vetur að Eyþór Jóvinsson, eigandi gömlu bókabúðarinnar á Flateyri, kemur að máli við mig og spyr hvort ég sé ekki til í eitthvað „sprell“ í búðinni í sumar. Hann ætli að vera með talsverða dagskrá. Ég segi auðvitað jújú, nýbúinn að gefa út bók, og alltaf til í sprell. Þegar hann hefur svo samband við aftur mig í byrjun mánaðarins til að útfæra þetta nánar finnst mér alltof langt síðan bókin kom út og einhvern veginn egósentrískt eða skrítið að fara að kalla fólk út á upplestur – bara á mig í dagskrá sem þarf að taka hátt í klukkustund. Það nennir enginn að hlusta á einn höfund lesa í meira en fimmtán mínútur og undantekning ef slík uppákoma er ekki misheppnuð. Svo ég þarf að láta mér detta eitthvað skemmtilegra í hug. Og af því ég er að fara að flytja hafði ég engan tíma til þess að setja upp neina dagskrá heldur – gera eitthvað nýtt frá grunni – og það hefði ekki nýst mér annars staðar heldur af sömu sökum. Og þá bara datt ég niður á þessa uppástungu – ég kann nokkur lög, fæ Skúla frænda með mér, og þá erum við með dagskrá sem hvorki of stutt né grútleiðinleg. Sem bæði Skúli og Eyþór tóku vel í og þá er ég bara fastur. Það er talsverð huggun í að hafa Skúla með sér – við spiluðum fullt saman í gamla daga, erum góðir vinir og hann hefur bæði róandi nærveru og mikinn reynslubrunn að miðla úr. Svo er líka bara alltaf gott að hafa makker. Á móti kemur að samanburðurinn er mér aldrei í hag – en það er svo sem enginn að búast við því heldur. Mikill tími hefur farið í það hingað til að reyna að ákveða hvaða lög ég vil taka. Ég kann nokkur lög en man texta illa (þarf að laga það) og vegna þess að ég er vanur að spila bara heima í stofu er nánast inngróið í mig að byrja bara aftur ef ég geri mistök – sem er auðvitað alveg bannað á tónleikum, þá heldur maður bara áfram, finnur aftur leiðina inn í lagið. Í möppunni minni eru kannski 30 lög. Sum þeirra syng ég nokkuð verr en ég syng önnur og þau afskrifast þess vegna. T.d. Dead Shrimp Blues. Það er alltílagi að ég rauli þau heima áfram en þau eiga ekki erindi við aðra. Önnur hefur mér bara aldrei tekist að spila almennilega í gegn með söng og spili – t.d. Last Kind Words eftir Geeshie Wiley. Enn önnur hef ég bara nánast ekkert æft – þau bara enduðu í möppunni af því þau voru á dagskrá, einsog Lasse Liten Blues eftir Cornelis Vreeswijk. Og svo þykir mér misvænt um þau. Á endanum tókst mér að stytta listann yfir lögin sem mig langar að spila einn niður í (dúettana ákveðum við Skúli í sameiningu): Walking Blues – eftir Son House (en eiginlega Robert Johnson lag – útgáfan mín er hræringur)
Statesboro Blues – Blind Willie McTell
Soul of a Man – Blind Willie Johnson
Death Letter – Son House
Hard Time Killing Floor Blues – Skip James
How Long How Long Blues – Leroy Carr / Scrapper Blackwell
St. James Infirmary – óþekktur höfundur en mín útgáfa minnir mest á mikið einfaldaða útgáfu af útsetningu Josh White (ég strömma – hann er með geggjað spilerí en líka band á bakvið sig til að halda þessu saman). Þetta eru ekki fjögur lög samt og jafnvel þótt ég kæmist upp með fimm eru þau heldur ekki fimm. Heldur sjö. Sennilega dettur Death Letter út næst. Og svo Hard Time Killing Floor Blues. En ég veit það ekki, þetta rokkar til og frá. St. James Infirmary er auðveldast að spila – það þekkja það líka flestir. En þar með er það líka mesta „trúbadoralagið“ – sem er ekki galli við réttar aðstæður en á kannski ekki heima á „tónleikum“. Walking Blues kann ég best. Mér var hælt fyrir að syngja Soul of a Man. Mér finnst gaman að syngja Statesboro Blues og gaman að spila How Long How Long Blues. En bæði eru krefjandi. Hard Time Killing Floor Blues er eitthvert fallegasta lag sem ég veit og ég kemst alveg í gegnum það en það er bara ekki jafn fallegt og það getur orðið og því kannski alltaf vonbrigði. Mér finnst Death Letter geggjað og mér finnst ég alveg komast upp með að spila það en það er mjög sloppí gamaldags delta-blús pönk og ég veit ekki hvort fólk hefur smekk fyrir því – og það er hætt við að maður virki klaufalega þegar maður spilar það einmitt af því það er sloppí. Þar kemur hégóminn inn í. Þið eruð kannski tveir-þriðju vatn en ég er tveir-þriðju hégómi.

Blár í framan

Það eru til tvær ljósmyndir af Robert Johnson. Á annarri þeirra er hann með sígarettu í munnvikinu og myndin var tekin í sjálfvirkum myndaklefa. Hann er í hvítri, einfaldri skyrtu með axlabönd, lyftir upp gítarnum og horfir beint í myndavélina. Gítarinn er sennilega Gibson Kalamazoo KG-14 með capo-i á öðru bandi (margir hafa sagt að þetta capo sé þvottaklemma eða eitthvað álíka skítamix – en fyrir mér lítur þetta bara út einsog alvöru capo og ég skil ekki hvers vegna maður sem átti falleg og dýr hljóðfæri – atvinnutónlistarmaður – ætti að nota þvottaklemmu fyrir capo). Á hinni er hann í ljósmyndastúdíói, situr uppstilltur og brosandi í teinóttum jakkafötum með stetsonhatt á höfðinu og Gibson L-1 í fanginu. Þetta er sú mynd sem jafnan er notuð á plötuumslög og var sennilega tekin fyrir auglýsingabæklinga á sínum tíma. Þegar Robert var settur á frímerki í Bandaríkjunum fyrir 26 árum síðan var fyrri myndin valin. Hún passar betur á frímerki – hausinn á honum er stærri – og svo lítur hann meira út einsog týpan sem við ímyndum okkur að deltablúsmaður eigi að vera. Hann er full „dapper“ á seinni myndinni – ekki nógu fátæklegur. Á fyrri myndinni er hann fáklæddur og glansandi af svita einsog hann sé nýkominn inn úr sjóðheitri Mississippisólinni. En af því að það var komið árið 1994 og við farin að hafa áhyggjur af því hvernig myndmál gæti spillt æskunni, hvernig þræðirnir í menningu okkar gætu viðhaldið allra handa ósiðum, var ákveðið að fjarlægja sígarettuna af myndinni (sem er máluð eftir ljósmyndinni). Þá er hún reyndar líka minnkuð – gítarinn er færður nær höfðinu og það sem meira er, hann er látinn skipta um grip! Sígarettur drepa náttúrulega, einsog kórónavírusinn og umferðin, og dauðinn er óásættanlegur – sígarettan var orðin það sem kölski var Robert Johnson á sínum tíma, merki um óheilnæmi hans. En í stað þess að hafna honum – einsog samtíminn gerði við marga blúsarana (svart fólk hlustaði meira á gospel í kirkjum) – voru þessi óþægindi bara fjarlægð. Robert Johnson var kannski reykingamaður en það var óþarfi að vera að flíka því eitthvað. En hér má líka hafa í huga að Robert Johnson „samdi“ þessa ljósmynd sjálfur – hann valdi að hafa sígarettuna með og hún er tákn um eitthvað, hún er ekki út í loftið, og ef við lítum á ljósmyndina sem sjálfstætt listaverk (sem mér finnst sjálfsagt) er þetta kannski ekki bara smávægileg sögufölsun til að vernda áhrifagjörn börn frá nikotíndjöflinum heldur skemmdarverk. Ég rifja þetta auðvitað upp í tilefni af nýjustu fréttum um að Borgarleikhúsið hafi á svipaðan hátt fjarlægt sígarettuna úr munnviki Bubba – sem er okkar helsti blúsmaður, þótt hann sé líka margt fleira  – á auglýsingaplakati fyrir sýninguna 9 líf. Þetta er auðvitað fyrir löngu orðin standard praxís. Við lifum í samfélagi þar sem yfirborðið á að vera dauðhreinsað og sprittað. Sjálfur sakna ég alltaf skítsins – það er kannski eitthvað estetískt, kannski eitthvað pólitískt og sannarlega eitthvað sem einkenndi tilurð blússins. Ofsinn og ástríðan – líka þegar þau voru óþægileg og boðskapurinn á auðvitað oft alls ekkert erindi í dag (ég var að hlusta á KK-Blús í vikunni og þar tekur hann Honey, Hush eftir Big Joe Turner – sem fjallar um konu sem hlustar aldrei og röflar bara og röflar viðstöðulaust – en íslenski textinn, eftir Braga Valdimar, fjallar um mann sem biður konu sína að tala nú endilega við sig og segja sér hvað sé að). Bubbi er auðvitað löngu hættur að reykja og ekki lengur „fallinn“ heldur. Við lásum saman í Hörpu fyrir nokkrum árum og þá var ég að fara út að reykja (sem ég geri af og til þegar ég er stemmdur en ekki dags daglega) og þá las hann mér pistilinn fyrir ósiðinn. Sennilega hefði ungi Bubbi skellihlegið að þessum eldri Bubba – einsog Robert Johnson hefði líklegast drepist úr hlátri ef einhver hefði sagt honum frá þessu frímerki. Bæði því að hann myndi sjálfur enda á frímerki og því að sígarettureykingar á mynd þættu slíkt stórvandamál að það þyrfti að leiðrétta.

Paella á grillinu

Ég er að verða meiri og meiri uppskriftadólgur í ellinni og fer ekki nema að hálfu leyti eftir einni uppskrift og hálfu leyti að annarri og geri svo einhver ósköp frá eigin brjósti og allt verður þetta erfitt að muna þegar maður ætlar að endurtaka snilldina. Þá er ágætt að glósa hjá sér þegar vel tekst til. 500 ml arboriohrísgrjón

1500 ml grænmetissoð

1/2 bolli hvítvín

einhver grömm af saffrani

3/4 bolli grænar ertur

200 grömm rækjur

15-20 kræklingar

6-10 stk stór skelfiskur

1 msk reykt paprika

2 hnífsoddar af cayennepipar

2 laukar

2 sætar paprikur (svona langar)

1 knippi af steinselju

2 stórir kínahvítlaukar

1 msk af tómatpúrru

1 sítróna Ég geri paellu á grilli í 45 cm breiðri paellupönnu sem ég keypti af Steina í Muurikku í gær (þegar verið er að rýma iðnaðarsvæði vegna snjóflóðahættu á Ísafirði er það alltaf Steini sem þarf að fara heim). Þess vegna kveiki ég fyrst undir grillinu, sker svo allt og mæli og fer síðan út. Með bjór í hönd. Fyrst gerir maður sofrito. Sker niður lauk, papriku og 4/5 hluta af steinseljunni. Saxar hvítlaukinn. Sýður grænmetissoðið. Mælir allt annað og fer með út í garð. Saffranið er mulið ofan í hvítvínið þar sem það fær að liggja í bili. Paprika, laukur og 3/4 af steinseljunni steikt á heitri pönnu með nóg af ólífuolíu þar til orðið mjúkt og vellyktandi. Í restina setur maður hvítlaukinn og kannski helminginn af reyktu paprikunni (sem var blönduð við cayenne hjá mér, en ég sneiddi hjá því svona með puttunum bara). Þá fara hrísgrjónin út í og tómatpúrran og það fær svona aðeins að blandast og ristast og karamelíserast og guð veit hvað annað þetta er að gera þarna í pönnunni. Eftir smástund helli ég fyrst hvítvínssaffranblöndinu út í, svo soðinu og loks restinni af kryddinu og nú gildir að hreyfa ekki pönnuna heldur láta hana bara í friði. Botninn á að ristast – þar á að myndast svokallað socarrat. Eftir 20 mínútur sem eru kannski korter raðar maður fiskmetinu fallega á diskinn og setur lokið á grillið. Mitt fiskmeti var enn pínu frosið og ég er ekkert viss um að það hafi komið að sök – hugsanlega hjálpaði vökvinn eitthvað til. Svo bíður maður í 5-10 mínútur, eftir því hvað maður er þolinmóður. Næst tekur maður pönnuna af grillinu og fer með inn í húsið. Stráir restinni af steinseljunni yfir, raðar sítrónubátum með jöfnu millibili allan hringinn og ber fram. Þetta átti að vera með góðu brauði en ég gleymdi að setja það í ofninn. En við höfðum Tinto de verano (barna og fullorðinsútgáfu) og grilluðum svo sykurpúða á eftirhitanum og nutum síðustu sólargeislanna. Þetta var ofsa gott.