Heimferðardagbók – Dagur 1

Það er alltaf hausverkur að flytja en það er ansi margfaldur hausverkur að flytja á Covid-tímum. Ekki síst þegar maður hefur ekki fengið sprautuna góðu – sem ég hef ekki fengið vegna þess að sænska og íslenska kerfið kunna ekki að tala saman og maður lendir iðulega á milli þilja í kerfum. Nema hvað. Til stendur, ef guð og haugur af rándýrum PCR-prófum lofa, að við komum til Íslands með Norrænu þann 5. ágúst næstkomandi. Nadja er bólusett og börnin eru börn svo þau þurfa ekki að fara í sóttkví en ég er frávik og þarf að vera einhvers staðar í 2-3 nætur. Nadja og krakkarnir þurfa að taka bílinn suður svo ég kemst ekki mjög langt. Það er urmull af gistihúsum og hótelum sem gefa sig út fyrir að taka á móti fólki í sóttkví en viti menn – þau eru öll uppbókuð (nema eitt, sem bauð mér nóttina áður en ég kem fyrir litlar 30 þúsund krónur – næturnar í bátnum teljast líka til sóttkvíar en ég má sennilega samt ekki umgangast fólkið sem ég deili káetu með eftir að í land kemur). Ég má víst ekki stíma einn upp á öræfi með tjald af því það er ekki aðskilinn salernisaðstaða í tjaldinu og enginn til að spritta öræfin þegar ég fer. Það er einhvers konar neyðarhótel á Neskaupsstað (þangað sem ég verð líklega að taka 35 þúsund króna leigubíl) en ef það fyllist verð ég vísast að vera undir það búinn að taka leigubíl til Reykjavíkur. Ofan í allt saman má ég eiginlega heldur ekki vera að því að hafa áhyggjur af þessu – ég er upptekinn af því að hafa áhyggjur af því að dóttir mín sé með hita (blessunarlega ekki covid, það hefði sett okkur á hliðina á þessum tímamótum – en sólarhringurinn meðan við biðum eftir niðurstöðunum var dálítið óþægilegur); ég er upptekinn af því að sjá til þess að búslóðin okkar verði ekki tolluð (það gæti skeikað dögum á því hvort við höfum búið erlendis í ár – sem er víst skilyrði – en fer eftir við hvaða daga er miðað); upptekinn af því að bóka ferjur og hótel og PCR-próf á réttum tímum svo við komumst í gegnum Danmörku og upp í Norrænu, og pakka öllu auðvitað og merkja það og sjá til þess að það brotni ekki í flutningunum og svo þarf að losa sig við haug af dóti. Svo á ég að vera að gefa út bók í Svíþjóð – það var önnur að koma út í Frakklandi og þriðja, sem kemur út á Íslandi í haust, er að fara í prentun. Það kostar sinn skerf af athygli manns. Svo veit ég reyndar ekkert hvernig ég kemst áfram þegar sóttkví lýkur heldur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *