Ég er alltaf að setja mér einhverjar reglur um það hvað ég eigi að blogga um og hvernig. Sem er auðvitað mjög undarlegt því hér gæti ég lifað án nokkurra reglna – og það var sannarlega sjarminn við bloggið þegar það var ennþá sjarmi yfir því að blogga. Fyrir svona 15 árum síðan. En svo eru reglurnar líka til að minna mig á að sinna þessu rými í heilanum á mér – þessum stað þar sem ég skrifa nánast án þess að hugsa, eða hugsa og skrifa jafn óðum (frekar en að hugsa mikið fyrirfram, skrifa svo, endurskrifa, biðja einhvern að lesa það yfir og så videre). Ginsberg sagði að ljóðlistin snerist um þetta reyndar, að grípa sjálfan sig við að hugsa. Eitt af vandamálum mínum er hvað hugsanir mínar eru oft spíttmanískar núorðið. Ég veit aldrei hvort ég á að vera að hugsa um það sem er að gerast í fréttunum eða á twitter eða á facebook eða í bókinni minni eða bókinni sem ég er að lesa eða fjölskyldunni og alltaf þegar ég set mig í stellingar til að fara hugsa um eitthvað tiltekið er ég nánast samstundis byrjaður að hugsa um eitthvað annað. Ég settist t.d. niður – á fallegu kaffihúsi í York sem er furðulega tómt samt – með það fyrir augum að skrifa eitthvað um Handkenóbelinn. Meðal annars auðvitað að við ættum ekki að skrifa svona mikið um Handkenóbelinn af því þá gleymum við því að Tokarczuk fékk líka nóbelinn og það er ljótt gagnvart henni. Kenning mín um nóbelinn fyrirfram rættist annars að mestu. Ég hélt því fram að nefndin myndi gefa verðlaunin prógressífri konu og umdeildum karli. Grínið var þá Margaret Atwood og Horace Engdahl (besti vinur Jean-Kladd sem nóbelsskandallinn snerist um). Eða Judith Butler og Ko Un. Það bjuggust flestir við því að nefndin myndi útnefna einhvern sem væri „góða fólkinu“ mjög að skapi – einhvern úr kúguðum minnihlutahópi utan Evrópu. En nóbelsnefndin hefur alltaf meðal annars starfað að því að undirstrika eigin guðdómleika og sjálfstæði – það er fagurfræði sjálfra verðlaunanna og hún er ekki ómerkilegri en hver fær þau svo. Hún gæti allt eins farið að vilja og væntingum fólksins og hún gæti breytt þessu í símakosningu. Hugmyndin er sú að allir rithöfundar ættu að geta fengið nóbelinn – svona sirka – af því kríterían sé ekkert nema fagurfræðin ein (sama hvað svo segir í verðlaunatextum nefndarinnar sem rökstyður oft val sitt hingað og þangað – þetta er fastinn og kjarninn og án hans eru nóbelsverðlaunin bara hver annar booker). Þetta er svo auðvitað mególómanían í nefndinni – eitthvað sem margir minna sænsku vina kalla „borgerlighet“ og tengja jafnvel við maskínur kapítalismans en er miklu eldra og hangir saman við lénsskipulag og óskeikulleika kirkjuvaldsins. Sú hugsun eða pólitík eða fagurfræði (eða hvað maður vill kalla það) á undir högg að sækja í dag og þess vegna þarf val nóbelsnefndarinnar alltaf að undirbyggja og viðhalda óskeikulleika sínum. Nefndin má aldrei virðast beygja sig fyrir þrýstingi – þá er hún farin að nálgast um of Idolið. Og hún fer alltaf í báðar áttir til skiptis – lítt þekktur höfundur á litlu máli fær verðlaunin og svo fær Bob Dylan þau. Eitt árið Hemingway og svo Laxness; eitt árið Jelinek og annað Ishiguro. Framúrstefnuhöfundur og svo meginstraums. Afstaða mín til alls þessa er tvíbent. Annars vegar hef ég hálfgerðan viðbjóð á feudalísku mikilmennskubrjálæðinu sem viðheldur sjálfu sér í einhvers konar menningarlegu formalíni og hins vegar er þeim farið að fækka ískyggilega rýmunum í samtímanum þar sem bókmenntir eru teknar alvarlega – sérstaklega „sem slíkar“. Þær eru fyrst og fremst skemmtiefni og rithöfundurinn sem tekur sig alvarlega einhvers konar cosplay. (Eins þoli ég illa bókmenntir sem telja sig yfir það hafnar að skemmta – jafn illa og bókmenntir sem sinna ekki einhverju háleitara). Ég þoli ekki snobbið en geri mér samt betur og betur grein fyrir því að snobbið er það eina sem stoppar okkur frá því að breyta þessu öllu í einn risastóran bókmenntaskyndibita (við hættum sennilega aldrei leiknum samt – að kalla bækur „meistaraverk“ og „guðdómlega ljóðrænu“ og það allt saman en bækurnar þynnast, verða ómerkilegri og krítíkin verður bara klapp á bakið til að viðhalda tálsýninni um að það sé enn verið að skrifa bókmenntir). Handke hef ég lítið sem ekkert lesið. Hann er augljóslega „svolítið spes“ (til að segja ekki snældusnar) og með einhvers konar mótþróaröskun á háu stigi – sem er einmitt nátengd fagurfræði óskeikuleikans og hins háleita. Maður þegir ekki og íhugar eða gefur á sér höggstað með því að íhuga mótrök – heldur veður maður áfram gegn stormi vanahugsunar pöpulsins, einn og yfirgefinn ef þess gerist þörf. Þetta er alls ekki óalgengur eiginleiki í fari góðra rithöfunda – Celine kemur fyrstur upp í hugann af fasistum sem hafa skrifað stórfenglegar bækur – þeir leita gegn straumnum, velta upp óþægilegum spurningum, skoða afkimana og gangast við hinu ljóta jafnt sem hinu fagra – og nóbelsverðlaunin eiga umfram allt annað ekki að vera verðlaun fyrir skoðanir höfundar. Það eru friðarverðlaunin – og þau hafa sannarlega verið veitt verri mönnum en Handke (sem afsakar þjóðarmorð með stuðningi sínum við Milosevic – og spurningin er þá hvort að maður afsaki þjóðarmorð með því að afsaka einhvern sem afsakar þjóðarmorð og ef maður afsakar nefndina er maður þá að afsaka einhvern sem afsakar einhvern sem afsakar þjóðarmorð? – sektin færist til). En svo verður ekkert horft framhjá því heldur að þegar maður verðlaunar höfundarverk höfundar verðlaunar maður höfundinn og færir honum virðingu, peninga og fast sæti í kanónunni. Maður legitimíserar hann fyrir fullt og allt – eða það er allavega pælingin. Og við lifum á íslamófóbískum tímum þar sem hvítir þjóðernissinnar vaða uppi og verðlaunin spila inn í þann veruleika. Þetta er gott fyrir nasistana. Það verður samt ekki horft framhjá því að Handke var snjallt val – út frá fagurfræði nefndarinnar og baráttu fyrir sjálfstæði og tilvist nóbelsverðlaunanna. Í fyrsta lagi eru allir hættir að velta fyrir sér kynferðisofbeldi Jean-Kladds. Í öðru lagi völdu þau ekki – einsog ég hafði haldið – einhvern sem er umdeildur fyrir eitthvað sem er í kastljósinu, ekki kvenhatara eða loftslagshlýnunarafneitara. Sérstaklega hið fyrra – eða bara einhver diet dónakall – hefði fært fókusinn aftur á skandala nefndarinnar (sem hanga auðvitað saman við einhvern skeikulleika – hún klikkaði, lak, var mannleg en ekki guðleg, bara hver önnur stofnun). En jæja, já. Það er sennilega áhugaverðara að velta fyrir sér þessu Handkemáli – en ég hugsa að ég fari nú samt bara og lesi Tokarczuk, svona okkar á milli. *** Já, svo fór ég víst bara að ræða nóbelsverðlaunin einsog ég ætlaði. Og afvegaleiddist ekki mjög mikið. Í kvöld fer ég til London og á morgun les ég upp í Surbiton. Svo er það Trollhättan (þar sem ég les einmitt með einum nóbelsnefndarmeðlimi, sem er reyndar eins langt frá þeirri lýsingu sem hér birtist og hugsast getur, enda nýjust í nefndinni), París og heim. Ég er að fara í fína veislu hjá forlaginu mínu í París og var að fatta að ég er ekki með nein spariföt með mér. Þarf eiginlega að finna mér Oxfam hérna einhvers staðar og dressa mig upp. Nú þarf ég að hætta að röfla af því batteríið í tölvunni minni er svo lélegt og hleðslutækið er í töskunni uppi á hóteli.
Author: Eiríkur Örn Norðdahl
Heimferðin
Við erum komin heim. Það tókst ekki alveg áfallalaust. Við mættum út á flugvöll í San Pedro Sula síðastliðin föstudagsmorgun. Ég svaf ekkert um nóttina, vel að merkja – í einhverju týpísku stresskasti. Í röðinni nefndi Nadja að við værum ekki með neitt ESTA – svona áritun til að komast inn í Bandaríkin – og ég sagði að það gæti nú varla skipt neinu máli, við værum bara að fara að millilenda. Ætluðum ekkert út af flugvellinum. Þegar við flugum til San Francisco fyrir rétt rúmum tveimur árum vorum við viðstöðulaust minnt á að ganga frá ESTA umsókninni en Nadja – sem bókaði flugfarið – hafði ekkert slíkt fengið. Hins vegar stóð þetta alveg heima. Það er ekki hægt að millilenda á bandarískum alþjóðaflugvelli nema vera með samþykkta ESTA umsókn. Það tekur ekki nema um hálftíma að fá hana samþykkta og í raun höfðum við nægan tíma, mættum mjög tímanlega á völlinn. Hins vegar var netið á flugvellinum epískt drasl og okkur tókst ekki að tengjast á neinu tæki nema símanum hennar Nödju – með brotnum skjá – og ég hamaðist í rúma klukkustund við að fylla þetta út, meðan netið datt inn og út, án árangurs. Klukkustund fyrir brottför lokaði tékk-innið og okkur var bent á að bíða þar til vélin væri farin svo kanna mætti framhaldið. Við settumst á kaffihús á flugvellinum – Dunkin’ Donuts – og ég kláraði umsóknirnar okkar á tölvu (sem tengdist þeim megin í húsinu). Eftir nokkra klukkutíma kom fólkið aftur og sagði okkur að við gætum farið með sömu vél til Atlanta daginn eftir (ég var að rugla með Miami hérna um daginn, við áttum aldrei bókað í gegnum Miami) og þaðan áfram til Amsterdam. Hins vegar væri leggurinn Amsterdam-Stokkhólmur fullbókaður og við bara á biðlista. Flugið okkar frá Stokkhólmi um kvöldið var á annarri bókun en við ættum að geta náð því ef við kæmumst af biðlistanum. Við fórum aftur heim í fílabeinsturninn. Ég var mjög bugaður og lá bara í sófanum fram á kvöld. Nadja og krakkarnir fóru í laugina. Svaf eitthvað, loksins, og svo eitthvað meira um nóttina en engin ósköp. Við mættum rúmum þremur tímum fyrir brottför en stóðum svo í röðinni – eða þar við hliðina – í tvo tíma að reyna að kanna möguleika á að breyta flugum eða fixa eitthvað svo við kæmumst áfram frá Amsterdam. Þegar við náðum loks sambandi við einhvern sem gat aðstoðað okkur vorum við spurð hvers vegna við hefðum ekki hringt í hana strax – eða hvers vegna starfsfólkið hefði ekki gefið okkur samband strax – og að nú væri það of seint. Við tékkuðum inn og héldum áleiðis til Atlanta og Amsterdam.
Inni í fríhöfninni vorum við svo kölluð upp – ég var á klósettinu með Aino og fékk hálfgert taugaáfall, hljóp æpandi á Nödju yfir hálfa fríhöfnina (hélt að við værum við vitlaust hlið og að missa af fluginu eða eitthvað). Greip svo í einhvern starfsmann sem leiddi mig áleiðis og lét mig vita að við hefðum verið færð upp á fyrsta klassa frá SPS til Atlanta. Það var mjög fínt. Ég svaf svo ekkert í næturfluginu til Amsterdam. Ekki eina mínútu. Það var minna fínt. Í Amsterdam settumst við á kaffihús til að reyna að redda áframhaldinu. Nadja fór að einhverjum desk og Aram vildi fara að skipta um buxur og ég sendi hann einan á klósettið, sem mér sýndist bara vera handan við hornið, og var einhvern veginn of steiktur til að fatta þegar Aino fór á eftir honum líka. Þegar hún var horfin fyrir hornið kíkti ég þarna og sá að þetta var ekki einfaldur gangur heldur gekk hann yfir í annan sal og klósettin voru þar við dyrnar út. Ég var með allan farangurinn og kexruglaður af þreytu – stóð bara þarna um hugsaði um Ekkert mál eftir Njörð og Frey Njarðvík, þar sem heróínsjúklingurinn Freyr stundar það að ræna túrista á Schiphol. Þegar Aram sneri einn til baka – og vissi ekkert um sex ára systur sína – hljóp ég af stað og ruddist inn á kvennaklósettið æpandi. Við heldur lítinn fögnuð viðstaddra. Fyrst svaraði Aino ekkert og ég hélt það myndi líða yfir mig – svo heyrðist í henni og mér var gríðarlega létt, sem og konunum sem stóðu í biðröð fyrir utan klósettið og ég hafði spurt eftir dóttur minni. Eftir um tveggja klukkustunda netráp á kaffihúsinu og símtöl og samtöl við fólk á deski reyndust valkostirnir fyrst og fremst þrír. 1) Borga 300 þúsund og fara heim í gegnum Kaupmannahöfn og ná hótelinu sem við áttum bókað (á gjafakorti sem við fengum í afmælisgjöf frá mömmu og pabba). 2) Fara á hótel í Amsterdam og ókeypis áfram til Stokkhólms daginn eftir – en þurfa þá að kaupa nýtt flugfar heim. Það hefði kostað um 200 þúsund. 3) Vera í Stokkhólmi í viku og komast heim fyrir 150 þúsund. Lúin og létt buguð völdum við fyrsta valkostinn. Og vorum minna buguð fyrir vikið. Komin með lausn og á leiðinni heim með kvöldinu. Miðinn til Íslands var fyrsta klassa – þótt stutta flugið til Kaupmannahafnar væri reyndar í klassalausri dollu. En við fengum inni á lounge-i, með mat og drykk, og svo í lúxusvél frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur. Ólafur Elíasson sat fyrir framan mig. Dóra Júlía instagram-DJ fyrir aftan mig. Mér hefur sjaldan fundist ég jafn mikið vera að meika það – eins falskt og það meik nú var. Fjölskyldan svaf en ég fékk mér „norrænu þrennuna“ – graflax, rækjur og síld – og skolaði því niður með bjór sem hét að ég held Snæbjört. Eða tveimur. Ég get staðfest að fyrsti klassi hjá Icelandair er umtalsvert fyrstari en fyrsti klassi hjá Delta Airlines – þar sem maður fær að vísu frían mat og drykk, en bara sama og er í boði annars staðar (ofsoðið ostapasta) og bjórinn er Miller Lite. Töskurnar urðu auðvitað eftir. Tengingin í Kaupmannahöfn var tæp. Það var í sjálfu sér lán í óláni. Bíllinn okkar er mjög lítill og við vorum með alltof mikið af töskum. En fengum að keyra heim í tómum bíl með nóg pláss. Í Keflavík sváfum við á beisnum. Og ég svaf loksins aðeins. Vöknuðum á mánudagsmorgni, fengum okkur morgunverð og tókum rútuna til Reykjavíkur. Völdum að fara ekki með Reykjavík Excursions að þessu sinni heldur einhverju öðru fyrirtæki sem átti að keyra á „bus terminal“ – sá terminall var svo bara þeirra eigins kaffihús rúman kílómetra frá BSÍ. Þangað þurftum við að taka leigubíl. Bíllinn okkar beið þar á planinu – við fórum beint og tókum bensín (við hliðina á anarkistanum Jóni Gnarr – sem var að fylla á bensínbrúsa og hlusta á hljóðbók um fall vestrænnar siðmenningar). Nadja og krakkarnir fóru í Kringluna að redda nærfötum og hlýrri fatnaði – enda við öll enn klædd fyrir Hondúras, Aino og Nadja beinlínis enn á ilskóm – en ég fór í viðtal í Tengivagninum. Við gerðum okkur líka ferð í Nexus þar sem Aram fékk að eyða peningum sem hann hafði safnað sér og taka í höndina á ídoli sínu, Jóni Geir, ísfirðingi og trommara í Skálmöld. Við átum hádegismat á Tokyo í Glæsibæ og brunuðum svo í Sælingsdal fyrir kvöldið. Þegar við komum heim seinnipart þriðjudags – biðu töskurnar eftir okkur á ganginum. Pabbi hafði farið út á völl og sótt þær fyrir okkur. Nú treo-tillífa ég milli þess sem ég bryð íbúfen og sting úr kaffibollum. Ég hef sofið ágætlega síðustu tvær nætur en verð ábyggilega nokkra daga í viðbót að jafna mig. Er ekkert nema hor og höfuðverkur. Svo þarf ég að finna út úr því hvernig ég borga fyrir þetta fyrsta klassa flug þarna um daginn. Fyrir norrænu þrennuna.
Grísarassar og Pílagrímsferðir
Við komum heim frá Útila á miðvikudag og ég kláraði skáldsöguna á föstudag. Brúna yfir Tangagötuna. Sennilega á ég eftir að gera á henni milljón smábreytingar en engar stórar – þetta er komið. Síðan hefur mér liðið eiginlega einsog ég hafi verið holaður að innan. Ég fór beint í að skrifa þessa upp úr Hans Blævi og hef einhvern veginn ekkert litið upp í svolítið langan tíma. Er hugsanlega í einhvers konar tilvistarkrísu. En það er annað ferðalag. Við komumst heil heim frá Útila og vandræðalaust. Mjög fyndið að fara í innanlandsflug á túristaeyju þar sem er ekki einu sinni flugstöðvarbygging. Þegar við fórum til Útila frá flugvellinum í San Pedro Sula lentum við í tómum vandræðum með fótboltann hans Arams – sem átti að taka af okkur ef við tækjum ekki loftið úr honum (sem við höfðum engin ráð með eiginlega). Ég endaði á að smygla honum í gegn. En frá Útila til San Pedro Sula hefðum við sennilega getað haldið á eldvörpu í fanginu án þess að nokkur hefði sagt píp. Annars hefur allt sosum verið meinhægt. Jocke, bróðir Nödju og Yespers, kom á föstudag og ætlar að dveljast hérna í tvo mánuði. Við förum næsta föstudag og þá fær hann herbergið okkar en þangað til sefur hann á dýnu frammi í sjónvarpsholi. Síðasta sunnudag fórum við í epíska pílagrímsferð – 20 mínútna gönguferð utandyra. Lengra höfum við ekki farið. Við gengum öll saman og vorum mjög yfirveguð og ekkert stressuð og lentum ekki í neinu. Sennilega munar þar mestu um að vera ekki einn – já og auðvitað að maður sé á ferð í björtu. Ferðinni var heitið í Diunsa og La Colonia til að kaupa mat og hluti og hafðist bæði að mestu. Á leiðinni heim stoppuðum við á Welchez til að borða hádegismat. Aram er orðinn svo deigur af að búa hérna að hann fékk algert frekjukast yfir tilhugsuninni um að þurfa að ganga heim – einn einasta kílómetra. Það endaði með því að honum var boðið að taka leigubíl einn en hann afþakkaði það. Þótt Aram sé orðinn latur til líkamlegrar iðju er hann mjög duglegur við þá andlegu og vill helst ekki láta trufla sig við lestur. Ryður í sig bókum – búinn með Dodda-bækur Þórdísar Gísla og Hildar Knúts, Vetrarseríu Hildar að auki og Hungurleikana alla. Samt er bara þriðja hver bók sem hann les á íslensku, vel að merkja, og bókaflokkarnir sem hann hefur verið að lesa á sænsku allt mun lengri bækur – Olympens Hjältar, Percy Jackson og Apollon aðallega (5-6 bækur í hverri, 4-500 síður hver). Í gær fórum við Nadja svo út að borða. Á Ísafirði reynum við að borða bara tvö saman einu sinni í viku en þetta var bara í annað sinn sem við náum því hérna. Við fórum á dýrasta veitingastaðinn í bænum. Sem var ekki mjög dýr reyndar – sérstaklega ekki miðað við að pizza og svoleiðis er ekkert ódýrara hér en í Svíþjóð. Hann er kenndur við miðjarðarhafið og heitir La Cité. Við fengum bæði forrétt (hægeldaðan grísarass og gvakamólí) og aðalrétt saman (sjávarréttarpaellu) og hvort sinn eftirréttinn (tiramisu og cremé brulée). Nadja drekkur að vísu lítið áfengi og ekkert í gær – svo drykkirnir hennar voru ábyggilega ekki dýrir. Einhver myntuhræringur og svo te á barnum. Ég fékk mér Gin Martini í fordrykk, sangríu með matnum, koníak eftir matinn og G&T á barnum. Samanlagt voru þetta tíu þúsund krónur. Svo er fólk alltaf að býsnast yfir því hvað matur sé ódýr í Evrópusambandinu! Við vorum mjög lengi að komast á veitingastaðinn. Umferðin var öll í hönk vegna mótmæla. Háskólastúdentar höfðu komið sér fyrir undir brú á helstu umferðaræðinni í bænum og lokað öllu. Við ræddum þetta svolítið við bílstjórann – eða Nadja gerði það, en ég hlustaði og skildi eitt og annað – og hann virtist ekki láta þetta á sig fá. Talaði um að það væri mikil spilling í landinu og það ætti að fara að einkavæða vegi. Það var ekki á honum að skilja annað en þetta væru allt mjög nauðsynlegar aðgerðir. Eiginlega er það yfirleitt svo þegar við tölum við fólk hérna. JOH virðist ekki mjög vinsæll – en þótt það sé einhvers konar ógnarstjórn þá er fólk ekki hrætt við að tjá sig (einsog maður upplifir t.d. bæði á Kúbu og í Víetnam, þar sem fólk vill alls ekki tala um pólitík nema það þekki mann vel eða sé drukkið). Á götu nálægt veitingastaðnum voru fleiri tugir ef ekki hundruð manns úti að skokka eftir einni götu. Bílstjórinn sagði okkur að þarna kæmi fólk saman til að hlaupa og þar væru alltaf einhverjir frá morgni til kvölds (en kannski ekki margir yfir heitasta tímann). Það er öryggi í að vera mörg saman. Annars hef ég séð fólk úti að skokka líka þarna við Diunsa, einu sinni, sem virkaði nú aðallega hættulegt út af umferðinni. Það hefur verið talsverður órói síðustu daga vegna frétta um að JOH, forsetinn, hafi tekið við peningum frá eiturlyfjasmyglurum. Þetta kemur nú sjálfsagt engum á óvart – bróðir hans er í fangelsi í Bandaríkjunum fyrir að smygla fleiri tonnum af kókaíni – en alltaf óþægilegt að fá frekari staðfestingar. Ég vona bara að það fari ekki að verða eitthvað vesen á umferðinni á föstudag þegar við þurfum að komast út á flugvöll. Það er ein af leiðunum sem er reglulega bara lokað. Nú er eiginlega bara eftir að pakka. Og kaupa það sem við viljum taka með okkur heim. Við leggjum af stað á föstudag – fljúgum til Stokkhólms í gegnum Miami og Amsterdam. Tökum rútu til Västerås og gistum eina nótt þar. Fljúgum svo til Keflavíkur – Aram og Nadja í síðdegisflugi en við Aino í kvöldflugi. Gistum í Keflavík eina nótt. Ég þarf að fara í viðtal í Reykjavík á mánudagsmorguninn. Og ná í bækur (frönsku Gæsku) upp á forlag. Svo keyrum við í Sælingsdal og gistum þar eina nótt. Og loks heim á þriðjudag. Guð hvað það verður gott.
Heiðríkjuströnd og Jaðisæhestur
Þegar við komum út á flugbrautina voru þrjár vélar ferðbúnar og innan göngufæris og við vissum ekkert í hverja við áttum að fara. Þar sem við stóðum ráðvillt og störðum út í loftið veifaði einhver starfsmaður til okkar og benti á eina – eða var hann að benda á hina? Þetta reddaðist allavega. Við flugum til Útila með lítilli rellu. Fimmtán sæti og drynjandi mótor, bensínlykt og ókyrrð í lofti. Á flugvellinum í Útila stigum við beint út á flugbraut. Þar stóð amerísk kona sem var að bíða eftir töskunni sinni. Hún var annað hvort hælismatur eða, sem ég tel sennilegra, á einhverjum æðislegum efnum. Henni fannst allt mjög frábært og ekki síst að fá töskuna sína (sem hún var að bíða eftir). Það var engin flugstöðvarbygging en handan við dálitla girðingu beið okkar Tuk-Tuk. Hann flutti okkur í gegnum þorpið í búð og þaðan niður á höfn þar sem leigusalinn okkar, Derek, beið okkar á bát. Með honum komum við hingað – á Serenity Beach – og hér höfum við verið í viku. Kreditkortið mitt er byrjað að leysast upp í veskinu mínu af álaginu. Það held ég við Krummi þjónustufulltrúi verðum að eiga alvarlegt samtal þegar ég kem heim. Við erum búin að gera alls konar. Hér á Serenity Beach er engin þjónusta ef frá er talin veitingastaðurinn Neptune’s sem rekur líka strætóbátaþjónustu til að fá til sín kúnna. Þjónustustigið þar er svipað og víða í Hondúras – fólk getur bókstaflega orðið mjög pirrað ef maður biður það um eitthvað. Einsog til dæmis glas fyrir vatnið sem maður keypti eða bara vatnið. Svilkona mín fékk matareitrun á staðnum annan daginn – nágrannar okkar mæltu með því að við borðuðum ekkert ferskt af því það væri skolað úr venjulegu kranavatni. Svilkonan vildi reyndar meina að sennilega hefði henni orðið meint af olíunni sem hún þóttist vita að hefði verið margnotuð (en þá er það varla matareitrun, er það? deyr ekki allt í svona olíu? líklega getur manni samt orðið mjög bumbult og ekki er hún holl). Það flækir svolítið málin því það er ekkert í boði sem er ekki djúpsteikt eða ferskt. Bátastrætóinn er svo tómt rugl. Fyrst þegar við ætluðum að taka hann var hann fullur og það kom ekki annar fyrren eftir klukkutíma. Við biðum á bryggjunni allan þann tíma (með þrjú óþolinmóð börn) og settumst svo í næsta ásamt fleirum. Stýrimaður byrjaði á því að bregða sér frá – til að fá sér bjór á Neptune’s – og kom svo aftur en gat þá ekki startað bátnum. Eftir um 20 mínútna bið ákváðum við að sleppa þessu bara og reyna aftur daginn eftir. Þá var hann korteri of seinn, byrjaði á því að stökkva upp á bryggju þar sem hans beið kokteill á gluggasillu, og fór svo að skrúfa í sundur stýrið – sem var eitthvað bilað. Eftir um hálftíma bið – og engin svör nema einhver svona fúllynd já og nei, hann bókstaflega virti okkur varla viðlits – gáfumst við upp og höfðum samband við leigusalann og fengum hann til að skutla okkur. Við mættum svo auðvitað strætóbátnum þegar við komum út á fljót. Þegar við komum í bæinn skráði Nadja sig á köfunarnámskeið og við höfum nú bara ekkert mikið séð hana síðan. Það hefur að sögn samt verið bæði gaman og erfitt – hún varð mjög veik einn daginn en harkaði sig í gegnum það. Við hin höfum aðallega verið að snorkla og lesa og borða. Við tókum bát út í litla eyju – svona eyðieyju einsog þær birtast manni í teiknimyndum, lágan sandhól með engu nema einum skítakamri. Ég, Aram og Yesper náðum þar mjög góðri snorklferð og sáum alls konar kóralla, gróður, fiska og fisktorfur. Við höfum líka farið í bæinn og keypt snorklgræjur fyrir krakkana – ég tímdi ekki að kaupa fyrir mig, sé ekki fyrir mér að ég muni nota þetta svo oft og hér er bæði hægt að leigja græjur fyrir lítið og svo á ég ágætis sundgleraugu sem duga fyrir það sem ég vil gera. Við fórum líka á safn sem heitir Jade Seahorse. Það er einsog Selárdalur Samúels hefði getið Crazy House í Da Lat barn. Garður skreyttur með alls konar rusli og drasli – perlum, rafeindaborðum úr tækjum (veit ekki hvað þau heita), glerflöskum, skeljum, steinum og fleiru. Hér er líka mikið dýralíf. Vel að merkja. Ég gleymdi að nefna það um daginn þegar við sáum hrægamma á veginum til Copán – það eru rosalegar skepnur. Hér á Serenity Beach er mikið af kólíbrífuglum og eðlum – alveg hátt upp í meterslangar. Í ljósaskiptunum fyllist loftið síðan af litlum leðurblökum sem vafra um einsog þær séu fullar. Fólkið sem býr hérna á svo gjarna hunda og annað hvort eru líka villihundar eða sumir þeirra fá að ráfa um lausir. Ég held þeir séu villihundar – þeir eru rólegir og láta mann vera annað en húsbóndahundarnir sem eru alltaf hálfgeðbilaðir. Þessu fann maður mjög sterkt fyrir í Víetnam. Hundar sem voru í eigu fólks geltu á allt sem hreyfðist en villihundarnir bara skokkuðu framhjá manni. Þá er slatti af öðrum fuglum hérna sem ég ber ekki kennsl á. Það eru engar moskítóflugur en einhver önnur kvikindi – kannski lúsmý – pínulitlar pöddur sem bíta mann. Mikið til í svefni. Túristarnir hérna eru aðallega kafarar og djammarar og sennilega mikið til bæði. Slatti af instagramdrottningum – fólk eyðir fáránlega miklum tíma hérna í að ná af sér góðri strandmynd. Á eyðieyjunni var ein svona next level – með strák með sér sem var með fimmtíu kílóa myndavél og þau eyddu ábyggilega klukkutíma í að ná einni mynd. Eða hvað veit ég, kannski voru þau að taka bikini-auglýsingu. Í nótt var ægilegt þrumuveður og rigning. Það var fremur rómantískt – blikkljós og hávaði. Nadja klárar köfunarnámskeiðið á eftir og verður með okkur seinnipart dags. En svo vöknum við fyrir allar aldir til að fljúga aftur til San Pedro Sula í fyrramálið. Þá fer ég aftur að vinna. Ég er að vísu voða uppburðarlítill yfir skáldskap mínum þessa dagana en vonandi næ ég að hrista það af mér.
Framhjáhöld og mannfórnir
Við keyrðum til Copán og á leiðinni sáum við skilti utan við mótel sem á stóð: No adulterio. Bannað að halda framhjá. Á leiðinni heim frá Copán sáum við annað skilti, í þetta sinn við veitingastað, þar sem stóð: No robaras. Bannað að stela. Annars er mest af Pepsi-skiltum í landinu. Aram og Aino töldu pepsi-skiltin frá Tela til San Pedro Sula á dögunum – tveggja og hálfs tíma akstur – og þau reyndust rétt tæplega 500. Á leiðinni til Copán rufu þau svo þúsund skilta múrinn. Við leigðum sem sagt bíl og eyddum helginni í Copán – fyrir undarlega tilviljun var bíllinn sem við leigðum af sömu tegund og sá sem við eigum, nema aðeins stærri. Suzuki Swift með smá aukaskotti. Það tók lengri tíma að keyra en við héldum – þrjá og hálfan tíma á köflum í fullkomlega sturlaðri umferð. Þeir víla í alvöru ekkert fyrir sér að taka fram úr fimm bíla röð á átján hjóla trukkum í miðri blindbeygju. Þriðji hver bíll er svo pallbíll með tíu farþega á pallinum, oft standandi upp í vindinn. Ég hef séð mikið af einfættu fólki hérna og mig grunar ástæðuna. Ég reyni að halda góðri vegalengd milli mín og næstu bíla og gefa eins lítið fram úr og maður kemst upp með (það er líka talsvert af mjög hægfara vörubílum í umferðinni – ef maður festist fyrir aftan þá, sem kemur fyrir, kemst maður varla spönn frá rassi). Þegar við vorum rúmlega hálfnuð heimtaði ég að við myndum stoppa, svo ég gæti pissað, og við notað tækifærið og borðað. Þetta var ekki á planinu, Nödju leist ekkert á að stoppa neins staðar, en það reyndist svo gæfuspor. Einsog öll mín frekjuköst, auðvitað. Staðurinn sem við stoppuðum á var lítill veitingastaður sem var með mjög heimilislegan mat í mötuneytisborði. Við fengum kjúkling og fisk og kaffi og kartöflur og hrísgrjón og fullt af heimabökuðum tortillum og kunnum vel við okkur og maturinn kostaði sama og ekki neitt. Það var afar ánægjulegt að koma til Copán. Bærinn – sem heitir fullu nafni Copán Ruinas, í höfuðið á Maya-rústunum við hliðina – er mjög sætur, mikið af fallegum húsum og fallegum torgum og einhvern veginn alveg stórfenglegt að geta rölt um innanum fólk einsog maður sé á eðlilegum stað í heiminum. Rambað á kaffihús, ísbúðir og fataverslanir án þess að vera í bylmingi verslunarmiðstöðva. Þarna er talsvert af túristum. Ég held það búi engir heimamenn alveg í kjarnanum – þetta eru bara hótel og veitingastaðir og búðir og svo fátæklegir hjallar í „úthverfunum“ fyrir heimamennina (Copán er of lítill til að hafa eiginleg úthverfi). Bærinn er mjög nálægt landamærunum að Guatemala og mikið af túristunum kom augljóslega þaðan – mikið af Guatemalanúmerum á bílunum. En auk þeirra rákumst við á óhemju af Hollendingum. Á því kunnum við enga skýringu. Landamærin að Hollandi eru langt í burtu. Bærinn er í brekku og göturnar mjög brattar, lagðar grófum götusteini svo maður hoppar og skoppar þegar maður keyrir þær (mjög, mjög hægt). Þrátt fyrir að göturnar séu einbreiðar – en ekki einstefnur – er talsverð umferð og mér fannst vera bensínlykt alls staðar. Það truflaði samt mjög lítið. Eftir dálítinn göngutúr eftir þessum þröngu götum fórum við á franskt kaffihús. Nadja og krakkarnir fengu sér sjeik en ég fékk mér bjór. Svo röltum við svolítið í búðir, spáðum í vindlum og skartgripum, fórum heim á hótel í sturtu og svo aftur á franska kaffihúsið í kvöldmat (það var mælt með því og svo var stærstur hluti annarra veitingastaða steikhús og talsvert takmarkaðra úrval matar fyrir Nödju og Aram; svo var það líka bara mjög fínt). Eftir kvöldmat fórum við í ísbúð þar sem ísinn var gerður beint fyrir framan mann. Þetta var gert á frostpönnu sem minnti á crepespönnur nema í stað þess að vera sjóðandi heit var hún frostköld. Til að gera bananaís setti maðurinn fyrst dálítinn bananabita á pönnuna sem hann saxaði niður með tveimur sköfum þar til hann var orðinn að mauki. Svo hellti hann fljótandi rjómablandi yfir, hrærði öllu saman og sléttaði svo yfir í þunnt lag. Þetta skóf hann upp í fjórar rúllur sem hann raðaði í box og skreytti með t.d. hnetum og súkkulaðisósu. Okkur fannst frekar spes á hótelinu að Aino þurfti að borga fyrir morgunmat. Ekki sjálf, við splæstum á hana, en af því að börn undir 8 ára aldri reiknast ekki sem eiginlegir gestir þá fá þau ekki morgunmat. Einsog þau þurfi ekki að borða. Af því þau eru svo lítil. Vel að merkja var herbergið fimm manna og hefði ekki kostað meira þótt við hefðum verið fimm. Og ef öll fimm hefðu verið yfir átta ára hefðum við fengið fimm miða í morgunmatinn. Eftir morgunmat fórum við að kaupa bol fyrir Aram (Neymar; Paris St. Germain) og sparikjól fyrir Aino (hvítan með blúndum – fyrir afmæli Rions daginn eftir). Og leita að hraðbanka. Þegar það var frá keyrðum við í rústirnar í tveggja kílómetra fjarlægð. Ég veit ekki hvað maður segir um svona rústir. Þetta er allt kunnuglegt þannig lagað. Píramídar, altari, grafhýsi, bústaðir. Svæðið er fáránlega stórt. Ekki kannski heil borg en lítill bær. Tvö hverfi. Þetta var það sem ég var spenntastur fyrir að sjá í landinu, það eina sem ég hafði pantað að gera, og það var talsverð upplifun að rölta bara þarna um. Skrítnast er samt að ég hafi ekkert lesið mér til áður en ég fór. Og á það enn eftir. Ég veit ekkert um Mayakúltúrinn – eða ekkert áreiðanlegt, ekkert sem er ekki úr skáldsögum og bíómyndum og er sennilega álíka áreiðanlegt og það sem þar er skrifað um víkinga. Það voru líka nánast engar upplýsingar á skiltum – möguleiki á að fá gæd en bara á spænsku. Við ræddum mikið um mögulegar blóðfórnir og slíkt. Aram lét ímyndunaraflið leika lausum hala um alls konar aftökuaðferðir sem gengu meðal annars út á að henda fólki fram af píramídunum eða klessa það milli tveggja risastórra steina. Honum fannst ekkert gaman þegar ég var að reyna að stramma hann af í þessu og segja að kannski hefðu ekki verið neinar mannfórnir (þótt ég héldi það) og þær hefðu áreiðanlega verið yfirvegaðri og hátíðlegri athafnir en þær sem hann hafði í huga. Einhvern veginn er svæðið samt þannig að maður nær engum almennilegum myndum – ekki sem sýna stærðina og umfangið. Það mátti klifra út um allt – eða svo gott sem – og svo er frumskógarnáttúran þarna í kring líka fremur stórfengleg. Nadja lenti í þvögu mjög ágengra sölumanna á leiðinni aftur á bílastæðið. Við keyptum ýmislegt smálegt. Á leiðinni til baka til San Pedro Sula stoppuðum við á tveimur stöðum. Fyrst á veitingastað sem heitir El Chapparal. Það var gaman meðal annars vegna þess að í Svíþjóð er frægur kúrekaskemmtigarður sem heitir High Chapparal. Þangað fór Nadja þegar hún var lítil og þar var Liam frændi Arams bara nú á dögunum. Veitingastaðurinn okkar var líka kúrekalegur og maturinn bara nokkuð góður. Seinna stoppið var á kaffihúsinu Welchez. Þetta er keðja í landinu – ég veit um að minnsta kosti tvo staði í San Pedro Sula og þetta ku besta kaffið sem maður fær. Ég hafði séð skiltið þegar við komum og bað Nödju að slá því upp í símanum en svo vorum við ekki með neitt net og loksins þegar netið datt inn sagði síminn bara að þetta væri 400 metra í burtu – sem okkur fannst eitthvað ótrúlegt. Það reyndist svo bara standa heima. Þetta var heldur ekki bara venjulegt kaffihús heldur búgarður þar sem boðið var upp á túra um kaffiekrur og verksmiðjuna. Við létum okkur duga að kaupa gott kaffi og kökur í bílinn. Jú svo stoppuðum við líka á Texaco-stöð þar sem ég keypti mér meira kaffi. Ég svaf mjög lítið nóttina í Copán og var orðinn alveg stjarfur. Umferðin hérna krefst líka talsverðrar einbeitingar og orku. *** Í gær var svo afmæli Rions og eftir veisluna um kvöldið fórum við Aram að spila svolítinn fótbolta. Hann langar að fara að æfa markvörslu – við sjáum hvort það endist. En það var allavega gaman hjá okkur (alveg þangað til ég dúndraði einum bolta beint framan á fingurna á markverðinum – sem er búinn að ná sér í dag en bar sig ansi illa í gærkvöldi). Í dag var rafmagnslaust í allan dag. Allt húsið. Við fórum í næsta hús þar sem er eitthvað viðskiptasenter og nýbúið að opna kaffihús. Borðuðum morgunmat þar. Svo sat ég hálflasinn í svínheitri ókældri íbúðinni og reyndi að lesa og vinna á meðan restin af heimilismönnunum fór niður í bæ. Það er merkilegt hvað netleysið getur gert manni gott reyndar. *** Í kvöld á Twitter var ég að fiska eftir fréttum frá Hondúras þegar ég sá myndband af manni sem var skotinn í fylleríisrifrildi í umferðinni. Fólk er að dreifa þessu vegna þess að lögreglan lætur víst einsog þetta hafi ekki gerst. Hópur manna stendur í hring milli tveggja bíla. Tvær karlar byrja að ýtast, lenda í jörðinni, eru dregnir sundur. Annar fer í hanskahólfið og nær í byssu, kemur til baka og skýtur hinn. Fer svo upp í sinn bíl, sest farþegamegin og er keyrt í burtu. Hinir standa einsog álkur meðan á þessu stendur – skiljanlega sosum. Draga svo líkið frá bílnum svo þeir geti keyrt út og látið sig hverfa. Yfirvöld neita að segja neitt um hvað gerðist. Ég hef áreiðanlega nokkrum sinnum séð fólk drepið á myndbandi. Ég horfi aldrei ef ég fæ ráðið við það – hef aldrei séð neitt af afhausunarmyndböndum ISIS sem voru í dreifingu. En nú ýtti ég á play og þetta er svolítið sláandi. Eða bara andstyggilegt, auðvitað. Þetta var ekki í San Pedro Sula heldur Comayagua. En hér í borginni er samt drepinn rúmlega maður á dag. Mig minnir að ég hafi lesið að tveir-þriðju allra morða séu óleystir – mikið af því er áreiðanlega klíkumorð. Ég veit ekki hvað hefur verið í gangi þarna í Comayagua en mann grunar auðvitað að morðinginn sé eitthvað tengdur – annað hvort inn í stjórmálastéttina eða klíkurnar.
Barnasafn og Englagarðar
Það er búið að aftengja fingrafaraskannann í lyftunni og nú kemst hver sem er upp. Þetta var gert fyrir nokkrum dögum. Mér finnst rökrétt að álykta að flugumaður sem starfar fyrir byltingaröflin í landinu leynist á hótelinu. Hugsanlega er það iðnaðarmaðurinn sem brosti óvenju breitt til mín um daginn þegar ég var í skærgula „Anti-Fascista Siempre“ stuttermabolnum mínum. Næsta skref er sennilega að byltingarherinn komi upp með lyftunni og skeri auðvaldið á milli eyrnanna. Þann dag ætla ég að reyna að muna að vera í bolnum góða. Ég er ekki viss um að Let There Be Rock bolurinn geri sama gagn. Annars er allt meinhægt, einsog það á að vera. Ég er svolítið lúinn eftir daginn. Skrítið hvað maður getur orðið þreyttur af þessu. Ég svaraði tölvupóstum í morgun og reyndi að skipuleggja haustið – það verður talsvert af bókmenntareisum – borðaði svo hádegismat. Eftir hádegi sat ég og starði á tölvuna milli þess sem ég dundaði mér og beið eftir að eitthvað gerðist. Dundið fólst mestmegnis í að spá í nýjan stand fyrir gítarfetlana mína sem ég ætla að smíða í haust. Og það tók sennilega þrjá tíma og ég var næstum bara búinn að gefa daginn upp á bátinn þegar allt hrökk í gang og ég skrifaði viðstöðulaust í tvo tíma og kláraði kaflann sem ég er búinn að vera að kljást við. Hann fjallar um innbrot í rækjuverksmiðju. Svo fór ég að hlaupa, borðaði kvöldmat og nú er ég hér að drekka kaffi og borða súkkulaðikex. Við nýttum helgina vel. Á laugardag fórum við á eins konar vísindasafn fyrir börn – það er kallað „Barnasafnið“ – og fræddumst um stjörnurnar, risaeðlur, ólík störf í þjóðfélaginu og hella og fleira. Þetta var mjög gaman en líka mjög gamalt og þreytt og svolítið skítugt og hafði flest verið gefið einhverju öðru safni fyrir fjörutíu árum og svo selt fimm söfnum í millitíðinni áður en einhver góðgerðasamtök splæstu í það fyrir íbúa San Pedro Sula. Stemningin var mjög eitís. Krakkarnir hjálpa til við að púsla saman korti af Hondúras – hérað fyrir hérað. Þá voru líka mjög fáir starfsmenn og hvert svæði var lokað nema þegar maður var með gæd með sér. Það var ekki hægt að ráfa um og uppgötva neitt – heldur var algert möst að fylgja bara sínum gæd. Gædarnir töluðu auðvitað bara spænsku en við reyndum að hjálpa til við að upplýsa börnin og þýða það sem við gátum. Það gekk bærilega. Best var þegar við lágum á bakinu undir hvolfþakssýningartjaldi og horfðum á myndband um sólkerfið við einhverja dúndrandi eitís sjónvarpsklassík. Það var líka svolítið fyndið – við Nadja erum ekki ókunnug alls konar menningarlegum árekstrum. Það er ekki allt eins í Svíþjóð og á Íslandi og mér finnst mjög oft að hlutirnir eigi að vera einsog þeir eru á Íslandi (t.d. að börn byrji í skóla sex ára) en henni finnst að þeir eigi að vera einsog í Svíþjóð (að börn byrji í skóla sjö ára). Alltaf þegar við erum í þriðja landinu bætist þá enn ein vídd í viðbót inn í blönduna: hvað er eðlilegt í Hondúras eða Víetnam eða Króatíu o.s.frv. og hvernig er það samanborið við normin á Íslandi og í Svíþjóð. Við fórum á þetta safn með mágkonu minni og mágbarninu og þá bætist alltíeinu kínversk vídd við. Það gerðist svo sem ekkert sérstakt en ég var mjög meðvitaður um það allan tímann að við værum að upplifa þessa hluti á ólíkan hátt og dæma upplifunina út frá fremur ólíkum forsendum. Hjörtunum svipar saman í Súdan og Grímsnesinu en það er ýmislegt í þankagangnum sem skilur mann að engu að síður. Svo spilar reyndar líka rullu að mágkona mín er föst hérna lengur en við og á a.m.k. rúmt ár eftir af dvölinni og er held ég orðin mjög þreytt á Hondúras – hægri þjónustu og hitanum og því öllu saman, ofan í auðvitað glæpina og að vera heimavinnandi og alls konar annað. Hún er hérna vegna þess að Yesper verður að vera hérna um sinn og af engri ástæðu annarri. Á sunnudaginn fórum við í Angeli Gardens. Við ætluðum reyndar aldrei að finna það. Google Maps vildi að við keyrðum beint inn í frumskóginn – inn í hnausþykkt kjarrið – en ég heyktist við það og hringsólaði eitthvað þar til ég fann skilti sem vísaði okkur eftir handónýtum steinsteyptum vegi sem leiddi að enn handónýtari moldarslóða sem leiddi okkur að Englagörðunum. Ég hreinlega veit ekki hvað þetta heitir á íslensku – canopy segja heimamennirnir, Nadja segir linbana. Rennibraut? Maður fer upp fjallið á fjórhjóli – upp flennibrattan og ójafnan stíg en kemur niður í sigbelti, rennir sér eftir vír á milli trjánna. Það eru níu stöðvar og maður endar á veitingastað. Þetta var mjög gaman. Fyrst voru starfsmennirnir reyndar í svolítið miklu akkorðsgír – einsog þeim lægi á að drífa okkur niður fjallið, það ætti eftir að slægja 40 tonn af túristum í dag – en þeir róuðust fljótt og þá var skemmtilegra. Starfsmennirnir á barnasafninu voru svolítið þessu marki brenndir líka. Sem er skrítið því almennt er þjónusta frekar hæg í landinu. Kannski er bara reglan að þetta eigi að vera óþægilegt. Krakkarnir fóru með starfsmönnum en við Nadja fórum sjálf. Víða var mjög hátt niður og gott útsýni og sums staðar fór maður líka bara mjög hratt – mikið stuð. Krakkarnir urðu aldrei neitt hræddir samt og varla við Nadja heldur. Loks fórum við á Denny’s – ég er að reyna að prófa eitthvað af þessum amerísku keðjum sem hér eru útumallt og maður hefur aldrei komið á. Denny’s er svolítið einsog McDonalds á sterum – meiri alvöru matur. Á morgun er ég að spá í að kíkja á Wendy’s í hádeginu. Við kláruðum báða dagana á að fara út að laug og tjilla með bók.
Svartar rósir og svartir hundar
Við eyddum helginni í bænum Tela, á hóteli við hafið. Þetta er tveggja tíma akstur og frekar sætur lítill bær sem við sáum lítið af því við vorum bara á ströndinni og við hótelið. Á leiðinni keyrðum við að öðru hóteli sem mági mínum hafði litist betur á til að athuga hvort eitthvað væri laust en þar var þá brúðkaup eða annars konar álíka viðburður. Þegar við keyrðum upp að því svæði lentum við í tvennu áhugaverðu. Fyrst komum við að hópi ungmenna, svona á að giska tvítugra, sem stoppuðu alla bíla og rukkuðu þá um toll/mútur á þeirri forsendu að þau væru að gera við veginn. Þar voru vel að merkja engin verkfæri og ungmennin sem ekki stoppuðu bílana lágu bara í vegakantinum og nöguðu strá og spjölluðu gleðilega sín á milli. Þau sem stóðu við bílana voru ekki beinlínis ógnandi en kannski ekki beinlínis ekki-ógnandi heldur. Vegurinn var hins vegar vissulega viðgerðar þurfi. Við borguðum nú samt þennan smotterístoll og fórum í gegn. Næst komum við að hliði inn að svæðinu – handan hliðsins var slangur af hótelum og nokkrir veitingastaðir. Hliðvörðurinn var lengst af ekki á því að hleypa okkur í gegn. Í fyrsta lagi þá væri alveg klárt mál að þetta hótel sem við vorum að spá í væri uppbókað og í öðru lagi þá ynni hann ekki fyrir hin hótelin eða veitingastaðina og þau skulduðu honum laun svo hann gæti alls ekki opnað fyrir okkur ef við ætluðum til þeirra. Á endanum fór Nadja út úr bílnum til að tala við hann og þá stakk hann upp á þeirri lausn að Nadja myndi sjálf opna hliðið. „Það er alltílagi, þú getur opnað hliðið. En ég get það ekki“, sagði hann. Og það varð auðvitað bara úr. Hér borðuðum við hádegismat á kránni Svörtu rósinni þar sem við hlustuðum á dúndrandi vont teknó og skelltum okkur aðeins í sjóinn á meðan við biðum. Sennilega var maturinn rúma klukkustund á leiðinni og hann var ekkert sérstakur – ég hef lítið fengið af góðum mat hérna. Þetta er þriðja rómansk-ameríska landið sem ég þvælist í gegnum – hin tvö eru Kúba og Brasilía – og þótt þau séu annars öll mjög ólík þá eiga þau það sameiginlegt að þar hef ég lítið fengið af góðum mat. Ekki að hann sé neitt vondur heldur – bara frekar óspennandi. Á meðan við biðum eftir matnum sló það mig hvað þetta nafn á kránni væri undarlegt – Svarta rósin, þetta er einsog úr einhverri Tinnabók. Ég ákvað að taka mynd af skiltinu: Skemmst er frá því að segja að ég deildi myndinni á Twitter og nú er hún komin út um allt internet. Eftir matinn rúntuðum við í gegnum bæinn og að hótelinu okkar, Telamar Resort, og komum okkur fyrir. Svo fórum við út í sundlaugargarð og fljótlega fór að hellirigna – það er rigningartímabil og rignir mikið seinnipartinn og á kvöldin. Krakkarnir létu það ekki trufla sig í lauginni enda mjög hlýtt og við Nadja plöntuðum okkur upp á svalir á sundlaugarkránni fram á kvöldmat (sem var óspennandi hlaðborð). Skæpað við ömmu og afa í rigningunni. Sundlaugargarðurinn. Daginn eftir var sól og blíða og við fórum á ströndina – leigðum bát sem sigldi með okkur út á það sem þeir kölluðu „kóralrif“ en var nú bara ósköp venjulegur sjávarbotn. Þar snorkluðum við og brenndum okkur á marglyttum. Þegar við komum aftur í land lékum við okkur á ströndinni – ég, Aino og Aram vorum ábyggilega vel á aðra klukkustund að kasta okkur í öldurnar og ég veit ekki hvort ég hef nokkurn tíma verið jafn glaður. Ég var hins vegar ekki í bol eða peysu og ekki með neina sólarvörn, annað en börnin, enda óvanur að brenna – hef ekki sólbrunnið síðan ég var barn og þá bara mjög, mjög lítið. Nú brann ég – vægt, en samt – í andliti og á öxlum. Þá fengum við hádegismatarhlaðborð, sem var óspennandi en kannski ekki alveg jafn óspennandi og kvöldverðarhlaðborðið, og lögðum af stað aftur til San Pedro Sula. Á leiðinni komum við við í verslunarmiðstöð nálægt El Progreso og urðum vitni að svona barnafegurðarsamkeppni, þar sem uppstrílaðar sjö ára stúlkur kepptu um hver væri sætust. Einsog það var nú undarlegt þá var eiginlega ekki síður undarlegt hvað allur hávaði – hljóðnemi kynnisins og tónlistin – var mikill. Ég hefði staldrað lengur við til að seðja forvitni mína ef hávaðinn hefði ekki verið svona óbærilegur og ískrandi. Umferðin hérna er svo kapítuli út af fyrir sig. Ég er ekki óvanur kaotískri umferð, af íslenska eða víetnamska skólanum, en hún er samt þægilegri. Á Íslandi er allt í nokkuð föstum skorðum og fólk fylgir umferðarreglunum þótt það keyri hratt og gefi fram úr svíni pínulítið og það sé auðvitað óhemja af bílum. Í Víetnam eru allir á vespum, enginn fer eftir umferðarreglunum en allir keyra frekar hægt og það sem meira er, þeir keyra jafn hratt. Þegar maður hefur fattað lógíkina í víetnamskri umferð er hún mjög þægileg og það verður t.d. hægur leikur að ganga í gegnum kraðak af vespum til að komast yfir götuna. Eða beygja inn í stórfljótið og finna sér stað í þvögunni. Hér keyra allir á karlmennskunni einni saman – ef maður er ekki fastur við stuðarann á bílnum fyrir framan þá treður sér einhver á milli. Að það sé rautt ljós á næstu þvergötu er engin trygging fyrir því að einhverjir bílar eða mótorhjól laumi sér ekki yfir ef það gefst færi. Ef vegarkanturinn er bærilega sléttur má líka allt eins eiga von á því að þar gefi einhver fram úr manni. Og þeir eru stanslaust að gefa fram úr við sjúklega tæpar aðstæður – treysta því bara að bíllinn sem kemur á móti þeim hægi á sér. Þegar ég fletti þessu upp sé ég líka að þótt afríkulöndin séu verst, þegar kemur að dauðsföllum í umferðinni, þá er Hondúras versta landið utan Afríku – með þrisvar sinnum fleiri dauðsföll en á Íslandi og sex sinnum fleiri dauðsföll en í Svíþjóð. Annað er sosum ekki að frétta. Aram og Nadja vöknuðu fyrir allar aldir í gær og fengu far með Yesper, sem var að fara í vinnuna, upp að Coca Cola skiltinu. Eða, upp að göngustígnum. Í gærkvöldi fóru þau svo út til að leika sér að halda bolta á lofti og Aram sparkaði boltanum óvart í andlitið á sér og það triggeraði svolítið mikla sorg, sem sennilega hefur verið að meltast um hríð. Hann kom upp í íbúð alveg ónýtur af heimþrá og söknuði eftir vinum sínum. Hann er sá eini hérna sem hefur engan eiginlegan jafningja. Aino leikur talsvert við Rion og unir sér vel – en þá er hún líka minna með Aram. Þótt hann sé að mörgu leyti líkur mér með að geta unað sér einn – hann ryður í sig bókum hérna, vetrarseríu Hildar Knúts og tveimur fantasíuseríum eftir Rick Riordan á sænsku, og spilar mjög mikið Zelda – þá er hann líka félagslyndari og á mikið af vinum sem hann er vanur að hafa í kringum sig. Hann er líka orðinn mjög vanur ákveðnu frelsi – að vaða bara um allt og þurfa ekki að standa skil á öðru en að mæta í trommutíma og kvöldmat. Mér finnst líka þessi trigger kunnuglegur – að það gerist eitthvað svona fýsískt og það setji af stað allt hitt sem maður hefur ekki getað hanterað. Það næsta sem ég hef komist því að fá taugaáfall var þegar ég barði mig óvart í höfuðið með stálskröpu á kústskafti við vinnu í skipasmíðastöðinni í Þórshöfn skömmu eftir tvítugt – þá var ég úttaugaður af rugli og þreytu, vinnu og djammi, og lagðist bara út í horn á bakvið trollspilið og grét þar til Gorkíska vinnuflautan sendi okkur heim. Við áttum langt spjall um heimþrá og sorgina og hversu mikilvægt það væri að finna hamingjuna í því sem maður hefði og því sem maður gæti gert, frekar en því sem maður hefði ekki – að reyna að njóta þess að vera í Hondúras með Rion og Yi og Yesper og njóta þess svo að vera Ísafirði með vinum okkar og ættingjum þegar við komum þangað. Og hversu mikilvægt það væri að leyfa sér að vera sorgmæddur. Það er ekkert að því að líða illa – það er bara hluti af ferlinu. Í dag svaf hann fram eftir öllu og líður sjáanlega miklu betur. Yi flaug til Tegucigalpa til að sinna erindum í kínverska sendiráðinu og við – eða Nadja og krakkarnir, ég er að vinna – sjáum um Rion á meðan. Við erum að reyna að skipuleggja eitthvað sniðugt að gera – hugsanlega Guatemala, hugsanlega Copán-rústirnar, hugsanlega Útila og meira snorkl, hugsanlega bara einhver bær þar sem er hægt að hangsa. Ekkert af þessu er sérlega ódýrt og við ekkert ofsalega fjáð – Hondúras er dýrara land en við höfðum reiknað með (og auðvitað ekkert kynnt okkur). En nú höfum við verið hér í mánuð og bara mánuður eftir.
Mega Bites
Ég átti afmæli og varð 41 árs. Það er hefð að vekja afmælisbörn í rúminu í okkar fjölskyldu en það er líka hefð að ég sé mjög morgunsvæfur og ég hef átt sérstaklega erfitt með svefn hérna í Hondúras – vaknað að ástæðulausu um miðjar nætur og legið andvaka klukkustundum saman. Svo af tillitssemi við mig var ákveðið að vekja mig seint frekar en snemma. Ég hins vegar vaknaði við umgang – þótt hann hafi alls ekki verið mikill – upp úr sjö eða sirka þegar Nadja læddist fram úr til að fara í búð að kaupa morgunmat. Svo lá ég bara í rúminu og beið þess sem verða vildi. Mér fannst ég ekki geta farið fram úr – og þannig eyðilagt vakninguna fyrir vekjurunum – en það munaði nú nokkrum sinnum litlu. Það vill til að ég er mjög þolinmóður maður og stíg hvort eð er eiginlega aldrei upp úr rúminu um leið og ég vakna. Eitthvað rúmlega tíu komu þau inn til mín með kökur og kjötsamloku og kaffi og pakka. Ég fékk leikfangabyssu, stækkaða ljósmynd af ljóni sem var búið að krota einhverjum málningarklessum á (ásamt boði um að fara og velja mér alvöru málverk í galleríi), ægilegan túristabol merktan Hondúras og kaffikrús. Eftir morgunmat fórum við í galleríið, keyptum málverk af manni með hatt og gítar, og svo í hádegismat á hinn stórgóða veitingastað Mega Bites. Galleríið var í s.k. strip mall – þar mættum við þessum vinalega herramanni sem vísaði okkur réttan veginn. Svona menn eru bókstaflega alls staðar hérna og alltaf með þessar skemmtilegu haglabyssur undir hendinni. Hnakkinn á Aino í glugganum. Mega Bites er nördahamborgarastaður, fullur af alls konar ofurhetju- og tölvuleikjadóti, og við enduðum þar nú eiginlega bara fyrir tilviljun. Aram var dolfallinn – þótt það væri varla hægt að segja að það væri ætur biti fyrir hann að éta þarna (hann er grænmetisæta). Nadja pantaði mozzarellastangir og chili-franskar fyrir þau – án þess að átta sig á því að chili-frönskum er ekki drekkt í pipar eða kryddi heldur chili con carne. Þau fengu franskarnar okkar Ainoar og við tókum chili-franskarnar. Frændi eigandans, sem afgreiddi okkur, talaði mjög góða ensku svo okkur grunaði að hann hefði verið í Bandaríkjunum en verið vísað úr landi – það er mjög mikið af þannig fólki hérna, annar hver leigubílstjóri – en svo reyndist ekki. Hann sagðist oft hafa spáð í að fara en það væri kannski ekki til neins núna, en hver veit. Mestu skipti núna að losna við helvítis forsetann. Um kvöldið fórum við út að borða perúskt. Ég fékk einhvern ægilegan maríneraðan svínabita sem ég torgaði engan veginn en þetta var nú samt mjög gott allt. Ég fékk líka mjög góðan Pisco Sour með snert af ástaraldinsafa og perúskan bjór sem heitir cusqueña. Leigubílstjórinn sem keyrði okkur heim hafði búið í Bandaríkjunum í mörg ár áður en honum var vísað úr landi. Hann virtist fremur ósáttur. Og síðan eru liðin hundrað ár. Ég hef verið frekar slappur alla vikuna – hugsanlega ofgerði ég mér á hlaupabrettinu á sunnudag og er búinn að vera að gúgla alls konar um bætiefni og íþróttadrykki síðan. Ég svitna alveg hrikalega og loftræstingin í ræktinni er léleg en ég drekk líka mjög mikið vatn, bæði fyrir og eftir og á meðan. Ég hljóp mikið úti í Víetnam en þá var ég úti undir beru lofti – hér er ekkert hægt að hlaupa úti án þess að verða rændur – og stoppaði alltaf í lítilli búð í jaðri hrísgrjónaakranna, sem var eiginlega bara heimili með frysti og skilti, og keypti mér íþróttadrykk með öllum helstu steinefnum. Hér er bara svo mikið vesen að komast í búð – þarf helst að byrja á því daginn áður að biðja húsbóndann á heimilinu að skilja bílinn eftir næsta dag – að ég hef enn ekki komist til að kaupa mér bætiefni eða íþróttadrykk. Ég sit stundum úti við laug og skrifa. Þar er stórt borð í skugga en þetta borð er hægt að taka frá fyrir veislur og þvíumlíkt – við hliðina er grill. Í gær var greinilega búið að taka það frá, raða alls konar afmælisdóti á það, svo ég settist bara í steikjandi sólina og skrifaði þar til rauk úr mér. Þá fór ég að synda. Kannski hjálpar slík hegðun ekki til við sleni en stundum hef ég áhyggjur af því að fá ekki nóg d-vítamín af því ég er svo mikið inni og svo mikið annars í skugganum. Í dag ætlum við Aram loksins í bíó. Spiderman-myndin er frumsýnd í dag og við eigum miða í einhver voða fín hreyfisæti klukkan fjögur. Við erum mjög peppaðir – nú er bara að vona að byltingin verði eftir bíó en ekki fyrir einsog síðast.
Coca Cola, pírökur og plokkfiskur
Ég sé á Facebookinu mínu að í sumum Evrópulöndum er ég orðinn 41 árs. Ég er byrjaður að fá kveðjur. Í San Pedro Sula á ég enn sjö tíma eftir sem fertugur maður. Raunar eru ekki nema kannski þrír mánuðir frá því ég hélt upp á fertugsafmælið – með Nödju, sem var líka að fagna 41 árs afmælinu sínu. Það var mjög skemmtilegt kvöld – ég varð ofsalega fullur og gerði ósköpin öll af kokteilum og hló hátt og greip fram í fyrir fólki einsog ég væri ekki í grunninn fyrst og fremst haugur af alls konar félagslegum komplexum (einsog svo margir). Hvað um það. Í gær fórum við Nadja í fjallgöngu upp að helsta kennileiti borgarinnar, Coca Cola skiltinu. Þessi mynd er af internetinu. Maður sér skiltið ekkert mjög vel þarna uppi – bara svona hornin á því. Fjallið heitir El Merendón og upphaflega var víst sett upp skilti þarna fyrir Muebles Capri húsgagnamerkið. Árið 1984. Því var ekkert haldið við og þegar það var fjarlægt fannst fólki eitthvað vanta – skiltið laðaði fólk að. La Cerveceria Hondureña – Vífilfell þeirra Hondúrasmanna – kom til bjargar og reisti þetta skilti, sem raunar er ljósaskilti, neon í rauðu og hvítu, þótt það sé sjaldan kveikt á því lengur. Skiltið er 10 metra hátt og 79 metra breitt og pælingin var að þetta yrði stærsta kókskiltið í gervallri mið-ameríku – ég veit ekki hvort það er það eða var það en það var allavega ætlunin. Skemmst er frá því að segja að við vorum hvorki rænd né drepin á göngunni þarna upp heldur mættum við mikið af vinalegu fólki og buðum þeim góðan daginn – „buenas“, sögðum við, og þau sögðu „buenas“ til baka og það var afskaplega ánægjulegt. Bara einsog maður væri umkringdur fólki sem hefði engan hug á að ræna mann eða drepa. Meðfram stígnum – þetta er um þriggja kílómetra ganga – voru lítil tréskilti með ritningarorðum úr biblíunni. Fólkið sem við mættum var alls konar – nokkuð um yngri pör, íþróttamenn sem hlupu upp og það sem kom mest á óvart, feitir miðaldra karlar (50-60 ára, ekki fertug unglömb, vel að merkja) sem hjóluðu. Svona týpur sem maður sæi aldrei sporta á norðurlöndunum. Ekki nógu feitir til að vera í líkamsrækt að læknisráði en of feitir til að láta sig enn dreyma um sixpakk. Sumir tóku því rólega en aðrir voru greinilega bara í hörkusporti. Við tókum líka fram úr einum og mættum honum aftur á leiðinni niður sem var í ofsalegri yfirvigt – djöfull sem mér fannst hann harður. Þá mættum við hundum og geitum, sem var líka gaman. Á nokkrum stöðum var hægt að kaupa svaladrykki, kókoshnetur og ávexti. Gatorade virtist sérstaklega vinsælt. Þegar við komum að svæðinu þar sem göngustígurinn byrjar keyrðum við framhjá mörgum húsum sem ég held að hljóti að tilheyra glæpamönnum eða stjórnmálamönnum eða öðrum sem þurfa að hafa talsverðar áhyggjur af lífi sínu, af því glæsihýsin við götuna þar sem við lögðum voru flest með risastóra veggi í kringum sig og gaddavír, sem er í sjálfu sér ekki óvenjulegt, en að auki voru byssuhreiður á hornunum. Ég gleymdi auðvitað að taka mynd af þessu en þetta er svolítið svakalegt að sjá – húsin voru ekki bara útbúin til að halda þjófum úti heldur beinlínis til að mæta innrás. Þetta ku ríkasta svæði borgarinnar en eftir göngustígnum voru líka nokkrar flottar villur – en líka bárujárnskumbaldar. Annars var bílastæðavörður líka – gömul kona sem talaði mikið á spænsku og svaraði alltaf frekar furðulega því sem við spurðum. Þegar við reyndum t.d. að spyrja hvort þetta væri einstefna og við ættum að snúa við eða hvort við gætum keyrt niður hana og beygt fyrir hornið sagði hún bara að við ættum að „fara heim núna“. Við göngustíginn var svo hlið og þar var líka vörður. Tvær löggur á sama mótorhjólinu virtust síðan bara rúnta upp og niður stíginn – sá sem sat aftan heilsaði mér alltaf, veifaði. Nadja sagði að það væri augljóst að hann væri að heilsa mér og ekki henni. Mín kenning er sú að hann hafi lesið Illsku sem kom út á spænsku í fyrra. Ég sé ekki að þetta geti stafað af neinu öðru. Annar maður heilsaði mér líka sérstaklega, hálftannlaus bóndatýpa með stráhatt – fyrsti maðurinn sem við mættum á göngustígnum. Hann sagði „What’s up, hermano!“ og var mjög hress. Það er ekki mikið af tveggja metra háum mönnum hérna og enginn þeirra sem ég hef hitt gengur með kúluhatt. Útsýnið. Þarna sést grilla aðeins í hornið á skiltinu fyrir miðri mynd. Annars er það falið í gróðrinum. Þegar við vorum komin upp dáðumst við að útsýninu og hlustuðum á partílætin úr bænum – það var einhvers konar karnival í gangi, sem við vissum ekkert um – og keyptum okkur hvort sinn melónubitann. Eða Nadja keypti melónubita fyrir okkur bæði – ég keypti engan melónubita, en fékk samt. Ég var mjög sveittur. Á leiðinni til baka komum við við í búðinni og keyptum í matinn – til að gera karelskar pírökur og plokkfisk. Það er frekar dýrt að versla í matinn hérna, merkilegt nokk – margt er ódýrara en svona random innkaupakarfa fer auðveldlega upp í 20 þúsund kall. Við fórum í 15 í þessari ferð. Sennilega munar mest um eitthvað svona dót sem er sjaldgæft hérna – seríóspakkinn var dýr, líka quorn-gervikjötið og sápa sem var ekki 99% lyktarefni var dýr. Mjólk var ekki dýr og ekki heldur hvítur fiskur – vel að merkja. Fengum frosinn vartara, sennilega hátt í kíló, fyrir rétt rúmlega þúsundkall. Föt eru ódýr – mikið af fataverksmiðjum í landinu. Í dag gerði ég pírökurnar en á morgun verður eitthvað afmælis og ætli plokkfiskurinn verði þá ekki á þriðjudag. Af bíóferðum okkar Arams er það að frétta að nýja Spiderman myndin verður frumsýnd fjórða júlí og hún kemur vonandi í staðinn fyrir Dark Phoenix plönin. Þá á undan sáum við einmitt með Hauki Má í sérstakri feðgaferð til Berlínar um árið. Það var góð ferð.
Sundhettur og kvennabúr
Nú held ég dagbók þriðja daginn í röð og varla annað hægt. Ég var svo illa fyrirkallaður í gær og allt eitthvað svo hrikalega ómögulegt. En svo rættist nú bara úr deginum þrátt fyrir allt. Fyrst komst ég aftur á skrið í skrifunum og það er einfaldlega allt betra þegar mér gengur að skrifa. Bíllinn var síðan víst ekki á verkstæði og eftir vinnu keyrði ég gengið í eitthvað hoppuland og fór sjálfur í mallið – keypti mína langþráðu gítarstrengi, nýtt slide og þumalneglur, nýja sundskýlu, sundhettu (svo ég brenni ekki á skallanum ef ég syndi í sólinni) og nærföt. Svo brunaði ég heim, pantaði mexíkóskan mat fyrir alla, fór í ræktina, át matinn (sem var góður), las fyrir krakkana, við Nadja fórum út í garð í göngutúr og settumst við laugina og spjölluðum heillengi áður en við fórum aftur upp og kláruðum Chernobyl-seríuna. Svo las ég eitthvað fram á nótt eftir að hún sofnaði. Svaf yfir mig í morgun. Samt vakna ég alltaf síðastur. Stilli vekjaraklukkuna á níu. Í morgun vaknaði ég tuttugu mínútur í tíu og hafði einfaldlega sofið af mér hringinguna. Át morgunmat og skrifaði inni í herbergi – ég þarf að fara að læsa inn til mín, heimadrengurinn Rion ryðst alltaf inn til mín og vill fara að spila á gítarinn minn. Þegar ég missi einbeitinguna – ef ég er þá búinn að finna hana – tekur það mig oft langan tíma að ná aftur tökum á sögunni. Augnabliks truflun á hálftíma fresti getur þannig gert vinnudaginn að engu. Á endanum fór ég niður að laug og vann þar undir svínheitri sólinni – af því ég var að lesa grein um rannsókn þar sem var fullyrt að fólk sem sólaði sig ekki nóg, af því það væri svo upptekið af því að sólskin væri óhollt, dræpist fyrr og fengi krabbamein og ég veit ekki hvað – synti svo minn eina og hálfa kílómetra og fór upp að éta og lesa það sem ég skrifaði í morgun. Niðri við laug var hópur af konum sem sat í skugganum og spjallaði. Ég hef áður sagt að maður sjái sjaldan karlmenn hérna á flandri en það er ekki alveg satt – hér er nokkuð af vinnandi karlmönnum. Þeir ganga um með verkfæri, stiga, kúst og fæjó og ýmsar vélar. Nokkrar konur vinna svo líka í móttökunni og við skúringar innanhúss. Karlar kvennana sem lóna niðri við laug með eða án barna eru svo allir einhvers staðar að reka fyrirtæki, sinna frama í stjórnmálum eða skipuleggja glæpastarfsemina í þessu landi. Flestir sennilega bara að reka lítil fyrirtæki samt – virka allavega meinleysislegir. En það sló mig samt í morgun þar sem ég sat niðri við laug – og vann, vel að merkja! – að Panorama væri einsog hálfgert nútíma harem eða kvennabúr, geymslustaður fyrir konur og börn þeirra sem mega sín mikils. Einu konurnar sem ég þekki hérna eru reyndar hámenntaðar og Nadja er auðvitað bara í sumarfríi og Yi í eins konar síðbúnu mæðraorlofi og það getur vel verið að eitthvað svipað eigi við um margar aðrar konur í húsinu. Ég hef séð á Twitter tilkynningar um mótmæli víðs vegar um landið en það hefur enn ekkert spurst til óeirða hérna. En það gæti átt eftir að breytast í kvöld. Ef allt er í rónni förum við hugsanlega á rand á morgun, kíkjum á markað og eitthvað. Sjáum til.