Við keyrðum til Copán og á leiðinni sáum við skilti utan við mótel sem á stóð: No adulterio. Bannað að halda framhjá. Á leiðinni heim frá Copán sáum við annað skilti, í þetta sinn við veitingastað, þar sem stóð: No robaras. Bannað að stela. Annars er mest af Pepsi-skiltum í landinu. Aram og Aino töldu pepsi-skiltin frá Tela til San Pedro Sula á dögunum – tveggja og hálfs tíma akstur – og þau reyndust rétt tæplega 500. Á leiðinni til Copán rufu þau svo þúsund skilta múrinn. Við leigðum sem sagt bíl og eyddum helginni í Copán – fyrir undarlega tilviljun var bíllinn sem við leigðum af sömu tegund og sá sem við eigum, nema aðeins stærri. Suzuki Swift með smá aukaskotti. Það tók lengri tíma að keyra en við héldum – þrjá og hálfan tíma á köflum í fullkomlega sturlaðri umferð. Þeir víla í alvöru ekkert fyrir sér að taka fram úr fimm bíla röð á átján hjóla trukkum í miðri blindbeygju. Þriðji hver bíll er svo pallbíll með tíu farþega á pallinum, oft standandi upp í vindinn. Ég hef séð mikið af einfættu fólki hérna og mig grunar ástæðuna. Ég reyni að halda góðri vegalengd milli mín og næstu bíla og gefa eins lítið fram úr og maður kemst upp með (það er líka talsvert af mjög hægfara vörubílum í umferðinni – ef maður festist fyrir aftan þá, sem kemur fyrir, kemst maður varla spönn frá rassi). Þegar við vorum rúmlega hálfnuð heimtaði ég að við myndum stoppa, svo ég gæti pissað, og við notað tækifærið og borðað. Þetta var ekki á planinu, Nödju leist ekkert á að stoppa neins staðar, en það reyndist svo gæfuspor. Einsog öll mín frekjuköst, auðvitað. Staðurinn sem við stoppuðum á var lítill veitingastaður sem var með mjög heimilislegan mat í mötuneytisborði. Við fengum kjúkling og fisk og kaffi og kartöflur og hrísgrjón og fullt af heimabökuðum tortillum og kunnum vel við okkur og maturinn kostaði sama og ekki neitt. Það var afar ánægjulegt að koma til Copán. Bærinn – sem heitir fullu nafni Copán Ruinas, í höfuðið á Maya-rústunum við hliðina – er mjög sætur, mikið af fallegum húsum og fallegum torgum og einhvern veginn alveg stórfenglegt að geta rölt um innanum fólk einsog maður sé á eðlilegum stað í heiminum. Rambað á kaffihús, ísbúðir og fataverslanir án þess að vera í bylmingi verslunarmiðstöðva. Þarna er talsvert af túristum. Ég held það búi engir heimamenn alveg í kjarnanum – þetta eru bara hótel og veitingastaðir og búðir og svo fátæklegir hjallar í „úthverfunum“ fyrir heimamennina (Copán er of lítill til að hafa eiginleg úthverfi). Bærinn er mjög nálægt landamærunum að Guatemala og mikið af túristunum kom augljóslega þaðan – mikið af Guatemalanúmerum á bílunum. En auk þeirra rákumst við á óhemju af Hollendingum. Á því kunnum við enga skýringu. Landamærin að Hollandi eru langt í burtu. Bærinn er í brekku og göturnar mjög brattar, lagðar grófum götusteini svo maður hoppar og skoppar þegar maður keyrir þær (mjög, mjög hægt). Þrátt fyrir að göturnar séu einbreiðar – en ekki einstefnur – er talsverð umferð og mér fannst vera bensínlykt alls staðar. Það truflaði samt mjög lítið. Eftir dálítinn göngutúr eftir þessum þröngu götum fórum við á franskt kaffihús. Nadja og krakkarnir fengu sér sjeik en ég fékk mér bjór. Svo röltum við svolítið í búðir, spáðum í vindlum og skartgripum, fórum heim á hótel í sturtu og svo aftur á franska kaffihúsið í kvöldmat (það var mælt með því og svo var stærstur hluti annarra veitingastaða steikhús og talsvert takmarkaðra úrval matar fyrir Nödju og Aram; svo var það líka bara mjög fínt). Eftir kvöldmat fórum við í ísbúð þar sem ísinn var gerður beint fyrir framan mann. Þetta var gert á frostpönnu sem minnti á crepespönnur nema í stað þess að vera sjóðandi heit var hún frostköld. Til að gera bananaís setti maðurinn fyrst dálítinn bananabita á pönnuna sem hann saxaði niður með tveimur sköfum þar til hann var orðinn að mauki. Svo hellti hann fljótandi rjómablandi yfir, hrærði öllu saman og sléttaði svo yfir í þunnt lag. Þetta skóf hann upp í fjórar rúllur sem hann raðaði í box og skreytti með t.d. hnetum og súkkulaðisósu. Okkur fannst frekar spes á hótelinu að Aino þurfti að borga fyrir morgunmat. Ekki sjálf, við splæstum á hana, en af því að börn undir 8 ára aldri reiknast ekki sem eiginlegir gestir þá fá þau ekki morgunmat. Einsog þau þurfi ekki að borða. Af því þau eru svo lítil. Vel að merkja var herbergið fimm manna og hefði ekki kostað meira þótt við hefðum verið fimm. Og ef öll fimm hefðu verið yfir átta ára hefðum við fengið fimm miða í morgunmatinn. Eftir morgunmat fórum við að kaupa bol fyrir Aram (Neymar; Paris St. Germain) og sparikjól fyrir Aino (hvítan með blúndum – fyrir afmæli Rions daginn eftir). Og leita að hraðbanka. Þegar það var frá keyrðum við í rústirnar í tveggja kílómetra fjarlægð. Ég veit ekki hvað maður segir um svona rústir. Þetta er allt kunnuglegt þannig lagað. Píramídar, altari, grafhýsi, bústaðir. Svæðið er fáránlega stórt. Ekki kannski heil borg en lítill bær. Tvö hverfi. Þetta var það sem ég var spenntastur fyrir að sjá í landinu, það eina sem ég hafði pantað að gera, og það var talsverð upplifun að rölta bara þarna um. Skrítnast er samt að ég hafi ekkert lesið mér til áður en ég fór. Og á það enn eftir. Ég veit ekkert um Mayakúltúrinn – eða ekkert áreiðanlegt, ekkert sem er ekki úr skáldsögum og bíómyndum og er sennilega álíka áreiðanlegt og það sem þar er skrifað um víkinga. Það voru líka nánast engar upplýsingar á skiltum – möguleiki á að fá gæd en bara á spænsku. Við ræddum mikið um mögulegar blóðfórnir og slíkt. Aram lét ímyndunaraflið leika lausum hala um alls konar aftökuaðferðir sem gengu meðal annars út á að henda fólki fram af píramídunum eða klessa það milli tveggja risastórra steina. Honum fannst ekkert gaman þegar ég var að reyna að stramma hann af í þessu og segja að kannski hefðu ekki verið neinar mannfórnir (þótt ég héldi það) og þær hefðu áreiðanlega verið yfirvegaðri og hátíðlegri athafnir en þær sem hann hafði í huga. Einhvern veginn er svæðið samt þannig að maður nær engum almennilegum myndum – ekki sem sýna stærðina og umfangið. Það mátti klifra út um allt – eða svo gott sem – og svo er frumskógarnáttúran þarna í kring líka fremur stórfengleg. Nadja lenti í þvögu mjög ágengra sölumanna á leiðinni aftur á bílastæðið. Við keyptum ýmislegt smálegt. Á leiðinni til baka til San Pedro Sula stoppuðum við á tveimur stöðum. Fyrst á veitingastað sem heitir El Chapparal. Það var gaman meðal annars vegna þess að í Svíþjóð er frægur kúrekaskemmtigarður sem heitir High Chapparal. Þangað fór Nadja þegar hún var lítil og þar var Liam frændi Arams bara nú á dögunum. Veitingastaðurinn okkar var líka kúrekalegur og maturinn bara nokkuð góður. Seinna stoppið var á kaffihúsinu Welchez. Þetta er keðja í landinu – ég veit um að minnsta kosti tvo staði í San Pedro Sula og þetta ku besta kaffið sem maður fær. Ég hafði séð skiltið þegar við komum og bað Nödju að slá því upp í símanum en svo vorum við ekki með neitt net og loksins þegar netið datt inn sagði síminn bara að þetta væri 400 metra í burtu – sem okkur fannst eitthvað ótrúlegt. Það reyndist svo bara standa heima. Þetta var heldur ekki bara venjulegt kaffihús heldur búgarður þar sem boðið var upp á túra um kaffiekrur og verksmiðjuna. Við létum okkur duga að kaupa gott kaffi og kökur í bílinn. Jú svo stoppuðum við líka á Texaco-stöð þar sem ég keypti mér meira kaffi. Ég svaf mjög lítið nóttina í Copán og var orðinn alveg stjarfur. Umferðin hérna krefst líka talsverðrar einbeitingar og orku. *** Í gær var svo afmæli Rions og eftir veisluna um kvöldið fórum við Aram að spila svolítinn fótbolta. Hann langar að fara að æfa markvörslu – við sjáum hvort það endist. En það var allavega gaman hjá okkur (alveg þangað til ég dúndraði einum bolta beint framan á fingurna á markverðinum – sem er búinn að ná sér í dag en bar sig ansi illa í gærkvöldi). Í dag var rafmagnslaust í allan dag. Allt húsið. Við fórum í næsta hús þar sem er eitthvað viðskiptasenter og nýbúið að opna kaffihús. Borðuðum morgunmat þar. Svo sat ég hálflasinn í svínheitri ókældri íbúðinni og reyndi að lesa og vinna á meðan restin af heimilismönnunum fór niður í bæ. Það er merkilegt hvað netleysið getur gert manni gott reyndar. *** Í kvöld á Twitter var ég að fiska eftir fréttum frá Hondúras þegar ég sá myndband af manni sem var skotinn í fylleríisrifrildi í umferðinni. Fólk er að dreifa þessu vegna þess að lögreglan lætur víst einsog þetta hafi ekki gerst. Hópur manna stendur í hring milli tveggja bíla. Tvær karlar byrja að ýtast, lenda í jörðinni, eru dregnir sundur. Annar fer í hanskahólfið og nær í byssu, kemur til baka og skýtur hinn. Fer svo upp í sinn bíl, sest farþegamegin og er keyrt í burtu. Hinir standa einsog álkur meðan á þessu stendur – skiljanlega sosum. Draga svo líkið frá bílnum svo þeir geti keyrt út og látið sig hverfa. Yfirvöld neita að segja neitt um hvað gerðist. Ég hef áreiðanlega nokkrum sinnum séð fólk drepið á myndbandi. Ég horfi aldrei ef ég fæ ráðið við það – hef aldrei séð neitt af afhausunarmyndböndum ISIS sem voru í dreifingu. En nú ýtti ég á play og þetta er svolítið sláandi. Eða bara andstyggilegt, auðvitað. Þetta var ekki í San Pedro Sula heldur Comayagua. En hér í borginni er samt drepinn rúmlega maður á dag. Mig minnir að ég hafi lesið að tveir-þriðju allra morða séu óleystir – mikið af því er áreiðanlega klíkumorð. Ég veit ekki hvað hefur verið í gangi þarna í Comayagua en mann grunar auðvitað að morðinginn sé eitthvað tengdur – annað hvort inn í stjórmálastéttina eða klíkurnar.