Gítarblogg – færsla 11

Guitar from start to finish. A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 11, 2019 at 6:26am PDT Hér að ofan eru nokkrar myndir af Endemi – úr ferlinu //www.instagram.com/embed.js  Það gleður mig að tilkynna að eftir viku spilun er undan fáu að kvarta. Hann helst betur í stillingu en hann gerði í upphafi (og var aldrei nein skelfing) og þarf lítið að fikta í honum jafnvel þó maður noti stöngina til að hífa stakar nótur upp um heiltón – ég hef ekki tekið margar dýfur og engar bombur og sennilega myndi það setja hann af sporinu en bigsby-ið er heldur ekki gert fyrir eitthvert Van Halen spilerí. En hann dugar vel í hömlulítið rockabilly. Spekkarnir eru þessir: Búkur: Mahoní með hlyntopp

Háls: Warmoth – wenge með pau ferro fingraborði

Pikköppar: Seth Lover humbökkerar.

Túnerar: Grover með lásum.

Þyngd: 5,1 kg.

Sveif: Bigsby B50 (ég er að bíða eftir s.k. stabiliser, sem hækkar stöngina – nú eru allir strengirnir þræddir yfir hana nema e-strengurinn)

Brú: Hjólabrú (roller bridge)

Skali: 628 mm

Strengir: 10-48 Ernie Ball Þegar ég tek hann í slipp næst, sem verður ábyggilega fljótlega, þá ætla ég að gera eitt og annað smálegt. Snúran undir outputinu er of löng, hana þarf að stytta og ég þarf að þrengja jack-tengið svo gítarsnúran sitji betur í. Brúarpikköppinn situr dálítið vitlaust. Ég þarf að taka hann úr og fara með meitil neðan við hann og færa hann 2 mm nær klórplötunni. Setja nýjar torx skrúfur í pikköppana – stjörnuskrúfurnar eyðileggjast strax. Óskiljanlegt að nokkur velji stjörnuskrúfur yfir torx-skrúfur (nema fyrir lúkkið, en þessar eru svo litlar). Setja stabiliserinn í svo ég geti haft allan strengina undir bigsby-bilstönginni. Ef þeir fara undir núna helst hann ekki jafn vel í stillingu og ef þeir eru yfir, einsog þeir eru, geta þeir hrokkið upp úr söðlunum ef ég djöflast á honum (eiginlega samt bara ef ég er að snapp-toga í þá). Hér er svo, einsog lofað hafði verið, tóndæmi. Ég biðst velvirðingar á söngnum, einsog venjulega. Sem betur fer heyrist illa í honum. Og ykkur að segja fannst mér erfiðast að muna textann (ég er með eitthvað Ragga Bjarna heilkenni). Ég dútlaði þetta alveg upp í 11 mínútur en klippti halann niður svo þetta endaði í rúmum 5. Spilað er í Orange Rocker 15 Combo – hreinu rásina. Kveikt á TC Electronics Hall of Fame Reverb Mini (með spring reverb toneprinti) og EP Booster. Stillt á báða pikköppa – nema þarna þegar ég er að dútla þá skipti ég eitthvað fram og til baka. Tekið upp á iPhone – sennilega er sándið betra í raunveruleikanum! Hugsanlega tek ég svo upp eitthvað skítugra næst.

Gítarblogg – færsla 4

Það var verið að ræða dundursnautnir á Facebook. Ég hef talsverða þörf fyrir dundursnautn en kann illa við hana í bókmenntum – sérstaklega þeim sem ég skrifa sjálfur en líka þeim sem ég les. Þess vegna fæ ég útrás fyrir hana annars staðar. Til dæmis í þessari gítarsmíð – en líka í matseld og alls konar föndri sem hefur það eina markmið að virka, þjóna fegurðinni einni, nautninni, og leyfir enga vanlíðan. Nú er ég að reyna að rifja upp hvað ég gerði í síðustu viku. Ég var búinn að gera búkinn. Við Smári fórum út í Bolungarvík á trésmíðaverkstæði og skárum dálítinn furubút í tvennt og hefluðum svo báða niður í sex millimetra. Bútinn límdi ég síðan saman svo úr varð þunn spýta í topp. Hana sagaði ég fyrst út í rétta lögun, fræsti svo fyrir hljóðdósaholinu og gerði f-gatið fyrir hljómbotninn. Það gerði ég með því að bora holu fyrir kringlótta hlutann og saga svo útlínurnar með laufsög.

Síðan límdi ég þetta saman. Og þá hef ég í raun og veru lokið mér af með þennan æfingabúk. Ég kastaði hryllilega til höndunum þegar ég byrjaði og staðsetti hljóðdósirnar algerlega tilviljunarkennt – og þótt ég hafi verið að daðra við að klára þetta sem heilan gítar (byrjaði meira að segja að saga út háls að gamni) held ég að það verði aldrei. Sú aftari er of aftarlega, það er ekki pláss fyrir brúna, og sú fremri svo framarlega að hálsinn kemst ekki með góðu móti fyrir. Annars er þetta vonlaust orð. Hljóðdós. Mikið vildi ég að hljóðnemi væri ekki frátekið fyrir annað. En sem sagt. Þá er ekkert eftir nema að byrja á hinum raunverulega gítar. Mér barst í vikunni mahóníspýta sem ég pantaði úr efnissölunni. Hana skar ég í tvennt – fékk svo Smára til að hefla beinan kant á hana og límdi hana saman. Í dag opnar svo Fab Lab eftir fæðingarorlof starfsmanns og mér því óhætt að líta við. Fleira kom með póstinum. Efni í klórplötu, bindingar, skífur undir hálsinn og járnplata og skrúfur líka til að halda honum föstum líka, Bigsby tremolo-ið ásamt „rolling“ brú og grover stilliskrúfur með læsingu. Ég mun þurfa að panta mér a.m.k. eina sendingu í viðbót – til að fá sérstaka fræsitönn fyrir bindinguna – og svo bíð ég eftir hálsinum, sem gæti tekið allt að 4-5 vikur til viðbótar. Hugsanlega panta ég mér líka skapalón fyrir hálsvasann með fræsitönninni. Ég gerði lista yfir þau mistök sem ég veit að ég gerði. Ég gleymdi að gera miðlínur og vissi því aldrei hvar miðjan á gítarnum var og gætti ekkert að því og hugsaði lítið út í það. Slumpaði á hljóðdósastaðsetningu og klúðraði illa. Slumpaði á stærð, lögun og staðsetningu pottahols og það var ekki gott (gera frekar rás að innputholi og hafa pottahol jafn stórt í botni og toppi). Passa rofahol – að staðsetning rofa og gatið á bakinu flútti saman. Þarf að eignast fleiri þvingur áður en ég lími alvöru toppinn á. Gera skapalón fyrir lögun hljóðdósa. Vonandi geri ég svo engin katastrófal mistök við smíði alvöru gítarsins. Ég leysti vandamálið með toppinn – sem við Smári snikkuðum sjálfir úr furunni í æfingaspýtuna – og keypti mér fallegan munstraðan hlyn frá Króatíu. Ég þarf þá ekkert að gera við hann nema að hefla hann úr 7 mm í 6 mm og saga hann í rétta lögun (sennilega í Fab Lab). Annað er ekki að frétta í bili. En svona lítur s.s. mahóníbúturinn út. Þetta er mjög falleg spýta.

Gítarblogg – færsla 3

Mér miðar hægt áfram en það var svo sem alltaf meiningin að drífa sig ekki. Ég er enn ekki kominn með spýturnar sem ég ætla að nota í hinn eiginlega gítar en hef verið að prófa mig áfram með eitt og annað í bílskúrnum. Í fyrsta lagi límdi ég saman tvo bjálka til að prófa styrkleika trélímsins. Þegar límið var þornað barði ég spýtuna með sleggju þar til hún fór í sundur og viti menn – spýtan sjálf gaf sig á undan líminu. Svo notaði ég sniðmátið sem ég prentaði út til þess að gera sniðmát úr spónaplötu. Síðan fór ég í Húsasmiðjuna og náði mér í þriggja metra langan furuplanka. Ég sagaði af honum tvo búta sem mig minnir að hafi verið 45 cm langir og límdi þá saman. Þegar það var þurrt notaði ég sniðmátið til þess að saga út botn á gítarinn sem fer undir topp – ef ég geri þá gítar líka úr þessu, sem er auðvitað bara tilraun og allt úr ódýru drasli og má mistakast – en ég er farinn að gæla við að gera kannski einn svona „lélegan“ alveg frá grunni, háls og pikköpp og allt, ef ekkert fer alveg gersamlega í klessu við þetta – sjáum til. Búkinn sagaði ég með stingsög, af því ég á ekki bandsög. Ég gæti kannski fengið slíka lánaða einhvers staðar en finnst sennilegra að ég sagi einfaldlega út spýturnar í kroppinn í laserskera uppi í Fab Lab eða hverju sem maður notar til að skera út í Fab Lab – það er lokað vegna fæðingarorlofs en ég ætla að kíkja þangað í næstu viku og kynna mér málið. Vandamálið við stingsögina er að blaðið fer ekki lóðrétt í gegn heldur sveigist svo útlínurnar eru ekki alveg eins báðum megin. Þetta tókst merkilega vel en mig grunar líka að það sé auðveldara að eiga við furu en mahóní sapele. Síðan pússaði ég þetta svolítið og fræsti ég fyrir hljómbotni öðrum megin, pottum (stillihnöppum), hljóðdósum (pikköppum), hljóðdósaskipti (3-way switch), jack-innstungu og snúruleiðum. Svo mátaði ég hljóðdósirnar og pottana í þetta. Ég sá fyrir mér að snúran fyrir hljóðdósaskiptin – sem er í pokanum ofan í hljómbotninum – gæti gengið undir hljóðdósirnar. En nú var ég að skoða hvernig þetta er gert í Les Paul gíturum, þar sem takkinn er á sama stað og hérna, og þá er skábraut beint frá takkanum og niður í pottaholið. Sennilega vill maður ekki að snúran sé að rekast utan í neitt. Og nú man ég að mig vantar líka holu úr pottaholinu yfir að brúnni – hvar sem hún nú verður – til þess að festa jarðtenginguna. Tvennu öðru klúðraði ég svolítið. Hálshljóðdósin er of framarlega. Það er full langt á milli hljóðdósanna og það er full lítið pláss til þess að festa boltaháls af staðlaðri stærð. Það skeikar mjög litlu og sennilega gæti ég alveg látið hann halda sér á og ég er búinn að auglýsa eftir einhverjum geymslugarmi sem ég gæti fengið að prófa. En ef ég geri hálsinn líka sjálfur í þetta leikeintak get ég sniðið hann að eigin þörfum. Þá er bara spurning hvort ég smíða líka styrktarteininn í hálsinn eða kaupi. Ég á engin tæki í málmsmíði og enga peninga til að kaupa mér tæki. Hitt er að hljóðdósaholurnar eru of djúpar. Ég gleymdi að hugsa út í að ég á eftir að setja topp á þetta og þá bætast sirka 7 millimetrar ofan á. En það er minnsta málið að sníða spýtu til að líma í botninn svo ég hef ekki óþarflega miklar áhyggjur af því. Næsta skref er að laga þetta aðeins til, pússa og svona. Gera svo toppinn og skoða málin með hálssmíðina.

Gítarblogg – færsla 2

Við komum heim frá Svíþjóð á laugardaginn. Eða – við komum til landsins á föstudag en gistum eina nótt á Dalakoti í Búðardal. Ég notaði gærdaginn til að taka til í bílskúrnum og gera örlitlar tilraunir. Annars vegar æfði ég mig aðeins á stingsögina og hins vegar límdi ég saman nokkra bjálka til að sjá hversu vel trélímið heldur. Það dugði á hausinn á Mola – slædgítarnum – og þau segja mér krakkarnir handan við google-algóritmana að venjulegt trélím eigi að duga til að festa saman spýturnar. En um þetta hafa einhverjir vina minna efasemdir. Ég er búinn að ræða við Smára vin minn um að hjálpa mér að hefla spýturnar í rétta þykkt (hann á s.s. hefil) og hugsanlega fæ ég hann líka til að þverskera hlyntoppinn með mér með borðsöginni. Ég á ekkert nema stingsög og juðara – og er með fræsara í láni. Og þetta er fjári þunn spýta – 6,35 millimetrar. Þá prentaði ég út þetta sniðmát fyrir sniðmátið. Ég klippi þetta sem sagt almennilega út – eða sker eftir útlínunum – og nota síðan til að saga spónaplötu í rétt sniðmát. Mér getur þá mistekist nokkrum sinnum án þess að það sé stórslys. Sennilega byrja ég að vesenast með þetta á eftir. Hugsanlega fer þetta allt í hass og þá verð ég bara að byrja að hugsa þetta upp á nýtt. Ég er aðeins að velta því fyrir mér líka hvort mig langi að stækka boddíið aðeins. Ég ætla líka að prófa að fræsa aðeins pikköppagöt í einhverja afgangsspýtu – og máta Seth Lover pikköpana sem komu með póstinum í dag, ásamt ýmsu öðru smálegu.

Gítarblogg: Færsla 1

Áramótaheitið mitt er að smíða rafmagnsgítar. Það verður ekki sérlega erfitt að halda það, ég iða í skinninu að byrja og mun sennilega njóta þess mjög, en það verður erfitt að gera það vel. Upphaf þessa má rekja til þess að ég sá auglýst námskeið hjá Gunnari Erni gítarsmiði í Iðnskólanum og var farinn að gæla við að skella mér á eitt slíkt – þegar ég áttaði mig á því að ég þyrfti nánast að flytja til Reykjavíkur um hálfan vetur til að það gengi upp. Í staðinn fór ég að kanna hvort ég gæti með nokkru móti lært þetta af bókum, greinum og youtube-myndböndum. Það virðist ekki alveg vonlaust. Ég ætla að kaupa hálsinn – sem er sennilega erfiðasta stigið – en restin er alveg nógu erfið, sérstaklega þegar haft er í huga að ég hef ótrúlega lítið smíðað áður. Eiginlega bara slædgítarinn, sem ég gerði í haust og er frekar hrár og grófur – þótt hann reyndar sándi vel. . Ég er búinn að planleggja ýmislegt og kaupa flesta íhlutina. Eitt af því sem ég brenndi mig á við slædgítarinn var að saga t.d. út fyrir pikköppinum eftir máli af netinu frekar en að bíða bara eftir að hann bærist mér með póstinum. Það borgar sig að hafa þetta allt við hendina. Hálsinn pantaði ég af Warmoth. Bakið er úr Wenge-við sem er oft fallega munstraður en fingraborðið úr Pau Ferro. Upphaflega ætlaði ég að hafa rósavið en það eru alls konar takmarkanir á innflutningi og þótt Warmoth sé með vottun þá er það samt vesen. Fleiri og fleiri gítarsmiðir eru líka farnir að nota Pau Ferro – sem er samt ekki alveg nýr, hann var t.d. notaður í Stratocasterinn hans Stevie Ray Vaughan. Ef það dugði Stevie er það sennilega innan marka fyrir mínar þarfir. Skalalengdin verður Gibson – 24 3/4 þumlungar, fremur breiður (59 roundback með 10/16 þumlunga radíus). Stór bönd og graphtech-hneta. Útlitið tekur mið af Italia Maranello ’61 – þetta þykir mér alveg fáránlega fallegur gítar. Minn gítar verður sennilega ekki jafn fallegur – en ég ætla samt að reyna að vanda mig og gera hann eins fallegan og mínum klaufalegu höndum er unnt. Búkurinn verður úr tveimur spýtum og hálfkassi – eða eiginlega kvart-kassi, bara opið inn að ofan. Skrokkurinn sjálfur úr mahónívið en svo ofan á því þunnur hlyntoppur. Hálsinn er með rjómalitri líningu og það verður líka rjómalituð líning á búknum – ég vona bara að ég fái líningu í alveg sama lit. Það verður 3-way switch – staðsettur svipað og á Les Paul, ekki einsog á Maranello ’61 – og einn hnappur fyrir tón og annar fyrir hljóðstyrk, báðir silfurlitaðir. Ég gældi við að hafa gulllitaðan búnað en verðið hækkar svolítið óþarflega mikið við það – og krómið er flott. Pottarnir (sem stýra hljóði og tón) eru CTS 500K og pikköpparnir eru Seth Lover humbökkerar frá Seymour Duncan. Læsanlegar Grover stilliskrúfur. Og já, það verður Bigsby-sveif á honum og þá tune-o-matic brú, sem þýðir væntanlega að ég þurfi að sveigja hálsinn aðeins aftur. Eða réttara sagt gera vasann fyrir hálsinn aflíðandi (Maranello er reyndar með „set-neck“ sem gengur inn í búkinn – en ég er með minn boltaðan á). Sennilega fræsi ég samt vasann flatann og set síðan svokallað skífu á milli háls og búks til að ná réttum halla. Þá get ég líka verið með nokkrar ólíkar skífur og miðað við hvað ég þarf – ef ég fræsi vitlaust sit ég uppi með vondan halla. Ég á eftir að leysa fáein hönnunaratriði. Til dæmis veit ég ekki hvernig ég hanna eða kaupi góða plötu framan á hann – scratchplate. Ég veit heldur ekki alveg hvað ég vil hafa hann þykkan. Ég ætla að byrja á því að gera prufu úr einhverjum draslvið og kannski ákveð ég það bara þegar hún er tilbúin. Ég ætla svo að reyna að dokumentera ferlið hérna. Það skal tekið fram að ekkert af því sem ég geri er ekki endilega til eftirbreytni – þetta er ekki kennslublogg og ég geri ráð fyrir því að gera ótrúlega mörg skelfileg mistök og jafnvel þurfa að byrja oftar en einu sinni eða tvisvar alveg upp á nýtt. Ég ætla að gefa mér árið í þetta en vonandi næ ég að gera fúnksjónal – ómálað og frágengið – eintak áður en við förum til Hondúras í sumar, þar sem við verðum í alveg tvo mánuði og þá verður eðli málsins samkvæmt hlé á vinnunni. Ég hef auðvitað bara 1-2 tíma í þetta á góðum degi, og svo eitthvað aðeins meira á helgum. Já og svo er ég með nýja skáldsögu í hausnum – maður veit aldrei með svoleiðis, þær eiga það til að éta upp ansi mikið meira en bara 9-5 skrifstofutíma. En ég ætla líka að reyna að skrifa svolítið rólegar í ár. Ábendingar og ráðleggingar (um gítarinn, ekki skáldsöguna) eru gríðarlega vel þegnar. Ég veð þetta voða mikið í myrkri, kann ekkert og veit ekkert.

Untitled

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann minn. Ég er í Malmö. Les upp á Inkonst í kvöld, úr Óratorrek/Oralorium, og svo er útgáfuhóf á morgun. Ég gisti hjá vinum mínum Alex og Josef og við Alex drukkum kannski aðeins meira viskí í gær en góðu hófi gegnir og ég hef verið dálítið einsog draugur á ráfi um borgina í dag. Hugmyndin var að ná að leysa síðustu jólagjafagáturnar en þær eru enn óleystar og ég þarf að fara að gíra mig upp í kvöldið. Ég segi ekki að ég sé alveg skilinn við jólabókaflóðið, það eru nokkrir dagar eftir, en ég er allavega ekki að fara að lesa neitt meira upp. Ég er búinn að fá ágætis dóma í Fréttablaðinu, Víðsjá og Mogganum – á miðvikudag er síðasti séns til að fá umsögn í Kiljunni fyrir jól. Annað er sennilega ekki í boði – DV birtir að vísu einstaka dóm – og jú svo er eitt og annað sem gerist á samfélagsmiðlum. Skáld.is birtir bara dóma um bækur kvenna, Starafugl birtir sennilega ekki neina dóma um mínar bækur (en það er að vísu alveg úr mínum höndum – ég kem hvergi nálægt skáldsagnadómum), Stundin er ekki með neitt bókablað einsog hefur stundum verið, Kvennablaðið hefur engan dóm birt – jú, það gæti reyndar birst dómur á Bókmenntavefnum, þar hefur verið gott tempó síðustu vikurnar. Þar birtist líka langáhugaverðasti dómurinn um Illsku á sínum tíma og bara einn besti dómur sem sú bók hefur fengið – á löngu ferðalagi til margra landa. En almennt hallar undan fæti í gagnrýni og hefur gert lengi – það eru ekki nema örfáir sem sinna henni einsog fagi og með því hverfur hin krítíska vídd úr bókmenntunum og eftir situr metsölulista-idolið sem helsti mælikvarðinn á virði bóka. Í dag er reyndar „recensionsdag“ fyrir Óratorrek í Svíþjóð en það er sennilega liðin tíð að maður fái fullt af dómum þann dag. Sérstaklega fyrir ljóðabók. En ég fékk einn mjög fínan dóm í tímariti Bókasafnsfræðinga í síðustu viku og áttaði mig þá á að sennilega fékk ég bara aldrei neinn eiginlegan dóm um Óratorrek á Íslandi. Hún var valin meðal bóka ársins á Rás 2 og fékk svo Menningarverðlaun DV – svo það eru til stuttar umsagnir/lýsingar í tengslum við það, en ég held ég muni það rétt að hún hafi bara ekki verið ritdæmd. Það er rosa skrítið – og stór breyting frá því ég gaf út Heimsendapestir, alls óþekktur 24 ára lúði frá Ísafirði, og fékk 5-6 umsagnir í öllum helstu blöðum og í útvarpi. Það var líka skrítið að bíða eftir að fá einhvern dóm fyrir Hans Blævi. Ég held það hafi tekið sjö vikur – svo duttu þeir inn þrír í röð. Það var hreinlega mjög óþægilegt, fannst mér. Ég lýsti því einhvern veginn þannig við Nödju að fyrst hefði mér liðið einsog vonbiðli sem fær ekki svar – óskabrúðurin hefði brugðið sér á klósettið og ég stæði fyrir utan vikum saman og  væri farið að gruna að hún hefði bara flúið út um gluggann. Undir restina var þetta svo farið að vera meira einsog að vakna eftir epískt blakkát, fjölskyldan öll fjarverandi, og undarleg þögn alls staðar – enginn svarar í síma – og maður bíður þess bara að fá fregnir af því hvað maður hafi gert af sér kvöldið áður. Dómarnir eiga það allir sameiginlegt annars að vera bærilega jákvæðir en bera þess merki að gagnrýnendur hafa þurft að slást svolítið við bókina og þær spurningar sem hún vekur. Ég get ekki kvartað undan því – ég held það sé bara alveg sanngjarnt mat og sennilega þarf hún, einsog Gauti Kristmanns bendir á í Víðsjárdómnum, svolítinn tíma til að setjast – meira rými en gefst í einu svona sölukapphlaupi einsog jólabókaflóðinu. Þegar við Öddi tókum upp hljóðbókina sagði ég við hann að ég væri nógu ánægður með verkið til þess að það skipti mig eiginlega engu hverjar viðtökurnar væru. Það er auðvitað ekki alveg satt – mér fannst erfitt að fá litlar sem engar viðtökur þarna fyrst og þykir mjög vænt um að hún sé farin af stað. Og einhver hluti af mér tekur alltaf mark á því hver almennur dómur sé og jafnvel skilningssljóustu gagnrýni – bókmenntir eru samskiptaform og það skiptir ekki bara máli hvað maður segir, það þarf líka að komast til skila og skiljast. En ég er líka aftur lentur á þessum sama stað og þegar bókin var að koma út – að vera bara rosa ánægður með sjálfan mig og verkið og sannfærður um að það muni njóta sannmælis þegar það er skoðað almennilega. En þetta er þá síðasta færslan sem er merkt Hans Blævi, held ég – a.m.k. í bili. Ég var eitthvað að hóta því að breyta þessu í gítarblogg á nýju ári – jafnvel bara milli jóla og nýárs ef ég verð eitthvað eirðarlaus. Við eyðum jólunum í smábænum Rejmyre hjá systur Nödju og verðum svo í Helsinki um áramót. Minnir að flugið heim sé svo 4. janúar og við komumst vonandi fljótt vestur.

Untitled

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri engan hallmæla neinum bókum og heyri bara almennt enga velta því fyrir sér hvort það sé eitthvað sem maður verði að lesa og hvort það sé eitthvað sem maður ætti að forðast og ég heyri engan spyrja annan hvað hann eða hún eða hán hafi lesið eða fyrir hverju hann eða hún eða hán sé spennt. Og ég fór að velta því fyrir mér hvort það væri vegna þess að það birtast svo fáir dómar og hvernig maður eiginlega viðhaldi spenningi. Ég held það sé ekkert að bókunum sem eru að koma út – sannarlega margir fyrirtaks höfundar. Ég var að lesa How Music Works eftir David Byrne – hún er mjög góð, sérstaklega fyrri helmingurinn – og hann eyðir góðum skerfi í að velta fyrir sér þessu hvernig maður byggi tónlistarsenu, hvers sé þörf. Aðalatriðið er að eiga sér einhvers konar senu – steinsteypu – félagsmiðstöð. Stað þar sem hægt sé að hanga, hvert maður getur farið og búist við að hitta kunningja sína og sjá eitthvað áhugavert. Fyrir hann og hans kynslóð var þetta CBGB. Það var ekki nóg með að þar væri auðsótt að fá að spila heldur gat maður skrapað saman smápeningum fyrir spilamennskuna – hljómsveitin fékk aðgangseyrinn, sem var að sönnu ekki hár, og hljómsveitir sem höfðust við á CBGB fengu frítt inn hver hjá annarri (það var húsregla) sem þýddi að það var alltaf talsvert af fólki. Og staðurinn reyndar mjög lítill líka. Efnahagslegar forsendur voru síðan þannig að allt þurfti að vera ódýrt – hljómsveitir bjuggu saman á Bowery, þar sem leigan var lág og lifðu á litlu, og fóru ekki endilega mikið út fyrir hverfið (og þá helst út úr borginni til að spila annars staðar). Tónlistarmennirnir á CBGB voru svo, að sögn Byrne, afar ólíkir innbyrðis en áttu það þó sameiginlegt að skilgreina sig sem „eitthvað annað“ en það sem þótti gjaldgengt og fínt víðast hvar. Þeir voru óvinsælir, prinsippfastir, sérsinna og erfiðir og fyrst og fremst voru þeir EKKI það sem var í útvarpinu. Ég veit ekki hvernig maður yfirfærir þetta á bókmenntirnar nema til að nefna að eigi þær – eða bókmenningin, réttara sagt – að blómstra þarf að vera samfélag og helst fleira en eitt samfélag og eitthvað af aukasamfélögunum þarf að skilgreina sig í andstöðu. Sú litla andstaða eða núningur sem verið hefur í íslenskum bókmenntum síðustu misserin snýst um einhvern tittlingaskít milli ungskálda – strætóskálda og spíttskálda. Miðjan er alltaf eins – það eru enn sömu höfundar í brennidepli og þegar ég var ungskáld (með kannski stöku undantekningu(m)). En verst er samt alltaf rýnin. Þegar Starafugl var settur á fót fyrir tæpum fimm árum síðan var tekin sú ákvörðun að leggja enga sérstaka áherslu á nýjar íslenskar skáldsögur – vegna þess að vistkerfi þeirra þótti bærilega hresst. Við lögðum og leggjum áherslu á þýddar skáldsögur, gamlar skáldsögur o.s.frv. (þótt að vísu sér erfiðara að koma þeim út). En svo er einsog þetta hafi snarversnað. Nú birtist bara frekar lítið af rýni í dagblöðunum; Víðsjá rýnir bara í eina og eina bók, Bók vikunnar er venjulega gömul bók – það er helst að bókmenntavefur Borgarbókasafnsins sinni þessu af einhverju viti. Fyrir utan auðvitað Kiljuna með sínum augljósu tímatakmörkunum og spjallformatti. Þetta smitar síðan út frá sér. Ég ætla ekki að halda því fram að það sé engin stemning á svæðinu í kringum Laugaveg 18 – það hlýtur eiginlega að vera, endalaus útgáfuhóf og hittingar – en við sem ekki þrömmum þar á milli finnum lítið fyrir því. Það er sosum ágætt að gera ráð fyrir líka að maður sé bara í einhverri bólu og verði ekki jafn var við heiminn og maður ætti að verða. Eða þetta sé bara allt orðið svo kunnuglegt að maður taki ekki eftir neinu. Maður sé lífsleiður af miðöldrun. *** En ég ætlaði reyndar ekki að fara að röfla þetta. Sennilega ræður maður ekkert við sig. Óþolið og óþolinmæðin að drepa mann. Það er nærri því mánuður frá því Hans Blær kom út og ég hef ekki heyrt píp. Viðbrögðin eru nær bókstaflega engin. Það sem ég ætlaði að gera var að nefna hvað ég hef lesið og fyrir hverju ég er spenntur og reyna að peppa mig svolítið upp. Ég er búinn að lesa ljóðabók Hauks Ingvarssonar, Vistarverur , og skáldsögu Þórdísar Gísladóttur,  Horfið ekki í ljósið . Þær eru báðar mjög góðar og meðmælast hart. Ég er spenntur fyrir Fríðu Ísberg, Friðgeiri Einarssyni og Jónasi Reyni og báðum dætrum Einars Kárasonar, Júlíu Margréti og Kamillu, og raunar Einari líka sem ég sleppti þegar hún kom út í vor. Eða missti af. Eða hvað maður segir um bækur sem maður les ekki. Já og Offa og Auði og Þórdísi Helga og Halldóru og Rúnari Helga, sem er að skrifa um Ísafjörð. Einu sinni gerði ég mér alltaf far um að lesa slatta – alla helstu póstana og meira – í jólabókaflóðinu til að vera viðræðuhæfur. Svo man ég eftir að finnast það bara íþyngjandi, eitthvert árið, að  þurfa að lesa þetta allt og þar með taldar alls konar bækur sem mér fannst í raun ekkert skemmtilegar, bara af því allir aðrir voru að lesa þær og vilji maður  vera með þarf maður að lesa það sem hinir eru að lesa (og hinir eru svo kannski bara að lesa bækurnar vegna þess að maður er sjálfur að lesa þær). Í nokkur ár hef ég meira og minna alveg skrópað í jólabókaflóðinu – meira að segja bækur vina minna hef ég ekki lesið fyrren kannski „ári of seint“ (þetta jólabókaflóðsskróp mitt var kannski líka hljóðlát mótmæli við þeim lífsins gangi að bækur séu marklausar og horfnar frá og með nýársdegi). En nú ætla ég sem sagt að taka mig taki og fara að lesa jólabókaflóðið – en reyna að takmarka mig við þær bækur sem ég hef raunverulegan áhuga á, þótt það kannski þýði ekki að ég verði viðræðuhæfur. Ég verð þá bara að vera óviðræðuhæfur. En ég verð allavega rosa vel stemmdur og í góðum fíling.

Tilvitnun vikunnar

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordinary pressures of ethical life, a fantasy of sharing with the gods the greatest, stressless pleasure. This is a fantasy that carries within it an experience of lack, an experience of being at a distance from this wonderful goal. It is a fantasy of release which helps us organize and direct our ordinary practical lives. Those who know most about human life know that what is best is to organize life so as to escape its ordinary conditions – even the conditions of excellence within it. What is best about being human is the opportunity to break out of being human. Or: to be most human is to break out of the ordinary conditions of human life. Jonathan Lear – Happiness, Death, and the Remainder of Life.

Untitled

Það er ekki mánudagur, einsog þið hafið tekið eftir, en ég var vant við látinn á mánudaginn og gat ekki skrifað neitt – Starafugl gekk fyrir þær fáu fríu mínútur sem ég átti. *** Nefndi ég það ekki einhvern tíma hérna að einn flokkurinn á gömlu heimasíðu Nýhils hét „Mánudagur“ og þar var bara allt sem átti ekki heima annars staðar, aðallega greinar minnir mig. Þeir mánudagar birtust bara hvenær sem er. *** Frá því síðast hefur heldur ekkert gerst. Ekki nokkur skapaður hlutur. Að minnsta kosti ekki sem viðkemur Hans Blævi. *** Ojæja, það eru ýkjur. Ég las upp á Bókakonfekti Forlagsins – á leiðinni til Tromsø – og fékk eitt aðdáendabréf. Og hef þurft að útskýra fyrir ótrúlega mörgum ólíkum formönnum félagasamtaka að ég búi ekki á höfuðborgarsvæðinu og geti ekki komið og lesið upp (oftast fyrir engan pening) nema sé annað hvort fyrir tilviljun í nágrenninu eða einhver geti lagt út fyrir ferðalögum og gistingu. Það kom meira að segja Ísfirðingafélaginu í Reykjavík á óvart að ég byggi á Ísafirði. Hver býr eiginlega á Ísafirði? *** Ég er pirraður og vansæll. Helvítis jólabókaflóð. Helvítis haust. Helvítis myrkur og kuldi. Ég þarf að fá mér aðra vinnu einhvers staðar í heitu löndunum. *** Ég verð samt á Opinni bók í Edinborgarhúsinu á laugardag, í góðum félagsskap. Og kem við á suðurfjörðunum á leiðinni heim frá Króatíu í byrjun næsta mánaðar. Annað er ekki í spilunum. *** Sennilega er ég líka bara ferðalúinn. Tromsø er nú bara í Noregi en ég þurfti auðvitað að keyra suður fyrst, sofa eina nótt í Keflavík, millilenda síðan í Osló á leiðinni þangað – og í Bodø, Þrándheimi og Kaupmannahöfn á heimleiðinni – gista aftur í Keflavík, keyra svo til Akureyrar í viðtal (ótengt bókinni) og heim. Nærri því 13 klst í loftinu og 1600 km í bíl. Svo gekk ég líka upp á fjall í Tromsø í einhverjum óskiljanlegum fíflagangi. *** Ég er byrjaður að smíða hillu undir Hans Blævar bækurnar. Hugsanlega verður hún nógu stór fyrir Illskubækurnar líka. Þá losna ég við þetta af skrifborðinu og rými aðeins til í hinni hillunni.

Tilvitnun vikunnar

My father never attended a service at the lone synagogue in Yorktown heights. He did, though, pay a call on its offices one day in 1976 – to see if the young rabbi could stop my mother from seeking divorce. “And you know what he said?“ my father asked me as we were sitting in front of her computer. We had been looking at photographs of Hungarian cathedrals. “Waaall, Mr. Faludi“ – my father delivered the rabbi’s remarks in a high-pitched register – “in modern Judaism divorce is something that has to be considered.“ Whenever my father got on the subject of Jewish male authorities she’d encountered – whether American Reform rabbis or Orthodox caftan wearers or wartime Judenrat representatives – her impersonations turned mincing.
One summer afternoon when we had taken our coffee to the deck, my father went into yet another of her mocking imitations of the Budapest Jewish community elders who wouldn’t help her reclaim the family property after her return to Hungary. “Oh, we can’t  do anything, Mr. Faludi,“ she said, channeling Minnie Mouse. “We have to make  nice with the authorities.“ My father was wearing a rosebud-print housecoat and bedroom slippers – “my hausfrau outfit“, she called it – which only heightened the contradictions. Here was a Jewish man-turned-woman making fun of Jewish men for not being manly enough. In the Darkroom – Susan Faludi