Mér miðar hægt áfram en það var svo sem alltaf meiningin að drífa sig ekki. Ég er enn ekki kominn með spýturnar sem ég ætla að nota í hinn eiginlega gítar en hef verið að prófa mig áfram með eitt og annað í bílskúrnum. Í fyrsta lagi límdi ég saman tvo bjálka til að prófa styrkleika trélímsins. Þegar límið var þornað barði ég spýtuna með sleggju þar til hún fór í sundur og viti menn – spýtan sjálf gaf sig á undan líminu. Svo notaði ég sniðmátið sem ég prentaði út til þess að gera sniðmát úr spónaplötu. Síðan fór ég í Húsasmiðjuna og náði mér í þriggja metra langan furuplanka. Ég sagaði af honum tvo búta sem mig minnir að hafi verið 45 cm langir og límdi þá saman. Þegar það var þurrt notaði ég sniðmátið til þess að saga út botn á gítarinn sem fer undir topp – ef ég geri þá gítar líka úr þessu, sem er auðvitað bara tilraun og allt úr ódýru drasli og má mistakast – en ég er farinn að gæla við að gera kannski einn svona „lélegan“ alveg frá grunni, háls og pikköpp og allt, ef ekkert fer alveg gersamlega í klessu við þetta – sjáum til. Búkinn sagaði ég með stingsög, af því ég á ekki bandsög. Ég gæti kannski fengið slíka lánaða einhvers staðar en finnst sennilegra að ég sagi einfaldlega út spýturnar í kroppinn í laserskera uppi í Fab Lab eða hverju sem maður notar til að skera út í Fab Lab – það er lokað vegna fæðingarorlofs en ég ætla að kíkja þangað í næstu viku og kynna mér málið. Vandamálið við stingsögina er að blaðið fer ekki lóðrétt í gegn heldur sveigist svo útlínurnar eru ekki alveg eins báðum megin. Þetta tókst merkilega vel en mig grunar líka að það sé auðveldara að eiga við furu en mahóní sapele. Síðan pússaði ég þetta svolítið og fræsti ég fyrir hljómbotni öðrum megin, pottum (stillihnöppum), hljóðdósum (pikköppum), hljóðdósaskipti (3-way switch), jack-innstungu og snúruleiðum. Svo mátaði ég hljóðdósirnar og pottana í þetta. Ég sá fyrir mér að snúran fyrir hljóðdósaskiptin – sem er í pokanum ofan í hljómbotninum – gæti gengið undir hljóðdósirnar. En nú var ég að skoða hvernig þetta er gert í Les Paul gíturum, þar sem takkinn er á sama stað og hérna, og þá er skábraut beint frá takkanum og niður í pottaholið. Sennilega vill maður ekki að snúran sé að rekast utan í neitt. Og nú man ég að mig vantar líka holu úr pottaholinu yfir að brúnni – hvar sem hún nú verður – til þess að festa jarðtenginguna. Tvennu öðru klúðraði ég svolítið. Hálshljóðdósin er of framarlega. Það er full langt á milli hljóðdósanna og það er full lítið pláss til þess að festa boltaháls af staðlaðri stærð. Það skeikar mjög litlu og sennilega gæti ég alveg látið hann halda sér á og ég er búinn að auglýsa eftir einhverjum geymslugarmi sem ég gæti fengið að prófa. En ef ég geri hálsinn líka sjálfur í þetta leikeintak get ég sniðið hann að eigin þörfum. Þá er bara spurning hvort ég smíða líka styrktarteininn í hálsinn eða kaupi. Ég á engin tæki í málmsmíði og enga peninga til að kaupa mér tæki. Hitt er að hljóðdósaholurnar eru of djúpar. Ég gleymdi að hugsa út í að ég á eftir að setja topp á þetta og þá bætast sirka 7 millimetrar ofan á. En það er minnsta málið að sníða spýtu til að líma í botninn svo ég hef ekki óþarflega miklar áhyggjur af því. Næsta skref er að laga þetta aðeins til, pússa og svona. Gera svo toppinn og skoða málin með hálssmíðina.