Untitled

Leifsstöð. Ég svaf í þrjá tíma. Börnin í þrjá og hálfan. Nadja sama og ekki neitt, skilst mér. *** Ég er að reyna að ákveða hvort ég geti lifað án þess að eiga Apple Watch. Mér sem er illt í hnénu og get líklega ekkert hlaupið næstu daga. *** Í gær hittum við franska sendiherrann. Hann átti erindi við Nödju en var áhugasamur um að hitta mig líka. Ásamt menningarfulltrúa frá Alliance Francaise og þriðja sendiráðsstarfsmanni. Of mikið af samtalinu fór fram á frönsku. Fólk er almennt hryllilegt með að skilja aðra út undan með tungumálamúrum. Ég reyni að taka því vel en stundum gengur það allhressilega á þolinmæði mína. Í gær var ég farinn að hanga bara í símanum á meðan hinir töluðu saman. Og það var alveg ljóst, fannst mér, að öllum fannst ég vera sá dónalegi. *** Við fórum líka í sveitina til Maju systur. Hún er alveg að verða sjálfbær, held ég hreinlega. Leysti mig út með alls kyns heimalöguðu heimaræktuðu marmelaði og bbq-sósum og chilimauki. Ég stakk því í farangurinn og ætla að njóta þess í allt sumar. *** Það gengur hægt að lesa Kaputt. En vel. Þetta er alvöru bók. Dokument sem er líka skáldskapur. Myndi prýða sér vel í skáldævisagnaæðinu. *** Talandi um það er ég fyrir lifandis löngu kominn með leið á Knausgaard og liggur við að mér sé skítsama á hvaða tungumáli hann talar. Almennt er heimsborgarabragur á að ræða við fólk á eigin tungumáli og heimóttarskapur að gera það á amrísku. Og ástæðan fyrir því að færri og færri skilja talaða skandinavísku er að við heyrum hana sjaldnar og sjaldnar. *** Öðru máli gegnir um persónuleg samskipti, vel að merkja. Það er full ástæða til þess að reyna að hafa þau á jafningjagrundvelli – frekar en á blandinavísku nýlenduherranna. Og ég hef verið talsmaður enskunnar í norrænu samstarfi, ekki síst vegna Íslendinga og Finna, sem annars eru aldrei fullgildir meðlimir.

Untitled

Svo til allt komið í bílinn. Vantar eiginlega bara farþegana. Við erum að bíða eftir að þvottavélin klári prógramið. Tuttugu mínútur í mesta lagi. Fullur tankur á bílnum. En kannski maður sé svolítið úttaugaður. Það verður gott að komast af stað.

Untitled

Við erum að verða búin að ganga frá heimilinu. Sjökvist, heitir það, þetta hús. Og bráðum fer það í útleigu. Fyrstu gestirnir eru eldri sænskir herramenn sem eru fæddir hér og bjuggu fram á unglingsaldur. Þeir eru að koma með pabba sínum. Heim, segja þeir, eru glaðir að vera á leiðinni heim. *** Í gærkvöldi héldum við Jónsmessu. Sill och potatis. Jordgubbar og grädde í eftirrétt. Mamma og pabbi komu. Svo fór Nadja á djammið og ég lagði Aram. Raunar kom svo hópur af vinum óvænt í smá heimsókn – Jón Bjarni Atlason, þýðandi og bókmenntamaður, Ólafur Guðsteinn íslenskukennari, skáld, pönkari og kántrístjarna og Helga Þórsdóttir, menningarfræðingur og byggðasafnsstjóri. Þau hjálpuðu mér að klára bjórinn sem var eftir í húsinu og hefði annars bara orðið túristunum að bráð. *** Í dag fór ég líka í kaffi til Baldurs Smára æskuvinar míns og fjölskyldu hans. Sólin er loksins komin eftir sannarlega ömurlega daga upp á síðkastið og við sátum í garðinum og spjölluðum. Svo leystu þau mig út með heljarinnar myntublómi sem ég gróðurset hér hjá mér. Þá verður nóg af myntu þegar við komum aftur. *** Og talandi um vini þá er Haukur Már 39 ára í dag. Mánudaginn, sumsé. Margfaldlega, þráfaldlega húrra fyrir því!

Untitled

Ég var nývaknaður að drekka morgunkaffið mitt þennan laugardag þegar ég rakst á eftirfarandi spurningalista hjá ónefndum dönskum forleggjara af íslenskum ættum, yo, og hugsaði að nú væri ég ekki á Facebook og því tilvalið að taka þátt í því sem nútildags heitir „Facebookleikur“, þótt hann væri bara svona á bloggi. Í fornöld gerðist allt sem skipti máli á blogginu. *** Í öllu falli: Hvaða bækur liggja á náttborðinu þínu? Kaputt eftir Malaparte. Stóri skjálfti eftir Auði Jóns. Orðspor eftir Juan Gabriel Vasquez. Þær tvær síðastnefndu bara af því ég á eftir að fjarlægja þær. Á klósettinu er Flarf: Anthology og á skrifstofunni – eða það sem var í lestri á skrifstofunni þar til ég tók til í gær og pakkaði saman – var Ég er ekki að rétta upp hönd eftir fjölda höfunda, Ég er hér eftir Soffíu Bjarnadóttur og Sprungur eftir Jón Örn Loðmfjörð. Þær eru allar „í lestri“ og eiga því heima hér. Á hillunni í lestrarhorninu okkar Arams og Ainoar er svo Mómó og sægur af myndabókum. Hvenær lastu síðast bók sem þér fannst frábær? Og hvaða bók var það? Mér finnst bækur oft vera frábærar. Ég las Manntafl í fyrsta skipti nýlega og var uppnuminn – ekki síst af frásagnartækninni, sem hljómar nördalegar en ég meina það. Frásagnarlistinni. The Left Hand of Darkness náði mér líka nýlega. Hvað ræður því hvaða bók þú ákveður að lesa. Ritdómar, meðmæli frá vini eða eitthvað annað sem vekur forvitni? Meðmæli skipta oft miklu. Ritdómum fletti ég oft upp þegar ég er að spá í hvort ég eigi að lesa a, b eða c næst. Ég les þá líka í rauntíma – þegar blöðin koma – en ég les yfirleitt ekki bækur sem eru í deiglunni. Gef þeim 1-2 ár og helst meira. Oft bý ég mér til reglu. Bara víetnamskar bækur. Bara bækur eftir konur. Bara pólitískar skáldsögur. Bara ljóð eftir útlensk skáld. Bara kanónu. Bara skáldsögur eftir vini mína. Þetta er mjög arbítrari og í raun fyrst og fremst til að skapa fyrsta filter – svo það sé minna úrval og minni valkvíði. Hvaða starfandi rithöfund – leikskáld, blaðamann, ljóðskáld, gagnrýnenda – dáir þú mest. Sennilega er það Coetzee. Hann er brjálæðislega hugrakkur. Starir niður heiminn. Ég dáist almennt að blaðamönnum og gagnrýnendum en stéttin sem slík má muna sinn fífil fegurri – fagurfræði krítíkunnar er alltof seif í dag. Of mikil og of ódýr greining á kostnað samræðu um listina og  mats (og þá er ég ekki að tala um stjörnugjöf). Af starfandi ljóðskáldum finn ég mig líklega enn mest í UKON. En svo víða líka – ljóðlistin er svo brjálæðislega stór og stundum finnur maður sig svo mikið í litlu. Lína hér og lína þar og maður er aldrei samur. Hvenær er best að lesa? Það er best að lesa á morgnana eftir að Aram er farinn í skólann og þar til að Aino vaknar. Þetta geri ég reyndar bara þegar Nadja er ekki í bænum. En sem sagt betra að lesa á morgnana en kvöldin og best að lesa þegar maður er einn í heiminum og búinn að sofa úr sér áhyggjurnar. Þetta er svona hálftími til klukkutími og stundum bara fimm mínútur, en þarna er skerpan mest, kollinn skýrastur. Ég les samt mest á kvöldin í rúminu. Það er ömurlegur tími til að lesa. Hver er eftirminnilegast bókagjöf sem þú hefur fengið? Steinar Bragi gaf mér Ytri höfnina eftir Braga Ólafsson áritaða til Dags Sigurðarsonar í afmælisgjöf einu sinni. Sennilega þrítugs. Af einhverju hybris krotaði ég í hana með ljótu rithöndinni minni (Bragi skrifar fallega) að þetta hefði Steinar gefið mér. Sennilega talaði ég m.a.s. um mig í þriðju persónu. Frá Steinari Braga til Eiríks Arnar. Maður getur verið svo mikið fífl. En bókin er samt enn falleg. Nadja gaf mér líka afskaplega fallega bók einu sinni með ljóðum ungverskra skálda. Amma mín gaf mér þrjú jól í röð – þegar ég var 8, 9 og 10 ára – Þúsund og eina nótt í þremur bindum. Ekkert þeirra entist mér nema fram að áramótum. Hvaða bókmenntapersóna er í mestu uppáhaldi? Raskolnikov er kannski ekki í uppáhaldi – hann er ekki þannig fígúra, honum er náttúrulega vorkunn þegar manni ber ekki beinlínis skylda til að hata hann. En hann á eitthvað í mér. Woland líka. Lukku-Láki. Sjerasade. Orlando. O.s.frv. Annars finnst mér bara einsog ég sé að skilja mitt eigið fólk út undan – svara spurningunni um hvaða börn annarra ég elski mest. Af mínum er það Agnes, Halldór og Þrándur. Mér finnst alltaf erfitt að hafa skilið þau eftir. Hvers konar lesandi varstu sem barn? Sjá þetta með Þúsund og eina nótt. Ég las margfalt hraðar sem barn en ég geri í dag. Og margfalt meira. Ég las allt. Ég var sjúkur í bækur. Alveg þar til ég varð svona tólf ára og missti áhugann. Var síðan erkitýpískur unglingsstrákur sem allir hafa áhyggjur af vegna þess að hann vill bara vera í tölvuleikjum og á hjólabretti eða safna hári og spila á gítar. Datt svo um Allen Ginsberg og Dostójevskí þegar ég var 16-17 ára – í gegnum Bjarna Þór, vin minn – og uppgötvaði bókmenntir alveg upp á nýtt. Eiginlega var það allt annar heimur en sá sem ég hafði verið í sem barn. Ég las að vísu líka mjög mikið í menntaskóla – skrópaði mig út úr mörgum áföngum og var fimm ár að klára því ég fékk aldrei að taka próf  vegna mætingar (af því ég var ýmist á Café Castro eða bókasafninu að lesa). En ég las hægar og öðruvísi og það hafði annars konar áhrif á mig, sem ég er ekki viss um að ég sé nógu þroskaður enn til að koma í orð. *** Einhverjar fleiri spurningar? *** Bubbi stóð annars fyrir sínu í gær. Þeir Viktor komu og sátu með okkur Nödju í kvöldmatnum á Edinborg bistró – balkanska kjötlokan, sem er ný á matseðli, í boði króatíska kokksins sem heitir víst Amir, var hreinasta dásemd. Um þetta vorum við Bubbi sammála, hann hafði fengið sér hana í hádeginu held ég. Annars töluðum við mest um Slash – sem okkur finnst líka dásemd – og Forbes-aðalinn sem Bubbi er kominn af. *** Bubba varð tíðrætt um að hann væri að leita að einhverju organísku í tónlist og gítarstílinn á Túngumál. Hann slær strengina með berum þumli sem gefur tónlistinni sérstakan blæ. Mjúkur þumallinn á niðurleiðinni og nöglin strýkst við á uppleiðinni. Nadja segir að svona spili allir í Indonesíu (þar sem hún hefur svolítið verið); Bubbi talaði um suður Ameríku. Platan er frábær, einsog ég hef minnst á, en einhvern veginn finnst mér einsog þessi tónlist hafi verið gerð til að hún sé flutt á tónleikum. Af Bubba einum, í litlum sal – helst bara með áhorfendur í fanginu. Enda er það leitin sem ég held að Bubbi sé að tala um. Nándin og hið lífræna – ekki að það skorti neitt á sjóið eða performansinn eða tæknina, heldur er þetta samruni. *** Ég veit annars ekki hvort það eru andstæður að vera berskjaldaður og þrautþjálfaður. En það er í það minnsta mjög falleg spenna og góður kontrast. Bubbi er kóngurinn.

Untitled

Ég er þreyttur og ég er með höfuðverk. Ég er búinn að taka til á skrifstofunni – í dag var síðasti vinnudagurinn hér í bili. Sit og bíð eftir að Jói hjá DIGIFILM færi Óratorreksupplestrana mína yfir á USB-lykil svo ég geti farið heim. Ég var á leiðinni út um dyrnar þegar ég fattaði að ég átti eftir að fá afrit. Þeir verða annars spilaðir í menningarþættinum Tengivagninn í sumar, sem tekur við af Lestinni þegar hún fer í sumarfrí. *** Nú kom þetta. Ég ætla að elda kvöldmat með Aram í kvöld. Það er nýtt átaksverkefni. Kenna barninu að laga mat. ***

Untitled

„Sársaukinn byggði brú / milli okkar sem vígðumst eldi“. Bubbi Morthens –   Tunga svipunnar *** Ég er að fara á Bubbatónleika í kvöld og hef verið að hlusta á plötuna. Muy bueno. Við Nadja ætlum að taka mömmu og pabba með okkur. Þetta verður stuð. *** Asli Erdogan hefur fengið ferðafrelsið aftur. Hún getur yfirgefið Tyrkland. Sagan segir að hún hafi á sínum tíma átt að verða ICORN-höfundur í Reykjavík en afþakkað sökum veðráttu. Það var áður en henni var hent í fangelsi, eftir valdaránstilraunina í fyrra. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það, vel að merkja. Ég hef aldrei hitt hana sjálfa en við eigum sameiginlega vini og ég hitti einu sinni mömmu hennar. Og ég hef ekki spurt neina vini hennar út í þessa sögusögn. En einsog ég nefndi í vikunni og eru svo sem ekki ný sannindi, þá eru sögur ekkert verri þótt þær séu haugalygi. *** Í öllu falli fögnum við ferðafrelsi Asli Erdogan. Nú vantar bara að kærurnar gegn henni – sem snúast að mig minnir um almennan andróður gegn tyrkneskri fósturjörð (les: Erdogan forseta, sem er vel að merkja ekki skyldur henni) – verði felldar niður. *** Áður en við förum á Bubba ætlum við út að borða. Ég þarf að bóka borð. Það er bara þannig á sumrin. Og þá þarf maður að velja hvert maður ætlar. *** Á Húsinu hefur ekki verið skipt um matseðil í háa herrans tíð – og hann var aldrei sérlega langur. Maturinn er góður en ég er kominn með leið á seðlinum. *** Hótelið er of dýrt ef maður ætlar ekki að sitja lengi (við ætlum auðvitað á tónleikana). *** Thai Koon og Thai Tawee er ekki treystandi til að vera með fisk- eða grænmetisrétt (sem er fáránlegt) og Nadja borðar ekki kjöt. *** Crepesvagninn er úti og það er kalt. Ég er að spá í að prófa hann í hádeginu. *** Portúgalski / Kaffi Ísól er svo stopult opinn. Ég held hann hafi ekkert verið opinn í vikunni. *** Hamraborg er … náttúrulega fyrst og fremst sjoppa. Meira staður til að mæta á þunnur á sunnudegi en út að borða með frúnni á föstudegi. *** Tjöruhúsið – sama og með hótelið, maður þarf að sitja lengur. Svo er ekkert ólíklegt að þar sé bara allt uppbókað. *** Nágrannabæirnir – Talisman, Vagninn o.s.frv. er of langt í burtu og mig langar að fá mér bjór með matnum. Nadja drekkur sjaldan og lítið en vill líka oft fá sér með matnum, og jafnvel þótt hún sleppti því þá er hún ekki með bílpróf. *** Þá er held ég bara Edinborg eftir. Ég veit ekki hvort þau eru með sama matseðil, hann er nú eitthvað stokkaður til annað veifið, en það hefur verið upp og ofan með gæði kokkana í eldhúsinu. Stundum hafa það bara verið krakkar sem kunna ekkert að elda. En það er gott þegar Gummi eldar. Svo skilst mér að það sé kominn kokkur frá Króatíu, en ég hef ekkert heyrt af hæfileikum hans enn. *** Viðbót: Ég kannaði málið með Crepesvagninn og hann er lokaður þessa vikuna. Sennilega eru efnaverkfræðingarnir bara eitthvað að efnaverkfræða.

Untitled

Ég rakst á Ödda á leiðinni úr ræktinni. Það var sem sagt ég sem var á leiðinni úr ræktinni. Hann var að spjalla við pabba sinn úti á götu fyrir framan Íslandsbanka. Muggi var með mótorinn í gangi og keyrði í burtu fljótlega eftir að ég kom. Öddi er á túr og kemst ekki með mér á Bubba annað kvöld. Við erum ásamt Rúnu og Skúla mennska í Bubba koverlagabandi svo þetta er sérlega bagalegt. Eigum alveg eftir að kynna okkur nýja efnið. *** Þegar Öddi kemur loks hingað til að spila verðum við víst farin. *** Hamraborgarhamborgari m/ osti og grænmeti og Örnuskyr með kirsuberjabragði í hádegismat. For the win, einsog krakkarnir segja, for the win. *** Nú er liðin vika frá því ég kláraði fyrsta uppkast að leikritinu Hans Blævi (já, það beygist svona) og ég er farinn að skilja betur annmarka mína sem leikskáld. Eða sem leikskálds? Á ég kannski við takmarkanir frekar en annmarka? Nei, nei, ég meina annmarka. En ég er ekki viss um fallið. *** Ég kann ekki að gera langa sögu stutta. Það er vandræðamál í leikhúsformi. Ég kann bara að ranta. Flækja málin. Skrifa útúrdúra og delera. Það er fínt í skáldsögum og fínt í þess konar ljóðum sem ég skrifa. En ég þyrfti þá helst að fá fjórar-fimm klukkustundir til þess að segja söguna í leikritinu. *** Ég er líka dálítið sínískur. Það er ekki galli sem hefur með leikhúsið að gera heldur bara galli almennt. Eða – ég er ekkert sínískur sjálfur. En það sem ég skrifa verður oft sínískt. Ég kýs að líta svo á að ég sé það fullur af eðlislægri meðlíðan með öðru fólki að ég skilji ekki alveg að aðrir þurfi að láta leiða sig þangað – það þurfi eitthvað sérstaklega að skapa meðlíðan með sögupersónum. Ég lít svo á að allir séu góðir innst inni og er gersamlega blindur á að það geri ekki líka allir aðrir. *** Þessi kenning sprettur eðli málsins samkvæmt úr hybrisinu á mér. Og ábendingin um að hún spretti úr hybrisinu á mér sprettur úr sínískri heimssýn minni (ég treysti ekki einu sinni sjálfum mér fyrir heiðarlegum, fallegum tilfinningum). *** Áðan heyrði ég á tal tveggja kvenna. Önnur var held ég á leiðinni til útlanda, eða í öllu falli úr bænum. Hin óskaði henni góðrar skemmtunar. Og bætti svo við: „Og góða verslun“. Það sem er amerískt við Íslendinga er ekki að þeir versli meira eða séu meira efnishyggjufólk, samanborið við norðurlandabúa, heldur hitt að norðurlandabúar skammast sín fyrir það á meðan Íslendingar flagga því. Svíum finnst hálft í hvoru óþægilegt að ganga um í Gamla Stan með innkaupapoka. Íslendingar halda þeim hátt á lofti. *** Í tengslum við fréttina í DV í gær, um „ástandið í Svíþjóð“, hef ég hugsað svolítið um það hve ginnkeypt við erum fyrir alls kyns ótrúlega einföldum fordómum um þjóðir. Og hvernig við segjum alltaf sömu söguna aftur og aftur, einsog til að staðfesta sanngildi hennar. Þið vitið. Danir eru hressir og gefa skít í reglur. Norðmenn eru dugandi fólk sem eyðir furðu stórum hluta sólarhringsins í að klappa sjálfum sér á bakið. Finnar eru þunglyndar fyllibyttur. Og Svíar eru réttlætisriddarar sem þagga allt niður og þora aldrei að „taka umræðuna“. *** Finna og Svía þekki ég best af þessum þjóðum, þótt ég hafi reyndar átt lögheimili á öllum norðurlöndunum (að meðtöldum Færeyjum en frátöldum Grænlandi, Sápmi og Álandseyjum). Og auðvitað er sitthvað til í alls kyns fordómum – fordómar eru yfirleitt ekki algerlega dregnir úr lausu lofti, heldur ýkjur sem vaxa í sífellu og verða loks yfirgengilegar, verða eiginlega „frístandandi staðreyndir“ sem þurfa ekki lengur á neinni tengingu við veröldina að halda. Þannig er hægt að halda því fram trekk í trekk í dagblöðum um víða veröld að í Svíþjóð séu „no go zones“ – þótt það sé af og frá og hafi margsinnis verið hafnað af öllum til þess bærum stofnunum og einstaklingum. Og þótt auðvitað séu alls kyns félagsleg vandamál og þau misstór eftir hverfum og landssvæðum þá er einfaldlega af og frá að „gettóvæðingin“ í Svíþjóð sé slæm í samanburði við … hvar sem er, nánast. *** Ég hef búið í sænsku gettói – hverfi sem fólk sem er í millistétt eða ofar vill helst ekki búa – og það er einn idyllískasti staður sem ég hef búið á. Þar sendi ég Aram Nóa einan kortersgang í búðina til að kaupa mjólk þegar hann var 3-4 ára, án þess að hafa af því minnstu áhyggjur að unglingarnir sem héngu í kringum Råby Centrum myndu ónáða hann – þótt þeir væru svartir og töluðu með hreim. Og ef svo færi – unglingar eru náttúrulega pein – þá var ég viss um að vinkona okkar frá Rúmeníu sem sat alla jafna fyrir utan og betlaði sér til lífsviðurværis myndi koma honum til aðstoðar, enda einstaklega hjálpsöm og greiðvikin. Hvað varðar múslimana þá hafði ég mestar áhyggjur af því að Aram myndi óvart ráfa inn í íslömsku sérverslunina og koma heim með geitamjólk eða kókosmjólk, sem er engan veginn jafn góð út á seríos. Nei, fyrirgefiði, mig misminnir. Ég meina auðvitað kornfleks. Íslendingar eru enn ekki orðnir svo margir í Svíþjóð að maður geti keypt þar seríos. *** Hvað varðar hin svonefndu „no go zones“ (þessar fréttir koma allar frá fólki sem er ólæst á sænsku og hefur enga innsýn í sænskt samfélag – þær koma úr alls kyns enskum sorpmiðlum, þetta hófst sennilega á FOX News fyrir um 15 árum síðan, með frægu innslagi frá Rosengård í Malmö) þá eru það alls ekki svæði þar sem lögreglan fer ekki, heldur svæði þar sem hún er með sérstakan viðbúnað og telur sig þurfa leggja áherslu á. Þetta eru vandræðahverfin, fátækrahverfin, þeir staðir þar sem er erfitt að halda uppi lögum og reglu. Ég veit ekki hvort nokkurt hverfi á Íslandi myndi falla undir þennan hatt – þar sem eiturlyf eru seld á götuhorni vandræðalítið – en það eru fáar borgir í heiminum þar sem ekki er að finna einhver slík hverfi. Og hefur minna með innflytjendur að gera en fátækt. Í flestum þessum hverfum bjuggu „innfæddir“ áður en þeim var skipt út fyrir „innflytjendur“ og í þeim löndum þar sem er lítið af innflytjendum, svo sem í austur-evrópu, eru það innfæddir sem fylla þau enn. *** Skrítnast af öllu er samt hugmyndin um að þetta sé eitthvað sem Svíar ræði ekki. Það sé bannað. Blöðin eru full af fréttum og pistlum um þetta. Sumt af því er mjög rasískt. Annað er svakalega PC. Og megnið liggur einhvers staðar þar á milli. *** Stóri munurinn á Svíþjóð og Noregi er ekki að það sé betra ástand í öðru hvoru landinu, heldur hinu að þegar þú segir við Norðmann hvað landið hans sé fallegt og hvað hann sé duglegur að standa vörð um lýðræðið, segir Norðmaðurinn takk. Svíinn hins vegar byrjar á að benda þér á Barsebäck, vopnaverksmiðjur og viðbjóð og spyrja hvort þér finnist þetta í alvöru fallegt? Svo rifjar hann upp REVA-lögin – sem gáfu lögreglu leyfi til þess að leita uppi ólöglega innflytjendur í almenningssamgöngum, með því að krefja fólk um vegabréf hvar og hvenær sem er, oftar en ekki á engum öðrum grundvelli en húðlit – bætir einhverju við um vananir þroskaheftra í denn og vananir transfólks enn þann dag í dag og spyr hvort þér finnist það lýðræðislegt? Og þá fer maður undan í flæmingi og segist bara hafa meint að það væri voða fallegur dagur og það sé gott að Svíþjóðardemókratarnir séu ekki í ríkisstjórn. „Slappaðu af!“, segir maður. *** Mér finnst Svíar bókstaflega ALLTAF vera að „taka umræðuna“. Svíar eru þrasgjörn þjóð með smásmugulega fullkomnunaráráttu. *** Það eru auðvitað mínir fordómar. Ég lifi við þetta. Og fæ þá sem betur fer ekki úr Daily Mail og Fox News. *** Ég ætti að vera löngu byrjaður að vinna. En ég kann, einsog áður segir, ekki að gera langa sögu stutta.

Untitled

Mér sýnist DV hafa markað sér stöðu sem grjótharður andspyrnukraftur við íslamsvæðingu Íslands. Í dag las ég þar alveg flengsturlaða grein um „ástandið í Svíþjóð“ – hálfsannleika, útúrsnúninga og lygar – aðra um Íslamska öfgamenn sem hafi ráðist á skóla á Fillipseyjum, þriðju um misheppnaða hryðjuverkið í Brussel og fjórðu þar sem Inga Sæland varar við uppgangi íslamismans á Íslandi. Þetta er allt úr fréttaskammti dagsins og það er ekki einu sinni komið hádegi. *** Ég kann ekki annað en dæsa og veit að það gerir ekkert gagn. *** Aðrir miðlar eru með frétt um hryðjuverkið í Brussel (þetta er allt sama fréttin, búið að bera kennsl á tilræðismanninn). Sennilega munar mest um þessa löngu „fréttaskýringu“ um anarkíið í Svíþjóð. Ég ætti eiginlega að afpanta ferð sumarsins, enda mjög invandrartätt område sem ég bý yfirleitt á. Allt pakkfullt af múslimum. Óaðlöguðum. *** Ég ætlaði að prófa franska crepes-vagninn en þá var hann lokaður. Kannski opnar ekki fyrren tólf. Keypti mér samloku og epli í staðinn. Einhver sagði mér þá sögu, með því fororði að hún væri lygi en ekki verri fyrir það, að vagninn væri rekinn af belgískum efnaverkfræðingum sem hefðu gefist upp á vísindamannslífinu á meginlandinu og flutt hingað gagngert til þess að selja Ísfirðingum crepes. *** Þetta er nú meira skítasumarið annars. Það er alltaf kalt og blautt. Og skemmtiferðaskip alla daga vikunnar. Skemmtiferðaskipatúristar eru allt öðru vísi en venjulegir túristar. Þeir eru svo umkomulausir. Ráfa um bæinn einsog ringlað sauðfé. Standa úti á miðri götu og lesa kort. Ég er dauðhræddur um að ég eigi eftir að hjóla á einhvern þeirra fyrir rest. Þeir eru líka allir svo gamlir. Með stökk, þunn bein. Ef ég hjóla þá niður standa þeir sennilega aldrei aftur upp. *** Ég les upp í Kópavogi í næstu viku. 27. júlí. Í fríðu föruneyti, ætlaði ég að skrifa, en fattaði svo að í því fælist – alveg óvart – svona líka gríðarhallærislegur orðaleikur. Það er nefnilega Fríða Ísberg sem skipuleggur. Með fullt af fínu fólki, segi ég bara, sæg af áhugaverðum skáldum í viðstöðulausri baráttu við fegurðina. *** Á Café Catalinu. *** Nú var fyrrum starfsmaður Stígamóta að „skila skömminni“ til stofnunarinnar. Við erum orðin svo ákveðin í því að vera þolendur að við getum ekki lengur bara sagt fólki að skammast sín. Við þurfum að láta einsog það hafi látið okkur skammast okkar og við bara skilum skömminni, sem við áttum sko ekkert með að skapa sjálf. *** Ekki þar fyrir. Starfsmaðurinn virðist í fullum rétti með að segja Stígamótum að skammast sín. Einu hjó ég eftir – þetta með að fullyrt sé að starfsfólk sé menntað, en svo sé það bara bókasafnsfræðingar eða álíka. Altso, það sé með menntun sem kannski hjálpi til við einhver afmörkuð störf innanhúss, en hafi ekkert með hið eiginlega starf hússins að gera. Þetta er landlægt. Á Íslandi er 99% allra svona stofnanna – sem má kalla hið leynilega einkarekna velferðarkerfi, frá meðferðarheimilum að fátækrahjálp – stýrt af misklaufalegum amatörum. Og sumir þeirra – furðu margir, finnst manni – hafa reynst hryllilegir níðingar. *** En kannski er merkingarlaust að segja fólki að skammast sín. Kannski er það bara eldri orðaleppur – þessi með að skila skömminni rennur út á endanum líka. Það þarf að endurnýja tungumálið til að það hafi slagkraft, a.m.k. ef maður ætlar að segja eitthvað sem hefur alltaf verið satt. *** Buzzword er það kallað á ensku. Orð eða orðasamband sem nær miklum vinsældum á takmörkuðu tímabili – endar oftar en ekki sem innihaldslítill orðaleppur (en þó ekki alltaf). Oft bara umorðun á einhverju eldra. *** Nú kom ég að enda greinarinnar. Þar er Stígamótum sagt að skammast sín. *** Ég er alltaf smá stund að koma mér að verki. En ég byrja með hreint borð, hreinan huga.