Kláraði að lesa Óratorrek. Þetta tók meira á en ég hélt það myndi gera. Sennilega hef ég aldrei lesið meira en eitt ljóð úr bókinni í einu. Fjögur-fimm er alltílagi. En tuttuguogþrjú og mér líður bara einsog ég sé geðveikur – einsog ég þurfi að láta leggja mig inn á spítala. *** Mér finnst næstum jafn fáránlegt að krefjast þess að Robert Downey verði aftur sviptur ærunni – af hinu opinbera – og mér fannst að hann hefði fengið hana uppreista af hinu opinbera. Minnir reyndar á orðalagið um að skila skömminni. Ég hef bara enga trú á að maður stundi svona viðskipti með … abstrakt hluti? Tilfinningar? Hvað kallar maður æru og skömm? Þetta er líka í takti við það þegar verið er að dæma ummæli „dauð og ómerk“. Maður velur sjálfur hverju maður trúir og fyrir hverjum maður ber virðingu. (Einsog áður segir finnst mér einfaldlega ekki að það ætti að rugla lögmannsréttindum hans við þetta). *** Það er kominn tími á lag. *** *** (Ég valdi fyrst Jailbait með Lemmy og Wendy úr Plasmatics en fattaði svo hvað það hefði verið fáránlega óviðeigandi).
Category: Uncategorized
createdTimestamp““:““2024-05-14T21:35:28.897Z““
id““:““8mr02″“
Björn Halldórsson rithöfundur spurði á dögunum um „gateway“-plötur twitter-fylgjenda sinna. Spurninguna orðaði hann svona: Hver var ”gateway” platan ykkar? Fyrsta platan sem lét ykkur taka harkalega beygju inn á ókannaðar slóðir á jaðrinum (hvað sem það nú er), þannig að þið áttuð aldrei afturkvæmt á beinu brautina? Auðvitað eru milljón leiðir til þess að svara þessari spurningu. Sá sem hlustar á tónlist fer eðli málsins samkvæmt upp og niður alls kyns rangala. Fyrsti tónlistarmaðurinn sem ég man eftir því að hafa vitað hvað hét og „haldið upp á“ var Phil Collins – og um svipað leyti Elton John. Svo komu Elvis og rokkplötusafnið hans pabba – Bill Hailey, Buddy Holly, Chuck Berry. Þá er ég svona 7-8 ára líklega. Níu, tíu og ellefu voru Michael Jackson árin (ég var kallaður Eiki Jackson í barnaskóla). Svo kom Iron Maiden sirka 1990. Unglingsárin hjá mér fóru í Maiden og yfir í annað þungarokk – mest Metallicu, AC/DC og Guns – þaðan í blúsrokk og hipparokk, þaðan í thrash og dauðarokk og úr dauðarokkinu beint í Robert Johnson, Wes Montgomery og Django, úr þeim í Sly Stone og svo George Clinton og fönk, svo í Rage, Public Enemy og Ice-ana T og Cube. Svo kom alltíeinu Waits og hertók allt í mörg ár. Svo Eminem – og með honum Dre og Snoop sem ég hafði lítið hlustað á. Árin þar á eftir – miður þrítugsaldurinn – var mjög skrítinn. Tók meðal annars rispu í „adult contemporary“ – John Cougar Mellencamp og svona. Blúsinn hefur svo smám saman orðið fyrirferðarmeiri á síðustu árum – og á hug minn allan þessi misserin. Þegar ég hafði velt spurningu Björns fyrir mér í smástund mundi ég alltíeinu eftir plötu sem ég heyrði snemma í lífinu og innihélt bæði þvottekta blús og lag eftir Tom Waits. Og leiddi að einhverju leyti inn í þungarokkið líka. Ef það er ekki gateway-drug – njólareykingarnar sem enda í heróínfíkn – veit ég ekki hvað er það. Platan Freakshow með Bulletboys var nýkomin út þegar sveitin mætti á Brjótum ísinn tónleikana sem haldnir voru í Kaplakrika í júní 1991. Ég er þá tólf að verða þrettán og fékk að fara með litla bróður mínum, tíu að verða ellefu. Á tónleikunum léku auk Bulletboys, Quireboys, Slaughter, Artch (norsk þungarokkssveit með Eirík Hauksson í fararbroddi), Thunder og GCD. Poison átti að vera aðalatriðið en þeir beiluðu á síðustu stundu. Ég man ekki í smáatriðum neitt frá tónleikunum, annað en að það var fremur fámennt miðað við pláss – nokkur þúsund manns samt. Svo man ég að einhver gítarleikaranna benti eitthvað út í áhorfendahópinn og við Valur bróðir rifumst um hvorn okkar hann hefði verið að benda á. Ég var alveg á barmi þess að vera unglingur sjálfur en ekki orðinn og fannst skrítið að vera innan um mikið af krökkum á mínum aldri (eða aðeins eldri) sem voru augsjáanlega drukkin, reykjandi og í sleik út um allt. Mig langaði mikið í það allt og fannst ég mjög vandræðalega lítill og barnalegur – og með litla bróður í eftirdragi að auki. Svo var líka eitthvað um að unglingsstelpur væru að vippa fram júllunum framan í rokkstjörnurnar á sviðinu og ég hafði ekkert séð mikið af svoleiðis. Í sem stystu máli má segja að maður hafi bæði verið á viðkvæmu mótunarskeiði, á barmi fallsins, og alveg gersamlega upptjúnaður til að taka á móti. Marq Torien í vinstra horninu niðri fór fyrir strákunum í Bulletboys (sem voru allir í sama skækjubúningnum). Ég man ekki hvort að ég eignaðist plötuna fyrir eða eftir tónleikana en ég á hana (á vínyl) og ég hlustaði mikið á hana þetta árið. Þótt ég kannist við öll lögin þegar ég heyri þau í dag get ég ekki sagt að ég „muni“ nema tvö þeirra og það vill til að það eru einu koverlögin á plötunni, fjórða og fimmta lag á hlið A. Ég hafði vel að merkja ekki hugmynd um að þetta væru koverlög og var ekkert að spá í það. Fyrir mér voru Hang on St. Christopher og Talk To Your Daughter bara Bulletboyslög. Það var enn hátt í áratugur þar til ég færi að hlusta eitthvað á Tom Waits (sem ég kannaðist bara við sem óhugsanlega hásan karl sem írskur kærasti stóru systur minnar hlustaði á) og nærri aldarfjórðungur þangað til ég færi að hlusta eitthvað á J.B. Lenoir. En þetta var áreiðanlega eitthvað gateway – hlið eitthvert út í bláinn. Fyrsta Tom Waits platan sem ég eignaðist var safnplatan Beautiful Maladies, 1998, og fyrsta lagið á henni er einmitt Hang on St. Christopher – sem er vel að merkja hreinn og beinn 12-bara-blús – og ég þekkti það auðvitað strax og ég heyrði það. Bulletboyslagið! Ég kynntist Talk To Your Daughter sennilega bara í gegnum útvarpið – það hlýtur að hafa verið Robben Ford útgáfan frá 1988. En þetta er líka eitt af þessum lögum sem maður bara þekkir. Blúsklassíker sem allir hafa koverað. Ég hélt að kannski hefðu Blues Brothers tekið þetta en ég finn það ekki. Ég heyrði ekki orginalinn fyrren eftir að ég fór að hlusta á J.B. Lenoir sem gerðist ekki fyrren ég sá Wim Wenders myndina Soul of a Man. Og hann er ein af þeim síðari tíma uppgötvunum sem ég held mest uppá.
createdTimestamp““:““2024-12-05T08:29:56.400Z““
Ég las fyrirsögn í vikunni, sem spurði hinnar kunnuglegu spurningar hvort peningar gætu skapað hamingjuna. Þetta var sennilega í DN – og niðurstaðan, sýndist mér á undirfyrirsögn (ég las ekki greinina), var að þeir hefðu sannarlega eitthvað með hamingjuna að gera en sambandið þarna á milli væri samt flókið. Það sem kom upp í huga mér, og sosum ekki í fyrsta sinn en í fyrsta sinn í svolítinn tíma, var hvort að hamingjan væri markmið í sjálfri sér. Og hvort það væri þá í framhaldinu hugsanlegt að maður vildi heldur vera ríkur en hamingjusamur, ef valið stæði á milli þessara tveggja valkosta? Gæti maður heldur viljað vera grannur en hamingjusamur, hraustur en hamingjusamur – eða, einsog sænski tónlistarmaðurinn Kjell Höglund – heldur vera fullur en hamingjusamur? Af hverju einblína svona margir á hamingjuna sem sitt æðsta markmið? Ég er að lesa (trigger warning!) Harry Potter fyrir börnin. Aino var of lítil til að skilja þegar Nadja las þetta á sænsku fyrir þau, og Aram hefur ekkert á móti því að heyra þetta aftur, og þess vegna les ég bækurnar nú á íslensku. Ég las á sínum tíma tvær og hálfa – þegar ég bjó heima hjá vinkonu minni Söru Riel í nokkra daga 2003, hún átti þær bækur sem þá voru komnar, en þegar ég þurfti að fara var ég ekki lengur með neinar Harry Potter bækur og saknaði þeirra í sjálfu sér engin ósköp þótt það hafi verið rúllandi fart á söguþræðinum. En þetta er gaman núna, gaman með börnunum. En það var ekki það sem ég ætlaði að tala um heldur hitt að í fyrstu bókinni er spegill sem sýnir manni það sem maður þráir innst inni. Harry Potter sér t.d. foreldra sína og stórfjölskyldu – það sem hann á ekki í lífinu. Ron sér sjálfan sig sem fyrirliða Quidditchliðs. Dumbledore skólameistari orðar það svo að ef fullkomlega hamingjusamur maður liti í spegilinn sæi hann ekkert nema sjálfan sig. Af því hann skortir ekkert – eða hefur í öllu falli sigrast á löngunum sínum og þrám. En langar mann að vera þannig maður? Langar mann að þrá ekkert? Fyrir hvað – hugarró? Er það öll hamingjan? Burroughs hafði miklar áhyggjur af því þegar Ginsberg og Kerouac voru að dufla við búddismann á sínum tíma. Hann sagði enga andlega geldingu verri en hið búddíska jafnvægi. Og þá er ágætt að hafa í huga að Burroughs var langt leiddur heróínsjúklingur sem gat setið allan daginn og starað á skóinn sinn meðan hann beið þess að langa aftur í heróín. En hann langaði þó í eitthvað … Óhamingja getur sannarlega verið lamandi. En mér finnst einhvern veginn einsog ef maður sigraðist á henni fyrir fullt og allt gæti maður allt eins bara hengt sig. Til hvers að spila leik sem maður er búinn að vinna? Annað sem ég hugsaði um í vikunni og tengist þessu er að það rann upp fyrir mér að sennilega höfum „við“ (hvítir miðstéttarvesturlandabúar) aldrei í mannkynssögunni verið betri í að leysa og koma í veg fyrir tráma. Aldrei verið jafn meðvituð um lausnirnar. Við höfum aldrei fylgst jafn vel með skúmaskotum samfélagsins, aldrei gert jafn margar varúðarráðstafanir – frá öryggisbeltum til covid-gríma til reykingabanna (sums staðar er jafnvel farið að svipta bari áfengisleyfinu ef þeir afgreiða „sjáanlega drukkið fólk“). Aldrei talað jafn mikið um tilfinningar okkar, hvert við annað og við sérfræðinga, aldrei knúsað hvert annað jafn mikið, aldrei verið jafn lítið meðvirk (jafn mótvirk?), aldrei lifað jafn heilbrigðu lífi, aldrei átt jafn margar lausnir við því sem hrjáð getur nokkurn mann, aldrei átt jafn hægt með aðgang að hátækni-geðlyfjum eða annars lags fantastískum lækningameðulum. Aldrei átt jafn auðvelt með að „uppfylla pótensjalið“ okkar – láta drauma okkar rætast. Aldrei unnið jafn lítið, eða jafn gefandi starf (þeim störfum sem við nennum ekki að vinna hefur að mestu verið útvistað). Aldrei þurft að leiðast jafn sjaldan. Og samt – skilst mér – líður fólki mælanlega verr, ef það er spurt. Fólk metur andlega líðan sína verr núna en það gerði fyrir 20-30-40 árum síðan. Það upplifir meiri kvíða, meiri vanlíðan – það er bugaðra. Svo maður þarf kannski ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu með að maður verði svo hamingjusamur að maður neyðist til að hengja sig. Ég velti því reyndar fyrir mér hvort svona geti verið relatíft. Dæmisaga: Einu sinni fyrir langalöngu var ég á tapas-bar með vinum mínum – Nýhilistum, aðallega – og einhverju liði sem einn okkar vann með og hafði dregið okkur þangað. Einn okkar var á kafi í ananda marga og hinu andlega – settist mörgum sinnum á dag til að hugleiða – og var á mjög ströngu mataræði, borðaði hvorki kjöt né fisk auðvitað, en ekki heldur lauk eða sveppi og eitt og annað sem sagt var að væri í raun „lyf“ en ekki „matur“ – of pótent til þess að neytast á daglegum basis. Við hin sturtuðum öllu sem við gátum ofan í kokið á okkur, og fögnuðum því ef það var pótent – og fannst það yfirleitt ekki nógu pótent bara. Allavega og nema hvað. Jóginn okkar var hungurmorða þegar hann kom og hitti okkur og hafði ekki efni á mat þarna (frekar en við hin, að frátöldum vinnufélögunum) en fékk sér teskeið af tapenaði á brauð, sem stóð á borðinu, til að seðja sárasta hungrið. Skömmu síðar fór hann heim og við hin fórum á haugafyllerí, sennilega það fjórða eða fimmta þessa vikuna, á einhverjum talsvert ódýrari stað en þessum tapasbar. Daginn eftir heyrði ég í þessum vini mínum sem lá þá flatur út af. Honum hafði byrjað að líða illa um það leyti sem hann fór heim og var nú veikur. Hann hafði hringt á veitingastaðinn og fengið að vita að það voru ansjósur í tapenaðinu. Brimsalt eitur úr dýraríkinu. Og nú gat hann ekki staðið á fætur af ógleði. Hann var vel að merkja sá eini í hópnum sem var sjáanlega timbraður eftir þetta kvöld. Á endanum verður fólk auðvitað háð hinu pótenta eitri og verður ekki veikt af því heldur veikt af því að fá það ekki. Svona einsog maður fær höfuðverk af kaffi. Ég veit reyndar ekki hvort það á við um ansjósur líka. Kannski höfum við hingað til verið háð harmi og tráma og erum í fráhvörfum. Eða kannski erum við bara vælin og full af sjálfsvorkunn til þess að hafa eitthvað til að breiða yfir sektarkenndina yfir vellystingunum sem við lifum í á meðan ógæfusamara fólk saumar skóna okkar og skrúbbar almenningsklósettin. Eða bæði. *** Blúsplata vikunnar er Juju Claudius með The Chatham Singers. Platan er frá 2009 og á bakvið nafnið er enginn annar en Nýhilvinurinn, ljóðskáldið og tónlistarmaðurinn Billy Childish, sem kom til Íslands á fyrstu ljóðahátíð Nýhils, 2005. Á styrk frá Seglagerðinni Ægi (mig minnir reyndar að það hafi verið hluti af samkomulaginu að ekki yrði gefið upp hver styrkti komu Childish – ég lít svo á að samkomulagið hafi fyrnst). Þetta er blús með pönkívafi – hrátt og skemmtilegt. Lagið sem ég ætla að velja er fyrsta lag á hlið tvö – Evil Thing.
createdTimestamp““:““2024-06-09T05:31:44.238Z““
Það er allt heldur rólegt á menningarfrontinum. Ég er að lesa Palimpsest, sjálfsævisögu Gore Vidal, og hvorki gengur né rekur. Rétt búinn með fjórðung, held ég. Hún er að vísu í lengri kantinum en það er sama. Þetta er engin frammistaða. *** Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á Mr. Bean fer í fríið. Ég er ekki alveg viss hver valdi – annað hvort barnið, sennilega Aino. Hún og Vala vinkona hennar horfa víst mikið á Mr. Bean heima hjá Völu. Í þessari mynd vinnur Mr. Bean ferð til Frakklands. Ferðin fer auðvitað ansi spaugilega, honum reynist það ansi örðugt að komast á áfangastað en hann eignast líka góða vini á leiðinni og allt fer vel að lokum. Húmorinn er barnalegur og á að vera það – líka fyrir fullorðna. Mikið af geiflum og slapstick. Hluti myndarinnar er uppgjör við alvarlega kvikmyndalist – Willem DaFoe leikur tilgerðarlegan og sjálfsupptekinn leikstjóra sem gerir myndir með sjálfum sér, eftir sjálfan sig, og reynir að hafa sjálfan sig sem mest í rammanum meðan hans eigið voice-over fílósóferar ljóðrænt um erfiðleika tilverunnar. Þar má ímynda sér að Rowan Atkinson sé að reyna að koma einhverjum boðskap (eða beiskju) áleiðis. Grínistar eru auðvitað ekki alltaf teknir alvarlega enda vinna þeir beinlínis við að láta ekki taka sig alvarlega heldur létt – sérstaklega geiflugrínistar einsog Rowan Atkinson. Þetta hlýtur að vera erfitt. Svo er hitt auðvitað alveg satt að alvarleg list er ekki endilega merkilegri en óalvarleg og hún getur alveg jafn auðveldlega misheppnast – en það er ekki alltaf jafn augljóst. Maður veit að grínmynd er ekki fyndin vegna þess að maður hlær ekki – hlátur er tafarlaust viðbragð. Alvarlegri myndir sækja oftar í heilabúið á manni, eiga að vekja upp hugsanir, og maður veit oft ekki hvort er nokkuð varið í þær fyrren löngu seinna – þegar maður er búinn að ræða þær við fólk og spá og spekúlera svolítið, þegar maður veit hvort þær ofsækja mann eða hvort þær gleymast. *** Við Aram fórum á Spiderman: Far From Home í Cinemark bíóinu í City Mall. Borguðum extra fyrir hristisæti. Það gerði svo sem lítið fyrir upplifunina en var gaman að prófa. Myndin er undir meðallagi Marvelmynd. Plottið er þunnt og persónudramað er of mikil unglingamynd fyrir 9 ára strák og 41 árs karl. Og sennilega bara ekki einu sinni góð unglingamynd. Misterio er leiðinlegur vondi karl. Spiderman er of mikil gelgja og ekki nógu kjaftfor. Það er samt alltaf gaman að fara í bíó með Aram og við skemmtum okkur vel á meðan myndinni stóð (og honum finnst hún ábyggilega ennþá skemmtileg en hann er heldur ekki jafn mikill konnósör á þessa hluti ég snobbhænsnið pabbi hans). *** Við fórum á karókísjó í Tela. Það var dálítið spes. Þetta var utandyra og allir sátu við svið og horfðu beint fram einsog í leikhúsi. En það var enginn á sviðinu – þar var bara tjald með texta. Einhvers staðar í áhorfendahópnum var svo míkrafónn og manneskja að syngja og maður þurfti oft að litast um lengi áður en maður fann söngvarann. Lögin voru öll á spænsku og sennilega mörg hondúrsk. Ég þekkti ekki eitt einasta (enginn söng spænsku útgáfuna af Informer með Snow, sem virðist vera mjög vinsæl hérna þessa dagana). Söngvararnir voru ýmist frábærir eða hræðilegir, einsog gengur. Ég hef samúð með því – ég hef verið að æfa mig að syngja í sumar, ég kann ekkert að syngja en hef látið internetið sannfæra mig um að það geti allir lært þetta og mig langar að kunna að syngja. Ég hef einu sinni sungið í karókí – í partíi hjá Höllu Miu á Ísafirði af því Gunnar Jóns píndi mig til þess – og mér finnst það ekki auðvelt, ekki einu sinni blindfullur í fíflalátum. Ég syng nánast aldrei fyrir framan fólk en ég hef tekið upp nokkur myndbönd þar sem ég syng og spila og póstað á YouTube og það er einhvern veginn auðveldara. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á Paris, Texas eftir Wim Wenders við handrit eftir Kit Carson og Sam Shephard og tónlist eftir Ry Cooder. Harry Dean Stanton leikur Travis, mann sem hefur verið á eins konar „walk-about“ ferðalagi í fjögur ár þegar líður yfir hann í sjoppu í Texas og bróðir hans, Walt, leikinn af Dean Stockwell (Al í Quantum Leap) fær símtal um að hann sé fundinn. Walt og kona hans Anne (Aurore Clément) hafa alið upp son Walts og Jane (Nastassja Kinski), Hunter (Hunter Carson – sonur Kits) síðan þau hurfu bæði bæði. Myndin segir síðan söguna af endurkomu Walts í líf sonar síns – og lífið almennt, hann man lítið af því sem hefur gerst síðustu árin – og smám saman komumst við að því hvað varð þess valdandi að líf þeirra leystust upp til að byrja með. Þar koma miklar tilfinningar við sögu – vonleysi ungrar konu sem vill ekki verða móðir og eldri manns sem er að drepast úr afbrýðissemi og skömm yfir afbrýðissemi og því hvernig allar þessar tilfinningar bera þau ofurliði. Þetta ástfangna og lífsglaða fólk er skyndilega orðið reitt og hrætt og farið að meiða hvert annað – hann sennilega meira hana en hún hann. Á endanum springur allt í loft upp – nánast bókstaflega – og hún skilur drenginn eftir hjá mági sínum, stingur af og Travis fer á sitt walk-about. Þetta er ofsalega kraftmikil mynd. Harry Dean Stanton er dásamlegur í henni og í mjög gefandi hlutverki – hlutverk Nastössju Kinski er erfiðara viðfangs og hún fær miklu minni tíma á skjánum en hún gernýtir hverja sekúndu. Stockwell og Clemént eru líka fyrsta flokks. Ég verð lengi eftir mig af henni og hún ofsækir mig alla daga. Ég hugsaði mikið um það hlutverk listarinnar að auka manni meðlíðan. Þetta er oft sagt á tyllidögum og jafnvel vísað í rannsóknir – aðallega um að bóklestur auki manni meðlíðan, að fólk sem lesi eigi betra með að setja sig í spor annarra, sé síður dómhart og eigi betra með að finna til samúðar. Sögur – líka bíómyndir – veita okkur oft innsýn í veruleika sem við þekkjum ekki vel annars, gefa okkur færi á að finna til með fólki í öðrum sporum en okkar eigin. Þar mætti t.d. nefna alls konar minnihlutahópa – og alveg klárt mál að listin hefur spilað stóra rullu í að leysa upp margs konar fordóma og kúgun í þeirra garð (og á sitthvað eftir inni þar enn). En það er bara hluti jöfnunnar því sögur gera okkur líka ljóst hvað við eigum sameiginlegt með þeim sem lenda á refilstigum – auka samúð okkar með illmennum og gera okkur ljóst að þeir sem gera illt eru yfirleitt ekki illir í gegn. Það er mjög erfitt að finna sársauka illmennis – að finna skömmina – en ég held það sé líka mjög hollt. En það sló mig líka að kannski væri Paris, Texas að þessu leyti mjög ómóðins saga 2019 – þetta væri ekki æskileg innsýn á tímum þar sem fyrirgefningin og uppreistin og endurkoman þykja hálfgerð uppgjöf fyrir illskunni. *** Gítarleikari vikunnar er Molly Tuttle – hún er sturlaður pikkari. Ef þið ætlið að tékka á henni mæli ég frekar með live myndböndum af YouTube – allt „útgefna“ dótið er leiðinlega mikið pródúserað og hún er langbest „hrá“.
createdTimestamp““:““2024-05-19T11:58:23.601Z““
id““:““4o8ip““
Ég er í lest á leiðinni á Littfest í Umeå. Einsog í gamla daga. Raunar eru bara þrjú ár síðan ég fór síðast og tæknilega séð á maður held ég alltaf að þurfa að bíða fimm ár milli heimsókna en af einhverjum orsökum er skortur á útlenskum rithöfundum í landinu. Hátíðin verður með „breyttu sniði“ – ég átta mig ekki á því hvað það verða margir á svæðinu þegar ég les en þeir verða ekki margir. Síðasta haust fór ég í svona ferð til Malmö og las upp fyrir kvikmyndatökumann, hljóðmann, kynninn og tvö önnur ljóðskáld. Það er ekki alveg það sama. Fyrir Covid mætti yfirleitt aldrei neinn – mjög yfirþyrmandi að hafa allt þetta fólk standandi yfir sér. Svo eru víst enn fleiri að horfa á eitthvað streymi. Ég ætlaði að vera með tvær bækur um jólin – af ólíku slagi – en það er búið að fresta annarri þeirra fram á jól 2022. Ég er enn undir feldi að hugsa um hvað mér finnst um það. Covid hefur farið einhvern veginn þannig með mig að mér finnst einsog ég sé að þrauka allt – lífið sé bara spurning um að halda í sér andanum og bíða þangað til það er búið. Eða a.m.k. þangað til Covid er búið. Þetta er alveg áreiðanlega ekki besti tíminn heldur fyrir mann sem vinnur einn að flytja til annars lands. Í kvöld hitti ég Per vin minn og það verður í fyrsta sinn síðan ég hitti nokkurn sem er ekki í tengdafjölskyldunni minni síðan í október. A.m.k. sósíalt – og í meira en þrjár mínútur. En ég er ekki kaupsýslumaður og ætla ekki að láta einsog ég sé það. Hef ekkert vit á þessu. Mér finnst bara leiðinlegt að bíða. Finnst ég bíða svo mikið. *** Blúsplata vikunnar er Lonely Soul með sveitinni GA-20 frá 2019. Það er ekki alltaf hægt að vera í klassíkerunum og þótt þetta sé ekki tía þá er platan mjög skemmtileg og ég hafði aldrei heyrt á sveitina minnst. Kannski verð ég kominn með leið á þessu eftir viku en í dag er hún að gera sitt. Þá kemur heldur ekki að sök að ég uppgötvaði hana „analóg“ – las viðtal við einn meðlim sveitarinnar í norska tímaritinu „Blues News“ og leitaði hana svo uppi á Spotify (og vínyllinn er í Discogs-innkaupakörfunni minni). Aðalmennirnir í GA-20 eru gítarleikararnir og ofsahipsterarnir Pat Faherty og Matthew Stubbs, en sá síðarnefndi hefur meðal annars getið sér gott orð sem aðalgítarleikarinn í sveit Charlie Musselwhite síðasta áratuginn eða svo. Báðir eru mjög mikið með sólgleraugu og í gallaefni, sem er auðvitað stór plús. Lonely Soul er mjög rokkuð plata í hinum forna skilningi þess orðs – það er fiftís í þessu, sving og búggí – og gítarsólóin eru flest stutt og öll hnitmiðuð og ekonómísk, sándið passlega drullugt, bjagaðir magnarar, mikið tremolo og mikið reverb, talsvert attitúd en aldrei neitt drama, lagasmíðarnar einfaldar og beint að efninu. Hér er ekki verið að finna upp hjólið. Nokkur laganna eru kover – þarna er Crackin’ up eftir Bo Diddley, I feel so good eftir JB Lenoir, Got Love if You Want it eftir Slim Harpo og My Soul eftir zydeco-blúsarann Clifton Chenier. Áhrifin í lagasmíðum þeirra hipsterbræðra eru síðan augljós – það er talsverður Musselwhite fílingur í One Night Man t.d. og þeir hljóma oft einsog aðeins meira old school Black Keys (ekki síst af því einsog Black Keys eru þeir ekki með bassaleikara – svo heitir líka eitt frægasta lag BK Lonely Boy). Þetta eru live útgáfur bara af því það er skemmtilegra í „myndmiðli“.
createdTimestamp““:““2024-06-05T21:30:13.314Z““
id““:““fkcof““
Rosalega er þetta hægur dagur. Þeir sem bíla um Skutulsfjörð þurftu að skafa rúðurnar í morgun. En það er mjög fallegt. Það verður svo fáránlega bjart í þessum firði stundum – hann liggur svo vel við sólu. Kannski ekki alla daga ársins en stundum. Svo er líka stilla. *** Ég byrjaði í morgun að hlusta mig í gegnum AC/DC katalóginn. High Voltage er fyrsta platan. Fyrsta lagið fjallar um hvað þetta verði mikill barningur – It’s a Long Way To the Top (If You Wanna Rock’n’Roll). Og þetta varð auðvitað mikill barningur og þótt þeir félagar hafi alltaf staðið keikir þá hafa þeir nú verið misvel metnir, af rokkurum og öðrum. *** Í tveimur tónlistarstjörnum hef ég heyrt fyrst í baði. Ég hlustaði á Óla Palla kynna fyrir mér Eminem – Mushrooms – í baðinu í Sundstræti og í sama baði heyrði ég fyrst T.N.T. með AC/DC, það var sennilega á MÍ-flugunni, menntaskólaútvarpinu sem var starfrækt í kringum Sólrisuhátíðina. *** Fyrsti söngvarinn í AC/DC – Dave Evans – var hrikalegur. Ég sem hélt að þeir hefðu bara verið með bestu söngvarana (Bon, Brian og Axl). Þessi Evans er svona einsog þriðja klassa Noddy Holder. *** Besta lagið á plötunni er Live Wire. *** Stóri bróðir Angusar og Malcolms – George Young – var heimsfrægur á undan þeim þegar hljómsveitin hans The Easybeats sló í gegn með laginu Friday On My Mind árið 1966. Sú hljómsveit fór svo beint í að fikta í sándinu sínu – það var mjög í móð að vera að stöðugt að uppgötva sig upp á nýtt þarna í lok sjöunda áratugarins – og glataði öllum vinsældum á einhverju tilraunatrippi. *** George stýrði AC/DC skútunni þarna á fyrstu árunum. Og lagði til eina gullna reglu: maður breytir ekki formúlunni . Og henni hefur aldrei verið breytt. Það er frægt þegar blaðamaður hreytti því í Angus Young að þeir hefðu gefið út 14 plötur sem allar hljómuðu eins – til hvers?! – og Angus hreytti því til baka í blaðamanninn að þetta væri ósatt, þeir hefðu gefið út 15 plötur sem hljómuðu allar eins. *** Ekki kvarta ég yfir sándinu. Í grunninn er AC/DC auðvitað gamaldags blúsrokkhljómsveit. Angus (sem er góðum í tilsvörum) var líka spurður hvort þeir væru ekki þungarokkshljómsveit og svaraði að nei, þeir væru rokkhljómsveit, en þeir spiluðu bara dálítið hærra en hinir. *** Þetta er líka allt mjög beisik músík – einsog rokklög eru (eða voru a.m.k.). Þetta er gamla reglan úr blúsnum að stíga dans við þekkt spor en reyna að gera það að sínu – blús finnst mér leiðinlegt lag, sagði einhver, og ef grunntónninn höfðar ekki til manns er hætt við að hann verði allt sami leiðinlegi grauturinn í hausnum á manni. Og vissulega er það hættan – þegar blúslag misheppnast er það vegna þess að það nær ekki að skera sig úr. En þegar það er gætt lífi – eða riðstraumi/jafnstraumi – er ekkert jafn sprúðlandi. *** Lög einsog Can I Sit Next To You Girl eru síðan einfaldlega beint úr nótnabók Chucks Berry – sem er eitt af yfirlýstum átrúnaðargoðum Angusar. Nema einmitt bara aðeins hærra. *** #ACDC
id““:““59q10″“
Ég á í dálitlum vandræðum. Ég hef áttað mig á því að efnið sem ég vill fjalla um er alltof viðfangsmikið til að ég ráði við það – það er of mikið af rangölum og hætt við að þessir textar verði bara sundurlaus langhundur eftir sundurlausan langhund. Þess vegna þarf ég að finna leið til þess að skipta þessu upp í passlega munnbita. Það verður því ekkert skrifað hér í dag um heilan áratug af blústónlist – 1950-1960 – einsog til stóð heldur ætla ég bara að tæpa aðeins á stemningunni og henda svo seinna í nokkrar færslur um tiltekna tónlistarmenn og þemu. *** Eitt helsta vandamál blússins var (og er) að þrátt fyrir að hann væri menningardíalekt bandarískra blökkumanna, sérílagi í suðurríkjunum, þá þótti hann afar gamaldags – og hefur alltaf sótt trúverðugleika sinn í fortíðina. Það var kostur að vísa svona í ræturnar og auðvitað skapandi fyrir sjálfsmyndina en líka dragbítur ef sjálfsmyndin átti að vera endalaus áþján og störukeppni við þrælahald og ánauðarbúskap og plantekruvæl. Einsog ég hef áður nefnt voru vinsælustu blústónlistarmennirnir fyrir 1950 yfirleitt þeir sem voru nútímalegastir – skáru sig frá fortíðinni – og þá oft mjög djass- og/eða poppskotnir. Billie Holiday, Lonnie Johnson, Bessie Smith, Tampa Red, Eddie Lang o.s.frv. Hinir ómstríðari og meira „orginal“ tónlistarmenn á borð við Robert Johnson, Skip James og Son House voru allir meira og minna fallnir í gleymskunnar dá þarna 1950. Og höfðu í sjálfu sér aldrei baðað sig í athygli meðan þeir voru enn að, þótt þeir hefðu átt nokkru fylgi að fagna á pöbbunum heima hjá sér og dottið inn með eitt og eitt lag í glymskrattana. Einsog einhver sagði þá var líka krepputíminn í Mississippi ekki heldur sá tími sem bandarískir blökkumenn vildu helst minnast – ekki einu sinni meðan hann gekk yfir. Blökkumenn vildu horfa til framtíðar og komast úr sveitinni – sennilega í þeirri von að einn fagran veðurdag í nútímalegri stórborg myndu þeir ekki lengur þykja annars flokks fólk. Ég hef meira að segja séð viðtal við Ruth Brown (frá því upp úr aldamótum 2000) þar sem hún segist vona að fólk hætti að spila blúsinn – sú skuld sé einfaldlega greidd, hún sé búin að borga og nú ættum við að geta snúið okkur að öðru. Blúsinn tilheyri (nú sem fyrr) fortíðinni.
Bróðurpartur Chicagoblúsarana er alinn upp í Mississippi. Upp úr 1916 hefjast mestu þjóðflutningar í sögu Bandaríkjanna þegar blökkumenn taka að yfirgefa suðurríkin fyrir grænni haga stórborganna – New York, Detroit, Philadelphia, Baltimore, Chicago og fleiri. Þetta eru fyrstu kynslóðirnar sem alast upp eftir að þrælahald hefur verið afnumið. Í fyrstu bylgju þjóðflutninganna fara um 1,6 milljónir manns – en á áratugunum eftir 1940 bætast við ríflega 5 milljónir í viðbót. Ef maður horfir á tónlistina sem verður til á þessu tímabili er einsog þessir þjóðflutningar hefjist á nokkurri bjartsýni – það er ómþýður djass- gospel- og poppfílingur í blúsloftinu frá 1930-1950. En svo tekur við sívaxandi óþolinmæði, brostnar vonir og jafnvel ofsi 1950-1975. Stórveldistími Chicagoblússins er í raun furðu langur – ef maður miðar við að hann hefjist með I Can’t Be Satisfied Muddy Waters árið 1948 og standi langt fram á áttunda áratuginn – það má kannski segja að þetta séu 25-30 ár. Jafnvel enn lengri. Fyrir því eru auðvitað alls konar ástæður. Fyrsta áratuginn er hann einfaldlega nýr og spennandi. Þann næsta nær hann vinsældum meðal hvítra og getur af sér bæði nýjan hippablús í Bandaríkjunum og bresku blússprenginguna – þegar Rolling Stones komu til Bandaríkjanna drógu þeir Howlin’ Wolf með sér í sjónvarpið og endurvöktu feril margra helstu blúsmannanna, akkúrat þegar stemningin var að dofna. Loks, upp úr 1970, var farið að dokumentera miklu meira af tónleikum og mikið af því live-efni sem til er af þessum tónlistarmönnum er frá þeim tíma. Chicago-blúsinn er (einsog mikið af blús) partítónlist og átti sér stað á klúbbum og í leigupartíum – plöturnar voru í einhverjum skilningi aukaafurð af tónleikum sem voru lítið sem ekkert dokumenteraðir. Sú orka var ekki beisluð og sett á teip fyrren á áttunda áratugnum og olli endurnýjuðum áhuga. En Chicagoblúsinn hefur ekkert breyst og er raunar miklu einsleitari árið 2020 en hann var árið 1961.
Hinir grænu hagar borganna voru svo auðvitað blekking. Í Chicago svalt fólk alveg einsog í sveitinni – í einni heimildamynd sem ég horfði á talaði maður (sem ég man ekki hver var og finn ekki aftur) um að fátæktin í Chicago hafi líka verið öðruvísi vegna þess að þar gat fólk séð sjónvarpsútsendingar. Í sjónvarpinu svignuðu veisluborðin og það væri öðruvísi að svelta þegar maður hefði þessar vellystingar stöðugt fyrir augunum. Sami maður talaði líka um að gæludýramatur seldist mikið í gettóunum þótt þar ættu fáir ketti eða hunda – einfaldlega vegna þess að hann væri næring sem fátækt fólk hefði efni á. Launin voru vissulega hærri í Chicago en í Clarksdale og þú varst ekki jafn líklegur til að verða þræll lánardrottna þinna einsog leiguliðarnir í suðrinu. En það var líka dýrara að búa þar og kynþáttahatrið varð mönnum ljóst á allt annan og skipulegri máta – hvernig þeim var holað niður í viss hverfi, borguðu hærri leigu en hvítir en fengu lægri laun fyrir sömu vinnu og svo framvegis. Það var áreiðanlega meira þrúgandi að búa í suðrinu og hættulegra frá degi til dags – en hversdagurinn var sennilega að einhverju leyti viðráðanlegri, og hvað sem öðru leið fólu suðurríkin ekki í sér nein svikin loforð, þau komu til dyranna einsog þau voru klædd. Og þessi svik koma berlega fram í tónlistinni. Það hefur stundum verið sagt að blúsinn hafi verið dapurlegur þar til Muddy Waters og félagar komu fram og settu svolítið stuð í hann og það er ekki alveg úr lausu lofti gripið. Þetta er gröð og lífsjátandi músík sem hentar vel til dans. Hins vegar er hreyfingin líka mikið í hina áttina. Tónlistin er ákafari og óþolinmóðari og hærri og meira ógnandi. Móðins blúsinn á fimmta áratugnum er Dinah Washington með Evil Gal Blues og Josh White með St. James Infirmary – þetta eru döpur lög en falleg. Vangadansar. Og þau eru miklu kurteislegri heldur en Chicagoblúsinn: I’m the beggar on the corner, you’ve passed me on the street And I wouldn’t be out here beggin’ if I have a enough to eat And don’t think I don’t notice that our eyes never meet I was born a little different, I do my dreaming from this chair I pretend it doesn’t hurt me when people point and stare There’s a simple way to show me just how much you care Don’t laugh at me, don’t call me names Don’t get your pleasure from my pain Syngur Wolf í stúdíóútgáfunni – þessi live hérna að ofan er eiginlega bara viðlagið og sóló og ofsi. Howlin’ Wolf er ekki bara að segja sögu af fólkinu sem hlær að hinum kúgaða, hann er að setja sig í spor þess kúgaða, og hann er ekki bara að segja að það sé ljótt að hlæja, hann er að banna fólki að hlæja. Með þjósti. Og þegar maður horfir á þennan risavaxna mann segja það langar mann barasta ekkert að hlæja að honum eða þeim minnimáttar aðilum sem hann hefur tekið upp á sína arma. Á þessum tíma er Big Bill Broonzy líka að gefa út Get Back (Black, Brown and White), Floyd Jones gefur út Stockyard Blues aðeins fyrr og Muddy Waters gefur út Mannish Boy – allt eru þetta mjög pólitísk lög og þótt líta megi á blúsinn sem pólitískan í sjálfum sér, eða pólitískan í „hið persónulega er pólitískt“ skilningnum, þá eru lögin fram til þessa alla jafna ekki pólitísk á þennan hátt (þótt pólitíkin hafi aukist jafnt og þétt frá því Billie Holiday gaf út Strange Fruit árið 1939). Stemningin þarna á sjötta áratugnum er samt nokkuð önnur – það er alveg nýr tónn í blúsnum, ekki bara pólitískur, og kannski sjaldnast, en alltaf ákafur og óforskammaður.