createdTimestamp““:““2024-12-05T08:29:56.400Z““

Ég las fyrirsögn í vikunni, sem spurði hinnar kunnuglegu spurningar hvort peningar gætu skapað hamingjuna. Þetta var sennilega í DN – og niðurstaðan, sýndist mér á undirfyrirsögn (ég las ekki greinina), var að þeir hefðu sannarlega eitthvað með hamingjuna að gera en sambandið þarna á milli væri samt flókið. Það sem kom upp í huga mér, og sosum ekki í fyrsta sinn en í fyrsta sinn í svolítinn tíma, var hvort að hamingjan væri markmið í sjálfri sér. Og hvort það væri þá í framhaldinu hugsanlegt að maður vildi heldur vera ríkur en hamingjusamur, ef valið stæði á milli þessara tveggja valkosta? Gæti maður heldur viljað vera grannur en hamingjusamur, hraustur en hamingjusamur – eða, einsog sænski tónlistarmaðurinn Kjell Höglund – heldur vera fullur en hamingjusamur? Af hverju einblína svona margir á hamingjuna sem sitt æðsta markmið? Ég er að lesa (trigger warning!) Harry Potter fyrir börnin. Aino var of lítil til að skilja þegar Nadja las þetta á sænsku fyrir þau, og Aram hefur ekkert á móti því að heyra þetta aftur, og þess vegna les ég bækurnar nú á íslensku. Ég las á sínum tíma tvær og hálfa – þegar ég bjó heima hjá vinkonu minni Söru Riel í nokkra daga 2003, hún átti þær bækur sem þá voru komnar, en þegar ég þurfti að fara var ég ekki lengur með neinar Harry Potter bækur og saknaði þeirra í sjálfu sér engin ósköp þótt það hafi verið rúllandi fart á söguþræðinum. En þetta er gaman núna, gaman með börnunum. En það var ekki það sem ég ætlaði að tala um heldur hitt að í fyrstu bókinni er spegill sem sýnir manni það sem maður þráir innst inni. Harry Potter sér t.d. foreldra sína og stórfjölskyldu – það sem hann á ekki í lífinu. Ron sér sjálfan sig sem fyrirliða Quidditchliðs. Dumbledore skólameistari orðar það svo að ef fullkomlega hamingjusamur maður liti í spegilinn sæi hann ekkert nema sjálfan sig. Af því hann skortir ekkert – eða hefur í öllu falli sigrast á löngunum sínum og þrám. En langar mann að vera þannig maður? Langar mann að þrá ekkert? Fyrir hvað – hugarró? Er það öll hamingjan? Burroughs hafði miklar áhyggjur af því þegar Ginsberg og Kerouac voru að dufla við búddismann á sínum tíma. Hann sagði enga andlega geldingu verri en hið búddíska jafnvægi. Og þá er ágætt að hafa í huga að Burroughs var langt leiddur heróínsjúklingur sem gat setið allan daginn og starað á skóinn sinn meðan hann beið þess að langa aftur í heróín. En hann langaði þó í eitthvað … Óhamingja getur sannarlega verið lamandi. En mér finnst einhvern veginn einsog ef maður sigraðist á henni fyrir fullt og allt gæti maður allt eins bara hengt sig. Til hvers að spila leik sem maður er búinn að vinna? Annað sem ég hugsaði um í vikunni og tengist þessu er að það rann upp fyrir mér að sennilega höfum „við“ (hvítir miðstéttarvesturlandabúar) aldrei í mannkynssögunni verið betri í að leysa og koma í veg fyrir tráma. Aldrei verið jafn meðvituð um lausnirnar. Við höfum aldrei fylgst jafn vel með skúmaskotum samfélagsins, aldrei gert jafn margar varúðarráðstafanir – frá öryggisbeltum til covid-gríma til reykingabanna (sums staðar er jafnvel farið að svipta bari áfengisleyfinu ef þeir afgreiða „sjáanlega drukkið fólk“). Aldrei talað jafn mikið um tilfinningar okkar, hvert við annað og við sérfræðinga, aldrei knúsað hvert annað jafn mikið, aldrei verið jafn lítið meðvirk (jafn mótvirk?), aldrei lifað jafn heilbrigðu lífi, aldrei átt jafn margar lausnir við því sem hrjáð getur nokkurn mann, aldrei átt jafn hægt með aðgang að hátækni-geðlyfjum eða annars lags fantastískum lækningameðulum. Aldrei átt jafn auðvelt með að „uppfylla pótensjalið“ okkar – láta drauma okkar rætast. Aldrei unnið jafn lítið, eða jafn gefandi starf (þeim störfum sem við nennum ekki að vinna hefur að mestu verið útvistað). Aldrei þurft að leiðast jafn sjaldan. Og samt – skilst mér – líður fólki mælanlega verr, ef það er spurt. Fólk metur andlega líðan sína verr núna en það gerði fyrir 20-30-40 árum síðan. Það upplifir meiri kvíða, meiri vanlíðan – það er bugaðra. Svo maður þarf kannski ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu með að maður verði svo hamingjusamur að maður neyðist til að hengja sig. Ég velti því reyndar fyrir mér hvort svona geti verið relatíft. Dæmisaga: Einu sinni fyrir langalöngu var ég á tapas-bar með vinum mínum – Nýhilistum, aðallega – og einhverju liði sem einn okkar vann með og hafði dregið okkur þangað. Einn okkar var á kafi í ananda marga og hinu andlega – settist mörgum sinnum á dag til að hugleiða – og var á mjög ströngu mataræði, borðaði hvorki kjöt né fisk auðvitað, en ekki heldur lauk eða sveppi og eitt og annað sem sagt var að væri í raun „lyf“ en ekki „matur“ – of pótent til þess að neytast á daglegum basis. Við hin sturtuðum öllu sem við gátum ofan í kokið á okkur, og fögnuðum því ef það var pótent – og fannst það yfirleitt ekki nógu pótent bara. Allavega og nema hvað. Jóginn okkar var hungurmorða þegar hann kom og hitti okkur og hafði ekki efni á mat þarna (frekar en við hin, að frátöldum vinnufélögunum) en fékk sér teskeið af tapenaði á brauð, sem stóð á borðinu, til að seðja sárasta hungrið. Skömmu síðar fór hann heim og við hin fórum á haugafyllerí, sennilega það fjórða eða fimmta þessa vikuna, á einhverjum talsvert ódýrari stað en þessum tapasbar. Daginn eftir heyrði ég í þessum vini mínum sem lá þá flatur út af. Honum hafði byrjað að líða illa um það leyti sem hann fór heim og var nú veikur. Hann hafði hringt á veitingastaðinn og fengið að vita að það voru ansjósur í tapenaðinu. Brimsalt eitur úr dýraríkinu. Og nú gat hann ekki staðið á fætur af ógleði. Hann var vel að merkja sá eini í hópnum sem var sjáanlega timbraður eftir þetta kvöld. Á endanum verður fólk auðvitað háð hinu pótenta eitri og verður ekki veikt af því heldur veikt af því að fá það ekki. Svona einsog maður fær höfuðverk af kaffi. Ég veit reyndar ekki hvort það á við um ansjósur líka. Kannski höfum við hingað til verið háð harmi og tráma og erum í fráhvörfum. Eða kannski erum við bara vælin og full af sjálfsvorkunn til þess að hafa eitthvað til að breiða yfir sektarkenndina yfir vellystingunum sem við lifum í á meðan ógæfusamara fólk saumar skóna okkar og skrúbbar almenningsklósettin. Eða bæði. *** Blúsplata vikunnar er Juju Claudius með The Chatham Singers. Platan er frá 2009 og á bakvið nafnið er enginn annar en Nýhilvinurinn, ljóðskáldið og tónlistarmaðurinn Billy Childish, sem kom til Íslands á fyrstu ljóðahátíð Nýhils, 2005. Á styrk frá Seglagerðinni Ægi (mig minnir reyndar að það hafi verið hluti af samkomulaginu að ekki yrði gefið upp hver styrkti komu Childish – ég lít svo á að samkomulagið hafi fyrnst). Þetta er blús með pönkívafi – hrátt og skemmtilegt. Lagið sem ég ætla að velja er fyrsta lag á hlið tvö – Evil Thing.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *