Allt verður svo forvitnilegt í faraldri. Og kannski er áhugaverðast að sjá hvað við höfum þrátt fyrir allt stundum rosalega litla aðlögunarhæfni. Eða – kannski ekki við sjálf, en kerfin sem við höfum smíðað okkur gera ekki ráð fyrir frávikum. Þetta eru í sjálfu sér engar fréttir með covid – í gegnum tíðina hef ég mest rekið mig á þetta í tengslum við barneignir og hjúskap. En eftir átján mánuði af covid hafa kerfin sama og ekkert lært. Fyrir utan margtíundaða bjúrókrasíu – sem er einsog hún er – má nefna að þrátt fyrir allan þann fjölda sem hefur setið í sóttkví síðustu misseri er eiginlega hálfvonlaust að fá heimsendan mat í höfuðborg landsins. Það er ekki nóg með að enginn (held ég) bjóði upp á fría heimsendingu nema maður panti fyrir morðfé heldur er sendingargjaldið bæði hátt og allir (held ég) með lágmarks upphæð fyrir sendingu sem er langt um meira en matur fyrir einn. Þannig pantaði ég hádegismat af veitingastaðnum Nings í dag og þurfti að hafa með því tvo drykki og forrétt til þess að ná upp í lágmarksgreiðsluna og svo þurfti ég að borga 990 króna sendingargjald ofan á það (sendingargjaldið telur ekki upp í lágmarksgreiðsluna heldur – ef lágmarksupphæðin er 4500 krónur getur maður ekki pantað fyrir minna en 5490 krónur). Svo er hitt að Nings er handan götunnar og það tók samt rétt tæpa klukkustund að færa mér matinn. Og það er ekki einsog þetta sé þannig veitingastaður að sósurnar séu hrærðar fyrir hvern rétt og einhver stari lærðum augum á kjúklinginn meðan hann grillast. Ég brá svo á það ráð núna að panta tvo rétti í kvöldmat til að ná lágmarkinu. Ég á þá kalda pizzu í hádeginu á morgun. Ég þarf líka að fara út af hótelinu þá – í seinni skimun – og má ekki við því að sendingartíminn sé eitthvað út úr kortinu. Matinn pantaði ég af XO í Smáralind klukkan 18.36 – hann var fljótlega skráður „í eldun“ en klukkan 19.44 fékk ég sms um að hann yrði sendur af stað klukkan 20.41. Matur sem er pantaður hálfsjö er þannig kominn til mín tveimur og hálfum tíma seinna. Ég spyr – kurteislega – hvar hin margrómaða aðlögunarhæfni kapítalismans sé? Annars hef ég það ágætt í sóttkvínni. Plön hafa breyst svolítið. Í stað þess að Nadja og krakkarnir bíði eftir mér fara þau vestur með flugi í fyrramálið. Mamma og pabbi buðu krökkunum og við áttum inneign hjá flugfélaginu út af flugi frá Egilsstöðum sem ég hefði átt að taka á morgun og ákváðum að það væri einfaldast ef Nadja færi bara líka. Ég fer í test í hádeginu og get svo rennt vestur eftir það fyrst ég er einn í bílnum. Eða – ég veit ekki alveg hvernig þetta virkar. Mér var sagt að ef við færum saman þyrfti Nadja að fara í sóttkví ef ég reyndist jákvæður. En ég held hún þurfi þess samt, af því við vorum saman í bátnum og á leiðinni frá Seyðisfirði – en samt átti ég helst ekki að vera í kringum hana eða börnin þessa aukadaga. Ég held þessar mótsagnir séu kannski vegna þess að maður er alltaf að spyrja ólíka aðila og allir eru að reyna að túlka ótýpískar aðstæður út frá fremur ferköntuðum reglum. Ég fæ svo niðurstöður einhvern tíma – vonandi áður en ég kem til Ísafjarðar en ef ekki verð ég bara að finna út úr því. Nadja ætlar að skilja eftir vistir í bílnum fyrir mig. Annað sem er óþægilegt er að hið opinbera segir manni að fara í fimm daga sóttkví – og biður mann að hlífa farsóttarhúsinu og kaupa sér gistingu sjálfur, með ærnum tilkostnaði – en gefur sér síðan aukasólarhring til að sleppa manni. Sjötta leynisólarhringinn. Ég fer í test á morgun á hádegi, þegar fimm sólarhringar eru liðnir, en er hugsanlega ekki laus fyrren í síðasta lagi á hádegi á mánudag. Sem þýðir að maður þarf eiginlega að kaupa sér sex nætur á hóteli upp á að nota kannski bara fimm – og ef maður býr út á landi (eða er í sóttkví á austurlandi eftir norrænu) getur maður ekki reiknað með að komast í flug fyrren eftir sex daga. Þetta gerir alla áætlanagerð erfiðari og dýrari. Ég skrifaði fólkinu á heilsuveru í gær og bað um bólusetningu, nú þegar ég er kominn til landsins. Ég hef ekki fengið neitt svar en sá að einn Facebook-vinur minn, sem er í svipuðum sporum, var beðinn um að bíða í tvær vikur – af einhverjum orsökum. Ef ég lendi í því fæ ég kannski fyrri sprautuna seinnipart ágústmánaðar, þá seinni kannski um miðjan september og telst þá fullbólusettur 1. október. Mér finnst 1. október tilheyra einhverjum öðrum veruleika, hann er svo langt undan. Ég ætlaði að fara á mánudag og líta í Tónastöðina og kaupa mér nýjan kassagítar fyrir peningana sem ég fékk fyrir SG-inn sem ég seldi kunningja mínum sem hafði haft hann í fóstri undanfarið ár og vildi síður skiljast við hann. (Já, ég veit ég var að kvarta undan því að ég væri blankur en þetta voru eyrnamerktir peningar og ég er ekki á vonarvöl, bara blankur). En með þessu nýja plani var ljóst að ég næði því ekki. Þá ákvað ég mig bara úr fjarlægð og hringdi og keypti Martin 000-15SM og lét leigubílstjóra sækja hann. Við höfum verið að dunda okkur við plokkæfingar. Ég hef líka farið í nokkra stutta göngutúra, einsog maður má víst, en það er erfitt að hitta engan – jafnvel á mjög yfirgefnum göngustígum. Það brunaði til dæmis framhjá mér óforvarendis einn strákur á rafhlaupahjóli og kom áreiðanlega inn fyrir tvo metrana. Hér á hótelinu er morgunverður fyrir þá sem eru í sóttkví milli 7.30 og 8 á morgnana, svo ég þarf að vakna snemma. Ég átta mig reyndar ekki á því hvers vegna við megum vera saman í morgunverð – þetta er víst mestmegnis áhöfn af skemmtiferðaskipi sem á að sóttkvía sig (þrátt fyrir að flestir ku bólusettir). Svo hefur verið bankað og ég spurður hvort ég vilji láta þrífa herbergið – og einu sinni vildi starfsmaður senda inn mann með nýtt sjónvarp (sjónvarpið sem er hérna er víst minna en sjónvarpið sem á að vera hérna). Ég sagðist aldrei horfa á sjónvarp og spurði hvort það væri ekki hægt að gera þetta seinna. Kannski tekur þetta enginn alvarlega. Það eru enn tuttugu mínútur í að maturinn minn fari af stað. Ég er að narta í homeblest en ég er orðinn mjög svangur. Megi XO og Nings og Aha.is og allt það batterí fara beinustu leið á hausinn við fyrsta tækifæri. En ekki fyrren ég er búinn að fá matinn minn samt.
Category: Uncategorized
Heimferðardagbók: Dagar 11 og 12
Ég skildi við ykkur í síðustu færslu um borð í Norrænu á leið til Íslands með viðkomu í Færeyjum. Einu sinni var ég á ferðalagi með Norrænu frá Íslandi til Færeyja og svaf yfir mig og endaði í Danmörku – sá hrakfallabálkur var kannibalíseraður í skáldsöguna Hugsjónadruslan fyrir 100 árum. Í þetta sinn átti ég ekki að fara frá landi og fór ekki neitt. Nema upp á þilfar þar sem ég benti börnunum mínum á skipasmíðastöðina þar sem pabbi þeirra vann í gamla daga, barinn þar sem hann hellti sig fullan og fish’n’chips staðinn þar sem hann borðaði hádegismat þegar hann var ekki búinn að eyða öllum peningunum frá Tórshavnar Skipasmiðja í bjór á Café Natúr – eða, sem var nú sýnu verra, á Mími. Ég var ekkert að segja börnunum mínum frá Mími, þau verða bara að læra um þannig knæpur sjálf þegar þau hafa aldur til. Skömmu eftir millilendingu í Færeyjum voru farþegar kallaðir í pappíratékk. Langar biðraðir mynduðust eftir ganginum við krána þar sem starfsmenn Norrænu fóru í gegnum PCR- og antigen-vottorð og covid-passa auk komuskráninga á covid.is og vegabréf. Ungi starfsmaðurinn sem okkur var úthlutaður var ekki alveg við fulla heilsu. Hann var rauðeygur og sveittur undir grímunni, saug upp í nefið í sífellu og hnerraði einu sinni mjög hressilega inn í grímuna sína. Nadja reyndi að spyrja hann – gamansöm – hvort hann væri svolítið kvefaður, einsog til að létta andrúmsloftið, en honum virtist ekki finnast það neitt fyndið. Við urðum svo sjálf dálítið þungbúnari þegar hann fór að gera því skóna að sennilega myndu börnin þurfa að fara í sóttkví með mér frekar en í sóttkvíarleysið með móður sinni. Niðurstaðan var sú að Nadja fékk grænan miða en ég og börnin fengum appelsínugulan – til að sýna lögreglunni þegar við kæmum í land og þar yrði þetta útkljáð. Ég hafði auðvitað ekki bókað gistingu fyrir börnin enda þóttist ég vita að börn væru undanþegin sóttkví nema foreldrarnir þyrftu að fara í sóttkví og hélt að það ætti þá við um báða foreldrana. Við fórum að ráða ráðum okkar og það meira að segja hvarflaði að okkur (kannski aðallega mér) hvort við gætum þá svindlað á þessu – og kannski héldum við (eða allavega ég) því plani til streitu í korter tuttugu mínútur áður en við fórum að leita löglegri lausna. Ég hafði samband við vin minn sem hafði boðið mér íbúð til láns – eftir að það var orðið of seint að afbóka hótelið – og spurði hvort ég gæti kannski þegið íbúðina eftir allt saman ef til þess kæmi að hennar yrði þörf. Svo athuguðum við hvort við gætum keyrt beint vestur. Bæði var möguleiki. Svo bara drógum við bara andann og ákváðum að gera einsog lögreglan bæði okkur. En áður en við – eða ég, aðallega, dró andann náði ég að fara að rífast við Aram Nóa í kaffiteríunni. Ég hafði beðið hann fremur hranalega inni í klefa að hafa hljóð meðan ég væri að hugsa mig út úr þessum nýjum upplýsingum (eftir að hann hafði ekki hlustað fyrstu fjögur skiptin sem ég bað hann kurteislega að vera rólegan) og til þess að bæta fyrir að vera svona leiðinlegur ætlaði ég að bjóða þeim systkinum upp á eftirrétt. Það fór ekki betur en svo að Aram varð ægisúr þegar ég vildi ekki kaupa tvö súkkulaðistykki fyrir hann – með þeim rökum að súkkulaðikúlan sem systir hans vildi (og honum hafði boðist helmingur af) væri svo stór og hann þyrfti að fá jafn mikið. Og hlustaði ekki á það þegar við reyndum að útskýra fyrir honum að það væru ekki til minni súkkulaðikúlur og Aino myndi aldrei einu sinni borða hana hálfa (sem stóð auðvitað heima) og einn eftirréttur væri alveg nóg á mann. Og ég hélt yfir honum mikinn og lærðan fyrirlestur um að hann mætti ekki vera svona ofdekraður (einsog það sé hann sem ofdekri sig alveg sjálfur). En svo sömdum við um frið og spiluðum spil – Tecknet, Olsen/Uno, og Kleppara fram á háttatíma og það var mjög gaman. Í dag vöknuðum við klukkan rétt rúmlega sex. Tygjuðum okkur á fætur og fórum í morgunmat. Rákumst aftur á Kötlu úr Between Mountains, sem er fyrrum nemandi Nödju í MÍ, og við höfðum líka hitt kvöldið áður. Svo borðuðum við og fórum upp á þilfar. Aram Nói fylltist mjög mikilli Íslandsrómantík og vildi anda að sér íslensku lofti og snerta íslenska foldu og sjá Ísland rísa úr hafinu og ég veit ekki hvað og hvað. Þegar við vorum komin að landi fórum við að leita að bílnum okkar – ekkert okkar mundi á hvaða bíldekki hann var en hann fannst samt fljótt og örugglega. Við vorum með þeim fyrstu inn í skipið og samkvæmt öllum eðlilegum rýmislögmálum, líkt hinum biblísku lögmálum, þá eru hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir. Við vorum reyndar ekki alveg síðust út úr skipinu en ég held við höfum verið næstsíðasti bíllinn til að komast af planinu – enda voru fæstir bílanna með svona appelsínugula miða einsog við. Þeir voru bara fyrir óbólusetta (ég hef tekið eftir því að þegar fólk kemst að því að ég er óbólusettur þá heldur það að ég sé fábjáni sem sé á móti bólusetningum – sú er alls ekki raunin en maður verður að hafa fylgst með blogginu í smástund til að átta sig á því hvernig á þessu stendur, ég get ekki verið að tíunda það hérna í hvert einasta sinn). Fyrst sagðist lögreglan telja að við ættum öll að fara í sóttkví saman – líka Nadja, sem er bólusett. Síðan sagði ég þeim að ég hefði fengið skýr svör – í tvígang – um að ég mætti ferðast með henni og raunar umgangast bólusetta (en það væri mælt með því að ég héldi því í lágmarki – helst engan nema nánustu fjölskyldu). Þá var kallað í lækni og aðra löggu til skrafs og ráðagerða. Niðurstaða þeirra var að Nadja og börnin þyrftu ekki að fara í sóttkví – það væri nóg að ég kæmi mér sjálfur afsíðis. Og betri niðurstöðu gátum við ekki vonast eftir, enda hafði allt skipulag miðað við þetta. Aram var reyndar frekar fúll að keyra ekki beint á Ísafjörð – en ég veit ekki hversu gaman honum hefði þótt í raun að vera þar læstur inni og mega ekki hitta vini sína eða neinn. Það hefði verið áþján að neita honum um það viðstöðulaust í marga daga (hann er ekki á þeim aldri að vilja endilega segjast svo auðveldlega eða finnast reglur fullorðna fólksins mjög merkilegar – sem er svo sem ágætt, en erfitt fyrir okkur íhaldssömu gamlingjana sem höfum fengið það hlutverk að gæta hans og bera ábyrgð á honum). Við byrjuðum á því að taka óþarfa rúnt í kringum Lagarfljót. Það eru nú sennilega fyrstu stóru mistökin sem við gerum í ferðalaginu. Við vorum á þvælingi þarna síðasta sumar og bjuggum þá í Hallormsstaðaskógi og fórum alltaf þessa leið og einhvern veginn gerðum við það bara líka núna. Síðan héldum við sem leið lá til Reykjavíkur, norðurleið. Þar keyrðum við meðal annars fram á slys – það voru löngu komnir nógu margir til að hjálpa en þó var ekki langt liðið frá því bíllinn keyrði út af. Þar var einn víst illa slasaður, sáum við síðar í fréttum, en hinir fjórir sluppu betur. Við máttum hvergi stoppa – eða öllu heldur mátti ég hvergi fara úr bílnum þar sem var aðstaða fyrir fólk. Ekki á bílastæðum eða þar sem eru borð eða við veitingastaði eða bensínsölur. Ég notaði því átylluna og meig á allar hæðir, hóla, runna, heiðar, tré og brúarstólpa frá Egilsstöðum að Borgarnesi. Nadja skaust svo þess á milli inn á bensínstöðvar og náði í kaffi og aðra vökva fyrir mig að míga á náttúruna. Við keyptum samlokur á Egilsstöðum til að borða í bílnum og hamborgara í Staðarskála til að borða í bílnum. Við höfum held ég aldrei keyrt svona langt í einni beit með börnin í bílnum. Við erum þvert á móti mjög gjörn á að stoppa jafnvel einu sinni á leiðinni frá Reykjavík vestur, sem er talsvert styttri leið. Börnin tóku þessum maraþonakstri furðuvel, þótt þau væru þreytt. Svo hentu þau mér úr við Hótel Smára og fóru sjálf í vinahús til gistingar. Ég áttaði mig á því þegar ég steig út úr bílnum að ég var með dálitla sjóriðu, sem kom mér einhvern veginn á óvart – það var ekkert sem ég fann fyrir meðan ég sat í bílnum. En ég er viðkvæmur fyrir sjóriðu og þekki það – þótt ég verði ekki sjóveikur, að minnsta kosti ekki í stærri bátum (af hinu hef ég svo litla reynslu að ég gæti ekki sagt til um það). Nú ligg ég hérna utan í Reykjanesbrautinni og blogga. Það er pínu skrítinn tilfinning að vera svona toxískur alltíeinu. Hættulegur samfélaginu. Án þess að neitt hafi breyst nema staðsetning manns. Eða þannig. Svo er ástandið hérna líka undarlegt – þessi vöxtur, hættan, álagið á heilbrigðiskerfið – þegar maður horfir til (margra) annarra landa er ástandið (a.m.k. hið sálræna) mun slakara. Það eru slæmar fréttir og góðar fréttir til skiptis. Og mjög margt annað í fréttum en bara covid. Hér fjalla fjölmiðlar ekki um annað og stjórnmálaflokkarnir sem ætla til kosninga í haust vilja helst ekkert annað ræða (þegar þeir eru ekki í einhverjum fullkomlega ópólitískum tittlingaskítsmetingi um hver sé með mest þvottekta öreigana í framboði). Það er eiginlega næstum einsog annað hvort fljóti aðrir sofandi að feigðarósi eða bólusetningar virki síður á Íslendinga. Þá er að síðustu undarleg tilfinning að vera í þessum stormi hérna óbólusettur. Ég las einhvers staðar í gær að Delta dræpi þrisvar sinnum fleiri af þeim óbólusettu en gamla góða covidið. Og væri á allan hátt skæðara. Mér þykir nú heldur ósanngjarnt eftir allt þetta vesen, ef ég á svo bara að fara að deyja.
Heimferðardagbók: Dagar 9 og 10
Við sátum á pizzastaðnum I Love Pizza í Gautaborg, sem Aino hafði valið, þegar sms-skilaboðin bárust um að niðurstaðan í PCR-prófinu mínu væri komin í hús og ég gæti smellt á hlekkinn til að sjá hvort ég væri jákvæður eða neikvæður. Það tók óþarflega langdregnar sekúndur að hlaða síðuna en ég reyndist sem sagt laus við Covid. Léttir minn var talsverður, enda var ég bæði viss um að ég væri helsjúkur og að mér hefði tekist að kalla dauðadóm yfir nokkurn veginn alla sem ég hefði hitt dagana á undan með ábyrgðarlausri hegðun (ég er alltaf að snerta á mér andlitið). Um nóttina sváfum við á Scandic Crown og átum morgunverð í rólegheitunum. Ég fékk líka svar frá yfirvöldum um það hvernig væri best að ég hagaði sóttkví minni í ljósi þess að fella ætti úr gildi rétt fólks til þess að sitja af sér sóttkví á farsóttarhúsi og hver einasta kytra á austurlandi virtist fullbókuð. Þau svör voru ekki alls kostar einföld eða ómótsagnarkennd, ef satt skal segja. Í fyrsta lagi kom fram að ég mætti fara með Nödju og krökkunum til Reykjavíkur og þyrfti ekki að vera í sóttkví frá þeim og þau þyrftu ekki að fara í sóttkví fyrir það að umgangast mig. Fólk í ferðasóttkví mætti umgangast bólusetta. Þetta kom mér nokkuð á óvart svo ég spurði aftur – og bætti þá við hvort hugsast gæti að ég mætti líka gista í Reykjavík hjá vinum mínum sem væru bólusettir? Samskipti við yfirvöld hjá covid.is eru óþægileg að því leyti til að maður fær alltaf svar frá nýrri og nýrri manneskju. Við þessa þriðju eða fjórðu fyrirspurn mína fékk ég því fyrirlestur um hvernig ég ætti að haga minni sóttkví einsog ég hafði aldrei áður átt í neinum samskiptum við þetta yfirvald – og svo móralíseringar um þetta væri nú ekki svo mikið mál og þetta væri ekki svo dýrt af því ég þyrfti bara þrjár nætur – af því tvær væru í bátnum – og þar fram eftir götunum. Það var ekki alveg laust við að mér þætti yfirvaldið vera pínulítið patróníserandi. Fyrir utan að öll þessi aukaútgjöld við ferðina frá Svíþjóð til Danmerkur til Íslands, fyrir próf og vottorð og gistingar, eru löngu orðin meira en tvöfaldur ferðakostnaðurinn – þetta hrúgast hratt upp – og höfuðverkurinn og kvíðinn sem viðstöðulitlar breytingar á reglum (og hótanir um breytingar á reglum) kosta mann fullkomlega sturlandi á köflum. En ég spurði nú aðallega til að vita hvort ég mætti þetta, frekar en að ég ætlaði að gera það – og það má en segja má að hið opinbera hafi sagt það siðferðislega óréttlætanlegt. Næst þurfti ég því að redda mér hótelgistingu í Reykjavík. Það er ekki hægt að sjá á bókunarvefum hverjir bjóða upp á sóttkvíargistingu en það er listi á covid.is yfir þau hótel sem bjóða upp á slíkt og netföng með. Ég byrjaði á því að skrifa hverju einasta hóteli í Reykjavík samhljóðandi bréf – þau voru 27 talsins – og næstu klukkustundirnar tók ég á móti hverju höfnunarbréfinu á fætur öðru. Í sem stystu máli var laus ein íbúð fyrir rúmlega 300 evrur sólarhringurinn og eitt hótelherbergi fyrir 490 evrur nóttin (plús 28 evrur per nótt fyrir valfrjálsan morgunmat). Á hvorugu hafði ég ráð svo ég brá á það ráð að lesa vel yfir listann yfir hótelnöfnin á covid.is og reyna svo að nota booking.com til að finna laust herbergi einhvers staðar – í krafti þess að nöfn þeirra hótela sem byðu upp á sóttkví myndu sitja í skammtímaminninu og ég gæti borið saman ef eitthvað sýndist ganga upp. Þannig fann ég eitt herbergi í Kópavogi sem mitt síþynnandi veski ræður við. Til þess að bóka það þurfti ég að senda staðfestingu frá covid.is um að ég þyrfti ekki að vera fimm nætur heldur þrjár, vegna þess að ég væri að koma með bátnum – og sannaðist eina ferðina enn að það borgar sig að passa bara í alla kassa bjúrókrasíunnar, en vera ekki með aðskilin lögheimili, einn bólusettur og annar ekki, ferðast í gegnum önnur lönd á bíl sem er skráður í þriðja landi, og ferðast á skipi en ekki flugvél. Þannig er maður bara að biðja um að láta refsa sér með aukaveseni. Eftir morgunmat tókum við bátinn frá Gautaborg til Frederikshavn í krafti PCR-prófs míns og covid-ferðapassa Nödju. Og bernsku barnanna. Danmörk er allt annað land en Svíþjóð og það var einhvern veginn áberandi alveg frá fyrsta augnabliki. Vegirnir, húsin, skiltin, fólkið, fyrirtækin – allt er þetta einhvern veginn alls ekki sænskt í Danmörku. Við keyrðum frá Frederikshavn til Hirtshals og fórum þar beint niður á höfn þar sem Nadja var skilin eftir til að taka antigen-próf á meðan við börnin fórum og tékkuðum inn á hið allsendis dásamlega Hotel Hirtshals, alveg við höfnina. Augnabliki eftir að við tékkuðum inn var Nadja búin í prófinu og ég skildi krakkana eftir og fór og sótti hana – í bílnum á leiðinni til baka fékk hún sína niðurstöðu og reyndist einnig neikvæð. Gudskelov. Það var því eðlilega hugur í fólki. Við Aram fórum út að hlaupa – hann var svolítið sloj og fór bara tvo kílómetra, en ég fór fjóra og hljóp í brekkum og var með alls konar stæla. Nadja og Aino fóru líka út að hlaupa saman en voru mest á ströndinni að djöflast eitthvað. Svo fór Nadja að leita að þvottahúsi og fann það en reyndist þá ekki með neina danska mynt og þurfti frá að hverfa. Henni til hugarþægðar fór ég út og keypti mér nýjan hlaupabol – en hún þvoði nú samt hinn í vaskinum og hann lyktar alls ekki jafn illa og sumir vilja meina. Um kvöldið átum við á kránni í næsta húsi. Það var í sjálfu sér ágætt þótt það yrðu ruglanir með pantanir – þjónninn var ungur og ringlaður og það var meira að ég vorkenndi honum en léti ruglið fara í taugarnar á mér. Maturinn var fínn og við vel stemmd. Það var helst í morgun þegar ég uppgötvaði að hann hafði rukkað – og ég greitt, athugasemdalaust – 1.600 danskar krónur fyrir mat og drykk sem hefur alls ekki getað kostað meira en þúsund (og sennilega minna en það). Líklega höfum við fengið reikning fyrir rangt borð og ég í senn of góðglaður af bjór og kvíðaogléttisskiptavanda yfir öllu sem gæti farið úrskeiðis og því sem hafði þó reddast og þjónninn of ungur eða nýbyrjaður til við áttuðum okkur á þessu. Fyrren sem sagt við vorum farin frá Hirtshals. Nú í morgun var ég alveg sannfærður um það í nokkur augnablik að ég hefði misskilið brottfarartíma skipsins og við hefðum misst af því og nú væri allt í hassi. Það var engin umferð niður á höfn – og Norræna, sem gín yfir Seyðisfirði einsog fjallið eina, sást hvergi. Með alla þessa bjúrókrasíu í hausnum er ég í sjálfu sér mjög hissa að hafa ekki gleymt neinu algerlega beisik einsog komutíma skipsins. Einsog passanum mínum eða að fara í buxur á morgnana. Mamma þurfti að minna mig á það í gærkvöldi að fylla út í komuyfirlýsinguna á covid.is – sem ég vissi ekki hvort þyrfti að vera tilbúin fyrir byrðingu eða fyrir komu, en reyndist svo vera mitt á milli: hana þarf að sýna á barnum eftir klukkan 18 á morgun – og við gengum frá því fyrir háttinn í gær. Í eyðublaðinu var önnur svona bjúrókratísk mótsögn sem er ómögulegt að svara rökrétt – Nadja þurfti að segjast ekki búa á Íslandi (af því hún er enn með lögheimili í Svíþjóð) en samt vera á leiðinni heim (frekar en „í heimsókn“). Ég hljóma ábyggilega einsog ég sé með eitthvert heilkenni að hafa áhyggjur af svona hlutum en vantraust mitt á bjúrókrasíunni – og tiltrú mín á því að skriffinnar geti hengt mann fyrir minnstu yfirsjón, frekar en að þeir hafi með manni samúð eða sýni sveigjanleika – hefur bara gjarnan reynst réttmætt. Já og svo þegar maður er búinn að fylla út í komuyfirlýsinguna fær maður skilaboð um að maður eigi alls ekki að þiggja far með neinum í sóttkví, heldur bara keyra sjálfur, taka leigubíl eða fara með rútu! Samt var nýbúið að tvísegja mér að ég mætti fá far. Dæs! Norræna var auðvitað bara ekki komin í land. Og við vorum snemma í því og mjög framarlega í biðröðinni. Þess vegna var engin umferð og þess vegna sá ég ekkert skip. Við þurftum að bíða í um 40 mínútur áður en byrjað var að hleypa um borð en vorum þá mjög fljótt kominn í stæði. Ég var PCR-prófaður aftur í bílnum þegar sóttkví mín hófst formlega (hér um borð er mér samt frjálst að umgangast alla og fara á veitingastaði o.s.frv.) og það var talsvert minni pína en prófið í Gautaborg. Pinnanum bara svona rétt skotið mjúklega ofan í kok og snúið í nokkrar sekúndur og búið. Nú erum við um borð og höfum það ágætt. Búum í Staraherberginu. Sem er auðvitað viðeigandi. Ég er búinn að versla tollinn. Við erum að sigla undir Noreg. Nadja og börnin skelltu sér í heita pottinn og ég sit á kaffiteríunni og blogga við víðóma undirleik öskurgrátandi smábarna, sem virðast hafa komið sér strategískt fyrir í kringum mig. Fólk er með grímur á göngunum en eyðir mestum tíma á börum og kaffihúsum og þar eru allir eðlilega grímulausir – að troða mat og drykk í grímuleysið á sér. Ég reikna svona heldur með því að ferðin verði tíðindalaus þar til við komum til Seyðisfjarðar ekki á morgun heldur hinn, en maður veit svo sem aldrei. Kannski gerir óveður. Kannski birtist rússneskur kafbátur upp úr hafinu og sökkvir skipinu. Svo á ofurdreifaraviðburðurinn sem ég spáði hér um daginn auðvitað eftir að eiga sér stað. Það getur enn allt farið úrskeiðis.
Heimferðardagbók: Dagur 8
Við smöluðum krökkunum hálfsofandi út í bíl rétt fyrir sjö í morgun og keyrðum sem leið lá til Gautaborgar. Við höfðum góðan tíma fyrir okkur og vorum komin upp úr ellefu. Byrjuðum á að fá okkur hádegismat á Víetnömskum skyndibitastað, sem reyndist óvenju fínn – Vietnamhaket, ef einhver á leið hér hjá. Þá komum við bílnum fyrir við hótelið og röltum niður í bæ. Aram beit í sig að listasöfn væru viðbjóður og eftir að ég var búinn að móralísera fyrir honum einsog Móses með steintöflurnar um að þetta væri vonlaus afstaða fékk hann samt að hanga á borgarbókasafninu á meðan við hin fórum á listasafn. Safnið er frekar mikilfenglegt – mikið af gömlum meisturum og alls kons skemmtilegt nýtt. Það er líka passlega stórt svo manni líður ekki einsog það sé búið að keyra yfir skilningarvitin á manni á valtara þegar maður kemur út. Ég fór í test klukkan 14.20. Ég gekk frá listasafninu efst við Avenyn í nokkra hringi að leita að Elite Hotel þar sem Vaccina átti að vera búið að koma sér fyrir með sinn covidbúnað. Elite Hotel reyndist vera sama bygging og sami inngangur og kráin At Park – þar sem dreggjarnar af bókamessunni í Gautaborg koma saman á kvöldin og troðast svo hressilega að þar fá allir undantekningalaust sömu flensurnar. Í þetta sinn var fámennara – engin Herta Müller við innganginn að rífast við agentinn sinn í síma, einsog ég sá einu sinni, enginn Dolph Lundgren að drekka Mai Tais með Ninu Hagen, Desmond Tutu og lífverðirnir allir einhvers staðar langt í burtu – og ég staulaðist í gegnum mannfæðina upp á aðra hæð. Þar beið ég í augnablik í biðstofu og var svo kallaður inn. Það var auðvitað vesen á bókuninni af því ég er ekki með sænska kennitölu – það er eiginlega alltaf vesen. Sænsk skriffinnska er ferkantaðasta skriffinnska á jörðinni. Sjálf sýnatakan var ofbeldisfyllri en ég hef lent í áður. Hann rak pinnann afar djúpt í kokið á mér og það var eiginlega einsog hann væri að leita að ógleðitriggernum – þessum litla bletti þar sem maður kúgast mest – og þyrfti svo að krukka þar í dágóða stund. Þar væri Covidið og hvergi annars staðar. Þegar maður fer í venjulega sýnatöku í Svíþjóð – út af einkennum – fær maður bara að gera þetta sjálfur. Stingur smá í nef, smá í kok og hrækir svo á helvítið. Fyrir vestan stungu þeir smá í kok en frekar djúpt í nef. En þetta var bara kok og ég táraðist mikið og við þurftum að stoppa fjórum-fimm sinnum. Sennilega er þetta nú áreiðanlegra en hitt. Niðurstöðuna fæ ég svo stafrænt í kvöld. Mér líður fremur undarlega – ég hef neikvæða tilfinningu gagnvart þessu en ég er svo sem oft neikvæður að óþörfu. En þetta er undarlegur staður, alltaf, mitt á milli afneitunar og ofsóknaræðis. Maður er næmur á líðan sína en ímyndar sér líka eitt og annað – og svo er svo erfitt að átta sig á því hvað er eðlilegt. Ég er 43 ára maður sem fór á tvö fyllerí í vikunni og það væri mjög óeðlilegt ef ég væri ekki svolítið sloj. Nadja og Aino fengu flensu í síðustu viku og voru testaðar og það var ekki covid og einhvern smotterís kverkaskít og þannig höfum við öll verið með síðan. En ég hef líka verið úti að hlaupa og hefur ekkert liðið verr en gengur og gerist. Stundum hress, stundum sloj, einsog miðaldra manni sæmir. Það er stundum sagt að það sé gott að eiga von á því versta því þá gleðjist maður þegar ástandið reynist skárra en maður hafði átt von á. Þetta held ég að sé misreiknað. Það er alveg handónýtt að hafa áhyggjur af hlutum sem maður hefur ekkert um að segja. En þetta er líka versti þröskuldurinn. Það er eitt að sitja mögulega fastur í sóttkví á Íslandi og annað að gera það hér og missa af bátnum og öllu saman. Ég skrifaði annars stjórnvöldum í gegnum covid.is til að spyrja hvað í ósköpunum ég ætti að gera þegar ég kem til Seyðisfjarðar – hvort ég mætti hugsanlega þiggja far með fjölskyldunni minni suður og fara í sóttkví þar eða hvort það þýddi þá að þau þyrftu líka að fara í sóttkví (en það legg ég ekki á þau nema tilneyddur)? En hef ekkert svar fengið.
Heimferðardagbók: Dagar 5 og 6
Ferðalagið er hafið og það bætist sífellt á listann yfir allt sem getur farið úrskeiðis. Nú er farið að rigna svo mikið í Bohuslän – þar sem Gautaborg liggur – að fólk er varað við því að vera á ferðinni. Sem betur fer á það enn sem komið er helst við minni vegi og við ætlum bara að halda okkur á hraðbrautinni. Í gær missti ég líka af símtali frá Smyril Line – og fékk auðvitað hálfgert taugaáfall, var handviss um að eitthvað hefði farið úrskeiðis og við kæmumst ekki heim. Þau reyndust þá bara að hringja til að minna alla á að mæta með PCR vottorð. Það er áreiðanlega ekki gaman að þurfa að vísa fólki frá. Það gekk mjög vel í Gautaborg og Åmål. Sérstaklega var gaman að vera í Åmål með John Swedenmark, þýðandanum, sem hafði umtalsvert gáfulegri hluti að segja en ég. Ég verð gjarna óðamála og óöruggur í viðtölum – ég ætla sosum ekki að gera meira úr því en efni standa til, ég held ég komi ekkert fyrir einsog fábjáni, en ég er sjaldnast ofsaglaður með frammistöðu mína. Ég er rithöfundur af því mér finnst þægilegt að hugsa á lyklaborð – ekki að tala upphátt. En ég nýt þess þá að vera umkringdur alls konar snillingum sem þess utan gera alltaf sitt besta til að láta mig líta vel út. Hér á myndinni fyrir neðan má t.d. sjá Yukiko Duke – sem er þekktur gagnrýnandi í Svíþjóð, og gaf mér minn fyrsta dóm, fyrir Eitur fyrir byrjendur, fjórar stjörnur í Go’morgon Sverige fyrir hundrað árum. Við hliðina á henni er svo Per Bergström, útgefandinn minn og góðvinur – sem er varla kynntur öðruvísi í dag en tekið sé fram að hann gefur út nóbelsverðlaunahöfundinn Louise Glück (auk mín, sem sagt) – ég og svo áðurnefndur John, sem er mikill sendiherra alls sem íslenskt er og annálað gáfnatröll – og svo loks Victor Estby, framkvæmdastjóri Bókadagana í Dalslandi, sem „sleppir“ Brúnni yfir Tangagötuna (að gefa út bók á sænsku heitir að sleppa bók – þetta er hið formlega útgáfuhóf og var ekki síst skemmtilegt vegna þess að ég náði aldrei að halda neitt útgáfuhóf þegar hún kom út á Íslandi (út af covid). Í dag er ég sem sagt þunnur. Nú er ég í lestinni frá Karlstad til Hallsberg. Þar skipti ég yfir í lestina til Norrköping. Hér er allt fullt og ég fæ áreiðanlega covid á leiðinni. Á morgun er hvíldardagur. Ég ætla að fara út að hlaupa, gera jóga og taka upp blús mánaðarins – sem verður sænskur að þessu sinni. Og á sunnudag keyrum við til Gautaborgar í rauða býtið.
Heimferðardagbók: Dagur 4
Það var átakalaust þegar vörubíllinn kom að sækja brettin í gærkvöldi. Þau eru þá farin. Og tollurinn og Samskip hafa fullvissað mig um að við eigum ekki að lenda í neinu tollarugli. Í dag losuðum við okkur við hluti til Stadsmissionen og komum öðru í kjallarann. Mágur minn kemur svo og sækir eitthvað – aðallega til að koma á haugana. Börnin fóru með lestinni til Rejmyre. Nadja er heima að sinna einhverju smotteríi en ég færði mig á kaffihús – aðallega til þess að undirbúa mig fyrir næstu tvo daga, sem verða rithöfundadagar. Ég fer til Gautaborgar með lest á morgun og svo á Bokdagarna í Dalslandi. Næstu tvo daga verð ég sem sagt að haga mér einsog andans maður en ekki efnisins. Ég er hér á kaffihúsinu til að endurfæðast. Ég veit ekki hvort maður er nokkurs bættur með að gera lista yfir allt sem gæti farið úrskeiðis næstu daga en það hvarflar alltaf að mér af og til – maður gæti þá andað léttar í hvert sinn sem maður fer yfir einhvern þröskuld. Fyrir utan þetta venjulega, einsog að geta misst af lestum eða að það springi dekk á bílnum eða hótelbókanir reynist hafa verið vitlausa nótt eða að maður týni passanum sínum, eru það fyrst og fremst covidreglur sem gætu breyst hratt – og maður gæti orðið útsettur fyrir smiti. Það er ekki endilega gáfulegt að taka þátt í tveimur viðburðum svona rétt fyrir brottför – eða sitja á kaffihúsi – en þetta gerir maður samt. Annað er vinnan mín og á kaffihúsinu sit ég afsíðis. Annars er þetta líka svolítið skitsó – það er ekki sami æsingur í Svíum og heima. Að lesa til skiptis SVT og Vísi er einhvers konar æfing í mótsögnum. En auðvitað snýst það allt um hvaðan maður er að koma og hvert maður er að fara og hvaða viðhorf maður hefur til lífsins (og dauðans). Eitt sem ég veitti athygli í gær er að þegar talað er um smit á landamærunum í Svíþjóð er alltaf talað um „utlandsresorna“ – það er að segja ferðir Svía út úr landinu og heim – en á Íslandi er öll áhersla á túrismann. Svíar líta svo á að hinir óábyrgu fari út og sæki veiruna heim en Íslendingar líta svo á að það séu útlendingarnir sem komi með veiruna til sín. Ég reikna með að í raunveruleikanum sé það bæði og – en það er áhugavert að velta því fyrir sér hvort sjónarhornið fjölmiðlar og félagsmiðlavitringar velja sér. Ætli þetta endi ekki samt með ofurdreifaraviðburði í Norrænu? Allir gubbandi fram af rekkverkinu í covidsvita. Fáum ekki að koma í land. Reikum um heimshöfin á fársjúku flónaskipi fram yfir gröf og dauða og ofsækjum þá fáu sem lifa af. Þá verður nú gaman að vera til.
Heimferðardagbók: Dagur 3
Vörubíllinn átti að koma á morgun til að sækja búslóðina en til stóð að bílstjórinn myndi hringja í dag til að segja nánar klukkan hvað hann væri á ferðinni. Hann hringdi í hádeginu og stakk upp á að mæta hingað klukkan 7 í fyrramálið. Þá hefðum við þurft að vakna klukkan fjögur til að byrja að raða á brettin. Það þurfti ekki miklar samningaviðræður til þess að fá hann til að koma frekar í kvöld. Sem varð til þess reyndar að við misstum af kvöldverðarboði hjá tengdapabba en af tvennu illu þá var þetta nú skárri valkosturinn. Og börnin fengu samt að fara í kvöldverðinn. Í sjálfu sér erum við laus – en það verður einhver að vera heima til að gæta brettana sem standa undir eldhúsglugganum okkar. Bílstjórinn kemur í fyrsta lagi átta, segir hann, og sennilega ekki síðar en níu. Dagurinn byrjaði annars á því að við Aram fórum út að hlaupa. Hann hefur komið með mér út alla mánudaga í nærri tvo mánuði. Við förum 3,5 km í rólegheitunum og hlustum á tónlist. Það er ennþá steikjandi hiti en skárra þegar maður kemst af stað í morgunsvalanum. Á meðan við bíðum eftir bílstjóranum ætlum við Nadja að borða indverskan mat – sem verður sóttur og étinn hér við skrifborðið mitt. Það fáum við ekki á næstunni, nema heima hjá okkur. Ég fór meira að segja í ríkið og keypti mér nokkra bjóra. Ég litaðist líka um eftir flösku af þýska hvítvíninu „Hans Baer“ – sem ég uppgötvaði nýverið á heimasíðu Systembolaget og veit að er til í ríkinu í Hälla – en fann ekki í Systembolaget-City. Líklega fæ ég ekkert Hans Baer vín á Íslandi heldur – það er að minnsta kosti ekki til í ríkinu. Á morgun göngum við svo frá íbúðinni og sendum krakkana með lest til frænku sinnar. Nadja eltir þau á bílnum á miðvikudag og ég fer með lestinni til Gautaborgar í útgáfuhóf fyrir Bron över Tangagata sem er að koma út hjá Rámus. Hingað komum við ekki aftur í þetta skiptið. Nema auðvitað ef landinu verður lokað. Það er svolítil stemning fyrir einöngruðum þjóðríkjum þessa dagana. Ekki síst eyríkjum. Og ekki alveg laust við að maður skammist sín – þótt það sé ekki alveg ljóst hvort maður eigi frekar að skammast sín fyrir að hafa farið eða fyrir að koma aftur. En mér þætti raunar alveg grínlaust áhugavert að vita – í allri þessari umræðu um að bjarga ferðaþjónustunni og vera ekki að hlaða undir rassgatið á heimsreisudillum hvítvínskellinga og djammferðir unglinga – hversu margar fjölskyldur eru í svipuðum sporum og við. Að vera með fætur og rætur í fleiri en einu landi er ekki alveg auðvelt (eða ódýrt) á covid-tímum. Allir Íslendingar sem eru giftir útlendingum – hvort sem þeir eru með fasta búsetu á Íslandi eða erlendis – allir innflytjendurnir, allir Íslendingar erlendis. Og fleiri. Ég held þetta sé fremur stór hópur.
Heimferðardagbók: Dagur 2
Í dag losnuðum við við dálítið af húsmunum úr íbúðinni hér við Karlsgötu. Svo hef ég verið að garfa í pappírum. Ég hef líka verið að skoða hvort það sé skynsamlegra að Nadja og börnin fljúgi suður og skilji bílinn eftir fyrir austan hjá mér eða hvort það sé skynsamlegra að ég fljúgi á eftir þeim þegar ég losna. Mér finnst bara ekki svo auðvelt að sjá út úr því hvenær ég losna. Það er talað um 2-3 daga á heimasíðu Norrænu – af því að bátsferðin telst líka vera sóttkví. Annars fór ég út að hlaupa í 30 gráðu glampandi sólskini og gerði næstum út af við mig. Það var gert til þess að viðhalda geðheilsu minni. Eða það var hin opinbera útskýring. Þegar ég segi þetta svona finnst mér það alls ekki meika sens. Þetta getur ekki verið gott fyrir geðheilsuna. En það er kannski mikilvægt líka að leggja rækt við geðveilurnar sínar. Ég hlakka mikið til að koma heim. Eiginlega svo mikið að ég hugsa að heimkoman geti varla annað en valdið mér vonbrigðum. Vinir mínir og fjölskylda geta varla verið jafn skemmtileg og mig minnir. Veðrið – ég er enn ekki orðinn svo firrtur að halda að veðrið verði „gott“, en það verður kannski þægilegra skokkveður. Fjöllin – eru þau blá? Eldhúsið mitt – gítararnir mínir – nýi kebabstaðurinn sem ég hef aldrei prófað. Steikarlokur í Hamraborg með Smára. Bjór á Húsinu. Búrbon og Límonaði hjá Cat og Dan. Lagavullin hjá Inga Birni. Sána hjá Hála. Að heyra í Hauki Magg tala í símann fyrir fjögur horn í kyrrlátum firðinum. Grill hjá pabba og mömmu. Kaffikortið mitt á Heimabyggð – var ég ekki nærri kominn á næsta fríbolla? Skrifstofan mín. Spjall „á förnum vegi“. Matarboð og veislur. Pizzurnar á Mömmu Ninu bíða sennilega, af því mig langar að baka pizzur sjálfur – og Dóra systir er að hóta því að bjóða mér í pizzu líka og maður getur ekki borðað pizzu á hverjum degi. Svo á ég von á litlu frændsystkini – Dagný Vals bróður er kominn á steypirinn – það gæti þess vegna komið á undan mér.
Heimferðardagbók – Dagur 1
Það er alltaf hausverkur að flytja en það er ansi margfaldur hausverkur að flytja á Covid-tímum. Ekki síst þegar maður hefur ekki fengið sprautuna góðu – sem ég hef ekki fengið vegna þess að sænska og íslenska kerfið kunna ekki að tala saman og maður lendir iðulega á milli þilja í kerfum. Nema hvað. Til stendur, ef guð og haugur af rándýrum PCR-prófum lofa, að við komum til Íslands með Norrænu þann 5. ágúst næstkomandi. Nadja er bólusett og börnin eru börn svo þau þurfa ekki að fara í sóttkví en ég er frávik og þarf að vera einhvers staðar í 2-3 nætur. Nadja og krakkarnir þurfa að taka bílinn suður svo ég kemst ekki mjög langt. Það er urmull af gistihúsum og hótelum sem gefa sig út fyrir að taka á móti fólki í sóttkví en viti menn – þau eru öll uppbókuð (nema eitt, sem bauð mér nóttina áður en ég kem fyrir litlar 30 þúsund krónur – næturnar í bátnum teljast líka til sóttkvíar en ég má sennilega samt ekki umgangast fólkið sem ég deili káetu með eftir að í land kemur). Ég má víst ekki stíma einn upp á öræfi með tjald af því það er ekki aðskilinn salernisaðstaða í tjaldinu og enginn til að spritta öræfin þegar ég fer. Það er einhvers konar neyðarhótel á Neskaupsstað (þangað sem ég verð líklega að taka 35 þúsund króna leigubíl) en ef það fyllist verð ég vísast að vera undir það búinn að taka leigubíl til Reykjavíkur. Ofan í allt saman má ég eiginlega heldur ekki vera að því að hafa áhyggjur af þessu – ég er upptekinn af því að hafa áhyggjur af því að dóttir mín sé með hita (blessunarlega ekki covid, það hefði sett okkur á hliðina á þessum tímamótum – en sólarhringurinn meðan við biðum eftir niðurstöðunum var dálítið óþægilegur); ég er upptekinn af því að sjá til þess að búslóðin okkar verði ekki tolluð (það gæti skeikað dögum á því hvort við höfum búið erlendis í ár – sem er víst skilyrði – en fer eftir við hvaða daga er miðað); upptekinn af því að bóka ferjur og hótel og PCR-próf á réttum tímum svo við komumst í gegnum Danmörku og upp í Norrænu, og pakka öllu auðvitað og merkja það og sjá til þess að það brotni ekki í flutningunum og svo þarf að losa sig við haug af dóti. Svo á ég að vera að gefa út bók í Svíþjóð – það var önnur að koma út í Frakklandi og þriðja, sem kemur út á Íslandi í haust, er að fara í prentun. Það kostar sinn skerf af athygli manns. Svo veit ég reyndar ekkert hvernig ég kemst áfram þegar sóttkví lýkur heldur.
Skáldæviharmsagan og viðtökur hennar
Einhvern tíma fyrir langa löngu var ég að hlusta á bókmenntaþátt á BBC þar sem höfundur – sem ég man ekkert hver er lengur, kona í fagurbókmenntum fyrir fullorðna – fór að tala um „óverðskulduð tár“ og hvernig þau væru stærsta synd hvers rithöfundar. Með því var hún að segja að maður ætti fyrst að setja upp sögusviðið og leyfa lesandanum að kynnast sögupersónunum áður en maður færi að láta ósköpin dynja á þeim – því auðvitað er það það sem fagurbókmenntir fyrir fullorðna eru, rithöfundar að láta ósköp dynja á saklausu fólki. Hún vildi meina að ósköpin þyrftu að gerast „náttúrulega“ – á sínu eigin tempói – og freistingin til þess að troða þeim inn væri frekja af hálfu rithöfundarins. Hann væri í raun að æpa á lesandann að nú yrði hann að tengjast sögupersónunum og gráta – án þess að nenna að vinna fyrir því. Því auðvitað slær harmur okkur, jafnvel þótt við höfum ekki náð að kynnast sögupersónum. En að sama skapi getum við einmitt fyrst við í skáldsögu þegar okkur finnst höfundurinn vera orðinn fullmelódramatískur, við getum hreinlega misst samúðina og lent í Birtingssýslu, þar sem harmurinn verður kjánalegur og einhvers konar myndlíking fyrir eitthvað annað. Við grátum ekki beinlínis yfir teikningum Hugleiks, þótt þær séu gjarnan um grátverðar upplifanir. Ég er í ekki endilega sammála þessari konu þótt mér þyki kenningin allrar athygli verð og rétt að maður sé meðvitaður um þetta þegar maður situr við skriftir – þörfina til þess að kalla á djúpar tilfinningar í brjósti lesandans. Hún er sennilega ein af ástæðunum fyrir því að maður skrifar yfir höfuð, en hún er líka frekur húsbóndi. Það getur alveg verið ástæða til þess að leyfa lesanda að kynnast sögupersónu fyrst og fremst í gegnum einhvern harm – bókin fer þá væntanlega í að skoða harminn, skræla utan af honum, rýna í hann, hann sogar að sér athyglina. En ég held að maður mæti líka slíkri bók alltaf svolítið sigghlaðinn, svolítið varkár. Merkilegt nokk kemur þetta viðtal síðan alltaf upp í hugann þegar ég velti fyrir mér muninum á skáldsögu- og ævisögu- og skáldævisöguforminu. Hvernig harmur virki í sannsögu. Maður getur nefnilega ekki álasað sögupersónu fyrir að verða fyrir harmi of snemma í ævisögunni sinni, til dæmis, eða gagnrýnt trúverðugleika sögunnar (án þess að segja höfundinn beinlínis vera að ljúga – sem er samt annað) – alveg sama þótt ævisagan eða skáldævisagan sé búin einsog skáldsaga og jafnvel byggð þannig að hún hafi stærri/aðra merkingu en hver önnur játning, sé metafóra um tilveruna eða heimspekileg kenning. Maður réttir ekki manni sem úthellir úr hjarta sínu gula spjaldið fyrir það hvernig hann leggur upp söguna, að minnsta kosti ekki ef sagan inniheldur nokkra ástæðu til þess að tárast. Ein algeng – feminísk – gagnrýni er síðan að rithöfundar séu full gjarnir á að henda inn nauðgun þegar þá rekur í vörðurnar og vantar púður til að halda sögunni uppi. Gagnrýni af slíku tagi er augljóslega bullandi rangstæð þegar sagan er sannsaga. En hvað er þá skáldævisaga og hvaða hlutverki þjónar hún á tímum sem einkennast öðru fremur af opinberum játningum og reynslusögum? Heyrir hún til bókmenntunum eða facebook-statusunum? Er hún fyrir eilífðina eða augnablikið? Er hún dokument eða listaverk? Var Hallgrímur Helgason, þegar hann skrifaði Sjóveikur í Munchen á sínum tíma, að úthella úr hjarta sínu – að díla við harm sinn í samstöðu hópsins, með hasstagginu, taka þátt í þeirri samfélagsbyltingu sem var forveri #metoo – eða var hann að skrifa listaverk, sem mátti mæla og meta sem slíkt? Því þetta eru tveir ólíkir hlutir og kalla á ólík viðbrögð og þótt það megi blanda þeim þá er ekki endilega sjálfsagt hver prótókoll viðbragðanna er eða á að vera. Hvað sem líður mismuni skáldverka og ævisagna – og þess svæðis þar sem þau mætast, og gneistað getur úr – er ævisaga ekki það sama og einlægt forsíðuviðtal eða reynslusaga á samfélagsmiðlum. Meira að segja jarðbundnasta ævisaga er ekki hafin yfir gagnrýni á sama hátt og hin hreina reynslusaga – enda inniheldur ævisagan jafnan margt fleira en harmsöguna, hún á sér sitt eigið samhengi, og verður hluti af bæði höfundarverki og bókmenntasögu. Það er margt fleira í Sjóveikur í Munchen en hin fræga nauðgun – og allt hitt er líka Hallgrímur að beina kastljósinu að sjálfum sér og sinni sköpunarsögu, einsog fleiri rithöfundar gerðu þessi misseri (og var sennilega í það skiptið bergmál af vinsældum Knausgaards) og hafa gert í gegnum aldirnar. Hallgrímur kallaði Sjóveikan í Munchen skáldævisögu í viðtali – og þótt hann segði hana sanna, sagði hann líka að „flest“ í henni væri satt frekar en „allt“, hún væri „ýkt“ og ekkert í henni „hreinn skáldskapur“ nema uppköstin – og þá ætti í sjálfu sér sannleikurinn og trúverðugleikinn líka að vera undir í mati og mælingum. Þess utan má halda því til haga að hann stillir sér upp sem sögupersónu í bókinni og kallar sig ekki Hallgrím heldur Ungan Mann. Í viðtalinu talar hann merkilegt nokk líka um að hann hafi áhyggjur af því að markaður fyrir endurminningar miðaldra karla sé svolítið mettur þessi jólin, sem bergmálar síðan í gagnrýni Eiríks Guðmundssonar, sem verður komið að síðar (þótt Eiríkur hafi minni áhyggjur af kyni ævisagnaritara og meiri bara af því að ævin sé að taka við af skáldskapnum af því hún sé smellvænni). En að tröllinu í herberginu. Guðbergur Bergsson skrifaði hrottalegan pistil um þessa bók á sínum tíma og hlaut vægast sagt bágt fyrir. Í þessum pistli, sem ég skal láta vera að vitna í, veltir Guðbergur því meðal annars upp hvort Hallgrímur hafi logið upp á sig nauðgun til þess að fæða eigin athyglissýki. Það er í sjálfu sér merkilegt að Guðbergur – sem annars vílar nú varla neitt fyrir sér – virðist meira að segja vita það sjálfur að hann er að fara út fyrir allan þjófabálk og orðar það einhvern veginn þannig að nú sé hann að „leika kvikindi“. Sem er svona heiðin íslenskun á því að spila málsvara myrkrahöfðingjans (advocatus diaboli, devil’s advocate – en hefð er fyrir því að þegar kaþólska kirkjan leggur mat á hvort taka eigi mann í dýrlingatölu fái einhver það hlutverk að mæla gegn því í nafni andskotans). Þegar Guðbergur Bergsson telur sig hugsanlega vera að ganga of langt, þá er mjög langt gengið. Látum það vera. Guðbergur vill og hefur alltaf viljað hafa alla upp á móti sér – ef hann á sér einhverjar málsbætur í huga mér þá felast þær í sálgreiningu sem er ósanngjörn gagnvart bæði Hallgrími og Guðbergi sjálfum: að hann hafi sjálfur sem samkynhneigður maður mátt þola það stærstan hluta ævi sinnar að vera saklaus grunaður alls staðar sem hann fór um að vera predator-ódó sem nauðgar/tælir/spillir ungum saklausum (gagnkynhneigðum og hreinlífum) drengjum. Og bregðist við sögum af þannig hommum með ósjálfráðum kvikindisskap. Hins vegar var meira varið í pistil nafna míns Guðmundssonar sem tók upp orð Guðbergs – gekkst fyllilega við því að þau væru ósanngjarn hrottaskapur – en vildi engu að síður fá rými til þess að skoða hvort nokkurt korn af sannleika væri í því að finna að bókmenntirnar væru (einsog allt annað) að verða klikkbeitunni að bráð. Eiríkur er ekki vitleysingur eða kvikindi – þótt hann bergmáli síðan orð Guðbergs um kvikindið í eigin nafni – og ég samþykki ekki þá túlkun að þótt hann leyfi sér umbúðalausa umfjöllun um skáldævisögu Hallgríms og merkingu hennar í samhengi annarra sams konar bóka og samtímans sem hún birtist í þá sé hann að þolendasmána Hallgrím, einsog Hallgrímur vill meina, og þaðan af síður að Hermann Stefánsson sé að gaslýsa Hallgrím þegar hann rifjar upp að pistill Eiríks var alls ekki einsog Hallgrímur lýsti honum, sem því að Eiríkur hefði lesið allan pistil Guðbergs og smjattað á orðunum – það er einfaldlega ósatt, hann las tvö stutt dæmi úr pistli Guðbergs og setti þau í samhengi við fleiri bækur sem voru að koma út þessi jól, ákveðinn játningatendens í bókmenntum þess tíma og fagurfræði kvikindisins Guðbergs í gegnum tíðina – pistilinn má lesa hér – að benda á það er einfaldlega ekki gaslýsing. Guðbergur þolendasmánaði Hallgrím. Um það er engum blöðum og að fletta og hann mátti og má þola alls kyns svívirðingar fyrir (og á þær skilið og er sennilega alveg sama – ég veit ekki hvað maður gerir í því). En það er allrækilega undir beltis stað að kenna Eiríki Guðmundssyni um glæpi Guðbergs – kannski bara af því hann liggur betur við höggi, hann tekur það sennilega nærri sér og á minna undir sér en Guðbergur – það er ekki „secondary victimization“ einsog Hallgrímur kallar það að skrifa af óþægilega mikilli dirfsku um bókmenntir samtímans, sem eru lagðar fram til dóms og umfjöllunar, alveg jafnt þótt Hallgrími svíði undan. Það er þvert á móti mikilvæg en hverfandi list, sem er skyld hinni sem Hallgrímur er að reyna að gera hátt undir höfði, að tala upphátt. Það var ekki Eiríkur sem gerði ævi Hallgríms að umfjöllunarefni heldur Hallgrímur sjálfur – hann verður að geta tekið því að bækur hans og eðli þeirra séu settar í samhengi. Þær spurningar sem Eiríkur velti upp eru ekki óeðlilegar eða kvikindisskapur. Og sú krafa að Eiríki verði vikið úr starfi – sem ég hef ekki séð frá Hallgrími, og vona að hann myndi setja sig upp á móti sjálfur, en frá öðru málsmetandi fólki – er beinlínis gróf atlaga að málfrelsi Eiríks og öllum til skammar sem hafa hana eftir.