Ég hef fordóma gagnvart fólki sem leikur í auglýsingum. Eða – nei, fordómar er ekki rétt orð. Fólk setur einfaldlega niður við að leika í auglýsingum, semja þær o.s.frv. Það er næstum sama hverju er verið að pranga upp á mann. Og nei, auglýsingar eru aldrei list – list skapar sér eigin markmið, auglýsingar eiga sér alternatíf markmið. *** Það mætti útskýra muninn þannig að einhver elski þig þín vegna eða einhver elski þig bara fyrir það sem þú getur veitt þeim. Kynlífið getur í sjálfu sér verið í öllum fýsískum aðalatriðum mjög svipað. Og línurnar kannski stundum gráar. But it’s not the same. *** Ég nefndi í gær að færri og færri bækur eiga stærri og stærri hlutdeild í bókamarkaðnum og hvað þetta væri til marks um einsleitan lestur. Í kjölfarið fór ég að velta því fyrir mér hvort þetta hefði með sam- og sítengd vesturlönd að gera – einsog við erum öll líka að horfa á sömu sjónvarpsþættina. Einu sinni horfði allt Ísland á Hemma Gunn og Fasta liði einsog venjulega og Svíar horfðu á Varuhuset og Vi på Saltkråkan. Nú horfa bara allir á Game of Thrones. *** Þetta er ekki bara spurning um gæði. GoT er betra sjónvarp en Fastir liðir einsog venjulega. Þetta er spurning um svipaðan sjóndeildarhring – að allir séu að hugsa það sama, upplifa það sama – og einhvers konar úniformisma. Heildir, einsog þjóðir, eru performaðar – og heildin sem við performerum þegar við horfum á sjónvarp í takt við alla vestur Evrópu og norður Ameríku er ný. Eða í það minnsta nýstárleg. *** Því er oft haldið fram að nútímaskilningur okkar á því að tilheyra „þjóð“ eigi uppsprettu í útgáfu dagblaða á landsvísu. Að þegar allir fóru að lesa sama dagblaðið hafi ímyndunarafl þeirra – the social imaginary – farið að rýma alla hina í þjóðinni, á svipaðan máta og það rýmdi áður ættbálkinn og fjölskylduna. *** En fylgir með Netflix tilfinning fyrir öllum vesturlöndum?
Category: Uncategorized
Untitled
Ég fór í göngutúr frá Råby til PL Asian Livs sem er eftirlætis asíska búðin mín. Að minnsta kosti í Västerås. Þar keypti ég kóreskt chili, smokkfisk, kimchi, ferskan grænan pipar, tofu og einhverja hunangsbanana. Ég ætla að gera einhvers konar bibimbap í kvöld fyrir Nödju og systkini hennar og systurdóttur og systurdótturson. Já og börnin mín. Og Nödju. *** Á göngutúrnum hlustaði ég á nýjustu tvo þættina af Póetry Gó. Þetta er afar vel gert, einsog ég held ég hafi nefnt áður, og ég á eftir að sakna þessara þátta þegar þeir ljúka göngu sinni – sem ég held að sé í sumarlok, hafi ég ekki misskilið eitthvað. Það kemur auðvitað ekki að sök að margir viðmælenda eru vinir mínir og kunningjar til margra ára – og höfundar sem ég hef meira og minna lesið upp til agna. En uppleggið og úrvinnslan er líka mjög metnaðarfull sem og innsæi fólks í eigið starf og annarra, eigin verk og annarra. *** Það sló mig á göngutúrnum að íslenskri ljóðlist megi skipta í tvær greinar. Annars vegar eru það svipmyndir af öðrum og hins vegar svipmyndir af manni sjálfum. En íslensk ljóð eru nær alltaf anekdótur – frásagnir með persónum. Sagnaþjóðin lætur ekki að sér hæða. *** Meira að segja Lommi er farinn að yrkja það sem Jacques Roubaud kallar „alþjóðlega fríljóðið“ og hefur skrifað langlokur um (og eiginlega gegn). *** Alþjóðlega fríljóðið er hómógent, samræmt ljóðform á vesturlöndum (og sennilega víðar) sem einkennist af litlum tiktúrum í formi og máli – texta sem er einfalt að skilja og sem þýðist vel á milli mála – og hefur einmitt oft til að bera sögupersónur og sjónarhorn. Textinn skilur sig ekki frá prósa nema með (oft tilfallandi) línuskiptingum sem hverfa fullkomlega í upplestri. (Annars vísa ég bara á stórgóða bók í ritstjórn Marjorie Perloff og Craig Dworkin: The Sound of Poetry / Poetry of Sound – þar á Roubaud góða ritgerð um efnið). *** Óratorrek er vel að merkja samin í einföldum, þýðanlegum setningum, þótt í henni sé ekki að finna tiltekinn ljóðmælanda. En hún er garanterað þýðanlegasta bók sem ég hef skrifað. *** Frásagnir af einkennilegu fólki. Þær eru líka mjög íslenskar, bæði í ljóðum og prósa, og hafa verið lengi. Náskyldar sænska forminu um fakírinn sem varð óléttur og datt fram af svölunum en var gripinn af nakinni húladansmær og varð síðar forseti Tahiti. *** Kannski er þetta einhver höfnun og/eða framhald á póstmódernismanum. *** Eitt einkenni sem hefur lengi verið sterkt á Íslandi en fer vaxandi alþjóðlega er ljóðið sem sjálfsmynd. Ljóðabókin sem sjálfsmynd. Égégégégégégégég orti Dagur Sigurðarsson um árið og skopaðist að þeim sem hugsuðu bara um sjálfan sig (og var sennilega einmitt líka að skopast að sjálfum sér fyrir að skopast bara að sjálfum sér – naflaskoðun er dýrkeypt og endalaust maraþon í endalausum speglasal). *** Sjálfsmyndin – selfíið – er auðvitað í senn tákn um aukna einstaklingshyggju (sem er staðreynd, hvað sem manni finnst um það) og um áherslu á karakterinn . Því rétt einsog í ég-ljóðunum er ekki endilega víst að égið á selfíinu sé alltaf maður sjálfur. Égið á selfíinu er pósa, karakter, stílbragð. Maður er alltaf að taka mynd af einhverju öðru en sjálfum sér þegar maður tekur mynd af sjálfum sér. En maður varpar svo þessari mynd á andlitið á sér. *** Ímyndarsköpun. Ljóðabækur sem ímyndarsköpun. PR fyrir bóhem. *** Er ég orðinn of sínískur? Ég er ekki beinlínis að kvarta. Ég er bara að hugsa upphátt. *** Það er lítið um ljóð á íslensku núorðið sem eru ort fyrir sakir tungumálsins – fá ljóð sem hafa sproklegt intensítet (svo ég sletti dálítið, af því auðvitað kann enginn að tala lengur, síst af öllum ég). Að minnsta kosti fá ljóð sem hafa það að meginmarkmiði. Þess konar ljóð hafa reyndar aldrei verið sérlega áberandi á íslensku – og hafa lítið náð máli, a.m.k. síðustu áratugina, nema sem nostalgía. *** Tilfinning mín er líka sú að þess konar ljóðum fari fækkandi erlendis – þar sem ég sé til (í Skandinavíu og enska málsvæðinu). Sem sagt að anekdótum og sjálfsmyndum fari fjölgandi á kostnað bæði tilraunamennsku og þessa niðursoðna módernisma – að þétta orðin í handsprengjur sem maður starir á þar til þær blasta einhverju í andlitið á manni. *** Þessu tengt eða ótengt las ég nýlega frétt um að bóksala hefði dregist saman milli 2015 og 2016 og það var rakið til þess að síðasta ár hefði ekki komið út neinn almennilegur blockbuster. Og í kjölfarið var stuttlega rætt um þá breyttu heimsmynd að einstakar bækur – Harry Potter, 50 Shades of Grey, Dan Brown o.s.frv. – séu farnar að hafa miklu meiri áhrif á bókamarkaðinn en áður. Sem segir mér að bóklestur sé að verða einhæfari. Að við lesum kannski ekki (miklu) minna en við lesum öll sömu bækurnar. Sem mér finnst ógnvekjandi af ástæðum sem ég kannski tíunda síðar. En nú þarf ég að fara að marínera.
Untitled
Fyrirlitning mín á Air Berlin – sem var svo til engin þar til fyrir skemmstu, þrátt fyrir illan róm sem hefur borist mér til eyrna af og til – hefur farið ört vaxandi síðustu tvo tímana. *** Ég gaf Nödju ferð til San Francisco í jólagjöf. Sex daga ferð. Það verður varla styttra. Nema þegar það einmitt verður styttra af því að flugfélagið ákveður að stytta hana um fimm. Involuntary schedule change, segja þau. Viltu samþykkja hana? *** Hverju á maður að svara? Ég er að reyna að finna út úr þessu.
Untitled
Þetta fann ég á Facebook. Hinn alvestfirski víkingalax er sem sagt hreinn og tær og óspilltur og hefur lifað við Ísafjarðardjúp frá því við landnám og ekkert af þessu hefur neitt að gera með sportveiði eða fikt mannsins við náttúruna. Eða þannig. *** Annars er þetta héðan .
Untitled
Letidagur. Ég var ekki í góðu skapi allan daginn en samt stærstan hluta dags. Við fórum á loppisrúnt – keyptum aðallega vínylplötur. Bonnie Tyler, Duran Duran, Boy George og Rod Stewart. Og eitthvað sænskt eitísband sem ég bar ekki kennsl á. *** Nadja keypti handa mér nýja Appetite um daginn. Gamla mín er týnd – ég hef mig grunaðan um að hafa sett hana á sjúklega öruggan stað, einhvers staðar þar sem engum dytti nokkru sinni í hug að leita – og ég var búinn að kaupa endurprentun með nýja koverinu en saknaði þess að eiga gamla – með myndlistarverkinu sem platan er nefnd eftir. Og Nadja keypti svoleiðis handa mér. Ekki í dag samt, það gerðist um daginn, þegar ég var víðs fjarri. *** *** Það er að vísu límmiði á henni. En þetta er Gunslímmiði! *** Mér hefur sjaldan verið jafn ljóst hversu miklu máli það skiptir að velja sér maka af kostgæfni.
Untitled
Í gær tók ég leigubíl frá Biskops-Arnö til Bålsta. Leigubílstjórinn spurði hvort ég væri í ljóðabransanum og sagðist síðan halda mikið upp á Sven Hassel og einhvern Stieg sem væri krimmahöfundur og hefði áður verið lögregluforingi. Svo sagðist hann reyndar lesa lítið í seinnitíð, aðallega dagblöðin, og mæti þau ekki síst út frá gæðum leturtegundanna. Þannig væri hann steinhættur að lesa Expressen af fagurfræðilegum ástæðum. Best fannst honum að lesa Göteborgs Posten og New York Times. *** Eftirlætis leturtegundin hans var Verdana. *** Í lestinni á leiðinni til Norrköping rakst ég síðan á grein um pólitískt mikilvægi leturtegundanna . Eða – greinin var í sjálfu sér ekki í lestinni, hún var í tölvunni minni, skaut upp kollinum. Í sjálfu sér einfeldningsleg, þótt ég sé sammála einhverjum grundvallaratriðum þarna. Leturtegundir eru ekki bara eitthvað djók. *** Ég gúglaði því og kemur í ljós að Verdana er flokkuð sem „modern humanist“ leturtegund. Það hlýtur að vera ágætt.
Untitled
Stundum skrifa ég eða segi eitthvað um það hvernig ég upplifi afstöðu borgarbúa – eða tiltekinnar valdastéttar í borginni (ég hef verið beðinn um að segja ekki „millistétt“, enda búum við í stéttlausu samfélagi) – til landsbyggðarinnar og fæ til baka að það sé fásinna að ímynda sér að stór hluti borgarbúa vilji landsbyggðinni illt. Sem það og er. Enda er það ekki það sem ég á við. *** Í fyrsta lagi skýrist afstaða fólks oft og iðulega einfaldlega af hagsmunum. Til góðs og ills. Það segir ekki endilega neitt um skynsemi aðgerðanna – heldur um það hvert maður sækir sín rök, hvaða afstöðu það er sem maður reynir að undirbyggja. Rannsóknir hafa sýnt fram á að við myndum okkur skoðun áður en við þekkjum staðreyndir málsins – raunar myndum við okkur alla jafna skoðun á einu leiftrandi augnabliki. Sú skoðun getur breyst og mótast, en það breytir því ekki að við byrjum á einhverjum tilteknum stað út frá öðrum gefnum forsendum, svo sem einsog hvaða sjónarmið eigi að „njóta vafans.“. *** Þegar kemur að laxeldinu í Ísafjarðardjúpi er spurt hvort byggðin eða laxinn eigi að njóta vafans. Margir eiga ekkert undir því að það sé byggð við Ísafjarðardjúp. Margt fólk lítur á það sem fullkomlega eðlilega þróun að það flytji allir til borgarinnar, einsog það gerði í mörgum tilvikum sjálft. Margt af því fólki finnst þess utan að þess gamla heimabyggð eigi að vera „einsog hún var“. Gamlir Ísfirðingar reiðast iðulega þegar hús sem hefur alltaf verið rautt er alltíeinu málað grænt. *** Af þessum orðum er sennilega alveg ljóst hvar sympatía mín liggur. Og hvar hagsmunir mínir liggja. Ég er sennilega búinn að heltriggera vini víkingalaxins – og vissu þeir þó sennilega flestir hvar ég stóð í málinu. *** Það sem er tekist á um í umræðunni um nýlega skýrslu Hafró er ekki hvort laxeldi sé gott eða slæmt – skýrslan er frekar jákvæð í garð laxeldis (ef maður ætlar að taka mark á vísindunum í skýrslunni er víst best að handvelja ekki bara þær niðurstöður sem henta manni) – heldur hvort laxárnar við Ísafjarðardjúp, sem eru fáar og hafa ekki þótt sérlega merkilegar hingað til, séu verðmæti sem þurfi að standa vörð um. Til þess að svo sé þarf laxinn sem í þær gengur að vera einstakur – ef þetta eru sömu stofnar og í öðrum ám, á verndaðri svæðum, þá er engin sérstök ástæða til þess að verja þá nema það hreinlega skipti mann meira máli að við Ísafjarðardjúp séu sportár fyrir stertimenni en lifandi mannabyggð. *** Og það er sem sagt alls ekki víst að þeir séu neitt sérstakir. Það sé til neinn sérstaklega norðvestfirskur víkingalax. *** Það er heldur ekki endilega þar með sagt að þótt hann sé sérstakur – að einhverju leyti – þá sé hann merkilegri en hagsmunir fólksins á svæðinu. Það er einfaldlega matsatriði. Laxar eru ekki endilega rétthærri en fólk, þótt efri millistéttinni finnist gaman að láta taka af sér myndir með þeim. *** Þess utan er spurning hvaða mótvægisaðgerðir séu í boði og hversu skilvirkar þær séu. *** Og þá komum við aftur að upphaflega punktinum. Ég hef enga trú á því að borgarbúum sé illa við landsbyggðina. Þetta er patróníserandi ást . Svona einsog þegar karlmaður vill helst að konan hans fari sér ekki að voða úti á vinnumarkaðnum. Enda finnst engum kvenhatur meiri fásinna en karlrembum – karlrembur elska konur, mömmur þeirra eru konur, dætur þeirra eru konur, ég var nú alinn upp á Kópaskeri og fór til Siglufjarðar öll sumur og af hverju má ég þá ekki hafa skoðun á því hvort það megi særa spegilsléttan fjörðinn með kvíahringjum? *** Við eigum altso ekki að hafa vit fyrir okkur sjálfum, enda erum við bara heimskar kerlingar og skiljum ekki svona flókna hluti, erum á valdi tilfinninga okkar og þar með líkleg til að láta norska laxabaróna breyta okkur í stássfrúr, gegn hysterísku loforði um að við fáum að flytja úr foreldrahúsum. Ef við værum viti borið menntafólk værum við auðvitað löngu flutt, enda vita allir að í smábæjum er bara vinna fyrir fáráðlinga. *** Að því sögðu hefur maður auðvitað engan rétt til þess að vera umhverfissóði. Enda hafa (flestir) þeir sem mæla fyrir laxeldi við Ísafjarðardjúp talað skýrt og greinilega fyrir því að starfsemin fari fram í sátt við náttúruna – að regluverkið sé strangt. Fiskeldi er með umhverfisvænustu matvælaframleiðslu sem finnst á byggðu bóli. (Og til upplýsingar má geta þess að fiskeldi á landi – sem er sturlað orkufrekt, enda þarf viðstöðulaust að dæla í það sjó – er alls ekki umhverfisvænt – nema manni finnist Hvalárvirkjun umhverfisvæn; það sem gerir fiskeldi í hafi umhverfisvænt er meðal annars nýting sjávarins og straumanna). *** Og það er alveg ástæðulaust að sýna kapítalistum einhverja yfirgengilega meðvirkni – innlendum sem erlendum – helst ætti þetta laxeldi að vera á forræði og frumkvæði hins opinbera, allra helst heimastýrðra samyrkjufyrirtækja í samstarfi við sveitarfélagið. Sem stendur er mikilvægt að greitt verði fyrir afnotaréttinn af hafinu og að sú innkoma endi ekki öll í Reykjavík. Og svo þarf að þjóðnýta draslið við fyrsta tækifæri.
Untitled
Einn gallanna við að ferðast mikið er að hausinn á manni – og hjartað – er alltaf á mörgum stöðum samtímis. Hér auðvitað – í Biskops-Arnö, í góðra vina hópi að kenna ungmennum ritlist, fimmta árið í röð. En þess utan hjá fjölskyldunni sem þvælist hingað og þangað, ég held þau séu í Linköping núna. Og svo á Ísafirði, þar sem Helena vinkona mín var jarðsett í gær. Mér finnst alveg dálítið erfitt að hafa ekki getað verið í jarðarförinni, að hafa ekki verið í félagsskap þeirra sem þekktu hana. *** Ungmennin hér eru dálítið svag fyrir 13 Reasons og það sést á sumum textunum. Mér finnst það líka svolítið erfitt, svona miðað við aðstæðurnar. Það er eitthvað fúndamentalt óþægilegt við að sjálfsmorð sé notað sem metafóra eða skáldskapartól – farartæki til harmsville. *** En auðvitað er ekkert rangt í skáldskap. Það er bara spurning um að vinna fyrir því. Hver var það aftur sem sagði að stærsta synd rithöfundarins væri að biðja um óverðskulduð tár? *** Ég reyndi að gúgla því og þá kom upp síða hjá sænska Systembolaget fyrir þetta áfengi.
Untitled
Í dag var líka dagur. Hann var öðrum ólíkur en annars ekkert spes.
Untitled
Í dag fékk ég að elda smá. Myndina tók sænska skáldið Ida Linde.