Untitled

Í leiðara nýjustu Stínu veltir einn ritstjóra, Kári Tulinius, því fyrir sér hvers vegna sumum takist að semja ódauðleg meistaraverk en öðrum ekki – segir svo flestar tilgátur lítt sannfærandi, nema ef vera skyldi fullyrðing Leenu Krohn „að alvöru listafólk drepi ekki ketti“. Orð Leenu fengu að fjúka eftir sýningu Teemu Mäki, þar sem hann drap kött og fróaði sér yfir líkið – það samhengi kemur ekki fram í grein Kára en var nefnt hér á Fjallabaksleiðinni fyrir skemmstu í stuttum pistli um transgressjón í listum, og Hans Blævi , einsog allt hérna fjallar um Hans Blævi þessa dagana. Kári heldur áfram og segir þarna enduróma orð landfræðingsins Strabo, sem hafi sagt eitthvað á þá leið að eðli skálds væri samtvinnað eðli manneskjunnar og því gætu skáld einungis verið góð ef þau væru góð ef þau væru líka góðar manneskjur. En að vera góður þýðir margt og misjafnt – orðið hefur ekki alltaf sömu merkingu. Maður gæti t.d. þekkt mikinn mannvin sem er „vænn við menn og málleysingja“ sem getur ekki stautað sig fram úr heilli setningu eða hugsað bærilega samhangandi hugsun. Hann er ekki góður á öllum vígstöðvum. Hann kann að sýna gæsku en ekki (tiltekna) færni. Ef ég héldi því fram að vinur minn væri „góður skíðamaður“ gæti ég ekki falið mig á bakvið að ég hefði átt við siðferðisstyrk hans, þegar hann dettur í brekkunni. Eðlið er ekki samtvinnaðra en svo að þessar tvær merkingar orðsins „góður“ hanga einfaldlega ekki saman. Lokaorð Kára (eftir talsverða umræðu um nasista) eru þessi: Gott skáld getur fengið lesendur sína til að drepa ekki ketti. Til að snúast ekki á sveif með nasistum. Til að senda ekki flóttafólk út í opinn dauðann. Í sjálfu sér er ekkert ólíklegt að þetta sé satt. Að minnsta kosti einhver skáld geta þetta áreiðanlega – en hver manneskja verður að skrifa innan úr sjálfri sér og þetta er áreiðanlega ekki öllum „góðum skáldum“ gefið. Ég átta mig betur og betur á því, finnst mér, að sá sem reynir að elta hugmyndir annarra um skáldskapinn málar sig bara út í horn – það getur enginn skrifað vel nema sem hann sjálfur / hún sjálf / hán sjálft.  Og sá sem reynir – t.d. sá sem reynir að skrifa sölubókmenntir án þess að hafa raunverulegan talent í þá áttina – klúðrar því einfaldlega. Ég sat einu sinni á panel með Jóni Kalman í Frakklandi, að tala um sirkabát þetta, með illskuna og bókmenntirnar, þegar Jón hélt því fram að enginn gæti lesið Hamsun – sennilega var hann að tala um  Gróður jarðar – og verið fasisti á eftir. Ef ég hefði ekki verið svona vel upp alinn hefði ég skellt upp úr. Því auðvitað var ekki nóg með að Hamsun hefði verið í hávegum hafður hjá nasistum, sem nasistuðust lengi eftir lesturinn, heldur var hann einn af afar, afar fáum vestrænum intelektúölum til þess að veita Hitler tárakirtlakáfandi eftirmæli. Ég er ekki þess verður að mæla hárri raustu um Adolf Hitler, og líf hans og gjörðir bjóða ekki upp á neina tilfinningasemi.
Hann var stríðsmaður, stríðsmaður mennskunnar og boðari fagnaðarerindisins um réttlæti til handa þjóðum heims. Hann var umbótavera af æðstu gráðu og söguleg örlög hans voru þau að starfa á tímum fordæmalausrar grimmdar, sem á endanum felldi hann sjálfan.
Slík er sýn hins venjulega vestur Evrópubúa á Adolf Hitler. Og við, nánir aðdáendur hans, lútum nú höfði við dauða hans. En Knut Hamsun var samt ekki vondur rithöfundur –  Gróður jarðar er ekki verri bók fyrir að nasistar skuli hafa elskað hana og hún hafi alls ekki læknað neinn þeirra af nasismanum. Hún er frábær bók og hann var frábært skáld. Sumir yfirfæra jafnvel skáldið yfir á manninn og segja að   þrátt fyrir að Hamsun hafi verið nasisti hafi hann verið góð manneskja  (aðrir fara í hina áttina og neita því einfaldlega að hann hafi verið góður rithöfundur, fyrst hann var nasisti). Og ég á í sjálfu sér ekkert æðislega erfitt með að taka undir það. Kári spyr í grein sinni hvernig venjulegt fólk hafi getað tekið þátt í versta glæp mannkynssögunnar – en spurningin er auðvitað ægilegri en svo. Spurningin er hvernig gott fólk gat gert það, fólk sem var jafnvel betra og hugrakkara og æðisgengnari skáld en við Kári samanlagt, sinnum tíu. Ég hef oftar velt því fyrir mér hvað það þýðir að vera vondur eða illur rithöfundur en hinu, hvað það þýði að vera góður ( good ) eða góður ( kind ) rithöfundur. Hvað sé vond bók, illa skrifuð, og hvað sé vond bók, ill og ljót og mannskemmandi. Ég er ekki einn af þeim sem lítur svo á að bækur séu í sjálfu sér auðgandi fyrir mannsandann. En ég er ekki heldur einn af þeim sem trúir því að gildi þeirra felist beinlínis í því að vera mannbætandi. Á síðunni Bókaskápur Ástu skrifar Hermann Stefánsson í dag, aðspurður um hvaða bók hafi grætt sig síðast: Fremur en hitt er ég líklegri til að fleygja bók frá mér ef ég fer að hafa hana grunaða um að reyna að grufla við tárakirtlana. Því ég vil, ég heimta, ég krefst þess, að bók höfði til  æðra tilfinninganæmis.  Mér þykir tárakirtlagrufl oftast ódýrt. Það fer hreinlega í taugarnar á mér. Mér finnst það ekki vera sannar tilfinningar heldur andstæða þeirra, kuldi. Afstaða mín til gæsku höfundar er á svipuðum nótum og afstaða Hermanns til tárakirtlakáfs – margar bækur eru beinlínis vondar fyrir sakir dyggðaboða höfunda, sem þurfa stöðugt að vera að sanna gæsku sína. Slík hegðun í bókmenntum minnir mig á það þegar ég var að verða pabbi og sótti foreldrahóp í Västerås þar sem ljósmóðirin, sem var í eldra laginu, ítrekaði svo rækilega að við pabbarnir „skiptum líka ótrúlega miklu máli“ að ég var alveg hættur að trúa því að ég hefði nokkurt hlutverk í þessum annars æsilega leik. Það sem ég á við er: sá sem þarf stöðugt að sanna gæsku sína (fyrir sjálfum sér?) á sennilega í meiri átökum við hana en hann lætur uppi. Þeir höfundar sem ég kann að meta eru þeir sem treysta mennsku heimsins, sem og sinni eigin, og kunna að láta hana skína án þess að fróa henni til blóðs, og án þess að fegra hana. Minnihluti þessara höfunda voru fasistar – Hamsun, Marinetti, Celine, Roald Dahl, TS Eliot – aðrir voru fífl – Salinger, Mailer, Solanas … þessi listi gæti verið mjög langur – og sennilega spönnuðu þeir annars bara litrófið. Við megum ekki gleyma því að þrátt fyrir að maður þurfi ekki að vera góð manneskja til að vera góður rithöfundur þá er ekkert sem útilokar að maður sé það heldur (og raunar ekkert sem útilokar að maður sé stundum góð manneskja og stundum vond, stundum góður rithöfundur og stundum vondur – eðli mannsins er fljótandi en ekki fasti). Hvort að bækur þessara höfunda, þ.e.a.s. vondu höfundanna, hafi gert lesendur sína betri eða verri veit ég ekki. Kannski fór það bara eftir lesandanum í hvert skipti. Ég hallast að því að góðar bækur með vondan boðskap eða vondan anda séu líklegri til að hafa „jákvæð áhrif“ á lesendur en vondar bækur með góðar fyrirætlanir – bækur sem einfalda heiminn fremur en flækja hann, sem strjúka honum bara meðhæris og þóknast honum – en ég veit ekki einu sinni hvaða „jákvæðu áhrif“ það ættu aðvera, kann ekki að skilgreina það. Að maður sé betri í stærðfræði? Þolinmóðari við börnin sín? Að maður kasti öllu og fari í vopnað stríð við fasismann? Gangi í klaustur? Hætti að girnast maka náungans? Gefi veraldlegar eigur sínar? Kaupi fleiri bækur? Fari á þing? Þær bækur sem hafa haft mest áhrif á mig hafa ekki endilega hreyft við mér þannig – þær hafa dýpkað og rótað og sprengt og knúsað og meitt og komið mér í uppnám, en þær hafa ekki endilega gert mig neitt betri. Kannski er það bara vegna þess að ég les of mikið Celine og Dahl, og ekki nóg af Neil Gaiman og Margaret Atwood eða öðrum annáluðum góðmennum, ég veit það ekki. En þótt það sé ýmislegt sem skilur að bókelskt fólk og þá sem lesa lítið, hef ég ekki orðið var við að það sé siðferðisstyrkur hinna bókelsku, frekar en að rithöfundastéttin sé mönnuð eintómum góðmennum. *** ps. Teemu Mäki er samt fífl og maður á ekki að drepa ketti.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *