Untitled

Fór á nýja tælenska veitingastaðinn í hádeginu – náði ekki hvernig maður stafsetur nafnið, Thai Tawai? Thai Tewai?– og maturinn er svo til alveg eins og á gamla tælenska veitingastaðnum við hliðina, Thai Koon, nema á Thai Teowai (?) er líka salatbar og kjúklingabitar og hann er aðeins ódýrari. Sem er fínt. *** Nema mér finnst þetta samt svolítið einsog einhver myndi reisa annað alþýðuhús á Austurvelli og opna þar nýtt bíó í samkeppni við Dúa og Gróu og sýna sömu myndir á sama tíma nema pínulítið ódýrara og með stærri nammibar. Mér finnst einhvern veginn einsog það hljóti að stefna í að þessir staðir setji hvor annan á hausinn. Kannski er ég bara á móti samkeppni. Plúsinn er að þá myndi sjaldnar myndast biðröð. Eða djúpsteiktu rækjurnar klárast. *** Annars fór ég líka á nýja portúgalska staðinn fyrir viku síðan og hann er fínn – en þar mætti vera opið í hádeginu og einhvern veginn augljósara að það sé opið yfir höfuð, ekki bara svo til dregið fyrir og engir opnunartímar auglýstir. Og örlítið fjölbreyttari matseðill (og kannski portúgalskari). *** Ég á þrjár mjög fínar klæðskerasniðnar skyrtur sem ég keypti mér í Hoi An. Þær eru aðsniðnar og sennilega af einhverri slim-fit tegund. Í vetur hef ég notað tímann í ræktinni á meðan ég er að hætta að svitna eftir hlaupabrettið til þess að „rífa aðeins í tækin“, einsog það er kallað. En nýlega varð ég var við að þessi ósköp hafa orðið til þess að brjóstkassinn á mér hefur stækkað. Ekki mikið en nóg til að skyrturnar mínar fínu passa ekki nógu vel yfir axlirnar á mér lengur. Ég er hættur að rífa í tækin og vona að brjóstkassinn á mér falli bara aftur saman. En ég veit ekki hvort þetta þýðir að ég sé yfir líkamlegan hégóma hafinn – að ég þurfi ekkert að vera vöðvastæltur og fagur – eða hvort þetta þýðir að ég stjórnist af hégómlegu hlutablæti, af því ég vil ekki sleppa hendinni af fallegu skyrtunum mínum. Svona getur lífið verið snúið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *