Svefngríman

Ég veit ekki hvar ég fékk þá rellu í höfuðið að það væru bara prinsessur sem svæfu með grímu fyrir augunum. Úr Meatballs? Allavega. Einhvern tíma fyrir langalöngu var mér boðin slík gríma, prófaði en þótti hún óþægileg – svona einsog mér hefur aldrei gengið heldur að sofan með eyrnatappa. Fyrir fáeinum mánuðum flaug ég síðan frá Moskvu til Hanoi og var aftur boðin svona gríma – til gjafar í þetta sinn (Aeroflot mokaði alls kyns fíneríi í fjölskylduna í ferðinni). Ég man ekki hvort ég setti hana á mig en ég man að ég svaf ekkert í fluginu. Kvöld eitt í Hoi An prófaði ég hana síðan aftur og áttaði mig á því daginn eftir að ég hafði alls ekkert rumskað alla nóttina. Sem er ekki bara óvenjulegt, það er liggur við einstakt. Ég vandi mig í kjölfarið á að nota hana þar til bandið slitnaði – og hirti svo tvær grímur í fluginu til baka nú í apríl. Nú sef ég dýpra en ég er annars vanur, kannski ekki alltaf, en oft samt. Og af þeim sökum hefur það gerst nokkrum sinnum að handleggirnir á mér dofna upp – ég ligg á þeim svo blóðstreymið stíflast og vakna lamaður frá öxl niður í kjúkur. Það tekur svona mínútu að öðlast fullt afl aftur, sem er mjög langur tími þegar maður er nývaknaður. Á dögunum rumskaði ég um miðja nótt við það að dóttir mín, nýorðin tveggja ára, var grátandi í rúminu hja okkur. Í það skiptið hafði mér einhvern veginn tekist að lama á mér báða handleggina í einu og gat ekki einu sinni tekið af mér svefngrímuna, hvað þá sinnt Aino Magneu, lá bara þarna handalaus og blindur, rembdist við að reisa mig við, og endaði á að vekja Nödju með nefinu og einhverjum ámátlegum skrækjum. Við ljúkum þessu á ljóði. Cripple eftir Carl Sandburg. (Trigger Warning: ableism (held ég, fer svolítið eftir því hvernig maður túlkar þetta!)). Once when I saw a cripple
Gasping slowly his last days with the white plague,
Looking from hollow eyes, calling for air,
Desperately gesturing with wasted hands
In the dark and dust of a house down in a slum,
I said to myself
I would rather have been a tall sunflower
Living in a country garden
Lifting a golden-brown face to the summer,
Rain-washed and dew-misted,
Mixed with the poppies and ranking hollyhocks,
And wonderingly watching night after night
The clear silent processionals of stars.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *