Untitled

Í frétt Ríkisútvarpsins um verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs í kvöld eru bara talin upp þau verk sem Íslendingar hafa tilnefnt. Þetta er lýsandi fyrir eyjasamfélagið. Okkur er sama um þetta nema að svo miklu leyti sem það viðkemur okkur sjálfum. Verkunum frá hinum norðurlöndunum er líka almennt sýnd lítil virðing eða áhugi. *** Svíar eru líka svolítið svona, nema af ólíkum ástæðum. Svíar eru mjög „sjálfum sér nægir“ – þeim finnst alveg sinn níu milljón manna kúltúr duga sér. Norðmenn, Danir og Finnar eru miklu opnari fyrir umheiminum, fyrir bókmenntum hinna norðurlandanna, sem dæmi. Fyrir þessu hef ég fundið. Íslendingar og Svíar eru „insular“ – einungrunarsinnar, eyjaálfur í sjálfum sér. *** En móðgun samt að Ríkisútvarpið skuli ekki gera betur. Þar innanhúss á fólk einfaldlega að vita betur. *** Ef ég væri tilnefndur myndi ég meira að segja, hér á litla blogginu mínu, nefna við hverja ég væri að keppa. *** Annars var ég að leggja lokahönd á undirbúning nýs ljóðabókaátaks Starafugls og panta allar ljóðabækur útgefnar 2017 (að undanskildum fjórum sem enn hefur ekki tekist að koma út og svo bók ljóðaritstjórans Lomma og minni eigin – við fáum ekki að vera með). Las þar með listann og fór að velta fyrir mér komandi tilnefningum og verðlaunum og þvíumlíku. Ég hef lítið komist yfir að lesa bækurnar enn, vel að merkja, en það sló mig hversu fáar ljóðabækur eldri höfunda eru. Bragi Ólafs er með bók, Kristín og Hallgrímur en annars eru nær allir undir fertugu. *** Nú eru komin ný verðlaun – Maístjarnan – sem er bara ætluð ljóðskáldum. Þau vann Sigurður heitinn Pálsson síðast. Annars eru ljóðskáld auðvitað líka gjaldgeng til annarra bókmenntaverðlauna, svo sem Íslensku bókmenntaverðlaunanna – og bóksalar veita sérstök verðlaun fyrir ljóðabækur. Ljóðabækur hafa líka stundum verið áberandi í menningarverðlaunum DV (finnst mér endilega að ég muni rétt). DV hefur líka oft verið sér á báti – á meðan hin verðlaunin raðast svolítið á sömu bækurnar. *** Dagur Hjartarson fer af stað með látum og fær fimm stjörnur hvívetna. Ætli hann sé þar með ekki sennilegastur? Jónas Reynir er þegar verðlaunaður fyrir Stór olíuskip en gæti bætt á sig. Fríða Ísberg (sem er sú eina sem ég er búinn að kaupa en á ólesna) hefur líka fengið hæp. Mér finnst einsog það fari minna fyrir Eydísi Blöndal núna en þegar hún gaf út Tíst og bast en það gæti líka helgast af því að hún hefur verið í framboði þar til á síðustu helgi. Lommi á eina af bestu bókum ársins en það hefur lítið farið fyrir honum. Kristín Ómars hefur fengið mikið hrós fyrir sína (sem ég efast ekki um að hún á skilið, en ég hef ekki komist í hana enn). *** Ég ætla allavega að spá því að Maístjarnan næst falli í skaut „ungskáldi“ – einhverjum undir 35 ára sem hefur gefið út færri en fimm bækur. *** Og þetta gat ég alveg ólesinn. Hugsið ykkur bara hvað þetta verður auðvelt starf fyrir dómnefndirnar! *** Við þá sem fussa og sveia og spyrja sig hverju svona nokkuð skipti nú eiginlega vil ég segja þetta: Þeir sem vinna verðlaun fá ritlaun, útgáfusamninga, þýðingar erlendis, boð á ljóðahátíðir o.s.frv. Þeir sem vinna verðlaun fá að vinna við að skrifa, hinir fá að skúra gólf og skrifa í frístundum. *** Og þar með skiptir þetta auðvitað mestu fyrir þá sem eru ekki þegar drekkhlaðnir. *** Að því sögðu á besta bókin auðvitað að vinna. Annars glata verðlaunin sjálf gildi sínu fljótlega. Og ég gaf náttúrulega út bestu bókina. En til vara spái ég þá að efnilega ungskáldið fái önnur verðlaun, á eftir mér, sem er bestur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *