
Þótt kaflarnir í Ulysses eigi sér samsvaranir í köflum Ódysseifskviðu þá birtast þeir ekki í sömu röð. Hins vegar byrja sögurnar og enda á svipuðum stað. Segja má að atburðarásin sé í réttri (eða réttari) röð hjá Joyce af því stór hluti Ódysseifskviðu er Ódysseifur að rekja raunir sínar fyrir Alkinóa í endurliti. Því má svo halda til haga að Joyce skrifaði ekki nein kaflaheiti inn í bókina, þeir eru bara kallaðir þetta (Próteus, Kalypsó, Lótusæturnar o.s.frv.), út frá skema sem Joyce sannarlega gerði – og þetta eru lausar vísanir en ekki harðar, Ulysses er ekkert paint-by-numbers og það er ekki víst að allir lyklar í Hómer opni neitt hjá Joyce.
Hvað sem því líður er fimmti þáttur Ulysses Lótusæturnar.
Í kviðu sinni segir H´ómer frá því er Ódysseifur kom að eyju „Lótófaga“. Þar tók hann land og sendi menn sína að athuga með heimamenn, sem reyndust meinlausir en gáfu mönnunum lótus að éta. Lótusinn gerði þá svo værukæra að þá langaði ekki lengur að sigla heim. Ódysseifur dró þá aftur út í skip („svo nauðugt, að þeir grétu“) með hörðu og hreinlega batt þá við árarnar.
Joyce notar þessa sögu sem stökkpall að því að skrifa um vímu og það sem kalla mætti sjálflækningar – ópíum fólksins í víðustu skilgreiningu: lótusinn sem slævandi meðal við óförum hins mennska ævintýris. Og sendir sinn Ódysseif – Leopold Bloom – edrú af stað:
By lorries along sir John Rogerson’s quay Mr Bloom walked soberly, past Windmill lane, Leask’s the linseed crusher, the postal telegraph office.
Þýðing SAM – sem er að mestu leyti frábær, fyrir utan að vera þrekvirki – hefur þetta „rölti ráðsettur“ sem mér finnst alls ekki nógu gott. Það er kannski ekki auðvelt að þýða „soberly“ en það þyrfti samt að hafa vísun í að vera allsgáður – og rölti er allavega of kæruleysislegt. En þetta er auðvitað hálfóþýðanleg bók og þótt ég hnýti hér af og til í lausnir SAM þá er það úr óþægilega þægilegri stöðu manns sem þurfti ekki að gera þetta sjálfur, hefði aldrei getað það og aldrei einu sinni þorað.
Það fyrsta sem Bloom sér er reykjandi smástrákur með fötu af görnum (það er óljóst hvort hann er kyrr, t.d. að hreinsa garnirnar, eða hvort hann er að flytja þær eða hvað – en margir lesa í þetta eitthvað, af einhverjum orsökum, og fullyrða í allar áttir hvað hann hafi verið að gera). Bloom íhugar að segja honum að ef hann hætti ekki að reykja hætti hann að vaxa en ákveður að láta það vera – l´ífið sé víst nógu erfitt án þess að fullorðnir karlar séu nöldrandi yfir smámunum (les: leyf fólkinu að njóta sinna lótusblóma). Svo gengur hann áfram og fer framhjá The Belfast and Oriental Tea Company – sem hefur augljósar tengingar við lótusinn. Þá dagdreymir hann um te og ilmolíur og um ljúfa lífið í austrinu þar sem allt sé betra en heima í eymdinni.
Í kaflanum á undan fengum við að vita að Bloom væri með eitthvað í hattinum. Nú kemur hann á pósthús, tekur fram hlutinn – nafnspjald – réttir afgreiðslumanninum. Nafnið á nafnspjaldinu reynist vera dulnefni Blooms – Henry Flower. Henry fær greinilega ekki sín bréf heim einsog Leopold heldur á pósthúsið. Áður en Bloom er afhent bréfið óttast hann að hann hafi kannski gengið of langt í síðasta bréfi og það verði ekkert svar. En það reynast sem sagt óþarfa áhyggjur.
Hann stingur bréfinu á sig og áður en hann fer skoðar hann auglýsingaskilti frá hernum á veggnum. Bloom, sem selur auglýsingar, er alltaf að skoða auglýsingar og lesa texta (þetta er eitt af því sem ég tengi mest við – ég er meira að segja gjarn á að lesa upphátt á skilti þegar ég er á gangi, samferðamönnum mínum til undantekningalausrar ánægju og upplýsingar). Þar lýsir hann hermönnunum meðal annars svona: „Half-baked they look: hypnotised-like.“ Altso, þeir hafa greinilega komist í lótusinn.
Næst rekst Bloom á kunningja sinn, M’Coy að nafni. Sá kom meðal annars fyrir í smásögunni Grace í Dubliners þar sem hann fékk það hlutverk að reyna að fá Tom Kernan nokkurn til að hætta að drekka. Bloom virðist ekki mikið um hann gefið og það er sterklega gefið í skyn að hann sé þjófóttur (og steli skjalatöskum, hvað sem það á að þýða). M’Coy segist hafa rekist á tvo aðra menn sem við þekkjum líka úr Dubliners – Bob Doran, sem þar sængaði hjá konu og lét svo móður hennar neyða sig til að giftast henni og hefur síðan hrunið mjög hressilega í það einu sinni á ári og drekkt þannig sorgum sínum; og Bantam Lyons, sem birtist þar mest í framhjáhlaupi. Þetta er í sögunni The Boarding House. M’Coy færir Bloom þær fréttir að Bob Doran sé á rassgatinu. Hann blaðrar og blaðrar og á meðan er Bloom að reyna að girnast með glyrnunum óþekkta konu handan götunnar.
High brown boots with laces dangling. Well turned foot. […] He moved a little to the side of M’Coy’s talking head. Getting up in a minute.
„Getting up in a minute“ á auðvitað líka við Bloom og hans … ástríður, skulum við segja … en það á aðallega við að konan er að stíga upp í hestvagn (og þá missir hann sjónar á henni).
Svo spyr M’Coy hvað sé að frétta af Molly og þá fer Bloom (enn eina ferðina) að hugsa um auglýsingu – í þetta sinn slagorð:
What is home without
Plumtree’s Potted Meat?
Incomplete.
With it an abode of bliss.
Það þarf vonandi ekki mikið ímyndunarafl til þess að skilja hvað þetta dósakjöt á að fyrirstilla. Og einsog við vitum verður Molly innan skamms alsæl. Alsæluð. Og við vitum að það er ekki Bloom sem alsælar hana og er sennilega ekki einu sinni fær um það.
SAM þýðir slagorðið þannig að það sé „dugleg húsfreyja“ sem sé „stygg og stúrin“ án dósakjötsins – og sú þýðingaskekkja verður kannski til þess að vekja athygli mína á því sem þarna stendur aðeins nákvæmlegar: Það er ekki bara húsfreyjan heldur heimilið sem er ekki fullkomnað án „dósakjötsins“. Og á þessu heimili á Leopold líka heima og raunar Milly einnig – það er heimilisfriðurinn sem er í húfi, ekki bara nautn húsfreyjunnar. Og sennilega er það þess vegna sem Bloom gerir ekkert í því þótt hann viti að Molly eigi von á Blazes Boylan.
Bloom svarar M’Coy og segir að hún sé að fara í söngferðalag og M’Coy – sem greinilega veit allt, Dublin Joyce er slúðurtunna – spyr: „Who’s getting it up?“ Aftur er hér standpínulíking – og þetta „up“ er gegnumgangandi í bókinni uppfrá þessu, shorthand fyrir standpínu, a.m.k. í minni sóðalegu túlkun (Joyce er oft með góðar fjarvistarsannanir fyrir sínum dónaskap, þótt það sé alls ekki alltaf þannig) – en í bókstaflegri merkingu er M’Coy auðvitað bara að spyrja um skipuleggjandann. Sem vill til að er sami maður og væntanlegi elskhuginn, flagarabeinið hann Blazes Boylan.
M’Coy nefnir að konan hans sé líka söngkona og það er augljóst á hugsunum Blooms (eftir að M’Coy er farinn) að honum þykir sá samanburður ekki alveg eðlilegur – enda séu þær fullkomlega ósambærilegar konur og enn ósambærilegri söngkonur (Bloom-hjónunum í hag – Leopold metur sína konu mjög hátt og elskar hana heitt).
Loks ræða þeir jarðarför Dignams og M’Coy biður Bloom að láta skrá sig „á samúðarlistann“ („put down my name at the funeral“ er það í orginalnum – blaðamaðurinn Hynes tekur niður nöfn fyrir grein í blaðinu, þar sem þuldir eru upp viðstaddir). M’Coy segist ætla að reyna að koma en það er greinilegt að hann ætlar alls ekki að reyna.
Bloom gengur áfram. Sér auglýsingu (!) fyrir leikhús. Frú Bandman Palmer leikur Leu í kvöld en lék Hamlet í gærkvöldi.
Male impersonator? Perhaps he was a woman. Why Ophelia committed suicide?
Það er dálítið um kynskipti síðar í bókinni – en þetta er áhugaverðast fyrir þær sakir að seinna mun Stephen líka eiga í löngum samræðum um eðli Hamlets (sú kenning var að vísu viðruð stuttlega minnir mig í upphafsköflunum í Martello-turni). Sú kenning snýst eiginlega um að Hamlet sé afi sinn – og á meta-levelinu um það hver sé staðgengill Joyce í Ulysses. Og ef Hamlet getur verið kona þá geta aðrir í feðgatvennum Joyce líka verið það – Dedalus/Íkarus, Bloom/Rudy, Bloom/Stephen, Hamlet/kóngurinn, Ódysseifur/Telemakkos, Stephen/Simon og svo framvegis.
Upp úr þessu verður Bloom hugsað til pabba síns og það er ljóst að pabbi hans er dáinn og það hefur bæði verið voðalegt og „kannski var það honum fyrir bestu“.
Tvisvar á göngutúrnum fer Bloom að raula lögin sem hann veit að Molly er að fara að syngja – flagarasönginn úr Don Giovanni og Love’s Old Sweet Song. Þannig – og á fleiri vegu – sjáum við að ástarfundur hennar með Blazes Boylan er honum alltaf ofarlega í huga án þess að hann hafi beint orð á honum.
Bloom stoppar afsíðis við lestarstöðina og dregur upp bréfið til Henry Flower. Það reynist frá konu sem kallast Martha Gifford (sem er kannski ekki áreiðanlegra nafn en Henry Flower – hún svaraði víst upprunalega kalli eftir ritara í smáauglýsingu). Martha segist mjög reið og sér þyki leitt að honum hafi ekki líkað síðasta bréf frá henni. Svo talar hún um að refsa honum, kallar hann „naughty boy“, spyr hvenær þau geti hist, biður um lengra bréf (og endurtekur að hún muni refsa honum ef hann hlýði ekki). Í ps.inu biður hún hann að segja sér hvers konar ilmvatn konan hans noti.
Sennilega er þetta eini staðurinn í kaflanum þar sem segja má að Bloom ölvist. Martha er hans lótus – eða kannski perversjónin sem slík, að gera það sem er bannað. Við sjáum það auðvitað ekki utanfrá, af því við erum í hausnum á Bloom, en það má gera sér það í hugarlund útfrá textanum (það var blóm fast við bréfið, hann heitir Bloom, kallar sig Flower, svo er l´ótusinn auðvitað blóm):
Angry tulips with you darling manflower punish your cactus if you don’t please poor forgetmenow how I long violets to dear roses when we soon anemone meet all naughty nightstalk wife Martha’s perfume.
Hins vegar íhugar hann hvort hann eigi að hitta hana og ákveður að gera það ekki. „Thank you: not having any.“ Heilindi Blooms eru lykilatriði í persónuleika hans – hann vill gjarnan stíga á ´línuna en aldrei yfir hana.
Í kjölfarið rifjar hann upp dónavísu um tvær drósir sem týndu títuprjóni úr nærbuxunum sínum og gátu ekki haldið þeim uppi („keep it up“). Aftur, þetta up, en nú líka tengt vergirni kvenna.
Næst hugsar hann aðeins um kapítalismann og ekki síst gróðann af ölgerð. Þá sér hann auglýsta messu hjá séra John Conmee og ráfar þar inn. Séra Conmee var raunverulegur maður og birtist undir sínu eigin nafni bæði hér og í A Portrait of the Artist as a Young Man – Stephen leitar til hans eftir að séra Dolan hýðir hann (og fer frá honum sáttur við að séra Dolan verði áminntur). Nema hvað. Bloom hlýðir á messuna, veltir fyrir sér guðdómnum – sem reynist vera enn einn lótusinn (nema hvað). Ekki bara messuvínið (sem hann segir „aristókratískara“ en hefðbundnari drykkir, svo sem Guinnes) heldur líka skriftirnar og allt hitt:
Confession. Everyone wants to. Then I will tell you all. Penance. Punish me, please. Great weapon in their hand.
Eftir messuna þarf hann að drífa sig. Hann hefur lofað að láta útbúa smyrsli fyrir Molly og fer í apótek – þar er allt fullt af lótus, auðvitað, lyfjum og jurtum og allra handa smyrslum. Bloom reynist ekki muna uppskriftina að smyrslinu en reynir að rifja hana upp og kemur einhverju upp úr sér. Hann er ekki með flösku undir smyrslið en ætlar að koma aftur síðar – hann gleymir því þegar þar að kemur – tekur með sér sápu líka og lyfsalinn segir best að hann borgi bara bæði þegar hann komi til að sækja smyrslið. Lótusinn veldur vel að merkja gleymsku hjá Hómer – smyrslið (sem tengist kannski ilmvatninu sem Martha spurði út í – er allavega vellyktandi) hverfur ofan í óminnishegrann.
Fyrir utan rekst hann á Bantam Lyons. Sá fær lánað dagblað sem Bloom er búinn að vera með í höndunum frá því hann fór að heiman. Bantam vill skoða veðhlaupasíðuna og athuga með eitthvað franskt hross. Bloom svarar að hann hafi ætlað að henda blaðinu – „throw it away“ – Bantam hváir hressilega – og Bloom endurtekur að hann hafi ætlað að henda því. „Ég tek áhættuna“ segir Bantam og rýkur í burtu. (Síðar kemur í ljós að það er hross sem heitir Throwaway í keppninni – og Bantam heldur að Bloom hafi verið að gefa honum heitt tipp um hver vinni veðhlaupin – sem eru enn annar lótusinn – og koma ítrekað upp í bókinni).
Bloom dregur engan með sér aftur út á sjó, bindur engan við árarnar og enginn fer að gráta. Allir halda bara áfram að taka sinn lótus og slævast. Hann ákveður hins vegar að fara í tyrkneska baðhúsið og þrífa sig fyrir jarðarförina og kaflinn endar á þessum sjálfsástarorðum, þar sem hann sér sjálfan sig fyrir sér í baðinu (sem er kannski einhvers konar brottsiglingarlíking):
He saw his trunk and limbs riprippled over and sustained, buoyed lightly upward, lemon-yellow: his navel, bud of flesh: and saw the dark tangled curls of his bush floating, floating hair of the stream around the limp father of thousands, a languid floating flower.
* * *
Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar.
Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.