Með bláa lambhúshettu

Að gefa út ljóðabók og bíða eftir viðbragði er einsog að sleppa grjóti ofan í brunn og bíða eftir skvampi, bergmáli, myrkrinu sjálfu. Óratorrek fékk á sínum tíma ekki umfjöllun fyrren það var búið að þýða hana á sænsku.

Annars á ég líka smásögu í nýjasta TMM. Það er enn lengra síðan ég hef gefið út smásögu en síðan ég gaf út ljóðabók. Talið í áratugum, ekki árum.

Kannski segir það eitthvað um ástandið á mér. Ég sagði upp áskriftinni minni að Snöru og veit því ekki hvernig maður segir regression á móðurmálinu. Ég geng í barndóm. Slít fullorðinsskónum. Stíg aftur í gömul fljót. Klappandi með annarri.

Annars er ég alltíeinu að vinna að þremur verkefnum eftir að hafa verið villuráfandi um skeið.

Í bænum er að bresta á með Fossavatnsgöngu. Mjög mikið af skrítnum íþróttatýpum á ferli. Ég held að svona gönguskíðafólk sé miklu furðulegra en listamenn. Að minnsta kosti álengdar. Í gær birtust öldruð hjón í líkamsræktarstöðinni og gengu milli tækja horfandi á allt og alla. Hann var með bláa lambhúshettu – inni. Lét hökuna standa út. Og í morgun sá ég mann um sextugt sem hoppaði til skiptis á hvorum fæti – fimm hopp á einum, fimm hopp á hinum – niður alla götuna. Sjálfsagt verið að hita sig upp. En gangan er ekki fyrren á laugardag. Þá verður hann orðinn sjóðheitur.

Sjálfur fór ég út að hlaupa og meiddi mig í hásininni. Ekki mikið en nóg til þess að taka því allavega rólega fram yfir helgi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *