Það eru komnir páskar. Skírdagur. Þá er hefð fyrir því að láta mannkynsfrelsarana skrúbba á manni fæturna áður en maður svíkur þá í hendur auðvaldinu.
Ætli Jesús sé ekki annars með betri týpum? Svona ef maður ætlar að fara að leyfa sér að gera upp á milli góða fólksins þá held ég að ég kunni best við hann. Sennilega mest vegna þess að hann útdeildi dómhörku sinni fyrst og fremst til valdsmanna en bað almúgann að vera ekki að gr´ýta steinum innbyrðis – nema að vera handvissir um eigið syndleysi, sagði hann, sem er trikk question því það er enginn syndlaus og sá sem heldur að hann sé það er augljóslega fyrst og fremst sósíópati. En líka af því hann átti sjálfur misgóða daga. Hreytti jafnvel ónotum í fólk. Honum til afsökunar þá átti hann mjög erfiðan föður. En fyrst og fremst þetta með fyrirgefninguna. Við lifum á tímum þar sem valdið á mjög auðvelt með að etja smælingjunum saman og telja þeim trú um að hagsmunir þeirra séu ósamræmanlegir – incels séu frá mars en wokesters frá venus. Allir eru syndlausir og allir grýta steinum og allir eru sannfærðir um að ef þeir hættu að grýta steinum muni siðmenningin „einsog við þekkjum hana“ líða undir lok – síðasta vígið sé grjótkast smælingja. Þar sem ég sit og skrifa þetta á ég meira að segja bágt með að trúa því ekki sjálfur. Bágt með að rifja það upp að málsvörum incel/white trash/íhaldsins á valdastólum er drullusama um skjólstæðinga sína. Að þetta snýst ekki um að stoppa fjölbreytileikann. Snýst ekki um „the woke mind virus“. Snýst ekki einu sinni um frjálslyndið. Þetta snýst um peninga og völd. Óreiðan er bara verkfæri til þess að sölsa undir sig peninga og völd. Ef það borgaði sig að styðja transfólk og málfrelsi og jafnrétti til náms myndu þeir allir snúa við á punktinum. En það borgar sig fyrir þá að kynda bálið og því skíðlogar.
Annars er orðið langt síðan ég las guðspjöllin í gegn. Styttra síðan ég sá Jesus Christ Superstar. Eða las Passíusálmana (og eru þó sjálfsagt að verða 20 ár síðan ég gerði það). Ég held að þar sé ekkert um syndlaust fólk og grjótkast. Jesús veltir þar borðum víxlaranna – en ekki man ég til þess að sá Jesus hafi velt við „stólum dúfnasalanna“. Kannski eru dúfnasalar ekki lengur jafn umdeildir.
Ég ætti að rifja þetta allt upp í tilefni af páskum. Það verður þó kannski ekki mikið af því – ég er að spila með Gosa á Aldrei fór ég suður annað kvöld og svo er bara lífið svo sósíalt á páskum á Ísafirði. Enginn tími fyrir guðdóminn eða fyrirgefninguna. Bara tími fyrir stuð.