Stundum hvarflar að manni að valdið í heiminum – eða á Íslandi, Reykjavík, Ísafirði, í húsfélögum, stökum fjölskyldum – sé valdið vegna þess að það kann að skipuleggja sig. Og það segir sig eiginlega sjálft að skipulag virkar best með valdi – það er hægt að ræða hvert eigi að keyra bílnum en ef allir ætla að keyra hann í einu er ekki líklegt að vel fari. En svo ég haldi þessari vafasömu líkingu til streitu þá vill sá sem heldur í stýrið oft bara ráða þessu sjálfur (oft var það þannig sem hann valdist til að stýra í upphafi). Og ráða meiru. Keyra fleiri bíla á fleiri vegum. Fljúga bílunum til stjarnanna. Alveg sama þótt farþegana vanti bara að komast í skólann. Eða til læknis. Bíllinn skal til Mars. Það er framtíðin, segir metnaðarfullur bílstjórinn. Og þá verður að gera byltingu. Sameinast í aftursætinu og skjóta bílstjórann. En bíllinn er á fullri ferð til Mars og nú erum við þrjú í aftursætinu að kljást við fjórða mann í farþegasætinu fram í – allir með eina hönd á stýrinu og aðra upp á móti hinum – rúðan er sprungin, allt í blóði alls staðar, við reynum að snúa við, komast í skólann og til læknis, helst bæði í einu, á meðan bíllinn brennur upp á leiðinni inn í lofthjúpinn aftur.
Er þetta góður tími til að vera sósíalisti? Það er allavega umbreytingarskeið. Ef mann langaði að verða sósíalistaleiðtogi væri kannski ráð að grípa til aðgerða núna. Fylgið vantar heimili. VG er í molum. Sósíalistaflokkurinn varla nema mylsna. Héðan af væri sennilega mestur missir af Samstöðinni – hún er mikill afbragðsfjölmiðill, ekki síst þessi löngu og ítarlegu viðtöl við alls konar fólk, og væri synd ef hún breyttist í málfundafélag skinhelgra sósíalista eða eitthvað þaðan af verra. Ég er ekki sannfærður um að VG eigi eftir neina upprisu – þótt það sé ekki útilokað – en yrði enn meira hissa ef Sósíalistaflokkurinn nær sér eftir þetta epíska rugl síðustu vikna, og skiptir þá litlu hver „vinnur“ þessar húsfélagsþrætur núna.
***
Sumarfríið er að verða búið. Við Aram höldum heim á föstudag. Ég er varla nema rétt rúmlega hálfnaður með sumarfrísbókina – 500 síður búnar af Books of Jacob en 500 enn eftir. Keypti að vísu líka Ulysses þýðingu Eriks Andersson, sem ég hef heyrt mjög vel af látið, og byrjaði að glugga í Násikukaflann, sem er næstur á dagskrá, og endaði á að klára hann bara. Var bara furðu þjált. Sinni þessu betur í næstu viku. Nema það verði mjög gott málningarveður – þá fer kannski allur frítíminn í það. Svo ætlaði ég reyndar að lesa líka eitthvað á dönsku til að hreyfa við dönskuhluta heilans í mér áður en ég hitti nokkra danska menningartúrista á Ísafirði – annars tala ég bara sænsku. Og ég á víst enn 500 síður eftir af Tokarczuk. Og er að æfa fyrir maraþon. Heima bíður mín kontrabassi sem vill að ég spili á sig. Það er enginn tími, verður enginn tími, en það verður gaman.