Þannig var það – Jon Fosse – 10. júlí, 2025

Ég ætlaði að fara að skrifa að það væri ekki á hverju ári sem íslensk leikhús sviðsettu leikverk nóbelsverðlaunaskálda en svo mundi ég að það var áreiðanlega bara í fyrra sem ég sá Hassið hennar mömmu eftir Dario Fo á Flateyri. Og í gærkvöldi fór ég í Haukadal og sá Þannig var það eftir Jon Fosse. Svo kannski er þetta bara árlegt fyrirbrigði.

Nei, sló þessu upp. Það var í hittifyrra. Verk nóbelsleikskálda eru sett upp annað hvert ár. Á Vestfjörðum – ekki veit ég hvernig þessu er háttað í öðrum landsfjórðungum. Mér er sagt að þar sé allt miklu verra en hér en ég reyni að kanna það helst aldrei.

Sá er þó munurinn á þessum tveimur uppsetningum að Elfar Logi er að frumsýna verkið á Íslandi, sem kom út á bók hjá Espolín útgáfunni í þýðingu Kristrúnar Guðmundsdóttur 2019, en Dario Fo var þýddur fyrir löngu og var held ég á tímabili mjög vinsæll, ekki síst hjá áhugaleikhúsum einsog því á Flateyri. Hassið hennar mömmu hefur margsinnis verið sviðsett. Annar munur er jú að Kómedíuleikhúsið er atvinnuleikhús.

Annars hefur Dimma verið ötul í útgáfu verka Fosse síðustu ár og þá held ég alltaf í þýðingu Hjalta Rögnvaldssonar. Það er líka merkilegt í því samhengi að flestar þessar bækur komu út áður en Fosse hlaut Nóbelsverðlaunin – útgáfan er sem sagt ekki afleiðing af þeim. Ég hef aðeins litið í þær en ekki alveg náð sambandi – sem segir áreiðanlega jafn mikið um mig og þær.

Hvað um það. Þannig var það er stutt verk sem fjallar um gamlan listmálara sem býr einn en á bágt með að sjá um sig sjálfur. Þegar verkið hefst liggur hann í rúminu og á leiktímanum tekst honum að setjast upp, skrönglast upp á staf, færa sig yfir í göngugrind, þaðan í hjólastól og enda svo á gólfinu eftir að hafa reynt að leggjast aftur, úrvinda eftir hamaganginn. Hann veltir fyrir sér merkingu lífs síns og ber sig illa – hann þolir ekki konuna sem kemur til að líta til með honum, en hún er samt greinilega eini félagsskapurinn sem hann nýtur, því börnin hans nenna honum ekki og konurnar hans þrjár gáfust allar upp á honum – að sögn af því hann gaf sig allan málverkinu, var hvergi til annars staðar. Hann er trúaður en hefur meira að segja gefist upp á að fara með faðirvorið – það sé tilgangslaust, einsog allt annað.

Textinn er endurtekningasamur og sveiflast milli röfls og galdraþulu, ljóðs og heimspeki – hann er ekki beinlínis á leiðinni neitt og þótt myndin af manninum skýrist smám saman þá fáum við aldrei neinar greinargóðar útskýringar ´á því hvernig er fyrir honum komið. Kannski er þetta í aðra röndina verk bara um það hvernig „hlutirnir geta farið“ – án þess þó að höfundur, eða raunar sögupersóna, reyni að bera neitt blak af sér eða hafna eigin sök. Hann er hundfúll yfir aðstæðum sínum – að vera einn, að deyja einn, dáður út í bæ en fyrirlitinn heima, af sjálfum sér og öðrum – en fljótur að koma auga á hvernig hann kom sér í þær – þótt það sé auðvitað gott að vera vitur eftirá. Og svo bara syngur hann eða þylur eða röflar eða ljóðar og fyrtist og bölvar eða hvað það er sem hann er að gera.

Uppfærsla Kómedíuleikhússins er stórkostleg. Leikmyndin er einföld – rúmið og göngugrindin og stafurinn og hjólastóllinn á litlu sviði leikhússins í Haukadal (sem gefur sýningunni alveg áreiðanlega aukinn kraft – þetta er göldrótt hús). Stutt fiðlustef Unnar Birnu Björnsdóttur, falleg og passlega sársaukafull, styrktu tilfinningar verksins án þess að bæta við þær upphrópunarmerki, einsog oft vill annars verða raunin. Náttföt listamannsins voru við það að gera sjóveikan – niðri var einsog þau væru vitlaust hneppt en uppi rétt, sennilega voru þau bara hönnuð skökk – skemmtilegur og metafórískur díteill.

En mestu munaði um Elfar Loga sem átti stórleik –  svona verk stendur og fellur með (ein)leikaranum á sviði – hann sveiflaðist inn og út úr harmi og húmor, beiskju og hlýju í einhverjum galdri sem gerði það að verkum, sem ég hef annars varla upplifað í leikhúsi áður, að í stað þess að áhorfendur væru alltaf í „sömu“ tilfinningunni, hlæjandi saman og grátandi saman, voru þeir augljóslega oft hlæjandi og grátandi á víxl að sömu senunum. Eina mínútuna hló ég að geiflandi beiskju gamalmennisins meðan maðurinn fyrir framan mig tók andköf af meðlíðan, en þá næstu tók ég andköf meðan hann hló. Það var einsog hvert augnablik hefði jafnsterka kómíska og tragíska vídd og tilviljun ein réði því hvorumegin maður lenti (og fékk mig til að hugsa um söguna um að Chekhov hefði gengið út af frumsýningu Kirsuberjagarðsins, sem hann skrifaði sem kómedíu, en leikhópurinn ákvað að sviðsetja sem tragedíu, eftir að hafa farið að hágrenja við fyrsta leiklestur – það er ekki alltaf langt þarna á milli og stundum er þetta bara sami bletturinn).

Kómedíuleikhúsið, sem á tvö ár í þrítugt, hefur vaxið mikið á síðustu árum – ekki síst með uppsetningunni á Ariasman og nú Fosse. Það er í sjálfu sér kraftaverk að reka svona „fyrirtæki“ – atvinnuleikhús í Haukadal, með kannski 20 sæti – og væri það áfram þótt sýningarnar væru ekki í þokkabót jafn listrænt metnaðarfullar og verið hefur upp á síðkastið. Að ég segi nú ekkert um hliðarbarnið Act Alone. Ég tek hatt minn ofan.

Ég reiknaði fyrirfram með því að verkið myndi skila sér til Reykjavíkur fyrir rest – en það stendur víst á heimasíðu leikhússins að það verði bara sýnt í Haukadal í sumar. Ég ímynda mér að það sé eitthvert leyfisspursmál. Það eru þrjár sýningar eftir – 17. 24. og 31. júlí. Ég myndi ekki missa af þeim.

***

Þannig var það – Kómedíuleikhúsið

Leikari: Elfar Logi Hannesson
Höfundur: Jon Fosse
Þýðing: Kristrún Guðmundsdóttir
Tónlist: Unnur Birna Björnsdóttir
Búningar: Þ. Sunnefa Elfarsdóttir
Ljósameistari: Siguvald Ívar Helgason
Leikmynd og leikstjórn: Marsibil G. Kristjánsdóttir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *