Ég er enn í hægagangi. Hugsanlega var ég bara lasinn í dag. Aram Nói fór í morgun – hann ætlar að vera eitt ár í Svíþjóð, fyrsta árið í menntaskóla. Ég er ekki frá því maður verði lasinn af því að missa son sinn að heiman. Ég þurfti allavega að fá mér langan lúr eftir hádegið. Einsog tappinn hefði verið tekinn úr mér. Þetta heitir víst að verða fyrir geðvefrænum áhrifum. Ég segi síkósómatískt áfall en það er talmál og þetta er ritmiðill og því heitir það geðvefræn áhrif.
Helgin var á hlaupum. Act Alone á Suðureyri en ég þurfti að spila – með ánægju, þetta „þurfti“ er ekki alveg heiðarlegt, þetta var ekki herskylda – í djassbandi í fertugsafmæli Lísbetar vinkonu minnar. Ég náði fimmtudeginum á Actinu – þar sem Bernd Ogrodnik kom m.a. fram og var hreint ótrúlegur – æfði með djassbandinu allt föstudagskvöldið og renndi svo yfir í skáldastund með Óskari Árna á laugardeginum en þurfti að fara snemma til að verða ekki seinn á giggið sem stóð með hléum frá 18 til 23.
Ég get með góðri samvisku sagt að ég hafi kunnað annað hvert lag. Þriðja hvert mátti svo svinga en fjórða hvert fór út í skurð – en þá voru færari menn en ég í þessu bandi sem héldu lögunum á floti. Og svo var þetta afmæli og fólk að syngja mest fyrir gamanið – eiginlega var það bakgrunnsmúsíkin sem var mest æfð og sem rann ljúfast. Visa från Utanmyra, Blue Bossa, Fly me to the moon, Norðurljósablús og fleira þesslegt. Ég þarf að bæta svolítið lagalistann hjá mér, læra fleiri lög og æfa mig í að lesa s.k. lead sheet – ég spjara mig alltaf nokkra takta en villist svo gjarnan, stundum af því ég kann ekki fingrum mínum forráð og vil spila flóknari hluti en ég ræð við.
Úr fertugsafmælinu fórum við hjónin á tónleika hjá Aram Nóa og Axel vini hans – sem kalla sig Ulla. Það var í Tjöruhúsinu, hart rokk – trommur og bassi, þeir skiptust á að syngja en fengu líka gestasöngvara. Og ferfalt uppklapp. Enduðu á hópsöng í Gúanóstelpunni, sem var viðeigandi af því Mugison og Rúna – sem sömdu lagið með Ragnari Kjartanssyni, og áttu heima í næsta húsi þar til fyrir skemmstu, voru að gifta sig þetta sama kvöld.
Á sunnudeginum var kveðjukvöldverður fyrir Aram. Í gær var slakað á en í kvöld fórum við Aino á nýjan farsa sem Ísleikhúsið setti upp í Edinborgarhúsinu – „Til hamingju, þú varst að eignast Ísfirðing“. Það var stórskemmtilegt. Á morgun ætlum við að horfa á fyrstu Hungurleikamyndina – Aino er að klára að lesa þriðju bókina og hefur beðið í ofvæni eftir að fá að horfa á myndirnar. Á fimmtudag ætla ég á ADHD – en Ásta vinkona mín er líka með spilunarpartí, einhvers konar hjólaferð um bæinn sem endar með diskói bakvið slökkvistöðina, og svo er uppistand í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal. En ég ætla að skrópa á því báðu og fara á ADHD af því maður getur ekki gert allt og verður að velja. Á föstudag fer ég að hjálpa vini mínum að tyrfa eftir vinnu og fram á kvöld, vænti ég. Veit ekki með laugardag – allavega kvöldið, ég ætla í 26 km langhlaup yfir daginn – en á sunnudag ætla ég á Ástin sem eftir er, nýju myndina hans Hlyns Pálmasonar.
Annars þarf ég að finna einhvern tíma fljótlega til að kjarna mig, einsog þeir segja í sjálfshjálparbókunum. Áður en ég leysist upp.